Print

Mál nr. 14/2020

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Orsakatengsl
  • Sönnunarbyrði
  • Lögregla
  • Handtaka
  • Matsgerð
Reifun

Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda íslenska ríkisins á því líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Við handtökuna fór A í hjartastopp og hlaut við það dreifðan heilaskaða. Í málinu lágu fyrir fjórar matsgerðir sérfræðinga um orsakir þess að hjarta A hætti að slá. Af þeim var ráðið að ástand A þegar hann var handtekinn hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist og að ofsafengin viðbrögð hans við handtökunni hafi átt þátt í eða aukið líkurnar á hjartastoppinu. Matsmenn voru hins vegar ekki sammála um hvort og þá hversu líklegt væri að hjarta A hefði stöðvast enda þótt ekki hefði komið til handtökunnar. Var það mat héraðsdóms og Landsréttar, sem skipaðir höfðu verið sérfróðum meðdómsmönnum, að A hefði ekki lánast sönnun um orsakatengsl á milli handtöku og líkamstjóns og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Í málinu reyndi því á hvort efni væru til að víkja frá almennum reglum um sönnun orsakatengsla. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar atvik áttu sér stað hefði ekki í lögum verið mælt fortakslaust fyrir um sérstaka rannsókn þegar maður andaðist eða yrði fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur væri um refsivert brot. Allt að einu hefði lögreglu borið að rannsaka slys og aðrar ófarir, sbr. 2. málslið 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Taldi Hæstiréttur að eins og málið hafi legið fyrir hefðu ekki verið efni til að ráðast í frekari rannsókn á aðgerðum lögreglu. Þá þótti nægjanlega upplýst um aðdraganda að handtöku A og hvernig staðið hefði verið að framkvæmd hennar. Með ítarlegum matsgerðum hefði aftur á móti ekki tekist að leiða í ljós læknisfræðilegar ástæður þess að A hefði fengið krampa, hætti að anda og hjarta hans stöðvaðist og hvort handtakan hefði haft þar áhrif. Að þessu gættu þóttu ekki rök til að slaka á kröfum til sönnunar eða láta ríkið bera hallann af því að ekki hefði tekist að leiða í ljós orsakatengsl milli handtökunnar og líkamstjóns A. Var ríkið því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2020. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verið ómerktur og að málinu verði vísað heim til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á því varanlega líkamstjóni sem hann kveðst hafa orðið fyrir 11. maí 2010 af völdum lögreglu við handtöku. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi höfðaði mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir vegna heilaskaða þegar hjarta hans hætti að slá við handtöku lögreglu 11. maí 2010. Varanleg örorka hans vegna tjónsins hefur verið metin 100% og varanlegur miski 100 stig.

Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfunni og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi. Þessi niðurstaða hins áfrýjaða dóms var reist á því að orsakatengsl milli aðgerða lögreglu við handtökuna og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir væru ósönnuð. Jafnframt voru ekki talin efni til þess að leggja sönnunarbyrðina á stefnda um að orsakatengsl væru ekki fyrir hendi og létta henni þannig af áfrýjanda.

Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að úrslit málsins vörðuðu sérstaklega mikilvæga hagsmuni áfrýjanda. Jafnframt var talið að dómur í því gæti haft fordæmisgildi og þá einkum um tilhögun sönnunarbyrði.

II

Í bréfi Neyðarlínunnar ohf. 23. maí 2019, þar sem svarað var fyrirspurn vegna útkalls 11. maí 2010, kemur fram að klukkan 11.46:43 þann dag hafi borist tilkynning um blóðugan mann sveiflandi golfkylfu við [...]. Í kjölfarið hafi verið send sjúkrabifreið á vettvang og fjarskiptamiðstöð lögreglu gert viðvart. Klukkan 11.49:48 hafi tilkynnandi hringt aftur og greint frá því að maðurinn hafi fært sig í átt að leikskóla á svæðinu. Tilkynnanda hafi þá verið gefið samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að borist hafi tilkynning um mann vopnaðan golfkylfu fyrir utan [...]. Þegar lögregla nálgaðist vettvang hafi borist önnur tilkynning um að maðurinn hafi hlaupið í átt að kirkju í nágrenninu. Við komu lögreglu á vettvang hafi henni verið greint frá því að maðurinn hafi hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...]. Lögregla hafi knúið þar dyra og hitt fyrir húsráðanda, B, sem hafi sagt að maðurinn hafi komið hlaupandi, hálfnakinn, klæddur gallabuxum og barið á stofuglugga og síðan útidyrnar. Við það hafi makast einhvers konar sósa á rúðurnar en B hafi talið manninn hafa lent í slysi því að hann hafi virst blóðugur. B hafi hleypt manninum inn og boðið honum að fara í sturtu. Það hafi hann gert en í sturtunni hafi hann öskrað og látið undarlega. Í skýrslunni segir síðan að lögreglumenn hafi farið inn í baðherbergið og hitt áfrýjanda fyrir í sturtunni. Hann hafi öskrað og látið mjög einkennilega, barið í veggi og kúgast. Reynt hafi verið að ræða við hann en hann ekki virst veita lögreglu neina athygli. Lögreglumenn hafi því þurft að fara inn í sturtuna og skrúfa fyrir vatnið en þegar aftur hafi verið reynt að ræða við áfrýjanda hafi hann orðið svo æstur að færa hafi þurft hann í handjárn. Einnig hafi verið nauðsynlegt að bensla fætur hans þar sem hann hafi ítrekað sparkað til lögreglu. Rétt eftir að sjúkrabifreið hafi komið á vettvang hafi borist tilkynning frá lögreglu um að áfrýjandi væri hættur að anda og að enginn hjartsláttur hafi fundist hjá honum. Áfrýjandi hafi síðan verið fluttur með forgangi á Landspítala við Hringbraut og hafi lögreglubifreið ekið með sjúkrabifreiðinni til að leiðin yrði greiðfærari.

Einnig kemur fram í frumskýrslu lögreglu að fólk á vettvangi hafi greint frá því að áfrýjandi byggi á 4. hæð að [...]. Lögregla hafi farið þangað og íbúðin þá verið mannlaus. Þar hafi allt verið á tjá og tundri, innanstokksmunir legið á hliðinni og rauðar slettur verið á gólfi, veggjum og lofti. Jafnframt hafi ætluð kannabisefni verið á gólfinu og nokkuð af reiðufé víðs vegar um íbúðina. Þá hafi verið búið að kasta munum fram af svölum íbúðarinnar, þar á meðal nokkuð stórum flatskjá, útvarpstæki, glerplötu af stofuborði og sturtuhengi.

Í kjölfar þessara atvika tók lögregla skýrslu af þeim sem hún hitti á vettvangi. Í skýrslu af C kom fram að áfrýjandi hefði kvöldið áður og fram á nótt verið heima hjá vitninu. Áfrýjandi hefði verið „gjósandi“ sem hefði lýst sér í því að hann var mjög „ör og hreinskilinn“. Áfrýjandi hefði talað og talað þar til vitnið sofnaði en þegar það vaknaði morguninn eftir hefði hann verið farinn. Um hádegið hefði vitnið hringt í vin sinn og spurt hvort hann vissi hvar áfrýjandi væri en vinurinn hefði sagst hafa slæma tilfinningu vegna „stigvaxandi ástands“ áfrýjanda. C kvaðst þá hafa farið að [...] en þegar hann kom þangað hefði lögregla verið komin á vettvang. Í skýrslu D, sem var búsettur á jarðhæð beint fyrir neðan þar sem áfrýjandi bjó, kom fram að nágranni hefði reynt að kalla til áfrýjanda og segja honum að hætta að henda hlutum niður úr íbúðinni. Áfrýjandi hefði þá komið með golfkylfu og ógnað nágrannanum. Í skýrslu af E kom fram að hann hefði verið að störfum heima hjá sér að [...] með opna svalahurð þegar hann heyrði dynk. Vitnið kvaðst hafa kannað þetta og séð hlutum hent af svölum íbúðar á 4. hæð. Vitnið sagðist hafa kallað athugasemd af þessu tilefni en síðan hlaupið upp í íbúðina en engan hitt þar. Hefði hann þá farið út og komið að áfrýjanda berum að ofan í annarlegu ástandi og hefði hann virst vera blóðugur. Áfrýjandi hefði náð í golfkylfu og beðið vitnið um að hringja ekki í lögreglu. Áfrýjandi hefði síðan tekið upp á því að rífa í sundur „Agel“-bréf, sem er orkugel, og hefði kreist innihaldið úr þeim yfir sig og ítrekað talað um að „allt væri að fara til fjandans“. Hann hefði síðan horfið á braut í átt að leikskóla í nágrenninu. Einnig kom fram hjá E að nágrannakona hefði verið þarna og virst vera skelkuð. Þetta mun hafa verið F en í skýrslu hennar hjá lögreglu kom fram að hún hefði orðið vör við að verið væri að kasta einhverju niður á pallinn hjá sér. Hún hefði svo heyrt E kalla og litið út og séð þá muni sem hent hefði verið af hæðinni fyrir ofan. Því næst hefði hún farið út og hringt í lögreglu að ábendingu E en skömmu síðar hefði áfrýjandi komið, hellt í sig einhverjum vökva og náð í golfkylfu í bifreið sinni. Áfrýjandi hefði svo tekið á rás og hlaupið í átt að leikskóla í grenndinni.

Í dagbók lögreglu kemur fram að eftir að áfrýjandi hafi verið færður í handjárn og fætur hans benslaðir hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið og stórri lögreglubifreið til að flytja áfrýjanda á lögreglustöð. Skömmu síðar hafi hann fengið krampa og kastað upp. Þá hafi hann verið færður á hliðina svo að ælan ætti greiða leið úr vitum hans. Þetta hafi gerst fimm til sex sinnum en þá hafi hann hætt að anda og enginn hjartsláttur fundist. Þegar í stað hafi verið hafnar tilraunir til endurlífgunar og óskað eftir sjúkrabifreið með forgangi sem hafi komið fljótt á vettvang. Eftir um 25 mínútur hafi fundist hjartsláttur og áfrýjandi verið fluttur í sjúkrabifreið með lögreglufylgd á Landspítala við Hringbraut.

Í dagbók lögreglu var einnig fært 21. maí 2010 að nafngreindur hjartalæknir hefði haft samband og upplýst lögreglu um að ástand áfrýjanda væri mjög bágborið. Hann væri með miklar heilaskemmdir og meðvitundarlaus. Jafnframt að hann væri með vöðvarof sem ylli því að efni er stífluðu nýrun færu út í blóðrásina. Það hefði orðið þess valdandi að hann hefði fengið hjartastopp. Þá hefði komið fram hjá lækninum að áfrýjandi hefði ekki verið með áverka sem skýrt gætu ástand hans og ekkert benti til þess að átök lögreglu við hann hefðu nokkuð með ástand hans að gera.

Loks var fært í dagbók lögreglu að tekin hefði verið ákvörðun um að fella niður sakamál á hendur áfrýjanda. Af hálfu stefnda hefur verið gefin sú skýring á því að slæmt heilsufar áfrýjanda hafi komið í veg fyrir að hann yrði saksóttur.

Þegar nokkuð var liðið frá atvikum eða 3. desember 2013 gaf B, húsráðandi íbúðar að [...], þar sem áfrýjandi var handtekinn, skýrslu hjá lögreglu. B kom einnig fyrir dóm í vitnamáli 30. september 2015 og við aðalmeðferð málsins í héraði. Þá gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi þeir lögreglumenn sem komu að handtöku áfrýjanda. Þessum vitnisburðum um handtökuna og atvikum í kjölfar hennar, þegar hjarta áfrýjanda hætti að slá, er skilmerkilega lýst í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi.

III

1

Áfrýjandi fékk hjartalækni og lögmann dómkvadda til að skila matsgerð um afleiðingar líkamstjónsins sem hann varð fyrir. Í matsgerð þeirra 10. september 2014 voru afleiðingar tjónsins taldar vera 100% varanleg örorka en varanlegur miski var metinn 100 stig.

Jafnframt var þess farið á leit að matsmennirnir gæfu álit sitt á því hvort orsakatengsl væru milli valdbeitingar lögreglu við handtökuna og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir. Ef svo væri ekki talið var óskað eftir áliti á því hver væri líklegasta orsök líkamstjónsins. Í matsgerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir. Töldu matsmennirnir líklegustu skýringuna á hjartastoppi áfrýjanda, sem valdið hefði dreifðum heilaskaða vegna súrefnisskorts, vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtist hafa verið í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta mætti tengja við ofneyslu á orkugeli eða orkudrykkjum í aðdraganda tjónsins. Þó var tekið fram að þekkt væri að einstaklingar í annarlegu ástandi, sem beittir væru valdi, færu í hjartastopp og væri þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Hins vegar væri afar ósennilegt að sú mikla hækkun sem varð á vöðvaensímum áfrýjanda tengdist eingöngu handtökunni, þótt hún ætti þar einhvern þátt, heldur væri líklegra að hækkunin yrði að mestu rakin til mikilla æfinga og athafna hans í aðdraganda tjónsins.

2

Áfrýjandi fékk aftur dómkvadda matsmenn og síðar yfirmatsmenn til að skila undir- og yfirmati um fjögur álitaefni. Í fyrsta lagi hvort valdbeiting lögreglu við handtöku gæti verið ein af orsökum þess að áfrýjandi fór í hjartastopp. Ef svo væri var þess farið á leit að greint yrði á milli orsaka tjónsins. Í öðru lagi hvort efnið Agel, sem vísað væri til í gögnum málsins og talið væri að áfrýjandi hefði tekið inn í óhóflegu magni í aðdraganda líkamstjónsins, hefði að geyma efni sem gætu ein og sér orsakað hjartastopp. Í þriðja lagi hvort áfrýjandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglu og í fjórða lagi hvort líklegt væri að hjarta hans hefði hætt að slá ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtu í stað þess að vera handtekinn með þeim hætti sem gert var.

Undirmatsgerðinni var skilað 11. júní 2016 en að henni stóðu lyf- og hjartalæknir og geðlæknir. Í svörum við fyrstu og þriðju spurningunni var því hafnað að valdbeiting lögreglu væri ein af orsökum tjónsins. Til stuðnings því tóku þeir fram að áfrýjandi hefði verið í „asystólu“ við fyrstu greiningu sem þýði að engin rafvirkni hafi verið í hjartanu. Það gæti bent til þess að hjartastoppið væri í kjölfar öndunarstopps. Það kæmi til vegna krampa og uppkasta, áfrýjanda svelgdist á og hluti magainnihalds færi í öndunarfærin. Ástæða þess að hann hefði fengið krampa og kastað upp gæti tengst mikilli áreynslu vegna átaka við lögreglu verandi mjög örvaður. Orsök þeirrar örvunar væri ekki þekkt og sú undirliggjandi ástæða ein og sér gæti einnig hafa valdið krömpum og uppköstum með sömu hættu á ásvelgingu og öndunarstoppi. Þannig mætti færa rök fyrir því að áfrýjandi hefði óáreittur í sturtunni getað fengið hjartastopp vegna þess ástands sem hann var í og þá jafnvel ekki fengið hjálp fyrr en um seinan ef lögregla hefði ekki haft afskipti af honum. Því megi allt eins leiða líkur að því að lögregla hefði bjargað áfrýjanda. Samkvæmt þessu var svarið jákvætt við fjórðu spurningunni um hvort áfrýjandi hefði allt að einu getað lent í hjartastoppi. Annarri spurningunni um hvort efnið Agel gæti í óhóflegu magni valdið hjartastoppi töldu matsmenn svo ekki vera þótt þeir gætu ekki fullyrt um það ef efnið væri tekið í gríðarlegu magni.

Að yfirmatsgerð 1. mars 2017 stóðu hjartalæknir, geðlæknir og taugalæknir. Þar voru nefndar ýmsar ástæður sem gætu valdið hjartastoppi en þær taldar ólíklegar í tilviki áfrýjanda. Aftur á móti væri þekkt að líkamleg valdbeiting gegn órólegum einstaklingi gæti leitt til hjartastopps. Þessu hefði einkum verið lýst í tengslum við handtökur lögreglu og við meðferð órólegra geðsjúklinga. Valdbeiting sem fælist í því að reigja háls á ákveðinn hátt og/eða halda manni niðri gæti truflað öndun verulega vegna þess að háls lokist og/eða þind gæti ekki sinnt öndunarhreyfingum. Afleiðing af slíkri valdbeitingu gæti verið köfnun og svo hjartastopp. Jafnframt væri óumdeilt að valdi hefði verið beitt í umræddu tilfelli, þótt vissulega væri ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum var beitt og hvaða áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi áfrýjanda. Einnig væri óumdeilt að hann hefði á þessum tíma verið órólegur og æstur. Í samræmi við þetta svöruðu yfirmatsmennirnir fyrstu spurningunni þannig að líklegt væri að valdbeiting við handtökuna hefði átt þátt í að valda hjartastoppinu. Einnig tóku þeir fram að aðrir þættir gætu hafa verið meðvirkandi. Annarri spurningunni um áhrif efnisins Agel svöruðu yfirmatsmennirnir þannig að ekkert kæmi fram í gögnum um að þetta fæðubótarefni innihéldi koffín eða önnur skaðleg efni. Ekkert benti því til að inntaka þess hefði átt þátt í að hjarta áfrýjanda hætti að slá. Að því er varðaði þriðju spurninguna um hvort áfrýjandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglu og fjórðu spurninguna um hvort líklegt væri að það hefði gerst ef lögregla hefði ekki haft afskipti af honum í sturtunni tóku yfirmatsmenn fram að útilokað væri að svara þessum spurningum játandi eða neitandi með vissu.

3

Í tilefni af máli sem áfrýjandi höfðaði gegn Verði tryggingum hf. vegna sama líkamstjóns aflaði hann matsgerðar geðlæknis 25. september 2017 um andlega heilsu sína við handtökuna. Annars vegar óskaði áfrýjandi eftir mati á því hvort viðbrögð hans við handtökunni hefðu verið ósjálfráð og hins vegar hvert hefði verið andlegt ástand hans og að hvaða marki hann hefði getað gert sér grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Um fyrra atriðið tók matsmaðurinn fram að öll viðbrögð áfrýjanda og gerðir hans hefðu verið algjörlega ósjálfráð en um það síðara sagði hann að áfrýjandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Til skýringar á niðurstöðum sínum tók matsmaðurinn fram að áfrýjandi hefði augljóslega verið í alvarlegu geðrofi með óráði þegar hann í aðdraganda handtökunnar tók upp á því að henda munum út úr íbúð á 4. hæð. Taldi matsmaðurinn að ástand áfrýjanda passaði vel við sjaldgæft heilkenni sem nefnt væri „Lethal Catatonia“. Það skiptist í hægara form „retarded type“ og mun sjalfgæfara æsingsform „excited type“. Á þetta heilkenni reyndi helst hjá ungum einstaklingum. Áður hefði verið talið að þetta væri undirgerð geðklofa en nú væri talið að þetta gæti komið til hjá einstaklingum með ýmsa sjúkdóma, sérstaklega geðhvörf. Orsakirnar væru óþekktar og yrðu ekki skýrðar.

