Print

Mál nr. 399/2016

Gunnar Jónsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Olíudreifingu ehf. (Hákon Árnason hrl.)
og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)
Lykilorð
  • Skaðabótamál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Vinnuslys
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun
G krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda O ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í tveimur vinnuslysum en í bæði skiptin hafði hann verið að setja olíu á tank olíuflutningabifreiðar sem hann ók. Var vísað til þess að um einfalt verk hefði verið að ræða sem G hefði um árabil sinnt í starfi sínu. Var talið að G hefði ekki sýnt fram á það að af hálfu O ehf. hefði verið brotið gegn nánar greindum ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum með þeim hætti að saknæmt gæti talist. Var O ehf. því sýknað af kröfu G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2016. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysum 24. september og 21. desember 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti, en ekki eru gerðar sjálfstæðar dómkröfur af hendi réttargæslustefnda.

I

Stefndi er fyrirtæki sem sér um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir móðurfélög sín N1 hf. og Olíuverslun Íslands hf. Rekur félagið 25 birgðastöðvar vítt og breitt um landið þar sem fram fer lestun eldsneytis á tanka olíuflutningabifreiða til dreifingar til viðskiptavina. Er mál þetta sprottið af tveimur vinnuslysum sem áfrýjandi varð fyrir við störf sín hjá stefnda, en í bæði skiptin var hann að setja olíu á tank olíuflutningabifreiðar sem hann ók. Við það verk þurfti hann að tengja svokallaðan lestunarbarka, sem er þriggja tommu sver og 4,5 metra löng slanga auk tengibúnaðar, við áfyllingarstút á tanki bifreiðarinnar. Liggur ekki annað fyrir en að slangan hafi verið full af eldsneyti þegar áfrýjandi handlék hana. Hefur hann lýst fyrra slysinu á þann veg að hann hafi verið að færa lestunarbarkann á milli áfyllingarstúta þegar snúist hafi ofan af slöngunni með þeim afleiðingum að hann hafi ráðið illa við hana, hrasað og snúið upp á annan fótinn. Hann hafi í kjölfarið fundið fyrir miklum verk í vinstra hné og leitað strax á slysadeild. Seinna slysinu lýsti áfrýjandi svo að hann hafi dregið lestunarbarkann undan annarri slöngu, en þá hafi snúningur sem var á honum  leitað til baka í rétt horf. Við það hafi hann kippst til og runnið. Hafi komið slinkur á líkama hans sem leitt hafi til þess að hann hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni.

Undir rekstri málsins aflaði áfrýjandi mats dómkvadds manns á ýmsum eiginleikum lestunarbarkans, meðal annars á þyngd og ummáli hans. Skilaði matsmaður matsgerð 5. október 2015.

II

Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er á því reist að héraðsdómara hafi borið að kveðja til sérfróða meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem ekki væri unnt að leggja dóm á málið á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Í málinu nýtur við sérfræðigagns, matsgerðar, sem aflað var undir rekstri málsins. Ekki er þörf á sérkunnáttu til að ráða fram úr niðurstöðum hennar um þyngd umrædds lestunarbarka, ummál hans og hversu mikinn kraft þurfti til að lyfta honum upp í ákveðna hæð, en þau atriði hafa mesta þýðingu við úrlausn þess ágreinings sem uppi er í málinu og varða eiginleika búnaðarins sem áfrýjandi notaði er hann varð fyrir þeim slysum sem málið lýtur að. Verður ómerkingarkröfu áfrýjanda því hafnað.

III

Áfrýjandi er einn til frásagnar um hvernig það vildi til að hann slasaðist í báðum slysunum. Ekki er ágreiningur um þá lýsingu hans. Breytir því engu fyrir sönnunarfærslu í málinu hvenær tilkynning um slysin var send Vinnueftirlitinu. Þá gerði Vinnueftirlitið úttekt 4. mars 2013 á lestunarstöð stefnda við Örfirisey þar sem slysin áttu sér stað og gerði engar athugasemdir við verklagið og aðbúnaðinn við lestun í stöðinni.

Áfrýjandi var 62 ára gamall þegar slysin urðu og hafði unnið sem olíuflutningabílstjóri hjá stefnda frá árinu 2005  og áður í sams konar starfi hjá Skeljungi hf. Um einfalt verk var að ræða sem áfrýjandi hafði um árabil sinnt í starfi sínu sem olíuflutningabílstjóri. Að framangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á það að af hálfu stefnda hafi verið brotið gegn nánar greindum ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum, settum á grundvelli þeirra laga, með þeim hætti að saknæmt geti talist. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                          

                                                        

 

               

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 29. janúar 2016, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnari Jónssyni kt. 200550-4209, Reykjavíkurvegi 52a, 220 Hafnarfirði, með stefnu birtri 1. desember 2014, á hendur Olíudreifingu ehf., kt. 660695-2069, Hólmaslóð 8-10, 101 Reykjavík, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og greiðslu málskostnaðar og til réttargæslu á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík,

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Olíudreifingar ehf. vegna líkamstjóns, sem stefnandi hlaut í tveimur vinnuslysum, á starfstöð Olíudreifingar ehf., á Örfirisey í Reykjavík, það fyrra þann 24. september 2012, en það síðara þann 21. desember 2012. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefna eins og stefnandi væri ekki með gjafsókn, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, og að við þá ákvörðun verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Stefnandi hefur ekki uppi sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda, Olíudreifingar ehf., eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.

Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur í þessu máli um annað en málskostnað, en tekið er undir kröfur og málatilbúnað stefnda.

 I

Málavextir

Stefnandi starfaði hjá stefnda, Olíudreifingu ehf., er hann varð fyrir tveimur slysum á árinu 2012, og hafi bæði slysin leitt til varanlegs tjóns á líkama hans. Hafi slysin átt sér stað í lestunarstöð stefnda á Örfirisey þegar stefnandi var að setja olíu á tank ökutækisins ZP-425, sem hann var ökumaður á. Sjái ökumenn sjálfir um að lesta tanka þeirra ökutækja sem þeir aki og þurfi við það að tengja svokallaðan lestunarbarka, þ.e. svera slöngu með tengibúnaði á endanum, og færa að stúti á tanki ökutækisins. Stefnandi kveður að til þess að ná slöngunni að stúti tanksins, þurfi að stíga ofan af lestunarpalli, sem er við dælubúnaðinn. Pallurinn sé steyptur og ca. 12-15 cm hár og rými fyrir starfsmann fremur lítið auk þess sem umræddar slöngur séu sverar og ásamt tengibúnaðinum séu þær þungar og einkar óhandhægar við notkun, sérstaklega þegar olía sé í slöngunni, sem oftast sé. Þurfi viðkomandi starfsmaður þá að beygja sig nokkuð til að losa þær af staðnum og gera þær tilbúnar til dælingar, með því að lyfta þeim, toga og færa til. Ef eldsneyti er í slöngunum séu þær einn þyngri og stífari og erfiðara að vinna við þær auk þess sem slöngurnar leitist þá við að rétta úr sér. Í umrætt sinn hafi slöngurnar einnig legið hvor ofan á annarri sem hafi gert verkið enn erfiðara. Stefnandi kveður að í raun sé þetta tveggja manna verk, sem hann vann við er hann slasaðist.

Stefnandi kveður fyrra slysið þann 24. september 2012, hafa atvikast með þeim hætti að hann hafi verið að færa slöngu á milli lestunarstúta á tanknum, þegar það hafi snúist ofan af slöngunni, enda full af olíu, með þeim afleiðingum að stefnandi hafi illa ráðið við slönguna, hrasað og snúið upp á vinstri fótinn, þrátt fyrir að hafa viðhaft eðlileg vinnubrögð. Hafi hann strax fundið fyrir miklum verkjum í vinstra hné.

Í skýrslu stefnda, Olíudreifingar ehf., um slysið segir eftirfarandi: „Gunnar er að lesta gasolíu milli 8-9 um morguninn á ZP-452 og snýr upp á löppina þegar hann er að færa slönguna milli lestunarstúta á vagni og fær verk í vinstra hné. Hann fer í ferðina, kemur aftur og lestar og fer austur á Hellu, Vegamót og Selfoss þegar Gunnar kemur úr þessari ferð um kl 16:00 finnur hann mikið til í hnénu og hættir vinnu og fer á slysavarðastofuna.“ Slysið var tilkynnt til Vinnueftirlitsins þann 4. desember 2012.

Stefnandi leitaði til læknis á Heilsugæslu Sólvangs sama dag og slysið átti sér stað. Í læknabréfi dagsettu þann dag segir eftirfarandi: „Gunnar er 62 ára gamall maður sem hefur haft verk í báðum hnjám í meira en mánuð, er í uppvinnslu hjá heimilislækni og búinn að fara í segulómun af hægra hné. Fór hins vegar ekki í greiningu á vinstra hné en hefur verið slæmur þar. Nú í dag var hann að stíga fram af kanti sem var u.þ.b. 30 cm hár og lenti eitthvað illa á vinstri fætinum, fannst hann fá slink á fótinn.“ Var greining lækna sú að svo virtist sem einhver tognun væri í vinstra hné.

Stefnandi fór í segulómun á vinstra hné þann 24. október 2012 og þá kom í ljós að innri liðþófi var mjög rifinn og var því gerð aðgerð sem framkvæmd var af Stefáni Carlssyni lækni þann 2. nóvember 2012. Eftir aðgerðina hafi stefnandi verið óvinnufær en hafið störf að nýju hjá stefnda þann 17. desember 2012.

