Forseti EFTA-dómstólsins heimsækir Hæstarétt

Dr. jur. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins í Luxemborg, heimsækir Ísland dagana 8. til 14. október 2017. Meðan á heimsókninni stendur á Baudenbacher fundi með forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra um málefni EFTA-dómstólsins og sækir heim Hæstarétt og Héraðsdóm Reykjavíkur. Miðvikudaginn 11. október nk. heldur Baudenbacher erindi í hátíðarsal Háskóla Íslands á vegum lagadeildar HÍ, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands um það sem hann nefnir Framlag Íslendinga til starfsemi EFTA-dómstólsins. Fundurinn hefst kl. 15 og er öllum opinn.

Í gær heimsótti Carl Baudenbacher og kona hans Doris Baudenbacher Hæstarétt og var meðfylgjandi mynd þá tekin. Á fundi Baudenbachers með dómurum Hæstaréttar var meðal annars rætt um samskipti EFTA-dómstólsins og landsdómstóla EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að EES-samningnum. Í máli  Baudenbachers kom fram að hann hefði, þegar hann var kosinn forseti EFTA-dómstólsins, einsett sér að heimsækja og eiga opin skoðanaskipti við eins marga landsdómstóla aðildarríkjanna og kostur væri. Þetta væri í fimmta skiptið sem hann heimsækti Hæstarétt Íslands en hann hefði einnig í fyrri ferðum sínum til Íslands heimsótt Héraðsdóm Reykjavíkur, Héraðsdóm Reykjaness, Héraðsdóm Vesturlands, Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Suðurlands.