Print

Mál nr. 539/2017

Héraðssaksóknari (Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)
gegn
X (Björgvin Þorsteinsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Verjandi
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að felld yrði úr gildi synjun embættis héraðssaksóknara um að skipa nafngreindan hæstaréttarlögmann verjanda við rannsókn embættisins á tilteknu máli. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri fortakslaust um að ekki mætti skipa þann verjanda sem kynni að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli en héraðssaksóknari hafði lýst því yfir að sér væri skylt að kveðja lögmanninn til skýrslutöku við rannsókn málins. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi synjun embættis héraðssaksóknara um að skipa nafngreindan hæstaréttarlögmann verjanda við rannsókn embættisins á tilteknu máli. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 er fortakslaust um að ekki megi skipa þann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2014 í máli nr. 131/2014. Samkvæmt því og að því virtu að sóknaraðili hefur lýst því yfir að sér sé skylt að kveðja lögmanninn til skýrslutöku við rannsókn málsins verður hinn kærði úrskurður staðfestur enda liggur ekki fyrir að þau áform séu með öllu tilefnislaus.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2017.

Með kröfu dagsettri 2. júní 2017, sem barst réttinum 13. júní, krefst Björgvin Þorsteinsson hrl. þess, fyrir hönd X [...], Reykjavík, að felld verði úr gildi synjun embættis héraðssaksónara frá 29. maí 2017, um að skipa A hrl. [...] Reykjavík, verjanda við rannsókn embættisins á máli nr. [...].

Þess er jafnframt krafist að allur kostnaður sóknaraðila af málarekstri þessum verði lagður á ríkissjóð.

Varnaraðili héraðssaksóknari krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun embættis héraðssaksóknara að ekki megi skipa A hrl., sem verjanda í málinu.

Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning um ágreininginn 12. júlí sl.

I.

Málið gegn sóknaraðila byggir á kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 5. janúar sl. í máli nr [...] vegna meintra brota gegn skattalögum og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Byggir varnaraðili á að í kæru vegna málsins komi fram að sóknaraðili hafi átt fjármuni á erlendum bankareikningum, a.m.k. frá árinu 2005. Þeir hafi frá árinu 2014 verið hjá bankanum Julius Bär í Sviss í nafni [...]. Sóknaraðili hafi ekki gert skattyfirvöldum grein fyrir fjármununum þegar hann hafi fengið þá í sínar hendur.

Þann 27. mars sl. barst embætti héraðssaksóknara hljóðupptaka, ásamt endurriti, frá embætti skattrannsóknarstjóra. Sú upptaka barst því embætti nafnlaust. Varnaraðili byggir á því að á upptökunni virðist vera til umræðu þeir fjármunir sem mál nr. [...] snúist um og bæði sóknaraðili og A hrl., tjái sig á upptökunni.

Varnaraðili hefur lýst því yfir að taka verði skýrslu af umræddum lögmanni við rannsókn málsins. Því sé ljóst, með vísan til 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að ekki megi skipa hann sem verjanda í málinu. Með bréfi embættis héraðssaksóknara, dagsett 31. maí sl., kemur fram að embætti héraðssaksóknara hafi synjað beiðni um að skipa A hrl. verjanda sóknaraðila með vísan til 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem embættið hafi ákveðið að kalla hann til skýrslugjafar í máli nr. 300-2017-02. Varnaraðili útilokar heldur ekki að lögmaðurinn geti fengið stöðu sakbornings í málinu.

II.

Um helstu málsatvik og lagarök sóknaraðila segir í kröfu hans til dómsins, að samkvæmt 1. og 2. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eigi sakborningur rétt á því að fá skipaðan verjanda úr hópi lögmanna. Áður en dómari eða lögregla tilnefni eða skipi sakborningi verjanda skuli gefa honum kost á því að benda á lögmann til að fara með þann starfa, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Í nefndu ákvæði sé jafnframt tekið fram að dómara og lögreglu beri að jafnaði að fara að ósk sakbornings. Þó megi ekki skipa eða tilnefna sem verjanda lögmann sem gegnt hafi starfi matsmanns eða kunni að vera kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni  í máli ellegar sé að öðru leyti svo viðriðinn mál aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi, sbr. 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Samkvæmt þessu séu það þrjú atriði sem geti komið í veg fyrir að dómari eða lögregla geti skipað þann lögmann sem verjanda, sem sakborningur óski.

