Print

Mál nr. 121/2017

A og B (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
C (Lára V. Júlíusdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Skiptastjóri
  • Aðfarargerð
Reifun

A og B kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa dánarbús C um að staðfest yrði ákvörðun skiptastjóra um að fram færi könnun á því hvort D, sem C hafði setið í óskiptu búi eftir, hefði átt reikninga við erlenda banka sem væru eign dánarbúsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem ekki lægi annað fyrir en orðrómur um að D hefði átt bankareikninga erlendis hefðu engin efni verið til að skiptastjóri tæki af sjálfsdáðum ákvörðun um að ráðast í umfangsmikla rannsókn á kostnað búsins sem gengi lengra en leiddi af 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Var því tekin til greina krafa A og B um að ákvörðun skiptastjóra yrði felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2017 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að staðfest yrði ákvörðun skiptastjóra um að fram færi könnun á því hvort varnaraðili ætti reikninga við erlenda banka. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að ákvörðun skiptastjóra verði felld úr gildi. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést C [...], en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn D sem andaðist 18. september 1999. Með úrskurði héraðsdóms 12. apríl 2016 var dánarbú C tekið til opinberra skipta. Erfingjar eftir hana eru sóknaraðilar og fimm önnur börn þeirra hjóna, svo og óskipt dánarbú látins sonar þeirra ásamt einum syni þess manns.

Samkvæmt fundargerð frá skiptafundi í varnaraðila 29. apríl 2016 innti skiptastjóri erfingja eftir því hvort innstæður á erlendum bankareikningum væru meðal eigna dánarbúsins. Sóknaraðilar staðhæfðu að svo væri ekki. Aðrir erfingjar sem sóttu fundinn kváðust á hinn bóginn telja sig vita að D hefði átt reikninga í að minnsta kosti fjórum erlendum bönkum, svo og að sóknaraðilar ásamt bróður þeirra, sem nú er látinn, hefðu fengið umboð til að ráðstafa þessum reikningum eftir lát D. Einnig kom fram að þessir erfingjar væru að freista þess að afla upplýsinga um reikningana og vonuðust til „að eitthvað skýrðist í því máli á allra næstu vikum.“

Á næsta skiptafundi 11. ágúst 2016 greindi skiptastjóri frá ákvörðun sinni „um að dánarbúið fylgi eftir könnun“ fyrirtækis með heitinu E „á erlendum bankareikningum sem kunna að vera í eigu búsins.“ Kom fram að ákvörðunin væri tekin á grundvelli 2. mgr. 67. gr., sbr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Kostnaður við þessa könnun myndi nema 35.000 enskum pundum eða sem svaraði um 5.600.000 krónum miðað við gengi á þeim tíma. Sóknaraðilar mótmæltu ákvörðuninni en aðrir erfingjar sem sóttu fundinn lýstu því yfir að þeir „styddu þessa ákvörðun og teldu það skyldu skiptastjóra að hlutast til um að leita allra leiða til að tryggja hagsmuni búsins.“

Þetta málefni var næst tekið fyrir á skiptafundi 25. ágúst 2016 en þá lagði skiptastjóri fram bréf E frá 23. sama mánaðar þar sem lýst var tilhögun á fyrirhuguðu verki auk þess sem bréfinu fylgdu viðskiptaskilmálar fyrirtækisins. Sóknaraðilar ítrekuðu fyrri andmæli sín við því að ráðist yrði í þessa rannsókn á vegum búsins, en aðrir erfingjar sem sóttu fundinn áréttuðu fyrri afstöðu sína. Því næst var bókað í fundargerð að skiptastjóri myndi bera ágreining um þetta undir dóm þar sem erfingjar væru ekki einhuga um ákvörðun hans. Skiptastjóri vísaði málinu síðan til héraðsdóms með bréfi 12. september 2016.

II

 Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 skal skiptastjóri í fyrstu aðgerðum sínum við opinber skipti leita vitneskju um hverjar eignir tilheyri búinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra eða hafi umsjón með þeim. Skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu eigna og taka ef með þarf við umráðum þeirra eða umsjón með þeim, nema hann telji hættulaust að munir búsins verði áfram í vörslu annarra, enda lýsi vörslumaður þá yfir að hann sé fús til að gæta þeirra á eigin áhættu. Í 2. mgr. 67. gr. laganna kemur fram að skiptastjóri skuli í störfum sínum meðal annars gæta þess að kröfur búsins og innstæður verði heimtar inn og að engin réttindi þess fari forgörðum sem haft geti verðgildi.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að nokkuð annað liggi fyrir en orðrómur um að D hafi átt bankareikninga erlendis þegar hann andaðist á árinu 1999. Þannig virðist ekkert hafa verið upplýst um í hvaða löndum eða bönkum slíkir reikningar gætu hafa verið eða um innstæður á þeim. Samkvæmt fundargerðum frá áðurnefndum skiptafundum gerði enginn erfingi kröfu um að skiptastjóri gripi til aðgerða til að kanna þetta frekar. Að þessu gættu voru engin efni til að skiptastjóri tæki af sjálfsdáðum ákvörðun um að ráðast á kostnað dánarbúsins í umfangsmikla rannsókn, sem gengi verulega lengra en leiðir af áðurnefndri 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 og ætla verður að alls sé óljóst hvort skilað gæti nokkrum árangri. Verður þegar af þessum ástæðum að taka til greina kröfu sóknaraðila um að ákvörðun skiptastjóra verði felld úr gildi, en að fenginni þessari niðurstöðu er þá skiptastjóra fært að taka til umfjöllunar á skiptafundi hvort ráðast eigi í könnun af þessum toga og, komi fram um það krafa, að taka ákvörðun um málefnið, sbr. 2. mgr. 68. gr. og 70. gr. laga nr. 20/1991, sem einn eða fleiri erfingjar gætu krafist að beint yrði til héraðsdóms ef ágreiningur stæði um hana milli þeirra, sbr. 3. mgr. 71. gr. sömu laga.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

