Print

Mál nr. 774/2016

Gyða Þórdís Þórarinsdóttir, Jóhannes Valgeir Reynisson, Kristinn G. Þórarinsson og Guðrún Hjaltalín Jóhannsdóttir (Kristján Stefánsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Tryggingarbréf
  • Veðréttindi
  • Aðfararheimild
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
L hf. höfðaði mál á hendur G o.fl. og krafðist þess að sér yrði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í eignarhlutum þeirra í nánar tilgreindum fasteignum á grundvelli tveggja tryggingarbréfa. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem í dómkröfu L hf. var ekki tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu hann krefðist að sér yrði heimilað að gera fjárnám, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. september 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. október 2016 og áfrýjuðu þau öðru sinni 21. nóvember sama ár. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnda. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir áfrýjun héraðsdóms var bú áfrýjandans Kristins G. Þórarinssonar tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016. Áfrýjandinn vísar um heimild til reksturs málsins í eigin nafni, en til hagsbóta búinu, sbr. 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til samþykkis skiptastjóra 4. janúar 2017.

Í máli þessu krefst stefndi þess að sér verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í eignarhluta áfrýjendanna Gyðu Þórdísar Þórarinsdóttur og Jóhannesar Valgeirs Reynissonar í fasteigninni að Vesturfold 48 í Reykjavík og veðrétt sinn í eignarhluta áfrýjendanna Guðrúnar Hjaltalín Jóhannsdóttur og Kristins G. Þórarinssonar í fasteigninni að Bakkastöðum 17 í Reykjavík á grundvelli nánar tilgreindra tryggingarbréfa, en þau standi til tryggingar fjárskuldbindingum GKS eigna ehf. við stefnda samkvæmt „lánssamningi nr. 9318, útg. 10.09.2007, að fjárhæð kr. 356.825.284,-.“

Í dómkröfu stefnda er ekki tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu hann krefst að sér verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétti sína samkvæmt fyrrgreindum tryggingarbréfum. Vegna þessa óskýrleika kröfugerðarinnar verður málinu vísað frá héraðsdómi, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjendum málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjendum, Gyðu Þórdísi Þórarinsdóttur, Jóhannesi Valgeiri Reynissyni, Guðrúnu Hjaltalín Jóhannsdóttur og Kristni G. Þórarinssyni, hverju fyrir sig, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur10. júní 2016

                Mál þetta, sem var dómtekið 18. maí sl., var höfðað með birtingu stefnu 14. og 21. október 2014 af stefnanda, Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík á hendur stefndu, Gyðu Þórdísi Þórarinsdóttur og Jóhannesi Valgeiri Reynissyni, báðum til heimils að Vesturfold 48 í Reykjavík og Kristni G. Þórarinssyni og Guðrúnu Hjaltalín Jóhannsdóttur, báðum til heimilis að Bakkastöðum 17 í Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum stefndu Gyðu Þórdísar og Jóhannesar Valgeirs í fasteigninni Vesturfold 48, Reykjavík, fastanúmer 204-0501, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0115-63-150891, útgefnu 14. september 2007, að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá 273,1 stig, sem sett var til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum GKS eigna ehf. við stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 9318, útg. 10. september 2007, að fjárhæð 356.825.284 krónur. Jafnframt krefst stefnandi þess að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum stefndu Kristins og Guðrúnar í fasteigninni Bakkastöðum 17, Reykjavík, fastanúmer 224-0801, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0115-63-150890, útgefnu 10. september 2007, að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá 273,1 stig, sem sett var til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum GKS eigna ehf. við stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 9318, útg. 10. september 2007, að fjárhæð 356.825.284 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar til handa hverju þeirra um sig, auk virðisaukaskatts.

                Stefndu kröfðust upphaflega frávísunar málsins en með úrskurði dómsins 8. maí 2015 var kröfunni hafnað.

