Print

Mál nr. 571/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Daníel Reynisson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun
Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. september 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 6. september 2017 um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt a. lið 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa 11. ágúst 2017 framið brot sem varðar refsingu samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þessu lagaskilyrði er því fullnægt.

Eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að við mat samkvæmt 1. mgr. sé heimilt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta er talin á að hann muni fremja brot sem lýst er í 4. gr. Varnaraðili sætti nálgunarbanni frá 22. nóvember 2016 til 21. maí 2017 og var með héraðsdómi  12. júlí 2017 sakfelldur fyrir að hafa brotið sex sinnum gegn því. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði eftir 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Daníels Reynissonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                   

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 11. september 2017

Með bréfi dagsettu 8. september sl. hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum farið fram á að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjórans frá 6. september sl., sem birt var sama dag, þess efnis að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni allt til mánudagsins 22. janúar 2018, kl. 16:00  með þeim hætti að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], á svæði sem afmarkast við lóðamörk fjölbýlishússins að [...].  Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana. 

             Í greinargerð með kröfunni kemur fram að brotaþoli hafi óskað eftir því þann 6. september sl. að X, væri gert að sæta nálgunarbanni.  

Brotaþoli og kærði hafi verið í sambúð og eigi saman tvö ung börn. Við skoðun í dagbók lögreglu megi sjá að lögregla hafi reglulega undanfarin ár, haft afskipti af kærða og kæranda vegna ágreinings þeirra í millum sem m.a. hafi leitt til þess að kærandi hefur verið beitt ofbeldi, sbr. til dæmis lögreglumál nr. [...], er varðaði húsbrot og eignaspjöll á heimili brotaþola svo og líkamsárás gagnvart henni hinn 21. nóvember 2016. Vegna þess máls var kærða, hinn 22. nóvember, gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola til 21. maí 2017. Liggur fyrir að kærði hafi brotið gegn nálgunarbanninu í sex skipti á tveggja vikna tímabili með því að setja sig í samband við brotaþola. Kærði hafi verið hinn 12. júlí 2017 sakfelldur vegna þeirra brota og gert að sæta fangelsi í 18 mánuði en fullnustu 17 mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Brotaþoli hafi gefið skýrslu hjá lögreglu 28. ágúst sl. Hafi hún skýrt svo frá að í kjölfar þess  nálgunarbann sem kærði sætti vegna máls [...] hafi hún reynt að sættast við hann, þar sem hann hafi verið að taka sig á. Hefði hann farið í meðferð á þeim tíma en ekki klárað hana. Samskipti þeirra hafi gengið vel fyrstu tvo mánuðina en í kjölfarið hafi þau farið versnandi vegna ástands kærða, sem hún taldi að væri byrjaður aftur í neyslu fíkniefna. Byggði hún þær röksemdir á því að hann væri í sífellu að biðja hana um að lána sér fjármuni og jafnframt hafi hann tjáð sér að lögregla hafi stöðvað hann og teldi hún ljóst að það hafi verið vegna fíkniefnaaksturs. Komi það saman við mál nr. [...].  Í kjölfarið hafi hún tjáð kærða að hann fengi ekki að hitta börnin í slíku ástandi og hætt samskiptum við hann. Brotaþoli kvaðst hafa sett sig í samband við B, jafnframt barnsmóður kærða, og þær hafi ákveðið að leyfa kærða að hitta öll börn þeirra beggja í sameiningu og að viðstöddum henni og B. Hinn 11. ágúst hafi kærði sent henni smáskilaboð vegna þessarar hugmyndar og byrjað að kalla hana hóru og druslu. Hún hafi lokað á samskipti við hann og ákveðið að hann fengi ekki að hitta börnin þegar svona væri ástatt. Sama dag hafi hann hringt í B og byrjað að kalla hana, brotaþola, hóru og druslu auk þess sem hann hefði hótað að drepa brotaþola ef hann fengi ekki að hitta börnin. Liggur fyrir upptaka af því samtali og heyrist kærði þar m.a. segja að ef brotaþoli komi ekki með drengina ætli hann að stúta henni, hann langi að berja hana, hann langi að drepa hana og hann muni einn daginn ,,snappa“ aftur á hana. Jafnframt heyrist hann segja að hann hafi tekið brotaþola hálstaki vegna þess að hún hafi sagt við hann að hann ætti ekki börnin.

             Brotaþoli hafi, í kjölfar þessa, sagt að kærði hafi ítrekað reynt að setja sig í samband við sig með smáskilaboðum. Hinn 15. ágúst sl. hafi kærði svo hringt og spurt hvort hún væri úti með strákana. Hann hafi ætlað að koma og hitta hana en hún neitað því. Hafi hann brugðist mjög illa við því og í því samtali m.a. sagst ætla að lemja hana ef hún kæmi framan við heimili hans, en þau búa í sömu götu. Þá hafi hann sagst ætla að taka eigið líf og skellt á. Kvaðst brotaþoli hafa tilkynnt þetta til lögreglu, sbr. mál [...]. Stuttu eftir þetta hafi hann hringt og sagt að ef hann fengi ekki að hitta börnin myndi hann taka eigið líf og það væri á hennar ábyrgð. B hafi tilkynnt það til lögreglu, sbr. mál [...]. Þann 6. september sl. hafi brotaþoli óskað aðstoðar lögreglu þar sem kærði hafi verið kominn heim til hennar enn á ný. Kærði hafi í kjölfarið verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

