Print

Mál nr. 215/2017

Andrea Íris Þorsteinsdóttir (Jónas Jóhannsson lögmaður)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. og Ísfélagi Vestmannaeyja hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Aðild
  • Viðurkenningarkrafa
  • Slysatrygging
  • Ábyrgðartrygging
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn
Reifun

A krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til fullra bóta úr ábyrgðartryggingu og slysatryggingu Í hf., sem félagið hafði tekið hjá T hf., vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við vinnu sína hjá Í hf. er hún reyndi að losa fisk sem sat fastur í færibandi með hendinni. Við það festist ermi á kuldagalla hennar í færibandinu og dróst hún með því nokkurn spöl með þeim afleiðingum að hún hlaut opið beinbrot á framhandlegg og úlnlið og snúning á öxl. Óumdeilt var að A átti rétt til bóta úr tryggingunum en ágreiningur var um hvort A skyldi sjálf bera hluta tjónsins vegna eigin sakar. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að A hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að setja hönd sína inn í færiband á hreyfingu. Væri því fullnægt skilyrðum til að skerða bætur til hennar úr tryggingunum. Með vísan til þess sem lá fyrir um sök Í hf. þar sem hlífðarbúnað og annan öryggisbúnað hafði vantað á færibandið gaf stórkostlegt gáleysi A þó einungis tilefni til að skerða bætur hennar um fjórðung. Var því viðurkenndur réttur hennar til bóta úr framangreindum tryggingum sem næmi ¾ af fullum bótum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásmundur Helgason landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2017. Hún krefst viðurkenningar á rétti sínum til fullra bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafði hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf., vegna tjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnuslysi 2. febrúar 2013. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. 

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að bætur áfrýjanda verði lækkaðar þannig að hún beri tjón sitt að einum fjórða hluta sjálf og að bæturnar beri 4,5% vexti til dómsuppsögu í Hæstarétti en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir í varakröfu að málskostnaður verði felldur niður.

Í málinu krefst áfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til óskertra bóta úr tveimur vátryggingum, sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafði veitt stefnda Ísfélagi Vestmannaeyja hf. vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir 2. febrúar 2013. Lúta kröfurnar annars vegar að rétti hennar til bóta úr slysatryggingu launþega og hins vegar úr frjálsri ábyrgðartryggingu.

Áfrýjandi er vátryggð á grundvelli samnings milli stefndu um slysatryggingu launþega. Stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. sem vátryggingartaki ber ekki greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda úr slysatryggingunni, heldur á áfrýjandi kröfu um greiðslu úr tryggingunni á hendur vátryggingarfélaginu án aðildar vátryggingartaka. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að sýkna stefnda Ísfélag Vestmannaeyja hf. af þeim hluta kröfugerðar áfrýjanda sem lýtur að slysatryggingunni.

Með ábyrgðartryggingunni sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. tók hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. skuldbatt vátryggingarfélagið sig til þess að greiða hinum fyrrnefnda bætur fyrir fjártjón sem sá stefndi yrði fyrir vegna skaðabótaábyrgðar sem hann bæri gagnvart þriðja aðila. Stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. er því vátryggður, sbr. c. lið 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, og nýtur vátryggingarverndar vegna skaðabótaskyldrar háttsemi á grundvelli samnings stefndu um ábyrgðartrygginguna. Þó að áfrýjanda sé heimilt að beina kröfu um fullar bætur úr ábyrgðartryggingunni að stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. samkvæmt sérreglu 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 hefur hún ekki gert það, heldur kosið að höfða viðurkenningarmál þetta bæði gegn hinum vátryggða og vátryggingarfélaginu, eins og henni er heimilt. Að þessu gættu er ekki fallist á að sýkna beri stefnda Ísfélag Vestmannaeyja hf. á grundvelli aðildarskorts af þeim hluta kröfu áfrýjanda er lýtur að viðurkenningu á óskertum rétti hennar til bóta úr ábyrgðartryggingunni.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er á það fallist að áfrýjandi hafi með verklagi sínu umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún setti vinstri höndina inn í færiband á hreyfingu í því skyni að losa fisk úr bandinu. Er því fullnægt skilyrðum til að skerða bætur til hennar úr fyrrgreindum tryggingum á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 að því er varðar slysatrygginguna en 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993 varðandi ábyrgðartrygginguna. Þegar litið er til þess sem fyrir liggur um sök stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. vegna þess að hlífðarbúnað og annan öryggisbúnað skorti á færibandið, gefur stórkostlegt gáleysi áfrýjanda þó aðeins tilefni til þess að skerða bætur til hennar um fjórðung. Því er viðurkenndur réttur hennar til bóta úr umræddum tryggingum sem nemur ¾ af fullum bótum. Með hliðsjón af því að áfrýjandi hefur í málinu uppi viðurkenningarkröfu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki efni til að leysa úr vaxtaútreikningi sem kann að leiða af fjárkröfu áfrýjanda af því tilefni.

Í ljósi niðurstöðu málsins er rétt að málskostnaður milli stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. og áfrýjanda falli niður á báðum dómstigum. Stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. verður gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð og fer um hann samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað en um gjafsóknarkostnað hennar hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Andreu Írisar Þorsteinsdóttur, til bóta sem nema ¾ af fullum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafði hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. vegna tjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnuslysi 2. febrúar 2013.

Málskostnaður milli stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. og áfrýjanda á báðum dómstigum fellur niður.

Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiði 850.000 krónur málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jónasar Jóhannssonar, 700.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2017.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 14. nóvember sl., er höfðað af Andreu Írisi Þorsteinsdóttur, Hásteinsvegi 22, Vestmannaeyjum, með stefnu áritaðri um birtingu 11. desember 2015 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, og Ísfélagi Vestmannaeyja hf., Strandvegi 28, Vestmannaeyjum. 

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til fullra bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafði í gildi hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna líkamstjóns stefnanda eftir vinnuslys hinn 2. febrúar 2013.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til greiðslu málskostnaðar stefnanda að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefndu krefjast þess til vara að bætur verði lækkaðar þannig að stefnandi beri sjálf tjón sitt að ¼ hluta (fjórðungi) og að bætur beri 4,5% ársvexti til endanlegs dómsuppsögudags en beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefndu þess að málskostnaður verði felldur niður.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 25. janúar 2016, var stefnanda veitt gjafsókn vegna málshöfðunar þessarar. Gjafsóknin var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 4. og 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

Helstu málavextir eru óumdeildir. Stefnandi slasaðist í vinnuslysi við vinnu sína hjá stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., hinn 2. febrúar 2013. Stefnandi vann við þrif í fiskvinnslusal með því að smúla gólf og færibönd með vatnsslöngu. Þegar hún náði ekki að losa loðnu, sem sat föst í færibandi, með vatnsþrýstingi reyndi hún að losa loðnuna með hendinni. Við það festist stefnandi í færibandinu og dróst með því nokkurn spöl. Stefnandi mun hafa losað ermi sína úr færibandinu en ermin hafi flækst í færibandinu á nýjan leik með þeim afleiðingum að höndin fór fyrir endahjól færibandsins og hlaut stefnandi opið beinbrot á framhandlegg og úlnlið og snúning á öxl.