Print

Mál nr. 78/2017

Óskar Halldór Tryggvason, Kristján Ingjaldur Tryggvason, Kristbjörn Heiðar Tryggvason, Sigrún Hólm og Anna Guðrún Tryggvadóttir (Sigurður Jónsson hrl.)
gegn
AB 181 ehf., Sigrúnu Jónasdóttur, Helgu Jónasdóttur, Jóni E. Jónassyni, Úlfhildi Jónasdóttur, Jóni Sigurðarsyni, Regínu Sigurðardóttur og Helgu Sigurðardóttur (Páll Arnór Pálsson hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
  • Landamerki
  • Kröfugerð
Reifun

Aðilar deildu um landamerki jarðanna Ystafells 1 og 2 og Fellssels í Þingeyjarsveit, úr króki á Heyvallargróf, sem aðilar voru sammála um hvar væri, austur í Skjálfandafljót. Vísað var til þess að á hinum umdeilda hluta landamerkjanna miðuðu landamerkjabréf jarðanna við að vörður réðu merkjum að því er varðaði línu frá þjóðvegi og að Setbergsvörðu, sem var óumdeild í málinu. Með matsgerð dómkvadds matsmanns þótti sannað að á kröfulínu eigenda Ystafells 1 og 2 væru 12 vörður sem flestar væru meira en aldargamlar. Í og við kröfulínu eigenda Fellssels væru á hinn bóginn þrjár manngerðar vörður sem væru frekar ungar. Var talið óhætt að miða við að vörðurnar í kröfulínu eigenda Ystafells 1 og 2 væru þær vörður sem um ræddi, en ósennilegt þótti að tvær vörðuraðir hefðu verið hlaðnar nálægt hvor annarri, önnur sem landamerki og hin til að beina mönnum leið. Þá væri kröfulína eigenda Ystafells 1 og 2 frá Setbergsvörðu að Skjálfandafljóti í eðlilegu framhaldi framangreindrar línu, en ekki höfðu verið færðar sönnur á að landamerkin vikju frá beinni línu, svo sem kröfulína eigenda Fellssels gerði ráð fyrir. Þá yrði ekki séð að þau síðarnefndu hefðu öðlast betri rétt fyrir hefð. Loks fengi samræmd tilvísun í landamerkjabréfum jarðanna til þess að austurmörkum þeirra réði sú meginkvísl Skjálfandafljóts sem félli norðaustur úr Grænhyl betur samrýmst dómkröfum eigenda Ystafells 1 og 2 í málinu. Var því kröfulína eigenda Ystafells 1 og 2 lögð til grundvallar um landamerki milli jarðanna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2017. Þau krefjast þess að staðfest verði með dómi að landamerki milli jarðanna Ystafells 1 og 2 annars vegar og Fellssels hins vegar markist af línu sem dregin er frá Skjálfandafljóti (Punktur 1), hnit: X 567.518,7 Y 586.569,5 um Votulág að merkivörðu í skógi (Punktur 2), hnit: X 567.369,3 Y 586.569,5. Þaðan í vörðu norðan við Setberg (Punktur B: varða við Setberg), hnit: X 566.856,0 Y 586.333,5. Úr vörðunni norðan við Setberg í vörðu við Merkjamel (Punktur 3: varða við Merkjamel merkt Ný varða 02), hnit: X 565.715,5 Y 586.653,4. Þaðan í krók á Heyvallagróf (Punktur F: Krókur), hnit: X 564.133 Y 586.606 en svo upp eftir Heyvallagróf upp á fjallsbrún í vörðu (Punktur G: Varða Kinnarfjall), hnit: X 563.576 Y 586.595, þaðan eftir merkjavörðum upp Skollhóla og vestur á Háfjall (Punktur: Varða 2), hnit: X 562.906 Y 586.669 og áfram vestur eftir vörðuðum hnitamerkjum (Varða 3), hnit: X 562.197 Y 586.669, (Varða 4), hnit: X 561.610 Y 586.597, (Varða 5), hnit: X 561.492 Y 586.580, (Varða 6), hnit: X 561.062 Y 586.457, (Varða 7), hnit: X 560.940 Y 586.401, (Varða 8), hnit: X 560.367 Y 586.385, (Varða 9), hnit: X 559.425 Y 586.385, (Varða 10), hnit: X 558.560 Y 586.464, í vörðu á Háfjalli (Varða 11), hnit: X 557.921 Y 586.391. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. apríl 2017. Þau krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þau krefjast í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi aðaláfrýjenda.

Dómendur fóru á vettvang 26. september 2017.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kröfðust aðaláfrýjendur þess að kröfugerð þeirra yrði breytt þannig að Y hnit punkts 1 við Skjálfandafljót yrðu skráð Y 586.622,1, þar sem misritun hefði átt sér stað er hnitapunktar voru leiðréttir með bókun í héraði 13. febrúar 2014. Hafi ranga tilgreiningu á punktinum því einnig verið að finna í áfrýjunarstefnu og greinargerð aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti. Var framangreindri kröfu andmælt af hálfu gagnáfrýjenda. Með vísan til 1. mgr. 163. gr., sbr. 1. mgr. 111. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemst hin breytta kröfugerð ekki að hér fyrir dómi gegn mótmælum gagnáfrýjenda.

Málsatvikum og málsástæðum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samræmd tilvísun í landamerkjabréfum Ystafells, 27. maí 1885, og Fellssels, 28. maí 1885, til þess að austurmörkum jarðanna ráði sú meginkvísl Skjálfandafljóts sem falli norðaustur úr Grænhyl fær betur samrýmst dómkröfum gagnáfrýjenda í málinu en dómkröfum aðaláfrýjenda. Að því gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjendur, Óskar Halldór Tryggvason, Kristján Ingjaldur Tryggvason, Kristbjörn Heiðar Tryggvason, Sigrún Hólm og Anna Guðrún Tryggvadóttir, greiði óskipt gagnáfrýjendum, AB 181 ehf., Sigrúnu Jónasdóttur, Helgu Jónasdóttur, Jóni E. Jónassyni, Úlfhildi Jónasdóttur, Jóni Sigurðarsyni, Regínu Sigurðardóttur og Helgu Sigurðardóttur, málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.

                                                                            

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. nóvember 2016

Mál þetta, var dómtekið að loknum endurteknum munnlegum málflutningi þriðjudaginn 13. september 2016.

Stefnendur í aðalsök og stefndu í gagnsök eru nú: AB 181 ehf., Fellahvarfi 6, Kópavogi, Sigrún Jónasdóttir, Lynghaga 1, Reykjavík, Helga Jónasdóttir, Naustavör 8, Kópavogi, Jón E. Jónasson, búsettur á Ítalíu, Úlfhildur Jónasdóttir, Aðalþingi 6, Kópavogi, Jón Sigurðarson, Suðurhlíð 38d, Reykjavík, Regína Sigurðardóttir, Sólbrekku 1, Húsavík og Helga Sigurðardóttir, Krókeyrarnöf 2, Akureyri.

Er málið var höfðað hinn 9. apríl 2013 voru stefnendur AB181 ehf., Kolbrún Bjarnadóttir, Garðarsbraut 32, Húsavík og Sigurveig Eiríksdóttir, Lundi 1, Kópavogi. Undir rekstri málsins féllu stefnendurnir Kolbrún og Sigurveig frá. Eftir búskipti komu stefnendurnir Sigrún, Helga, Jón E. og Úlfhildur Jónasbörn í stað Sigurveigar en stefnendurnir Jón, Regína og Helga Sigurðarbörn í stað Kolbrúnar.

Stefndu í aðalsök og stefnendur í gagnsök eru nú Tryggvi Berg Jónsson, Lindargötu 2b, Sauðárkróki, Óskar Halldór Tryggvason, Akurgerði 3b, Akureyri, Kristján Ingjaldur Tryggvason, Árlandi, Kristbjörn Heiðar Tryggvason, Ægisgötu 25, Akureyri, Sigrún Hólm, Fellsseli og Anna Guðrún Tryggvadóttir, Víðimýri 8, Sauðárkróki. Við höfðun aðalsakar og gagnsakar voru stefndu í aðalsök og stefnendur í gagnsök þau Tryggvi Berg og Árný Garðarsdóttir en eftir andlát Árnýjar og búskipti hefur aðild að þessu leyti breyst með þessum hætti.

Gengið var á vettvang 24. september 2015.

Dómkröfur

Endanlegar kröfur aðalstefnenda í aðalsök eru þær að „landamerki Yztafells og Fellssels verði sem hér segir:

A. Frá þjóðvegi í vesturátt: Frá punkti D: Vegur-Suður -65°46,126N, 17°34,877V), hnit 565003.575, 586437.869 norður eftir þjóðvegi í punkt E: (Vegur-Norður – 65°46,229N, 17°34,84V), hnit 565014.083, 586632.681, þaðan í krók einn á Heyvallargróf (Punktur F: Krókur -65°46,227N, 17°35,966V) hnit 564133.5482, 586606.6527, svo upp eftir Heyvallargróf upp á fjallsbrún í vörðu (Punktur G: Varða Kinnarfjall 1- 65°46,225N, 17°36,723V), hnit 563576.5413, 586595.8612, þaðan eftir merkjavörðum upp Skollhóla og vestur á Háfjall, (Varða 2 – 65°46,273N, 17°37,605V) hnit 562906.6388, 586669.7414, og áfram vestur eftir vörðum með hnitmerkjunum 562197.7210, 586586669.7414 (Varða 3), 561610.8300, 586597.5214 (Varða 4), 561492.1236, 586580.0890 (Varða 5), 561062.1243, 586457.2320, (Varða 6), 560940.0974, 586401.6144 (Varða 7), 560367.3184, 586385.8422 (Varða 8), 559425.1383, 586385.8422, (Varða 9), 558560.1590, 586464.7031 (Varða 10), í vörðu á Háfjalli, hnit 557921.2820, 586391.9643 (Varða 11).

B. Frá þjóðvegi til austurs:

Úr punkti D, Vegur-Suður: 65°46,126N, 17°34,877V (hnit 565003.575, 586437.869) í vörðu 1: 65°46,090N, 17°33,910V (hnit 565733.704, 586390.577), þaðan í vörðu 2: 65°46,085N,-17°33,658V, (hnit 565926.626, 586385.259) þaðan í vörðu 3: 65°46,048N,-17°33,505V, (hnit 566043.022, 586385.681) þaðan í vörðu 4: 65°46,073N, - 17°32,827V, (hnit 566561.511, 586378.592) þaðan í vörðu 5: 65°46,079N,-17°32,617V, (hnit 566721.114, 586393.419) þaðan í vörðu 6, norðan Setbergs: 65°46,045N, 17°32,441V (hnit 566855.2863, 586333.7525), þaðan í vörðu 7: 65°46,051N, - 17°32.234V, (hnit 567014.599, 586348.109), þaðan í vörðu 8: 65°46,048N, - 17°31,922V, (hnit 567014.599, 586348.109) þaðan í vörðu 9: 65°46,056N, - 17°31.537V, (hnit 567546.750, 586369.062), og síðan eftir áframhaldandi línu í farveg Skjálfandafljóts í stefnu á miðja kvísl sem rennur norðaustur úr Grænhyl í punkt með hnitinu 65°46,062N, - 17°31,104V, (hnit 567877.381, 586388.170).“

Í aðalsök krefjast aðalstefndu sýknu af kröfum aðalstefnenda.