             Þá segir ennfremur í greinargerðinni að kærði neiti sakargiftum og kveðst bara hafa viljað hitta strákana sína. Hann hafi hringt í hina barnsmóður sína og verið eitthvað reiður, hann hafi aldrei hótað brotaþola neinu og myndi aldrei gera henni neitt. Kærði kveðst hafa farið í meðferð 11. maí sl. og farið þá á geðdeild.  Hann hafi ekið bifreið á vegg og eitthvað og reynt að fremja sjálfsvíg.  Kærða hafi verið kynnt orðrétt endurrit af upptöku samtals hans og [...] barnsmóður hans þar sem hann tali um brotaþola og hafi sagt að hann hefði sagt þetta í einhverju brjálæðiskasti þar sem hann hafi ekki fengið að hitta strákana sína. Þá kveðst hann ekkert hafa meint með þessum orðum annað en að vera reiður. Þá hafi kærði sagst vera með þráhyggjuröskun sem væri erfiður sjúkdómur. Hann væri á lyfjum á hverjum degi. Hann segist sjá eftir að hafa tekið brotaþola hálstaki og hann væri búinn að sitja inni og fá dóm fyrir það.

             Kærði hafi mótmælt ákvörðun um nálgunarbann og kvaðst vilja fá að hitta börnin sín.

             Lögreglustjóri telur að framburður A sæki sér stoð í önnur gögn sem fyrir liggja, svo sem dagbók lögreglu, endurriti símtals kærða við B og nefndum dómi héraðsdóms í málinu, S-186/2017.

Samkvæmt 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé lögreglu heimilt að kveða á um að aðila verði gert að sæta nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að hann hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni brjóta gegn brotaþola. Lögreglustjóri telji fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi brotið gegn brotaþola og að háttsemi hans kunni að varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. og einnig 233. gr. og 233. gr. b sömu laga.

Að því gengnu kemur þá til skoðunar hvort tilefni sé til að beita framangreindum úrræðum, með mati á því hvort hætta sé til staðar um að kærði muni brjóta gegn brotaþola. Í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að við matið sé heimilt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta sé talin á að hann muni viðhafa þá háttsemi sem lýst er í 4. og 5. gr. laganna. Með vísan til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og fyrri samskipta kærða og brotaþola telji lögreglustjóri hættu á að kærði muni raska friði brotaþola njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Með vísan til alls þessa hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni til mánudagsins 22. janúar 2018, kl. 16:00, þannig að lagt var bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...],  á svæði sem afmarkast við lóðamörk fjölbýlishússins að [...]. Jafnframt var lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

             Miðað við þau gögn sem unnt hefur verið að afla og þeirra framburða sem liggja fyrir að svo komnu máli telur lögreglustjórinn á Suðurnesjum að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að kærði hafi framið refsiverð brot og/eða raskað friði kæranda, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun. 

          Að virtum atvikum málsins, ástand kærða og skýrs vilja kæranda, telur lögreglustjóri að hætta sé á því að kærði muni á ný brjóta gegn kæranda á sambærilegan hátt eða á annan hátt er raskar friði hennar eins og kveðið er á um í 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun á heimili. 

          Jafnframt telur lögreglustjórinn á Suðurnesjum hættu á að kærði muni brjóta gegn brotaþola ef nálgunarbanni verði ekki beitt í máli þessu, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun.

        Í ljósi ofangreinds telur lögreglustjóri að skilyrði 1. og 2. tölul. 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði liggi undir sterkum grun um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og með því að hafa brotið gegn A með refsiverðum hætti.  Þá séu verndarhagsmunir  taldir standa til þess að tryggja kæranda þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu kærða. Þá þykir lögreglustjóra með vísan til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga að ekki sé unnt að vernda friðhelgi kæranda með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

     Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna telur lögreglustjóri skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili uppfyllt og ítrekar að krafan nái fram að ganga.

                Verjandi varnaraðila kom fyrir dóminn ásamt umboði frá varnaraðila þar sem hann kvaðst mótmæla kröfunni.

             Með hliðsjón af öllu framangreindu, sem stutt er gögnum, þykja vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt II. kafla laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili til að beita nálgunarbanni eins og kveðið er á um í ákvörðun lögreglunnar frá 6. september sl. Telur dómurinn að friðhelgi brotaþola verði ekki tryggð með öðrum vægari úrræðum. Verður ákvörðun lögreglu því staðfest eins og segir í úrskurðarorði.

             Í málinu gerir skipaður verjandi varnaraðila, Daníel Reynisson hdl., og réttargæslumaður brotaþola, Halldóra Aðalsteinsdóttir hdl., kröfu og þóknun sér til handa og að hún verði greidd úr ríkissjóði.

Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola hæfilega ákveðin 150.000 krónur til handa hvoru þeirra og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ.

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 6. september 2017 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni allt til mánudagsins 22. janúar 2018, kl. 16:00,  með þeim hætti að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], á svæði sem afmarkast við lóðamörk fjölbýlishússins að [...].  Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana. 

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Daníels Reynissonar hdl., 150.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Halldóru Aðalsteinsdóttur hdl., 150.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.