Print

Mál nr. 728/2017

Magnús Stefán Jónasson (Tómas Hrafn Sveinsson lögmaður)
gegn
Arion banka hf. (Víðir Smári Petersen lögmaður)
Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Kyrrsetning
Reifun

A hf. krafði M sem var fyrrum starfsmaður AFL ses. skaðabóta vegna fjárdráttar og umboðssvika. Taldi A hf. að misferli M hefði falist í misnotkun bankareikninga viðskiptamanna AFL ses. sem og á fjármunum sparisjóðsins sjálfs. Í dómi héraðsdóms var talið sannað að M hefði framkvæmt millifærslur og notað afskriftarreikning sparisjóðsins sem honum hafi ekki verið heimilt og því talið að hann hefði með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sparisjóðnum, sem A hf. leiddi rétt sinn af, tjóni sem því næmi og bæri bótaábyrgð á því. Var kröfum vegna meintra umboðssvika M vísað frá dómi vegna vanreifunar. Af hálfu M var lögð fyrir Hæstarétt vottfest yfirlýsing stjórnarformanns V ehf. um að hann hefði haft heimild til að millifæra ákveðna fjárhæð af reikningi félagsins inn á eigin reikning í mars 2008. Var því talið í dómi Hæstaréttar að M hefði verið sú millifærsla heimil og að A hf. hefði ekki orðið fyrir tjóni sem næmi þeirri fjárhæð. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var niðurstaða hans um skaðabótakröfu A hf. staðfest sem og kyrrsetningargerð sem sýslumaður hafði gert í eignum M árið 2015 fyrir dæmdum kröfum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms á þann veg að stefnda verði gert að greiða sér 54.336.304 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 55.653.054 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Fyrir Hæstarétti féll stefndi frá kröfu að fjárhæð 1.316.750 krónur, sem er samtala liða nr. 4, 5, 6, 11, 13 og 17 í þeim kafla héraðsdóms sem hefur að geyma málsástæður og lagarök stefnanda. Þetta var reist á því að þessir liðir tækju til millifærslna af bankareikningi Báss ehf. á tímabilinu 2. mars 2009 til 29. mars 2011, en það tjón væri innifalið í öðrum kröfulið stefnda. Þannig hefði verið afskrifuð 30. júní 2011 yfirdráttarskuld Báss ehf. á sama reikningi að fjárhæð 27.761.094 krónur, en fyrrgreindar millifærslur væru hluti af afskriftinni.

Af hálfu áfrýjanda hefur verið lögð fyrir Hæstarétt vottfest yfirlýsing Ingólfs Jóns Geirssonar, stjórnarformanns Verslunarinnar Toppa ehf., um að áfrýjandi hafi haft heimild til að millifæra 2.738.500 krónur af reikningi félagsins inn á eigin reikning 13. mars 2008. Um hafi verið að ræða endurgreiðslu félagsins á láni sem áfrýjandi hefði veitt. Af hálfu stefnda hefur ekki verið vefengt að yfirlýsingin stafi frá fyrirsvarsmanni einkahlutafélagsins. Samkvæmt gögnum málsins var félagið eigandi tilgreinds bankareiknings sem áfrýjandi millifærði fyrrgreinda fjárhæð af og lagði inn á sinn reikning. Því verður talið að áfrýjanda hafi verið þessi millifærsla heimil og að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni sem nemur framangreindri fjárhæð. Kemur hún því til lækkunar á kröfu stefnda. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um skaðabótakröfu stefnda staðfest þannig að áfrýjanda verður gert að greiða honum 51.597.804 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði. Þá verður með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest kyrrsetning í eignum áfrýjanda fyrir dæmdum kröfum.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Magnús Stefán Jónasson, greiði stefnda, Arion banka hf., 51.597.804 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2016 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Staðfest er kyrrsetningargerð sem sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra gerði 5. október 2015 í eignum áfrýjanda fyrir dæmdum kröfum.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. ágúst 2017.

Stefnandi máls þessa er nú Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, en stefndi er Magnús Stefán Jónasson, Hvanneyrarbraut 35, Siglufirði. 

Málið var í öndverðu höfðað 16. október 2015 með réttarstefnu, útgefinni af dómstjóra héraðsdóms Norðurlands eystra 5. október 2015. Í henni var gerð krafa um greiðslu 178.261.094 króna ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði og staðfestingu kyrrsetningargerðar. Með úrskurði 29. apríl 2016 var fjárkröfunni vísað frá dómi en hafnað kröfu um frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningar. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 402/2016. Er málið var höfðað var AFL sparisjóður, Aðalgötu 34, Siglufirði, stefnandi málsins en hann sameinaðist Arion banka hf. hinn 15. október 2015 og breyttist aðild málsins samkvæmt því.

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda hinn 29. júní 2016 og var þar gerð krafa um greiðslu 105.835.254 króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Málin voru sameinuð.

Með úrskurði dómsins 7. febrúar 2017 var málinu frestað þar til fyrir lægju niðurstöður rannsóknar héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi stefnda og eftir atvikum dómur héraðsdóms í sakamáli, yrði það höfðað í kjölfar rannsóknarinnar. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 135/2017 var úrskurðurinn felldur úr gildi.

Málið var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 28. júní 2017. Við aðalmeðferðina lækkaði stefnandi fjárkröfu sína um fjórar milljónir króna.

Dómkröfur

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu 101.835.254 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að staðfest verði kyrrsetning sem sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra gerði hinn 5. október 2015 í fasteignunum Hvanneyrarbraut 35, Siglufirði, fnr. 213-0510 og eignarhluta stefnda í Fákafeni 13, Siglufirði, fnr. 213-0181, ökutækjunum Mercedes Benz 500SEL, fnr. DZ106, Subaru Impreza GL, fnr. RG710, Subaru Impreza, fnr. RL886, Nissan Patrol Y608, fnr. RH920, Toyota Land Cruiser 120, fnr. PT657 og Nissan Patrol, fnr. RU164, hestakerru, fnr. BV380, 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Topphestum ehf., kt. [...] og eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Hálendi Íslands ehf., kt. [...], ásamt innstæðum bankareikninga stefnda 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-15-[...], nr. 1102-18-[...] og nr. 1102-18-[...], nr. 1102-38-[...].

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar krafna hans.

Hvor krefst málskostnaðar úr hendi hins.

Málavextir

Stefndi starfaði hjá AFLi-sparisjóði og forvera hans í rúmlega aldarfjórðung. Frá miðju ári 2007 var hann skrifstofustjóri og staðgengill sparisjóðsstjóra. Hann samdi um starfslok 26. júní 2015.

Eftir starfslok stefnda munu hafa vaknað grunsemdir um að hann hefði haft í frammi misferli í störfum sínum. Meðal gagna málsins er skjal, dags. 2. september 2015, undir heitinu „Greinargerð til stjórnar“, og ber skjalið merki sparisjóðsins. Efni þess er sagt vera „Rökstuddur grunur um misnotkun fyrrum starfsmanna á bankareikningum viðskiptavina og sjóðum AFL sparisjóðs.“ Minnisblaðið sé „tekið saman vegna [gruns] um misnotkun á bankareikningi Bás ehf., mögulegrar misnotkunar á bankareikningum annarra viðskiptamanna AFL sem og á fjármunum AFL sparisjóðs. Meint misnotkun beinist að fyrrum starfsmanni AFL sparisjóðs sem tengist ofangreindu félagi með beinum hætti. Sérstaklega er bent á tvær færslur á bankareikningi Bás ehf. (1102-26-611) samtals að fjárhæð 47.761.094,- og aðgerðum og færslum þeim tengdum [...]. [Stefndi] fyrrum starfsmaður AFL framkvæmdi allar neðangreindar aðgerðir og færslur. Forskoðun sjóðsins hefur leitt neðangreint í ljós.“ Eru því næst raktar „færslur og aðgerðir“ tengdar annars vegar 20.000.000 króna og hins vegar 27.761.094 króna færslna á bankareikningi Báss ehf.

Í skjalinu er færslunum og aðgerðunum, sem sagðar eru tengdar 20 milljóna króna færslu á bankareikningi Báss ehf., lýst þannig að hinn 18. nóvember 2010 hafi verið framkvæmd millifærsla að fjárhæð 20 milljónir króna af reikningi fyrirtækisins Hauks Jónssonar ehf., sem ekki hafi haft neina starfsemi heldur verið í slitaferli, á reikning Báss ehf. Viku síðar hefðu verið afskrifaðar skuldir nafngreinds einstaklings á nánar greindum reikningi. Skuld reikningsins hafi numið 8.142.916 krónum en afskriftin hafi numið 18.142.916 krónum. Þannig hafi myndast 10 milljóna króna innstæða á reikningnum. Sama dag hafi 10 milljónir króna verið millifærðar af reikningi viðskiptavinarins á reikning fyrst nefnda fyrirtækisins. Eftir þá færslu standi skuld á reikningi fyrirtækisins í tíu milljónum króna. Hinn 3. desember 2010 hafi 266.921 króna verið færð af reikningi í eigu fyrirtækisins Timburs og stáls ehf. Með aðgerðinni hafi verið skýringartextinn „Eyðilagður reikningur“. Upphæðin hafi verið lögð inn á reikning þess fyrirtækis sem fyrst var nefnt og þar með hafi skuldastaðan á þeim reikningi orðið 9.733.079 krónur. Hinn 10. janúar 2011 hafi 9.733.079 krónur verið færðar af reikningi Báss ehf. inn á reikning fyrst nefnda fyrirtækisins og þar með engin skuld eftir á þeim reikningi. Viku síðar hafi 9.733.079 krónur verið færðar af reikningi fyrirtækisins Guðrúnar Maríu ehf. inn á reikning Báss ehf. Fyrir hafi skuldastaðan á reikningi Guðrúnar Maríu ehf. verið 2.478.418 krónur en eftir millifærsluna 12.211.497 krónur. Hinn 4. mars 2011 hafi reikningsskuld Guðrúnar Maríu ehf., 12.211.497 krónur, verið afskrifuð að fullu. Segir svo í skjalinu: „Ofangreindar færslur, sem allar eru framkvæmdar af sama starfsmanni, leiða til þess að skuldastaða Bás ehf. á reikningi 1102-26-611 lækkar um kr. 20.000.000,- Á móti þeirri fjárhæð eru kr. 9.733.079,- afskrifaðar á kennitölu Guðrúnar Maríu ehf., kr. 10.000.000,- á kennitölu [nafngreinds viðskiptavinar] og að lokum með millifærslu af kennitölu Timburs og stáls ehf. kr. 266.921,-.“

Í skjalinu er færslunum og aðgerðunum, sem sagðar eru tengdar 27.761.094 króna færslu á bankareikningi Báss ehf., lýst þannig að hinn 15. júní 2011 hafi verið „átt við grunnupplýsingar reiknings [...] Bás ehf. Kennitölubreyting var gerð og skráður eigandi samkvæmt kerfum varð [sami nafngreindi einstaklingur].“ Hinn 30. júní 2011 hafi skuldir á reikningi Báss ehf., 27.761.094 krónur, verið afskrifaðar. Skýringartexti með aðgerð hafi verið „Innborgun“. Afskrift hafi verið færð á afskriftareikning vegna erlendra lána annars vegar og hins vegar á bókhaldslykil vegna sérgreindrar niðurfærslu. Þess er sérstaklega getið að skuldirnar hafi verið í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðli. Þá er tekið fram að „afskrift er framkvæmd var 30.06.2011 verður vegna kennitölubreytingar frá 15.06.2011 ekki rekjanleg til Bás ehf. heldur eyrnamerkt [sama nafngreinda einstaklingi].“ Þá segir að hinn 6. október 2011 hafi grunnupplýsingum reikningsins aftur verið breytt þannig að Bás ehf. hafi aftur verið skráður eigandi reikningsins. Loks segir: „Ofangreindar færslur leiða til þess að skuldstaða [sic] Bás ehf. lækkar um 27.761.094,- og verður kr. 0,-. Á móti þeirri fjárhæð eru afskrifaðar kr. 27.761.094,- á kennitölu [sama nafngreinda einstaklings].“

Í málinu liggur skjal, nefnt „Samkomulag um bætur vegna tjóns“, dags. 17. desember 2012. Þar segir: „Kambur – bifreiða og vélaverkstæði ehf. [...] gerir svofellt samkomulag við Bás ehf. [...] vegna tjóns á þaki húseignar félagsins í nóvember 2012 að Ránargötu 14, 580 Siglufirði. Kambur – bifreiða og vélaverkstæði ehf. [...] greiði Bás ehf. eingreiðslu að fjárhæð kr. 3.500.000 [...] sem fullnaðargreiðslu á ofangreindu tjóni.“ Stefndi ritar undir samkomulagið fyrir hönd Kambs bifreiða- og vélaverkstæðis en annar einstaklingur undirritar fyrir hönd Báss ehf. Vottar að samkomulaginu eru Rannveig Gústafsdóttir og Ólafur Jónsson. Samkvæmt viðskiptakvittun voru 3.500.000 krónur greiddar af afskriftareikningi sparisjóðsins á reikning Kambs bifreiða- og vélaverkstæðis ehf. hinn 31. desember 2012. Skýring er skráð „Kambur v/Tjóns“. Á viðskiptakvittuninni segir að stefndi sé sá starfsmaður er framkvæmt hafi færsluna.

