Print

Mál nr. 30/2020

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Þórhalli Guðmundssyni (Sigmundur Hannesson lögmaður)
, (Ingvar Þóroddsson réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Stjórnarskrá
  • Lögskýring
  • Sönnunarmat
  • Réttlát málsmeðferð
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Sannleiksregla
  • Miskabætur
Reifun

Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað A án hans samþykkis með því að beita hann ólögmætri nauðung með tilgreindum hætti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt munnleg sönnunarfærsla hefði ekki farið fram fyrir Landsrétti í málinu hefði endurskoðun á sönnunarmati, þar á meðal mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar, verið í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála auk þess sem málsmeðferðin var ekki talin hafa brotið gegn rétti Þ til milliliðalausrar sönnunarfærslu. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að þótt skortur á samþykki hefði ekki verið hluti af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almenna hegningarlaga á verknaðarstundu væri vafalaust að skortur á samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum hefði verið ein af forsendum þess að háttsemi teldist þá refsinæm samkvæmt ákvæðinu. Þrátt fyrir alvarleika brots Þ þótti ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans með hliðsjón af þeim langa tíma sem hafði liðið frá því að brotið átti sér stað og þar til brotaþoli tilkynnti um það til lögreglu og ákæra var gefin út. Var Þ gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Þá var honum gert að greiða A 1.200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara lægstu refsingar sem lög leyfa og að sú refsing verði bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um kröfuna.

I

   Með ákæru héraðssaksóknara 16. ágúst 2018 var ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í lok september 2010, á þáverandi heimili sínu að […] á […], fróað A, án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði hefði misnotað það traust sem A bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða. Háttsemin var í ákæru talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði var sakfelldur í héraði fyrir það brot sem honum var gefið að sök í ákæru og refsing hans ákveðin 18 mánaða fangelsi. Honum var auk þess gert að greiða brotaþola 800.000 króna miskabætur auk vaxta. Með hinum áfrýjaða dómi var dómur héraðsdóms staðfestur.

Að ósk ákærða var veitt leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Í ákvörðun réttarins um að veita leyfið var tekið fram að líta yrði svo á að úrlausn, meðal annars um beitingu 194. gr. almennra hegningarlaga og lagaskil, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að brotaþoli mætti á lögreglustöð 17. mars 2016 í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots á heimili hans í lok september 2010. Ítarleg skýrsla var tekin af brotaþola sama dag. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi lýsti brotaþoli þá þeirri háttsemi ákærða sem ákæran lýtur að en einnig fyrri samskiptum þeirra, háttsemi ákærða eftir hið ætlaða brot og líðan sinni í kjölfarið. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. apríl 2016 og neitaði því að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við brotaþola en helstu atriði úr framburði ákærða hjá lögreglu eru rakin í héraðsdómi. Við rannsókn málsins gáfu skýrslu foreldrar brotaþola, tvö systkini hans, námsráðgjafi við skóla þar sem brotaþoli stundaði nám, ráðgjafi hjá Stígamótum og maður sem þá hafði einnig lagt fram kæru á hendur ákærða. Lögregla aflaði einnig greinargerðar sálfræðings sem hafði haft brotaþola til meðferðar. Meðal gagna málsins er einnig skjáskot sem brotaþoli sendi lögreglu af rafrænum samskiptum sínum og ákærða á tímabilinu 18. september til 2. október 2010.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gáfu ákærði og brotaþoli munnlega skýrslu og jafnframt átta vitni en sjö þeirra höfðu áður gefið skýrslu hjá lögreglu. Allar framburðarskýrslur voru teknar upp í hljóði og mynd. Munnleg sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir Landsrétti en við aðalmeðferð málsins var spiluð upptaka af framburði ákærða og hluti af framburði brotaþola fyrir héraðsdómi.

III

Af hálfu ákærða er því haldið fram að niðurstaða Landsréttar brjóti gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu þar sem sakfelling hafi verið byggð á lögregluskýrslum og framburði vitna fyrir héraðsdómi sem ekki hafi getað borið um atvik. Ákærði vísar til þess að í dómi Landsréttar segi að lyktir málsins ráðist fyrst og fremst af mati á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar fyrir héraðsdómi en einnig hjá lögreglu. Vísar hann til þess að í dóminum hafi ranglega verið byggt á skýrslum vitna sem ekki hafi skynjað atvik af eigin raun.

Ákærði byggir kröfu sína um sýknu á því að háttsemi hans hafi ekki verið refsiverð samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga þegar atvikið átti sér stað. Á þeim tíma hafi verknaðarlýsing nauðgunarákvæðisins verið bundin við að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Fyrir þá breytingu sem gerð hafi verið á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018 hafi ekki verið fyrirsjáanlegt að ákærða yrði gerð refsing fyrir brot gegn því vegna þeirrar háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök í ákæru. Sakfelling gangi því gegn rétti ákærða samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Ákæruvaldið telur að ekki hafi verið brotið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu við meðferð málsins fyrir Landsrétti og vísar í því efni til 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um frjálst sönnunarmat dómara og óbeina sönnun. Jafnframt telur ákæruvaldið að við mat á sönnunargildi framburðar ákærða, samkvæmt 1. mgr. 115. gr. sömu laga, eigi dómari meðal annars að líta til annarra gagna og upplýsinga sem fram hafi komið við málsmeðferðina, svo sem lögregluskýrslna. Ákæruvaldið vísar um þetta til niðurlags athugasemda við 115. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 en þar segi að það geti gert framburð ákærða ótrúverðugan ef hann reynist óstöðugur, til dæmis ef hann beri allt annað fyrir dómi en áður hjá lögreglu án þess að viðhlítandi skýring komi fram á því.

Ákæruvaldið kveður niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um sakfellingu ákærða fyrst og fremst hafa byggst á mati á sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola. Framburður brotaþola um atvik hafi verið metinn stöðugur og trúverðugur og hafði fengið stuðning í framburði móður, föður og systkina brotaþola en einnig í vottorði og framburði sálfræðings um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lúti að. Framburður ákærða hafi á hinn bóginn verið metinn óstöðugur um mikilsverð atriði og skýringar hans á misræmi í framburði hafi þótt ósannfærandi og ótrúverðugar.

Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að skortur á samþykki brotaþola til kynferðismaka hafi frá gildistöku laga nr. 61/2007 verið í forgrunni hvað varðar skilgreiningu á nauðgunarbrotinu og hafi því verið rétt að orða ákæru með þeim hætti sem gert hafi verið. Vísað er til þess að með þeim lögum hafi inntak nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga verið rýmkað verulega og fellt undir það ólögmæt kynferðisnauðung og misnotkun sem áður hafi verið refsiverð samkvæmt 195. og 196. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi sem orðið hafi að þeim lögum hafi komið fram að tilgangurinn væri að hið nýja ákvæði um nauðgun tæki til þeirra tilvika þar sem kynmök færu fram án samþykkis þolanda enda væri það undirliggjandi skilyrði að samþykki skorti til kynmaka.

Ákæruvaldið vísar til þess að hin ólögmæta nauðung ákærða hafi falist í því að hann hafi misnotað það traust sem brotaþoli hafi borið til ákærða sem heilara. Brotaþoli hafi talið ákærða geta veitt sér hjálp við andlegum og líkamlegum vanda sínum og í trausti þess hafi hann legið nakinn á nuddbekk heima hjá ákærða. Þetta traust og þennan aðstöðumun hafi ákærði notfært sér til að ná fram þeim kynferðismökum sem ákært sé fyrir en ákærði hafi byrjað að fróa brotaþola honum að óvörum og án þess að nokkuð slíkt hefði verið rætt þeirra á milli, hvað þá að samþykki brotaþola fyrir kynferðismökum hafi legið fyrir.

Af hálfu ákæruvaldsins er talið að engin efni séu til að efast um réttmæti verknaðarlýsingar brots ákærða og heimfærslu þess til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðinu hafi verið breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007.

IV

1

Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er einkum reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ef annmarkar eru hins vegar á aðferð við sönnunarmat í dómi sem áfrýjað er til réttarins og þeir teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins geta þeir leitt til ómerkingar dómsins, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020.

2

Af hálfu ákærða er sem fyrr segir byggt á því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rétti hans til milliliðalausrar sönnunarfærslu og að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hafi verið byggð á lögregluskýrslum og framburði vitna sem ekki hafi getað borið um atvik.

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða var fyrst og fremst byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og brotaþola. Annars vegar var litið til þess hvernig framburður þeirra fyrir dómi samrýmdist framburði þeirra hjá lögreglu og hins vegar framburði vitna. Framburður brotaþola var talinn mjög trúverðugur og samræmi talið í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá var frásögn hans talin fá stoð í framburði foreldra hans, systkina og annarra vitna sem komu fyrir dóminn. Misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um það hvort brotaþoli hefði legið nakinn á nuddbekk var talið rýra trúverðugleika framburðar hans en ákærði var ekki talinn hafa gefið trúverðugar skýringar á þessu misræmi. Þá var það talið skipta máli við sönnunarmatið að brotaþoli og fjölskylda hans báru um tíðar hringingar og SMS-skilaboð ákærða til brotaþola í nokkra daga eftir það atvik er ákæran lýtur að en ákærði kannaðist ekki við það. Jafnframt var litið til framburðar vitna sem báru um líðan brotaþola eftir umrætt atvik.