                                                         Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skiptastjóra um að fela fyrirtækinu E að gera könnun á því hvort varnaraðila, dánarbúi C, kunni að tilheyra innlánsreikningar við erlenda banka.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum, A og B, hvorum fyrir sig samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.                           

                                            

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2017.

Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra 12. september 2016 og var þingfest 6. október 2016, var tekið til úrskurðar 17. janúar sl. Sóknaraðili er dánarbú C. Varnaraðilar eru A og B.

Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að fylgja eftir könnun E um erlenda reikninga í eigu dánarbúsins í samræmi við samþykki skiptafundar 11. og 25. ágúst 2016.

Varnaraðilar krefjast þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun skiptastjóra, sem studd var af hluta erfingja að dánarbúi C, að fylgja eftir könnun E á erlendum bankareikningum, sem kunna að vera í eigu búsins. Þá krefjast varnaraðilar hvor um sig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2016 var bú C, kt. [...], sem lést [...], tekið til opinberra skipta. Sama dag var Lára V. Júlíusdóttir hrl. skipuð skiptastjóri í búinu. Hin látna sat i óskiptu búi eftir eiginmann sinn, D, sem lést á árinu [...].

Fram kemur í beiðni skiptastjóra til dómsins 12. september 2016 að vegna [...] í [...] sl. hafi skiptastjóri spurst fyrir um það á skiptafundi 29. apríl 2016 hvort verið gæti að erlendir bankareikningar kynnu að vera í eigu dánarbúsins. Lögmaður varnaraðila hafi upplýst að umbjóðendum hans væri ekki kunnugt um slíkt. Fulltrúar annarra erfingja á fundinum hafi ekki talið þetta rétt og haldið því fram að til væru reikningar í a.m.k. fjórum erlendum bönkum sem faðir þeirra hefði átt. Upplýst hafi verið að erfingjar væru að reyna að fá vitneskju um þessa reikninga með milligöngu E, erlends fyrirtækis sem sérhæfði sig í slíkri leit, og von væri til þess að eitthvað skýrðist í því máli á allra næstu vikum. Vitað væri að móðir þerra hafi gert tilraunir til að hafa uppi á erlendum bankareikningum eftir lát föður þeirra fyrir um 10 árum en án árangurs.

Á skiptafundi 11. ágúst 2016 greindi skiptastjóri frá þeirri ákvörðun sinni að dánarbúið fylgdi eftir könnun áðurnefnds fyrirtækis. Kostnaður við þá könnun sem skiptastjóri hygðist láta framkvæma væri 35.000 ensk pund sem væru um 5.600.000 krónur. Umboðsmaður tveggja erfingja, A og B, hafi lýst þá andvíga þessu en aðrir erfingjar lýstu því yfir að þeir styddu þessa ákvörðun skiptastjóra. Var þess farið á leit við skiptastjóra að erfingjar fengju í hendur þau gögn sem skiptastjóri hygðist undirrita sem verkbeiðni í þessum tilgangi.

Á skiptafundi 25. ágúst 2016 lagði skiptastjóri fram drög að samkomulagi og skilmála frá hinu erlenda fyrirtæki. Umboðsmaður erfingjanna A og B ítrekaði afstöðu sína um að þeir væru þessir andvígir en aðrir erfingjar ítrekuðu þá afstöðu sína að þeir styddu þessa ákvörðun. Þar sem ekki varð sátt um að fylgja eftir fyrirhugaðri rannsókn á eignum búsins greindi skiptastjóri frá því að hann myndi leita með þann ágreining fyrir héraðsdóm með vísan til 3 mgr. 71. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991. Beiðni skiptastjóra var móttekin í héraðsdómi 12. september 2016. Skiptastjóri kemur fram fyrir hönd búsins í málinu.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili bendir á að í lögum nr. 20/1991 sé á nokkrum stöðum fjallað um skyldur skiptastjóra í búum undir opinberum skiptum.