Í málinu liggur skjal nefnt „Veðflutningur/veðbandslausn“ og tekur til tryggingarbréfs nr. 1102-38-000215. Þar segir: „Tryggingabréf útgefið þann 28.03.2007 af [nafngreindum einstaklingi] til AFL-Sparisjóðs, að upphaflegri fjárhæð kr. 6.500.000, tryggt upphaflega með 03. veðrétti nú með 1. veðrétti í fasteigninni Eyrargata 15, Siglufirði [...]. Eyrargata 15, Siglufirði [...] er hér með laus allra veðbanda hvað varðar ofangreint tryggingabréf og óskast veðinu aflýst. Ofangreint tryggingabréf verður hér með flutt yfir á 5 veðrétti fasteigninni Aðalgata 10, Siglufirði [...].“ Er því næst rakið að þar muni það standa á eftir tryggingabréfi frá mars 2008, upphaflega að fjárhæð 40 milljónir króna, veðskuldabréfi frá febrúar 2002, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna, veðskuldabréfi frá janúar 2002, upphaflega að fjárhæð 55.304 evrur og veðskuldabréfi frá febrúar 1977 að fjárhæð 50.000 krónur. Stefndi ritar undir skjalið fyrir hönd sparisjóðsins en einnig ritar undir skjalið nafngreindur einstaklingur fyrir hönd Joachim ehf. sem þinglýsts eiganda. Skjalið er fært í þinglýsingabók 14. maí.

Í lánareglum sparisjóðsins, sem tóku gildi 4. september 2009, segir að öll ný útlán og ábyrgðir, yfir einni milljón króna, skuli fara fyrir lánanefnd, hvort um sé að ræða lán eða yfirdrátt. Öll ný útlán sem veitt séu aðila í vanskilum skuli fara fyrir nefndina. Séu vanskil greidd upp með lánveitingu skuli það gert samkvæmt sameiginlegri niðurstöðu nefndarinnar. Lánanefnd er starfi á Siglufirði hafi heimildir „heildarútlán innan 10% af cad eigið fé“. Í nefndinni sitji Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri, stefndi, Rannveig Gústafsdóttir deildarstjóri og Kristján Björn Snorrason varamaður. Önnur lánanefnd, með útlánaheimildir allt að fimm milljónum króna, þó þannig að heildarfyrirgreiðsla verði tíu milljónir að hámarki eftir lánveitingu, starfi á Sauðárkróki. Í reglunum segir einnig að lánanefndarmönnum sé óheimilt að veita viðskiptavinum fyrirgreiðslu fyrr en viðkomandi lánanefnd hafi „fjallað faglega um lánsbeiðni“. Lánanefndir skuli funda daglega eftir þörfum.

Í útlánareglum sparisjóðsins frá október 2014 segir meðal annars að sparisjóðsstjóri hafi heimild til að ákveða lánafyrirgreiðslu allt að fimm milljónum króna, útibússtjórar og forstöðumaður lánasviðs allt að 1.500.000 krónum og þjónustufulltrúar allt að einni milljón króna. Staðgengill sparisjóðsstjóra hafi sömu heimildir og sparisjóðsstjóri í forföllum hans. Þá segir að sparisjóðsstjóri skipi fulltrúa í lánanefnd. Lánanefnd taki „ákvarðanir um öll útlán, ábyrgðir og/eða hvers konar aðrar skuldbindingar er hafa útlánaígildi er nema hærri fjárhæð en kr. 1.500.000.“ Lánafyrirgreiðsla til viðskiptamanna er taki til hærri fjárhæðar en 1.500.000 króna sé óheimil án heimildar lánanefndar. Þá segir í reglunum að stjórnendum sé „áskilið og skylt að hafa að leiðarljósi hagsmuni AFL en ekki sína eigin við ákvörðun á lánveitingum til viðskiptamanna.“ Tryggingar fyrir lánum skuli ætíð vera með þeim hætti að lágmarka útlánahættu sparisjóðsins.

Með bréfi til sérstaks saksóknara samkvæmt þág. lögum nr. 135/2008, dags. 4. september 2015, kærði AFL sparisjóður ses. „meint misferli“ stefnda. Fælist það í „misnotkun á bankareikningi Bás ehf., mögulegrar [sic] misnotkunar á bankareikningum annarra viðskiptamanna AFL sparisjóðs sem og á fjármunum AFL sparisjóðs.“ Segir í kærunni að stefndi tengist Bási ehf. með beinum hætti.

Hinn 5. október 2015 lýsti sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra að kröfu AFL sparisjóðs yfir kyrrsetningu í eftirtöldum eignum stefnda: fasteignunum Hvanneyrarbraut 35, Siglufirði, fnr. 213-0510 og eignarhluta stefnda í Fákafeni 13, Siglufirði, fnr. 213-0181, ökutækjunum Mercedes Benz 500SEL, fnr. DZ106, Subaru Impreza GL, fnr. RG710, Subaru Impreza, fnr. RL886, Nissan Patrol Y608, fnr. RH920, Toyota Land Cruiser 120, fnr. PT657 og Nissan Patrol, fnr. RU164, hestakerru, fnr. BV380, 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Topphestum ehf., kt. [...] og eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Hálendi Íslands ehf., kt. [...], ásamt innstæðum bankareikninga stefnda 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-15-[...], nr. 1102-18-[...] og nr. 1102-18-[...], nr. 1102-38-[...]. Kyrrsetningin var gerð til fullnustu kröfu að fjárhæð 178.261.094 krónur.

Hinn 29. september 2015 yfirheyrði sérstakur saksóknari stefnda og er bókað í skýrslu að yfirheyrslan hafi staðið frá klukkan 08:50 til 11:34. Stefnda var kynntur réttur hans til að njóta aðstoðar verjanda en kaus að gera það ekki. Í yfirheyrslunni var stefndi meðal annars spurður um einkahlutafélögin Haukur Jónsson ehf. og Guðrún María ehf. og kvaðst stefndi ekkert hafa komið að rekstri þeirra félaga fyrr en skuldir þeirra hefðu verið afskrifaðar. Hann kvaðst ekkert hafa komið að starfsemi félagsins Timburs og stáls ehf. Stefndi kvaðst kannast við þann viðskiptamann sparisjóðsins sem var um tíma skráður eigandi bankareiknings Báss ehf. og hefði sparisjóðurinn tapað miklu á viðskiptum við hann og fyrirtæki hans.

Í yfirheyrslunni var stefndi spurður um það er tuttugu milljónir króna hefðu verið teknar af reikningi Hauks Jónssonar ehf. og lagðar á reikning Báss ehf. Stefndi kvaðst kannast við færslurnar og hafa framkvæmt þær. Spurður um ástæðu þess sagði hann þetta vera sér „að kenna“ en kvaðst ekki geta útskýrt það frekar. „Ég bara gerði það, þetta var mér að kenna“, svaraði stefndi þegar nánar var spurt. Þegar enn frekar var spurt um ástæðu þessa svaraði stefndi: „Ég stal þessu.“ Spurður um ástæðu þess kvaðst hann ekki ætla að svara því. Spurður um ástæðu þess „af hverju það var þessi reikningur“ svaraði stefndi: „Ég ætla ekki að svara, þið getið skoðað það í víðara samhengi en ég ætla ekki að, að fara að draga einhverja fleiri í bankanum [...].“ Síðar, þegar stefndi var spurður hvort hann hefði fengið athugasemdir vegna þessarar færslu, svaraði hann: „Ég ætla ekki að svara fyrir það, vegna þess að það er, ég vil vernda það fólk að hefur, vinnur og hefur unnið þar, ég bara tek þetta á mig.“ Stefndi var spurður hvort tilgangur færslunnar hefði verið að minnka skuldir Báss ehf. og svaraði: „Það, þú veist, það er bara common sense, ok þú veist.“ Hann hefði ekki verið að nota féð í eigin þágu.

Stefndi var í yfirheyrslunni spurður um afskrift á reikningi nafngreinds viðskiptamanns bankans, „átján milljónir þannig að það myndast þarna innistæða“ eins og það er orðað í spurningunni, og stefndi svarar: „Ég hef gert þetta, eða þú veist, ég ætla ekki að, nei bara ég, bara ég gerði þetta já.“ Við frekari spurningum um þetta margítrekaði stefndi að hann hefði gert þetta. Þegar hann var spurður hvort sparisjóðsstjóri hefði vitað af þessu, svaraði hann: „Ég ætla ekki að draga fleiri inn í þetta vegna þess að það er nóg að einn fari. Ég hef ekkert út úr því. Ég er ekki vanur því að koma fólki í vandræði.“

Stefndi var spurður um viðskiptakvittun frá 10. janúar 2011 þar sem 9.733.079 krónur voru teknar af reikningi Báss ehf. og lagðar á reikning Hauks Jónssonar ehf. Stefndi svaraði: „Nei ég hef gert þetta bara, er það ekki, nei ég, já.“ Hann var þá spurður hvort einhver annar hefði aðgang að kerfum sparisjóðsins í hans nafni, og svaraði: „En ég bara gerði þetta, þú veist.“ Hann neitaði að svara hvers vegna hann hefði gert þetta. Nánar spurður svaraði hann: „Ég ætla ekki að svara meira út af þessu, ég bara gerði þetta á mína ábyrgð.“

Yfirheyrslan var áfram á þessa leið. Stefndi var spurður um ýmsar færslur og aðgerðir og svarar á þá leið að hann hafi verið að verki en gefur ekki á því neinar skýringar að öðru leyti en því að hann segist oft hafa verið „að stela“. Hann leggur ítrekað áherslu á að hann hafi verið einn að verki og beri einn ábyrgð.