Í dómi Landsréttar var framburður brotaþola um aðdraganda að kynnum hans og ákærða, um fjölda heimsókna brotaþola til ákærða og það sem þeim fór á milli svo og um það atvik sem ákæran lyti að talinn vera stöðugur og trúverðugur og fá stoð í framburði vitna. Á hinn bóginn hafi framburður ákærða verið óstöðugur um mikilsverð atriði. Misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um hvort brotaþoli hefði legið nakinn á nuddbekk þótti draga úr trúverðugleika framburðar hans og skýringar hans á misræminu voru taldar ósannfærandi og ótrúverðugar. Framburður ákærða um fjölda heimsókna og frumkvæði hans sjálfs að samskiptum við brotaþola var talinn óljós og reikull. Þá þótti framburður vitna um tilraunir ákærða til samskipta við brotaþola í betra samræmi við framburð brotaþola en ákærða. Loks var vætti vitna um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lýtur að og vottorð sálfræðings um að brotaþoli bæri skýr einkenni áfallastreituröskunar talin styðja óbeint við frásögn brotaþola af samskiptunum við ákærða og atvikum þeim sem ákæran lýtur að. Með vísan til framangreindra atriða og forsendna héraðsdóms að öðru leyti taldi Landsréttur sannað að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.

3

Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi hafa verið skýrð svo að þáttur í henni sé að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á meginreglunni er að finna í d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli ekki njóta minni réttar en að fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Sjá skuli til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd séu gegn honum. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar, er meðal annars vísað til 6. gr. mannréttindasáttmálans og sagt að ekki þætti ástæða til að telja upp í greininni öll atriði sem tryggð væru í alþjóðasamningum um mannréttindi varðandi málsmeðferð fyrir dómstólum en að leiðarljósi væri haft að „taka þar aðeins upp grundvallarreglur og sleppa útfærsluatriðum sem eiga við þessar aðstæður eðli sínu samkvæmt aðeins heima í rétt­arfarslöggjöf“. Samkvæmt því er litið svo á að þau réttindi sakbornings sem njóta verndar samkvæmt d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans séu liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, sbr. ummæli í dómi Hæstaréttar 19. maí 2004 í máli nr. 520/2004 þar sem vísað var til túlkunar mannréttindadómstólsins á d-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans svo og dóma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 og 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi sem þáttar í að tryggja réttláta málsmeðferð við endurskoðun dóms undirréttar í sakamáli, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi og 5. júlí 2011 í máli nr. 8999/07, Dan gegn Moldóvu. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur verið talið sérstaklega mikilvægt að ákærði eigi þess kost að gefa munnlega skýrslu við meðferð sakamáls á áfrýjunarstigi ef hann hefur verið sýknaður á fyrsta dómstigi. Í dómi hans 9. janúar 2018 í máli nr. 36676/06, Ghincea gegn Rúmeníu, var vísað til þess að ákærði hefði skiljanlega litla hagsmuni af því að óska eftir að munnleg sönnunarfærsla yrði endurtekin í slíku tilviki og lögð áhersla á frumkvæði áfrýjunardómstóls hvað varðar munnlega skýrslutöku á áfrýjunarstigi.

Samkvæmt 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 er dómara, eftir því sem hann telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra, rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði þess en ákvæðið tekur einnig til meðferðar máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Þetta frumkvæðishlutverk Landsréttar getur átt við hvort heldur sem ákærði hefur verið sýknaður eða sakfelldur í héraði, til samræmis við meginregluna um jafnræði málsaðila við rekstur sakamáls fyrir dómi og regluna um að leiða skuli hið sanna í ljós.

Réttur ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu er ekki aðeins tryggður í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar heldur kemur þessi meginregla sakamálaréttarfars jafnframt fram í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 88/2008 með lögum nr. 49/2016 var tekið upp þriggja þrepa dómskerfi með Landsrétt sem millidómstig. Ein þeirra meginbreytinga sem þau lög fólu í sér var að heimilað var að leita endurskoðunar Landsréttar á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal niðurstöðu sem byggð er á mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 58. gr. laga nr. 49/2016. Um munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti er fjallað í e-lið 2. mgr. 203. gr., 2. mgr. 205. gr. og 1. mgr. 206. gr. laganna. Með þessum málsmeðferðarreglum fyrir Landsrétti var meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu á öðru dómstigi fest í sessi, sbr. einnig 210. gr. laganna.

Í athugasemdum við 59. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2016 segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir að sú sönnunarfærsla sem fram fór fyrir héraðsdómi verði endurtekin fyrir Landsrétti, enda mæla sterk rök gegn því að sakborningar, brotaþolar, málsaðilar eða vitni séu yfirheyrð ítrekað fyrir dómi um sömu atriði eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Á þetta sérstaklega við í sakamálum þar sem ætla má að upprifjun brotaþola og vitna á erfiðri lífsreynslu geti verið sársaukafull og af þeirri ástæðu varhugavert að endurtaka skýrslugjöf að nauðsynjalausu. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að málsaðilum gefist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá verði allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af þessum upptökum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar verði þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki verði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim verði spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þykir vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda er mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, er til þess fallinn að Landsréttur geti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þ.m.t. munnlegum framburði.“

Samkvæmt framansögðu gera lög nr. 88/2008 ráð fyrir því að ákærði og ákæruvald geti í greinargerð til Landsréttar óskað eftir að munnlegar viðbótarskýrslur séu teknar af ákærða og vitnum við aðalmeðferð sakamáls fyrir Landsrétti og einnig munnlegar skýrslur af nýjum vitnum. Það er hins vegar lagt í hendur Landsréttar að ákveða hvort þörf þykir á því en í þeim efnum skal þó tekið fram að ákærði á ávallt rétt á að gefa munnlega skýrslu við meðferð máls fyrir Landsrétti.

4

Í greinargerð ákærða til Landsréttar í máli þessu kom fram að hann teldi ekki þörf á því að hann, brotaþoli eða vitni kæmu fyrir Landsrétt til skýrslugjafar en að hann teldi rétt að spila hljóð- og myndupptökur af framburði í héraði við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Í greinargerð ákæruvalds til Landsréttar kom fram að það teldi ekki nauðsynlegt að aflað yrði munnlegra skýrslna eða viðbótarskýrslna fyrir Landsrétti en að það gerði ekki athugasemdir við óskir ákærða um að spilaðar yrðu upptökur.

Landsréttur hélt undirbúningsþinghald með sækjanda og verjanda ákærða 13. febrúar 2020 í samræmi við 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Þar komu ekki fram óskir um að munnlegar skýrslur yrðu teknar fyrir Landsrétti en verjandi ákærða óskaði eftir að spiluð yrði upptaka af skýrslugjöf ákærða og brotaþola. Í samræmi við ákvörðun Landsréttar 10. mars sama ár um tilhögun aðalmeðferðar var einungis spiluð upptaka af skýrslugjöf ákærða í héraði í heild sinni og tilteknir hlutar af framburði brotaþola. Myndupptaka af munnlegri skýrslugjöf í héraði í heild sinni var meðal þeirra gagna sem lágu frammi í málinu fyrir Landsrétti og jafnframt endurrit af munnlegum framburði.

5

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er sökuðum manni tryggður réttur til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008. Sú meginregla sem birtist í framangreindum ákvæðum um að sönnunarbyrði í sakamálum hvíli á ákæruvaldinu felur í sér að ríkar sönnunarkröfur eru gerðar til ákæruvaldsins. Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, er fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Með 2. mgr. sömu greinar er jafnframt lagt í hendur dómara að meta, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.

Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans en við það mat skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum segir meðal annars um 115. gr. að það geti gert framburð ákærða ótrúverðugan ef hann reynist óstöðugur í framburði, til dæmis ef hann ber allt annað fyrir dómi en hann hefur áður gert hjá lögreglu, án þess að viðhlítandi skýring komi fram á því.

Í 126. gr. laganna kemur fram að við mat dómara á sönnunargildi vitnisburðar skuli meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða og eftir atvikum brotaþola, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn.

Skýrslutökur af ákærða og brotaþola hjá lögreglu eru liður í rannsókn máls og eru meðal þeirra sönnunargagna sem heimilt er að leggja fram í dómsmáli, sbr. dóm Hæstaréttar 22. október 1992, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1639, en sá dómur hefur fordæmisgildi þótt hann snúi að túlkun á ákvæðum eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sönnunargildi framburðar sem ótvírætt er að ákærði eða vitni hefur gefið hjá lögreglu verður ekki lagt að jöfnu við sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn er með milliliðalausum hætti fyrir dómi nema að því leyti sem viðkomandi hefur staðfest hann fyrir dómi. Löng dómaframkvæmd er hins vegar um að dómara sé rétt að taka tillit til þess við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi ef ósamræmi reynist um atriði sem talið er skipta máli milli framburðar fyrir dómi og framburðar sem viðkomandi hefur sannarlega gefið hjá lögreglu og hann hefur ekki gefið sennilega skýringu á því ósamræmi. Hvaða þýðingu framburður ákærða hjá lögreglu hefur við þetta mat á trúverðugleika framburðar ákærða fyrir dómi ræðst þó jafnframt af því hvort ákærði naut liðsinnis verjanda við skýrslutöku hjá lögreglu og hvort þar var að öðru leyti fylgt lagafyrirmælum um réttindi sakbornings.

Af framangreindu leiðir að dómari verður að meta annars vegar innra samræmi framburðar ákærða jafnt sem brotaþola með tilliti til þess hvort mótsagna gætir í frásögn og skýringum hvors um sig og á það jafnt við um innra samræmi í einstökum framburði og samræmi milli framburðar hvors um sig annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi. Á sama hátt verður að meta ytra samræmi um hvernig framburður hvors um sig samræmist framburði vitna og öðrum þeim sönnunargögnum og upplýsingum sem komið hafa fram við málsmeðferðina. Á þessum grunni verður metið hversu trúverðugur framburður ákærða og brotaþola er um einstök atriði sem áhrif geta haft við sakarmatið og hvaða áhrif niðurstaða þess mats hefur með tilliti til annarra beinna og óbeinna sönnunargagna sem fyrir liggja í málinu. 

Eins og áður er rakið gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum og er myndupptaka af skýrslunni meðal gagna málsins. Ekki eru í ljós leiddir neinir annmarkar á framkvæmd skýrslutöku af ákærða, brotaþola og vitnum hjá lögreglu.

