Print

Mál nr. 394/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Benedikt Sveinssyni (Oddgeir Einarsson hrl.)
Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Áfrýjun
  • Skattur
  • Vararefsing
  • Sekt
Reifun

B var sakfelldur fyrir meiriháttar brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa sem eini stjórnarmaður og eigandi B ehf. látið hjá líða að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á þeim skatti vegna nánar tilgreindra tímabila. Var refsing B ákveðin fangelsi í eitt ár en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum þremur árum héldi hann almennt skilorð. Þá var B dæmdur til að greiða 83.000.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi eins árs fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð.

I

Tildrög málsins eru þau að með bréfi 8. mars 2013 vísaði ríkisskattstjóri til skattrannsóknarstjóra skattskilum Benedikts Sveinssonar ehf. og Byggingafélagsins Fjarðar ehf. Laut málið að því að síðarnefnda félagið hafði á árunum 2011 og 2012 gefið út reikninga á hendur því fyrrnefnda, en ríkisskattstjóri taldi allt benda til að þeir væru tilhæfulausir og eingöngu gefnir út til að mynda innskatt í uppgjöri á virðisaukaskatti. Þessari rannsókn lauk skattrannsóknarstjóri með skýrslu 7. október 2014.

Á þeim tíma er málið var til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra var bú Byggingafélagsins Fjarðar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 11. apríl 2013. Ákærði hafði frá stofnun félagsins 31. janúar 2006 verið eini stjórnarmaður þess og eigandi alls hlutafjár. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár var enginn skráður framkvæmdastjóri félagsins, en ákærði mun hafa stýrt daglegri starfsemi þess.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra 22. október 2014 var ákærða tilkynnt að rannsókn á skattskilum Byggingafélagsins Fjarðar ehf. hefði leitt í ljós að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á tilteknu tímabili, auk þess sem sölureikningar hefðu verið gefnir út í nafni þess á árunum 2011 og 2012 að því er virtist í þeim eina tilgangi að mynda innskatt hjá Benedikt Sveinssyni ehf. Fjárhæð þessara reikninga nam samtals 204.680.530 krónum, en þar af var virðisaukaskattur að fjárhæð 41.588.475 krónur. Var ákærða tilkynnt að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins en áður en það yrði gert var honum veittur frestur til að tjá sig. Eftir að ákærði hafði gert það með bréfi 12. nóvember 2014 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til lögreglu 10. febrúar 2015. Sama dag var ákærða send tilkynning um þá ákvörðun. Málið var síðan höfðað með ákæru 28. september sama ár.

II

Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómfelldur maður lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara þar sem meðal annars skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni áfrýjað sé og hvaða dómkröfur séu gerðar. Í kjölfarið gefur ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu þar sem meðal annars skal greina hver áfrýi dómi og nákvæmlega í hverju skyni það sé gert, sbr. c. lið 2. mgr. 201. gr. sömu laga.

Í tilkynningu ákærða um áfrýjun 13. maí 2016 kom fram að áfrýjað væri í því skyni að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu. Dómkröfur hans væru aðallega sýkna en til vara að refsing yrði milduð. Þessi kröfugerð var síðan tekin upp í áfrýjunarstefnu 17. maí sama ár. Krafa ákærða um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi kom fyrst fram í greinargerð hans til réttarins. Hún kom því fram of seint og kemst ekki að í málinu. Þá eru engir þeir annmarkar á meðferð málsins hjá lögreglu eða saksókninni sem valdið geta því að málinu verði vísað frá dómi án kröfu.

III

Eins og áður greinir var ákærði eini stjórnarmaður og eigandi Byggingafélagsins Fjarðar ehf. Þá hefur ákærði fyrir dómi gengist við því að hafa annast daglega starfsemi félagsins, þar með talið reikningsgerð og uppgjör á virðisaukaskatti. Að þessu gættu hvíldi sú skylda á honum að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á þeim skatti, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994.