I

                Einkahlutafélagið GKS eignir keypti fasteignirnar Gerplustræti 13-15, 17-19 og 21-23 af félaginu HFH hf. árið 2007 á 302.400.000 krónur. Landsbanki Íslands hf. og GKS eignir ehf. gerðu þann 10. september 2007 með sér lánssamning nr. 9318 vegna þessara kaupa. Lánið var að jafnvirði 302.400.000 krónur í hlutföllunum og myntunum 50% svissneskur franki, 25% japanskt jen og 25% Bandaríkjadollar. Lánstími var eitt ár og skyldi lánið greiðast að fullu með einni greiðslu afborgunar og áfallinna vaxta í lok lánstímans 28. ágúst 2008. Vextir skyldu vera breytilegir, jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,5% vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi og greiðast eftir á á gjalddögum. Við vaxtaútreikning skyldi taka mið af þeim vaxtareglum er varði dagsfjölda sem í gildi voru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma.

                Skilmálabreyting var gerð á lánssamningnum með viðauka 4. september 2008. Þar kom fram að eftirstöðvar lánsins 28. ágúst 2008 voru 2.907.280,44 svissneskir frankar, 1.250.823,43 Bandaríkjadollarar og 137.257.761 japanskt jen. Með viðaukanum var lánstímanum breytt þannig að greiða bar lánið 8. október 2008. Vextir skyldu reiknast frá 28. ágúst 2008.

                Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánssamningsins gaf GKS eignir ehf. út tryggingarbréf nr. 0115-63-150890 þann 10. september 2007 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við stefnanda, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs m.v. grunnvísitöluna 273,1 við undirritun. Með bréfinu var fasteignin Bakkastaðir 17 í Reykjavík, fastanúmer 224-0801, sett að veði. Stefndu Kristinn og Guðrún eru þinglýstir eigendur fasteignarinnar og samþykktu þau veðsetninguna með undirritun sinni. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins 19. september 2014 var 15.455.877 krónur.

                Þá gaf GKS eignir ehf. út annað tryggingarbréf, nr. 0115-63-150891 þann 14. september 2007 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við stefnanda, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitöluna 273,1 við undirritun. Með bréfinu var fasteignin Vesturfold 48 í Reykjavík, fastanúmer 204-0501, sett að veði. Stefndu Gyða Þórdís og Jóhannes Valgeir eru þinglýstir eigendur fasteignarinnar og rituðu þau undir skjalið til samþykkis veðsetningunni. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins 19. september 2014 var 15.455.877 krónur.

                Þann 17. maí 2010 var gerður kaupsamningur og afsal milli GKS eigna ehf. og Hamla 1 ehf., dótturfélags stefnanda, um fasteignirnar að Gerplustræti. Samkvæmt samningnum keyptu Hömlur 1 ehf. fasteignirnar á 90.000.000 króna.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2010 var bú GKS eigna ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi lýsti kröfum í þrotabúið að fjárhæð 1.278.002.799 krónur á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991, en eftirstöðvum samkvæmt 113. og 114. gr. laganna. Skiptum lauk í þrotabúinu 17. desember 2010 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

                Óumdeilt er að stefnandi hefur tekið við réttindum samkvæmt framangreindum lánssamningi og tryggingarbréfum.

 II

                Stefnandi byggir kröfur sínar á lánssamningi nr. 9318 og tryggingarbréfum nr. nr. 0115-63-150891 og 0115-63-150890 og skilmálum þeirra. Skuld samkvæmt lánssamningnum hafi gjaldfallið við töku bús GKS eigna ehf. til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Uppgreiðsluverðmæti samningsins á úrskurðardegi hafi verið 1.232.613.112 krónur. Stefnandi hafi lýst kröfum í búið en engar eignir hafi fundist og skiptum hafi lokið í því með formlegum hætti 17. desember 2013, skv. 155. gr. laga nr. 21/1991, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

