Print

Mál nr. 514/2017

M (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
K (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Börn
  • Forsjá
  • Lögheimili
  • Gjafsókn
  • Matsgerð
  • Sératkvæði
Reifun

K og M deildu um forsjá og lögheimili dóttur sinnar. Í málinu lá fyrir matsgerð dómkvadds manns þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að báðir aðilar væru hæfir til að sinna grunnþörfum stúlkunnar, en M væri þó hæfari til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum hennar. Lagði matsmaður því til að aðilar færu saman með forsjá stúlkunnar en að lögheimili hennar yrði hjá M. Jafnframt lá fyrir yfirmatsgerð tveggja dómkvaddra manna þar sem tekið var undir niðurstöður undirmatsgerðarinnar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðilar skyldu fara sameiginlega með forsjá dóttur sinnar og að lögheimili hennar skyldi vera hjá K. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að uppfyllt væru skilyrði fyrir því að aðilar færu sameiginlega með forsjá stúlkunnar, en taldi hins vegar, meðal annars með vísan til framlagðra matsgerða og 2. mgr. 1. gr. barnalaga, að lögheimili hennar skyldi vera hjá M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2017. Hann krefst þess aðallega að honum verði einum dæmd forsjá barnsins A og að lögheimili hennar verði hjá sér, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um að forsjá barnsins verði sameiginleg en að lögheimili hennar verði hjá sér. Þá krefst hann þess í báðum tilvikum að stefndu verði gert að greiða sér meðlag með barninu. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í hinum áfrýjaða dómi er málavöxtum ítarlega lýst, sem og efni þeirra matsgerða sem gerðar hafa verið á forsjárhæfni málsaðila. Í kjölfar sambúðarslita áfrýjanda og stefndu kom til deilna þeirra um forsjá stúlkunnar A. Vegna þess var aflað dómkvadds mats C um forsjárhæfni foreldranna og fleira en matsgerð hennar er frá 7. febrúar 2012. Þar kemur meðal annars fram sú skoðun matsmanns að áfrýjandi búi ekki yfir jafn góðri forsjárhæfni og stefnda. Í framhaldinu tókst samkomulag með aðilum með réttarsátt þess efnis að forsjá og lögheimili stúlkunnar skyldi vera hjá stefndu.

Í hinum áfrýjaða dómi er einnig gerð grein fyrir þeim atvikum sem urðu á árinu 2016 í aðdraganda þess að áfrýjandi höfðaði mál þetta 24. júní það ár með þeim kröfum er áður greinir. Undir rekstri málsins var að kröfu áfrýjanda aflað matsgerðar dómkvadds manns, G sálfræðings frá 24. janúar 2017. Í samantekt í niðurlagi matsgerðarinnar kemur meðal annars fram að matsmaður telji báða foreldra hæfa til að sinna grunnþörfum stúlkunnar. Matsmaður telur þó áfrýjanda hæfari en stefndu til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum hennar. Lagði matsmaður til að foreldrar færu sameiginlega með forsjá stúlkunnar en að lögheimili hennar yrði hjá áfrýjanda. Að fram kominni matsgerð G óskaði stefnda eftir því að fram færi yfirmat. Voru sálfræðingarnir I og H dómkvaddar af því tilefni og er yfirmatsgerð þeirra frá 17. apríl 2017. Í niðurstöðum hennar sagði meðal annars: „Yfirmatsmenn taka undir niðurstöður undirmatsgerðar í heild sinni og telja ekki ástæður til að rekja hvert atriði fyrir sig. Yfirmatsmenn eru þannig sammála áliti undirmatsmanns og telja að báðir foreldrar séu hæfir til að sinna grunnþörfum stúlkunnar. Faðir sé hins vegar hæfari en móðir til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum hennar.“

Í niðurstöðum héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum auk embættisdómara, var komist að þeirri niðurstöðu að forsjá skyldi vera sameiginleg með aðilum en lögheimili áfram hjá stefndu. Annar hinna sérfróðu meðdómenda skilaði sératkvæði þar sem hún lýsti sig sammála meirihlutanum um þá niðurstöðu að forsjá skyldi vera sameiginleg en taldi á hinn bóginn að lögheimili stúlkunnar ætti að vera hjá áfrýjanda.

II

Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 er nánari grein gerð fyrir þeim þáttum sem líta ber til við mat á fyrirkomulagi forsjár og lögheimilis. Skal þá litið til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Í 3. og 4. mgr. sömu lagagreinar er svo gerð grein fyrir skilyrðum þess að dæmd sé sameiginleg forsjá. Verða þær aðstæður þá að vera fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins og ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.

Við mat á því hvort dæma skuli aðila til að fara sameiginlega með forsjá stúlkunnar verður ekki framhjá því litið að gögn málsins og framburður aðila fyrir dómi bera með sér að talsvert ósætti sé viðvarandi þeirra á milli og að það ósætti hafi haft áhrif á samstarf þeirra varðandi uppeldi og umönnun stúlkunnar. Eins og áður greinir liggur hins vegar fyrir matsgerð þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að fyrir liggi að samband aðila sé ekki með besta móti sé engu að síður rétt að þeir fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar. Í yfirmatsgerð er að öllu leyti tekið undir þá niðurstöðu. Þá var það sem fyrr segir niðurstaða bæði meiri- og minnihluta hins fjölskipaða héraðsdóms að dæma sameiginlega forsjá. Í þessu sambandi þykir einnig mega líta til þess að í lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum, þar sem heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá var lögfest, er viðurkennt að þótt ganga verði út frá því að gott samstarf sé alla jafna forsenda þess að sameiginleg forsjá verði dæmd, kunni slík forsjá engu að síður að eiga rétt á sér þótt foreldrar séu ekki sammála um allt er viðkemur lífi barnsins og jafnvel þótt ágreiningur á milli þeirra sé slíkur að þeir þurfi á aðstoð að halda við að leysa úr honum. Er jafnframt tekið sérstaklega fram að heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá kunni að hafa jákvæð áhrif á samstarfsvilja foreldra og að sameiginleg forsjá sé almennt til þess fallin að hvetja til aukinnar samábyrgðar og þátttöku beggja foreldra og auka líkur á tengslum barns við þá báða. Að þessu öllu virtu og að teknu tilliti til hagsmuna barnsins, verður að fallast á með hinum áfrýjaða dómi að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að aðilar fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar.