Sóknaraðili vísar til þess að í bréfi embættis héraðssaksóknara frá 31. maí sl. sé ekki gerð nánari grein fyrir því hvað A hrl. eigi að geta borið um sem vitni í málinu nr. [...]. Mál þetta varði rannsókn á skattskilum sóknaraðila. Þess sé heldur ekki getið í bréfinu hvaða brot lögmaðurinn hafi hugsanlega gerst sekur um.

Rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi sóknaraðila byggi á tilkynningu frá embætti skattrannsóknarstjóra, sem væntanlega hafi verið send í byrjun líðandi árs.

Samskipti sóknaraðila og A hrl. við embætti héraðssaksóknara megi rekja til fimmtudagsins 18. maí sl. Þann dag hafi B, starfsmaður embættis héraðssaksóknara, haft samband við sóknaraðila og boðað hann til skýrslugjafar sem sakborning.

Sóknaraðili hafi látið þess getið að hann gæti ekki ákveðið tíma nema hafa samband við lögmann sinn A hrl. Sóknaraðila hafi þá verið sagt að A hrl. gæti ekki orðið verjandi hans af framangreindri ástæðu. Sóknaraðili kveður B ekki hafa upplýst hver hefði gert framangreinda hljóðupptöku eða frá hvaða tíma hún væri.

Sóknaraðili hafi upplýst lögmann sinn um þetta sem hafi sama dag sent B tölvupóst. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að sóknaraðili myndi mæta til skýrslugjafar mánudaginn 29. maí kl. 11:00.

Um hádegisbil föstudaginn 26. maí hafi B tilkynnt A hrl. símleiðis að það væri niðurstaða yfirmanna hans hjá embætti héraðssaksóknara að ekki yrði orðið við þeirri ósk sóknaraðila að skipa A hrl., sem verjanda hans, þar sem yfirheyra þyrfti lögmanninn sem vitni í málinu. A hrl. mótmælti þessari afstöðu og boðaði komu umbjóðanda síns til skýrslugjafar mánudaginn 29. maí kl. 11:00, eins og ákveðið hefði verið. Þegar sóknaraðili og A hrl. hafi mætt hjá embætti héraðssaksóknara hafi C saksóknari og áðurnefndur B tekið á móti þeim.

C hafi tilkynnt A hrl. að hann yrði ekki samþykktur sem verjandi sóknaraðila. C hafi rökstutt þessa afstöðu með því að embættið hefði undir höndum hljóðupptöku, og á þeirri upptöku ræði A hrl. mál þau sem til rannsóknar væru hjá embættinu og vörðuðu meint brot skjólstæðings hans.

Hvorki sóknaraðila né lögmanni hans sé kunnugt um það nákvæmlega hverjar séu hinar meintu sakargiftir á hendur sóknaraðila, sem til rannsóknar séu hjá embætti sérstaks saksóknara.

Ætla megi hins vegar að til rannsóknar séu skattskil sóknaraðila vegna áranna 2010 til 2015, því samkvæmt bréfi skattrannsóknarstjóra til hans frá 5. janúar 2017, sem A hrl. hafi fengið afrit af, hafi rannsókn skattyfirvalda beinst að skattamálefnum sóknaraðila á árunum 2010 til 2015. 

A hrl. hafi ekki veitt sóknaraðila neina lögfræðiráðgjöf á árunum 2010 til 2015 og hafi reyndar ekkert verið í sambandi við hann á þeim árum. A hrl. hafi heldur ekki veitt honum neina lögfræðiþjónustu fyrir þann tíma.

