Print

Mál nr. 434/2017

Sinnum ehf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir lögmaður)
gegn
Natalie Bonpimai (Karl Ó. Karlsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kjarasamningur
  • Vinnuslys
  • Forföll
Reifun

N krafði S ehf. um laun í veikindaforföllum vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir á leið úr vinnu. Sneri deila aðila að því hvort um vinnuslys væri að ræða sem orðið hefði á beinni leið frá vinnu í skilningi nánar tilgreinds ákvæðis í kjarasamningi. Talið var að orðalag ákvæðisins fæli ekki í sér skyldu fyrir launþega að fara stystu leið á milli heimilis og vinnustaðar. Hefði sú leið sem N valdi umrætt sinn farið um umferðaræðar sem almennt væru notaðar til að komast á milli viðkomandi sveitarfélaga. Með hliðsjón af þeim tíma sem leið frá því að vinnu N lauk og þar til slysið átti sér stað væri ekki varhugavert að telja að það hefði orðið á beinni leið hennar frá vinnu. Var krafa N því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ása Ólafsdóttir prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

 Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sinnum ehf., greiði stefndu, Natalie Bonpimai, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2017.

                Mál þetta, sem var dómtekið 30. mars sl. er höfðað 29. október 2016. Stefnandi er Natalie Bonpimai, Engihjalla 3, Kópavogi en stefndi er, Sinnum ehf., Ármúla 9, Reykjavík.

                Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 942.377 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 285.128 krónum frá 1. nóvember 2015 til 1. desember sama ár, af 570.256 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2016 en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu launa í þrjá mánuði vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir 15. september 2015 og leiddi til óvinnufærni hennar. Byggir hún á því að slysið hafi orðið á leið úr vinnu í þágu stefnda og beri henni umkrafin greiðsla vegna ákvæða í kjarasamningi. Stefndi hafnar því að slysið geti talist hafa orðið á leið stefnanda heim úr vinnu.

I

                Stefnandi hóf störf hjá stefnda 16. maí 2015 og vann sem almennur starfsmaður í heimahjúkrun. Fólst starfið í þrifum og almennri aðstoð sem hún sinnti á heimilum fólks, einkum í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Ók hún á milli starfsstöðva á eigin bifreið og greiddi stefndi fyrir aksturinn samkvæmt akstursdagbók sem stefnandi skilaði. Þá var um það samið að greitt væri fyrir akstur stefnanda frá heimili sínu að fyrstu starfsstöð í þeim tilvikum þar sem hún var fengin til að vinna aukavinnu að kvöldi eða um helgar. Stefnandi kveður að hún hafi á þeim tíma sem hér skiptir máli verið búsett að Háteigsvegi 19, Reykjavík og telur hún að yfirmanni hennar hjá stefnda hafi verið um það kunnugt. Stefndi vísar aftur á móti til þess að hjá honum hafi stefnandi verið skráð til heimilis á lögheimili sínu að Engihjalla 3 í Kópavogi og engin vitneskja hafi verið hjá stefnda um aðra búsetu stefnanda. Í málinu liggur fyrir afrit af akstursdagbók og er þar m.a. skráð nokkrum sinnum að stefnandi fái greitt fyrir akstur frá Laugavegi 27 í Reykjavík. Kvað stefnandi í skýrslu sinni fyrir dómi að um væri að ræða akstur sinn til aukavinnu frá heimili þáverandi kærasta síns. Í skýrslu næsta yfirmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að hún hefði veitt athygli þessu heimilisfangi en ekki gert við það athugasemd og stefnandi hafi fengið umræddan aksturskostnað greiddan. Vitnið hafnaði því að henni hefði verið kunnugt um búsetu stefnanda að Háteigsvegi 19 í Reykjavík. Engar skráningar eru í akstursdagbók sem tilgreina Háteigsveg 19 í Reykjavík sem upphafs- eða endastað.

