Print

Mál nr. 28/2019

Þrotabú 12.12.2017 ehf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)
gegn
Nordica Inc. (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu 12.12.2017 ehf. um að N Inc. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli N Inc. og J gegn 12.12.2017 ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 6. júní 2019 í máli nr. 302/2019 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila þar fyrir dómi. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á framangreinda kröfu hans um málskostnaðartryggingu að fjárhæð 1.500.000 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú 12.12.2017 ehf., greiði varnaraðila, Nordica Inc., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                   

 

 

 

Úrskurður Landsréttar 6. júní 2019.

Landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir og Jóhannes Sigurðsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Sakarefni

  1. Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjendum fyrir héraðsdómi til þess að rifta þremur tilgreindum greiðslum hins gjaldþrota félags til áfrýjandans Nordica Inc., samtals að fjárhæð 11.715.503 krónur, og að áfrýjendur yrðu dæmdir til að greiða stefnda sömu fjárhæð óskipt ásamt þar tilgreindum vöxtum, dráttarvöxtum og málskostnaði. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 3. apríl 2019 var riftunarkrafa stefnda tekin til greina og áfrýjendur dæmdir til þess að greiða stefnda stefnufjárhæðina óskipt ásamt þar tilgreindum vöxtum, dráttarvöxtum og málskostnaði.

  2. Áfrýjendur áfrýjuðu dómi héraðsdóms til Landsréttar með áfrýjunarstefnu 29. apríl 2019. Þeir krefjast aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Landsrétti.

Grundvöllur kröfu um málskostnaðartryggingu

  1. Stefndi krefst þess að áfrýjanda Nordica Inc. verði gert að setja málskostnaðartryggingu fyrir Landsrétti, sbr. 133.  og 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

  2. Stefndi vísar til ummæla í greinargerð áfrýjenda til héraðsdóms þar sem segir að „Stefndi Nordica býr ekki yfir fjármunum til að endurgreiða greiðslurnar ef dómurinn fellst á að þeim verði rift, þar sem hinar umstefndu greiðslur voru nýttar til að greiða þeim sem stefndi Nordica hafði keypt vörur til Kosts af og Nordica býr ekki yfir frekari fjármunum.“

  3. Stefndi byggir á því að með þessum ummælum hafi verið leiddar að því líkur að áfrýjandinn Nordica Inc. sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Því sé fullnægt skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, til þess að áfrýjandanum verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu.

  4. Áfrýjendur mótmæla kröfu stefnda og telja að skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt. Með hinum tilvitnaða texta hafi einungis verið fjallað um hina umkröfðu fjárhæð.

Niðurstaða

  1. Stefndi byggir kröfu sína einvörðungu á hinum tilvitnuðu ummælum en engin gögn liggja fyrir um fjárhagsstöðu áfrýjendanna Nordica Inc. og Jóns Gerald Sullenberger, en þeir voru í hinum áfrýjaða dómi dæmdir til að greiða stefnda óskipt 11.715.503 krónur. Við mat á þessum ummælum verður að líta til þess að þau voru höfð uppi til þess að styðja við þá málsástæðu áfrýjenda að fella ætti niður endurgreiðslukröfu stefnda á hendur áfrýjandanum Nordica Inc. samkvæmt 145. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt framangreindu hafa ekki verið leiddar að því líkur að áfrýjandi Nordica Inc. sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 og er kröfu stefndu um að áfrýjandanum Nordica Inc. verði gert að setja málskostnaðartryggingu hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnda, þrotabús 12.12.2017 ehf., um að áfrýjanda Nordica Inc., verði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna reksturs máls nr. 302/2019 fyrir Landsrétti er hafnað.