Við ákvörðun á því hjá hvorum málsaðila lögheimili stúlkunnar skuli vera ber sem endranær að líta til fyrrgreindra atriða í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Áður er rakið það samdóma álit matsmanns og yfirmatsmanna í matsgerðum frá árinu 2017 að áfrýjandi búi yfir ríkari forsjárhæfni en stefnda til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum stúlkunnar. Þá verður ráðið af gögnum málsins að stúlkan hefur lýst yfir þeim vilja að búa sem jafnast hjá báðum málsaðilum þó fram komi frávik sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi og bendir til þess að hún kjósi frekar búsetu hjá föður. Stefnda hefur heldur ekki sýnt fram á það að staða áfrýjanda, þar með talið félagsleg, sé lakari en hennar svo einhverju nemi þannig að haft geti áhrif sem ráði úrslitum við mat hér að lútandi. Af hinum áfrýjaða dómi verður helst ráðið að niðurstaða meirihluta hans um óbreytt lögheimili stúlkunnar hjá stefndu hafi stýrst af þeirri forsendu að meiri líkur væru á því en minni að áfrýjandi mundi útiloka eða hamla umgengni stefndu við stúlkuna fari hann einn með forsjá hennar sem og sú afstaða hans að stefnda sé óhæfur forsjáraðili. Telja verður ályktanir í þá veru nokkuð umfram efni, miðað við það sem fram kemur í gögnum og skýrslu þeirri sem tekin var af áfrýjanda fyrir dómi, og þær fá hvorki samræmst niðurstöðum fyrrnefndra matsgerða né ályktun hins sérfróða minnihluta dómsins. Þess utan á hin sameiginlega forsjá og þau úrræði sem ráðgerð eru í VIII. kafla barnalaga, sbr. einkum 47. gr. laganna, að tryggja ríkan og óhindraðan umgengnisrétt þess foreldris sem barnið á ekki lögheimili hjá. Síðast en ekki síst verður ekki fram hjá því litið að öll gögn málsins bera það með sér að stúlkan hefur búið við verulega vanlíðan, að minnsta kosti frá fyrri hluta árs 2016. Ekki hefur verið sýnt nægilega fram á að grundvallarbreyting til batnaðar hafi orðið þar á, en fyrir Hæstarétti hefur stefnda meðal annars vísað til nýrra vottorða um ástundun náms og píanónám stúlkunnar. Því verður ekki talið að sameiginleg forsjá megni ein og sér að breyta því ástandi sem verið hefur verði lögheimili óbreytt. Óhjákvæmilega kann flutningur lögheimils til áfrýjanda að hafa í för með sér nokkra röskun á stöðugleika í lífi stúlkunnar en í því sambandi verður ekki horft fram hjá því að umhverfi hennar hefur ekki einkennst af stöðugleika síðustu misseri en hún hefur frá vori 2016 flutt tvívegis, þar á meðal milli landshluta, og verið í þremur mismunandi skólum á sama tímabili.

Að öllu framangreindu virtu, með vísan til samhljóða niðurstaðna í fyrrnefndum matsgerðum frá árinu 2017 og með sérstakri hliðsjón af  2. mgr. 1. gr. barnalaga verður fallist á varakröfu áfrýjanda þess efnis að forsjá málsaðila verði sameiginleg en að lögheimili A skuli flytjast til hans. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður stefndu gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni eins og nánar greinir í dómsorði.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður látið standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað hans fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, M, og stefnda, K, skulu fara sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, A, til 18 ára aldurs hennar. Lögheimili stúlkunnar skal vera hjá áfrýjanda.

Stefnda greiði einfalt meðlag með dóttur sinni, A, frá uppsögu dóms þessa að telja til 18 ára aldurs hennar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 800.000 krónur.

 

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ég er ósammála meiri hluta dómenda um forsendur dómsins og niðurstöður að hluta til. Afstaða mín er eftirfarandi:

I

Til viðbótar þeirri lýsingu málavaxta, sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er rétt að fram komi að fyrir Hæstarétt hafa verið lögð tvö skjöl um atvik eftir að dómurinn gekk, sbr. meginreglu 41. gr. barnalaga nr. 76/2003. Annars vegar er um að ræða bréf 13. desember 2017 frá skólastjóra þess grunnskóla sem dóttir málsaðila hóf nám í sama haust. Þar er að finna umsögn um dótturina og fyrst getið aðlögunar að skóla. Þar segir að dóttirin hafi aðlagast ,,mjög vel“ og eigi orðið góðar vinkonur í bekknum. Hún sé vel liðin af bekkjarfélögum, kurteis og tillitssöm. Um stöðu hennar í námi segir að hún þurfi stuðning í námi, sérstaklega í stærðfræði. Leshraði sé ágætur og þar nái hún grunnviðmiðum Menntamálastofnunar. Á samræmdum prófum hafi hún fengið slaka niðurstöðu. Orðskilningi virðist ábótavant og eins skilningi á grunnatriðum stærðfræði. Skólasókn er sögð góð, skráðir hefðu verið fjórir veikindadagar á haustmisseri, en hún hafi mætt stundvíslega aðra daga. Um samskipti við foreldra segir að þau séu við stefndu, hún hafi mætt í hefðbundin foreldraviðtöl sem skólinn hafi óskað eftir. Hins vegar er um að ræða tölvubréf 18. desember 2017 frá starfandi skólastjóra við tónlistarskóla þann sem dóttirin stundar píanónám við, en það nám mun hún hafa byrjað síðasta haust eftir að hafa verið á biðlista. Þar kemur fram að hún hafi mætt vel í píanótíma og komið ,,mjög vel“ undirbúin. Hún hafi greinilega mikla ánægju af tónlistarnáminu, taki vel leiðsögn og sé ,,mjög“ kappsöm. Kennari hennar hafi oftast náð í stefndu þegar þurft hafi og hún komið bæði á tónleika og í foreldraviðtal með dóttur sinni.

