Print

Mál nr. 14/2016

Kirkjumálasjóður (Ingi Tryggvason hrl.)
gegn
Kára H. Jónssyni (Óskar Sigurðsson hrl.)
Lykilorð
  • Ítak
  • Hlunnindi
  • Hefð
Reifun

Deilt var um hvort til væri að dreifa ítaksréttindum K í formi hlunninda af æðarvarpi, einkum dúntekju, í Gamla-hólma, sem var innan merkja jarðar KJ, Haga í Snæfellsbæ. Í dómi Hæstaréttar var talið að umrætt ítak kirkjunnar á Staðastað hefði fallið niður sökum vanlýsingar í kjölfar gildistöku laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Þá var tekið fram að lög nr. 113/1952 útilokuðu ekki að hefð gæti að nýju unnist á réttindum sem fallið hefðu niður vegna vanlýsingar. Með hliðsjón af markmiði þeirra laga yrði þó að gera ríkar kröfur til þess að sá sem teldi til hefðar sýndi fram á að skilyrði 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð væru uppfyllt, þar á meðal um óslitið eignarhald, huglæga afstöðu og grundvöll réttindanna. Var talið að af gögnum málsins yrði ekki ráðið að prestar á Staðastað hefðu að staðaldri nýtt hlunnindi af æðarvarpinu þannig að fullnægt yrði fyrrnefndum skilyrðum fyrr en í fyrsta lagi árið 1973. Var því talið að þegar Þjóðskrá Íslands hefði tekið þá ákvörðun 2011 að skrá dúntekjuhlunnindi á jörð KJ hefðu ekki verið liðin fjörutíu ár frá því að óslitið eignarhald hefði hafist í skilningi 8. gr. laga nr. 46/1905, en mögulegt hefðarhald K hefði rofnað í síðasta lagi á því tímamarki. Var KJ því sýknaður af kröfu K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að „öll hlunnindi af æðarvarpi í Gamlahólma í Hagavatni, Snæfellsbæ, (Hagavatnshólma), tilheyri kirkjujörðinni og prestssetrinu að Staðastað, Snæfellsbæ, og að öðrum en þeim sem eigandi Staðastaðar heimilar að nýta þessi hlunnindi sé óheimilt að nýta þau.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti

I

Í málinu er deilt um hvort til sé að dreifa ítaksréttindum áfrýjanda í formi hlunninda af æðarvarpi, einkum dúntekju, í svonefndum Gamla-Hólma (Hagavatnshólma), sem er innan merkja jarðar stefnda, Haga í Snæfellsbæ. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að hólmi sá sem áfrýjandi nefnir Gamla-Hólma, en stefndi Hagavatnshólma, sé einn og sami hólminn.

II

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um hvort ítak kirkjunnar á Staðastað á nytjum æðarvarps í áðurnefndum hólma hafi fallið niður sökum vanlýsingar í kjölfar gildistöku laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Um efni lýsinga þeirra sem töldu sig eiga ítak er fjallað í 4. gr. laganna. Í lokamálslið greinarinnar segir að í lýsingu til héraðsdómara skuli greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu, og eftir því sem unnt er, hversu það í fyrstu er tilkomið. Fyrir liggur í málinu að með bréfi biskups Íslands til Sýslumannsins í Snæfellness- og Hnappadalssýslu 3. maí 1954 var lýst nánar tilteknum ítökum kirkjunnar í umdæmi sýslumanns, þar á meðal ítaki Staðastaðarkirkju í Gamla-Hólma. Ekki var tiltekið hvers konar ítak um væri að ræða, í hvaða jörð það væri og heldur ekkert um tilkomu eða hagnýtingu þess. Þrátt fyrir ábendingu sýslumanns samkvæmt bréfi 16. nóvember 1954 til biskups, þar sem frekari upplýsinga var óskað, var engu bætt við framangreinda lýsingu. Þegar af þessari ástæðu féll umrætt ítak Staðastaðarkirkju í Gamla-Hólma (Hagavatnshólma) niður 8. júlí 1954 fyrir vanlýsingu, sbr. 2. mgr. 5. laga nr. 113/1952,  en þriðja og síðasta áskorun samkvæmt 4. gr. laganna birtist í Lögbirtingarblaðinu 8. júlí 1953.