Þannig komi fram í 1 mgr. 54. gr. þeirra laga að skiptastjóri skuli leita vitneskju um hverjar eignir tilheyri búinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra eða hafi umsjón með þeim. Hann skuli tafarlaust gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu eigna og taka ef með þurfi við umráðum þeirra eða umsjón með þeim. Þá komi fram í 67. gr. laganna, þar sem fjallað sé um bústjórn, að skiptastjóri fari með forræði búsins meðan á opinberum skiptum standi, hann sé einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Hann komi fram af hálfu búsins fyrir dómi og geri samninga og aðra löggerninga í nafni þess. Þá segi að skiptastjóri skuli einkum gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, að réttindum búsins verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt að því leyti sem þau verða ekki lögð erfingjum út, að kröfur þess og innistæður verði heimtar inn, að engin þau réttindi þess fari forgörðum sem geta haft verðgildi og að gripið verði til þeirra aðgerða sem verða annars taldar nauðsynlegar til að forða því frá tjóni. Jafnframt segi í 68. gr. laganna að skiptastjóri skuli þegar eftir skipun sína gera ráðstafanir um atvinnurekstur bús, gagnkvæma samninga þess og önnur atriði sem verða talin mikilvæg fyrir hagsmuni þess og þola ekki bið.

Í ljósi framangreindra lagaákvæða telur skiptastjóri það vera hluta af því verkefni sem honum sé falið að leita eftir því með þeim ráðum sem tiltæk eru hvort vera kunni að erlendir bankareikningar í eigu dánarbúsins finnist. Líta verði til þess að hin látnu hjón hafi verið vel efnum búin er D lést árið 1999. Skömmu síðar hafi tekið að halla verulega undan fæti og eignir búsins rýrnað mjög. Samt sem áður séu þær eignir sem vitað er um að nú komi til skipta u.þ.b. 200.000.000 króna. Kostnaður við þá rannsókn sem skiptastjóri telur rétt að verði ráðist í sé um 5.600.000 krónur sem sé innan við 3% af þekktum eignum búsins.

Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að skiptastjóri hafi borið ákvörðun sína undir skiptafund og hafi ¾ hlutar erfingja samþykkt að ráðist verði í þá rannsókn sem hér sé deilt um. Einn erfingi sé hlutlaus í málinu, sæki ekki skiptafundi og hafi ekki viljað láta málið til sín taka. Í 70. gr. laga nr. 20/1991 sé að finna ákvæði um vald skiptafunda til ákvarðanatöku og heimildir skiptastjóra til að víkja frá ákvörðunum sem teknar eru á skiptafundum. Allir skiptafundir sem haldnir hafa verið í dánarbúi C hafi verið ályktunarfærir samkvæmt 1. mgr. þessa ákvæðis og undantekningar ákvæðisins eigi ekki við í máli þessu. Þá hafi fimm af átta erfingjum samþykkt að fara í rannsókn þessa. Tilgangur rannsóknarinnar sé að freista þess að leiða í ljós hvort þeir fjármunir sem erfingjar ætluðu að gætu verið á bankareikningum erlendis í eigu dánarbúsins kunni að koma í ljós. Með vísan til þessa beri skiptastjóra að fylgja ályktun meirihluta fundarmanna. Þar sem ekki hafi tekist að leysa ágreining þennan á skiptafundum sé óhjákvæmilegt að vísa málinu til héraðsdóms.

Að lokum ítrekar sóknaraðili, með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 20/1991 um hlutverk og störf skiptastjóra, að honum sé í raun ekki aðeins heimilt heldur beinlínis skylt að láta rannsaka hvort erlendir bankareikningar, sem dánarbúið eigi tilkall til, kunni að finnast þegar meirihluti erfingja staðhæfir að svo sé. Þá hafnar sóknaraðili því að skiptastjóri sé ekki hlutlaus í máli þessu og tekur fram hvað varðar vangaveltur varnaraðila um hið erlenda fyrirtæki að skiptastjóri muni gæta hagsmuna búsins í samskiptum við það.

Um lagarök vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 20/1991, einkum 54. gr. og 67.-71. gr. þeirra.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og ákvörðun skiptastjóra um að fylgja eftir könnun E á erlendum bankareikningum verði hnekkt. Varnaraðilar taka fram að þeir geri ekki ágreining um að rannsóknin fari fram, heldur að dánarbúinu verði gert að greiða þann kostnað.

Byggja þeir í fyrsta lagi á því að hnekkja beri ákvörðun skiptastjóra þar sem hluti erfingja hafi þegar lýst því yfir að þeir vilji greiða sjálfir fyrir rannsókn þessa í þeim tilgangi að flýta fyrir skiptameðferð. Vísa varnaraðilar þar um til fréttar af vefsíðu Fréttatímans.

Varnaraðilar benda á að skiptastjóra beri í störfum sínum að hámarka virði búsins og gæta þess að réttindum búsins verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt. Þá beri honum einkum að tryggja að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, sbr. 2 mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðilar telja það ekki nokkrum vafa undirorpið að það þjóni hagsmunum búsins best að þeir erfingjar sem vilja fara fyrir áðurnefndri rannsókn leggi jafnframt út fyrir kostnaði í þeim efnum svo sem þeir hafi lýst yfir vilja til, en til hagsbóta fyrir búið. Þeir erfingjar sem kjósi svo muni þá bera alla fjárhagslega áhættu af fyrirhugaðri rannsókn í stað dánarbúsins. Taka verði mið af eðli þeirrar rannsóknar sem um ræði og þeirri áhættu sem sé samhliða henni. Ítrekað sé í þeim efnum að engin skrifleg gögn liggi fyrir sem bendi til tilvistar erlendra reikninga á vegum dánarbúsins. Þvert á móti hafi hluti sóknaraðila nú leitað að fjármunum þessum í samstarfi við hið erlenda rannsóknarfyrirtæki frá því í september 2015 án þess að það hafi nokkru skilað. Ýmislegt bendi raunar til þess að sú leit hafi staðið yfir miklu lengur eða í yfir áratug.

