Print

Mál nr. 145/2017

Gunnar Heiðar Bjarnason (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sjúklingatrygging
  • Fyrning
  • Skipting sakarefnis
Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort að krafa G á hendur S til heimtu bóta vegna varanlegs líkamstjóns, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ónógs eftirlits lækna á nánar tilgreindum sjúkrastofnunum, hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað. Talið var að leggja yrði til grundvallar að G hefði haft vitneskju um ætlað tjón sitt þegar hann sótti um bætur til S með umsókn 25. október 2010 og hefði fyrningarfrestur hugsanlegrar bótakröfu samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þá tekið að líða, sbr. 19. gr. laganna. S hafnaði kröfu G 12. apríl 2011 og var fyrningu þá slitið, sbr. 16. gr. og 21. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, og nýr fyrningarfrestur hófst vegna dómkröfu hans. G höfðaði málið 16. desember 2015 og voru þá liðin meira en fjögur ár frá því að fyrningu var slitið. Var því talið að sú krafa, sem G kynni að eiga á hendur S, hefði verið fallin niður fyrir fyrningu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ása Ólafsdóttir lögmaður.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2017. Hann krefst þess að „hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og krafa hans um að stjórnvaldsákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 12. apríl 2011, verði tekin til efnismeðferðar.“ Þá krefst hann þess að „viðurkennd verði skaðabótaábyrgð Sjúkratrygginga Íslands með vísan til laga nr. 111/2000, á líkamstjóni áfrýjanda sem hann varð fyrir vegna læknismeðferðar á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 á Landspítala háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Sakarefni málsins var skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þann skilning verður að leggja í málatilbúnað áfrýjanda að með kröfugerð sinni leiti hann viðurkenningar á því að krafa sem hann kann að eiga á hendur stefnda á grundvelli 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé ekki fyrnd.

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi byggir áfrýjandi dómkröfur sínar á ákvæðum laga nr. 111/2000. Hann hafi orðið fyrir sjúklingatryggingaratburði sem rekja megi til ónógs eftirlits lækna á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 með þeim afleiðingum að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Bætur eigi því að greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, sbr. 1. og 2. gr. laganna.

Um upphaf og lengd fyrningarfrests bótakrafna samkvæmt lögum nr. 111/2000 gilda ákvæði 19. gr. laganna. Þar kemur fram að upphaf frestsins miðast við það tímamark þegar tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt og er fresturinn fjögur ár frá því tímamarki. Um slit fyrningar á slíkum kröfum fer samkvæmt lögskýringargögnum með lögum nr. 111/2000 eftir almennum reglum um fyrningu, sbr. nú lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Fallist er á með héraðsdómi að leggja verði til grundvallar að áfrýjandi hafi haft vitneskju um ætlað tjón sitt þegar hann sótti um bætur til stefnda með umsókn 25. október 2010 og tók fyrningarfrestur hugsanlegrar bótakröfu samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 þá að líða, sbr. 19. gr. laganna. Stefndi hafnaði bótakröfu áfrýjanda 12. apríl 2011 og var fyrningu þá slitið, sbr. 16. og 21. gr. laga nr. 150/2007, og nýr fyrningarfrestur hófst vegna dómkröfu áfrýjanda. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 16. desember 2015 og voru þá liðin meira en fjögur ár frá því að fyrningu var slitið. Samkvæmt þessu var krafa sú, sem áfrýjandi kann að eiga á hendur stefnda, fallin niður fyrir fyrningu.

Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2016

I

Mál þetta, sem dómtekið var 8. nóvember 2016, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 16. desember 2015. Stefnandi er Gunnar Heiðar Bjarnason, Sólvöllum, Varmahlíð, og stefndi er Sjúkratryggingar Íslands, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess, að felld verði úr gildi stjórnvaldsákvörðun stefnda frá 12. apríl 2011 og að jafnframt verði viðurkennd skaðabótaábyrgð með vísan til laga nr. 111/2000 á líkamstjóni stefnanda sem hann varð fyrir vegna læknismeðferðar á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 á viðkomandi sjúkrastofnunum,  Landspítala háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verður dæmdur til greiðslu alls málskostnaðar að mati dómsins.

Sakarefni málsins var skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þannig að nú verður leyst úr því hvort dómkröfur stefnanda á hendur stefnda séu fyrndar. Málið var flutt um þetta atriði og dómtekið 8. nóvember sl., eins og áður er getið.

II

Helstu málavextir eru þeir, að stefnandi greindist með sykursýki af tegund 1 á árinu 1990 þegar hann var við 5 ára aldur. Stefnandi var til meðferðar hjá barnalæknum fram til 15 ára aldurs en kom fyrst til skoðunar hjá Ingvari Teitssyni á árinu 2000. Stefnandi hefur verið á lyfjameðferð vegna sjúkdómsins og fengið meðferð vegna fylgikvilla sykursýkinnar, þar á meðal vegna hás blóðþrýstings. Stefnandi undirgekkst margar aðgerðir á vinstra auga í október 2010 en án árangurs. Þá hefur stefnandi undirgengist fleiri aðgerðir, síðast í febrúar 2011, og varð niðurstaðan sú að stefnandi er nú blindur á báðum augum. Þá glímir stefnandi við alvarlega nýrnabilun.