III

Að fenginni þeirri niðurstöðu að umrætt ítak hafi fallið niður sökum vanlýsingar byggir áfrýjandi á því að hann eigi allt að einu ítak í hlunnindum af æðarvarpi í hólmanum á þeim grundvelli að hann hafi unnið hefð á þeim réttindum. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að um sé að ræða ósýnilegt ítak, en á því getur hefð unnist á 40 árum, sbr. 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þótt ekki sé glögg grein gerð fyrir því af áfrýjanda hálfu verður að skilja málatilbúnað hans á þann veg að sitjandi prestar á Staðastað hafi með nýtingu sinni á umræddu æðarvarpi eftir árið 1954 unnið hefð á ítaki til slíkra nytja áfrýjanda til handa sem eiganda Staðastaðar.

Lög nr. 113/1952 útiloka ekki að hefð geti að nýju unnist á réttindum sem fallið hafa niður vegna vanlýsingar. Með hliðsjón af markmiði þeirra laga verður þó að gera  ríkar kröfur til þess að sá sem telur til hefðar sýni fram á að skilyrði 2. gr. laga nr. 46/1905 séu uppfyllt, þar á meðal um óslitið eignarhald, huglæga afstöðu og grundvöll réttindanna.

Óslitið eignarhald hefur verið skýrt svo að sá sem telur sig hafa öðlast eignarréttindi fyrir hefð þurfi að hafa haft svo víðtæk ráð eignar að þau bendi til eignarréttar og jafnframt hafi hann útilokað aðra frá því að ráða yfir eigninni. Með óslitnu eignarhaldi er einnig átt við að ekki megi hafa orðið verulegt eða óeðlilegt hlé á umráðum þess sem telur til hefðar.

Svo sem rakið er í forsendum hins áfrýjaða dóms liggja fyrir í málinu gögn og vitnisburður um nytjar presta að Staðastað á umræddu æðarvarpi eftir árið 1954. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt skattframtöl prestanna Þorgríms Sigurðssonar vegna tekjuáranna 1964 til 1968 og Rögnvaldar Finnbogasonar vegna tekjuáranna 1976, 1977, 1980, 1981, 1982 og 1984. Í framtölunum var gerð grein fyrir dúntekjum.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að prestar á Staðastað hafi að staðaldri nýtt hlunnindi af æðarvarpi í Gamla-Hólma (Hagavatnshólma) þannig að fullnægt hafi verið áskilnaði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 fyrr en í fyrsta lagi eftir að séra Rögnvaldur Finnbogason settist að á Staðastað árið 1973. Þegar Þjóðskrá Íslands tók þá ákvörðun 14. júlí 2011 að skrá dúntekjuhlunnindin á jörð stefnda voru því ekki liðin fjörutíu ár frá því að óslitið eignarhald hófst í þessum skilningi, sbr. 8. gr. laga nr. 46/1905, en mögulegt hefðarhald áfrýjanda rofnaði í síðasta lagi á því tímamarki. Jafnframt verður ráðið af gögnum málsins að stefndi hafi frá árinu 2007 nýtt sér hlunnindin í einhverjum mæli. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kirkjumálasjóður, greiði stefnda, Kára H. Jónssyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. október 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. september sl., er höfðað af Kirkjumálasjóði, Laugavegi 31,  Reykjavík, á hendur Kára H. Jónssyni, með lögheimili í Luxemborg.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að öll hlunnindi af æðarvarpi í Gamlahólma í Hagavatni, Snæfellsbæ, (Hagavatnshólma), tilheyri kirkjujörðinni og prestsetrinu að Staðastað, Snæfellsbæ, og að öðrum en þeim sem eigandi Staðastaðar heimilar að nýta þessi hlunnindi sé óheimilt að nýta þau. Jafnframt krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts, samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutn­ings­þóknun.

II.

Stefnandi er þinglýstur eigandi jarðarinnar Staðastaðar í Snæfellsbæ, sem um aldaraðir hefur verið kirkjujörð og prestsetur. Stefndi er hins vegar þinglýstur eigandi nágrannajarðarinnar Haga samkvæmt fjórum afsölum sem gefin voru út á tímabilinu 11. júní 2004 til 9. júlí 2007. Snýst ágreiningur máls þessa um það hvorri jörðinni tilheyri hlunnindi af æðarvarpi í hólma í Hagavatni sem stefnandi segir að heiti Gamlihólmi. Stefndi segir hins vegar að hólminn heiti Hagavatnshólmi og að hann tilheyri jörðinni Haga.

