Print

Mál nr. 52/2017

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Marteini Jóhannssyni (Jón Egilsson hrl., Guðmundur St. Ragnarsson hdl. 1. prófmál)
, (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
Reifun
M var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ofbeldi, hótunum og annars konar ólögmætri nauðung þvingað A, er hún var 17 ára, til að hafa við sig munnmök. Við ákvörðun refsingar var litið til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og a. liðar 195. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem honum var gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. sömu laga og eldri dómur tekinn upp með vísan til 60. gr. laganna. Var refsing M ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Þá var honum gert að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að „Hæstiréttur meti fjárhæð bótanna.“

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæðis, einkaréttarkröfu og sakarkostnað.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber samkvæmt a. lið 195. gr. laganna að virða það til þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára en brotaþoli var 17 ára þegar ákærði braut gegn henni. Sakaferli ákærða er lýst í hinum áfrýjaða dómi og með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dóms sem hann hlaut 20. júlí 2015 þar sem hann var dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið. Að framangreindu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi þrjú ár og sex mánuðir.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði, Marteinn Jóhannsson, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 829.497 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 10. nóvember 2016, er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 6. september 2016, á hendur Marteini Jóhannssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir nauðgun, með því að hafa í september árið 2014, í íbúð að [...] í Reykjavík, haft kynferðismök við A, kt. [...], gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung en ákærði þvingaði A til að hafa við sig munnmök og hótaði því að raka af henni hárið ef hún veitti honum ekki munnmök og hélt ákærði um höfuð hennar og ýtti henni að getnaðarlim sínum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. október 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er krafist sýknu af bótakröfu í málinu. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

      Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 12. desember 2014, var beiðst lögreglurannsóknar vegna meints kynferðisbrots ákærða gagnvart brotaþola, A, sem þá var 17 ára gömul. Í bréfinu kemur fram að mál stúlkunnar hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd frá fæðingu hennar og færi barnaverndarnefnd með forsjá hennar. Hún hefði verið í varanlegu fóstri frá fimm mánaða aldri. Undanfarin ár hefði mikið verið unnið með stúlkunni vegna áhættuhegðunar sem hún hefði sýnt af sér í tengslum við vímuefnaneyslu og félagsskap sem hún sækti í. Hún hefði verið vistuð á meðferðarheimili um eins og hálfs árs skeið. Þá væri vitað til þess að hún hefði verið í félagsskap eldri manna, sem eigi langan feril vegna vímuefnaneyslu og afbrota. Starfsmaður Barnaverndar hefði staðfestar upplýsingar um að stúlkan hefði orðið fyrir nauðgun af hálfu ákærða um miðjan septembermánuð þetta ár. Atvikið hefði átt sér stað í húsnæði í [...], þar sem ákærði hefði haft búsetu, ásamt fleiri mönnum. Ákærði hefði haft í hótunum við stúlkuna í vitna viðurvist, þar sem hún hafi átt að hafa hleypt einhverjum með sér inn í húsnæðið sem hefði lent í slagsmálum við ákærða. Ákærði hefði hótað stúlkunni að hann myndi raka af henni allt hárið ef hún bætti ekki fyrir þetta. Hann hefði því næst dregið hana óviljuga inn á baðherbergi, skipað henni að hafa við sig munnmök og sagt að hann myndi raka af henni hárið ef hún hlýddi ekki. Hún hefði ekki þorað annað en að hlýða þar sem hann hefði verið með rakvél í fórum sínum. Ákærði hefði reiðst þegar hann tók eftir því að hún var grátandi og hefði hann í kjölfarið nauðgað henni.