Augljóst sé því að A hrl. geti ekki borið neitt um gerðir sóknaraðila á árunum 2010 til 2015. Sóknaraðili leggur mikla áherslu á að A hrl. sé bundinn þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 22. gr. laga  nr. 77/1998, um lögmenn, um allt það sem hefði farið þeim í milli og sé honum því með öllu óskylt að svara nokkru þar um sem vitni. 

Sóknaraðili byggir á því að af framangreindu leiði einnig að A hrl. verði heldur ekki sakaður um að hafa tekið þátt í meintum brotum X á árunum 2010 til 2015, eins og C hafi látið liggja að á fundi  29. maí, og hafi nú verið staðfest skriflega í bréfi embættis héraðssaksóknara frá 31. maí 2017. 

Sóknaraðili telur augljóst að umrædd hljóðupptaka hljóti að hafa átt sér stað einhvern tíma eftir að hann hafi ráðið A hrl. til lögmannstarfa, þann 23. mars 2016. Verkefni A hrl. fyrir sóknaraðila hafi frá 23. mars 2016 til dagsins í dag einkum lotið að hagsmunagæslu í tengslum við skipti á dánarbúi D móður sóknaraðila, sem tekið var til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2016, þar sem margháttaður ágreiningur hafi verið með erfingjum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. [...]. Eins og hæstaréttardómurinn beri með sér hafi bæði D og hluti erfingja hennar talið að E heitinn hafi átt fé á erlendum bankareikningum þegar hann lést árið 1999, sem ekki hafi skilað sér til hins óskipta bús.

Þegar sóknaraðili hafi leitað til A hrl. þann 23. mars 2016 hafði það gerst að hluti systkina hans hafði sakað hann um að hafa sölsað þetta fé foreldra þeirra undir sig að hluta. Erfingjar þessir hafi haft þá kröfu uppi að sóknaraðili gerði hreint fyrir sínum dyrum og skipti með þeim því fé sem hann ætti á erlendum bankareikningum.

Haldnir hafi verið fundir á skrifstofu A hrl. miðvikudaginn 6. apríl og föstudaginn 8. apríl 2016 þar sem F hdl. hafi mætt ásamt G, lögfræðingi og samstarfsmanni hennar, og H og föður hans. Sóknaraðili sem einnig var viðstaddur telur sýnt að á öðrum hvorum fundinum hafi tilvísuð hljóðupptaka átt sér stað. Hvorki F, G né nokkur annar fundarmanna hafi farið þess á leit að fundirnir tveir yrðu hljóðritaðir. Þá hafi formleg fundargerð ekki heldur verið rituð. Það sem fram hafi farið á fundunum hafi verið trúnaðarmál lögmannanna og skjólstæðinga þeirra, sbr. 1. málslið 1. mgr. 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, þar sem fram komi að lögmaður beri þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. 

Sóknaraðili byggir á því að hljóðupptaka þessi geti aldrei orðið grundvöllur þess að hann fái ekki A hrl. skipaðan sem verjanda sinn með vísan til  4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með því að synja sóknaraðila um að fá skipaðan sem verjanda lögmann þann, sem hafi veitt honum lögmannsþjónustu í liðlega eitt ár bæði vegna einkaréttarlegs ágreinings og vegna skattrannsóknar sé freklega brotið gegn rétti hans samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

A hrl. hafi aðeins veitt sóknaraðila lögmannsþjónustu frá 23. mars 2016. Lögmaðurinn verði ekki þvingaður með neinum hætti, hvorki sem vitni né sakborningur, til að upplýsa um það sem fram hafi farið milli hans og sóknaraðila á þessum tíma.

Sóknaraðili hafi notið réttarstöðu sakbornings við skattrannsókn skattrannsóknarstjóra. Af því leiddi að honum hafi verið óskylt að svara spurningum varðandi meinta refsiverða hegðun, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Sóknaraðili hafi jafnframt mátt ræða við verjanda sinni í einrúmi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 88/2016, um meðferð sakamála. Þennan rétt sakaðs manns geti refsivörsluaðilar ekki upphafið með því að beita fyrir sig ólögmætum hljóðupptökum af fundi meints sakbornings með lögmanni sínum og öðrum lögmönnum um einkaréttarlegan ágreining.

