Print

Mál nr. 56/2017

A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
gegn
Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar (Sigríður Kristinsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2017, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. 

Að virtum þeim læknisfræðilegu gögnum sem fyrir liggja í málinu er fallist á með varnaraðila að fullnægt sé skilyrðum a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga þannig að þörf sé á því að svipta sóknaraðila tímabundið sjálfræði. Eftir þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2017.

Með beiðni, dagsettri 11. janúar 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur Hafnarfjarðarkaupstaður, kt. 590169-7579, Strandgötu 6, Hafnarfirði, krafist þess að A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst skipaður verjandi varnaraðila þóknunar úr ríkissjóði.

Í beiðni sóknaraðila er málavöxtum lýst svo að varnaraðili hafi verið lagður inn á geðdeild Landspítalans í febrúar 2015, en útskrifað sig sjálfur gegn læknisráði. Hann hafi lagst aftur inn í júní 2016 og útskrifað sig að nýju gegn læknisráði. Þá hafi varnaraðili endurtekið leitað til bráðaþjónustu geðsviðs í júlí 2016 og þá verið með geðrofseinkenni og í mikilli neyslu. Varnaraðili hafi lagst inn, en útskrifað sig áður en til viðtals hjá lækni hafi komið. Varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður á geðdeild samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 4. nóvember 2016 og aftur 23. desember 2016, en þá hafi varnaraðili verið metinn í bráðu geðrofi. Í beiðninni segir að varnaraðili hafi ekki innsýn í sjúkdómi sinn og neiti því að hann sé með geðrofssjúkdóm, heldur sé hann einungis haldinn þunglyndi. Samkvæmt upplýsingum læknis hafi varnaraðili verið mjög ósáttur eftir að hann var nauðungarvistaður á sjúkrahúsinu, en þó hafi hann verið rólegur og tekið lyfin sín. Í beiðninni kemur fram að fyrir liggi vottorð B, deildarlæknis á sérhæfðri endurhæfingardeild Landspítala, dagsett 9. janúar 2016, þar sem fram komi að varnaraðili hafi verið með geðrofseinkenni í nær samfelldri innlögn á geðdeild frá 31. október 2016 og vaxandi geðrofseinkenni allt síðasta ár. Einnig að læknirinn telji að yfirgnæfandi líkur séu á því að varnaraðili glími við aðsóknargeðklofa og að mjög miklar líkur séu á því að hann muni útskrifa sig gegn læknisráði og hefja neyslu fíkniefna á ný fái hann að ráða högum sínum sjálfur. Það myndi leiða til versnandi sjúkdómsástands, sem stofna myndi heilsu hans og lífi í hættu. Sýnt væri að varnaraðili væri ekki tilbúinn til að þiggja viðeigandi og nauðsynlega meðferð og því væri óhjákvæmilegt að svipta hann sjálfræði í a.m.k. sex mánuði. Til stuðnings kröfunni er í beiðninni vísað til a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en krafan sé sett fram vegna tilmæla sérfræðilæknis, sbr. d-lið 2. töluliðar 7. gr. sömu laga.

Í áðurgreindu vottorði B læknis er rakið að varnaraðili hafi glímt við ýmis vandamál, svo sem athyglisbrest og fíkniefnaneyslu, allt frá grunnskólaaldri. Hann hafi greinst með kvíða, þunglyndi og athyglisbrest sem unglingur og farið í endurteknar meðferðir á Vogi vegna fíkniefnaneyslu, sem ekki hafi borið árangur. Varnaraðili hafi byrjað að vera með undarlegar hugmyndir á árinu 2015, sem leitt hafi til þess að hann hafi ráðist að móður sinni með hnífi og virst gera tilraun til að keyra föður sinn niður á bíl vorið 2016. Í vottorðinu eru síðan raktar innlagnir varnaraðila á geðdeild á árunum 2015 og 2016 og gerð grein fyrir fíkniefnaneyslu varnaraðila síðastliðin 9 ár, en aðallega hafi verið um að ræða dagneyslu á kannabis og reglulega neyslu á amfetamíni.