A gaf skýrslu hjá lögreglu 5. janúar 2014. Hún kvaðst kvöldið sem um ræðir hafa verið að aka bílaleigubifreið og hefðu frændi hennar, B, og vinur hans, sem kallaður væri C, verið farþegar í bifreiðinni, ásamt vinkonu hennar, D. Ákærði hefði hringt í hana og skipað henni að skila sér bifreiðinni, en hann hefði þá verið staddur í húsnæðinu í [...]. Hún hefði farið þangað, rætt við ákærða inni í herbergi og skilað honum bíllyklunum. Þegar þau komu fram úr herberginu hefðu B og C verið komnir inn í íbúðina. Ákærði hefði þá ráðist á C og hefði allt verið í blóði eftir atlöguna. B og C hefðu hlaupið út eftir þetta, en ákærði hefði farið að kenna henni um komu þeirra. Hann hefði sótt rakvél inn á baðherbergi, haldið henni upp við hárið á henni og sagst ætla að raka það af henni. Þá hefði hann sagt henni að koma með sér inn á baðherbergið og hefði hún fylgt honum þangað. Þar hefði hann spurt hana hvers vegna hún væri ekki búin að sofa hjá honum, en hún hefði sagt að hún vildi bara að þau væru vinir. Þá hefði ákærði sagt við hana að ef hún vildi að hann yrði glaður yrði hún að sjúga hann. Hún hefði neitað því en hann hefði þá haldið uppi rakvélinni og sagst myndu raka af henni hárið ef hún gerði það ekki. Brotaþoli lýsti því sem gerðist næst þannig: „Og lætur mig bara sjúga sig og síðan þú veist svo næ ég að fara af og hann eitthvað hvað ertu með svona tár af hverju ertu með tár í augunum? Og ég bara eitthvað því ég vil þetta ekki ég er búin að segja nei fokking oft.“ Þá hefði ákærði snúið henni við, hótað að raka af henni hárið og girt niður um hana „til þess að geta klárað þannig“. Hún hefði eftir þetta farið út af baðherberginu og yfirgefið íbúðina eins fljótt og hún gat og hefði D farið með henni. Nokkrum dögum síðar hefði hún sagt D og E, vinkonu sinni, frá því sem hefði gerst inni á baðherberginu.

Brotaþoli lýsti þessu nánar þannig að ákærði hefði látið hana „sjúga sig“ með því að halda höfðinu á henni og hefði hann hótað að raka hana með rakvélinni á meðan á því stóð. Þetta hefði staðið í nokkrar mínútur. Síðan hefði hún sest upp og hann þá spurt hana af hverju hún væri með tár í augunum. Hann hefði síðan sagt henni að snúa sér við, annars myndi hann raka af henni hárið. Hún hefði snúið sér við og hefði hann þá sagt henni að taka niður um sig buxurnar, annars myndi hann raka af henni hárið. Hún hefði tekið niður um sig buxurnar, en verið í nærbuxum og hefði ákærði því næst fróað sér þar sem hún sneri við honum baki. Hún hefði vitað að hann var að fróa sér vegna þess að hann hefði sagt henni það og hún hefði einnig heyrt það. Hann hefði síðan sagt við hana að nú liði honum vel og taldi hún að hann hefði „knúsað“ hana áður en hún yfirgaf baðherbergið. Hún kvaðst margoft hafa gefið honum til kynna að hún vildi ekki þessi samskipti. Hún hefði sagt: „Nei ég vil þetta ekki, ég vil þetta ekki“ og hann hefði alltaf verið að spyrja hana af hverju hún vildi þetta ekki. Á meðan hann var að láta hana sjúga sig hefði hann haldið höfði hennar þannig að hún hefði ekki getað losað það. Hún hefði hætt þegar hann losaði takið.

Brotaþoli lýsti því jafnframt að ákærði hefði einhverju síðar sent henni símaskilaboð og skilaboð á facebook þar sem hann hefði beðið hana afsökunar. Það hefði verið eftir að hann vissi að fólk var búið að frétta af því sem hefði gerst. Við skýrslutökuna sýndi hún umrædd skilaboð í símanum sínum og liggur fyrir ljósmynd af þeim. Á myndinni sést að 6. nóvember 2014 hafi eftirfarandi skilaboð verið send frá símanúmerinu [...]: „Eg aetla ad bidja tig fyrirgefningar ef ter finnst eg hafa gert eh rangt a tinn hlut, og eg bid afsokunar tig bara innilega afsokunar ef svo er. ... tinn vinur marteinn [...].“