Samkvæmt framansögðu var það hluti af lögboðnu mati héraðsdóms og Landsréttar, samkvæmt 115. og 126. gr. laga nr. 88/2008, á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi um einstök atriði sem máli skiptu við sakarmatið að ganga úr skugga um hvort samræmi væri í framburði hvors þeirra um sig hjá lögreglu og fyrir dómi um slík atriði.

Tilvísun í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi til framburðar sem ákærði og brotaþoli gáfu sannarlega hjá lögreglu við mat á trúverðugleika framburðar þeirra fyrir dómi fer samkvæmt framansögðu ekki í bága við rétt ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu. Sama máli gegnir um tilvísun í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi til framburðar vitna sem ekki gátu borið um hin eiginlegu ákæruefni en talið var að draga mætti ályktanir af um sannleiksgildi framburðar ákærða og brotaþola um þau.

Svo sem hér hefur verið rakið var ákærða ekki einungis heimilt samkvæmt lögum heldur gafst raunhæfur kostur á að fram færi munnleg sönnunarfærsla fyrir Landsrétti í málinu og hann gæfi þar skýrslu. Fyrir liggja skýrar yfirlýsingar ákærða og ákæruvalds í greinargerðum þeirra og í undirbúningsþinghaldi um að þess væri ekki óskað að munnlegar skýrslur yrðu gefnar fyrir Landsrétti. Þá er þess að gæta að í málinu reyndi ekki á kröfu um að sýknudómi yrði að hluta eða í heild snúið í sakfellingardóm en það er eitt þeirra atriða sem getur samkvæmt framansögðu haft áhrif á hvort þörf er á munnlegri sönnunarfærslu fyrir Landsrétti við endurskoðun dóms í sakamáli.

Þótt ekki færi fram munnleg sönnunarfærsla fyrir Landsrétti í málinu var endurskoðun á sönnunarmati, þar á meðal mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar, við þær aðstæður sem lýst hefur verið að framan í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 eins og þeim var breytt með lögum nr. 49/2018. Málsmeðferðin fyrir Landsrétti braut heldur ekki gegn rétti ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu sem er þáttur í réttinum til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. og d-lið 3. mgr. mannréttindasáttmálans. Í því sambandi hefur verið litið til framangreindra dóma mannréttindadómstólsins um réttinn til milliliðalausrar málsmeðferðar á áfrýjunarstigi.

Samkvæmt öllu framansögðu var í engu áfátt aðferðum við sönnunarfærslu og sönnunarmat fyrir Landsrétti og í dómi héraðsdóms sem vísað var til í forsendum hins áfrýjaða dóms.

V

1

Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í henni felst áskilnaður um að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi er refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur var á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár.

Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei megi þó dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum.

Sá verknaður sem ákærða er gefið að sök að hafa framið í lok september 2010 er í ákæru talinn varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. Með breytingum sem gerðar voru á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga með lögum nr. 61/2007 voru ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun, 195. gr. um annars konar ólögmæta nauðung og 196. gr. um kynferðislega misnotkun, sameinuð í nýtt nauðgunarákvæði í 194. gr. laganna. Eftir breytinguna og á verknaðarstundu var ákvæði 1. mgr. svohljóðandi: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“ Ákvæði 2. mgr. greinarinnar var þannig orðað: „Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Þegar ákæra í málinu var gefin út höfðu lög nr. 16/2018 tekið gildi en þau breyttu verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga eins og það hafði verið frá árinu 2007. Núgildandi ákvæði 1. mgr. greinarinnar er svohljóðandi: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.“ Þá segir í 2. mgr.: „Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga reynir í máli þessu á hvort sú háttsemi ákærða sem héraðsdómur og Landsréttur töldu sannaða telst refsiverð sem nauðgun samkvæmt núgildandi 194. gr. laganna og jafnframt hvort háttsemin hafi með réttu talist nauðgun samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðið var á verknaðarstundu.

2

Sú lýsing á háttsemi ákærða sem fram kemur í ákæru tekur öðrum þræði mið af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins eins og það var á ætlaðri verknaðarstundu en jafnframt að nokkru leyti af gildandi ákvæði. Vafalaust er að sá verknaður ákærða sem lýst er í ákæru og hann var sakfelldur fyrir í héraði og fyrir Landsrétti fól í sér nauðgun eins og brotinu er lýst í 194. gr. almennra hegningarlaga eftir breytingar á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018. Sem fyrr segir telur ákærði hins vegar að 194. gr. almennra hegningarlaga hafi á verknaðarstundu verið orðuð með þeim hætti að ekki hafi verið fyrirsjáanlegt að í þeirri háttsemi sem talin hafi verið sönnuð felist nauðgun samkvæmt þáverandi verknaðarlýsingu ákvæðisins.

Dómstólar túlka og skýra inntak refsiákvæða eins og annarra lagaákvæða. Í verknaðarlýsingu ýmissa rótgróinna refsiákvæða er vísað til hugtaka sem mótuð hafa verið í áratuga dómaframkvæmd, svo sem ákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga um þjófnað og 245. gr. laganna um gripdeild. Þótt verknaðarlýsing þessara ákvæða sé í sumum tilvikum knöpp fer ekki á milli mála að þau teljast skýrar refsiheimildir vegna þess fyrirsjáanleika sem dómsúrlausnir um túlkun þeirra hafa skapað.

Um inntak nauðgunarbrotsins samkvæmt 194. gr. laganna gegnir nokkuð öðru máli. Þótt ákvæði um nauðgun hafi verið að finna í 169. gr. fyrstu heildstæðu refsilaganna sem sett voru hér á landi árið 1869 og í almennum hegningarlögum allar götur síðan hefur verknaðarlýsing nauðgunarákvæðisins tekið margvíslegum breytingum í áranna rás og hefur meðal annars verið felld undir ákvæðið háttsemi sem áður taldist til annarra kynferðisbrota.

Við mat á því hvort ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga hafi verið nægilega skýrt á verknaðarstundu með tilliti til þeirrar háttsemi ákærða sem talin hefur verið sönnuð ber að líta til þess hvort túlkun dómstóla á inntaki 195. gr. laganna fram til gildistöku laga nr. 61/2007 og inntaki 194. gr. fram til gildistöku laga nr. 16/2018 hafi verið svo afdráttarlaus og fyrirsjáanleg að ekki hafi á verknaðarstundu verið vafi um að í háttsemi ákærða fælist nauðgun í skilningi 194. gr.

Af dómaframkvæmd Hæstaréttar má ráða að heimilt er að líta til lögskýringargagna við túlkun refsiheimilda, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 6. apríl 2006 í máli nr. 472/2005 og 22. mars 2007 í máli nr. 331/2006 þótt mat á skýrleika refsiákvæðis hljóti ávallt fyrst og fremst að ráðast af orðalagi þess.

Í 194. gr. almennra hegningarlaga, eftir þær breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018, er nauðgun skilgreind sem samræði eða önnur kynferðismök án samþykkis brotaþola. Hin nánu tengsl við eldri skilgreiningu á nauðgun koma fram í þeim áskilnaði í ákvæðinu að samþykki teljist ekki liggja fyrir ef beitt sé ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.

Þótt samþykki hafi ekki verið orðað í verknaðarlýsingu nauðgunarbrotsins fyrr en með gildistöku laga nr. 16/2018 hefur skortur á samþykki, að minnsta kosti frá gildistöku eldri almennu hegningarlaganna frá árinu 1869, skilið á milli nauðgunar og refsilausra kynferðisathafna. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 16/2018 kom fram að frumvarpið fæli ekki í sér mikla breytingu á skilgreiningu nauðgunarhugtaksins en að frumvarpið væri eðlilegur þáttur í þróun réttarins og að leitast væri við að tryggja að lögin væru í samræmi við réttarvitund almennings.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2007 sagði að aðalatriði kynferðisbrots væri að brotið væri gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi kynlíf, frelsi þess og friðhelgi og væri það alvarlegast fyrir þolendur brotanna. Í samræmi við það sjónarmið væri lagt til í frumvarpinu að dregið yrði úr áherslu á verknaðaraðferðir og megináherslan lögð á að með brotunum væru höfð kynmök við þolanda án þess að samþykki hans væri fyrir hendi og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. Enn fremur sagði í athugasemdunum að áherslu á ofbeldi sem verknaðarþátt yrði að telja úrelta og endurspeglaði ekki þann veruleika sem þolendur brotanna upplifðu. Það alvarlegasta við brot samkvæmt 194. til 199. gr. almennra hegningarlaga væri að með verknaðinum væri brotið gegn kynfrelsi fólks, athafnafrelsi þess, friðhelgi og athafnafrelsi í kynlífi.

Í almennum athugasemdum með frumvarpinu var sérstaklega fjallað um hvort rétt væri að skilgreina nauðgunarhugtakið með áherslu á samþykki eða skort á samþykki þolanda. Skortur á samþykki væri atriði sem fólgið væri í nauðgunarhugtakinu því að samþykkisskorturinn gerði háttsemi að nauðgun og þar með refsiverða.

Samkvæmt framansögðu var það hluti af verknaðarlýsingu í ákæru að ákærði hefði fróað brotaþola án hans samþykkis. Enda þótt skortur á samþykki hafi ekki verið hluti af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga á verknaðarstundu er samkvæmt framansögðu vafalaust að skortur á samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum var ein af forsendum þess að háttsemi teldist þá refsinæm samkvæmt ákvæðinu. Þessi hluti lýsingar í ákæru á háttsemi ákærða hefur ekki þau áhrif að hún teljist ekki hafa verið refsinæm á verknaðarstundu, sbr. 2. málslið 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

3

Í því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 61/2007 var upphaflega lagt til að 1. málsliður 1. mgr. 194. gr. yrði á þann veg að hver sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi eða hótunum gerðist sekur um nauðgun og skyldi sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.