Hinn 30. desember 1952 tóku gildi lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Með lögunum var sú skylda lögð á þá sem töldu sig eiga ítök í jarðir að lýsa þeim ítökum með tilteknum hætti innan tólf mánaða frá síðustu birtingu innköllunar þar um ella félli ítakið úr gildi. Ef ítaki væri lýst var jarðareiganda gefinn kostur á að leysa til sín ítakið. Samkvæmt gögnum málsins lýsti biskup Íslands nánar tilgreindum ítökum kirkna í umdæmi sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu með bréfi, dags. 3. maí 1954. Var sú lýsing til komin vegna greindra laga um lausn ítaka af jörðum nr. 113/1952. Þannig lýsti biskup undir 5. tölulið ítökum undir nokkrum bókstafsliðum sem ítökum Staðastaðarkirkju og var í a-lið tilgreindur „Gamli hólmi“ án þess að nokkrar frekari skýringar fylgdu þeirri lýsingu.

Með bréfi til biskups Íslands, dags. 16. nóvember 1954, benti sýslumaðurinn í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu á að hvað nefndan „Gamla hólma“ varðaði væri e.t.v. um eignarétt að ræða. Ef svo væri hins vegar ekki þyrfti að tilgreina í hvaða jörð ítakið væri svo að ekki yrði gengið framhjá þeim aðilum sem hlut ættu að máli. Þá þyrfti að gera grein fyrir hagnýtingu ítaksins að undanförnu og hvernig það væri til komið auk þess sem með öllu skorti á að gera grein fyrir efni ítaksins.

Ekkert liggur fyrir í málinu um að biskup hafi svarað ofangreindu erindi sýslumanns. Hins vegar liggur fyrir að biskup sendi þáverandi sóknarpresti á Staðastað bréf, dags. 23. nóvember 1954, þar sem hann fór fram á að upplýst yrði við fyrsta hentugleika í hvaða jarðir þau ítök, sem biskup lýsti samkvæmt áðursögðu, væru og hvort þau hefðu verið nýlega hagnýtt og þá hvernig. Ekkert liggur fyrir um að þessu erindi hafi verið svarað eða að því hafi verið fylgt eftir af biskupi með öðrum hætti.

Eftir að stefndi festi kaup á jörð sinni Haga kveðst hann hafa orðið var við það að sóknarpresturinn á kirkjujörðinni Staðastað taldi sig eiga rétt til dúntekju í Hagavatnshólma. Urðu í framhaldi af því nokkur bréfaskipti milli þáverandi  lögmanns stefnda og lögmanns stefnanda þar sem fram kom að báðir aðilar teldu sig eiga öll hlunnindi vegna æðarvarps og dúntekju í umræddum hólma. Var í bréfum lögmanns stefnda meðal annars vísað til þess að ekkert lægi fyrir um að hinu meinta ítaki hefði verið lýst í samræmi við fyrirmæli laga nr. 113/1952 og hefði það þá allavega fallið niður vegna vanlýsingar í samræmi við ákvæði laganna. Af hálfu stefnanda var því hins vegar mótmælt að ítakið hefði fallið niður en einnig bent á að jafnvel þó svo væri hefði stefnandi alltént eignast það í kjölfarið fyrir hefð.

 

Með bréfi til Fasteignaskrár Íslands, dags. 25. september 2009, fór þáverandi lögmaður stefnda fram á það að dúntekjuhlunnindi í Hagavatnshólma, sem næmu u.þ.b. 4 kg af dúni á ári, yrðu skráð hjá Fasteignaskrá sem hluti af fasteignamati jarðarinnar Haga. Eftir nokkur bréfaskipti á milli aðila, og gegn mótmælum stefnanda, varð það svo niðurstaða Þjóðskrár Íslands, sem þá hafði tekið við hlutverki Fasteignaskrár, að fallast á beiðni stefnda og skrá 4 kg dúntekjuhlunninda á ári á jörðina Haga.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi skýrslu ásamt vitnunum Páli Ágústi Ólafssyni, Kristínu Thorlacius og Guðjóni Skarphéðinssyni.

III.

