Print

Mál nr. 562/2016

Bjarnleifur Bjarnleifsson og Lilja G. Gunnarsdóttir (Óskar Sigurðsson hrl.)
gegn
Magnúsi L. Sigurðssyni og Ólafíu K. Bjarnleifsdóttur (Guðjón Ármann Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Fasteign
  • Landamerki
  • Samningur
Reifun
Aðilar deildu um mörk milli fasteiganna Fagurhóls í eigu B og L og Grásteins í eigu M og Ó. B og L miðuðu kröfu sína um mörkin við teikningu frá árinu 2001, sem var endurskoðuð á árinu 2002, en M og Ó við lóðarblað frá árinu 2006. B og L keyptu land sitt úr landi M og Ó með kaupsamningi og afsali á árinu 2009. Í afsalinu var vísað til fyrrgreinds lóðarblaðs, sem var með hnitsetum mörkum, og sagt að stærð landsins samkvæmt þeirri teikningu væri 97,5 ha. Talið var að með afsalinu hefðu B og L því ekki getað öðlast eignarhald yfir stærra landi úr eign M og Ó, eins og þau miðuðu kröfu sína við. Í því sambandi gæti engu skipt afmörkun landsins á teikningunni frá árinu 2002 og samskipti aðila allt aftur til ársins 1996 þegar M og Ó keyptu í öndverðu allt landið. Voru M og Ó því sýknuð af kröfu B og L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2016. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Fagurhóls, landnúmer 196052, og Grásteins, landnúmer 174770, í Rangárþingi ytra, liggi frá þjóðvegi 271 sem er punktur 14, hnit X435450.15 og Y377555.43, þaðan 756 metra eftir miðjum veginum heim að Grásteini og Fagurhól að punkti 13, hnit X436185.30 og Y377733.16, þá 154 metra eftir miðjum skurði sem liggur í suð-austur að punkti 12, hnit X436306.52 og Y377637.88, þá 91 metra í aust-norðaustur að hæð sem nefnist Fagurhóll eða punkti 11, hnit X436391.94 og Y377669.28, þaðan 154 metra meðfram hólnum út á miðjan veg að Fagurhól eða punkti 10, hnit X436502.69 og Y377776.36, þá 173 metra eftir miðjum vegi að punkti 9 sem er sunnan Koltjarnar, hnit X436674.79 og Y3777792.63, þaðan 218 metra í suður að punkti 8, hnit X436689.43 og Y377575.08, þaðan 367 metra í austur að punkti 7, hnit X437056.04 og Y377594.87, þaðan 343 metra í norður að punkti 6, hnit X437039.77 og Y377937.48, og loks þaðan 1.230 metra í austur að Rangá eða punkti 5, hnit X438268.92 og Y377979.00. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur málsins að mörkum milli fasteignanna Fagurhóls í eigu áfrýjenda og Grásteins í eigu stefndu, en þær eru í Rangárþingi Ytra. Áfrýjendur miða kröfu sína um mörkin við teikningu frá árinu 2001, sem var endurskoðuð í október 2002, en stefndu við lóðarblað frá árinu 2006.

Áfrýjendur keyptu land sitt úr landi stefndu með kaupsamningi og afsali 25. mars 2009 sem mótekið var til þinglýsingar 30. apríl sama ár og fært í þinglýsingabók 4. maí það ár. Í afsalinu var vísað til lóðarblaðsins frá árinu 2006, sem er með hnitsettum mörkum, og sagt að stærð þess samkvæmt þeirri teikningu væri 97,5 ha. Með afsalinu gátu áfrýjendur því ekki öðlast eignarhald yfir stærra landi úr eign stefndu, eins og þau miða kröfu sína við. Í því sambandi getur engu skipt afmörkun landsins á þeirri teikningu frá árinu 2002, sem áfrýjendur vísa til, og samskipti aðila allt aftur til ársins 1996 þegar stefndu keyptu í öndverðu allt landið. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður. 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðs­dóms Suður­lands 24. maí 2016

            Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 28. apríl sl., er höfðað af Bjarnleifi Bjarnleifssyni, kt. [...], og Lilju G. Gunnarsdóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Fagurhóli, Rangárþingi ytra, með stefnu birtri 7. september 2015 á hendur Magnús L. Sigurðssyni, kt. [...], og Ólafíu K. Bjarnleifsdóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Grásteini, Rangárþingi ytra.

            Dómkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðanna Fagurhóls, landnr. 196052, og Grásteins, landnr. 174770,  í Rangárþingi ytra, liggi á eftirfarandi hátt: Frá þjóðvegi 271 sem er hnitapunktur 14 á dskj. nr. 10 (hnit X=435450.15; Y=377555.43), þaðan 756 metra eftir miðjum veginum heim að Grásteini og Fagurhól að hnitapunkti 13 á dskj. nr. 10 (hnit X=436185.30;Y=377733.16) þá 154 metra eftir miðjum skurði sem liggur í suð-austur að hnitapunkti 12 á dskj. nr. 10 (hnit X=436306.52 Y=377637.88), þá 91 metra í aust-norðaustur að hæð sem nefnist Fagurhóll eða hnitapunkti 11 á dskj. nr. 10 (hnit X=436391.94; Y=377669.28), þaðan 154 metra meðfram hólnum út á miðjan veg að Fagurhól eða hnitapunkti 10 á dskj. nr. 10 (hnit X=436502.69; Y=377776.36), þá 173 metra eftir miðjum vegi að hnitapunkti 9 á dskj. nr. 10 sem er sunnan Koltjarnar (hnit X=436674.79; Y=3777792.63), þaðan 218 metra í suður að hnitapunkti 8 á dskj. nr. 10 (hnit X=436689.43; Y=377575.08), þaðan 367 metra í austur að hnitapunkti 7 á dskj. nr. 10 (hnit X=437056.04; Y=377594.87), þaðan 343 metra í norður að hnitapunkti 6 á dskj. nr. 10 (hnit X=4.37039.77; Y=377937.48) og loks þaðan 1230 metra í austur að Rangá eða hnitapunkti 5 á dskj. nr. 10 (hnit X=438268.92; Y=377979.00). Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnendum in solidum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.   

            Stefndu krefjast sýknu af dómkröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts. 

Málavextir

            Mál þetta varðar ágreining um landamerki milli Fagurhóls, landnúmer 196052, og Grásteins, landnúmer 174770, í Rangárþingi ytra. Fagurhóll er í eigu stefnenda en Grásteinn í eigu stefndu. Forsaga málsins er að með afsali, dags. 1. október 1996, keyptu stefndu 200,3 hektara úr jörðinni Snjallsteinshöfða II í fyrrum Landmannahreppi og af málatilbúnaði aðila má ráða að frá upphafi hafi staðið til að stefnendur eignuðust hluta landsins, sem síðan varð þann 25. mars 2009 þegar stefnendur keyptu hluta landsins af stefndu. Þá liggur fyrir að landi því sem stefndu keyptu úr jörðinni Snjallsteinshöfða II var skipt í tvær spildur sem um tíma gengu undir nöfnunum Grásteinn 1, sem síðar var Grásteinn, og Grásteinn 2, sem síðar var Fagurhóll. Aðila málsins greinir á um landamerki jarðanna, meðal annars hvaða skjöl og uppdrættir miða eigi við í því sambandi.  

            Nokkur fjöldi skjala liggur frammi í málinu sem eiga það sameiginlegt að skýra að nokkru leyti atburðarás málsins þó svo aðila greini á um gildi einstakra skjala í málinu. Í fyrsta lagi liggja frammi í málinu tvö svokölluð stofnskjöl fasteigna. Annars vegar stofnskjal, dags. 8. nóvember 2001 og undirritað af stefndu, þar sem stærð Grásteins 2, nú Fagurhóls, er tilgreind 100 hektara, og hins vegar ódagsett og óundirritað stofnskjal, þar sem stærð Fagurhóls er tilgreind 97,5 hektarar. Síðarnefnda stofnaskjalið er áritað af byggingarfulltrúanum í Rangárþingi ytra þann 19. janúar 2007. Í öðru lagi liggur frammi yfirlitsuppdráttur, merktur Pétri H. Jónssyni skipulagsfræðingi og arkitekt,  dagsettur í mars 2001, endurskoðaður í október 2002, áritaður um móttöku byggingarfulltrúans í Rangárþingi ytra þann 19. september 2004. Á uppdrættinum er stærð Grásteins 2, nú Fagurhóls, tilgreind 100 hektarar. Í þriðja lagi liggja frammi í málinu  tvö hnitsett lóðablöð sem varða annars vegar Grástein og hins vegar Fagurhól. Bæði lóðablöðin eru dagsett í október 2006, merkt Pétri H. Jónssyni skipulagsfræðingi og arkitekt. Á lóðablaði Fagurhóls er stærð jarðarinnar tilgreind 97,5 hektarar, en á lóðablaði Grásteins er stærð jarðarinnar tilgreind 102,72 hektarar. Á báðum lóðablöðum er stimpill byggingarfulltrúans í Rangárþingi ásamt textanum „Staðf. 19.1.2007“ auk ólæsilegs fangamarks. Í fjórða lagi er meðal gagna málsins bréf landbúnaðarráðuneytisins, dags. 30. júní 2004. Þar staðfestir ráðuneytið, með vísan til 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976, skiptingu jarðarinnar Grásteins samkvæmt áðurnefndu stofnskjali, dags. 8. nóvember 2003. Einnig er í bréfi ráðuneytisins vísað til uppdráttar með áritun byggingarfulltrúans í Rangárþingi ytra. Þá kemur fram í bréfi ráðuneytisins að fyrir liggi samþykki hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 16. júní 2004, áritun jarðanefndar Rangárvallasýslu á stofnskjalið og uppdrátt og umsögn Bændasamtaka Íslands frá 13. apríl 2004. Loks ber að geta bréfs sýslumannsins á Suðurlandi til lögmanns stefndu, dags. 30. mars 2016, þar sem fram kemur að með framangreindri staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins hafi fylgt hnitsettur uppdráttur, dagsettur í október 2006, áritaður af byggingafulltrúa Rangárþings ytra þann 19. janúar 2007.

