Print

Mál nr. 51/2017

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Magnúsi Skarphéðinssyni (Haukur Örn Birgisson hrl.)
, ( réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Kynferðisleg áreitni
  • Skaðabætur
  • Skilorð
Reifun
M var sakfelldur fyrir brot gegn 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í heitum potti brotið gegn blygðunarsemi A og B með því að hafa viðhaft við þá kynferðislegt tal auk þess að hafa áreitt A kynferðislega með því að toga í buxnastreng á sundbuxum hans. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að M hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Var refsing M ákveðin fangelsi í 2 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða A 300.000 krónur og B 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, til vara að refsing hans verði milduð og hann sýknaður af einkaréttarkröfum, en að því frágengnu að einkaréttarkröfur verði lækkaðar.

Brotaþolinn A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Brotaþolinn B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brota til refsiákvæða, refsingu og skilorðsbindingu hennar.

Brot þau, sem ákærði er sakfelldur fyrir, eru til þess fallin að valda brotaþolum miska. Á hinn bóginn skortir mjög gögn til stuðnings bótakröfum. Samkvæmt því verða miskabætur brotaþolans A ákveðnar 300.000 krónur og brotaþolans B 200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþolanna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Magnús Skarphéðinsson, greiði A 300.000 krónur og B 200.000 krónur í báðum tilvikum með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 903.670 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns framangreindra brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 248.000 krónur.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2016

                Mál þetta, sem dómtekið var 8. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara, 30. september 2016, á hendur Magnúsi Skarphéðinssyni, kennitala [...], Grettisgötu 40b, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014, í heitum potti í Laugardalslaug í Reykjavík, brotið gegn blygðunarsemi  A, kennitala [...], og B, kennitala [...], sem þá voru 17 ára, með því að hafa viðhaft kynferðislegt tal við þá, auk þess að hafa áreitt A kynferðislega með því að toga í buxnastreng á sundbuxum hans að framanverðu fyrir miðju.

                Er þetta talið varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu brotaþolans A er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 5. desember 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknun réttargæslumanns. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist á höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

                Af hálfu brotaþolans B er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. desember 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknun réttargæslumanns. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði. Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, ellegar sýknu af þeim eða að þær verði lækkaðar.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá föstudeginum 5. desember 2014 var lögreglu það kvöld, kl. 22.13, tilkynnt um kynferðislegt áreiti við Laugardalslaug í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að A, annar brotaþola í máli þessu, hafi tilkynnt um brotið. Í viðræðum við lögreglu hafi brotaþoli gert grein fyrir því að hann hafi verið í heitum potti í laugunum. Þar hafi verið Magnús Skarphéðinsson, ákærði í máli þessu, og hafi hann talað kynferðislega til brotaþola og meðal annars sagt að hann vildi taka brotaþola í endaþarminn. Ákærði hafi síðan tekið í sundbuxur brotaþola og togað þær niður en ekki náð að toga þær niður fyrir kynfærin. Í frumskýrslu kemur jafnframt fram að með brotaþola hafi verið B, hinn brotaþoli málsins. Hafi B staðfest frásögn brotaþolans A. Fram kemur að lögregla hafi í kjölfarið haft samband við ákærða og hafi ákærði fallist á að hitta lögreglu. Í viðræðum við lögreglu hafi ákærði lýst því að hann hafi verið í heitum potti í sundlauginni þetta kvöld. Brotaþolinn A hafi komið í heita pottinn, en ákærði hafi þekkt brotaþola vel. Hafi þeir þekkst í um það bil ár. Brotaþoli hafi verið að ,,sprella“ í ákærða og verið með kynferðislegar athugasemdir við hann og hafi ákærði sagt við hann að hann ætlaði að taka í rassgatið á honum. Þeir hafi síðan farið í ,,gamnislag“ í pottinum og vinur brotaþola tekið þátt í slagnum. Ákærði hafi náð taki á brotaþola og vinur brotaþola hafi einnig haldið brotaþola. Brotaþoli hafi náð að losa sig og ýtt við ákærða. Við það hafi ákærði misst jafnvægið. Til að koma í veg fyrir að hann dytti hafi ákærði reynt að taka í eitthvað og í því skyni tekið í sundbuxur brotaþola. Brotaþoli hafi orðið reiður en síðan jafnað sig, farið úr pottinum og hent fjórum snjóboltum í ákærða.   