Ekki er upplýst hvort hagir áfrýjanda eru breyttir frá því sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi.

II

Í stefnu til héraðsdóms og greinargerð stefnda þar fyrir dómi kemur fram að málsaðilar hafi verið í sambúð á árunum [...]. Þau eignuðust dóttur í árslok [...]. Hún hefur haft lögheimili og verið hjá stefndu allar götur síðan. Í kjölfar sambúðarslitanna deildu aðilar um forsjá dóttur þeirra í máli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjaness, en því lauk með dómsátt 11. apríl 2012. Sáttin var gerð eftir að aflað hafði verið matsgerðar dómkvadds manns 7. febrúar 2012, meðal annars um forsjárhæfni foreldranna. Samkvæmt dómsáttinni voru aðilar sammála um að forsjá dóttur þeirra og lögheimili skyldi vera hjá stefndu. Þá var kveðið á um umgengni áfrýjanda við dótturina. Í þessu máli, sem höfðað er rúmum fjórum árum eftir gerð dómsáttarinnar, gerir áfrýjandi meðal annars kröfu um að honum verið einum dæmd forsjá dóttur þeirra og að lögheimili hennar verði hjá honum.

Við rekstur málsins var aflað matsgerðar dómkvadds manns 24. janúar 2017 og yfirmats tveggja manna 17. apríl sama ár. Fara niðurstöður þessara tveggja matsgerða saman að því leyti sem hér skiptir máli. Báðir málsaðilar eru þar taldir hæfir til að fara með forsjá dóttur þeirra. Þeir séu báðir hæfir til að sinna grunnþörfum hennar en áfrýjandi þó talinn hæfari en stefnda til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum hennar. Í báðum matsgerðunum er komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að foreldrar fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar og að lögheimili hennar verði hjá áfrýjanda.

Ég er sammála niðurstöðu héraðsdóms, sem tekur undir niðurstöðu í matsgerðunum um sameiginlega forsjá málsaðila með dóttur þeirra, sbr. meginreglu 1. mgr. 31. gr. barnalaga. Ég er einnig sammála þeirri niðurstöðu héraðsdóms að lögheimili dótturinnar skuli áfram vera hjá stefndu. Til viðbótar þeim rökstuðningi, sem niðurstaða héraðsdóms að þessu leyti er reist á, er það skoðun mín að það sé ágalli á matsgerðunum að ekki sé fjallað með gagnrýnum hætti um hagi áfrýjanda og möguleika hans til þess að tryggja stöðugleika í lífi dótturinnar. Fyrir liggur að á undanförnum árum hefur hann búið í leiguhúsnæði og nokkrum sinnum flutt milli hverfa í Reykjavík. Hann var í sambúð þegar undirmatsgerð var unnin, en hann og sambýliskonan slitu sambúðinni skömmu síðar. Var það í annað sinn sem sambúðarslit urðu með þeim. Hann deildi um tíma húsnæði með vini sínum, sem hann gerir ekki lengur. Hann fullyrti í skýrslu fyrir héraðsdómi að fengi hann einn forsjá dóttur málsaðila myndi hann kaupa húsnæði nærri þeim stað þar sem hann áformar að hún gengi í grunnskóla. Fjármál hans eru þó óljós. Hann hefur að því er séð verður ekki verið í fastri vinnu sem launþegi. Hann hefur upplýst matsmenn og lýst því fyrir dómi að hann reki verkstæði þar sem hann geri við bíla og geti verið laus við ef þarf, en af þessari starfsemi hafi hann 1.000.000 krónur í laun á mánuði. Hann hafi þó ekki menntun á þessu sviði og reksturinn er ekki skráður í fyrirtækjaskrá. Hann hefur ekki skýrt hvernig þetta samrýmist því að hann fékk gjafsókn vegna reksturs máls þessa bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda vefengir að áfrýjandi sinni þessu starfi og hafi af því þær tekjur sem hann segir. Áfrýjandi hefur þrátt fyrir það ekki lagt fram skattframtöl eða vottorð skattyfirvalda um launatekjur sínar eða afkomu af rekstri. Væntingar áfrýjanda, sem hann lýsti fyrir matsmönnum og fyrir dómi, um að senn fengi hann einkaleyfi til að flytja út lýsi til Kína og myndi hafa af því umtalsverðar tekjur fyrir litla vinnu, hafa ekki gengið eftir. Það hafa væntingar hans um að í burðarliðnum væri að hefja starfsemi, sem byggði á hugmyndum hans um að smíða vél til að vinna orku úr heyi, heldur ekki gert. Óljóst er með öllu hvernig áfrýjandi muni tryggja stöðugleika í lífi dóttur sinnar verði fallist á kröfur hans um að hún hafi lögheimili hjá honum, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Á hinn bóginn benda gögn málsins, þar með talið þau sem áður eru nefnd og skýrslur vitna fyrir héraðsdómi, eindregið til þess að festa og sé að komast á líf dóttur málsaðila í því bæjarfélagi sem hún og stefnda fluttu til vorið 2016. Benda gögnin einnig til þess að félagsleg aðlögun dótturinnar sé góð. Ég tel ekki haldbær rök til að ætla að högum hennar sé betur borgið með flutningi lögheimilis til áfrýjanda, þvert á móti megi ætla að því myndi fylgja röskun á persónulegum og félagslegum högum hennar og óvissa.

Samkvæmt öllu framansögðu og jafnframt með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég að það eigi að staðfesta hann.

Ég er sammála meiri hluta dómenda um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og um gjafsóknarkostnað.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 8. ágúst 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní sl., er höfðað af M, kt. [...], nú til heimilis að [...],[...], gegn K, kt. [...],[...],[...], með stefnu birtri 24. júní 2016.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að honum einum verði dæmd forsjá dóttur málsaðila, stúlkunnar A, kt. [...], til 18 ára aldurs, sem og að lögheimili hennar verði hjá honum.