Af gögnum málsins verður ráðið að ekki var skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins á tímabilunum september til október og nóvember til desember 2011 og september til október 2012. Virðisaukaskattskýrslum vegna tímabilanna janúar til febrúar, mars til apríl, maí til júní og júlí til ágúst 2012 var hins vegar skilað 23. október það ár, en frestur til að skila skýrslum er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá liggur fyrir að ekki var staðið skil á skattinum, en samtals nam hann á þessu tímabili 41.588.475 krónum vegna fyrrgreindra reikninga á hendur Benedikt Sveinssyni ehf. Að teknu tilliti til innskatts að fjárhæð 100.359 krónur bar að standa skil á mismuninum að fjárhæð 41.488.116 krónur, eins og miðað var við í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem bar að innheimta í starfsemi félagsins, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji félagið hafa átt inneign við uppgjör virðisaukaskatts á öðru tímabili, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, vegna reiknings á hendur því 30. desember 2008. Leiðir þetta þegar af þeirri ástæðu að félagið var ekki á virðisaukaskattskrá fyrr en 1. mars 2010, en ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Þá verður ekki fallist á það með ákærða að rannsókn málsins sé áfátt með tilliti til frekari innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til, en ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins haft alla möguleika á að leggja fram og vísa til gagna varðandi rekstur félagsins. Í þeim efnum ber að hafa í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í eitt ár, en fullnusta hennar verður bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir. Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar sem verður ákveðin 83.000.000 krónur að teknu tilliti til lögbundins lágmarks hennar í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Um vararefsingu fer eins og í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Benedikt Sveinsson, sæti fangelsi í eitt ár. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niður að þremur árum liðnum frá uppsögu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 83.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 674.067 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. apríl 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. mars sl., er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 28. september 2015, á hendur Benedikt Sveinssyni, kt. [...], Digranesvegi 46, Kópavogi, „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi einkahlutafélagsins Byggingafélagið Fjörður, kt. 430206-0870, með því að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september – október, nóvember – desember rekstrarárið 2011 og september – október rekstrarárið 2012, hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna janúar – febrúar til og með júlí – ágúst rekstrarárið 2012, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti vegna sömu uppgjörstímabila í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 41.488.116, sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2011

September – október                               kr.      294.729

Nóvember – desember                            kr.   6.711.682

                                                                     kr.   7.006.411

Árið 2012

Janúar – febrúar                                       kr.   5.892.430

Mars – apríl                                               kr.   6.019.797

Maí – júní                                                  kr.   6.014.343

Júlí – ágúst                                 kr.   3.819.717

September – október                               kr. 12.735.418

                                                                     kr. 34.481.705

                      Samtals alls:                        kr. 41.488.116

Framangreint brot ákærða telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

I

Í gögnum málsins segir að skattrannsóknarstjóri hafi rannsakað bókhald og virðisaukaskattskil félagsins Benedikt Sveinsson ehf. og Byggingarfélagsins Fjarðar ehf. og meinta útgáfu á tilhæfulausum reikningum á milli þeirra félaga. Hafi ákærði verið daglegur stjórnandi beggja félaga auk þess að vera stjórnarmaður og prókúruhafi síðargreinda félagsins. Mun formleg skattrannsókn hafa byrjað þann 19. júní 2013, en þann 10. febrúar 2015 var málið sent til embættis sérstaks saksóknara til ákvörðunar um saksókn. Embætti sérstaks saksóknara ákvað á grundvelli þeirra gagna og eigin skýrslna að gefa út ákæru vegna 17 sölureikninga, sem gefnir voru út af Byggingarfélaginu Firði ehf., á tvö nafngreind félög. Byggingarfélagið Fjörður ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta skömmu áður en rannsókn málsins hófst eða þann 11. apríl 2013.

Í málinu liggur fyrir kæra skattrannsóknarstjóra til embættis sérstaks saksóknara ásamt fylgiskjölum, þ.á.m. svarbréf Hjörleifs B. Kvaran hrl. fyrir hönd ákærða, dags. 20. ágúst 2014 og 12. nóvember 2014. Þá liggja fyrir yfirlit yfir virðisaukaskattsskil og skilaskyldan virðisaukaskatt fyrir þau tímabil sem ákært er fyrir og skýrslur teknar af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra þann 10. september 2013, 7. febrúar 2014 og 21. febrúar 2014 og skýrsla tekin af ákærða 12. mars 2015 hjá embætti sérstaks saksóknara, auk yfirlita og afrita reikninga.