Um miðbik yfirheyrslunnar var stefndi spurður um eigandabreytingu reiknings, á þá leið að Bás ehf. hefði í upphafi verið skráður eigandi hans, því næst hefði nafngreindur einstaklingur verið skráður eigandinn en hinn 6. október 2011 hefði upplýsingunum verið breytt þannig að Bás ehf. var skráður eigandi að nýju. Stefndi var spurður hvort hann hefði gert þessar breytingar og svaraði hann: „Já, já, já, örugglega, segi bara já við öllu.“ Yfirheyrandi sagðist þá vilja fá að vita hvað væri rétt, frekar en að fá bara „já“. Því svaraði stefndi: „Það er nóg að taka einn af lífi.“ Hann var þá spurður hvað hann meinti með því og hvort fleiri tengdust málinu og svaraði hann á þá leið að hann segði ekki meira en þetta, „og þið munið komast að því.“ Nánar spurður segir hann að „það bara komi í ljós“. Yfirheyrandi sagði þá: „Ef enginn ætlar að skýra okkur frá því, þá kemur það ekki í ljós.“ Því svaraði stefndi: „Nei, nei. En ég tek þetta á mig.“

Í gögnum málsins er bréf, dags. 5. október 2015, undirritað af Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur, tal- og raddmeinafræðingi, svo hljóðandi: „Það er algerlega óforsvaranlegt, óverjandi og vítavert ef þeir sem stóðu að yfirheyrslu Magnúsar Jónassonar frá Siglufirði [hafa] yfirheyrt hann tímunum saman vitandi fyrirfram hans sjúkrasögu um heilablóðfall með málstoli í kjölfarið. Þeir sem þjást [af] málstoli hafa misst snerpu í hugsun sem gerir það að verkum að þeir eiga erfitt með að finna rétt orð og orða hugsun sína skilmerkilega sérstaklega þegar að þeim er sorfið. Þeir hafa mun minna úthald til að hugsa skýrt og mun minna vald á hreyfingu talfæra og þar með framburði. Málstol veldur líka erfiðleikum með að hlusta á fleiri en einn í einu að ekki sé talað um ef fleiri en einn beina spjótum sínum að viðkomandi. Ég hef haft Magnús í talmeðferð á annað ár til að þjálfa upp færni í máli og framburði. Ég væri búin að útskrifa hann ef ég teldi að hann hefði náð tökum á málhæfni en svo er ekki. Ég tel að gengið hafi verið allt of hart að Magnúsi í yfirheyrslunum ekki síst ef þeir sem að henni stóðu [hafa] fyrirfram vitað að hann gengur ekki heill til skógar. Í því ljósi tel ég að endurtaka þurfi yfirheyrsluna og þá sé tekið sérstakt tillit til heilsufarsástands Magnúsar. Einnig er nauðsynlegt og að hann hafi verjanda [viðstaddan] alla yfirheyrsluna.“

Hinn 9. október ritaði lögmaður stefnda sérstökum saksóknara bréf og sagðist þar krefjast þess „að játning hans í yfirheyrslum í síðustu viku verði dregin til baka.“ Vísaði lögmaðurinn til bréfs Valdísar Ingibjargar Jónsdóttur og bætti við að beðið væri læknisfræðilegs mats á ástandi stefnda. Fór lögmaðurinn fram á að tekin yrði ný skýrsla af stefnda og að lögmaðurinn yrði þá viðstaddur.

Hinn 15. október yfirheyrði sérstakur saksóknari Ólaf Jónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Í samantekt um yfirheyrsluna segir meðal annars: „Ólafur sagði aðspurður að Magnús hefði getað afskrifað lán án þess að það kæmi inn á borð til hans enda hafi Magnús verið staðgengill hans. Þegar Ólafur var ekki í húsi var Magnús sparisjóðsstjóri og hafði sömu heimildir og Ólafur. Aðspurður hvort ekki væri beðið með slíkar ákvarðanir til staðfestingar, afskriftir lána, sagði Ólafur að Magnús hefði alveg getað gert það og það hafi ekki verið nein regla að það þyrfti að bíða eftir samþykki né að tveir þyrftu að samþykkja. Ólafur sagði að farið hefði verið yfir afskriftir með innri endurskoðanda og endurskoðanda. Ólafur sagði að þegar afskrifað var hefði það verið ákveðinn ferill, lánið var sett í varúð og síðan var gerð „ákveðin tiltekt“ þegar félög voru t.d. gjaldþrota. Ólafur sagðist ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í störfum Magnúsar og að hann hefði „treyst Magnúsi fram í fingurgóma.““

Í samantektinni segir síðar: „Ólafur var spurður hvort hann hefði vitað til þess að félagið Bás ehf. hefði verið í einhverjum fjárhagserfiðleikum og sagði hann að lánanefnd hefði samþykkt afskrift eða leiðréttingu á lánum félagsins Bás ehf. fyrir nokkrum árum síðan. Aðspurður sagði Ólafur að það hefði verið eftir hrun. Ólafur sagði að afskriftin kæmi í raun í staðinn fyrir að búið var að samþykkja að veita þeim lán fyrir hrun. Félagið var alltaf með yfirdrátt og þau í lánanefndinni hafi samþykkt að leiðrétta vexti hjá félaginu en þeir hefðu borgað mikla vexti. Leiðréttingin var gerð með svokallaðri beinni leið sem var skulda aðlögunarferli fyrir fyrirtæki og var félagið Bás ehf. tekið í gegnum þessa leiðréttingu. Ólafur sagði að leiðréttingin hefði verið um 15-20 milljónir. Þeir voru með hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi með því að koma þessu félagi á beinu brautina, að öðrum kosti hefði hugsanlega orðið mun meiri afskriftir. Aðspurður hvort Magnús hefði komið að þessari ákvörðun mundi Ólafur það ekki og fannst það ótrúlegt. Aðspurður um hver framkvæmdi síðan afskriftina sem ákveðin var á fundi lánanefndarinnar sagði Ólafur að það hefði væntanlega [verið] Magnús eða Rannveig. Ólafur var spurður hvort að Magnús myndi gera afskrift á félag jafn tengt honum og Bás ehf., sagði Ólafur að hann hefði getað það og það hefði ríkt traust á milli þeirra, hann hafi aldrei efast um neitt sem Magnús gerði.“

Samkvæmt samantektinni var Ólafur spurður um „Færslur 25. nóvember 2010 – 18.142.916 kr. afskrifaðar á reikningi [nafngreinds viðskiptamanns]. Við það myndaðist innstæða, 10.000.000 kr., sem voru millifærðar inn á reikning félagsins Haukur Jónsson ehf.“ Í samantektinni segir svo: „Ólafur sagðist ekkert vita um þessa afskrift á reikningi [viðskiptamannsins] né millifærslu á reikning félagsins Haukur Jónsson ehf. Aðspurður hvort enginn annar innan bankans þyrfti að staðfesta afskrift líkt og í þessu tilviki sagði Ólafur að það væri farið yfir bókhaldsmiðana daginn eftir. Ólafur sagðist ekki geta nefnt þá starfsmenn sem færu yfir bókhaldsmiðana, sagði það gætu verið ýmsir. Aðspurður hvort Magnús gæti gert þessa afskrift án aðkomu lánanefndarinnar eða annarra sagði Ólafur að ef viljinn væri til staðar væri ýmislegt hægt. Ólafur sagði að án þess að benda á neinn þá hefði þetta átt að koma í ljós í endurskoðun.“

Hinn 22. október 2015 yfirheyrði sérstakur saksóknari Gunnlaug Stefán Guðleifsson gjaldkera sparisjóðsins. Í samantekt um yfirheyrsluna segir meðal annars: „Gunnlaugur sagði að þegar hann var í eftirliti með peningaþvætti hefði hann séð færslu sem honum þótti undarleg og vissi að félagið var gjaldþrota, minnti að félagið héti Guðrún Jónsdóttir. Sagði Gunnlaugur að allt í einu hefði verið búið að setja heimild á reikning félagsins, fyrir 15 eða 20 milljónir að hann minnti, og taka peninga út. Hann sagðist hafa farið með þetta upp til Ólafs og Magnúsar og hefði spurt hvort þetta væri eðlilegt. Þá hefðu þeir sagt honum að best væri að hann myndi ekki skipta sér af þessu. Gunnlaugur [sagði] að eftir þetta hefði hann ekki skipt sér af peningaþvætti. Aðspurður mundi Gunnlaugur ekki hvaða ár þetta átti sér stað. Hann sagðist síðan hafa skoðað þetta aftur og þá hefði verið búið að laga þetta.“

Í málinu er skjal, nefnt „Samkomulag um lækkun skulda“, dags. 18. nóvember 2010. Segir þar að AFL sparisjóður og Bás ehf. geri með sér „samkomulag“, sem felist í því að sparisjóðurinn „lækkar skuld Bás ehf. á hlr. 1102-26-611 um Kr 20.000.000“. Segir svo: „Ástæða þess er meðal annars tap fyrirtækisins vegna viðskipta við fyrirtæki sem urðu gjaldþrota og gífurlegra hækkunar vaxta og verðbóta í kjölfar bankahrunsins.“ Loks er „samkomulag þetta“ sagt vera trúnaðarmál aðila. Undir skjalið ritar sparisjóðsstjóri en ekki aðrir.

Samkvæmt tilkynningu um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru Báss ehf., dags. 1. desember 2011, var Hrönn Fanndal, eiginkona stefnda, framkvæmdastjóri félagsins. Í málinu liggja eldri gögn úr hlutafélagaskrá og kemur þar fram að samkvæmt fundi dags. 1. júní 1997 var stefndi einn þriggja stjórnarmanna félagsins og var jafnframt framkvæmdastjóri þess og annar prókúruhafi. Samkvæmt ársreikningi Báss ehf. vegna ársins 2011 var stefndi eigandi 10% hlutafjár í félaginu.

Með bréfi til stefnda, dags. 30. september 2015, lýsti AFL sparisjóður yfir riftun starfslokasamnings stefnda og viðauka við hann. Með bréfi dags. 2. nóvember 2015 mótmælti stefndi riftuninni.

Með bréfi til stefnda, dags. 19. nóvember 2015, lýsti stefnandi yfir að riftunin væri lögmæt. Á hinn bóginn var viðurkennt að við starfslok hafi stefndi átt inni uppsafnað ógreitt orlof er næmi 4.131.400 krónum. Lýsti stefnandi yfir skuldajöfnuði á móti þeim skaðabótakröfum sem gerðar hefðu verið í máli þessu.

Félagið Guðrún María ehf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 27. febrúar 2009 og afskráð hjá ríkisskattstjóra 22. júní 2009.

Félagið Reisum byggingarfélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota 19. október 2012.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segir stefnda vera fyrrum starfsmann AFL sparisjóðs ses. og hafi hann þar starfað í um aldarfjórðung. Fram undir mitt ár 2007 hafi stefndi starfað í lífeyrissjóðseiningu sparisjóðsins en eftir þann tíma sem skrifstofustjóri og staðgengill sparisjóðsstjóra í bankaeiningu sparisjóðsins. Stefndi hafi látið af störfum í lok júní 2015 þegar gerður hafi verið við hann starfslokasamningur. Fljótlega eftir starfslok stefnda hafi komið í ljós alvarlegt misferli sem hann hafi viðhaft í störfum sínum. Náði það misferli „allt aftur til ársins 2007 eða eftir þann tíma sem hann tók við sem skrifstofustjóri og staðgengill sparisjóðsstjóra.“ Hafi misferlið falist í misnotkun bankareikninga viðskiptamanna sparisjóðsins sem og á fjármunum sparisjóðsins sjálfs.

Stefnandi segir að misferlið sé í fyrsta lagi vegna fjárdráttar sem samtals nemi 56.284.454 krónum, í öðru lagi umboðssvika sem alls nemi 15.548.008 krónum og loks umboðssvika sem nemi 30.000.000 krónum.

Stefnandi segir stefnda hafa framkvæmt fjárdrátt í 22 nánar tilgreindum færslum:

1.       Í fyrsta lagi sé um að ræða tvær færslur og aðgerðir þeim tengdar á bankareikning félagsins Báss ehf., að fjárhæð 47.761.094 krónur. Eiginkona stefnda hafi verið framkvæmdastjóri félagsins frá 2011 til 2015 og hafi stefndi séð um fjármál félagsins. Þá hafi stefndi sjálfur verið framkvæmdastjóri félagsins á undan eiginkonu sinni. Hafi hann því haft frjálsar hendur í bókhaldi félagsins og hafi framkvæmt flókna fléttu sem leitt hafi annars vegar til þess að skuldastaða Báss ehf. hafi lækkað um 20 milljónir króna og hinsvegar að skuldastaða félagsins hafi lækkað um 27.761.094 krónur og orðið að engu. Vísar stefnandi hér til minnisblaðs þess úr sparisjóðnum, dags. 2. september 2015, sem áður hefur verið rakið.

2.       Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 31. desember 2007 og tekið 270.000 krónur út af nánar tilgreindum afskriftareikningi stefnanda. Hafi stefndi lagt fjárhæðina inn á sinn eigin reikning.

3.       Stefndi hafi lagt 2.738.500 krónur inn á sinn eigin reikning dags. 13. mars 2008 af reikningi nr. 1102-26-005103.

4.       Stefndi hafi greitt vexti án heimildar inn á reikning nr. 1102-26-000611 að fjárhæð 300.000 krónur dags 2. mars 2009, og síðan lagt sömu upphæð inn á eigin reikning.

5.       Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 8. maí 2009, og tekið 200.000 út af reikningi Báss ehf. nr. 1102-2-000611 og lagt inn á sinn eigin reikning með skýringunni „vaxtanóta“.