            Í greinargerð stefndu kemur fram að að árið 2001 hafi stefndu haft uppi áform um skiptingu landsins en úr því hafi ekki orðið. Vísa stefndu í því sambandi til gagna sem staðfesti að tilraunum til að skipta landinu hafi tvisvar verið vísað frá af Þjóðskrá þar sem tilskilin gögn hafi vantað, þ.e. árin 2003 og 2007

            Eins og áður segir keyptu stefnendur hluta Grásteins af stefndu með kaupsamningi/afsali, dags. 25. mars 2009, þ.e. Fagurhól með landnr. 196052. Í samningnum er stærð landsins tiltekin 97,5 hektarar og vísað til meðfylgjandi uppdráttar. Einnig er vísað til stofnskjals, dags. 26. janúar 2007, og segir í 1. gr. samningsins að skjalið skoðist sem hluti kaupsamnings/afsalsins. Fyrir liggur að kaupsamningurinn/afsalið var móttekinn til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Hvolsvelli þann 30. apríl 2009. Sama dag var móttekin til þinglýsingar áðurnefnd staðfesting landbúnaðarráðuneytisins, dags. 30. júní 2004, á skiptingu jarðarinnar Grásteins og mun bréfinu hafa fylgt áðurnefndur hnitsettur uppdráttur dagsettur í október 2006. Framangreind skjöl voru innfærð í þinglýsingabók sýslumannsins á Hvolsvelli þann 4. maí 2009. 

            Þá liggur fyrir að stefnendur höfðu frumkvæði að því að deiliskipuleggja land Fagurhóls. Samkvæmt áritun á deiliskipulagið var það samþykkt í skiplags- og byggingarnefnd Rangárþings ytra þann 5. júní 2014 og auglýst á tímabilinu frá 27. júní til 7. ágúst sama ár. Deiliskipulagið var samþykkt í sveitarstjórn þann 12. júní 2014 og auglýsing um gildistöku skipulagsins var birt í B-deild stjórnartíðinda þann 14. október 2014. Á deiliskipulaginu er hnitsettur uppdráttur af landi Fagurhóls sem sagt er 100 hektarar af stærð. Dómkröfur stefnenda byggja á framangreindum uppdrætti. 

Málsástæður stefnenda

            Stefnendur segja tilefni máls þessa vera girðingarframkvæmdir stefndu á landi stefnenda. Svo virðist sem stefndu miði girðingarframkvæmdirnar við teikningu frá október 2006 sem stefnendur segja vera marklausa þar sem ljóst sé að landamerkjum milli jarðanna hafi ekki verið breytt frá því sem greinir í stofnskjali frá árinu 2003 og teikningu frá árinu 2001, en landamerki hafi samkvæmt þeirri teikningu verið samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af ráðherra. Varðandi skiptingu jarða vísa stefnendur til 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 1. mgr. 48. gr. laga nr. 123/2010, sbr. og 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Landamerkjum Fagurhóls, landnúmer 196052, hafi hvorki verið breytt né jörðinni skipt eins og lög gera ráð fyrir þar sem stefndu hafi hvorki farið að skipulags- né jarðalögum þegar teikning frá október 2006 hafi verið gerð. Því standi landamerkin samkvæmt stofnskjalinu frá 2003 og teikningunni frá árinu 2001.