Stefnandi vísar til þess að æðarvarpshlunnindi í Gamlahólma í Hagavatni hafi um aldir verið talin tilheyra prestssetursjörðinni Staðastað og nýtt af sitjandi presti á hverjum tíma. Þannig sé þess getið í Jarðabók Árna Magnússonar að Gamlihólmi sé meðal ítaka Staðastaðar. Hafi hlunnindi þessi verið talin meðal ítaka jarðarinnar og verið lýst sem slíkum á sínum tíma þótt óljóst sé hvernig endanlega hafi farið með skráningu ítaksins. Það breyti því hins vegar ekki að ítakið hafi eftir sem áður verið talið til hlunninda Staðastaðar og hafi notkun þess, eftir að ítökum skyldi lýst eftir 1950, haldist óbreytt og verið þannig athugasemdalaus allt þar til stefndi hafi eignast jörðina Haga árið 2007. Reyndar hafi sitjandi prestur haldið áfram að nýta Gamlahólma eftir að stefndi eignaðist Haga, en þá í andstöðu við hann. Stefnandi byggi því stefnukröfu sína á því að Staðastað fylgi ítak í Gamlahólma í Hagavatni, þ.e. æðarvarp.

Verði ekki fallist á það að ítakið hafi verið skráð lögum samkvæmt, eftir að því hafi verið lýst á grundvelli laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum, sé á því byggt að stefnandi hafi unnið hefð á ítakinu. Fyrir liggi að eftir að lýsa hafi átt ítakinu samkvæmt nefndum lögum, og þá í síðasta lagi árið 1954, hafi nýting á hlunnindum af æðarvarpinu í Gamlahólma haldist óbreytt, þ.e. sitjandi prestar á Staðastað á hverjum tíma hafi haldið áfram að nýta hlunnindin án þess að nokkur breyting yrði þar á. Þetta sýni fyrirliggjandi gögn. Því megi fullyrða að ítakið hafi verið nýtt eins og um eignarétt væri að ræða og aðrir hafi verið útilokaðir frá því að ráða yfir ,,eigninni“.  Ekkert hlé hafi orðið á þessari nýtingu eftir 1954. Nýtingin hafi því verið óslitin og hafi haldið áfram eftir að stefndi eignaðist jörðina Haga árið 2007, þó í andstöðu við hann.  Því sé ljóst að á því tímamarki, þ.e. árið 2007, hafi ítakið í Gamlahólma verið nýtt frá Staðastað í rúmlega 50 ár, án athugasemda, eftir að átt hefði að lýsa því skv. lögum nr. 113/1952. Skilyrði um hefðartíma skv. 8. gr. laga nr. 46/1905, svo og önnur skilyrði laganna, hafi þar með verið uppfyllt. Því fullyrði stefnandi að jafnvel þótt skráning ítaksins, í kjölfar lýsingar þess árið 1954, hafi verið ófullnægjandi hafi ítakið hefðast og tilheyri áfram jörðinni Staðastað. Skuli í því sambandi tekið fram að ítaksréttindi séu stjórnarskrárvarin eignarréttindi sem eigendur þeirra verði ekki sviptir bótalaust nema hugsanlega ef sérstakar aðstæður kunni að réttlæta það. Þær aðstæður séu hins vegar ekki uppi í þessu máli. Ítakið í Gamlahólma verði ekki tekið frá Staðastað nema þá að fullar bætur komi í staðinn.

IV.

Stefndi vísar til þess að ósannað sé að sá hólmi sem stefnandi kveðst eiga hið meinta ítak í sé Hagavatnshólmi. Í öllum þeim heimildum sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings sé talað um Gamlahólma en ekki Hagavatnshólma. Eigi það jafnt við um bréf biskups frá 1954, sem og önnur framlögð gögn stefnanda. Sé því ósannað að sá hólmi sem stefnandi segist eiga hið meinta ítak í sé Hagavatnshólmi, sem tilheyri jörð stefnda. Leiði það eitt og sér til þess að sýkna verði stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi vísi einnig til þess að skv. 1. mgr. 2. gr. laga um landamerki nr. 41/1919 skuli eigandi lands eða fyrirsvarsmaður gera glögga skrá um landamerki og skuli þar getið ítaka og hlunninda í land það, svo og þeirra ítaka og hlunninda er því landi fylgi í lönd annarra manna. Hvorki sé getið um hið meinta ítak í landamerkjaskrá jarðarinnar Staðastaðar né Haga. Sýni það svo ekki verði um villst að ekkert slíkt ítak sé til staðar og breyti þá engu hvort um sé að ræða Gamlahólma eða Hagavatnshólma.
Sé í öllu falli ósannað að svo sé.

