Print

Mál nr. 25/2018

A (Bryndís Guðmundsdóttir lögmaður)
gegn
Verði tryggingum hf. og B (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Örorkumat
  • Árslaun
Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvaða árslaun skyldi leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem A hlaut í umferðarslysi í febrúar 2012. A taldi að miða bæri við árslaun hans óskert á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en V hf. og B byggðu á því að lækka bæri viðmiðunartekjur um 30% vegna varanlegrar örorku sem A hefði hlotið í vinnuslysi í desember 2011, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefðu verið greiddar fullar bætur samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga vegna þess líkamstjóns, sem hann hlaut í fyrra slysinu, þar með talið bætur vegna varanlegrar örorku. Við ákvörðun bóta vegna þeirrar varanlegu örorku, sem A hefði hlotið af seinna slysinu yrði, í ljósi þess hve stutt hefði verið á milli slysanna, að leggja til grundvallar að skerðing launatekna A í framtíðinni yrði hin sama og hann hefði þegar fengið bætta vegna afleiðinga fyrra slyssins, en A hefði unað því uppgjöri án athugasemda. Taldi Hæstiréttur því ekki forsendur til þess að ákvarða árslaun A vegna síðara slyssins á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda hefði falist í því að við ákvörðun þeirra væri ekkert tillit tekið til þeirrar starfsorkuskerðingar sem hann hefði hlotið í fyrra slysinu og hafði þegar fengið bætta. Við þessar óvenjulegu aðstæður voru því talin skilyrði til þess að ákveða árslaun sérstaklega vegna seinna slyssins samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 3.974.115 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 9. ágúst 2012 til 20. desember 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi starfaði sem stuðningsfulltrúi á sambýli sem Reykjavíkurborg rekur. Hann mun hafa byrjað að starfa þar á árinu 2002 og verið í 85% starfi í desember 2011, en að teknu tilliti til vaktafyrirkomulags og yfirvinnu mun í raun hafa verið um fulla atvinnuþátttöku að ræða. Er hann var við störf 29. desember 2011 þurfti hann að leggja samstarfsmönnum sínum lið við að hemja vistmann sem misst hafði stjórn á sér. Við þau átök fékk áfrýjandi kröftugt spark frá vistmanninum vinstra megin á brjóstkassa og féll hann við það aftur fyrir sig. Í kjölfarið stífnaði hann í baki og átti erfitt með að  hreyfa sig. Hann mun hafa unnið út vaktina en verið með verki í baki og vinstra megin í brjóstkassa. Samkvæmt vottorði læknis við Heilsugæslustöðina í [...] leitaði áfrýjandi þangað 4. janúar 2012 vegna vinnuslyssins. Í vottorðinu kom fram að áfrýjandi hafi eftir slysið verið slæmur af verkjum í mjóbaki. Hann hafi fengið ,,fjarvistarvottorð“ frá slysdegi til 6. janúar 2012. Hann hafi haft samband við heilsugæslustöðina aftur 11. sama mánaðar og hafi þá enn verið slæmur í mjóbaki, auk þess sem fleiri einkenni voru tilgreind. Þá sagði í vottorðinu að áfrýjandi hafi komið aftur á heilsugæsluna 26. janúar sama ár vegna versnandi verkja í baki. Hann hafi lýst því að hann hefði fengið slæman hósta fyrir viku og ,,heyrði brak í bringu og fann mikið til“. Eftir það hafi hann haft slæman verk í vinstri síðu og verk og eymsli í hnakkavöðvum. Hann var sagður aumur í vöðvum aðlægt hryggsúlu í mjóbaki, meira hægra megin. Þá sagði: ,,Hann fékk áframhaldandi vottorð um óvinnufærni fram til 20. janúar 2012 og beiðni í sjúkraþjálfun.“ Þá mun áfrýjandi hafa leitað á Læknavaktina 24. janúar sama ár og verið þá með mikil eymsli í brjóstkassa sem rakin voru til vinnuslyssins og verið hvellaumur yfir tilgreindum rifbeinum og talinn ,,rifbrotinn“. Í tölvubréfi 23. desember 2014, sem sagt er vera frá yfirmanni áfrýjanda, kom fram að hann hafi verið óvinnufær vegna vinnuslyssins frá slysdegi til 20. janúar 2012. Hann hafi unnið frá 25. janúar til 3. febrúar þetta ár, en frá þeim degi til 9. sama mánaðar hafi hann verið í svonefndu vaktafríi.

Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 9. febrúar 2012 þegar ekið var inn í hlið bifreiðar sem hann ók og eyðilagðist hún við áreksturinn. Við þetta slasaðist áfrýjandi og var fluttur með sjúkrabifreið á neyðarmóttöku. Hann var greindur með rifbrot, tognun og ofreynslu á brjósthrygg og á lendhrygg. Þá hafði hann verki á mótum brjóstbaks og lendhryggjar og einnig hægra megin á brjóstkassa aftanvert. Eftir umferðarslysið var áfrýjandi óvinnufær með öllu. Í gögnum málsins er gerð nánari grein fyrir líkamstjóninu sem áfrýjandi hlaut í umferðarslysinu, læknismeðferð vegna þess og endurhæfingartilraunum.

Áfrýjandi og stefndi Vörður tryggingar hf., sem veitt hafði ábyrgðartryggingu fyrir bifreið þá er olli umferðarslysinu, auk Reykjavíkurborgar vegna vinnuslyssins, óskuðu sameiginlega eftir því við lækni og lögfræðing að þeir veittu álit sitt á tímabundnum og varanlegum afleiðingum beggja slysanna. Í álitsgerð þeirra 22. maí 2015 kom fram að vegna vinnuslyssins hefði áfrýjandi að eigin sögn verið mikið frá vinnu. Hann hafi þó eitthvað reynt að vera í vinnunni en hafi engan veginn verið tilbúinn til að byrja að vinna aftur og að afleiðingar slyssins hafi háð honum verulega í starfi. Eftir umferðarslysið 9. febrúar 2012 hafi hann á hinn bóginn ekki stundað neina vinnu. Hann treysti sér ekki til þess að fara til vinnu, hann hafi hvorki þrek né þol til vinna miðað við ástand sitt. Í álitsgerðinni kom fram að áfrýjandi hafi engan veginn verið búinn að jafna sig af afleiðingum fyrra slyssins þegar hann lenti í því síðara.  Líkamlegum einkennum áfrýjanda þegar matið fór fram var lýst svo að hann hafi fullan hreyfiferil í báðum öxlum, en sú hægri stæði neðar en hin vinstri. Væg eymsli væru hægra megin í hálsi en ekki vinstra megin og engin eymsli í herðum. Eymsli væru um miðjan brjósthrygg hægra megin og svo frá miðju mjóbaki niður að mótum spjaldhryggs og lendhryggs. Almennt kraftleysi væri í hægri handlegg en sinaviðbrögð væru lífleg og jöfn hægra og vinstra megin og ekki verði greindar skyntruflanir í hægri handlegg og engar vöðvarýrnanir. 

Um andlegar afleiðingar slysanna var í álitsgerðinni vísað til vottorðs geðlæknis þar sem lýst var þunglyndi áfrýjanda, sem væri mun verra en það sem þjáði hann fyrir slysin. Jafnframt var lýst kvíðaköstum og ótta, auk skorts á einbeitingu. Þá ætti áfrýjandi erfitt með svefn. Fram kom að hann væri sérlega bitur vegna umferðarslyssins vegna þess að hann taldi sig hafa getað ,,skrölt áfram líkamlega“ þrátt fyrir fyrra slysið, ef hið síðara hefði ekki komið til.  

Niðurstöður álitsgerðarinnar um afleiðingar slysanna voru meðal annars þær að tímabundin óvinnufærni vegna fyrra slyssins hefði verið frá slysdegi 29. desember 2011 til 20. janúar 2012, en vegna síðara slyssins frá slysdegi 9. febrúar til 9. ágúst 2012. Sá dagur var talinn marka batahvörf vegna síðara slyssins en 8. febrúar sama ár vegna hins fyrra. Varanlegar afleiðingar slysanna voru metnar svo að varanlegur miski vegna fyrra slyssins var talinn 17 stig, en 20 stig vegna þess síðara og varanleg örorka 30% vegna fyrra slyssins, en 50% vegna hins síðara.

