Print

Mál nr. 46/2019

Akureyrarbær (Anton B. Markússon lögmaður)
gegn
Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Einingar-Iðju (Magnús M. Norðdahl lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Kröfugerð
  • Sakarefni
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Staðfest var niðurstaða Félagsdóms um frávísun aðal- og varakröfu AÍ á hendur A frá dómi, auk þess sem þrautavarakröfu AÍ var jafnframt vísað frá dómi. Vísað var til þess að AÍ leitaði með aðal- og varakröfu sinni eftir að fá viðurkennt að A bæri að efna lífeyrisskuldbindingar gagnvart félagsmönnum A. Var talið að kröfur þessar beindust ekki að því að fá úrlausn ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1937 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá taldi Hæstiréttur að þrautavarakrafa AÍ félli heldur ekki undir áskilnað fyrrgreinds lagaákvæðis þar sem sú yfirlýsing sem hún byggði á var ekki talin fela í sér skuldbindingu þess efnis að geta talist hluti kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 26. september 2019, þar sem vísað var frá dóminum aðal- og varakröfu varnaraðila en hafnað frávísun á þrautavarakröfu þeirra. Kæruheimild er í 1. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að þrautavarakröfu varnaraðila verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð Félagsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 22. október 2019. Hann krefst þess að hafnað verði frávísun aðal- og varakröfu frá dómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Í þessum þætti málsins hverfist ágreiningur aðila um það hvort í yfirlýsingu 7. júlí 2009 með kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga (LN) og Starfsgreinasambands Íslands (SGS) „varðandi lífeyrissjóði“ hafi falist skuldbinding þess efnis að úrlausn um ágreining sem risið hefur um túlkun hennar og framkvæmd eigi undir lögsögu Félagsdóms, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938. Sá hluti yfirlýsingarinnar, sem um ræðir í þessu sambandi, er svohljóðandi: „Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í samfélaginu og þeirra ákvæða sem eru í nýundirrituðum stöðugleikasáttmála um að taka málefni lífeyrissjóða til umfjöllunar þá eru undirrituð fyrir hönd SGS og LN sammála um að ekki verði samið um breytingar á mótframlagi í lífeyrissjóð við gerð þess kjarasamnings sem undirritaður er í dag. Hafi þeirri umfjöllun um málefni lífeyrissjóða sem getið er í stöðugleikasáttmálanum ekki skilað útfærðri leið til að ná jöfnuði milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins þegar samningur aðila frá í dag rennur út munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þeim jöfnuði verði náð.“ Í hinum kærða úrskurði eru málavextir nánar raktir, þar með talin fjölþætt samskipti aðila vinnumarkaðarins um útfærslu á greiðslu lífeyrrissjóðgjalda, á þeim tíma sem liðinn er frá gerð yfirlýsingarinnar.

Sóknaraðili byggir á því að umrædd yfirlýsing geti hvorki að efni né formi talist hluti né ígildi kjarasamnings enda lúti hún að atriðum sem varnaraðili vilji fá tekin upp í kjarasamning en aðilar hafi ekki náð samstöðu um.

Varnaraðili byggir á hinn bóginn á því að með nefndri yfirlýsingu og eftirfarandi þróun á skipan lífeyrismála og viðleitni í þá veru hvernig ná megi jöfnuði milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins hafi sóknaraðili „í framkvæmd“ viðurkennt skuldbindingargildi yfirlýsingarinnar sem geti því skapað efnislegan grundvöll og umfjöllun þeirra dómkrafna sem hann hafi uppi í málinu.

II

Varnaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að sóknaraðila beri að virða kjarasamninga sem hann telur hafa verið gerða milli aðila. Á þeim grunni leitar varnaraðili með aðal- og varakröfu sinni eftir að fá viðurkennt að sóknaraðila beri að efna lífeyrisskuldbindingar gagnvart félagsmönnum varnaraðila. Þannig beinast kröfur þessar ekki að því að fá úrlausn ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938. Samkvæmt þessu verður fallist á það með Félagsdómi að þessi kröfuliðir heyri ekki undir lögsögu hans. Verður því staðfest niðurstaða dómsins um frávísun þeirra.

Tilvitnuð yfirlýsing aðila frá 7. júlí 2009 felur í sér sameiginlegan vilja aðila til þess að taka upp viðræður um leiðir til að ná ákveðnu markmiði um breytingar lífeyriskerfisins. Yfirlýsingin felur á hinn bóginn ekki í sér skuldbindingu þess efnis að geta talist hluti kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. september 2018 í máli nr. 17/2018. Fellur þrautavarakrafan því ekki undir þann áskilnað 2. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 að varða ágreining um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Þegar af þessari ástæðu verður þrautavarakröfu varnaraðila vísað frá dómi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Varnaraðili, Alþýðusamband Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Einingar-Iðju, greiði sóknaraðila, Akureyrarbæ, 500.000 krónur í kærumálskostnað.