Með áðurgreindum lögum um lausn ítaka af jörðum nr. 113/1952 hafi þeim sem hafi talið til slíkra ítaka verið gert skylt að lýsa þeim með tilteknum hætti fyrir héraðsdómara hvers lögsagnarumdæmis og fá þeim þinglýst á þá jörð sem um ræddi, sbr. 4. og 5. gr. laganna. Að öðrum kosti skyldu ítökin falla úr gildi, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Hafi setning laganna verið í samræmi við þá stefnu löggjafans að koma hlunnindum, sem hefðu verið skilin frá jörðum, aftur undir þær og tryggja þannig að eðlileg gæði fasteigna fylgdu þeim sjálfum og væru nytjuð í sambandi við notkun þeirra. Hafi sú regla og verið talin gilda í framkvæmd hér á landi að óheimilt hafi verið að skilja hlunnindi frá jörðum, sbr. það sem nú komi fram í 8. gr. jarðalaga nr. 81/2004.

Biskup Íslands hafi sent bréf til sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu í kjölfar setningar ofangreindra laga nr. 113/1952. Í því hafi hólminn „Gamli hólmur“ verið tilgreindur undir kirkjujörðinni Staðastað en í engu getið hvaða jörð hann tilheyrði eða hvert væri það ítak sem verið væri að lýsa. Hafi þó verið áskilið í 4. gr. laganna að í lýsingu skyldi greina frá efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu og hvernig það væri tilkomið, eftir því sem unnt væri.

Þrátt fyrir að hafa verið sérstaklega bent á þessa vankanta á lýsingunni, og þar með gefinn kostur á að bæta úr þeim, hafi hvorki biskup né nokkur annar á hans vegum hlutast til um slíkar úrbætur. Þá hafi ekki verið reynt að koma að nýrri og fullnægjandi lýsingu. Verði þvert á móti ekki annað séð en að biskup hafi einfaldlega látið gott heita og ekki gert frekari reka að því að halda meintum ítökum kirkjunnar í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu til laga. Athafnaleysi biskups hafi í öllu falli haft þær afleiðingar að meint ítak kirkjunnar í Hagavatnshólma, hafi það á annað borð einhvern tímann verið til staðar, hafi fallið niður sökum vanlýsingar, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952. Sé vakin athygli á því að stefnandi viðurkenni þetta í stefnu sinni, þar sem segi að réttaróvissa sé um hið meinta ítak og skráningu þess samkvæmt framansögðu. Leiðir þetta eitt og sér til þess að sýkna verði stefnda af kröfum stefnanda.

Því sé mótmælt að stefnandi hafi unnið hefð á ítakinu. Hefð verði ekki unnin nema öll skilyrði hefðarlaga nr. 46/1905 séu uppfyllt. Þannig þurfi í fyrsta lagi að uppfylla skilyrði laganna um óslitið eignarhald/notkun. Þar sem hið meinta ítak hafi aldrei verið skráð samkvæmt þeim reglum sem um það gildi hafi það fallið niður skv. ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952. Í lögunum og greinargerð með þeim hafi falist sú afstaða og tilgangur löggjafans að hlunnindi sem þessi yrðu ekki skilin frá jörð. Sama verði og ráðið af ákvæðum annarra laga sem banni að skilja hlunnindi frá jörð. Hafi sérstaklega verið tiltekið að þessi lög væru spor í sömu átt. Ætlunin hafi því verið að leysa úr þessum málum í eitt skipti fyrir öll. Af því leiði að hefð verði ekki unnin á ósýnilegu ítaki á borð við dúntekju, sem ekki hafi verið lýst í samræmi við ákvæði laga nr. 113/1952.