Uppgjör skaðabóta vegna fyrra slyssins mun þegar hafa farið fram og er ekki til úrlausnar í málinu. Aðilar una í öllum atriðum niðurstöðum álitsgerðarinnar og hefur uppgjör skaðabóta vegna seinna slyssins einnig farið fram, en ágreiningur er með þeim um ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem leiddi af því slysi. Felst ágreiningurinn í því hvernig ákvarða skuli árslaun áfrýjanda samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning á skaðabótum honum til handa vegna þeirrar varanlegu örorku, sem hann hlaut af slysinu. Áfrýjandi telur að nota beri sömu viðmiðun og meginregla 1. mgr. 7. gr. kveður á um, að árslaun skuli teljast vera meðalatvinnutekjur hans að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, en þessi háttur var á hafður við útreikning skaðabóta vegna þeirrar varanlegu örorku sem hann hlaut í fyrra slysinu. Stefndu telja sig á hinn bóginn hafa gert skaðabætur upp að fullu vegna seinna slyssins. Þessi tiltekni tjónsliður hafi verið gerður upp með þeim hætti að bætur fyrir varanlega örorku voru reiknaðar á grundvelli árslauna sem ákveðin voru með heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, á þann hátt að árslaun áfrýjanda reiknuð samkvæmt 1. mgr. 7. gr. voru skert um 30%, sem svari til þeirrar starfsorkuskerðingar sem áfrýjandi hafi hlotið í fyrra slysinu og þegar þegið bætur fyrir.

II

Í 1. gr. skaðabótalaga er mælt fyrir um, að sá sem ber skaðabótaábyrgð á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst, svo og þjáningabætur. Hafi líkamstjónið varanlegar afleiðingar fyrir tjónþola skal sá sem ábyrgðina ber einnig greiða skaðabætur fyrir varanlegan miska og örorku, en með því síðarnefnda er átt við þá varanlegu starfsorkuskerðingu tjónþola sem líkamstjónið hefur í för með sér. Í 12. til 14. gr. laganna eru fyrirmæli um skyldu þess, sem ber ábyrgð á dauða annars manns, að greiða bætur til þeirra sem við það missa framfæranda, auk útfararkostnaðar. Í öðrum greinum I. kafla skaðabótalaga er loks að finna reglur, sem þó eru misjafnlega ítarlegar, um það hvernig ákvarða skuli grundvöll hvers tjónsliðar um sig og í flestum tilvikum hvernig ákvarða skuli skaðabætur á þeim grundvelli. Meðal þessara greina er 7. gr. laganna, sem hefur að geyma reglur um hvernig ákvarða skuli árslaun tjónþola við útreikning á skaðabótum til hans fyrir varanlega örorku. Loks er þess að geta að í 26. gr. skaðabótalaga, sem er í III. kafla þeirra, er að finna fyrirmæli um greiðslu miskabóta þegar fullnægt er skilyrðum greinarinnar. Í I. kafla skaðabótalaga eru á hinn bóginn hvorki fyrirmæli um grundvöll skaðabótaábyrgðar né reglur um hvernig ákvæði laganna um ákvörðun skaðabóta geta sætt takmörkunum vegna almennra reglna skaðabótaréttar. Af framangreindu leiðir að ákvæðum skaðabótalaga verður, þegar annað er ekki ákveðið í lögunum, að beita innan þeirra marka sem almennar reglur skaðabótaréttar setja. Tjónþoli verður þannig að færa sönnur á hvaða fjártjóni hann verði fyrir vegna líkamstjónsins. Þær bætur sem hann fær með réttu á grundvelli reglna I. kafla skaðabótalaga fela í sér fullar bætur í skilningi laganna og eftir almennum reglum skaðabótaréttar á hann ekki rétt til frekari bóta vegna þeirra tjónsliða, sem lögin hafa að geyma reglur um, nema fullnægt sé skilyrðum 11. gr. laganna til að endurupptaka bótaákvörðun vegna varanlegra afleiðinga líkamstjónsins.

Í I. kafla skaðabótalaga er ekki að finna reglur um hvernig skuli fara að ef tjónþoli, sem verður fyrir líkamstjóni, hefur áður orðið fyrir slíku tjóni, sem valdið hefur honum varanlegum miska eða skert varanlega starfsorku hans, eða hann hefur af öðrum ástæðum ekki fulla starfsorku. Við ákvörðun um það verður að beita óskráðum reglum skaðabótaréttar sem miða að því að tjónþoli fái tjón sitt, að því marki sem hann hefur stundað atvinnu, bætt að fullu í skilningi laganna og beri miðað við þessar forsendur hvorki tap vegna fyrra líkamstjóns né hafi af því sérstakan ávinning.

