Print

Mál nr. 191/2017

Björgvin Mýrdal Þóroddsson (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Miskabætur
  • Handtaka
  • Leit
Reifun

B krafði Í um miskabætur vegna handtöku og líkamsleitar sem hann sætti vegna gruns um fíkniefnalagabrot. Samkvæmt gögnum málsins var B sviptur frelsi af lögreglu í um það bil fimm mínútur og hafði réttarstöðu sakbornings meðan á handtökunni stóð, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki var tekin skýrsla af honum þar sem ekkert saknæmt fannst við leitina. Lauk málinu án þess að ákæra væri gefin út og var það því fellt niður í skilningi 1. mgr. 245. gr. sömu laga. Talið var að B ætti rétt á miskabótum vegna líkamsleitarinnar og handtökunnar á grundvelli fyrri málsliðar 2. mgr. 245. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar var ekki talið að það hefði aukið á miska B þótt í dagbók lögreglu hefði verið skráð að hann tengdist nánar tilgreindum félagsskap. Var Í gert að greiða B 120.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. janúar 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. febrúar 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 22. mars sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til 7. febrúar 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi handtekinn klukkan 17.17 í miðbæ Vestmannaeyja hinn 1. ágúst 2015 þar sem fíkniefnahundur hafði við fíkniefnaeftirlit tengd verslunarmannahelgi gefið til kynna að áfrýjandi gæti haft í fórum sínum fíkniefni. Sagði í dagbók lögreglu um atvikið að hana hafi grunað að áfrýjandi væri með fíkniefni en hann ekki viljað heimila leit á sér. Áfrýjandi hafi því verið handtekinn og framkvæmd á honum öryggisleit en ekkert saknæmt fundist og hafi áfrýjanda verið sleppt að leit lokinni eftir að framangreind afskipti lögreglu af honum hófust. Með héraðsdómi voru áfrýjanda dæmdar miskabætur vegna handtökunnar að fjárhæð 120.000 krónur á grundvelli 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en sambærilegt ákvæði er nú í 2. mgr. 245. gr. laganna, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016. Unir stefndi þeirri niðurstöðu bæði hvað varðar bótagrundvöll og fjárhæð bóta og stendur ágreiningur aðila hér fyrir dómi samkvæmt því aðeins um fjárhæð bótanna og upphafstíma dráttarvaxta.

Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi sviptur frelsi af lögreglu í um það bil fimm mínútur og hafði meðan á handtökunni stóð réttarstöðu sakbornings, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008. Ekki var tekin skýrsla af honum vegna málsins og lauk því án þess að ákæra væri gefin út. Var málið samkvæmt því fellt niður í skilningi 1. mgr. 245. gr. laganna, en í þeirri lagagrein segir að maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta eftir 2. mgr. sömu lagagreinar, meðal annars ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 245. gr. laganna má dæma bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málsliðnum má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Ekki eru frekari skilyrði sett fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXIX. kafla laga nr. 88/2008. Skiptir þá ekki máli hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða sem hafa haft í för með sér tjón eða ekki hefur verið nægilegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, sbr. dóm Hæstaréttar 3. mars 2016 í máli nr. 451/2015.

Með líkamsleit á áfrýjanda umrætt sinn var brotið gegn friðhelgi hans, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Á áfrýjandi því samkvæmt framansögðu rétt á miskabótum vegna líkamsleitarinnar og handtökunnar á grundvelli fyrri málsliðar 2. mgr. 245. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að eins og atvikum háttaði verði það ekki talið auka á miska áfrýjanda þótt í dagbók lögreglu hafi verið skráð að hann tengdist félagsskapnum [...]. Verður samkvæmt þessu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fjárhæð dæmdra miskabóta til handa áfrýjanda og upphafstíma dráttarvaxta.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Rétt er að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2016 í málinu

Mál þetta sem var höfðað 30. desember 2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 20. september 2016.

Stefnandi er Björgvin Mýrdal Þóroddsson, Bjallavaði 3, 110 Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 króna, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 1. ágúst 2015 til 7. febrúar 2016, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Stefnandi sótti Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 1. ágúst 2015. Stefnandi var staddur inni í bænum á leið á veitingahús þegar lögregla hafði afskipti að honum og krafðist þess að framkvæma líkamsleit á honum á grundvelli þess að fíkniefnahundur sem var með í för hafði merkt stefnanda, þ.e. gefið til kynna að hann gæti haft í fórum sínum fíkniefni.