Allsherjarnefnd Alþingis gerði þá tillögu um breytingu á fyrrnefndum málslið í frumvarpinu að verknaðaraðferðir í nauðgunarákvæðinu yrðu ekki einungis ofbeldi og hótanir heldur einnig annars konar ólögmæt nauðung. Í nefndaráliti allsherjarnefndar komu fram þær skýringar á breytingartillögunni að nefndin hefði velt fyrir sér hvort nægilega væri tryggt í frumvarpinu að sú háttsemi að notfæra sér aðstöðumun, sem hingað til hefði verið heimfærð undir 195. gr. laganna, væri refsiverð, það er hvort hugtakið hótun næði fyllilega yfir það sem í réttarframkvæmd hefði verið talið felast í ólögmætri nauðung og hvort með breytingunum væri í raun verið að þrengja verknaðarlýsingu áður gildandi ákvæða. Þá kom þar fram að sú háttsemi sem í dómaframkvæmd hefði talist brot gegn 195. gr. mætti kalla að notfæra sér aðstöðumun en þó hefði alltaf orðið að felast einhvers konar hótun í háttseminni. Nánar um þetta sagði í athugasemdunum að væri hótun beitt ætti 194. gr. við um brotið en samkvæmt frumvarpinu gæti efni hótunar varðað hvað sem er. Um þetta sagði síðan að lítið þyrfti til „svo að um hótun sé að ræða og getur það að notfæra sér aðstöðumun falið í sér hótun“.

Í athugasemdum með breytingartillögu allsherjarnefndar sagði enn fremur að með hliðsjón af meginreglunni um að refsiákvæði þyrftu alltaf að vera skýr og til að taka af allan vafa í þessum efnum legði nefndin til þær breytingar á frumvarpinu að annars konar nauðung yrði bætt við verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins. Ákvæðið, með umræddri breytingartillögu, var lögfest sem ný 194. gr. almennra hegningarlaga.

Af orðalagi 195. gr. almennra hegningarlaga, eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 og orðalagi 194. gr. laganna eftir það, svo og með hliðsjón af framangreindum lögskýringargögnum, er ljóst að breytingarnar á umræddum refsiákvæðum miðuðu að því að fella háttsemi sem fólst í því að þröngva manni til samræðis eða annarra kynferðismaka með annars konar ólögmætri nauðung en ofbeldi eða hótun um ofbeldi undir nauðgunarákvæðið í 194. gr. og hækka refsimörk slíks brots til samræmis við refsimörk þeirrar greinar.

Eins og fram kemur í umræddum lögskýringargögnum var misnotkun á aðstöðu í því skyni að ná fram samræði eða öðrum kynferðismökum talin meðal þeirra verknaðaraðferða sem féllu undir aðra ólögmæta nauðung í skilningi 195. gr. almennra hegningarlaga fyrir gildistöku laga nr. 61/2007. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 var sú háttsemi ákærða að hafa kynferðismök við brotaþola án samþykkis hans, við þær aðstæður að ákærði misnotaði traust brotaþola og nýtti sér brotavettvang eða yfirburðaaðstöðu svo sem aldurs-, afls- eða liðsmun, talin ólögmæt nauðung í skilningi 195. gr., sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 10. október 1996 í máli nr. 159/1996 og 15. janúar 2004 í máli nr. 372/2003.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 61/2007 hefur slík háttsemi sem að ofan greinir, er felst í að nýta sér aðstöðumun, verið felld undir nauðgunarákvæðið í 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. desember 2016 í máli nr. 440/2016 en þar var ákærði sakfelldur fyrir brot sem svipaði talsvert til þeirrar háttsemi sem ákærða í þessu máli er gefin að sök og 20. júní 2017 í máli nr. 486/2016. Þar voru ákærðu sakfelldir fyrir brot sem talið var felast í ólögmætri nauðung en þeir voru taldir hafa brotið gróflega gegn kynfrelsi brotaþola og um það meðal annars vísað til mikils aðstöðu- og aflsmunar.

4

Ákærði var sakfelldur í héraði og fyrir Landsrétti fyrir nauðgun með því að hafa á þáverandi heimili sínu fróað brotaþola, án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði misnotaði það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er brotaþoli lá nakinn á nuddbekk hjá honum.

Þegar litið er til alls framangreinds og þá sérstaklega fyrrgreindrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar leikur ekki vafi á því að slík háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt hinum áfrýjaða dómi fól í sér ólögmæta nauðung í skilningi 195. gr. almennra hegningarlaga fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 og 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðið var á verknaðarstundu. Beiting og túlkun síðarnefnda ákvæðisins í þessu máli var því fyrirsjáanleg. Þessi refsiákvæði, eins og þau voru um langt skeið túlkuð af Hæstarétti, fullnægja þannig kröfum 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda.

Samkvæmt framansögðu var sú niðurstaða Landsréttar að sakfella ákærða og gera honum refsingu jafnframt í samræmi við 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

Fyrir liggur að brotaþoli tilkynnti lögreglu ekki um brot ákærða fyrr en hálft sjötta ár var liðið frá því. Þegar ákæra í málinu var gefin út voru tæp átta ár liðin frá broti. Með hliðsjón af því og þrátt fyrir alvarleika brots ákærða þykir ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæða og dæmda refsingu.

VI

Með hliðsjón af alvarleika brots ákærða og þeim andlegu afleiðingum sem brotaþoli glímdi við vegna brotsins samkvæmt gögnum málsins verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti var krafa brotaþola um vexti af skaðabótum lagfærð hvað varðar tímabil þeirra vaxta sem krafist er samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 án athugasemda af hálfu ákærða. Þar sem ákærði hefur hvorki mótmælt vaxtakröfu brotaþola né borið fyrir sig að hluti vaxtanna sé fyrndur verður hún tekin til greina með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun og útlagðan kostnað réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu A.

Ákærði, Þórhallur Guðmundsson, greiði A 1.200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.307.898 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 824.600 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 353.400 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans, 59.910 krónur.

                                                                                   

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Björg Thorarensen, settur landsréttardómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 9. janúar 2019 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2018 í málinu nr. S-375/2018.

2        Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

3        Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð.

4        Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst brotaþoli staðfestingar héraðsdóms.

Málsatvik og sönnunarfærsla

5        Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var framburður ákærða fyrir héraðsdómi spilaður í heild. Þá voru spilaðir valdir kaflar úr framburði brotaþola, A, fyrir héraðsdómi.

6        Ákærði starfaði sem miðill og heilari hjá […]. Meðal skjólstæðinga hans var brotaþoli og kom hann reglulega á heimili ákærða til heilunar eða slökunar. Telur ákærði í skýrslu sem hann gaf fyrir dómi að þessi samskipti hafi hafist á árunum 2006-2007 en brotaþoli telur að hann hafi fyrst hitt ákærða á heimili hans á árinu 2008 eða 2009. Hinn 17. mars 2016 lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu greinir brotaþoli frá atviki sem mun hafa átt sér stað lok september 2010 sem nú er ákært fyrir. Er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í umrætt sinn fróað brotaþola án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða.

Málsástæður aðila

7        Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum frá öndverðu og telur að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir sekt hans. Þá telur ákærði að með þeirri niðurstöðu héraðsdóms að „ekki þyki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru“ freisti héraðsdómur þess að snúa sönnunarbyrðinni við, í andstöðu við gildandi rétt. Jafnframt leggi héraðsdómur blessun sína yfir heimfærslu til refsiákvæða sem að mati ákærða er ófullnægjandi í ákæru.

8        Ákæruvaldið hafnar framangreindum sjónarmiðum og tekur undir forsendur hins áfrýjaða dóms og sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru.

Niðurstaða

9        Sem fyrr greinir byggir ákærði málsvörn sína meðal annars á því að heimfærsla til refsiákvæða í ákæru sé röng. Verður þetta skilið svo að ákærði beri fyrir sig að á þeim tíma sem ætlað brot á að hafa átt sér stað undir lok september 2010 hafi ákvæði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og því var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007, verið orðað með þeim hætti að hver sá sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerðist sekur um nauðgun.

10       Í ákæru sé aftur á móti vísað til skorts á samþykki, en gera megi ráð fyrir að það orðalag ákærunnar sé að rekja til breytinga sem gerðar voru á 194. gr. almennra hegningarlaga með lögum nr. 16/2018, en þau lög tóku gildi löngu eftir að hið ætlaða brot sem ákært er fyrir var framið. Verða þessi rök ákærða skilin svo að brotinu sé þannig ekki réttilega lýst með tilliti til refsinæmis verknaðarins á þeim tíma sem hið ætlaða brot var framið, heldur með tilliti til refsinæmis samkvæmt síðar tilkomnum lögum.

11       Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þessi grundvallarregla kemur einnig fram í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur er með lögum nr. 62/1994 þar sem segir að engan skuli telja sekan um afbrot hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi, sem hann er borinn, eigi varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti þá framin voru.

12       Orðalag ákæru er þannig að ætla má að það taki mið af orðalagi 194. gr. almennra hegningarlaga eftir breytingar þær sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018. Á hinn bóginn verður ráðið af athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2007, sem í gildi voru er hið ætlaða brot var framið, að meginmarkmið þeirra breytinga hafi í reynd verið það að draga úr áherslu á verknaðaraðferðir og leggja í staðinn áherslu á það að með brotunum séu höfð kynmök við þolanda án samþykkis hans og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. Verður því ekki litið svo á að ákæru sé svo áfátt að þessu leyti að andstætt sé 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að ekki verði lagður á hana dómur. Enn er þess að geta að á ákæruvaldinu hvílir sönnunarbyrði um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem lýst er í ákæru og sem hafi verið refsiverð lögum samkvæmt á þeim tíma sem hið meinta brot á að hafa verið framið. Ber ákæruvaldið hallann af því takist sú sönnun ekki, sbr. meðal annars dóm Landsréttar 27. september 2019 í máli nr. 53/2019.