Um æsingsform heilkennisins tók matsmaður fram að það einkenndist af miklum hreyfióróa sjúklings, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund og truflun í ósjálfráða taugakerfinu. Þetta ástand gæti leitt til dauða á skömmum tíma og í sumum rannsóknum væri dánartíðni talin vera 20 til 30%. Lýst væri fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun á vöðvaensímum, sem gæti leitt til nýrnabilunar. Þetta taldi matsmaður koma vel heim og saman við tilvik áfrýjanda en hjá honum kæmi fram mjög mikill og tilgangslaus hreyfiórói þegar hann henti munum úr íbúðinni. Hann hefði hlaupið hálfnakinn nær 500 metra, bankað upp á hjá ókunnugum manni, verið greinilega mjög ruglaður og kælt sig í sturtu þegar hann var handtekinn. Hann hefði farið í krampa og síðan í hjartastopp, verið lífgaður við og fluttur á gjörgæsludeild. Þar hefði komið fram gífurleg hækkun á vöðvaensímum með mikilli truflun á sýrubasajafnvægi líkamans. Í upphafi hefði hiti hans lækkað aðeins en síðan hækkað sem talið var stafa af „central“-ástæðum. Þá hefði verið fjölgun á hvítum blóðkornum við komu áfrýjanda á sjúkrahús.

IV

Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið fallist á þá beiðni hans í greinargerð til Landsréttar að yfirmatsmenn yrðu leiddir fyrir réttinn til skýrslugjafar svo að þeir gætu skýrt frekar niðurstöður sína í ljósi gagnrýni á þær í héraðsdómi. Jafnframt hafi ekki verið fallist á að leiða fyrir réttinn nafngreindan lögreglufulltrúa sem vann að rannsókn málsins til að skýra hvernig handtökunni var lýst í sjúkraskrá Landspítalans. Þar sé þagað um hvernig gengið hafi að handjárna áfrýjanda og bensla fætur hans, auk þess sem ekki kæmi fram að hjarta hans hefði hætt að slá meðan á átökum við lögreglu stóð. Þessari ástæðu fyrir ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður hafnað þegar af þeirri ástæðu að enginn áskilnaður var gerður í áfrýjunarstefnu til Landsréttar um að vitni yrðu leidd fyrir réttinn til skýrslugjafar, sbr. e-lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 76/2019. Þess utan voru ekki efni til að leiða aftur fyrir dóm yfirmatsmenn og að auki lögreglufulltrúa vegna skráningar upplýsinga í sjúkraskrá sem haldin er vegna meðferðar sjúklings á heilbrigðisstofnun, sbr. 5. tölulið 3. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár.

Í öðru lagi krefst áfrýjandi ómerkingar hins áfrýjaða dóms þar sem í honum séu ýmsar rangfærslur og nefnir hann meðal annars í því sambandi að sú staðhæfing sé röng í 23. lið dómsins að ekki verði séð að lögreglumönnum hafi mátt vera ljóst við handtökuna að áfrýjandi væri í geðrofi. Á hinum áfrýjaða dómi eru engir þeir annmarkar sem valda því að málið hafi ekki verið dæmt á réttum grundvelli. Verði aftur á móti talið að þar sé að finna einhverjar missagnir yrði úr því bætt hér fyrir dómi við úrlausn málsins að efni til. Þessari ástæðu verður því einnig hafnað. Áfrýjandi hefur ekki teflt fram öðrum ástæðum fyrir ómerkingarkröfu sinni og verður henni því hafnað.

V

1

Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á því að stefndi beri skaðabótaskyldu á líkamstjóni sem hann hlaut 11. maí 2010 annars vegar á sakarreglunni og hins vegar hlutlægri bótareglu sem á þeim tíma var að finna í 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en er nú í 3. mgr. 246. gr. laganna.

Til að fallist verði á slíka kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns þarf að vera fullnægt þeim frumskilyrðum skaðabótaábyrgðar að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni og að orsakatengsl séu á milli þess og handtökunnar. Á það við hvort sem bótaábyrgð verður reist á sakarreglunni eða hlutlægri ábyrgð. Í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar hvílir sönnunarbyrði um þessi atriði venjulega á tjónþola.

Svo sem áður er rakið hætti hjarta áfrýjanda að slá í kjölfar handtöku og hlaut hann við það dreifðan heilaskaða. Hefur varanleg örorka hans, sem fyrr greinir, verið metin 100% og varanlegur miski 100 stig. Samkvæmt þessu varð áfrýjandi fyrir mjög miklu líkamstjóni. Að því gættu kemur til skoðunar hvort orsakatengsl verða talin milli tjónsins og aðgerða lögreglu við handtökuna.

Að virtu því sem fram hefur komið í málinu verður að leggja til grundvallar, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, að hjartsláttur áfrýjanda hafi stöðvast eftir að hann hafði verið færður í handjárn og fótbensli inni á baðherberginu þar sem hann hafði farið í sturtu. Verður jafnframt að fallast á það með Landsrétti að ósannað sé að áfrýjandi hafi í aðdragandanum verið handtekinn með harkalegum hætti þótt lögregla hafi beitt valdi. Ekkert hefur heldur komið fram sem bendir til að þrengt hafi verið að öndunarvegi hans við handtökuna.

Eins og hér hefur verið rakið liggja fyrir í málinu fjórar matsgerðir sérfræðinga um orsakir þess að hjarta áfrýjanda hætti að slá. Einnig gáfu þessir sérfræðingar skýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði og skýrðu nánar niðurstöður sínar. Héraðsdómur og Landsréttur voru skipaðir sérfróðum meðdómsmönnum en á báðum dómstigum var komist að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl milli handtöku og líkamstjóns væru ósönnuð. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms, sbr. einkum 55. til 60. liði hans, verður sú niðurstaða staðfest enda hefur ekkert komið fram hér fyrir dómi sem fær henni hnekkt.

2

Þótt sönnunarbyrði um orsakatengsl milli bótaskylds tilviks og tjóns hvíli venjulega á tjónþola eru þess dæmi í dómaframkvæmd að slakað hafi verið á kröfum til þeirrar sönnunar eða jafnvel að sönnunarbyrðinni hafi verið snúið við þannig að hún hafi verið lögð á þann sem tjónþoli beinir kröfu sinni að. Hér má benda á skaðabótamál vegna læknamistaka en þá hefur sönnunarbyrði um orsakatengsl verið lögð á þann sem ber ábyrgð á sjúkrastofnuninni, sbr. dóm Hæstaréttar 10. desember 1992 í máli nr. 162/1992 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2122, og dóm réttarins 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Einnig má nefna að slakað hefur verið á sönnunarkröfum vegna skaðabótaábyrgðar sérfræðinga eins og lögmanna og verður í þeim efnum bent á dóm Hæstaréttar 25. janúar 2001 í máli nr. 262/2000. Loks skal nefnt að vanræksla atvinnurekanda á því að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slys á mönnum, í samræmi við 1. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefur í mörgum dómum Hæstaréttar haft þau áhrif að vinnuveitandi þarf að bera hallann af því að málsatvik séu ekki upplýst nægjanlega sökum þess að rannsókn Vinnueftirlitsins hafi ekki farið fram. Um slíkt tilvik má í dæmaskyni benda á dóm Hæstaréttar 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013. Ef málsatvik verða hins vegar nægjanlega upplýst þrátt fyrir þá vanrækslu hefur þetta ekki áhrif á sönnunarmatið, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 433/2010. Að þessu gættu þarf að leysa úr því hvort efni eru til í þessu máli að víkja frá almennum reglum um sönnun orsakatengsla.

3

Í málinu liggur fyrir að ekki fór fram sérstök rannsókn á aðgerðum lögreglu og handtöku áfrýjanda. Á þeim tíma var ekki í lögum mælt fortakslaust fyrir um að athugun af því tagi færi fram þegar maður andaðist eða yrði fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur væri um refsivert brot, eins og síðar var gert með c-lið 1. mgr. 35. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 62/2016. Allt að einu bar lögreglu þá eins og nú að rannsaka slys og aðrar ófarir, sbr. 2. málslið 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008.

 Í tilefni af því að lögregla var kölluð til í því skyni að hafa afskipti af áfrýjanda var rituð frumskýrsla um málið. Þar er lýst atvikum þegar lögregla kom að [...] og ræddi við húsráðanda og handtók síðan áfrýjanda sem hafði farið í sturtu í íbúðinni. Er þar lýst atvikum eftir frásögn þeirra lögreglumanna sem handtóku áfrýjanda og til hvaða úrræða hafi verið gripið. Einnig er lýst vettvangi í íbúð á 4. hæð að [...] þar sem áfrýjandi bjó og helstu upplýsingum sem vitni greindu lögreglu frá um aðdraganda þess að óskað var eftir aðstoð hennar. Lögregla tók síðan skýrslur af þessum vitnum og var það gert fljótlega eftir atburði ef frá er talin skýrsla B, sem búsettur var að [...], en sú skýrsla var tekin þremur og hálfu ári eftir atburði. Af þeirri skýrslu verður þó ekki ráðið að sá dráttur hafi komið að sök því að vitnið lýsti af nákvæmni atvikum í íbúðinni þar sem áfrýjandi var handtekinn. Aðrir voru ekki vitni að þeim atburði nema þeir lögreglumenn sem höfðu afskipti af áfrýjanda. Einnig voru færðar upplýsingar um málið í dagbók lögreglu en þar eru atvik rakin og frásögn lögreglumanns af atburðum. Þar kemur meðal annars fram að sá lögreglufulltrúi sem hafði málið til meðferðar ræddi dagana á eftir við foreldra áfrýjanda og aflaði upplýsinga frá Landspítalanum þar sem hann var til meðferðar. Eins og áður er rakið var fært í dagbók lögreglu 21. maí 2011 að nafngreindur hjartalæknir hefði haft samband við lögreglu og lýst alvarlegu ástandi áfrýjanda. Var haft eftir lækninum að áfrýjandi væri með vöðvarof, sem leysi efni út í blóðrásina er stífli nýrun, en það hefði valdið hjartastoppi. Þá hefði komið fram hjá lækninum að áfrýjandi hefði ekki verið með áverka sem skýrt gætu ástand hans og ekkert benti til þess að átök lögreglunnar við hann hefðu nokkuð með ástand hans að gera.

Eins og málið lá fyrir samkvæmt framansögðu voru að þágildandi lögum ekki efni til að ráðast í frekari rannsókn á því og þá sérstaklega aðgerðum lögreglu í tilefni þess að hún var kölluð til í því skyni að hafa afskipti af áfrýjanda. Jafnframt er með hliðsjón af því sem fram hefur komið nægjanlega upplýst hver var aðdragandinn að handtökunni og hvernig staðið var að framkvæmd hennar. Aftur á móti hefur ekki með ítarlegum matsgerðum tekist að leiða í ljós læknisfræðilegar ástæður þess að áfrýjandi fékk við handtökuna krampa, hætti að anda og hjarta hans stöðvaðist og hvort handtakan hafi haft þar áhrif. Að þessu gættu eru ekki rök til að slaka á kröfum til sönnunar eða láta stefnda bera hallann af því að ekki hefur tekist að leiða í ljós orsakatengsl milli handtökunnar og líkamstjóns áfrýjanda.

4

Samkvæmt öllu framansögðu ber að staðfesta þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ekki sé fullnægt skilyrðum til að taka til greina kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjónsins sem áfrýjandi hlaut 11. maí 2010 þar sem orsakatengsl milli handtöku lögreglu og tjónsins eru ósönnuð.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.

Um málskostnað og gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.000.000 króna.

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ragnheiður Harðardóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Guðjón Karlsson hjartalæknir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 19. febrúar 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2019 í málinu nr. E-3561/2015.

2        Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þann veg að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna þess varanlega líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir við handtöku 11. maí 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4        Með dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2018 í máli nr. 851/2017 var dómur sem kveðinn hafði verið upp í máli þessu í héraði 8. desember 2017 ómerktur og því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

5        Af hálfu áfrýjanda hafa verið lögð fram fyrir Landsrétti ýmis ný gögn. Meðal þeirra er svarbréf Neyðarlínunnar 23. maí 2019 við fyrirspurn áfrýjanda vegna útkalls 11. maí 2010 en í bréfinu kemur fram að klukkan 11:46 þann dag hafi verið hringt í númerið 112 og tilkynnt um blóðugan mann sveiflandi golfkylfu við [...] en í kjölfarið hafi sjúkrabifreið verið send á staðinn og fjarskiptamiðstöð lögreglu gert viðvart. Þremur mínútum síðar hafi sami aðili hringt aftur og upplýst að sami maður hefði fært sig í áttina að leikskóla á svæðinu og hafi þeim sem hringdi verið gefið samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu.

6        Þá hafa af hálfu áfrýjanda verið lögð fram ýmis gögn úr sjúkraskrá hans frá 11. til 15. maí 2010. Einnig bréf lögmanns áfrýjanda til Landspítala og læknaráðs spítalans 16. maí 2019 með fyrirspurn og kvörtunum vegna færslna um áfrýjanda í sjúkraskrá og svarbréf nefndar Landspítalans um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum 19. september 2019.

7        Jafnframt hefur af hálfu áfrýjanda verið lagt fram erindi lögmanns hans til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu 14. maí 2019. Í erindinu var meðal annars kvartað yfir því að áfrýjandi fengi ekki svör við fyrirspurnum sínum varðandi verklag vegna atvika sambærilegra því þegar hann fékk hjartastopp við handtöku og hvort viðunandi rannsókn hefði farið fram á því. Þá var kvartað yfir ósamræmi í skýrslu lögreglu vegna handtökunnar og að rannsóknin hefði ekki verið unnin af hlutlausum rannsóknarmönnum. Loks hefur áfrýjandi lagt fram ákvörðun nefndarinnar vegna erindisins 18. september 2019. Í ákvörðuninni kemur meðal annars fram að nefndin taki ekki afstöðu að svo stöddu til athugasemda áfrýjanda eða hvort tilefni sé til þess að hefja meðferð máls í tilefni þeirra. Það væri hlutverk viðkomandi lögreglustjóra að taka erindið til meðferðar og væri erindið í heild sent til meðferðar og afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með vísan til 3. mgr. 35 gr. a í lögreglulögum nr. 90/1996. Nefndin tók fram að ef vísbendingar kæmu fram um það undir meðferð málsins hjá því embætti að háttsemi lögreglumanna sem kvörtunin lyti að kynni að vera refsiverð bæri þegar í stað að senda erindið til meðferðar héraðssaksóknara og var um það vísað til ákvæða 35. gr. a og b í lögreglulögum.

8        Í undirbúningsþinghaldi í Landsrétti 28. október 2019 lagði lögmaður áfrýjanda fram bókun þar sem meðal annars kom fram að áfrýjandi beindi því til Landsréttar að stefndi legði fram það skjal sem hann hefði tilgreint í bréfi til Hæstaréttar sem hefði að geyma reglur um hvernig fara skuli með útköll vegna sjúklinga á spítölum og nauðungarvistun. Jafnframt að ef stefndi yrði ekki við því yrði afstaða hans tekin til úrskurðar í Landsrétti, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.

9        Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti svaraði lögmaður stefnda efni bókunarinnar á þá leið að fyrirspurn lögmanns áfrýjanda um reglur sem þar væri vísað til hefði verið svarað með fullnægjandi hætti í umræddu bréfi til Hæstaréttar í tengslum við rekstur málsins nr. 851/2017 og þar hafi verið vísað til reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem lögð hefðu verið fram í málinu af áfrýjanda sjálfum. Ekki væru til aðrar reglur um handtöku sem ættu við í máli þessu eins og fram kæmi í bréfinu.

Niðurstaða

10       Áfrýjandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni af völdum ólögmætrar og harkalegrar handtöku lögreglunnar 11. maí 2010 og að stefndi beri bótaábyrgð á því, annars vegar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og hins vegar á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

11       Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna 10. september 2014, sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati, voru afleiðingar af hjartastoppi áfrýjanda 11. maí 2010 meðal annars 100% varanleg örorka og varanlegur miski sem metinn er til 100 stiga. Með vísan til þess og forsendna hins áfrýjaða dóms þykir ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af málsókninni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

12       Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að handtakan hafi verið ólögmæt þar sem skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 til handtöku hafi ekki verið uppfyllt.

13       Í skaðabótamálum er það meginreglan að tjónþoli ber sönnunarbyrði um þær staðreyndir sem hann byggir bótaábyrgð meints tjónvalds á og um að skilyrði bótaábyrgðar hans séu uppfyllt. Enda þótt áfrýjandi beini bótakröfu að stefnda vegna starfa lögreglumanna verður sönnunarreglum laga nr. 88/2008 og dómaframkvæmd í sakamálum um sönnunargildi lögregluskýrslna og framburðar lögreglumanna ekki beitt í máli þessu.

14       Með bréfi Neyðarlínunnar 23. maí 2019 og öðrum gögnum málsins þykir upplýst að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út klukkan 11:46 að morgni þriðjudagsins 11. maí 2010 vegna manns sem talinn var blóðugur og vopnaður golfkylfu við [...]. Þá liggur fyrir að lögregla handtók áfrýjanda í kjölfarið þar sem hann var í sturtu í íbúð í fjöleignarhúsinu að [...].