Ólíkar reglur gilda um þýðingu eldra líkamstjóns og skertrar starfsorku af öðrum ástæðum þegar metinn er varanlegur miski annars vegar og varanleg örorka hins vegar. Þar sem ágreiningsefni málsins lýtur eingöngu að ákvörðun árslauna við útreikning bóta fyrir varanlega örorku hefur þýðingu hér, að við mat á varanlegri starfsorkuskerðingu við slíkar aðstæður er það atviksbundið hvaða áhrif eldra líkamstjón eða skert starfsorka af öðrum ástæðum til dæmis vegna veikinda hafa. Í sumum tilvikum hefur eldra líkamstjón, sem leitt hefur til starfsorkuskerðingar, ekki áhrif við mat á varanlegri örorku vegna síðara líkamstjóns. Það kann að helgast af því að tjónþoli hafi öðlast meiri bata, svo sem með endurhæfingarúrræðum, en lagt var til grundvallar þegar afleiðingar fyrra líkamstjóns voru metnar eða vegna þess að hann hafi skipt um starf og náð fullri atvinnuþátttöku í nýju starfi eða hann af öðrum ástæðum náð fullri atvinnuþátttöku. Yfirleitt hlýtur þó varanleg starfsorkuskerðing, sem metin hefur verið vegna fyrra líkamstjóns, að hafa áhrif þegar metin er varanleg örorka vegna síðara líkamstjóns. Á þetta ekki síst við þegar fyrra líkamstjónið hefur verið alvarlegt og leitt til mikillar varanlegrar örorku. Meginreglan er einnig sú að starfsorkuskerðing vegna fyrri slysa eða veikinda hefur engin sérstök áhrif við beitingu 7. gr. skaðabótalaga um ákvörðun árslauna. Hin almenna regla 1. mgr. greinarinnar yrði, eins og í flestum öðrum tilvikum, lögð til grundvallar við ákvörðun árslauna. Er ekki við að búast að skilyrðum til að beita 2. mgr. 7. gr. og meta árslaun sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna sé oftar fullnægt í þeim tilvikum en öðrum. Til þess kann þó að koma, ef aðstæður eru óvenjulegar og sýnt þykir að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

III

Eins og fyrr greinir liðu einungis um sex vikur frá því að áfrýjandi hlaut líkamstjón í vinnuslysi þar til hann varð fyrir öðru líkamstjóni í umferðarslysi. Afleiðingar beggja slysanna, þar með talin varanleg örorka áfrýjanda, voru metnar í sameiginlegri álitsgerð. Í álitsgerðinni segir um mat á afleiðingum slysanna vegna varanlegar starfsorkuskerðingar áfrýjanda meðal annars svo: ,,Með vísan til alls þess er hér að framan greinir telja matsmenn varanlega örorku [áfrýjanda] hæfilega metna samtals 80% sem skiptist þannig að 30% eru vegna fyrra slyssins ... og 50% vegna seinna slyssins ... Hefur þá verið tekið tillit til lögbundinnar tjónstakmörkunarskyldu [áfrýjanda] skv. 2. mgr. 5. gr. skbl. Eins og áður hefur verið vikið að eru slysin tvö bein og einu orsakir missis varanlegrar starfsorku“ áfrýjanda. Ekki verður séð af þeim þætti álitsgerðarinnar sem lýtur að mati á varanlegri örorku að lagt hafi verið sérstakt mat á það hvort og þá með hvaða hætti líkamstjónið vegna fyrra slyssins hafi áhrif á matið á hinu síðara.

Fram er komið að áfrýjanda hafa verið greiddar fullar bætur vegna þess líkamstjóns, sem hann hlaut í fyrra slysinu, þar með talið bætur vegna varanlegrar starfsorkuskerðingar frá batahvörfum 8. febrúar 2012 og út ætlaða starfsævi. Þessar bætur eiga, með þeim reikniaðferðum sem bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt skaðabótalögum eru reistar á, að bæta honum það 30% tekjutap, sem líkindi eru talin á að starfsorkuskerðingin hafi í för með sér frá síðastgreindum degi og til starfsloka, eins og þau eru almennt ákvörðuð. Við ákvörðun bóta vegna þeirrar varanlegu örorku, sem áfrýjandi hlaut af seinna slysinu verður, í ljósi þess hve stutt er á milli slysanna, að leggja til grundvallar að skerðing launatekna áfrýjanda í framtíðinni verði hin sama og hann hefur þegar fengið bætta vegna afleiðinga fyrra slyssins. Áfrýjandi undi því uppgjöri án athugasemda. Taka verður tillit til þess að atvik málsins eru sérstök og jafnframt til þess að mat á varanlegri örorku vegna síðara slyssins er ekki svo séð verði lækkað sérstaklega vegna þeirrar varanlegu örorku sem honum var metin vegna fyrra slyssins. Ekki eru því forsendur til þess að ákvarða árslaun hans á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda fælist í því að við ákvörðun þeirra væri ekkert tillit tekið til þeirrar starfsorkuskerðingar sem hann hlaut í fyrra slysinu og hafði þegar fengið bætta. Hér getur ekki ráðið úrslitum að ekki verður vefengt að áfrýjandi hafði harkað af sér og byrjað að vinna aftur, þótt það reyndist honum erfitt. Við þessar óvenjulegu aðstæður eru skilyrði til þess að ákveða árslaun sérstaklega vegna seinna slyssins samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Áfrýjandi hefur ekki sannað, miðað við þá starfsorkuskerðingu sem honum hefur verið metin vegna fyrra slyssins, en það mat unir hann við, að fjártjón hans hafi verið meira en stefndu hafa þegar bætt honum. Verður því staðfest sú niðurstaða Landsréttar að rétt sé að miða árslaun áfrýjanda við fjárhæð sem sé 30% lægri en þau árslaun, sem miðað var við þegar bætur fyrir varanlega örorku vegna fyrra slyssins voru ákvarðaðar á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Að öllu framansögðu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, einnig um málskostnað og gjafsóknarkostnað.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