Stefnandi var í fyrstu í eftirliti og meðferð hjá Árna Þórssyni, barnalækni og innkirtlasérfræðingi. Þegar stefnandi komst á unglingsaldur hóf hann meðferð hjá Ingvari Teitssyni lækni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þar sem rekin er göngudeild sykursjúkra. Ingvar mun hafa starfrækt sjálfstæða móttöku sjúklinga í húsakynnum Fjórðungssjúkrahússins. Því er lýst í greinargerð stefnda að Ingvar hafi á þessum tíma ekki verið starfsmaður sjúkrahússins. Stefnandi kom fyrst til skoðunar hjá Ingvari 14. apríl 2000. Strax við fyrstu skoðun kom í ljós að blóðsykur stefnanda var of hár og að prótein hafði fundist í þvagi. Bað Ingvar stefnanda um að skrá niðurstöður blóðsykurmælinga. Var stefnandi boðaður til endurkomu sex vikum síðar.

Stefnandi mætti reglulega í skoðun hjá Ingvari á tímabilinu frá 14. apríl 2000 til 29. maí 2002 og undirgekkst blóðrannsóknir vegna sykursýkinnar. Á árinu 2007 höfðu komið í ljós augnbotnsskemmdir, auk þess sem stefnandi var byrjaður að fá einkenni nýrnasjúkdóms af völdum sykursýki á árinu 2003.

Við komu stefnanda til Ingvars 29. maí 2002 kom fram að í augnskoðun í Reykjavík hefðu komið í ljós vægar skemmdir í augnbotnum (e. background retinopathia). Í áliti Ingvars sagði að „slæmt lag“ væri á hlutunum hjá stefnanda og að stefnandi virtist vera að koma sér upp alvarlegri nephropathiu (nýrnaskemmdir) líka.

Við skoðun 12. febrúar 2003 kom fram að stefnandi hefði leitað til augnlæknis, að fram hefðu komið blæðingar í augnbotnum og að blæðingarnar og skemmdir samhliða þeim hefðu verið af völdum sykursýkinnar (e. diabetic retinopathy). Stefnandi hefði á þessum tíma ekki haft blóðsykurmæli meðferðis og jafnframt að hann hefði týnt blóðsykursdagbók sinni. Í áliti Ingvars sagði að stefnandi skildi ekki nauðsyn þess að koma blóðsykri í betra lag. Við skoðun 10. september 2003 virðist komið fram talsvert magn próteina í þvagi og taldi Ingvar að stefnandi væri kominn með versnandi nýrnaskemmdir. Stefnandi var sendur í ítarleg blóðpróf í kjölfarið, auk þess sem honum var vísað til næringarráðgjafa.

Við skoðun 18. desember 2003 var stefnandi settur á blóðþrýstingslyf. Taldi Ingvar að skemmdir á nýrum væru til komnar vegna of hás blóðsykurs hjá stefnanda. Hinn 12. febrúar 2004 var bókað í sjúkraskrá að stefnandi hefði týnt blóðsykursmæli sínum og hefði ekki mælt blóðsykursgildi undanfarna mánuði. Blóðþrýstingur hafði skánað eftir lyfjagjöf. Í áliti Ingvars kom einnig fram að erfitt væri að hjálpa stefnanda, enda virtist hann ekki hafa hvata til þess að breyta laginu á sykursýkinni til hins betra. Af sjúkraskrá verður ráðið að stefnandi hafi komið til leftirlits á göngudeild 11. júní 2004 og þá verið bókað að slæmt lag væri á sykursýki stefnanda en að lyfjum hans yrði ekki breytt að sinni. Síðan segir að mjög mikilvægt sé að hann mæli blóðsykra af og til og haldi lagi á sykrunum en að hann sé illa „moriveraður“ til að standa í slíku. Loks var ákveðin endurkoma á göngudeild til eftirlits í september sama ár. 

Næst kom stefnandi á göngudeild 29. mars 2005. Kom þá fram í áliti Ingvars að stefnandi mældi ekki blóðsykursgildi og að stefnandi hefði verið kominn með skemmdir í báðum augnbotnum í apríl 2002. Af framlögðu bréfi Ingvars, dagsettu 7. febrúar 2011, verður ráðið að stefnandi hafi komið í skoðun 27. júní 2005 og þá verið ávísað blóðfitulækkandi lyfi, T. Sarator.