15       Um aðdraganda þess að áfrýjandi var handtekinn 11. maí 2010 hafa málsaðilar vísað til lögregluskýrslna sem ritaðar voru um handtökuna og aðdraganda hennar svo og til gagna úr sjúkraskrá áfrýjanda. Lögregluskýrslurnar hafa meðal annars að geyma endursögn lögreglu af framburði nágranna áfrýjanda þar sem þeir lýsa samskiptum við áfrýjanda þennan dag. Einnig er í þeim endursögn af framburði C, vinar áfrýjanda, sem kom að [...] um hádegisbil umræddan dag og B sem var húsráðandi í íbúðinni þar sem áfrýjandi var handtekinn. Við mat á sönnunargildi umræddra lögregluskýrslna er til þess að líta að þær voru liður í rannsókn á því að húsbúnaði var kastað út úr íbúð sem ætlað var að áfrýjandi hefði dvalið í, á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi, og háttsemi manns sem samkvæmt framburði sjónarvotta kom út úr þessu sama húsi ber að ofan og æstur og ógnaði nágranna með golfkylfu. Það sem haft er eftir þremur íbúum í umræddu fjöleignarhúsi um ástand mannsins þegar hann kom út úr húsinu og athafnir hans í framhaldinu samræmist frásögn B hjá lögreglu 3. desember 2013 og síðar fyrir dómi um ástand áfrýjanda þegar hann kom að glugga í íbúð hans og síðan inn í íbúðina. Það sem haft er eftir C, vini áfrýjanda, í lögregluskýrslu bendir til þess að áfrýjandi hafi verið í miklu andlegu ójafnvægi kvöldið áður. Með hliðsjón af ályktunum sem dregnar verða af gögnum málsins um aðdraganda að handtöku áfrýjanda þykir það hafa staðið honum nær en stefnda að leiða þá sem lögregla tók skýrslu af fyrir dómi til að hnekkja því sem fram kom í lögregluskýrslunum. Lögregluskýrslurnar teljast því hafa talsvert sönnunargildi í málinu, þar á meðal framburður vitna sem þar kemur fram.

16       Þegar litið er heildstætt til allra framangreindra sönnunargagna verður að leggja til grundvallar að þegar lögregla kom að íbúð B að [...] hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að áfrýjandi hefði verið valdur að eignaspjöllum og skapað hættu fyrir íbúa hússins [...] með því að kasta húsbúnaði niður á jörð úr íbúð á fjórðu hæð hússins, hefði ógnað íbúa hússins með golfkylfu og væri á hlaupum um hverfið með golfkylfu, fáklæddur, blóðugur og í andlegu ójafnvægi.

17       Samkvæmt framansögðu er ekkert fram komið sem haggar því mati lögreglumanna sem þeir greindu frá fyrir dómi að vegna þeirra upplýsinga sem þeir höfðu um meinta háttsemi áfrýjanda og ástand hafi verið fullt tilefni til að handtaka hann til að tryggja öryggi hans og annarra, enda voru skilyrði handtöku samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 ótvírætt uppfyllt.

18       Þá byggir áfrýjandi á því að lögreglu hafi verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergið þar sem hann hafi verið handtekinn en skýra verði undantekningarákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 þröngt.

19       Vitnið B bar fyrir héraðsdómi í sérstöku vitnamáli 30. september 2015 að þegar lögreglumenn knúðu dyra að [...] í umrætt sinn hafi hann tjáð þeim að áfrýjandi væri í andlegu uppnámi. Lögregla hafi kallað strax á liðsauka og „fóru svo bara inn. Ég bað þá svona helst um að vera ekki að koma inn, en þeir gerðu það nú samt.“ Fyrir héraðsdómi við síðari aðalmeðferð málsins bar hann að lögreglumennirnir hefðu boðið sér sjálfir inn. Fjórir þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í að handtaka áfrýjanda umræddan dag gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Tveir þeirra báru á þann veg að húsráðandi hefði leitað aðstoðar þeirra vegna áfrýjanda og sagt að hann væri í sturtu og hefði farið inn í húsið í óleyfi en einn þeirra bar að húsráðandinn hefði hleypt lögreglumönnunum inn. Af framburði lögreglumannanna og B verður ráðið að hann hafi upplýst lögreglumennina um hvar áfrýjandi væri staddur, hvernig komu hans í íbúðina hefði borið að og hvað hann væri að gera. Ekki verður ráðið af framburði B að hann hafi mótmælt eða gefið skýrt til kynna að hann væri mótfallinn því að lögreglumennirnir færu inn í íbúðina og hefðu afskipti af áfrýjanda. Við þessar aðstæður verður því ekki talið að handtaka áfrýjanda hafi verið ólögmæt á þeim grundvelli að lögreglu hafi skort húsleitarheimild.

20       Af hálfu áfrýjanda er því jafnframt haldið fram að handtakan hafi ekki farið fram í samræmi við þá meðalhófsreglu sem fram komi í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008. Allir þeir lögreglumenn sem að handtökunni hafi staðið hafi gert sér grein fyrir því að áfrýjandi væri í geðrofi þegar hann var settur í handjárn og fótbensli. Af hálfu áfrýjanda er jafnframt bent á að í 4. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja komi fram að handjárna megi handtekinn mann svo sem ef hætta er á að hann muni beita ofbeldi, valda sjálfum sér og öðrum tjóni eða öryggi hans verði ekki tryggt með öðrum hætti. Þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Þá er byggt á því að lögmaður stefnda hafi vísað til þess að ákveðnar reglur giltu þegar geðsjúkir einstaklingar væru handteknir eða nauðungarvistaðir og að með vísan til þess hafi lögregla átt að fá aðstoð þeirra sjúkraliða sem mættir voru á vettvang til að sprauta áfrýjanda niður og færa undir læknishendur en það hafi verið raunhæfur möguleiki. Stefndi hafi ekki orðið við áskorun um að leggja þessar reglur fram og verði því að bera hallann af því að hafa ekki upplýst hvaða fyrirmæli þær hafi að geyma um handtöku. Af hálfu stefnda hefur verið vísað til þess að um handtöku gildi reglur sem lagðar hafi verið fram í málinu af áfrýjanda sjálfum og lögreglumenn sem handtóku áfrýjanda hafi fylgt þeim reglum. Af hálfu stefnda hefur því sem fyrr segir verið lýst yfir að ekki séu til aðrar reglur um handtöku sem átt hafi við í tilviki áfrýjanda.

21       Í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram sú meðalhófsregla að við handtöku skuli forðast að valda hinum handtekna tjóni eða baka honum meiri óþægindi en nauðsyn beri til. Þess beri jafnframt að gæta eftir föngum að hann geti ekki unnið sjálfum sér eða öðrum tjón.

22       Með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda 5. febrúar 2015 með númerinu 156/2015 voru birtar reglur sem þáverandi dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999 um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, samkvæmt heimild í 3. gr. vopnalaga nr. 16/1998, ásamt skýringum. Í auglýsingunni kom fram að birting reglnanna hefði verið ákveðin að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra. Í 4. gr. reglnanna er fjallað um handjárn og segir þar í 1. mgr. að handjárn skuli nota á handtekinn mann eða fanga sé ástæða til að ætla að hann muni reyna flótta, beita ofbeldi eða valda sjálfum sér eða öðrum tjóni. Í 2. mgr. segir að handjárn skuli nota ef hinn handtekni eða fanginn er æstur eða órólegur eða ætla megi að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti. Í 5. gr. reglnanna segir að um heimild og notkun bensla gildi sömu reglur og um handjárn og að aðeins skuli fjötra mann á fótum með benslum ef rík ástæða er til svo sem ef hann er það æstur eða órólegur að hann sé sjálfum sér eða öðrum hættulegur. Í skýringum með reglunum koma meðal annars fram þær athugasemdir við 4. gr. að gæta skuli þess að handjárnaður maður, eða fjötraður á annan hátt, hafi að nokkru leyti verið sviptur getu til sjálfsbjargar, t.d. ef hann dettur og því þurfi lögreglumaður að vera meðvitaður um að hann beri ábyrgð á því að hann skaðist ekki.

23       Ekkert er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þegar áfrýjandi var handtekinn hafi verið til sérstakar reglur sem lögreglumönnum hafi borið að fara eftir sem mæltu fyrir um að við handtöku geðsjúkra einstaklinga skyldi kalla til sjúkraliða til að sprauta þá niður og færa undir læknishendur. Ekkert tilefni er til að leggja sönnunarbyrði á stefnda um að reglur þess efnis séu ekki til. Þótt ótvírætt sé að áfrýjandi hafi verið í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn og það hafi verið ein af ástæðum handtökunnar verður heldur ekki séð að lögreglumönnum hafi mátt vera ljóst að áfrýjandi væri í geðrofi. Því síður verður sú ályktun dregin að koma hefði mátt í veg fyrir handtökuna ef sjúkraliði hefði verið kominn á staðinn þegar áfrýjandi var handtekinn þar sem nauðsynleg forsenda fyrir aðkomu sjúkraliða að því að „sprauta áfrýjanda niður“ hlaut að vera að búið væri að handtaka hann áður.

24       Hins vegar verður að líta svo á að lögreglumönnum þeim sem handtóku áfrýjanda hafi við handtökuna og notkun handjárna og bensla borið að fara eftir fyrrnefndum reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999, enda má ætla að lögreglumönnum hafi verið reglurnar aðgengilegar þótt þær hefðu ekki verið birtar opinberlega fyrr en á árinu 2015.

25       Samkvæmt lögregluskýrslu sem rituð var 11. maí 2010 báru tveir íbúar í fjöleignarhúsinu að [...] um það að maður hefði komið út úr húsinu ber að ofan. Þeir hafi lýst því að hann hafi virst blóðugur þar sem hann hafi verið ataður einhverju rauðu, öskrað eitthvað út í loftið, sveiflað golfkylfu og verið í mjög annarlegu ástandi. Hann hafi síðan hlaupið í átt að [...]. Formlegar skýrslur voru síðar teknar af íbúum hússins, þeim D, E og F, í nóvember 2010. Lýstu þau því hvernig húsbúnaði hefði verið kastað út um glugga á íbúð á fjórðu hæð hússins og niður á pall og grasflöt fyrir neðan. Þá báru þau að ungur maður sem byggi í húsinu hefði komið út ber að ofan, sprautað á sig næringargeli, sótt golfkylfu í bifreið og sveiflað henni. Maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi og virst undir miklum áhrifum fíkniefna. Hann hafi öskrað, meðal annars að allt væri að fara til fjandans, og beðið um að ekki yrði hringt á lögregluna. Þessum lýsingum ber saman við lýsingar B í lögregluskýrslu og fyrir héraðsdómi á ásigkomulagi áfrýjanda þegar hann kom nakinn að glugga á íbúð hans og makaði á hann geli. B bar að áfrýjandi hefði virst með sár á hálsi en komið hafi í ljós að hann hefði makað á sig rauðu geli. Áfrýjandi hafi verið órólegur en hann hefði komið áfrýjanda í sturtu hjá sér og hefði hann róast. Í skýrslu sem lögregla tók af B 3. desember 2012 og hann staðfesti við síðari aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi að væri í samræmi við það sem hann myndi eftir af atburðum, bar hann að þegar lögregla hefði komið í íbúðina hefði áfrýjandi verið farinn að kalla í sturtunni og greinilega verið í miklu andlegu uppnámi. Nánar spurður um ástand áfrýjanda svarði hann: „Hann var örvinglaður og hræddur. Hann var mjög æstur og erfitt að ná tengingu við hann. Nánast eins og hann sé ekki á staðnum. Mér fannst hann mjög ör en hann var ekki ógnandi.“

26       Fjórir af lögreglumönnunum sex sem komu að handtöku áfrýjanda í baðherbergi íbúðarinnar að [...] gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Af framburði þeirra og B er ljóst að þeir opnuðu baðherbergisdyrnar utan frá og fóru inn þar sem áfrýjandi var í sturtu. Tveir þeirra báru að áfrýjandi hefði öskrað og lamið í veggi í sturtuklefanum og út í loftið, snúið sér í hringi og verið sturlaður, sá þriðji að áfrýjandi hefði stutt sig við vegginn og sá fjórði að hann hefði haldið um höfuð sér og andað frekar ört. Þeim ber öllum saman um að þeir hafi reynt að tala áfrýjanda til en ekki hafi verið unnt að ná neinu sambandi við hann þar sem hann var í sturtunni og að hann hefði engin viðbrögð sýnt þegar þeir reyndu að ná sambandi við hann. Einn lögreglumannanna bar þannig fyrir dómi: „og þar var hann í mjög slæmu ástandi, hann var trylltur eða sturlaður og lét öllum illum látum og og öskraði óstjórnlega og engu sambandi hægt að ná við hann og við reyndum að tala við hann og fá hann til að ræða við okkur og koma til okkar og spjalla við okkur, en það, það gagnaði ekki neitt. Það var bara eins og hann væri bara í öðrum heimi.“ Lögreglumennirnir báru að baðherbergið hefði verið þröngt og glerþil við sturtuna. Þeir hafi metið aðstæður þannig að nauðsynlegt væri í ljósi ástands áfrýjanda og þess sem á undan hafði gengið að handtaka hann í sturtunni til að tryggja öryggi, hans og annarra. Þá ber þeim öllum saman um að handtakan hafi verið framkvæmd með þeim hætti að tveir lögreglumenn hafi tekið hvor í sinn handlegg áfrýjanda þar sem hann sneri baki í þá, dregið hann aftur á bak út úr sturtuklefanum og lagt hann á gólfið. Áfrýjandi hafi þá tryllst eða sturlast þannig að þeir hafi neyðst til að leggja hann á baðherbergisgólfið og handjárna hann fyrir aftan bak. Þar sem áfrýjandi hafi verið sturlaður, látið ófriðlega og sparkað frá sér hafi þeir einnig benslað fótleggi hans.

27       B bar fyrir héraðsdómi að eftir að lögreglumennirnir hefðu komist inn hefðu þeir reynt „eitthvað í smá stund að tala við hann í gegnum hurðina og hann ansaði ekki, þá fóru þeir inn og tóku hann, tóku hann tökum“. Í fyrrnefndri lögregluskýrslu eru eftirfarandi ummæli höfð eftir honum: „Ég hálfsé inn um dyragættina. Þeir voru eitthvað búnir að reyna að tala við hann en það hafði ekki virkað. Þeir fara inn og taka hann, ég sé ekki þau átök en heyri meira lætin.“

28       Af framburði lögreglumannanna og B verður ráðið að áfrýjandi hafi enn verið æstur og í annarlegu ástandi þegar lögregla kom í íbúðina að [...] og er ekkert fram komið sem haggar því mati lögreglumannanna að við þær aðstæður sem uppi voru hafi verið eðlilegt að standa að handtökunni með þeim hætti sem gert var.

29       Í lögregluskýrslu sem tekin var af B 3. desember 2013 er sem fyrr segir haft eftir honum að hann hafi hálfséð inn um dyrnar inn á baðherbergið. Hann hafi ekki séð átökin þegar áfrýjandi var tekinn en heyrt meira lætin. „Ég hins vegar sé hann þegar hann er í handjárnum liggjandi á gólfinu og sé einn lögreglumann með hnéið í bakinu á manninum og er að setja hann í handjárn. Ég hafði séð þegar hann féll í gólfið, en lögreglan ætlaði að setja hann í gólfið en það var meira eins og hann lyppaðist í gólfið, eins og kerfið í honum hafi slökkt á sér.“ Eftir það hafi hann veitt því athygli að áfrýjandi hreyfði sig ekki og hafi hann því beðið lögreglu að fara að hnoða áfrýjanda. Í framhaldinu hafi sjúkrabifreið komið og sjúkraliðar drifið sig inn með öll sín tæki og tól. Lögreglan hafi þá dregið áfrýjanda fram á gang og verið með hann í lærahæð en áfrýjandi verið háll og lögreglumenn misst takið þannig að hann hafi skollið niður á gólf og hnakkinn lent á flísalögðu gólfinu en þá hafi hann þegar verið meðvitundalaus. Sjúkraliðarnir hafi eftir það tekið við lífgunartilraunum. Síðar í skýrslunni er ritað eftir honum þegar hann er spurður hvort eitthvað sem hann hafi séð til lögreglu hafi valdið því að áfrýjandi missti meðvitund: „Nei ekkert sem ég sá. Þeir voru ekki að reyna að meiða manninn, þeir voru að reyna að ná honum með góðu en þó með valdi. Ég sá engan slá til hans eða neitt þannig.“ Við síðari aðalmeðferðina fyrir héraðsdómi bar B: „Sko eins og ég man þetta, þá var eins og hann missti mátt við handtökuna og lyppaðist í gólfið og þaðan fór lögreglan ofan á hann til þess að bensla hann.“ Þá bar hann að lögregla hefði beðið hann um að hafa þögn og sitja. Að öðru leyti var framburður B um málsatvik svipaður og haft var eftir honum í lögregluskýrslunni. Enginn lögreglumannanna kannaðist við að hafa sett hné í bakið á áfrýjanda þegar hann var handtekinn og lagður á gólfið í baðherberginu en einn þeirra bar fyrir héraðsdómi að lögreglumennirnir hefðu þurft að halda honum niðri. Annar þeirra bar fyrir dómi að þegar búið hafi verið að leggja áfrýjanda á gólfið hefði hann haldið áfram að reyna að sparka í þá og frá sér. Hann hafi þá kropið á gólfinu hjá áfrýjanda og haldið við hann þannig að hann gæti ekki snúið sér við. Í kjölfarið hafi áfrýjandi fengið krampa og byrjað að kasta upp og hafi hann þá sett áfrýjanda á hliðina en þetta hafi gerst tiltölulega fljótt. Síðan hafi hann heyrt að áfrýjandi hafi hætt að anda og hann þá strax athugað með púls hans. Hann hafi ekki fundið púls og þá losað um handjárnin og byrjað endurlífgun. Þá hafi verið búið að kalla á sjúkrabifreið. Einn lögreglumannanna sem gaf skýrslu vildi ekki útiloka að þeir hefðu misst áfrýjanda í gólfið þegar þeir báru hann út af baðherberginu, hinir könnuðust ekki við það. Sá lögreglumaður bar hins vegar að þegar lögreglumennirnir hefðu verið komnir með áfrýjanda inn á ganginn fyrir framan baðherbergið hafi áfrýjandi legið á bakinu og þá hafi hann horft á „slokkna á honum“. Hann lýsti því nánar svo: „sé að það réttist úr, hann svona spennist allur upp og réttist úr ristunum á honum og svo bara er eins og að tappinn sé tekinn úr, eða já svo slokknar á honum í framhaldinu af því.“ Umræddur lögreglumaður bar þó að baðherbergið hefði verið lítið og hann minnti að hann „hafi nú bara farið fram til þess að búa til pláss fyrir mennina sem voru að eiga við hann og svo komu þeir með hann fram“. Hinir þrír lögreglumennirnir báru á annan veg. G lýsti aðstæðum við handtökuna þannig: „Það var bleyta út um allt og það var, þetta var mjög þröngt og við hefðum, það var mjög sleipt þarna. Þannig að ég mundi segja að við pössuðum, við vorum þrír, höfðum góða stjórn á honum allan tímann. Þannig að þetta, við misstum aldrei, við misstum aldrei stjórn á handtökunni, þannig að ég mundi segja að hún hafi verið eðlileg að öllu leyti miðað við aðstæður.“ H lögreglumaður lýsti handtökunni hins vegar svo: „en ég man að hann var bara sem sagt færður í tök, við reyndum að tryggja handleggi og hann svona braust um og þá rann hann á gólfið og þar hélt handtakan áfram og hann svona sparkaði í okkur líka og þá var ákveðið að kasta á fæturna og tryggja þær og okkur.“

30       Nokkuð erfitt er að meta hvað B sá í raun af því sem gerðist inni á baðherberginu en hann var ekki þar inni þegar atburðirnir áttu sér stað heldur sá hann hluta af atburðarásinni inn um baðherbergisdyrnar þar sem að minnsta kosti fjórir lögreglumenn og áfrýjandi voru staddir. Hann kvaðst ekki hafa séð þegar lögreglumennirnir tóku áfrýjanda tökum en hins vegar þegar hann var færður í handjárn.