Stefnandi kveður seinna slysið þann 21. desember 2012 hafa atvikast þannig, að hann hafi tekið í lestunarbarkann, lyft honum frá jörðu og byrjað að draga hann að tanknum og á sama tíma verið að stíga niður af þrepi eða palli þegar vindingur sem hafi verið á slöngunni hafi leitað til baka í rétt horf og haft áhrif á tök hans á barkanum. Við það hafi komið slinkur á líkama stefnanda, sem hafi valdið því að hann varð fyrir varanlegum líkamlegum áverka á baki. Stefnandi kveður einnig að hann hafi runnið til vegna bleytu. Hafi stefnandi haldið áfram að vinna í u.þ.b. 1½ klst. eftir slysið en þá verið orðinn svo þjakaður af verkjum að hann hafi átt erfitt með að standa uppréttur og að lokum verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild LSH í Fossvogi.

Í atvikaskráningu stefnda Olíudreifingar ehf. sem skráð var þann 10. janúar 2013, eftir frásögn stefnanda um atvikið, segir svo: „Gunnar lestar ZP-452 og snýr ofan af lestunarbarkanum sem er á pallinum og um leið og snýst af barkanum stígur Gunnar niður af pallinum og á planið og fær um leið hnykk í bakið. Gunnar lestar bílinn fékk sér kaffibolla til að jafna sig og fer síðan upp í Strætó, þegar hann tengir fyrri tankinn fær hann sting í bakið, þegar hann færir barkann yfir á seinni tankinn versnar verkurinn um allan helming. Áfyllisstútarnir hjá Strætó eru niður við jörðu og krjúpa þarf við tengingu. Hann hringir í Árna Jón og lætur vita að hann sé slæmur í bakinu og geti sennilega ekki unnið meira þann daginn. Gunnar keyrir niður í Örfirisey og þegar hann er að fara út úr bílnum þar fær hann þennan svakalega verk að hann rétt nær að koma sér inn í búningsherbergi. Þegar þar var komið var ákveðið að hringja í sjúkrabíl því Gunnar var mjög kvalinn og gat lítið hreyft sig. Tilkynnt af Gunnari það seint að ekki voru lengur til upptökur af atvikinu.“

Vinnueftirlitið framkvæmdi úttekt á aðstæðum vegna þessa slyss og fór úttektin fram 4. mars 2013. Í niðurstöðum kemur meðal annars fram að tengibarkinn sé 4“ í þvermál með toto-hraðtengi á endanum. Þyngd barkans sé ca 6-8 kg á endanum sem væri lyft þegar tenging við bíl fari fram. Ekki voru gerðar athugasemdir við verklag eða aðbúnað tilheyrandi þessum vinnuþætti, en með bréfi, dags. 7. maí 2013, kom fram að Vinnueftirlitið liti svo á að um tilkynningarskylt vinnuslys væri að ræða skv. 79. gr. laga nr. 46/1980. Formleg tilkynning um slysið barst Vinnueftirlitinu þann 4. júní 2013 frá stefnda, Olíudreifingu ehf.

Í vottorði frá LSH, dags. 21. desember 2012, kemur fram að vegna slyssins hafi stefnandi fengið sprautur og verkjalyf. Röntgenmynd hafi sýnt talsverðar nabbamyndanir á liðbolsbrúnum í neðri hluta lendarhryggjar en einnig hafi sést merki um slitbreytingar, en brot ekki greinst. Hafi greining bráðadeildar verið sú að stefnandi hafi verið með þursabit í þjótaki og sendur heim með Parkódín Forte og Voltaren Rapid.

Stefnandi leitaði til Ingvars H. Ólafssonar sérfræðilæknis þann 12. febrúar 2013. Í bréfi hans, dags. 1. ágúst 2013, kemur fram að tölvusneiðmynd af mjóhrygg hafi sýnt brjósklos í L3-L4 vinstra megin. Í bréfi Ingvars H. Ólafssonar til Gísla Baldurssonar heimilislæknis, dags. 6. maí 2013, kemur fram að stefnandi hafi farið í segulómun af mjóbaki sem hafi komið vel út. Stefnandi sé ekki með brjósklos og það sem hann hafi verið með á L3-L4 bilinu sjáist ekki við segulómun og ekkert sem hann geti gert frekar fyrir stefnanda.

Gísli Baldursson heimilislæknir sendi lögmanni stefnanda læknisvottorð, dags. 14. apríl 2014, þar sem læknirinn vísar til framangreinda læknisvitjana, en einnig kom fram að læknirinn hafi séð stefnanda nokkrum sinnum á árinu 2013, og hafi stefnandi þá átt erfitt með setur vegna verkja í baki. Einnig var þar rakið heilsufar stefnanda vegna einkenna frá stoðverkjum fyrir slysin og kom þar fram að stefnandi kom til læknis vegna verkjar í vinstri fótlegg á árinu 2004. Þá kom stefnandi til heimilislæknis á árinu 2009 vegna verkjar í baki og í tvígang á árinu 2011. Þann 15. febrúar 2012, leitaði stefnandi á slysadeild þar sem hann kvaðst hafa dottið viku áður á klaka og þá hafi vinstri fótur hans bögglast undir honum

Í læknisvottorði Stefáns Dalberg bæklunarlæknis, dags. 20. apríl 2014, sem skoðaði stefnanda þann 19. mars 2014, kom fram að stefnandi hafi upplýst að hann hafi verið við góða heilsu fyrir vinnuslysin tvö og ekki kennt sér meins frá vinstra hné eða baki áður. Var það álit læknisins að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í báðum nefndum vinnuslysum.

Í læknisvottorði Garðars Guðmundssonar, heila- og taugalæknis, dags. 29. apríl 2014, til lögmanns stefnanda kom fram að læknirinn hafi skoðað stefnanda þann 4. apríl 2014. Hafi stefnandi átt erfitt með að sitja kyrr vegna verkja í mjóbaki og hlíft vinstra fæti vegna hnés og ökkla. Beðinn um að meta hverjar væru framtíðarhorfur stefnanda kom fram hjá lækninum að tímabært væri að meta afleiðingar slysanna, enda ekki að vænta neins bata.

Með matsgerð þeirra Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis og Hannesar Inga Guðmundssonar lögfræðings, dags. 5. maí 2014, komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að í slysinu þann 24. september 2012 hafi stefnandi hlotið áverka á vinstra hné og í slysinu þann 21. desember 2012 áverka á lendhrygg.

Með beiðni dags. 27. nóvember 2014, óskað stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta nánar tilgreind atriði er snúa að vinnuaðstöðunni við lestunarstöð Olíudreifingar ehf, þá sérstaklega svokallaða lestunarbarka. Dómkvaddur var Magnús Þór Jónsson, prófessor við vélaverkfræði við Háskóla Íslands, sem skilaði mati sínu í október 2015.

Með bréfi, dagsettu þann 14. mars 2014, fór lögmaður stefnanda fram á það við réttargæslustefnda Vís hf., að tekin yrði afstaða til bótaskyldu. Krafan var svo ítrekuð og rökstudd enn frekar með bréfi dagsettu þann 20. mars 2014 og síðan með bréfi til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þann 29. apríl 2014 sem ítrekað var þann 26. maí 2014. Í svari úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júní 2014, kom fram að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda Olíudreifingar ehf. hjá VÍS. Taldi úrskurðarnefndin að ekki hafi verið sýnt fram á, að aðstæður á vinnustað hafi verið óviðunandi eða ábótavant með þeim hætti að það leiddi til skaðabótaskyldu stefnda, Olíudreifingar ehf.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Með málshöfðun þessari freistar stefnandi þess að fá niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum hnekkt og sé hann knúinn til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum, enda hafi hann af því lögvarða hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Viðurkenningarkrafa stefnanda á hendur stefnda Olíudreifingu ehf. byggist á því að stefndi beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda, enda tjónið afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda og starfsmanna, þar sem ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis starfsmanna á vinnustað. Þannig telur stefnandi að stefndi beri ábyrgð á slysunum tveimur á grundvelli sakarreglunnar, reglunar um vinnuveitandaábyrgð og eftir ströngum bótareglum, vegna hættulegs vinnuumhverfis og framkvæmdar vinnu, en starfsemi hins stefnda félags snúist um eldsneyti, og sé það hættulegt efni að vinna með, ekki aðeins vegna hættu á bruna, og heyri undir 4. gr., 1. mgr. 12. gr. og 90. gr. laga nr. 46/1980, sbr. og 21. gr. a skaðabótalaga.

Stefnandi byggir á ströngu sakarmati um ábyrgð vinnuveitanda á hættulegum vinnuaðstæðum eða ófullnægjandi aðbúnaði. Þannig beri stefndi skaðabótaábyrgð á þeim grundvelli að vinnuveitandi hafi brotið gegn þeirri eftirlitsskyldu, sem vinnuveitanda beri að hafa á vinnustað, og þeirri frumkvæðisskyldu, skv. lögum nr. 46/1980, sem felist í því að vernda starfsmenn fyrir hættum í starfi. Þá hafi framkvæmd vinnu verið ófullnægjandi og aðstæður á vinnustað óforsvaranlegar sem hafi orsakað bæði slysin. Hafi stefndi ekki uppfyllt skýrar lagalegar skyldur sínar við að haga vinnuaðstæðum með þeim hætti að starfsmenn yrðu ekki fyrir slysum. Í þeirri skyldu felist m.a. að gera allt sem mögulegt er til að létta starfsmönnum starfið og að tryggja öryggi þeirra í hvívetna á vinnustað. Í því sambandi skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, þ.m.t. við framkvæmd vinnu, vinnuaðstæður og véla- og tækjabúnað.