Í eftirliti 7. janúar 2008 kom í ljós að stefnandi var hættur að taka inn blóðþrýstingslækkandi lyf og kvaðst hann hvorki hafa sinnt því að mæla blóðsykur reglulega né að hafa farið í augnbotnaskoðun um lengri tíma. Í niðurstöðu læknabréfs, dagsettu sama dag, er lýst því mati Ingvars Teitssonar að mjög slæmt lag sé á blóðsykrum stefnanda og að stefnanda hafi verið greint frá því. Stefnanda hafi verið ávísað blóðþrýstingslækkandi lyfjum að nýju, látin í té blóðsykursdagbók og gerð grein fyrir mikilvægi þess að mæla blóðsykur a.m.k. tvisvar en helst fjórum sinnum á dag. Þá bókaði Ingvar stefnanda til viðtals 30. janúar 2008 hjá næringarfræðingi og hjúkrunarfræðingi á göngudeild sykursjúkra á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en þangað átti hann að hafa meðferðis niðurstöðu blóðsykursmælinga.

Þrátt fyrir þessi fyrirmæli mætti stefnandi ekki í boðaða skoðun heldur mætti hann fyrst til eftirlits hjá Ingvari 18. febrúar 2009. Í læknabréfi Ingvars frá þeim degi kemur fram að blóðþrýstingur sé orðinn hár og að stefnandi sé kominn með nýrnaskemmdir. Var stefnanda ávísað blóðþrýstingslyfinu Lopress 50 mg. Var stefnandi boðaður til endurkomu þremur mánuðum síðar.

Stefnandi mætti ekki í boðaða endurkomu en kom til Ingvars 13. nóvember 2009. Við þá skoðun ritaði Ingvar að stefnandi væri nærri blindur á hægra auga og hefði tvisvar sinnum farið í augnaðgerð vegna augnsjúkdóms tengdum sykursýki. Kom fram að stefnandi mældi ekki blóðsykur og væri í afneitun vegna þessa. Stefnanda var ávísað blóðþrýstingslyfinu Presmin Combo 50 mg. og boðaður í endurkomu sex vikum síðar.

Stefnandi kom næst til Ingvars 14. apríl 2010 og þá var honum ávísað nýjum lyfjum í sama styrkleikamagni. Hinn 23. júní 2010 kom stefnandi í eftirlit til Ingvars og var í göngudeildarnótu bókað að stefnandi væri svo til alveg blindur á hægra auga og búinn að fá leysigeisla í það vinstra. Þá kemur fram að stefnandi sé slapplegur og með vott af bjúg á báðum fótum. Síðan segir að blóðþrýstingur hans sé alltof hár og var það álit læknisins að ástand stefnanda væri mjög slæmt og voru lyf stefnanda aukin, auk þess sem honum var gert að koma í blóðprufu og til eftirlits eftir um það bil tvo og hálfan mánuð. Þetta var síðasta koma stefnanda til Ingvars áður en stefnandi var lagður inn á lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri til meðhöndlunar á háþrýstingi 14. september 2010. Stefnandi veiktist hastarlega á leiðinni frá heimili sínu í Skagafirði til Akureyrar og var ákveðið að leggja hann inn til frekari meðhöndlunar á blóðþrýstingi. Blóðþrýstingur við innlögn var 200/115. Í kjölfarið fékk stefnandi tilvísun til nýrnalæknis og innkirtlasérfræðings.

Í málinu liggur frammi bréf Haraldar Sigurðssonar augnlæknis til Niels Chr. Nielsen, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala háskólasjúkrahúsi, dagsett 20. desember 2011. Þar kemur fram að stefnandi hafi komið til Friðberts Jónassonar frá Margréti Loftsdóttur, augnlækni á Akureyri, um mitt ár 2009 með diabetiska proliferation í hægra auga. Stefnanda hafi verið gefin 1200 skot í vinstra auga af Argoniaser og síðan hafi hann verið sendur til Haraldar Sigurðssonar, sem hafi hinn 2. júní 2009 numið brott himnur og gefið stefnanda lasermeðhöndlun í augnbotn, auk þess sem blæðandi æðar hafi verið stoppaðar með brennara. Segir jafnframt að aðgerðin hafi gengið án vandræða og stefnandi hafi útskrifast daginn eftir.

Stefnandi hafi síðan komið í reglubundið eftirlit. Í ljós hafi komið að sjónhimnan var að losna og því hafi Haraldur Sigurðsson gert aðra aðgerð á stefnanda 1. júlí sama ár og þá hafi verið komið fyrir bandi umhverfis augað, auk þess sem frekari himnur hafi verið fjarlægðar, laser gefinn og sett inn silicon-olía. Þá er því lýst að stefnandi hefði myndað frekari himnur eftir fyrri aðgerð og þá hafi hann verið með blæðingu undir sjónhimnu og fellingu í sjónhimnu. Aðgerðin hafi tekist vel og stefnandi farið heim daginn eftir. Stefnandi kom til eftirlits 17. febrúar 2010 og var þá sem fyrr með ský á auga en auk þess hafði blætt inn í vinstra augað. Hann fékk því frekari lasermeðferð á vinstra auga og þá var send beiðni til Óskars Jónssonar augnlæknis um að fjarlægja hægri augastein, auk þess sem óskað var eftir að metið yrði hvort rétt væri að taka silicon-olíuna. Því er lýst í framangreindu bréfi að með þessu hafi verið reynt að fá eins góða sjón og mögulegt væri á hægra auga þar sem blæðing í vinstra auga hindraði sjón. Stefnandi fékk frekari lasermeðferð og fór í aðgerð 21. maí 2010 þar sem augasteinninn var tekinn og himnur á sjónhimnu voru fjarlægðar, auk þess sem sett var inn silicon-olía. Stefnandi fór heim daginn eftir og við útskrift er því lýst að augnþrýstingur hafi verið í lagi og sjónhimna flöt.

