Print

Mál nr. 635/2016

Reynivellir ehf. (Víðir Smári Petersen hrl.)
gegn
Sameigendafélagi Fells (Garðar Garðarsson hrl.)
Lykilorð
  • Félag
  • Tómlæti
Reifun
R ehf. krafði SF, félag sem flestir eigendur jarðarinnar Fells á Breiðamerkursandi við Jökulsárlón höfðu stofnað um rekstur jarðarinnar, um tiltekna fjárhæð, annars vegar vegna hlutdeildar í tekjum R ehf. af jörðinni vegna áranna 2012 til 2015 og hins vegar vegna arðs af henni vegna ársins 2008. R ehf. var ekki félagi í SF. Héraðsdómur taldi R ehf. bera hlutdeild í arði jarðarinnar vegna ársins 2008 og kom hinn áfrýjaði dómur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti hvað það atriði varðaði. Um fyrrgreinda ágreiningsefnið vísaði Hæstiréttur til þess að R ehf. ætti rétt á hlutdeild í arði af sameigninni þótt hann væri ekki félagsmaður í SF. Féllst Hæstiréttur ekki á með SF að R ehf. hefði sökum tómlætis fyrirgert rétti sínum til kröfu um hlutdeild af tekjum fyrir það tímabil sem krafið var um. Hafði í því sambandi ekki þýðingu hvort R ehf. hefði látið hjá líða að krefjast hlutdeildar í tekjum SF fyrir fyrra tímabil. Þótt R ehf. bæri þannig hlutdeild í greiðslu hagnaðar af rekstri SF í samræmi við eignarhlut sinn í jörðinni yrði félagið að sæta frádrætti til samræmis við rekstrarkostnað SF fyrir tímabilið, en R ehf. hafði í kröfugerð sinni einungis gert ráð fyrir 10% frádrætti vegna kostnaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.096.662 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.431.309 krónum frá 25. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um málskostnað auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir hafa í mörg ár staðið deilur milli eigenda jarðarinnar Fells á Breiðamerkursandi við Jökulsárlón um nýtingu hennar. Hefur jörðin verið í sameign margra aðila og flestir sameigenda verið félagsmenn í stefnda sem er hagsmunafélag um jörðina stofnað 1995. Í héraðsdómi er jafnframt rakið hvernig áfrýjandi eignaðist samtals 12,3209% af óskiptu sameignarlandi jarðarinnar og Einar Björn Einarsson, eigandi og fyrirsvarsmaður stefnda mun hafa átt 11,3396%. Síðastgreindu aðilar hafa ekki verið félagar í stefnda, en Einar Björn hefur annast rekstur ferðaþjónustu á jörðinni í samræmi við samning hans við stefnda 23. október 2000. Stendur deila málsaðila um hlutdeild áfrýjanda í tekjum af rekstri jarðarinnar og er málsástæðum og lagarökum lýst í héraðsdómi. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að jörðin muni nú vera í eigu íslenska ríkisins.

Dómkrafa áfrýjanda skiptist annars vegar í hlutdeild í tekjum stefnda af jörðinni vegna áranna 2012 til og með 2015 að frádregnum 10% kostnaði, alls að höfuðstól 2.431.309 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 25. október 2015 til greiðsludags og hins vegar í hluta arðs af jörðinni vegna ársins 2008 eða 665.353 krónur sem lagðar voru inn á sérgreindan bankareikning í eigu stefnda og áfrýjandi telur eign sína. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda síðargreinda fjárhæð, en sýknaður af kröfu um fyrrgreindu fjárhæðina. Áfrýjandi áfrýjaði dóminum til að fá hnekkt niðurstöðu hans um sýknu vegna hlutdeildar í tekjum sem stefndi innheimti af jörðinni fyrir árin 2012 til 2015, en jafnframt til staðfestingar héraðsdóms hvað varðar arð af jörðinni sem greiddur var út árið 2008. Er áfrýjanda þetta heimilt samkvæmt 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á hinn bóginn hefur stefndi ekki áfrýjað dóminum fyrir sitt leyti og kemur dómurinn því ekki til endurskoðunar um hið síðargreinda atriði. Verður héraðsdómur því staðfestur hvað þennan hluta kröfu áfrýjanda varðar.

Eins og fram kemur í héraðsdómi sagði í bréfi Einars Björns Einarssonar 3. maí 2000 til stefnda, sem ritað var í aðdraganda framangreinds samnings 23. október 2000, að þótt samningar tækjust um aðstöðu fyrir ferðaþjónustu hans á svæðinu hefðu „landeigendur ... áfram allan annan rétt til tekjuöflunar og landnýtingar á jörðinni utan þeirrar lóðar“ sem honum yrði leigð. Verður ekki fallist á með stefnda að sú yfirlýsing eigi leiða til þess að áfrýjandi hafi gefið frá sér rétt sinn til þess arðs af jörðinni sem hann sækir í þessu máli. Með þeirri athugasemd er fallist á röksemdir og niðurstöður héraðsdóms um að áfrýjandi eigi rétt á hlutdeild í arði af sameigninni þótt hann sé ekki félagsmaður í stefnda.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi og ítarlega er rakið í dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2016 í máli nr. 44/2016, hafa deilur milli stefnda annars vegar og Einars Björns Einarssonar og áfrýjanda hins vegar um nýtingu jarðarinnar Fells staðið um langa hríð. Hafa þeir vefengt heimildir stefnda til þeirrar nýtingar, jafnframt því sem áskilnaður og kröfur voru settar fram á hendur stefnda um hlutdeild í hagnaði stefnda af rekstri jarðarinnar. Í gögnum málsins eru allnokkur bréf vegna ágreiningsins sem rituð voru á því árabili sem dómkrafa áfrýjanda tekur til. Þannig sagði í bréfi lögmanns Einars Björns 6. júní 2012 til lögmanns stefnda að áfrýjandi væri alfarið í eigu umbjóðanda hans og stofnaður í þeim tilgangi einum að sjá um ferðaþjónustu við Jökulsárlón í samræmi við framangreindan samning stefnda og Einars Björns þar um frá 23. október 2000. Var tilgreint að umbjóðandi lögmannsins fari með tæplega 24% af ráðstöfunarrétti yfir jörðinni og þar sem borist hefðu upplýsingar um tekjur stefnda af jörðinni vegna samninga við ýmsa aðra aðila um nýtingu hennar væri „allur réttur áskilinn sérstaklega af því tilefni“. Með bréfi 11. sama mánaðar sagði að rekstur Einars Björns færi „fram undir nafninu Jökulsárlón ehf. ... Þá á umbjóðandi minn hlutdeild í þessum tekjum í samræmi við eignarhlut sinn í jörðinni Felli og hvílir sú skylda á umbjóðanda þínum, sem innheimtuaðila teknanna, að sjá til þess að umbjóðandi minn fái það sem honum ber. ... Hér með er skorað á umbjóðanda þinn að leggja fram yfirlit yfir þessar tekjur frá 1. janúar 2000. Umbjóðandi minn áskilur sér allan rétt til uppgjörs vegna þessa.“ Var á ný sent bréf 24. september sama ár þar sem framangreind krafa um hlutdeild í tekjum stefnda af jörðinni var ítrekuð og skorað á stefnda að leggja fram yfirlit um þær. Þá voru í bréfum 14. október 2013 og 15. september 2015 áréttaðar kröfur um hlutdeild í tekjum stefnda. Samkvæmt þessu mátti stefndi búast við að áfrýjandi jafnt sem Einar Björn fyrirsvarsmaður hans hefðu í hyggju að kalla eftir greiðslum úr hendi stefnda vegna arðs af jörðinni í samræmi við eignarhlut þeirra. Verður því ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi vegna tómlætis fyrirgert rétti sínum til kröfu um hlutdeild af tekjum fyrir tímabilið 2012 til 2015. Hefur þá ekki þýðingu hvort áfrýjandi hafi látið hjá líða að krefjast hlutdeildar í tekjum stefnda fyrir fyrra tímabil.