 

 

Dómur Landsréttar 21. september 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Oddný Mjöll Arnardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Aðaláfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 23. janúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2017 í málinu nr. E-3734/2016. Aðaláfrýjendur krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Til vara krefjast þeir þess að málskostnaður verði felldur niður. 

2        Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. apríl 2018. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur með þeirri breytingu að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu í héraði óskipt úr hendi aðaláfrýjenda án tillits til gjafsóknar. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Málsatvik og sönnunarfærsla

3        Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram slasaðist gagnáfrýjandi við vinnu 29. desember 2011 og hlaut aftur meiðsl er hann lenti í árekstri á bifreið sinni 9. febrúar 2012. Í máli þessu er deilt um bótauppgjör vegna síðara slyssins. Aðaláfrýjendur viðurkenna bótaskyldu.

4        Aðilar þessa máls, auk Reykjavíkurborgar sem greiddi gagnáfrýjanda bætur vegna fyrra atviksins, öfluðu matsgerðar læknis og lögfræðings um afleiðingar beggja slysanna. Í matsgerðinni var varanleg örorka gagnáfrýjanda samtals metin 80% vegna afleiðinga beggja slysanna, 30% vegna hins fyrra, en 50% vegna þess síðara. Aðilar náðu sátt um öll atriði skaðabótauppgjörs vegna síðara slyssins, þó ekki um tekjuviðmiðun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku. Hinn 13. apríl 2016 greiddi aðaláfrýjandi Vörður tryggingar hf. gagnáfrýjanda bætur í samræmi við tekjur hans á síðustu þremur almanaksárum fyrir slysdag, þó þannig að þær voru lækkaðar um 30% með vísan til þess að lækka bæri tekjuviðmiðun þar sem gagnáfrýjandi hefði hlotið varanlega örorku sem því nam í fyrra slysinu.

5        Í áðurnefndri matsgerð, sem aðilar vilja byggja á, segir að þar sem stuttur tími hafi liðið á milli slysanna verði fjallað um varanlega örorku í einu lagi. Er því lýst að starfsgeta gagnáfrýjanda hafi verið talsvert skert áður en hann lenti í síðara slysinu. Afleiðingar seinna slyssins hafi þó verið verri þar sem gagnáfrýjandi hafi ekki stundað neina launaða vinnu eftir það. Töldu matsmenn varanlega örorku gagnáfrýjanda vera 80% vegna beggja slysanna „sem skiptist þannig að 30% eru vegna fyrra slyssins 29.12.2011 og 50% vegna seinna slyssins 09.02.2012“.

6        Gagnáfrýjandi kom fyrir Landsrétt. Hann sagði að eftir slysið í desember 2011 hefði hann verið frá vinnu í einn mánuð. Þá hafi hann ákveðið að hann væri nógu hress til að mæta til vinnu. Hann hefði þó ekki verið búinn að ná sér og vinnan verið honum erfið. Hefði hann þurft að styðja sig við veggi og fundið fyrir verkjum. Allt að einu hefði hann sinnt starfi sínu að fullu og tekið allar vaktir fram að síðara slysinu 9. febrúar 2012. Kvaðst hann ekki hafa litið á sig sem öryrkja eftir fyrra óhappið.

