Dómur um raunveruleikareglu skattaréttar

Í dag var kveðinn upp dómur á sviði skattaréttar, þar sem svonefnd raunveruleikaregla í 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt kom við sögu. Málið átti rót sína að rekja til ársins 2005 þegar seldir voru allir hlutir í óskráðu einkahlutafélagi, F, og félagið sagt eiga bæði skip, aflaheimildir og veiðarfæri, sem þá voru í eigu I hf. Salan fór fram í lok maí 2005. Það var fyrst í september það ár, sem I hf. var skipt og fiskiskipið, veiðiheimildirnar og veiðarfærin látin ganga til F ehf., allir hlutir í því félagi höfðu sem segir verið seldir fjórum mánuðum áður og þar með framangreind verðmæti. Hluthafar í F ehf., sem voru hinir sömu og í I hf. og í sömu hlutföllum, greiddu fjármagnstekjuskatt á gjaldárinu 2006 af söluhagnaðinum sem þau fengu við viðskiptin 2005. Skattyfirvöld töldu að í raun hefði verið um að ræða sölu verðmætanna frá I hf. til kaupendanna og því ætti I hf. að bera tekjuskatt af söluhagnaði eignanna. Var það staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015. Var sú niðurstaða einkum reist á svonefndri raunveruleikareglu í 57. gr. laga nr. 90/2003. Hluthafarnir sem áður höfðu greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaði þeim sem þau höfðu af sölunni töldu að í ljósi framangreindrar niðurstöðu ætti að endurgreiða þeim greiddan fjármagnstekjuskatt þar sem hann hefði verið ofgreiddur í ljósi þess að I hf. hefði verið gert að greiða tekjuskatt af söluhagnaðinum. Úr þessu var skorið í dómi Hæstaréttar, sem upp var kveðinn í dag í máli nr. 72/2017. Þar var kröfu hluthafanna hafnað. Var sú niðurstaða einkum reist á því að þeir hefðu fengið fjármunina til frjálsrar ráðstöfunar og yrði að líta á söluhagnað þeirra sem  tekjur af hlutareign þeirra í I hf. í samræmi við 11. gr. laga nr. 90/2003 sem væru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.