Um lagalegan rökstuðning vísar stefnandi fyrst og fremst til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Sérstaklega byggir stefnandi á ákvæðum II. kafla laganna, 12., 13., 14. gr., 37.-38. gr., 42.-43. gr. og 46.-47. gr., þar sem fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt á vinnustaðnum, sbr. og reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Markmið þeirrar reglugerðar sé að tryggja að fyrir hendi sé kerfisbundið vinnuverndarstarf innan vinnustaðar. Í því felist einkum að atvinnurekandi beri ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi, sem taki til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna, samanber og greinargerð með lögum nr. 124/2009.

Stefnandi telur að hann hafi borið sig eðlilega að í bæði skiptin sem slys varð miðað við aðstæður og megi því rekja slysin til ófullnægjandi vinnuaðstöðu og óforsvaranlegrar framkvæmdar við vinnu, sem skipulögð hafi verið af stefnda. Hægt hefði verið að setja upp svokallaðar sveiflur, sem væru algengar hjá stefnda þar sem eldsneyti er lestað í tankbíla. Hins vegar hafi þessi búnaður ekki verið settur upp á öllum lestunarstöðvum, svo sem ekki alls staðar á þeirri lestunarstöð þar sem stefnandi slasaðist. Umræddur búnaður eða sveiflur sé til staðar hjá stefnda og hafi verið í nokkur ár, en félagið dregið lappirnar við að setja hann upp á öllum átöppunarstöðum félagsins. Við þennan búnað þurfi ekki að beita afli til að lyfta eða draga til slöngur. Sé vinnan þeim mun einfaldari þegar þess háttar búnaður sé til staðar, því að einungis þurfi að tengja opið á hverjum lestunarbarka við stútinn á tanknum með léttum og handhægum handtökum, þar sem barkarnir hanga á þar til gerðum ás. Hefði þannig útbúnaður örugglega komið í veg fyrir slysin sem stefnandi varð fyrir. Vinnuveitanda sé skylt, sé búnaðurinn til, eða auðvelt sé að útvega búnaðinn án óhóflegs kostnaðar, að setja hann upp eða tryggja með öðrum hætti sömu eða betri vinnuaðstöðu. Ekki sé lagalegur grundvöllur fyrir neinum afslætti til handa vinnuveitanda þegar komi að öryggi starfsmanna hans. Það hafi hins vegar ekki verið gert og látið viðgangast og af þeirri ástæðu einni eigi stefndi að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Í þessu sambandi vísar stefnandi til reglugerðar um notkun tækja nr. 36/2006. Í 5. gr. þeirra reglna komi fram að atvinnurekandi skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum sé ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að hægt sé að nota tæki án þess að öryggi starfsmanna eða heilsu sé hætta búin. Byggir stefnandi á því að dælan á starfstöðinni á Örfirisey, þar sem stefnandi slasaðist, og allur tengdur útbúnaður sé tæki í skilningi reglugerðar nr. 36/2006.

Stefnandi byggir einnig á því, að dælubúnaðurinn hafi ekki verið í samræmi við meginreglur reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað, svo sem 4. grein reglugerðarinnar, sbr. I. viðauka og gr. 1.1.2, 1.2.1. og 1.5.15. Þá byggir stefnandi á því að dælubúnaðurinn hafi brotið í bága við meginatriði reglugerðar nr. 571/2000 um þrýstibúnað, samanber málsgrein 2.1 í 1. grein reglugerðarinnar, sbr. málsgrein 2.1.3., og frekari meginreglur reglugerðarinnar um merkingar.

Stefnandi bendir á að vinnusvæðið uppi á pallinum hafi verið mjög þröngt og lítið þurft til svo að starfsmenn féllu af pallinum og slösuðust. Taldi stefnandi þær aðstæður ekki uppfylla 42. gr. laga nr. 46/1980. Nauðsyn hafi verið fyrir stefnanda að stíga niður af pallinum til að tengja barkann við stútinn á olíutanknum, og hafi það brotið í bága við meginatriði reglugerðar nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, sbr. einkum 40. gr. reglugerðarinnar og d- lið 41. gr. reglugerðarinnar. 

Þá telur stefnandi að stefndi Olíudreifing ehf. hafi ekki haft til hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði og aðstæður sem fyrir hendi voru. Stefnandi og aðrir starfsmenn hafi þurft að beygja sig niður til að taka upp slönguna og beita verulegu afli við erfiðar aðstæður. Þá hafi snúist of auðveldlega ofan af slöngunum vegna innri spennu þeirra miðað við hvernig þær lágu á jörðinni, en slíkt hefði að öllum líkindum ekki gerst hefðu umræddar sveiflur verið til staðar og á því verði vinnuveitandi að bera ábyrgð. Vísar stefnandi til reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Sérstaklega er vísað til II. kafla reglnanna um skyldur atvinnurekanda, en fram komi í 3. gr. að atvinnurekandi skuli gera ráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar. Þá segir enn fremur að þegar ekki sé hægt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar skuli atvinnurekandi skipuleggja vinnuaðstæður og nota viðeigandi búnað til að draga úr þeirri áhættu sem felist í starfi þeirra og taka mið af I. viðauka reglnanna. Þá var vísað til 4. gr. sömu reglna um skipulag vinnusvæðis, en í b-lið greinarinnar sé kveðið á um að forðast eða draga skuli úr hættu á að starfsmenn verði fyrir bakmeiðslum með því að gera viðeigandi ráðstafanir. Einnig er vísað til 5. gr. um framkvæmd vinnu, stefnandi hafi orðið að handleika þungar byrðar og jafnframt að beita töluverðu líkamlegu átaki á meðan hann beygði sig niður og dró slönguna upp, sem togaði með ákveðnum hætti á móti. Leiddi allt þetta til slysanna beggja og megi vísa til sambærilegs tilviks sem fram komi í dómi Hæstaréttar nr. 61/2006.

Stefnandi bendir á ummæli réttargæslustefnda VÍS hf. í athugasemdum vegna málskots nr. 127/2014 hjá úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, en þar segi: „Hið rétta er að á sumum starfsstöðvum vátryggingataka hafa verið settar upp sveiflur í þeim tilgangi að minnka slit á slöngum og létta meðhöndlun þeirra, en það hefur alls ekki verið gert í tengslum við slys.“ Sé því viðurkennt af réttargæslustefnda VÍS hf., að sveiflurnar hafi verið settar upp í þeim tilgangi að létta meðhöndlun þeirra. Í því felist viðurkenning á því að meðhöndlun á slöngunum, eins og þar sem stefnandi slasaðist, hafi verið óforsvaranleg og verði að ganga út frá þeirri forsendu í málinu. Því hafi vinnuveitandi stefnanda vitað, eða mátt vita, að framkvæmd vinnu við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru, gátu leitt til slysa á starfsmönnum, m.a. bakmeiðsla. Hafi stefnandi þurft að beygja sig niður til að taka upp slönguna þegar slysin atvikuðust en þess hefði ekki verið þörf ef sveiflur hefðu verið settar upp.

Þá telur stefnandi að þar sem áðurnefndar sveiflur hafi ekki verið settar upp, hefði verið eðlilegt að tveir starfsmenn hefðu sett olíu á tanka bifreiðanna, þ.e. að annar hefði tekið enda slöngunnar og hinn haldið undir slönguna og veitt þannig stuðning og gætt að því að enginn snúningur kæmi á hana.

Enn fremur hafi stefnandi hvorki verið aðvaraður sérstaklega við þeirri hættu að snúist gæti upp á slöngurnar né fengið viðeigandi kennslu við notkun tækja á umræddri lestunarstöð, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980, svo sem leiðbeiningar um hvernig bera ætti sig að við verkið. Engin aðvörunarskilti hafi verið á staðnum, sem vöruðu við þessari hættu.

Telur stefnandi að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi við það að bæta ekki vinnuaðstæður á slysstað eftir að stefnandi lenti í fyrra slysinu. Verði að meta athafnaleysi stefnda félaginu til sakar, enda hefði verið hægt að koma í veg fyrir seinna slysið með því að bæta vinnuaðstæður á svæðinu. Jafnframt hafi starfsmenn kvartað yfir framkvæmd vinnunnar og aðstöðu.

Byggir stefnandi einnig á því, að fyrirliggjandi áhættumat stefnda Olíudreifingar ehf., fullnægi ekki lögum nr. 46/1980 né reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Taki áhættumatið til verulega takmarkaðra þátta, aðallega brunahættu, og geti þar af leiðandi ekki stuðlað að bættu vinnuumhverfi eins og lög og reglugerðir gera kröfu um. Samkvæmt reglugerð nr. 920/2006, beri atvinnurekanda skylda skv. 21. gr. til að koma á vinnuverndarstarfi sem taki til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu stafsmanna, sbr. lög nr. 46/1980. Samkvæmt 26. gr. skuli slík áætlun gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni eða slysum vegna vinnuaðstæðna, sbr. nánar í 27.gr. Þótt aðferðir við gerð áhættumats væru valfrjálsar skuli sú aðferð sem valin sé hverju sinni vera til þess fallin að greina þá áhættu sem geti verið til staðar. Tryggt skuli að allir áhættuþættir séu metnir, en af orðalagi ákvæðisins megi leiða líkur að því, að þar sé átt við um alla mögulega áhættuþætti við starfið. Þá skuli tryggt að áhættumatið feli í sér samantekt á grundvelli leiðbeininga sem Vinnueftirlitið hafi gefið út um gerð áhættumats, og taka mið af breytilegum aðstæðum einstakra atvinnugreina.