13       Aðdraganda að kynnum brotaþola og ákærða er lýst í hinum áfrýjaða dómi en hinn fyrrnefndi sótti reglulega tíma hjá ákærða í heilun, slökun eða viðtöl frá því seint á árinu 2008 eða snemma á árinu 2009 og allt þar til atvik það sem ákæran lýtur að á að hafa átt sér stað í lok september 2010. Fyrir liggur að faðir brotaþola þekkti ákærða gegnum starf sitt fyrir […]. Það var síðan ekki fyrr 17. mars 2016 sem brotaþoli kærði atvikið til lögreglu en þann dag var jafnframt tekin skýrsla af brotaþola hjá lögreglu.

14       Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, hvílir á ákæruvaldinu að færa sönnur á sekt ákærða. Dómari metur hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé komin fram um hvert það atriði er varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu nýtur ekki við sýnilegra sönnunargagna sem geta varpað ljósi á atvik þau sem ákæran lýtur að, önnur en skjáskot af Facebook-samskiptum ákærða og brotaþola frá 18. september til 2. október 2010. Ráðast lyktir málsins þannig fyrst og fremst af mati á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar fyrir héraðsdómi, en einnig fyrir lögreglu. Við þetta mat geta skýrslur vitna, sem ekki hafa skynjað atvik af eigin raun, einnig haft þýðingu að því marki sem unnt er að draga ályktanir um sakarefnið af framburði þeirra.

15       Ákærði og brotaþoli eru einir til frásagnar um samskipti þeirra þegar brotaþoli kom í tíma til ákærða. Þetta á einnig við um atvik það sem ákært er vegna. Frásögn brotaþola af aðdraganda af kynnum hans og ákærða og um fjölda koma brotaþola til ákærða og það sem þeim fór í milli er stöðug og trúverðug. Það sama verður sagt um frásögn brotaþola af atviki því er ákæran lýtur að. Þá þykja skýringar brotaþola á því hvers vegna hann fór aftur í tíma til ákærða eftir umrætt atvik og frásögn hans af þeirri heimsókn einnig trúverðugar.

16       Framburður ákærða er á hinn bóginn óstöðugur um mikilsverð atriði. Þannig lýsir ákærði því svo fyrir lögreglu að brotaþoli hafi stundum verið nakinn á nuddbekknum hjá honum. Aðspurður hvernig stæði á því sagðist ákærði ekki vita það og spyrja yrði brotaþola sjálfan um það. Verður ákærði skilinn svo að þetta hafi verið nokkuð sem brotaþoli hafi sjálfur ákveðið. Enn fremur kemur fram í þessum framburði ákærða að almennt fari þetta eftir því hvað fólk vilji, hvort það er í fötum eða fari úr þeim. Í framburði fyrir dómi hélt ákærði því á hinn bóginn fram að brotaþoli hefði í engum tilvikum verið nakinn á bekknum hjá honum. Aðspurður hvort framburður hans hjá lögreglu hefði verið rangur að þessu leyti, svaraði ákærði því svo að „ég mundi þá álíta það að ég hafi meint að hann hafi verið í naríum eða nærbuxum … með handklæði yfir sig“. Misræmi er í framburði ákærða um þetta atriði sem þykir draga úr trúverðugleika framburðar hans. Skýringar ákærða á þessu misræmi eru ósannfærandi og ótrúverðugar.

17       Í framburði sínum bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi bar brotaþoli að hann hefði farið mjög oft til ákærða, jafnvel „tæplega 50 skipti“, fyrst í húsnæði […] og eftir það heim til ákærða í […] á […] þar sem ákærði hafi verið með á efri hæð sérstakt herbergi með aðstöðu til að taka á móti fólki sem til hans leitaði í heilun eða slökun. Greinir brotaþoli svo frá að það hafi iðulega verið ákærði sem hafði samband við hann að fyrra bragði, „allavega í 9 af hverjum 10 skiptum“. Í framburði sínum fyrir lögreglu gekkst ákærði við því að „kannast við“ brotaþola en hann myndi ekkert eftir því hvers vegna hann kom til hans eða hver tilgangurinn með því var. Hann hafi hitt brotaþola í nokkur skipti, „svona tíu skipti“. Spurður að því hjá lögreglu hver hefði átt frumkvæðið að samskiptum þeirra svaraði ákærði því til að hann myndi það ekki. Sérstaklega spurður um hvort það hefði verið hann sjálfur vildi ákærði ekkert fullyrða eða taka undir neitt varðandi það, enda myndi hann það ekki. Greindi hann svo frá að brotaþoli hefði sótt í að hitta hann til að tala saman „og allt það“. Spurður fyrir dómi um fjölda heimsókna, bar ákærði að hann gæti ekkert talað um það. Brotaþoli hefði komið til hans nokkrum sinnum í heilun og slökun. Hann myndi ekki glöggt hvað fór fram í hvert skipti, hvort það var nudd, slökun, heilun eða samtöl, né heldur hvað það var sem bjátaði á eða hvað talað var um. Brotaþoli, sem var mikið í […], hefði komið til hans til að fá „einhverja úrlausn einhverra mála“. Verður framburður hans skilinn þannig að brotaþoli hafi leitað til hans vegna fótameina, meðan brotaþoli hefur sjálfur greint frá því að það hafi verið vegna bakverkja.

18       Móðir brotaþola kom fyrir dóm þar sem hún var spurð um samskipti ákærða og brotaþola. Í framburði hennar kemur fram að hún hafi sjálf orðið vör við að mál hafi þróast með þeim hætti að það hafi alltaf verið ákærði sem leitaði eftir því að brotaþoli kæmi til hans, „alltaf oftar og oftar og mér var farið að finnast þetta eitthvað skrýtið“. Fram kemur að sonur hennar hafi sýnt henni smáskilaboð frá ákærða þar sem ákærði hafi hvatt brotaþola til að koma í heilun til sín. Hafi henni og syni hennar verið farið að finnast þetta svolítið furðulegt. Faðir brotaþola bar með svipuðum hætti og vitnaði um mjög tíð samskipti brotaþola og ákærða sem hann varð sjálfur vitni að, meðal annars með smáskilaboðum og á Facebook. Framburður brotaþola er stöðugur um að hann hafi hitt ákærða mjög oft og ákærði hafi að stórum hluta átt frumkvæði að samskiptum við brotaþola og hvatt hann til að koma til sín í heilun eða slökun. Fær sá framburður bæði að því er varðar fjölda skipta og um frumkvæði ákærða jafnramt stoð í framburði móður hans og að nokkru föður. Framburður ákærða um fjölda skipta og frumkvæði hans sjálfs að samskiptum við brotaþola og frumkvæði að því að hvetja hann til að koma til sín er á hinn bóginn óljós og reikandi þar sem hann ber í ríkum mæli fyrir sig minnisleysi um atvik.

19       Fyrir lögreglu bar ákærði að hann hefði aðeins einu sinn hringt í brotaþola eftir atvik það sem ákæran lýtur að. Brotaþoli hafi þá ekkert viljað við hann tala, en ákærði bar fyrir lögreglu og fyrir dómi að hann hefði ekki hugmynd um ástæðu þess að brotaþoli sleit sambandi sínu við hann. Þá viðurkenndi ákærði að hafa átt samskipti eða gert tilraun til samskipta á Facebook eftir umrætt atvik en þar kemur fram að ákærði hafi verið að reyna að ná í brotaþola til að bjóða honum vínflösku. Fyrir dómi bar ákærði á svipaðan veg, það er að hann hefði hringt einu sinni í brotaþola eftir umrætt atvik, brotaþoli hefði svarað og beðið sig um að hringja ekki aftur og hefði ákærði virt það.

20       Fyrir lögreglu bar brotaþoli aftur á móti að ákærði hefði eftir atvikið hringt í sig „gjörsamlega non stopp“ en brotaþoli hefði ekki svarað. Fyrir dómi lýsti brotaþoli því að eftir atvikin sem leiddu til þess að hann hætti öllum samskiptum við ákærða, hefði ákærði hringt stanslaust í hann og aftur og aftur án þess að brotaþoli hefði svarað símanum. Framburður brotaþola fær stoð í framburði móður hans og að nokkru leyti föður en bæði vitna þau um margar tilraunir ákærða til að ná tali af brotaþola langt umfram það sem ráðið verður af skjáskoti af Facebook-skilaboðum ákærða til brotaþola sem liggja fyrir í málinu.

21       Í málinu liggja einnig fyrir framburðir vitna um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lýtur að og eftir að samskiptum brotaþola við ákærða lauk. Þannig vitnar vottorð B sálfræðings um mikinn kvíða og vanlíðan brotaþola, erfiðleika við einbeitingu, svefnvanda og fleira. Telur hún í vottorði sínu að brotaþoli beri skýr einkenni áfallastreituröskunar. Þótt þessi gögn vitni ekki beint um atvik þau er ákæran lýtur að er þar þó lýst dæmigerðum einkennum þolenda kynferðisbrota. Þau styðja þannig óbeint við frásögn brotaþola af samskiptum við ákærða og atvikum þeim er ákæran lýtur að.

22       Á grundvelli þess sem að framan er rakið, sem og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, er niðurstaðan sú að telja verður sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

23       Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Þá ber að taka tillit til þess að nú eru liðin rúmlega fjögur ár frá því að kæra kom fram og hafa þannig orðið tafir á málsmeðferðinni sem ákærða verður ekki um kennt. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

24       Brotaþoli krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest ákvæði hans um skyldu ákærða til greiðslu miskabóta og fjárhæð þeirra.

25       Um sakarkostnað, þóknun verjanda og réttargæslumanns brotaþola sem tilgreind eru með virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar réttargæslumanns fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.300.041 króna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 800.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Landsrétti, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 400.000 krónur auk útlagðs kostnaðar hans 57.360 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 18. desember 2018

               

Mál þetta, sem dómtekið var þann 20. nóvember sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 18. ágúst 2018, á hendur ákærða, Þórhalli Guðmundssyni, kt. [...], til heimilis að [...], Garðabæ,

               

fyrir nauðgun, með því að hafa í lok september 2010, á þáverandi heimili hans að [...] á [...], fróað A án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði misnotaði sér það traust sem A bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 úr hendi ákærða. Gerð er krafa um greiðslu vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2011 til greiðsludags af framangreindri fjárhæð. Þá er gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 1. júlí 2016 til greiðsludags. Einnig er krafist þóknunar til handa réttargæslumanni úr ríkissjóði.“

 

                Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda hans.