Ákærði hafi farið upp úr lauginni og í sturtu. Hann hafi séð brotaþolann A ræða við sundlaugarvörð út af atvikinu og hafi ákærði spurt brotaþola hvort hann ætlaði virkilega að gera mál úr þessu. Brotaþoli hafi svarað því til að þetta hefði verið of mikið og hringt á lögreglu í framhaldi. Ákærði segðist ekki að ekki hafa sagt við A að hann ætlaði að taka hann í endaþarminn.

Fimmtudaginn 22. janúar 2015 lagði móðir brotaþolans B fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tækifæri greindi B frá atvikum málsins. Næsta dag, eða föstudaginn 23. janúar 2015, mætti síðan móðir brotaþolans A til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir ætlað kynferðisbrot gagnvart syni hennar. Við það tækifæri greindi A frá atvikum málsins.

Ákærði hefur greint svo frá atvikum málsins að þegar þetta gerðist hafi hann verið búinn að þekkja brotaþolann A í um ár, en þeir hafi báðir verið fastagestir í sundlauginni í Laugardal í Reykjavík. Þangað hafi ákærði farið eins oft og hann hafi getað en hann hafi notað ferðir í heita potta vegna [...]. Ákærði kvaðst yfirleitt fara í sundlaugarnar seint að kvöldi, rétt fyrir lokun. Brotaþolinn A hafi vanið komur sínar í laugarnar á svipuðum tíma. Ákærði hafi ávallt kunnað vel við hann, en hann hafi verið léttur í lundu og spjallað mikið. Hafi brotaþoli gert sér far um að ræða við sundlaugargesti af eldri kynslóðinni, en það hafi verið óvenjulegt að yngra fólkið gerði það. Brotaþolinn A hafi oft verið að betla peninga af fastagestum í sundlauginni og hafi beðið marga um peninga en enginn látið hann fá neitt. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að láta brotaþolann fá 1.000 krónur en mál hafi þróast þannig að í fjögur til sex skipti hafi ákærði látið brotaþola fá sambærilega upphæð. Brotaþoli hafi gengið á lagið, en þetta hafi staðið yfir talsvert tímabil. Ákærði hafi spurt hvenær brotaþoli myndi greiða til baka og hafi  brotaþoli í nokkur skipti svarað að ákærði gæti sogið hann í staðinn. Ákærði kvaðst í upphafi hafa litið á þetta sem peningalán en sennilega verið þess meðvitaður að peningana fengi hann ekki aftur.

Umrætt kvöld hafi ákærði komið í laugina og farið í heitan pott. Eins og venjulega hafi þetta verið rétt fyrir lokun. Sennilega hafi einhver verið í pottinum er ákærði hafi komið þangað. Brotaþolarnir hafi komið í pottinn og ákærði og brotaþolarnir rætt saman. Umræðan hafi verið á léttum nótum, með góðlátlegum húmor. A hafi meðal annars spurt ákærða hvað hann hefði í laun. Er ákærði hafi svarað hafi brotþoli sagt föður sinn hafa hærri laun en ákærða. Það hafi líka verið rætt um menntun og brotaþoli sagt að faðir sinn væri meira menntaður en ákærði. Allt hafi verið í gríni sagt, en brotaþoli hafi ávallt verið svo léttur og kátur. Er þarna var komið hafi ákærði verið orðinn einn eftir í pottinum ásamt brotaþolunum. Ákærði kvaðst hafa slegið á lær sér og sagt við brotaþolana að réttast væri að hann tæki í rassgatið á þeim. Ekki hafi verið neinn kynferðislegur tónn eða ætlun að baki þeim orðum. Með því hafi ákærði átt við að réttast væri að hann tæki í lurginn á þeim. Brotaþolarnir hafi báðir hlegið. Hann kvaðst hafa staðið upp og ætlað í ,,gamnislag“ við brotaþolann A og farið hafi af stað minniháttar handalögmál. Hafi ákærði ætlað að fella brotaþolann og reynt að grípa undir læri hans. Við það hafi ákærði hrasað og í fallinu gripið að framanverðu í sundbuxur brotaþolans til að gera eitthvað. Það hafi ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi, né hafi hann komið við kynfæri brotaþolans. Ákærði kvaðst átta sig á því eftirá að það hafi ekki verið skynsamlegt að grípa í sundbuxur brotaþolans. Ákærði hafi séð að honum hafi brugðið við þetta og handalögmálin lognast út af í kjölfarið. Áður hafi brotaþolinn farið hlæjandi undan ákærða í pottinum og hafi brotaþolinn B hlegið enn meira. B hafi staðið í tröppum sem liggja niður í heita pottinn og komið þannig í veg fyrir að brotaþolinn A kæmist upp úr pottinum. Hafi hann gert það til að ákærði næði til A. A hafi hins vegar ekki hlegið eftir að ákærði greip í sundbuxur hans. Kvaðst ákærði hafa beðið hann afsökunar en hann verið óhress og kastað snjóboltum í ákærða eftir að hann fór upp úr pottinum. Ákærði hafi á þessari stundu áttað sig á því hvaða áhrif þessi ,,gamnislagur“ hefði haft á brotaþolann.  