Við komu á geðdeild 31. október sl. hafi varnaraðili verið í geðrofsástandi. Hann hafi lagst sjálfviljugur inn á deildina, en verið nauðungarvistaður þar í 21 dag 2. nóvember sl. þegar hann hafi viljað útskrifast. Varnaraðili hafi verið með mikil og virk geðrofseinkenni framan af legu, þ.e. bæði miklar tilvísunar- og ofsóknarranghugmyndir sem nánar eru raktar í vottorðinu. Varnaraðili hafi þegið lyf í innlögninni og þar sem hann hafi virst vera á batavegi og viljað þiggja þjónustu hafi nauðungarvistunin verið látin renna út og hafi varnaraðili farið í beinu framhaldi á Hlaðgerðarkot 24. nóvember sl. Hafi hann komið aftur á bráðaþjónustu geðsviðs daginn eftir með geðrofseinkenni, þ.e. bæði ofsóknarranghugmyndir og heyrnarofskynjanir í formi radda. Hafi hann lagst sjálfviljugur inn á geðdeild og verið til samvinnu um lyfjameðferð. Hinn 14. desember sl. hafi varnaraðili flust á sérhæfða endurhæfingardeild sjúkrahússins. Við innlögn þar hafi varnaraðili verið metinn í bráðu geðrofi. Skipt hafi verið um geðlyf þar sem fyrri lyf hafi ekki virkað sem skyldi. Þegar rætt hafi verið við hann um að hann væri með einkenni sem bentu til geðrofs hafi hann brugðist illa við og hótað að útskrifa sig, en hafi þó sæst á að vera áfram á deildinni í stuttan tíma. Hinn 21. desember hafi hann reiðst aftur vegna umræðna um veikindin og viljað fara af deildinni. Varnaraðili hafi þá verið nauðungarvistaður í 72 tíma og í kjölfarið í 21 dag frá 23. desember 2016.

Í samantekt vottorðsins segir að yfirgnæfandi líkur séu taldar á því að varnaraðili glími við geðrofssjúkdóm, en hann uppfylli greiningarskilmerki fyrir aðsóknargeðklofa F20.0. Varnaraðili sé enn sem komið er innsæislaus í alvarleika veikindanna og neiti öllum einkennum nú. Hann virðist þola mótlæti illa og hafa gert það alla tíð. Bregðist hann þá við af hvatvísi og þurfi lítið til að hann hætti við að þiggja þjónustu og meðferð. Yfirgnæfandi líkur verði að teljast á því að fái varnaraðili að ráða högum sínum sjálfur myndi hann útskrifa sig gegn læknisráði á nýjan leik, byrja í neyslu fíkniefna, sem aftur myndi leiða til þess að geðrofseinkenni versnuðu og þannig myndi varnaraðili stofna lífi sínu og heilsu í hættu. Varnaraðili hafi sýnt alvarlega og ofbeldisfulla hegðun gagnvart fjölskyldu sinni og sé ekki hægt að útiloka að hann gæti orðið hættulegur öðrum flosni hann upp úr meðferð nú. Mjög ólíklegt verði að telja að varnaraðili verði fær um að mæta reglulega til meðferðaraðila á göngudeild og taka lyfin sín reglulega ef hann útskrifast nú af geðdeild.

Í vottorðinu segir að óskað hafi verið eftir tímabundinni sviptingu sjálfræðis varnaraðila í stað framlengingar á nauðungarvistun í 12 vikur. Ástæða þess sé sú að þá verði hægt að láta reyna á útskrift af sjúkrahúsi áður en sjálfræðissviptingu lýkur ef heilsa varnaraðila leyfir, en þá myndi hann njóta þjónustu dag- eða göngudeildar. Væri þá hægt að grípa í taumana og leggja varnaraðila inn aftur ef hann sinnti ekki eftirliti og meðferð og með því koma í veg fyrir að sjúkdómur varnaraðila versnaði alvarlega. Óskað væri eftir sjálfræðissviptingu í sex mánuði til að tryggja nauðsynlega og samfellda meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi.

B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti áðurgreint vottorð sitt. Þá staðfesti hún að varnaraðili væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms og því væri nauðsynlegt að krefjast þess að hann yrði sviptur sjálfræði. Einnig kom fram að ólíklegt væri að þriggja mánaða framlenging á nauðungarvistun dygði í tilviki varnaraðila í ljósi alvarleika veikinda hans.

Niðurstaða

Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 84/2015 um breytingu á lögræðislögum, sem leiddi í lög heimild til að framlengja nauðungarvistun í allt að 12 vikur, er það háð mati læknis hverju sinni hvort viðkomandi þurfi áframhaldandi meðferð ef samkomulag um áframhaldandi meðferð hefur ekki náðst og hvort óhjákvæmilegt sé að óska eftir framlengingu nauðungarvistunar með rýmkun í allt að 12 vikur eða sviptingu sjálfræðis. Með vísan til þess og með hliðsjón af því sem að framan er rakið og framlögðum gögnum telur dómari að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu.

Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá deginum í dag að telja.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.