Þótt áfrýjanda beri hlutdeild í greiðslu hagnaðar af rekstri stefnda í samræmi við eignarhlut sinn standa ekki rök til þess að hann, sem ekki hefur viljað gerast félagsmaður í stefnda, komist hjá að þola löglega teknar ákvarðanir stefnda er lutu að rekstri félagsins vegna áranna 2012 til og með 2015. Verður því krafa hans að sæta frádrætti til samræmis við rekstrarkostnað stefnda umrætt tímabil eftir því sem fram kemur í gögnum málsins. Samkvæmt ársreikningum og greiðsluyfirlitum voru tekjur stefnda að frádregnum gjöldum öðrum en peningagreiðslum til eigenda stefnda á árunum 2012 og 2014 sem hér segir: Á árinu 2012 alls 2.051.230 krónur, 63.255 krónur 2013, 295.556 krónur 2014 og 149.038 krónur 2015, eða samtals 2.559.079 krónur. Verður því lagt til grundvallar að stefnda beri 12,3209% af síðastgreindri fjárhæð, eða 315.302 krónur með vöxtum eins og hann krefst.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda samtals 980.655 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 315.302 krónum frá 25. október 2015 til greiðsludags.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Sameigendafélag Fells, greiði áfrýjanda, Reynivöllum ehf., 980.655 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 315.302 krónum frá 25. október 2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2016.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 19. maí 2016, er höfðað af Reynivöllum ehf., kt. [...], Austurbraut 13, Höfn, með stefnu birtri 4. nóvember 2015 á hendur Sam­eig­enda­félagi Fells, kt. [...], Fornhaga 24, Reykjavík, til heimtu hlut­deildar í leigutekjum og öðrum tekjum af jörðinni Felli.

                Það er endanleg krafa stefnanda að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.096.662 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, af 2.431.309 kr. frá 25. október 2015 til greiðsludags.

                Hann krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda að skað­lausu.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.

                Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðis­auka­skatti.

Málsatvik

                Ágreiningur þessa máls tengist jörðinni Felli í Austur-Skaftafellssýslu sem á land að Jökuls­ár­lóni á Breiðamerkursandi. Lónið er stein­snar frá hringvegi lands­ins (þjóð­vegi 1) sem liggur á hengibrú yfir útfall lónsins, þ.e. Jökulsá á Breiða­merk­ur­sandi, út í sjó. Segja má að áin skipti bökkum lónsins í „vestur­bakka“ og „austur­bakka“. Með dómi Hæstaréttar 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005 var dæmt að vestur­bakki lóns­ins væri þjóðlenda. Austur­bakk­inn er á hinn bóginn, á grund­velli sama dóms, hluti af jörð­inni Felli, sem er sameign margra.

                Árið 1985 bauð Guðbrandur Jóhannesson, sem átti 10,3583% í jörðinni, fyrst upp á útsýnissiglingar á lón­inu, en Fjölnir Torfason keypti reksturinn 1987. Fjölnir mun ekki hafa gert form­legan samning um þessi afnot við eig­endur jarðarinnar. Með afsali dags. 25. júlí 1994 keyptu Fjölnir og Þorbjörg Arnórsdóttir, kona hans, eign­ar­hluta Guðbrands í Felli.

                Jörðin Fell er sérstök sameign margra, mestmegnis einstaklinga en einnig lög­aðila. Árið 1994 voru eig­end­urnir 30. Þeir stofnuðu félag, Sameigendafélag Fells, og gerðu með sér sam­eign­ar­samn­ing. Hann undir­rituðu allir nema Fjölnir og Þorbjörg sem keypt höfðu 10,3583% hlut­deild Guðbrands í jörð­inni. Sumir sameigendurnir rit­uðu undir samn­ing­inn í sept­em­ber 1994 en aðrir í apríl 1995 og enn aðrir í júní það ár. Félagið fékk kenni­tölu í apríl 1995 og hefur í dómum Hæstaréttar verið gengið út frá því að það hafi verið stofnað 22. apríl 1995. Örn Erik­sen og Steinn Þórhalls­son, sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, voru meðal upp­haf­legra félags­manna sam­eign­ar­félagsins.

                Tilgangur sameigendafélagsins er samkvæmt 1. gr. sameignarsamningsins að gæta hags­muna eigenda jarð­ar­innar í samskiptum við aðra aðila, opinbera sem og einka­aðila, vegna mál­efna hennar. Í 7. gr. samningsins er ákvæði um gagn­kvæman for­kaups­rétt félags­manna. Samningnum var breytt á aðal­fundi stefnda 22. apríl 1995.

                Mikill ágreiningur var í milli stefnda annars vegar og Fjölnis og Þorbjargar hins vegar um not þeirra af landinu. Svo fór að stefndi höfðaði mál á hendur þeim til heimtu leigugreiðslna fyrir afnotin árin 1995-1997. Fallist var á kröfur sam­eig­enda­félags­ins að mestu, í dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í máli nr. 167/1998.

                Í kjölfar þessa dóms, einhvern tíma árið 1999, gerðu Fjölnir og Þorbjörg samn­ing við Einar Björn Einarsson, fyrirsvarsmann stefnanda, um að hann keypti rekstur þeirra ásamt þeirri eignarhlutdeild í jörðinni sem þau höfðu keypt af Guðbrandi 1994. Þessi samningur var und­ir­rit­aður með fyrirvara um að Einari Birni tækist að ganga frá samn­ingi við stefnda um leyfi til rekstrar á svæðinu með svipuðum umsvifum og Fjölnir og Þor­björg höfðu stundað árin áður án samþykkis annarra eigenda. Sam­kvæmt gögnum virð­ist hafa gengið erfiðlega að ganga frá slíkum samningi. Af gögnum má ráða að helst hafi borið á milli aðila fjár­hæð leigu­gjalds og lengd leigu­tíma.

                Í kjölfar þess að Einar Björn hóf starf­semi við Jökulsárlón sumarið 2000 án sam­þykkis stefnda sendi stjórn félags­ins honum bréf 2. maí 2000 þar sem afstöðu félags­ins til þessa var lýst. Þar sagði að það væri algjör­lega á ábyrgð Einars Björns ef hann tæki þá ákvörðun að hefja rekstur við Jökuls­ár­lón án sam­þykkis sam­eig­enda­félags­ins. Ekki væri að sjá að Einar Björn legði sig fram um lausn málsins. Boðað var að gripið yrði til aðgerða heyrðist ekki frá honum fyrir 13. maí 2000.