Varðandi umræddar leiðbeiningar Vinnueftirlitsins vísaði stefnandi til fræðslu- og leiðbeiningarritsins „Rétt líkamsbeiting, betri líðan“, fræðslu- og leiðbeiningaritsins „Líkamlegt álag við vinnu. Vinnustellingar, þungar byrðar og einhæfar hreyfingar.“ og gátlista um áhættuþætti þegar byrðar eru handleiknar. Hafi ákveðnir áhættuþættir verið fyrir hendi, sem ekki hafi verið teknir til skoðunar af stefnda Olíudreifingu ehf., og sé minnst á þá alla í ofangreindum gátlista um áhættuþætti, m.a. að byrðin gat færst til, byrðin hafi verið of þung og nauðsynlegt hafi verið að vinda upp á líkamann þegar verkið var unnið. Þá hafi vinnan verið erfið vegna þrengsla og hætta hafi verið á að starfsmaður hrasaði vegna mishæða, og stundum hafi olía lekið á pallinn. Stefndi hafi ekki tekið mið af öllum áhættuþáttum m.v. takmarkað áhættumat sitt. Lög og reglur kveði skýrt á um að taka skuli til greina alla áhættuþætti við slíkt mat. Því geti áhættumatið ekki talist fullnægjandi og engu skipti þó að Vinnueftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við þá takmörkuðu þætti sem þar komi fram.

Þá byggir stefnandi á því að ekki geti verið um eigin sök stefnanda að ræða, þar sem það sé frumkvæðisskylda vinnuveitanda að hafa vinnusvæði hættulaust. Jafnframt telur stefnandi óumdeilt að hann hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við framkvæmd starfans. Sé kveðið á um í 23. gr. a skaðabótalaga að réttur starfsmanna til skaðabóta skerðist ekki vegna meðábyrgðar, nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í slysinu. Eigi hvorugt þessara skilyrða við um stefnanda. Í 23. gr. a skaðabótalaga felist ströng sakarregla í garð vinnuveitanda er auki sönnunarbyrði vinnuveitanda í slíkum vinnuslysamálum og létti sönnunarbyrði þess starfsmanns sem slasast í starfi, sbr. greinargerð með lögum nr. 14/2009.

Byggir stefnandi enn fremur á því að öll sönnunarbyrði í þessu máli hvíli á stefnda, m.a. þar sem seinna vinnuslysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en löngu síðar. Sé það skýrt brot á 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, enda hafi Vinnueftirlitið í síðbúinni skoðun sinni komist að þeirri niðurstöðu að umrætt atvik væri tilkynningarskylt vinnuslys og að vinnuveitanda bæri að tilkynna slysið í samræmi við 79. gr. laganna. Hafi stefndi vitað, eða mátt vita, að slys stefnanda hafi gefið fullt tilefni til að ætla að um óvinnufærni væri að ræða, enda hafi stefnandi verið fluttur með sjúkrabifreið frá vinnustöð sinni. Hafi þetta ekki getað farið framhjá vinnuveitanda stefnanda eða starfsmönnum hans og ljóst að stefndi Olíudreifing ehf. ætti sér engar málsbætur vegna skorts á tilkynningu slyssins til Vinnueftirlitsins. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar að stefndi hlutaðist til um að starfsaðstaðan yrði tekin út af Vinnueftirlitinu. Vegna þess hversu langt hafi liðið frá slysinu þar til úttektin var gerð og í ljósi þess hversu takmörkuð hún var gæti hún ekki komið til álita í þessu máli. Verði vinnuveitandi því að bera allan halla af atvikum málsins í samræmi við fastmótaða réttarframkvæmd í íslenskum rétti.

Þá telur stefnandi að jafnvel þótt Vinnueftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við áhættumat stefnda Olíudreifingu ehf., við þann verkþátt sem um ræðir, hafi ekki verið gerð ítarleg úttekt á vinnuaðstæðum er slysin urðu. Stefnandi hafi ekki verið fenginn til að lýsa atvikum slyssins nánar né fengið tækifæri til að benda sérstaklega á þær hættur sem fólust í framkvæmd starfans. Þá sé ekki að sjá að eftirlitsmaður hafi fengið vitneskju um betri vinnuaðstæður á öðrum starfstöðum stefnda.

Einnig gagnrýnir stefnandi það sem fram komi í úttekt Vinnueftirlitsins, að þyngd barkans hafi verið ca 6-8 kg á endanum sem lyft var þegar tenging við bílinn færi fram. Barkinn sé mun þyngri þegar draga þurfi hann til, þá séu þyngslin í barkanum öllum en ekki aðeins í endanum og miklu skipti hvort olía sé í barkanum eða ekki þegar þyngd hans sé metin. Hefði allt ofangreint skipt sköpum við ítarlega úttekt og ekki síst hvaða þrýstingur hafi verið í barkanum, en nauðsynlegt hefði verið að vita hvaða áhrif þessi þrýstingur olíunnar í barkanum hefði á hegðun barkans, sem og aðstæður á pallinum varðandi hálku af bleytu eða olíu á og við pallinn. 

Byggir stefnandi á því að skv. lögum nr. 46/1980, sbr. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 30/1993, skuli vinnuveitendur vera sérfræðingar um vinnuöryggi á starfstöð sinni, og þar af leiðandi gildi í þessum efnum reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Af því leiði að öll sönnunarbyrði í máli þessu hvíli á hinu stefnda félagi um að varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysunum stafi ekki af vanbúnaði hins stefnda félags. Þá áréttar stefnandi að í báðum tilvikum hafi hið stefnda félag viðurkennt að um slys hafi verið að ræða, þ.e. skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem valdið hafi líkamstjóni, sbr. uppgjör úr launþegatryggingu.   

Stefnandi telur að greina verði á milli þeirra skyldna sem hvíli á vinnuveitanda annars vegar og starfsmönnum hans hins vegar. Þegar líkamstjón megi rekja til þess að vinnuveitandi hafi ekki farið eftir reglum sem gilda um öryggi á vinnustað, beri hann ábyrgð á slysi sem verði á starfsmanni hans, hvort sem slysinu er valdið af gáleysi eða ásetningi. Vinnuveitanda sé skylt að tryggja að aðstæður á vinnustað tefli ekki í tvísýnu öryggi starfsmanna, sbr. meginreglu 13. gr. laga nr. 46/1980. Þær skyldur sem lög leggi á starfsmann megi ekki vera það þungbærar að þær geri að engu skyldur vinnuveitanda skv. lögum. Reglurnar um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað nái ekki markmiðum sínum á skilvirkan hátt, ef ekki sé jafnframt fallist á bótaábyrgð hans ef út af bregður. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE sem og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-2/10, þar sem segir að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda, ábyrgðin á öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustað hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda. Vinnuveitandi eigi að bera meginábyrgðina á öryggi og heilsu starfsmanna sinna. Hefði öllum öryggisreglum verið fylgt, hefði stefnandi einfaldlega ekki orðið fyrir líkamstjóni.

Að mati stefnanda leiði allt ofangreint til þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Byggir stefnandi á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að viðurkenningarkrafa hans verði tekin til efnislegrar úrlausnar, þar sem sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi hlotið varanlegt líkamstjón í vinnuslysunum tveimur.

Um lagarök vísar stefnandi til framangreindra reglugerða- og lagaákvæða, þá sérstaklega til laga nr. 46/1980 og reglugerða með stoð í þeim lögum, reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs og nr. 36/2006 um notkun tækja, auk reglna nr. 499/1994. Einnig skírskotar stefnandi til 23. greinar a skaðabótalaga og til greinargerðar með lögum nr. 14/2009. Þá vísi stefnandi til reglna skaðabótaréttar um herta sakarreglu, með hliðsjón af sérfræðiábyrgð vinnuveitanda um öryggi á vinnustöðum og til reglna um sönnunarbyrði hins stefnda félags, skv. reglum um sérfræðiábyrgð og skyldu vinnuveitanda til að tilkynna slys til Vinnueftirlitsins. Þá vísar stefnandi og til reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og húsbóndaábyrgð. Þá vísi stefnandi einnig til reglu skaðabótaréttar um uppsafnaða sök og nafnlaus mistök og til reglunnar um sennilega afleiðingu. Viðurkenningarkröfu sína byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. og kröfu um málskostnað á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi, Olíudreifing ehf., gerir þær kröfur að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda, enda sé alfarið ósannað í málinu að umrædd atvik hafi komið til af ástæðum sem stefndi eða starfsmenn hans beri skaðabótaábyrgð á með þeim hætti sem stefnandi haldi fram og byggi kröfur sínar á. Um sé að ræða atvik sem eingöngu verði rakin til óhappatilvika sem engum verður gert að bera ábyrgð á að lögum og/eða til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Um hugsanlega skaðabótaábyrgð stefnda í málinu fari eftir almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga og sönnunarbyrðin um meinta sök stefnda eða starfsmanna hans hvíli alfarið á stefnanda sem og sönnunarbyrðin um það að tjón stefnanda verði rakið til framangreindra atvika. Sé ekkert tilefni til þess að víkja frá þessum reglum við úrlausn málsins.