Stefnandi neitaði að heimila líkamsleit, og því var tekin ákvörðun um handtöku og þvingaða leit. Ekkert saknæmt fannst á stefnanda og var honum sleppt að leit lokinni. Það sem fannst m.a. á stefnanda var mikill fjöldi lítilla kynningarspjald þar sem fram koma upplýsingar um félagsskap [...], en nafn samtakanna rataði í dagbókarfærslu lögreglu vegna málsins, og kemur fram í sviga á eftir nafni stefnanda.

Stefnandi kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um afdrif málsins fyrr en eftir að lögmaður hans sendi fyrirspurn, að svar barst í tölvuskeyti 24. ágúst 2015 um að rannsókn væri lokið og að stefnandi hefði ekki haft réttarstöðu sakbornings, heldur hafi verið um venjubundið fíkniefnaeftirlit að ræða.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að þvingunarráðstafanir lögreglu, þ.e. handtaka og líkamsleit, hafi verið að ósekju og ólögmætar. Hann telur sig því eiga rétt á bótum úr hendi stefnda.

Stefnandi vísi um bótagrundvöllinn til 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en fullnægt sé því skilyrði að mál stefnanda hafi verið fellt niður, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaskyldu stefnda. Stefnandi hafi verið grunaður um fíkniefnalagabrot, haft réttarstöðu sakbornings og sætt þvingunarráðstöfunum, þ.e. handtöku og líkamsleit.

Stefnandi telji að undantekningarregla 2. málsliðar 2. mgr. 228. gr., um að hægt sé að fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, eigi ekki við í málinu auk þess sem undantekninguna verði að skýra þröngt. Stefnandi hafi ekkert afbrot framið og ósannað að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að nokkru því sem leiða hefði átt til þvingunarráðstafana. Stefnandi hafi verið í fullum rétti til að samþykkja ekki líkamsleit og hafi sú neitun ekki getað réttlætt handtöku á stefnanda. Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að hundur hafi „merkt“ stefnanda eða að stefnandi hafi sýnt einkenni fíkniefnaneyslu.

Þá telji stefnandi ljóst að hvorki hafi verið til staðar lagaskilyrði til handtöku né til líkamsleitar skv. lögum nr. 88/2008, enginn rökstuddur grunur fyrir broti og engin nauðsyn á handtöku eða líkamsleit. Því hafi engin brýn hætta verið á að bið eftir úrskurði um líkamsleit ylli sakarspjöllum. Þá hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga og 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með aðgerðinni, og ekki hafi verið  sýnt fram á lögmæt eða málefnaleg markmið þessara aðgerða.

Stefnandi kveðst byggja á því til vara, ef hlutlæg bótaábyrgð eigi hér ekki við, að stefndi sé engu að síður skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda á grundvelli sakarábyrgðar, þ.e. á grundvelli sakarreglunnar og vinnuveitandaábyrgðar stefnda á starfsmönnum sínum. Skaðabótaskylda stefnda sé þannig ljós, með vísan til 228. gr. sakarábyrgðar stefnda skv. þeirri grein, og sakarábyrgðar stefnda skv. almennum reglum skaðabótaréttar, sem og með vísan til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, enda um ólögmætar og saknæmar þvingunarráðstafanir að ræða. Starfsmönnum stefnda hafi mátt vera fullljóst að aðgerðir þessar hefðu alvarleg og meiðandi áhrif á stefnanda, eða a.m.k. mátt ætla það.

Þá vísi stefnandi jafnframt til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur þvingunarráðstafanirnar hafa falið í sér slíka meingerð gegn stefnanda, sem nýtur verndar samkvæmt ákvæðinu.

Varðandi fjárhæð bóta tiltaki stefnandi að hann hafi fyrir engar sakir verið handtekinn og sviptur frelsi sínu á almannafæri og fyrir framan fjölda manns á hátíðarsvæði Þjóðhátíðar. Þar hafi síðan verið leitað á honum fyrir framan hátíðargesti. Þessar nauðsynjalausu og ólögmætu aðgerðir, frelsissviptingin og líkamsleitin, hafi valdið stefnanda miklu hugarangri og miska. Stefnandi telur jafnframt að í þessum íþyngjandi aðgerðum hafi falist meingerð gegn persónu hans, frelsi, friði og æru. Stefnandi hafi verið gestur á fjölmennri hátíð og átt sér einskis ills von þegar lögregla hafði af fyrra bragði afskipti af honum. Hann kveðst þekkja þau réttindi sín að honum væri ekki skylt að samþykkja líkamsleit. Sá réttur hans hafi hins vegar að engu verið hafður.