             Stefnendur kveða það enga þýðingu hafa varðandi landamerki jarðanna þó svo þau hafi skrifað undir kaupsamning/afsal 25. mars 2009 þar sem vísað hafi verið til teikningar frá október 2006 og stofnskjals frá 2007. Þá kemur fram í málavaxtalýsingu stefnenda að hvorki stofnskjalið né teikningin hafi fylgt með við kaupsamningsgerðina. Landamerkjum verði eingöngu breytt og jörðum skipt með samþykki sveitarstjórnar og/eða staðfestingar ráðherra. Það að sýslumaður hafi þinglýst kaupsamningunum/afsalinu athugasemdalaust þrátt fyrir að engin fylgiskjöl hafi fylgt með hljóti að teljast mistök sem valdi því ekki sjálfkrafa að löglegum landamerkjum Fagurhóls verði þar með breytt. Þá hafi stefndu ekki enn, þrátt fyrir áskoranir, viljað afhenda stofnskjalið frá 26. janúar 2007 sem vísað sé til í kaupsamningi.

            Það sé stefndu að sanna breytt landamerki frá því sem landbúnaðarráðuneytið staðfesti með bréfi sínu frá 30. júní 2004, sem eins og áður segir hafi verið þinglýst athugasemdalaust. Þá hafi stefndu haft tækifæri til að mótmæla deiliskipulagi sem auglýst hafi verið frá 27. júní til 7. ágúst 2007, en skipulagið hafi tekið mið af landamerkjum milli Grásteins og Fagurhóls eins og þau urðu til þegar Fagurhóli hafi verið skipt út úr landi Grásteins. Engar athugasemdir hafi borist við deiliskipulagið og hafi auglýsing um gildistöku þess verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. október 2014.

            Um lagarök vísa stefnendur til skipulagslaga nr. 123/2010 auk eldri laga um sama efni og jarðalaga nr. 88/2004. Þá er vísað til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað vísa stefnendur til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, og um varnarþing til 32. gr. sömu laga.

Málsástæður stefndu

            Í greinargerð stefndu er samhliða fjallað um málsatvik og málsástæður en þó má ráða að stefndu byggja á eftirfarandi. Í fyrsta lagi að áður en Fagurhóli hafi verið skipt úr landi Grásteins árið 2009 hafi verið í undirbúningi skipti á jörðinni sem þó hafi ekki verið gengið frá fyrr en áðurnefnt ár. Vísa stefndu til þess að árið 2001 hafi þau látið útbúa drög eða tillögu að skiptingu landsins og á þeim tíma hafi verið ætlunin að skipta landinu í tvo jafna hluta, Grástein I og Grástein II, hvorn hluta 100 hektara að stærð. Vísa stefndu í því sambandi til uppdráttar sem dagsettur er í mars 2001. Á þessum tíma hafi stefndu hins vegar verið eigendur alls landsins og þá þegar af þeirri ástæðu geti stefnendur ekki byggt neinn rétt á umræddum skjölum.

            Í öðru lagi vísa stefndu til þess að þann  25. mars 2009, hafi aðilar málsins undirritað kaupsamning/afsal þar sem skýrt hafi komið fram að hið selda hafi verið land úr landi stefndu, Grásteini, landnúmer 174770. Þá sé einnig vísað til þess að hið selda sé samkvæmt stofnskjali, dagsettu 26. janúar 2007, áritað af byggingarfulltrúa Rangárþings en að öðru leyti óundirritað, þar sem á þeim tíma hafi verið hætt að taka við slíkum stofnskjölum. Einnig sé í kaupsamningnum/afsalinu vísað til teikningar sem sýni skýrlega hvað selt hafi verið. Umrædd teikning sé hnitsett og hafi stefnendur með undirritun sinni á kaupsamning/afsal staðfest að bæði lóðarblaðið og teikningin væri hluti samningsins. Vísa stefndu til 5. gr. kaupsamningsins/afsalsins þar sem komi fram að kaupendur, þ.e. stefnendur, hafi kynnt sér rækilega teikningu af hinu selda landi og sætti sig að fullu við mælingu þess. Þá segir einnig að kaupendur hafi kynnt sér rækilega öll skjöl er tengjast umræddri sölu og sætti sig við að öllu leyti. Umræddur kaupsamningur/afsal og fylgigögn séu því eina heimild stefnenda sem þau geti byggt rétt sinn á. Þá vekja stefndu athygli á að samkvæmt 9. gr. kaupsamningsins hafi það verið lagt á herðar stefnenda að þinglýsa framangreindum réttindum sínum til að tryggja eignayfirfærslu og rétt sinn samkvæmt samningnum.