Í gagnsök eru endanlegar kröfur gagnstefnenda þær að viðurkennt verði að landamerki Yztafells 1 og 2 annars vegar og Fellssels hins vegar „séu sem hér segir með merktum hnitapunktum samkvæmt hnitakerfi ISN93:“ „Frá Skjálfandafljóti = Punktur 1 hnit X 567518,7 Y 586569,5 um Votulág að merkivörðu í skógi = Punktur 2 hnit X 567369,3 Y 586569,5. Þaðan í vörðu norðan við Setberg, = Punktur B: varða við Setberg, hnit X 566856,0 Y 586333,5. Úr vörðunni norðan við Setberg í vörðu við Merkjamel = Punktur 3: varða við Merkjamel merktur Ný varða 02, hnit X 565715,5 Y 586.653,4.“ „Þaðan í krók á Heyvallagróf (Punktur F: Krókur 65°46,227N, 17°35,966V) hnit 564.133 ; 586.606 en svo upp eftir Heyvallagróf upp á fjallsbrún í vörðu ( Punktur G: Varða Kinnarfjall 65°46,225N, 17°36,723V) hnit 563.576 ; 586.595, þaðan eftir merkjavörðum upp Skollhóla og vestur á Háfjall ( Punktur: Varða 2 65°46,273N, 17°37,605V) hnit 562.906 ; 586.669 og áfram vestur eftir vörðuðum hnitamerkjum 562.197 ; 586.669 (Varða 3) 561.610 ; 586.597 (Varða 4) 561.492 ; 586.580 ( Varða 5) 561.062 ; 586.457 (Varða 6) 560.940 ; 586.401 (Varða 7) 560.367 ; 586.385 ( Varða 8) 559.425 ; 586.385 ( Varða 9) 558.560 ; 586.464 (Varða 10) í vörðu á Háfjalli hnit 557.921 ; 586.391 (Varða 11).“ 

Í gagnsök krefjast gagnstefndu sýknu af kröfum gagnstefnenda.

Aðalstefnendur og gagnstefnendur krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila.

Málavextir

Mál þetta snýst um landamerki á milli jarðanna Yztafells 1 og 2 annars vegar og Fellssels hins vegar. Jarðirnar eru í Þingeyjarsveit, áður Ljósavatnshreppi. Landamerki þeirra frá þjóðvegi til vesturs eru ágreiningslaus í málinu en deilt er um landamerkin frá þjóðvegi til austurs, yfir Kinnarfell að Skjálfandafljóti.

Jörðin Yztafell er gömul lögjörð og henni fylgdi hjáleigan Fellssel. Í miðaldaheimildum er Yztafell stundum nefnt Neðstafell eða Fell. Fellssel er aldrei nefnt í neinum miðaldaheimildum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er fjallað um Yztafell í XI. bindi, og er sá hluti jarðabókarinnar dagsettur 19. júlí 1712. Jörðin er talin 20 hundruð að dýrleika og svo er sagt tíundast presti og fátækum. Eigandi er biskupsstóllinn Hólar. Landskuld er talin 1 hundrað síðan bóluna, sem gekk 1707-1708, en sagt að áður hafi landskuld verið 1 hundrað og 40 álnir og hafi svo verið í manna minni, en munnmæli eru talin um að í tíð Ólafs biskups Hjaltasonar (1552-69) hafi hún verið 1 hundrað. Leigukúgildi eru 2½ og hafi svo verið það menn viti, nema um fáein ár hafi einu verið aukið við fyrir bón umboðsmanns. Bústofn er talinn upp og rætt um landgæði, m.a. um skóginn í austanverðu Kinnarfelli.

Um Fellssel segir sérstaklega að það sé hjáleiga, byggt fyrir mannaminni á selstæði heimajarðarinnar suður með fjallinu, afdeilt einasta að túni. Dýrleiki er sagður óviss þar eð hjáleigan tíundist ekki. Landskuld er sögð ýmist 20 eða 30 álnir í landaurum til heimabóndans. Leigukúgildi eru sögð 1½ lengstum en nú 2½ fyrir bón og efnaleysi ábúanda. Bústofn er talinn upp og er hann sem svarar minna en helmingi af bústofni heimajarðarinnar.

Í Jarðatali á Íslandi, útgefnu 1847, er Yztafell sagt bændaeign, talið 20 hundruð að dýrleika, Fellssel þá meðtalið, landskuld 1 hundrað, kúgildi 2, þarna búa einn eigandi og einn leigjandi. Þá er Fellssel talin hjáleiga og landskuld 30 álnir, kúgildi 1½ og ábúandi einn eigandi. Fram er tekið neðanmáls að sýslumaður telji nú 6 ⅔ hundruð af dýrleikanum á hjáleigunni en 6 hundruð hafi verið talin á henni 1805. Samkvæmt kjörskrá frá 1839 er Yztafell talið sér 13 1/3 úr hundraði en Fellssel 6 ⅔ úr hundraði.

Landamerkjaskrá

Hinn 27. maí 1885 var gerð og undirrituð landamerkjaskrá jarðarinnar Yztafells í Köldukinn í Þingeyjarsýslu, þinglýst sama dag. Hún hljóðar þannig:

„Að austan ræður Skjálfandafljót, eða sú meginkvísl þess, er fellur í norðaustr úr Grænhyl.

Að norðan, austan í Kinnarfelli, ræðr merkjum milli Hóls og Yztafells gamall garður; liggur hann rjett norðan við Spangarsel og nær neðan frá fljótinu og upp á brún fellsins. Vestan í fellinu ráða vörður merkjum milli jarða þessara, frá fellsbrúninni og niðr að Rangá. Gagnvart vörðum þessum skiptir gamall garður löndum í fjallinu milli Guðmundarstaða og Yztafells, neðan frá Rangá og upp á fjallsbrún; þar fyrir vestan ráða merkjavörður upp Guðmundarstaðahóla og upp á svonefnt Vesturfjall.

Að sunnan, austan í Kinnarfelli, ráða vörður merkjum milli Yztafells og Fellssels; liggja þær upp hlíðina frá fljótinu, og upp á brún, rjett norðan við Setberg, þaðan yfir fellið og niðr að Rangá. Vestan við Rangá skiptir gamall garðr löndum milli jarðanna syðst á Heyvallarfit; ofan við fitina ráða vörður upp fjallsræturnar beint í Krók einn á Heyvallargróf; úr því ræðr grófin sjálf merkjum upp á fjallsbrún; þaðan ráða merkjavörðr upp Skollhóla og vestr á háfjall.

Að vestan ráða merkjum grjóthæðir hvaðan vötnum hallar inn á Finnstaðadal.“

Undir þetta rituðu sjö manns nöfn sín, þar á meðal Guðbjörg Aradóttir, eigandi og ábúandi Yztafells, og Jóhannes Jóhannesson, eigandi Fellssels, en einnig eigendur Hóls og Finnsstaða og ábúandi Gvendarstaða.

Landamerkjabréf fyrir Fellssel er dagsett degi síðar eða 28. maí 1885, þinglýst þá, og um merkin á milli Yztafells og Fellssels alveg samhljóða bréfinu um merki Yztafells.

Í málinu liggur fyrir skrá um örnefni í Ljósavatnshreppi, skráð af Alfreð Ásmundssyni, Hlíð, og segir hann þeim aðallega safnað á árunum 1942 til 1948. Þar segir í upphafi um Yztafell:

„Að sunnan liggur Fellsselsland. Merki vestan Rangár í Merkigarði skammt norðan við Fellsselstún, þaðan beint í Krók á Heyvallargróf og frá henni beint vestur til fjalls um Skollhóla upp á hágrjót. Austan Rangár beint frá Merkigarði að vestan, í Merkimel vestan í Fellinu um Merkivörðu norður af Setbergi, þaðan í Votulág sunnarlega í skógunum.“

Síðan segir í örnefnaskrá Fellssels:

„Að norðan er Yztafellsland. Merki eru í girðingu yfir dalbotninn. Þaðan austur yfir Fell beint í Votulág í skógi. En vestur í Merkigróf og þaðan beint til fjalls. Að sunnan er Barnafellsland ... Í Skjálfandafljóti er Grænhylur norðvestan undir Þingeyjarbjörgum, en Bjarghylur að vestan. Norðan við Björgin í Fljótsgili á Fljótsbakkanum eru Neðrigötur. Sunnan við Votulág er skógargeiri sem heitir Fellsselstagl. Sunnan og neðan við það á bakkanum er Helgakofi. ... Upp af Votulág er Setbergsrétt, neðan við Efrigötur. Þar voru eitt sinn Beitarhús frá Fellsseli og Yztafelli. Síðasti beitarhúsamaður þar var Snorri Jóhannesson er lengi bjó í Fellsseli um síðustu aldamót. Suður og upp frá réttinni er Hjalli, en upp af réttinni er Steberg (sic). Framan í því Setbergshlíð. ... Rétt sunnan við Yztafellsmerki vestan í fellinu neðarlega er Kerlingargróf, þar sunnar og neðar er Þrælagerðismelur. Sunnan við hann er Þrælagerði og Þrælagerðislækur. Á Þrælagerði á að hafa verið býli ... Vestan við Rangá norðan við túnið er Rönd, milli Merkigarðs og Garðsendagrófar... Austur yfir Fell liggja Fellsselsstígar norðanvert við Syðrihnjúk. Meðfram þeim eru Fellsselsvörður.“

Í málinu hafa stefnendur lagt fram sérstaka örnefnaskrá Yztafells og mun samin af Yztafellsmönnunum Jóni og Marteini Sigurðssonum. Þar segir: „Merkin að sunnan, vestan ár, er þúfnagarður nokkrum föðmum norðan við Fellsselstún, bein stefna úr honum og í krók á Heyvallargróf í fjallinu og síðan beint vestur á grjót. Austan Rangár eru merkin beint úr merkigarðinum vestan við ána í merkimel ofarlega í Fellinu og þaðan beint í merkivörðu norðan við Setberg og nálægt Setbergsrétt niður í Fljót... .Nú er skógurinn örnefnalaus og rjóðralítill fram að merkjum. Þar er skorinn af honum syðri halinn af votlendri lág sem heitir Votalág. Rétt sunnan og ofan við Votulág, laust frá skógnum heitir Setbergsrétt. Þar voru fyrrum beitarhús, sameign frá Felli og Fellsseli en síðar notuð til sundurdráttar í smölun.... Rétt sunnan við merki Yztafells og Fellssels er Setberg á brúninni beint suður frá Hildarklöpp. Það er hár og stór stuðlabergsklettur, brattur að framan. ...Tveir hnjúkar rísa upp úr Kinnarfelli og djúp lægð á milli. Yztafell á land yfir allan syðri hluta Ytrihjúks og alla lægðina á milli hnjúkanna.“

Í bók sinni, Sigurður í Yztafelli og samtíðarmenn, sem út kom árið 1965, segir Jón Sigurðsson ýmislegt af jörðinni. Segir þar meðal annars: „Sama vorið [1863] og ég kom í Yztafell, var ráðist í það að byggja beitarhús austan í fellinu, á svonefndum Fellskofarinda. Hafði þar einhverntíma, til forna, verið einhver bygging. Þarna voru nú byggð tvö hús nokkuð stór, samstæð, sitt frá hvorum bænum, Yztafelli og Fellsseli, og voru sauðir hafðir þar næsta vetur tíma og tíma og næstu sex ár á eftir. Beitt var í fellið, en eigi minna austur á Þingey, með leyfi eigenda eyjarinnar.“

Í Lýsingu Þingeyjarsýslu I, Suður-Þingeyjarsýslu, sem út kom árið 1954, einnig eftir Jón Sigurðsson, segir meðal annars um þá hlíð Kinnarfells sem snýr að Skjálfandafljóti: „Í hinni bröttu hlíð er Fellsskógur, eign fjögurra jarða fornra (Hóls, Hólsgerðis, Yztafells og Fellssels). Aðeins skógar Fljótsdals og Fnjóskadals eru meiri þessum skógi á Íslandi að vexti trjáa og viðamagni. Þar eru mörg tré um tíu metra há og mjög beinvaxin. Skógurinn er í örum vexti og ófeyskinn, og þykir þaðan betra smíðabirki en úr öðrum skógum... Sunnar í hlíðinni var skóglaust orðið báðum megin við Barnafell, sem fór í eyði 1934, en nú breiðist óðum skógur um það land, allt að Fremstafellsskógi sem er syðst í hlíðinni.“

Hinn 22. júlí 1945 gerðu „eigendur og umráðamenn jarðanna Yztafells, Hóls, Hólsgerðis og Garðshorns í Köldukinn“ og Skógrækt ríkisins með sér samning. Í 1. gr. hans segir meðal annars að án leyfis Skógræktarinnar séu „óheimil hvers konar afnot lands þess sem liggur innan skógargirðingar þeirrar, sem komið hefir verið upp meðfram Skjálfandafljóti í landareignum ofannefndra jarða, önnur en skóggræðsla, skógrækt og nytjar skóglendis á landinu, og skulu þá landeigendur hlíta fyrirmælum skógræktarstjóra og skógarvarða um nytjar og meðferð skóglendisins.“ Þá segir meðal annars í 2. gr. að nytjar þær, sem verði af landinu, eigi „hver landeigandi af þeim hluta þess, sem tekinn er úr landi hans, að svo miklu leyti, sem við verður komið, en hagbeit og önnur afnot, sem hljóta að verða sameiginleg, ef leyfð verða, eiga þeir í réttu hlutfalli við stærð þess lands, sem þeir eiga innan girðingarinnar. Nytjar lands til slægna, svo og berjataka, eru landeigendum heimil svo sem áður hefir verið.“