Við mat á miska stefnanda verði að hafa í huga að með aðgerðum þessum hafi verið gengið á grundvallarréttindi hans sem bundin séu í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. lög nr. 62/1994. Sé þar meðal annars um að ræða rétt hans til að vera ekki sviptur frelsi, sbr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. sáttmálans, og rétt hans til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. sáttmálans. Þá beri að líta til þess að með þvingunaraðgerðunum var gengið lengra en nauðsynlegt var og því brotið gegn skráðum og óskráðum meðalhófsreglum.

Stefnandi kveðst líta svo á að við mat á miska megi einnig hafa í huga að af einhverjum ástæðum hafi lögregla kosið að skrá stjórnmálaskoðanir og félagaþátttöku stefnanda í lögregluskýrslu með því að merkja hann samtökunum [...]. Engin lagastoð og engin málefnaleg sjónarmið séu fyrir slíkri skráningu af hálfu lögreglunnar. Stefnandi telji að skráning þessi stríði gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og stríði gegn sjónarmiðum 1. mgr. 71. gr. og 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og frelsi til skoðana og sannfæringar. 

Til viðbótar framangreindum lagarökum vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta- og refsiréttar auk meginreglna opinbers réttarfars og stjórnarskrár lýðveldisins um þvingunaraðgerðir. Vísað er til ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. einkum X., XIII. og XXXVII. kafla og 228. gr. laganna. Vísað er til reglna skaðabótalaga, nr. 50/1993, einkum til 26. gr. Þá er vísað til almennu sakarreglunnar og reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við III. og IV. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

III.

Stefndi kveðst styðja sýknukröfu sína við 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sem kveði á um að heimilt sé að fella niður bætur eða lækka, hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Sérþjálfaður fíkniefnaleitarhundur hafi fundið fíkniefnalykt af stefnanda, en stefnandi beri sjálfur ábyrgð á því að af honum hafi fundist slík lykt.

Lögregla hafi óskað eftir því að stefnandi sýndi lögreglu innihald vasa sinna en samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands beri sérhverjum manni að hlýða yfirvaldsboði í bráð. Stefnandi hafi brugðist illa við þeirri ósk lögreglu og styrkt þar með grunsemdir lögreglu um að hann bæri á sér fíkniefni. Því stuðlaði hann að þeim aðgerðum sem hann geri nú kröfu um að fá bætur vegna. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda eða lækka bætur á grundvelli eigin sakar hans.

Stefndi bendi á að í dómaframkvæmd hafi ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár Íslands og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur sakamálalaga nr. 88/2008.

Samkvæmt 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé það meginhlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu, tryggja réttaröryggi, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við fyrirmæli laga um meðferð sakamála, lögreglulögum og lögreglusamþykktum. Allar aðgerðir lögreglu á vettvangi hafi verið lögmætar. Ólögmæti sé skilyrði þess að stefnanda verði dæmdar bætur á grundvelli almennu sakarreglunnar og b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, en stefnandi byggi bótakröfu sína á þessum bótareglum til vara. Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda sem reistar séu á þeim grundvelli.

Rökstuddur grunur hafi leikið á því að stefnandi hafi gerst brotlegur við lög nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, enda hafði fíkniefnaleitarhundur gefið til kynna að stefnandi bæri slík efni á sér. Skilyrði fyrir handtöku stefnanda, sbr. 1. mgr. 90. gr. nr. 88/2008, hafi því verið uppfyllt. Lögregla hafi metið það svo að tryggja þyrfti návist stefnanda í þeim tilgangi að hann kæmi ekki undan sönnunargögnum. Stefndi vísar, um heimild lögreglu til að framkvæma leit, til 1. mgr. 17. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og 3. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008.