Í öðru lagi þurfi eignarhaldið/notkunin að hafa varað í tiltekinn tíma, sem í þessu tilviki sé 40 ár þar sem um ósýnilegt ítak sé að ræða. Sé á því byggt að stefnandi hafi ekki haft eignarhald á hinu meinta ítaki eða notað það í áskilinn hefðartíma. Sé fullyrðingum stefnanda þar um, sem og fullyrðingum hans um að meint notkun ítaksins hafi verið athugasemdalaus, mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefndi bendi á að skv. 8. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 46/1905 sé það skilyrði að hefðarhald sé óslitið allan hefðartímann, sem sé 40 ár að því er ósýnileg ítök varði. Hvað varðar hið meinta ítak stefnanda verði hann því að sýna fram á notkun þess í Hagavatnshólma í 40 ár og verði sú notkun að hafa verið óslitin, þ.e. ekki megi hafa fallið úr eitt einasta ár þar sem það hafi ekki verið nýtt, enda hafi hefðarhaldið þá slitnað. Sé rétt að taka fram að sá sem haldi því fram að hefð hafi unnist, í þessu tilviki stefnandi, beri alla sönnunarbyrði fyrir slíkri staðhæfingu, þ. á m. fyrir því að eignarhald eða notkun hafi verið óslitin. Hafi stefnanda í engu lánast sú sönnun.

Stefndi bendir á að í málinu liggi í raun ekkert fyrir um notkun stefnanda á hinu meinta ítaki og áréttað sé að hið meinta ítak hafi ekki verið skráð í landamerkjaskrá. Fyrir liggi úttekt frá árinu 1974 þar sem minnst sé á að jörðinni Staðastað fylgi æðarvarp í Gamlahólma í Hagavatni. Þá liggi fyrir úttekt frá árinu 1996 þar sem hið sama komi fram. Jafnframt liggi fyrir bréf frá árinu 1984, þar sem greint sé frá því að hluti þeirra hlunninda sem nýtt séu á Staðastað sé dúntekja í Gamlahólma, og haldsbréf frá árinu 1997 þar sem hið sama komi fram.

Stefndi bendir hins vegar á að nefnd gögn stafi frá stefnanda sjálfum eða aðilum honum tengdum og felist í þeim einhliða lýsingar af hans hálfu. Eru þau af þeim sökum að vettugi virðandi og gegn andmælum stefnda verði þau ekki lögð til grundvallar í málinu. Þá sé jafnframt vakin athygli á hinu augljósa að umrædd gögn varði eðli máls samkvæmt aðeins fjögur ár af þeim 40 sem notkun stefnanda þurfi að hafa staðið yfir samfleytt til þess að hefð geti verið fullnuð. Þótt tekið væri tillit til nefndra gagna væri því enn sem áður ósannað að notkun stefnanda á hinu meinta ítaki hafi staðið í fullnaðan hefðartíma, eða 40 ár.

Stefndi bendir jafnframt á í þessu sambandi að skv. 5. gr. laga um laun sóknarpresta nr. 46/1907 taki prestar arð af ítökum sem þeir noti sjálfir, að svo miklu leyti sem það fari ekki fram úr launum þeirra. Arður af ítökum teljist því til skattskyldra tekna, sbr. 1. tölul. a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, og sé því framtalsskyldur eftir því. Hafi stefnandi haft óslitið eignarhald á hinu meinta ítaki í Hagavatnshólma fullnaðan hefðartíma, sem sé harðlega mótmælt af hálfu stefnda, ætti honum að vera í lófa lagið að sýna fram á það með því að leggja fram afrit af skattframtölum þeirra presta sem setið hafi Staðastað á hverjum tíma.

Lánist stefnanda með einhverju móti að sýna fram á að hann hafi byrjað nýtingu á hinu meinta ítaki eftir að það hafi óumdeilanlega fallið niður, hafi það nokkurn tímann verið til staðar, verði samkvæmt framansögðu að leggja til grundvallar að hefðarhald hans hafi slitnað, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905, eða hann misst umráð þess í skilningi 1. mgr. 4. gr. sömu laga. Leiði hvort tveggja til þess að hefð á hinu meinta ítaki hafi ekki unnist, sem aftur leiði til sýknu af kröfum stefnanda.

Stefndi taki einnig fram að jafnvel þótt stefnanda lánaðist að sanna óslitna notkun sína á hinu meinta ítaki í 40 ár ætti hann enn eftir að sýna fram á að hin óslitna notkun hafi löglega gengið frá manni til manns í skilningi 3. gr. laga nr. 46/1905, sem og að notkun hvers þeirra hafi uppfyllt þau skilyrði sem áður sé lýst. Sé þá haft í huga að fleiri en núverandi sóknarprestur hafi gegnt embætti sóknarprests á Staðastað frá því að biskupi hafi misfarist lýsing hins meinta ítaks á árinu 1953. Notkun hins meinta ítaks teljist hafa verið á hendi sitjandi sóknarprests á hverjum tíma í skilningi nefndra laga, enda um tekjur þeirra að ræða.