Móðir stefnanda hafði samband við lækni á Heilsugæslunni Sauðárkróki tveimur dögum síðar eða 23. maí 2010. Í sjúkraskrám segir að vakthafandi læknir hafi átt samskipti við móður stefnanda en hann hafi kvartað undan verkjum í kjölfar aðgerðarinnar. Fram kemur að móðirin sé hvött til að heyra í þeim á augndeildinni, en þá segir hún að stefnandi sé ekki það slæmur. Voru stefnanda gefin verkjalyf.

                Þegar stefnandi mætti til endurkomu á dag- og göngudeild augnlækninga Landspítala háskólasjúkrahúss 28. maí 2010 er skráð í skýrslur að sex dögum áður hafi hann fengið slæman verk í hægra auga ásamt ógleði og uppköstum sem hafi verið viðvarandi síðan þá. Því er lýst að stefnandi hafi ekki haft samband við augndeild. Stefnandi reyndist vera með mjög háan augnþrýsting og var lagður inn á spítalann í einn sólarhring.

                Um sumarið var stefnandi í reglubundnu eftirliti hjá Haraldi Sigurðssyni augnlækni á stofu hans en einnig eru skráðar heimsóknir á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúsi. Skráð er „acut“ skoðun 4. júní 2010 vegna óþols við ljósi. Ekki er bókað í sjúkraskrá að blóðþrýstingur hafi verið mældur. Stefnandi var síðan skoðaður 8. júní 2010 á augnlæknastöðinni í Hamrahlíð 17. Stefnandi hafði samband við augndeild sjúkrahússins í byrjun ágúst og fannst sjónin á vinstra auga vera að versna og var stefnanda gefinn tími á sjúkrahúsinu 9. ágúst 2010.

                Stefnandi leitaði aftur til læknis á Heilsugæslu Sauðárkróks 5. ágúst 2010. Samkvæmt sjúkraskrá kom hann til þess að fá vottorð vegna umsóknar um örorkumat. Þá mældist blóðþrýstingur stefnanda 190/115. Einnig segir að stefnandi sé í eftirliti vegna sykursýki hjá Ingvari Teitssyni lækni og í reglubundnu eftirliti á tveggja vikna fresti hjá Haraldi Sigurðssyni augnlækni í Hamrahlíð 17.

                Stefnandi mætti á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss 9. ágúst og var sjón hans þá 0,5 á vinstra auga. Samkvæmt sjúkraskrám kom stefnandi aftur á augndeildina 30. sama mánaðar með versnandi sjón á vinstra auga og var aðgerð ákveðin í byrjun október. Sjón á vinstra auga hélt áfram að versna og leitaði stefnandi til Maríu Soffíu Gottfreðsdóttur augnlæknis 7. september 2010 sem sendi stefnanda áfram til Einars Stefánssonar augnlæknis sem skoðaði hann daginn eftir. Kemur fram í áðurnefndu bréfi Haraldar Sigurðssonar að „bæði blóðsykur og blóðþrýstingur voru í slæmu ásigkomulagi“ hinn 8. september 2010 og taldi Einar mikilvægt að koma þessum þáttum í lag áður en til aðgerðar kæmi.

                Hinn 22. október 2010 var gerð aðgerð á vinstra auga stefnanda og augasteinn tekinn samfara því að örvefur var fjarlægður af yfirborði sjónhimnu. Fyrst eftir aðgerðina virtist ganga vel og sjónhimna virtist flöt. Hins vegar jókst mjög augnþrýstingur stefnanda sem erfiðlega gekk að hemja og þurfti endurtekið að tappa af forhólfi í vinstra auga. Því var gerð önnur aðgerð á stefnanda 25. sama mánaðar og þá var komið fyrir bandi, auk þess sem silicon-olía var fjarlægð. Við ómskoðun 2. nóvember sama ár var sjónhimna flöt. Bókað er um skoðanir 15. og 22. nóvember sem sýna minnkandi bólgu og eðlilegan þrýsting. Hinn 30. nóvember var gerð svo kölluð „vi. vitractomia“ með hreinsun á himnum og náðist sjónhimna þá flöt. Stefnandi útskrifaðist 6. desember sama ár.