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. febrúar 2015 og neitaði hann að hafa framið kynferðisbrot gagnvart A. Hann kvað þau hafa verið vini um nokkurt skeið og hefðu verið einhverjir kossar og kynferðismök á milli þeirra í ágúst og september 2014, en það hefði allt verið með samþykki hennar. Atvikið í september hefði verið þannig að hún hefði dregið hann inn á baðherbergi, lokað hann þar inni og haft við hann munnmök. Þau hefðu síðan haldið áfram að skemmta sér. Spurður hvernig hún hefði dregið hann inn á baðherbergið sagðist hann hafa verið pirraður, en hún hefði sagt við hann: „Komdu Marteinn, komdu og talaðu við mig.“ Það hefði verið talsvert af fólki í íbúðinni þegar þetta gerðist, eða um tíu manns. Frændi A og annar strákur, B og C, hefðu komið þarna óboðnir inn og kvaðst ákærði hafa hent B út. Þá kvað hann A hafa gist hjá sér þessa nótt. Hann kvaðst hafa verið með rakvél frammi þar sem hann hefði verið að raka af sér skeggið, en hafa skilið hana eftir á borði áður en hann fór inn á baðherbergið. Hann kvaðst áður hafa tekið upp rakvélina og sagt „eitthvað svona í fljótheitum“ að honum fyndist að það ætti að raka á henni hausinn „fyrir að koma með svona bull inn“. Það hefði engin meining verið á bak við það. Þá kvað hann A hafa klætt hann úr buxunum áður en hún hafði við hann munnmök inni á baðherberginu.

Ákærða var sýnd ljósmynd af símaskilaboðum sem A höfðu borist, sem að framan greinir. Hann kannaðist við að hafa sent þau og kvaðst hafa gert það eftir að maður að nafni F hefði hótað honum með skammbyssu vegna þess að A hefði sagt honum að hann hefði nauðgað henni.

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá sér í [...] umrætt kvöld. Hann hefði ætlað að fara að raka sig þegar hann heyrði hávaða frammi og hefði brotaþoli þá verið komin þar inn með tveimur mönnum. Hann kvaðst hafa orðið mjög pirraður yfir þessu og rekið mennina út. Þá hefði brotaþoli endilega viljað tala við hann. Hann hefði játað því og hefði hún tekið hann með sér inn á baðherbergi. Hún hefði verið að biðja hann afsökunar á því sem hefði gerst og viljað að þau sættust. Ákærði kvaðst hafa setið á stól inni í baðherberginu og haft hendur niður með síðum, en brotaþoli hefði farið niður á hnén og haft við hann munnmök. Þetta hefði verið að hennar frumkvæði. Síðan hefðu þau farið aftur fram og haldið áfram að skemmta sér. Hann kvað þau áður hafa haft kynferðisleg samskipti fyrir þetta atvik. Þá kvaðst hann hafa verið hrifinn af stúlkunni og hefði hann haldið að það væri gagnkvæmt.

                Nánar spurður kvað ákærði ástæðu þess að brotaþoli fór með honum inn á baðherbergið hafa verið þá að hann hefði verið pirraður yfir því að hún hefði komið með þessar boðflennur. Hann hefði sagt við hana að hann væri reiður yfir þessu. Hann neitaði því að hafa hótað henni að raka af henni hárið og kvaðst hafa skilið rakvélina eftir á hátalara frammi í íbúðinni þegar hann fór inn á baðherbergið. Hann lýsti rakvélinni sem skeggsnyrti. Þá kvað hann brotaþola hafa haldið áfram að skemmta sér í íbúðinni eftir atvikið á baðherberginu, og hefði hún verið þarna í tvo eða þrjá tíma um nóttina. Hann kvað hana hafa haft frumkvæði að því sem gerðist inni á baðherberginu. Hún hefði leitt hann inn á baðherbergið og dregið niður um hann buxurnar. Hann kvaðst aldrei hafa komið við hana á meðan á þessu stóð og ekki hafa haldið um höfuð hennar. Þá neitaði hann því að hafa fróað sér á meðan stúlkan sneri við honum baki.

Ákærði kannaðist við að hafa sent brotaþola símaskilaboð, sem að framan greinir. Hann kvaðst hafa beðið hana afsökunar ef hann hefði gert eitthvað á hennar hlut þar sem hann hefði vitað að hún væri pirruð út í hann. Það hefði hins vegar ekki tengst þessu atviki. Spurður um það sem kom fram hjá honum við yfirheyrslu hjá lögreglu, að hann hefði sent skilaboðin eftir að nafngreindur maður hefði hótað honum með byssu, kvað hann það atvik hafa gerst síðar.

