Print

Mál nr. 562/2017

Lögreglustjórinn á Austurlandi (Helgi Jensson fulltrúi)
gegn
X (Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun
Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 4. september 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 24. ágúst 2017 um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Stefáns Þórs Eyjólfssonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 4. september 2017

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur, með beiðni sem dagsett er og barst héraðsdómi 25. ágúst 2017, krafist þess að Héraðsdómur Austurlands staðfesti þá ákvörðun embættisins að X, [...] skuli sæta nálgunarbanni í fjóra mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...], á svæði sem afmarkast við 10 metra frá lóðarmörkum [...]. Jafnframt sé lagt bann við því að varnaraðili komi nær A en 10 metra og jafnframt lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti. Krafan er sett fram með vísan til 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Varnaraðili krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað og að ákvörðun um nálgunarbann verði felld úr gildi. Skipaður verjandi varnaraðila og skipaður réttargæslumaður brotaþola krefjast hæfilegrar þóknunar vegna starfa sinna úr ríkissjóði.

Málið var þingfest 28. ágúst sl. Þann dag sótti varnaraðili ekki þing en verjandi hans upplýsti að kröfunni væri mótmælt. Dómari féllst á ósk verjanda um að fresta málinu til 1. september sl. Þann dag mætti varnaraðili og lýsti afstöðu sinni til kröfunnar. Að sameiginlegri ósk aðila var tekin skýrsla af einu vitni og var málið að því búnu tekið til úrskurðar, eftir að verjandi og fulltrúi lögreglustjóra höfðu tjáð sig um kröfuna.

Í beiðni lögreglustjóra kemur fram að lögreglu hafi borist beiðni lögmanns foreldra brotaþola (nú réttargæslumanns brotaþola) um nálgunarbann á hendur varnaraðila og eiginkonu hans þann 23. ágúst 2017, á grundvelli a. og b. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011. Fallist hafi verið á beiðnina hvað varnaraðila snertir 24. ágúst sl., en beiðninni hafi verið hafnað hvað eiginkonu varnaraðila varðar. Um lagarök fyrir ákvörðun um nálgunarbann er vísað til 4. gr., sbr. 7. gr.,  og 12. gr. laga nr. 85/2011. Að öðru leyti er í beiðni lögreglustjóra vísað til röksemda sem fram koma í ákvörðun embættisins um nálgunarbann.

Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að í beiðni réttargæslumanns brotaþola segi að beiðni um nálgunarbann sé lögð fram vegna þess að varnaraðili hafi ítrekað veist að brotaþola, sem sé nýlega orðinn 13 ára gamall, ýtt við honum, varnað honum vegar og ógnað honum. Fjöldamörg tilvik hafi verið tilkynnt til lögreglu. Síðasta tilvikið hafi átt sér stað 12. ágúst sl. og það þrátt fyrir að lögreglan hafi rætt við varnaraðila daginn áður og farið fram á það við hann að hann léti brotaþola í friði. Um sé að ræða fullorðinn mann sem veitist að barni og því sé sérstök og brýn ástæða til þess að bregðast við með nálgunarbanni. Aðstæður og líðan brotaþola sé óviðunandi og treysti hann sér ekki til þess að mæta til skóla nú í haust, vegna þess að varnaraðili eigi oft leið þangað og hafi m.a. veist að brotaþola þar.

Í ákvörðun lögreglustjóra er lýst 11 tilvikum sem getið sé í málaskrárkerfi lögreglu vegna samskipta varnaraðila við brotaþola frá árinu 2015 fram til 12. ágúst á þessu ári. Hinn 11. ágúst sl. hafi varnaraðili gefið skýrslu hjá lögreglu [...] vegna fyrstu 10 tilvikanna og hafi hann staðfest lýsingar margra þeirra að miklu leyti. Varnaraðili hafi verið hvattur til þess að láta af afskiptum sínum af brotaþola og honum gerð grein fyrir því að ef þetta héldi áfram gæti það þýtt að lögreglan yrði að bregðast við því með einhverjum hætti.