                Við þær aðstæður sem hafi skapast þegar héraðsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði um gengistryggingu lána væri ólögmæt verðtrygging hafi það verið talinn réttur lántakenda og ábyrgðarmanna að þurfa ekki að þola fullnustuaðgerðir af hálfu kröfuhafa sinna á meðan réttaróvissa ríkti í tengslum við lögmæti lána þeirra. Í kjölfar dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hafi bankinn endurreiknað lán viðskiptavina sinna í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010 sem hafi m.a. falið í sér breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það hafi verið mat stefnanda að lán nr. 9318 fæli í sér slíka gengistryggingu. Eftirstöðvar lánsins hafi því verið endurreiknaðar í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birti. Eftirstöðvar lánsins fyrir útreikning hafi verið 1.011.483.500 krónur en eftir endurútreikning 356.825.284 krónur. Endurútreikningurinn hafi miðast við 29. ágúst 2011. Lántakanda, GKS eignum ehf., hafi verið sent bréf með þessari niðurstöðu, dags. 30. ágúst 2011. Fram komi í bréfinu að eftirstöðvar eftir endurútreikning myndi nýjan höfuðstól lánsins og að þar sem breytingar á láninu hafi verið framkvæmdar í samræmi við ákvæði vaxtalaga þurfi ekki að gera skriflegan viðauka við lánið. Með dómum Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðslukvittanir hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og að endurútreikningur lána hefði átt að taka mið af því. Þar sem aldrei hafi verið greitt af láni nr. 9318 séu engar fullnaðarkvittanir til. Það sé því mat bankans að ekki hafi þurft að leiðrétta endurútreikninginn frekar. Í ljósi framangreinds sé tekið mið af nýrri stöðu lánsins í kröfum stefnanda.

                Stefnandi byggi á því að kröfur hans á hendur GKS eignum ehf. njóti veðréttar í framangreindum fasteignum stefndu á grundvelli tryggingarbréfa nr. 0115-63-150891 og 0115-63-150890. GKS eignir ehf. skuldi stefnanda meira en sem nemi hámarki tryggingarbréfanna og því beri að heimila stefnanda að gera fjárnám inn í þá veðrétti sem stefnandi eigi í eignarhlutum stefndu í fasteignum þeirra fyrir kröfum sínum. Ekki sé unnt að höfða mál gegn skuldara lánssamningsins, GKS eignum ehf. Stefnandi hafi ekki tryggt sér aðfararhæfa kröfu á hendur GKS eignum ehf. áður en bú þess hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Honum sé því nauðsyn á að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í umræddum fasteignum stefndu að því marki sem veðtryggingarnar taki til dómkrafnanna samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfanna. Í báðum tilfellum sé um að ræða allsherjarveð og því ekki unnt að fara beint í aðför samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli þess.

III

                Stefndu reisa sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að um aðildarskort sé að ræða. Skuldskeyting hafi orðið á lánasamningi nr. 9318 með samningi, dags. 17. maí 2010. Aðalskuldari áhvílandi veðskulda hafi þar orðið Hömlur 1 ehf. GKS ehf. hafi gengið til fullnaðaruppgjörs við stefnanda með því að afsala öllum eignum félagsins til dótturfélags stefnanda að hans frumkvæði. Hömlur 1 ehf. hafi með samningnum tekist á hendur skyldur veðsala og skuldara, en í 7. gr. samningsins segi: „Með því að kaupandi, Hömlur 1 ehf. hefur yfirtekið framangreindar veðskuldir og þar með staðið seljanda, GKS eignir ehf. full skil á kaupverði ...“ Uppgefið kaupverð hafi verið 90.000.000 króna sem nemi tæplega 30% af kaupverði samkvæmt kaupsamningi milli GKS eigna ehf. og HFH hf., en það hafi verið til málamynda. Af samningnum megi ráða að kaupverðið hafi verið hærra en höfuðstólsfjárhæð skuldar GKS eigna ehf. en endanlegir endurútreikningar hafi ekki farið fram.

                Þar sem nýr aðalskuldari hafi komið að láninu falli skuldbindingar ábyrgðarmanna og veðsala niður nema þeir samþykki annað. Ef stefnandi telur enn fram kröfu vegna lánssamningsins sé byggt á því að veðsalar hafi ekki veitt samþykki sitt og því verði ekki gengið að fasteignum veðsala eftir skuldaraskipti. Stefnanda hafi því borið að aflýsa bréfunum af fasteignum stefndu. Eftir skuldskeytinguna eigi stefndu ekki aðild að málinu.