31       Við mat á sönnunargildi framburðar lögreglumannanna fjögurra verður að líta til 59. gr. laga nr. 91/1991 og þess að þeir voru starfsmenn stefnda og gætu auk þess haft nokkra hagsmuni af úrslitum málsins. Þá var talsvert ósamræmi í framburði þeirra um nokkur atriði og þá yfirleitt þannig að einhver einn þeirra bar á annan hátt en hinir þrír um einstök atriði. Við mat á framburði þeirra verður jafnframt að líta til þess að þröngt var á baðherberginu og þeir voru ekki allir þar inni samtímis. Þá var mjög langt um liðið frá atburðum þegar þeir gáfu skýrslu fyrir dómi. Við mat á sönnunargildi framburðar vitnisins B er hins vegar til þess að líta að ekki hefur verið sýnt fram á að hann hafi nein tengsl við áfrýjanda eða hagsmuni af úrslitum málsins. Hins vegar var hann ekki inni á baðherbergi þegar áfrýjandi var tekinn tökum en sá hluta atburða inn um dyrnar á baðherberginu þar sem fjöldi lögreglumanna var auk áfrýjanda. Þá bar hann sjálfur að hafa vikið frá til að hleypa sjúkraliðum inn í íbúðina.

32       Í innlagnarnótu á gjörgæsludeild 11. maí 2010 var ritað að áfrýjandi hefði við komu þangað verið með rispur á öxlum og kvið en ekki önnur áverkamerki. Læknisfræðileg gögn benda því ekki til þess að áfrýjandi hafi fengið áverka eftir fall við eða eftir handtökuna eða að valdbeiting lögreglu hafi farið fram með harkalegum hætti.

33       Þegar framburður lögreglumannanna fjögurra fyrir dómi er virtur heildstætt og borinn saman við framburð vitnisins B verður helst ráðið að tveir lögreglumenn hafi tekið hvor í sinn handlegg áfrýjanda þar sem hann sneri baki við þeim í sturtunni og ætlað að taka hann þannig aftur á bak. Áfrýjandi hafi hins vegar barist um, mögulega runnið til þegar hann var lagður á baðherbergisgólfið. Áfrýjandi hafi verið færður í handjárn liggjandi á grúfu og haldið þar niðri. Fyrir liggur að sett voru bensli á fætur áfrýjanda þar sem hann sparkaði frá sér og verður að ætla að það hafi verið eftir að hann var færður í gólfið. Frásögn B um að hann hafi séð áfrýjanda lyppast í gólfið inni á baðherberginu og að slokknað hafi á honum samrýmist ekki þeirri frásögn hans að hann hafi ekki séð þegar lögreglan tók áfrýjanda tökum og að atburðarásin hafi tekið mjög skamman tíma. Með hliðsjón af því og að teknu tilliti til framburðar allra fjögurra lögreglumannanna verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi hætt að anda og farið í hjartastopp liggjandi á grúfu inni á baðherberginu eftir að hann hafði verið færður í handjárn og fótbensli. Af framburði B og þriggja lögreglumanna verður ráðið að þegar áfrýjandi hætti að anda og hjartsláttur stöðvaðist hafi verið losað um handjárn, hann settur á bakið og lögreglumaður byrjað hjartahnoð inni á baðherberginu. Er það í samræmi við framburð eins lögreglumannanna þriggja og verður það lagt til grundvallar. Síðan hafi bráðaliðar komið á vettvang með sjúkrabifreið og tekið við lífgunartilraunum. Þrír lögreglumannanna báru að áfrýjandi hefði verið færður úr baðherberginu fram á gang meðan á lífgunartilraunum stóð en sá fjórði bar að allar lífgunartilraunir hefðu farið fram inni á baðherberginu. Frásögn eins lögreglumanns styður framburð B um að áfrýjandi kunni að hafa fallið á gólfið og lent á hnakkanum þegar hann var borinn fram á gang. Um það atriði er hins vegar til þess að líta að þegar framburður lögreglumannanna og B er virtur heildstætt þykir ljóst að þetta ætlaða atvik hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir að hjarta áfrýjanda stöðvaðist og endurlífgunartilraunir voru hafnar.

34       Af hálfu áfrýjanda hefur verið vísað til þess að gögn málsins séu misvísandi um það hversu lengi endurlífgun hafi staðið yfir áður en hjarta áfrýjanda byrjaði að slá á ný en ýmist hafi verið skráð að endurlífgun hafi tekið 20 eða 25 mínútur. Þar sem fyrir liggur að sjúkraliðar komu á vettvang mjög skömmu eftir að hjarta áfrýjanda stöðvaðist og tóku við endurlífgun af lögreglumönnum, sem ekki höfðu eftir það afskipti af endurlífgun og læknismeðferð áfrýjanda, verður ekki séð að umrætt vafaatriði hafi nokkra þýðingu við úrlausn þess hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á heilsutjóni áfrýjanda.

35       Með vísan til þess að við komu áfrýjanda á sjúkrahús fundust engir áverkar á honum sem bent gætu til þess að valdbeitingu umfram það sem nauðsynlegt var hafi verið beitt við handtöku hans svo og framburðar B og lögreglumannanna fyrir héraðsdómi er ekkert fram komið sem bendir til annars en að við handtökuna hafi verið viðhaft það meðalhóf sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008. Þá bendir heldur ekkert til annars en að við handtökuna og notkun handjárna og fótbensla hafi lögreglumenn fylgt ákvæðum 4. og 5. gr. fyrrnefndra reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999. Jafnframt er ekki annað í ljós leitt en að lögreglumennirnir hafi gert allt, sem hægt var að ætlast til af þeim miðað við aðstæður, til þess að tryggja að áfrýjandi skaðaðist ekki við handtökuna.

36       Áfrýjandi hefur því ekki sýnt fram á að lögreglumennirnir hafi við handtökuna brotið gegn lögum eða verklagsreglum sem um slíka valdbeitingu gilda og ekki heldur sýnt fram á að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegs meðalhófs við handtökuna eða að háttsemi þeirra geti með öðrum hætti talist saknæm.

37       Ekki verður því fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á varanlegu líkamstjóni áfrýjanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.

38       Sem fyrr segir reisir áfrýjandi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda jafnframt á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, áður 3. mgr. 228. gr. laganna. Í ákvæðinu segir meðal annars að hafi maður ekki verið borinn sökum í sakamáli eigi hann engu að síður rétt til bóta ef hann hefur beðið tjón af þeim aðgerðum sem taldar eru upp í 2. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. segir að dæma skuli bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna en ákvæði XIII. kafla eiga við um handtöku. Þótt áfrýjandi hafi öðrum þræði verið handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi og hann þannig haft stöðu sakbornings við handtökuna liggur fyrir að lögregla hefur ekki tekið af honum skýrslu sem sökuðum manni. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að löglærður fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði síðar tekið ákvörðun um að hætta rannsókn málsins en sú ákvörðun virðist ekki hafa verið kynnt áfrýjanda. Af hálfu stefnda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að bótaskylda hans geti verið reist á 3. mgr. 246. gr. og verður leyst úr málinu á þeim grundvelli, enda enginn efnislegur munur sem hér skiptir máli á bótarétti handtekins manns samkvæmt því ákvæði og 1. mgr. greinarinnar sem fjallar um bótarétt þess sem hefur verið borinn sökum í sakamáli en í því ákvæði er einnig vísað til 2. mgr. Í báðum tilvikum gildir sú regla að fella má niður bætur eða lækka þær ef bótakrefjandi hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

39       Eins og fram kemur í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli þessu er það frumskilyrði þess að bótaskylda verði felld á stefnda að tjón liggi fyrir í skilningi skaðabótaréttar og að orsakatengsl teljist sönnuð milli þess tjóns áfrýjanda og hinnar ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi starfsmanna stefnda.

40       Til þess að orsakatengsl teljist vera milli atburðar og tjóns þannig að til bótaábyrgðar leiði er þess að jafnaði krafist að atburðurinn hafi verið nauðsynlegt skilyrði fyrir tjóninu. Þess er hins vegar ekki krafist að orsök sé nægjanlegt skilyrði tjóns. Þegar metið er hvort orsakasamband sé til staðar í þessum skilningi eru þannig bornar saman tvær atburðarásir, önnur með umræddum atburði og hin án hans. Ef niðurstaða þessa samanburðar er sú að sýnt þyki að tjónið hefði orðið þótt hinn umræddi atburður hefði ekki verið liður í atburðarásinni teljast orsakatengsl í þessum skilningi ekki til staðar milli atburðarins og tjónsins og þar af leiðandi ekki um að ræða bótaskyldu þess sem ber ábyrgð á atburðinum þótt hann kunni að teljast viðbótarorsök.

41       Ef hins vegar þykir sýnt að fleiri en einn atburður eða ástand hafi átt þátt í tjóni og tjónið hefði ekki orðið nema fyrir samspil þessara orsakaþátta geta þeir sem ábyrgð bera á þeim þáttum borið óskipta bótaábyrgð á tjóninu.

42       Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan þykir sannað að hjarta áfrýjanda hætti að slá meðan á handtöku hans stóð og að hann varð fyrir stórfelldu heilsutjóni vegna öndunar- og hjartastopps. Enda þótt handtaka áfrýjanda hafi þannig óumdeilanlega verið liður í þeirri atburðarás sem leiddi til tjóns áfrýjanda nægir það ekki til þess að unnt sé að slá því föstu að handtakan teljist orsök tjónsins í skilningi skaðabótaréttar.

43       Það er hlutverk dómstóla að leggja endanlegt mat á hvort nægileg sönnun um orsakatengsl sé fram komin í máli, þar á meðal að skera úr um hvað teljist sannað um hvert það atriði sem máli skiptir við mat á því hvort orsakatengsl hafi verið til staðar. Þegar mat er lagt á hvort orsakatengsl hafi verið milli handtöku áfrýjanda og tjóns þess sem hann varð fyrir vegna hjartastopps við handtökuna þarf að taka afstöðu til ýmissa atriða, þar á meðal atriða sem þörf er á sérkunnáttu á sviði læknisfræði til að leysa úr en jafnframt til þess hvað teljist sannað um önnur atriði en læknisfræðileg.

44       Í málinu liggja fyrir fjórar matsgerðir lækna sem áfrýjandi hefur aflað meðal annars í því skyni að tryggja sér sönnun um orsakatengsl milli handtökunnar og þess heilsutjóns sem leiddi af hjartastoppi við handtökuna.

45       Um er að ræða eina yfirmatsgerð þriggja lækna, undirmatsgerð tveggja lækna, undirmatsgerð læknis og lögfræðings og undirmatsgerð eins læknis.

46       Lagt var fyrir matsmennina I hjartalækni og J lögmann að svara eftirfarandi spurningum sem settar voru fram um orsakatengsl í matsbeiðni áfrýjanda 29. nóvember 2012: „1. Hvort orsakatengsl séu til staðar á milli valdbeitingu lögreglu gegn matsbeiðanda umrætt sinn og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. 2. Ef svarið við spurningu nr. 1 er nei; hver sé líklegasta orsök þess líkamstjóns sem matsbeiðandi varð fyrir umrætt sinn.“ Svar matsmanna við fyrri spurningunni var að matsmenn teldu ekki vera orsakatengsl þarna á milli. Þeir benda þó á að þekkt sé að þeir einstaklingar sem eru í annarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Síðari spurningunni svöruðu matsmenn þannig að líklegasta orsök hjartastoppsins hafi verið „það sturlunar eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaemsímum. Allt þetta má að mati matsmanna tengja við ofneyslu hans á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar.“ Matsmenn töldu að ekkert í gögnum málsins benti til orsakatengsla milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem áfrýjandi hafi orðið fyrir og töldu ósennilegt að áfrýjandi hefði getað lifað með svo lágt sýrustig sem greindist hjá honum. Þá töldu þeir ósennilegt að sú mikla hækkun sem mælst hefði á vöðvaensímum við komu á spítalann hafi eingöngu stafað af átökum áfrýjanda við lögreglu og líklegra að miklar æfingar í aðdraganda tjónsatburðar og athafnir hans sama dag og tjónsatburður varð hafi átt stærri þátt.

47       Áfrýjandi lagði fyrir undirmatsmennina K geð- og embættislækni og L lyf- og hjartalækni og síðar yfirmatsmennina M lyf- og hjartalækni, N geðlækni og O taugalækni að svara eftirfarandi matsspurningum: „1. Hvort valdbeiting lögreglunnar er stefnandi var handtekinn, geti verið einn af orsakavöldum þess, að stefnandi fór í hjartastopp, hinn 11.5.2010. Ef svarið er jákvætt, er þess beiðst að matsmenn greini á milli orsaka líkamstjónsins. 2. Hvort efnið Agel, sem minnst er á í lögregluskýrslu og talið er, að stefnandi hafi tekið inn í óhóflegu magni fyrir tjónsatburðinn, sbr. fyrirliggjandi matsgerð, hafi að geyma efni sem geti orsakað það eitt og sér, að stefnandi/matsbeiðandi hafi farið í hjartastopp. 3. Hvort matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglunnar í umrætt sinn. 4. Hvort líklegt sé, að stefnandi/matsbeiðandi hefði orðið fyrir hjartastoppi, ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtunni, hefði fengið að klára það verk, og ekki hefði komið til að hann hefði verið handtekinn á þeim stað af lögreglu, með þeim hætti sem gert var og á þeirri stundu.“

48       Í matsgerð 11. júní 2016 svöruðu undirmatsmennirnir fyrstu matsspurningunni um orsakatengsl milli handtöku og tjóns áfrýjanda neitandi. Þeir svöruðu annarri matsspurningunni einnig neitandi og töldu sig ekki sjá að Agel væri til þess fallið að valda hjartastoppi en gætu ekki fullyrt um slíkt, væri það tekið í gríðarlegu magni. Þriðju spurningunni svöruðu þeir þannig að þeir teldu líkurnar á því að matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp, þótt valdbeiting hefði ekki komið til, auknar vegna hins öra ástands hans rétt fyrir tjónsatburð. Fjórðu spurningunni svöruðu þeir játandi. Í rökstuðningi matsmanna kemur fram að engin rafvirkni hafi verið í hjarta áfrýjanda við fyrstu greiningu og það gæti bent til þess að hjartastoppið hefði orðið í kjölfar öndunarstopps. Öndunarstoppið hefði komið til vegna krampa og uppkasta við það að matsbeiðanda svelgdist á og hluti magainnihalds hafi farið í öndunarfærin. Hins vegar gætu krampar og ástæða uppkasta tengst mikilli áreynslu í átökum við lögreglu þegar hann hafi verið í mjög örvuðu ástandi. Ástæða þessa örvaða ástands væri hins vegar ekki þekkt og undirliggjandi ástæða gæti líka ein og sér hafa valdið krömpum og uppköstum með sömu hættu á ásvelgingu og öndunarstoppi. Allt eins mætti færa líkur að því að lögregla hafi bjargað matsbeiðanda og hinu að hún hafi valdið honum tjóni. Í ljósi kringumstæðna væri það álit matsmanna að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar björgunaraðgerðir.

49       Í yfirmatsgerð 1. mars 2017 svöruðu yfirmatsmenn fyrstu matsspurningunni þannig: „Miðað við það sem sagt er frá hér að ofan um aukna hættu á hjartastoppi við aðstæður þar sem hefur verið nauðsynlegt að beita valdi, telja yfirmatsmenn það vera líklegt, að valdbeiting hafi átt þátt í að valda hjartastoppinu. Aðrir þættir gætu hafa verið meðvirkandi.“ Annarri matsspurningu svöruðu þeir þannig: „Þar sem ekkert kemur fram í gögnum um að umrætt fæðubótarefni innihaldi koffein eða önnur mögulega skaðleg efni, er ekkert sem bendir til að inntaka af þessu fæðubótarefni hafi átt þátt í að orsaka hjartastoppi yfirmatsbeiðanda, sbr. nánari umfjöllun í yfirmatsgerðinni.“ Þriðju og fjórðu matsspurningunni svöruðu matsmenn á sama veg þannig: „Það er útilokað að svara þessari spurningu játandi eða neitandi með vissu.“

50       Í yfirmatsgerðinni er fjallað um ýmsar mögulegar orsakir hjartastopps áfrýjanda, meðal annars inntöku á fæðubótarefninu Agel, lágt sýrustig, hækkun á vöðvaensímum, A- eða D-vítamíneitrun og öndunarstopp vegna ásvelgingar og töldu yfirmatsmenn líkurnar á að þessir þættir hefðu valdið hjartastoppi litlar. Í rökstuðningi kemur meðal annars fram að við uppvinnslu eftir hjartastopp áfrýjanda hafi engin augljós eða ákveðin orsök fyrir atburðinum greinst. Þá töldu þeir engar sannanir fyrir því að áfrýjandi hefði neytt koffíns eða annarra efna sem gætu hafa skapað ofangreindar aðstæður og gátu þess að lyfjaleit við komu á sjúkrahúsið hefði verið neikvæð. Í rökstuðningi yfirmatsmanna segir enn fremur: „Þekkt er að líkamleg valdbeiting á órólegum einstaklingum geti leitt til hjartastopps. Þessu hefur verið lýst einkum í tengslum við handtökur lögreglumanna […] og við meðferð órólegra geðsjúklinga. […] Valdbeiting sem felst í því að reigja hálsinn á ákveðinn hátt og/eða halda manni niðri getur truflað öndun verulega vegna þess að háls lokast og/eða þind getur ekki sinnt öndunarhreyfingum. Afleiðing af slíkri valdbeitingu getur verið köfnun og svo hjartastopp. […] Það er óumdeilt að valdi var beitt í umræddu tilfelli, þó vissulega sé ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum var beitt og hvaða beinu áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi yfirmatsbeiðanda. Það er einnig óumdeilt að yfirmatsbeiðandi var á þessum tíma órólegur og æstur. Í ljósi atburðarásarinnar verður að teljast líklegt að valdbeiting hafi átt þátt í hjartastoppinu.“ Vísað er til ýmissa fræðigreina í þessum rökstuðningi.