Í málinu liggur annar samningur, dags. 17. ágúst 1958, „milli Skógræktar ríkisins annars vegar og eiganda skóga í Kinnarfelli norðanverðu í landi jarðanna Fellssels, Yztafells I og II, Hóls, Hnjúks, Garðshorns og Hólgerðis.“ Í samningnum skuldbindur Skógræktin sig til þess „að girða og friða skóga í landi nefndra jarða.“ Þá segir í samningnum: „Eigendur skóganna láta af hendi land til gróðursetningar barrviða innan girðingar sem hér segir: 1. Eigandi Fellssels lætur helmings síns lands, sem tekst sunnan af landinu.“ Þá segir síðar í samningnum að landamerki „milli nefndra jarða annarsvegar og milli nefndra jarða og Skógræktar ríkisins hinsvegar“ ákveðist eftir uppdrætti sem fylgi samningnum. Með samningnum fylgir uppdráttur sem sýnir hvaða svæði skógarins tilheyri hverri jörð og hvaða svæði Skógræktin skuli annast. Er Fellsseli merktur syðsti hluti skógarins og er skipt jafnt á milli ábúenda Fellssels og Skógræktar. Hluti Skógræktar er syðsti hluti þess lands sem Fellsseli er merktur. Undir samninginn rita meðal annarra Kristján Ingjaldsson Fellsseli, Marteinn Sigurðsson Yztafelli I og Jón Sigurðsson Yztafelli II.

Í málinu liggur samningur, dags. 27. apríl 1964, milli Skógræktar ríkisins og ungmennafélagsins Gamans og alvöru, Ljósavatnshreppi. Segir þar meðal annars að ungmennafélaginu sé heimilt að „gróðursetja barrskóg innan skógræktargirðingar í Kinnarfelli í þeim hluta af landi Fellssels, sem Skógrækt ríkisins hefir rétt til að nytja, samkvæmt samningi við landeigendur, dags. 17/8. 1958.“ Þá segir: „Landsspilda þessi er syðst í skógræktargirðingunni og er flatarmál hennar um 1,5 ha. Spilduna skal afmarka og færa mörkin inn á kort.“ Er samningurinn undirritaður af skógræktarstjóra en ekki er að sjá af gögnum málsins að hann hafi verið undirritaður fyrir hönd ungmennafélagsins.

Hinn 20. maí 2008 ritaði lögmaður eigenda Yztafellsjarða sýslumanninum á Húsavík bréf og lýsti ágreingi sem væri milli eigenda Yztafellsjarða og Fellssels um landamerki og fór fram á að sýslumaður héldi sáttafund um málið. Sá fundur var haldinn 11. september 2008 og að honum loknum og vettvangsgöngu gerði sýslumaður sáttatillögu sem var í aðalatriðum á þá leið að lína skyldi halda áfram beina línu yfir Rangá upp Kinnarfell eins og hún hafi verið „dregin á yfirlitsmynd Marteins S. Sigurðssonar af Kinnarfelli ... með svartri línu þar til hún greinist í þrjár svartar línur. Úr þeim punkti skal línan liggja beint í vörðu rétt norðan Setbergs þ.e. í bláa línu á sömu mynd. Þaðan fylgja mörkin þeirri línu (blárri) eins og hún er dregin á myndina í Grænhyl.“ Ekki náðust sættir.

Matsgerð

Undir rekstri málsins var að kröfu gagnstefnenda dómkvaddur                matsmaður „til að láta í ljós skriflegt og rökstutt álit á því hver sé staðsetning húsarústa og landamerkjavarða vegna landamerkja Yztafells og Fellssels upp frá Skjálfandafljóti.“ Til matsins valdist Sigurður Bergsteinsson fornleifafræðingur.

   Matsspurningar og svör matsmanns, í matsgerð dags. 12. maí 2015, voru á þessa leið:

1.               Getur matsmaður fundið manngerðar vörður (hlaðnar úr grjóti og/eða torfi) á eða við kröfulínu gagnstefnanda milli punkta 1, hnit X 567518,7 Y 586569,5 og vörðu við Setberg (punktur B) hnit X 566856,9 Y 586333,5?

Svar: Engin óyggjandi merki um vörður var að finna á ofangreindri kröfulínu gagnstefnanda. Gagnstefnandi Kristján Tryggvason benti á uppháar grónar þúfur, sem gætu verið vörður úr torfi. Úr því verður þó ekki skorið nema með uppgrefti, sem gæti leitt í ljós ummerki um torfhleðslu. Engin merki um grjót var að finna í meintri vörðu.

2.               Getur matsmaður fundið manngerðar vörður á eða við kröfulínu aðalstefnanda milli punkta A: hnit X567864,7 Y 586286,5 og vörðu við Setberg (punktur B) hnit X 566856,9 Y 586333,5?

Svar: Engin merki var að finna um vörður á ofangreindri kröfulínu stefnanda. Stefnendur (MS) bentu þó á holu eða dæld við bakka Skjálfandafljóts, sem þeir telja vera eftir vörðu sem þar hafi staðið.

3.               Ef matsmaður getur fundið manngerðar vörður á kröfulínu aðilja, hvenær er líklegt að vörðurnar hafi verið hlaðnar og eru þær þannig gerðar að þær gætu verið landamerkjavörður?

Svar: Eins og kemur fram í svörum við spurningu 1 og 2, þá fundust ekki vörður með óyggjandi hætti á kröfulínum aðalstefnanda og gagnstefnanda milli Skjálfandafljóts og vörðu við Setberg (punkts B). Vörður í vörðuröð (kröfulínu aðalstefnanda) sem fylgt var eftir frá þjóðvegi 85 og upp á Kinnafellið eru mjög þéttar. Mæld loftlína á milli vestustu vörðunnar og vörðunnar við Setberg (punktur B) er rétt rúmlega einn kílómetri. Alls fundust tólf vörður á milli þessara staða og er því að jafnaði innan við 100 metrar á milli þeirra. Um aldur varðanna er erfitt að dæma. Þær eru flestar fallnar og sést á grjótmagni þeirra að þær hafa verið fremur lágar og efnislitlar. Ætla má að þær séu flestar eldri en 100 ára.

Í eða nálægt kröfulínu gagnstefnanda var að finna fjórar vörður í vesturhlíð Kinnarfells. Fjarlægð milli þeirra var að jafnaði þrjú til fjögur hundruð metrar. Vörðurnar eru mismunandi að gerð. Efst á mel er lítil varða að mestu óhrunin. Þar fyrir neðan var mjög sokkinn og mosagróinn grjótkollur, sem gæti verið leifar vörðu. Um þrjú hundruð metrum neðar og vestar er grjóthrúga eða hrunin varða í mjög grónum móa. Neðst var hrunin lítil varða í grónum móa. Allar virðast vörðurnar frekar ungar að frátaldri þeirri næst efstu, þar sem um var að ræða lága mosaþúfu með grjóti. Alls óvíst er hvort þar sé um manngerða vörðu að ræða.

Landamerkjavörður eru yfirleitt staðsettar þannig að til þeirra sjáist frá öðrum landamerkjavörðum eða landamerkjakennileitum og þannig hægt að draga landamerki á milli þeirra. Vörðurnar sem fundarmenn gengu með í vesturhlíð Kinnarfells eru of þéttar til að þær geti hafa verið gerðar til að vera landamerki. Nóg hefði verið að reisa vörður þannig að á milli þeirra sæist í góðu skyggni, gjarnan þannig að þær bæri við himin. Mun líklegra er að þessar vörður hafi verið gerðar sem leiðarvörður. Það hversu stutt er á milli þeirra hefur auðveldað fólki að rata í slæmu skyggni.

4.               Getur matsmaður fundið merki um aðra vörðu skammt norðan Setbergs en þá vörðu sem merkt er inn á uppdráttinn og kröfulínur beggja aðilja liggja í (punktur B) hnit X 566856,9 Y 586333,5 ?

Svar: Ekki fundust leifar vörðu norðan vörðu B við Setberg, sem gæti verið í kröfulínu gagnstefnanda.

5.               Getur matsmaður fundið og staðsett menjar um beitarhús eða önnur hús (Helgakofa) í grennd við kröfulínur aðilja skammt ofan við Skjálfandafljót ?

Svar: Beitarhús fundust og mældi matsmaður þau upp, staðsetti og ljósmyndaði. Þau eru skammt ofan skógarins á milli kröfulínu málsaðila. Tóftir, sem gagnstefnandi Kristján Tryggvason segir að séu leifar svo kallaðs Helgakofa, eru skammt vestan við bakka Skjálfandafljóts, um 50 metra norðan við kröfulínu aðalstefnanda og um 220 metrum sunnan kröfulínu gagnstefnanda.

Málsástæður og lagarök aðalstefnenda í aðalsök

Aðalstefnendur segjast byggja kröfur sínar á þinglýstum landamerkjabréfum Yztafells og Fellssels og að kennileitin á merkjum jarðanna sem talin séu upp í landamerkjabréfum séu á þeim stöðum sem krafa aðalstefnenda nái til. Landamerkjabréfin, sem hafi verið öruggar heimildir síns tíma, hafi verið samþykkt af eigendum beggja jarða og séu þinglýstar heimildir fyrir eignarétti. Engir samningar hafa verið gerðir eftir árið 1885 sem breyti merkjum milli jarðanna svo að merkjalýsingar þeirra skuli gilda.

Aðalstefnendur segja að í huga Yztafellseigenda hafi merkin verið skýr enda hafi þau verið eftir þeim vörðum sem landamerkjabréfin tilgreini. Hins vegar hafi eigendur Fellssels komið með nýjar hugmyndir sem ekki fái stoð í landamerkjabréfunum eða kennileitum og hafi auk þess verið nokkuð á reiki.

Aðalstefnendur segjast telja að síðustu áratugi hafi eigendur Fellssels ekki viðurkennt lýsingu landamerkjabréfanna frá árinu 1885, en landamerkjabréfum Fellssels og Yztafells beri saman, og í þeim sé vísað í þekkt kennileiti á landamerkjum jarðarinnar, Grænhyl í Skjálfandafljóti, og Setberg, klett í austurbrún Kinnarfells. Hafi eigendur Fellssels haldið því fram að merki séu ekki á þeim stað sem þeim sé lýst í landamerkjabréfunum. Landamerkjabréfin frá 1885 hafi verið samþykkt bæði af eigendum Yztafells og Fellssels á þeim tíma er þau hafi verið gerð og virðast kennileiti þá ekki hafa farið milli mála.

Aðalstefnendur segja að lýsing á landamerkjum Yztafells, „að austan ræður Skjálfandafljót eða sú megin kvísl þess, er fellur í norðaustur úr Grænhyl“ og „að sunnan, austan í Kinnarfelli, ráða vörður merkjum milli Yztafells og Fellsels, liggja þær upp hlíðina frá fljótinu og upp á brún, rétt norðan við Setberg, þaðan yfir fellið og niður á Rangá“, sé nokkuð skýr. Helsta spurningin sé hvar vörðurnar séu og við hvaða vörður skuli miða. Aðalstefnendur segjast telja augljóst, þegar aðstæður séu skoðaðar, að það séu vörðurnar sem miðað sé við í kröfugerð þeirra, enda myndi þær næstum beina og samfellda röð frá Skjálfandafljóti, um vörðuna norðan við Setberg og yfir fellið. Landamerkjaskrá Fellssels sé næstum samhljóða þannig að vafinn í málinu sé næsta lítill.

