Print

Mál nr. 364/2017

Taxus ehf. (Einar Páll Tamimi lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður, Styrmir Gunnarsson lögmaður 3. prófmál)
Lykilorð
  • Aðild
  • Fjármálafyrirtæki
  • Handveð
Reifun

Ágreiningur aðila sneri að því hvort að krafa sem E ehf. var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 112/2015 gert að greiða G hf., sem áður bar heitið G banki hf., hefði verið tryggð með veði samkvæmt tilgreindri handveðsyfirlýsingu. Samkvæmt yfirlýsingunni setti E ehf. að handveði til tryggingar öllum skuldbindingum sínum gagnvart G banka hf. stöðu allra peningamarkaðslána félagsins hjá bankanum. Fyrir lá að E ehf. hafði veitt G banka hf. peningamarkaðslán í tvígang á árinu 2008 en þeim lánum var síðar breytt í bundin innlán og þau framlengd þar til þau voru greidd af Í hf. til GH ehf., sem áður bar nafnið G hf. Þá hafði E ehf. veitt Í hf. bundið innlán á árinu 2011 sem einnig var deilt um hvort félli undir hið veðsetta samkvæmt handveðsyfirlýsingunni. Undir rekstri málsins í héraði var bú E ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók kröfuhafinn T ehf. við rekstri málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið vék stjórn G banka hf. frá í október 2008 og skipaði bankanum skilanefnd hefði eftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda hins fallna banka til nýs banka sem nú bar heitið Í hf. Meðal þess sem ráðstafað hefði verið til hins nýja banka voru innlán sem E ehf. hafði veitt hinum fallna banka og framangreind handveðréttindi. Á hinn bóginn hefðu afleiðusamningar og fleiri samningar E ehf. orðið eftir hjá hinum fallna banka sem um síðir hefði krafið E ehf. um greiðslu skuldar samkvæmt samningunum og fengið áðurnefndan dóm fyrir skyldu E ehf. til greiðslu hennar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefði Í ehf. borið að standa GH ehf. skil á handveðsettum verðmætum til tryggingar þeirri kröfu og hefði það verið gert í kjölfar dómsins. Talið var að handveðsyfirlýsingin hefði tekið til framangreindra verðmæta er þau voru afhent bankanum og Í hf. og að þau verðmæti sem komið hefðu í þeirra stað hefðu einnig fallið undir handveðið. Var Í hf. því sýknað af kröfu T ehf. um endurgreiðslu lánanna þriggja.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2017. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 474.160.811 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 20. október 2008 til greiðsludags, en til vara að honum verði gert að greiða sér 2.980.609,66 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. október 2008 til greiðsludags, 1.013.720,03 danskar krónur með sömu dráttarvöxtum frá 8. maí 2009 til greiðsludags og 131.130,21 norskar krónur með sömu dráttarvöxtum frá 31. október 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta var höfðað fyrir héraðsdómi af Eignarhaldsfélagi RS ehf. Er málið var tekið fyrir 4. janúar 2017 var bókað í þingbók að bú félagsins hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2016. Jafnframt að fyrir stefnanda hafi mætt nafngreindur lögmaður vegna skiptastjóra þrotabúsins. Loks var bókað: ,,Í samræmi við framangreint er aðild stefnanda breytt með þeim hætti að stefnandi málsins er þrotabú Eignarhaldsfélags RS ehf.“ Við næstu fyrirtöku í málinu 12. janúar 2017 var bókað: ,,Skiptastjóri í stefnanda ... upplýsir að á skiptafundi hafi verið samþykkt að fela kröfuhafanum Taxus ehf. að reka mál þetta fyrir dóminum af hálfu þrotabúsins, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991.“

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti upplýsti lögmaður áfrýjanda að félagið hefði tekið við rekstri málsins og reki það í eigin nafni og á eigin kostnað og ábyrgð en til hagsbóta fyrir þrotabúið. Félagið gæti krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því marki sem þrotabúinu kynni að áskotnast fé af málarekstrinum. Að réttu lagi átti þrotabúið þessu til samræmis ekki að teljast aðili að málinu eftir þinghaldið 12. janúar 2017. Samkvæmt framangreindu og þar sem stefndi hefur ekki haft uppi dómkröfur sem varða aðild að málinu getur sá annmarki, sem lýst hefur verið á aðild þess, engu breytt um niðurstöðuna.

II

 Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvort krafa að fjárhæð 5.474.701.040 krónur auk vaxta, sem Eignarhaldsfélag RS ehf. var með dómi Hæstaréttar 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 gert að greiða Glitni hf., hafi verið tryggð með veði samkvæmt handveðsyfirlýsingu 10. ágúst 2007 að því marki sem hin veðsettu verðmæti hrykkju til. Samkvæmt yfirlýsingunni setti félagið að handveði til tryggingar öllum skuldbindingum sínum gagnvart Glitni banka hf. verðmæti sem tilgreind voru þannig: ,,Staða allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Í yfirlýsingunni sagði einnig: ,,Sé veðsett skjal innleyst má bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum hlutum skuldbindinga veðsala. ... Verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum veðsala gagnvart bankanum, er honum heimilt að selja handveðið eða koma því í verð á hvern þann hátt annan, sem hann kýs, og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á þeim, allt að vali bankans, fyrirvaralaust og án aðvörunar. Bankinn má og neyta alls þess réttar, sem útgefandi/veðsali hefur sjálfur yfir hinu veðsetta, svo sem að veita viðtöku öllum tekjum eða arði, er veðið gefur af sér. Yfirlýsing þessi felur jafnframt í sér umboð til bankans til þess að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt það sem með þarf og hann álítur sér hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar.“

Eignarhaldsfélag RS ehf. veitti veðhafanum, Glitni banka hf., peningamarkaðslán í tvígang í ágúst og september 2008, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þeim lánum var svo breytt í það sem nefnt var bundið innlán og þau framlengd þar til þau voru greidd af stefnda til Glitnis HoldCo ehf., sem er núverandi nafn áðurgreinds veðhafa. Þá veitti Eignarhaldsfélag RS ehf. stefnda bundið innlán í nóvember 2011, sem einnig er deilt um hvort falli undir hið veðsetta samkvæmt handveðsyfirlýsingunni.

Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið vék stjórn Glitnis banka hf. frá og skipaði bankanum skilanefnd 7. október 2008 tók eftirlitið ákvörðun 14. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda hins fallna banka til nýs banka, Nýja Glitnis banka hf., sem nú ber nafn stefnda. Meðal þess sem ráðstafað var til hins nýja banka voru innlán þau, sem Eignarhaldsfélag RS ehf. hafði veitt hinum fallna banka og handveðréttindi þau, sem áður greinir. Á hinn bóginn voru afleiðusamningar og fleiri samningar eignarhaldsfélagsins eftir hjá hinum fallna banka, sem um síðir krafði það um greiðslu skuldar samkvæmt þessum samningum og fékk í desember 2015 áðurnefndan dóm fyrir skyldu þess til greiðslu skuldarinnar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins bar stefnda að standa Glitni HoldCo ehf. skil á handveðsettum verðmætum til tryggingar þeirri kröfu sem síðastgreint félag átti á hendur Eignarhaldsfélagi RS ehf. Var það gert í janúar 2016 í kjölfar áðurgreinds dóms Hæstaréttar.

Fallist verður á með héraðsdómi að handveðsyfirlýsingin hafi tekið til framangreindra verðmæta er þau voru afhent bankanum og stefnda og að þau verðmæti sem komið hafa í þeirra stað falli einnig undir handveðið. Að gættu öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, Taxus ehf.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 26. apríl 2017

I

Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu en dagsetningu birtingar er þó ekki getið. Stefnandi er Taxus ehf., fyrir hönd þrotabús Eignarhaldsfélags RS ehf., en stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Málið var þingfest af Eignarhaldsfélagi RS ehf. 20. september 2016. Þegar undirritaður dómari tók málið fyrst fyrir 4. janúar 2017 var upplýst að bú stefnanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 5. október 2016. Því til samræmis var aðild stefnanda breytt með þeim hætti að stefnandi málsins væri þrotabú Eignarhaldsfélags RS ehf. Í fyrirtöku málsins 12. janúar 2017 var upplýst að á skiptafundi hafi verið samþykkt að fela kröfuhafanum Taxus ehf. að reka mál þetta fyrir dóminum af hálfu þrotabúsins.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 474.160.811 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 448.581.754 krónum frá 20. október 2008, af 471.455.333 krónum frá 8. maí 2009 og af 474.160.811 krónum frá 31. október 2011 til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.980.609,66 evrur (EUR), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 20. október 2008 til greiðsludags; 1.013.720,03 danskar krónur (DKK), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 8. maí 2009; og 131.130,21 norska krónu (NOK), auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 31. október 2011 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II

Stefnandi er einkahlutafélag og mun hafa verið stofnaður á árinu 2004. Stefnandi mun hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum við Glitni banka hf. um afleiður og gjaldeyri. Hinn 10. ágúst 2007 gerðu stefnandi, sem þá hét RedSquare Invest ehf., og Glitnir banki hf. með sér samning um gjaldeyrisstýringu. Samkvæmt samningnum tók bankinn við 50 milljónum króna ,,til sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri samkvæmt skilmálum samnings þessa“. Tekið er fram í 1. kafla samningsins að stefnanda sé hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hafi þegar afhent bankanum ,,og gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Þá skyldi stefnandi tilkynna um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara, vildi hann lækka umrætt fjármagn. Áskilið er að stefnandi tilkynnti um breytingar á fjármagni sínu með sannanlegum hætti. Þá er tekið fram að fjárfestingarframlag stefnanda á hverjum tíma verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningur þessi er í gildi“. Féð verði handveðsett til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem væri undirrituð samhliða þessum samningi.

Samkvæmt umboði sem fylgir umræddum samningi veitti stefnandi bankanum ,,fullt og ótakmarkað umboð til þess að gera samninga með gjaldeyri í nafni [stefnanda], í samræmi við samning um gjaldeyrisstýringu“. Tekið er fram í umboðinu að það næði jafnframt meðal annars til þess að stofna í nafni stefnanda bankareikninga og gjaldeyrisreikninga hjá bankanum og að ráðstafa greiðslum inn og út af bankareikningum í samræmi við framangreindan samning. Umboðið skyldi gilda þar til samningur stefnanda við bankann um gjaldeyrisstýringu félli úr gildi.

Sama dag, 10. ágúst 2007, gaf stefnandi út handveðsyfirlýsingu til Glitnis banka hf. Með yfirlýsingunni setti stefnandi að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Tekið er meðal annars fram í handveðsyfirlýsingunni að sé ,,veðsett skjal innleyst [megi] bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum hlutum skuldbindinga veðsala“. Verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum veðsala gagnvart bankanum sé honum heimilt að selja handveðið eða koma því í verð á hvern þann hátt sem hann kýs og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á þeim, allt að vali bankans, fyrirvaralaust og án aðvörunar. Þá feli yfirlýsingin í sér umboð til bankans til þess að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt sem með þurfi og bankinn álíti sér hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar.

Hinn 7. nóvember 2007 undirritaði fyrirsvarsmaður stefnanda samþykki þar sem hann lýsir því meðal annars yfir að hann hafi fengið og samþykkt meðfylgjandi verklagsreglur Glitnis um framkvæmd viðskiptafyrirmæla og að hann hafi reglulegan aðgang að internetinu og samþykki að fá framvegis upplýsingar með rafrænum hætti, þar með talið af vefsíðu Glitnis. Með eyðublaðinu var því lýst að starfsemi stefnanda væri fjárfestingarfélag og að ,,þekking og reynsla“ stefnanda af fjármálgerningum væri ,,mikil reynsla“. Þar áður, eða 6. janúar 2006, hafði stefnandi ritað undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Íslandsbanka hf. Aðilar máls eru sammála um að stefnandi var fagfjárfestir.

Mál þetta á rætur að rekja til innlána stefnanda hjá stefnda. Í fyrsta lagi er ágreiningur um tvo samninga sem stefnandi gerði við Glitni banka hf. um peningamarkaðslán. Fyrri samningurinn var gerður 18. ágúst 2008 og er auðkenndur nr. FD0000081972. Lánið var að fjárhæð 2.939.500 evrur og var á gjalddaga mánuði síðar, 18. september sama ár. Vextir voru ákveðnir 8,28 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 20.958,64 evrur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 2.958.362,78 evrur. Hinn 18. september 2008 var samningurinn framlengdur og var nýr gjalddagi ákveðinn 20. október sama ár. Vextir voru ákveðnir 9,40 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 24.718,76 evrur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 2.980.609,66 evrur. Síðari samningurinn var gerður 22. september 2008 og er auðkenndur nr. FD0000084369. Lánið var að fjárhæð 956.475 danskar krónur og var á gjalddaga 8. maí 2009. Vextir voru ákveðnir 10,5 ársvextir og skyldi greiða vextina, að fjárhæð 63.605,59 danskar krónur, á gjalddaga. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 1.013.720,03 danskar krónur. Í báðum samningunum eru almennir skilmálar sem eru samhljóða. Þar er tekið fram að um samninginn gildi ,,Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti í Glitni banka hf.“ og ,,Almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaviðskipti“, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998 (1. útgáfa) sem stefnandi hafi kynnt sér og samþykkt.