II

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og neitaði sök. Aðspurður um tengsl sín við Byggingarfélagið Fjörð ehf. kvaðst ákærði hafa stjórnað því félagi og hafi hann verið stjórnarmaður og daglegur stjórnandi þess. Aðkoma hans að fjármálastjórn félagsins hafi verið sú að hann hafi gefið fyrirmæli um útgáfu reikninga. Hafi skattskil félagsins einnig verið í hans höndum, þar á meðal gerð virðisaukaskattsskýrslna, skil þeirra og greiðslur. Spurður hvers vegna virðisaukaskattsskýrslum fyrir tímabilin september – október, nóvember – desember 2011 og september – október 2012 hafi ekki verið skilað bar ákærði að hann vissi ekki betur en að þeim hafi verið skilað og hafi hann borið ábyrgð á þeim skilum. Spurður hvers vegna virðisaukaskýrslum félagsins fyrir janúar – febrúar til og með júlí - ágúst 2012 hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma kvaðst ákærði ekki átta sig almennilega á því, þeim hafi átt að skila á réttum tíma. Bæri hann einnig ábyrgð á því að það hafi ekki verið gert. Spurður hvers vegna virðisaukaskatti fyrir framangreind tímabil hafi ekki verið skilað bar ákærði að ýmsar ástæður væru fyrir því, meðal annars hafi félagið átt útistandandi innskatt sem hann taldi að hefði átt að ganga upp í þessa skuld. Spurður hver hafi tekið ákvörðun um það að skatturinn yrði ekki greiddur svaraði ákærði með þeim hætti að ekki hafi verið hægt að borga skattinn þar sem félag sem Byggingarfélagið Fjörður hafði átt í viðskiptum við hafi verið tekið í skattrannsókn og orðið óstarfhæft við það. Þar af leiðandi hafi ekki komið greiðslur frá því félagi eins og til stóð og valdið fjárhagsörðugleikum hjá Byggingarfélaginu Firði ehf.

Borin voru undir ákærða framlögð skjöl sem sýna yfirlit yfir innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt fyrir þau tímabil sem getur um í ákæru. Ákærði kvaðst kannast við þær fjárhæðir sem þar koma fram en kvaðst ekki muna eftir að skýrslum hafi ekki verið skilað og taldi að svo hefði verið gert. Hafi bókhald félagsins verið afhent skattrannsóknarstjóra á sínum tíma og hann ítrekað bent rannsakendum á að félagið ætti innskatt á móti framangreindum útskatti fyrir önnur tímabil en ekki hafi verið tekið tillit til þess. Aðspurður kvað hann uppruna þess efnis sem væri tilefni þeirra sölureikninga sem mál þetta snérist um vera frá árinu 2006-2007. 

III

Til stuðnings því að sakfella beri ákærða fyrir brot þau sem um getur í ákæru hefur ákæruvaldið bent á að ekkert sé fram komið um að fjárhæðir málsins séu ekki réttar. Brotin séu meiriháttar og fullframin þegar virðisaukaskattsskýrslu og/eða skatti var ekki skilað á réttum tíma óháð því hvort þá var búið að innheimta þá reikninga sem um ræði og óháð því hvort önnur virðisaukaskattstímabil hafi ekki verið til rannsóknar. Ákærði hafi játað að hafa verið daglegur stjórnandi Byggingarfélagsins Fjarðar ehf. á því tímabili sem ákæran taki til og hafi því verið ígildi framkvæmdarstjóra. Hafi honum borið að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og greiðslum fyrir hönd félagsins, enda hafi hann farið með raunverulega stjórn félagsins skv. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Ekki skipti máli um refsinæmi brotsins að ríkisskattstjóri hafi ekki endurákvarðað þá skattstofna sem ákæra málsins byggist á. Þá liggi fyrir gögn og reikningar á bak við hverja fjárhæð í ákæru sem stafi frá Byggingarfélaginu Firði ehf. og hafi ákærði staðfest að þeir reikningar séu réttir.

Ákærði telur að rannsókn málsins hafi verið of takmörkuð og einskorðast við þau tímabil sem í ákæru greini. Hafi rannsóknin upphaflega snúist um meinta tilhæfulausa reikninga á milli tveggja félaga en þegar sú rannsókn hafi ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós hafi niðurstaðan orðið sú að leggja útskatt á Byggingarfélagið Fjörð ehf. án frekari skoðunar á bókhaldi þess félags. Í málinu lægi fyrir reikningur sem hafi verið hafnað af ríkisskattstjóra og hefði átt að koma til frádráttar þeirri fjárhæð sem ákært væri fyrir. Hafi ákærði ekki átt þess kost að koma að sínum málsástæðum eða andmælum eða að leggja fram kostnaðarreikninga á móti þeim fjárhæðum sem um geti í ákæru auk þess sem uppruni þeirra vara hefði getað veitt rétt til innskatts. Einungis skiptastjóri í þrotabúi Byggingarfélagsins Fjarðar ehf. gæti sent inn virðisaukaskattsskýrslur fyrir hönd félagsins en hafi ekki orðið við því. Stofn til útreiknings útskatts lægi því ekki fyrir. Hefðu þær skýrslur hugsanlega getað leitt í ljós upplýsingar sem gætu leitt jafnt til sektar og/eða sýknu. Þá kom fram hjá ákærða að ákærufjárhæðir væru ekki grundvallaðar með endurákvörðun á skattstofni hjá ríkisskattstjóra og það stæði ekki til og af þeirri ástæðu gætu engin vanskil hafa átt sér stað.