Aðalstefnendur segja í stefnu að af þessum lýsingum landamerkjabréfanna megi ráða að landamerki Yztafells að sunnanverðu frá austri til vesturs séu úr þeirri kvísl Skjálfandafljóts er renni norðaustur úr Grænhyl og þaðan í Setberg og þaðan áfram eftir vörðum yfir Kinnarfell. Grænhylur eigi að vera óumdeildur og Setberg sé einnig óumdeilt kennileiti. Þaðan í vestur taki við röð af gömlum vörðum í sömu línu vestur yfir Kinnarfell. Vörðurnar séu staðsettar á hæsta punkti á hverjum stað og séu þessar vörður misstórar, en engin þeirra standi verulega upp úr landslaginu. Vörðurnar séu allar mjög gamlar og sjáist það á gróðri sem hafi myndast í kringum þær og einnig á skófum sem þeki steina í vörðunum.

Undir rekstri málsins, samhliða því er aðalstefnendur breyttu kröfugerð sinni þannig að hún varð sú sem rakið hefur verið, var af þeirra hálfu bókað að fallið væri „frá þeirri málsástæðu að landamerkjalínu ljúki í ákveðnum punkti í kvísl þeirri sem renni norðaustur úr Grænhyl og að hún sé áframhaldandi bein lína, yfir Kinnarfell, frá þjóðvegi og um vörðu norðan Setbergs. Hins vegar sé nú miðað við að línan sé um ákveðnar vörður milli Setbergs og Skjálfandafljóts. Endamörk línunnar hafi allt að einu viðmiðunarpunkt í nefndri kvísl.“

Aðalstefnendur segja að „grjóthrúgur“ þær sem aðalstefndu vilji miða við, séu stakar, sjáist ekki vel og að minnsta kosti ein þeirra nýleg. Athygli veki að varða rétt ofan við Hildarklöpp sé nýlega lagfærð og stækkuð. Steinar í vörðunni séu margir án nokkurra skófa og „viðloða mold“ hafi verið sjáanleg við skoðun á steini ofarlega í vörðunni. Sé dregin lína um meintar landamerkjavörður aðalstefndu fáist ekki samsvörun í landamerkjabréfunum frá 1885.

Aðalstefnendur segja að suðurmörk Yztafells séu úr punkti í Skjálfandafljóti þar sem kvísl renni úr Grænhyl. Næsti punktur sé gamalt vörðustæði á bakka Skjálfandafljóts þar sem vitað sé að hafi verið varða, sem unglingar úr Yztafelli hafi ýtt ofan í fljót fyrir löngu. Varða í hlíðinni austan í sé fyrir neðan vörðu rétt norðan við Setberg, sú varða sé lítil en gömul. Aðalstefnendur segja stóra vörðu vera rétt norðan við Setberg en hún sé landamerkjavarða. Vel hlaðin varða úr stórum steinum, gróður í kringum hana bendir til þess að hún sé mjög gömul. Stór steinn, sem á hafi verið hlaðið vörðu vestan í Kinnarfelli og beri yfir brún frá þjóðvegi, sé annað kennileiti, gamalt vörðustæði og steinar með skófum. Fjarlægð línunnar frá suðurmörkum Fellsels, áður en Árlandi hafði verið skipt út úr Fellsseli, fari saman við að Fellssel hafi verið þriðjungur Yztafellslands og sé þá tekin vegalengd Yztafells frá norðri til suðurs við gömlu göturnar sem legið hafi eftir Kinninni.

Aðalstefnendur segja að merkin við Rangá séu svohljóðandi: „...liggja þær upp hlíðina frá fljótinu og upp á brún, rétt norðan við Setberg, þaðan yfir fellið og niður að Rangá. Vestan við Rangá skiftir gamall garður löndum milli jarðanna syðst á Heyvallarfit“. Þarna sé gert ráð fyrir að landamerkjalínan sé áframhaldandi bein að Rangá og liggi síðan eftir gömlum garði og sé á henni smá hlykkur svo hún stefni upp í Heyvallargróf. Norðan þessarar línu séu tún aðalstefndu og hafi aðalstefnendur ákveðið að gefa eftir land á því svæði þótt landamerkjalýsingar segi annað og sé því miðað við þjóðveginn í kröfulínum aðalstefnenda og farið norður fyrir túnin og síðan tekin lína upp í krók einn á Heyvallargróf.

Aðalstefnendur segja merkin milli jarðanna úr Heyvallargróf og upp á Kinnarfjall óumdeild.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu hafi haft óljósar hugmyndir um landamerkjalínuna. Fulltrúi aðalstefndu hafi ýmist sagt að hún sé í vörðuröð beint yfir Kinnarfell eins og stefnendur haldi fram en einnig hafi hann talað um torfvörðu í Kjóamýri sem skapi stefnubreytingu á línunni og standist engan veginn lýsingar á merkjum. Þá virðist fulltrúinn rugla saman kennileitunum Skipapolli og Grænhyl í Skjálfandafljóti. Þá sé ýtrasta kröfulína hans í Hildarklöpp án nokkurra heimilda og virðist hann rugla milli Setbergs og Hildarklappar í frásögn sinni.

Aðalstefnendur segja að ein af hugsanlegum línum sem talsmaður aðalstefndu hafi bent á sem landamerkjalínu milli jarðanna eigi að liggja um „Votulág“. Votalág sé lægð með mýri sem liggi þar sem landamerki innan girðingar í Fellsskógi séu á milli Yztafells II og Fellsels. Engar vörður hafi fundist í þeirri línu upp hlíðina. Ætla megi að stefndu hafi af misskilningi talið að landamerkjalína milli Fellssels og Yztafells eigi að koma í framhaldi af línu innan Fellsskógar við vestanvert Skjálfandafljót. Aðalstefnendur segja að þegar Skógrækt ríkisins hafi ákveðið að gera girðingu utan um fyrirhugaða ræktun hafi þótt sanngjarnt að Fellssel, sem hafi haft ítök í Fellsskógi í harðindum til eldiviðarhöggs, fengi afmarkaðan skika innan girðingar þó girðingin næði ekki suður yfir landamerki Yztafells og Fellssels. Eins hafi verið háttað um fleiri jarðir í nágrenninu.

Aðalstefnendur segjast telja vel ljóst hvar landamerkin milli jarðanna séu, Grænhylur og varða við Setberg séu það skýr kennileiti að ekki verði um villst. Vörður vestur yfir Kinnarfell og stór steinn sem hlaðinn sé á varða vestan í Kinnarfelli staðfesti leguna. Einnig styðji breidd Fellsselslands að merkin séu rétt hjá stefnendum en breidd Fellsselslands ásamt Árlandi sé þriðjungur heildarbreiddar jarðanna. Ljóst sé að merkjalýsingar, frásagnir og röksemdir Fellsselsmanna séu mjög loðnar og óskýrar og veiki það mjög stöðu þeirra í þessum landamerkjaágreiningi.

Aðalstefnendur segja að skipting gömlu Yztafellsjarðarinnar í Yztafell og Fellssel hafi verið sú að Fellssel hafi átt að fá þriðjung landsins. Heildarstærð upprunalegs Yztafells sé 2690 ha og þriðjungur af því sé 896 ha. Stærð Fellssels með Árlandi, miðað við kröfur aðalstefndu, sé hins vegar 1217 ha. eða allmiklu meira en þriðjungur landsins. Stærð Fellsels, miðað við kröfu Yztafells, sé 1133 ha sem sé allmiklu nær þessum þriðjungshluta. Ljóst sé af þessu að þegar Fellsseli hafi verið skipt úr landi Yztafells hafi Fellssel fengið stærra land í flatarmáli en nemi þriðjungshlut. Sé gróðurlendi mælt upp sérstaklega, svo sem austurhlíð Kinnarfells við Fjallsbrún og austur í fljót, mælist landsstæðið þannig að heildarstærð upprunalegs Yztafells sé 1421 ha. þriðjungur þess sé 473 ha. Stærð Fellssels með Árlandi, sé farið eftir kröfum aðalstefndu, yrði 562 ha en stærð Fellssels, miðað við kröfu aðalstefnenda, sé 484 ha sem sé mun nærri lagi. Sjáist af þessu að krafa aðalstefnenda sé nær því flatarmáli gróðurlendis sem hin gamla skipting hafi gert ráð fyrir. Aðalstefnendur segjast vísa til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 en einnig til 1.-6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki sbr. 6. gr. laga nr. 92/1991.

Málsástæður og lagarök aðalstefndu í aðalsök

Aðalstefndu segjast byggja kröfur sínar á þinglýstum landamerkjum Fellssels og Yztafells. Merkjalýsingum sem þar komi fram hafi í engu verið breytt en ágreiningur aðila lúti fyrst og fremst að staðsetningu varða og kennileita. Aðalstefndu segja að austasta kennileitið, Grænhylur í Skjálfandafljóti, sé nefnt í landamerkjabréfum beggja jarða. Í báðum bréfum sé talað um að að austan ráði sú megin kvísl Skjálfandafljóts er falli norðaustur úr Grænhyl. Þessi lýsing eigi að mati stefndu og samkvæmt orðanna hljóðan einungis við merkin gagnvart jörðum austan Skjálfandafljóts en segi ekkert um hvar merkjalína milli Yztafells og Fellssels komi niður í fljótið enda sé kvíslin augljóslega nokkuð löng frá suðri til norðurs og alls ekki einn punktur. Í báðum bréfum segi um mörkin við Skjálfandafljót að upp frá fljótinu ráði vörður sem liggi upp hlíðina upp á brún, rétt norðan við Setberg. Af hálfu aðalstefndu sé lögð áherzla á að mikill misskilningur sé, sem greina megi í málatilbúnaði aðalstefnenda, að Grænhylur hafi nokkuð með landamerki Yztafells og Fellssels að gera. Ekki sé með nokkru móti hægt að lesa það út úr landamerkjabréfum jarðanna að landamerkjapunktur þeirra við Skjálfandafljót miðist við kvíslina úr Grænhyl enda marki hún einungis landamerkin í austri í fljótinu á móti jörðum sem eigi land í Skuldaþingey og Þingey sem séu jarðir handan fljóts í gamla Reykdælahreppi.

Aðalstefndu segja að landamerkjabréfin séu bæði frá 1885. Vitað sé að einhverjar merkjavarðanna hafi verið torfvörður og því eðlilegt að erfitt sé að greina þær nú þó merki um þær sjáist og hugsanlega megi staðsetja þær með jarðlagarannsóknum. Engar vörður sé að finna á kröfulínu aðalstefnenda þar sem hún liggi frá Skjálfandafljóti upp að Setbergsvörðunni. Í kröfulínu stefndu megi hins vegar finna eina skýra grjótvörðu og menjar séu um torfvörður á línunni þó að ekki hafi verið lagt út í kostnað við að aldursgreina þær. Aðalstefndu segjast telja, til stuðnings kröfulínu sinni frá fljótinu upp að vörðunni norðan Setbergs, að auk þess sem línan styðjist við áðurnefnda merkjavörðu í skógi ofarlega í Votulág og við menjar af torfvörðum, sé lega hennar staðfest með öðrum heimildum. Segjast aðalstefndu í fyrsta lagi vísa til samninga við Skógrækt ríkisins frá árinu 1958 þar sem Fellssel sé aðili samningsins og láti Skógræktinni í té helming lands síns innan skógræktargirðingarinnar. Hefðu menn staðið í þeirri trú að landamerki jarðanna hefðu legið sunnar, um kröfulínu aðalstefnenda, hefði Fellssel ekki verið aðili að þessum samningi. Landamerkin komi meira að segja fram á uppdrætti sem fylgt hafi samningum sem staðfesti að þau hafi verið talin liggja um Votulág. Fellssel sé ekki aðili að eldri samningi Skógræktarinnar, frá 1945, enda hafi girðingin þá ekki náð eins langt í suður og síðar hafi orðið. Í öðru lagi segjast aðalstefndu vísa til lýsinga í skrá Alfreðs Ásmundssonar frá Hlíð um örnefni í Ljósavatnshreppi en Alfreð hafi aðallega safnað þeim á árunum 1942 til 48. Þar segi í skránni um Fellssel að merkin liggi austur yfir fell beint í Votulág í skógi. Í örnefnalýsingu fyrir Yztafell segi jafnframt að Votalág heiti suður við merki. Í þriðja lagi sé vísað til ummæla í bók Jóns Sigurðssonar frá 1965 um Sigurð í Yztafelli og samtíðarmenn á blaðsíðu 52 þar sem haft sé eftir Sigurði að sama vorið og hann hafi komið í Yztafell, 1863, hafi verið ráðist í að byggja tvö nokkuð stór beitarhús austan í fellinu sitt frá hvorum bænum, Yztafelli og Fellsseli. Hafi Yztafellshúsið verið byggt á svonefndum Fellskofarinda og hitt í Fellsseli. Minjar sjáist um þessi beitarhús. Segja aðalstefndu þetta í raun staðfesta að á þeim tíma hafi menn talið landamerkin liggja langt norðan við kröfulínu aðalstefnenda en ella hefðu bæði beitarhúsin verið í Yztafellslandi. Í fjórða lagi segjast aðalstefndu vísa til bókarinnar Lýsing Þingeyjarsýslu sem gefin hafi verið út árið 1954 og verið rituð af Jóni Sigurðssyni frá Yztafelli, segi þar á blaðsíðu 172 „Í hinni bröttu hlíð er Fellsskógur eign fjögurra jarða Fornahóls, Hólsgerðis, Yztafells og Fellssels.“ Í fimmta lagi sé vísað til arðskrár fyrir Skjálfandafljót. Þar komi fram að hlutdeild Fellssels og Árlands sé um 3,63% en hlutdeild beggja Yztafellsjarðanna án Hólsparts sé um 7,26%. Þó arðskráin helgist vissulega af fleiri þáttum en bakkalengdinni einni gefi þetta vísbendingu um að land Fellssels með Árlandi sem liggi að Skjálfandafljóti sé mun fremur í samræmi við kröfu aðalstefndu en aðalstefnenda.