                Ákærði kvað ekki vera rétt að hann hefði haft orð á því að raka höfuðið á brotaþola, eins og hann hafði borið um við yfirheyrslu hjá lögreglu. Þá kvaðst hann aldrei hafa átt sköfurakvél, eins og þar hefði verið lýst. Hann kvaðst hafa verið í neyslu á þessum tíma og hefði hann verið illa fyrirkallaður þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst telja sig muna atvik betur við skýrslugjöf við aðalmeðferðina.    

A kvað þau ákærða hafa verið vini og neyslufélaga. Hún kvaðst þetta kvöld hafa verið að aka bílaleigubifreið þegar ákærði hefði hringt í hana og sagt henni að skila lyklunum að bifreiðinni. Hún hefði farið heim til hans og hefðu B, frændi hennar, og C, vinur hans, fylgt á eftir henni inn í íbúðina. Ákærði hefði barið C og síðan farið að kenna henni um það sem gerst hefði. Hann hefði tekið hana inn á baðherbergi, læst hana þar inni og hótaði að raka af henni hárið ef hún hefði ekki við hann munnmök. Ákærði hefði verið með rafmagnsrakvél þegar þetta var og hefði hann tekið hana með sér inn á baðherbergið. Þar hefði hann hótað henni ítrekað, en hún hefði tárast og beðið hann um að gera þetta ekki. Hann hefði dregið niður um sig buxurnar og síðan látið hana veita sér munnmök þar sem hann sat á salerninu og hefði hún verið grátandi á meðan á því stóð. Hann hefði haldið höfði hennar á meðan hún hafði við hann munnmök og hefði hún notað tækifærið og hætt munnmökunum þegar hann losaði takið á henni. Þá hefði hann beðið hana um að girða niður um sig og standa upp við vegg á meðan hann fróaði sér. Hún kvaðst hafa yfirgefið íbúðina eftir að hún kom fram af baðherberginu og hefði D, vinkona hennar, farið með henni. Hún kvað ákærða oft áður hafa reynt að hafa við hana kynferðismök, en hún hefði alls ekki verið hrifin af honum. Þau hefðu aldrei átt í kynferðislegum samskiptum fyrir þetta atvik. Hún hefði hvorki viljað hafa við hann munnmök í umrætt sinn né gefið neitt slíkt í skyn. Þegar þau voru inni á baðherberginu hefði hún neitað og neitað og verið grátandi, en hann hefði hótað að raka af henni hárið og verið með rakvélina þar inni. Hún kvaðst í fyrstu ekki hafa gert sér grein fyrir því að þetta væri nauðgun og skýrði hún það með því að hún hefði verið í svo „ógeðslega brengluðu umhverfi“ á þessum tíma. Hún hefði hins vegar gert sér grein fyrir því daginn eftir að brotið hefði verið á henni þegar hún sagði vinkonum sínum, D og E, frá því sem gerst hafði.

G kvaðst hafa verið í íbúðinni í umrætt sinn. Þar hefðu orðið slagsmál og öllum verið mjög heitt í hamsi. Hann kvaðst hafa verið „mjög ruglaður á því“ og muna það eitt að ákærði hefði sagst ætla að raka hárið af brotaþola. Ákærði hefði orðið reiður eftir að komið hefði til átaka við menn sem komu þarna óboðnir og hefði hann í kjölfarið sagt við brotaþola að hann ætlaði að raka af henni hárið. Hann hefði sagt þetta nokkrum sinnum. Vitnið kvaðst þó ekki hafa séð ákærða með rakvél. Ákærði og brotaþoli hefðu farið saman inn á baðherbergi og verið þar í um tíu mínútur. Vitnið kvaðst hafa yfirgefið íbúðina fljótlega eftir þetta og farið heim á bílaleigubílnum. Brotaþoli hefði komið með honum. Nánar spurður kvaðst hann ekki alveg viss hvað tímanum leið, en verið gæti að þau hefðu yfirgefið íbúðina um einum eða tveimur klukkustundum eftir að brotaþoli kom fram af baðherberginu. Hún hefði ekki nefnt þegar hún kom út þaðan að ákærði hefði gert henni eitthvað. Borin voru undir vitnið eftirfarandi ummæli sem höfð voru eftir honum í lögregluskýrslu: „[G] kvaðst muna eftir því að Marteinn var að hóta að raka hárið af [A] og hann hefði haldið í hana og farið með hana inn á bað og verið þar í 15 til 20 mínútur. [G] kvaðst hafa séð á [A] að hún væri hrædd þegar Marteinn fór með hana inn á bað. [G] kvaðst ekki hafa fylgst með þegar þau komu út af baðinu en hann vissi að einhverjir hefðu reynt að stoppa Martein af þegar hann fór með hana inn.“ Fyrir dóminum kvaðst vitnið telja að H, sem þarna hefði verið staddur, hefði verið að segja við ákærða að hann ætti ekki að raka af henni hárið. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa trúað því að ákærði myndi gera þetta.