Hinn 7. október 2008 var Glitni banka hf. skipuð skilanefnd og þann 14. október sama ár tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun á nánar tilgreindum eignum og skuldum bankans til stefnda, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Ekki er um það deilt að umrædd peningamarkaðslán voru á meðal þeirra skuldbindinga sem færðust yfir til stefnda. Skuldir stefnanda við Glitni banka hf. voru hins vegar ekki fluttar yfir til stefnda. Með dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 var stefnandi dæmdur til þess að greiða Glitni hf., áður Glitni banka hf., 5.474.701.040 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, á grundvelli tveggja samninga, annars vegar samnings um framvirk skuldabréfakaup og hins vegar skiptasamnings.

Peningamarkaðslánið nr. FD0000081972 var framlengt einhliða af stefnda tvívegis, frá 20. október 2008 til 12. janúar 2009 og aftur frá 12. janúar 2009 til 1. júlí 2009. Eftir það var fjárhæð lánsins, 3.008.499,01 evra, lögð inn á reikning sem bundið innlán. Stefndi hefur síðar framlengt lánið ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu lánsins var það á gjalddaga 30. september 2013 og nam þá 3.056.213,17 evrum. Framlögð gögn eru misvísandi um hvort peningamarkaðslánið nr. FD0000084369 var framlengt eftir 8. maí 2009 eða fjárhæð lánsins þá þegar lögð inn á reikning sem bundið innlán, en í málatilbúnaði aðila miða báðir aðilar við að lánið hafi verið framlengt einhliða af stefnda einu sinni frá 8. maí 2008 til 1. júlí 2009. Eftir þann dag hefur stefndi framlengt lánið ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu bundna lánsins var það á gjalddaga 30. september 2013 og nam þá 1.028.280,79 dönskum krónum.

Ágreiningur er í öðru lagi um bundið innlán stefnanda hjá stefnda. Lánið var veitt 4. október 2011 og var á gjalddaga 31. október sama ár. Fjárhæð lánsins var 130.949,50 norskar krónur. Að sögn stefnda er fjárhæðin til komin vegna sölu á verðbréfum sem hafi verið í tryggingasafni stefnanda. Lánið skyldi bera 2,30% ársvexti og átti að greiða vextina, að fjárhæð 225,89 norskar krónur, á gjalddaga lánsins. Á gjalddaga skyldi bankinn því greiða samtals 131.130,21 norska krónu. Stefndi framlengi lánið eftir það einhliða frá 31. október 2011 til 30. nóvember sama ár og síðan ítrekað. Samkvæmt síðustu framlengingu lánsins var það á gjalddaga 31. október 2013 og nam þá 134.531,08 norskum krónum.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2013, krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum andvirði peningamarkaðslánsins í evrum og lánsins frá 4. október 2011 auk dráttarvaxta. Stefndi hafnaði þeirri kröfu með bréfi, dags. 4. desember 2013. Stefnandi ítrekaði kröfu sína með bréfi, dags. 6. desember 2013, en stefndi hafnaði kröfunni aftur með bréfi, dags. 11. desember 2013.

Í janúar 2016 greiddi stefndi Glitni Hold Co ehf., áður Glitnir banki hf., andvirði innstæðna stefnanda. Í samræmi við undanþágu Seðlabanka Íslands til Glitnis, dags. 16. desember 2015, var fjárhæðin greidd Seðlabankanum þann 4. febrúar 2016.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 5. október 2016, var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglu fjármunaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Tilvist og efni þeirra þriggja samninga um lánveitingar stefnanda til stefnda séu óumdeild. Allir samningarnir hafi haft umsaminn gjalddaga og á þeim tíma hafi stefnda borið að greiða stefnanda skuld samkvæmt samningunum. Þannig hafi stefnda borið að greiða stefnanda 2.980.609,66 evrur þann 20. október 2008, 1.013.720,03 danskar krónur þann 8. maí 2009 og 131.130,21 norska krónu þann 31. október 2011.

Samningarnir um lánin hafi með engu móti takmarkað frjálsan ráðstöfunarrétt stefnanda á hinum lánuðu fjármunum eftir að gjalddagi lánanna var kominn og stefnda bar að endurgreiða þá stefnanda. Lánunum hafi ekki verið ætlað að framlengjast sjálfkrafa, enda hafi stefnandi hvorki samið um slíkt við Glitni hf. né stefnda. Stefnandi hafi heldur aldrei samið við stefnda um framlengingu neins þeirra þriggja lána sem um ræðir. Óundirritaðar kvittanir fyrir svokölluðum framlengingum lánanna hafi enga þýðingu og ljóst sé að lánin hafi aldrei verið framlengd svo gildi hefði gagnvart stefnanda.

Enn síður sé fyrir hendi viðskiptavenja um sjálfkrafa framlengingu peningamarkaðslána viðskiptamanna til fjármálafyrirtækja eða samninga slíkra aðila um bundin innlán. Peningamarkaðslán geti hvort heldur er verið innlán eða útlán. Þannig semji stefndi og önnur fjármálafyrirtæki bæði um peningamarkaðslántökur frá viðskiptamönnum sínum og peningamarkaðslánveitingar til þeirra. Væri viðskiptavenja fyrir því að peningamarkaðslán framlengdust sjálfkrafa, hlyti það einnig að fela í sér að þegar viðskiptamenn fjármálafyrirtækja væru lántakar slíkra lána, framlengdust lán til þeirra sjálfkrafa, án þess að það fjármálafyrirtæki sem væri lánveitandi þyrfti að hafa að því nokkurn atbeina. Viðskiptamanni myndi aldrei lánast að byggja á slíkri venju gagnvart fjármálafyrirtæki. Það geti stefndi heldur ekki gert gagnvart stefnanda. Það sama eigi við um bundin innlán.

Stefnda hafi verið í lófa lagið að koma greiðslum til stefnanda á gjalddögum lánanna þriggja. Stefndi hafi haft allar upplýsingar um bankareikninga stefnanda, þar á meðal um óbundinn innlánsreikning félagsins hjá bankanum nr. 515-26-4240. Teldi bankinn vafa leika á að hann fullnægði greiðsluskyldu sinni með því að leggja endurgreiðslur lánanna inn á þann reikning, hefði honum verið rétt að geymslugreiða umrædda fjármuni, sbr. 1. gr. laga nr. 9/1978, um geymslufé.