Til vara krefst stefnandi þess að forsjá stúlkunnar verði sameiginleg með aðilum, en að lögheimili hennar verði hjá honum.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum meðlag með stúlkunni.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu, eins og málið sé ekki gjafsóknarmál, sbr. leyfi innanríkisráðuneytis, dagsett 19. október 2016.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefnda málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Auk lýstra krafna hafði stefnandi í öndverðu m.a. uppi þá kröfu að dómurinn úrskurðaði til bráðabirgða um forsjá dóttur aðila á meðan dómsmálið væri rekið.  Stefnda andmælti kröfunni.  Féll úrskurður um þennan ágreining, eftir að stúlkunni hafði verið gefið færi á, þann 22. ágúst 2016, að tjá sig um málefni sín við dómara, sbr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Til aðstoðar hafði dómari fengið sérhæfðan kunnáttumann, sem síðar gaf skýrslu fyrir dómi. Niðurstaða dómsins var að bráðbirgðakröfu stefnanda var hafnað.

I.

1. Af stefnu, greinargerð og öðrum gögnum verður ráðið að kynni hafi hafist með málsaðilum á árinu [...].  Nokkrum árum áður hafði slitnað upp úr fyrri samböndum aðila, en þau eignuðust í þeim sína dótturina hvort, sem fæddar eru á árunum [...] og [...].

Stefnda, sem er [...] að uppruna, hafði fáeinum árum fyrir nefnd kynni málsaðila komið til Íslands ásamt foreldrum sínum, og hefur hún um árabil verið íslenskur ríkisborgari.  Af gögnum verður helst ráðið að aðilar hafi hafið sambúð í byrjun [...].  Aðilar tóku upp skráða sambúð í [...], en í lok þess árs eignuðust þau dótturina A.

Eldri dóttir stefndu, vitnið B, bjó hjá móðurforeldrum sínum í [...] á árum [...] til [...].  Verður ráðið af gögnum að á því tímaskeiði hafi málsaðilar staðið saman að atvinnurekstri, sem m.a. tengdist fyrrum heimalandi stefndu, en þar á meðal var ferðaskrifstofurekstur, en einnig útflutningur á tiltekinni fiskafurð.

Af gögnum verður ráðið að los hafi verið komið á sambúð málsaðila á árinu [...], en þá um vorið hafði stefnda farið í viðskiptaerindum til [...] ásamt dóttur sinni A.  Eins og áður sagði kom fyrrnefnd eldri dóttir stefndu, vitnið B, til Íslands árið [...], en þá hóf hún framhaldsskólanám sitt í Reykjavík og hélt til í íbúð fjölskyldunnar með sóknaraðila.

Samkvæmt gögnum dvaldi stefnda hér á landi ásamt dóttur sinni A í þrjá mánuði fyrri hluta ársins [...], en eftir það fóru þær mæðgur á ný til [...].  Þá dvaldi stefnandi í þrjá mánuði í [...] síðari hluta ársins [...].  Vorið [...] fór stúlkan A til Íslands og var þá um hríð í umsjá stefnanda, en þá hóf hún jafnframt leikskólagöngu.  Eins og áður sagði var þá fyrir á heimilinu eldri dóttir stefndu.  Stefnda kom til landsins í [...], en daginn eftir fluttist stefnandi af heimili fjölskyldunnar.

Samkvæmt gögnum var aðlögun A á leikskólanum vorið [...] henni erfið, m.a. vegna tungumálaerfiðleika, en einnig annarra atvika.  Þannig segir frá því í gögnum að starfsmenn leikskólans hafi orðið varir við gagnkvæmar ásakanir millum málsaðila sumarið [...] og að það ástand hafi haft áhrif á dóttur þeirra.  Þá kemur fram í gögnum að þar við hafi bæst, að stefnandi hafi í óþökk stefndu haldið stúlkunni frá leikskólanum í fimm vikur þá um haustið og að starfsmenn leikskólans hafi vegna vanlíðunar hennar séð ástæðu til að gera barnaverndarnefnd [...] viðvart.

2. Samkvæmt gögnum höfðaði stefnda forsjármál á hendur stefnanda í kjölfar ofangreindra atvika haustið [...], en jafnframt höfðu aðilar þá uppi gagnkvæmar kröfur um bráðbirgðaforsjá stúlkunnar A.  Lauk bráðabirgðaþættinum þann 24. október sama ár með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem síðar var staðfestur í Hæstarétti Íslands, sbr. mál nr. 605/2011, á þann veg að stefndu var falin forsjáin til bráðabirgða, en jafnframt var þar kveðið á um umgengni stúlkunnar við stefnanda.

Við rekstur nefnds dómsmáls var dómkvödd, sem hæfur og óhlutdrægur matsmaður, C sálfræðingur til þess að gera skýrslu um forsjárhæfni og hagi málsaðila og dóttur þeirra, sbr. ákvæði 34. gr. barnalaganna.  Í matsskýrslu sérfræðingsins, sem er dagsett 7. ferbrúar 2012, er farið yfir lífshlaup málsaðila, en einnig er þar m.a. greint frá niðurstöðum sálfræðiprófa, sem lögð voru fyrir þá, ásamt viðtölum.

Í sérstökum kafla nefndrar matsskýrslu, sem fjallar um geðrænt ástand stefndu, segir að viðmót hennar einkennist af kurteisi og glaðværð.  Einnig segir í skýrslunni: „Saga K sýnir að þar fer sterk og sjálfstæð kona sem kom ár sinni vel fyrir borð í framandi landi.

Í svonefndu MMPI-2 persónuleikaprófi, sem stefnda tók við gerð skýrslunnar, er vísað til talna kóða prófsins, t-skor. Nánar segir um niðurstöður prófsins:

Áreiðanleikakvarðar prófsins leiða í ljós að K dregur upp jákvæða mynd af sjálfri sér og gengst ekki við veikleikum sem allar manneskjur hafa.  Það hefur sýnt sig að þessi tilhneiging til sjálfsfegrunar er algeng hjá fólki sem er í forsjárdeilu.  Allir klínískir kvarðar prófsins eru innan eðlilegra marka og því engar vísbendingar um að K sé haldin einhverjum geðsjúkdóm.  Prófmyndin sýnir konu sem er örugg, tilfinningalega stöðug og býr yfir sterkri sjálfsmynd.  K er markmiðssækin, staðföst og hefur burði.  Hugsun hennar er skýr og rökföst.  Hún hefur viðeigandi skilning á hvað vakir fyrir fólki og er hvorki of auðtrúa né tortryggin.  K er félagslynd, eignast vini auðveldlega og nýtur sín vel meðal fólks.