            Í þriðja lagi vísa stefndu til þess að í kjölfar sölunnar hafi landnúmeri 196052 verið skipt út úr landi Grásteins með landnúmeri 174770 og til hafi orðið nýtt land, þ.e. Fagurhóll, land stefnenda sem hafi verið 97,5 hektarar að stærð og stofnað árið 2009. Umræddur kaupsamningur/afsal sé ótvíræður, honum hafi fylgt hnitsett lóðarblað og stofnskjal til samræmis við það. Þrátt fyrir það haldi stefnendur því fram að þau hafi eignast frekari eignarétt en þau sjálf samþykktu með undirritun sinni undir framangreindan samning. Umræddur samningur og fylgiskjöl sýni og sanni hvaða land stefnendur hafi keypt, legu þess og skilmála. Við það séu stefnendur bundin. Stefndu hafni því alfarið sem komi fram í stefnu að undirritun þeirra undir samninginn hafi enga þýðingu varðandi landamerki. Vísa þau til þess að þó svo eitthvað hafi skort á gerð landskipta árið 2009 leiði það ekki til þess að stefnendur fái meiri réttindi en þau sjálf hafi viðurkennt að hafa keypt með kaupsamningi með þeirri afleiðingu að eignaréttur stefndu yrði þannig skertur. Vísa stefndu til þess að eignaréttur þeirra sé friðhelgur og varinn í samræmi við 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins nr. 33/1944.

            Í fjórða lagi hafna stefndu því að fyrir liggi staðfesting Landbúnaðarráðuneytisins á skiptingu landsins í samræmi við dómkröfur stefnenda, en umrætt skjal hafi verið hluti af fyrri landskiptum, þ.e. frá 2001, sem aldrei hafi orðið úr. Fyrir liggi að teikning sú sem staðfesti landskipti í samræmi við kaupsamning frá 2009 hafi verið afhent með samningnum til þinglýsingar og dragi það verulega úr trúverðugleika málatilbúnaðar stefnenda að leggja eingöngu fram hluta skjals sem þinglýst hafi verið og snertir mál þetta.

            Um lagarök vísa stefndu til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, eldri jarðalög nr. 65/1976 sem og gildandi jarðalög nr. 81/2004, skipulagslaga nr. 123/2010, þinglýsingalaga nr. 39/1978, laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá vísa stefndu til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi réttarfar og kröfu um málskostnað til XXI. kafla laganna.   

Niðurstaða

            Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefnendur málsins, þau Bjarnleifur Bjarnleifsson og Lilja G. Gunnarsdóttir, og stefndu, þau Magnús L. Sigurðsson og Ólafía K. Bjarnleifsdóttir. Einnig gáfu skýrslu vitnin Jón H. Skúlason endurskoðandi, Haraldur Bergur Haraldsson skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra og Tryggvi Már Ingvarsson deildarstjóri hjá Þjóðskrá.

            Eins og rakið er í málavaxtalýsingu keyptu stefndu hluta úr jörðinni Snjallsteinshöfða II með afsali dagsettu 1. október 1996. Þar segir að stærð hins selda hluta verði um 200,3 hektarar og sé merktur sem B á landskiptauppdrætti frá ágúst 1995 sem fylgt hafi þinglýstum kaupsamningi aðila. Fyrir liggur að framangreindu landi var skipt í tvo hluta, Grástein að norðan en Fagurhól að sunnan. Í máli þessu greinir aðila um landamerki milli þessara tveggja jarða, þ.e. frá þjóðvegi 271 í vestri að Ytri Rangá í austri. Segja stefnendur tilefni máls þessa vera girðingarframkvæmdir sem stefndu hafi ráðist í, inni á landi stefnenda.

            Kröfu sinni til stuðnings vísa stefnendur til þinglýstrar staðfestingar landbúnaðarráðuneytis á landskiptum milli Grásteins og Fagurhóls, dags. 30. júní 2004, sem byggi á stofnskjali frá 8. nóvember 2003 og teikningu Péturs H. Jónssonar frá 2001, endurskoðað í október 2002. Telja stefnendur kaupsamninginn/afsalið milli aðila frá 25. mars 2009 engu breyta um landamerki jarðanna þar sem landamerkjum verði aðeins breytt og jörðum skipt með samþykki sveitarstjórnar og/eða staðfestingu ráðherra, sbr. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, sbr. nú 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 13. gr. jarðalaga nr. 84/2004. Þá hafi hvorki stofnskjal né teikning, sem vísað hafi verið til í kaupsamningunum/afsalinu, fylgt með við samningsgerðina.

            Þessu hafna stefndu og vísa til þess að landskipti hafi ekki farið fram fyrr en á árinu 2009. Þá vísa stefndu til þess að  þó svo eitthvað hafi skort á gerð landskiptanna leiði það ekki til þess að stefnendur fái meiri rétt en þeir keyptu með kaupsamningnum/afsalinu frá 25. mars 2009.