Það eina sem eftir standi og skiptastjóri virðist byggja ákvörðun sína á séu einhliða yfirlýsingar um það sem foreldrar þeirra áttu að hafa sagt í lifanda lífi um meinta erlenda bankareikninga í þeirra eigu. Þær sögur séu þó ekki á eina leið og ótrúverðugar að mati varnaraðila. Það eigi t.d. við um lýsingar á því að faðir þeirra hafi rétt fyrir andlát sitt upplýst börn sín, sem þá voru öll uppkomin, um að hann hefði lagt umtalsvert fé inn á aflandsreikninga og að séð yrði um fjárhagslega stöðu barnanna eftir fráfall hans. Atvikalýsing þessi sé notuð í samningsdrögum E við skiptastjóra sem fyrir liggi í gögnum málsins.

Þá viðurkenni lögmaður sóknaraðila [...] að þetta sé „meira prinsipp mál heldur en mál sem snúist um það að fá einhverja peninga [...]“. Fráleitt sé að skiptastjóri taki ákvörðun um að ganga inn í samstarf hluta erfingja við E þegar ljóst sé hvað búi þar að baki og telja varnaraðilar að hnekkja beri ákvörðun skiptastjóra þegar af þessari ástæðu. Þetta veki upp spurningar um óhlutdrægni skiptastjóra í garð varnaraðila. Telja verði að E „sé litað af einhliða yfirlýsingum sóknaraðila“ sem ekki séu studdar neinum viðhlítandi gögnum og það án þess að varnaraðilum sé gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Auk framangreinds vísa varnaraðilar til þess að verði skiptastjóra falið forræði rannsóknarinnar og sóknaraðila gert að greiða þóknun í þeim efnum, bæði hinu erlenda fyrirtæki og skiptastjóra, sé ljóst að skiptalok muni tefjast verulega og kostnaður margfaldast í þeim efnum. Vísa varnaraðilar til fyrirliggjandi samningsdraga við E í þessum efnum. Verkefninu séu ekki sett nein tímamörk og sé skýrt tekið fram að einungis sé um upphafsaðgerðir að ræða. Þannig komi fram í samningsdrögunum að krafist sé 35.000 punda greiðslu sem sé einungis upphafsgreiðsla vegna fyrsta áfanga rannsóknarinnar. Til viðbótar upphafsgreiðslunni komi svo þóknun skiptastjóra og starfsmanna hans vegna starfans í þágu rannsóknarinnar.

Varnaraðilar hafna því að kostnaður við rannsóknina nemi um 5.600.000 krónum og sé því innan við 3% af þekktum eignum búsins, eins og segi í bréfi skiptastjóra til dómsins. Ljóst sé að kostnaðurinn komi til með að verða margfalt hærri en upphafsgreiðsla samningsdraganna hljóði upp á m.a. sökum þess að töluverð vinna sé ráðgerð af hálfu skiptastjóra og starfsmanna hans. Skiptastjóri hafi þó ekki nefnt þetta á skiptafundum. Auk þess hafi ekki verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar svo sem vegna þýðinga o.fl. sem verði greitt af fjármunum búsins. Skiptastjóri hafi ekki upplýst aðila um þennan viðbótarkostnað þrátt fyrir fyrirspurn annars varnaraðila þar að lútandi.

Af öllu framangreindu sé ljóst að umfang, tímamörk og kostnaður vegna fyrirhugaðrar rannsóknar sé algjörlega óráðinn. Er vandséð hvernig það geti þjónað hagsmunum búsins að það verði sjálft látið bera alla fjárhagslega áhættu þar að lútandi og fyrirséð að skiptalok tefjist verulega vegna þessa. Einsýnt sé því að hnekkja beri ákvörðun skiptastjóra og þeir sóknaraðilar sem kjósi að fylgja eftir rannsókninni beri fjárhagslega áhættu það að lútandi. Skiptum verði þá fram haldið á meðan og ekkert girði fyrir að unnt sé að ljúka skiptum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 76. gr. og 2. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991. Skiptin yrðu þá tekin upp að nýju leiddi rannsóknin eitthvað í ljós og hlutaðeigandi erfingjum yrði greiddur sá kostnaður sem þeir hafi þurft að bera í þeim efnum. Hvorki efnis- né lagarök hnígi að því að taka eigi ákvörðun skiptastjóra til greina.

Í öðru lagi byggja varnaraðilar á því að skiptastjóra hafi skort valdheimildir að lögum til að taka umrædda ákvörðun. Telja varnaraðilar að með henni hafi skiptastjóri brotið í bága við ákvæði laga nr. 20/1991. Það sé ekki á forræði skiptastjóra að ráðast í rannsókn af þessu tagi og reiða fram háa þóknun í þeim efnum af fjármunum búsins.