Ástæða þess að stefnandi gerði ekki fyrr kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu peningamarkaðslána sinna til hans, sé sú að stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til þess að láta reyna á fullyrðingar Glitnis hf. og stefnda um að Glitnir hf. ætti veðrétt í endurgreiðslum lánanna þriggja. Háttsemi stefnda hafi síðan ekki gert annað en að gefa röngum staðhæfingum hans og Glitnis hf. aukna vigt. Þannig hafi stefnandi aldrei fengið upplýsingar frá stefnda um vörslur eða meðferð umræddra fjármuna né nein yfirlit eða tilkynningar þar að lútandi, fyrr en hann hafi sjálfur kallað eftir þeim á seinni hluta árs 2013. Fullyrðingar stefnda um annað í samskiptum aðila séu rangar og ósannaðar.

Stefndi og Glitnir hf. hafi á því tímabili sem um ræðir farið með endurgreiðslurnar sem renna áttu til stefnanda eins og þær væru þeirra eigið fé og þeim til frjálsrar ráðstöfunar. Það sjáist best á því að þessir aðilar hafi gert tugi samninga sín á milli eða við sjálfa sig um ráðstöfun þeirra. Framangreind háttsemi sé ein ábyrg fyrir því að stefndi hafi ekki hafist handa við innheimtu endurgreiðslnanna fyrr en hann hafi loks fengið afrit af handveðsyfirlýsingu sinni til Glitnis hf. Þá fyrst hafi hann getað staðreynt þann rétt sem hann hafi alltaf talið sig eiga og lagt fram gögn sem staðfestu þann rétt.

Efni handveðsyfirlýsingar stefnanda til Glitnis hf. sýni að fullyrðingar stefnda og Glitnis hf. um tryggingarréttindi hins síðarnefnda yfir endurgreiðslum lánanna þriggja séu rangar. Samkvæmt tryggingarbréfinu hafi Glitni banka hf. verið sett að handveði „[s]taða allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Framangreind veðsetning hafi hins vegar ekki náð til neinna annarra fjármuna stefnanda hjá bankanum en peningamarkaðslána, hvorki innlána né nokkurrar annarrar inneignar stefnanda hjá bankanum. Hún hafi heldur ekki náð til peningamarkaðslána hjá neinum öðrum en Glitni banka hf.

Stefnandi hafi aldrei, hvorki í handveðsyfirlýsingunni né annars staðar, gengist undir neins konar skuldbindingu um að peningamarkaðsinnlán hans hjá Glitni banka hf. næmu einhverri lágmarksfjárhæð á hverjum tíma eða að einhver tiltekin peningamarkaðslán skyldu framlengjast umfram gjalddaga. Stefnandi hafi þurft að samþykkja slíka skuldbindingu með ótvíræðum hætti til að hún væri til staðar. Fyrir tilvist slíkrar skuldbindingar hafi stefndi sönnunarbyrði. Þvert á móti geri handveðsyfirlýsingin sjálf ráð fyrir að staða þeirra peningamarkaðslána sem þar séu sett að veði geti breyst. Það að sérstaklega sé getið um það í yfirlýsingunni að veðið nái einnig til vaxta sem falli til, sýni að þegar talað sé um stöðu peningamarkaðslánanna eins og hún sé á hverjum tíma sé ekki átt við breytingar á stöðu þeirra vegna áfallinna vaxta.

Skuldbindingar sem takmarki ráðstöfunarheimildir veðsala yfir fjármunum sem handveðsettir eru fjármálafyrirtækjum séu síður en svo óþekktar, en þær séu þá undantekningarlaust skýrar og ótvíræðar. Þannig sé því háttað með handveðsyfirlýsingu stefnanda gagnvart Glitni hf. varðandi VS-reikning hans hjá bankanum nr. 67621. Í þeirri yfirlýsingu segi: „Rafræn verðbréf í safninu eru varðveitt á VS-reikningi í umsjón Glitnis banka hf. sem einn hefur aðgang að hinu veðsetta og einn hefur heimild til þess að ráðstafa bréfunum á meðan veðsetning þessi varir.“ Þessi munur á efni handveðsyfirlýsinganna staðfesti enn frekar að þeir fjármunir sem losnuðu þegar peningamarkaðslán stefnanda til Glitnis banka hf. runnu út hafi átt að vera honum til frjálsrar ráðstöfunar.

Þar sem umrædd peningamarkaðslán hafi ekki verið framlengd af stefnanda eftir að þau runnu sitt skeið, hafi stefnandi ekki átt nein peningamarkaðslán hjá stefnda frá gjalddaga þeirra. Hvorki Glitnir banki hf. né neinn annar aðili hafi því átt tryggingarréttindi yfir umræddum fjármunum frá þeim tíma.

Álitamál kunni að vera hvort peningamarkaðslán, sem stofnað var til við Glitni hf. en sem flutt var fyrir gjalddaga til stefnda vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, falli undir þau veðréttindi þar til lánið sé á gjalddaga. Telji dómurinn að stofnast hafi til peningamarkaðslána frá stefnanda til stefnda hljóti að vera óumdeilt að slík lán geti ekki fallið undir handveðsyfirlýsinguna.

Telji dómurinn framlengingar stefnda á lánunum þremur hafa eitthvert gildi, hafi lánin í evrum og dönskum krónum ekki verið peningamarkaðslán frá 1. júlí 2009, annars vegar, og 8. maí 2009, hins vegar. Frá því tímamarki hafi þau verið svokölluð bundin innlán. Lánið í norskum krónum hafi alla tíð verið svokallað bundið innlán. Þegar af þessum sökum hafi lánin í evrum og dönskum krónum ekki getað fallið undir handveðsyfirlýsinguna frá ofangreindum dagsetningum og lánið í norskum krónum hafi aldrei getað gert það. Þannig geti samþykki dómsins við gildi þeirra framlenginga sem stefndi hafi haldið fram, aldrei haft önnur áhrif en að færa gjalddaga tveggja lánanna aftur til 1. júlí og 8. maí 2009 og lækka dráttarvexti sem því nemur en áhrifin á þriðja lánið væru engin.