            Samkvæmt 16. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, er landeigendum frjálst að skipta sjálfir landi milli sín, ef þeim kemur saman um það. Samkvæmt 15. gr. laganna skal tafarlaust setja glögg merki fyrir skiptunum. Á þeim tíma sem stofnskjalið frá 8. nóvember 2003 var undirritað voru í gildi jarðalög nr. 65/1976, þar sem meðal annars var kveðið á um það í 3. mgr. 12. gr., að til skipta á landi jarða þurfi samþykki jarðanefnda og sveitarstjórnar og staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands. Í nóvember 2003 og allt þar til 1. janúar 2009 var eiganda samkvæmt þágildandi ákvæði 14. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, skylt að gefa út stofnskjal fyrir hverja lóð eða heildarsafn lóða sem myndaðar voru í Landskrá fasteigna (nú fasteignaskrá). Í stofnskjali skyldi koma fram heiti landeignar, landnúmer lóðar, landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr, afmörkum lóðar á uppdrætti, staðfestum af skipulagsyfirvöldum, fastanúmer hverrar lóðar eða jarðar og nafn og kennitala eiganda lands. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, var þinglýsing stofnskjals bundið ámóta skilyrðum og fram komu í 14. gr. laga nr. 6/2001. Með breytingum sem gerðar voru meðal annars á 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga með 6. og 24. gr. laga nr. 83/2008, sem tóku gildi þann 1. janúar 2009, var gerð breyting á skráningu nýrra eigna í fasteignaskrá. Í stað þess sem áður var þ.e. útgáfu stofnskjals og þinglýsingu þess, var tekið upp það nýmæli að skráning nýrra eigna byggðist á umsókn sem leggja skyldi fram í viðkomandi sveitarfélagi. Var tilgangurinn að einfalda stofnun nýrra fasteigna. Samkvæmt því skal leggja fram umsókn um stofnun fasteignar í fasteignaskrá í viðkomandi sveitarfélagi. Skal umsóknin undirrituð af eiganda upprunaeignar og fram koma sambærilegar upplýsingar um eignina og gert var ráð fyrir í 14. gr. laga nr. 6/2001 fyrir umrædda breytingu og rakið hefur verið hér að framan. Á grundvelli umsóknar forskráir sveitarfélag upplýsingar um hina nýju eign sem við fer rafrænt til Fasteignaskrár Íslands. Það er síðan hlutverk þinglýsingastjóra að ganga úr skugga um að lagalegum skilyrðum sé fullnægt og staðfesta skráningu eignarinnar að öðrum skilyrðum uppfylltum.

            Í máli þessu liggur fyrir að stofnskjalinu frá 8. nóvember 2003 var aldrei þinglýst og fasteignin Fagurhóll því hvorki stofnun í Landskrá fasteigna á árinu 2003 né 2007 eins og framlögð gögn Þjóðskrár Íslands bera með sér og vitnið Tryggvi Már Ingvarsson, deildarstjóri hjá Þjóðskrá, staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi. Samkvæmt áðurgreindum gögnum frá Þjóðskrá var fasteignin Fagurhóll ekki stofnuð í fasteignaskrá fyrr en þann 29. apríl 2009, þ.e. í kjölfar forskráningar Haraldar Birgis Haraldssonar skipulags- og byggingafulltrúa Rangárþings ytra þann sama dag. Fram kemur í gögnum frá Þjóðskrá og framburði vitnisins Tryggva Más að stærð Fagurhóls hafi verið skráð af starfsmanni sveitarfélagsins 97,5 hektarar og staðfesti vitnið að forskráningin hafi byggt á lóðablaði frá 2006. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt framlögðu bréfi sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 30. mars 2016, að Bjarnleifur Bjarnleifsson, annar stefnenda í máli þessu, hafi þann 30. apríl 2009 afhent sýslumanninum á Hvolsvelli staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á landskiptum Grásteins, dags. 30. júní 2004, skjal þinglýsingastjóra nr. 564/2009, og hafi skjalinu fylgt með hið hnitsetta lóðablað frá 2006, en ljósrit af lóðablaðinu liggur frammi í málinu staðfest af sýslumanni. Samhliða þinglýsingu staðfestingar landskiptanna var þinglýst kaupsamningnum/afsalinu frá 25. mars 2009. Segir í bréfi sýslumanns að á áðurnefndum uppdrætti (lóðablaði) hafi stærð Fagurhóls verið tilgreind 97,5 hektarar, þ.e. sama stærð og tilgreind hafi verið í kaupsamningnum/afsalinu frá 25. mars 2009, skjal þinglýsingastjóra nr. 565/2009. Þá segir í bréfi sýslumanns: „Af hálfu embættisins er ekki fallist á það að staðfesting Landbúnaðarráðuneytisins gangi „þvert gegn“ efni nefnds afsals, skj. nr. 565/2009, heldur má telja að sala á 97,5 ha lands rúmist vel innan samþykkis ráðuneytisins sem taldi 100 ha.“ Fyrir liggur einnig að framangreind skjöl, þ.e. staðfesting landbúnaðarráðuneytisins ásamt meðfylgjandi lóðablaði og kaupsamningurinn/afsalið um Fagurhól voru innfærð í þinglýsingabók sýslumannsins á Hvolsvelli, nú sýslumannsins á Suðurlandi þann 4. maí 2009. Í skýrslu stefnandans Bjarnleifs fyrir dómi kom fram að hann hafi á umræddum tíma afhent sýslumanni til þinglýsingar kaupsamninginn/afsalið frá 25. mars 2009 og uppdráttinn (lóðablaðið) frá 2006 sem fylgt hafi samningnum. Aðilinn mundi ekki hvort hann hafi afhent sýslumanni til þinglýsingar staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á landskiptunum.