Svo sem fyrr er getið hefur stefnandi nú misst sjón á báðum augum. Með umsókn til stefnda, dagsettri 25. október 2010, sótti stefnandi um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu. Stefndi hafnaði erindi stefnanda með ákvörðun, dagsettri 12. apríl 2011. Niðurstaðan byggði á því að atvikið félli ekki undir 2. gr. framangreindra laga og að tjónið væri  afleiðing grunnsjúkdóms stefnanda en ekki meðferðar. Stefnandi ritaði bréf til ríkislögmanns 7. nóvember 2011 og fór fram á afstöðu hans til bótaskyldu ríkisins. Bótaskyldu var hafnað með bréfi, dagsettu 18. janúar 2012. Hinn 22. október 2012 höfðaði stefnandi mál á hendur íslenska ríkinu og Ingvari Teitssyni lækni til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaábyrgð þeirra á líkamstjóni stefnanda vegna mistaka við sjúkdómsmeðferð á tímabilinu apríl til september 2010 á tilteknum sjúkrastofnunum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur voru íslenska ríkið og Ingvar Teitsson sýknaðir af kröfum stefnanda og var sá dómur staðfestur með dómi Hæstréttar Íslands, sem kveðinn var upp 11. júní 2015, í máli réttarins nr. 599/2014. Eins og áður er rakið hefur stefnandi nú höfðað mál þetta til þess að fá fellda úr gildi stjórnvaldsákvörðun stefnda frá 12. apríl 2011 og jafnframt til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð á grundvelli laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

III

Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir sjúklingatryggingaratburði á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 með þeim afleiðingum að hann varð fyrir varanlegu líkamstjóni og því sé stefndi skaðabótaskyldur á grundvelli 2. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

Stefnandi byggir á að tjón hans megi rekja til ónógs eftirlits lækna með háum blóðþrýstingi sínum og með því að bregðast ekki rétt við þegar lyfjagjöf virkaði ekki sem skyldi og skilaði ekki tilætluðum árangri með lækkun blóðþrýstings stefnanda. Stefnandi byggir á því, að ef viðkomandi framkvæmd, meðhöndlun, eftirfylgni og samvinna starfsfólks viðkomandi þriggja heilbrigðisstofnanna hefði verið með eðlilegum hætti, hefði mátt komast hjá því tjóni í heild eða hluta sem stefnandi hafi orðið og vísar stefndi að þessu leyti til 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, einkum 3. mgr. Ekki hafi verið sýnt fram á að nokkur samskipti eða samstarf hafi verið viðhaft við meðhöndlun stefnanda og hafi stefnandi því ekki fengið þá læknisþjónustu sem hann átti rétt á.

Stefnandi vísar til þess að Ingvar Teitsson læknir, sem komið hafi fram fyrir hönd Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, hafi ekki brugðist rétt við hættuástandi, sem skapast hafi vegna háþrýstings stefnanda 14. apríl 2010. Í læknabréfi hans, dagsettu sama dag, komi fram að stefnandi hafi verið svo til blindur á hægra auga og að blóðþrýstingur hafi mælst alltof hár. Að mati stefnanda hafi Ingvari Teitssyni borið að bregðast við hinum háa blóðþrýstingi með því að þétta eftirlit eða prufa önnur lyf,  ekki síst í ljósi þess að stefnandi hafi verið orðinn blindur á hægra auga.

Þá hafi sami læknir jafnframt sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi, sem komið hafi upp vegna háþrýstings stefnanda 23. júní 2010 þegar stefnandi hafi mætt í skoðun til hans á göngudeild. Blóðþrýstingur stefnanda hafi verið kominn í 172/118 og fram komi í greinargerð læknisins til sjúkrahússins, dagsettri 7. febrúar 2011, að hann hafi látið stefnanda auka blóðþrýstingslyfin og sett hann á tiltekið lyf. Stefnandi byggir á því að honum hafi aldrei verið tilkynnt um nýtt fyrirkomulag á lyfjainntöku og hafi hann tekið sömu lyf allt þar til hann var lagður inn 14. september 2010.

Þá byggir stefnandi einnig á því, að rétt hefði verið að bregðast við háum blóðþrýstingi stefnanda með því að boða hann mun fyrr í eftirlit og þá sérstaklega ef læknirinn taldi sig vera að breyta um lyfjagöf og auka hana um helming frá því sem áður hefði verið.