51       Í matsgerð sem áfrýjandi aflaði í dómsmáli gegn Verði tryggingum hf. vegna sama tjónsatburðar, en hún hefur verið lögð fram í máli þessu, svaraði matsmaðurinn P eftirfarandi tveimur matsspurningum: „1. Hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda/matsbeiðanda hafi verið ósjálfráð, er hann var handtekinn þann 11. maí 2010. 2. Hvert hafi verið andlegt [ástand] stefnanda/matsbeiðanda, er hann var handtekinn og að hvaða leyti hann hafi getað gert sér grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.“ Svör matsmannsins við fyrri matsspurningunni voru eftirfarandi: „Eins og fram kemur í matsgerðinni er það álit undirritaðs að A hafi verið haldinn geðrofi og síðan mjög miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda sem lýst er þegar hann var handtekinn hinn 11. maí 2010. Öll viðbrögð hans og raunar gerðir eins og lýst er hafa að mati undirritaðs verið algjörlega ósjálfráð.“ Síðari matsspurningunni svaraði hann þannig: „Í matsgerðinni kemur fram lýsing á mjög alvarlegu andlegu ástandi A umræddan dag og það er álit undirritaðs að A hafi enga grein gert sér fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.“ Í rökstuðningi matsmanns kemur meðal annars fram að ekki hafi verið hægt að fá fram neina sögu um geðsjúkdóma í ætt, engar geðsveiflur og haft er eftir áfrýjanda og föður hans að hann hefði alltaf verið mjög virkur í íþróttum og líkamlega hraustur, jákvæður og með jafnaðargeð. Hann hafi þó verið farinn að nota ólögleg lyf 15 ára að aldri og farið í meðferð hjá SÁÁ þegar hann var 15 eða 16 ára. Matsmaður taldi að ástand áfrýjanda, eins og því hefði verið lýst, félli vel að lýsingu á sjaldgæfu heilkenni „Lethal Catatonia“ sem skiptist í hægara form og mun sjaldgæfara æsingsform. Þetta heilkenni kæmi helst fyrir hjá ungum einstaklingum. Áður hefði verið talið að þetta væri undirgerð af geðklofa en nú væri talið að þetta gæti komið fyrir hjá einstaklingum með ýmsa sjúkdóma, sérstaklega geðhvörf. Orsakir ástandsins væru óþekktar og ekki skýrðar. Æsingsformið einkenndist af miklum hreyfióra, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund og truflun í ósjálfráða taugakerfinu og gæti ástandið leitt til dauða á skömmum tíma. Í sumum rannsóknum hefði dánartíðni verið talin 20-30%. Lýst hafi verið fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun á vöðvaensímum sem gæti leitt til nýrnabilunar.

52       Umræddir matsmenn komu allir fyrir dóm í héraði við fyrri aðalmeðferð málsins og gáfu skýrslu. Undir matsmenn voru meðal annars bornar niðurstöður annarra matsgerða. Þannig var yfirmatsmaðurinn M spurð hvort niðurstöður P breyttu eitthvað forsendum yfirmatsins. Hún svaraði því að áfrýjandi hefði augljóslega verið í einhvers konar óráðsástandi áður en hann fékk hjartastopp og að því leyti væru yfirmatsmenn sammála P. Yfirmatsmaðurinn O kvað tilgátu P nýja og athyglisverða, kvað hana hugsanlega og að sér hefði ekki hugkvæmst sá möguleiki. Hann kvað „Lethal Catatonia“ hins vegar mjög sjaldgæft ástand og ekki eins líklega skýringu og niðurstöðu yfirmatsins. Þá fjallaði hann um niðurstöður undirmats læknanna K og L og taldi skýringar þeirra á hjartastoppinu ólíklegar. Nánar um það sagði hann meðal annars: „En sem sagt þessi streituástand veldur, telja menn líklegast auknu losun noradrenalín og þá er spurning, hvað eru meiri líkur og hvað eru minni líkur af því að honum var snúið þetta hratt uppá hlið, þetta vel upp á hlið af því að það náði sem sagt að hérna, að hreinsa loftvegi, þá finnst okkur samkvæmt því sem við sjáum í lýsingu, það vera minni líkur á að það sé það sem veldur því og þá höldum við okkur við að þá stendur uppi að líklegra er að þetta hafi verið þessi viðbrögð við höftunum, heftingu.“

53       Í framburði matsmannsins L fyrir héraðsdómi kom eftirfarandi fram: „Já sko sagan öll er mjög ruglingsleg og ónákvæm og tímafaktorar ónákvæmir, oft er erfitt að átta sig á hvað kemur fyrst. Sem læknir þá reyni ég að upphugsa allar mögulegar orsakir, ekki einungis þær sem passa inn í mína nálgun eða fyrirfram gefna ástæðu, eða líklegustu ástæðu. Ekki er ljóst samkvæmt sögunni hvenær matsbeiðandi missir meðvitund, er það þegar hann liggur á, eða lyppaðist hann niður þegar hann var í fanginu á lögreglumönnunum og kastar hann t.d. upp áður eða eftir að hann missir meðvitund. Ef að uppköst eða ásvelging hefur valdið öndunarstoppi og síðar hjartastoppi, þá eru átökin við lögreglu líklegasti orsakavaldurinn. Hins vegar eins og kemur fram í yfirmati er það ólíklegt sem frumorsök og meðal annars þess vegna er ólíklegt að hjartastoppið sé eingöngu vegna átaka við lögreglu og ég segi eingöngu og ætla aðeins að fá að útskýra það. Matsbeiðandi hann er með undirliggjandi ástand sem er lífshættulegt, þetta kemur einnig fram í sérstöku mati P geðlæknis og hann kallar þetta ástand „Lethal Catatonia“ og er þetta ástand í sjálfu sér lífshættulegt og í sumum rannsóknum hefur dánartíðnin verið 20 til 30 prósent og ég held að það sé best að útskýra þessa hugsun okkar og skilning með öðru dæmi og það er að bráð kransæðastífla, t.d. er lífhættuleg og getur valdið skyndidauða, en einstaklingur sem er með bráða kransæðastíflu og lendi í mikilli áreynslu, er þó líklegri til að deyja skyndidauða og er á þá ástæðan fyrir skyndidauðanum þessi bráða kransæðastífla, eða þessi mikla áreynsla sem hann lendir í og það er megin ástæða niðurstöðu okkar að það er ekki hægt að aðskilja þetta.“

54       Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er ósannað að áfrýjandi hafi verið handtekinn með harkalegum hætti þótt valdi hafi vissulega verið beitt. Þótt ekki hafi tekist að upplýsa með óyggjandi hætti við hvaða aðstæður öndun og hjartsláttur áfrýjanda stöðvaðist þykir samkvæmt framansögðu rétt að leggja til grundvallar að það hafi gerst eftir að áfrýjandi hafði verið handjárnaður og færður í fótbensli. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að þrengt hafi verið að öndunarvegi áfrýjanda við handtökuna. Í ljósi framburðar B um að hann hafi heyrt en ekki séð hvað fram fór á baðherberginu þegar áfrýjandi var handtekinn en síðar í atburðarásinni fylgst með framan af gangi er gegn neitun allra fjögurra lögreglumannanna ekki nægilega í ljós leitt að þeir hafi rekið hnéð í bak áfrýjanda og heldur ekki að þrýst hafi verið á bak hans eða honum haldið niðri af slíku afli að truflað hafi öndun hans.

55       Við mat á innbyrðis þýðingu framangreindra fjögurra matsgerða verður að líta til þess að yfirmatsgerð er að jafnaði talin hafa meira sönnunargildi en undirmatsgerð. Við það mat verður þó jafnframt að líta til þess að spurningar þær sem lagðar voru fyrir undirmatsmenn í síðastnefndu tveimur undirmötunum voru ekki þær sömu og svarað var í yfirmatsgerð og þess að ekki hefur verið óskað yfirmats vegna þessara tveggja undirmatsgerða. Þá verður að líta til þess að stefndi var ekki matsþoli í matsgerð þeirri sem P geðlæknir vann.

56       Allar matsgerðirnar eru haldnar þeim annmarka að í þeim álykta matsmenn um hvað rétt sé að leggja til grundvallar um ýmis önnur atriði en sérkunnátta þeirra nær til og reisa síðan niðurstöður sínar um læknisfræðileg atriði meðal annars á slíkum ályktunum. Þar sem matsmenn ganga þannig út frá talsvert mismunandi forsendum um staðreyndir málsins og komast að mjög mismunandi niðurstöðum um líklegar orsakir hjartastoppsins og um orsakatengsl verður litið til þeirra allra við úrlausn málsins og jafnframt þeirra skýringa sem matsmennirnir gáfu fyrir héraðsdómi á niðurstöðum sínum.

57       Af öllum matsgerðunum verður ráðið að það sé mjög sjaldgæft að ungur maður sem ekki hefur sögu um neina þá sjúkdóma sem skýrt geta skyndilegt hjartastopp, verði fyrir því og jafnframt að mjög sjaldgæft sé að slíkt gerist við handtöku. Í þessum matsgerðum setja matsmenn fram mjög ólíkar tilgátur um orsakir öndunar- og hjartastopps áfrýjanda byggðar á ályktunum sínum um atvik í aðdraganda þess og hvenær það átti stað. Jafnframt eru matsmenn ósammála um hversu líklegar einstaka tilgátur séu. Í öllum matsgerðunum er látið að því liggja með einum eða öðrum hætti að líklegt sé að það annarlega ástand sem áfrýjandi var í þegar hann var handtekinn hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist. Hvernig áfrýjandi komst í þetta annarlega ástand og hversu lengi það hafi staðið hafa matsmenn ekki treyst sér til að svara af neinu öryggi. Jafnframt verður ráðið af öllum matsgerðunum að ofsafengin viðbrögð áfrýjanda við handtökunni hafi átt þátt í eða aukið líkurnar á að hjarta hans stöðvaðist. Af matsgerðunum öllum verður þannig ráðið að handtaka áfrýjanda og viðbrögð hans sjálfs við henni hafi verið þáttur í því hvernig fór. Matsmenn eru hins vegar ósammála um hvaða atriði tengd handtökunni sé líklegast að hafi átt mestan þátt í öndunar- og hjartastoppinu.

58       Þegar rökstuðningur yfirmatsmanna er metinn í heild virðist ljóst að sú niðurstaða þeirra að líklegt sé að valdbeiting lögreglu hafi átt þátt í hjartastoppinu sé fengin með því að útiloka aðra mögulega orsakaþætti. Þá virðist niðurstaða matsmanna vera fengin með því að álykta sem svo að þar sem valdbeiting átti sér stað og þekkt sé að valdbeiting geti valdið hjartastoppi við ákveðnar aðstæður, sérstaklega ef sá sem beittur er valdi er órólegur eða æstur eins og áfrýjandi hafi verið, sé líklegt að handtakan hafi átt þátt í hjartastoppinu. Það veikir talsvert röksemdafærslu yfirmatsmanna að þeir telja ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum hafi verið beitt við handtökuna og hvaða beinu áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi áfrýjanda. Þessi röksemdafærsla gæti þannig átt við öll hjartastopp sem verða við handtöku á órólegum einstaklingum án tillits til atvika að öðru leyti. Niðurstöður og rökstuðningur yfirmatsmanna er ekki svo afdráttarlaus að yfirmatsgerðin verði talin hnekkja niðurstöðum og rökstuðningi í undirmatsgerð þeirra K og L eða öðrum framlögðum matsgerðum.

59       Samkvæmt framansögðu verða þær ályktanir dregnar af matsgerðunum að líklegast sé að það annarlega ástand sem áfrýjandi var í við handtökuna hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist við handtökuna. Matsmennirnir eru hins vegar ekki sammála um hvort og þá hversu líklegt sé að hjarta áfrýjanda hefði stöðvast vegna þessarar frumorsakar enda þótt ekki hefði komið til handtökunnar. Af matsgerð I og J verður ráðið að þau útiloka ekki að handtakan hafi átt þátt í hjartastoppinu en athafnir hans í aðdragandanum, miklar æfingar, lítill svefn og inntaka á Ageli eigi stærri þátt. Matsmaðurinn P taldi líklegt að áfrýjandi hefði verið með heilkenni sem 20 til 30% líkur væru á að drægju menn til dauða. Undirmatsmennirnir K og L töldu ástand áfrýjanda þegar hann var handtekinn líklegustu skýringuna á hjartastoppinu sem þeir töldu að hefði orðið við ásvelgingu þegar áfrýjandi fékk krampa og uppköst. Var niðurstaða þeirra sú að líklegt væri að þessir orsakaþættir hefðu leitt áfrýjanda til dauða ef ekki hefði komið til þess að hann hefði verið handtekinn. Yfirmatsmenn töldu ekki unnt að svara af öryggi spurningum áfrýjanda um líkur þess að hjarta áfrýjanda hefði stöðvast þótt ekki hefði komið til handtökunnar og leysir yfirmatið því ekki úr því álitaefni hvort handtaka áfrýjanda hafi verið nauðsynlegt skilyrði þess að hjarta hans stöðvaðist og hann varð fyrir heilsutjóni.

60       Þótt enginn matsmanna hafi útilokað að atriði sem áttu sér stað við handtökuna og það geðrofsástand sem áfrýjandi var í við handtökuna hafi átt þátt í að hjarta áfrýjanda stöðvaðist verður sú ályktun hvorki dregin af matsgerðunum, framburði matsmanna fyrir dómi né öðrum sönnunargögnum að líklegra sé en ekki að hjarta áfrýjanda hefði ekki stöðvast ef ekki hefði komið til handtökunnar.

61       Sönnunarbyrði um að tiltekin háttsemi þess sem tjónþoli beinir bótakröfu að hafi orsakað tjón hans hvílir að jafnaði á tjónþola þótt í dómaframkvæmd hafi verið slakað á sönnunarbyrði um orsakatengsl eða henni jafnvel snúið við, til dæmis þegar vinnuveitandi hefur ekki hlutast til um rannsókn Vinnueftirlitsins á vinnuslysi og þegar saknæm mistök sérfræðinga þykja sönnuð. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að í máli þessu beri að leggja sönnunarbyrði um orsakatengsl á stefnda þar sem sérstök rannsókn hafi ekki farið fram á því hvernig staðið var að handtökunni.

62       Ekki hefur verið upplýst af hálfu stefnda að sérstök rannsókn hafi farið fram á framkvæmd umræddrar handtöku og verður að ganga út frá því að svo hafi ekki verið. Engu að síður liggja samkvæmt framansögðu fyrir ítarlegar lögregluskýrslur um aðdraganda handtökunnar og hana sjálfa. Framburður fjögurra lögreglumanna sem stóðu að handtökunni, við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, ber þess skýr merki hversu mikið var þá farið að fenna yfir atburði. Vegna hinna alvarlegu afleiðinga af hjartastoppi sem áfrýjandi varð fyrir við handtökuna var fullt tilefni til að rannsaka framkvæmd handtökunnar sérstaklega en ætla má að sú rannsókn hefði getað varpað skýrara ljósi á hana en framburður lögreglumanna fyrir dómi sjö árum síðar.

63       Þótt verulegur vafi sé samkvæmt framansögðu bæði um staðreyndir málsins og ýmis læknisfræðileg atriði þykir áfrýjandi, í ljósi þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir í málinu, ekki hafa sýnt fram á að skilyrði séu til að láta stefnda bera sönnunarbyrðina um orsakatengsl. Þótt rétt sé að taka nokkurt tillit til þess að rannsókn fór ekki fram á atvikinu þegar metið er hvort áfrýjanda hafi lánast sönnun um atriði sem mögulega hefði verið unnt að upplýsa betur með slíkri rannsókn eru ekki efni til þess að slaka verulega á sönnunarkröfum til áfrýjanda um orsakatengsl.

64       Þar sem áfrýjanda hefur samkvæmt framansögðu hvorki lánast sönnun um orsakatengsl milli aðgerða lögreglu við handtöku áfrýjanda og þess heilsutjóns sem hann varð fyrir eða gert nægilega líklegt að slík orsakatengsl séu fyrir hendi eru ekki skilyrði til að fallast á kröfu hans um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á grundvelli 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

65       Þar sem veruleg vafaatriði eru í máli þessu verður málskostnaður fyrir Landsrétti felldur niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 12. febrúar 2019

 

Mál þetta sem höfðað var 23. október 2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 10. nóvember 2017. Stefnandi er A, [...] og stefndi er íslenska ríkið. Aðalmeðferð málsins fór fram sem fyrr segir föstudaginn 10. nóvember 2017 og dómur var kveðinn upp 8. desember sama ár. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem með dómi sínum fimmtudaginn 1. nóvember sl. ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Rökstuðningur réttarins fyrir ómerkingu var einkum eftirfarandi: „Með því að niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð eins og áður greinir, var þar í engu fjallað um hvort orsakatengsl voru á milli líkamstjóns áfrýjanda og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.“ Ákveðin var því ný aðalmeðferð í málinu sem náðist að koma á 15. janúar sl. Skýrsla var þá tekin af vitninu B íbúa í íbúð þeirri þar sem handtaka lögreglu átti sér stað og stefnandi lenti í hjartastoppi, málið síðan flutt í kjölfarið og dómtekið. Aðilar vísa til fyrri framburðar í málinu sem liggur fyrir í útprentun. Kröfugerð og málsástæður eru þær sömu og hafðar voru uppi í málinu fyrir aðalmeðferð þess 10. nóvember 2017, utan þess að stefnandi féll fyrir Hæstarétti sem og nú, frá kröfu um sérstakar bætur að fjárhæð 3.000.000 króna samkvæmt a lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en byggir allt að einu kröfu sína á 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglum XIII. kafla laganna.

 

II.