Stefndi telur að engar heimildir séu til þess að snúa sönnunarbyrðinni við á þeim grundvelli að stefndi hafi ekki sent tilkynningu til Vinnueftirlitsins innan þess tímaramma sem getið er um í 79. gr. laga nr. 46/1980 líkt og stefnandi haldi fram. Fram hafi komi í málsatvikalýsingu að stefnandi hafi sjálfur tilkynnt seint um atvikin til stefnda og stefndi hafi tilkynnt Vinnueftirlitinu um atvikin eftir að stefnandi tilkynnti stefnda um þau. Verði skortur á tilkynningu því ekki metinn stefnda til sakar, enda hafi stefnda ekki gefist tækifæri til að tilkynna atvikin til Vinnueftirlitsins innan frests 79. gr. laga nr. 46/1980. Jafnvel þótt talið yrði að stefnda hafi borið að tilkynna atvikin fyrr en gert var þá sé ljóst að aðstæður á vinnustað stefnanda eru eins í dag og þær voru þá daga sem umstefnd atvik áttu sér stað. Aðstæður hafi einnig verið þær sömu þegar Vinnueftirlitið fór á vettvang og gaf álit sitt. Tilkynningar og rannsóknir jafnvel strax sömu daga eða dagana eftir atburði hefðu því engu breytt. Þá bendir stefndi á að lega áfyllingarslangnanna geti vitaskuld aldrei verið sú sama og þegar umstefnd atvik áttu sér stað því að eðli málsins samkvæmt breyttist lega þeirra um leið og stefnandi sjálfur notaði þær til áfyllingar.

Stefndi telur óljóst hvað stefnandi eigi við með ströngu sakarmati á ábyrgð vinnuveitanda skv. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993 sem auki sönnunarbyrði vinnuveitanda og létti henni af starfsmanni sem slasast við störf. Megi skilja það sem svo að stefndi eigi að bera hlutlæga ábyrgð og/eða að snúa eigi sönnunarbyrðinni við og leggja hana á stefnda, þannig að í 23. gr. a skaðabótalaga felist að það hvíli á vinnuveitanda að „afsanna“ sök sína og þetta ákvæði víki þannig til hliðar almennum sönnunarreglum skaðabótaréttarins um sönnunarbyrði tjónþola. Stefndi mótmælir þessum skilningi stefnanda alfarið, enda komi hlutlæg ábyrgð ekki til álita nema samkvæmt skýru lagaákvæði. Stefndi bendir einnig á að Hæstiréttur hafi þegar hafnað því að slíkt felist í þessu ákvæði laganna. Því komi ekki annað til álita en að almennar sönnunarreglur skaðabótaréttarins gildi og sönnunarbyrðin sé því öll hjá stefnanda um meinta sök stefnda.

Stefndi hafnar því alfarið að reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð eigi við og því beri að snúa sönnunarbyrðinni við og leggja hana á stefnda. Það sé rangt sem haldið sé fram að í lögum nr. 46/1980 og 23. gr. a skaðabótalaga felist að vinnuveitandi beri slíka ábyrgð. Sérfræðiábyrgð eigi við um einstakar starfsstéttir sem hafi atvinnu af því að bjóða fram og selja sérfræðiþekkingu sína. Stefndi telji augljóst að slík ábyrgð eigi ekki við í þessu máli, enda sé starfssvið stefnda ekki á sviði vinnuöryggis né bjóði hann slíka þjónustu gegn gjaldi. Meint sakarábyrgð stefnda verði því ekki byggð á því að reglur um sérfræðiábyrgð eigi við og breyti engu um sönnunarreglur sem ber að leggja til grundvallar í málinu.

Stefndi bendir á að þar sem taldar séu upp þær réttarreglur sem kröfur stefnanda byggjast á og sé vísað til reglu skaðabótaréttar um „uppsafnaða sök“ og „nafnlaus mistök“, geri stefnandi enga grein fyrir því í umfjöllun um málsástæður í stefnu eða annars staðar hvernig meint saknæm háttsemi stefnda gæti grundvallast á þeim reglum. Ef stefnandi byggir kröfur sínar á þessum reglum telur stefndi slíka málsástæðu með öllu vanreifaða og beri að vísa henni frá án kröfu. Stefndi bendir jafnframt á að óljóst sé hvað stefnandi eigi við með „uppsafnaða sök“ en í skaðabótarétti fyrirfinnst regla sem kallast nafnlaus mistök eða „anonyme fejl“. Stefndi telji þá reglu ekki geta átt við, enda liggi fyrir að það var stefnandi sjálfur sem náði í slönguna og flutti hana að ökutækinu. Regla þessi geti því aldrei átt við um meinta sök stefnda.

Þá byggi stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð á líkamstjóni hans sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og starfsmanna stefnda. Aðstæður á vinnustað hafi verið óforsvaranlegar og hafi því ekki verið gætt fyllsta öryggis starfsmanna á vinnustað. Þannig hafi ekki verið komið fyrir á vinnustað svokölluðum sveiflum til að aðstoða við áfyllingu eldsneytis, vinnusvæðið uppi á pallinum undir áfyllingarstöðinni hafi verið of þröngt og hætta hafi verið á að starfsmenn rynnu við framkvæmd verksins vegna bleytu. Hafi stefnandi vísað til þess að stefndi hafi með framangreindu brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, reglugerðar nr. 36/2006 um notkun tækja, reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað, reglugerðar nr. 571/2000 um þrýstibúnað, reglugerðar nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar og reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.

Stefndi mótmælir því alfarið að hafa á nokkurn hátt sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til bótaskyldu hans á grundvelli sakarreglunnar. Ljóst sé af atvikum málsins að þessir tveir atburðir sem málið snúist um verði eingöngu raktir til óhappatilviljunar og/eða aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Það væri stefnandi sem bæri sönnunarbyrðina um meint saknæmi stefnda, honum bæri að sýna fram á að slysið mætti rekja til atvika sem stefndi ber ábyrgð á.

Stefndi telur ekki annað liggja fyrir í málinu en að stefndi hafi að öllu leyti framfylgt ákvæðum laga nr. 46/1980 og þeirra reglugerða og reglna sem settar hafa verið á grundvelli laganna og geti átt við um starfsemi stefnda. Sé fullyrðingum stefnanda um hið gagnstæða harðlega mótmælt sem bæði röngum og ósönnuðum. Þvert á móti leggi stefndi mikla áherslu á það að öryggismálum sé ávallt framfylgt í hvívetna. Hafi stefndi m.a. hlotið vottun bsi (the British Standard Institution) á innleiðingu breska öryggisstaðalsins OHSAS 18001, en staðallinn sé rammi fyrir heilsu- og öryggisstjórnkerfi hjá fyrirtækjum. Hafi úttekt farið fram hjá stefnda í maí 2014 vegna staðalsins sem og vegna annarra staðla sem stefndi hafi innleitt. Skemmst sé frá því að segja að þær örfáu athugasemdir sem gerðar hafi verið, hafi með engum hætti lotið að þeim vinnuaðstæðum sem stefnandi vann við en af því leiði að þær hafi uppfyllt allar öryggiskröfur skv. staðlinum.

Samkvæmt framangreindu vísi stefnandi til fjölmargra ákvæða nefndra laga, reglugerða og reglna máli sínu til stuðnings. Láti stefnandi jafnvel í ákveðnum tilvikum nægja að vísa í viðkomandi regluverk í heild sinni, en tilgreini oft ekki með hvaða hætti hann telji stefnda hafa brotið gegn því. Ákvæði laga nr. 46/1980 og þeirra reglugerða og reglna sem stefnandi vísi til eigi það sameiginlegt að um sé að ræða almennar leiðbeiningarreglur um það hvernig vinnu skuli háttað og hvernig vinnustaðir eigi að vera, en veiti ekki leiðbeiningar um sakarmat. Stefnandi hafi ekki fært sönnur á eða sýnt fram á með beinum hætti á hvern hátt hafi verið brotið gegn þessum almennu hátternis- og leiðbeiningarreglum og ekki dugi að vísa almennt til þeirra varðandi meinta sök stefnda.

Þannig vísi stefnandi almennt til laga nr. 40/1980 en sérstaklega til II. kafla, laganna, 12.-14. gr., 37.-38. gr., 42.-43. gr. og 46.-47. gr. og til reglugerðar nr. 920/2006 því til stuðnings að aðstæður, tækjabúnaður og framkvæmd vinnu á vinnustað hafi verið ófullnægjandi. Stefndi bendir á að það hafi sannarlega verið starfandi öryggisnefnd, sbr. II. kafla laga nr. 46/1980 og ákvæði reglugerðar nr. 920/2006, og hafi stefnandi sjálfur gegnt stöðu öryggistrúnaðarmanns í öryggisnefnd frá október 2011 til október 2013. Hafi stefnandi þar hlotið viðeigandi þjálfun í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 920/2006. Þá hafi stefnandi hafið störf hjá stefnda árið 2005 sem vanur starfsmaður en hann hafði áður gegnt sama starfi hjá Skeljungi hf. um áraraðir. Hafi því ekki verið þörf á kennslu og þjálfun fyrir stefnanda, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980. Þá hafi verið gerð skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað og framkvæmt áhættumat, sem samþykkt var af Vinnueftirlitinu. Að öðru leyti sé um að ræða almennar hátternisleiðbeiningar. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á með hvaða hætti stefndi hafi brotið gegn reglunum en ekki nægi eingöngu að vísa í að til sé búnaður sem gæti mögulega auðveldað starfið. Slíkt feli ekki eitt og sér í sér að núverandi vinnuaðstæður séu óviðunandi eða þeim ábótavant. Þá fari því fjarri, sem stefnandi haldi fram, að ef til sé útbúnaður sem bæti vinnuaðstæður og öryggi verði vinnuveitandi að setja upp slíkan búnað eða tryggja með öðrum hætti sömu niðurstöðu eða betri niðurstöðu. Fullyrðing þessi sé algerlega órökstudd og úr lausu lofti gripin.