6.       Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 1. september 2009 og tekið 200.000 krónur út af reikningi Báss ehf. nr. 1102-2-000611 og lagt inn á sinn eigin reikning með skýringunni „vaxtanóta“.

7.       Stefndi hafi framkvæmt færstu dags. 29. desember 2009 og tekið 1.556.250 krónur út af reikningi 1102-26-001452 og lagt inn á þrjá reikninga, 160.000 krónur, 350.000 krónur og 200.000 krónur, samtals hafi 710.000 krónur runnið inn á eigin reikninga stefnda.

8.       Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 21. janúar 2010 þar sem reikningur 1102-38-100027 hafi verið eyðilagður og 590.512 krónur runnið inn á reikning stefnanda. En 80.000 krónur inn á reikning stefnda.

9.       Stefndi hafi framkvæmt færslu dags 19. mars 2010 þar sem framangreindar 590.512 krónur hafi runnið inn á reikning 1102-26-001452 með skýringunni „leiðrétting“.

10.    Hinn 19. mars 2010, nokkrum mínútum eftir millifærslu sem getið er um í 9. lið, hafi stefndi framkvæmt færslu þar sem 590.512 krónur hafi farið út af reikningi 1102-26-001452 inn á þrjá mismunandi reikninga stefnda sjálfs.

11.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 7. júní 2010 og tekið 250.000 krónur út af reikningi Báss ehf. nr. 1102-26-000611 og lagt inn á sinn eigin reikning með skýringunni „vaxtanóta“.

12.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta, 22. júní og tekið 539.650 krónur út af reikningi 1102-26 7818 og lagt inn á fimm mismunandi reikninga. Þar á meðal 300.000 krónur inn á eigin reikninga.

13.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 17. janúar 2011 og tekið 300.000 krónur út af reikning Báss ehf., 1102-26-0006111 með skýringunni „vaxtanóta“. Hafi stefndi annarsvegar lagt 200.000 krónur inn á eigin reikning og hinsvegar notað 100.000 krónur til þess að greiða inn á skuldabréf í sínu nafni nr. 1102-74-903264.

14.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 4. febrúar 2011 og tekið 376.500 krónur út af reikningi 1102-26-001452 og lagt inn á sinn eigin reikning.

15.    Hinn 17. febrúar 2011 hafi stefndi framkvæmt færslu og tekið 500.000 krónur út af reikningi 1102-26-001452 með skýringunni „leiðrétting“ og lagt 250.000 krónur inn á sinn eigin reikning og 250.000 krónur inn á reikning Guðrúnar Maríu ehf.

16.    Hinn 22. febrúar 2011 hafi stefndi framkvæmt aðra færslu og tekið 250.000 krónur út af reikningi Guðrúnar Maríu ehf. og lagt þá fjárhæð inn á eigin reikning með skýringunni „leiðrétting“.

17.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 29. mars 2011 og tekið 1.066.750 krónur út af reikningi Báss ehf. nr. 1102-26-000611 og hafi 1.000.000 króna runnið inn á reikning þriðja aðila en 66.750 krónur inn á reikning stefnda.

18.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 1. apríl 2011 og millifært án heimildar 892.000 krónur út af reikningi 1102-26-001452 með skýringunni „leiðrétting“ og inn á reikning Báss ehf. Hinn 4. apríl 2011 hafi stefndi framkvæmt færslu þar sem framangreindar 892.000 krónur hafi verið teknar út af reikningi Báss ehf. og lagðar inn á reikning stefnda.

19.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 17. apríl 2011 og tekið 284.994 krónur út af reikningi 1102-26-007006 og lagt 134.494 krónur inn á eigin reikning.

20.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 29. nóvember 2011 og lagt 177.299 krónur inn á reikning Báss ehf. af reikningi stefnanda sem sé vegna yfirdráttarlána.

21.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 30. nóvember 2011 og lagt 138.805 krónur inn á reikning Báss ehf. af reikningi stefnanda með skýringunni „leiðr. vextir“.

22.    Stefndi hafi framkvæmt færslu dagsetta 30. ágúst 2012 og tekið 300.000 krónur út af reikningi 1102-26-005604 og lagt inn á eigin reikning.

Stefnandi kveður stefnda hafa framið umboðssvik er nemi 15.548.800 krónum.

Stefnandi segir stefnda hafa leigt félaginu Bási ehf. herbergi í húsnæðinu Aðalgötu 34 á Siglufirði fyrir 4.340 krónur á mánuði auk hita. Stefndi hafi hinsvegar í heimildarleysi framleigt herbergið til annars félags fyrir 361.600 krónur á mánuði. Kveður stefnandi þetta vera skýrt brot á trúnaðarskyldum stefnda við stefnanda og hafi það valdið stefnanda gríðarlegu tjóni í töpuðum leigutekjum. Hafi þetta verið viðvarandi frá 3. maí 2010 til 2. maí 2014. Stefndi hafi fengið þessar greiðslur greiddar beint inn á sinn eigin reikning, samtals 15.548.800 krónur. Hafi greiðslurnar runnið inn á reikning stefnda eftir ýmsum leiðum. Greiðslurnar hafi ýmist komið beint frá því félagi sem leigt hafi herbergið, Kredia ehf., frá Bási ehf. þar sem stefndi hafi verið framkvæmdastjóri, eða Kambi bifreiðaverkstæði ehf. Í gögnum málsins megi sjá viðskiptakvittun þar sem stefndi framkvæmi færslur dagsettar 7. júní 2010 að fjárhæð 361.600 og taki fjárhæðina út af reikningi Kredia ehf. og leggi inn á eigin reikning. Þá segir stefnandi að í gögnum málsins sé reikningur sem stefndi virðist hafa gefið út á hendur Kredia ehf. fyrir framleigu. Virðist reikningurinn ekki eiga uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi, heldur beri hann með sér að hafa verið gerður með forritunum „Word“ eða „Excel“. Kveðst stefnandi einungis hafa einn slíkan reikning undir höndum. Sérstakur saksóknari hafi lagt hald á heila möppu sambærilegra reikninga þegar fulltrúar embættisins hafi gert húsleit í september 2015.

Loks segir stefnandi stefnda hafa framið umboðssvik er falist hafi í óheimilum gjafagerningum að fjárhæð 30.000.000 króna.

1.       Stefndi hafi án heimildar afskrifað 20.000.000 króna hjá félaginu Reisum byggingar ehf. hinn 25. mars 2013. Sama dag hafi félagið aftur tekið að safna skuldum með því að ganga á yfirdráttarheimild sína, sem ekki hefði verið hægt samkvæmt lánareglum sparisjóðsins ef ekki hefði komið til afskriftar.

2.       Hinn 17. desember 2012 hafi Kambur bifreiða- og vélaverkstæði ehf. og Bás ehf. gert með sér samkomulag um bætur vegna tjóns á þaki húsnæðis félagsins. Kambur ehf. hafi skuldbundið sig til að greiða Bási ehf. 3.500.000 króna. Stefndi hafi ritað undir samkomulagið fyrir hönd Kambs. Afskriftareikningur stefnanda hafi verið notaður til þess að fjármagna viðgerð Kambs ehf. Stefndi hafi framkvæmt færsluna í heimildarleysi dags. 31. desember 2012.

3.       Hinn 9. maí 2014 hafi stefndi án heimildar samþykkt veðflutning og veðbandslausn tryggingabréfs nr. 1102-38-000215, upphaflega að fjárhæð 6.500.000 króna en tryggingabréfið hafi hvílt á 1. veðrétti einbýlishússins Eyrargötu 15, Siglufirði.  Húsið sé 205 fm að stærð og markaðsvirði áætlað 26.600.000 króna. Tryggingabréfið hafi verið fært á aftasta veðrétt að Aðalgötu 10 á Siglufirði og hafi þá um 90.000.000 króna skuldir staðið þar framar. Veðinu hafi verið ætlað að tryggja skuldir félagsins Joachims ehf. og hafi þær nú verið afskrifaðar.

Stefnandi segir að ætlað misferli stefnda hafi verið kært til embættis sérstaks saksóknara í september 2015 og hafi embættið umsvifalaust hafið rannsókn á málinu. Hafi átta fulltrúar embættisins verið sendir hinn 29. september 2015 til að handtaka stefnda og framkvæma húsleitir, leggja hald á gögn og fleira. Sé því ljóst að um yfirgripsmikið mál sé að ræða og megi af þessu jafnframt ráða að um stórfelld brot hafi verið að ræða, sem spanni nokkurra ára tímabil. Þá hafi athæfið jafnframt falið í sér mikið og alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stefnanda. Ljóst sé að aðgerðir embættis sérstaks saksóknara styðji við það hversu stórfellt brot stefnda sé hér um að ræða. Í fyrstu skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara hafi stefndi játað brot sín.

Stefnandi segist hafa talið hagsmunum sínum best borgið með kyrrsetningu eigna stefnda í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp hafi verið komin og hafi hún verið framkvæmd af sýslumanninum á Norðurlandi eystra hinn 5. október 2015.  Stefnandi segir nauðsynlegt að höfða mál þetta á hendur stefnda til greiðslu bóta vegna framangreindra athafna hans og þess tjóns sem hann hafi valdið stefnanda. Ljóst sé að ætluð brot stefnda nái yfir langt tímabil og hafi verið samfelld allt frá lokum árs 2007 og fram undir mitt ár 2014. Verði því að líta á háttsemi stefnda sem samfellt brot og upphaf fyrningarfrests hefjist því frá lokum síðasta brots hans. Verði ekki fallist á þetta verði að líta til þess að stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um brot stefnda og þar með mögulega skaðabótakröfu á hendur honum fyrr en á síðari hluta ársins 2015. Hafi kæra verið send sérstökum saksóknara vegna háttsemi stefnda hinn 4. september 2015. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007, krefjist stefnandi þess að fyrningarfrestur vegna háttsemi stefnda fari eftir því ákvæði og krafan fyrnist þar af leiðandi aldrei fyrr en einu ári eftir að stefnandi hafi fengið vitneskju um hana.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að stefndi hafi misnotað aðstöðu sína með saknæmum og ólögmætum hætti þegar hann hafi verið starfsmaður stefnanda og misnotað bankareikninga viðskiptavina stefnanda og stefnanda sjálfs. Hafi stefndi millifært fé bæði inn á eigin reikninga og reikninga tengdra aðila sem verið hafi viðskiptavinir stefnanda. Séu brot stefnda því afar gróf og stórfelld, ásamt því að fela í sér gróft trúnaðarbrot gagnvart stefnanda. Sé tjón stefnanda mikið. Þá felist tjón stefnanda jafnframt í því að stefnandi beri ábyrgð gagnvart viðskiptavinum sínum vegna þess tjóns sem þeir hafa orðið fyrir vegna háttsemi stefnda. Vegna þessarar háttsemi stefnda hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefnda beri að bæta ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.

Stefnandi kveðst krefjast þess að stefndi greiði sér 56.286.454 krónur vegna fjárdráttar, 15.548.800 krónur vegna húsaleigu sem greidd hafi verið framhjá stefnanda til tengds þriðja aðila og loks 30.000.000 króna vegna óheimilla gjafagerninga. Dráttarvaxtakrafa sé miðuð við 22. október 2015 og það sé sá dagur sem stefnandi hafi þingfest mál til staðfestingar kyrrsetningargerðar ásamt fjárkröfu stefnanda. Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna kröfuréttar og almennra skaðabótareglna. Vegna réttar til dráttarvaxta af dómkröfu sé vísað til laga nr. 38/2001 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi segir ljóst að ef ekki hefði orðið af kyrrsetningu eigna stefnda hefði skapast veruleg hætta á undanskoti eignanna meðal annars vegna vitneskju stefnda um yfirvofandi saka- og bótamál gegn honum vegna athafna hans. Öll fullnusta krafna stefnanda hefði á orðið mjög erfið ef ekki ómöguleg. Sé um mjög umfangsmikið mál að ræða um mikla fjármuni. Af þeim sökum telji stefnandi að öll skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 séu fyrir hendi, þannig að staðfesta beri kyrrsetningu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveðst hafa verið starfsmaður stefnanda í rúman aldarfjórðung. Hann hafi samið um starfslok með samkomulagi 26. júní 2015 auk viðauka.