                Með bréfi, dags. 3. maí 2000, til annarra eigenda jarðarinnar Fells, lýsti Einar Björn yfir því að tækist ekki samkomulag með honum og þeim neyddist hann til að rifta þeim samn­ingi sem hann hefði gert við Fjölni. Einar Björn kvaðst hafa farið yfir rekstr­ar­áætlanir sínar með ýtrustu bjartsýni að leiðarljósi. Hann þyrfti að fjár­magna kaupin með lánum til 25 ára ætti reksturinn að standa undir afborgunum og vöxtum. Lána­stofn­anir settu það skilyrði fyrir lánveitingu að hann hefði leigusamning út láns­tím­ann. Tækj­ust samn­ingar um leigu til 25 ára með leigugjaldi sem næmi 1.400.000 kr. á ári, og tæki hækkunum miðað við vísitölu neysluverðs, væri hann reiðu­búinn að ganga til samn­inga sem allra fyrst.

                Síðan sagði: Auk þess hefðu landeigendur allan annan rétt til tekjuöflunar og land­nýt­ingar á jörðinni, utan þeirrar lóðar sem mér yrði leigð. Stefndi, Sam­eig­enda­félag Fells, gekk að þessu tilboði Einars Björns og gerður var leigu­samn­ingur. Sá samn­ingur er um leigu Einars Björns á hluta svæðisins á og við Jökulsárlón. Samkvæmt samn­ingnum rekur Einar Björn þjónustu fyrir ferðamenn við Jökulsárlón með sigl­ingum um lónið og rekstri söluskála við það. Frá því að samningurinn var gerður, og hugs­an­lega nokkru fyrr, hefur fyrirtækið Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. (áður Jök­uls­ár­lón ehf.), sem Einar Björn á, rekið fram­an­greinda þjónustu fyrir ferða­menn á austur­bakka Jökuls­ár­lóns.

                Eins og Fjölnir og Þorbjörg höfðu gert stóð Einar Björn utan við sam­eig­enda­félagið.

                Samkvæmt yfirlýsingu 7. mars 2007 lagði Örn Eriksen eignarhluta sinn í jörð­inni Felli, 10,3583%, fram sem hlutafjárframlag þegar hann stofnaði Reynivelli ehf. 15. apríl 2006. Með kaupsamningi og afsali 20. mars 2007 seldi Örn Jökulsár­lóni ehf., sem er eins og áður greinir í fullri eigu Einars Björns Einarssonar fyrir­svars­manns stefn­anda, 95% af hlutafé Reyni­valla ehf.

                Þessi ráðagerð olli miklu uppnámi meðal annarra félagsmanna stefnda sem töldu að með þessu væri sniðgenginn forkaupsréttur þeirra að þeim eignarhlut sem þarna var færður nýstofnuðum lögaðila og síðan seldur, enda hafði þeim ekki verið boðið að nýta forkaupsrétt sinn við þessa eignatilfærslu í samræmi við 7. gr. sam­eign­ar­samningsins.

                Í tilefni af þessari deilu var Einar Björn boðaður á fund stefnda 17. apríl 2007 sem hann sótti með lögmanni sínum. Samkvæmt fundargerð óskuðu stjórnar­menn stefnda eftir skýringum Einars Björns á því hvað vekti fyrir honum „með þessum upp­kaupum og þeirri atlögu sem hann gerði með þessu að félaginu og hags­munum félags­manna“. Í fundargerðinni segir að Einar Björn hafi fullyrt að „ekkert plan væri í gangi með þessi kaup“. Að sögn stefnda var helst að skilja að þetta væru tilviljanir og í besta falli væri hann að kaupa hluti sem væru til sölu af þurfandi eigendum sem vildu selja. Í lok fund­ar­gerðar kemur fram að aðspurður hafi Einar Björn sagt að ekki kæmi til greina að „bakka“ með kaup hans á eignarhlut Arnar Eriksen.

                Í framhaldi af þessum fundi sendi Einar Björn öðrum sameigendum bréf dags. 3. maí 2007. Í því stóð að hann hefði orðið var við áhyggjur einstakra eigenda vegna kaupa hans á stefnanda, Reynivöllum ehf. Sagðist hann m.a. vona að með­eig­endum hans fyndist þessi kaup ekki ógna stöðu þeirra á neinn hátt, enda myndi hann virða rétt þeirra fylli­lega. Í framhaldinu sendi lögmaður stefnda fyrirsvarsmanni stefn­anda bréf þar sem lýst var óánægju með kaup stefnanda og skorað á fyrirsvarsmann hans að virða for­kaups­rétt annarra landeigenda.

                Þegar ljóst var að Einar Björn yrði ekki við óskum for­kaups­réttarhafa höfðuðu nokkrir þeirra mál fyrir Héraðsdómi Austurlands í nóv­em­ber 2007 til að fá for­kaups­rétt­inn viðurkenndan. Með dómi Hæstaréttar 6. júní 2008 var kröfu þessara for­kaups­rétt­ar­hafa vísað frá dómi því hún uppfyllti ekki viðmið d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um framsetningu kröfu um forkaupsrétt. Í kjöl­farið fjar­aði mál­sóknin út og átti efna­hags­hrunið í októ­ber 2008 ríkan þátt í því.

                Til viðbótar við þann hluta úr sameigninni sem stefnandi, Reynivellir ehf., eign­að­ist með framsali Arnar Eriksen 7. mars 2007 afsalaði Steinn Þórhallsson Einari Birni sínum hluta úr sam­eign­inni, 1,9626%, 29. september 2006. Einar Björn afsalaði þessum hlut til félags síns Reynivalla ehf., stefnanda, 29. desember 2008. Samanlagt á stefn­andi 12,3209% af óskiptu sameignarlandi jarðarinnar. Hann hefur aldrei átt aðild að stefnda, Sam­eig­enda­félagi Fells.

                Stefndi innheimtir tekjur af jörðinni Felli. Aðaltekjulindin hefur verið leigu­samn­ingur sem félagið gerði, f.h. sameigenda, við Einar Björn Einarsson 23. október 2000 um leigu á aðstöðu við Jökulsárlón. Leigutekjur af þeim samn­ingi hafa und­an­farin ár numið um 3 milljónum króna á ári. Stefndi gerði einnig samning við Ice Lagoon ehf. (Must Visit Ice­land ehf.) 20. apríl 2012 um leigu á aðstöðu við lónið. Umsamið leiguverð var 1.200.000 kr. fyrsta árið sem hækkaði í 1.500.000 kr. á ári sam­kvæmt samn­ing­num. Sú fjárhæð hækkar í samræmi við vísitölu. Í þriðja lagi hafa verið ýmsar aðrar tekjur af jörð­inni, svo sem af ljósmyndun o.fl.

                Stefnandi telur sig eiga rétt til hlutdeildar í þessum tekjum sem einn eig­enda jarð­ar­innar. Hann hafi hins vegar ekki fengið neinar greiðslur frá stefnda þótt hann hafi gengið eftir því. Hann hafi til að mynda á undan­förnum árum, meðal ann­ars í júní og september 2012, ítrekað spurst fyrir um tekjur af jörðinni hjá stefnda en engin svör fengið.