Vísi stefnandi einnig til reglugerðar nr. 37/2006 um notkun tækja, sérstaklega til 5. gr. Geri stefndi ráð fyrir því að hér eigi stefnandi við reglugerð nr. 367/2006, en reglugerðin kveði á um að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi eða heilsu starfsmanna sé hætta búin. Hvergi sé hins vegar tekið fram það sem stefnandi haldi fram um að brýn skylda hvíli á atvinnurekanda að tryggja að tæki sé sett upp með sem bestum tilteknum hætti og að sé unnt að tryggja að tæki hæfi verki betur verði vinnuveitandi að grípa til ráðstafana til að létta starfsmönnum handtökin eða auðvelda notkun tækisins með öllum tiltækum ráðum. Tæki geti auðveldlega verið þannig útbúið að hægt sé að nota það án þess að öryggi eða heilsu sé hætta búin þótt ekki sé um að ræða nýjustu uppfærslu og betrumbætur á viðkomandi tæki. Tiltekur stefndi að tækniframfarir séu mjög örar en það þýði ekki að öll tæki sem ekki séu búin nýjustu tækni stefni öryggi og heilsu starfsmanna almennt í hættu.

Þá hafi stefnandi vísað til reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað og til tiltekinna ákvæða í viðauka I í reglugerðinni. Stefndi bendir á að tilvísuð ákvæði í viðaukanum eigi ekki við um stefnda þar sem hann sé ekki framleiðandi tækisins. Þá vísi stefnandi til ákvæða í reglum nr. 571/2000 sem innihaldi m.a. skilgreiningar á hugtökum, en að öðru leyti sé stefnda ekki ljóst með hvaða hætti stefnandi telji að stefndi hafi brotið gegn meginreglum reglugerðarinnar um merkingar. Að lokum vísi stefnandi til reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 og telji vinnuaðstöðuna á pallinum, sem áfyllingastöðin stendur á og nauðsyn sé að stíga niður af, hafa brotið í bága við meginatriði reglnanna, og einkum 40. og 41. gr.  Í 40. gr. sé fjallað um hlaðstæði og hlaðpalla. Stefndi telji að hér sé ekki um að ræða sams konar pall og birgðastöð stefnda var staðsett ofan á. Í öllu falli hafi ekki verið hætta á því að starfsmenn stefnda gætu fallið af pallinum, enda pallurinn engu hærri en gangstéttarbrún og fráleitt að gera ráð fyrir frekari öryggisráðstöfunum, enda flestum fært að gæta sín þegar um svo lága palla sé að ræða. Varðandi d-lið 3. mgr. 41. gr. reglnanna verði að telja ósennilegt að starfsmenn gætu runnið í olíu sem lekið hefur á planið. Vinnustaður skal samkvæmt reglunum eins og kostur er skipulagður á þann hátt að starfsmenn renni ekki til eða detti, en óljóst sé til hvaða ráðstafana stefndi hefði átt að grípa til að koma í veg fyrir að olía læki á planið, enda óhjákvæmilegur fylgifiskur eldsneytisáfyllingar, sbr. aðstæður á venjulegum bensínstöðvum.

Að lokum hafi stefnandi vísað til reglna nr. 499/1994 sem fjalli um það þegar byrðar séu handleiknar og því fylgi hætta á heilsutjóni, sérstaklega bakmeiðslum, vegna þess hvernig hluturinn sé gerður eða að vinnuvistfræðilegar aðstæður séu slæmar. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að því hafi fylgt hætta á heilsutjóni að losa slönguna frá birgðastöðinni og flytja hana að ökutækinu til áfyllingar. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á að byrði hafi verið of stór, óstöðug eða með innihaldi sem gæti færst til, enda slöngurnar alltaf fullar af eldsneyti, sbr. I. viðauka við reglurnar, en stefnanda verið í lófa lagið að meðhöndla áfyllingarslöngur með þeim hætti að ekki hlytist tjón af. Í framlögðu fræðslu- og leiðbeiningariti sem Vinnueftirlitið hafi gefið út sé fjallað um það sérstaklega hvernig meta skuli hvort vinna við að ýta eða draga feli í sér hættu á heilsutjóni fyrir starfsmann. Þurfi við það mat að taka til athugunar þau atriði sem þar séu talin upp, s.s. þyngd byrða, hvað langt þurfi að ýta eða draga, ástand undirlags, hvort auðvelt sé að ná taki á byrðinni, í hvaða hæð er hægt að ná taki  svo og líkamlegt ástand starfsmanna. Þar sem erfitt sé að meta álag við að ýta og draga byrðar sé ekki ráðlegt að ýta eða draga þyngri byrðar en 200 kg. Þá sé gert ráð fyrir að afl við upphaf hreyfingar verði að minnsta kosti aldrei meira en ca 30 kg (300 N) og við að viðhalda hreyfingu verði að minnsta kosti aldrei meira en ca 20 kg (200 N). Samkvæmt framlögðum upplýsingum frá Vinnueftirlitinu, sé þyngd barkans ekki nema 6-8 kg á endanum sem lyft var þegar tenging við ökutæki fór fram. Þar sem sú vegalengd sem draga þurfti áfyllingarslöngurnar væri mjög stutt, og auðvelt hafi verið að ná taki á byrðinni og hún í góðri hæð, telji stefndi að því hafi ekki fylgt hætta á heilsutjóni að handleika áfyllingarslöngurnar. Hafi stefnda þar af leiðandi ekki borið að gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki til að komast hjá því að starfsmenn sínir þyrftu að handleika byrðar.

Stefndi bendir á að ekki verði framhjá því litið að sá hluti starfs stefnanda sem stefnandi gerði athugasemdir við hafi verið mjög einfaldur og falist í því að losa áfyllingarslöngu frá áfyllingarstöð og færa hana að áfyllingarstút. Það hafi svo verið á ábyrgð stefnanda sjálfs hvernig hann framkvæmdi þetta einfalda verk, þ.e. að ganga úr skugga um að ekki væri undið upp á slönguna og að önnur slanga lægi ekki ofan á henni áður en hann hófst handa. Stefnandi hafi verið öllum hnútum kunnugur í starfi sínu og þurfti því ekki á sérstöku námskeiði, starfsþjálfun eða öðrum leiðbeiningum hjá stefnda að halda til að gegna starfi sínu með öruggum hætti. 

Um gerð áhættumats bendir stefndi á að atvinnurekandi beri ábyrgð á því, sbr. 26. gr. reglugerðar nr. 920/2006, að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980. Áætlunin skuli m.a. fela í sér sérstakt áhættumat, sbr. 27. gr. reglugerðarinnar. Hafi slíkt áhættumat, þar sem m.a. sé fjallað um lestun á bíl, verið gert og liggi frammi í málinu. Öryggistrúnaðarmenn í öryggisnefndum hafi tekið þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og fylgst með því hvernig henni er framfylgt. Í því hafi falist þátttaka þeirra í gerð áhættumats. Þá hafi aðilar farið í eftirlitsferðir um vinnustaðinn svo oft sem þörf var á, og sérstaklega aðgætt að ákveðnum atriðum sem nánar eru talin upp í reglugerð nr. 920/2006. Hafi stefnandi setið sem öryggistrúnaðarmaður í öryggisnefnd stefnda, frá október 2011 til október 2013. Stefnandi hafði því sjálfur bein áhrif á gerð áhættumatsins.

Ljóst sé að við gerð matsins hafi ekki þótt fyrirsjáanlegt að heilsu og öryggi starfsfólks væri hætta búin þegar áfyllingarslanga var losuð frá áfyllingarstöð og færð að ökutæki til áfyllingar. Hafi umrædd aðgerð því ekki verið talin til áhættuþátta í vinnuumhverfinu og ekki hafi þótt tilefni til sérstakra varúðarráðstafana. Hins vegar hafi önnur atriði vegna heildaraðgerðarinnar, þ.e. lestun á bíl, verið sérstaklega tilgreind og þær varúðarráðstafanir sem bæri að viðhafa vegna þeirra. Stefndi hafnar þannig alfarið að áhættumat hafi verið ófullnægjandi og ítrekar að matið hafi verið samvinna stefnda og öryggistrúnaðarmanna. Þá hafi Vinnueftirlitið tekið út aðstæður þann 4. mars 2013, og ekki gert neinar athugasemdir, en jafnframt hafi mátt geta þess að birgðastöðin sé sambærileg birgðastöðum annarra stórra olíudreifingarfyrirtækja. Þá hafi stefnandi  ekki lagt fram allar þær leiðbeiningar Vinnueftirlitsins sem hann vísi til í þessum efnum.

Stefndi hafnar því einnig sem röngu og ósönnuðu að svokallaðar sveiflur hafi verið settar upp í kjölfar slyss hjá stefnanda árið 2002, en engin gögn liggi fyrir um umrætt slys eða renni á annan hátt stoðum undir þá fullyrðingu að öðru leyti.

Þá hafnar stefndi því jafnframt alfarið að hann hafi með ummælum sínum í athugasemdum til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum viðurkennt að meðhöndlun áfyllingarslangnanna hafi verið óforsvaranleg. Verði það ekki metið stefnda til sakar að gera þegar öruggan vinnustað enn betri með því að koma upp sveiflum við ákveðnar dælur, en slíkt hafi jafnframt verið til þess fallið að minnka slit á slöngum. Hafi sá búnaður einungis verið settur upp við bensíndælur en ekki gasolíudælur, en stefnandi hafi í bæði skiptin starfað við áfyllingu gasolíu.