Stefnandi vísar til þess, að framangreindur læknir hafi ávallt komið fram sem sérfræðingur við þeim vanda, sem stefnandi hafi glímt við, en síðar hafi komið á daginn að hann var ekki sérfræðimenntaður á því sviði. Byggir stefnandi á að ekki sé sýnt fram á að læknirinn hafi haft sérfræðikunnáttu eða menntun í meðhöndlun sykursjúkra en hann sé skráður sem gigtarlæknir hjá framangreindu sjúkrahúsi. Þá bendir stefnandi á að hvergi sé í gögnum, sem stafi frá lækninum eða sjúkrahúsinu, getið um samstarf eða samráð við augnlækna þá sem hafi haft stefnanda til meðferðar.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að starfsmenn eða læknar Landspítala háskólasjúkrahúss hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi sem komið hafi upp vegna háþrýstings stefnanda. Vísar stefnandi til þess að eftir aðgerð 21. maí 2010 hafi hann verið sendur heim daginn eftir, án þess að honum hafi verið leiðbeint á neinn hátt um það, hvernig hann ætti að haga sér kæmi eitthvað uppá, þótt legið hafi fyrir að stefnandi byggi í öðru byggðarlagi. Eftir að hafa farið norður til Akureyrar daginn eftir útskrift og síðan fengið slæma verki degi síðar. Þegar móðir stefnanda hafi haft samband við lækni á Heilsugæslunni á Sauðárkróki sem hefði ávísað verkjalyfjum í gegnum síma, án þess að huga frekar að stefnanda.

Þá vísar stefnandi til þess að þegar hann hafi verið skoðaður á göngudeild augnlækninga á Landspítala háskólasjúkrahúsi hinn 4. júní 2010 hafi ekkert verið bókað um blóðþrýstingsmælingu í sjúkraskrá. Samkvæmt framlögðu læknabréfi hafi einungis farið fram augnskoðun á stefnanda 24. júní 2010 á einkastofu Haraldar Sigurðssonar augnlæknis en blóðþrýstingur stefnanda hafi ekki verið mældur. Ekkert sé bókað um þessa komu í sjúkraskrá né um komu stefnanda til sama læknis 7. júlí sama ár.

Stefnandi vísar til þess að aðgerðir, sem hann undirgekkst á Landspítala háskólasjúkrahúsi, séu því á ábyrgð viðkomandi stofnunar og að sjúkrahúsið losni ekki undan þeirri ábyrgð, þótt viðkomandi læknar hafi ekki haft tíma til þess að hitta stefnanda þar. Stefnandi byggir á því að aðkoma lækna vegna daprandi sjónar hans á vinstra auga í ágúst og september 2010, sem leitt hafi til aðgerðar í byrjun október sama ár, sýni að skráningar viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna séu ófullnægjandi og að ábyrgðalaust hafi verið að gera aðgerðir á sjúklingi sem ekki sé líkamlega í stakk búinn að til að undirgangast slíkar aðgerðir. Í það minnsta hefði þurft að meta heilsu stefnanda eða hafa samráð við sérfræðing sem hefði yfirsýn yfir stöðu stefnanda. Stefnandi vísar til ákvæða 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sérstaklega 3. mgr., varðandi samráð sjúkrastofnana um meðferð og önnur úrræði.

Stefnandi byggir á því að starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við þegar móðir stefnanda leitaði til stofnunarinnar 23. maí 2010 eftir að stefnandi hafði fengið slæman verk í hægra auga, auk ógleði og uppkasta í kjölfar aðgerðar tveimur dögum áður. Hafi stefnanda verið ávísað verkjalyfjum í stað þess að honum væri vísað til sérfræðings eða lagður inn á stofnunina þar sem einkenni hans hafi bent til háþrýstings. Þá hafi starfsmenn stofnunarinnar einnig sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi vegna háþrýstings stefnanda 5. ágúst 2010.

Stefnandi hefur byggt á því, að ákveðnir heilbrigðisstarfsmenn beri óskipta ábyrgð á tjóni stefnanda og að um samverkandi tjónsorsakir sé að ræða. Athafnaleysi starfsmanna stofnananna leiði til þess að þeir beri sök samkvæmt skaðabótarétti. Fyrir liggi að læknisþjónusta hafi ekki verið nægjanlega samfelld og að samvinna og samskipti milli lækna hafi verið ófullnægjandi. Þá hafi skort á leiðbeiningar til stefnanda um það, hvernig honum bæri að hegða sér og bregðast við eftir aðgerðir. Stefnandi byggir á því að hann hafi sannað að athafnir og athafnaleysi starfsmanna viðkomandi heilbrigðisstofnana séu með þeim hætti að viðkomandi aðilar beri ábyrgð á ástandi stefnanda í heild eða hluta. Því standi það þeim nær að sýna fram á að staða stefnanda væri ekki með sama hætti í dag, ef rétt hefði verið brugðist við sjúkdómseinkennum hans. Stefnandi vísar að þessu leyti til sakarlíkindareglu skaðabótaréttarins.

Stefnandi byggir á því, að enda þótt ekki hafi verið sannað að um sök hafi verið að ræða hjá þeim heilbrigðisstarfsmönnum, sem hafi veitt honum læknisþjónustu á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 1. janúar 2011, eigi stefnandi rétt á bótum á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, sbr. 2. gr. laganna. Um sé að ræða sjúklingatryggingaatburð. Stefndi beri því ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna en til vara sbr. 2., 3. og 4. tl. sömu lagagreinar.