Brotaþolinn hafi kallað á sundlaugarvörð og sagt verðinum að ákærði hafi áreitt sig. Eftir þetta hafi ákærði engu sambandi náð við hann. Ákærði kvaðst í raun ekki vita hvað hafi gerst. Hann hafi ekki rifið sundbuxurnar niður um brotaþola en hann hafi verið í tvennum sundbuxum og ákærði einungis gripið um þær ytri. Ákærði kvaðst ekkert hafa komið við brotaþolann B og athugasemdir hans einungis beinst að brotaþolanum A. Hann kvaðst hafa vitað að eftirlitsmyndavél væri við heitu pottana í sundlauginni.

Ákærði kvað brotaþolann A hafa verið skrafhreifinn, lífsglaðan og spurulan dreng. Á einhverjum tímapunkti, löngu fyrir þetta atvik, hafi ákærði sagt honum að hann væri samkynhneigður og að hann væri í sambúð með manni. Eftir það hafi flestar samræður hans og brotaþola gengið út á þetta. Allt hafi verið á léttum nótum. Eins hafi þeir rætt um aðra hluti eins og skólagöngu brotaþola o.fl. en ákærði kvaðst hafa hvatt brotaþola áfram í námi. Hann hafi staðið í þeirri trú að brotaþolinn A væri á aldrinum 17 til 18 ára er hann kynntist honum fyrst. Ákærði kvaðst oft hafa spurt brotaþola og vini hans hvernig þeir færu að því að vera svona grannir. Ákærði kvað málið allt hafa haft mikil áhrif á sig. Eftir þetta hafi hann í tvígang farið í laugarnar í Laugardal. Í síðara skiptið hafi hann rekist á A. Hafi hann verið með munnsöfnuð við ákærða og talað um hann sem barnakáfara. Eftir það hafi hann ekki farið í sundlaugarnar í Laugardal; hann hafi ekki viljað leggja meira á brotaþolann.

Brotaþolinn A kvaðst hafa farið í sundlaugarnar í Laugardal að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014. Með honum í för hafi verið brotaþolinn B. Ákærði hafi einnig verið í laugunum. Þeir hafi verið þrír saman í heitum potti. Enginn annar hafi verið þar á þeim tíma. Ákærði hafi haft orð á því að þeir væru vel byggðir. Hafi hann síðan spurt þá hvort hann ætti að taka þá í rassgatið. Það hafi ekki verið sagt í neinu gríni og komið alveg upp úr þurru. Fram að því hafi þeir átt venjulegar samræður og hafi þeim brugðið við þessi orð ákærða. Ákærði hafi komið yfir til brotaþolans í heita pottinum og hann hafi þá reynt að forða sér frá ákærða en ákærði hafi reynt að snerta kynfæri hans með því setja hönd inn fyrir sundbuxurnar hans. Það hafi ákærða ekki tekist en brotaþoli hafi verið í tvennum sundbuxum; höndin hafi komið nærri kynfærum hans. Hann kvaðst hafa verið lítill og grannur á þessum tíma og átt erfitt með að sleppa frá ákærða. Honum hafi liðið illa er þetta gerðist og verið hræddur. Í annarri atrennu hafi honum tekist að sleppa frá ákærða. Hann hafi verið í sjokki og hringt á lögreglu, auk þess sem hann hafi látið starfsmann sundlaugarinnar vita um atvikið. Að því loknu hafi hann hringt í móður sína og tjáð henni hvað komið hefði fyrir. Brotaþoli kvaðst á engan hátt hafa boðið ákærða upp á þessa framkomu; ekkert sagt við hann sem gefið hafi honum tilefni til að koma svona fram. Hann hafi upplifað framkomu ákærða af kynferðislegum toga.               

