Print

Mál nr. 499/2017

Héraðssaksóknari (Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími, sbr. 4. mgr. sömu greinar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. september 2017 klukkan 10. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Hæstaréttar 11. júlí 2017 í máli nr. 450/2017 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Frá þeim tíma hefur ekkert komið fram í málinu sem haggar þeirri niðurstöðu. Samkvæmt 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er ekki heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess, sbr. a. lið 1. mgr. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 5. júní 2017, í upphafi vegna rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en frá 9. sama mánaðar með stoð í 2. mgr. sömu lagagreinar. Mál hefur ekki verið höfðað á hendur varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með þeirri breytingu að gæsluvarðhaldinu verður eigi markaður lengri tími en í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 28. ágúst 2017 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 4. ágúst 2017

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. september nk. kl. 16:00.

                Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að héraðssaksóknari hafi nú til ákærumeðferðar mál er varði kæru á hendur X en henni sé gefið að sök að hafa aðfaranótt mánudagsins 5. júní sl., í félagi við A, ráðist á B á heimili hans að [...] í Reykjavík og slegið hann með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama og kærða X fyrir að hafa stungið hann í hægra brjóstið, allt með þeim afleiðingum að B hlaut 3 cm langan skurð á hnakka og marga minniháttar áverka á líkamann og djúpan skurð hægra megin yfir brjóstholi.

                Í skýrslu sem tekin hafi verið af brotaþola lýsti hann því að hann hafi verið heima hjá sér ásamt þremur vinum sínum. Kærða, sem hafi verið fyrrverandi kærasta hans, hafi hringt ítrekað í hann en hann hafi ekki nennt að tala við hana og því fengið stúlku sem hafi verið stödd á heimili hans til að svara kærðu í eitt sinn. Kærða hafi þá skellt á og stuttu síðar hafi brotaþoli fengið smáskilaboð frá kærðu þar sem komið hafi fram að hún hlakkaði til að hitta þau. Skömmu síðar hafi verið bankað heima hjá honum og hann hafi opnað dyrnar. Hafi þar verið kærða og A og hafi þau verið með klúta fyrir andlitum sínum. Kærða hafi haldið á kylfu og hafi  hún slegið brotaþola einu höggi í höfuðið. Brotaþoli kvaðst hafa tekið á móti þeim og reynt að koma þeim út. Brotaþoli kvað kærðu hafi látið A hafa kylfuna og sjálf hafi hún tekið upp hníf og stungið hann í brjóstið með honum. Brotaþoli kvað kærðu einnig hafa ráðist að gestum hans og ógnað þeim með hnífnum. Brotaþoli kvaðst þess fullviss að kærða hafi komið á heimili hans í þeim tilgangi að drepa hann.

                Samkvæmt læknisvottorðum C, sérfræðings á Slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 5. júní og 13. júlí sl., hlaut brotaþoli 3 cm langan skurð á hnakka og marga minniháttar áverka um líkamann og djúpan skurð hægra megin yfir brjóstholi. Samkvæmt vottorðunum sýndi tölvusneiðmynd að stungan var mjög nálægt stærri slagæð í vöðva og hefði getað orðið lífshótandi blæðing inn í lunga ef hnífur hefði snert æðina.

                Kærða hefur viðurkennt að hafa farið ásamt A heim til brotaþola og að hafa slegið hann með hafnaboltakylfu en hún neitar að hafa stungið hann með hníf. Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag og kærða var handtekin kvaðst hún hafa farið heim til brotaþola til að skila lyfjum sem  hún hafi fengið hjá honum. Hún hafi farið vopnuð hafnaboltakylfu og “teiser” þar sem kona sem hafi svarað í síma brotaþola hafi hótað henni í síma. Þegar brotaþoli hafi opnað fyrir henni og A hafi hún slegið hann tveimur höggum með hafnaboltakyldu og hann þá tekið hana niður í gólf. Meira kvaðst hún ekki muna. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 26. s.m. kvaðst kærða hafa ætlað að skila brotaþola lyfjum sem hún hafi fengið hjá honum. Hún hafi hringt til hans en þá hafi einhver kona svarað í síma hans og haft í hótunum við kærðu. Kærða segist hafa orðið mjög reið og afbrýðissöm en hún og brotaþoli hafið áður verið að “deita”. Hún hafi beðið A að koma með sér heim til brotaþola. Áður hafi hún þó farið heim til sín og sótt þangað búning, linsur og grímur, auk hafnaboltakylfu sem hún hafi ætlað að nota til að hræða brotaþola og konuna. Þá kvaðst kærða hafa verið með hníf í vasanum sem hún beri ávallt á sér. Kærða kveðst hafa látið A hafa klút til að hylja andlit sitt með og hún hafi líka hulið andlit sitt þegar þau bönkuðu hjá brotaþola. Brotaþoli hafi opnað fyrir þeim og kvaðst kærða þá hafa slegið hann einu höggi í höfuðið. Kærða segir að í kjölfarið hafi komið til átaka með henni og brotaþola en þau hafi borist út fyrir íbúðina þar sem brotaþoli hafi tekið hana niður. Hún hafi síðan séð að brotaþoli hafi otað hníf að henni en líklega hafi þetta verið hnífurinn hennar sem hafi dottið úr vasa hennar. Kærða sagði að henni hafi tekist að ná hnífnum af brotaþola og við það hafi hún skorist á hendi. A hafi þá skorist í leikinn og tekið hnífinn og hún hafi þá orðið vör við að hendi hennar var alblóðug og að brotaþoli hafi verið allur út í blóði. Síðan hafi lögreglan komið á vettvang.