Málatilbúnaður stefnanda byggist því á að ábyrgð og bótaskylda stefnda grundvallist á 1. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 111/2000 þannig að bætur skuli greiða, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þeira atvika, sem talin séu upp í töluliðum 1-4. Leiði könnun á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjónið stafi að meðferð en öðrum orsökum sé því um að ræða bótaskylt tjón

Um lagarök vísar stefnandi framangreindu til viðbótar til 9. og 10. gr. laga nr. 53/1998, um lækna, 3. og 5. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, 4. og 6. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrá, auk laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu og laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Mál þetta er rekið sem viðurkenningarmál með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst beina viðurkenningarkröfunni að stefnda með heimild í 13. gr laga nr. 111/2000, sbr. 10. og 11. gr. laganna.

Stefnandi bendir á að hann hafi tilkynnt umrætt atvik til stefnda 25. október 2010 en fengið höfnun á kröfu sinni með bréfi stefnda, dagsettu  12. apríl 2011. Þá þegar hafi verið farið fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins á grundvelli sakar starfsfólks viðkomandi sjúkrastofnana. Dómur Hæstaréttar Íslands hafi verið kveðinn upp 11. júní 2015 og þá fyrst hafi stefnandi vitað að hann myndi ekki fá bætur frá íslenska ríkinu. Höfnun ríkislögmanns á bótaskyldu hafi ekki borist fyrr en í ársbyrjun 2012.

Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína á því, að efnisannmarki sé á stjórnvaldsákvörðun stefnda frá 12. apríl 2011 og að brotið hafi verið gegn efnisreglum stjórnsýsluréttarins við þá ákvörðun, m.a. rannsóknarreglu, meðalhófsreglu, lögmætisreglu sem og að viðkomandi ákvörðun hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Stefnandi skírskotar til þeirra lagareglna, sem tilgreindar hafa verið hér að framan, þ.e. ákvæða laga nr. 111/2000 og til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Jafnframt er vísað til skráðra og óskraðra reglna stjórnsýsluréttarins um hæfi, málshraðareglunnar sem og til lögmætisreglunnar og reglunnar um andmælarétt. Loks vísar stefnandi til ógildingarreglna stjórnsýsluréttarins.

IV

Stefndi mótmælir öllum dómkröfum og málsástæðum stefnanda, sem byggja á ætluðum bótaskyldum athöfnum, athafnaleysi og/eða mistökum stefnda sem röngum og ósönnuðum. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið rétta og vandaða læknismeðferð, miðað við bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni.

Sýknukrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á því, að hugsanleg krafa stefnanda í sjúklingatryggingu stefnda sé fyrnd. Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hann eigi ekki aðild að kröfu er varði meinta annmarka á meðferð Ingvars Teitssonar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að tjón stefnanda verði rakið til veitingu læknisþjónustu starfsmanna heilbrigðisstofnana sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi telur að tjón stefnanda sé einungis að rekja til alvarlegs undirliggjandi grunnsjúkdóms, enda hafi bæði nýrna- og augnbotnsskemmdir komið til löngu fyrir 1. janúar 2009.

Að því er varðar málsástæðu um fyrningu vísar stefndi til þess að með umsókn, sem borist hafi stefnda hinn 23. nóvember 2010, hafi stefnandi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu. Stefndi hafi hafnað greiðslu bóta með ákvörðun 12. apríl 2011. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2000 fyrnist krafa um bætur samkvæmt lögunum þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sé fyrningu slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Samkvæmt 21. gr. sömu laga hefjist nýr fyrningarfrestur þegar lögsókn eða í þessu tilfelli þegar endanleg ákvörðun hefur verið tekin hjá bæru stjórnvaldi. Nýr fyrningarfrestur hafi því tekið að líða hinn 12. apríl 2011 og hafi krafa stefnanda því verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu hinn 16. desember 2015. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda vegna fyrningar.

V

Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi stjórnvaldsákvörðun stefnda  frá 12. apríl 2011. Með þeirri ákvörðun hafnaði stefndi umsókn stefnanda, dagsettri 25. október 2010, um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, með þeim rökum að tjón stefnanda væri afleiðing grunnsjúkdóms hans en ekki þeirrar meðferðar sem hann hefði notið. Stefnandi byggir dómkröfur sínar hins vegar á því, að hann hafi orðið fyrir sjúklingatryggingaratburði á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 sem leitt hafi til þess að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón. Tjón stefnanda megi rekja til þess að hann hafi ekki fengið þá læknisþjónustu sem hann hafi átt rétt á og að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því á grundvelli 2. gr. framangreindra laga nr. 111/2000. Í máli þessu krefst stefnandi þess jafnframt að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð á grundvelli laga nr. 111/2000 vegna læknismeðferðar á tilteknum heilbrigðisstofnunum á ofangreindu tímabili.