Það kom fram hjá A að ákærði hafi ekki haft sig sérstaklega í frammi gagnvart brotaþolanum B, þó svo að hann hafi beint orðum sínum um að taka þá í rassgatið að þeim báðum. Ákærða hafi brotaþoli þekkt frá fyrri sundferðum sínum, en þar hafi hann kynnst honum. Hafi þeir báðir verið fastagestir í lauginni. Þeir hafi þá rætt um allt og ekkert; lífið, knattspyrnu og skólagöngu brotaþola. Í gegnum þessar samræður þeirra hafi ákærði vitað um aldur brotaþola en brotaþoli hafi verið í menntaskóla á þessum tíma. Brotaþoli kvaðst hafa farið í sund í Laugardalnum skömmu eftir þetta atvik. Hann hafi verið samferða brotaþolanum B og móður B. Ákærði hafi verið í sundi á sama tíma en farið upp úr sundlauginni þegar hann hafi orðið brotaþolanna var.

Brotaþoli kvaðst aldrei hafa beðið ákærða eða aðra sundlaugargesti um pening í fyrri sundferðum sínum.  

Brotaþolinn B kvaðst hafa farið í sund með brotaþolanum A að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014. Þeir hafi farið í heitan pott og hitt þar fyrir ákærða, sem hafi verið í pottinum er þeir hafi komið þangað. Þeir hafi rætt saman. Ákærði hafi á einum tímapunkti sagt að þeir væru flott byggðir og að hann vildi taka þá í rassinn. Þessi athugasemd ákærða hafi verið óþægileg, en þeir hafi ekki haft í frammi neinar kynferðislegar athugasemdir gagnvart ákærða. Hafi brotaþolanum brugðið og hann verið í sjokki. Í framhaldi hafi ákærði sagt ,,komdu“ við A og gripið í hann. Hafi brotaþoli séð ákærða grípa í sundbuxur A. A hafi tekist að losna frá ákærða og brotaþoli séð að A leið illa. Þeir hafi ekki tekið þátt í neinu gríni með ákærða, svo sem hann héldi fram. Hafi þeir farið úr pottinum og hringt á lögreglu. Brotaþoli kvaðst ekki hafa varnað A að komast upp úr heita pottinum. Vissi hann ekki af hverju hann hefði ýtt honum aftur út í pottinn, svo sem sjá mætti af myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi laugarinnar. Ákærði hafi yfirgefið laugarnar um leið og brotaþolar. Brotaþoli kvaðst telja að ákærði hafi átt að vita aldur þeirra. Hann sagði A ekki hafa beðið ákærða um pening á þeim tíma er hann hafi séð til. Ákærði hafi hins vegar alltaf verið að bjóða þeim peninga. Brotaþoli kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við ákærða eftir þetta atvik. Ákærði hafi fyrir þetta haft uppi kynferðislegt tal við þá og áður verið búinn að segja að þeir væru vel byggðir og að hann ætti að sjúga þá. Brotaþoli kvaðst þess fullviss að ákærði hafi ekki sagt þetta kvöld að hann ætti að taka í rassgatið á þeim, heldur hafi hann sagt að hann ætti að taka þá í rassinn. Brotaþoli kvað sér hafa liðið illa eftir þetta atvik. Hafi þeir A rætt um það að þeir yrðu að gleyma þessu atviki.

Móðir brotaþolans A kvaðst hafa fengið símtal frá syni sínum að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014. Hún hafi ekki heyrt vel það sem brotaþoli hafi sagt í símann, en hún hafi þó heyrt að eitthvað hefði komið fyrir í sundlaugunum. Hún hafi talið son sinn eiga sök á einhverju og orðið hálf pirruð út í hann. Hafi hann sagt að hringt hafi verið á lögreglu og hún áttað sig á alvarleika málsins næsta dag. Sonur hennar hafi sagt henni frá því sem gerst hefði og verið mjög hræddur. Hafi það verið augljóst að eitthvað hefði gerst í laugunum sem brotaþoli hafi ekki verið sáttur við. Brotaþoli hafi verið mjög æstur alla vikuna eftir atburðinn. Það hafi allt ýfst upp er brotaþoli hafi farið til lögreglu til að gefa skýrslu í janúar 2015. Með tímanum hafi málið fjarlægst.

Móðir brotaþolans B kvað hann hafa greint sér frá því að hann og A hafi hitt og rætt við eldri mann í sundlaugunum. Hafi sumt af því sem maðurinn sagði virkað furðulegt. Brotaþolar hafi báðir verið í sjokki eftir atburði föstudagsins 5. desember 2014. Sonur hennar hafi greint henni frá því sem komið hefði fyrir og sagt að ákærði væri ekki alveg eðlilegur. Brotaþolar hafi ekki farið í sund í talsverðan tíma eftir atvikið, utan eitt skipti, er hún hafi farið með þeim. Ákærði hafi verið í sundi og brotaþolum brugðið við það. Ákærði hafi yfirgefið laugina er hann hafi orðið brotaþolanna var.