Í þriðja lagi þurfi hugræn afstaða hefðanda að vera slík að ekki útiloki hefð. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 verði hefð ekki unnin séu umráð tilkomin vegna glæps eða óráðvandlegs atferlis. Hugræn afstaða hefðanda skiptir því hér máli. Af greindu skilyrði hefðarlaga leiði, og hafi einnig verið staðfest í réttarframkvæmd sem og af hálfu fræðimanna, að hér þurfi ekki endilega að koma til refsiverður verknaður. Bein vitneskja um eignarréttindi annars komi í veg fyrir hefð. Sama gildi ef tilefni hafi gefist til athugunar en hún verið vanrækt. Einnig gildi hið sama hafi hefðandi komist að raun um glæp eða óráðvandlegt atferli í skilningi hefðarlaga áður en hefðartími sé liðinn.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi frá upphafi verið um það meðvitaður að hið meinta ítak sé í landi stefnda og að það hafi fallið niður sökum vanlýsingar biskups á árinu 1954. Not stefnanda á ítakinu þar á eftir, hafi verið um einhver slík not að ræða, hafa því bæði verið í fullkominni vitneskju um að hið meinta ítak væri í jörð stefnda og að það væri fallið niður. Sé ljóst að allt frá gildistöku laga nr. 113/1952 hafi stefnanda gefist tilefni til athugunar á eignarhaldi á hinu meinta ítaki, sem virðist hafa verið vanrækt, jafnvel af ásettu ráði, þótt það sé ekki skilyrði.

V.

Niðurstaða

Stefndi heldur því í fyrsta lagi fram að ósannað sé að hólmi sá sem stefnandi kveðst eiga hið meinta ítak í sé Hagavatnshólmi. Í dómkröfu í stefnu krefst stefnandi meðal annars viðurkenningar á því að öll hlunnindi af æðarvarpi í Gamlahólma, sem hann tilgreinir innan sviga sem Hagavatnshólma, tilheyri jörðinni Staðastað. Kemur og fram í stefnu að æðarvarp þetta hafi verið ítak Staðastaðar í jörðinni Haga, sem stefndi eignaðist að fullu með afsali, dags. 9. júlí 2007. Verður að telja að nægilega verði ráðið af gögnum málsins að hólmi sá sem stefnandi kallar Gamlahólma og stefndi kallar Hagavatnshólma sé einn og sami hólminn.

Með lögum nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum var skv. 4. gr. lögð sú skylda á þá sem töldu sig eiga ítök í jarðir að lýsa þeim með tilteknum hætti fyrir héraðsdómara innan tólf mánaða frá síðustu birtingu innköllunar þar um og skyldi þar greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu, og eftir því sem unnt er, hversu það var í fyrstu tilkomið. Þá kemur fram í 1. mgr. 5. gr. að hafi ítaki verið lýst skv. 4. gr. skuli héraðsdómari senda eiganda og ábúanda jarðar þeirrar er ítaki hafi verið lýst í eftirrit af lýsingunni. Vefengdu þeir lýsinguna skyldi úr þeim ágreiningi skorið á grundvelli laga um landamerki nr. 41/1919. Kæmi hins vegar engin vefenging fram innan tólf mánaða frá því að jarðeiganda og ábúanda var send tilkynning þessi skyldi það metið svo að þeir viðurkenndu að lýsingin væri rétt, og skyldi þá þinglýsa ítakslýsingunni á varnarþingi jarðarinnar hefði ítakinu eigi verið þinglýst þar áður.