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda íslenska ríkisins vegna varanlegs líkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir, þegar lögreglan handtók hann þann 11. maí 2010.

Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, líkt og eigi væri um að ræða gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

II.

Þriðjudaginn 11. maí kl. 11:43 var lögregla að boði fjarskiptamiðstöðvar send að [...] vegna, að sögn, átaka sem þar áttu að eiga sér stað. Þá kom fljótlega önnur tilkynning um að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð.

Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá.

Þegar þangað var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...].

Knúði lögregla þar dyra og hitti húsráðanda. Tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði komið hlaupandi, hálfnakinn og barið á stofugluggann hjá sér og síðan á útidyrnar. Við það hafi makast einhvers konar sósa á rúðurnar, en húsráðanda virtist maðurinn blóðugur.

Kvaðst hann hafa boðið stefnanda að fara í sturtu og þvo sér. Meðan stefnandi var í sturtunni hafi hann heyrt hann öskra og láta einkennilega.

Lögreglumenn kveða að þegar þeir hafi komið inn og farið að sturtunni hafi þeir séð að stefnandi öskraði og lét mjög sérkennilega í kaldri sturtunni. Hann hafi barið í veggi og kúgast. Lögreglumennirnir hafi reynt að ræða við stefnanda en hann hafi ekki veitt þeim neina athygli.

Þá var skrúfað fyrir sturtuna og á ný reynt að ræða við stefnanda en hann hafi þá orðið mjög æstur svo að færa þurfti hann í handjárn og jafnframt var hann lagður á gólfið. Einnig töldu lögreglumennirnir nauðsynlegt að fjötra (bensla) fætur hans því hann sparkaði ítrekað til lögreglumannanna. Var tekin ákvörðun um að fá sjúkrabifreið á vettvang til að kanna með ástand stefnanda.

Skömmu síðar byrjaði stefnandi að fá krampa og kasta upp. Færði lögreglumaður hann í hliðarstöðu og losaði handjárn og um fætur. Skömmu síðar hætti stefnandi að anda og hóf lögregla þá strax endurlífgunartilraunir.

Sjúkrabifreið kom mjög fljótt á vettvang og tóku þá sjúkraflutningamenn við endurlífgunartilraunum.

Eftir um 20-25 mínútur greindist púls á stefnanda og var hann þá fluttur í forgangi á Landspítalann við Hringbraut.

Þeir munir sem stefnandi hafði kastað fram af svölum við [...] voru ónýtir eftir fallið. Þar á meðal var flatskjár, útvarpstæki, glerplata af stofuborði, sturtuhengi og fleira. Lentu munirnir á palli á neðstu hæð blokkarinnar og á grasi þar við.

Samkvæmt vitni sem kom fyrir lögreglu hafði verið reynt að fá stefnanda til að hætta að henda niður hlutum en stefnandi hafi þá komið niður og ógnað nágranna með golfkylfu.

Samkvæmt upplýsingum frá móður stefnanda hafði hann kvöldinu áður verið ásamt systur sinni í mat hjá henni. Hvorug þeirra hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari hans, en þetta staðfesti móðirin fyrir dómi. Þá er upplýst að eftir mat hafi stefnandi farið til C, vinar síns. Samkvæmt skýrslu C hjá lögreglu, sem tekin var sama dag og handtakan átti sér stað, kvað C stefnanda hafi komið kvöldið áður og verið fram á nótt. Hann hafi í stuttu máli verði gjósandi eins og vitnið orðaði það; verið ör og hreinskilinn. C hafi sofnað og þegar hann hafi vaknað um morguninn hafi stefnandi verið farinn. Upp úr hádegi hringdi téður C í Q vin sinn, til að forvitnast um stefnanda.

Þennan sama dag var einnig tekin skýrsla af E, íbúa í íbúð [...], [...]. Kvaðst E allt í einu hafa heyrt dynk og þá séð að ruslapoki, sem hafði verið hent niður, hafði splundrast. Sá hann að opinn gluggi var á 4. hæð hússins, en spáði ekki frekar í það. Eftir þetta hafi verið hent niður gardínustöngum, plasmasjónvarpi, hátölurum og fleiru. Fór E upp á fjórðu hæð og bankaði á dyr íbúðarinnar, sem hann taldi að hlutirnir hafi komið úr. Þar svaraði enginn. Hafi hann svo gengið niður á planið og hitt stefnanda þar, sem hann kvað hafa verið beran að ofan í annarlegu ástandi. Mun stefnandi hafa náð í golfkylfu inn í bíl og sagt að mikið væri að. Allt væri að fara til fjandans, en bað E að hringja ekki í lögreglu. Kvað hann stefnanda hafa farið út á grasflöt og byrjað að rífa í sundur bréf með Ageli og kreista þau yfir sig. Hringdi E þá í lögregluna. Þegar stefnandi heyrði í sírenum mun hann hafa hlaupið í burtu og benti E lögreglunni þangað sem stefnandi hljóp.

F, íbúi á 1. hæð að [...], kveðst hafa séð hálfa búslóð á pallinum hjá sér. Kvaðst hún hafa séð stefnanda og fannst henni hann „út úr dópaður“. Kvað hún stefnanda hafa haldið á plastbréfum með hvítum vökva í og hafi sagt, að hann yrði að sprauta úr þessu hér. Kvað hún stefnanda hafa farið í skottið á bílnum sínum, hellt í sig einhverjum vökva og náð í golfkylfu. Bað stefnandi hana um að fá lánaðan gsm-síma en afþakkað þegar hún bauð honum heimasíma. Eftir það kvað hún hann hafa tekið á rás að leikskóla hinum megin við götuna.

Í dagbókarfærslu lögreglunnar er skráð að þegar lögreglan kom á staðinn hafi tilkynnandi beint þeim að [...]kirkjunni við [...] og skýrt frá því að nakinn maður, vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í þá átt. Hafi allt verið á öðrum endanum í íbúð stefnanda, talsvert af peningum, ætluð kannabisefni og plöntur lágu á gólfinu. Síðar hafi lögreglan kallað eftir aðstoð en þá var búið að staðsetja stefnanda í íbúð að [...]. Þegar þangað var komið tók húsráðandi, B, á móti þeim.

Í skýrslutöku af B, dagsettri 3. desember 2013, kvaðst hann hafa verið heima hjá sér þennan dag, 11. maí 2010, þegar hann sér mann hlaupa fram hjá glugganum. Kvað hann stefnanda hafa verið nakinn og farið að maka geli á rúðuna. Kvaðst B hafa kallað á stefnanda og spurt hvort ekki væri allt í lagi og hvort hann þyrfti aðstoð. B sagðist hafa boðið stefnanda að fara í sturtu. Kvaðst B hafa sagt stefnanda að drífa sig í sturtu og hafi þá tekið eftir því að stefnandi var búinn að læsa útihurðinni. Þegar stefnandi var í sturtunni hafi tveir lögreglumenn bankað á gluggann. Opnaði B fyrir þeim og spurðu lögreglumennirnir tveir hvort hann hefði séð „strípaling á vappi“. B svaraði því játandi og kvað stefnanda vera í sturtu hjá sér. Kvaðst hann ekki þekkja stefnanda en tók það fram að hann teldi sér ekki stafa hætta af honum. Hafi stefnandi greinilega verið í miklu andlegu uppnámi og kallað eitthvað úr sturtunni, en B kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Sagðist B síðan hafa séð inn um dyragættina, eftir að lögreglumennirnir voru búnir að opna lásinn til að komast inn á baðherbergið, þar sem stefnandi hafi verið í sturtu. Lögreglan hafi farið inn og tekið á manninum. B kvaðst ekki hafa séð átök í sturtuherberginu en heyrt lætin. B sagðist hafa séð stefnanda í handjárnum, liggjandi á gólfinu og lögreglumann með hnéð í bakið á honum að handjárna hann. Kvaðst B hafa séð stefnanda þegar hann féll í gólfið og það hafi verið eins og hann lyppaðist niður „eins og kerfið í honum hafi slökkt á sér“. Hafi stefnandi ekki hreyft sig og hafi B því beðið lögreglumennina um að hnoða stefnanda. Kvað hann lögregluna á sama tíma hafa áttað sig á að maðurinn barðist ekki lengur á móti. Hafi B þá farið að útidyrunum, séð sjúkrabíl og veifað honum að koma. Sjúkraflutningamenn hafi þá komið inn með sín tæki og tól. Kvað hann lögregluna þá hafa ætlað að draga stefnanda fram á gang, tekið hann upp en stefnandi hafi verið háll viðkomu og þegar þeir hafi verið með hann í um lærahæð hafi þeir misst takið og við það hafi stefnandi skollið í gólfið. B sagði manninn þegar hafa verið meðvitundarlausan þegar þetta gerðist en hnakki hans hafi skollið á flísarnar á gólfinu.

Í dagbókarfærslu lögreglunnar kemur fram að lögreglumennirnir hafi ávarpað stefnanda er hann var í sturtu. Stefnandi hafi að því er virtist ekkert heyrt, þ.e. engin viðbrögð komu frá honum. Ákváðu lögreglumennirnir þá að ná stefnanda úr sturtunni en um leið og þeir gripu í hendur hans hafi hann veitt mótspyrnu. Hafi þeir þá fært stefnanda í lögreglutök, handjárnað hann og lagt hann á gólfið. Hafi lögreglumennirnir þar að auki orðið að binda fætur hans þar sem hann sparkaði í allar áttir. Fram kemur, að á þessum tíma hafi þeir beðið um að fá senda sjúkrabifreið. Í dagbókarfærslunni er öndunarstopp skráð kl. 12:20 og þess getið að sjúkrabifreið hafi komið nánast samstundis.

B staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 30. september 2015, en þar lýsti B því að stefnandi hefði verið örvinglaður og viti sínu fjær er hann kom á heimili hans. Hann tók þó fram að engin hætta hefði stafað af stefnanda og hann hafi ákveðið að reyna að róa hann niður.

Við komu á LSH var stefnandi meðvitundarlaus, með barkarrennu og kominn með gáttatif. Var hann svæfður fljótlega eftir komu og fluttur á gjörgæsludeild til kælingar. Í innlagnarnótu á gjörgæsludeild er lýst rispum á öxlum og kvið. Farið var með stefnanda í tölvusneiðmynd af höfði, sem sýndi ekki blæðingu eða önnur áverkamerki. Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi ekki merki um brot. Á tölvusneiðmynd af brjóstkassa sáust dreifðar þéttingar, mest í hægra lunga sem vöktu grun um byrjandi lungnabólgu en hvorki sáust merki um rifbrot né loftbrjóst. Á tölvusneiðmynd var að sjá mikla þenslu í maga en ekkert annað athugavert. Við komu á spítalann var þvag einnig sent í lyfjaleit, m.a. fyrir amfetamíni, kókaíni, kannabis, E-töflum o.fl. og reyndist það allt vera neikvætt. Var stefnandi með mikla truflun á sýrubasa jafnvægi og metabolískt súr, sem leiðréttist smám saman með lyfjagjöf og öndunarmeðferð. Var stefnandi einnig með mikla hækkun á vöðvaensímum, CK og var myoglobín einnig mjög hækkað, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Var stefnanda haldið sofandi í öndunarvél og kældur til að draga úr heilaskaða eftir hjartastoppið.

Stefnandi var tekinn úr öndunarvél hinn 16. maí 2011, sem gekk vel. Hinn 17. maí 2011, skoðaði R taugalæknir stefnanda og benti taugaskoðun til útbreidds heilaskaða af völdum súrefnisskorts. Hinn 18. maí 2011 vaknaði stefnandi og virtist vita eitthvað af umhverfi sínu. Þennan dag var hann útskrifaður af gjörgæsludeild á hjartadeild. Þegar ástand hans var á endanum talið stöðugt var stefnandi fluttur til frekari endurhæfingar á Grensásdeild Landspítalans, 16. júní 2011.

Í læknisvottorði V, sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, dagsettu 6. maí 2012, gaf læknirinn álit sitt á mögulegum orsökum þess að stefnandi hefði farið í hjartastopp 11. maí 2010. Annaðist téður læknir stefnanda eftir komu á sjúkrahús. Taldi V orsök hjartastoppsins mjög sennilega tengda handtökunni. Mögulegar orsakir taldi hann helst vera tvær: Í fyrsta lagi væri vel þekkt að einstaklingar í annarlegu ástandi, sem eru beittir valdi og sem berjast á móti, geti farið í hjartastopp. Fari öll starfsemi einstaklingsins á fullt, sem valdi miklu álagi á hjartað og orsaki hjartsláttatruflanir. Taldi læknirinn mjög há gildi vöðvaensíma hjá stefnanda styðja að hann hefði reynt mjög á sig í átökum við lögregluna. Í öðru lagi gæti högg á brjóst valdið hjartastoppi. Var stefnandi í sturtu og þar af leiðandi blautur og sleipur. Lögreglumennirnir hafi hæglega getað misst hann í gólfið, eins og lýst væri af vitni.

Þáverandi lögmaður stefnanda fór þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar og orsök tjónsatburðarins. Dómkvödd voru þau I hjartalæknir og J hrl.

Um orsakatengsl á milli valdbeitingar lögreglunnar gegn stefnanda í umrætt sinn og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir kemur fram í matsgerðinni að stefnandi hafði fyrir tjónsatburðinn neytt töluverðs magns af orkugeli. Þá komi fram í sjúkraskrá Landspítala að aðstandendum hafi þótt stefnandi vera mjög ör í tvær vikur fyrir tjónsatburð. Þá kemur fram að flestar auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja tengist háu koffíninnihaldi þeirra og auk þess eru oft í þeim önnur efni sem einnig innihalda koffín. Á síðustu árum hafi tilfellum koffíneitrana vegna neyslu orkudrykkja fjölgað og lýst hafi verið dauðsföllum hjá einstaklingum, sem ekki hafi haft merki um hjartasjúkdóm sem talin eru tengjast eitrunaráhrifum þeirra. Koffíneitrun geti leitt til geðrofs og hjartsláttartruflana, sem geti verið lífshættulegar og í sjaldgæfum tilfellum leitt til dauða.

Töldu matsmenn ofneyslu orkugels/orkudrykkja fyrir tjónsatburð vera líklega skýringu á geðrofseinkennum, sem stefnandi sýndi í aðdraganda tjónsatburðarins, daginn sem atburðurinn gerðist og gæti hún einnig hafa verið meðvirkandi í hjartastoppinu sem hann lenti í. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að við komu á spítalann hafi stefnandi verið með miklar truflanir á sýru-basa jafnvægi, en sýrustig í blóði mældist mjög lágt. Væri útilokað að stefnandi hefði lifað með svo lágt sýrustig, nema að hafa fengið einhvern tíma til aðlögunar, sem þýddi að líklegast væri um að ræða tveggja til þriggja daga ástand áður en hann fór hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengdist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður. Þá hafi stefnandi við komu á spítalann verið með verulega hækkun á vöðvaensímum, CK og myoglobíni, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Ekki voru merki um skaða á hjartavöðva. Umrædd hækkun hafi getað leitt til nýrnabilunar og verið meðvirkandi í hjartastoppi. Það sé þekkt að einstaklingar sem eru í annarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Það sé hins vegar afar ósennilegt að sú mikla hækkun sem var á vöðvaensímum hjá stefnanda tengist eingöngu handtökunni. Þó að hún eigi einhvern þátt í hækkun vöðvaensíma er líklegra að þessi mikla hækkun tengist að mestu leyti miklum æfingum í aðdraganda tjónsatburðar.

Þá voru matsmenn ekki sammála þeirri niðurstöðu V læknis að hugsanleg skýring hjartastoppsins væri sú að lögreglumenn hafi misst stefnanda í gólfið. Ástæða þess sé fyrst og fremst sú að í skýrslu B vitnis komi greinilega fram að þegar lögreglumennirnir misstu stefnanda í gólfið hafi hann verið meðvitundarlaus, auk þess sem því sé lýst að hann hafi skollið á hnakkann en ekki á brjóstið.

Með vísan til þessa töldu matsmenn ekki vera orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gegn stefnanda og þess líkamstjón sem hann varð fyrir.

Töldu matsmenn líklegustu orsök líkamstjónsins vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta mætti að mati matsmanna tengja við ofneyslu stefnanda á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar.

Var stefnandi metinn til algjörs varanlegs miska, þ.e. 100 stiga og 100% varanlegrar örorku. Tímabundið atvinnutjón var 100% frá tjónsatburði fram að áætluðum stöðuleikatímapunkti. Þjáningatímabil og tímabil tímabundins atvinnutjóns taldist það sama, þar af taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 11. maí 2010 til 29. september 2010.

Samkvæmt beiðni stefnanda voru þann 22. janúar 2016 dómkvaddir sem matsmenn í málinu þeir K geð- og embættislæknir L lyf- og hjartalæknir. Matsgerð lá fyrir 11. júní það ár. Matsmenn töldu að miðað við lýsingar á atburðinum mætti jafnvel líta á aðgerðir lögreglu sem björgunaraðgerð fremur en að þær hafi valdið hjartstoppi, enda hefði stefnandi allt eins getað fengið hjartastopp þótt lögreglan hefði ekki haft afskipti af honum. Niðurstaða matsmanna var því sú að þeir töldu valdbeitingu lögreglu ekki geta verið einn af orsakavöldum þess að stefnandi fór í hjartastopp. Þá töldu matsmenn ekki að efnið Agel sem talið var að stefnandi hefði neitt í óhóflegu magni fyrir atvikið gæti orsakað hjartastopp en þó með fyrirvara um að það væri hugsanlegt ef þess væri neytt í mjög miklu magni. Þá töldu matsmenn líkur á hjartastoppi auknar vegna aðgerða lögreglu sökum ástands stefnanda fyrir handtökuna. Að lokum töldu matsmenn líkur fyrir því að stefnandi hefði farið í hjartastopp þótt ekki hefði komið til aðgerða lögreglu.

Stefnandi var ósáttur við matið og óskaði yfirmats. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 28. október 2016, þau, M lyf- og hjartalæknir, O taugalæknir og N geðlæknir. Yfirmatsgerð var gefin út 1. mars 2017. Matsmenn töldu aukna hættu á hjartastoppi við þær aðstæður þegar nauðsynlegt væri að beita valdi og töldu því líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í að valda hjartastoppinu en aðrir þættir gætu verið meðvirkandi. Um fæðubótaefnið Agel töldu matsmenn ekki forsendur til að ætla að það gæti valdið hjartastoppi. Þá töldu matsmenn í þriðja lagi útilokað að svara því játandi eða neitandi hvort stefnandi hefði farið í hjartstopp ef ekki hefði komið til valdbeitingar lögreglu. Á sama veg svöruðu matsmenn spurningunni ef stefnandi hefði fengið að klára sturtuna óáreittur. Niðurstaða matsmanna var sú að það yrði að teljast líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram að matsmenn töldu meira en helmingslíkur á þessu.