IV

Ákærði telur að hann hafi ekki átt þess kost að koma að andmælum, málsástæðum og kostnaðarreikningum í málinu. Fyrir liggja í málinu skýrslur teknar af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra þann 10. september 2013, 7. febrúar 2014 og 21. febrúar 2014. Með bréfi skattrannsóknarstjóra dags. 20. júní 2014 var ákærða gefinn kostur á því að andmæla niðurstöðum rannsóknar. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, bárust andmæli frá þáverandi lögmanni ákærða. Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 22. október 2014, var ákærða tilkynnt um lok rannsóknar. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2014, voru gerðar athugasemdir fyrir hönd ákærða af þáverandi lögmanni hans. Þann 12. mars 2015 mætti ákærði í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara, ásamt þáverandi verjanda hans. Með vísan til þessa er ekki fallist á það með ákærða að honum hafi ekki gefist kostur á því að koma að málsástæðum eða andmælum í málinu og hafi ekki gefist kostur á því að leggja fram kostnaðarreikninga á móti útskatti í ákæru.

Ákærði telur rannsókn málsins afar takmarkaða og að rannsóknaraðilum hefði borið að rannsaka önnur og fyrri tímabil hjá Byggingarfélaginu Firði ehf. m.t.t. innskattsmöguleika vegna uppruna þess efnis og tækja sem félagið seldi á árunum 2011 og 2012. Ákærði benti á að tækin og efnið ætti rót að rekja til ársins 2006-2007 og í málinu var einnig nefnt árið 2008. Samkvæmt gögnum málsins var Byggingarfélagið Fjörður ehf. ekki sett á virðisaukaskattsskrá fyrr en 1. mars 2010 og eftir það er félagið tímabundið af og á skrá. Framlagðir ársreikningar fyrir Byggingarfélagið Fjörð ehf. sýna að félagið átti engar eignir eftir árið 2009. Ákærði gaf einnig þá skýringu í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara þann 12. mars 2015 að sala á efni hafi mest átt sér stað árið 2010 þó svo að reikningar hafi ekki verið gefnir út fyrr en 2011 og 2012.

Ákærði bar að hafa ítrekað óskað eftir því við skiptastjóra að telja fram fyrir hönd þrotabúsins. Fram kemur í gögnum frá skattrannsóknarstjóra að aflað hafi verið bókhaldsgagna fyrir Byggingarfélagið Fjörð ehf. hjá skiptastjóra og hafi hann afhent eina möppu merkta „FJÖRÐUR 2010“, þar sem hvorki voru hreyfingarlistar né afrit fylgiskjala. Ákærði gaf þá skýringu hjá skattrannsóknarstjóra að ársreikningar félagsins hafi í raun ekki verið rangir en það hafi ekki legið fyrir réttar forsendur. Af framangreindu verður ekki ráðið um meintan uppruna efna og tækja. Verður ekki séð að frekari rannsókn á bókhaldi áranna 2006-2008 hefði getað leitt annað í ljós en þegar lá fyrir í ársskýrslum, enda eru skýrslurnar og skil þeirra á ábyrgð ákærða sem einn getur skýrt hvers vegna ekki hafi legið fyrir réttar forsendur og/eða gögn.

Þá hefur ákærði gefið margar og ótrúverðugar skýringar í skýrslutökum hjá rannsakendum um hver hafi verið raunverulegur eigandi eða umráðamaður þeirra tækja og efnis sem um ræðir. Reikningur útgefinn 30. desember 2008 af félaginu Stál í stál á hendur Byggingarfélaginu Firði ehf., að fjárhæð 182.977.315 krónur, sem bent var á að myndi skýra uppruna efnis og tækja í eigu Byggingarfélagsins Fjarðar ehf., verður á engan hátt skýrður sem reikningur fyrir sölu tækja heldur er um að ræða uppgjör á verksamningi jafnframt því sem ákærði bar í skýrslum hjá skattrannsóknarstjóra að Stál í stál hafi aldrei átt neinar eigur en ákærði var eigandi og jafnframt stjórnarmaður þess félags og var það tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2009.