Aðalstefndu segjast fallast á vörðuna norður af Setbergi sem landamerkjapunkt og miða kröfugerð sína við það. Ágreiningur hafi verið uppi um staðsetningu vörðunnar og hafi stefndu haldið því fram að hún væri norðar en sú varða sem miðað sé við í kröfugerðinni. Frá þessu hafi nú verið fallið. Vestan við vörðuna norðan Setbergs, sem aðilar séu sammála um að skuli vera landamerkjapunktur, segjast aðalstefndu draga kröfulínu sína um merkjavörður sem liggi upp hlíðina og séu merktar á uppdrætti sem liggi fyrir í málinu. Á uppdrætti stefnenda séu vörðurnar merktar sem Ný varða 02 og Ný varða 01. Þessi staðsetning landamerkjalínunnar eigi grundvöll í landamerkjabréfum beggja jarðanna þar sem segi að vörður ráði merkjum yfir fellið og niður að Rangá. Kröfulína aðalstefndu vestan við Setbergsvörðuna sé í samræmi við sáttatillögu sýslumanns á Húsavík frá 21. október 2008. Kröfulína aðalstefnenda liggi sunnar og um þétta vörðuröð sem merkt sé inn á uppdrátt. Engin rök séu fyrir þessari kröfulínu. Þvert á móti beri þær vörður, sem aðalstefnendur telji vera merkjavörður, þess merki að vera settar þétt til þess að vera ratvörður enda varði þær stystu og einföldustu gönguleið frá Fellsseli yfir Kinnarfellið að beitarhúsi við Skjálfandafljót. Séu þær nefndar Fellsselsvörður og helgist tilvera þeirra og þéttleiki af því að daglega hafi þurft að fara frá Fellsseli í beitarhús í ýmsum veðrum þannig að leiðin hafi þurft að vera vel vörðuð. Beitarhúsavörður þessar varði svonefndar Fellsselsstíg og byrji ofan við gömlu göturnar vestan í Kinnarfelli og liggi austur í beitarhús. Fari bilið milli þeirra víða niður fyrir 80 metra. Vörður þessar séu á milli 25 og 30 talsins á ekki langri leið, þær séu nefndar í örnefnaskrá fyrir Fellssel og séu sagðar liggja norðan vert við Syðri Hnjúk. Aðalstefndu segjast auk þess benda á að vörður þær sem séu á kröfulínu aðalstefndu líti eins út og séu með svipuðum þéttleika og aðrar merkjavörður, svo sem vörður á hinni ágreiningslausu merkjalínu í Kinnarfjalli og vörður á norður landamerkjum Yztafells en þær séu að sömu lögun og gerð og þéttleika og almennt hafi gerst um landmerkjavörður sem reistar hafi verið á þessum tíma í samræmi við ákvæði landamerkjalaga frá 1882. Segjast aðalstefndu, til enn frekari staðfestingar þess að þessar vörður séu hinar réttu merkjavörður, vísa til örnefnaskrár sem áður hafi verið nefnd, en þar sé örnefnið Merkimelur nefnt en hann sé einmitt rétt hjá þar sem ný varða sé merkt. Loks sé vakin athygli á því að ekkert styðji þá fullyrðingu aðalstefnenda að landamerkjabréfin kveði á um að línan til austurs frá Króki í Heyvallargróf liggi um punktinn veg-suður. Þvert á mót sé kröfulína aðalstefndu sem liggi frá Krók í Heyvallargróf til austurs í áttina að Merkimel um punktinn vegur-norður, í beinu framhaldi af gömlum garði sem skiptir löndum vestan Rangár, auk þess sé gamall skurður á kröfulínu stefndu sem grafinn hafi verið í merkjum á sínum tíma. Skurðir á kröfulínu aðalstefnenda séu yngri skurðir sem grafnir hafi verið til landþurrkunar. Loks segjast aðalstefndu vísa til hefðar og þess að eigendur Fellssels hafi eðlilega og athugasemdalaust af hálfu gagnaðila nýtt land sitt, þar með talið ræktað tún á landinu austan og vestan Rangár.

Aðalstefndu segjast mótmæla ýmsum staðhæfingum og ályktunum sem fram hafi komið í stefnu í aðalsök. Í fyrsta lagi sé rangt að land Fellssels sé nákvæmlega þriðjungur af heildarlandi Yztafells og Fellssels. Engin haldbær rök hafi verið færð fyrir þessu. Segjast aðalstefndu í þessu sambandi jafnframt vísa til 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 til hliðsjónar. Í öðru lagi segjast aðalstefndu mótmæla því, að þau hafi komið með óskýrar hugmyndir um landamerkin, þau hafi þvert á móti tjáð skýra mynd af landamerkjunum upp Kinnarfellið vestanvert og í skóginum við fljótið. Hið eina sem hafi verið vafa undirorpið sé varðan norður af Setbergi sem aðalstefndu hafi talið að ætti að vera norðar en sú varða sem nú hafi verið fallist á sem landamerkjapunkt. Í þriðja lagi sé mótmælt frásögn aðalstefnenda að í vettvangsgöngu sem farin hafi verið í deilumáli þessu í upphafi níunda áratugs síðustu aldar, en í þeirri ferð hafi einungis verið gengið eftir kröfulínu Yztafellsmanna en ekki Fellsselsmanna. Hafi því enginn árangur orðið af ferðinni. Í fjórða lagi mótmæli aðalstefndu því að staðsetning Grænhyls í Skjálfandafljóti sé óumdeild, séu líkur á að tveir staðir í fljótinu séu nefndir þessu nafni. Í fimmta lagi segjast aðalstefndu mótmæla því að Fellssel hafi átt einhverskonar skógarítak í Fellsskógi og þess vegna hafi Fellssel verið aðili að samning við Skógrækt ríkisins. Engin gögn og engin rök hafi verið færð fyrir þessu og augljóst sé að Fellssel hafi verið aðili að samningunum vegna þess að syðsti hluti skógarins sé í Fellsselslandi. Aðalstefndu segjast vísa til almennra reglna einkaréttar og kröfuréttar laga nr. 46/1905 um hefð, vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 41/1919. Krafa um málskostnað úr hendi aðalstefnenda sér reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök aðalstefndu í gagnsök

Aðalstefndu styðja kröfur sínar í gagnsök sömu rökum og kröfur sínar í aðalsök.

Málsástæður og lagarök aðalstefnenda í gagnsök

Í gagnsök krefjast aðalstefnendur þess að verða sýknuð af öllum kröfum aðalstefndu. Aðalstefndu segjast telja kröfur þær sem settar séu fram í gagnsök vera nýjar af nálinni og enn eina útgáfu margvíslegra hugmynda aðalstefndu um landamerki milli jarðanna. „Hin nýja landamerkjalína“ aðalstefndu fái stuðning í landamerkjabréfi jarðanna og ekki gangi hún upp landfræðilega. Þá fái hún ekki stuðning í sögulegum heimildum.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu víkja að því að austasta kennileitið, sem nefnt sé í landamerkjabréfum jarðanna, sé Grænhylur í Skjálfandafljóti en landamerkin skuli vera sú megin kvísl Skjálfandafljóts er falli norðaustur úr Grænhyl. Aðalstefnendur segja aðalstefndu hafa nefnt álana fyrir norðan Grænhyl upp á nýtt og kalli þá Grænhyl. Aðeins sé þó um einn eiginlegan Grænhyl að ræða og það sé sá sem að aðalstefnendur hafi merkt inn á sinn uppdrátt. Úr honum falli megin kvísl í norðaustur, hún sé örstutt og í hana sé dregin lína á uppdráttum aðalstefnenda sem sýni suðurmörk Yztafells. Reyndar sé til Litli-Grænhylur sem sé skammt norðaustur af hinum en sá litli verði ekki teygður í norðvestur svo sem aðalstefndu geri. „Hin lína [aðalstefndu] á óvissusvæði“ hafi ekkert kennileiti að miða við og álarnir á því svæði stefni í norð norðvestur. Merkjalína aðalstefndu á þessu svæði sé því byggð á skáldskap.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu hafi haldið því fram að kvíslin úr Grænhyl sé ekki merkjapunktur milli jarðanna heldur séu með henni skilgreind austurmörk jarðanna, ef rétt sé hafi lýsingin samt þýðingu þar sem staðurinn sé nefndur í báðum landamerkjabréfum. Það þýði að landamerki Yztafells nái suður á móts við þann stað sem kvísl falli norðaustur úr Grænhyl. Skilning aðalstefndu sé ekki hægt að finna í landamerkjabréfi Vaðs sem sé handan Skjálfandafljóts. Landamerkjalínan sé merkt á uppdrátt beggja aðila og sé ekki miðuð við miðlínu eystri kvíslarinnar, þeirrar sem renni í norðaustur, heldur beina línu frá þeim stað er opin standi Barnafellsgljúfur og norður eftir í miðkvísl Skjálfandafljóts, sbr. landamerkjalýsingu Vaðs.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu vísi til lýsingar landamerkjaskráar beggja jarða varðandi línuna frá Skjálfandafljóti, að vörður skuli ráða merkjum: „liggja þær upp hlíðina og upp á brún, rétt norðan við Setberg, þaðan yfir fellið..“. Aðalstefnendur segjast líta svo á að þarna sé lýst áframhaldandi línu en ekki „Zik-Zak línu“ sem aðalstefndu miði við. Til þess að finna þessa línu hafi aðalstefndu fundið eina vörðu sem þau setji í „Votulág“ sem landamerkjabréfin minnist ekki á. Votulág hafi aðalstefndu fundið í örnefnaskrá sem samin hafi verið af Alfreð Ásmundssyni í Hlíð og ekki sé víst að sé sú lág sem aðalstefndu vilji láta vera. Fleiri lágar séu á þessu svæði sem komi til greina sem Votalág.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu hafa blandað inn í landamerkjaágreininginn spildu þeirri í Fellsskógi sem hafi verið eyrnamerkt Fellsseli. Fellssel hafi haft ítök í skóginum en ekki átt þar eignarland. Ítökin hafi verið veitt Snorra í Fellsseli af Sigurði í Felli í byrjun 20. aldar eftir að landamerkjabréfin hafi verið gefin út. Þetta fyrirkomulag hafi gilt frá þeirri tíð og aðalstefndu hafi ekki gert kröfu til þessa lands í málinu. „Fellsselsskógurinn“ sé eins og eyja í landi Yztafells. Sjáist þetta vel af samningi Skógræktarinnar frá 1958 þar sem Fellssel láti land sunnan af landi sínu en ekki norðan af. Velta megi fyrir sér hvers vegna ekki hafi verið minnst á skóginn í landamerkjabréfunum eða á kennileiti í honum. Svarið gæti legið í því að hann hafi ekki verið í merkjum.