Leiki einhver vafi á skýringu ákvæða handveðsyfirlýsingar stefnanda til Glitnis hf. verði að líta til þess að veðhafi hafi verið fjármálafyrirtæki á þeim tíma sem um ræðir, hann hafi samið handveðsyfirlýsinguna og það hafi staðið upp á hann að tryggja að orðalag yfirlýsingarinnar endurspeglaði með ótvíræðum hætti vilja hans. Hafi eitthvað skort þar á verði Glitnir hf. að bera hallann af því.

Stefnandi byggir fjárhæð aðalkröfu sinnar á því að vegna fyrirmæla Seðlabanka Íslands til íslensku bankanna strax við efnahagshrunið haustið 2008, reglna bankans um gjaldeyrismál frá 28. nóvember 2008, sem voru fyrstar í röð slíkra reglna sem síðan hafa felldar úr gildi og nýjar innleiddar, ásamt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sé rétt að meta endurgreiðslur stefnanda til íslenskra króna á gjalddögum þeirra og reikna dráttarvexti sem eigi við um íslenskar krónur af viðkomandi fjárhæðum. Framangreindar reglur hafi leitt til þess að ekkert hafi verið hægt að gera við þær erlendu myntir sem lánin voru í þegar þau voru á gjalddaga, annað en að lána þær íslenskum fjármálafyrirtækjum svo gott sem vaxtalaust. Því verði að telja augljóst að stefnandi hafi skipt endurgreiðslunum í íslenskar krónur. Þar sem það sé alfarið sök stefnda að stefnandi hafi ekki fengið fjármunina á gjalddögum lánanna verði sönnunarbyrðin lögð á hann um að stefndi hafi ekki skipt peningunum úr gagnslausri erlendri mynt í nothæfar íslenskar krónur. Í öllu falli verði ekki lögð rík sönnunarbyrði á stefnanda um það atriði. Þá verði einnig að líta til þess að á gjalddögum lánanna hafi gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum, sem stefnda bar að endurgreiða stefnanda lánin í, verið afar lágt og því aldrei hagstæðara að skipta erlendum myntum í krónur.

Stefnandi byggir fjárhæð varakröfu sinnar á því að dómurinn hafi ekki fallist á að rétt sé að miða við að stefnandi hafi skipt endurgreiðslum lánanna í íslenskar krónur. Sé þá gerð krafa um að stefndi inni endurgreiðslurnar af hendi í samningsmyntum og að dráttarvextir verði reiknaðir með þeim hætti sem við eigi um myntirnar.

Stefnandi byggir á almennum reglum fjármunaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Þá byggir hann á almennum reglum samningaréttarins um stofnun löggerninga. Loks byggir stefnandi á lögum nr. 9/1978, um geymslufé. Krafa um dráttarvexti byggist á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 5. gr. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi afhent stefnda fjármuni til tryggingar efndum viðskiptasamninga sem Glitnir banki hf. hafi gert fyrir hönd stefnanda. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015 hafi stefnandi skuldað Glitni banka hf. röska 5,4 milljarða króna auk dráttarvaxta vegna uppgjörs skiptasamninga. Stefndi hafi nú afhent hina veðsettu fjármuni til veðhafans, Glitnis hf., í þágu stefnanda og til lækkunar á skuld hans samkvæmt umræddum dómi. Þar með hafi stefndi losnað undan skuldbindingum sínum samkvæmt upphaflegum samningum og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá október 2008. Veði hafi aldrei verið aflétt af fjármununum og því hafi aldrei stofnast til þeirrar greiðsluskyldu gagnvart stefnanda sem málsókn hans byggi á.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi 10. ágúst 2007 gert samning við Glitni banka hf. um gjaldeyrisstýringu. Þar komi fram að stefnandi óski eftir því að bankinn taki við 50 milljónum króna til sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri og sé viðskiptamanni hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hefur afhent bankanum til fjárfestingar samkvæmt samningnum og „gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Óski viðskiptamaður eftir lækkun á umræddu fjármagni skuli hann tilkynna það með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara með sannanlegum hætti. Í samningnum sé jafnframt kveðið á um að fjárfesting viðskiptamanns á hverjum tíma verði varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningurinn sé í gildi og að fjármunirnir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum. Starfsmenn bankans muni taka einhliða ákvarðanir um fjárfestingastefnu og einstakar fjárfestingar og samninga. Viðskiptamaður geti ekki krafist breytinga á samningnum né mælt fyrir um framkvæmd einstakra viðskipta.

Samningurinn sé ótímabundinn og gildi frá samningsdegi en sé uppsegjanlegur af hálfu samningsaðila og skuli uppsögn gerð með sannanlegum hætti með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Samkvæmt samningnum hafi Glitnir banki hf. fullt og ótakmarkað umboð á gildistíma samningsins til að gera samninga í nafni viðskiptamanns í samræmi við samninginn. Ljóst sé af samningnum að umboðið nái til undirritunar allra skjala sem séu nauðsynleg í tengslum við viðskiptin, ráðstöfun greiðslna inn og út af bankareikningum, uppgjörs samninga, stofnun peningamarkaðsinnlána, ráðstöfunar andvirðis samninga og gerðar nýrra samninga. Umboðið gildi á meðan samningur sé í gildi og fjármunir séu handveðsettir á meðan samningurinn sé í gildi.

Stefnandi hafi gengist undir hina almennu skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. í janúar 2006. Þar séu ítarleg ákvæði um það hvernig staðið sé að töku trygginga við upphaf viðskipta, viðbótartryggingar o.fl. Aðilar hafi átt í samskiptum á árinu 2008 um fyrirkomulag trygginga og kjör af þeim innstæðum sem stóðu til tryggingar.

Peningamarkaðslán stefnanda og framangreindur samningur hafi flust yfir til stefnda  með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun á nánar tilgreindum eignum og skuldum Glitnis banka hf. til stefnda, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, en tryggingaréttindin hafi þó áfram verið hjá Glitni á grundvelli 2. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

Hinn 12. ágúst 2008 hafi Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnanda, sent tölvupóst til Glitnis banka hf. þar sem hann hafi óskað eftir að bankinn taki við frekari innlánum í gjaldeyri. Þeir fjármunir hafi fallið undir fjárfestingar eða tryggingar fyrir þeim samkvæmt samningnum. Einnig sé ljóst af tölvupósti frá 1. febrúar 2008 að umrædd innlán séu til tryggingar á afleiðuviðskiptum. Þegar stefnandi hafi afhent stefnda 130.949,50 norskar krónur 4. október 2011 hafi þær einnig fallið undir framangreindan samning um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsingu stefnanda frá því í ágúst 2007.

