Print

Mál nr. 419/2017

A (Guðbrandur Jóhannesson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur lögræði í 4 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2017 þar sem sóknaraðili var sviptur lögræði í fjögur ár.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að lögræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og verður hún ákveðin með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðbrandar Jóhannessonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 16. júní

Með kröfu, sem barst dóminum 7. júní sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...] í Reykjavík, verði, með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sviptur lögræði í fjögur ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að lögræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

I

Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu lögræðis til fjögurra á a-lið 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga, nr. 71/1997. Er krafan reist á því að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fjármunum, m.a. vegna andlegs vanþroska og annars alvarlegs heilsubrests.

Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis frá 6. júní sl., og beiðni um fyrirsvar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur varðandi kröfu um lögræðissviptingu varnaraðila, dags. 7. júní 2017. Hvað varðar forsögu málsins og málsatvik er vísað til gagna málsins, sér í lagi til framangreindra vottorða og gagna.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé [...] ára, einhleypur og barnlaus karlmaður, sem hafi búið á heimilum fyrir fatlað fólk um árabil sökum viðvarandi vanda vegna þroskahömlunar, einhverfu og skertrar framheilastarfsemi auk þess sem depurð, reiðiköst, vímuefnaneysla og geðrofseinkenni hafi valdið auknum vanda á tímabilum. Vegna viðvarandi vanda varnaraðila telji sóknaraðili nauðsynlegt að svipta hann lögræði þar sem hann sé hvorki fær um að ráða persónulegum högum sínum né fjármunum. Saga varnaraðila beri með sér að hann geti verið hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu auk þess sem varnaraðili hafi steypt sér í skuldir og geri sér ekki grein fyrir orsök og afleiðingum þegar komi að fjármunum. Samkvæmt upplýsingum frá geðlækni varnaraðila hafi foreldrum hans verið gert kunnugt um kröfu sóknaraðila um sjálfræðissviptingu hans.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi þjáðst af flogaveiki og afleiðingum framheilaskaða allt frá fyrsta aldursári en samkvæmt taugasálfræðilegu mati sem varnaraðili hafi gengist undir árið 2000 hafi hann væga þroskaskerðingu sem samræmist skerðingu á starfsemi framheila og undirhluta framheila. Í því mati hafi komið fram greinileg truflun í framheilastarfsemi en hún geti m.a. haft áhrif á ákvarðanatöku, getu til að skipuleggja fjármál og ráða við daglegar athafnir. Vinnsluminni varnaraðila sé einnig verulega skert og hann eigi erfitt með að vinna með nema takmarkað magn upplýsinga í einu.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að árið 2013 hafi varnaraðili jafnframt verið greindur með einhverfu en í gegnum árin hafi hann átt erfitt vegna áráttu og þráhyggju, illa getað sett sig í spor annarra og oft ekki skilið muninn á réttu og röngu. Geta varnaraðila til að sjá um sig sjálfur hafi verið ofmetin í gegnum tíðina, bæði af heilbrigðisstarfsfólki og varnaraðila sjálfum. Varnaraðili hafi átt það til að sýna ófyrirséða hegðun sem valdi honum og öðrum skaða, t.d. með því að brenna sig í sjóðheitu baði, henda hlutum í og út úr íbúð sinni, og kveikja í húsnæði sínu.

Varnaraðili hafi búið á sambýli á [...] í [...] en í nóvember 2013 hafi hann flutt þaðan í búsetukjarna fyrir geðfatlaða að [...] þar sem hann hafi búið þar til 16. apríl 2015. Þá hafi varnaraðili borið eld að húsnæðinu eftir að hafa aftengt reykskynjara og yfirgefið húsnæðið án þess að láta vita af háttsemi sinni. Varnaraðili hafi stofnað lífi starfsmanna og annarra þjónustuþega í hættu og misst í kjölfarið vistarverur sínar þar en dvalið til 15. maí 2015 á geðdeild að eigin vilja.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2015 hafi varnaraðili verið sviptur lögræði til tveggja ára. Í kjölfarið hafi hann lagst inn á öryggisgeðdeild í tvo mánuði en hann hafi frá þeim tíma dvalið á sambýli að [...], þó með þremur innlögnum á öryggisgeðdeild vegna hegðunarvanda og alvarlegs geðrofsástands. Varnaraðili hafi tekið lyf til að halda geðrofseinkennum í skefjum ásamt lyfjum við flogaveiki en 5. janúar sl. hafi hann lagst inn á öryggisgeðdeild vegna alvarlegs geðrofsástands en hann hafi verið þar í rúma tvo mánuði.