Fram hafa komið hjá M ásakanir um að K sé ofsafengin í skapi. Athuganir, viðtöl og niðurstöður sálfræðilegra prófa renna ekki stoðum undir orð M.  Ugglaust hafa viðbrögð hennar við sambúðarslitum verið sterk og þurfa ekki að vera dæmigerð fyrir viðbrögð hennar í venjulegum samskiptum.  Skilnaðir ganga nærri fólki og geta kallað fram hegðun sem er ekki dæmigerð fyrir einstaklinginn sem í hlut á.

Í sambærilegum kafla matsskýrslunnar frá árinu 2012 er fjallað um geðrænt ástand stefnanda.  Segir þar að stefnandi hafi sögu um kvíða og depurð, að hann hafi verið hjá geðlækni fyrir [...] árum og hafi þá farið á þunglyndislyf, sem hann hafi notað af og til eftir það.  Einnig segir frá því í kaflanum að stefnandi sæki sálfræðitíma og taki tiltekið geðlyf.  Þá segir um fyrrgreint MMPI-2 persónuleikapróf stefnanda:

Áreiðanleikakvarðanir prófsins leiða í ljós að M virðist forðast að gangast við hverskonar sálrænni streitu.  Þessi vörn kann að vera tilkomin vegna afneitunar eða vegna þess að hann vill gefa af sér sem jákvæðasta mynd.  Klínískir kvarðar prófsins leiða í ljós að M er ekki haldinn alvarlegum geðrænum sjúkdómum.  Hækkun er á einum af kvörðunum sem gefur hinsvegar vísbendingar um að hann sé óáreiðanlegur, sjálfmiðaður og óábyrgur.  Einnig að hann eigi erfitt með að læra af reynslunni.  Prófmyndin sýnir einstakling sem hefur tilhneigingu til að eiga í útistöðum við aðra fjölskyldumeðlimi eða yfirvöld.  Prófmyndin sýnir mann sem býður af sér góðan þokka í fyrstu en hann á í erfiðleikum með mannleg samskipti sem geta komið fram í langtímasamböndum hans ef að hann er undir álagi.

Í nefndri matsskýrslu frá árinu 2012 er nánar fjallað um sambúð málsaðila, en einnig er þar vikið að sameiginlegum fyrirtækjarekstri þeirra.  Þá er fjallað um hin formlegu sambúðarslit aðila á árinu [...] og aðdraganda þeirra, en einnig um ágreining og erfið samskipti þar á eftir.  Þar á meðal er vikið að því er stefnandi tók dóttur þeirra, að sögn vegna vantrausts í garð stefndu, einhliða úr leikskóla og hélt henni frá henni í fimm vikur, sem endaði með afskiptum barnaverndarnefndar.  Í skýrslunni er einnig vikið að frásögn eldri dóttur stefndu, vitnisins B.  Loks er aðstæðum aðila lýst í byrjun árs [...], þ. á m. búsetu, en einnig er getið um nýhafna sambúð stefnanda með vitninu D, síðar aðstoðarverslunarstjóra.

Í niðurstöðukafla matsskýrslunnar er fjallað um forsjárhæfni málsaðila og skyld atriði, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. barnalaganna.  Staðhæft er að fyrir gerð skýrslunnar hafi stefnda annast stúlkuna A í mun meira mæli en stefnandi og er ályktað að stúlkan hafi því myndað sín fyrstu geðtengsl við stefndu.  Á hinn bóginn segir að aðskilnaður stúlkunnar við stefndu í tvígang hafi greinilega verið mikið áfall fyrir hana og hafi hún sýnt óörugg tengsl við stefndu um tíma.  Tekið er fram að stefnda hafi síðar tekið vel á þeim málum.  Staðhæft er að stefnandi hafi annast stúlkuna takmarkað frá því að hún var ungbarn og þar til á árinu [...].  Greint er frá því að í matsferlinu hafi stefnanda verið mikið í mun að geta verið til staðar fyrir dóttur sína og að hann fengi tækifæri til að annast hana, en sagt er að hann hafi sýnt skort á innsæi í þarfir stúlkunnar þegar hann hafi með óábyrgum hætti haldið henni frá stefndu og leikskóla á viðkvæmu skeiði í lífi hennar.

Í matsskýrslunni er greint frá því að nefndur sérfræðingur hafi farið í heimsóknir á heimili aðila og er það niðurstaða hans að á báðum heimilum hafi verið vel búið að stúlkunni A, sem þá var á [...].

Greint er frá því að stefnda hafi látið þá skoðun í ljós að fengi hún forsjá stúlkunnar A vildi hún að umgengni hennar við stefnanda yrði önnur hver vika frá fimmtudegi og fram á mánudag.  Aftur á móti hafi stefnandi lýst þeirri skoðun að fengi hann forsjána stæði vilji hans til þess að stefnda hefði frjálsa umgengni við stúlkuna „að því tilskildu að hún taki á skapgerðarbrestum sínum“. Að þessu sögðu er það niðurstaða matsmannsins að; „Þar sem móðir treystir föður betur en hann henni, er hún líklegri til að viðhalda eðlilegri umgengni en hann.

Í niðurstöðukafla matsskýrslunnar segir enn fremur:

Það er mat matsmanns að móðir sé vel hæf til að fara með forsjá telpunnar.  Viðtöl og persónuleikapróf leiða í ljós að K býr yfir góðum eiginleikum sem nýtast vel í uppeldishlutverkinu.  Hún er kjörkuð, dugleg, sjálfstæð, tilfinningalega stöðug, ábyrg og staðföst.  Hún hefur reynslu af að ala upp börn.  Hún var lengi vel einstæð móðir og ber eldri dóttir hennar móður sinni gott vitni.  Athugun leiðir í ljós að hún hefur góða burði til að tengjast dætrum sínum.  Skilnaður við M kom K í mikið uppnám og kölluðu á hörð viðbrögð.  Hún hefur náð betra jafnvægi en er enn döpur yfir því hvernig fór.