Hvorki 2. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 né 54. gr. sömu laga, sem taki til eignakönnunar skiptastjóra, geri ráð fyrir neinum slíkum heimildum til handa skiptastjóra. Varnaraðilar hafni túlkun skiptastjóra á þessum ákvæðum.

Þá megi sjá af fyrirliggjandi samningsdrögum að rannsóknin nái langt út fyrir málefni búsins og verkefni því tengdu og samræmist ekki skyldum skiptastjóra um eignakönnun búsins. Þar sé m.a. ráðgert að fjármál einstaklinga og dánarbús D heitins, verði skoðuð. Þar sé tiltekið að ráðist verði í gagnaöflun til að kortleggja eignir og rekstrarlegt skipulag fyrirtækjanna og einstaklinganna, fulltrúa þeirra og aðila tilnefndum af þeim, eins og það sé orðað. Þá standi jafnframt til að rannsaka fyrirtækið F sem teljist ekki til eigna búsins og samkvæmt upplýsingum úr [...] muni hafa verið lagt niður fyrir um áratug.

Þá verði að skýra áðurnefnt ákvæði 54. gr. með hliðsjón af fyrrnefndri 2. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna um að skiptastjóri skuli bera tilteknar ákvarðanir undir skiptafundi.

Varnaraðilar byggja á því að skiptastjóri geti ekki upp á sitt eindæmi, án nokkurra fyrirliggjandi gagna, ákveðið að ráðast í rannsókn af þessu tagi fyrir milligöngu þriðja aðila, og reiða fram háa þóknun í þeim efnum af fjármunum búsins. Skiptastjóri hafi að mati varnaraðila ekki gætt að ákvæði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 við ákvarðanatöku sína enda hafi hann þegar ákveðið að semja við E og samningsdrög legið fyrir í þeim efnum þegar skiptastjóri hafi tilkynnt ákvörðunina á skiptafundi 11. ágúst 2016. Vegna andmæla lögmanns varnaraðila hafi skiptastjóri ákveðið að kosið yrði um ákvörðunina en upphaflega hafi það ekki staðið til. Telja verði að ákvörðunin sé fjarri því að falla undir daglega umsýslu búsins eða að nauðsynlegt hafi verið að taka hana jafn skjótt og raun ber vitni til að komast hjá tjóni, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 og lögskýringargögn með því ákvæði. Þá hafi skiptastjóri verið búinn að framfylgja ákvörðun sinni áður en hún var borin undir skiptafund sem sé í andstöðu við 68. og 71. gr. laganna. Með því hafi skiptastjóri misbeitt valdi sínu. Atkvæðagreiðslan hafi í raun aðeins verið að forminu til enda lýsi skiptastjóri því yfir og byggi á í bréfi sínu til dómsins að hún hafi reist ákvörðun sína á 1. mgr. 54. gr. og 67. gr. laga nr. 20/1991.

Skiptastjóra hafi ekki einungis borið skylda til að bera undir skiptafund hvort ráðast skyldi í rannsókn þessa heldur jafnframt hvernig, sbr. skýrt orðalag 2. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Þá hafi skiptastjóra borið skylda til að jafna ágreininginn sbr. 3. mgr. 71. gr. laganna þegar ljóst var að varnaraðilar mótmæltu ákvörðun skiptastjóra. Það hafi ekki verið gert. Skipti þar jafnframt sköpum að varnaraðilar komust nýverið að því að hluti erfingja hafði lýst yfir vilja þess efnis að greiða sjálfir fyrir rannsóknina í þeim tilgangi að flýta skiptameðferð. Hafi varnaraðilar ekki verið upplýstir um þessa afstöðu sóknaraðila á skiptafundi. Virðist sem skiptastjóri hafi upp á sitt eindæmi hafnað því að erfingjarnir greiddu fyrir rannsóknina sjálfir. Framangreint styðji það að hnekkja beri ákvörðun skiptastjóra. Í þeim efnum verði jafnframt að horfa til þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem skiptastjóri og starfsmenn hennar hafa af því að gengið verði til samninga við E.

Í 4. mgr. 70. gr. laga nr. 20/1991 sé kveðið á um að greini fundarmenn á um ákvörðun skiptastjóra sé að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktun meirihlutans. Það skuli þó ekki gert ef efni eru til að víkja frá henni vegna atvika sem talin séu í 3. mgr. ákvæðisins eða ef ætla megi að meirihlutavaldi sé misbeitt minnihlutanum til tjóns. Telji varnaraðilar að verulega halli á þá í þessum efnum enda byggi ákvörðun skiptastjóra ekki á gögnum, heldur yfirlýsingum hluta erfingja sem varnaraðilar telji ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum.