Stefndi telur að stefnandi hefði, með þeirri aðgát sem ætlast hefði mátt til af honum sem vönum starfsmanni að vinna einfalt verk, átt að geta fyllt á ökutækið algerlega klakklaust, en önnur sambærileg atvik hafi aldrei verið tilkynnt til stefnda. Stefnandi hafi áður en atvikin áttu sér stað unnið í áraraðir við sama starf og hafi því ekki getað dulist hvernig átti að meðhöndla áfyllingarslöngurnar með þeim hætti að ekki hlytist tjón af.

Af öllu framangreindu telur stefndi að ekki liggi annað fyrir en að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og að ekki hafi verið fyrir hendi sérstök slysahætta. Umstefnd atvik hafi eingöngu orðið fyrir hreina og klára óhappatilviljun sem stefndi beri ekki ábyrgð á og/eða megi rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs.

Stefnandi telur að dómur Hæstaréttar nr. 61/2006, sem stefnandi vísi til, eigi ekki við. Í því máli hafi starfsmaðurinn þurft að beygja sig mikið í baki og lyfta hræriverki sem vó 18,2 kg, á hálu gólfi með útréttum höndum, en það ætti ekki við hér.

Stefndi bendir á eigin skyldur stefnanda sjálfs. Stefnandi hafi setið í öryggisnefnd frá október 2011 til október 2013 og hafi því verið í lófa lagið að koma á framfæri ábendingum til stefnda, bæði sem fulltrúi nefndarinnar og persónulega. Á þeim tíma hafi hins vegar aldrei verið fjallað um atriði tengd áfyllingu ökutækja, að þeim væri ábótavant eða farið fram á úrbætur. Þá var nefnt að í 26. gr. laga nr. 46/1980 og í 23. gr. reglugerðar nr. 920/2006 séu ákveðnar skyldur lagðar á starfsmenn sem eiga að stuðla að því að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Augljóst sé að samstarf það sem getið sé um í II. kafla laga nr. 46/1980 geti ekki átt sér stað nema starfsmenn taki virkan þátt í því. Í 26. gr. sé því lögð sú skylda á starfsmenn að þeir ræki slíkt samstarf. Á stefnanda, sem sinnt hafði viðkomandi starfi í langan tíma, hafi því hvílt ótvíræð skylda til þess að vekja athygli vinnuveitanda eða verkstjóra á þeim vanbúnaði sem stefnandi haldi fram. Hafi stefnandi talið eitthvað athugavert við aðstæður og/eða það hvernig vinnan skyldi framkvæmd mætti ljóst vera að hann hafi vanrækt þessa skyldu sína. 

Stefndi vísar í máli sínu einkum til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, einkum um óhappatilvik, sönnun og sönnunarbyrði, skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 46/1980 og reglugerða og reglna sem byggjast á þeim lögum eftir því sem við á, og laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991 og byggist krafa um málskostnað á 129. og 130. gr. þeirra laga.

IV

Skýrslur fyrir dómi

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en auk þess voru teknar skýrslur af Gesti Guðjónssyni, umhverfis- og öryggisfulltrúa stefnda, Helga Marcher Enoksson, dreifingarstjóra stefnda, og Magnúsi Þór Jónssyni vélaverkfræðiprófessor sem vann matsgerð í málinu. Þá var farið í vettvangsskoðun á starfstöð stefnda.

V

Niðurstaða

Mál þetta hefur stefnandi höfðað sem viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með hliðsjón af atvikum öllum eru ekki efni til annars en að líta svo á að uppfylltur sé hér áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að öll sönnunarbyrði hvíli á stefnda, vegna þess hve seint seinna slysið var tilkynnt. Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuþætti og öryggi á vinnustað skal tilkynna um öll slys án ástæðulausrar tafar. Stefndi tilkynnti Vinnueftirlitinu um fyrra slysið þann 4. desember 2012 og seinna slysið þann 4. júní 2013, eftir að Vinnueftirlitið hafði framkvæmt úttekt á aðstæðum þann 4. mars 2013. Í bréfi Vinnueftirlitsins kom fram að seinna slysið hafi verið tilkynningarskylt vinnuslys og hefði borið að tilkynna skv. 79. gr. laga nr. 46/1980.

Í gögnum málsins er atvikaskráning stefnda frá 10. janúar 2013 þar sem skráð er lýsing stefnanda sjálfs á því sem gerst hafi þann 21. desember 2012. Stefnandi telur að starfsmönnum stefnda hafi átt að vera ljóst að um tilkynningarskylt slys hafi verið að ræða við áfyllingarstöðina í Örfirisey. Af framangreindri skráningu verður ekki fullyrt hvernig starfsmenn stefnda hafi upplifað atburði og hafi þeir allt eins mátt gera ráð fyrir því að stefnandi hafi fengið verk í bakið síðar um daginn eftir að hann hélt áfram vinnu sinni á öðrum stað, þar sem aðstæður voru erfiðar, og breytir þá engu þótt starfsmönnum stefnda hafi mátt vera ljóst að stefnandi væri kvalinn og hafi kallað til sjúkrabifreið. Samkvæmt nefndri atvikaskráningu mun dráttur á tilkynningu stefnanda til stefnda hafa valdið því að ekki voru lengur til upptökur af atvikinu.

Engar heimildir standa til þess að sönnunarbyrði í málinu verði snúið við á þeim forsendum að lögboðinni tilkynningarskyldu stefnda hafi ekki verið sinnt fyrr en of seint. Þá verður ekki séð að sá dráttur sem varð af hálfu stefnda hafi leitt til þess að málsatvik séu óljós, enda upplýst að aðstæður á slysstað eru óbreyttar frá því að slysin urðu. Framangreindur dráttur á tilkynningarskyldu stefnda leiðir hins vegar til þess að lýsing stefnanda á málsatvikum sem og þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu verða lagðar til grundvallar við úrlausn þess.

Stefnandi telur að stefndi beri sérfræðiábyrgð skv. lögum nr. 46/1980, sbr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í því felist ströng sakarregla er auki sönnunarbyrði vinnuveitanda og í reynd þannig að öll sönnunarbyrði málsins hvíli á stefnda. Ekki kom fram af hálfu stefnanda á hvern hátt stefndi bæri aukna ábyrgð sem sérfræðingur umfram það sem almennt á við um vinnuveitendur samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, þótt þar væri meðhöndluð hættuleg efni. Þá verður ekki talið að ákvæði 23. gr. a. skaðabótalaga leggi slíkar kvaðir á vinnuveitendur að þeir þurfi að afsanna sök, eða að sakarbyrði sé snúið við.

Stefnandi vísar til reglna skaðabótaréttar um uppsafnaða sök og nafnlaus mistök. Í skaðabótarétti hefur verið fjallað um uppsöfnuð mistök þar sem mörg smá mistök hugsanlega margra og eftir atvikum nafnlausra starfsmanna hafa samanlagt leitt af sér saknæma háttsemi. Ekki var gerð frekari grein fyrir þessari málsástæðu undir rekstri málsins en í stefnu er vísað almennt til ýmissa ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, til reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnueftirlitsstarfs á vinnustöðum og greinargerðar með lögum nr. 124/2009 sem breytti ákvæðum skaðabótalaga. Ekki var tilgreint nánar með hvaða hætti mistök hafi átt sér stað á þann hátt að það hafi leitt til uppsafnaðrar saknæmrar háttsemi samkvæmt tilvitnuðum lagasjónarmiðum.

Með vísan til framangreinds eigi við í málinu almennar reglur skaðabótaréttar utan samninga.

Stefnandi telur að áhættumat stefnda hafi ekki fullnægt lögum nr. 46/1980 né reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, einkum 26. og 27. gr. þeirrar reglugerðar, enda taki áhættumatið til takmarkaðra þátta. Fyrir liggur í málinu að áhættumat var gert hjá stefnda sem samþykkt var af Vinnueftirlitinu og hafi sá verkþáttur sem hér er til umfjöllunar ekki verið talinn til áhættuþátta við gerð áhættumatsins. Ekki liggur fyrir að neinn annar hafi slasast við það verk sem hér um ræðir og þá verður að ætla að hafi slík áhætta verið af verkinu hefði stefnanda borið að benda á það munnlega eða skriflega, sérstaklega þar sem stefnandi sat sem öryggistrúnaðarmaður í öryggisnefnd hjá stefnda frá október 2011 til október 2013 og sótti námskeið um öryggisatriði. Ekki er því fallist á það með stefnanda að hann hafi ekki fengið tækifæri til að benda sérstaklega á þær hættur sem voru samfara verkinu. Þá er ekki leitt í ljós að neinn annar hafi gert athugasemdir við framkvæmd verksins eða bent á hættulegar aðstæður við framkvæmd verksins. Í úttekt, sem fram fór af hálfu Vinnueftirlitsins þann 4. mars 2013, voru engar athugasemdir gerðar við verklag eða aðbúnað tilheyrandi þessum verkþætti. Var því ekki þörf á því að setja upp aðvörunarskilti eins og stefnandi telur.

