Heimsókn til Hæstaréttar Noregs

Sendinefnd fimm dómara frá Hæstarétti Íslands ásamt skrifstofustjóra réttarins og einum aðstoðarmanni heimsótti Hæstarétt Noregs í síðustu viku og var tilgangur ferðarinnar að kynna sér verklag norska hæstaréttarins við veitingu áfrýjunarleyfa. Ferðin til Noregs er liður í undirbúningi Hæstaréttar Íslands við að móta nýtt verklag réttarins við veitingu áfrýjunarleyfa í tengslum við þær breytingar sem verða á íslenskri dómstólaskipan um næstu áramót. Þá tekur Landsréttur við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll en Hæstiréttur fær það megin hlutverk að dæma í veigamiklum og fordæmisgefandi málum á grundvelli áfrýjunar- og kæruleyfa sem rétturinn veitir. Á fundinum með fulltrúum Hæstaréttar Noregs var auk verklags við veitingu áfrýjunarleyfa rætt um málsmeðferðarreglur, málafjölda og málsmeðferðartíma. Þar kom meðal annars fram að á árinu 2016 bárust Hæstarétti Noregs 829 beiðnir um áfrýjunarleyfi og voru 102 áfrýjunarleyfi veitt eða sem nemur 11,8% og er það svipað hlutfall og verið hefur frá árinu 2013. Til samanburðar má geta þess að á árinu 2016 var 869 málum skotið til Hæstaréttar Íslands með áfrýjun eða kæru og var fjöldi afgreiddra mála á því ári 762 mál sem er næstum sami fjöldi dæmdra mála og árin 2013, 2014 og 2015. Meðfylgjandi myndir voru teknar í heimsókninni.