Print

Mál nr. 124/2017

Fögrusalir ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.)
gegn
sýslumanninum á Suðurlandi (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

F ehf., sem hafði gert kaupsamning við S um kaup á jörðinni F í kjölfar nauðungarsölu á eigninni, krafðist þess annars vegar að felld yrði úr gildi sú ákvörðun S að fallast á kröfu Í um að ganga inn í kaupsamninginn og gefa út afsal fyrir jörðinni til Í og hins vegar að viðurkennt yrði að kaupsamningur F ehf. og S væri í fullu gildi. Reisti F ehf. kröfur sínar á því að frestur Í til þess að nýta sér forkaupsréttinn hefði verið liðinn þegar S hefði borist tilkynning þar að lútandi. Í úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi á þeim grundvelli að kröfur F ehf. ættu ekki stoð í ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í dómi Hæstaréttar var úrskurðurinn staðfestur með þeirri athugasemd að þriðji málsliður 2. mgr. 47. gr. laganna, um úrlausn héraðsdóms vegna riftunar á kaupum, yrði hvorki skýrður á rýmkandi hátt né með lögjöfnun þannig að hann tæki til fyrrgreindrar ákvörðunar S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2017 þar sem máli sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Jörðin Fell í Suðursveit var seld nauðungarsölu á almennum markaði 4. nóvember 2016 með ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi um að taka, samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laga nr. 90/1991, tilboði sóknaraðila um kaup á jörðinni með fyrirvara um forkaupsrétt íslenska ríkisins. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili þess fyrir héraðsdómi að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sýslumanns 11. janúar 2017 að fallast á kröfu ríkisins um að ganga inn í kaupsamning um jörðina á grundvelli forkaupsréttarins og gefa út afsal fyrir jörðinni ríkissjóði til handa. Einnig að viðurkennt yrði að kaupsamningur um jörðina milli sóknaraðila og sýslumanns frá 11. nóvember 2016 væri í fullu gildi.

Hér fyrir dómi heldur sóknaraðili því fram að skýra beri ákvæði 1. mgr. 73. gr.,  sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 90/1991 á þann veg að hann eigi kröfu á því að fá úrlausn dómstóla um fyrrgreindar kröfur sínar eftir XIII. kafla þeirra. Í 1. mgr. 73. gr. segir að eftir því sem fyrir sé mælt í öðrum ákvæðum laganna megi leita úrlausnar héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum kaflans. Meðal þessara ákvæða er 2. mgr. 47. gr. þar sem fjallað er um vanefndir af hendi kaupanda, einkum á greiðslu söluverðs eignar sem seld hefur verið nauðungarsölu. Eftir öðrum málslið málsgreinarinnar ákveður sýslumaður, eftir atvikum að fengnu áliti kaupanda og þeirra sem hafa gert kröfur um greiðslu af söluverðinu, hvort kaupunum verði haldið uppi á kaupanda eða rift. Í þriðja málslið segir að vilji kaupandi eða aðili að nauðungarsölunni, sem hefur hagsmuna að gæta, ekki una ákvörðun um riftun kaupanna geti hann leitað úrlausnar héraðsdóms samkvæmt ákvæðum XIII. kafla.

Eins og 1. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 hljóðar verður fyrrgreint ákvæði þriðja málsliðar 2. mgr. 47. gr. laganna hvorki skýrt á rýmkandi hátt né með lögjöfnun þannig að það taki til þeirrar ákvörðunar sýslumanns 11. janúar 2017 sem áður greinir. Í ljósi þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2017.

Þann 19. janúar 2017, barst dóminum krafa Fögrusala ehf., kt. 591016-0830, Smáratorgi 3, Kópavogi, um úrslausn héraðsdóms, er varðar nauðungarsölu jarðarinnar Fells í Suðursveit.

Af hálfu Fögrusala ehf., hér eftir sóknaraðila, er þess krafist að ákvörðun Sýslumannsins á Suðurlandi frá 11. janúar 2017, um að fallast á kröfu íslenska ríkisins um að ganga inn í kaupsamning um jörðina Fell á grundvelli forkaupsréttar og gefa út afsal fyrir jörðinni ríkissjóði til handa, verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði að kaupsamningur um jörðina Fell frá 11. nóvember 2016 milli sóknaraðila og Sýslumannsins á Suðurlandi, f.h. þinglýstra eigenda, sé í fullu gildi. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað skv. mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi vegna rekstur þessa máls, auk virðisaukaskatts.