Stefndi kveður afskipti lögreglu af stefnanda, frá því að leitarhundur merkti hann þar til stefnandi var frjáls ferða sinna, hafa varað í u.þ.b. 5 mínútur. Meðalhófs hafi því verið gætt. Fráleitt hefði verið að bíða dómúrskurðar og kalla stefnanda síðar til skýrslutöku eins og málið var vaxið.

Stefndi mótmælir sérstaklega, sem röngum og órökstuddum, málsástæðum stefnanda að lögregla hafi skráð niður stjórnmálaskoðanir hans og félagaþátttöku. Enga slíka skráningu sé að finna í gögnum málsins.

Fjárhæð bótakröfunnar er mótmælt sem of hárri og órökstuddri. Til stuðnings varakröfu vísar stefndi til sömu málsástæðna auk þess sem kröfur stefnanda séu í engu samræmi við dómaframkvæmd þar sem fallist hefur verið á bótaskyldu.

 

Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

IV.

Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 segir að maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, eigi rétt til bóta eftir 2. mgr. sömu lagagreinar, meðal annars ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. greinarinnar má dæma bætur vegna rannsóknaraðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málslið málsgreinarinnar má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ekki eru sett frekari skilyrði fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og skiptir ekki máli í því sambandi, varðandi bótagrundvöllinn, hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða sem haft hafa í för með sér tjón eða ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Þrátt fyrir að í dagbókarfærslu hafi stefnandi ekki verið skráður sem sakborningur, verður að líta svo á, miðað við atvik málsins, að hann hafi haft þá stöðu, og var við aðalmeðferð málsins enda ekki gerður ágreiningur um það.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Því eigi 2. málsliður 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 við og skuli fella bætur niður með öllu. Þessu til stuðnings nefnir stefndi einkum að stefnandi hafnaði því að heimila lögreglu leit á sér, sinnti því ekki yfirvaldsboði og styrkti um leið grunsemdir lögreglu.

Það ætti að vera ágreiningslaust í ljósi fjölmargra fordæma Hæstaréttar að lögmæti rannsóknaraðgerða skiptir ekki máli þegar metið er hvort bótaskylda sé fyrir hendi samkvæmt 228. gr. Er nærtækast að benda á dóm Hæstaréttar sem stefndi vísaði til í málflutningi sínum, í málinu nr. 451/2015. Í því máli var deilt um það hvort áfrýjandi hefði samþykkt líkamsleit eða ekki. Um það atriði sagði að þótt talið yrði sannað að samþykki hefði verið veitt, myndi slíkt ekki girða fyrir bótarétt, enda hefði viðkomandi ella átt von á því að farið yrði fram á dómsúrskurð. Það sjónarmið á einnig við um stefnanda í þessu máli, þ.e. krafa um dómsúrskurð hlýtur að voma yfir einstaklingi í þessari stöðu án tillits til þess hvort viðkomandi hafni eða samþykki líkamsleit. Því verður ekki séð að máli skipti um bótagrundvöllinn hvað leitina varðar, hver sú afstaða er og því ekki hægt að líta svo á að höfnun á að heimila lögreglu leit eigi að leiða til brottfalls eða lækkunar bóta samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 228. gr. Aðalatriðið er hver niðurstaða leitar verður, en ekki hver afstaða viðkomandi til leitar er.

Ekki hefur verið gerður ágreiningur um að stefnanda gat ekki dulist, að lögreglan var að gegna skyldustörfum. Það er meginregla íslenskrar stjórnskipunar að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, eins og stefnandi sannanlega gerði. Lögregla gat því handtekið stefnanda í því skyni að leita á honum, ef hún hafði rökstuddan grun um að hann væri með fíkniefni og teldi að hann ætti ella kost á að spilla sönnunargögnum sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 2. málslið 1. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 76. gr. laganna. Lögreglu hefði einnig verið heimilt að handtaka stefnanda og færa á lögreglustöð og afla í kjölfarið dómsúrskurðar, en sú leið var ekki farin og verður að telja lögreglu með því hafa gætt meðalhófs. Til handtöku hefði hins vegar ekki þurft að koma nema vegna neitunar stefnanda á að heimila leit. Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að handtökuna megi rekja beint til aðgerða stefnanda sjálfs í þeim skilningi að varði brottfalli bótaréttar, sbr. 2. málslið, 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, telur dómurinn það ótæka niðurstöðu í ljósi þess að ef gengið hefði verið lengra; stefnandi handtekinn og færður á stöð og dómsúrskurðar aflað, hefði að uppfylltum öðrum skilyrðum, stefnandi átt bótarétt á grundvelli 228. gr. Því verður talið að synjun stefnanda valdi ekki brottfalli bóta.

