Print

Mál nr. 704/2017

Lögreglustjórinn á höfuborgarsvæðinu (Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Eggert Páll Ólason hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Farbann
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. liður 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til miðvikudagsins 22. nóvember 2017 klukkan 12. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fd. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til miðvikudagsins 22. nóvember 2017 kl. 12:00.

                   Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram embættið hafi til meðferðar ætlað kynferðisbrot kærða, X, gagnvart 16 ára gamalli stúlku, [...]. Hafi kærði með úrskurði héraðsdóms frá 28. október sl., nr. [...], verið úrskurðaður í farbann til dagsins í dag.  Málavextir séu í stuttu máli þeir að brotaþoli og kærði hafi hist á [...], aðfaranótt 28. október sl. og farið hafi vel á með þeim. Þau hafi kyssts og farið inn á salerni staðarins saman. Þar hafi kærði hafið að kyssa brotaþola, rifið niður um hana buxurnar og að því er hún hafi lýst við skýrslutöku hjá lögreglu þá hafi hún frosið og ekki þorað að gera neitt. Hann hafi þá sleikt kynfæri hennar. Hún hafi sigið niður á gólfið og þá hafi kærði snúið henni við, svo að hún hafi legið á maganum með andlitið í gólfinu, en rassinn aðeins upp. Hann hafi þá sett fingur í leggöngin á henni og það hafi henni fundist vont og hún gefið honum það til kynna með því að segja það við hann. Þá hafi hann haft samfarir við hana í leggöng þar til hún hafi sagt að hún þyrfti að kasta af sér þvagi, sem afsökun til að komast undan. Hann hafi þá hætt og hún farið út af salerninu. Hún hafi þá farið inn á næsta salerni, þar sem hún hafi grátið. Hún hafi sent systur sinni mynd af sér grátandi og sagt að hún héldi að sér hefði verið nauðgað. Systir hennar hafi þá beðið hana um að koma til sín, þar sem hún hefði verið við vinnu í miðbænum, sem brotaþoli  hafi gert. Á leið út af staðnum hafi hún hitt þrjár vinkonur sínar og jafnframt sagt þeim að hún héldi að henni hefði verið nauðgað af manninum sem hún hafi verið að kyssa áður og sagt þeim að hann hefði rifið buxurnar hennar og nærbuxur og hafi þær séð að rennilás buxnanna hefði verið skemmdur. Hún hafi síðan farið af staðnum og á leiðinni að hitta systur sína hafi hún hringt í vin sinn, Halldór, og sagt honum frá því sem gerst hefði. Vinkonur hennar sem eftir hafi verið á staðnum hafi beðið starfsmann staðarins að hringja á lögreglu og hafi lögreglan handtekið kærða á vettvangi. Hafi lögreglan síðan leitað að brotaþola og ekið henni á neyðarmóttöku. 

Fram kemur í greinargerðinni að kærði neiti sök. Hann viðurkenni að hafa átt samræði við stúlkuna, en að það hafi verið með hennar samþykki. Teknar hafi verið skýrslur af brotaþola og kærða í tvígang sem og skýrslur af þeim vitnum sem brotaþoli hafi hitt eftir hið meinta brot. Málið teljist fullrannsakað að mati lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og verði sent embætti héraðssaksóknara á næstu dögum.

Farið sé fram á að kærði verði úrskurðaður í farbann á grundvelli 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sé á því byggt að skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga séu uppfyllt. Kærði sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem varði fangelsisrefsingu og hafi það jafnframt verið mat héraðsdóms samkvæmt úrskurði dómsins nr. [...]. Rannsókn málsins hafi ekki breytt því mati lögreglustjóra, þar sem framburður brotaþola sé stöðugur og hún hafi tjáð nokkrum vitnum, nær strax eftir hið meinta brot, að henni hafi verið nauðgað af kærða. Kærða sé gefið að sök kynferðisbrot gegn 16 ára stúlku með því að hafa þvingað hana til samræðis, gegn vilja hennar, með því að notfæra sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, sér í lagi vegna aldurs og þroskamunar.

Í greinargerðinni kemur fram að kærði sé erlendur ríkisborgari sem hafi dvalist hér um skamman tíma og hafi engin varanleg tengsl við landið, en hann hafi komið til landsins sem ferðamaður og hafi áætluð heimför hans verið 29. október sl. Lögreglustjóri telji nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan mál hans sé til meðferðar hjá yfirvöldum og þyki því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans verði til lykta leitt. Sé það mat lögreglustjóra að kærði muni reyna að komast úr landi ellegar reyna að koma sér með öðrum hætti undan málsmeðferð, gangi hann frjáls ferða sinna. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst þess að kærði sæti farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Tilefni kröfugerðarinnar er rakið í greinargerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt 100. gr. fyrrgreindra laga er það skilyrði þess að fallast megi á kröfu sóknaraðila um farbann að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Auk þess verður eitthvert þeirra sérstöku skilyrða sem rakin eru í fjórum stafliðum í greininni að vera fyrir hendi.

Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins og fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um kynferðisbrot sem varðað getur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Sannist sök varðar brot af þessu tagi eins til sextán ára fangelsi. Almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt.

Krafa sóknaraðila er á því reist að skilyrði b-liðar greinarinnar sé einnig fyrir hendi. Samkvæmt þeim tölulið má beita gæsluvarðhaldi ef ætla má að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Kærði, sem er norskur ríkisborgari, mun hafa verið á ferðalagi hér á landi og fram kom fyrir dóminum að hann hefur í hyggju að yfirgefa landið svo fljótt sem verða megi. Þær aðstæður sem að framan er lýst eru nægilegt tilefni til að banna kærða brottför frá landinu og er á það fallist að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess sé uppfyllt.

Samkvæmt því sem fram er komið er málið fullrannsakað og er á leið til héraðssaksóknara sem hefur ákæruvald í málinu. Ætla má að tekin verði ákvörðun um saksókn á næstunni og að málinu verði hraðað. Dómurinn fellst á kröfu sóknaraðila um að kærði sæti áfram farbanni til miðvikudagsins 22. nóvember 2017 kl. 12:00. Ekki þykja efni til að marka farbanninu skemmri tíma en þeirra tveggja vikna sem krafist er. Héraðssaksóknara, sem tekur nú við málinu, ber sem endranær að fella farbann niður þegar hann telur þess ekki lengur þörf.

                Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kærði, X, fæddur [...], skal sæta farbanni, allt til miðvikudagsins 22. nóvember 2017 kl. 12:00.