Við upphaf aðalmeðferðar var lögð fram geðrannsókn P geðlæknis frá 25. september 2017 en hana framkvæmdi læknirinn vegna annars dómsmáls nr. E-161/2016 sem stefnandi höfðaði gegn Verði tryggingum hf. vegna atviksins. Læknirinn var dómkvaddur til verksins 29. júní 2017. Um hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda hafi verið ósjálfráð við handtökuna segir læknirinn það sitt álit að stefnandi hafi verið haldinn geðrofi og síðan miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda við handtökuna. Því hafi öll viðbrögð hans verið algjörlega ósjálfráð. Þá taldi læknirinn að stefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.

Undir- og yfirmatsmenn gáfu allir skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu H, fyrrum lögreglumaður og lögreglumennirnir G, S og T. P geðlæknir kom fyrir dóm og V hjartalæknir gaf símaskýrslu. Að endingu var tekin skýrsla af móður stefnanda.

IV.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna ólögmætrar og harkalegrar handtöku (valdbeitingar) lögreglunnar. Byggir stefnandi á að orsök hjartastoppsins hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar aðgerðir lögreglunnar. Því sé íslenska ríkið bótaskylt vegna líkamstjónsins. Byggir stefnandi kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, auk 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála en sú bótaregla sé hlutlæg. Hafi stefnandi ekki stuðlað sjálfur að þessum harkalegu aðgerðum lögreglunnar, nema þá með litlu mótvægi og ósjálfráðum viðbrögðum, sem hafi verið eðlileg miðað við aðstæður. Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg byggir stefnandi á því, með vísan til sömu lagagreinar og hinnar almennu skaðabótareglu, að lögreglan beri ábyrgð vegna sakar þeirra starfsmanna sinna er að handtökunni stóðu.

Fyrir það fyrsta byggir stefnandi á að handtaka lögreglunnar í umrætt sinn hafi verið ólögmæt, þar sem ekki verði séð að heimild hafi verið til hennar með vísan til 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ósannað sé að rökstuddur grunur hafi verið um að stefnandi hafi framið brot í umrætt sinn sem sætt getur ákæru, enda hafi hann aldrei verið ákærður í framhaldinu. Þá verði ekki heldur séð að handtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, enda hafi stefnandi verið í boði húsráðanda á heimili hans í sturtu, eða til að tryggja návist hans eða öryggi eða öryggi annarra.

Þá byggir stefnandi á að lögreglunni hafi þar að auki verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergið og rífa stefnanda úr sturtunni án dómsúrskurðar eða sérstaks samþykkis stefnanda. Þá telur stefnandi þar að auki augljóst að ekki hafi verið um samfellda eftirför í húsið að ræða sem réttlætt geti það að baðherbergið hafi verið opnað án dómsúrskurðar eða samþykkis stefnanda.

Enn fremur byggir stefnandi á að lögreglan hafi ekki í umrætt sinn gætt meðalhófs við handtökuna. Ljóst sé að lögreglu hafi verið unnt að beita mun vægari úrræðum við handtökuna. Meðalhófsreglan sé bæði skráð og óskráð meginregla í íslenskum lögreglurétti og talin þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Reglan fái og stoð í stjórnsýslulögum, lögum nr. 88/2008, mannréttindasáttmála Evrópu og 68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi vísar og til 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og greinargerðar með lögunum.

Þótt handhöfum lögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna megi þeir þó aldrei ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 14. gr. lögrl.

Stefnandi bendir á að þegar lögreglumenn komu að húsnæði B hafi téður B sagt lögreglu að engin hætta stafaði af stefnanda. Þá hafi legið fyrirá þessum tímapunkti að stefnandi hafi verið óvopnaður. Þar af leiðandi hafi engin þörf verið á þeim harkalegu úrræðum sem lögreglan beitti í umrætt sinn og sem

urðu þess valdandi að stefnandi fór í hjartastopp.

Þá hafi lögreglunni verið í lófa lagið að leyfa stefnanda að klára sturtuna og reyna að róa hann niður áður en hann væri handtekinn. Hefði þess háttar meðalhófs verið gætt sé ljóst, að mati stefnanda, að hann hefði ekki farið í hjartastopp

Stefnandi byggir á því, með hliðsjón af þeim hátternisreglum og verklagsreglum lögreglu, þeirri kunnáttu sem lögreglumenn eigi að búa yfir, og þar af leiðandi á grundvelli reglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, að stefndi beri sönnunarbyrði um að líkamstjón stefnanda sé ekki á ábyrgð lögreglunnar. Alla vega eigi þessar reglur að létta sönnunarbyrði stefnanda. Í því sambandi verði stefndi að sýna fram á hvað réttlæti þá handtöku sem stefnandi varð fyrir og hver hafi verið raunveruleg ástæða handtökunnar.

Varðandi orsakatengsl milli handtöku lögreglunnar og hjartastoppsins byggir stefnandi á því að orsök þess að hann hafi farið í hjartastopp sé að öllum líkindum tengd handtökunni, líkt og V, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, telji samkvæmt vottorði sínu. Þar telji læknirinn mögulegar og líklegar orsakir vera af tvennum toga. Í fyrsta lagi, að sú valdbeiting sem lögreglan hafi beitt stefnanda í því ástandi sem hann var hafi verið þess valdandi að stefnandi hafi farið í hjartastopp. Í öðru lagi, að höggið þegar lögreglumenn hafi misst stefnanda á gólfið, hafi leitt til hjartastoppsins. Sé hjartastoppið sennileg afleiðing þessara tveggja hugsanlegra orsaka.

Telur stefnandi í þessu samhengi að ekki sé tækt að byggja á niðurstöðu undirmats en þar gefi matsmenn sé ákveðnar fyrir fram gefnar forsendur, sem við nánari athugun standist ekki endilega nánari skoðun. Hann vísar hins vegar yfirmats sem hann telur að byggja beri á um orsakatengsl í málinu.

Fjallað sé í undirmati almennt um auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja, án þess að nokkurn tímann hafi farið fram rannsókn eða skoðun á sjálfu gelinu sem stefnandi tók inn daginn sem hann var handtekinn. Af lestri matsgerðarinnar megi ráða að það virðist skipta meginmáli í niðurstöðu matsmanna að stefnandi hafi innbyrt mikið magn af koffíndrykkjum. Umrætt Agel hafi aldrei verið rannsakað af matsmönnum Byggir stefnandi á að þannig sé ómögulegt og óvísindalegt að gefa sér þær forsendur að gelið hafi valdið eða átt þátt í því að valda hjartastoppinu. Það sé til dæmis engan veginn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir koffíneitrun.

Þá telur stefnandi það furðulegt að vottorði V sé alfarið hafnað, m.a. með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið, er lögreglumennirnir misstu hann, en ekki á brjóstið. Byggir stefnandi á að þrátt fyrir að hann hafi fallið með hnakkann í fyrstu viðkomu við gólfið hafi hann einnig orðið fyrir átökum við handtökuna sem eins líklegt sé að hafi orsakað hjartastoppið. Allavega sé ótækt að útiloka það einungis með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið.

Telur stefnandi í því ljósi að undirmatsgerð svari ekki með fullnægjandi hætti hvort handtakan sem slík hafi verið aðalorsakavaldur eða meðorsök þess að stefnandi fór í hjartastopp. Byggir stefnandi á að til þess að orsakatengsl teljist vera fyrir hendi í skaðabótarétti sé nægilegt að orsakasamband sé til staðar þótt ekki sé um að ræða meginorsök. Að þessu hafi ekki verið gætt við vinnslu matsgerðarinnar.

Byggir stefnandi á að hin harkalega og óþarfa handtaka (valdbeiting) sem viðhöfð hafi verið af lögreglunni í umrætt sinn hafi verið meðvirkandi þáttur í að stefnandi fór í hjartastopp með fyrrnefndum afleiðingum. Hið meinta geðrofsástand hans þennan dag geti ekki talist nægjanlegur orsakavaldur eitt og sér.

Ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda. Telur stefnandi því að lögmæt skilyrði hafi brostið til þessara aðgerða, ekki hafi verið tilefni til þeirra af hálfu lögreglu og þær verið framkvæmdar á óþarfalega hættulegan, særandi og móðgandi hátt. Hafi hin harkalega og óþarfa handtaka að endingu leitt til mikils tjóns fyrir stefnanda eins og komið er að hér að ofan. Eigi stefnandi því rétt til bóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við sakarregluna, meginreglur um vinnuveitanda­ábyrgð og sakamálalög nr. 88/2008. Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, svo sem regluna um vinnuveitendaábyrgð. Byggir stefnandi jafnframt kröfu sína á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og stjórnskipunarréttarins og á lögreglulögum, en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum og réttarreglum sem þegar hafi verið nefndar, sem og reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð og sennilega afleiðingu og á skilyrðiskenningunni. Hvað málskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Stefndi bendir á vegna kröfu stefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að í fjölda dóma Hæstaréttar hafi tilvitnað ákvæði verið skýrt með þeim hætti að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess við hið ætlaða skaðaverk.

Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi fékk dómkvadda tvo matsmenn sem skiluðu matsgerð 10. september 2014. Óskað var m.a. eftir mati á því hvort orsakatengsl væru til staðar á milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Á bls.18 í undirmatsgerð sé gerður reki að því að svara ofangreindri spurningu. Sé niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna á þann veg að ekki séu orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Stefnandi geri reyndar grein fyrir þessari niðurstöðu í stefnu en telji ekki tækt að byggja á niðurstöðu matsgerðarinnar. Matið hafi engu að síður verið unnið af tveimur óvilhöllum aðilum.

Í matsgerð sé reifað ástand stefnanda dagana fyrir tjónsatburð. Komi þar m.a. fram að stefnandi hafði ekki sofið í um fimm sólarhringa og farið í líkamsrækt u.þ.b. þrisvar sinnum á dag. 

Einnig hafi hann verið hálf manískur og talað um fátt annað en orkugelið sem hann ætlaði að hefja innflutning á.

Taki matsmenn undir álit U, yfirlæknis á gjörgæsludeild þar sem fram komi að það væri útilokað að stefnandi hefði lifað með eins lágt sýrustig og mældist í honum nema að líkaminn hefði fengið einhvern tíma til aðlögunar.

Að mati U sé líklegast að þarna hafi verið um að ræða tveggja eða þriggja daga ástand áður en stefnandi hafi farið í hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður.

Eins og áður segir hafi niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna verið sú að ekki væru orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu og líkamstjóns. Byggi það m.a. á vitnisburði húsráðanda um að stefnandi hafi þegar verið meðvitundarlaus áður en hann skall í gólfið og auk þess hafi hann skollið á hnakkann en ekki brjóstið eins og V læknir taldi að gæti verið hugsanleg skýring.

Niðurstaða dómkvaddra undirmatsmanna geri það að verkum að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu fullnægi ekki þeim kröfum sem 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri til slíkra krafna um viðurkenningu.

Stefndi bendi á að samkvæmt gögnum málsins séu ekki tengsl milli tjóns og atvika máls og beri því í samræmi við fjölmörg dómafordæmi að vísa þessari kröfu frá dómi sjálfkrafa (ex officio) nema dómurinn komist að annarri niðurstöðu en hinir dómkvöddu matsmenn sbr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi bendir á að þegar atburðir gerðust hafi stefnandi legið undir grun um eignaspjöll og fíkniefnalagabrot.

Hafði stefnandi einnig lagt nágranna sína í stórhættu með því að henda þungum hlutum fram af svölum og það hafi ekki verið honum að þakka að enginn varð fyrir þeim hlutum. Var þetta leiksvæði barna og útiverusvæði. Stefnandi hafi hlaupið um nakinn að því er virtist blóðugur og vopnaður golfkylfu. Hann hafi fundist í húsi þar sem hann átti ekki erindi og var ástand hans með þeim hætti að tryggja þurfti návist hans og öryggi.

Með þessu framferði hafi stefndi valdið eða a.m.k. stuðlað að þeim aðgerðum sem hann nú reisir kröfur sínar á, sbr. 2. og 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt undirmati hafi stefnandi sjálfur komið sér í það ástand sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem orðin er.

Handtakan hafi ekki verið ólögmæt og ekki um að ræða óþarflega harkalegar aðgerðir samkvæmt þeim skýrslum sem liggi fyrir. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 komi fram skilyrði fyrir handtöku en þar segi m.a. að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot o.s.frv.

Í þessu máli hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ýmis brot og þótt ekki hafi verið ákært breyti það því ekki að ákvörðun um að handtaka stefnanda hafi verið rétt og uppfyllt skilyrði laganna. Ástæða þess að ákæra hafi ekki verið gefin út sé sú að heilsufarsástand stefnanda eftir þessa atburði hafi ekki gefið tilefni til að ákæra og ná fram sakfellingu.

Varðandi röksemdir stefnanda um að lögreglu hafi verið óheimilt að fara inn og sækja hann í sturtu bendir stefndi á að húsráðandi hafi ekki gert neina athugasemd við lögreglu eftir atburðinn né heldur hafi hann varnað lögreglu inngöngu.

Eins og húsráðandi lýsti atburðum eftir á hafi hann sagt stefnanda hafa öskrað og látið einkennilega í sturtunni. Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að húsráðandi hafi verið því alfarið mótfallinn að lögregla færi inn á heimili hans.

Auk þess eigi hér við ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008.

Full ástæða hafi verið fyrir lögreglu, miðað við upplýsingar vitna og aðstæður í [...], að hafa áhyggjur af og elta stefnanda. Hafi upplýsingar gefið tilefni til að ætla að hann gæti verið sjálfum sér og öðrum hættulegur og við þær aðstæður hafi hann verið eltur og handtekinn.

Varðandi meðalhóf þá hafi þess verið gætt við handtökuna og miðað við þá aðstöðu sem var til staðar.

Þá liggi það fyrir samkvæmt gögnum málsins að stefnandi hafi misst meðvitund vegna eigin neyslu og skorts á svefni og það síðan leitt til hjartastopps eins og segi á bls. 19 í undirmati.

Þannig sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til að lögregla hafi gengið lengra en ástæða var til eða brotið gegn meðalhófsreglu.

Tilvísun stefnanda til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er hafnað enda eigi skilyrði þeirrar greinar ekki við hér. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi af hálfu lögreglu í þeirri atburðarás sem þarna varð.

Eins og fram sé komið hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda og lögregla taldi lögmæt skilyrði til staðar til að handtaka hann. Aðgerðin hafi ekki verið harkalegri en ástæða var til en stefnandi hafi barist kröftuglega á móti eins og fram komi í gögnum málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Það ákvæði eigi við í þessu máli.

Þar sem stefnandi málsins hafi komið sér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu beri hann sjálfur ábyrgð á því sem gerðist.

Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllu sem bótakröfu hans viðkemur m.a. um sök, ólögmæti, orsakasamband og sennilega afleiðingu. Stefndi byggi á því að ekki séu til staðar skilyrði til að dæma bætur í máli þessu.

Tilvísun stefnanda til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og rökstuðningi er vísað á bug.

Að öðru leyti er vísað til málsástæðna og lagaraka varðandi aðalkröfu stefnda. Stefnandi vísar um málskostnað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

VI.

Í fyrri dómi var fjallað um að stefndi reifaði í greinargerð sinni til dómsins þá sjónarmið sem hann taldi að leiða ættu til frávísunar málsins sjálfkrafa (ex officio) sökum þess að stefnandi hefði ekki sannað orsakatengsl á milli aðgerða lögreglu og þess ástands sem stefnandi búi við í dag. Því hafi ekki tekist sönnun um að stefnandi hafi, vegna ætlaðs skaðaverks, orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að höfða viðurkenningarmál. Rétt er að í undirmati og öðru mati til var ekki talið að valdbeiting lögreglu hefði átt þátt í hjartastoppi hjá stefnanda. Í yfirmati kom hins vegar fram að matsmenn töldu líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram hjá öllum yfirmatsmönnum að með þessu væri átti við meiri líkur en 50%. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að stefnandi er metinn til 100% varanlegrar örorku og 100 stiga miska vegna þessa atviks verður að telja að stefnandi eigi rétt á því að um kröfu hans verði fjallað efnislega og skilyrðum 2. mgr. 25. gr. sé því fullnægt. Í umfjöllun dómsins um þetta atriði þ.e. um hvort nægjanlegar líkur væru fyrir orsakatengslum þannig að skilyrðum ákvæðisins um viðurkenningarkröfu væri fullnægt var engu hins vegar slegið föstu um að slík orsakatengsl hafi verið til staðar sbr. sérstaka umfjöllun um það atriði í niðurlagi fyrri úrlausnar.

Ekki er, þannig að skipti máli, gerður ágreiningur um aðdraganda þess að lögregla kom umrætt sinn að [...]. Tilkynning hafði borist um átök og að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá og haft í hótunum við nærstadda. Þegar að [...] var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...]. Stefnandi heldur því reyndar fram að ósannað sé með öllu að hann hafi valdið spjöllum á íbúðinni.

Framburður lögreglumanna sem á staðinn komu er einróma um að húsráðandi í íbúðinni sem stefnandi hafði farið inn í hafi á engan hátt sett sig á móti því að lögregla kæmi inn og verður ekki heldur annað ráðið af framburði hans sjálfs fyrir dómi 30. september 2015. Eins og atvikum hefur verið lýst verður að líta svo á að ekkert bendi til þess að lögregla hefði þurft að afla sér húsleitarheimildar í umrætt sinn og hefur þetta atriði enga þýðingu við úrlausn málsins.

