Print

Mál nr. 244/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Þorgils Þorgilsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. kl 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu rannsaki nú tilraun til manndráps eða eftir atvikum alvarlega líkams­árás X, hér eftir nefndur kærði, gegn A, hér eftir nefndur brotaþoli, á heimili við [...] í Reykjavík, miðvikudaginn 8. mars sl.

          Samkvæmt frumskýrslu málsins barst lögreglu þann 8. mars sl. tilkynning um að maður hefði verið skorinn á háls í [...] í Reykjavík. Maðurinn hafi í kjölfarið flúið á veitingastaðinn [...] í [...] og hringt þar eftir aðstoð lögreglu. Fyrir utan veitingastaðinn hafi lögregla hitt brotaþola fyrir og hafi hann skýrt lögreglu frá því að kærði hefði skömmu áður ráðist á hann í húsnæði við [...] í Reykjavík. Sjá hafi mátt langan skurð á hálsi brotaþola sem hafi verið fluttur á slysadeild þar sem gert hafi verið að áverkum hans.

          Við komu á slysadeild hafi brotaþoli reynst með 20 cm skurð sem teygði sig frá vinstri kjálka niður hálsinn vinstra megin aftanvert og hafi skurðurinn verið gapandi á 5-6 cm svæði fyrir neðan eyra.

          Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi brotaþoli sagt að tveimur dögum áður hefði bifreið hans, [...], verið tekin af kærða. Hann hafi því í gær farið að hitta kærða að [...], til að endurheimta bifreiðina. Hafi brotaþoli sagt að kærði hafi verið sofandi þegar hann kom inn í íbúðina en honum hafi verið hleypt inn af stúlku sem verið hafi í húsinu. Brotaþoli hafi síðan sest inn í stofu og setið í sófa og beðið eftir að kærði kæmi fram. Þegar kærði hafi komið hafi hann án fyrirvara ráðist á brotaþola og skorið á háls hans með hnífi og ógnað stúlku sem verið hafi með brotaþola. Hafi hann og stúlkan flúið út úr húsnæðinu undan kærða og farið á [...] þar sem brotaþoli hafi hringt eftir aðstoð lögreglu.

          Samkvæmt brotaþola hafi þrír aðilar verið í íbúðinni að undanskildum honum og kærða og hafi þau séð það sem gerðist. Lögreglan hafi rætt við þessa aðila sem lýsi því öll að hafa séð kærða með hníf umrætt sinn. Í framburði stúlkunnar, sem þá hafi verið með brotaþola, komi fram að kærði hafi komið fram og án nokkurrar ástæðu ráðist á brotaþola og skorið hann á háls og í framhaldi hótað því að ráðast á stúlkuna. Hún hafi því flúið með brotaþola út úr húsnæðinu. Í framburði annars vitnis komi fram að kærði hafi, áður en hann fór inn í stofuna þar sem brotaþoli hafi verið, talað um að hann hygðist drepa brotaþola og stúlkuna sem með honum hafi verið.

          Kærði hafi kannast við að hafa hitt brotaþola umrætt sinn og að hafa rekið hann út úr húsnæðinu við [...] en neiti því að hafa veist að honum með hnífi og að hafa valdið þeim áverkum sem brotaþoli reyndist með.

          Rannsókn málsins sé lokið og verði það sent Héraðssaksóknara á næstu dögum.

          Kærða hafi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá fimmtudeginum 9. mars sl. til 17. mars sl. þegar kærða hafi, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...], verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag.

          Kærði liggi nú undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. sbr. 20 gr. hegningarlaga eða til vara gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi, með því að hafa ráðist á brotaþola með hnífi og skorið hann á hálsi. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og hafi kærða mátt vera það ljóst. Þá hafi kærði virst, skv. framburði vitna, hafa ráðist á brotaþola algjör­lega af tilefnislausu. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almanna­hags­muna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans sé til meðferðar hjá lögreglu og dóm­stólum.

          Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða

         Í ljósi þess sem fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að sterkur grunur leiki á því að kærði hafi veist að manni með hnífi með þeim afleiðingum að árásarþoli hlaut 20 cm langan skurð á hálsi. Vitni bera að kærði hafi í umrætt sinn sagst ætla að bana árásarþola ásamt stúlku sem var með honum í för. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að sterkur grunur leiki á því að kærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað fangelsisrefsingu í samræmi við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eða eftir atvikum samkvæmt 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Í ljósi atvika verður jafnframt á það fallist að brotið sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er samkvæmt framansögðu fullnægt. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 9. mars sl. Fyrir liggur að rannsókn málsins er lokið og verður það sent héraðssaksóknara eftir páska. Telur dómurinn ekki efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en sóknaraðili fer fram á. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærða, X, kt. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. kl 16:00.