Við úrlausn þessa máls verði að líta til þess að embætti héraðssaksóknara og öðrum rannsakendum sakamála sé sniðinn þröngur stakkur þegar komi að símhlustunum og öðrum sambærilegum úrræðum, sbr. XI. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Rannsakendur sakamála sem geti fengið dómsúrskurð fyrir símhlustun geti ekki notað upptöku sem þannig verði til við rannsókn máls, eins og glöggt komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014.

Þau réttindi sakborninga sem Hæstiréttur vísi til í því máli væru hjómið eitt ef rannsakendum væri veitt heimild til að nota ólögmætar upptökur af fundum lögmanna með skjólstæðingum sínum.

 

Með vísan til framangreinds beri að hrinda ákvörðun embættis héraðssaksóknara og fara að ósk sóknaraðila um að R verði skipaður verjandi hans við rannsókn á máli nr. 300-2017-2.

III.

Varnaraðili, héraðssaksóknari, vísar til þess að mál þetta byggi á kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 5. janúar sl. á hendur sóknaraðila vegna meintra brota gegn skattalögum og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í kæru komi m.a. fram að fyrir liggi að hann hafi átt umtalsverða fjármuni á erlendum bankareikningum, a.m.k. frá árinu 2005. Þeir hafi frá árinu 2014 verið hjá bankanum Julius Bär í Sviss í nafni [...]. Kærði hafi ekki gert skattyfirvöldum grein fyrir fjármununum þegar hann hafi fengið þá í sínar hendur. Það hafi hann ekki gert fyrr en vorið 2016 og þá í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun um málið.

Þann 27. mars sl. hafi embætti héraðssaksóknara verið send hljóðupptaka, ásamt endurriti, frá embætti skattrannsóknarstjóra. Sú upptaka hafi borist því embætti en nafns sendanda hafi ekki verið getið. Í greinargerð sóknaraðila komi fram að hann telji að upptakan sé annaðhvort frá 5. eða 8. apríl 2016. Á upptökunni virðist vera til umræðu þeir fjármunir sem mál þetta snúist um og hvernig best sé að koma þeim til systkina sóknaraðila með þeim hætti að þeir verði sem minnst skattlagðir. Bæði kærði og A hrl., tjái sig um þessi atriði á upptökunni.

Varnaraðili ítreki að uppi sé rökstuddur grunur um að um sé að ræða fjármuni sem áður hafi verið komið undan skattlagningu. Þeir séu því afrakstur brots, a.m.k. að hluta.

Með hliðsjón af þessu sé ljóst að taka verði skýrslu af umræddum lögmanni við rannsókn málsins. Því sé ljóst, með vísan til 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að ekki megi skipa hann sem verjanda í málinu. Breyti þar engu að hann hafi lýst því yfir að hann muni ekki svara spurningum lögreglu í málinu.

Kröfu sinni til stuðnings bendi sóknaraðili á niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 824/2014. Málavextir þess máls séu aftur á móti fjarri málavöxtum í þessu máli. Þar sé gagnrýnt að hlustað hafi verið á símtöl ákærðu við verjendur meðan á rannsókn stóð án þess að þeim hefði verið eytt þegar í stað. Svo sé ekki í þessu máli, enda hafi sök ekki verið beint að sóknaraðila þegar hljóðupptakan hafi farið fram, að hans sögn. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í því máli að ekki mætti leggja til grundvallar í málinu símtöl sem hlustuð hafi verið skömmu eftir að þeir hafi gefið skýrslu í málinu. Svo hafi ekki heldur verið í því máli sem hér sé til umfjöllunar.

Atvik í þessu máli séu á hinn bóginn lík því sem hafi verið í máli Hæstaréttar nr. 131/2014 en sá dómur sé mjög skýr.

IV.