                Að sögn stefnanda var með bréfi lögmanns hans til lögmanns stefnda 14. október 2013, áréttað að eigandi alls hlutafjár í stefnanda, Einar Björn, færi sjálfur og í gegnum félag sitt Reynivelli ehf., stefnanda þessa máls, með um fjórðungs eignar­hlut á jörðinni. Skorað hafi verið á stefnda að afhenda stefnanda yfirlit yfir tekjur stefnda af jörð­inni. Jafn­framt hafi verið skorað á stefnda að greiða stefnanda og Einari Birni þann hlut sem þessum aðilum bæri af jörðinni. Áskilinn hafi verið réttur til að leita atbeina dóm­stóla í þeim efnum. Engin við­brögð hafi borist við þessu erindi.

                Með tveimur bréfum, 15. og 25. september 2015, var skorað á stefnda að greiða stefnanda hlut hans í leigutekjum og öðrum tekjum af jörð­inni og veittur til þess 10 daga frestur. Þeim bréfum hafi ekki verið svarað efnislega en í bréfi lög­manns stefnda til lög­manns stefnanda 7. október 2015, komið fram að hann hefði fengið a.m.k. fyrra bréfið. Einnig hefði hann fengið annað bréf frá Ein­ari Birni per­sónu­lega, dags. 15. sept­em­ber 2015. Því bréfi var einvörðungu svarað en ekki þeim tveimur bréfum sem send voru af hálfu stefn­anda, Reynivalla ehf.

                Þar eð stefndi hafi hvorki í orði né verki sýnt nokkurn vilja til að greiða stefn­anda hlutdeild hans í tekjum af jörðinni Felli sé honum nauð­synlegt að höfða þetta mál.

                Stefndi vísar hins vegar til þess að Einar Björn, fyrirsvarsmaður stefnanda, hafi í áraraðir frá því að hann gerði leigusamning við stefnda árið 2000 ekki krafist hlut­deildar í tekjum stefnda af jörðinni. Stefn­andi, Reynivellir ehf., hafi ekki heldur gert slíka kröfu frá því að Einar Björn eignaðist félagið árið 2007 fyrr en með bréfum í sept­em­ber 2015.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hann krefjist aðeins úr hendi stefnda réttmætrar hlut­deildar í tekjum af jörðinni Felli sem stefndi hafi innheimt en ekki gert skil á til stefn­anda sem eins af eigendum jarðarinnar. Stefnandi krefjist hlut­deildar í tekjum áranna 2012 til 2015. Hann geri ekki kröfu lengra aftur í tímann vegna fjögurra ára fyrn­ingar­frests samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrn­ingu kröfu­rétt­inda. Frá dragist, til að allrar sanngirni sé gætt, 10% til að standa straum af rekstri stefnda, þar með talið inn­heimtu­starf­semi, sbr. og til hlið­sjónar 9. gr. sam­eignar­samnings frá 1995.

                Tekjur af jörðinni frá og með árinu 2012 séu, eins og áður segir, leigu­tekjur af samn­ingi gerðum við Einar Björn Einarsson 2000 og Ice Lagoon ehf. 2012, sem og aðrar tekjur, svo sem af ljós­myndun.

                Tekjur af samningi gerðum 2000, sjáist á millifærslukvittun vegna árs­ins 2012 og reikningum vegna áranna 2013 til 2015.

                Tekjur árin 2012 og 2013, af samningi gerðum 2012, séu tilgreindar í honum. Við uppreikning leigutekna af samningnum fyrir árin 2014 og 2015 miðar stefnandi við vísitölubreytingar, sbr. ákvæði 4. gr. samningsins.

                Stefnandi styðjist við sömu aðferð um vísitöluuppreikning varðandi þriðju tekju­lindina „aðrar tekjur“. Fyrir liggi upplýsingar um „aðrar tekjur“ vegna ársins 2012. Til þess að áætla tekjur áranna 2013, 2014 og 2015 uppreikni hann þá fjárhæð með vísitölu neyslu­verðs.

                Þær vísitölur sem stefnandi leggur til grundvallar við útreikning krafna sinna eru:

janúar 2012

387,1

 

janúar 2014

415,9

janúar 2013

403,3

 

janúar 2015

419,3

                Leigutekjur af samningi við Einar Björn Einarsson frá árinu 2000 hafi verið þessar árin 2012 til 2015:

2012

  2.792.968 kr.

2013

  2.899.849 kr.

2014

  2.968.056 kr.

2015

  3.023.606 kr.

Alls

11.684.479 kr.

                Leigutekjur af samningi við fyrirtækið Ice Lagoon ehf. (Must visit Iceland) gerðum árið 2012 hafi verið þessar 2012 til 2015:

2012

1.200.000 kr.

2013

1.500.000 kr.

2014

1.546.863 kr. (leiðr. m.v. vísitölu: 1.500.000 x 415,9/403,3)

2015

1.559.509 kr. (leiðr. m.v. vísitölu: 1.500.000 x 419,3/403,3)

Alls

5.806.372

                Aðrar tekjur stefnda af jörðinni Felli, svo sem af myndatöku, ístöku og vöxtum árið 2012, svo og uppreiknaðar fjárhæðir af aukatekjum áranna 2013 til 2015 séu:

2012

 

1.056.080 kr.

2013

1.056.080 x 403,3/387,1

1.100.277 kr.

2014

1.056.080 x 415,9/387,1

1.134.652 kr.

2015

1.056.080 x 419,3/387,1

1.143.928 kr.

Alls

 

4.434.937 kr.

 

Samanlagðar tekjur áranna 2012 til 2015 nemi því:

21.925.788 kr.

Frá dragast 10% í kostnað, sbr. 9. gr. sameign.samn.

- 2.192.579 kr.

Nettótekjur

19.733.209 kr.

                Hlutdeild stefnanda, Reynivalla ehf., sé 12,3209%. Réttmæt og ófyrnd hlut­deild félagsins í framangreindum tekjum, að frá dregnum 10% kostnaði, nemi því 2.431.309 kr. (19.733.209 kr. x 0,123209).

                Stefnandi tekur fram að hann geti ekki borið ábyrgð eða áhættu af umfangs­miklum og algerlega óforsvaranlegum kostnaði sem stefndi hafi lagt út í, svo sem lög­manns­kostnaði. Slíkur kostnaður geti aldrei komið til frádráttar kröfum stefnanda á hendur stefnda.

                Við þessa fjárkröfu stefnanda bætist að árið 2008 hafi verið lögð inn á sér­greindan reikn­ing í eigu stefnda hlutdeild stefnanda í arði vegna ársins 2008. Ágrein­ingur hafi þá verið um forkaupsrétt eftir kaup stefnanda á eignarhlutum af Erni Erik­sen og Steini Þórhallssyni árið 2007. Sá ágreiningur hafi fjarað út eftir frá­vís­un­ar­dóma Hæsta­réttar 6. júní 2008 í málum nr. 290/2008 og 291/2008. Eign­ar­hald stefn­anda á þessum hlutum hafi alla tíð staðið óhaggað. Þessi hlutdeild, alls 665.353 kr., standi óhögguð sem ófyrnanleg eignarréttindi og krefjist stefnandi þess að fá hana greidda.

                Höfuðstóll kröfu stefnanda á hendur stefnda nemi því samkvæmt fram­an­greindu 3.096.662 kr. (2.431.309 + 665.353). Við bætist dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá því að mánuður var liðinn frá seinna kröfubréfi stefnanda til stefnda, 25. september 2015. Stefnandi krefst því drátt­ar­vaxta frá 25. október 2015 til greiðsludags.

                Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna eignarréttar um rétt­mæta hlutdeild sam­eig­anda í tekjum af jörð í óskiptri sameign. Dráttarvaxtakrafa hans styðst við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefnandi byggir kröfu sína um sýknu á rökum sem hann fellir í sex flokka.

1.     Stefnandi er ekki félagsmaður í stefnda og á því ekki rétt á greiðslum úr félaginu

                Stefndi vísar fyrst til þess að sameigendur jarðarinnar Fells hafi frá stofnun stefnda samþykkt að ráðstafa rétt­indum yfir eignarhlut sínum í jörðinni til stefnda og falið honum að gera lög­gern­inga um ráðstöfunarrétt yfir jörðinni og hirða á þann hátt arð af henni. Arður, sem þannig fáist af jörðinni, sé greiddur félagsmönnum stefnda á grund­velli félags­samn­ings. Félagsaðild að stefnda sé því forsenda þess að unnt sé að krefja hann um hlut­deild í arði af jörðinni sem verði til í starfsemi stefnda. Þeir sem hafi átt hlutdeild í jörðinni á undan stefnanda, hafi verið félagsmenn í sam­eign­ar­félag­inu og lagt réttindi yfir hlut sínum í jörð­inni inn í það. Stefnandi hefði því getað orðið félagsmaður í stefnda við kaupin á jarð­ar­hlutanum, hefði hann kosið það.

                Stefnandi hafi á hinn bóginn lýst því yfir að hann hafi aldrei verið félags­maður í stefnda frá því að núverandi eigandi stefnanda eignaðist félagið og hlut þess í jörð­inni árið 2007. Stefndi fái tekjur á grundvelli samninga sem séu gerðir við félagið, sbr. t.d. samn­ing við Einar Björn Einarsson í október 2000 og við Ice Lagoon ehf. í apríl 2012. Eðli málsins sam­kvæmt eigi einungis félagsmenn í stefnda rétt á greiðslum úr félag­inu og geti kraf­ist þeirra. Stefndi inn­heimti því ekki tekjur fyrir aðra en félags­menn, eins og stefnandi virðist telja. Þrátt fyrir það grund­valli stefnandi mála­til­búnað sinn á því að stefndi hafi átt að standa honum skil á greiðslum vegna tekna félags­ins. Stefn­andi byggi kröfu sína á reikn­aðri hlut­deild í áætluðum tekjum félags­ins á nánar til­teknum árum, en ekki á þeim greiðslum sem hafi raun­veru­lega verið greiddar félags­mönnum. Í þessu sam­bandi áréttar stefndi að félags­menn fái ekki árlegar greiðslur á borð við þær sem stefn­andi krefjist í málinu. Stefndi geti því ekki séð að þessi málatilbúnaður standist. Í besta falli sé óskýrt á hvaða máls­ástæðum stefn­andi reisi þessa kröfu sína.

                Meðal tekna félagsins sem stefnandi krefst greiðslu á miðað við eignar­hlut­deild sína í Felli séu leigugreiðslur sem fyrirsvarsmaður stefnanda, Einar Björn, hafi sjálfur greitt félag­inu í fjölda ára. Eftir að stefnandi eignaðist hlut sinn í Felli og Einar Björn eignaðist stefn­anda árið 2007 og félags­aðild þess eignarhlutar í stefnda féll niður samkvæmt málatilbúnaði stefnanda, hafi fyrir­komu­lagið verið óbreytt. Við því hafi stefnandi ekki hreyft athuga­semdum. Stefn­andi hafi þannig viður­kennt í verki að hann eigi ekki tilkall til greiðslna frá stefnda. Af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda af kröfum stefn­anda.

2.     Stefnandi hefur viðurkennt í verki að hann eigi ekki þessa kröfu á hendur stefnda

                Stefndi áréttar að með bréfi 3. maí 2000 hafi fyrirsvarsmaður stefnanda lýst yfir því við aðra land­eig­endur að tækjust samningar um leigu hans á aðstöðu við Jök­uls­ár­lón undir rekstur hans myndu aðrir landeigendur hafa allan annan rétt til tekju­öfl­unar og land­nýt­ingar á jörðinni, utan þeirrar lóðar sem honum yrði leigð. Það hafi verið forsenda fyrir því að stefndi gekk að þeim leigusamningi sem síðan var gerður. Þessi yfir­lýsing hafi skuldbundið fyrirsvarsmann stefnanda eftir megin­reglum samn­inga­réttar um skuldbindingargildi loforða. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi allar götur síðan við­ur­kennt þetta fyrirkomulag í verki og aldrei gert tilkall til ann­arra tekna af jörð­inni, enda hafi hann og félög sem hann eigi haft gífur­legar tekjur af rekstri sínum við Jök­uls­ár­lón á grundvelli leigusamningsins eins og árs­reikn­ingar þessara félaga sýni.

                Stefndi byggir á því að eftir að fyrirsvarsmaður stefnanda, Einar Björn, eign­að­ist stærri hlut­deild í jörð­inni með því að kaupa félagið Reynivelli ehf., stefnanda, hafi stefn­andi orðið bundinn af yfirlýsingu fyrir­svars­manns­ins frá 3. maí 2000. Stefn­anda og fyrir­svars­manni hans hafi verið í lófa lagið að haga athöfnum sínum á annan veg og gera þær kröfur, sem hann geri nú, allt frá árinu 2007 þegar Einar Björn keypti félagið. Stefnandi hafi ekki gert þessa kröfu þá og ekki gert hana fyrr en átta árum síðar. Félags­menn stefnda hafi því mátt ganga út frá því að stefnandi myndi ekki gera til­kall til slíkra greiðslna í samræmi við þá yfir­lýs­ingu sem fyrirsvarsmaðurinn gaf 3. maí 2000.

                Fyrirsvarsmaður stefnanda leigi jafnframt af stefnda hluta af jörðinni Felli. Stefn­anda hafi því mátt vera vel kunnugt að leigutakinn hafi í mörg ár greitt stefnda allan höfuð­stól leigu­greiðslunnar. Að sama skapi hafi leigutakinn, fyrirsvarsmaður stefn­anda, notað þetta verklag athugasemdalaust í fjölda ára og ekki borið við van­efnd stefnda. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þannig viður­kennt um áraraðir framan­greinda til­högun í verki, enda hefði honum verið í lófa lagið að halda eftir fjármunum til stefn­anda teldi hann fyrirkomulagið annað. Með því að bera ekki fyrir sig van­efnda­úrræði í átta ár hafi stefnandi viður­kennt í verki að hann eigi ekki tilkall til tekna stefnda á samn­ings­tíma leigu­samn­ings­ins frá 23. október 2000, heldur felist í fram­an­greindri til­högun að stefnandi fái arð af jörð­inni í gegnum leigusamning fyrir­svars­manns­ins. Stefn­andi hafi ótvírætt verulegar tekjur af starf­seminni við Jök­uls­ár­lón. Árið 2013 hafi hagn­aður Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. af starf­seminni við Jök­uls­ár­lón numið um 160.000.000 kr., en hluta hagnaðarins (um 42.000.000 kr.) hafi aug­ljós­lega verið ráð­stafað til stefnanda, væntanlega í formi leigu­samn­ings á fast­eignum með ríf­legu leigu­gjaldi. Þannig hækki leigutekjur stefn­anda á milli ára úr um 4.500.000 kr. í rúmar 45.000.000 kr., en eina starfsemin á jörð­inni Reyni­völlum sé aðstaða fyrir starfs­fólk og einnig fyrir tæki og búnað Jökuls­ár­lóns ferða­þjón­ustu ehf. Í árs­reikn­ingi stefnanda árið 2014 nemi þessar tekjur 52.800.000 kr.