Framburður lögreglumanna fyrir dómi um ástandið á stefnanda þegar lögregla kom að honum er ekki með öllu samhljóða enda gerðust atburðir næstum sjö og hálfu ári fyrr en framburður var gefinn fyrir dómi. Um hitt voru lögreglumenn sammála, að þegar reynt var að tjónka við stefnanda og handtaka hann lét stefnandi öllum illum látum. Eitt vitnanna sagði að hann hefði verið viti sínu fjær, annað að hann hefði fengið æðiskast, þriðja vitnið lýsti því svo að hann hefði verið kolvitlaus, streist á móti og verið í sturlunarástandi, fjórði lögreglumaðurinn sagði stefnanda hafa öskrað óstjórnlega og hafi hann verið í öðrum heimi. Allir voru lögreglumennirnir sammála um að nauðsynlegt hefði verið að handtaka stefnanda við þær aðstæður sem höfðu skapast en þeir hefðu ekki náð neinu sambandi við stefnanda sökum ástands hans. Þá kom fram að aðstæður hefðu verið nokkuð hættulegar og nauðsynlegt að forða stefnanda frá því að skaða sjálfan sig miðað við aðstæður á baðherberginu og ástand stefnanda. Lögregla taldi fullljóst að handtaka færi fram ef sömu aðstæður sköpuðust að nýju. 

Ekkert er heldur komið fram í málinu um að handtakan hafi verið óþarflega harðneskjuleg en lögreglumaður sem fylgdist með álengdar taldi hana hafa verið fumlausa og gengið hratt fyrir sig. Framburður húsráðanda um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda fær ekki stuðning í öðrum gögnum málsins og jafnvel þótt um slíkt hefði verið að ræða þá verður því ekki slegið föstu að það hefði verið eitthvert úrslitaatriði um það sem á eftir kom, auk þess sem að til sanns vegar mætti þá og færa að nauðsynlegt hefði verið að beita slíkum tökum á stefnanda miðað við ástand hans.

Hið sama gildir um þann framburð húsráðanda að stefnandi hafi skollið með hnakkann í gólfið þegar lögreglumennirnir hafi misst hann. Þeir fjórir lögreglumenn sem komu fyrir dóminn staðhæfðu að þetta hefði ekki gerst og til þess er að líta þegar framburður húsráðanda er metinn að aðstæður voru mjög þröngar inni á baðinu og jafnframt nokkur þröng á þingi þegar handtakan átti sér stað en samkvæmt lögregluskýrslu verður ekki betur séð en að sex lögreglumenn hafi verið viðstaddir handtöku stefnanda. Sama gildir hér og um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda að ekki liggur fyrir nein sönnun um það í málinu að svona fall hafi getað valdið hjartastoppinu. V hjartalæknir taldi hins vegar í vottorði að högg á brjóst gæti valdið hjartastoppi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla að ef litið yrði, þrátt fyrir framangreint, svo á að lögregla hefði misst stefnanda á gólfið í baðherberginu hefði það verið vegna mikillar bleytu á gólfinu, vegna þess að stefnandi var sjálfur rennblautur og sleipur og vegna erfiðra aðstæðna og yrði þá talið til óhappatilviks. Þá verður þessi hugsanlega atburðarrás nú metin í því ljósi að fram kom í skýrslu húsráðanda sem tekin var fyrir dómi við endurtekna aðalmeðferð málsins 15. janúar sl. að stefnandi hafi farið í andnauð/hjartastopp inn á baðinu þ.e. áður en lögregla ákvað að koma honum út af baðherberginu til að hægt væri við betri aðstæður að reyna endurlífgun.

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn með öllu ósannað að lögreglumenn hafi gerst sekir um saknæma háttsemi við handtöku stefnanda eða að handtakan hafi verið ólögmæt af öðrum orsökum. Verður ekki annað séð en að aðstæður umrætt sinn við handtökuna hafi verið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða í 2. mgr. 93. gr. laganna og má til sanns vegar færa að reynt hafi verið að gæta þess eftir föngum að stefnandi ynni ekki tjón á sjálfum sér eða öðrum, sbr. síðari málslið þess ákvæðis. Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýst verður ekki séð að hægt hefði verið að beita vægari úrræðum umrætt sinn og verður því talið að meðalhófs hafi verið gætt.

Ekki verður fallist á að framangreind lagafyrirmæli eigi ekki stoð í stjórnarskrá sbr. 1. mgr. 67. gr. hennar eða brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekkert bendir til þess að aðgerðir lögreglu hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar eins og stefnandi byggir á. Því eru engin efni til að fallast á bótaskyldu stefnda á grundvelli almennu sakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum.

Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi byggir ekki á því í stefnu málsins að 1. mgr. ákvæðisins eigi við en nefndi það við aðalmeðferð að málið gegn stefnanda hefði verið fellt niður. Lögmaður stefnda benti á að sú ákvörðun hefði einvörðungu byggst á heilsubresti stefnanda og er ekki ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa miðað við málsatvik.

Í ljósi ástæðna þess að fyrri héraðsdómur var ómerktur af Hæstarétti og þeirra ábendinga til dómsins sem rétturinn setti þar fram verður nú fjallað um hvort orsakatengsl hafi verið á milli aðgerða lögreglu og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í tengslum við þær.

Eins og áður er rakið liggja fyrir þrjár matsgerðir í máli þessu. Lögmaður stefnda benti 1á það við síðari aðalmeðferð málsins að matsgerð sem stefnandi óskaði eftir í máli nr. M-116/2012 ætti að hafa meira sönnunargildi en ella fyrir þær sakir að ekki var þar óskað yfirmats. Í ítarlegri matsgerð I hjartalæknis og J hæstaréttarlögmanns frá 10. september 2014 var fjallað um, líklegustu orsök þess líkamstjóns sem stefnandi, matsbeiðandi varð fyrir 11. maí 2010. Þar segir: „Líklegasta orsök hjartastoppsins er það sturlunar eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta má að mati matsmanna tengja við ofneyslu hans á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburða.“ Síðar segir í niðurstöðum: „Eins og rakið er að framan ......þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til orsakatengsla milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem A varð fyrir.“ I var ekki kölluð fyrir dóm til skýrslugjafar en J kom og svaraði því einungis að hann kannaðist við matsgerðina en því hefur ekki verið mótmælt að matsgerðin eins og hún liggur fyrir í málinu stafar frá þeim.

Eins og fyrr segir var ekki brugðist sérstaklega við þessari matsgerð eftir því sem best verður séð fyrr en með nýrri matsbeiðni sem lögð var fram í héraðsdómi 29. október 2015. Þar var fyrsta matsspurning þessi: „Hvort valdbeiting lögreglunnar er stefnandi var handtekinn, geti verið einn af orsakavöldum þess, að stefnandi fór í hjartastopp, hinn 11. maí 2010. Ef svarið jákvætt, er þess beiðst að matsmenn greini á milli orsaka líkamstjónsins.“ Þriðja matsspurning var: „Hvort matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglunnar í umrætt sinn.“ og fjórða spurning var „Hvort líklegt sé að stefnandi/matsbeiðandi hefði orðið fyrir hjartastoppi, ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtunni, hefði fengið að klára það verk, og ekki hefði komið til að hann hefði verið handtekinn á þeim stað af lögreglu, með þeim hætti sem gert var og á þeirri stundu.“

Með matsgerð sem leit dagsins ljós 11. júní 2016 skiluðu dómkvaddir matsmenn, K dr. med. geð- og embættislæknir og L, lyf- og hjartalækni niðurstöðum sínum. Svörin við framangreindum spurningum voru þau að matsmenn svöruðu fyrstu spurningu neitandi. Þriðju spurningu svöruðu þeir með vísan til svars við fyrstu spurningar, en bættu við að „matsmenn telja að líkurnar á að matsbeiðandi hefði getað farið í hjartastopp séu auknar vegna hans öra ástands rétt fyrir tjónsatburð.“ Fjórðu spurningu svöruðu þeir þannig að þeir teldu líkurnar á því að matsbeiðandi hefði getað farið í hjartastopp hefðu verið fyrir hendi. Þá svöruðu matsmenn að auki spurningu um hvort efnið Agel sem stefnandi hafði tekið inn fyrir atvikið gæti orsakað hjartastopp. Matsmenn töldu það ekki þ.e. að efnið væri til þess fallið en töldu sig ekki geta fullyrt neitt um það ef það væri tekið í gríðarlegu magni.

Í forsendum niðurstöðu sinnar taka matsmenn eftirfarandi fram: „Matsmenn telja því að allt eins megi færa líkur að því að lögreglan hafi bjargað matsbeiðanda eins og hinu að hún hafi valdið honum tjóni. Í ljósi kringumstæðna er það álit matsmanna að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar björgunaraðgerðir“.

L matsmaður greindi m.a. frá því í skýrslu fyrir dómi að stefnandi hafi umrætt sinn verið í undirliggjandi ástandi sem sé lífshættulegt og að í sumum rannsóknum hafi þetta ástand „Lethal Catatonia“ verið talið bera dánartíðni 20 til 30%. Matsmaðurinn lýsti sig ósammála niðurstöðu yfirmatsmanna. Taldi skýringuna fyrir þeirra niðurstöðu einkum vera þá að þar hafi verið þrír sérfræðingar úr sitthvorri áttinni sem hafi komist í raun að þremur mismunandi niðurstöðum sem sýni hvað málið sé margslungið og óvanalegt. Þá hafi yfirmatsmenn ekki tekið jafn víðtæka nálgun á málið og undirmatsmenn hefðu gert þ.e. hafi ekki tekið afstöðu til þess hvað hefði getað gerst ef ekki hefði komið til átaka við lögreglu. Hafi undirmatsmenn talið mjög ólíklegt að hraustur ungur maður færi í hjartastopp þrátt fyrir gríðarmikla áreynslu ef ekki væri til staðar einhver undirliggjandi ástæða.

K matsmaður taldi yfirmatsgerð vel unna og vandaða en var ekki sammála niðurstöðunni þ.e. að ekki væri hægt að slá því föstu að ástæða fyrir öndunar/hjartastoppi væru helst átök við lögreglu. Kvað hann langlíklegustu skýringuna geðrof, þ.e. illkynja sturlunarástand, geðrofsstjarfi eða „malignant catatonia, en slíkt ástand gæti valdið niðurbroti vöðva í líkamanum og mikilli hættu.

Í samantekt yfirmatsmanna kemur eftirfarandi fram í niðurlagi: „Um er að ræða heilsuhraustan ungan mann sem fékk hjartastopp 22ja ára gamall í átökum við lögreglu. Maðurinn var á þeim tíma í geðrofslíku ástandi en orsök þess er ekki þekkt. Við uppvinnslu eftir hjartastoppið greindist engin ein augljós og ákveðin orsök fyrir atburðinum. Sérstaklega greindist enginn undirliggjandi hjartasjúkdómur og lyfjaleit var neikvæð. Það er þekkt að valdbeiting getur valdið  hjartastoppi við ákveðnar aðstæður, sérstaklega ef sá sem beittur er valdi er órólegur og æstur eins og í umræddu tilfelli. Það er okkar mat að í ljósi atburðarrásarinnar verður að teljast líklegt að valdbeiting hafi átt þátt í hjartastoppinu.“

M hjartalæknir einn yfirmatsmanna sagði í skýrslu sinni að það væri ekki endilega bara einn þáttur sem gæti orsakað hjartastopp heldur væri það oft einn, tveir eða fleiri meðvirkandi þættir. Hún staðfesti hins vegar að niðurstaða matsmanna hefði verið sú að yfir 50% líkur væru á því að valdbeiting lögreglu hefði átt þá í að valda hjartastoppinu. Hún sló því þó föstu að áður en stefnandi fékk hjartastopp hafi hann greinilega verið í einhverju óráðsástandi og kvaðst taka undir álit P geðlæknis frá 25. september 2017. Þar taldi sá læknir að ástand stefnanda fyrir atvikið hafi passað vel við lýsingu á ástandi sem bæri heitið æsingarástand (exited type) af heilkenni sem nefnt sé „Lethal Catatonia“. Æsingsformið einkennist af miklum hreyfióróa einstaklingsins, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund, truflun í ósjálfráða taugakerfinu og þetta ástand geti leitt til dauða á skömmum tíma. Í sumum rannsóknum hafi dánartíðni vera talin 20-30%. Lýst sé fjölgun hvítra blóðkorna, hækkun á vöðva ensýmum, sem geti leitt til hjartabilunar. M kvaðst í raun vera sammála niðurstöðum P þótt hún teldi hana ekki breyta meginniðurstöðu yfirmats.

O taugalæknir og yfirmatsmaður staðfesti þá niðurstöðu að matsmenn hefðu talið meiri líkur en minni á því að átök stefnanda við lögreglu hafi átt þátt í hjartastoppi, en slík átök geti verið tölvuverður áhættuþáttur fyrir hjartastoppi. Læknirinn taldi minni líkur en meiri fyrir því að stefnandi hafi verið haldinn „Lethal Catatonia“ heilkenninu miðað við atvikalýsingar málsins, og kvaðst þannig persónulega draga niðurstöðu P í efa fremur en hitt. Læknirinn átti að mati dómsins mjög erfitt með að útskýra hvers vegna spurningum þrjú og fjögur væri svarað með öðrum hætti en fyrstu spurningunni, þrátt fyrir að spurningarnar væru mjög keimlíkar. Vísaði hann ítrekað til þeirrar miklu óvissu sem væri til staðar í málinu og gríðarlega mörg ef, sem gerðu í raun það ómögulegt að gefa skýr svör.

Þriðji yfirmatsmaðurinn N geðlæknir, kvaðst í raun ekki getað fullyrt hvaða líkur væru fyrir því að aðgerðir lögreglu hafi valdið skaða stefnanda. Þær væru meiri en minni en hann taldi sig persónulega ekki getað reiknað það með neinu móti. Hann lýsti sig þó ósammála niðurstöðu P og taldi hana nokkuð langsótta. Varðandi meint misræmi á milli svara matsmanna við spurningu þrjú og fjögur annars vegar og fyrstu spurningu hins vegar, lýsti vitnið því að matsmenn hefðu ekki viljað: „láta hanka okkur á því að fullyrða það að einhver einn þáttur sé afgerandi í þessu. Það er alveg samræmi finnst mér í svörunum, það er alveg skýrt fyrir okkur að valdbeiting lögreglunnar miðað við lýsingu og það sem er vitað í þessum fræðum, getur verið einn af orsakaþáttunum.“

-------

Eins og framangreint staðfestir eru bæði undirmötin afdráttarlaus um að ekki sé hægt að rekja hjartastopp stefnanda og það tjón sem hann varð fyrir til aðgerða lögreglu umrætt sinn. Heldur verði tjónið rakið mun frekar til þess ástands sem stefnandi var í umrædd sinn. Ganga dómkvaddir undirmatsmenn reyndar svo langt að telja aðgerðir lögreglu hafa frekar verið til þess fallnar að bjarga stefnanda heldur en að skaða hann. Þrátt fyrir að geðrannsókn P taki ekki afstöðu að þessu leyti enda hann ekki spurður þeirra spurninga er rannsókn hans afdráttarlaus um það að stefnandi hafi verið í lífshættulegu ástandi sem hafi eftir því sem best verður séð valdið tjóni hans.

P lýsir ástandi stefnanda við komu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hann hafi verið með fjölgun á hvítum blóðkornum, hækkað kalíum, hita sem talinn var stafa af „central“ orsökum. Þá hafi verið merki um mikið niðurbrot vöðva með gífurlegri hækkun á vöðvaenzymum, hækkun á kreatini og byrjandi einkenni um nýrnabilun.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða og eins og aðgerðum lögreglu hefur verið lýst hér að framan og þeirrar niðurstöðu að með öllu sé ósannað að þær hafi verið að einhverju leyti óeðlilegar eða of harkalegar, eða að eitthvað einstakt atvik í þeirri atburðarráðs hafi verið sérstaklega fallið til þess að leiða til þess tjóns sem stefnandi varð fyrir, telur dómurinn ósannað að tjón stefnanda verði rakið beinlínis til aðfara lögreglu.

Í þessu sambandi athugist að ekki er hægt að líta svo á að yfirmatsmenn hafi verið mjög afdráttarlaus hvað þetta atriði varðar og því hvergi í málinu verið slegið föstu að aðgerðir lögreglu hafi beinlínis verið orsök fyrir hjartastoppi stefnanda. Niðurstaða þeirra er sú að það séu meiri líkur en minni á því að aðgerðir lögreglu hafi átt hlut að máli. Þ.e. að hafi verið líklegt til að hafa átt þátt í hjartastoppinu en aðrir þættir gætu hafa verið þar meðvirkandi.

Dómurinn telur því ósannað í sjálfu sér að átökin við lögreglu hafi orsakað það að stefnandi fór í hjartastopp. Hvorki er hægt í þessu tilfelli að fullyrða að þau hafi engin áhrif haft þar á eða að fullyrða að aðkoma lögreglu hafi yfirhöfuð skipt máli.

Ekki verður því á þessum grunni og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins því slegið föstu að sönnun hafi tekist um að orsakatengsl séu á milli aðgerða lögreglu og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Það stendur eftir að orsök hjartastoppsins er óklár þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir og vangveltur matsmanna þar um. Það er einfaldlega útilokað að fullyrða, miðað við gögn málsins, að bein orsakatengsl séu á milli handtökunnar og hjartastoppsins. Þá blasir það jafnframt við að mati dómsins að skilyrði um að tjónið hafi verið sennileg afleiðing af aðgerðum lögreglu geti ekki talist uppfyllt.

Þegar af þeirri ástæðu að ekki eru sönnuð orsakatengsl á milli aðferða lögreglu við handtöku á stefnanda og þeirra atvika sem gerðust á sama tíma og leiddu til stórfellds tjóns fyrir stefnanda verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Með vísan til framangreinds telur dómurinn ekki ástæðu til að endurtaka umfjöllun um meintan hlut stefnanda í því tjóni sem hann varð fyrir, þ.e. að hann hafi valdið því með hegðan sinni að lögregla taldi brýna nauðsyn bera til þess að handtaka hann umrætt sinn. Þannig er ekki ástæða til að taka upp í niðurstöðu þessa dóms það sem lagt var til grundvallar í fyrri úrlausn að stefnandi hafi sjálfur valdið aðgerðum lögreglu og með því fyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt þágildandi 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að háttsemi lögreglu hafi því ekki verið saknæm.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi í málinu sem útgefið var 5. júlí 2012 og er takmarkað við rekstur málsins fyrir héraðsdóms og því greiðist málkostnaður hans úr ríkissjóði. Að hafðri hliðsjón af málskostnaðarkröfu lögmanns stefnanda sem byggir á tímaskráningu og umfangi málsins er þóknun lögmanns ákveðin 900.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt.

Fyrir hönd stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda, Ólafur Helgi Árnason hæstaréttarlögmaður.

Dóm þennan kveða upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómsmennirnir Davíð O. Arnar hjartalæknir og Nanna Briem geðlæknir.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda A.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 900.000 krónur.