     

Málsatvik

Mál þetta varðar jörðina Fell í Suðursveit, landnr. 160125, sem seld var nauðungarsölu af hálfu Sýslumannsins á Suðurlandi þann 4. nóvember 2016, með því að boði sóknaraðila, að fjárhæð 1.520.000.000 kr., var tekið. Í kröfu sóknaraðila kemur fram að þann sama dag hafi sýslumaður sent fjármála og efnahagsráðuneyti, f.h. ríkissjóðs, forkaupsréttartilboð, á grundvelli 5. mgr. 37. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þar sem ríkissjóður hafi verið upplýstur um að kauptilboði sóknaraðila hafi verið tekið og frestur veittur til 11. nóvember til að taka afstöðu til forkaupsréttararins. Hafi sá frestur verið í samræmi við uppboðsskilmála og 28. gr. jarðarlaga nr. 81/2004. Ráðuneytið hafi aftur á móti mótmælt frestinum og krafist þess að fresturinn yrði 60 dagar, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga. Sýslumaður hafi orðið við því og ákveðið með bréfi dags. 7. nóvember 2016., að frestur ríkisjóðs til að nýta forkaupsrétt sinn skyldi renna út á hádegi þann 10. janúar 2017. Þá hafi sýslumaður gert kaupsamning við sóknaraðila og í honum hafi um forkaupsrétt ríkissjóðs eingöngu verið vísað til framangreinds ákvæðis náttúruverndarlaga. Loks hafi fjármála- og efnahagsráðuneytið, þann 9. janúar 2017, sent sýslumanni yfirlýsingu þess efnis að ríkissjóður myndi neyta forkaupsréttar síns og ganga inn í kaupin. Hafi yfirlýsingunni verið mótmælt af hálfu sóknaraðila, en með bréfi dags. 11. janúar 2017 hafi sýslumaður tekið ákvörðun um að fallast á að skilyrði væri til þess að fallast á forkaupsréttarkröfu ríkisjóðs og framgangur málsins yrði sá að gengið yrði frá sölunni á jörðinni við ríkissjóð og afsal gefið út honum til handa. Með bréfi dags. 12. janúar 2017, mótmælti sóknaraðili framangreindri ákvörðun sýslumanns og óskaði eftir fyrirtöku í málinu. Þá var því jafnframt lýst að í bréfinu fælist tilkynning um að sóknaraðili hygðist leita úrlausnar héraðsdóms um téða ákvörðun sýslumanns. 

Málatilbúnaður sóknaraðila

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að frestur ríkissjóðs til þess að svara forkaupsréttartilboði hafi runnið út þann 3. janúar 2017, eða í síðasta lagi þann 6. sama mánaðar og yfirlýsing ráðuneytisins því of seint fram komin enda hafi frestur skv. 5. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga, verið liðinn. Byggir sóknaraðili á því að skýra beri ákvæðið þröngt. Upphafstíma frestsins, skyldi samkvæmt ákvæðinu, miða við það tímamark sem forkaupsréttartilboðið hafi sannanlega komið til vitundar ríkissjóðs þann 4. nóvember 2016, ellegar 7. nóvember 2016.  

Um lagarök vísar sóknaraðila til IV., XIII., og XIV kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sérstaklega 73. og 47. gr. laganna, sbr. og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eftir því sem við á, sbr. 77. gr. nauðungarsölulaga sbr. og 80. gr. laganna. Þá er vísað til laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og jarðalaga nr. 81/2004, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur er vísað til meginreglna stjórnsýsluréttar, kröfuréttar og samningaréttar. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Sóknaraðili freistar þess í máli þessu að leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns líkt og að framan greinir. Samkvæmt 73. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, má eftir því sem mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum laganna leita úrlausnar héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum XIII. kafla laganna um ágreining sem rís við nauðungarsölu.

Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings til 47. gr. laganna, sem fjallar um vanefndir kaupanda og eftir atvikum riftun sýslumanns á kaupum, vegna vanefnda kaupanda. Ekki verður séð að sýslumaður hafi rift kaupum við sóknaraðila vegna vanefnda og verður því ekki á það fallist að sóknaraðili geti krafist úrlausnar héraðsdóms um kröfur sínar á grundvelli framangreinds ákvæðis. Þá verður ekki séð að önnur ákvæði laganna taki til krafna þeirra sem sóknaraðili hefur uppi í málinu, þannig að leitað verði úrlausnar skv. framangreindri 73. gr. laganna.

Þá er það mat dómsins að kröfur sóknaraðila séu ekki þess eðlis að þær falli undir 80. gr. laga nr. 90/1991, enda verða þær ekki skildar sem svo að sóknaraðili leiti úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar sem slíkrar. Að framansögðu virtu er það mat dómsins að líkt og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað verði ekki hjá því komist að vísa kröfum hans frá dómi.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.