Eins og fram er komið hverfist mál þetta um hvort lagastoð sé, samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, fyrir ákvörðun embættis héraðssaksóknara um að synja þess að skipa A hrl., sem verjanda sóknaraðila í máli skattrannsóknarstjóra ríkisins, nr. [...], frá 5. janúar sl. á hendur sóknaraðila vegna meintra brota gegn skattalögum og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í nefndu ákvæði laga nr. 88/2008 segir að ekki megi skipa þann verjanda sem kunni að verða kvaddur til að gefa skýrslu í máli.

 

Eins og að framan er getið var embætti héraðssaksóknara send hljóðupptaka, ásamt endurriti, frá embætti skattrannsóknarstjóra þann 27. mars sl. en sú upptaka barst því embætti nafnlaust. Í endurritinu er að finna brotakenndar upplýsingar af fundi þar sem sóknaraðili, lögmaður hans og aðrir aðilar, sbr. framangreint, ræða að því er virðist hugsanlega millifærslu fjármuna til systkina sóknaraðila. Verður ekki betur séð en að lögmaður sóknaraðila hafi á fundinum fyrst og fremst lagt áherslu á að skoða þyrfti ofan í kjölinn hvernig best væri að standa að slíkri millifærslu í skattalegu tilliti. Af endurritinu má ráða að með þessari áherslu hafi lögmaðurinn verið að gæta með réttmætum hætti hagsmuna sóknaraðila með sem bestu móti, eins og honum var skylt sbr. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Ekki hefur verið bent á önnur atvik í málinu sem gefa tilefni til þess að lögmaður sóknaraðila verði kallaður til skýrslugjafar. Þrátt fyrir að dómnum þyki alls ekki blasa við hvað það er sem kallar á skýrslutöku af lögmanninum verður að líta svo á að það sé ekki hlutverk dómsins að meta það.   

Sóknaraðili leggur áherslu á að A hrl. sé bundinn þagnarskyldu gagnvart honum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. nr. 77/1998, um lögmenn, og skýrslutaka af lögmanninum feli í sér bersýnilega þarflausa sönnun sbr. 3. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Til rannsóknar séu skattskil sóknaraðila vegna áranna 2010 til 2015. Það hefur ekki verið dregið í efa að A hrl. hafi ekki veitt sóknaraðila neina lögfræðiráðgjöf á árum 2010 til 2015, og hafi reyndar ekkert verið í sambandi við hann á þessum árum. A hrl. hafi heldur ekki veitt sóknaraðila neina lögfræðiþjónustu fyrir þann tíma. Því verður að leggja til grundvallar að A hrl. geti ekki borið neitt um gerðir sóknaraðila í þessum efnum, á árunum 2010 til 2015.

Þrátt fyrir framangreint verður að líta svo á að ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 sé fortakslaust um að ekki megi skipa þann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli. Má um það vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 131/2014. Í því máli hafði sækjandi ekki í hyggju að kalla verjanda ákærða fyrir dóm sem vitni en taldi þó ekki útilokað að slíkar aðstæður gætu skapast síðar. Rétturinn taldi við þessar kringumstæður einboðið, eins og það var orðað, að staðfesta úrskurð héraðsdóms um að neita því að skipa lögmanninn sem verjanda.

Þá verður ekki talið að beiting 4. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 í tilviki sóknaraðila feli í sér brot á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar sem mælt er fyrir um í 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt þessu og að virtum afdráttarlausum yfirlýsingum varnaraðila, síðast við munnlegan málflutning, um þennan ágreining, um að til standi að kveða lögmann sóknaraðila fyrir sem vitni á málinu gegn sóknaraðila, verður því að hafna kröfu sóknaraðila og að ákvörðun varnaraðila um að synja beiðni sóknaraðila um að fá A hrl. skipaðan verjanda standi því. Eins og atvikum háttar þykir það ekki skipta sköpum við mat á því hvort skilyrðum 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, með hvaða hætti þær upplýsingar fengust sem kalla á skýrslutöku af lögmanninum að mati varnaraðila.

Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi synjun embættis héraðssaksóknara frá 29. maí 2017, við beiðni um að skipa A hrl., Laugavegi 182, Reykjavík, verjanda við rannsókn embættisins á máli nr. 300-2017-2, er hafnað.