Er því fallist á að stefndi, íslenska ríkið, beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda eftir 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómurinn telur að ekki séu uppfyllt skilyrði í málinu til að dæma stefnanda bætur á grundvelli sakarreglunnar, eða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða annarra réttarheimilda sem stefnandi tilgreinir í stefnu málsins, þar sem skilyrði um saknæmi og ólögmæti skortir.

-------

Burt séð frá því hvort líta beri yfirhöfuð til slíkra þátta þegar tekin er ákvörðun um fjárhæð bóta í málum sem þessum þar sem bótaskylda er reist á 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 liggur fyrir, að mati dómsins, að engar aðgerðir réttarvörsluaðila hafi verið þeirrar gerðar í þessu máli, að þær ollu stefnanda óþarfa miska eða tjóni umfram það sem óhjákvæmilega hlýst jafnan af aðgerðum sem þessum og ekki er deilt um. Ekki verður séð að það skipti máli við úrlausn málsins hvort fíkniefnahundurinn hafi fyrst merkt stefnanda eða lögreglumenn haft af honum afskipti áður.

Ekki er gerð krafa vegna fjártjóns heldur einvörðungu krafist miskabóta. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðreyna, hvaða áhrif framangreind atvik og hin bótaskylda háttsemi hafði á stefnanda, utan þeirrar skýrslu sem stefnandi sjálfur gaf fyrir dómi. Stefnandi greindi frá því að dóttir hans hefði verið á þjóðhátíð, og það hafi verið ástæðan fyrir komu hans þangað, hún varð þó ekki vitni að atvikinu. Stefnandi greindi frá því að þetta hafi valdið honum miklu hugarangri og verið áfall, enda fjöldi fólks á svæðinu sem varð vitni af atburðinum sem stefnandi taldi lítilsvirðandi og lýsti sem valdníðslu.

Lögmaður stefnanda lagði mikla áherslu á að tekið yrði tillit til þess við ákvörðun bóta, að í yfirskrift í dagbókarfærslu lögreglu vegna málsins hafi nafn stefnanda verið tengt fyrrgreindum félagsskap, [...], sem stefnandi segir samtök áhugafólks um borgaraleg réttindi. Dómurinn fær ekki séð hvernig þetta sé til þess fallið að valda stefnanda sérstaklega miklum miska eins og haldið var fram. Stefnandi greindi frá því að líkast til hafi hann verið með um 300 upplýsingaspjöld merkt samtökunum, með upplýsingum um tiltekin borgaraleg réttindi. Hann situr í stjórn félagsins og virðist mjög áfram um framgang þess, sbr. framburð hans fyrir dómi. Þótt engar skýringar séu á því hvers vegna nafn félagsins ratar inn í dagbókarfærslu lögreglu í sviga, nema þá þær að hann bar framangreind spjöld á sér, verður ekki séð að sú staðreynd sé fallin til þess að valda stefnanda miska, án tillits til þess hvort færslan var eðlileg eða ekki en dómurinn sér ekki ástæðu til að taka afstöðu til þess í ljósi sakarefnisins.

Þar sem engum gögnum er til að dreifa, sbr. framangreint, um áhrif handtökunnar og leitarinnar á hag og heilsu stefnanda, verða því bætur dæmdar að álitum og með hliðsjón af dómaframkvæmd og framangreindum sjónarmiðum. Þykja þær hæfilegar 120.000 krónur.

Dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, verða með vísan til 9. gr. laganna dæmdir frá 30. janúar 2016 til greiðsludags, en þá var liðinn einn mánuður frá höfðun málsins. Því er ómótmælt og enda engin gögn  sem styðja hið gagnstæða, að fyrst við stefnubirtingu hafi stefnda verið kunnugt um kröfu stefnanda.

Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, útgefnu 19. október 2015, og eru því ekki efni til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar. Verður hann því felldur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem telst, miðað við umfang málsins og rekstur þess, hæfilega ákveðin 380.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda Soffía Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður.  

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                    D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Björgvini Mýrdal Þóroddssyni, 120.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 30. janúar 2016 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, 380.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.