                Þá samrýmist það ekki samningsskyldum fyrirsvarsmannsins, sem leigutaka í samn­ingssambandi sínu við stefnda, að vilja taka á sig hlutverk leigusala eins og felist í raun í mála­til­búnaði stefnanda. Í slíku fyrirkomulagi séu augljósir hagsmuna­árekstrar. Af þeim sökum hafi verið þeim mun ríkari ástæða fyrir stefnanda til að láta í ljós þá afstöðu sína þegar árið 2007, enda hefði hún haft mikil áhrif á afstöðu félags­manna stefnda til samningssambandsins við fyrirsvarsmanninn. Í stað­inn hafi stefn­andi haft hljótt um sig í átta ár og hagað gerðum sínum þannig að hann og fyrir­svars­mað­ur­inn séu einn og sami leigutakinn í samningssambandinu.

                Á grundvelli yfirlýsingar fyrirsvarsmanns stefnanda frá 3. maí 2000, og þess tóm­lætis sem stefnandi hafi sýnt frá árinu 2007, verði að telja samn­ings­sam­band stefn­anda og stefnda í föstum skorðum og að stefnandi geti ekki gert ríkari kröfur nú. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

3.     Samsama verður stefnanda með eiganda sínum og telja hann bundinn af yfir­lýs­ing­unni 3. maí 2000

                Stefndi telur að stefnandi, Reynivellir ehf., hafi fengið eignarhlut Arnar Erik­sen í Felli fram­seldan sér í þeim tilgangi að sniðganga samningsbundin ákvæði um for­kaups­rétt. Stefn­andi hafi þannig lítinn annan tilgang en að halda á eignarhlut í jörð­unum Felli og Reyni­völlum. Fyrirsvarsmaður stefnanda sé eini endanlegi hluthafi stefn­anda og sá eini sem geti haft nokkra hagsmuni af afkomu stefnanda. Fyrir­svars­maður stefnanda hafi haft gífurlegar tekjur af jörðinni og mun meiri en nokkur annar sam­eig­andi. Allar ákvarð­anir stefnanda um ráðstöfun á eignarhlut félagsins í jörðinni Felli séu, eðli máls­ins samkvæmt, teknar af fyrirsvarsmanni stefnanda.

                Án tillits til þeirra málsástæðna sem áður er getið, byggir stefndi á því að sam­sama verði stefnanda að þessu leyti með fyrirsvarsmanni stefnanda. Stefnandi og fyrir­svars­maður hans hafi raunar hagað athöfnum sínum þannig að um einn landeiganda – fyrir­svarsmann stefnanda – sé að ræða. Þannig hafi þessir aðilar staðið að fleiri en einu máli fyrir dómstólum þar sem þeir telja hlut sinn saman í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir frekari hagnýtingu sameigenda á sameigninni. Stefn­andi og fyrir­svarsmaður hans hafi byggt á því fyrir dómstólum að hagsmunir þeirra fari algjör­lega saman að þessu leyti. Af þessum sökum hafi dómstólar talið að líta verði á eign­ar­hluti þeirra sem eina heild. Með vísan til þessa verði að samsama stefn­anda með fyrir­svars­manni sínum og telja hann bundinn af yfirlýsingunni 3. maí 2000, en slíkt fyrir­komu­lag hafi einnig verið viðurkennt í verki, sbr. framangreint.

4.     Stefnandi hefur glatað kröfum sínum vegna tómlætis

                Stefndi bendir á þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi glati rétti sínum til efnda dragi hann óhæfi­lega lengi að krefjast þeirra, sbr. einnig 3. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2000 um lausa­fjárkaup. Það sé einnig meginregla í kröfurétti að kröfuhafi glati rétti til að bera fyrir sig vanefnd tilkynni hann ekki um hana innan hæfilegs tíma frá því að hann varð var við vanefndina eða mátti verða hennar var, sbr. einnig 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000.

                Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda byggir hann á því að stefn­andi hafi glatað rétti sínum til efnda á þeim greiðslum sem stefnandi krefur stefnda um. Óumdeilt hljóti að vera að stefnandi hafi vitað eða mátt vita af meintri van­efnd stefnda frá árinu 2007. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki borið þessa meintu van­efnd fyrir sig í átta ár og hafi þannig fyrirgert rétti sínum til þeirra greiðslna sem hann krefst.

5.     Stefnandi getur ekki áætlað kostnað á móti tekjum stefnda

                Þá byggir stefndi sjálfstætt á því að stefnandi geti ekki áætlað kostnað á móti þeim tekjum sem hann áætlar heldur verði hann að taka þátt í þeim raunkostnaði sem félagið hafi lagt út í vegna reksturs sameignarinnar. Stefnandi geti ekki að þessu leyti bæði haldið og sleppt og þannig skorast undan þátttöku í þeim kostnaði og fengið greiðslur umfram aðra félagsmenn.

                Í reikningum stefnda komi fram tekjur að frádregnum gjöldum. Þær séu þessar vegna áranna sem kröfur stefnanda miðast við:

2012

2.051.230

(5.049.048 kr.– 2.997.818 kr.) (ekki er talið með kostn­aði það sem nefnt er „greiddur kostn­aður“ að fjárhæð 8.610.283 kr. sem var greiðsla til félags­manna).

2013

63.255

(5.886.965 kr. – 5.823.710 kr.)

2014

295.556

(8.278.685 kr.– 7.983.129 kr.) (ekki er talið með kostn­aði það sem nefnt er „greiddur kostn­aður“ að fjár­hæð 2.866.964 kr. sem var útgreiðsla til félags­manna).

2015

149.038

(5.639.195 kr. (áætlaðar tekjur stefnanda) – 5.490.157 kr. (kostn­aður á tímabilinu 1. janúar 2015 – 5. júní s.á.).

                Stefndi byggir á því að taka verði mið af þessum fjárhæðum verði talið að stefn­andi eigi rétt á hlutdeild í afkomu stefnda.

6.     Stefnandi á ekki kröfu um það sem hann nefnir „ófyrnanleg eignaréttindi“

                Stefndi vísar næst til þess að stefnandi haldi því fram að árið 2008 hafi verið lögð inn á reikning í eigu stefnda hlutdeild stefnanda í arði vegna ársins 2008. Þessi hlut­deild standi óhögguð sem ófyrnanleg eignarréttindi og krefjist stefnandi greiðslu hennar.

                Stefndi mótmælir þessu. Í fyrsta lagi hafi hlutdeildin alls ekki tilheyrt stefn­anda, heldur fyrri eigendum eins og tölvuskeytið, sem stefnandi styður staðhæfingar sínar við, sýni ótvírætt. Það geti ekki verið þannig að 3. apríl 2008, þegar tölvuskeytið var ritað, sé greiddur út arður vegna ársins 2008 eins og stefnandi haldi fram. Þetta hafi verið uppsafnaður og yfirfærður hagnaður frá fyrri árum sem fyrri eig­endur höfðu unnið rétt til.