Af framangreindu er ljóst að stefnandi byggir dómkröfur sínar í máli þessu á ákvæðum 2. gr. laga nr. 111/2000, um , en þar kemur fram að bætur skuli greiða, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers þeirra tilvika sem þar eru talin upp. 

Í 19. gr. laga nr. 111/2000 er að finna sérstakt ákvæði um fyrningu krafna um bætur samkvæmt lögunum. Þar er í 1. mgr. mælt fyrir um að slíkar bótakröfur fyrnist þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Síðan segir í 2. mgr. að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér. Um frestsákvæði 1. mgr. lagaákvæðisins, sem þá var 18. gr. en er 19. gr. í lögunum, segir í athugasemdum með frumvarpi til framangreindra laga að nauðsynlegt hafi þótt að tiltaka sérstakan fyrningarfrest á bótakröfum, m.a. vegna þess hversu erfitt sé að ganga úr skugga um hvort skilyrði bóta séu fyrir hendi löngu eftir að málsatvik gerðust. Fyrningarfrestur 1. mgr. sé lengri en fyrningarfrestur samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð og ákvæðið um upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins geti leitt til þess að sjúklingur haldi kröfu sinni miklu lengur en í fjögur ár frá því að tjónsatvik bar að höndum því að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en tjónþoli hafi fengið eða mátt fá vitneskju um tjón sitt. Um 2. mgr. lagaákvæðisins segir í athugasemdum að fyrningarfrestur ákvæðisins sé jafnlangur og almennt gerist um fyrningu skaðabótakrafna samkvæmt fyrningarlögum og að um slit fyrningar fari eftir almennum réttarreglum um fyrningu.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafði vitneskju um tjón sitt þegar hann sótti um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn, dagsettri 25. október 2010, og virðist það óumdeilt. Þegar litið er til áðurgreindra athugasemda um að um slit fyrningarfrests samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2000 fari eftir almennum réttarreglum um fyrningu, verður að fallast á það með stefnda að hér verði að líta til ákvæða 16. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Í ljósi tilvísunarinnar til almennra réttarreglna um fyrningu þykir engu breyta að þessu leyti, þótt framangreind fyrningarlög hafi ekki verið sett fyrr en eftir að lög nr. 111/2000 tóku gildi. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 150/2007 er fyrningu slitið þegar kröfuhafi leggur mál sitt til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Jafnframt er tekið fram að þetta gildi, þótt kæra megi ákvörðunina til annars stjórnvalds eða dómstóla. Af 21. gr. laganna verður ráðið að nýr fyrningarfrestur tekur að líða þegar ákvörðun hefur verið tekin samkvæmt 16. gr. Að þessu virtu verður að líta svo á, að í máli þessu hafi nýr fyrningarfrestur vegna dómkröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á grundvelli laga nr. 111/2000 byrjað að líða þegar stefndi hafnaði bótakröfu stefnanda hinn 12. apríl 2011.

Mál þetta var höfðað hinn 16. desember 2015 en þá voru liðin meira en fjögur ár frá því að umþrætt ákvörðun stefnda lá fyrir. Í þessu ljósi og með vísan til alls framanritaðs er það því niðurstaða dómsins að krafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á grundvelli laga nr. 111/2000 sé fyrnd og er stefndi því sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Ekki þykir hald í þeim sjónarmiðum stefnanda, sem fram komu við aðalmeðferð málsins, að á stefnda hafi hvílt upplýsingaskylda um fjögurra ára fyrningarfrest. Þá verður heldur ekki fallist á það með stefnanda, að sá megintilgangur setningar laga nr. 111/2000 að sjúklingar eigi greiðari aðgang að bótum en áður var, leiði til annarrar niðurstöðu um fyrningu en hér hefur verið komist að. Er sjónarmiðum stefnanda að þessu leyti því hafnað.

Í ljósi þessarar niðurstöðu verður ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þá kröfu sína að felld verði úr gildi stjórnvaldsákvörðun stefnda frá 12. apríl 2011. Dómurinn telur því óhjákvæmilegt að vísa þeirri kröfu frá dómi af sjálfsdáðum.

Eins og áður er getið var sakarefni máls þessa skipt og er nú einungis leyst úr ágreiningi aðila sem lýtur að fyrningu. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu dómsins um að viðurkenningarkrafa stefnanda sé fyrnd og um frávísun á kröfu stefnanda um að felld verði úr gildi áðurgreind stjórnvaldsákvörðun er málinu í heild lokið með þessum dómi.

Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Arnfríður Einarsdóttir kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Kröfu stefnanda, Gunnars Heiðars Bjarnasonar, um að felld verði úr gildi stjórnvaldsákvörðun frá 12. apríl 2011 er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, er sýkn af kröfu stefnanda um að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð með vísan til laga nr. 111/2000, á líkamstjóni stefnanda sem hann varð fyrir vegna læknismeðferðar á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2011 á viðkomandi sjúkrastofnunum, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.

Málskostnaður fellur niður.