Það er mat matsmanns að faðir búi ekki yfir jafngóðri forsjárhæfni og móðir. Viðtöl og persónuleikapróf leiða í ljós að hann er sjálfhverfur og skortir tilfinningalegt innsæi í þarfir annarra, nokkuð sem er lykilatriði til að geta sinnt þörfum barna nægilega vel.  Faðir hefur þess utan minni reynslu af uppeldi en móðir.  Hann hefur engu að síður burði til að tengjast dóttur sinni.

Út frá viðtölum og persónuleikaprófi virðist móðir hafa meiri innlifunarhæfni og þ.a.l. betri forsendur til að mæta þörfum barnsins.

Endanlegar lyktir hins eldra forsjármáls málsaðila urðu þær að með aðilum tókst réttarsátt, þann [...].  Í sáttinni segir m.a. að aðilar hafi orðið sammála um að forsjá og lögheimili dóttur þeirra, A, verði hjá stefndu og að stefnandi greiði einfalt meðlag með henni.  Í sáttinni er kveðið á um reglulega umgengni stefnanda við stúlkuna aðra hverja helgi frá fimmtudegi til mánudags, en enn fremur er miðað við að hún dvelji í allt að tvær vikur ár hvert í sumarumgengni á heimili hans, og að stúlkan verði til skiptis hjá þeim á hátíðisdögum.  Í niðurlagi sáttarinnar er loks ákvæði þar sem segir að aðilar séu sammála um að vinna vel að því að samskipti þeirra um málefni stúlkunnar verði sem allra best og að þeir sýni hvor öðrum virðingu í ræðu og riti.

Eins og fyrr sagði hóf stefnandi nýja sambúð á haustdögum [...].  Liggur fyrir að hann hefur um árabil haldið heimili í leiguíbúðum með sambýliskonu sinni í [...], en einnig að breyting varð þar á er sambýliskonan flutti af heimilinu og þá í eigin íbúð í lok árs [...].  Þau halda þó enn sambandi sínu, eins og síðar verður vikið að. 

Samkvæmt frásögn stefnanda hefur hann um árabil verið umboðsaðili tiltekinna vörutegunda og hefur jafnframt haft verslunartengsl við [...].  Auk þessa rekur hann eigið bifreiðaverkstæði í [...].

Óumdeilt er að stefnda hélt í fáein ár heimili á [...] ásamt sambýlismanni sínum, vitninu E skipstjóra, og dótturinni A.  Stundaði stúlkan grunnskólanám sitt í [...] allt til vors [...].  Eldri dóttir stefndu, vitnið B, býr nú á heimilinu, en hún var skólaárið [...] í háskólanámi í [...].

Samkvæmt gögnum hefur stefnda um árabil rekið ferðaskrifstofufyrirtæki með tengsl við [...].  Einnig rekur hún veitingahús á [...] og í [...] og stefnir að frekari umsvifum í borginni.  Þá á hún fasteignir í nefndum bæjarfélögum.

3. Samkvæmt gögnum krafðist stefnandi þess þann 25. apríl 2016 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að hann fengi forsjá dóttur málsaðila. Vegna ágreinings um þá kröfu var málsaðilum vísað í sáttameðferð hjá sýslumanni.  Sættir tókust ekki, sbr. sáttavottorð dagsett 31. maí 2016, en í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta. 

Við upphaf dómsmeðferðar lögðu aðilar fram nokkur gögn, þar á meðal endurrit úr sifjamálabók sýslumanns, vottorð um árangurslausa sáttameðferð, ódags. bréf dóttur aðila, A, sbr. dskj. 6, auk fyrrgreindrar matsskýrslu frá árinu 2012.

Í þinghaldi 21. júlí 2016 var upplýst um að barnaverndarnefndin í [...] hefði haft afskipti af málefnum stúlkunnar A.  Af þeim sökum ákvað dómari, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2002, að kalla eftir upplýsingum um tilefni afskiptanna og um viðbrögð yfirvalda.  Gekk þetta eftir og liggja fyrir í málinu bréf nefndrar barnaverndarnefndar, sem dagsett eru 31. maí og 26. júlí 2016, ásamt fylgiskjölum.  Einnig liggja fyrir í málinu eldri bréf nefndarinnar frá árinu 2015, bréf frá [...] frá árunum 2015 og 2016 svo og tilkynning barnaverndarnefndar um að málefni stúlkunnar A hefði verið flutt til barnaverndarnefndar [...], sbr. 2. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Í samræmi við það liggja fyrir bréf framkvæmdastjóra barnaverndar [...], sem dagsett eru 27. júlí og 8. ágúst 2016, ásamt fylgiskjölum, þ. á m. áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaganna.

Samkvæmt bréfum barnaverndarnefndar [...], sem m.a. voru rituð fyrri hluta árs 2015, í tilefni af tilkynningum stefndu um ætlaða misbresti stefnanda varðandi umgengni dóttur þeirra A, var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða.

Með fyrrnefndum bréfum skólastjórnenda [...], dagsettum 4. mars, 19. apríl og 7. júní 2016, var barnaverndarnefnd [...] tilkynnt um vanlíðan stúlkunnar A.  Í fyrsta bréfinu er m.a. vísað til orða stúlkunnar, sem hún er sögð hafa viðhaft þann 29. febrúar það ár í umræðutíma með bekkjarfélögum sínum og umsjónarkennara eftir tiltekinn viðburð í skólanum.  Er þar haft eftir stúlkunni að móðurfjölskylda hennar hafi m.a. haft niðrandi orð um hana.  Þá eru höfð eftir stúlkunni tiltekin orðaskipti millum foreldra hennar, sem hún kvaðst hafa orðið vitni að.  Er hið síðarnefnda tíundað þannig í bréfinu:  Mamma mín er veik í höfðinu, pabbi minn segir við hana að hún þurfi að fara til læknis en mamma segir bara nei að hún þurfi þess ekki.  Hún er veik í höfðinu því hún er alltaf að öskra á mig og svo segir hún líka að þegar ég verði stór þá eigi ég að hjálpa henni að drepa D (kærasta pabba hennar). Ég vil ekki drepa D en mamma mín segir að ég eigi að hjálpa henni.