Hinn 4. september 2015 hafi stefnandi kært stefnda til embættis sérstaks saksóknara vegna meints fjárdráttar. Stefndi kveðst mótmæla því að hann hafi sýnt af sér misferli í störfum sínum hjá stefnanda, engar sönnur hafi verið færðar á slíkt. Stefndi segir að í kjölfar kærunnar hafi hann gefið skýrslu hjá lögreglu hinn 29. september 2015. Í skýrslutökunni hafi hann ekki notið aðstoðar verjanda og verið í mjög slæmu ástandi í kjölfar heilablóðfalls sem hann hafi fengið árið 2014. Kveðst hann þjást af málstoli og eigi erfitt með að reikna, muna tölur og eiga í samræðum. Í bréfi Valdísar I. Jónsdóttur, tal- og raddmeinafræðings, dags. 5. október 2015, komi fram að of hart hafi verið gengið fram gagnvart stefnda í skýrslutöku. Telji Valdís nauðsynlegt að endurtaka yfirheyrsluna. Í kjölfarið hafi stefndi dregið til baka játningu sína í fyrri skýrslutöku, sbr. tölvubréf dagsett 9. október 2015. Andlegt og líkamlegt ástand hans við skýrslutökuna hafi verið með þeim hætti að meðferðaraðilar telji játningu hans undir þeim kringumstæðum ómarktækar.

Stefndi kveðst mótmæla öllum kröfum og málsástæðum stefnanda.

Stefndi segir stefnanda byggja kröfu sína á sakarreglunni. Af því leiði að stefnandi þurfi að sýna fram á í hverju hin ólögmæta og saknæma háttsemi stefnda hafi falist, orsakasambandi hennar milli og tjónsins og að tjónið sé sennilega afleiðing háttseminnar. Þetta hafi stefnandi ekki sýnt fram á.

Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á þessi atriði né sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi vísi, að mestu leyti án gagna og fullnægjandi rökstuðnings, til áætlaðs tjóns fremur en að hann leitist við að heimfæra einstakar málsástæður sínar til ákveðinna atvika og ætlaðrar saknæmrar háttsemi stefnda. Stefnandi leggi ekki fram gögn eða rökstyðji orsakasamband milli aðgerða og aðgerðaleysis stefnda og tjóns stefnanda.

Stefndi kveðst alfarið mótmæla sönnunargildi yfirheyrslu yfir sér. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um ástand stefnda við skýrslutökuna hafi „meintar játningar hans í skýrslutökunni“ ekkert gildi í málinu. Önnur dómskjöl sem stefnandi leggi fram til stuðnings nýjum stefnukröfum sínum, stafi öll frá stefnanda sjálfum, sem segi þau vera úr bókhaldskerfum sínum. Stefndi hafi ekki aðgang að bókhaldskerfunum og eigi því ekki möguleika á að sannreyna einstök skjöl eða þær tölur sem þar komi fram. Þá geti stefndi ekki sannað hvort eða hvenær einstökum skjölum hafi verið breytt í bókhaldskerfi stefnanda. Þá hafi stefnandi auk þess lagt fram skjöl sem virðist ekki eiga sér stoð í bókhaldskerfi stefnanda, heldur virðist tilbúin af stefnanda beinlínis vegna þessa máls.

Stefndi segir marga starfsmenn stefnanda, núverandi og þáverandi, hafa og hafa haft aðgang að bókhaldskerfi stefnanda. Ekki sé sannað að stefndi hafi framkvæmt einstakar millifærslur, auk þess sem hægt hafi verið og hægt sé að fara í kerfi stefnanda og breyta einstökum færslum og fjárhæðum þeirra.

Stefndi kveðst vísa til þess að fram komi í skýrslutöku af Gunnlaugi S. Guðlaugssyni að Gunnlaugur hafi látið Ólaf Jónsson sparisjóðsstjóra vita af millifærslum sem getið sé um í 1. kröfulið stefnanda. Ólafur hafi sagt Gunnlaugi að skipta sér ekki af því. Segi svo í skýrslutökunni: „Hann sagði sig hafa skoðað þetta aftur og þá hefði verið búið að laga þetta.“ Þá komi fram í skýrslutöku af Ólafi Jónssyni, dags. 23. mars 2016 að Ólafur segist ekki vita til þess að stefndi hafi haft aðgengi að reikningum og bókhaldi Hauks Jónssonar ehf. eða Guðrúnar Jónsdóttur ehf. Segir stefndi stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir því að þessum dómskjölum hafi ekki verið breytt vegna þessa máls. Stefnandi leggi ekki fram frumrit dómskjalanna, heldur aðeins afrit eða meintar útprentanir út úr tölvukerfum stefnanda. Sé efni skjalanna mótmælt. Standi stefnanda mun nær að afla sér frumrita þeirra millifærslukvittana þar sem hann segist leggja fram. Verði stefnandi að bera hallann af því að sönnunargildi ljósritaðra útprentana sem eigi að leggja fram í málinu verði talið lítið sem ekkert.

Stefndi segir skaðabótakröfu stofnast þegar bótaskyld háttsemi eigi sér stað. Því sé mótmælt að þau tilvik sem stefnandi krefjist skaðabóta fyrir hafi verið samfelld brot líkt og haldið sé fram í stefnu.  Stefnandi byggi í málatilbúnaði sínum á því að tjón sitt komi fram við hverja einstaka færslu sem hann kveði stefnanda hafa framkvæmt. Verði fallist á að stefnandi eigi skaðabótakröfu á þeim grundvelli sem hann byggir á, hafi slíkar kröfur stofnast þegar tjón hafi hlotist af hverri einstakri saknæmri háttsemi sem stefnandi telji stefnda hafa viðhaft.

Stefndi segir stefnanda vera fjármálafyrirtæki sem starfi samkvæmt lögum nr. 161/2002. Fyrir stefnanda hafi starfað innri og ytri endurskoðendur. Sérfræðingar og fagaðilar skoði því bókhald stefnanda ítarlega. Slíkir aðilar hafi séð, eða mátt sjá þær bókhaldsfærslur sem stefnandi telji stefnda bera ábyrgð á. Þannig komi fram í ársreikningum Báss ehf. 2010-2011 að félagið fái niðurfellingu skulda samkvæmt samkomulagi. Öll slík gögn eigi að vera til hjá stefnanda.

Stefndi segir að samkvæmt skýrslutöku af Gunnlaugi S. Guðlaugssyni, hafi hann látið Ólaf Jónsson, þáverandi sparisjóðsstjóra, vita af færslum vegna 1. kröfuliðar, að fjárhæð 47.761.094 krónur. Stefnandi hafi kosið að hafast ekki að. Starfsmaður stefnanda hafi því haft upplýsingar um hverja einstaka færslu við yfirferð endurskoðanda á bókhaldi stefnanda. Þá hafi stefnandi fengið nauðsynlegar upplýsingar eða borið að afla sér slíkra upplýsinga í skilning 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um hverja færslu. Stefnandi kveðst mótmæla því að 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 eigi við. Ákvæðið sé undantekning frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laganna og beri að túlka þröngt. Séu allar kröfur stefnanda fyrndar og því beri að sýkna stefnda.

Stefndi segir stefnanda hafa sýnt af sér aðgerðaleysi við að gæta meints réttar síns. Sé sýknukrafan byggð á því að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Verði í því sambandi að líta til almennra sjónarmiða kröfuréttar um tómlæti, svo sem aðgerðarleysi stefnanda í langan tíma þrátt fyrir vitneskju um einstakar millifærslur, góðrar trúar stefnda og þeirrar röskunar sem svo óvænt krafa hafi á líf stefnda. Sérstaklega beri að líta til þess að stefnandi sé fagaðili í fjármálaþjónustu sem hafi veruleg fjárhagsleg umráð, sérhæft starfsfólk og alla burði til þess að halda fram rétti sínum. Slíkum aðila beri að halda fram kröfum sínum án ástæðulauss dráttar, einkum þegar krafan beinist gegn einstaklingum.

Stefndi segist telja ósannað að hann hafi framkvæmt þær færslur sem stefnandi haldi fram að hafi valdið honum tjóni. Kveðst stefndi auk þess gera athugasemdir við málsástæður stefnda.

Vegna meints fjárdráttar að fjárhæð 56.284.454 krónur.

·                     Stefndi segir stefnanda lýsa því í stefnu að um sé að ræða tvær færslur og aðgerðir þeim tengdum af bankareikningi félagsins Báss ehf. Þá staðhæfir stefnandi að stefndi hafi séð um fjármál þess félags. Þeirri staðhæfingu sé mótmælt sem ósannaðri. Hið gagnstæða komi fram í skýrslutöku af Sveini Ástvaldssyni, sem hafi sagt það vera sína tilfinningu að Hilmar, stjórnarformaður Báss ehf., hafi verið sá sem allar ákvarðanir hafi tekið, án þess að það væri rætt innan félagsins, nema hugsanlega við bróður Sveins en þeir bræður hafi átt meirihlutann í félaginu. Stefndi segir að meintar aðgerðir sínar séu ekki rökstuddar í stefnu heldur vísað til nánar greindra gagna málsins. Af þeim gögnum verði hvorki ráðið hvort stefndi hafi framkvæmt þær aðgerðir sem lýst sé, né talið sannað að hann hafi dregið sér fjármuni að andvirði 47.761.094 krónur. Í stefnu sé ekki lýst orsakatengslum milli meintra aðgerða stefnda og meins tjóns stefnanda. Stefndi kveðst mótmæla því að hafa valdið stefnanda tjóni sem nemi þessari fjárhæð. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. 

Stefndi segir að telji stefnandi að skuld Báss ehf. að fjárhæð 47.61.094 krónur hafi ranglega verið felld niður geti hann innheimt þá fjárhæð hjá félaginu. Það félag sé enn starfandi og eigi eignir. Tjón stefnanda sé því ósannað. Á stefnanda hvíli skylda til að takmarka meint tjón sitt. Stefnandi geti gert það með því að innheimta fjárhæðina 47.61.094 hjá Bási ehf. Hafi stefndi ekki sinnt skyldu sinni til að takmarka tjón sitt. Hafi hann því glatað rétti sínum samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar til bóta fyrir það tjón sem leiði af vanrækslu hans. Beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið þegar af þessari ástæðu.

·                     Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi millifært tuttugu milljónir króna og þannig valdið sér tjóni. Þessi færsla sé sögð hafa verið framkvæmd 18. nóvember 2010. Stefndi segir ljóst að staðhæfingar stefnanda um tilurð þessarar færslu eigi ekki við rök að styðjast. Ljóst sé að umrædd millifærsla sé hluti af samkomulagi stefnanda við Bás ehf., dags. 18. nóvember 2010. Undir samkomulagið hafi ritað Ólafur Jónsson fyrrum sparisjóðsstjóri stefnanda. Sé það staðfest í skýrslutöku af Ólafi hjá lögreglu. Komi fram í skýrslutökunni að tuttugu milljónir króna hafi verið afskrifaðar í tengslum við leiðréttingu skulda félagsins Báss ehf. og hafi verið samþykkt af sparisjóðsstjóra og lánanefnd með hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi. Beri stefndi ekki skaðabótaábyrgð vegna þessarar færslu. Beri því að sýkna stefnda af þessari kröfu, enda sé ekki um saknæma eða ólögmæta háttsemi af hans hálfu að ræða.

Millifærsla að fjárhæð 27.761.094 krónur.