Aðalstefnendur segjast telja að lítt kunnugir og þeir sem eingöngu komi í skóginn hafi ruglað merkjum í skógi saman við landamerkin norðan Setbergs. Aðalstefnendur segjast ekki draga tilvist Fellsselsskógar í efa og segjast m.a. hafa boðið til sátta að taka með þinglýsingu af allan vafa um „eignarrétt Fellssels á þessum ítökum“. Fellsskógurinn hafi ekki verið skráður sérstaklega sem fasteign og hafi aðalstefndu enga þinglýsta eignarheimild af honum.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu leggja sig í líma við að tengja skógræktarspilduna við landamerkjalínu sína en takist ekki vel. Varða í Votulág lendi innan spildunnar en til að kröfulínan samrýmist „mörkum ítaksspildunnar“, verði að koma hlykkur á hana, en svo sé ekki í landamerkjalýsingunum.

Aðalstefnendur segja engin merki vera við Skjálfandafljót sem fái stoð í landamerkjalýsingum frá 1885. Því sé mótmælt að um merkjavörður sé að ræða í skógi ofarlega í Votulág. Einnig séu kröfulínur Fellssels ýmist við eða töluvert norðar en Votalág og því dragi aðalstefnendur í efa þekkingu aðalstefndu á þeirri staðsetningu Votulágar sem þeir svo gjarnan vísi í.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu segist vera með eina skýra grjótvörðu til að miða við og setja markalínu sína á, frá Skjálfandafljóti upp á Setberg. Varða þessi sé ekki líklegri en hver önnur en varhugavert sé að ætla að þeir sem hafi gert landamerkjabréfin hafi einungis haft eina vörðu ofan í lægð í huga. Hins vegar hafi verið varða á árbakkanum við kröfulínu aðalstefnenda og vísist til þess sem segi um þá vörðu í stefnu í aðalsök.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu fjalli um torfvörðu sem geti verið í kröfulínu þeirra en séu það reyndar ekki. Séu það hæpnar bollaleggingar. Sé líklegt að meintar torfvörður séu aðeins hraukar eftir viðarkolagerð. Aðalstefndu vísi ekki í neinar heimildir um torfvörður.

Aðalstefnendur segja landmerkjavörður hafa borið þess merki að vera veglegri en aðrar vörður, hlaðnar úr steini og áberandi í landslagi. Ekkert bendi til þess að við Votulág séu leifar af vörðum og ekki sé að sjá að nokkrar heimildir séu til um torfvörður á landamerkjum Yztafells og Fellssels. Verði að vísa þessu alfarið á bug.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu fari ekki rétt með heimildir þegar Sigurður frá Yztafelli hafi fjallað um beitarhúsin, hafi hann ekki sagt „hitt í Fellsseli“ heldur þvert á móti að beitarhúsin hafi bæði verið í Fellskofarinda og sé óumdeilt að hann sé í Yztafellslandi.

Aðalstefnendur segjast vísa til loftmynda sem þeir hafi lagt fram í málinu. Sýni ein þeirra kröfulínu aðalstefndu, annarsvegar eftir hnitum og hinsvegar eftir uppdrætti aðalstefndu. Ný varða, 02, lendi þar sunnan við vörðu við Setberg. Sé þetta ruglingsleg framsetning og eigi að leiða til sýknu á kröfum aðalstefndu eða jafnvel frávísunar þeirra. Þá sýni önnur mynd kröfulínur aðila austan Setbergs. Sýni þar ein lína hvernig uppdráttur úr gagnstefnu sýni kröfulínu aðalstefndu en önnur lína sé dregin eftir þeim hnitum sem uppgefin séu í gagnstefnu og greinargerð í aðalsök. Sé þar allmikill munur á og auki þetta á ruglingslega framsetningu af hálfu aðalstefndu.

Aðalstefnendur segja að í gagnstefnu sé punktur 1, sem eigi að vera austasti punktur merkja, staðsettur á grynningum milli tveggja meginkvísla Skjálfandafljóts, annarsvegar þeirrar sem renni vestar, meðfram Fellsskógi, og hins vegar þeirri austari, er renni úr Grænhyl. Varðan, sem ýmist er sögð í Votulág eða skógi, sé ekki við norðurmörk skógarspildu þeirrar sem eyrnamerkt sé Fellsseli þannig að eitthvað skorti á að kenningin um að hún sé landamerkjavarða gangi upp. Aðalstefnendur segja að á loftmyndum sem að þeir hafi lagt fram í málinu megi sjá staðsetningu á Grænhyl og punkti 1, kröfu aðalstefndu og að punktur 1 sé ekki staðsettur í megin kvísl þeirri sem renni norðaustur úr Grænhyl. Einnig megi á myndinni sjá, að sú kvísl sem renni „norðaustur“ úr Grænhyl sé sú kvísl sem vísað sé í og að örnefnið Grænhylur sé rétt staðsett. Sá hylur, sem sé norðan við kennileitið Grænhyl, sé ekki með útrennsli í norðaustur heldur í norð norðvestur. Megi af þessu draga þá ályktun að krafa aðalstefndu sé mjög óljós og hún sé ekki í samræmi við fyrri kröfugerð og segjast aðalstefnendur telja aðalstefndu alls ekki hafa áttað sig á staðháttum.

Aðalstefnendur segja uppdrátt Skógræktar ríkisins af Fellsskógi vera með merkjum innan girðingar milli þeirra jarða sem að skógræktinni hafi staðið. Merki innan girðinga séu í engum tilfellum tengd við merki jarða í Kinnarfelli og gefi ekkert til kynna að Fellssel hafi haft landamerki í Kinnarfelli á þeim stað þar sem dregin sé lína innan girðingar. Í samningi Skógræktarinnar sé ekki minnst á Votulág og hún ekki staðsett í uppdrætti með örnefnamerkingu.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu leggja mikla áherslu á örnefnaskrá Alfreðs Ásmundssonar, sú skrá sé hins vegar ekki einhlít og afar ónákvæm þegar komi að landamerkjum. Alfreð vísi þó til þess að örnefni og annað hafi horfið og skurðir verið grafnir á síðari tímum. Í örnefnaskránni segi hann merkin vera austur yfir fell og beint í Votulág. Ekki komi það heim og saman við kröfugerð aðalstefndu nema að Votalág sé sunnar en haldið sé fram í gagnsök. Aðalstefnendur segja að í lýsingu Alfreðs á örnefnum í Yztafellslandi segi hann að merkin liggi frá Merkigarði að vestan í Merkimel vestan í fellinu, um Merkivörðu norður af Setbergi, þaðan í Votulág sunnarlega í skóginum. Þessi lýsing komi ekki heim og saman við lýsinguna hjá Fellsseli og því sé ekki hægt að reiða sig á örnefnaskrá Alfreðs sem örugga heimild. Það að auki styðjist Alfreð ekki við landamerkjalýsinguna í landamerkjabréfum jarðanna þar sem ekki sé minnst á Votulág, heldur vörður. Samkvæmt þeim hafi merkin legið úr vörðu við Setberg og þaðan niður í fljót en ekki í norðurátt að Votulág og þar niður. Þá lýsi Alfreð því að upp af Votulág sé Setbergsrétt, þar hafi eitt sinn verið beitarhús frá Fellsseli og Yztafelli. Í skrifum Sigurðar frá Yztafelli komi fram að byggð hafi verið beitarhús fyrir Yztafell og Fellsel á svonefndum Fellskofarinda og í örnefnaskrá komi fram að Fellskofarindi hafi verið innan Yztafellsmerkja. Megi því álykta út frá þessum heimildum, séu þær réttar, að Yztfell og Fellssel hafi haft beitarhús víða um lönd sín og hafi þau þá ekkert haft með landamerki að gera. Aðalstefnendur segja að Sigurður á Yztafelli lýsi því í skrifum sínum að Fellsskógur hafi verið eign fjögurra jarða Hóls, Hólsgerðis, Yztafells og Fellssels en alls ekki að jarðirnar hafi átt tilteknar spildur sem tengst hafi merkjum en skógurinn sé að miklu leyti í eða fyrir landi Yztafells. Sigurður hafi fjallað um skóglendi í austurhlíð Kinnarfells. Heimildir séu fyrir því að skógar á Íslandi til forna hafi verið mun stærri en þeir hafi verið á síðari tímum. Einnig séu heimildir fyrir því að í harðindum hafi verið gengið mjög á skóga í Yztafellslandi segir Sigurður. Á blaðsíðu 50 í ritinu „Sigurður í Yztafelli“ sé skrifað um Fellsskóg og segir m.a. að nágrannar fái leyfi til kolagerðar. Nágrannar Yztafells hafi norðanmegin verið Gvendarstaðir, Hóll og Hnjúkur. Aðrir nágrannar, Fellssel og bæir sunnar í Kinn, hljóti þá að teljast sem nágrannar sem fengið hafi að nýta skóginn í Yztafellslandi. Aðalstefnendur segja að í örnefnaskrá Alfreðs segi að Grænhylur sé norðvestan undir Þingeyjarbjörgum, einmitt á þeim stað sem aðalstefnendur haldi fram að hann sé. Fellsselstagl hafi legið mun sunnar en skógurinn sé nú. Orðið tagl bendir til þess að um nokkurskonar enda verið að ræða.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu segi í kröfum sínum að dregin sé bein lína úr vörðu við Setberg í vörðu við Merkjamel, punkt merkt Ný varða 02, og þaðan í Krók á Heyvallargróf. Þessi lína sem dregin sé eftir hnitum uppgefnum í dómkröfum aðalstefndu sé ekki í samræmi við uppdrátt þann sem fylgi stefnu í gagnsök.

Aðalstefnendur segjast telja að vörður sem standi norðan í Kinnarfelli en í kröfulínu þeirra hafa verið stækkaðar og við þær átt. Af þessu segjast aðalstefnendur draga þá ályktun að aðalstefndu hafi reynt að spilla fyrir málinu en sem betur fer séð að sér að hluta til og dregið til baka eina af mörgum staðleysum í málflutningi sínum og sé hér átt við flutning kröfulínu að Setbergi.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu segja engin rök fyrir því að fara eftir vörðuröðinni fyrir vestan Setberg og vestur yfir fellið og vilja fara eftir línum sem sýslumaður hafi notað í sáttatillögu sinni. Þessu segjast aðalstefnendur mótmæla enda standist vörður þær, sem aðalstefndu vilji miða línu sína við, ekki lýsingu landamerkjabréfa og séu auk þess ekki trúverðugar sem merkjavörður. Lýst hafi verið rökum fyrir því að steinvarða í Fellsbrún vestanverðri beri við Fellsbrún frá vegi og frá Rangá og að merkjavörður séu hafðar með þeim hætti að þær skeri sig úr landslaginu. Telja megi að minni vörður á leiðinni hafi verið lagðar milli merkjavarða sem fyrir hafi verið í stað þess að leggja nýja vörðuröð samhliða merkjavörðum.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu vísa til þess að vörðuröðin yfir Kinnarfell séu ratvörður og tilvera og þéttleiki helgist af því að fara hafa þurft daglega frá Fellsseli, í ýmsum veðrum, þannig að leiðin hafi þurft að vera vel vörðuð. Allar líkur séu á því að merkjavörður hafi upphaflega verið gerðar á merkjum á áberandi stöðum þar sem sjónlína væri á milli. Megi gera ráð fyrir að ef ástæða hefði þótt til þess að gera þétta vörðuröð yfir fellið á svipuðum stað að þá hefði verið bætt inn í merkjavörðuröðina og hún þétt. Aðalstefndu segja þetta óskildar vörður en um 270 metrar séu á milli þeirra varða sem liggi upp samkvæmt línu aðalstefndu og ratvörðuraða þeirra. Sé því líklegt að ef um tvær vörðuraðir væri að ræða, hvora á sínum staðnum yfir fellið, ylli það misskilningi og skapaði hættu á að menn villtust á leið sinni yfir fellið. Við þetta megi bæta að vörður séu yfirleitt ratvörður og ef vísað sé í landamerkjabréfið í vörðuröð séu yfirgnæfandi líkur á því að merkin styðjist við ratvörður en ella hefði hver og ein varða verið tiltekin með tengingu við kennileiti, sbr. vörðuna norðan Setbergs.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu fullyrða að landamerkjalína aðalstefndu eigi grundvöll í landamerkjabréfum beggja jarða þar sem segi að vörður ráði merkjum yfir fellið og niður að Rangá fái ekki staðist. Frá vörðu „Ný varða 02“ á korti sé ekki sjónlína í nokkra vörðu sem fari yfir fellið og að vörðu við Setberg.

