Print

Mál nr. 85/2017

Ólafur Ólafsson (Þórólfur Jónsson hrl.)
gegn
ríkissaksóknara og íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Stjórnsýslunefnd
  • Valdmörk
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu Ó á hendur R og Í um að viðurkennt yrði að skilyrði fyrir endurupptöku máls sem dæmt hafði verið í Hæstarétti væru uppfyllt. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að ákvörðun um endurupptöku máls væri á hendi endurupptökunefndar, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þótt dómstólar ættu úrskurðarvald um það hvort gætt hefði verið fyrirmæla laga þegar nefndin tók afstöðu til endurupptökubeiðni Ó og gætu fellt þá ákvörðun nefndarinnar úr gildi yrðu taldir slíkir annmarkar á henni, væri það ekki á færi dómstóla að taka nýja ákvörðun í málinu eins og krafa Ó fæli í raun í sér. Var kröfunni því vísað frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2017 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum um að „viðurkennt verði að skilyrði fyrir endurupptöku máls nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015, samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, séu uppfyllt“. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2017.

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 9. janúar sl., er höfðað 15. júní 2016 af Ólafi Ólafssyni, [...], gegn Ríkissaksóknara, Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík og íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að felldur verði úr gildi úrskurður endurupptökunefndar frá 26. janúar 2016 í máli nr. 8/2015 um að hafna beiðni stefnanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að skilyrði fyrir endurupptöku máls nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015, samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, séu uppfyllt. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

         Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að þeir verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.

         Málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda 9. janúar sl. og er sá þáttur málsins einungis til umfjöllunar í úrskurði þessum. Þar krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar.

II

         Hinn 16. febrúar 2012 var stefnandi ákærður ásamt þremur öðrum mönnum. Í ákærunni var stefnanda aðallega gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun, en til vara hylming og peningaþvætti, vegna sölu Kaupþings banka hf. á eigin hlutum til MAT. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013 í máli nr. S-127/2012 var stefnandi sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákærunni. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi réttarins 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 var stefnandi sýknaður af sakargiftum um hlutdeild í umboðssvikum og hylmingu og peningaþvætti, en stefnandi var fundinn sekur um hlutdeild í markaðsmisnotkun samkvæmt b-lið III. kafla ákæru og fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt a- og c-liðum IV. kafla ákæru. Stefnandi var dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar og til að greiða þrjá fjórðu hluta sakarkostnaðar.

         Með bréfi, dags. 15. maí 2015, fór stefnandi þess á leit við endurupptökunefnd að málið yrði endurupptekið hvað hann varðaði og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju. Mál stefnanda hjá nefndinni fékk málsnúmerið 8/2015. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 20. maí 2015, var stefnanda tilkynnt um móttöku beiðninnar og að tveir af þremur nefndarmönnum hefðu vikið sæti í málinu sökum vanhæfis. Í stað annars þeirra, Björns. L. Bergssonar, formanns nefndarinnar, tók varamaður hans, Kristbjörg Stephensen, sæti. Með bréfi 28. maí 2015 krafðist stefnandi þess að Kristbjörg viki einnig sæti vegna vanhæfis. Krafan var byggð á því að Kristbjörg væri tengd Björgu Thorarensen nánum vináttuböndum, en Björg er eiginkona Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara, sem var einn dómenda í máli nr. 145/2014. Með bréfi 9. júlí 2015 var stefnanda tilkynnt að endurupptökunefnd hefði ekki fallist á kröfu stefnanda og myndi Kristbjörg ekki víkja sæti við meðferð málsins.

         Beiðni stefnanda um endurupptöku byggðist annars vegar á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr., laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, væri uppfyllt, þar sem niðurstaða Hæstaréttar hefði verið byggð á röngu mati á sönnunargögnum málsins. Hins vegar reisti stefnandi beiðni sína á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. sömu laga, hefðu verið uppfyllt, þar sem tveir dómenda í málinu í Hæstarétti, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson, hefðu verið vanhæfir til setu í því. Af þeim sökum hafi verið verulegir gallar á meðferð málsins þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu þess.