Stefndi segir stefnanda telja færslu að fjárhæð 27.761.094 krónur hafa átt sér stað hinn 15. júní 2011. Í þeim gögnum málsins, sem stefnandi telji að rökstyðji þennan kröfulið, sé í fyrsta lagi staðhæft að átt hafi verið við grunnupplýsingar reiknings Báss ehf., nr. 1102-26-2011, þannig að kennitölubreyting hafi verið gerð og nýr eigandi skráður. Stefndi segir ósannað að hann hafi framkvæmt þessar breytingar. Stefndi segir að í öðru lagi telji stefnandi að skuldir Báss ehf. að fjárhæð 27.761.094 krónur hafi verið að fullu afskrifaðar með færslu sem nefnd hafi verið innborgun. Ósannað sé að stefndi hafi framkvæmt þessa færslu. Í þriðja lagi telji stefnandi að grunnupplýsingar reikningsins 1102-26-611 hafi breyst þannig að Bás ehf., hafi aftur verið skráður eigandi hans. Gögn sem stefnandi leggi fram til stuðnings þessum kröfulið sanni ekki að stefndi hafi sýnt af sér háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda að fjárhæð 27.761.094 krónur. Ósannað sé að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Stefndi kveðst hafa upplýsingar um að embætti héraðssaksóknara hafi undir höndum skjal þar sem starfsmaður stefnanda heimili afskriftir að fjárhæð 27.761.094 krónur. Kveðst stefndi í greinargerð sinni áskilja sér rétt til að leggja skjalið fram um leið og afrit þess hafi borist.

270.000 krónur 30. desember 2007.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi tekið út af reikningi stefnanda 270.000 krónur og lagt inn á eigin reikning. Af gögnum málsins sé ekki ljóst að stefnandi eigi þann reikning sem tekið sé út af og tjón hans sé því ósannað.

2.738.500 krónur 13. mars 2008.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi tekið út af reikningi stefnanda 2.738.500 krónur og lagt inn á eigin reikning. Af gögnum málsins sé ekki ljóst að stefnandi eigi þann reikning sem tekið sé út af. Kveðst stefndi skora á stefnanda að upplýsa hver eigi reikninginn 1102-26-5103. Stefndi kveðst telja þennan reikning vera eða hafa verið í eigu Toppfisks hf. og um sé að ræða endurgreiðslu þess félags til stefnda á láni enda hafi stefndi lánað félaginu 2.650.000 krónur hinn 11. mars 2008. Tjón stefnanda vegna þessarar færslu sé því ósannað.

300.000 krónur þann 2. mars 2009.

Stefndi segir stefnanda hafa greitt vexti að fjárhæð 300.000 krónur án heimildar inn á tiltekinn reikning og síðan lagt sömu fjárhæð inn á sinn eigin reikning. Stefndi segir stefnanda ekki tiltaka í stefnu hvaða heimildir stefndi eigi að hafa farið í bága við.

200.000 krónur 18. maí 2009.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi tekið 200.000 krónur af reikningi félagsins Báss ehf. og lagt inn á reikning stefnda 8. maí 2009. Stefndi segir ósannað að hann hafi framkvæmt þessa færslu. Auk þess sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna hennar. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn um að hann hafi þurft að bæta Bási ehf. meint tjón vegna þessara færslna.

200.000 krónur 1. september 2009.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi tekið 200.000 krónur af reikningi félagsins Báss ehf. og lagt inn á reikning stefnda 1. september 2009. Stefndi segir ósannað að hann hafi framkvæmt þessa færslu. Auk þess sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna hennar. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn um að hann hafi þurft að bæta Bási ehf. tjón vegna þessarar færslu.

1.556.250 krónur hinn 20. desember 2009.

Stefndi segir stefnanda vísa til viðskiptakvittunar þar sem svo virðist sem tekið sé út af reikningi sonar stefnda og lagt inn á aðra reikninga. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa.

80.000 krónur hinn 21. janúar 2010.

Stefndi segir stefnanda vísa til málsgagna þar sem fram komi að lagðar hafi verið 590.512 krónur inn á reikning stefnanda og 80.000 krónur inn á reikning stefnda. Ósannað sé að stefndi hafi framkvæmt þessar færslur, auk þess sé ósannað hver hafi átt reikninginn er tekið hafi verið út af. Tjón stefnanda sé ósannað.

590.512 krónur hinn 19. mars 2010.

Stefndi segir stefnanda vísa til gagna þar sem fram komi að lagðar hafi verið 590.512 krónur inn á reikning félagsins Haukur Jónsson ehf. Ósannað sé að stefndi hafi framkvæmt þessar færslur, auk þess sé ósannað hver hafi átt reikninginn sem tekið hafi verið út af. Tjón stefnanda sé ósannað.

590.512 krónur hinn 19. mars 2010.

Stefndi segir að stefnandi vísi til gagna þar sem fram komi að lagðar hafi verið 590.512 krónur inn á reikninga stefnda. Ósannað sé að stefndi hafi framkvæmt þessar færslur, auk þess sé ósannað hver hafi átt reikninginn sem tekið hafi verið út af. Tjón stefnanda sé auk þess ósannað.

250.000 krónur hinn 7. júní 2010.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að stefndi hafi millifært 250.000 krónur af reikningi Báss ehf. inn á reikning stefnda. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessarar færslu.

539.650 krónur hinn 22. júní 2010.

Stefndi segir stefnanda lýsa því í stefnu að stefndi hafi millifært 539.650 krónur af tilteknum reikningi. Stefnandi lýsir því hins vegar ekki hver hafi verið eigandi þessa reiknings eða hvernig stefnandi verði fyrir tjóni af hinni meintu millifærslu. Tjón stefnanda sé ósannað.

300.000 krónur hinn 17. janúar 2011.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að stefndi hafi millifært 300.000 krónur af reikningi Báss ehf. inn á reikninga stefnda. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa.

376.500 krónur hinn 4. febrúar 2011.

Stefndi segir stefnanda lýsa því í stefnu að stefndi hafi millifært 376.500 krónur af tilteknum reikningi. Því sé hins vegar ekki lýst hver hafi verið eigandi reikningsins eða hvernig stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af hinni meintu millifærslu.

500.000 krónur hinn 17. febrúar 2011.

Stefndi segir stefnanda lýsa því að stefndi hafi millifært 500.000 krónur af tilteknum reikningi, stefnandi lýsir því hinsvegar ekki hver hafi verið eigandi reikningsins eða hvernig stefnandi verði fyrir tjóni af hinni meintu millifærslu.

250.000 krónur hinn 22. febrúar 2011.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að stefndi hafi millifært 250.000 krónur af reikningi Guðrúnar Maríu ehf. inn á reikning stefnda. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessarar færslu.

1.066.750 krónur hinn 29. mars 2011.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að stefndi hafi millifært 1.066.750 krónur af reikningi Báss ehf. inn á reikning stefnda. Stefndi segir ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa.

892.000 krónur hinn 1. apríl 2011.

Stefndi segir ósannað að hann hafi millifært þessa fjárhæð án heimildar, líkt og stefnandi haldi fram. Tjón stefnanda sé ósannað.

284.994 krónur hinn 17. apríl 2011.

Stefndi segir ósannað að hann hafi millifært þessa fjárhæð svo sem stefnandi haldi fram. Tjón stefnanda sé ósannað.

177.299. krónur hinn 29. nóvember 2011.

Stefndi segir ósannað að hann hafi millifært þessa fjárhæð líkt og stefnandi haldi fram. Tjón stefnanda sé ósannað.

138.805 krónur hinn 30. nóvember 2011.

Stefndi segir ósannað að hann hafi millifært þessa fjárhæð. Tjón stefnanda sé ósannað.

300.000 krónur hinn 30. ágúst 2012.

Stefndi segir ósannað að hann hafi millifært þessa fjárhæð. Tjón stefnanda sé ósannað.

Vegna meintra umboðssvika.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að stefndi hafi leigt félaginu Bási ehf. herbergi í húsnæði stefnanda að Aðalgötu 34 á Siglufirði. Stefnandi segir leiguverðið hafa verið 4.340 krónur á mánuði, auk hita. Stefnandi leggi ekki fram leigusamning til stuðnings fullyrðingum sínum. Þá telji stefnandi ennfremur að stefndi hafi framleigt umrætt herbergi til félagsins Kredia ehf. fyrir 361.600 krónur á mánuði án heimildar. Samningur um þessa meintu framleigu sé ekki lagður fram. Ósannað sé að þessi framleiga hafi átt sér stað. Tjón stefnanda vegna þessa sé ósannað. Ósannað sé að stefndi hafi fengið greiðslu vegna þessarar meintu framleigu og ósannað að hann hafi sent reikning. Umboðssvik séu ósönnuð. Stefnandi hafi ekki fært sönnur á atriði sem leitt hafi til tjóns fyrir hann. Stefndi segir sönnun orsakatengsla milli ætlaðs tjóns og bótaskyldrar háttsemi vera forsendu í bótaskyldu.

Vegna meintra óheimilla gjafagerninga.

Stefndi segir að skilyrði sakarreglu sé ekki uppfyllt að því er þennan kröfulið varði.

Meint afskrift að fjáræð 20.000.000 króna.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi afskrifað án heimildar 20.000.000 krónur hjá Reisum byggingafélagi ehf. 25. mars 2013. Félagið hafi hins vegar verið úrskurðað gjaldþrota hinn 19. október 2012. Stefnandi útskýri ekki í stefnu hvaða heimildir stefndi hafi brotið með þessu. Tjón stefnanda sé ósannað, enda um gjaldþrota félag að ræða. Ósannað sé að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi.

Samkomulag um bætur að fjárhæð 3,5 milljónir króna.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum tjónagreiðslu sem félagið Kambur ehf. hafi greitt til Báss ehf. Stefndi segir ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Ósannað sé að stefndi hafi tekið fjármuni án heimildar af afskriftareikningi stefnanda. Í gögnum málsins komi fram að Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri votti samkomulag um bætur vegna tjóns

Vegna afléttingar veða.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi aflétt veði af bifreiðinni OS 307 án heimildar. Vísi stefnandi því til stuðnings til nánar greinds dómskjals. Á því skjali komi nafn stefnanda ekki fram. Liggi auk þess ekkert að baki þeirri staðhæfingu stefnanda að skuldir sem þessu veði hafi verið ætlað að tryggja hafi verið afskrifaðar. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og ósannað að hann hafi valdið þessu tjóni.

Vegna veðflutnings.

Stefndi segir stefnanda halda því fram að stefndi hafi heimildarlaust samþykkt veðflutning og veðbandslausn tiltekins tryggingarbréfs. Stefndi segir ósannað að hann hafi framkvæmt þetta án heimildar. Gögn málsins styðji ekki fullyrðingar stefnanda um að veðið hafi átt að tryggja skuldir félagsins Joachim ehf. eða að afskrifa hafi þurft þær. Ekkert liggi fyrir um þessar skuldir eða afskrift þeirra. Meint tjón stefnanda sé ósannað. Skilyrði sakareglna sé ekki uppfyllt.

 

Stefndi kveðst vegna alls þessa ítreka að ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamband eða rökræn tengsl milli málsástæðna og kröfugerðar stefnanda. Tjón stefnanda sé ósannað. Stefnandi hafi ekki lýst athöfnum eða háttsemi stefnda sem valdið hafi stefnanda tjóni. Engri saknæmri ólögmætri háttsemi sé til að dreifa af hálfu stefnda samkvæmt þeim gögnum sem stefnandi hafi lagt fram.

Stefndi segir að í kyrrsetningarbeiðni stefnanda, dags. 2. október 2015, sé því haldið fram að höfuðstóll kröfu stefnanda sé 178.261.094 krónur. Upphaflegri kröfu hans hafi verið vísað frá dómi. Í þessu máli telji stefnandi höfuðstól kröfu sinnar vera 105.835.254 krónur. Hafi stefnandi því lækkað kröfu sína um 72.425.840 krónur frá því kyrrsetningin hafi verið framkvæmd til 5. október 2015. Þannig hafi stefnandi viðurkennt að verulegur hluti kröfu sinnar hafi ekki átt við rök að styðjast. Af framangreindum málsástæðum stefnda verði einnig ráðið að hin nýja krafa stefnanda eigi ekki við rök að styðjast. Kyrrsetning eigna sé íþyngjandi þvingunarúrræði sem beita beri af sérstakri varúð. Augljóst sé að stefnandi hafi farið offari í beitingu úrræðisins. Stefndi kveðst telja stefnanda hafa bakað sér bótaskyldu með aðgerðum sínum og afleiðingum þeirra. Hafi stefnandi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi með því að leggja fram kyrrsetningarbeiðni þar sem höfuðstóll hafi verið alltof hár. Kveðst stefndi krefjast sýknu af kröfu stefnanda að einhverju eða öllu leyti samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 27. gr. laganna. Stefndi segir skaðabótakröfu byggða á 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. sérstaklega 1., sbr. 4. mgr. Erfitt sé fyrir að sanna fjárhæðir hins fjárhagslega tjóns að öllu leyti og því sé gerð krafa um að skaðabætur verði dæmdar að álitum. Þá sé einnig ljóst að ólögmæt kyrrsetningargerð hafi valdið stefnda miska, meðal annars hugarangri, og verið fjölskyldu hans þungbær. Í 42. gr. laga nr. 31/1990 sé mælt fyrir um að gerðarþola skuli bættur sá miski sem telja megi að gerðin hafi valdið.