Beiðni varnaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis frá 6. júní sl. Sóknaraðili vísar til að fram komi í vottorðinu að það sé mat undirritaðs læknis að varnaraðili ráði ekki við persónulega hagi sína og fjármál vegna andlegs vanþroska. Það sé mat hans að sjálfræðissvipting varnaraðila sé nauðsynleg þar sem hann hafi ekki skilning á því að hann þurfi að hlíta ráðum um búsetu og meðferðarúrræði sín. Jafnframt sé talið nauðsynlegt að svipta varnaraðila fjárræði þar sem honum sé nauðsynlegt að hafa skýran ramma í fjármálum en að öðrum kosti eigi varnaraðili það til að missa stjórn á sjálfum sér.

Sóknaraðili telji að fullreynt hafi verið að láta varnaraðila ráða högum sínum og að saga hans undanfarin ár sýni bersýnilega þörf varnaraðila á stífu utanumhaldi og möguleika heilbrigðisstarfsfólks á að grípa inn í þegar geðheilsu varnaraðila hraki. Ljóst megi telja að varnaraðili þurfi stöðugt eftirlit með ferðum, uppátækjum og samskiptum hans við annað fólk.

Sóknaraðili telur með hliðsjón af langvarandi vanda varnaraðila að nú sé nauðsynlegt að tímabundin svipting lögræðis varnaraðila vari í fjögur ár. Í því samhengi sé haft fyrir augum að hagsmunum varnaraðila verði gætt með fullnægjandi hætti. Að öðrum kosti sé lífi og heilsu varnaraðila og annarra stefnt í hættu auk þess sem hætta sé á að varnaraðili muni koma sér í fjárhagslegt öngstræti, vegna andlegs vanþroska síns og annars alvarlegs heilsubrests.

Í framanlýstu vottorði B geðlæknis er sjúkra- og vinnusaga varnaraðila rakin. Í vottorðinu er m.a. tekið fram að ástand varnaraðila sé þannig að varnaraðili sé örugglega með verulega greindarskerðingu. Hann sé á einhverfurófinu og sé barnalegur í hegðun og tali. Hann skilji oft ekki reglur og lög samfélagsins, sé mjög sjálfsmiðaður og þekki illa muninn á réttum og röngum athöfnum. Jafnframt kemur fram að varnaraðili hafi áður glímt við áfengis og vímuefnavanda. Hann hafi misnotað áfengi og neitt eiturlyfja í aðdraganda íkveikju, en það sé nokkuð sem sé talið að hafi verið meðvirkandi í því að einkenni geðrofs hafi komið fram hjá honum þegar hann framkvæmdi íkveikjuna. Sjúkdómsgreiningar varnaraðila sé væg þroskahefting, veruleg skerðing atferlis sem krefjist athygli og meðferða F70.1, lyfjafíkn F19.2 og Flogaveiki G40.9.

Varnaraðili þurfi þjónustu og utanumhald vegna greindarskerðingar sinnar. Hann búi í dag á stað þar sem fagfólk styðji hann og veiti honum aðhald og kenni honum að fara eftir reglum. Hann sé kominn í styrkta búsetu með sólarhringsþjónustu líkt og margir þroskaskertir þurfi og í dag gangi vel undir leiðsögn starfsmanna, með mjög skýrum ramma. Ljóst sé að varnaraðili þurfi helst að starfsmaður sé alltaf til taks, til að fylgjast með honum, ferðum hans, uppátækjum og samskiptum við annað fólk. Ljóst sé að um langtímavanda sé að ræða, sem tengist þroskahömlun, einhverfu og skertri framheilastarfsemi og reiðiviðbrögðum með hvatvísi. Þá þurfi einnig að halda honum frá vímugjöfum. Þá hafi tímabundin geðrofseinkenni einnig flækt mál varnaraðila.

Niðurstaða vottorðsins er að varnaraðili ráði ekki við persónulega hagi sína og fjármál vegna andlegs vanþroska. Skilyrði fyrir áframhaldandi sviptingu sjálfræðis og fjárræðis séu fyrir hendi. Þá sé nauðsynlegt sé að sviptingarúrræði séu til taks í framtíðinni vegna þess að varnaraðili hafi ekki skilning á því að hann þurfi að hlíta ráðum um að vera í búsetu á vegum sveitarfélags síns og á tímabilum sé hann einnig í þörf fyrir innlögn á geðdeild. Varnaraðili þurfi áfram að vera í búsetuúrræði með sólarhringsstuðningi og eftirliti. Þá sé skýr rammi í fjármálum einnig nauðsynlegur. Varnaraðila líði illa þegar hann sé skuldugur og peningalaus en þá missi hann gjarnan  stjórn á hegðun sinni. Með áframhaldandi ramma og góðri mönnun búsetuúrræðis ætti að ganga vel með varnaraðila.