Stefnandi hafi ekki sagt upp framangreindum samningi um gjaldeyrisstýringu og sé hann því enn í gildi. Þá hafi stefnandi ekki óskað eftir lækkun á þeirri upphæð sem sé í gjaldeyrisstýringu hjá bankanum. Samkvæmt skýrum ákvæðum samningsins hafi stefndi haft fullt leyfi til að framlengja umrædd innlán og því sé enginn grundvöllur fyrir endurgreiðslukröfu stefnanda í málinu.

Fallist dómurinn ekki á að umrædd innlán falli undir samning stefnanda um gjaldeyrisstýringu, telur stefndi allt að einu enga stoð fyrir kröfum stefnanda þar sem framkvæmd stefnda sé í alla staði í samræmi við venjur í bankaviðskiptum sem stefnandi eigi að þekkja.

Hinn 26. október 2007 hafi stefnanda borist tilkynning frá Glitni banka hf. um að hann væri flokkaður sem fagfjárfestir og þeirri flokkun hafi ekki verið andmælt, m.a. í áðurnefndu hæstaréttarmáli. Af fyrrnefndri tilkynningu megi sjá að með fagfjárfestum sé átt við viðskiptavini sem búa yfir mikilli reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu og að skyldur fjármálafyrirtækis gagnvart þeim séu minni en gagnvart almennum fjárfestum. Þá liggi fyrir undirrituð yfirlýsing frá stefnanda, dags. 7. nóvember 2007, þar sem fram komi að stefnandi sé fjárfestingarfélag og hafi mikla reynslu af fjármálagerningum og staðfest sé að stefnandi hafi fengið og samþykki verklagsreglur Glitnis um framkvæmd viðskiptafyrirmæla.

Þá hafi Jón Snorrason, stjórnarformaður, prókúruhafi og eigandi stefnanda og Sveinn Biering Jónsson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi stefnanda undirritað almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Íslandsbanka hf. þann 14. maí 2007. Í skilmálunum komi fram að þeir gildi um öll markaðsviðskipti. Þá komi skýrt fram í samningunum um peningamarkaðslánin og framlengingu þeirra að almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti gildi um samningana. Í skilmálunum komi m.a. skýrt fram að bankinn ábyrgist ekki tilkynningar til viðskiptamanns um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk. Það sé á ábyrgð viðskiptamanns að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hafi gert við bankann.

Sem fagfjárfesti, sem átti að baki fjölda peningamarkaðsinnlána hjá Glitni banka hf., hafi stefnanda mátt vera ljóst að venjan varðandi slík innlán, þegar þau standi til tryggingar skuldbindingum, sé að þau séu framlengd, á sambærilegum kjörum og tímabili og fyrri lán, hafi lánveitandi ekki samband við bankann fyrir gjalddaga og mæli fyrir um framlengingu eða aðra ráðstöfun. Þá hafi stefnanda mátt vera ljóst að veðsett peningamarkaðslán yrðu ekki greidd út á tékkareikning veðþola. Óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi ekki haft samband við stefnda vegna framangreindra innlána árum saman. Framlenging stefnda á innlánunum hafi því verið í fullu samræmi við venjur, bæði í bankaviðskiptum almennt og í viðskiptum milli stefnanda og stefnda.

Stefndi byggir enn fremur á því að umræddir fjármunir hafi verið handveðsettir og því hafði stefnandi ekki haft rétt til að fá þá greidda frá stefnda. Það felist í eðli handveðsetningar að veðsali sé sviptur umráðum hins veðsetta, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Sjá megi af 2. mgr. 22. gr. sömu laga að handveðréttur öðlist réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hafi að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum.

Þetta komi skýrt fram í handveðsyfirlýsingu, dags. 10. ágúst 2007, þar sem segi að stefnandi hafi handveðsett Glitni banka hf. stöðu allra peningamarkaðslána félagsins hjá bankanum eins og hún sé á hverjum tíma. Handveðsyfirlýsingunni sé einnig ætlað að ná til fjármuna sem bankinn veiti viðtöku eftir undirritun yfirlýsingarinnar. Jafnframt komi skýrt fram í handveðsyfirlýsingunni að bankinn megi neyta alls þess réttar, sem veðsali hafi sjálfur yfir hinu veðsetta og feli handveðsyfirlýsingin í sér umboð til að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt það sem þurfi og hann álíti hagkvæmt til þess að handveðið geti komið honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar.

Tryggingaréttindi á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar hafi orðið eftir í Glitni banka hf. við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um uppskiptingu eigna og skulda bankans, en veðandlagið hafi flust til stefnanda. Verði ekki séð að það breyti neinu hvað varðar réttindi og skyldur veðsala og veðhafa.

Þá verði ekki séð að það hafi nokkur áhrif á gildi veðsetningarinnar hvort umrædd innlán séu nefnd peningamarkaðslán eða bundnar innstæður, enda sé um að ræða sömu fjármunina. Verði ekki talið að bundnar innstæður falli undir orðalag handveðsyfirlýsingarinnar bendi stefndi á að veðhafi og vörslumaður veðsins skuli samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 7. gr. laga um samningsveð annast um veðið og hafa eftirlit með því á þann hátt sem nauðsyn krefji hverju sinni. Þá sé í handveðsyfirlýsingunni kveðið á um heimild veðhafa til að framkvæma allt það sem með þurfi til að veðið komi honum að notum. Því hafi stefnda verið heimilt að varðveita fjármunina á þann hátt sem hann taldi best til þess fallna að varðveita veðandlagið og því eigi endurgreiðslukrafa stefnanda ekki rétt ár sér.

Aðalkrafa stefnanda sé um að stefndi greiði honum nánar tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum. Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að rétt sé að meta greiðslur til íslenskra króna á gjalddögum krafnanna og reikna dráttarvexti sem eiga við um íslenskar krónur af viðkomandi fjárhæðum. Stefnandi hafi ekki á neinn hátt sýnt fram á staðhæfingar sínar um að ekkert hafi verið hægt að gera við þær erlendu myntir sem lánin voru í þegar þau voru á gjalddaga.