                Þriðjudaginn 15. september 2015 lauk stefnandi störfum á nánar tilgreindu heimilisfangi við Strandveg í Garðabæ kl. 16 síðdegis. Lýsir hún því svo að hún hafi ekið þaðan heim á leið að Háteigsvegi 19, Reykjavík. Hún hafi farið Hafnarfjarðarveg/Kringlumýrarbraut, en þegar hún hafi komið í Kópavog hafi hún ekið inn á Nýbýlaveg og síðan um Skemmuveg inn á Reykjanesbraut/Sæbraut. Kvað hún að ástæða fyrir því að hún hafi valið þá leið hafi verið sú að umferð um Hafnarfjarðarveg/Kringlumýrarbraut hafi verið þung og hafi gengið hægt vegna vegaframkvæmda sem lokað hafi einni akrein akbrautarinnar. Er stefnandi ók eftir Sæbraut rétt áður en hún kom að gatnamótum við Skeiðarvog var ekið aftan á bifreið hennar. Liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi hringdi í neyðarlínu kl. 16.34 umræddan dag og fékk í kjölfarið aðstoð og liggur fyrir skýrsla í málinu um þetta.

                Stefnandi var frá vinnu daginn eftir vegna slyssins, kom aftur til vinnu 17. og 18. september, en skilaði vottorði um óvinnufærni frá og með 21. sama mánaðar. Liggja fyrir í málinu vottorð um óvinnufærni stefnanda á því tímabili sem launakrafa hennar í veikindaforföllum nær til.

                Í greinargerð stefnda kemur fram að hann hafi ekki vitað að um vinnuslys hafi verið að ræða og hafi slysið ekki verið tilkynnt sem slíkt. Ekki er um það deilt að stefnandi fékk greidd laun í veikindaforföllum þann tíma sem hún hafði áunnið sér rétt til miðað við tímalengd ráðningar, samtals átta daga að sögn stefnanda. Af hálfu stefnda kom fram í greinargerð að stefnanda hafi verið greidd veikindalaun í níu daga. Í stefnu kemur fram að stefnanda hafi verið ókunnugt um réttindi sín gagnvart stefnda og hafi leitað til sjúkrasjóðs stéttarfélags síns í byrjun árs 2016. Við athugun á máli stefnanda þar hafi komið í ljós að stefndi hafi ekki greitt stefnanda laun sem hún hafi átt rétt á í kjölfar slyssins samkvæmt kjarasamningi. Ritað hafi verið bréf til stefnda og hann krafinn um greiðslu. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu og var málinu stefnt fyrir dóm í kjölfarið.

II

                Stefnandi kveðst byggja á því að henni beri réttur til greiðslu launa í forföllum vegna umferðarslyss sem hún hafi orðið fyrir 15. september 2015 á leið heim úr vinnu. Samkvæmt grein 8.2.1 í aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins beri starfsmanni, sem forfallist af völdum slyss við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu, réttur til dagvinnulauna í allt að þrjá mánuði, auk áunnins veikindaréttar. Hafi slysið orðið á beinni leið stefnanda frá vinnustað til heimilis í skilningi tilvitnaðs ákvæðis kjarasamnings. Ákvæði kjarasamnings geri ekki sérstakan áskilnað um vitneskju atvinnurekanda um það hvar heimili starfsmanns sé að finna heldur lúti slíkt almennum sönnunarreglum. Fyrirliggjandi séu vitnisburðir leigusala og nágranna stefnanda um búsetu hennar að Háteigsvegi 19 í Reykjavík. Þá byggir stefnandi á því að næsti yfirmaður hennar hjá stefnda hafi haft vitneskju um að hún hafi búið að Háteigsvegi 19 í Reykjavík, enda hafi af hálfu stefnda verið fallist á að greiða fyrir akstur frá heimili stefnanda að fyrstu starfsstöð þegar stefnandi hafi verið að sinna aukavinnu.

                Stefnandi kveður óumdeilt að stefndi hafi greitt stefnanda laun sem nemi átta daga veikindarétti í kjölfar slyssins eða til loka september 2015. Stefnandi hafi verið óvinnufær mun lengur og það vel inn á árið 2016, svo sem fyrirliggjandi vottorð og upplýsingar um greiðslur úr sjúkrasjóði Eflingar-stéttarfélags á árinu 2016 beri með sér. Í vanskilum séu hins vegar dagvinnulaun til stefnanda í þrjá mánuði tímabilið október, nóvember og desember 2015, auk orlofs. Nemi mánaðarlaun 285.128 krónum, eða 855.384 krónur fyrir þrjá mánuði, en við þá fjárhæð bætist 17,17% orlof sem nemi 86.993 krónum. Samtals sé því krafa stefnanda 942.377 krónur.

                Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hennar hafi stofnast. Sé vísað til meginreglu vinnu-, kröfu-  og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta samkvæmt gildandi ráðningar- og/eða kjarasamningi. Vísist um réttindi stefnanda aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, aðallega 1. gr., laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7., og 8. gr., og laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

                Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann sé bókhaldsskyldur að lögum.

                Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Krafa sé gerð um að við ákvörðun málskostnaðar sé litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun fyrir lögmannsþjónustu en stefandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og sé því nauðsyn að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Um varnarþing kveðst stefnandi vísa til 32. gr. laga nr. 91/1991.

                Við munnlegan málflutning mótmælti lögmaður stefnanda, sem of seint fram kominni, málsástæðu lögmanns stefnda um að ósannað væri að stefnanda hafi verið nauðsyn að aka um Nýbýlaveg og Sæbraut til að forðast vegaframkvæmdir.

                Þá mótmælti lögmaður stefnanda kröfu stefnda um að lækka bæri fjárkröfu stefnanda vegna greiðslna frá þriðja manni. Vísaði lögmaðurinn til þess að umkrafðar greiðslur væru vinnulaun samkvæmt kjarasamningi, en ekki skaðabætur og sættu því ekki frádrætti vegna greiðslna frá þriðja manni. Þá gaf lögmaður stefnanda þá málflutningsyfirlýsingu, teldi dómurinn að stefnandi hefði fengið greiðslur frá þriðja manni umfram það sem hún ætti rétt til með tilliti til þeirra krafna sem hún geri í málinu, að hún muni greina hlutaðeigandi aðilum frá niðurstöðu dóms í málinu verði fallist á dómkröfur hennar, eins og þær séu settar fram í stefnu og bjóða fram endurgreiðslu standi lög til þess.

III

                Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að umrætt slys hafi ekki verið vinnuslys í skilningi kjarasamnings, en það sé forsenda launaréttar í kjölfar vinnuslyss að það verði við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu.

                Samkvæmt þeirri vitneskju sem legið hafi fyrir hjá stefnda á umræddum tíma hafi stefnandi verið búsettur að Engihjalla 3, Kópavogi og gefi því auga leið að slysstaður á Sæbraut við Skeiðarvog geti ekki talist á beinni leið heim frá vinnustað við Strandveg í Garðabæ. Stefndi hafnar einnig alfarið fullyrðingum um að starfsmönnum hans hafi verið kunnugt um að stefnandi héldi heimili að Háteigsvegi 19 og mótmælir því að slíkt verði lesið út úr gögnum málsins.

                Vísar stefndi og til þess að jafnvel þó fallist yrði á að miða við að heimili stefnanda hafi verið að Háteigsvegi 19, Reykjavík, geti umræddur slysstaður ekki talist vera á beinni leið frá Strandvegi í Garðabæ að Háteigsvegi í Reykjavík.

                Kveður stefndi að á fylgigögnum með stefnu komi fram að stefnandi hafi þennan dag þurft að beygja út af Hafnarfjarðarvegi vegna vegaframkvæmda og aka um Nýbýlaveg og áfram norður Reykjanesbraut/Sæbraut. Ekki liggi fyrir nein gögn um þetta atriði. Ekki komi heldur fram hversvegna stefnandi hafi ekki beygt, úr því sem komið var, af Reykjanesbraut/Sæbraut inn á Miklubraut til að fara beina leið að Háteigsvegi. Í stað þess hafi stefnandi haldið áfram Sæbraut og hafi þar lent í umræddu slysi.

                Þá er á því byggt í greinargerð að stefnandi hafi lokið störfum kl. 16.00 en hafi lent í slysi kl. 16.52 samkvæmt skýrslu um slysið sem sé meðal gagna málsins. Bendi tímasetningin til að stefnandi hafi ekki farið beint heim úr vinnu umræddan dag. Við munnlegan málflutning voru ekki bornar brigður á réttmæti gagna sem lögmaður stefnanda aflaði undir rekstri málsins og bera með sér að að stefnandi hafi hringt eftir aðstoð kl. 16.34.