                Í öðru lagi hafnar stefndi því að inneignin séu ófyrnanleg eignar­rétt­indi. Stefndi telur þessa kröfu augljóslega kröfu­rétt­ar­legs eðlis og falla undir lög um fyrn­ingu kröfuréttinda. Í þessu sambandi verði einnig að líta til þess hvernig stefn­andi hagi kröfu­gerð sinni, en hann setji kröfuna fram sem fjár­kröfu sem beri dráttar­vexti í stað þess að krefjast afhendingar á hinni meintu eign. Sam­kvæmt 1. gr. laga nr. 38/2001, sem stefnandi byggir drátt­ar­vaxta­kröfu sína á, gildi þau lög aðeins um vexti af pen­inga­kröfum á sviði fjármunaréttar. Stefndi byggir þess vegna á því að hvað sem fram­an­greindu líði sé krafa stefnanda um þessa fjár­muni fallin niður fyrir fyrn­ingu.

                Í þriðja lagi byggir stefndi á því að réttur stefn­anda til fjár­mun­anna sé í öllu falli fall­inn niður fyrir tóm­lætis­sakir, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2000.

                Stefndi byggir mál sitt á almennum reglum félaga-, samninga- og kröfuréttar, einkum meginreglunni um skuldbindingargildi samninga og réttarreglum kröfuréttar um tómlæti. Þá byggir stefndi á óskráðum réttarreglum um samsömun. Hann byggir á ákvæðum laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, einkum 23. gr. þeirra, og ákvæðum laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi byggir máls­kostn­að­ar­kröfu sína á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Stefnandi, Reynivellir ehf., á hlutdeild í jörðinni Felli í Austur-Skafta­fells­sýslu. Stefndi, Sameigendafélag Fells, er félag þeirra sem eiga hlut í jörðinni, sem munu nú vera 32. Stefn­andi á þó ekki aðild að félag­inu. Örfáir aðrir sameigendur að jörð­inni standa utan sameignarfélagsins.

                Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá greidda hlutdeild í tekjum stefnda af jörð­inni. Eins og fram er komið á eig­andi og fyrirsvarsmaður stefnanda, Einar Björn Einars­son, einnig hlutdeild í jörð­inni en leigir jafn­framt af stefnda aðstöðu á henni.

                Stefnandi byggir á því að hann eigi 12,3209% af óskiptu sameignarlandi jarð­ar­innar. Af þeim sökum eigi hann tilkall til 12,3209% af tekjum af jörðinni og krefst hlut­deildar í tekjum áranna 2012-2015. Hann krefst einnig greiðslu arðs sem hefur legið á bankabók frá árinu 2008.

                Þegar stefndi, félag sameigenda jarðarinnar Fells, var stofnaður 22. apríl 1995 var Örn Eriksen einn stofnenda. Hann stofnaði félagið Reynivelli ehf. í apríl 2006. Þá þegar eignaðist það hlutdeild í jörðinni Felli. Aðra hlutdeild í jörð­inni eignaðist það í lok árs 2008. Ekki þykir vafa­mál að stefn­andi, hafi verið í sam­eign­ar­félag­inu á meðan Örn átti félagið.

                Örn afsalaði félaginu til félagsins Jökulsárlóns ehf. 20. mars 2007. Nú á félagið Ranhóll félagið Reynivelli en bæði Ranhól og Reynivelli á Einar Björn Einars­son. Frá því að hann eignaðist stefnanda mun félagið ekki hafa verið félagi í stefnda, sam­eig­enda­félagi Fells.

                Það er fyrsta málsástæða stefnda fyrir sýknu að stefnandi eigi ekki rétt til greiðslu frá félaginu þar eð hann sé ekki félagsmaður.

                Jörðin er sérstök sameign allra þeirra sem eiga hlutdeild í henni. Um sérstaka sam­eign gildir sú meginregla að tekjur og gjöld af eigninni skuli skipt­ast með sam­eig­endum eftir eignarhlutföllum. Að mati dómsins getur það ekki haggað þessum rétti og þess­ari skyldu sameigenda þótt meirihluti þeirra sé í sam­eig­enda­félagi sem heldur utan um samskipti við hverja þá, ríki, sveitarfélög, lögaðila og einstaklinga, sem þurfa og vilja eiga í samskiptum við sam­eig­end­urna. Stefndi verður því ekki sýknaður með þeim rökum að stefnandi standi utan sam­eign­ar­félags­ins.

                Það er þó meginmálsástæða stefnda fyrir sýknu að stefnandi hafi viðurkennt í verki að hann eigi ekki rétt á greiðslum frá stefnda.

                Félaginu Reynivöllum ehf. var afsalað til núverandi eiganda síns 20. mars 2007. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 hefði átt að liggja fyrir hversu miklar tekjur stefndi hefði innheimt af jörðinni árið 2007 og hversu mikill kostnaður hefði fallið á félagið svo meta mætti hvort forsendur væru til að greiða arð.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi þegar í júní 2012 spurst fyrir um tekjur af jörð­inni í því skyni að fá af þeim þá hlutdeild sem honum bæri. Þegar lesin eru þau bréf sem stefnandi vísar til og rituð eru 6. og 12. júní svo og 24. september 2012 er aug­ljóst að umbjóð­andi þess lögmanns sem ritar bréfin er Einar Björn Einarsson, fyrir­svars­maður stefn­anda, en ekki félagið Reyni­vellir ehf. Umfjöllunarefnið varðar leigu­samn­ing sem stefndi gerði við Ice Lagoon ehf. (Must visit Iceland) í apríl 2012 svo og hvort Einar Björn hafi brotið gegn ákvæðum þess leigusamnings sem hann gerði við stefnda árið 2000.

                Dómurinn getur því ekki fallist á að stefnandi hafi með þessum bréfum spurst fyrir um tekjur af jörðinni. Hins vegar var þess óskað fyrir hönd Reynivalla ehf., með bréfi 25. september 2015, að stefndi gæfi upp tekjur sem hann hefði haft af jörðinni frá árinu 2007.

                Eins og komið er fram eignaðist fyrirsvarsmaður stefnanda, Einar Björn, stefn­anda, Reyni­velli ehf., í mars 2007. Einar Björn hafði þá greitt stefnda leigugjald fyrir afnot sín af jörðinni í um sjö ár. Stefn­andi mátti því vita þegar í mars 2007 að stefndi hefði tekjur af útleigu jarð­ar­innar.

                Samkvæmt fram lögðum ársreikningi stefnanda felst starfsemi hans í útleigu fast­eigna og henni einvörðungu. Þrátt fyrir þessa sérþekkingu stefnanda á útleigu fast­eigna og þrátt fyrir að hann hafi mátt vita að stefndi hefði frá árinu 2000 haft tekjur af því að leigja fyrirsvarsmanni stefn­anda afnot af jörðinni var það fyrst með bréfi 25. sept­em­ber 2015, þegar ríflega átta ár voru liðin frá því að núverandi fyrirsvarsmaður eign­að­ist stefnanda og ríflega sjö ár voru liðin frá því að stefnandi hefði fyrst getað kraf­ist hlut­deildar í tekjum af jörðinni að hann ósk­aði upplýsinga um þær. Það hlýtur þó að hafa staðið stefnanda nær að ganga eftir því að hann fengi greitt, teldi hann sig á annað borð eiga fjárkröfu á hendur stefnda, heldur en stefnda að bjóða fram greiðslu sem hann hvort eð er taldi stefnanda ekki eiga rétt til þar eð stefnandi er ekki félagi í stefnda, sameigendafélagi jarðarinnar Fells.