7        Gagnáfrýjandi hóf meðferð hjá sjúkraþjálfara 1. febrúar 2012, skömmu fyrir síðara slysið. Í skýrslu sjúkraþjálfarans 24. nóvember 2013 segir: „Árangur meðferðar var mjög góður eftir vinnuslysið sem hann lenti í 29. desember 2011 og varð [gagnáfrýjandi] fljótt verkjaminni þó svo hann hafi ekki alveg verið verkjalaus og ekki vinnufær. Lendir svo í umferðarslysi 9. febrúar 2012. Við þann áverka snöggversnar hann í öllu baki og hálsi og varð allur mjög aumur í baki, hálsinum og út í herðar og fætur.‟

Málsástæður aðila

8        Aðilar byggja á sömu málsástæðum og lýst er í hinum áfrýjaða dómi. Aðaláfrýjendur byggja einkum á því að þar sem starfsorka gagnáfrýjanda hafi verið skert um 30% þegar hann varð fyrir því slysi sem fjallað er um í þessu máli, beri að lækka tekjuviðmiðun samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um sama hlutfall. 

9        Gagnáfrýjandi byggir aðallega á því að hann hafi getað haldið áfram fyrra starfi þrátt fyrir meiðsl þau er hann hlaut 29. desember 2011. Bendir hann á að hann hafi verið kominn aftur til starfa er slysið varð 9. febrúar 2012 og unnið fulla vinnu. Ekkert bendi til annars en að hann hefði haldið áfram í sama starfi. Því beri að reikna honum bætur í samræmi við tekjur hans síðustu þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Niðurstaða

10      Gagnáfrýjandi slasaðist illa í tvígang og hafði mat á varanlegum afleiðingum fyrra slyssins ekki farið fram er hann slasaðist á ný. Í áðurnefndri matsgerð er talið að hann hafi hlotið 30% varanlega örorku við fyrra slysið. Aðilar byggja mál sitt á þessari matsgerð og ekkert hefur verið lagt fram í málinu sem getur hnekkt matinu. Verður því að leggja til grundvallar að geta gagnáfrýjanda til að afla vinnutekna hafi verið varanlega skert sem þessu nemur er hann varð fyrir síðara slysinu 9. febrúar 2012. Verður því að fallast á það með aðaláfrýjendum að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem reikna verði með því að tekjur gagnáfrýjanda hefðu skerst vegna fyrra slyssins og að fullar tekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir fyrra slysið séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Verður að miða árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku gagnáfrýjanda við 70% af tekjum hans síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið. Ágreiningur er ekki um fjárhæðir.

11      Samkvæmt framansögðu hafa aðaláfrýjendur þegar bætt tjón gagnáfrýjanda að fullu og verða þeir sýknaðir af kröfum hans.

12      Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur. 

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Vörður tryggingar hf. og B, eru sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 27. október 2017

I.

Mál þetta sem höfðað var hinn 6. desember 2016, var dómtekið 4. október sl. Stefnandi er A til heimilis að […] í Reykjavík, en stefndu eru Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík og B, […], Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt 3.974.115 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.974.115 krónum, frá 9. ágúst 2012 til 8. júlí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk greiðslu málskostnaðar.

II.

Í máli þessu er deilt um hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem stefnandi hlaut í umferðarslysi í febrúar árið 2012. Tildrög umferðarslyssins voru með þeim hætti að bifreiðinni […] var ekið inn í hlið bifreiðarinnar […] sem stefnandi ók. Í læknabréfi Slysadeildar eru sjúkdómsgreiningar vegna afleiðinga slyssins svofelldar: rifbrot, tognun, ofreynsla á brjósthrygg og tognun og ofreynsla á lendhrygg o.fl.

            Rúmum mánuði fyrir umferðarslysið eða hinn 29. desember 2011, hafði stefnandi lent í vinnuslysi. Var stefnandi frá störfum af þeim sökum til 20. janúar 2012. Hann mætti aftur til vinnu hinn 25. janúar sama mánaðar og hafði tekið aftur við sínu fyrra starfi á sambýli fyrir fatlaða þegar hann lendir í umferðarslysinu hinn 9. febrúar 2012.

            Stefnandi gekkst undir mat á afleiðingum beggja slysanna hjá þeim C lækni og D hrl. Stóðu stefnandi og stefndi Vörður tryggingar ehf. sameiginlega að öflun matsgerðarinnar vegna afleiðinga umferðarslyssins, en að matinu stóð einnig Reykjavíkurborg.

            Í niðurstöðum matsgerðarinnar, sem dags. er 22. maí 2015, var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna vinnuslyssins 29. desember 2011 væri 17 stig og varanleg örorka 30%. Samkomulag var um bótauppgjör vegna vinnuslyssins. Er það því ekki til frekari umfjöllunar í máli þessu.

            Niðurstaða matsins vegna umferðarslyssins 9. febrúar 2012, var sú að varanlegur miski stefnanda var talinn 20 stig og varanleg öroka 50%. Var það jafnframt niðurstaða matsmanna að stefnandi hefði ekki getað vænst frekari bata eftir 9. ágúst 2012.           