Strax daginn eftir, 12. ágúst sl., kl. 15:17 hafi eiginkona varnaraðila hringt í lögreglu og tilkynnt að afi brotaþola hefði ekið á varnaraðila þar sem hann var á reiðhjóli. Um klukkustund síðar hafi nafngreindur maður haft samband við lögreglu og sagst hafa séð fullorðinn mann á reiðhjóli hjóla á eftir dreng á [...] í um 200 metra fjarlægð. Hefði drengurinn verið að reyna að hlaupa undan manninum, en maðurinn hafi þá hjólað fyrir drenginn og neytt hann í tvígang til að stöðva. Hafi maðurinn greinilega verið að hræða drenginn. Vitnið hafi sagst vera nýflutt á [...], en hafa frétt að maðurinn á reiðhjólinu hefði lagt drenginn í einelti. Vitnið hafi sagst ekki þekkja til mála og ekki vilja blanda sér í einhverjar deilur, en sér hafi blöskrað framkoma mannsins gagnvart drengnum. Hafi vitnið sagst reiðubúið að greina lögreglu nánar frá atvikum ef þess yrði óskað.

Lögreglustjóri kveður að þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að brotaþola stafi ógn af varnaraðila og að ljóst þyki að varnaraðili virðist ekki ætla að láta af háttsemi sinni þrátt fyrir áskoranir lögreglunnar. Í ljósi framangreinds, og einnig vegna þess að um sé að ræða samskipti fullorðins manns við barn, telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsiverð brot eða raskað friði brotaþola í skilningi ákvæðisins og að hætta sé á að hann muni fremja refsiverð brot eða raska friði hans, njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Með vísan til alls þessa sé sú ákvörðun tekin að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni í 4 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola að [...], á svæði sem afmarkist við 10 metra frá lóðarmörkum [...]. Jafnframt sé lagt bann við því að varnaraðili komi nær brotaþola en 10 metra og jafnframt lagt bann við því að hann veiti brotaþola eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Í ákvörðuninni segir að hún taki gildi við birtingu hennar samkvæmt 9. gr. laga nr. 85/2011. Mun ákvörðunin hafa verið birt fyrir varnaraðila 24. ágúst sl. kl. 15.42.

Niðurstaða:

Við meðferð málsins fyrir dómi féllst dómari á sameiginlega ósk aðila um að skýrsla yrði tekin af einu vitni, B, [...]. Vitnið staðfesti að brotaþoli hafi ekki sótt skóla fyrstu dagana í haust vegna málsins, en eftir að  lögregla lagði á nálgunarbann hafi hann mætt í skólann og virst líða vel.

Vegna athugasemda verjanda við að málið hafi ekki verið lagt í réttan farveg, enda sé um barnaverndarmál að ræða fremur en lögreglumál, skal tekið fram að engir annmarkar eru á málinu sem valdið geta frávísun beiðni lögreglustjóra án kröfu.

Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn máls lögreglustjórans á Austurlandi nr. [...]. Samkvæmt þeim hóf lögregla formlega rannsókn í ágústmánuði sl. á ætluðum brotum varnaraðila gegn brotaþola í 10 tilvikum, sem rakin eru aftur til ársins 2015, en fyrsta tilkynning foreldra brotaþola barst þó ekki lögreglu fyrr en 25. apríl 2016. Tók lögregla skýrslu af varnaraðila sem sakborningi 11. ágúst sl. og var honum kynnt að ætluð brot hans væru talin geta varðað við 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Rannsókn málsins virðist á frumstigi og ekki hafa enn sem komið er verið teknar neinar skýrslur af vitnum.

Fyrsta tilvikið sem ákvörðun lögreglustjóra er byggð á mun hafa átt sér stað á ótilgreindum tíma árið 2015. Samkvæmt framburði varnaraðila hjá lögreglu sakaði hann brotaþola um eignaspjöll og síðan lygar, er drengurinn viðurkenndi ekki verknaðinn. Að sögn varnaraðila varð brotaþoli „brjálaður“ og kom til átaka þeirra á milli. Viðurkennir varnaraðili að hafa reynt að varna því að drengurinn færi á brott og óvart slegið hann með flötum lófa er drengurinn reyndi að bíta hann. Kannast varnaraðili við að nafngreindur maður hafi orðið vitni að þessu atviki.