Aðalstefnendur segja kröfulínu sína vera beina línu frá steinvörðu í vesturbrún Kinnarfells að merkjavörðu við Setberg. Vörðurnar sem séu þéttar liggi að hluta til norðar, fari norður fyrir Setberg og beygi svo aftur suður að Setbergsrétt. Því hafi ekki verið haldið fram að hver einasta varða á leiðinni yfir fellið hafi verið hlaðin sem merkjavarða en gera megi ráð fyrir því að stærri vörður, í fjallsbrúnum beggja vegna við, séu merkjavörður.

Aðalstefnendur segja að í greinargerð aðalstefndu sé fullyrt að Merkimelur sé einmitt þar sem Ný varða 02 sé staðsett í kröfulínu aðalstefndu. Þessu hafni aðalstefnendur og segjast telja að Merkimelur gæti alveg eins verið sunnar og ennfremur gæti verið fleiri en einn merkimelur á jörðunum. Reyndar megi spyrja af hverju landamerkjabréfin tiltaki ekki sérstaklega þennan mel og þessa vörðu gagnstefnenda. Ætla megi að hún sé nýrri en landamerkjabréfin. Aðalstefnendur segjast benda á að vestan í Kinnarfelli séu einir 10 melir sem gætu talist merkimelir og séu tveir þeirra í kröfulínu aðalstefnenda.

Aðalstefnendur segja að smölun á Yztafellssvæði í Kinnarfelli hafi verið háttað þannig að ekið hafi verið suður að girðingu á túni Yztafells III, nú Yztafells II, og þar gengið yfir brú á vegskurði og þaðan suður og austur upp eftir vörðum upp fellið og að Setbergi. Hafi verið litið á vörðuröðina sem merki milli jarðanna.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu haldi fram að vörðurnar á merkjalínu aðalstefndu yfir fellið líti eins út og séu af svipuðum þéttleika og aðrar merkjavörður í Kinnarfelli og vörður á norður landamerkjum Yztafells. Þessu segjast aðalstefnendur mótmæla harðlega. Þær tvær vörður sem séu í kröfulínu Fellssels séu langt frá því að vera svipaðar að útliti og stærð og með þeim þéttleika sem aðrar merkjavörður í merkjalínu í Kinnarfelli. Aðalstefnendur segjast benda á að vörður í Kinnarfelli séu allar með 700 metra millibili upp á Grjót og séu allar í sjónlínu frá vörðu til vörðu. Vörðurnar tvær, í línu aðalstefndu, séu með 400 metra millibili og næsta varða í þeirri línu, Setbergsvarðan, sé í 1180 metra fjarlægð og ekki í sjónlínu. Sjáist á þessu hve fráleit kröfulína aðalstefndu sé.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu halda fram að kröfulínur Yztafells vestan Rangár fylgi skurðum sem hafi orðið til á síðari tímum. Aðalstefnendur segja að kröfulínan fylgi ekki skurðunum heldur gömlum merkjum. Kröfulína liggi í beinni línu frá Grænhyl, Setbergsvörðu, Steinvörðu í vesturhlíð Kinnarfells og niður að núverandi þjóðvegi og á þeirri leið séu engir skurðir. Aðalstefnendur hafi í sáttavilja dregið línu við þjóðveg norður í „Vegur-Norður“ punkt og þaðan upp í Krók í Heyvallargróf og sé þar fylgt beinni línu í framhaldi af Heyvallargróf að þjóðveginum. Aðalstefnendur segja að ljóst sé að í örnefnaskrá Alfreðs Ásmundssonar séu misvísandi lýsingar á merkjum og séu örnefni hvorrar jarðar og lýsingar á merkjum ekki í samræmi. Sé hæpið að vísa til slíkra skjala þegar vísað er í Merkjavörðu, Merkjamel eða önnur örnefni sem gefi merki til kynna.

Aðalstefnendur segja að aðalstefndu hafi haldið því fram að engin haldbær rök hafi verið færð fyrir því að landi Yztafells og Fellssels hafi verið skipt í hlutföllunum ⅔ og ⅓. Í stefnu í aðalsök sé þetta rakið og jafnframt hafi verið færð rök fyrir því og vísað í heimildir um að Fellssel hafi verið talið þriðjungur upphafslegs Yztafells. Einnig hafi verið sýnt fram á með mælingum að land Fellssels sé töluvert umfram þriðjung samkvæmt kröfum aðalstefndu en aðalstefndu hafi ekki vísað í nokkrar heimildir fyrir ástæðum þess eða forsögu að landi hafi verið skipt öðru vísi en með þriðjungi til Fellssels. Vegna vísunar aðalstefndu í lög nr. 46/1941 um landskipti, væntanlega með þeirri hugsun að þriðjungsskiptin geti ekki staðist þar sem líta hafi þurft til landgæða og svo framvegis, segjast aðalstefnendur benda á að skiptin hafi farið fram löngu áður en þau lög hafi tekið gildi og landgæði í Fellsselslandi hafi þar að auki alls ekki verið lakari en í Yztafellslandi.

Aðalstefnendur segja að í jarðamati frá 1805, sem þó hafi aldrei verið löggilt, hafi Yztafell sjálft verið metið 14 hundruð og Fellssel 6 hundruð. Stundum muni hafa verið talað um að selið væri þriðjungur jarðarinnar allrar og skiptingin 14:6 sé ekki fjarri því. Í kjörskrá árið 1839 er kosið skyldi til alþingis hafi Bjarni Jónsson í Fellsseli átt þá jörð og hún sögð metin af 6⅔ úr hundraði sem einmitt sé þriðjungur af 20 hundruðum. Á sama tíma hafi Yztafell sjálft einmitt verið metið á 13⅓ úr hundraði, jörðina hafi þá átt Ljótunn Benediktsdóttir ekkja.

Aðalstefnendur segja aðalstefndu halda því fram að arðskrár veiðifélags segi einhverja aðra sögu en að Fellssel og Árland séu með þriðjung samanlagðs arðs með Yztafelli. Samkvæmt arðskránni séu þessar jarðir með 10900 einingar, Yztafell I sé með 3/9, Yztafell II með 3/9, Fellssel með 2/9 og Árland með 1/9. Þurfi því ekki að fjölyrða um að Fellssel með Árlandi sé með þriðjung arðsins. Hin forna skipting 1/3 Fellssel á móti 2/3 hafi verið látin ráða og torvelt að sjá hvert aðalstefndu fari með þessari umfjöllun. Sérstaklega hafi verið tekið fram við höfðun málsins að aðalstefnendur freisti þess ekki að sækja meiri arðskrárrétt og hafi aðalstefndu verið gert það ljóst. Aðalstefnendur segja að meðal málsástæðna aðalstefndu sé að ágreiningur hafi verið til staðar um árabil milli eigenda jarðanna. Á það fallist aðalstefnendur og því til staðfestingar vísa þeir til þess að snemma á níunda áratugnum hafi verið farin vettvangsganga. Í ljósi þess sé því andmælt að aðalstefndu geti að nokkru leyti vísað til hefðarréttar og hafi aðalstefndu ekki uppfyllt skilyrði þau sem lög nr. 46/1905 um hefð áskilji. Að öðru leyti segjast aðalstefnendur vísa til sömu málsástæðna og þeir byggi mál sitt á í aðalsök.

Við aðalmeðferð komu til skýrslugjafar fyrir dómi stefnandinn Jón Sigurðarson, stefndi Kristján Ingjaldur Tryggvason, Guðmundur Helgi Gunnarsson, Marteinn Sigurður Sigurðsson, Sigurður Bergsteinsson, Benedikt Sigurðarson og Kristbjörg Góa Sigurðardóttir.

Niðurstaða

Í máli þessu er ekki deilt um landamerki Yztafells og Fellssels vestan þjóðvegar. Aðilar deila hins vegar um merkin frá þjóðvegi í austur að Skjálfandafljóti, með þeirri undantekningu að þeim ber saman um staðsetningu vörðu norðan við Setberg, sem sé á 65°46,045N 17°32,441V.

Í jarðamati frá árinu 1804 segir meðal annars: „Nr. 247. Fellssel Hialeie til Nr 248. – ang. 6 hndr. ...“ og „Nr. 248. Ÿtstafell Holum forrige Bispestoels Jord. – 20 hndr. ...“. Í Jarðatali Johnsens, útg. 1847, segir meðal annars að Yztafell sé 20 hundruð að dýrleika en hjáleiga þess, Fellssel, er þar ekki metið til dýrleika. Um hjáleiguna segir hins vegar í neðanmálsgrein á sömu blaðsíðu: „Sýslumaður telur nú 6 ⅔ h af dýrleikanum á hjáleigunni, en 6 h. voru talin á henni 1805.“ Þykir óhætt að líta svo á að á umræddum tíma hafi Fellssel verið talið um þriðjungur heildarlands Yztafells og Fellssels. Hvorug kröfulína þessa máls leiðir til þess hlutfalls milli jarðanna, en kröfulína stefnenda er nær því hlutfalli en kröfulína stefndu. Ljóst má vera að við gerð landamerkjaskránna 1885 hafi meira en þriðjungur flatarmáls sameinaðra jarða komið í hlut Fellssels.

Í landamerkjaskrám Yztafells og Fellssels, frá maí 1885, segir meðal annars: „Að sunnan, austan í Kinnarfelli, ráða vörður merkjum milli Yztafells og Fellssels; liggja þær upp hlíðina frá fljótinu, og upp á brún, rjett norðan við Setberg, þaðan yfir fellið og niðr að Rangá.“

Á hinum umdeilda hluta landamerkjanna er þannig í landamerkjabréfinu miðað við að vörður ráði merkjum. Hvor aðili hefur í málinu teflt fram sinni kröfulínu. Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Sigurðar Bergsteinssonar fornleifafræðings, sem fenginn var til að leita manngerða varða á kröfulínum aðila. Í matsgerð kemur fram að á eystri hluta hinna umdeildu landamerkja, frá Skjálfandafljóti að vörðu við Setberg, fann matsmaður ekki vörður „með óyggjandi hætti“. Fyrir dómi var matsmaður spurður nánar hvort hann hefði „hnitsett [einhvern punkt] í slakkanum fyrir neðan Setberg, eða vörðuna fyrir neðan Setberg.“ Svaraði matsmaður því svo að þar hefði verið „lítil hrunin varða“, steinvarða. Spurður um aldur hennar sagði matsmaður: „Við erum að tala um já hugsanlega allavega um 100 ár myndi ég halda.“ Hnit hennar hefðu verið 566957,8 og 586350,3. Sönnunargildi slíks vitnisburðar dómkvadds matsmanns verður ekki jafnað til sönnunargildis matsgerðar, þótt til hans verði litið við úrlausn málsins.

Á vestari hlutanum, frá vörðunni við Setberg að þjóðvegi, segir matsmaður vera að finna vörður í mjög þéttri vörðuröð á kröfulínu stefnenda, alls tólf vörður. Sé erfitt að dæma um aldur þeirra en ætla megi að flestar séu þær eldri en aldargamlar. Í eða nálægt kröfulínu stefndu hafi fjórar vörður fundist, allar „frekar ungar“, utan ein sem hafi verið lág mosaþúfa með grjóti og alls óvíst hvort sé manngerð.

Gengið var á vettvang. Telur dómurinn, að gögnum málsins virtum, að ekkert hafi komið fram sem gefi sérstök efni til að efast um meginniðurstöður matsgerðar hins dómkvadda matsmanns, en ekki var óskað yfirmats. Telst sannað með matsgerðinni að á svæðinu frá þjóðvegi að vörðu við Setberg séu á kröfulínu stefnenda tólf vörður, sem flestar séu eldri en aldargamlar. Í og við kröfulínu stefndu séu hins vegar þrjár manngerðar vörður sem séu frekar ungar. Ekki þykir hins vegar sannað að þar sé að finna eldri manngerða vörðu.

Að mati dómsins verður ekki fullyrt um nákvæma staðsetningu örnefnisins Merkimels.