                Þá sé jafnframt byggt á því að ábyrgð stefndu hafi fallið niður þegar viðauki var undirritaður þann 4. september 2008 án þess að aflað væri samþykkis stefndu. Þá hafi ábyrgð stefndu verið felld niður með því að Þórarinn Kristinsson hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 75.000.000 króna. Stefnandi hafi fallið frá kröfum á hendur Þórarni og ábyrgð annarra ábyrgðarmanna hafi því fallið niður, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

                GKS eignir ehf. hafi gengið til fullnaðaruppgjörs við stefnanda með framangreindum samningi. Það verði ráðið af orðanna hljóðan þrátt fyrir villandi framsetningu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á vanskil Hamla 1 ehf. eða að félagið hafi vanhaldið skyldur sínar. Stefndu hafi aldrei móttekið neinar tilkynningar um vanskil. Byggt sé á því að lánssamningurinn sé uppgreiddur. Stefndu hafi ekki fallist á áframhaldandi veðsölu vegna skuldskeytingar þótt stefndu Kristinn og Gyða hafi ritað undir fyrir hönd GKS eigna ehf., en þau hafi ritað firmað.

                Stefndu eða GKS eignir ehf. hafi ekki haft neina aðkomu að ráðstöfun veðanna að Gerplustræti. Stefnandi hafi ekki greint frá því hvernig Hömlur 1 ehf. hafi rækt skyldur sínar sem veðsali. Skyldur veðsala séu ríkar og varði helst að tryggja verðmæti eigna. Hömlur 1 ehf. hafi tekist á hendur skyldur veðsala. Samþykki lánveitandi að veð standi ekki lengur til tryggingar efndum samnings þannig að staða ábyrgðarmanna versni til muna falli ábyrgðir þeirra niður, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009. Stefndu verði ekki bundin af málamyndagerningum stefnanda þar sem eignir séu seldar óvenjulega lágu verði.

                Þá telja stefndu að kaupsamningur og afsal frá 17. maí 2010 sé svo óskýr og villandi að það sé ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Því beri að túlka hann stefndu í hag eða breyta ákvæðum hans þannig að skyldur stefndu falli niður, eins og stefndu hafi mátt ætla af orðalagi hans. Horfa verði til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verulegur aðstöðumunur hafi verið á aðilum við samningsgerðina auk þess sem hún hafi öll verið á hendi stefnanda.

                Jafnframt verði að líta til laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa varðandi sölu fasteignanna að Gerplustræti til Hamla 1 ehf. Stefnandi hafi verið milligönguaðili við söluna, sbr. 1. gr. laganna, og hafi því borið að fara eftir þeim lögum, ekki síst 15. gr. um góða starfshætti, sem áskilji að gæta þurfi hagsmuna beggja aðila og sjá til þess að aðila séu ekki settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningnum. Orðalag kaupsamningsins og afsalsins sé óskýrt og óeðlilegt. Einnig verði að líta til 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en þar sé fjallað um góðar venjur og viðskiptahætti. Það geti ekki talist til góðra viðskiptahátta að byggja rétt á tryggingarbréfum þegar aðili megi með réttu ætla að fjárskuldbinding hafi verið gerð upp fyrir tilstuðlan fjármálafyrirtækisins sjálfs.

                Þá beri að líta til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en lögin taki jafnframt til veðsala. Stefnandi hafi vanrækt að kynna stefndu afstöðu sína fram til júní 2014. Þannig hafi þau ekki fengið tilkynningar í samræmi við 7. gr. laganna.

                Stefndu byggi jafnframt á því að krafa að baki tryggingarbréfinu sé fyrnd. Hún hafi fyrnst frá lokum gjaldþrotaskipta á tveimur árum frá skiptalokum að telja, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan hafi því verið fyrnd 30. desember 2012 þótt veðrétturinn haldi.

                Þá byggi stefndu á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við að hirða um kröfur sínar. Stefndu Kristinn og Guðrún hafi gengið í gegnum endurskipulagningu skulda sinna hjá stefnanda án þess að fjallað hafi verið um þessa kröfu. Ráðstöfun veða að Gerplustræti hafi ekki verið í samráði við stefndu þrátt fyrir hagsmuni þeirra. Þá hafi stefndu ekki verið kynnt að stefnandi teldi þau enn til ábyrgðarmanna.

                Að lokum krefjist stefndu lækkunar á fjárkröfu stefnanda með vísan til innborgana.