Nægjanleg gæsla sé í íbúðarkjarnanum sem varnaraðili búi nú í. Samvinna öryggisdeildar og starfsfólks íbúðarkjarnans varðandi meðferð hans gangi vel. Hann hafi eftir langa endurhæfingarinnlögn, sem lauk í ágúst 2015 verið í innlögnum á öryggisgeðdeild, þegar starfsfólk íbúðarkjarnans hafi ekki náð að halda utan um hann, en sú samvinna muni halda áfram. Varnaraðili mæti á tveggja vikna fresti í lækniseftirlit til geðlæknis og með aðhaldi sjálfræðissviptingar fari hann að ráðum varðandi  lyfjameðferð sína og viðhaldi edrúmennsku. Búseta varnaraðila og fagleg umgjörð, sem hann sé nú í, ásamt sviptingu sjálfræðis og fjárræðis, sé nauðsynleg til þess að öryggi hans og umhverfis hans sé tryggt. Í ljósi langvarandi vanda varnaraðila sé lagt til að svipting lögræðis verði framlengt til 4 ára.

         Varnaraðili gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst mótmæla kröfunni og taldi að nóg væri komið. Hann hefði þegar verið sviptur sjálfræði í tvö ár. Varnaraðili virtist eiga erfitt með að svara spurningum er lutu að því hvernig hann upplifði heilsufarsástand sitt og hvað væri framundan að hans mati yrði kröfu sóknaraðila hafnað.

         Við aðalmeðferð málsins B geðlæknir skýrslu fyrir dóminum um síma. Hann staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess og um heilsufar varnaraðila. Ítrekaði hann að talið væri nauðsynlegt, vegna margþætts vanda varnaraðila, að hann yrði sviptur sjálfræði og fjárræði. Kvað hann sóknaraðila eiga við fjölþættan vanda að etja sem hann hefði mjög takmarkaðan skilning á. Kvað hann margsinnis hafa verið reynt að beita vægari úrræðum við meðferð varnaraðila heldur en sjálfræðissviptingu en það hefði ekki gengið. Varnaraðili væri þó á batavegi en ástand hans geti hins vegar breyst án fyrirvara, eins og margoft hafi gerst, og þá geti hann orðið hættulegur sjálfum sér og öðrum. Læknirinn kvað varnaraðila enga innsýn hafa í sjúkdóm sinn og upplifi iðulega að ekkert sé að. Læknirinn kvaðst aðspurður telja að í tilfelli varnaraðila kæmi skemmri tími en fjögur ár vart til greina. Vandi varnaraðila væri langvarandi, það hefði sýnt sig að hann héldi sig ekki að meðferð við sjúkdómi sínum ef hann fengi sjálfur að ráða og meðferð fram að þessu hafi gengið vel.

         Skipaður verjandi varnaraðila mótmælti kröfu sóknaraðila og taldi að skilyrði lögræðissviptingar ekki vera fyrir hendi. Ekki væri forsvaranlegt að lögræðissvipta varnaraðila á grundvelli fyrirliggjandi gagna og ekki lægi fyrir með fullnægjandi hætti að ekki væri unnt að beita vægari úrræðum til að ná sama markmiði. Þá væru engin gögn í málinu um nauðsyn fjárræðissviptingar sérstaklega. Fyrir lægi að varnaraðili hafi þegar sætt lögræðissviptingu í tvö ár og að hafi á þeim tíma verið á batavegi. Alltént væri fjögurra ára sviptingartími of langur.

II

Með vísan til vættis, B geðlæknis, sem á sér styrka stoð í gögnum málsins þykir í ljós leitt að varnaraðili sé haldinn sjúkdómum sem hann hefur takmarkaða innsýn í, eins og ítarlega er rakið hér að framan. Þykir þannig liggja fyrir að litlar líkur séu á því að hann þiggi nauðsynlega meðferð sé hann ekki sviptur sjálfræði. Sýnir saga hans þetta svo ekki verður um villst að mati dómsins og eins að honum sé um megn að ráða fé sínu sjálfur. Eins og nánar er lýst hér að framan liggur fyrir mat geðlæknis um að varnaraðili þurfi læknisaðstoð til að takast á við sjúkdómsástand sitt og aðstoð fagfólks til að takast á við daglegt líf sitt. Þá er það mat læknisins, stutt dæmum, að fái varnaraðili ekki viðeigandi meðferð sé hann hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum.

Það er mat dómsins að fyrir dóminn hafi verið færð fullnægjandi sönnun þess að varnaraðili sé ófær um ráða persónulegum högum sínum og að nauðsynlegt sé í þágu hagsmuna hans að svipta hann sjálfræði og fjárræði. Þá er á það fallist að fyrirliggjandi upplýsingar sýni með óyggjandi hætti að vægari úrræði en sjálfræðissvipting komi ekki að tilætluðu gagni. Því er skilyrðum a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fullnægt, sbr. og 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

Eins og hér stendur á þykir rétt að fallast á þau sjónarmið sóknaraðila, sem fá stoð í mati geðlæknis, að heilsufari varnaraðila sé þannig farið að rétt sé að svipta hann lögræði, fjárræði og sjálfræði, í þau fjögur ár sem krafist er.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðbrands Jóhannessonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur lögræði (sjálfræði og fjárræði) í fjögur ár.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðbrands Jóhannessonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.