I kvaðst ekki hafa orðið vitni að ósætti í samkvæminu. Hún hefði þó orðið vör við að eitthvað væri í gangi. Ákærði og brotaþoli hefðu farið að tala saman inni á baðherbergi. Þau hefðu komið út aftur um fimm mínútum síðar og þetta hefði ekki verið neitt mál. Hún kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði verið reiður eða æstur eða haft í hótunum við brotaþola. Hann hefði verið með rafmagnsrakvél, en skilið hana eftir inni í eldhúsi þegar þau brotaþoli fóru inn á baðherbergið. Hann hefði haft orð á því í gríni hvort hann ætti að raka af henni hárið. Hún lýsti rakvélinni sem ákærði var með þannig að þetta hefði verið „svona rakvél til að raka á sér hárið“. Vitnið kvaðst ekki hafa upplifað það svo að A væri óttaslegin þegar hún kom fram af baðherberginu. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að slagsmál hefðu orðið þarna fyrr um kvöldið.

Vitnið gaf símaskýrslu við lögreglurannsókn málsins og liggur fyrir hljóðupptaka af henni. Fyrir dóminum voru borin undir hana eftirfarandi ummæli sem höfð voru eftir henni í skýrslunni: „[I] sagði að eitthvað ósætti hefði verið á milli [A] og Marteins. [I] sagði að Marteinn hefði sagt við [A] að hann ætlaði að raka af henni hárið. Hann hefði síðan gripið rakvél og dregið [A] með sér inn á bað og læst hurðinni. [I] sagði að Marteinn hefði haldið [A] inni á baði um 30-40 mínútur. [I] sagði að Marteinn hefði látið renna frá krananum inni á baði þannig að enginn heyrði hvað fór fram. Aðspurð hvort [A] hafi sjálf farið með Marteini inn á bað sagði [I] að hún hefði greinilega verið smeyk. [I] sagði að þegar [A] kom út af baðinu hafði hún litið út fyrir að vera skelkuð og hefði hún fljótlega yfirgefið húsnæðið.“ Vitnið kvað ekki vera rétt að ákærði og brotaþoli hefðu verið í 30 til 40 mínútur inni á salerninu. Þá hefði ákærði hvorki tekið með sér rakvélina inn á baðherbergið, né hefði hann dregið brotaþola þangað. Allir hefðu heyrt að vatn var látið renna inni á baðherberginu en hún kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvort það hefði verið í því skyni að ekki heyrðist hvað þar fór fram. Þá kvaðst hún ekki kannast við annað sem haft væri eftir henni í skýrslunni. Hún kvað enga sérstaka ástæðu vera fyrir breyttum framburði sínum fyrir dóminum og neitaði því að einhver hefði rætt þetta mál við hana. Hún kvaðst jafnframt vera ósátt við að þurfa að bera vitni í málinu, þar sem hún vissi ekkert um það. 

                H kvaðst hafa verið undir miklum vímuefnaáhrifum í umrætt sinn. Hann kvaðst muna eftir því að ákærði og brotaþoli hefðu farið að spjalla saman inni á baðherbergi. Þá geti verið að slagsmál hafi orðið eftir að einhverjir menn ruddust þarna inn. Hins vegar hefði ekki verið ósætti á milli brotaþola og ákærða. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa séð ákærða með rakvél og hefði hann verið ósköp rólegur. Vitnið kvaðst hafa fengið far heim með G þessa nótt og hefði brotaþoli verið með þeim í bifreiðinni og komið með honum heim. Þetta hefði verið rétt eftir atvikið á baðherberginu. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í fari brotaþola og ekki séð nein tár.

Fram kom hjá vitninu að hann væri nú kærasti vitnisins I. Hann kvað einhvern mann á vegum brotaþola hafa hringt í I skömmu eftir þetta atvik og haft í hótunum vegna einhvers sem hann hefði átt að hafa sagt. Nánar spurður kvað hann manninn hafa verið að biðja I um að ljúga því að ákærði hefði verið að „gera þetta“ við brotaþola. 