Tilvik nr. 2 til 6 munu hafa átt sér stað á tímabilinu mars til september árið 2016 og lúta að því að varnaraðili eigi að hafa varnað brotaþola för þar sem hann var í fylgd með frænku sinni (nr. 2), rekið hann út af opinberum stað (nr. 3), lagt hönd á hjól brotaþola og haldið því taki uns drengurinn varð sýnilega hræddur (nr. 4), ýtt við honum þar sem þeir mættust á stíg (nr. 5), og hrint honum í sundlaug (nr. 6). Vitni munu hafa verið að tveimur þessara atvika (nr. 2 og 4), auk þess sem eitt vitni mun hafa lýst ótta brotaþola við varnaraðila í búningsklefa sundlaugar í tilviki nr. 6. Varnaraðili staðfesti í framburði sínum að verulegu leyti lýsingar í bókunum lögreglu á tilvikum nr. 2, 4 og 5, enda þótt hann gæfi á þeim sínar skýringar, en neitaði tilvikum nr. 3 og 6.

Tilvik nr. 7 til 10 munu hafa átt sér stað frá mars til ágúst á þessu ári og lúta að því að varnaraðili hafi fellt brotaþola í jörðina (nr. 7), hrakið hann og annan dreng á brott þar sem þeir léku sér með golfkylfur (nr. 8), veitt brotaþola eftirför þar sem hann var á göngu með hund sinn (nr. 9) og hreytt í hann ónotum í sundlaug (nr. 10). Þess er getið í rannsóknargögnum að faðir drengs sem brotaþoli lék sér við í tilviki nr. 8 hafi staðfest söguna í grófum dráttum og að móðir brotaþola hafi orðið vitni að tilviki nr. 9. Að öðru leyti er ekki getið um vitni. Varnaraðili kannaðist ekki við tilvik nr. 7 og 10, þótt hann staðfesti að hafa verið í sundlaug á sama tíma og brotaþoli í tilviki nr. 10. Hann staðfesti hins vegar að mestu leyti lýsingar á tilvikum nr. 8 og 9, en gaf þá skýringu að hann hefði viljað vernda fjölskyldu sína.

                Fyrir dómi kannaðist varnaraðili einnig við tilvik (nr. 11) sem átt mun hafa sér stað 12. ágúst sl. og lýst er hér að framan eftir lýsingu sjónarvotts. Gaf hann á því sömu skýringu og fyrr, þ.e. að hann hafi talið nauðsynlegt að verja börn sín fyrir brotaþola. Í rannsóknargögnum lögreglu kemur fram að varnaraðili hafi sent lögreglu tölvupóst 15. ágúst sl. til að skýra sína hlið og verður ekki annað ráðið af þeirri lýsingu sem þar kemur fram en að varnaraðili viðurkenni að hafa haft afskipti af brotaþola, þótt áherslan sé þar fremur á hegðun og viðbrögð brotaþola.

Að ósk verjanda voru einnig lögð fyrir dóminn rannsóknargögn máls vegna kæru eiginkonu varnaraðila á hendur föður brotaþola fyrir hótanir í október 2015 [...], en málið var fellt niður í nóvember 2016 þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellis. Gögnin hafa ekki beina þýðingu fyrir mál þetta, en varpa þó ljósi á þann vanda sem upp virðist kominn í samskiptum foreldra brotaþola annars vegar og varnaraðila og eiginkonu hans hins vegar.

Varnaraðili byggir á því að um verulegan hegðunarvanda sé að ræða hjá brotaþola. Þótt hann vilji helst engin afskipti hafa af drengnum, þá eigi hann ekki annars úrkosta en að verja börn sín, eiginkonu, heimili og eignir fyrir honum. Fyrir dómi kvaðst varnaraðili ekki sjá aðra lausn til framtíðar en að drengurinn verði fjarlægður úr umhverfi sínu og komið fyrir í skóla fyrir börn með sérþarfir. Kvaðst hann þó viljugur til að ganga að samkomulagi við foreldra brotaþola um að hann láti drenginn afskiptalausan svo lengi sem þau hafi hemil á brotaþola.