                Ekkert er fram komið sem skýrir hvers vegna stefnandi dró svo lengi að halda kröfu sinni til haga. Dómurinn fellst á það með stefnda að með þessu algerlega óút­skýrðu tómlæti sínu í, í það minnsta, sjö ár hafi stefnandi sýnt í verki að í réttar­sam­bandi stefnanda og stefnda ætti stefndi ekki rétt til hlutdeildar í tekjum af jörðinni.

                Þar eð stefnandi lét átölulaust um árabil að krefjast greiðslu þykir tómlæti hans slíkt að sýkna verði stefnda af kröfu stefnanda um hlutdeild í tekjum af jörðinni jafn­vel þótt fjárkrafa stefnanda kunni að vera ófyrnd.

                Í upphafi krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum 3.096.662 kr. með drátt­ar­vöxtum af allri fjárhæðinni frá 25. október 2015 til greiðsludags. Eins og stefn­andi gerir nánari grein fyrir er höfuðstóll kröf­unnar mynd­aður úr tveimur þáttum. Ann­ars vegar hlut­deild stefnanda í tekjum stefnda af jörð­inni árin 2012-2015 að frá dregnum 10% kostnaði, alls 2.431.309 kr. Þær 665.353 kr. sem eftir standa eru fjár­hæð sem var árið 2008 lögð inn á sér­greindan reikn­ing í eigu stefnda og stefnandi telur eign sína.

                Stefndi telur að sýkna beri sig af þessum þætti í kröfu stefnanda því hann setji kröf­una fram eins og fjár­kröfu á grundvelli kröfuréttar og því sé hún fyrnd.

                Við aðalmeðferð breytti stefnandi fjárkröfu sinni þannig að hann krefst enn greiðslu 3.096.662 kr. en einvörðungu dráttarvaxta af 2.431.309 kr. Hann krefst því ekki dráttarvaxta af þeim 665.353 kr. sem eftir standa. Dómurinn telur það ekki geta ráðið úrslitum þótt stefnandi krefjist greiðslu 665.353. kr. en ekki afhendingar þeirrar fjár­hæðar, enda hefur hann gert nægilega grein fyrir því með málsástæðum sínum að krafan sé eign­ar­rétt­ar­legs eðlis. Af þeim sökum er ekki fallist á að stefnandi skilgreini hana sem kröfu­rétt­indi og því beri að sýkna stefnda af henni vegna fyrningar. Því er jafn­framt hafnað að stefnandi hafi glatað rétti yfir þessari eignarréttarkröfu með tóm­læti sínu.

                Stefnandi styður þessa kröfu, eins og áður segir, þeim rökum að árið 2008 hafi verið lögð inn á sér­greindan reikn­ing í eigu stefnda hlutdeild stefnanda í arði af jörð­inni vegna ársins 2008. Það hafi verið gert vegna þess ágrein­ings sem þá hafi staðið um forkaupsrétt félags­manna stefnda eftir kaup Einars Björns á eignarhlutum af Erni Erik­sen í mars 2007, en sá eign­ar­hlutur var í félaginu Reynivöllum, og Steini Þór­halls­syni í lok árs 2006. Sá ágrein­ingur hafi fjarað út og stefn­andi eigi nú báða þessa hluti. Því til­heyri þessi hlutdeild í arði, sem greiða átti út 2008, stefnanda og sé ófyrn­an­leg eign hans.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína af þessum þætti fjárkröfu stefnanda í öðru lagi á því að það sé ekki stefnandi sem eigi þessa fjármuni heldur þeir menn sem seldu honum hlutdeild sína í jörð­inni, Örn Eriksen og Steinn Þórhallsson. Þetta sýni tölvu­skeytið sem stefnandi styðji staðhæfingar sínar við ótvírætt. Það sé ómögulegt að 3. apríl 2008, þegar tölvuskeytið var ritað, sé greiddur út arður vegna ársins 2008 eins og stefnandi haldi fram. Þetta hafi verið uppsafnaður og yfirfærður hagnaður frá fyrri árum sem fyrri eig­endur höfðu unnið rétt til.

                Fallist er á það með stefnda að sú fjárhæð sem var greidd félagsmönnum stefnda í apríl 2008 hafi ekki verið arður þess árs, enda einungis fjórðungur þess lið­inn, heldur uppsafnaður hagnaður næst­lið­inna ára.

                Framlögð gögn sýna að þegar stefnandi, Reynivellir ehf., var stofnaður í apríl 2006 lagði stofn­and­inn, Örn Erik­sen, eignarhluta sinn í jörð­inni, 10,3583%, fram sem hluta­fjár­fram­lag. Með kaup­samn­ingi og afsali 20. mars 2007 seldi Örn Jökulsár­lóni ehf., sem er eins og áður greinir félag í fullri eigu fyrirsvarsmanns stefnanda, 95% af hlutafé Reyni­valla ehf. Örn tilkynnti stefnda með bréfi 15. mars 2007 að greiða bæri félag­inu Reyni­völlum ehf. allar arðgreiðslur frá og með árinu 2007. Eins og áður segir afsalaði hann því félagi, viku síðar, til félagsins Jökulsárlóns ehf. sem fyrirsvarsmaður stefn­anda á. Með þessari tilkynningu Arnar til stefnda þykir ekki vafi leika á að arð­greiðslan sem átti að afhenda í apríl 2008 hafi tilheyrt stefnanda.

                Samkvæmt fram lögðum gögnum afsalaði Steinn Þórhallsson Einari Birni Ein­ars­syni sinni hlut­deild í jörðinni, 1,9626%, 29. desember 2006. Samkvæmt veð­bókar­vott­orði var þeirri eign afsalað stefnanda, Reynivöllum ehf., tveimur árum síðar, 29. des­em­ber 2008. Einar Björn átti því hlutdeildina í arðinum af jörðinni árið 2007 og miðað við kröfugerð stefnanda verður að ganga út frá því að hann hafi framselt stefn­anda þessa arðs­hlut­deild.

                Dómurinn fellst því á að stefnda beri að greiða stefnanda 665.353 kr. sem munu samkvæmt tölvuskeyti rituðu 3. apríl 2008 hafa verið lagðar inn á sérgreindan reikn­ing í eigu stefnda.

                Samkvæmt þessari niðurstöðu hefur stefnandi einvörðungu náð fram rétt rúmum fimmtungi þeirrar fjár­hæðar sem hann sóttist eftir með því að höfða málið. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefn­anda til að greiða stefnda máls­kostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðinn 950.000 kr.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefnda, Sameigendafélag Fells, greiði stefnanda, Reynivöllum ehf., 665.353 krónur.

                Stefnandi greiði stefnda 950.000 kr. í málskostnað.