            Það var því að lokinni forskráningu Haraldar Birgis Haraldssonar, skipulags- og byggingafulltrúa Rangárþings ytra á jörðinni Fagurhóli í fasteignaskrá þann 29. apríl 2009 sem sýslumaður þinglýsti staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á landskiptum Grásteins samkvæmt hnitsetta lóðablaðinu frá árinu 2006, sem fylgdi með bréfi ráðuneytisins, sem og eignarheimild stefnenda. Í máli þessu kemur hins vegar ekki til skoðunar hvort staðið hafi verið rétt að framangreindum þinglýsingum.  

            Stefnendur hafna því að landamerki jarðanna skuli miðast við kaupsamninginn/afsalið frá 25. mars 2009, en óumdeilt er að gengið var frá kaupum stefnenda á syðri hluta Grásteins, þ.e. Fagurhóli, framangreindan dag. Í 1. gr. samningsins segir: „Seljendur [stefndu í máli þessu] lofa að selja og kaupendur [stefnendur í máli þessu] að kaupa hluta af landi seljenda úr landi Grásteins, Rangárþingi Ytra [sic]. Land þetta sem hér er verið að selja úr landi Grásteins er. [sic] merkt Fagurhóll á teikningu sem Pétur H. Jónsson skipulagsfræðingur og arkitekt hefur teiknað eftir loftmynd í október 2006. Landið sem hér er verið að selja fylgja hlutfallslega öll þau hlunnindi og réttindi skv. kaupsamningi dags. 23. október 1995 þar sem kaupendur voru Magnús L. Sigurðsson og Ólafía K. Bjarnleifsdóttir og seljandi Gunnar Árnason. Land það sem verið er að selja hér er samkvæmt stofnskjali dags. 26. janúar 2007. Landnúmer lóðar 196052 og heitir þessi landhluti Fagurhóll. Landnúmer þetta er tekið úr landnúmeri 174770. Lóðarauðkenni sveitarfélagsins er 8614-05 00063002. Stærð landsins sem verið er að selja telst vera skv. meðf. uppdrætti 97,5 ha. Stofnskjal dags. 26.01.2007 skoðist sem hluti kaupsamnings/afsala [sic] þessa.“ Þá segir í 5. gr. samningsins. „Við gerð samnings þessa liggja frammi m.a.: Veðbókavottorð liggur fyrir og hafa kaupendur kynnt sér það og sætt sig við það. Stofnskjal dags. 26. janúar 2007 og uppdráttur unninn af Pétri H. Jónssyni af hinu selda landi. Kaupendur hafa kynnt sér rækilega teikningu (loftmynd) af hinni seldu eign og sætta sig að fullu við mælingu landsins skv. henni. Kaupendur hafa kynnt sér rækilega öll skjöl er tengjast sölu þessari og sætta sig við að öllu leyti.