Ákvörðunin sé því ósanngjörn og ólögmæt enda ekki rétt að henni staðið og hún fari bersýnilega í bága við hagsmuni erfingja og búsins í heild. Hvað ósanngirni varði skjóti það skökku við að skiptastjóri taki ákvörðun um að ganga inn í samstarf við E sem einungis hluti erfingja hafði staðið fyrir. Hið erlenda rannsóknarfyrirtæki geti ekki talist óhlutdrægur aðili. Þannig sé í samningsdrögunum vísað til einhliða, rangrar lýsingar undir liðnum forsaga og markmið. Með hreinum ólíkindum sé að skiptastjóri hyggist ganga að slíkum samningi. Þá verði jafnframt að taka mið af forsögu fyrirtækis þessa og tengslum þess við lögmannsstofuna G. Varhugavert sé að skiptastjóri hafi ekki kynnt sér bakgrunn fyrirhugaðs samningsaðila sem þó hafi verið tekin ákvörðun um að ráðstafa verulegum fjárhæðum til af fjármunum búsins. Styðji framangreint að ákvörðun skiptastjóra um fyrirhugað samstarf við E verði hnekkt. Skiptastjóri sé opinber sýslunarmaður í störfum sínum og ein af grundvallarreglum skiptaréttar sé að jafnræði erfingja sé tryggt í hvívetna. Sé ákvæðum 70. gr. laga nr. 20/1991 m.a. ætlað að tryggja að svo sé.

Um lagarök vísa varnaraðilar til ákvæða laga nr. 20/1991, einkum 54., 67., 68., 70. og 71. gr. þeirra. Krafa um málskostnað er byggð á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining í tengslum við opinber skipti á dánarbúi C en bú hennar var tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins 12. apríl 2016. C sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, D, sem lést á árinu [...]. Vísaði skiptastjóri ágreiningi þessum til dómsins á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 71. gr., laga nr. 20/1991 með beiðni sem móttekin var 12. september sl.

Ágreiningur aðila lýtur nánar tiltekið að þeim fyrirætlunum skiptastjóra að afla upplýsinga um hvort sóknaraðili eigi fjármuni á erlendum bankareikningum. Hefur sóknaraðili bent á það að skiptastjóra sé skylt í samræmi við skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991 að kanna hvort dánarbúið kunni að eiga tilkall til fjármuna á erlendum bankareikningum. Tilgangur rannsóknarinnar sé að afla upplýsinga þar að lútandi með það að markmiði að ná slíkum fjármunum, ef þeir finnast, undir búið. Bendir sóknaraðili á að þetta hafi skiptastjóra borið að gera í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram á skiptafundi 29. apríl 2016 frá hluta erfingja að faðir þeirra hafi sagt þeim að fjármunir væru geymdir á erlendum reikningum. Byggir sóknaraðili á því að skiptastjóri hafi í einu og öllu farið að ákvæðum laga nr. 20/1991 hvað varðar kynningu á skiptafundi á þessum fyrirætlunum á grundvelli þeirra valdheimilda sem hann hafi samkvæmt ákvæðum áðurnefndra laga og að ákvörðun skiptastjóra beri því að staðfesta.

Varnaraðilar hafa m.a. byggt á því að skiptastjóri hafi ekki haft heimildir til að taka umrædda ákvörðun og þá hafi ekki verið réttilega að henni staðið. Telja þeir einsýnt að henni bera að hnekkja einkum þegar horft sé til hagsmuna búsins, fjárhagslegrar áhættu samhliða samningi við fyrirtækið E, efni samningsdraganna og tilurð þeirra, tafa á skiptalokum, valdheimilda skiptastjóra og starfshátta í þeim efnum og síðast en ekki síst yfirlýsinga frá hluta erfingja um að þeir vilji greiða sjálfir fyrir rannsóknina.

Í ákvæðum laga nr. 20/1991 er með skilmerkilegum hætti gerð grein fyrir hlutverki og störfum skiptastjóra. Þannig fjallar V. kafli almennt um skipan þeirra og störf og VI. kafli um fyrstu aðgerðir skiptastjóra við opinber skipti. Þá er í IX. kafla mælt fyrir um bústjórn og skiptafundi þar sem teknar eru ákvarðanir um ráðstöfun hagsmuna búsins. Samhengis vegna þykir rétt að gera ítarlega grein fyrir efni þessara ákvæða.

Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 skal skiptastjóri dánarbús tafarlaust gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu eigna búsins og taka ef með þarf við umráðum þeirra eða umsjón með þeim, nema hann telji hættulaust að munir búsins verði áfram í vörslu annarra, enda lýsi vörslumaður þá yfir að hann sé fús til að gæta þeirra áfram á eigin áhættu. Þá segir í 1. mgr. 67. gr. laganna að meðan á opinberum skiptum standi fari skiptastjóri með forræði dánarbúsins og sé hann einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Jafnframt segir í sömu málsgrein að skiptastjóri komi fram af hálfu búsins fyrir dómi og geri samninga og aðra löggerninga í nafni þess. Í 2. mgr. greinarinnar segir m.a. að skiptastjóri skuli einkum gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, að réttindum búsins verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt að því leyti sem þau verði ekki lögð erfingjum út, að kröfur búsins og innistæður verði heimtar inn, að engin þau réttindi þess fari forgörðum sem geta haft verðgildi og að gripið verði til þeirra aðgerða sem annars verða taldar nauðsynlegar til að forða því frá tjóni.