Fyrir dóminn kom starfsmaður sundlauganna í Laugardal. Kvaðst hann hafa orðið var við er brotaþolar hafi rætt saman inni í búningsklefa að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014. Ákærði hafi verið þar og hafi hann sennilega verið að reyna að róa brotaþolann A niður. Hafi vitnið orðið þess áskynja að brotaþolinn A hefði hringt á lögreglu. Hafi starfsmaðurinn tilkynnt yfirmanni sínum í sundlaugunum um hvað væri í gangi.

Fyrir dóminn kom fyrrum vaktstjóri í sundlaugunum í Laugardal. Kvaðst hann hafa séð á myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfi að eitthvað hefði komið fyrir í heitum potti. Hafi hann rætt við brotaþolana og í framhaldi komið málinu áfram. Hafi hann orðið þess áskynja að brotaþolunum hafi verið mjög brugðið. Hafi þeir verið fastagestir í sundlaugunum og hann þekkt þá vel. Hafi þeir verið ólíkir sjálfum sér þetta kvöld.

Fyrrum lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði sinnt útkalli lögreglu þetta kvöld. Hann hafi rætt við brotaþolana á vettvangi og þeir tjáð honum að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. Í framhaldi af viðræðum við drengina hafi verið farið að heimili ákærða og rætt við hann. Hafi ákærði greint frá sinni hlið á málinu og sá framburður hans verið settur niður í frumskýrslu lögreglu.  

Fyrir dóminn komu tvö vitni sem kváðust vera fastagestir í sundlauginni í Laugardal. Lýstu þau því bæði að þau þekktu ákærða, sem hafi verið fastagestur í lauginni. Lýstu þau því bæði að brotaþolinn A hafi komið reglulega í sundlaugina. Hann hafi stundum verið ódæll og með fíflalæti. Hafi hann stundum beðið fastagesti laugarinnar um peninga, þar á meðal ákærða.   

Niðurstaða:

                Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014 brotið gegn blygðunarsemi brotaþolanna A og B, sem þá voru 17 ára, með því að hafa viðhaft kynferðislegt tal við þá, auk þess að hafa áreitt brotaþolann A kynferðislega með því að toga í buxnastreng á sundbuxum hans að framanverðu fyrir miðju. Í ákæru eru brot ákærða talin varða við 199. gr. og 209. gr. laga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Við flutning málsins lýsti sækjandi því að ákærða væri gefið að sök brot gegn 199. gr. laga nr. 19/1940 einungis að því er brotaþolann A varðaði en að brot ákærða gegn 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002 beindust að báðum brotaþolum.

                Ákærði neitar sök. Hefur hann lýst því að hann hafi sagt við brotaþolana að réttast væri að taka í rassgatið á þeim, en það hafi hann sagt í þeirri merkingu að réttast væri að taka í lurginn á þeim. Það hafi verið sagt í framhaldi af því að brotaþolinn A hafi verið að gantast í ákærða og að bera föður sinn saman við ákærða. Hann hefur viðurkennt að hafa tekið í framanverðan buxnastreng á sundbuxum brotaþolans A. Hafi ákærði ætlað að fella brotaþola í heitum potti og í þeim tilgangi hafi hann gripið undir læri brotaþolans. Hann hafi misst jafnvægið og í framhaldi gripið í buxnastrenginn. Engar kynferðislegar hvatir hafi búið að baki aðgerðum ákærða í heita pottinum.

                Á meðal gagna málsins er myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi sundlauganna í Laugardal sem sýnir atburðarásina í heitum potti að kvöldi föstudagsins 5. desember 2014. Á myndskeiði sjást ákærði og brotaþolarnir í heita pottinum. Ákærði lætur sig fljóta en stendur síðan á fætur. Í framhaldi slær hann sér á lær og gengur rakleitt að brotaþolanum A. Brotaþolinn A skvettir á ákærða er ákærði nálgast en hörfar síðan undan aðför ákærða. Ákærði nær tökum á brotaþolanum, sem nær að slíta sig lausan. Brotaþolinn reynir að komast úr heita pottinum en tekst það ekki áður en ákærði nær til hans á ný og dregur hann aftur út í miðjan pottinn. Ákærði tekur aftur á brotaþola, sem á ný tekst að slíta sig lausan. Í kjölfarið fer brotaþolinn úr pottinum.

