Print

Mál nr. 12/2020

Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir (Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál
 • Hæfi dómara
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu T og H um að tveir landsréttardómarar og fyrrverandi héraðsdómari vikju sæti í máli þeirra á hendur Í.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2020, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. febrúar 2020, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa þeirra verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilar fallið frá málsástæðu, sem þau höfðu uppi fyrir Landsrétti, vegna ætlaðs annmarka á skipun landsréttardómaranna Aðalsteins og Oddnýjar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Landsréttar 7. febrúar 2020

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir og Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, kveða upp úrskurð í máli þessu.

Dómkröfur aðila

 1. Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 26. mars 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í málinu nr. E-514/2018 þar sem stefndi var sýknaður af kröfu þeirra um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.667.597 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Á þessu stigi er einungis til úrlausnar krafa áfrýjenda um að öllum dómurum málsins í Landsrétti verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis.

 2. Stefndi lýsti því yfir að hann teldi ekki ástæðu til að dómarar málsins víki sæti vegna vanhæfis en lét þennan þátt málsins að öðru leyti ekki til sín taka.

  Málsatvik og málsmeðferð

 3. Krafa áfrýjenda um greiðslu skaðabóta er annars vegar á því reist „að um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar“ hafi verið að ræða á ákvæði 1. mgr. 12. gr. eldri laga nr. 121/1994 um neytendalán í dómi frá 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015 og hins vegar „að um ranga eða misheppnaða innleiðingu“ hafi verið að ræða á tilskipun 87/102/EBE við setningu laga nr. 121/1994. Hafi framangreint valdið áfrýjendum tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.

 4. Í greinargerð áfrýjenda til Landsréttar var gerður áskilnaður um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um „hvort að um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar hafi verið að ræða á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 í niðurstöðu [hans] í máli nr. 243/2015“. Jafnframt „hvort að innleiðing á tilskipun sem gengur lengra en lágmarksverndin sem skylt var að innleiða samkvæmt tilskipuninni þegar mælt er fyrir [um] heimild í tilskipuninni [til] að tryggja neytendum ríkari réttarvernd, getur talist fela í sér ranga innleiðingu ef viðbótarverndin er ekki í samræmi við tilskipunina að einhverju leyti“.

 5. Dómþing var háð í málinu 9. janúar 2020 á grundvelli 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem lögmönnum málsaðila var gefinn kostur á að tjá sig um beiðni áfrýjenda um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

 6. Með ákvörðun dómsins 16. janúar sama ár, sem tekin var á grundvelli 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991, var beiðni áfrýjenda hafnað. Ákvörðunin var svohljóðandi:

  Í 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið segir að ef taka þurfi í dómsmáli afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, megi leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Í dómaframkvæmd hefur ákvæðið verið skýrt á þann veg að ekki skuli leita álits EFTA-dómstólsins nema að skýring EES-reglna hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins, að staðreyndir máls liggi nægilega skýrt fyrir og að réttlætanlegur vafi leiki á túlkun þeirra EES-reglna sem um ræðir með hliðsjón af sakarefninu.

  Fyrir liggur að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi áliti 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13 að „þegar lánssamningur er bundinn vísitölu neysluverðs og lántökukostnaðurinn tekur þar af leiðandi breytingum í samræmi við verðbólgu samrýmist það ekki neytendalánatilskipuninni [87/102/EBE] að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%“. Með dómi Hæstaréttar 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015 var því slegið föstu að nánar tilgreint orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hefði í ljósi þeirrar niðurstöðu ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunar 87/102/EBE. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið væri kveðið á um skyldu til að skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn gæti slík lögskýring eðli málsins samkvæmt ekki leitt til þess að orðum íslenskra laga yrði gefin önnur merking en leidd væri af hljóðan þeirra. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að orðalag fyrrgreindrar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hefði verið það afdráttarlaust að ekki væri unnt að gefa því þá merkingu sem leiddi af áliti EFTA-dómstólsins. Niðurstaða Hæstaréttar byggðist þannig eingöngu á túlkun á orðalagi íslenskra laga en ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, sbr. áskilnað 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að fallast á að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um „hvort um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar hafi verið að ræða“ í fyrrgreindu máli á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994.

  Samkvæmt a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 87/102/EBE náði gildissvið hennar ekki til lánssamninga sem ætlað var „að afla eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa“. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði féllu lánssamningar sem voru tryggðir með veði í fasteign utan gildissviðs tilskipunarinnar en fyrir liggur að sakarefni málsins varðar einmitt slíkan samning. Tilskipunin var innleidd í íslensk lög með lögum nr. 121/1994 en samkvæmt f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna náðu þau upprunalega ekki til slíkra lánssamninga. Ákvæðið var á hinn bóginn fellt brott við setningu laga nr. 179/2000, til breytinga á lögum nr. 121/1994, með þeim afleiðingum að gildissvið þeirra náði í kjölfarið til slíkra samninga. Þrátt fyrir þá breytingu liggur fyrir að tilskipunin kvað ekki á um réttindi lántakenda samkvæmt slíkum lánssamningum. Af því leiðir óhjákvæmilega að fyrirsjáanlegt er að skýring EES-reglna hafi ekki raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins.

  Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að efni séu til að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Verður kröfu áfrýjenda um það því hafnað.