Í 1. mgr. 68. gr. laga er síðan mælt fyrir um að skiptastjóri skuli þegar eftir skipun sína gera ráðstafanir um gagnkvæma samninga búsins og önnur atriði sem verða talin mikilvæg fyrir hagsmuni þess og þola ekki bið. Verði því við komið án þess að hætta sé á að hagsmunir búsins spillist skuli skiptastjóri þó áður ráðfæra sig við þá erfingja og kröfuhafa sem eiga helstra hagsmuna að gæta við skiptin eftir því sem fram er komið eða málefnið getur varðar sérstaklega. Þá segir í 2. mgr. 68. gr. að að öðru leyti skuli skiptastjóri bera undir skiptafundi hvort mikilsverðum réttindum búsins skuli ráðstafað, hve fljótt það verði gert og hvernig, hvort kröfum verði haldið uppi eða réttindi gefin eftir sem einhverju nemi svo og aðrar ráðstafanir sem geti skipt miklu fyrir hag búsins nema taka verði ákvörðun til að afstýra tjóni með svo skjótum hætti að því verði ekki komið við. Að lokum segir í 3. mgr. greinarinnar að ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem búið kunni að njóta eða geti notið, hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki, geti erfingi gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg.

Þá er í 70. gr. laganna mælt fyrir um hvernig komist verði að niðurstöðu á skiptafundi um málefni sem eigi undir ákvörðunarvald fundar. Í 1. og 2. mgr. koma fram reglur um það hver þurfi að vera lágmarksfundarsókn til að skiptastjóri geti talið ályktanir skiptafundar marktækar. Í 3.-5. mgr. 70. gr. koma fram reglur um hvernig niðurstaða ráðist um fundarefni á skiptafundi sem er ályktunarfær samkvæmt 1. mgr. Af ákvæðinu verður ráðið að skiptastjóri sé almennt bundinn af einróma niðurstöðu fundar eða áliti meirihluta fundarmanna við atkvæðagreiðslu, sbr. 3. og 4. mgr. Í síðastnefndu ákvæðunum eru hins vegar settir fram ýmsir fyrirvarar sem leitt gætu til þess að skiptastjóri þyrfti ekki að fara eftir einróma ályktun eða ályktun meirihluta. Þessir fyrirvarar heimila skiptastjóra að virða slíkar ályktanir að vettugi ef þær eru að mati hans andstæðar lögum, óheiðarlegar, óframkvæmanlegar, ósamrýmanlegar hagsmunum erfingja eða kröfuhafa eða fela í sér misnotkun aðstöðu af hendi meirihluta fundarmanna á kostnað minnihluta.

Í 71. gr. er mælt fyrir um að skiptastjóri verði að meginreglu að láta jafnharðan uppi á skiptafundi hver niðurstaða hafi orðið um hvert málefni svo fundarmönnum sé gert tvímælalaust ljóst hvað teljist hafa verið ákveðið. Þá er í 3. mgr. greinarinnar mælt fyrir um rétt erfingja eða kröfuhafa til að hafa uppi mótmæli ef þeir telja ákvörðun á skiptafundi eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta. Komi slík mótmæli fram og skiptastjóra tekst ekki að leysa ágreininginn ber honum að leggja málefnið fyrir héraðsdómara til úrslausnar, sbr. 122. gr. Þá getur skiptastjóri, samkvæmt 2. mgr. 76. gr. laga nr. 20/1991, ákveðið að ljúka skiptum ef búið telur til eigna eða réttinda sem eru umdeild eða ef vænta má að teljandi bið verði eftir að mega koma í verð eða komi til greiðslu. Hann skal þó fylgja réttindunum eftir og taka skiptin upp á ný þegar búið getur ráðstafað þeim.

Af því sem fram er komið og liggur fyrir í gögnum málsins óskaði skiptastjóri eftir upplýsingum um það á skiptafundi 29. apríl 2016 hvort verið gæti að erlendir bankareikningar kynnu að vera í eigu búsins. Lögmaður varnaraðila kvað umbjóðendum sínum ekki kunnugt um það en fram kom í máli fulltrúa hluta annarra erfingja að til væru reikningar í a.m.k. fjórum erlendum bönkum sem faðir þeirra hefði átt og þrír bræðranna hefðu fengið prókúru fyrir við lát hans. Þá var upplýst að erfingjar væru að reyna að fá vitneskju um þessa reikninga með milligöngu F., erlends fyrirtækis sem sérhæfði sig í slíkri leit. Þá kom jafnframt fram að móðir þeirra heitin hefði einnig gert tilraunir til að hafa uppi á erlendum bankareikningum eftir lát föður þeirra fyrir um 10 árum en án árangurs.