                Ákærði hefur lýst því að ákærði og brotaþolarnir hafi verið í ,,gamnislag“ í pottinum. Það verður ekki séð af myndskeiðinu. Myndskeiðið sýnir hins vegar að A hræðist ákærða, svo sem hann hefur staðhæft. Það er ekki að sjá að ákærði sé við það að falla í átökum sínum við brotaþolann svo sem hann heldur fram að hafi verið undanfari þess að hann hafi gripið í sundbuxur brotaþolans. Starfsmaður sundlaugarinnar í Laugardal hefur borið um að brotaþolarnir hafi verið í uppnámi eftir þetta atvik og styður það framburð þeirra um að ákærði hafi brotið gegn þeim. Brotaþolarnir voru trúverðugir í framburðum sínum fyrir dóminum og fékk það augljóslega talsvert á brotaþolann A að lýsa atvikum í návist ákærða. 

                Ákærði hefur ekki gefið skynsamlega skýringu á því af hverju hann greip, að framanverðu fyrir miðju, í sundbuxur brotaþolans A, en eins og áður segir er ekki að sjá að hann hafi misst jafnvægið í átökum við brotaþolann. Þá er ekki sennileg sú skýring ákærða að tilefni hafi verið fyrir hann að viðhafa þau ummæli að taka ætti í rassgatið á brotaþolunum fyrir þær sakir einar að metast við ákærða né gaf það honum tilefni til að slást við brotaþolann A. Er framburður ákærða ótrúverðugur að þessu leyti.

Þegar þessi atriði eru virt, sem hér að framan er gerð grein fyrir, verður trúverðugur framburður brotaþolanna lagður til grundvallar niðurstöðu og talið sannað að ákærði hafi viðhaft kynferðislegt tal við brotaþolana er hann sagði við þá að hann ætti að taka þá í rassinn. Þá áreitti hann brotaþolann A kynferðislega með því að toga í framanverðan buxnastreng á sundbuxum hans, en slíkt framferði hans var kynferðislegt áreiti. Sú háttsemi ákærða að toga í buxnastreng á sundbuxum brotaþolans A varðar við 199. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða, varðar einnig við 209. gr. sömu laga, er hann viðhafði kynferðislegt tal við brotaþolana báða, en sú háttsemi hans var til þess fallin að særa blygðunarsemi beggja brotaþolanna.

                Brotaþolarnir voru báðir 17 ára er brotin voru framin, en urðu 18 ára fáeinum mánuðum síðar. Af áðurnefndu myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfi verður ekki slegið föstu, svo óyggjandi sé, að brotaþolarnir hafi verið 17 ára að aldri er atvik áttu sér stað. Engar sönnur hafa verið færðar fyrir því að ákærði hafi vitað nákvæman aldur brotaþola. Af þeirri ástæðu verður ákærði sýknaður af broti gegn 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. 

                Ákærði er fæddur í júlí 1955. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði á sér engar málsbætur. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, sem í ljósi sakaferils þykir heimilt að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir. 

                Brotaþolinn A hefur krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi verið miður sín eftir atvikið. Hafi brot ákærða valdið honum nokkrum miska en brotið hefði í för með sér sálrænar afleiðingar sem og skerta sjálfsmynd. Ákærði hefur með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni valdið brotaþola miska. Ekki liggja fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brotsins og verða skaðabætur ákveðnar að álitum. Þó leyndi sér ekki við skýrslutöku af brotaþola að brot ákærða hefur fengið mikið á hann. Þykja miskabætur, í ljósi framferðis ákærða og þess er hér að framan greinir, hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.  

                Brotaþolinn B hefur krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi verið í uppnámi eftir atvikið. Hafi brot ákærða valdið honum þó nokkrum miska og brotið haft í för með sér sálrænar afleiðingar og skerta sjálfsmynd. Ákærði hefur með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni valdið brotaþola miska. Ekki liggja heldur í þessu tilviki fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brotsins og verða skaðabætur ákveðnar að álitum. Þykja miskabætur, í ljósi framferðis ákærða, hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.  

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþolanna beggja, sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, Magnús Skarphéðinsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði A 600.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. desember 2014 til 28. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 400.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. desember 2014 til 28. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 1.335.015 krónur og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hæstaréttarlögmanns, sem samanlagt nemur 982.140 krónum.