Í máli ákærða kom fram að ekki hafi verið tekið tillit til framangreinds reiknings dags. 30. desember 2008, útgefnum af félaginu Stál í stál á hendur Byggingarfélaginu Firði ehf. Byggingarfélagið ætti því inni innskatt að fjárhæð um 10.000.000 króna og  ætti sú fjárhæð að koma til frádráttar ákærufjárhæðum þessa máls. Ekki var útskýrt hvers vegna 10.000.000 króna ættu að koma til frádráttar af reikningi sem nemur 182.977.315 krónur. Þegar ákærði var spurður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra þann 7. febrúar 2014 hvort Byggingarfélagið Fjörður ehf. hafi greitt reikninginn, svaraði ákærði því neitandi. Ljóst er því að reikningurinn gat ekki komið til skoðunar um innskatt. Í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara þann 12. mars 2015 var ákærði spurður út í sama reikning og svaraði hann þá eftirfarandi: „... reikningurinn sem slíkur, sko hann ég hef í rauninni ekkert með að gera, þó ég hafi gert hann. Það var bara þannig, ég mér var bara sagt að skrifa þennan reikning og ég skildi aldrei af hverju ég skrifaði hann ... og ég spurði hann bara hreinlega hvort ég færi ekki bara í fangelsi ef ég skrifaði þennan reikning.“ Ekki þykir tilefni til þess að líta til framangreinds reiknings til frádráttar ákærufjárhæðum.

Fyrir liggur í málinu og ekki um það deilt að umræddir reikningar fyrir sölu tækja og efnis voru gefnir út af Byggingarfélaginu Firði ehf. Ákærði hefur borið fyrir dómi að hafa verið stjórnarmaður og daglegur stjórnandi þess félags og haft með fjármálastjórn félagsins að gera og gefið fyrirmæli um útgáfu reikninganna. Einnig hafi skattskil félagsins verið í hans höndum, þar á meðal gerð virðisaukaskattsskýrslna. Er því fallist á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi verið daglegur stjórnandi og farið með stjórn félagsins skv. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá hefur ákærði fyrir dómi þekkst þær fjárhæðir sem um ræðir í þessu máli sem réttar.

Ákærði taldi að skýrslum sem ekki var skilað hefði verið skilað og kvaðst ekki átta sig á því hvers vegna öðrum skýrslum hefði ekki verið skilað á réttum tíma. Þá hafi ástæðan fyrir því að virðisaukaskattur hafi ekki verið greiddur verið vegna ytri aðstæðna. Ákærði vissi því eða mátti vita að skýrslum og greiðslum var ekki skilað. Verða saknæmisskilyrði 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga um ásetning og stórfellt gáleysi, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ásamt síðari breytingum, talin uppfyllt samkvæmt framangreindu.

 Refsinæmi brota gegn framangreindum lagaákvæðum er ekki háð því að endurálagning hafi farið fram hjá ríkisskattstjóra. Fyrir liggur í málinu að ríkisskattstjóri muni ekki leggja þessar fjárhæðir á Byggingarfélagið Fjörð ehf., enda sé félagið þrotabú, kröfulýsingarfresti hafi lokið þann 19. júní 2013 og því engin efni til endurálagningar, sbr. 6. mgr. 103. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Á það er fallist með ákæruvaldinu að brot ákærða hafi verið fullframið í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt þegar skýrslum var ekki skilað á réttum tíma og/eða greiðsla var ekki innt af hendi á réttum tíma. Sú fjárhæð sem um getur í ákæru er meiri háttar og eru brot ákærða því réttilega heimfærð undir 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998 eins og í ákæru greinir.

V

Refsing

Ákærði er fæddur í mars árið 1962. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður, sem ber að virða honum til málsbóta. Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi sem verður með vísan til sakaferils ákærða bundin skilorði eins og í dómsorði segir.

Ákærði verður samhliða skilorðsbundinni refsingu dæmdur til greiðslu sektar skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum. Þykir rétt að miða sekt við lögbundið lágmark, eða tvöfalda skattfjárhæð af þeirri fjárhæð sem vangreidd var, eða samtals 82.000.000 króna. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. 

VI

Sakarkostnaður

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða, í ljósi niðurstöðu dómsins, gert að greiða sakarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Davíðs Guðmundssonar hdl., sem hæfileg þykja eins og í dómsorði getur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki verður séð að annar sakarkostnaður hafi fallið til vegna málsins. 

Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð

Ákærði, Benedikt Sveinsson, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 82.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Davíðs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 450.120 krónur.