                Dómstólasýslan fól dómaranum meðferð máls þessa.

 

Málavextir.

 

Þann 17. mars 2016 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöð í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart honum í lok september 2010. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða árið 2007 eða 2008 þegar ákærði hafi verið með miðilsfund í [...] á [...]. Hafi brotaþoli í framhaldi af því farið á miðilsfund sem ákærði hafi haldið í [...]. Hafi ákærði boðið brotaþola eftir það að fara í heilun til hans, en á þessum tíma hafi brotaþoli verið í […] og verið meiddur í baki. Hafi brotaþoli farið reglulega í þessa tíma hjá ákærða og hafi þeir farið að ræða hin og þessi mál og hafi ákærði verið orðinn eins og góður vinur brotaþola. Hafi ákærði alltaf hringt að fyrra bragði og boðið brotaþola að koma heim til hans í heilun. Brotaþoli kvað að í ársbyrjun 2010 hafi ákærði farið að sýna af sér vafasama hegðun. Þegar hann hafi tekið á móti brotaþola hafi hann verið í bol og stuttbuxum eða náttbuxum. Þá hafi ákærði farið að taka brotaþola úr bolnum og teygja á honum. Ákærði hafi í einhver skipti beðið brotaþola að leggjast á nuddbekk í því skyni að fá líkama hans í jafnvægi. Þetta hafi hægt og hægt þróast í að brotaþoli hafi verið á brókinni og síðan hafi ákærði farið að klæða brotaþola úr henni. Í tvö skipti hafi það gerst að ákærði hafi rekist í eða rétt snert kynfæri brotaþola, kannski óvart að því er brotaþoli hélt. Þá kvað brotaþoli það hafa gerst einu sinni að ákærði hafi rúnkað honum þar sem hann lá nakinn á bekknum og hafi það staðið í um fimm mínútur. Brotaþoli kvaðst hafa frosið, síðan klætt sig og hafi þeir talað eitthvað saman. Hann hafi kvatt ákærða og einhvern veginn ekki áttað sig á því sem hefði gerst. Tveimur dögum síðar hafi brotaþoli ákveðið að hitta ákærða einu sinni enn þar sem hann hafi talið sig þurfa að fá staðfestingu á því hvað hefði gerst. Hafi ákærði spurt hvort brotaþoli vildi bekk eða stól og hafi brotaþoli valið stólinn. Hafi ákærði ítrekað beðið brotaþola að leggjast á bekkinn en það hafi endað með því að brotaþoli hafi lagst á dýnu. Brotaþoli kvað ákærða ekki hafa rúnkað brotaþola í þetta skipti en hann kvaðst hafa séð hvað ákærði hafi verið ógeðslega graður þegar hann hafi verið að teygja á honum. Kvaðst brotaþoli þá hafa áttað sig á því hvað væri í gangi. Hann kvaðst eftir þetta ekki hafa farið til ákærða en næstu daga á eftir hafi ákærði hringt eða sent SMS stanslaust en brotaþoli kvaðst ekki hafa svarað honum. Þá hafi ákærði þann 2. október 2010 sent honum Facebook skilaboð þar sem hann hafi boðist til að gefa honum áfengisflösku. Næstu mánuði hafi brotaþoli fengið hringingar úr leyninúmeri sem hann kvaðst ekki hafa svarað fyrr en sex til átta mánuðum síðar þegar hann hafi svarað hringingu ákærða sem hafi spurt mjög hrokafullur hvort hann hefði gert brotaþola eitthvað. Brotaþoli kvaðst hafa neitað því en beðið ákærða að láta sig í friði og síðan skellt á hann. Brotaþoli kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða eftir þetta.

Ákærði var yfirheyrður þann 20. apríl 2016 og neitaði hann því að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við brotaþola. Hann kannaðist við að brotaþoli hefði komið í heilun til hans og tvisvar til fjórum sinnum hefði hann farið á nuddbekk þar sem ákærði kvaðst hafa nuddað hann og látið hann gera slökunaræfingar.  Ákærði mundi ekki eftir að hafa klætt brotaþola úr bolnum og þá kannaðist hann ekki við að hafa klætt hann úr brókinni. Ákærði kvaðst muna að brotaþoli hafi sjálfur farið úr og verið stundum nakinn á bekknum. Hann kvaðst ekki hafa vitað af hverju en hann kvaðst yfirleitt hafa sett handklæði yfir brotaþola. Þá neitaði ákærði að hafa strokið kynfæri brotaþola eða rúnkað honum. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa hringt stanslaust í brotaþola eftir að hann hætti að mæta hjá honum

                               

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

 

                Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst brotaþola í gegnum fjölskyldu hans í tengslum við [...] þar sem ákærði hafi starfað sem miðill. Hafi þetta sennilega verið í kringum 2006 til 2007. Hafi faðir brotaþola unnið þarna við heilun eins og ákærði. Brotaþoli hafi komið nokkrum sinnum á einkafundi en ákærði mundi ekki hvernig það hafi þróast. Brotaþoli hafi einnig komið á heimili ákærða en ákærði gat ekki munað hversu oft brotaþoli hafi komið, en hann hafi komið í heilun og slökun. Ákærði kvaðst hafa átt nuddbekk og hafi brotaþoli farið í slökun á honum. Hafi hann legið á bekknum, tuttugu mínútur í senn og hafi ákærði lítið eitt nuddað brotaþola, aðallega lagt hendur á ökkla og fætur að því er ákærða minnti. Hann hafi ekki nuddað vöðva, heldur hafi þetta verið heilun, sem sé snerting á nöktum fótlegg og þá hafi tónlist verið notuð. Að því er ákærða minnti hafi brotaþoli einhvern tíma verið í stuttbuxum, því hann hafi verið að koma af æfingu. Brotaþoli hafi verið klæddur að ofan og hafi hann aldrei hafa verið nakinn á bekknum. Ákærði mundi ekki hve oft brotaþoli hafi lagst á bekkinn, það hafi algjörlega verið hans val hvort hann legðist á bekkinn. Hann kvað meðferðina ekki hafa verið fólgna í öðru og þá mundi hann ekki hvað honum og brotaþola hafi farið á milli í þessari meðferð. Ákærði kvað brotaþola hafa verið góðhjartaðan, tilfinningaríkan og hafi hann verið að spila […]. Hafi samskipti þeirra verið ósköp eðlileg, þeir hafi talað saman en ákærði mundi ekki eftir umræðuefninu. Ákærði mundi þó eftir því að brotaþoli hafi haft áhyggjur af heilsu systur sinnar. Hann kvað allan gang á því hvort hann hafi fengið fólk í meðferð heim til sín eða í […]. Hann kvað brotaþola aðallega hafa verið að sækja eftir slökun og hafi hann þá viljað fara á nuddbekkinn heima hjá ákærða. Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið við greiðslu frá fólki fyrir heilun heima hjá honum. Hann kvaðst hafa haft fastar tekjur frá […]. Ákærði mundi ekki eftir að hafa áreitt brotaþola. Ákærði kannaðist við að hafa boðið brotaþola áfengi, það hafi ekki verið ásetningur hans að múta honum, en ákærði mundi ekki tilefnið, en það hafi ekki verið af annarlegum hvötum. Hann kvað samskiptum sínum við brotaþola hafa lokið árið 2010 þegar brotaþoli hafi skyndilega hætt að tala við ákærða og kvaðst hann aldrei hafa fengið skýringar á því. Hann kvaðst einu sinni hafa hringt í brotaþola eftir þetta en hann hafi beðið hann um að hafa ekki samband aftur.  Ákærði kvaðst enn ekki vita hver ástæðan hafi verið fyrir þessu og þá hafi samskiptin við fjölskylduna rofnað á þessum tíma. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa ítrekað reynt að ná sambandi við brotaþola. Ákærði kvaðst ekki muna eftir síðasta skiptinu sem brotaþoli kom til hans og þá kvað ákærði aldrei hafa verið um kynferðisleg samskipti að ræða milli þeirra og þá hafi hann aldrei komið við kynfæri hans. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við lýsingu brotaþola á háttsemi ákærða gagnvart honum og kvaðst hann alfarið neita ákæruefninu. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem fram kemur að brotaþoli hafi stundum farið sjálfur úr og hafi hann stundum verið nakinn á bekknum og hafi ákærði sett handklæði á hann miðjan. Ákærði taldi að hann hefði meint að brotaþoli hefði verið í nærbuxum með handklæði yfir sér en ákærði kvaðst ekki muna eftir slíku tilviki.

                Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fyrst hitt ákærða á miðilsfundi á […] árið 2008 eða 2009. Einhverjum mánuðum síðar hafi hann pantað tíma á miðilsfund með ákærða. Hafi þeir síðan farið að tala saman á Facebook. Hafi brotaþoli þá farið að sækja tíma í heilun hjá ákærða vegna vandamála í baki, en hann hafi á þessum tíma verið í […]. Hann hafi mætt heim til ákærða, þar hafi verið róleg tónlist og hafi fyrstu tímarnir verið fínir. Síðan hafi ákærði farið að hafa samband að fyrra bragði og tímarnir orðið furðulegir en hann hafi mætt hjá honum í tugi skipta. Hafi ákærði orðið nokkurs konar trúnaðarvinur brotaþola og hafi hann sagt ákærða frá einkalífi sínu. Hafi ákærði reynt að hafa áhrif á það hvaða stelpum brotaþoli væri með. Hafi ákærði alltaf verið í stuttbuxum og bol. Hafi ákærði farið að taka hann úr bolnum og þá hafi hann farið að bjóða brotaþola að leggjast á nuddbekk. Hafi það alltaf endað þannig að brotaþoli væri á brókinni. Hafi ákærði farið að snerta typpið á brotaþola, fyrst mjög lítið, en þá hafi brotaþoli verið nakinn eftir að ákærði hefði verið búinn að taka hann úr brókinni. Brotaþoli kvaðst á þessum tíma ekkert hafa pælt í þessu. Ákærði hafi ekki rúnkað brotaþola. Brotaþoli lýsti því atviki sem mál þetta snýst um þannig að ákærði hafi beðið hann um að fara á bekkinn, hann hafi tekið brotaþola úr brókinni og hafi hann legið nakinn á bekknum. Hann hafi notað einhverja olíu og eftir einhvern tíma hafi ákærði nuddað axlir, teygt á brotaþola og síðan hafi hann fikrað sig áfram og hægt og hægt hafi hann nálgast typpið á brotaþola og fljótlega farið að rúnka honum með hægri hendi. Brotaþoli kvaðst hafa frosið, en ákærði hafi verið með andlitið alveg upp við typpið. Hann taldi að þetta hafi staðið yfir í fimm mínútur en þá hafi ákærði hætt. Ákærði hafi farið að tala um daginn og veginn eins og ekkert hefði í skorist. Brotaþoli kvaðst hafa farið heim eftir fimm til tíu mínútur og verið í áfalli. Brotaþoli kvaðst hafa farið aftur til ákærða eftir þetta tveimur dögum síðar þar sem hann hafi viljað átta sig á því hvað hefði gerst. Hann kvað ákærða hafa spurt  hvort brotaþoli hafi viljað stól eða bekk. Brotaþoli kvaðst hafa viljað stólinn en ákærði hafi verið ýtinn og viljað fá brotaþola á bekkinn. Hafi ákærði þá fengið brotaþola til að leggjast á dýnu og hafi ákærði klætt brotaþola úr að neðan og þá kvaðst hann hafa séð hvað ákærði hafi verið sveittur, graður og ógeðslegur í framan. Kvaðst brotaþoli þá hafa sagt að þetta væri orðið gott og kvaðst hann þá hafa farið. Hafi ákærði eftir þetta stanslaust hringt í brotaþola og daginn eftir kvaðst brotaþoli hafa sagt móður sinni frá þessu og hafi hún áttað sig á því að þetta hafi ekki verið eðlilegt. Hann kvaðst einnig hafa sagt föður sínum frá þessu degi síðar. Hann kvað ákærða hafa hringt stanslaust í fjóra til fimm daga, þá hafi hann sent SMS og skilaboð á Facebook þar sem hann hafi boðið honum áfengi. Eftir þetta hafi hringingum fækkað en við hafi tekið hringingar úr leyninúmerum, sennilega í þrjá til fimm mánuði. Hann kvaðst einu sinni hafa svarað og hafi það verið ákærði sem hafi heilsað og viljað vita hvort hann hefði gert honum eitthvað. Brotaþoli kvaðst hafa neitað því en beðið ákærða að láta sig í friði og skellt á. Hann kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða eftir þetta. Brotaþoli kvaðst hafa treyst ákærða og kvaðst hann sjá eftir á að hann hefði heilaþvegið sig. Hann kvaðst hafa litið á ákærða sem vin sinn sem væri að hjálpa honum. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa greitt ákærða fyrir þessa tíma sem hann sótti hjá honum og þá hafi ákærði aldrei krafið hann um greiðslu. Hann kvað umrætt atvik hafa gerst í lok september 2010 en hann hafi ekki verið reiðubúinn að kæra fyrr en ári eftir að hann hafi fyrst leitað til sálfræðings árið 2015. Hann kvaðst hafa orðið mjög reiður eftir fyrsta tímann hjá sálfræðingnum en eftir að hann hafði rætt við sálfræðinginn árið 2016 hafi hann tekið þá ákvörðun að kæra. Brotaþoli kvaðst á þessum tíma hafa talað við vitnið C sem hafi kært ákærða fyrir sambærilega háttsemi og hafi hann sagt brotaþola frá því að ákærði hafi beitt sömu aðferð á hann. Hann kvaðst þá fyrst hafa fengið alvöru áfallið og áttað sig á því hversu mikið ákærði hefði brotið á honum. Hann hafi átt erfitt með svefn og fengið kvíðaköst. Hann kvaðst hafa rætt þetta við systkini sín og þá kvaðst hann hafa leitað sér aðstoðar hjá […]. 

                Vitnið D, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi kynnst ákærða í gegnum [...] og hafi hún komið á miðilsfundi hjá honum. Hún kvað brotaþola hafa farið á skyggnilýsingafund sem ákærði hafi haldið og hafi þeir hist á veitingastað. Síðar hafi brotaþoli leitað til ákærða vegna meiðsla í baki, annað hvort í nudd eða heilun. Ákærði hafi oft haft samband við brotaþola og boðið honum að koma til sín. Hafi ákærði oftar og oftar leitað eftir því að brotaþoli kæmi til hans. Hafi ákærði rætt stelpumál við brotaþola og hafi henni fundist það furðulegt og einnig hversu oft ákærði hafi beðið brotaþola að koma. Þá hafi ákærði oft hringt og sent SMS til brotaþola. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hefði verið að nudda sig við kynfæri sín og snert þau og halda utan um sig aftan frá. Þá hafi hann legið nakinn á bekk hjá ákærða. Brotaþoli hafi verið reiður og ekki viljað tala mikið um þetta. Hafi þá verið haft samband við […] því brotaþola hafi verið farið að líða illa. Hafi brotaþola þótt erfitt að aka götuna sem ákærði bjó við. Brotaþola hafi liðið illa og hafi þetta haft áhrif á nám hans. Hafi brotaþoli verið pirraður, sjálfstraust hans hafi minnkað, hann hafi skammast sín fyrir að hafa látið þetta gerast. Eftir að brotaþoli hafði farið til ákærða í síðasta skipti hafi ákærði hringt stanslaust og sent SMS í nokkra daga. Hafi brotaþola verið ráðlagt að svara ákærða ekki. Þá hafi farið að berast hringingar úr leyninúmeri sem brotaþoli hafi ekki svarað. Hún kvað brotaþola hafa tjáð sér síðar að ákærði hefði fróað honum, en hann hefði aldrei nákvæmlega sagt sér hvað hefði gerst. Ákærði hafi leitað til sálfræðings og eftir það hafi hann farið að geta opnað sig meira. Hún kvað brotaþola nú líða oftast ágætlega en honum þyki ekki gott að koma til [...].

                Vitnið E, faðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst ákærða fyrir aldamótin í gegnum […]. Hann kvaðst hafa verið á fundum með ákærða. Hann kvað brotaþola hafa kynnst ákærða á fundi í skólanum og hafi þeir eftir það hist á veitingastað. Hann kvað brotaþola hafa farið á fund hjá ákærða og eftir það hafi þeir hist oft. Þeir hafi einnig verið í samskiptum á Facebook og með SMS. Hann kvað brotaþola ekki hafa rætt mikið um það hvað þeim fór á milli en brotaþoli hafi oft farið heim til ákærða. Vitnið kvaðst hafa frétt af umræddu tilviki nokkru eftir að það hafði gerst. Hann hafi ekki verið mikið heima vegna vinnu en hann hafi orðið var við breytingu á brotaþola, hann hafi orðið ör og pirraður. Eftir nokkurn tíma hafi móðir brotaþola komist að því sem gerst hefði og eftir það hafi vitnið fengið að vita það. Brotaþoli hafi sagt móður sinni frá atvikum og kvaðst vitnið hafa orðið vart við mjög tíðar hringingar frá ákærða, í tvo til þrjá daga. Vitnið kvað brotaþola ekki strax hafa viljað segja hvers vegna ákærði hafi verið að hringja, hann hafi ekki sagt það fyrr en síðar, en ekki nákvæmlega hvað hefði gerst. Hann hafi talað um að þetta hefði verið sérstakur tími en ekki talað um að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn honum, hann hafi ekki sagt það fyrr en löngu síðar, um það bil sem brotaþoli hafi lagt fram kæru á hendur ákærða. Vitnið kvað brotaþola hafa átt erfitt með að tala um þetta við vitnið og kvaðst vitnið ekki hafa viljað ganga á hann. Hann kvaðst hafa verið í heilun eða nuddi hjá ákærða og hefði það gengið lengra en menn hefðu ætlað. Hann hafi ekki sagt nánar frá fyrr en löngu síðar. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt um mál þetta við ákærða. Vitnið kvaðst tengja breytingar á brotaþola við umræddan atburð, sem greinilega hafi verið mjög erfiður fyrir hann og hafi sjálfsmynd hans brotnað niður.

                Vitnið F, systir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi einhvern tíma farið í heilun heima hjá ákærða. Hún kvað móður sína og brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði snert brotaþola á kynferðislegan hátt. Hann hefði snert sig í kringum typpið og minnti vitnið að hann hefði sagt að hann hefði verið nakinn á bekk í heilun. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hefði strokið á honum typpið að því er vitnið minnti. Vitnið kvað brotaþola vera einhvern veginn niðurdreginn og hafi hún í fyrstu ekki vitað af hverju. Þau hafi einhverju síðar rætt þetta í bílferð. Brotaþoli hafi sagt að hann hefði farið til sálfræðings. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað hefði farið fram í tímunum hjá ákærða á sínum tíma. Hún kvað brotaþola lítið tala um þetta mál nú, honum þyki það erfitt.

                Vitnið G, bróðir ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hann þekkti ákærða og hefði hann farið á miðilsfund hjá honum. Í framhaldi af því hafi hann hitt ákærða í nokkur skipti og hafi þetta fljótlega farið að verða skrýtnara og skrýtnara, t.d. undarlegar spurningar frá ákærða. Hafi þetta sennilega verið 2007 til 2008. Vitnið kvað ákærða hafa spurt sig út í brotaþola og hafi samskipti ákærða og brotaþola fljótlega orðið undarleg.  Hafi móðir vitnisins sagt honum frá umræddu atviki og síðar hafi brotaþoli sagt honum frá því sem gerst hefði. Hann kvað endalausar símhringingar og SMS frá ákærða til brotaþola hafa verið mjög undarlegar. Hann kvaðst hafa heyrt fleiri sögur af þessum toga um ákærða frá öðrum en brotaþola. Vitnið kvaðst á þessum tíma hafa búið erlendis. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði nuddað sig, hann hefði verið nakinn á nuddbekk og hefði ákærði fært sig upp á skaftið sem hafi endað með því að ákærði hafi fróað brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa liðið mjög illa eftir þetta og hafi hann ekki borið sitt barr eftir þetta.

                Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hún og faðir brotaþola væru systkinabörn. Hún kvað móður brotaþola hafa hringt í sig, en vitnið kvaðst vera ráðgjafi hjá […]. Hafi hún sagt að brotaþoli hefði verið í nuddi hjá ákærða og hefði hann farið yfir mörkin gagnvart honum en hún hafi ekki sagt nákvæmlega hvað hefði gerst. Hafi hún leitað ráða því brotaþoli hafi lítið viljað tala um þetta. Hafi brotaþoli síðar haft samband við vitnið og kvaðst hún hafa talað við hann og bent honum á að hann gæti farið í viðtöl hjá […] hjá einhverjum öðrum en henni vegna skyldleika þeirra. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hefði eitthvað farið inn á kynfæri sín. Vitnið hélt að brotaþoli hefði farið í einhver viðtöl. Vitnið kvað brotaþola hafa verið rosalegan reiðan fyrst.

                Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði hitt brotaþola til þess að ræða um háttsemi ákærða. Vitnið kvaðst hafa lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot árið 2015 eða 2016, en það mál hefði verið fellt niður, að hluta til vegna fyrningar. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola og hafi upplifun þeirra af háttsemi ákærða verið svipuð. Hann kvað brotaþola þó ekki hafa sagt beint hvað hefði gerst milli þeirra.

                Vitnið I, fyrrverandi námsráðgjafi, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að móðir brotaþola hafi leitað til sín vegna erfiðleika hans og hafi móðir hans talið að skýringin væri kynferðisbrot sem hann hefði orðið fyrir af hálfu ákveðins aðila sem hann hefði leitað til vegna nudds. Hefði maðurinn leitað á hann þar en vitninu hafi ekki verið sagt hversu langt það hefði gengið. Hefði brotaþoli klippt á samskiptin en í framhaldi hefði maðurinn leitað eftir frekari samskiptum við brotaþola með SMS skilaboðum. Hafi brotaþoli sagt vitninu að honum hafi þótt samskiptin við manninn mjög óþægileg og kvaðst hann hafa vitað að maðurinn hefði aðgang að öðrum strákum.

                Vitnið B, sálfræðingur, kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína. Hún kvað brotaþola augljóslega hafa verið í uppnámi í fyrsta og öðrum tíma hjá henni, sérstaklega þegar hann hafi verið beðinn um að lýsa atvikum í smáatriðum og hafi hann átt erfitt með það. Hann hafi komið í átta eða níu skipti og smám saman hafi farið að draga úr einkennum. Hún kvað sjálfsmat brotaþola hafa mælst lægra en í meðallagi. Hún kvað brotaþola hafa sýnt töluvert mikil einkenni áfallastreituröskunar. Hann hafi verið með svefnörðugleika, hann hafi fengið martraðir og fengið minningar tengdar atvikum án þess að hann væri að hugsa um þau. Þá hafi hann sýnt forðunareinkenni, verið uppstökkur, pirraður og erfiður í samskiptum.  Hún kvað brotaþola að hluta til hafa lýst atvikum en hann hafi forðast það. Hún kvaðst muna eftir að hann hafi talað um að þeir hefðu hist á atburði tengdum skólanum og í framhaldi af því hafi verið fundur heima hjá ákærða. Hafi myndast tengsl milli þeirra, traust hafi myndast og samskiptin aukist. Þá hafi ákærði nuddað brotaþola á líkamshlutum sem hann hafi upplifað sem kynferðislega snertingu. Hann hafi talað um að ákærði hefði snert kynfæri brotaþola og fróað honum. Vitnið kvað brotaþola hafa verið mjög trúverðugan og væru minningabrot hans mjög skýr og hann hefði gefið heildstæða frásögn. 

 

 

Niðurstaða.         

 

                Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa í lok september 2010 fróað brotaþola án hans samþykkis á nuddbekk á heimili ákærða. Í ákæru er ákærði talinn hafa beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að misnota það traust sem brotaþoli hafi borið til hans sem heilara.

Ákærði neitar alfarið sök en kannast við að brotaþoli hafi í nokkur skipti legið á nuddbekk heima hjá ákærða þar sem hann hafi beitt heilun og lítið eitt nuddað brotaþola, aðallega lagt hendur á ökkla og fætur að því er ákærða minnti. Ákærði neitar því að hafa snert kynfæri brotaþola. Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að brotaþoli hefði aldrei legið nakinn á bekknum hjá honum en við yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði að brotaþoli hefði stundum farið sjálfur úr og hafi hann stundum verið nakinn á bekknum og hafi ákærði sett handklæði á hann miðjan. Ákærði skýrði þetta misræmi með þeim hætti að hann hafi átt við að brotaþoli hefði verið í nærbuxum með handklæði yfir sér. Brotaþoli kvað fyrstu tímana hjá ákærða hafa verið fína, en smám saman hafi tímarnir orðið furðulegir, ákærði hafi farið að snerta á honum typpið, fyrst mjög lítið en síðan hafi ákærði rúnkað honum. Kvaðst brotaþoli hafa frosið við þetta en ekkert sagt og ákveðið að fara aftur í tíma hjá ákærða til þess að átta sig á því hvað hefði gerst. Í þeim tíma hafi ákærði klætt brotaþola úr að neðan og þá kvaðst brotaþoli hafa séð hvað ákærði hafi verið sveittur, graður og ógeðslegur í framan og hafi brotaþoli þá farið og ekki farið aftur í tíma til ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa borið traust til ákærða, litið á hann sem trúnaðarvin sinn en hann sæi eftir á að ákærði hefði heilaþvegið sig. Brotaþoli kvaðst ekki hafa verið reiðubúinn að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrr en ári eftir að hann hafði fyrst leitað til sálfræðings á árinu 2015. Foreldrar brotaþola og systkini kveða hann fljótlega hafa sagt þeim frá atvikum og þá kveða þau brotaþola hafa liðið mjög illa eftir þetta. Þá hafa brotaþoli, foreldrar hans og bróðir lýst fyrir dómi tíðum hringingum og SMS skilaboðum frá ákærða til brotaþola fyrstu dagana eftir umrætt atvik en ákærði kannast ekki við það.

                Ákærði og brotaþoli eru einir til frásagnar um samskipti þeirra á nuddbekk á heimili ákærða umrætt sinn. Brotaþoli er að mati dómsins mjög trúverðugur og þá fær frásögn hans stoð í framburði foreldra hans, systkina og annarra vitna sem komu fyrir dóm í máli þessu. Þá er samræmi í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Það rýrir trúverðugleika ákærða að misræmi er í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi varðandi það hvort brotaþoli hafi legið nakinn á nuddbekknum. Þá hefur ákærði að mati dómsins ekki gefið trúverðugar skýringar á þessu misræmi. Brotaþoli og fjölskylda hans hafa lýst tíðum hringingum og SMS skilaboðum frá ákærða í nokkra daga eftir umrætt atvik en ákærði vill ekki kannast við þetta atriði. Lýsing brotaþola á samskiptum hans og ákærða benda til þess að ákærði hafi smátt og smátt unnið trúnað brotaþola og smám saman fært sig upp á skaftið í samskiptum sínum við hann. Þá styður það framburð brotaþola að hann sleit á öll samskipti við ákærða eftir umrætt atvik og svaraði ekki símhringingum og skilaboðum ákærða fyrr en all nokkru síðar þegar hann hafi beðið ákærða að láta sig í friði og skellt á hann. Þá hafa vitni í máli þessu lýst miklum afleiðingum fyrir brotaþola sem talin eru hafa hlotist af samskiptum brotaþola við ákærða, t.d. svefnleysi, kvíðaköstum og þunglyndi.

                Þegar allt framanritað er virt þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en háttsemi ákærða var refsiverð samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í gildi voru þegar brot hans var framið. 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Refsingu ákærða ber að ákveða með hliðsjón af því að brot hans var framið fyrir rúmum átta árum og nú eru liðin tæp þrjú ár frá því brotaþoli lagt fram kæru á hendur ákærða. Hins vegar ber að hafa í huga að brotaþoli var rétt rúmlega tvítugur þegar ákærði braut á honum og þá leit brotaþoli á hann sem trúnaðarvin sinn um tíma. Hefur ákærði með þessari háttsemi sinni gagnvart brotaþola því freklega rofið það traust sem brotaþoli bar til hans í framangreindri meðferð. Með hliðsjón af framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.

                Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brot ákærða hafi verið sérstaklega svívirðilegt þar sem það hafi beinst gegn ungum manni sem hafi lagt traust sitt á ákærða. Brotaþoli hafi litið upp til hans og hafi brotið haft mikil áhrif á heilsu hans og valdið honum verulegri sálrænni vanlíðan. Séu afleiðingar brotsins skert sjálfstraust, skapgerðarbrestir, erfiðleikar með svefn og kvíðaköst. Þá hefur verið lögð fram greinargerð B sálfræðings sem staðfestir að brotaþoli hafi borið einkenni þunglyndis og áfallastreituröskunar. Brot ákærða gagnvart brotaþola var til þess fallið að valda honum miska og á hann því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan þann 2. september 2016. Þykja bætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað vegna sálfræðivottorðs, 35.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 642.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 100.201 krónu.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 Ákærði, Þórhallur Guðmundsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði brotaþola, A, 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2011 til greiðsludags og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 2. október 2016 til greiðsludags. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs, 35.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 642.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 100.201 krónu.