Stefnandi telur að í raun hafi tveir menn átt að vinna umrætt verk vegna þyngdar á slöngu og tengibúnaði. Taldi stefnandi í skýrslu sinni fyrir dómi að slangan hafi verið léttari við vettvangsskoðun og hugsanlega væri búið að skipta um tengi, en hann var þó ekki viss. Í úttekt Vinnueftirlitsins kom fram að þyngdin á slöngunni með tengi hafi verið 6-8 kg á endanum sem væri lyft þegar tenging við bíl fari fram. Í matsgerð, sem stefnandi lét vinna og liggur fyrir í málinu, kom fram að heildarkraftur sem þurfi til að lyfta slöngunni í 0,6 m hæð og færa hann að tanki, væri 9,8 kg. Hafi slangan legið undir annarri slöngu eins, og stefnandi hefur borið, hafi þurft heildarkraft 21 kg að teknu tilliti til krafts sem gæti komið vegna þess að slangan hafi „spyrnt á móti“. Í framlögðu gagni Vinnueftirlitsins, „Líkamlegt álag við vinnu“, kemur fram að hætta sé á bakmeiðslum sé lyft meira en 25 kg og þá við það miðað að byrðin sé í mesta lagi í 30 cm fjarlægð frá líkamanum. Við vettvangsskoðun sást að ekki þarf að rétta fram hendur til að tengja slönguna við tank bifreiðar sem er í 60 cm hæð. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þá málsástæðu að stefnda hefði borið að láta tvo menn vinna verkið. Þá verður ekki talið með vísan til framangreinds að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 61/2006 sé sambærilegur aðstæðum í þessu máli.

Stefnandi taldi vinnusvæði á palli með dælubúnaði ekki uppfylla 42. gr. laga nr. 46/1980 og að upphækkunin sem slík væri hættuvaldandi. Þannig hafi vinnuaðstaðan á pallinum brotið gegn meginatriðum reglugerðar nr. 581/1995 um húsnæði og vinnustaði, einkum 40. gr. og d. lið 41. gr. Í úttekt Vinnueftirlitsins kom fram að upphækkunin væri 12-15 cm á hæð og var engin athugasemd gerð við hana. Í reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi segir í 66. gr. að afgreiðslutæki skuli staðsetja á upphækkun til þess að verja þau hnjaski. Hefur ekki annað komið fram en að upphækkunin sé eins og almennt gerist á bensín- og olíuafgreiðslustöðvum. Verða reglur um hlaðpalla í reglugerð nr. 581/1995, ekki taldar eiga við í máli þessu.

Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi bar stefnandi að slysið í september 2012 mætti rekja til þess að olía hafi verið á planinu sem hafi orsakað það að hann hafi snúist við og þannig snúið upp á vinstri fótinn. Í stefnu er þessa ekki getið en talað um bleytu sem ein af orsökum seinna slyssins í desember 2012, án þess að sú bleyta væri útskýrð frekar. Stefnandi bar fyrir dómi að næstum alltaf hafi verið olíusmit á jörðinni. Hafi olía verið á jörðinni þegar slysin urðu, var það því ekki óvenjulegt. Stefnandi mátti því vita, með tilliti til þeirrar starfsemi sem þarna fór fram og langrar reynslu hans af sama starfi, að hætta gæti verið á því að renna til í olíu og bar honum því að sýna sérstaka varúð. Ekki var sýnt fram á til hvaða aðgerða stefndi hefði átt að grípa í þessu sambandi. Verður ekki talið að um saknæma hegðun stefnda hafi verið að ræða.

Stefnandi taldi að slysið í desember 2012 hefði gerst með þeim hætti að slöngurnar hafi verið í flækju, og hafi hann dregið þær til og þegar hann hafi bakkað hafi snúist ofan af slöngunni sem hann dró þegar brot hafi farið af slöngunni og kippt í hann. Ekki kom fram fyrir dómi með hvaða hætti dælubúnaður hafi ekki verið í samræmi við meginreglur þeirra reglna og viðauka við þær sem stefnandi greinir í stefnu eða á hvern hátt sá dælubúnaður hafi getað orsakað slysin. Með sama hætti var ekki sýnt fram á það hvernig slangan hafi verið óstöðug eða innihald slöngunnar færst til eða að slangan hafi verið í flækju og er þá miðað við það hvernig stefnandi sjálfur setti slöngurnar upp á vettvangi. Við vettvangsskoðun kom fram að brot gat komið á slönguna, en ekki hefur verið sýnt fram á hvernig það brot gæti hafa orsakað slys stefnanda. Þannig var sá þáttur ekki metinn í matsgerð Magnúsar Þórs Jónsson, vélaverkfræðiprófessors, og í skýrslu hans fyrir dóminum taldi hann það ólíklegt að slangan gæti orðið fyrir óvæntri tregðu. Þá hefur ekki verið sýnt fram á það á hvern hátt hugsanlegur þrýstingur hafi haft áhrif á slöngurnar og stefnandi bar fyrir dómi að hann væri ekki viss hvort það hafi verið þrýstingur á slöngunni, en taldi að slöngurnar hafi verið stífari áður.

Stefnandi taldi að hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysin ef stefndi hefði sett upp betri búnað eða svokallaðar sveiflur sem væru meðal annars á sumum dælum á Örfirisey. Samkvæmt 5. gr. reglna um notkun tækja nr. 367/2006 hefði stefndi átt að hafa til hliðsjónar aðstæður og áhættu á vinnustað við val á tækjum. Jafnframt var vísað til reglna nr. 499/2014 um öryggi og hollustu þegar byrðar væru handleiknar, sérstaklega 3. gr. og 4. gr. og I. viðauka við reglurnar um að vinnuveitandi skuli setja upp viðeigandi hjálpartæki þegar handleika skuli byrðar. Bæri vinnuveitandi í raun hlutlæga ábyrgð eða sök ef það væri ekki gert. Við vettvangsskoðun og í skýrslu Gests Guðjónssonar fyrir dóminum kom fram að búið væri að setja upp nefndar sveiflur við bensíndælur, enda þyrfti í þeim tilfellum að tengja þrjár slöngur í tank bifreiðarinnar auk jarðtengingar, og hættan þar væri mun meiri en þegar gasolía væri sett á tanka, en þá væri aðeins tengd ein slanga.

Engar lagaheimildir eða reglur kveða á um að stefnda sé skylt að setja upp sveiflur við olíuslöngur þótt ætla megi að slíkur búnaður geti gert verkið léttara. Ekki var sýnt fram á það fyrir dómi að athugasemdir hafi komið fram frá starfsmönnum eða öðrum um þann búnað sem stefnandi vann við í umrædd sinn, sbr. það sem áður hefur komið fram um úttekt Vinnueftirlitsins á verklagi og aðbúnaði tilheyrandi þeim vinnuþætti. Verður ekki séð að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða með því að setja ekki upp nefndar sveiflur þótt hafi verið mögulegt. Þá voru við vettvangsskoðun sýnd þau handtök sem þarf til að lyfta upp olíuslöngu og tengja hana við tank bifreiðar. Verður ekki séð af þeirri skoðun að þörf hafi verið á verkstjóra sem hefði stöðugt eftirlit með framkvæmd þess starfs.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi hafði margra ára reynslu af því starfi sem hann slasaðist við og hafði áður unnið við sama starf í mörg ár hjá öðrum vinnuveitanda og átti því að gjörþekkja allar aðstæður. Verður ekki séð að slys stefnanda megi rekja til þess að hann hafi ekki fengið kennslu eða þjálfun við notkun tækjanna. Í aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að frágangur slangnanna hafi verið með ýmsum hætti, stundum hafi verið snúningar á slöngum og ekki hafi alltaf verið gengið frá þeim þar sem menn hafi oft verið að flýta sér í burtu. Stefnandi slasaðist á baki einungis fjórum dögum eftir að hann kom aftur til vinnu eftir fyrra slys hans. Stefnandi hafði hins vegar ekki gert neinar athugasemdir við aðstæður á vinnustað eftir fyrra slysið eða á hvern hátt hægt hefði verið að koma í veg fyrir það, þrátt fyrir að stefnandi hafi verið öryggistrúnaðarmaður í öryggisnefnd stefnda.

Stefnandi lýsti því jafnframt í skýrslu sinni fyrir dómi hvernig hann hefði lyft og dregið slönguna þann 21. desember 2012. Hafi hann gert það með þeim hætti að hann hafi ætlað að draga slönguna undan annarri slöngu, togað í og lyft á þann hátt að hann hafi lyft slöngunni upp að brjóstkassa og fram kom að það hafi verið í 150 cm hæð frá jörðu. Tengingin við tank olíubifreiðarinnar er hins vegar í 60 cm hæð frá jörðu. Verður ekki séð að það geti verið sök stefnda að stefnandi ákvað að framkvæma verkið með þessum hætti.

Samkvæmt öllu ofangreindu verður ekki á það fallist með stefnanda að slys hans verði rakið til aðbúnaðar, svo sem við dælur eða slöngur eða til annarrar vanrækslu af hálfu stefnda, eða að aðstæður hafi verið óvenjulegar þannig að af þeim hafi stafað sérstök hætta svo sem í umrædd sinn sem stefnda hefði borið að koma í veg fyrir. Er því ósannað að slys stefnanda sé vegna ólögmætrar og saknæmrar hegðunar eða athafnaleysis stefnda. Ber því að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu vegna þess líkamstjóns sem stefnandi hlaut í tveimur slysum þegar hann starfaði hjá stefnda á árinu 2012.

Eftir atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi fékk gjafsókn innanríkisráðuneytis, með gjafsóknarleyfi dags. 10. nóvember 2014. Allur gjafsóknarkostnaður, sem er þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem ákveðst hæfilegur 1.250.000 krónur, og kostnaður við öflun matsgerðar, 372.372 krónur, eða samtals 1.622.372 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Olíudreifing ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Jónssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.622.372 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar af málssóknarlaun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns,  1.250.000 krónur.