 7. Í tölvupósti lögmanns áfrýjenda 23. janúar 2020 var gerð krafa um að öllum dómurum málsins í Landsrétti yrði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. Fram kemur að áfrýjendur telji að í ákvörðun Landsréttar „komi í raun fram staðfesting á dómi héraðsdóms í málinu“. Um síðastnefnt er sérstaklega vísað til eftirfarandi orðalags í ákvörðuninni:

  Þrátt fyrir þá breytingu liggur fyrir að tilskipunin kvað ekki á um réttindi lántakenda samkvæmt slíkum lánssamningum. Af því leiðir óhjákvæmilega að fyrirsjáanlegt er að skýring EES-reglna hafi ekki raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins.

 8. Í fyrrgreindum tölvupósti lögmanns áfrýjenda er um meint vanhæfi jafnframt vísað til fyrri vangaveltna sem settar höfðu verið fram af þeirra hálfu í ódagsettu bréfi sem var móttekið af Landsrétti 5. nóvember 2019. Þar kom fram að „mögulega þyrftu tveir af dómurum málsins þau Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir, að víkja sæti í málinu“ þar sem þau hefðu verið „ásamt 13 öðrum dómurum […] skipuð með einni atkvæðagreiðslu um öll 15 dómaraefnin í einu lagi“ en það hafi ekki verið lögum samkvæmt. Um þetta var jafnframt vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Með öðru ódagsettu bréfi lögmanns áfrýjenda, sem barst Landsrétti 7. nóvember 2019, gerðu áfrýjendur formlega kröfu um að landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir vikju sæti vegna framangreinds.

  Niðurstaða

 9. Í málatilbúnaði áfrýjenda var ekki vísað til ákveðins lagaákvæðis um meint vanhæfi dómara málsins en í munnlegum málflutningi um kröfuna hér fyrir dómi 4. febrúar 2020 kom fram sú skýring lögmanns þeirra að krafan væri studd við g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram kemur að dómari teljist vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en taldar eru upp í a- til f-lið sömu lagagreinar sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

 10. Í ákvæði 5. gr. laga nr. 91/1991 er að finna talningu á þeim tilvikum sem valdið geta vanhæfi dómara. Telji aðili að einkamáli eitthvert þeirra tilvika eiga við um dómara getur hann krafist þess að dómarinn víki sæti í málinu en að lögum geta þessi atriði ein og engin önnur orðið til þess að svo fari, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018.

 11. Málsástæður áfrýjenda sem snúa að meintu vanhæfi landsréttardómaranna Aðalsteins og Oddnýjar vegna þess hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu á Alþingi um tillögu ráðherra um skipun dómara samkvæmt 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 um dómstóla byggjast á því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þeirra. Málsástæður þessar varða ekki hæfisreglur 5. gr. laga nr. 91/1991 og verða þegar af þeirri ástæðu ekki teknar til efnisumfjöllunar í úrskurði þessum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018 sem varðar efnislega sambærilegt ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt fyrrgreindur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu hafi gengið eftir uppkvaðningu síðastnefnds dóms Hæstaréttar. Samkvæmt því verður ekki fallist á að framangreint geti falið í sér atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga megi óhlutdrægni umræddra dómara í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

 12. Af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, leiðir að það er hlutverk EFTA-dómstólsins að skýra EES-samninginn, en íslenskra dómstóla að fara með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu samningsins að íslenskum lögum. Þegar dómstóll tekur afstöðu til þess hvort leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefur hann eingöngu tekið afstöðu til þess hvort slíks sé þörf við þær aðstæður sem uppi eru í málinu, en hann hefur með því ekki tekið afstöðu til efnisatriða þess, sbr. dóm Hæstaréttar 5. maí 2015 í máli nr. 291/2015.

 13. Eins og rakið er í fyrrgreindri ákvörðun Landsréttar, um kröfu áfrýjenda um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, hefur ákvæði 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 21/1994 verið skýrt með þeim hætti í dómaframkvæmd að ekki skuli leita ráðgefandi álits nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem eru nánar tiltekið þau að skýring EES-reglna hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins, að staðreyndir máls liggi nægilega skýrt fyrir og að réttlætanlegur vafi leiki á túlkun þeirra EES-reglna með hliðsjón af sakarefninu. Með ákvörðun Landsréttar var eingöngu tekin afstaða til þess skilyrðis hvort það hefði raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. 2. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Niðurstaðan var að svo væri ekki þar sem tilskipun nr. 87/102/EBE næði ekki til lánssamninga af þeim toga sem ágreiningur málsins varðar. Byggði niðurstaðan á skýru orðalagi a-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um gildissvið hennar sem verður eins og hér stendur á ekki talið háð vafa um túlkun. Ákvörðunin laut eingöngu að atriði varðandi rekstur málsins fyrir Landsrétti en ekki efnislegri meðferð þess sem enn á eftir að fara fram, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 291/2015. Af þeim sökum verður ekki fallist á að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómara málsins í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

 14. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu áfrýjenda um að dómarar málsins víki sæti vegna vanhæfis.

  Úrskurðarorð:

  Hafnað er kröfu áfrýjenda, Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur, um að landsréttardómurunum Aðalsteini E. Jónassyni og Oddnýju Mjöll Arnardóttur og Eggerti Óskarssyni, fyrrverandi héraðsdómara, verði gert að víkja sæti í málinu.