Stefndi segir að verði hann talinn hafa valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, byggi hann til vara á því að fella eigi skaðabótaábyrgð hans niður samkvæmt 1. mgr. 23. og 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna skuli líta til þess hve mikið tjóni sé, eðlis bótaábyrgðar, aðstaða tjónvalds, hagsmuna tjónþola, vátryggingaaðila og annarra atvika. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu sem orðið hafi að skaðabótalögum sé þessari lækkunarreglu lýst þannig að draga megi úr ábyrgð eða fella hana niður ef bótaábyrgð yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt megi telja að hann greiddi fullar bætur. Þessari reglu sé beitt þegar talið sé óviðunandi, í ljósi félagslegra viðhorfa og mannúðarsjónarmiða, að leggja þá byrði á tjónvald að greiða fullar bætur. Þannig sé það fyrst og fremst fjárhagur tjónvalds sem skipti máli þegar meta skuli hvort beita eigi heimildinni. Önnur atriði, sem talin séu í greininni, umfang tjóns, eðli bótaábyrgðar, hagsmunir tjónþola og vátryggingar sem fyrir hendi væru hafi einnig áhrif þegar meta skuli hvort ósanngjarnt sé að leggja tjónsbyrði á tjónvaldinn. Stefndi segir ljóst að stefnandi hafi kyrrsett allar sínar eigur. Nái stefnukrafa fram að ganga megi ljóst vera að stefndi verði gjaldþrota. Auk þess beri að líta til þess að stefnandi sé að öllum líkindum vátryggður fyrir tjóni sínu eða hefði átt að vera það. Stefndi kveðst telja stefnanda hafa vátryggingu vegna meints tjóns og kveðst skora á stefnanda að upplýsa um slíkt. Auk lækkunarkröfu kveðst stefndi krefjast þess að til lækkunar stefnukröfu komi laun samkvæmt samkomulagi um starfslok, dagsett 26. júní 2015 ásamt viðauka. Stefndi hafi mótmælt riftun stefnanda á samkomulaginu. Stefnandi hafi hafnað sjónarmiðum stefnda, en hins vegar viðurkennt að skulda honum 4.131.400 krónur. Stefndi segir að á stefnanda hvíli sú skylda að takmarka tjón sitt. Stefnandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni með því að innheimta kröfur sem hann telji stefnda hafa ranglega fellt niður. Stefnandi beri hallann af því að hafa ekki takmarkað tjón sitt með því að innheimta kröfur sínar. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hafi stefnandi því glatað rétti sínum til bóta fyrir það tjón sem leiði af vanrækslu hans. Öllum kröfum um dráttarvexti sé mótmælt. Dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfum stefnanda frá dómsuppsögudegi. Kröfur stefnanda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem hafi gert stefnda nauðsynlegt að taka til varna í málinu. Auk þess hafi kröfum stefnanda verið vísað frá dómi og nýjar kröfur fyrst komið fram með stefnu dagsettri 22. júní 2016. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti tafa af málinu sem eingöngu verði raktar til hans sjálfs. Kveðst stefndi að þessu leyti vísa til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi kveðst vísa til meginreglna laga nr. 91/1991 um sönnun og sönnunarbyrði. Hann kveðst vísa til sakarreglu og skilyrða hennar. Hann kveðst vísa til laga nr. 31/1990, nr. 90/1989 og nr. 50/1993. Málskostnaðarkrafa sín eigi stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að líta til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Niðurstaða

Fyrir dómi var tekin vitnaskýrsla af Guðjóni Marinó Ólafssyni fyrrverandi starfsmanni sparisjóðsins en ekki voru aðrar skýrslutökur.

Stefndi gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara. Hann telur sönnunargildi þeirrar skýrslu ekkert. Framburður hans í yfirheyrslunni er í stórum dráttum á þá leið að hann kveðst kannast við þær færslur og aðgerðir sem bornar eru undir hann, kveðst hafa verið að verki, segist ítrekað hafa verið „að stela“ og að engir aðrir hafi þar komið að. Hann gefur hins vegar ekki sjálfstæða frásögn af þeim aðgerðum sem hann kveðst kannast við að hafa framkvæmt og útskýrir ekki þær ekki sérstaklega. Rakið hefur verið bréf Valdísar Ingibjargar Jónsdóttur tal- og raddmeinafræðings, en hún var ekki leidd fyrir dóminn. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu að vegna þess sem þar kemur fram eða af öðrum ástæðum sé ekkert mark takandi á framburði stefnda í skýrslutökunni. Verður að telja líkur gegn því að fyrrum starfsmaður stefnda, sem engan hlut hefði átt að þeim málum sem ræddar voru í yfirheyrslunni, hefði svarað á þann veg sem stefndi gerði. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að stefndi svarar því meðal annars til í yfirheyrslunni að hann segi bara „já við öllu“.

Stefnandi byggir fjárkröfur sínar í fyrsta lagi á 22 tilvikum þar sem hann telur stefnda hafa gerst sekan um fjárdrátt. Stefnandi hefur lagt fram afrit viðskiptakvittana til stuðnings þeim kröfum sínum. Á þeim kvittunum kemur fram að stefndi sé sá starfsmaður sem framkvæmt hafi færslurnar. Að mati dómsins hefur ekkert marktækt komið fram sem bendir til þess að einhverjir aðrir hafi notað aðgang stefnda og framkvæmt færslurnar í hans nafni eða gögnum um færslurnar hafi verið breytt eftir á í því skyni að láta líta út fyrir að stefndi hefði verið að verki. Í ýmsum tilvikum rennur fé samkvæmt þessum færslum inn á reikninga stefnda sjálfs og hefur ekkert komið fram um að hann hafi gert athugasemdir við slíkar innlagnir eða leitað skýringa eða leiðréttinga á þeim. Hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að óþekktur aðili hafi í þeim tilvikum notað aðgang stefnda til að leggja í hans nafni fé inn á reikninga hans. Verður að miða við að viðskiptakvittanirnar séu réttar.

Stefndi byggir á því að millifærsla að fjárhæð tuttugu milljónir króna til Báss ehf. sé „hluti af samkomulagi stefnanda við félagið Bás ehf., dags. 18. nóvember 2010“, en undir það samkomulag hafi Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri skrifað. Enn fremur vísar stefndi til orða Ólafs í skýrslutöku, þess efnis að félagið hafi fengið „leiðréttingu“ sem numið hafi fimmtán til tuttugu milljónum króna. Að mati dómsins getur slíkt samkomulag ekki skýrt þær hreyfingar sem hér eiga í hlut. Samkvæmt viðskiptakvittun eru tuttugu milljónir króna færðar 18. nóvember 2010 af reikningi félags, sem enga starfsemi mun þá hafa haft, yfir á reikning Báss ehf. og er „hlutafé“ skráð á kvittunina. Önnur viðskiptakvittun, dags. 25. nóvember 2010, sýnir 18.142.916 króna afskrift á reikningi nafngreinds viðskiptamanns og tíu milljónir króna færðar af þeim reikningi á reikning þess félags sem viku áður hafði lagt inn hjá Bási ehf. Aðrar viðskiptakvittanir sýna þær hreyfingar sem stefnandi byggir á í þessu sambandi. Á öllum er stefndi sagður sá starfsmaður sem framkvæmdi hreyfingarnar. Engin þörf var á þessum færslum til að framkvæma einfalda skuldalækkun sem sparisjóðurinn hefði í raun með samkomulagi heitið viðskiptamanni. Það skjal, dags. 18. nóvember 2010, „samkomulag um lækkun skulda“, og undirritað er af Ólafi Jónssyni sparisjóðsstjóra, og það sem eftir Ólafi er haft í skýrslu, breytir ekki því að telja verður sannað í máli þessu að stefndi hafi framkvæmt umræddar færslur sem leitt hafi til þess að staða Báss ehf. gagnvart sparisjóðnum batnaði um tuttugu milljónir króna, á kostnað sjóðsins. Verður ekki talið að þetta hafi honum verið heimilt. Hefur hann þannig með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sparisjóðnum, sem stefnandi leiðir rétt sinn af, tjóni sem þessu nemur og ber bótaábyrgð á því.

Viðskiptakvittun sýnir að hinn 30. júní 2011 voru lagðar 27.761.094 krónur á reikning nr. 1102-26-000611 af afskriftareikningi sparisjóðsins. Stefndi er skráður sem sá starfsmaður sem framkvæmdi færsluna. Samkvæmt viðskiptakvittuninni er nafngreindur einstaklingur eigandi reiknings nr. 1102-26-000611. Útprentanir úr fjárhagskerfi sparisjóðsins sýna að hinn 15. júní sama ár var upplýsingum um reikninginn breytt, þannig að umræddur einstaklingur var skráður eigandi reikningsins í stað Báss ehf. Á annarri útprentun úr kerfinu sést að hinn 6. október sama ár er Bás ehf. aftur skráður eigandi reikningsins. Er sannað að stefndi hafi með færslunni stuðlað að því að skuldir Báss ehf. við sparisjóðinn lækkuðu um 27.761.094 krónur og verður að miða við að sparisjóðurinn hafi orðið fyrir tjóni að sama skapi. Verður ekki talið að þetta hafi stefnda verið heimilt. Hefur hann þannig með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sparisjóðnum, sem stefnandi leiðir rétt sinn af, tjóni sem þessu nemur og ber bótaábyrgð á því.

Bankastofnun ábyrgist gagnvart innstæðueigendum að innstæðan standi þeim til boða, eftir nánari reglum um hvern innlánsreikning. Lækki starfsmaður banka­stofnunarinnar innstæðu viðskiptamanns hennar ranglega, og færi á annan reikning viðskiptamanninum óviðkomandi, leiðir það til tjóns bankastofnunarinnar sem þarf að geta staðið viðskiptamanninum skil á innstæðunni. Skiptir þar ekki máli hvort viðskiptamaðurinn hefur krafið bankastofnunina um inneign sína eða ekki.

Í fyrsta lið fjárkröfu sinnar, tl. 2 til 22, rekur stefnandi færslur sem hann kveður stefnda hafa framkvæmt og felist í því að stefndi færi fjármuni af einstökum reikningum, sem ekki voru í hans eigu, og leggi inn á aðra reikninga, oftast sína eigin en einnig aðra, eins og rakið hefur verið. Er þetta stutt viðskiptakvittunum sem bera með sér að stefndi hafi framkvæmt færslunnar. Eins og áður segir eru engin efni til að miða við annað. Er þannig sannað að stefndi hafi framkvæmt færslurnar og með þeim fært fé með þeim hætti sem rakið er í stefnu. Í engu tilfelli hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi haft heimild til þessara færslna. Starfsmaður bankastofnunar sem færir fé af reikningum viðskiptamanna stofnunarinnar yfir á eigin reikninga ber sönnunarbyrðina af því að honum hafi verið slíkt heimilt.

Vegna færslu að fjárhæð 2.738.500 krónur hinn 13. mars 2008 kveðst stefndi telja að fært hafi verið af reikningi félagsins Toppfisks ehf. og þar hafi sér verið endurgreitt lán, en hann hafi lánað félaginu 2.650.000 krónur hinn 11. mars sama ár. Gögn málsins veita því stoð að stefndi hafi í raun greitt slíka fjárhæð til þess félags hinn 11. mars og raunar 88.500 krónur hinn 5. mars. Það fær ekki breytt því að hann hefur ekki lagt neitt fram í málinu sem sýnt geti að hann hafi í raun haft heimild til að færa 2.738.500 krónur af reikningi félagsins. Liggur þar hvorki fyrir umboð né greiðslubeiðni frá félaginu. Ekki liggja heldur fyrir í málinu hugsanlegir samningar stefnda og félagsins vegna hinnar ætluðu lánveitingar. Við svo búið er ekki hægt að leggja til grundvallar að stefnda, starfsmanni sparisjóðsins, hafi verið heimilt að millifæra af reikningi félagsins á eigin reikning.