Í bréfi skólastjórnenda [...], sem er dagsett 19. apríl 2016, er greint frá því að stúlkan A hafi kvartað um magaverki, en einnig segir að hún hafi borið sýnileg merki um vanlíðan.  Tekið er fram að þessa líðan stúlkunnar hafi starfsmenn skólans helst tengt orðræðu stefndu um stefnanda og sambýliskonu hans, svo og þeirri togstreitu sem virtist einkenna líf hennar.  Þá er greint frá því í bréfinu að stúlkan hafi óskað eftir því að fá að geyma pennaveski í skólanum, sem hún hefði fengið hjá stefnanda, því ella myndi stefnda henda því.  Einnig er haft eftir stúlkunni að stefnda hefði viðhaft þau orð við hana að hún ætlaði að senda stúlkuna til sambýliskonu stefnanda og þar ætti hún að dvelja og fengi aldrei að hitta stefndu aftur. Í bréfi þessu segir jafnframt að stúlkan hafi haft orð á því að vilji hennar stæði til þess að vera hjá stefndu og að hún elskaði hana.  Er í þessu samhengi til þess að líta að efni ódagsetts handritaðs bréfs stúlkunnar, sbr. dskj. nr. 6, er í samræmi við það sem haft er eftir henni í skólanum, en þar kemur auk þess fram að hún elski stefnanda.

Samkvæmt áðurgreindum gögnum voru viðbrögð barnaverndarnefndar [...] við tilkynningum skólastjórnenda [...] þau að boða stefndu til fundar, þann 5. apríl 2016, með vísan til 21. gr. barnaverndarlaganna.  Einnig kemur fram að málefni stúlkunnar A hafi fyrst komið inn á borð nefndarinnar í janúar, en síðan aftur í mars 2016, en að þá hafi verið litið á málefnið sem umgengnisdeilu foreldra hennar.  Af hinum boðaða fundi virðist fyrst hafa orðið seinni hluta aprílmánaðar er stefnda mætti með lögmanni sínum hjá barnaverndarnefndinni.  Tiltekið er að efni fundarins hafi verið grunur um andlegt ofbeldi stefndu gagnvart stúlkunni A og að um könnun máls væri að ræða.  Fram kemur að sama dag hafi einnig verið rætt við stúlkuna og jafnframt að stefnanda hafi verið gert viðvart um þessar ráðstafanir.

Í bréfi barnaverndarnefndar, dagsettu 23. apríl 2016, segir frá því að stefnda hafi á nefndum fundi greint frá erfiðri umgengnisdeilu við stefnanda og að hún hafi mátt þola rógburð af hans hálfu.  Greint er frá því að stefnda hafi lýst yfir vilja til þess að eiga samstarf við nefndina og jafnframt að hún hefði veitt samþykki sitt fyrir því að stúlkan A færi til viðtals hjá sálfræðingi.  Þá segir eftirfarandi í bréfinu: Í viðtali við telpuna, var hún óörugg og tvísaga og tjáði sig um að sér fyndist erfitt að fullorðna fólkið í lífi hennar væru ekki vinir. Tekið er fram í nefndu bréfi að í ljósi afstöðu stefndu og í samráði við hana hafi þegar verið afráðið að senda stúlkuna A í viðtal til sálfræðings, en af þeim sökum hafi verið pantaður viðeigandi tími.  Greint er frá því að þegar að því hafi komið hafi þær mægður verið fluttar til [...].  Tekið er fram að stefnda hafi af þessu tilefni, í tölvubréfi til barnaverndarnefndar, dagsettu 26. apríl nefnt ár, áréttað vilja sinn til þess að stúlkan fengi þann stuðning sem hún þyrfti á að halda.

Fram kemur í gögnum barnaverndarnefndar [...] að vegna búferlaflutninga stefndu hafi „málið verið flutt til barnaverndar [...] með bréfi dags. 31.05. 2016.“, sbr. áðurgreint ákvæði 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í bréfi skólastjórnenda [...], dagsettu 7. júní 2016, er efni fyrri bréfa skólans að nokkru áréttað.  Þar er og greint frá því að á haustönn hafi stúlkan A verið glöð í bragði og að hún hafi tengst vel skólasystkinum sínum, en á vorönn hafi borið á vaxandi depurð og hafi hún átt „það til að gráta mikið og leita eftir umhyggju og faðmlagi.“ Er ályktað að vanlíðan stúlkunnar hafi helst mátt rekja til orðræðu stefndu um stefnanda og sambýliskonu hans, en einnig um þá muni sem þau hefðu gefið henni.  Í bréfinu er tekið fram að umhirða og aðbúnaður stúlkunnar hafi verið í góðu lagi, en að stefnda hafi oft ekki svarað tölvupósti og ekki komið í foreldraviðtöl, en að það hafi verið ólíkt stefnanda, sem ætíð hafi mætt á slíka viðburði.  Þá segir að viðbrögð skólastjórnanda við lýstu ástandi stúlkunnar hafi verið að eiga fund með stefndu, sem þá hafi tilkynnt að þær mæðgur væru að flytja til [...].  Óumdeilt er að þessi áform stefndu gengu eftir og hóf dóttir aðila í framhaldi af því nám í [...] í nefndu bæjarfélagi.

Óumdeilt er að stefnda átti í kjölfar búferlaflutninganna í samskiptum við framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar á [...], F.  Verður ráðið að þá hafi nefndin þegar haft undir höndum áðurrakin gögn frá barnaverndarnefnd [...] og skólastjórnendum [...].