D kvaðst hafa verið með brotaþola þetta kvöld og komið með henni í húsnæðið í [...]. Það hefði orðið rifrildi út af bíllyklum eða fíkniefnum sem hefðu horfið og hefði ákærði hótað að raka hárið af þeim brotaþola báðum. Hann hefði sagt að brotaþoli ætti að vera fyrst og tekið hana inn á baðherbergi. Hún kvaðst ekki muna hvað þau voru lengi þar inni, en þær hefðu yfirgefið húsnæðið fljótlega eftir að hún kom út og farið þaðan í bifreið. Það hefði svo verið daginn eftir að brotaþoli hefði sagt henni að ákærði hefði látið hana hafa við sig munnmök gegn vilja hennar. Vitnið kannaðist við það sem hafði komið fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu, að ákærði og brotaþoli hefðu verið í hálftíma eða klukkutíma inni á baðherberginu og enginn hefði þorað að banka til að reka á eftir brotaþola því að ákærði hefði verið í brjáluðu skapi. Hún kvað brotaþola ekki hafa sýnt miklar tilfinningar þegar hún sagði henni frá þessu, en hún væri ekki vön að láta það í ljós þegar henni liði illa. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti vitnið þessu svo að líðan brotaþola hefði ekki verið góð, en hún sýndi þó ekki alltaf hvernig henni liði.

E kvaðst hafa hitt brotaþola daginn eftir atvikið með D. Brotaþoli hefði sagt henni að ákærði hefði ætlað að raka af henni hárið ef hún veitti honum ekki munnmök og hefði hún gert það. Brotaþola hefði liðið mjög illa og kvaðst vitnið aldrei hafa séð hana svona áður. Vitnið kvaðst hafa sagt við brotaþola að hún yrði að kæra þetta, en henni hefði ekki dottið í hug að gera það. Hún hefði verið ung og í neyslu og í þannig stöðu kæri maður ekki. Hún hefði þó gert sér grein fyrir því að þetta hefði verið rangt eftir samtalið við þær D.            

J, félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur, ritaði kærubréf til lögreglu, sem að framan greinir. Hún kvað brotaþola hafa verið í neyðarvistun á meðferðarheimilinu að Stuðlum í [...] 2014 vegna mikillar fíkniefnaneyslu. Hefði brotaþoli greint vitninu frá þessu atviki á meðan á þeirri dvöl stóð. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola lengi og það væri ekki líkt henni að bera slíkt upp á nokkurn mann, en hún hefði verið frekar lokuð um sín mál og tilfinningar. Þá lýsti vitnið því að brotaþoli hefði grátið mikið þegar hún sagði henni frá þessu, sem hefði einnig verið ólíkt henni. Vitnið kvað brotaþola hafa farið í mikla neyslu í kjölfar þessa atviks. Henni hefði verið boðin sálfræðimeðferð vegna málsins, en hún hefði ekki viljað þiggja hana.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann kannast við að hafa haft kynferðismök við brotaþola í umrætt sinn, en kveður það hafa verið með samþykki hennar og að hennar frumkvæði. Brotaþoli ber hins vegar að ákærði hafi þvingað hana til að hafa við sig munnmök með því að hóta að raka af henni hárið og halda um höfuð hennar á meðan á kynferðismökunum stóð.

Brotaþoli kveður ákærða hafa kennt sér um að komið hafi til átaka í íbúðinni og hefði hann hótað henni með rakvélinni í kjölfar þess. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa haft á orði að það ætti að raka höfuð brotaþola, en hann hefði sagt þetta „í fljótheitum“ og engin meining verið þar að baki. Við aðalmeðferð málsins neitaði hann hins vegar að hafa sagt þetta við brotaþola, en kannaðist við að hafa verið með rakvél áður en þau fóru inn á baðherbergið og að hafa orðið reiður vegna þess að hún hefði komið með óboðna gesti. Fyrir liggur að ákærði lenti í átökum við annan piltanna sem voru í fylgd með brotaþola og báru vitnin G og D að hann hefði reiðst henni vegna þessa. Vitnin lýstu því jafnframt að hann hefði í kjölfarið hótað að raka hárið af brotaþola. Vitnið I bar einnig um það fyrir dóminum að ákærði hefði haft þetta á orði. Framburður brotaþola um að hún hafi nauðug fylgt ákærða inn á baðherbergið fær stuðning í framburði vitnisins D. Hið sama verður ráðið af lýsingum vitnanna G og I við skýrslutöku hjá lögreglu, en hljóðupptökur af skýrslunum liggja fyrir í málinu. Um skýrslu þeirrar síðarnefndu er það að segja að hún bar mjög á annan veg um atvik fyrir dóminum og voru skýringar hennar á breyttum framburði ekki trúverðugar að mati dómsins.