Dómurinn telur að vörður þær, sem finna má á kröfulínu stefnenda frá vegi að vörðu við Setberg, séu þéttari en svo að líklegt megi telja að þær hafi verið hlaðnar í þeim eina tilgangi að afmarka landamerki. Séu vörður hlaðnar svo þétt sé mjög líklegt að þeim hafi verið ætlað að auðvelda fólki að rata. Það atriði þykir hins vegar ekki draga úr líkum þess að landamerkin hafi jafnframt legið þar sem vörðuröðin er, enda ekkert sem mæli gegn því að leiðavörður séu notaðar til landamerkja eða merkjavörður séu hlaðnar þétt, svo þær geti einnig nýst sem leiðavörður. Á hinn bóginn þykir fremur ósennilegt að hlaðnar hafi verið tvær vörðuraðir, hvor æði nálægt hinni, önnur til merkja en hinni ætlað að beina mönnum leið. Í ljósi niðurstaðna matsmanns um aldur varðanna þykir óhætt að miða við að vörður þær, sem matsmaður lýsti á kröfulínu stefnenda, séu í raun vörður þær sem landamerkjabréf segir ráða merkjum, en ekkert í gögnum málsins þykir gefa tilefni til að draga það í efa.

Telja má almennar líkur fyrir því að landamerki séu sem mest í eðlilegri beinni línu eins og staðhættir og aðrar aðstæður leyfa. Sé út af því brugðið sé þess getið í heimildum, svo sem landamerkjaskrám. Sú lína, sem liggur í eðlilegri beinni línu, sé þannig almennt líklegri til landamerkja en sú sem gerir það ekki. Sá sem byggir á því að landamerki séu ekki eftir slíkri eðlilega beinni línu ber almennt sönnunarbyrði af staðhæfingu sinni.

Eins og áður hefur verið rakið greinir matsgerð dómkvadds matsmanns ekki frá vörðum frá þeirri sem óumdeild er við Setberg og niður að Skjálfandafljóti. Ummæli matsmanns fyrir dómi þykja styðja en ekki sanna að þar megi finna leifar steingerðrar vörðu á þeim stað er matsmaður tiltók.

Í landamerkjaskrám jarðanna, dags. 27. og 28. maí 1885, segir, eins og áður er getið: „Að sunnan, austan í Kinnarfelli, ráða vörður merkjum milli Yztafells og Fellssels; liggja þær upp hlíðina frá fljótinu, og upp á brún, rjett norðan við Setberg, þaðan yfir fellið og niðr að Rangá.“ Er ekkert sérstakt í bréfunum sem bendir til þess að landamerkin liggi um skóg. Stefndu hafa í málinu vísað til samninga sem Skógrækt ríkisins gerði við eigendur skóga í Kinnarfelli. Stefnendur hafa byggt á að Fellssel hafi átt ítaksrétt í skóginum en ekki eignarland. Að mati dómsins verður, við mat á sönnunargildi samninganna í þessu máli, að horfa til efnis þeirra og tilgangs. Með samningnum var Skógræktinni veittur réttur til að nýta tiltekið land til skógræktar. Samningnum var ekki ætlað að skera úr um mörk eignarlands milli einstakra jarða og ekki skipti öllu að gera greinarmun á beinum eignarrétti og ítaksrétti yfir því landi sem Skógræktinni var fengið til skógræktar. Samningarnir veita skýra vísbendingu um að Fellssel hafi verið talið eiga réttindi í hluta skógarins en þeir þykja ekki veita efni til að slá neinu föstu um hver þau réttindi hafa í raun verið talin vera. Samningur Skógræktar ríkisins og ungmennafélagsins Gamans og alvöru þykir ekki skipta máli í þessu samhengi en auk þess sem sagt er um eldri samninga Skógræktarinnar er þess að geta um samninginn við ungmennafélagið að ekki verður séð að neinir landeigendur hafi komið að gerð hans eða undirritun.

Í landamerkjaskránum er örnefnið Votalág ekki notað. Þess er getið í samantekt Alfreðs Ásmundssonar, Hlíð, um örnefni í Ljósavatnshreppi, en í formála kveðst Alfreð hafa safnað örnefnunum saman aðallega á árunum 1942 til 1948. Um landamerki Yztafells og Fellssels segir hann meðal annars í kafla sínum um Yztafell: „Austan Rangár beint frá Merkigarði að vestan, í Merkimel vestan í Fellinu um Merkivörðu norður af Setbergi, þaðan í Votulág sunnarlega í skógunum.“ Í kafla um Fellssel segir meðal annars: „Að norðan er Yztafellsland. Merki eru í girðingu yfir dalbotninn. Þaðan austur yfir Fell beint í Votulág í skógi. En vestur í Merkigróf og þaðan beint til fjalls.“ Ekki verður fullyrt um nákvæma staðsetningu Votulágar, en Alfreð telur hana hafa verið í skógi. Alfreð segir norðurmörk Fellssels liggja austur yfir Fell, beint í Votulág í skógi, og samkvæmt örnefnalýsingu Yztafells var Votalág suður við merkin. Samkvæmt þessu virðist Alfreð hafa litið svo á að merkjalínan hafi verið bein eða nokkurn veginn bein, en óumdeilt er í málinu að hún hafi legið um skýra vörðu rétt norðan Setbergs. Stefndu vísa til örnefnaskrár Alfreðs en stefnendur segja hana afar ónákvæma þegar komi að landamerkjum. Við mat á sönnunargildi örnefnaskrár Alfreðs verður að horfa til þess að hún er hvorki opinbert plagg né staðfest af eigendum umræddra jarða. Að öllu samanlögðu þykir hún ekki veita sönnun fyrir því hvar landamerki jarðanna hafi legið.

Í riti Jóns Sigurðssonar, útg. 1965, um Sigurð í Yztafelli og samtíðarmenn hans, er haft eftir Sigurði að sama vor og hann hafi komið í Yztafell, 1863, hafi verið ráðist í byggingu tveggja nokkuð stórra beitarhúsa, samstæðra, austan í fellinu, á svonefndum Fellskofarinda, og hafi hvort hús verið frá sínum bæ, Yztafelli og Fellsseli. Í áðurnefndri örnefnalýsingu Alfreðs Ásmundssonar segir að Fellskofarindi hafi verið í Yztafellslandi. Landamerkjaskrár þær sem liggja fyrir í málinu eru frá árinu 1885 en þá voru rúm tuttugu ár liðin frá byggingu beitarhúsanna, miðað við frásögn þá sem höfð er eftir Sigurði í Yztafelli. Voru beitarhúsin því reist og nytjuð meðan landareignin var óskipt. Þykir staðsetning beitarhúsanna ekki skipta máli við sönnun í máli þessu.

Í ritinu Lýsingu Þingeyjarsýslu, útg. 1954, eftir Jón Sigurðsson frá Yztafelli, segir meðal annars: „Í hinni bröttu hlíð er Fellsskógur, eign fjögurra jarða fornra (Hóls, Hólsgerðis, Yztafells og Fellssels).“ Þá segir og að sunnar í hlíðinni hafi verið orðið skóglaust „báðum megin við Barnafell“ sem farið hafi í eyði árið 1934. Þessi lýsing Jóns þykir ekki færa fram sönnun á landamerkjalínu milli Yztafells og Fellssels. Segir hún það eitt að fjórar fornar jarðir eigi í Fellsskógi í hinni bröttu hlíð.

Arðskrá Skjálfandafljóts, sem gerir ráð fyrir 3,63% hlutdeild Fellssels og Árlands en 7,26% hlutdeild beggja Yztafellsjarða án Hólsparts þykir ekki veita haldbæra vísbendingu um landamerkjalínu. Verður hún fremur talin vísbending um það hlutfall af fyrri heildarstærð jarðanna, ⅓ og ⅔, sem áður var getið.

Eins og rakið hefur verið hefur verið talið sannað í málinu að vörðuröð sú sem getið er í matsgerð og nær frá þjóðvegi að Setbergsvörðu sé sú sem landamerkjaskrár segja ráða merkjum. Kröfulína stefnenda, frá Setbergsvörðu að Skjálfandafljóti, er í eðlilegu framhaldi þeirrar línu. Þykir hún eðlileg og sennileg. Hafa að mati dómsins ekki verið færðar sönnur á að við Setbergsvörðu víki landamerkin frá slíkri beinni línu, svo sem kröfulína stefndu gerir ráð fyrir. Þá verður ekki séð að aðalstefndu hafi unnið betri rétt fyrir hefð. Þegar á allt framanritað er horft þykir verða að leggja endanlega kröfulínu stefnenda í aðalsök til grundvallar í málinu svo sem í dómsorði greinir, en stefnendur verða sýknaðir af kröfum í gagnsök. Er hér einungis komist að niðurstöðu um umþrætta landamerkjalínu Yztafells og Fellssels en ekki tekin afstaða til annarra atriða, svo sem hugsanlegra óbeinna eignarréttinda.

 Með vísan til þeirra vafaatriða sem þykja hafa verið uppi í málinu verður ákveðið með heimild 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að fella málskostnað niður milli aðila. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnenda fór Páll Arnór Pálsson hrl. með málið en Sigurður Jónsson hrl. af hálfu stefndu.

Málið dæma Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari, Bjarni E. Guðleifsson próf. em. og Björn Teitsson magister.

D Ó M S O R Ð

Landamerki milli lands Yztafells 1 og 2 annars vegar og Fellssels annars vegar skulu vera sem hér segir:

A. Frá þjóðvegi í vesturátt: Frá punkti D: Vegur-Suður -65°46,126N, 17°34,877V), hnit 565003.575, 586437.869 norður eftir þjóðvegi í punkt E: (Vegur-Norður – 65°46,229N, 17°34,84V), hnit 565014.083, 586632.681, þaðan í krók einn á Heyvallargróf (Punktur F: Krókur -65°46,227N, 17°35,966V) hnit 564133.5482, 586606.6527, svo upp eftir Heyvallargróf upp á fjallsbrún í vörðu (Punktur G: Varða Kinnarfjall 1- 65°46,225N, 17°36,723V), hnit 563576.5413, 586595.8612, þaðan eftir merkjavörðum upp Skollhóla og vestur á Háfjall, (Varða 2 – 65°46,273N, 17°37,605V) hnit 562906.6388, 586669.7414, og áfram vestur eftir vörðum með hnitmerkjunum 562197.7210, 586586669.7414 (Varða 3), 561610.8300, 586597.5214 (Varða 4), 561492.1236, 586580.0890 (Varða 5), 561062.1243, 586457.2320, (Varða 6), 560940.0974, 586401.6144 (Varða 7), 560367.3184, 586385.8422 (Varða 8), 559425.1383, 586385.8422, (Varða 9), 558560.1590, 586464.7031 (Varða 10), í vörðu á Háfjalli, hnit 557921.2820, 586391.9643 (Varða 11).

B. Frá þjóðvegi til austurs:

Úr punkti D, Vegur-Suður: 65°46,126N, 17°34,877V (hnit 565003.575, 586437.869) í vörðu 1: 65°46,090N, 17°33,910V (hnit 565733.704, 586390.577), þaðan í vörðu 2: 65°46,085N,-17°33,658V, (hnit 565926.626, 586385.259) þaðan í vörðu 3: 65°46,048N,-17°33,505V, (hnit 566043.022, 586385.681) þaðan í vörðu 4: 65°46,073N, - 17°32,827V, (hnit 566561.511, 586378.592) þaðan í vörðu 5: 65°46,079N,-17°32,617V, (hnit 566721.114, 586393.419) þaðan í vörðu 6, norðan Setbergs: 65°46,045N, 17°32,441V (hnit 566855.2863, 586333.7525), þaðan í vörðu 7: 65°46,051N, - 17°32.234V, (hnit 567014.599, 586348.109), þaðan í vörðu 8: 65°46,048N, - 17°31,922V, (hnit 567014.599, 586348.109) þaðan í vörðu 9: 65°46,056N, - 17°31.537V, (hnit 567546.750, 586369.062), og síðan eftir áframhaldandi línu í farveg Skjálfandafljóts í stefnu á miðja kvísl sem rennur norðaustur úr Grænhyl í punkt með hnitinu 65°46,062N, - 17°31,104V, (hnit 567877.381, 586388.170).

Málskostnaður fellur niður.