Stefndi byggir einnig á því að jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi á einhverjum tíma átt rétt á greiðslu hinna umdeildu innlána, eigi að sýkna vegna tómlætis og aðgerðarleysis stefnanda. Þau innlán sem deilt sé um í málinu séu frá 18. ágúst 2008, 22. september 2008 og 4. október 2011. Stefnanda hafi verið send yfirlit yfir stöðu þeirra og annarra innlána og útlána sinna hjá Glitni banka hf. og síðar stefnda við lok árs 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012. Þá hafi stefnandi með yfirlýsingu, dags. 7. nóvember 2007, samþykkt að fá framvegis allar upplýsingar með rafrænum hætti. Því liggi fyrir að stefnandi hefur hvenær sem er haft möguleika á að kanna stöðu umræddra innlána í heimabanka félagsins. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi engin afskipti haft af framangreindum innlánum fyrr en með bréfum, dags. 18. nóvember og 6. desember 2013, þegar hann hafi krafist endurgreiðslu innlánanna frá árinu 2008. Eftir það hafi stefnandi ekki haft samband við stefnda vegna umræddra innlána, þrátt fyrir hvatningu þar um í bréfi stefnda frá 11. desember 2013, fyrr en með málshöfðun þessari haustið 2016. Þá hafi stefnandi aldrei krafist endurgreiðslu innlánsins frá 2011 fyrr en með höfðun máls þessa, meira en fimm árum frá því að samningur um innlánið var gerður.

Skýringar stefnanda á þessum töfum standist enga skoðun, enda hafi hann haft aðgang að öllum gögnum í heimabanka og hafi hvenær sem er getað óskað eftir öllum gögnum um málið frá stefnda, en slík beiðni hafi aldrei borist stefnda. Margir mánuðir hafi liðið frá því að stefnandi hafi, að eigin sögn, haft nægilegan grundvöll til að hafa kröfur sínar uppi, eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 112/2015 3. desember 2015, þar til hann höfðaði mál þetta. Þó hafi öll gögn þess máls legið fyrir frá árinu 2013 og því standist fullyrðingar stefnanda um að hann hafi þurft að bíða niðurstöðu málsins enga skoðun. Telja verði að hafi stefnandi talið sig eiga kröfur á stefnda hafi honum verið skylt að hafa þær uppi miklu fyrr. Krafa stefnanda sé svo seint fram komin að hann hafi glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir.

Verði ekki fallist á röksemdir stefnda um sýknu gerir stefndi kröfu um lækkun fjárhæðar kröfu stefnanda og byggir þá kröfu á sömu málsástæðum og sýknukröfu sína.

V

Stefnandi og Glitnir banki hf. gerðu með sér samning um gjaldeyrisstýringu 10. ágúst 2007. Samkvæmt þeim samningi tók bankinn við 50 milljónum króna til ,,sérstakrar fjárfestingar í gjaldeyri samkvæmt skilmálum samnings þessa“. Þá var tekið fram í 1. kafla samningsins að stefnanda væri ,,hvenær sem er heimilt að auka við þá upphæð sem hann hefur þegar afhent Glitni banka hf. til fjárfestingar samkvæmt samningi þessum og gilda ákvæði samnings þessa einnig um hana“. Þá skyldi stefnandi tilkynna um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara, vildi hann lækka umrætt fjármagn. Áskilið er í samningnum að stefnandi tilkynni um breytingar á fjármagni sínu með sannanlegum hætti. Þá er tekið fram að fjárfestingarframlag stefnanda á hverjum tíma verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi á meðan samningur þessi er í gildi“. Féð verði handveðsett til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem væri undirrituð samhliða þessum samningi. Tekið er fram í 2. kafla samningsins að bankinn muni nýta fjárfestingarframlag stefnanda til ,,stöðutöku og afleiðuviðskipta með gjaldeyri á alla helstu gjaldeyriskrossa og gengisvísitölur …“. Talið er upp hvaða myntir sé heimilt að versla með samkvæmt samningnum og eru þar á meðal evrur og danskar og norskar krónur. Þá segir í sama kafla að starfsmenn bankans taki ,,einhliða ákvarðanir um fjárfestingastefnu og einstakar fjárfestingar og samninga.“ Í 5. kafla er tekið fram að starfsmenn bankans fari með stöðutöku og áhættustýringu fjármuna stefnanda og fjárfestingastefnan, áhættustýring, vogun og ákvarðanir um einstök viðskipti séu alfarið einhliða ákvarðanir bankans. Stefnandi geti ekki krafist breytinga á samningnum né mælt fyrir um framkvæmd einstakra viðskipta. Í 7. kafla er mælt fyrir um að samningurinn sé ótímabundinn og annar hvor aðili samningsins geti sagt honum upp með sannanlegum hætti með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Í sama kafla er mælt fyrir um að bankinn hafi ,,fullt og ótakmarkað umboð á gildistíma samningsins til að gera samninga í nafni [stefnanda] í samræmi við samning þennan …“ og er vísað til umboðs sem fylgi samningnum sem viðauki I. Umboðið nái meðal annars til undirritunar allra skjala sem séu nauðsynleg að mati bankans í tengslum við slík viðskipti hverju sinni og stofnunar bankareikninga hjá bankanum og peningamarkaðsinnlána.

Sama dag gaf stefnandi út yfirlýsingu um handveð til Glitnis banka hf. þar sem stefnandi setti að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána viðskiptamanns hjá bankanum eins og hún er á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Að mati dómsins verður að ganga út frá því að þessi handveðsyfirlýsing sé sú sem vísað er til í fyrrnefndum samningi um gjaldeyrisstýringu.

Samningur var gerður um fyrra peningamarkaðslánið, nr. FD0000081972, 18. ágúst 2008 en samningur um seinna peningamarkaðslánið, nr. FD0000084369, var gerður 22. september 2008. Í þessum samningum er ekki minnst berum orðum á það hvort um þessa samninga gildi fyrrgreindur samningur um gjaldeyrisstýringu. Þegar litið er orðalags 1. kafla þess samnings um heimild stefnanda til að auka við þá upphæð sem þar er tilgreind og að upphæðin verði varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi, sem og orðalags handveðsyfirlýsingarinnar um að hún taki til ,,allra peningamarkaðslána“, er það mat dómsins að þegar samningurinn um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsingin eru lesin saman sé ljóst að tilætlun stefnanda og Glitnis banka hf. hafi verið að þessir löggerningar myndu gilda um lán stefnanda til bankans í þeim gjaldmiðlum sem þar eru taldir upp. Samningur um bundið innlán, nr. IAM 915095, var gerður 4. október 2011. Með sömu rökum telur dómurinn ljóst að tilætlun málsaðila hafi verið að fyrrgreindir löggerningar myndu gilda um þetta lán stefnanda til bankans. Enda var í þessum tilvikum um að ræða lán viðskiptamanns til banka sem ýmist eru kölluð peningamarkaðsinnlán eða bundið innlán sem lögð voru inn á samningsnúmer en ekki tiltekinn bankareiking, svo sem fram kom hjá vitninu, Guðmundi Magnúsi Daðasyni, starfsmanni í gjaldeyrismiðlun hjá stefnda sem undirritaði framlagðan gjaldeyrisstýringarsamning aðila fyrir hönd Glitnis banka hf. Það er mat dómsins að með umræddum samningum um peningamarkaðslán og bundið innlán hafi stefnandi með sannanlegum hætti aukið við þá fjárhæð sem tilgreind er í samningnum um gjaldeyrisstýringu. Samkvæmt þessu er ljóst að samningurinn um gjaldeyrisstýringu gildir um þessi lán.