                                                                                              IV

                GKS eignir ehf. gaf út tvö tryggingarbréf, 10. og 14. september 2007 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sínum við Landsbanka Íslands hf., nú eða síðar, í hvaða formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er. Var fjárhæð beggja tryggingarbréfanna 10.000.000 króna auk dráttarvaxta, verðbóta og kostnaðar. Voru bankanum settar að veði tvær fasteignir. Samkvæmt öðru tryggingarbréfinu var um að ræða fasteignina að Vesturfold 48 í Reykjavík og var tryggingarbréfið áritað um samþykki þinglýstra eigenda, stefndu Gyðu Þórdísar og Jóhannesar Valgeirs. Samkvæmt hinu tryggingarbréfinu var fasteignin að Bakkastöðum 17 í Reykjavík sett að veði og undirrituðu þinglýstir eigendur fasteignarinnar, stefndu Kristinn og Guðrún, bréfið til samþykkis veðsetningunni. Stefnandi krefst þess að honum verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í fasteignum stefndu samkvæmt tryggingarbréfunum. Byggir stefnandi á því að lánið sé ekki að fullu greitt og ekki hafi fengist greiðsla upp í skuldina við gjaldþrotaskipti GKS eigna ehf.

                Sýknukrafa stefndu byggist í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að ræða. Nýr aðalskuldari hafi komið að láninu við yfirtöku Hamla 1 ehf. Með kaupsamningi og afsali, dags. 17. maí 2010, seldi og afsalaði GKS eignir ehf. fasteignunum að Gerplustræti 13-15, 17-19 og 21-23 til Hamla 1 ehf. Stefndu Kristinn og Gyða Þórdís lýstu því bæði fyrir dóminum að þau hefðu verið boðuð á fund hjá Landsbanka Íslands hf. þar sem kaupsamningurinn og afsalið hafi verið tilbúið, en bankinn hafi tekið eignir félagsins á 90.000.000 króna og þau hafi ekkert haft um þá fjárhæð að segja. Þau hafi bæði litið svo á að um fullnaðaruppgjör vegna skulda félagsins hafi verið að ræða og þau væru því laus allra mála.

                GKS eignir ehf. keypti fasteignirnar að Gerplustræti á 302.400.000 krónur og tók lán hjá Landsbanka Íslands hf. fyrir allri þeirri fjárhæð. Um byggingarlóðir var að ræða og hugðist félagið reisa íbúðarhúsnæði á lóðunum. Ekkert varð hins vegar af þeim framkvæmdum. Þegar kaupsamningurinn við Hömlur 1 ehf. var gerður, 17. maí 2010, var lánið í vanskilum og var staða þess yfir 1.000.000.000 króna. Samkvæmt samningnum voru fasteignirnar keyptar á 90.000.000 króna með yfirtöku kaupanda á skyldum veðsala samkvæmt veðskuldum. Stefndu telja að verðið hafi einungis verið sett inn til málamynda, enda nemi það einungis um 30% af upphaflegu kaupverði. Í málinu liggur frammi tölvuskeyti fasteignasala til starfsmanns stefnanda, dags. 28. maí 2010, þar sem fram kemur að verðmat fasteignasölunnar sé 25.000.000 króna fyrir hverja lóð. Þá liggur frammi útprentun úr fasteignaskrá þar sem fasteignamat hverrar lóðar, á þessu ári, er skráð rúmlega 28.000.000 króna, en við gerð kaupsamningsins var það rúmlega 15.000.000 króna af hverri lóð. Með hliðsjón af þessu þykja stefndu ekki hafa sýnt fram á að um ósanngjarnt verð sé að ræða.

                Stefndu telja að Höldur 1 ehf. hafi tekist á hendur skyldur veðsala og skuldara með framangreindum kaupsamningi og afsali. Í 5. gr. samningsins er fjallað um veðbönd og kvaðir. Þar kemur fram að lóðirnar séu seldar án annarra kvaða en komi fram í veðbandayfirliti. Kaupandi yfirtaki skyldur veðsala vegna allra áhvílandi veðskulda, en þar sé um að ræða tryggingarbréf að fjárhæð 362.400.000 krónur, dags. 10. september 2007, með skjalnúmerið 411-U-010282/2007 sem hvíli á öllum eignunum. Ekki er því um það að ræða að skuld samkvæmt lánssamningi 9318 eða aðrar skuldir GKS eigna ehf. hafi verið teknar yfir. Er stefndu því ekki hald í framangreindri málsástæðu og var engin ástæða til þess að leita samþykkis stefndu vegna þessa.