                Stefndi kveðst byggja á almennum reglum samninga- og vinnuréttar, meginreglunni um skuldbindingargildi samninga og kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr.

                Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni stefnda að ósannað væri í málinu að stefnanda hafi, vegna vegaframkvæmda, verið nauðsyn  á að víkja af stystu leið milli vinnu og heimilis með því að aka um Nýbýlaveg og Sæbraut. Hafnaði lögmaður stefnda þeim fullyrðingum lögmanns stefnanda að um nýja málsástæðu væri að ræða, enda hafi beinlínis komið fram í greinargerð fullyrðing stefnda um að engin gögn lægju fyrir í málinu um ætlaðar vegaframkvæmdir.

                Þá byggði lögmaður stefnda á því að yrði fallist á kröfu stefnanda bæri að lækka hana um samtals 390.537 krónur vegna greiðslna sem stefnandi hefði notið, samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra í október, nóvember og desember 2015.

IV

                Í máli þessu deila aðilar um hvort uppfyllt séu skilyrði greinar 8.2.1. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins, sem gildir frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018, til að ná til slyss stefnanda 15. september 2015. Ekki er deilt um að umrætt ákvæði eigi við í réttarsambandi aðila. Ákvæðið hljóðar svo: Forfallist starfsmaður af völdum slyss við vinnuna eða á beinni leið til eða frá vinnu og eins ef starfsmaður veikist  af atvinnusjúkdómi, skal hann auk réttar til launa í veikindum halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði. Ofangreindur réttur er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt starfsmannsins.

                Í grein 8.2.2. kemur fram að dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessara daga gangi til launagreiðanda.

                Ekki er deilt um það að framangreint ákvæði taki til ferðalags frá heimili að vinnustað og öfugt.

                Í fyrsta lagi ber stefndi brigður á að Háteigsvegur 19, Reykjavík geti talist heimili stefnanda í ofangreindum skilningi og að telja verði að hún hafi verið búsett að Engihjalla 3 í Kópavogi þar sem lögheimili hennar er skráð. Ekki eru efni til að skilja umrætt ákvæði með svo þröngum hætti og er fallist á með stefnanda að miða skuli við þann stað þar sem starfsmaður sannanlega heldur heimili.  Fyrir dóminn komu þrjú vitni sem staðfestu að stefnandi hafi á umræddum tíma búið að Háteigsvegi 19, Reykjavík. Eru ekki tilefni til annars, með vísan til þeirra vitnisburða, að telja sannað að svo hafi verið. Að mati dómsins skiptir ekki máli í þessu samhengi hvort stefnda var kunnugt um búsetu stefnanda á umræddum stað eða ekki.

                 Eitt skilyrði þess að slys stefnanda verði fellt undir framangreint ákvæði kjarasamnings er eins og áður greinir að stefnandi teljist hafa verið á beinni leið úr vinnu þegar slysið átti sér stað. Stefndi byggir á að ósannað sé að vegaframkvæmdir hafi réttlætt þá ákvörðun stefnanda að aka um Nýbýlaveg og eins telur stefndi að óeðlilegt sé að stefnandi hafi ekki, úr því sem komið var, ekið af Sæbraut inn á Miklubraut á leið að Háteigsvegi í umrætt sinn. Þetta telur stefndi eiga að leiða til þess að akstur stefnanda geti ekki hafa verið á beinni leið frá vinnu að heimili.

                Stefnandi lauk störfum að Strandvegi í Garðabæ um kl. 16 þriðjudaginn 15. september 2015, en upplýst er í málinu að hún hringdi til að óska eftir aðstoð kl. 16.34 stutt frá gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogs. Hafði þar verið ekið aftan á bifreið hennar. Við munnlegan málflutning studdist lögmaður stefnda við kortaupplýsingar úr tölvuforriti Ja.is og sýndi fram á að sú leið sem stefnandi valdi að aka væru um það bil helmingi lengri en sú leið sem styst væri milli Strandvegar í Garðabæ og Háteigsvegar í Reykjavík. Eins og fyrr er sagt byggir stefnandi einkum á því að umrædd akstursleið sé bein leið heim til hennar úr vinnu í skilningi hins umdeilda ákvæðis kjarasamnings.