Á skiptafundi 11. ágúst 2016 greindi skiptastjóri frá þeirri ákvörðun sinni að dánarbúið fylgdi eftir könnun áðurnefnds fyrirtækis og að kostnaður við það myndi nema um 5.600.000 krónum. Á fundinn var mætt af hálfu allra erfingja nema eins sem hafði látið vita fyrir fram af fjarveru sinni. Var þessum fyrirætlunum mótmælt af hálfu varnaraðila sem töldu þær ekki samræmast ákvæðum laga nr. 20/1991. Aðrir á fundinum studdu þessa ákvörðun skiptastjóra. Málið var rætt á ný á skiptafundi 25. ágúst 2016. Á fundinum voru mættir fulltrúar allra erfingja nema eins sem hafði látið vita fyrir fram af fjarveru sinni. Skiptastjóri lagði þar fram bréf, drög að samkomulagi og skilmála frá umræddu fyrirtæki. Varnaraðilar ítrekuðu mótmæli sín en aðrir erfingjar lýstu því yfir að þeir styddu þessa ákvörðun. Þar sem ekki tókst að jafna þennan ágreining á fundinum var málinu vísað til dómsins með vísan til 3. mgr. 71. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991.

Samkvæmt því sem áður er fram komið felast verkefni skiptastjóra samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991 m.a. í að afla upplýsinga um eignir og skuldbindingar búsins og tilteknum upphafsráðstöfunum við að gæta hagsmuna búsins. Þá er þar í meginatriðum gerð grein fyrir skilunum milli þeirra ákvarðana eða ráðstafana sem skiptastjóri er talinn bær um að taka eða gera upp á sitt eindæmi án þess að bera málefnið undir skiptafund og þeirra ákvarðana sem verður að taka á skiptafundum. Enn fremur er tíundað í lögum nr. 20/1991 hvernig fara eigi með málefni sem lögð hafa verið fyrir skiptafund og fyrirkomulag ákvarðanatöku hvað þau varðar.

Dómurinn telur ljóst að málsmeðferð skiptastjóra vegna þeirrar fyrirætlunar að afla nánari upplýsinga um erlenda bankareikninga sem kunni að vera í eigu búsins og ákvarðanataka þar að lútandi hafi verið í samræmi við fyrirmæli 70. og 71. gr. laga nr. 20/1991. Þá verður og að telja að fyrirætlanir skiptastjóra séu í fullu samræmi við hlutverk skiptastjóra sem endurspeglast í 1. mgr. 54. gr., og 67. og 68. gr. laga nr. 20/1991. Þá er ákvarðanatakan í samræmi við valdheimildir skiptastjóra samkvæmt 70. gr. laganna. Fyrirætlanir skiptastjóra voru kynntar á skiptafundi 11. ágúst 2016 þar sem erfingjar áttu þess kost að taka afstöðu til þeirra. Meirihluti erfingja lýsti sig samþykkan því að umrædd rannsókn færi fram. Erindið var rætt enn á ný á skiptafundi 25. ágúst 2016 þar sem mótmæli hluta erfingja voru ítrekuð en meirihluti ítrekaði samþykki sitt við því að rannsóknin færi fram. Ljóst var að ágreininginn tókst ekki að jafna og beindi skiptastjóri honum því réttilega til dómsins í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991. Bendir dómurinn á að skiptastjóri er að meginstefnu til bundinn af ákvörðun meirihluta ályktunarfærs skiptafundar. Verður ekki talið að undantekningartilvik 2. mgr. þeirrar lagagreinar eigi við í máli þessu eða sá varnagli sem sleginn er í 4. mgr. að með ákvörðun sé meirihlutavaldi beitt minnihlutanum til tjóns. Þá verður ekki talið að nokkru skipti þótt lögmaður hluta erfingja hafi greint frá því í fjölmiðlum að þeir vildu ráðast sjálfir í umrædda rannsókn enda kemur hvergi fram í fyrirliggjandi fundargerðum að þetta hafi verið rætt á skiptafundum auk þess sem skiptastjóri hefur samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laganna vald til þess að fela erfingjum að gæta hagsmuna búsins ákveði skiptastjóri að gera það ekki sjálfur. Eru heimildir skiptastjóra hvað þetta varðar ótvíræðar.

Þá bendir dómurinn á að skiptastjóri fylgdi eftir áðurnefndri ákvörðun sinni á skiptafundi 25. ágúst 2016 þar sem kynnt voru drög að samkomulagi við það fyrirtæki er sinna mun umræddu verkefni. Ljóst má vera að um drög er að ræða og að verkefnið kunni að þróast frekar eftir því sem því vindur fram. Dómurinn telur það ekki hlutverk sitt á þessu stigi að meta efnislega umrædd drög eða hvort það verkefni sem um er rætt í þeim gangi lengra en þörf er á, eða skemur ef því er að skipta. Dómurinn tekur því ekki neina afstöðu til sjónarmiða varnaraðila að lútandi. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfum varnaraðila hafnað en ákvörðun skiptastjóra sem samþykkt var á áðurnefndum skiptafundum staðfest á þann hátt er í úrskurðarorði greinir. Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar og úrskurðast hann því ekki.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Lára V. Júlíusdóttir hrl., skiptastjóri búsins, en af hálfu varnaraðila, Helga Björg Jónsdóttir hdl., vegna Sigurðar G. Guðjónssonar hrl.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við málinu 9. nóvember sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Fallist er á kröfu sóknaraðila, dánarbús C, um að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra að undir opinberum skiptum á búinu fari fram könnun á erlendum reikningum sem kunna að vera í eigu þess í samræmi við samþykki skiptafundar 11. og 25. ágúst 2016.

Málskostnaður úrskurðast ekki.