Print

Mál nr. 749/2017

Ákæruvaldið (Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Andrés Már Magnússon hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Á á hendur X var vísað frá dómi sökum þess að málinu taldist áður lokið samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 88/2008. Þá þóttu málalok ekki fjarstæð þannig að 3. mgr. sömu greinar ætti við.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 21. nóvember 2017, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málið tekið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gekkst varnaraðili 17. mars 2017 undir greiðslu sektar vegna brots gegn 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og greiddi hana samdægurs. Ber lögregluskýrsla sama dag með sér að um málsmeðferð samkvæmt 148. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið að ræða. Var málinu því lokið á þeim lagagrundvelli. Að þessu gættu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 10. janúar 1996, sem er að finna í dómasafni réttarins það ár á bls. 31, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur                         

                                                   

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 21. nóvember 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu ákærða 8. þessa mánaðar, var höfðað 31. maí sl. með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...], Akureyri, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa síðdegis föstudaginn 17. mars 2017, ekið bifreiðinni [...] um Norðurlandsveg við Ytri Kot í Akrahreppi á 150 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

Telst framangreint varða við 2. mgr. 37. gr. sbr. 1. og 6. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga nr. 50,1987 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

II

Líkt og í ákæru greinir var ákærði stöðvaður fyrir of hraðan akstur. Í skýrslu lögreglu sem rituð var af því tilefni kemur fram að ákærði hafi játað brot sitt og þar kemur og fram að hann hafi þá þegar greitt sekt vegna háttsemi sinnar. Lögmaður ritaði, fyrir hönd ákærða, lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 27. mars. sl. bréf en í því kemur fram að ákærða hafi borist sektargerð vegna brotsins. Ákærði neiti að gangast undir sektargerðina þar sem málinu hafi lokið með því að ákærða hafi verið boðið að ljúka málinu á vettvangi með greiðslu sektar og hann hafi gengist undir þau málalok og greitt sektina. Með bréfi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra dagsettu 6. apríl er lögmanninum tjáð að lögreglustjóri hafi fellt úr gildi ætluð málalok ásamt því að endurgreiða ákærða sektina og ákærða jafnframt boðið að ljúka málinu með undirritun áður útgefnar sektargerðar. Þar mun ákærða hafa verið boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar ásamt því að sæta sviptingu ökuréttar í einn mánuð. Ákærði gekkst ekki undir þessi málalok og var ákæra gefin út 31. maí sl.

III

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa ákærða um frávísun málsins. Ákærði byggir kröfu sína á því að málinu sé þegar lokið með greiðslu sektar. Ákveðin skilyrði séu þó til þess að taka mál upp að nýju en skilyrði fyrir slíku séu m.a. að málalok hafi verið fjarstæðukennd. Í þessu tilfelli séu málalokin ekki fjarstæðukennd þó svo ákærði hafi ekki verið sviptur ökurétti í einn mánuð en fjárhæð sektarinnar sem ákærði greiddi hafi verið eðlileg. Að mati ákærða hafi því ekki verið skilyrði til endurupptöku málsins enda lok þess ekki fjarstæðukennd.

Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákvæði 3. mgr. 148. gr. laga um meðferð sakamála heimili endurupptöku málsins enda sé með öllu óásættanlegt að ákærði sleppi við sviptingu ökuréttar og slík málalok séu fjarstæðukennd.

IV

Í 1. mgr. 148. gr. laga um meðferð sakamála kemur fram að þegar lögregla stendur mann að broti sem heyrir undir ákæruvald lögreglustjóra, hann gengst skýlaust við brotinu og lögregla telur að hæfileg viðurlög við því séu einvörðungu sekt sem ekki fari fram úr tiltekinni fjárhæð sem ákveðin er með reglugerð geti lögregla ákveðið viðurlög við brotinu í samræmi við reglugerðina.

Meðal gagna málsins er áðurnefnt bréf lögreglustjórans á Norðurlandi vestra til lögmanns ákærða en þar segir m.a „Í ljósi framanritaðs hefur lögreglustjóri fellt úr gildi ætluð málalok, sbr. 3. mgr. 148. gr. laga nr. 88/2008 ásamt því að endurgreiða umbjóðanda yðar ætlaða sektargreiðslu að fjárhæð 97.500 kr. inn á bankareikning [...] Er umbjóðanda yðar hér með boðið að ljúka umræddu lögreglumáli með undirritun á áður útsendri sektargerð, dags. 3. apríl sl. ...“ Af þessu verður ekki annað ráðið en að máli ákærða hafi lokið á vettvangi enda ekki hægt að fella málalok úr gildi ef máli hefur ekki áður verið lokið auk þess sem á því er byggt af hálfu ákæruvaldsins í máli þessu að heimilt hafi verið að endurupptaka málið sökum þess að málalokin á vettvangi hafi verið fjarstæðukennd.

Í nefndri 3.mgr. 148. gr. er gerð grein fyrir skilyrðum þess að málalok samkvæmt greininni séu felld úr gildi og eru þau annars vegar að saklaus maður hafi gengist undir viðurlög samkvæmt greininni og hins vegar að málalokin hafi verið fjarstæð. Það eitt að ákærði sætti ekki sviptingu ökuréttar í einn mánuð geta ein og sér ekki talist fjarstæð málalok í skilningi nefndrar 3. mgr. 148.gr., sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 9/1996.

Þar sem málinu var lokið og ekki skilyrði til endurupptöku þeirra málaloka ber að vísa því frá dómi og fella sakarkostnað á ríkissjóð. Sakarkostnaður féll ekki til við rannsókn málsins hjá lögreglu. Ákærði naut aðstoðar verjanda, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, en þóknun hans þykir að teknu tilliti til umfangs málsins og þess tíma sem fór í ferðalag verjandans hæfilega ákveðin 155.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá ber og að greiða ferðakostnað lögmannsins að fjárhæð 25.960 krónur úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður, þar með talin 155.000 króna þóknun skipaðs verjanda ákærða, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, greiðist úr ríkissjóði.