                Að mati dómsins þykir sýnt að umrætt ákvæði kjarasamnings veitir launþegum rétt til launa í slysaförföllum áður en eiginlegar vinnutími byrjar og eftir að honum lýkur og felur því í sér rýmkun á því hvað telst vinnuslys. Verður að túlka ákvæðið með hliðsjón af þeirri augljósu ætlan samningsaðila að veita launþegum þann rétt sem í ákvæðinu greinir. Þykir dómnum ekki sjálfgefið að skilja eigi orðasambandið „bein leið“ þannig að það feli í sér skyldu fyrir launþega að fara stystu leið milli heimilis og vinnustaðar. Er alkunna að á annatíma í umferðinni kunna leiðir að vera misjafnlega seinfarnar eftir umferðarþunga og getur ökumaður talið skynsamlegt að víkja frá stystu leið og talið sig þannig flýta fyrir sér. Hvað sem líður ætluðu réttmæti slíkra ákvarðana verður að telja þær hluta af eðlilegri háttsemi ökumanna. Það er mat dómsins að sú leið sem stefnandi valdi umrætt sinn fari um umferðaræðar sem almennt eru notaðar til að komast milli viðkomandi bæjarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og með hliðsjón af þeim tíma sem leið frá því að vinnu hennar lauk umræddan dag og þar til slysið átti sér stað sé ekki varhugarvert að telja að það hafi orðið á „beinni leið“ hennar frá vinnu í skilningi ákvæðisins. Skiptir því ekki máli að mati dómsins hvort talist geti sannað að vegaframkvæmdir hafi staðið yfir á Kringlumýrarbraut á umræddum tíma og þá ekki hvort slík málsástæða hafi verið höfð uppi nægilega snemma af hálfu stefnda. Með vísan til alls framangreinds er því fallist á með stefnanda að slys hennar verði með réttu fellt undir grein 8.2.1. í fyrrnefndum kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins.

                Stefnandi byggir á því að krafa hennar sé krafa um dagvinnulaun í veikindaforföllum, ásamt lögbundnu orlofi, en ekki skaðabótakrafa og sæti því ekki frádrætti vegna greiðslna frá þriðja manni. Með vísan til þessa mótmælti stefnandi varakröfu stefnda um lækkun dómkrafna.

                Af hálfu stefnda var við munnlegan flutning málsins byggt á því að draga ætti samtals 390.537 krónur frá kröfu stefnanda vegna greiðslna frá stefnda, félagsþjónustu Kópavogs, Sjúkratryggingum Íslands og sjóðum VR til stefnanda í október, nóvember og desember 2015. Á hinn bóginn voru engin rök færð fyrir því af hálfu stefnda af hvaða ástæðu draga ætti þessar fjárhæðir frá kröfunni, hvorki varðandi einstaka liði eða fjárhæðina í heild. Engar röksemdir koma heldur fram í greinargerð um þetta atriði. Þá færði stefndi ekki fram rök gegn þeirri málsástæðu stefnanda sem rakin var hér síðast. Er þegar af þessum ástæðum ekki unnt að fallast á varakröfu stefnda. Eru því ekki efni til annars en að fallast á með stefnanda og stefnda beri að greiða henni dagvinnulaun í veikindaforföllum, samtals í þrjá mánuði, auk lögbundins orlofs. Engar athugasemdir eru gerðar við vaxtakröfur stefnanda og verða þær einnig teknar til greina eins og þær eru fram settar.

                Þegar af þeim ástæðum sem að ofan eru raktar verður krafa stefnanda tekin að fullu til greina eins og hún er fram sett, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

                Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Sinnum ehf., greiði stefnanda, Natalie Bonpimai, 942.377 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 285.128 krónum frá 1. nóvember 2015 til 1. desember sama ár, af 570.256 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2016 en af 942.377 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.