Með vísan til framanritaðs er sannað í málinu að stefndi hafi framkvæmt þær færslur sem hér um ræðir. Verður ekki talið að þetta hafi stefnda verið heimilt. Hefur hann þannig með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sparisjóðnum, sem stefnandi leiðir rétt sinn af, tjóni sem þessu nemur og ber bótaábyrgð á því.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi viðhaft umboðssvik að fjárhæð 15.548.800 krónur. Stefnandi lýsir umboðssvikunum þannig að stefnandi hafi leigt félaginu Bási ehf. herbergi í húsnæði á Aðalgötu 34 á Siglufirði „á kr. 4.340,- á mánuði auk hita“. Stefndi hafi hins vegar án heimildar framleigt herbergi þetta til annars félags fyrir 361.600 krónur á mánuði og hafi þannig valdið stefnanda „gríðarlegu tjóni í töpuðum leigutekjum“.

Stefnandi leggur sjálfur til grundvallar að hann hafi leigt félaginu Bási ehf. umrætt herbergi á þeim kjörum sem rakin voru. AFL-sparisjóður og annar forveri hans, Sparisjóður Siglufjarðar, ráku starfsemi á Siglufirði frá árinu 1873. Gera verður ráð fyrir að sparisjóðurinn hafi í ljósi stöðu sinnar sem fjármálastofnun á Siglufirði farið æði nærri um líklegt leiguverð slíks herbergis í bænum. Sú staðreynd að hann kaus að leigja herbergið út á 4.340 krónur á mánuði auk hita, bendir ekki sérstaklega til þess að eðlilegt leiguverð slíks herbergis sé 361.600 krónur eða svo. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir „gríðarlegu tjóni í töpuðum leigutekjum“ vegna þeirrar framleigu sem stefndi hafi stundað. Gögn málsins benda að vísu til þess að stefndi hafi í raun fengið mánaðarlegar greiðslur af þessu tagi, en það eitt færir ekki sönnur á að sparisjóðnum hefðu staðið slíkar leigugreiðslur til boða ef ekki hefði komið til það sem hann nefni framleigu stefnda. Hefur hvorki verið útskýrt né sannað að AFL sparisjóður hefði í raun getað leigt herbergið út fyrir rúmlega áttugfalt það leiguverð sem sparisjóðurinn sjálfur hafði samið um, er hann leigði frá sér herbergið til Báss ehf.

Stefnandi kveðst hafa leigt fyrirtækinu Bási ehf. herbergið en stefndi hafi svo framleigt það til annars fyrirtækis. Er ekki skýrt í stefnu hvernig því viki við að það fyrirtæki semji um slíka leigu við stefnda, en ekki er byggt á því að Bás ehf. hafi áður leigt herbergið áfram til stefnda. Þegar á framanritað er horft þykja kröfur stefnanda samkvæmt þessum lið svo vanreifaðar að þeim verður vísað frá dómi.

Loks byggir stefnandi fjárkröfur sínar á því að stefndi hafi viðhaft umboðssvik er falist hafi í óheimilum gjafagerningum er alls nemi 30 milljónum króna.

Stefnandi byggir fyrst á því að stefndi hafi án heimildar afskrifað tuttugu milljónir króna hjá fyrirtækinu Reisum byggingarfélagi ehf. hinn 25. mars 2013. Sama dag hafi félagið aftur byrjað að safna skuldum með því að ganga á yfirdráttarheimild sína, en það hefði ekki verið hægt samkvæmt lánareglum, ef ekki hefði komið til afskrifta. Samkvæmt gögnum málsins rann talsverður hluti þeirra greiðslna, sem félagið innti af hendi, til sparisjóðsins sjálfs, en félagið greiddi greiðslukortaskuld við sparisjóðinn að fjárhæð 1.108.508 krónur og vaxtanótur. Alls munu greiðslur félagsins, sem runnu annað en til sparisjóðsins eftir afskrift, hafa numið 1.959.184 krónum. Í stefnu er látið við það sitja að byggja á því að stefndi hafi valdið stefnanda tuttugu milljóna króna tjóni með heimildarlausri afskrift en í stefnunni er hvorki rakið hvert greiðslur félagsins eftir afskrift hafi runnið né hvað innheimst hafi af skuldum félagsins. Fyrir liggur að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta en í stefnu er ekki rakið hvort kröfu hafi verið lýst í búið né þá hvort nokkuð hafi fengist upp í slíka kröfu. Þá er ekki reifað hvað ætla mætti að sparisjóðurinn hefði fengið greitt af kröfu sinni ef ekki hefði komið til afskriftar. Þegar á allt þetta er horft þykir kröfuliður þessi svo vanreifaður að honum verður vísað frá dómi.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi án heimildar notað afskriftareikning sparisjóðsins til að fjármagna viðgerð á þaki húsnæðis Kambs bifreiða- og vélaverkstæðis ehf. Með þeirri viðskiptakvittun sem lýst var er sannað að stefndi framkvæmdi slíka færslu. Ekkert hefur komið fram um að það hafi honum verið heimilt en afskriftareikningur er ekki ætlaður til slíks. Stefndi byggir á því að sparisjóðsstjóri sé vottur að samkomulaginu sem gert hafi verið milli Kambs bifreiða- og vélaverkstæðis ehf. og Báss ehf. Samkomulagið snýst um greiðslu sem Kambur bifreiða- og vélaverkstæði ehf. skuli greiða Bási ehf. en ekkert segir um það í samkomulaginu að afskriftareikningur sparisjóðsins skuli í raun standa straum af því. Vottun sparisjóðsstjórans getur því ekki á neinn hátt veitt heimild til þess. Verður að líta svo á að með umræddri færslu af afskriftareikningi hafi stefndi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sparisjóðnum, sem stefnandi leiðir rétt sinn af, tjóni sem þessu nemur og beri bótaábyrgð á því.

Loks byggir stefnandi á því stefndi hafi hinn 9. maí 2014 án heimildar samþykkt veðflutning og veðbandslausn á tryggingarbréfi, upphaflega að fjárhæð 6.500.000 krónur, sem hvílt hafi á 1. veðrétti á einbýlishúsi á Eyrargötu 15 á Siglufirði, að áætluðu markaðsvirði 25,6 milljónir króna. Tryggingarbréfið hafi verið fært á aftasta veðrétt á Aðalgötu 10 á Siglufirði, og þar staðið á eftir skuldum sem numið hafi um níutíu milljónum króna. Þær skuldir, sem veðinu hafi verið ætlað að tryggja, hafi verið afskrifaðar.

Skjalinu er greindi veðflutninginn hefur verið lýst. Ágreiningslaust er að stefndi hafi ritað undir skjalið. Augljóst er að það veð sem sparisjóðurinn fékk við þetta var að miklum mun lakara en það sem hann hafði áður. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að stefndi hafi haft heimild til þessarar gjörðar eða að hún hafi þjónað hagsmunum sparisjóðsins. Á hinn bóginn hefur ekkert verið sannað um það tjón sem af þessu hefur leitt en engin gögn hafa verið lögð fram um heimtu þeirrar skuldar sem veðinu var ætlað að tryggja. Þykir krafa þessi svo vanreifuð að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi.

Samkvæmt 1. mgr 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist skaðabótakrafa á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Að mati dómsins var það fyrst eftir starfslok stefnda sem sparisjóðnum varð tjón sitt ljóst og hver bæri ábyrgð á því. Það sem eftir Gunnlaugi Stefáni Guðleifssyni gjaldkera er haft í yfirheyrsluskýrslu um orð hans við sparisjóðsstjóra og stefnda er ekki þess eðlis að telja verði að sparisjóðnum hafi borið að afla sér upplýsinga sem gert hefðu tjónið að einhverju leyti ljóst. Þótt sparisjóðurinn hafi notið þjónustu innri og ytri endurskoðunar verður ekki talið að honum hafi hlotið að verða tjón sitt ljóst eða mátt verða það ljóst fyrr en raun ber vitni. Það að í ársreikningi Báss ehf. sé getið um afskrift þykir ekki verða til þess að fyrningarfrestur byrji að líða. Þegar á allt er horft þykja kröfur stefnanda ekki fallnar niður vegna fyrningar.

Stefnandi mun ekki hafa freistað að innheimta fé hjá þeim aðilum sem hann telur hafa auðgast á heimildarlausum gjörðum stefnda. Verður það ekki til þess að bótaréttur stefnanda gagnvart stefnda falli niður. Engin efni eru til að lækka bótakröfurnar vegna aðstöðumunar aðila eða annarra þeirra atriða er stefndi byggir á, að öðru leyti en vegna skuldajöfnuðar svo sem síðar verður rakið.

Með vísan til alls framanritaðs verða kröfur að fjárhæð 59.784.454 krónur teknar til greina. Þá verður stefnda gert að greiða dráttarvexti sem reiknast skulu frá þingfestingu stefnu er geymdi þær fjárkröfur sem til úrlausnar eru í málinu. Í greinargerð sinni krafðist stefndi þess að til lækkunar kæmu laun samkvæmt samkomulagi um starfslok auk viðauka, og vísaði meðal annars til þess að stefnandi hefði viðurkennt að skulda stefnda 4.131.400 krónur. Síðastnefnda atriðið fær stoð í bréfi stefnanda til stefnda dags. 19. nóvember 2015 og verður sú fjárhæð dregin frá dæmdri fjárhæð. Ekki eru efni til frekari frádráttar stefnukrafna vegna starfslokasamnings stefnda, en í því felst ekki sérstök niðurstaða um hugsanleg réttindi stefnda samkvæmt samkomulaginu eða um réttmæti riftunar samningsins.

Mál þetta er einkamál en ekki sakamál. Í dóminum er engu slegið föstu um hvort einstakar gjörðir stefnda feli í sér brot á almennum hegningarlögum eða séu af öðrum ástæðum refsiverðar.

Skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir kyrrsetningu eru uppfyllt, en í ljósi tjónsatvikanna og eðlis þeirra verður talið að án kyrrsetningar muni draga mjög úr líkum á því að stefnanda takist að ná fullnustu krafna sinna. Kyrrsetningargerð verður staðfest og þykir hér ekki skipta máli að dæmd fjárhæð er talsverðu lægri en byggt var á er kyrrsetningarbeiðni var lögð fyrir sýslumann. Engin efni eru til að dæma stefnda bætur vegna kyrrsetningarinnar. Stefnda verður gert að greiða stefnanda málskostnað sem í ljósi atvika allra en einnig með hliðsjón af upphaflegum dómkröfum og málsúrslitum ákveðst 500.000 krónur. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda fór Katrín Rúnarsdóttir hdl. með málið en Tómas Hrafn Sveinsson hrl. af hálfu stefnda. Málið dæma Þorsteinn Davíðsson og Erlingur Sigtryggsson héraðsdómarar og Guðrún Torfhildur Gísladóttir lögg. endurskoðandi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Magnús Stefán Jónasson, greiði stefnanda, Arion banka hf., 55.653.054 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. júní 2016 til greiðsludags.

Staðfest er kyrrsetning sýslumannsins á Norðurlandi eystra, 5. október 2015, á fasteignunum Hvanneyrarbraut 35, Siglufirði, fnr. 213-0510 og eignarhluta stefnda í Fákafeni 13, Siglufirði, fnr. 213-0181, ökutækjunum Mercedes Benz 500SEL, fnr. DZ106, Subaru Impreza GL, fnr. RG710, Subaru Impreza, fnr. RL886, Nissan Patrol Y608, fnr. RH920, Toyota Land Cruiser 120, fnr. PT657 og Nissan Patrol, fnr. RU164, hestakerru, fnr. BV380, 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Topphestum ehf., kt. [...], eignarhluta stefnda í fyrirtækinu Hálendi Íslands ehf., kt. [...] og innstæðum bankareikninga stefnda nr. 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-26-[...], nr. 1102-15-[...], nr. 1102-18-[...], nr. 1102-18-[...]og nr. 1102-38-[...].

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.