                Miðað við rannsóknargögn og framburð varnaraðila sjálfs hjá lögreglu þykir einsýnt að varnaraðili hafi á köflum ekki sýnt af sér þá aðgætni í samskiptum við brotaþola sem almennt verður að ætlast til í samskiptum fullorðinna við börn. Enn ríkari þörf var á aðgætni sé það rétt, sem varnaraðili heldur fram, að um hegðunarvanda sé að ræða hjá drengnum. Þótt ekki verði dregið í efa að varnaraðila hafi gengið það eitt til að vernda fjölskyldu sína og eignir, þá leysir það hann ekki undan þeim skyldum fullorðinna gagnvart börnum sem endurspeglast t.d. í ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til rannsóknargagna lögreglu, þar á meðal framburðar varnaraðila sjálfs, er fallist á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur leiki á um að varnaraðili hafi í sjö tilvikum, einu á árinu 2015 (nr. 1), þremur á árinu 2016 (nr. 2, 4 og 5) og þremur á þessu ári (nr. 8, 9 og 11), haft afskipti af brotaþola sem telja verður að hafi verið til þess fallin að raska friði drengsins. Renna rannsóknargögn ennfremur stoðum undir það að friði drengsins hafi í reynd verið raskað. Ekki verður á það fallist að um svo smávægileg tilvik sé að ræða að ekki sé tilefni til að beita nálgunarbanni.

                Samkvæmt framanrituðu verður að telja uppfyllt skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 til að leggja á nálgunarbann. Afstaða varnaraðila og rannsóknargögn renna jafnframt stoðum undir það að ástæða sé til að óttast að varnaraðili muni halda uppteknum hætti. Eru því einnig uppfyllt skilyrði b-liðar sömu lagagreinar.

                Í ljósi afstöðu varnaraðila og þess óefnis sem samskipti hans við foreldra varnaraðila virðast komin í er jafnframt vandséð að önnur og vægari úrræði en nálgunarbann séu tæk að svo komnu. Telur dómurinn að í því efni verði brotaþoli, sem er barn,  að njóta vafans, fremur en varnaraðili. Liggur ekkert fyrir sem bendir til þess að barnaverndaryfirvöld hafi hafið afskipti af málinu sem líkleg séu til að leysa vandann í bráð. Þykir ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011.

                Samkvæmt öllu framanrituðu verður ákvörðun lögreglustjóra um að beita nálgunarbanni staðfest. Rétt þykir þó að marka nálgunarbanni skemmri tíma í ljósi upplýsinga sem fram komu fyrir dómi um að varnaraðili hyggist flytja af landi brott með fjölskyldu sinni 1. nóvember nk. og eigi bókað far úr landi þann dag. Ekki þykja aftur á móti efni til að hreyfa við öðrum skilyrðum nálgunarbannsins sem greinir í ákvörðun lögreglustjóra, enda verður ekki séð að þau skilyrði muni raska meira en nauðsynlegt er ferða- og athafnafrelsi varnaraðila.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola, þykir hæfilega ákveðin til handa hvorum um sig eins og í úrskurðarorði greinir, en að auki ber réttargæslumanni greiðsla vegna ferðakostnaðar, eins og þar greinir. Við ákvörðun þóknana hefur verið höfð hliðsjón af tímayfirlitum verjanda og réttargæslumanns og tekið tillit til virðisaukaskatts. Báðar þóknanir og ferðakostnaður réttargæslumannsins greiðast úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008. 

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Austurlandi frá 24. ágúst 2017 um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni, þó ekki lengur en til 1. nóvember 2017 kl. 16.00, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...], á svæði sem afmarkast við 10 metra frá lóðarmörkum [...]. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili komi nær A en 10 metra og jafnframt lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Þórs Eyjólfssonar hdl., 284.375 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gísla M. Auðbergssonar hrl.,  196.875 krónur, sem og ferðakostnaður réttargæslumannsins, 22.440 krónur, greiðist úr ríkissjóði.