                Kærði, A, kvaðst í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag hafa farið með kærðu að heimili brotaþola í því skyni að hræða hann. A bar að hann hafi séð kærðu og brotaþola takast á fyrir utan húsið og hann kvaðst hafa heyrt karlmann hrópa “hnífur” og hafi A þá séð að kærða hélt á hníf. A kvaðst hafa losað hnífinn úr hendi hennar með því að slá hendinni utan í vegg en við það hafi hún misst hnífinn. A kvaðst hafa hent hnífnum og hafnaboltakylfunni út í garð við heimili brotaþola.

                Vitnið, D, sem var að ganga eftir [...] umrædda nótt lýsti því í skýrslu hjá lögreglu að hún hafi heyrt einhvern segja “hún stakk hann, hún stakk hann”. Þá hafi hún heyrt kærðu segja við A “hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín” en hann hafi svarað “ég faldi dótið”.

                Vitnin, E og F, sem bæði voru gestkomandi á heimili brotaþola umrætt sinn, báru í skýrslutöku hjá lögreglu að þau hafi séð kærðu með hníf og að hún hafi ógnað þeim með honum. E segir að kærða hafi hlaupið upp að henni með hnífinn en hún hafi rétt náð að ýta kærðu í gólfið. E kvaðst hafa óttast um líf sitt. Vitnið F segir að kærða nokkrum sinnum næstum verið búin að skera hann og hann hafi verið hræddur um líf sitt.

                Við leit í garði við húsið fann lögreglan blóðugan hníf og blóðuga hafnaboltakylfu. Í skýrslutöku þann 14. júlí sl. voru kærðu sýndar myndir af hnífnum og kylfunni og bar kærða kennsl á hnífinn sinn og kylfuna sem hún hafi verið með umrædda nótt.         

                Kærða liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 218. gr. b sömu laga, en brot hennar getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Hún er kærð fyrir að hafa ráðist á brotaþola í félagi við annan mann og slegið hann með hafnaboltakylfu og stungið hann með hníf í brjóstkassann. Ljóst sé að beiting þessara vopna getur verið lífshættuleg, ekki síst hnífsins. Af staðsetningu áverka á brjósti brotaþola er ljóst að um lífshættulegan áverka var að ræða og mátti kærðu vera það ljóst að hending ein réð því að ekki hlaust bani af. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna er það mat héraðssaksóknara að brot kærðu sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hún gangi ekki laus meðan mál hennar er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og dómstólum.

                Kærða hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 5. júní sl. Fyrst sætti hún gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, þ.e. a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...]. Frá 9. júní sl. hefur kærða sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, þ.e. 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. [...]og [...].

Málið er nú til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara og verður meðferð þess hraðað svo sem kostur er en fyrir liggur að afla þarf frekari gagna í þágu rannsóknar málsins.  Með hliðsjón af alvarleika sakarefnisins og þess að ríkir almannahagsmunir standa til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á er þess krafist að kærðu verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hennar er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og eftir atvikum dómstólum. Að mati héraðssaksóknara eru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt og hefur héraðsdómur Reykjavíkur í tvígang komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðunum sé fullnægt í máli þessu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Niðurstaða:

                Kærða mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

                Með hliðsjón af framangreindu sem rakið hefur verið úr greinargerð héraðssaksóknara og rannsóknargögnum málsins er fallist á það mat héraðssaksóknara að kærða sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás, skv. 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 218. gr. b sömu laga. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eða ævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Í ljósi atvika málsins og eðlis brotsins er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður því fallist á kröfu héraðssakóknara, um að kærða sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eins og og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. september nk. kl 10:00.