            Í skýrslum stefnenda fyrir dómi kom fram að þau hafi bæði lesið kaupsamninginn/afsalið áður en þau skrifuðu undir þann 25. mars 2009. Bæði kváðu þau hinn hnitsetta uppdrátt (lóðablaðið) frá 2006 hafa fylgt með samningnum við undirritun. Þá kvaðst stefnandi Bjarnleifur hafa vitað að stefndu hafi með kaupsamningnum gert breytingar á stærð landsins og landamerkjum frá því sem áður hafði verið fyrirhugað, þ.e. stofnskjalinu frá 8. nóvember 2003 og yfirlitsuppdrættinum frá 2001, endurskoðaður 2003. Var á stefnanda Bjarnleifi að skilja að stefndu hafi ranglega upplýst stefnendur um að framvegis yrði stærð Fagurhóls 97,5 hektarar og stærð Grásteins 98,5 hektarar. Báðir stefnendur kváðust í skýrslu sinni fyrir dómi ekki hafa verið sáttir við þessar breytingar en samt undirritað kaupsamninginn/afsalið. Með vísan til þessa og áður tilvitnaðra ákvæða í kaupsamningi/afsali aðila, er fallist á það með stefndu að hið hnitsetta lóðablað frá 2006 hafi verið hluti af kaupsamningsins/afsalsins.

            Þá kom fram í skýrslu stefnandans Bjarnleifs, aðspurður af hverju hann hafi ekki gert athugasemdir þegar sett hafi verið niður merki til samræmis við uppdráttinn frá árinu 2006, að hann, þ.e. Bjarnleifur, hafi tekið þátt í því með stefnda Magnúsi að mæla fyrir 2-4 mælipunktum en um hafi verið að ræða punkta sem stefndi Magnúsi hafi einu sinni eða tvisvar áður mælt án aðkomu stefnanda. Vísaði stefnandi Bjarnleifur í þessu sambandi til þess að í hans huga snerist mál þetta um lögmæti þeirra gerninga sem hann og Lilja hafi verið látin skrifa undir enda hafi staðan árið 2009 verið þannig að þau hafi verið búin að byggja hús á jörðinni sem ekki hafi verið í þeirra eigu.

            Fyrir liggur að engar ráðstafanir voru gerðar til að þinglýsa stofnskjalinu frá 8. nóvember 2003 og staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á landskiptum jarðarinnar Grásteins frá 30. júní 2004 áður en aðilar máls þessa gengu til samninga um kaup stefnenda á hlut úr landi Grásteins. Með þeim kaupsamningnum/afsalinu 25. mars 2009 voru landamerki og stærð hins selda lands skilgreind eins og rakið hefur verið hér að framan í hinu hnitsetta lóðablað frá árinu 2006, sem eins og áður segir liggur fyrir að að lá frammi við samningsgerðina og stefnendur kynntu sér áður en þau undirrituðu samninginn. Því máttu stefndu vera í góðri trú um að merki landsins sem þau afsöluðu til stefnenda miðuðust við þau landamerki sem tilgreind voru í lóðablaðinu frá árinu 2006 og vísað var til í kaupsamningnum/afsalinu. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ekki fallist á það með stefnendum að byggja eigi landmerki milli jarðanna Grásteins og Fagurhóls á stofnskjali frá 8. nóvember 2003 og yfirlitsuppdrætti frá 2001, endurskoðuðum 2003, og víkja þar með til hliðar kaupsamningnum/afsalinu frá 25. mars 2009. Þá ráðast landamerki jarðanna ekki af hnitsettri teikningu/uppdrætti í samþykktu deiliskipulagi fyrir Fagurhól, eins og dómkrafa stefnenda byggir á, en umrætt deiliskipulag létu stefnenda gera fyrir jörð sína án aðkomu stefndu. Með slíkri einhliða framsetningu á landamerkjum verða stefndu ekki svipt eign sinni eða landamerkjum breytt. Breytir þar engu um þó svo stefndu hafi ekki gert athugasemdir við skipulag fyrr en með bréfi 10. nóvember 2014

            Í munnlegum málflutningi stefnenda var vikið að því að aðstæður hafi verið með þeim hætti við samningsgerðina að stefnendur hafi ekki átt annarra úrkosta en að skrifa undir samninginn og var á lögmanninum að skilja að hann væri að vísa til einhvers konar blekkinga eða misneytingar við samningsgerðina. Þessu mótmæltu stefndu sem of seint framkominni málsástæðu sem af þeim sökum kemur ekki til skoðunar í máli þessu.  

            Að öllu framansögðu virtu eru stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.

            Í samræmi við kröfugerð stefndu og samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu  1.420.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts. 

            Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

            Stefndu, Magnús L. Sigurðsson og Ólafía K. Bjarnleifsdóttir, eru sýkn af öllum kröfum stefnenda, Bjarnleifs Bjarnleifssonar og Lilju G. Gunnarsdóttur, í máli þessu. 

            Stefnendur greiði stefndu samtals 1.420.000 krónur í málskostnað.