            Málsaðilar voru sammála um að leggja matsgerðina til grundvallar uppgjöri bóta, en ágreiningur þeirra lýtur að því hvaða tekjuviðmið beri að leggja til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku stefnanda.

            Á grundvelli matsgerðarinnar krafði stefnandi stefnda, Vörð tryggingar ehf., um greiðslu bóta miðað við tekjur hans á árunum 2009-2011.

            Stefndi, Vörður tryggingar ehf., hafnaði kröfu stefnanda og taldi að óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Segir nánar í tölvuskeyti tryggingafélagsins til stefnanda að þar sem stefnandi hafi lent í vinnuslysi á árinu fyrir umferðarslysið, telji félagið rétt að skerða viðmiðunarlaun hans um 30% sem svari til varanlegrar örorku hans eftir vinnuslysið hinn 29. desember 2011.

            Ekki náðist samkomulag um bótauppgjörið og fékk stefnandi greiddar bætur vegna afleiðinga umferðarslyssins úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] stefnda, Verði tryggingum ehf., þar sem viðmiðunarlaun voru færð niður um 30% vegna varanlegrar örorku.

            Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Tók hann m.a. fram að hann hefði verið frá vinnu í kjölfar vinnuslyssins í um þrjár vikur. Í fyrra slysinu hafi hann tognað á baki og hafi það tekið hann um 2-3 vikur að komast á réttan kjöl. Hann hafi talið sig vinnufæran og hafi hann sinnt öllum sínum vinnuskyldum þegar hann kom aftur til starfa. Vinnuhlutfall hans hafi ekki verið skert þegar hann kom aftur til vinnu og það hafi heldur ekki staðið til í hans huga. Hann hafi ekki reiknaði með öðru eftir fyrra slysið en að hann yrði með tímanum hress. Hann sinnti öllum sínum vinnuskyldum þegar hann kom til baka, en eftir bílslysið hafi líf hans alveg breyst og hann sé skráður öryrki í dag. 

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku sem hann hlaut í umferðarslysinu hinn 9. febrúar 2012, beri að styðjast við meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þ.e. miða við meðaltekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag að viðbættu 11,5% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.

            Stefnandi hafnar því að óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna hafi verið fyrir hendi áður en hann lenti í umferðarslysinu. Stefnandi hafi markað sér ákveðinn starfsvettvang og að hann hafi haft fulla starfsorku fram að slysinu. Ekkert hafi bent til annars en að hann héldi starfi sínu áfram. Stuttur tími hafi liðið á milli slysanna eða rúmur mánuður og hafi hann verið byrjaður að vinna aftur eftir vinnuslysið þegar hann lenti í umferðarslysinu. Þannig hafi ekki verið útséð um að hann gæti haldið fullri starfsgetu þegar hann varð fyrir seinna slysinu. Telur stefnandi að ekki verði séð hvernig umrædd meðallaun gefi ekki rétta mynd af þeim framtíðartekjum sem hann hefði haft ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu.

            Stefnandi sundurliðar dómkröfu sínar svo:

 

            Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. (50%)        13.247.045 krónur

            Árslaun 4.916.328x5,389x50%                     

            Eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris (40%)     1.702.934 krónur

            Innborgun stefnda                                          7.569.996 krónur

Heildarbætur                                                  3.974.115 krónur

 

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 3.974.115 krónum frá batahvörfum 9. ágúst 2012 til 8. júlí 2015, eða mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu telja að stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt vegna varanlegrar örorku úr hendi stefndu.

            Stefndu telja að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þannig að viðmiðunartekjur stefnanda þremur árum fyrir umferðarslysið séu ekki réttur mælikvarði á framtíðartekjur hans.