                Stefnandi hefur gert grein fyrir því í gögnum málsins hvernig framangreindri greiðslu var ráðstafað inn á skuldir GKS eigna ehf. Þá hefur verið gerð grein fyrir öðrum innborgunum og endurútreikningi. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að kaupverðið hafi í raun verið hærra en höfuðstólsfjárhæð skuldarinnar eins og þau halda fram. Þá kom fram hjá stefndu fyrir dóminum að þau hefðu ekki ritað undir önnur skjöl en kaupsamninginn og afsalið. Er því ekkert sem bendir til þess að gengið hafi verið frá einhvers konar fullnaðaruppgjöri eða að líta beri á kaupsamning og afsal frá 17. maí 2010 sem slíkt.

                Stefndu byggja jafnframt á því að ábyrgð þeirra hafi fallið niður við undirritun viðauka 4. september 2008 án þeirra samþykkis. Af tryggingarbréfum sem stefndu undirrituðu er ljóst að ekki var þörf samþykkis þeirra fyrir breytingum á skuldbindingum GKS eigna ehf., en með þeim samþykktu þau veðsetningu fasteignar sinnar til tryggingar öllum skuldbindingum GKS eigna ehf. til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við Landsbanka Íslands hf., hvort sem þær væru til staðar nú eða síðar, í hvaða formi sem þær væru, hvenær sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er. Þá var ekki um það að ræða að aukið væri við skuldbindingu stefndu með skilmálabreytingunni heldur var GKS eignum ehf. veittur gjaldfrestur vegna lánsins sem var þegar gjaldfallið. Framangreindri málsástæðu stefndu verður því hafnað.

                Stefndu telja einnig að ábyrgð þeirra hafi fallið niður með því að stefnandi hafi fallið frá kröfum á hendur Þórarni Kristinssyni sem hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar GKS eigna ehf. að fjárhæð 75.000.000 króna, með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að skuldir GKS eigna ehf. hafi fengist greiddar að því marki að þær séu orðnar lægri en uppreiknuð staða tryggingarbréfanna og hafa sjálfskuldarábyrgðir annarra ekki áhrif á skuldbindingar þeirra sem veðsala. Þá verður ekki talið að stefndu séu ábyrgðarmenn í skilningi laga nr. 32/2009. Samkvæmt 2. gr. laganna er með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir að þegar um persónulega ábyrgð ræði standi að meginstefnu til allar eignir viðkomandi til tryggingar efndum lánsins en þegar veitt er veð sé það jafnan tilgreind eign eða eignir. Um samningsveð gildi lög nr. 75/1997, en samkvæmt 19. gr. þeirra öðlast veðréttur réttarvernd við þinglýsingu. Ljóst er því að veðréttindi og persónuleg ábyrgð veðsala þurfa ekki að fara saman eða fylgjast að. Í málinu er ekki gerð fjárkrafa á hendur stefndu heldur er byggt á því að þau séu veðsalar sem hafi samþykkt veðsetningu eigna sinnar án persónulegrar ábyrgðar til tryggingar skuld við stefnanda. Er því um að ræða veðréttindi án persónulegrar ábyrgðar veðsala.

                Stefndu bera því við að þeim hafi ekki borist neinar tilkynningar frá stefnanda um vanskil skuldara og vísa um það til 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Samkvæmt ákvæðinu skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega, svo fljótt sem kostur er, tilkynningu um vanefndir lántaka, um að veð eða aðrar tryggingar séu ekki lengur tiltækar og um andlát lántaka eða hvort bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá skal lánveitandi eftir hver áramót senda upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Stefnandi hefur lagt fram í málinu afrit tilkynninga sem hann kveðst hafa sent stefndu öllum. Er þar að finna innheimtuviðvörun, dags. 25. júní 2014, og innheimtubréf, dags. 5. ágúst 2014. Þá hefur hann einnig lagt fram tilkynningu til ábyrgðarmanns um gjaldþrot skuldara, dags. 8. október 2010, og yfirlit ábyrgða 1. janúar 2011, 1. janúar 2012, 5. janúar 2013, 31. desember 2013 og 3. janúar 2015. Í öllum þessum tilkynningum er stefndu gerð grein fyrir lánsveðinu og hver ábyrgðarfjárhæðin er. Allar framangreindar tilkynningar bera með sér að hafa verið sendar stefndu. Ekki eru gerðar kröfur til þess í lögunum að tilkynningar séu sendar með sannanlegum hætti. Er því ekki unnt að fallast á það með stefndu að þau hafi ekki fengið neinar tilkynningar.