         Þann 9. júlí 2015 sendi endurupptökunefnd embætti sérstaks saksóknara beiðni stefnanda til umsagnar. Sú umsögn, sem var rituð af ríkissaksóknara, barst endurupptökunefnd 12. ágúst 2015 og var hún áframsend til stefnanda með bréfi 14. ágúst 2015. Stefnandi setti fram frekari rökstuðning fyrir beiðni sinni með bréfum, dags. 31. ágúst 2015 og 5. október 2015. Endurupptökunefnd óskaði einnig eftir umsögn ríkissaksóknara við viðbætur stefnanda við rökstuðning fyrir endurupptöku og bárust þær umsagnir endurupptökunefnd 17. september 2015 og 21. október 2015. Í öllum tilvikum taldi ríkissaksóknari að hafna bæri beiðni stefnanda þar sem skilyrði endurupptöku væru ekki uppfyllt. Stefnandi svaraði þessum umsögnum ríkissaksóknara með bréfum til endurupptökunefndar 5. október 2015 og 26. október 2015. Á fundi 30. október 2015 var fjallað sérstaklega um þá málsástæðu stefnanda að dómari í málinu hefði verið vanhæfur.

         Með úrskurði 26. janúar 2016 hafnaði endurupptökunefnd beiðni stefnanda um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 145/2014.

                                                                                        III

         Stefndu reisa frávísunarkröfuna á því að með lögum nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála hafi endurupptökunefnd verið komið á fót. Þar með hafi ákvörðun um endurupptöku dómsmála, hvort sem þau hafi verið dæmd í héraði eða fyrir Hæstarétti, verið færð frá Hæstarétti til endurupptökunefndar, sem sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Í 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 sé kveðið á um að ákvörðun endurupptökunefndar um að synja beiðni um endurupptöku máls sé endanleg og verði ekki skotið til dómstóla.

         Af hálfu stefndu er því haldið fram að málsatvik í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 628/2015 séu ekki sambærileg málsatvikum þessa máls. Í því máli hafi endurupptökunefnd fallist á endurupptöku máls. Samkvæmt forsendum dómsins sé ákvæði 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sem feli nefndinni vald til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla, ekki gild réttarheimild og því geti dómstólar endurmetið ákvörðun endurupptökunefndar þegar nefndin fallist á að endurupptaka mál með þeim réttaráhrifum að fyrri dómur í málinu falli úr gildi. Stefndu taka fram að í dóminum sé ekki fjallað um 7. mgr. 34. gr. laga um dómstóla. Þegar endurupptökunefnd synji beiðni um endurupptöku sé augljóst að fyrri dómur haldi gildi sínu og því sé ekki farið gegn ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins.

         Stefndu taka fram að meginreglan sé sú að heimilt sé að bera réttarágreining undir endanlegan úrskurð dómstóla samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hins vegar sé ekki útilokað að heimilt sé að takmarka þann rétt með lögum, en slík takmörkun verði að vera skýr og ótvíræð, svo hún komi til álita, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/1995. Ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga um dómstóla sé skýr og ótvíræð lagaheimild.

         Í tíð eldri laga, meðan Hæstiréttur hafi sjálfur ákveðið hvort mál skyldu endurupptekin eða ekki, hafi meðferð réttarins á slíkum endurupptökubeiðnum ekki verið eiginleg dómsmeðferð, heldur í raun líkari stjórnsýslumeðferð. Taka megi undir það sem komi fram í athugasemdum við 7. mgr. 34. gr. laga um dómstóla í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 15/2013, að það fyrirkomulag, að þurfa að taka afstöðu til endurupptöku mála sem þegar hafi verið dæmd af réttinum, feli í sér nokkuð annarlega stöðu fyrir Hæstarétt. Núverandi fyrirkomulag auki réttaröryggi, enda séu ákvarðanir nefndarinnar rökstuddar og birtar opinberlega, en það hafi ákvarðanir Hæstaréttar um endurupptöku almennt ekki verið.

         Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að dómstólar dæmi um viðurkenningarkröfu hans. Stefndu vísa til þess að úrskurður endurupptökunefndar sé endanlegur og verði ekki borinn undir dómstóla, sbr. 7. mgr. 34. gr. laga um dómstóla.  Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi dómstólar vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur nái til, nema það sé skilið undan lögsögu þeirra, meðal annars með lögum. Þessi aðstaða sé fyrir hendi í máli þessu og verði því ekki dæmt um viðurkenningarkröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

         Af hálfu stefnanda er því mótmælt að ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, sé gild réttarheimild, enda brjóti ákvæðið í bága við 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi vísar til þess að með setningu laga nr. 15/2013 hafi endurupptökunefnd verið stofnuð og vald til að endurupptaka dæmd mál í Hæstarétti hafi verið fært frá réttinum sjálfum til nefndarinnar. Höfundar frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 15/2013, hafi talið fyrra fyrirkomulag óheppilegt, enda hefði Hæstiréttur verið í þeirri stöðu að taka afstöðu til endurupptöku mála sem hefðu þegar verið dæmd af réttinum. Í frumvarpinu sé þó ekki fjallað um það hvort ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 standist stjórnarskrá. Samkvæmt frumvarpinu sé þetta fyrirkomulag að norskri fyrirmynd, en dómstólar þar í landi geti þó endurskoðað ákvarðanir endurupptökunefndar.

         Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 sé endurupptökunefnd hluti framkvæmdavaldsins og sé nefndin sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Ákvæði 7. mgr. sömu greinar mæli fyrir um fullnaðarúrskurðarvald stjórnvalds. Brýnt sé að gera greinarmun á því að málefni sé tekið undan valdi dómstóla eða skilyrði sett fyrir aðkomu dómstóla. Sambærileg ákvæði hafi verið þekkt á síðustu öld. Efasemdir hafi verið settar fram um að slík ákvæði stæðust 60. gr. stjórnarskrárinnar, en talið hafi verið að dómstólar gætu að minnsta kosti endurskoðað slíkar ákvarðanir að formi til. Ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 sé nú eina ákvæðið sem mæli fyrir um slíka takmörkun.

         Árið 1995 hafi stjórnarskránni verið breytt og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar verið færð í núverandi horf. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 komi meðal annars fram að þess verði krafist samkvæmt reglunni að unnt sé að bera lokaákvörðun innan stjórnsýslunnar undir dómstóla, þannig að dómstóll geti að minnsta kosti metið hvort stjórnvald hafi gætt réttra reglna um málsmeðferð, hvort lögmæt sjónarmið liggi ákvörðun til grundvallar og hvort form hennar sé lögmætt. Þennan rétt megi einnig leiða af 60. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi segir að það sé síðan annað úrlausnarefni hvort vald dómstóla til að endurskoða úrlausnir endurupptökunefndar sæti takmörkunum vegna sjónarmiða um frjálst mat stjórnvalda.

         Stefnandi fullyrðir að fræðimenn hafi lýst miklum efasemdum um stjórnskipulegt gildi 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998. Þá hafi Hæstiréttur Íslands slegið því föstu í dómi 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 að dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir endurupptökunefndar.

         Stefnandi byggir einnig á því að lengi hafi verið viðurkennt í framkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu að í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felist réttur til þess að eiga aðgang að dómstólum og að ákvæði í landslögum sem mæli fyrir um fullnaðarúrskurðarvald stjórnvalda brjóti gegn sáttmálanum.

IV

         Í máli þessu krefst stefnandi þess að felldur verði úr gildi úrskurður endurupptökunefndar frá 26. janúar 2016 í máli nr. 8/2015 um að hafna beiðni stefnanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 145/2014 og að viðurkennt verði að skilyrði fyrir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 145/2014, samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, séu uppfyllt. Stefnandi telur að honum sé þessi málsókn heimil þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, en þar er svo fyrir mælt að ákvörðun nefndarinnar um að synja beiðni um endurupptöku máls sé endanleg og verði ekki skotið til dómstóla. Byggir stefnandi á því að framangreint ákvæði fari í bága við 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og sé því ekki gild réttarheimild.

         Eins og rakið hefur verið var með lögum nr. 15/2013 gerðar breytingar á lögum nr. 15/1998, um dómstóla, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Með 2. gr. laga nr. 15/2013 var nýrri grein, sem varð 34. gr., bætt í lög nr. 15/1998 og eru þar ákvæði um endurupptökunefnd. Eftir breytingu, sem var gerð á þessari nýju grein með 35. gr. laga nr. 78/2015, er mælt svo fyrir í 1. mgr. hennar að endurupptökunefnd sé sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem taki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í héraði eða fyrir Hæstarétti. Í 215. gr. laga nr. 88/2008 er síðan mælt fyrir um heimild endurupptökunefndar til að leyfa samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 211. gr. laganna.

         Fyrir gildistöku laga nr. 15/2003 var það hlutverk Hæstaréttar að taka ákvörðun um endurupptöku dómsmáls sem þar hafði verið dæmt. Í athugasemdum með 2. gr. frumvarps sem varð að þeim lögum er ákvæði 7. mgr. 34. gr. rökstutt með því að endurupptökunefnd sé ætlað að taka við þessu hlutverki Hæstaréttar svo rétturinn sé ekki í þeirri annarlegu stöðu að þurfa að taka afstöðu til endurupptöku mála sem þegar hafi verið dæmd af réttinum. Ákvarðanir um synjun um endurupptöku séu því endanlegar líkt og ákvarðanir Hæstaréttar hafi verið. Dómurinn lítur svo á að meðan ákvörðun um endurupptöku dómsmáls var í höndum Hæstaréttar hafi sú ákvörðun verið dómsathöfn, enda um verkefni að ræða sem varðar úrlausn dómsmála og réttinum var falið með lögum að annast. Í samræmi við 1. gr. laga nr. 15/1998 var sú ákvörðun Hæstaréttar endanleg.