            Stefndu taka fram að stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi í desember árið 2011 og hafi verið metinn til 30% varanlegrar örorku vegna slyssins. Engin reynsla hafi verið komin á vinnugetu stefnanda eftir það slys, þegar hann lenti í umferðarslysi hinn 9. febrúar 2012. Því séu fyrir hendi óvenjulegar aðstæður á viðmiðunartímabilinu, þremur árum fyrir slysið, þar sem stefnandi hafi verið metinn til hárrar varanlegrar örorku vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir eftir að viðmiðunartímabilið var liðið. Telja stefndu að af þessum sökum geti stefnandi ekki krafist þess að full meðallaun hans þremur árum fyrir slysið verði lögð til grundvallar útreikningi á varnalegri örorku hans, þegar hann var með fulla og óskerta vinnugetu. Óvenjulegar aðstæður í lífi stefnanda vegna vinnuslyssins leiði til þess að þær viðmiðunartekjur séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans, þegar það liggi fyrir að stefnandi hafi aðeins verið með 70% vinnugetu þegar hann lenti í umferðarslysinu. Matsmenn hafi metið afleiðingar vinnuslyssins á heilsufar stefnanda til 30% varanlegrar örorku. Telja stefndu með vísan til þess að tekjur stefnanda eins og þær voru þremur árum fyrir slysið, að teknu tilliti til 30% skerðingar á viðmiðunartekjum vegna fyrra heilsufars hans, séu réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Telja stefndu að verði fallist á túlkun stefnanda þá fái stefnandi tjón sitt vegna varanlegrar örorku tvíbætt, annars vegar úr hendi stefndu og hins vegar frá Reykjavíkurborg. Slík niðurstaða sé í andstöðu við sjónarmið skaðabótareglna um að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og ef tjónið hefði ekki orðið, en ekki betur settan.

            Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta, þar sem ekki hafi legið fyrir upplýsingar frá lífeyrissjóði og að beðið hafi verið eftir útreikningi tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sem draga skyldi frá bótakröfunni, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þeirra gagna aflaði lögmaður stefnanda og hafi upplýsingarnar fyrst legið fyrir 20. nóvember 2015. Þá fyrst hafi legið fyrir upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta fjárhæð bóta í skilningi 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og beri því að miða upphafstíma dráttarvaxta í fyrsta lagi við 20. desember 2015, þegar mánuður var liðinn frá því að gögnin bárust stefnda.

IV.

Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem stefnandi hlaut í umferðarslysi í febrúar árið 2012. Stefnandi telur að miða beri við árslaun hans óskert eins og þau voru þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Stefndu telja að lækka beri viðmiðunartekjur um 30%, vegna varanlegrar örorku sem stefnandi hlaut í kjölfar vinnuslyss sem hann varð fyrir í lok desember árið 2011, eða rúmum mánuði áður en hann varð fyrir umferðarslysinu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.

            Ágreiningur aðila snýst því um það hvort fyrra tjónsatvik, sem metið var til 30% varanlegrar örorku stefnanda, hafi haft slík áhrif á getu stefnanda til að afla launatekna í framtíðinni að skerða beri árslaun hans á viðmiðunartímabilinu um 30% vegna síðara slyssins. Fram er komið að stefnandi var kominn aftur til vinnu þegar hann lenti í síðara slysinu. Bar stefnandi, m.a. fyrir dóminum að hann hefði talið sig vinnufæran eftir fyrra slysið og að hann hefði sinnt öllum sínum vinnuskyldum þegar hann kom til baka úr veikindaleyfi. Vinnuhlutfall hans hafi með öðrum orðum ekki verið skert og það hafi heldur ekki staðið til í hans huga. Hann hafi ekki reiknaði með öðru en að hann yrði með tímanum hress eftir fyrra slysið.

            Eins og áður greinir styðst mat á varanlegri örorku stefnanda við matsgerð sem málsaðilar öfluðu sameiginlega. Á þeim tíma sem stefnandi lenti í umferðarslysinu lá ekki fyrir hvaða áhrif fyrra slysið hefði á tekjuöflunarmöguleika hans til framtíðar. Það lá þó ljóst fyrir að stefnandi hygðist halda áfram því starfi sem hann hafði gegnt um árabil og var kominn aftur til óskertrar vinnu þegar hann lenti í umferðarslysinu. Í ljósi þessa telur dómurinn ekki hægt að fullyrða og því sé ósannað að vinnuslys stefnanda í desember 2011 hafi skert atvinnutekjur hans til framtíðar um 30%. Að þessu virtu verður að telja að tekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slys gefi réttasta mynd af aflahæfi stefnanda á tjónsdegi.

            Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Þann 20. nóvember 2015, sendi stefnandi stefndu upplýsingar um útreikning tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sem draga skyldi frá bótakröfunni. Með vísan til þess er kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta hafnað.

            Samkvæmt framansögðu eru stefndu dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 3.974.115 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.974.115 krónum, frá 9. ágúst 2012 til 20. desember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.

            Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Innanríkisráðuneytið veitti stefnanda gjafsóknarleyfi 22. nóvember 2016. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 900.000 krónur.

            Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Stefndu, Verði tryggingum hf. og B, ber að greiða stefnanda, A, óskipt 3.974.115 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.974.115 krónum frá 9. ágúst 2012 til 20. desember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

            Málskostnaður milli aðila fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.