Fyrir liggur að með bréfi til sýslumannsins í Snæfellness- og Hnappadalssýslu, dags. 3. maí 1954, lýsti biskup Íslands nánar tilgreindum ítökum kirkna í umdæmi sýslumannsins með vísan til framangreindra laga. Var þar meðal annars lýst ítökum vegna Staðastaðarkirkju í nokkrum liðum og var þar í a-lið tilgreindur „Gamli hólmi“,  án þess að því fylgdi einhver frekari skýring eða tilgreining á því hvar sá staður væri, hvert væri efni ítaksins, hvernig hagnýtingu þess hefði verið háttað eða hvernig það væri til komið. Með svarbréfi sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu til biskups, dags. 16. nóvember sama ár, var á það bent vegna lýsingarinnar í a-lið að þar gæti verið um að ræða eignarétt en ef svo væri ekki þyrfti að tilgreina í hvaða jörð ítakið væri svo að ekki yrði gengið framhjá þeim aðilum sem hlut ættu að máli. Þá þyrfti að gera grein fyrir hagnýtingu og hvernig ítakið væri til komið. Jafnframt liggur fyrir í málinu bréf biskups til sóknarprestsins á Staðastað, dags. 23. sama mánaðar, þar sem vísað er til þess að sýslumaður óski nánari upplýsinga um ítök Staðastaðarkirkju og því farið fram á það við sóknarprestinn að hann upplýsi í hvaða jörðum hin lýstu ítök séu og hvort þau hafi nýlega verið hagnýtt og þá hvernig. Ekkert er hins vegar fram komið um að þessu bréfi biskups hafi verið svarað eða að biskup hafi svarað framangreindu bréfi sýslumanns. Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem hvorki verður ráðið af gögnum né sýnist umdeilt að umræddri lýsingu biskups hafi aldrei verið þinglýst í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952, verður hér við það að miða að lýsing þessi hafi ekki verið talin fullnægja tilvitnuðum lagaskilyrðum 4. gr. laganna, þannig að hún gæti talist fela í sér lýsingu ítaks í skilningi þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952 skyldi ítak falla úr gildi ef því væri ekki lýst innan þess frests sem greindi í 4. gr. laganna. Verður samkvæmt framansögðu að líta svo á að hið umdeilda ítak til dúntekju hafi fallið úr gildi vegna vanlýsingar við lok frests til að lýsa því, það er 8. júlí 1954, hafi það á annað borð þá verið til staðar.

Stefnandi vísar til þess að þrátt fyrir að litið verði svo á að umrætt ítak hafi fallið niður á grundvelli laga nr. 113/1952 hafi hann eigi að síður unnið á því hefð, enda hafi sitjandi prestar á Staðastað haldið áfram óslitið að nýta hlunnindi af æðarvarpi í Gamlahólma á sama hátt sem fyrr. Fyrir liggja í málinu gögn, sem stafa frá stefnanda, þar sem dúntekju í Gamlahólma er getið. Þannig liggja fyrir endurrit úttekta, sem gerðar voru við embættistöku nýs sóknarprests í Staðastaðarprestakalli, annars vegar hinn 18. júlí 1974, er séra Rögnvaldur Finnbogason tók við embætti, og hins vegar 11. júlí 1996, er sr. Guðjón Skarphéðinsson tók við af honum. Kemur í báðum þessum úttektum fram að staðnum fylgi æðarvarp í Gamlahólma í Hagavatni. Þá er þetta og tilgreint sem hlunnindi Staðastaðar í bréfi þáverandi biskups til sr. Rögnvaldar Finnbogasonar, dags. 11. september 1984. Sömuleiðis er þetta tilgreint í samningi stefnanda við sr. Guðjón Skarphéðinsson um afnot og umráð prests yfir prestsetri, dags. 17. júlí 1997. Loks kom fram í framburði þeirra vitna sem fyrir dóminn komu, þ.e. Kristínar Thorlacius, eiginkonu sr. Rögnvaldar, og sóknarprestanna Guðjóns Skarphéðinssonar og Páls Ágústs Ólafssonar, að dúntekja í hólmanum hefði verið nýtt á þeim tíma sem prestar þessir sátu á Staðastað. Hins vegar liggja ekki fyrir í málinu nein gögn, eins og skattframtöl eða önnur rekstrargögn, sem renna styrkari stoðum undir eða sýna fram á að dúntekja í hólmanum hafi verið stunduð óslitið og samfleytt frá Staðarstað eftir 8. júlí 1954, þannig að til hefðar gæti hafa stofnast. Verður því ekki, þegar af þeirri ástæðu, fallist á, gegn mótmælum stefnda, að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi öðlast öll hlunnindi af æðarvarpi í umræddum hólma sem ítak á grundvelli hefðar og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða sýnilegt eða ósýnilegt ítak.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af dómkröfum stefnanda.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri, en hann tók við rekstri málsins er hann var skipaður dómstjóri 1. mars 2015.

 

Dómsorð:

Stefndi, Kári H. Jónsson, skal sýkn af kröfum stefnanda, Kirkjumálasjóðs.

Stefnandi greiði stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.