                Stefndu bera því við að kaupsamningur og afsal frá 17. maí 2010 séu svo óskýr og villandi að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda að bera samninginn fyrir sig. Stefndu voru ekki aðilar að samningnum frá 17. maí 2010. Þá verður ekki séð að GKS eignir ehf. hafi gert neinar athugasemdir við samninginn. Það er almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings hafa einir forræði á túlkun hans og framkvæmd og geta einir haft uppi kröfur í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Aðrir, svo sem ábyrgðarmenn á skuldum samningsaðila, eiga almennt ekki aðild að slíkum málum enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Þar sem stefndu voru ekki aðilar að framangreindum samningi geta þau ekki reist kröfur sínar á því að ákveðin framkvæmd eða túlkun hans væri þeim hagfelldari en önnur.

                Stefndu byggja jafnframt á því til stuðnings sýknukröfu sinni að krafan að baki tryggingarbréfinu sé fyrnd. Hún hafi verið fyrnd í árslok 2012, eða tveimur árum eftir skiptalok í þrotabúi GKS eigna ehf. Skuldbinding GKS eigna ehf. byggðist á lánssamningi en krafa samkvæmt honum fyrnist á 10 árum og hefst fyrningarfresturinn á gjalddaga kröfunnar. Allar kröfur á hendur GKS eignum ehf. féllu í gjalddaga við töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndu byggja á því að nýr fyrningarfrestur hafi byrjað að líða við skiptalok í þrotabúi GKS eigna ehf., sem var 17. desember 2010, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en þar segir að þrotamaður beri ábyrgð á skuldum sínum sem fáist ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Við lok gjaldþrotaskipta á búi lögaðila hættir hann að vera til og getur ekki eftir það borið nein réttindi eða skyldur. Einstaklingur ber hins vegar enn ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ljóst er því að 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 á eingöngu við um einstaklinga en ekki lögaðila. Með hliðsjón af framangreindu verður því hafnað að krafa stefnanda sé fyrnd.

                Stefndu byggja enn fremur á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér vanrækslu við að gæta hagsmuna sinna sem leiði til þess að ábyrgð þeirra falli niður, en eins og þegar hefur verið rakið voru stefndu sendar margar tilkynningar vegna málsins.

                Þá er ekkert fram komið í málinu sem getur leitt til þess að það yrði talið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera framangreind tryggingarbréf með veði í fasteignum stefndu fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

                Ekki verður séð að nein efni séu til að taka til greina kröfu um lækkun í málinu, en stefnandi hefur gert fulla grein fyrir ráðstöfun allra innborgana í málinu.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda um að honum verði heimilað fjárnám inn í veðrétt hans í fasteignunum að Vesturfold 48 og Bakkastöðum 17.

                Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Stefnanda, Landsbankanum hf., er heimilt að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum stefndu, Gyðu Þórdísar Þórarinsdóttur og Jóhannesar Valgeirs Reynissonar, í fasteigninni Vesturfold 48, Reykjavík, fastanúmer 204-0501, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0115-63-150891, útgefnu 14. september 2007, að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá 273,1 stig, sem sett var til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum GKS eigna ehf. við stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 9318, útg. 10. september 2007, að fjárhæð 356.825.284 krónur.

                Stefnanda er jafnframt heimilt að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum stefndu, Kristins G. Þórarinssonar og Guðrúnar Hjaltalín Jóhannsdóttur, í fasteigninni Bakkastöðum 17, Reykjavík, fastanúmer 224-0801, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0115-63-150890, útgefnu 10. september 2007, að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá 273,1 stig, sem sett var til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum GKS eigna ehf. við stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 9318, útg. 10. september 2007, að fjárhæð 356.825.284 krónur.

                Stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 krónur í málskostnað.