         Í dómi Hæstaréttar Íslands 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 var því slegið föstu, með vísan til 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998, að endurupptökunefnd heyrði undir framkvæmdavald ríkisins. Verður að líta svo á að ákvörðun nefndarinnar um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls teljist vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda er með þeirri ákvörðun kveðið einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.

         Núgildandi 70. gr. stjórnarskrárinnar var lögfest með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Samkvæmt greininni ber öllum réttur til að fá úrlausn um m.a. um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps sem varð að þeim stjórnarskipunarlögum segir meðal annars að ákvæði þetta eigi ekki að skilja svo bókstaflega að hún girði fyrir að ákveðnir málaflokkar lúti málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Þess verði þó krafist að unnt sé að bera lokaákvörðun innan stjórnsýslunn­ar undir dómstóla, þannig að dómstóll geti að minnsta kosti metið hvort stjórnvald hafi gætt réttra reglna um málsmeðferð, hvort lögmæt sjónarmið liggi ákvörðun til grundvallar og hvort form hennar sé lögmætt. Þennan rétt megi einnig leiða af núgildandi 60. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.

         Í athugasemdum með 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 15/2013 er ekki tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 samrýmist 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Verður heldur ekki ráðið af lögskýringargögnum með hvaða efnislegu rökum nauðsynlegt hafi þótt að girða alfarið fyrir að málsaðili gæti borið synjun endurupptökunefndar undir dómstóla, nema að þannig hefði það verið meðan Hæstiréttur tók afstöðu til beiðni um endurupptöku dómsmála.

         Hæstiréttur sló því einnig föstu í fyrrnefndum dómi í málinu nr. 628/2015 að þótt endurupptökunefnd hefði, meðal annars með 215. gr. laga nr. 88/2008, verið fengin viðfangsefni sem vörðuðu úrlausn dómsmála, fengi það því ekki breytt að dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar og á þeim grunni yrði að taka afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í úrskurði þeim sem um var deilt í því máli. 

         Með vísan til þessa dóms Hæstaréttar og fyrrnefndra athugasemda við 8. gr. frumvarps sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 verður að fallast á það með stefnanda að skýra beri 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að ekki sé heimilt að undanskilja ákvörðun endurupptökunefndar frá endurskoðunarvaldi dómstóla. Samkvæmt þessu brýtur ákvæði 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 í bága við þessi ákvæði stjórnarskrárinnar. Því ber að virða að vettugi umrætt ákvæði sem að öðrum kosti girðir fyrir að stefnandi geti borið synjun endurupptökunefndar undir dómstóla. Verður málinu því ekki vísað frá dómi með vísan til 7. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998.

         Með viðurkenningarkröfu sinni fer stefnandi efnislega fram á staðfestingu dómsins á því að skilyrði fyrir endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 145/2014 séu uppfyllt. Það leiðir af meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar eru ekki bærir til þess að taka með bindandi hætti afstöðu til þess að stjórnvald skuli taka tiltekna ákvörðun sem lög mæla fyrir um að sé á hendi stjórnvalds. Ákvörðun um endurupptöku dómsmáls er á hendi endurupptökunefndar, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998. Þótt dómstólar eigi úrskurðarvald um það hvort gætt hafi verið fyrirmæla laga er endurupptökunefnd tók afstöðu til endurupptökubeiðni stefnanda, og geti fellt ákvörðun nefndarinnar úr gildi verði svo talið að slíkir annmarkar hafi verið á henni, er það ekki á færi dómsins að taka í reynd nýja ákvörðun í málinu, eins og þessi krafa stefnanda gengur í reynd út á. Verður viðurkenningarkröfu stefnanda því vísað frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en að öðru leyti er frávísunarkröfu stefndu hafnað.

         Ákvörðun málskostnaður í þessum þætti málsins bíður lokaniðurstöðu málsins.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Kröfu stefnanda, Ólafs Ólafssonar, um að viðurkennt verði að skilyrði fyrir endurupptöku máls nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015, samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, séu uppfyllt, er vísað frá dómi. Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefndu, Ríkissaksóknara og íslenska ríkisins, hafnað.

         Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.