Ákærði hefur borið að brotaþoli hafi haldið áfram að skemmta sér eftir að þau komu fram af baðherberginu og lýsti hann því hjá lögreglu að hún hefði gist í íbúðinni um nóttina. Sá framburður samrýmist ekki framburði brotaþola, D, G og H, sem kváðust hafa yfirgefið samkvæmið fljótlega eftir að brotaþoli kom fram af baðherberginu. Þá liggur fyrir að ákærði sendi brotaþola símaskilaboð, þar sem hann baðst afsökunar ef henni þætti hann hafa gert eitthvað á hennar hlut. Hefur ákærði gefið misvísandi skýringar á tilefni þess að hann sendi skilaboðin, svo sem að framan er rakið.

Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem átti sér stað inni á baðherberginu í umrætt sinn. Til þess er þó að líta að framburður brotaþola hefur verið á einn veg um þau atriði sem máli skipta og fær frásögn hennar jafnframt stuðning í framburði vitna, sem rakinn hefur verið. Á hinn bóginn hefur ákærði ekki verið samkvæmur sjálfum sér í lýsingum á atvikum, auk þess sem þær samrýmast ekki að öllu leyti frásögn vitna á vettvangi. Þá þykir framburður vitnanna D, E og J, um samskipti við brotaþola eftir atburðinn og líðan hennar, styðja frásögn brotaþola um að hún hafi ekki verið samþykk kynferðismökunum. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar í málinu, en hafna framburði ákærða sem ótrúverðugum. Þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi þvingað brotaþola til kynferðismaka með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, eins og lýst er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...] 1984. Samkvæmt sakavottorði var hann 1. mars 2004 dæmdur til 45 daga fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í eitt ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þann 4. júní 2012 var hann dæmdur til tveggja mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. sömu laga og fíkniefnalagabrot. Þann 19. febrúar 2015 var hann dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, en framangreindur skilorðsdómur frá árinu 2012 var þá dæmdur upp. Ákærði gekkst tvívegis undir sektargerðir árið 2015 vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði. Loks var hann dæmdur 20. júlí 2015 til átta mánaða fangelsisrefsingar, þar af sex mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir nauðgunarbrot gagnvart 17 ára gamalli stúlku, en hann var þrítugur að aldri þegar brotið var framið. Við ákvörðun refsingar verður litið til ákvæða 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður skilorðsbundinn hluti refsidómsins frá 20. júlí 2015 tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

      Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola mikilli andlegri vanlíðan, ekki síst í ljósi ungs aldurs hennar. Af framburði stúlkunnar fyrir dóminum þykir jafnframt verða ráðið að verknaðurinn hafi fengið mjög á hana. Í vitnisburði J félagsráðgjafa fyrir dóminum kom fram að brotaþoli hefði búið við margþættan vanda á þessum tíma vegna vímuefnaneyslu sinnar og hefði hún ekki þegið sérfræðiaðstoð sem henni var boðin vegna málsins. Hins vegar kom fram hjá vitninu, sem hafði þekkt brotaþola um árabil, að hún hefði grátið mikið þegar hún lýsti því sem gerst hefði, sem væri ólíkt henni þar sem hún léti almennt lítið uppi um líðan sína. Þá hefði vímuefnaneysla hennar aukist í kjölfar atburðarins. Með hliðsjón af framangreindu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

      Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 845.060 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 485.925 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari.

Málið dæma héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, Barbara Björnsdóttir og Símon Sigvaldason.

Dómsorð:

                Ákærði, Marteinn Jóhannsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

                Ákærði greiði A, kt. [...], 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. október 2014 til 5. júlí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

      Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 845.060 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 485.925 krónur.