Fjármálaeftirlitið ákvað 14. október 2008 að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum Glitnis banka hf. til stefnda. Er óumdeilt að þar á meðal voru peningamarkaðslán stefnanda. Verður því að líta svo á að fyrrnefndur samningur um gjaldeyrisstýringu gildi milli stefnanda og stefnda. Ekki er um það deilt að tryggingaréttindi á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar urðu eftir hjá Glitni banka hf. Þá liggur fyrir að umræddum samningi hefur ekki verið sagt upp og ekki verður ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi óskað eftir lækkun á þeim fjárhæðum sem samningurinn tekur til.

Samkvæmt ákvæðum 2. og 5. kafla samningsins um gjaldeyrisstýringu er ljóst að stefndi hafði vald til þess að gera einhliða samninga fyrir hönd stefnanda. Fellst dómurinn því ekki á þann málatilbúnað stefnanda að samningarnir um peningamarkaðslánin og bundna innlánið hafi ekki verið framlengdir svo að gildi hefði gagnvart stefnanda. Vegna ákvæða 1. kafla samningsins um að fjárfestingarframlag stefnanda verði ,,varðveitt á lokuðu peningamarkaðsinnláni eða læstum viðskiptareikningi“ er einnig ljóst að stefnda var heimilt að breyta peningamarkaðslánunum í bundin innlán.

Í næstu setningu 1. kafla samningsins er tekið fram að fjármunirnir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum, sbr. handveðsyfirlýsingu sem sé undirrituð samhliða samningnum. Í handveðsyfirlýsingunni kemur fram að stefnandi setji að handveði stöðu ,,allra peningamarkaðslána“ sinna. Peningamarkaðslánin voru því handveðsett Glitni banka hf. Í handveðsyfirlýsingunni er ekki sérstaklega minnst á bundin innlán. Vegna þeirrar ætlunar stefnanda og Glitnis banka hf., sem fyrr er lýst, um að samningurinn um gjaldeyrisstýringu og handveðsyfirlýsing myndu gilda um lán stefnanda til bankans í þeim gjaldmiðlum, sem þar eru taldir upp, og þeirrar yfirlýsingar í samningnum um að fjármunir verði handveðsettir til tryggingar viðskiptunum, verður þó að fallast á það með stefnda að bundna innlánið í norskum krónum hafi einnig verið sett að handveði með þessum löggerningum. Vegna ákvæðis handveðsyfirlýsingarinnar um að væri veðsett skjal innleyst, mætti bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum skuldum stefnanda voru bundnu innlánin, sem urðu til við umbreytingu peningamarkaðslánanna, einnig sett að handveði. Þá verður hvorki fallist á það með stefnanda að sýnt sé að umrædd handveðsyfirlýsing sé efnislega röng né svo óskýr að ekki verði á henni byggt.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 3. desember 2015 í máli nr. 112/2015, var stefnandi dæmdur til að greiða Glitni hf., áður Glitnir banki hf., 5.474.701.040 krónur ásamt tilteknum dráttarvöxtum, vegna skuldbindinga sem stefnandi stofnaði til gagnvart bankanum á grundvelli tveggja samninga, annars vegar samnings um framvirk skuldabréfakaup, sem var auðkenndur nr. FS080819807, en hins vegar skiptasamnings, sem auðkenndur var nr. IRS 3051. Varðandi fyrri samninginn er rakið í dómi héraðsdóms að bankinn hafi fjármagnað kaup stefnanda á tilteknu skuldabréfi og hafi bankinn og stefnandi af því tilefni gert með sér samning 30. október 2007 um framvirk verðbréfaviðskipti. Sá samningur var með afhendingardag 20. desember 2007 og markaðsverð í upphafi var ákveðið 30 milljónir evra. Samningurinn rann sitt skeið og var þá gerður nýr samningur sem í reynd framlengdi þann fyrri. Þegar nýi samningurinn rann sitt skeið var enn gerður nýr samningur með sama hætti og síðan koll af kolli. Þessari röð samninga lauk á afhendingardegi samkvæmt þeim síðasta 18. ágúst 2008. Þann dag var skuldbindingum skuldajafnað og þær færðar yfir í nýjan samning, sem var með afhendingardag 18. nóvember 2008. Í dómi héraðsdóms er rakið að síðari samningurinn hafi verið vaxtaskiptasamningur, með samningsdag 21. desember 2007 og lokadag 18. júní 2009. Samkvæmt þeim samningi hafi stefnanda borið að greiða 0,20% vexti af 10 milljörðum króna, vikulega, frá og með 3. janúar 2008 til og með 18. júní 2009.

Stefnandi var samkvæmt þessu í skuld við Glitni banka hf. á þeim tíma þegar hann veitti bankanum umrædd lán. Í handveðsyfirlýsingunni er tekið fram að ,,verði vanskil eða aðrar vanefndir á skuldbindingum“ stefnanda gagnvart Glitni banka hf. sé bankanum heimilt að koma handveðinu í verð og ráðstafa andvirðinu til greiðslu á skuldbindingunum, án fyrirvara og aðvörunar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, öðlast handveðréttur réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn er sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að hann eigi frjálsan ráðstöfunarrétt á umræddum lánum. Stefndi hefur þegar greitt Glitni banka hf. þá fjármuni, sem settir voru að handveði, í samræmi við ákvæði 2. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um að stefnda bæri að standa bankanum skil á tryggingum viðskiptamanna vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki fluttust til stefnda. 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að þegar af framangreindum ástæðum beri að hafna kröfum stefnanda í máli þessu. Bæði aðalkrafa stefnanda og varakrafa hans eru byggðar á sömu málsástæðum sem hér að framan hefur verið hafnað. Samkvæmt þessu ber, þegar af framangreindum ástæðum, að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Páll Tamimi hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Áslaug Árnadóttir hdl.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Taxus ehf. fyrir hönd þrotabús Eignarhaldsfélags RS ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.