Samkvæmt bréfum nefnds framkvæmdastjóra, dagsettum 8. ágúst 2016 og 27. janúar 2017, voru stefnda og stúlkan A boðaðar til viðtals við starfsmenn barnaverndarnefndar fyrrnefnda daginn.  Fram kemur í dagnótu, sem rituð var af félagsráðgjafa barnaverndar af þessu tilefni og vegna viðtals, sem þá hafði verið átt við stúlkuna, að hún hafi farið fram á það, að orðræða hennar um eigin aðstæður færi leynt gagnvart stefndu.  Er í því sambandi nefnt að stúlkan hafi óttast reiði og pirring af hálfu stefndu.  Í dagnótunni segir nánar m.a. að stúlkan hafi greint frá aðstæðum sínum með líkum hætti og áður hafði komið fram í bréfum skólastjórnenda [...], en jafnframt að henni liði vel í hinum nýja skóla og hefði eignast vinkonur.  Þá segir í dagnótunni að stúlkan hafi lýst vilja til þess að búa hjá stefnanda og sambýliskonu hans, en að heimsækja stefndu.  Greint er frá því að stúlkan hafi í viðtalinu getið þess að þau fyrrnefndu hefðu ekki uppi sömu orðræðu við hana og stefnda. Þau hefðu þannig ekki verið með sífelldar spurningar um hvað hún hefði verið að gera í umgengninni eða verið með illmælgi og þá ekki hent munum hennar í ruslið.  Þá er það nefnt að stúlkan hafi haft orð á því að stefnda væri veik í höfðinu, en einnig móðurforeldrar hennar og systir. Lokaorðin í dagnótunni eru svohljóðandi:  Ekki er hægt að skilja á henni að mamma hennar sé vond við hana að öðru leyti, en greinilegt að aðstæður heima eru að valda henni kvíða og vanlíðan.  Í bréfum framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar segir um málefni stúlkunnar A: Í ljósi gagna málsins var þar talið staðfest að staða barnsins væri viðkvæm og skyldi barnaverndarnefnd fylgjast með aðlögun þess og líðan með viðtölum næstu tvo mánuði.  Nánar segir að viðbrögð nefndarinnar hafi falist í því að gera formlega áætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með stefndu til tveggja mánaða, frá 8. ágúst til 8. október 2016.  Liggur fyrir að áform þessi gengu eftir og var áætlunin undirrituð samdægurs af framkvæmdastjóranum og stefndu.  Í áætluninni segir m.a. frá ástæðu íhlutunar og um markmið: Vanlíðan barns, frásögn um ofbeldi. ... Að fylgjast með líðan barns og aðlögun.  Og um úrræði og aðgerðir til að ná markmiðunum, en einnig um hlutverk forsjáraðila, þ.e. stefndu, segir:  Að þiggja ráðgjöf frá barnaverndarnefnd eftir þörfum vegna samskipta við dóttur sína.  Að beita dóttur sína ekki ofbeldi.  Þá segir um stuðningsúrræði: Að veita móður uppeldisráðgjöf eftir þörfum, að ræða við barnið a.m.k. tvisvar sinnum á gildistíma áætlunarinnar, að fylgjast með aðlögun barns og líðan í skóla.

Í bréfi nefnds framkvæmdastjóra, dagsettu 27. janúar 2017, segir að umræddri áætlun hafi verið fylgt eftir með ráðgjöf til stefndu, en einnig með því að eiga samstarf við skóla stúlkunnar A.  Frá því er greint að afráðið hafi verið að fresta sálfræðiviðtölum stúlkunnar, en jafnframt segir að við nefnd tímamörk, 8. október 2016, hafi ekki verið „... talin ástæða til frekari stuðnings, enda virtist aðlögun barnsins eðlileg.

Í umræddu bréfi framkvæmdastjórans segir frá því að stefnandi hafi í nóvembermánuði 2016 tilkynnt um ætlaða vanrækslu gagnvart stúlkunni A og þá í tilefni af ferð stefndu erlendis, þar sem hún hefði skilið stúlkuna eftir í umsjá aðila, sem áhöld hefðu verið um að væru til þess hæfir.  Um greind atriði segir í dagnótu barnaverndarnefndar frá 16. nóvember nefnt ár, að málefnið hafi þegar verið tekið til athugunar og að í ljós hafi komið að stúlkan hefði verið í umsjá og undir eftirliti vandalausra, þ.e. tveggja kvenna, sem starfað hafi á veitingahúsi stefndu.  Og um viðbrögð barnaverndarnefndar segir nánar í nefndu bréfi: „Málið var kannað og áhyggjur föðurins taldar staðfestar að hluta, þótt barnið hafi ekki verið alveg umsjárlaust þann tíma sem móðirin var erlendis og öryggi þess ekki í hættu.  Ekki þótti þó ástæða til frekari íhlutunar af þessu tilefni, enda móðirin snúin aftur til landsins og tekin við umsjá barnsins á ný þegar könnun málsins lauk.  Málinu var því lokið þann 30. nóvember sl. og engin afskipti skráð eftir það.  Viðbrögð foreldra barnsins og samskipti við þau hafa verið með eðlilegum hætti og samvinna þeirra við barnaverndaryfirvöld fullnægjandi.

Í bréfi framkvæmdastjórans segir loks frá því að í byrjun árs 2017 hafi borist kvörtun frá lögmanni stefndu sökum þess að stefnandi hefði ekki skilað stúlkunni nægjanlega tímanlega úr umgengni.  Tekið er fram að ekki hafi verið talin ástæða til viðbragða af hálfu barnaverndarnefndar vegna þessa.

II.

Á dómþingi hinn 12. september 2016 var af hálfu lögmanns stefnanda lögð fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, til að vinna sérfræðilega álitsgerð um málsaðila og dóttur þeirra, a.  Að tillögu lögmannsins og án athugasemda lögmanns stefndu var G sálfræðingur kvödd til starfans.  Matsskýrsla hennar er dagsett 24. janúar 2017.  Skýrslan var lögð fram á dómþingi 10. febrúar sama ár, en í beinu framhaldi af því lagði lögmaður stefndu fram yfirmatsbeiðni.  Af hálfu lögmanns stefnanda var yfirmatsbeiðninni andmælt og var málið flutt um þann ágreining 14. febrúar sl.  Þann 21. sama mánaðar var með úrskurði dómsins fallist á ósk stefndu um yfirmat.  Á dómþingi 8. mars sl. voru að tillögu lögmanns stefndu og án athugasemda lögmanns stefnanda dómkvaddir sem yfirmatsmenn sálfræðingarnir H og I.  Yfirmatsgerð þeirra, sem dagsett er 17. apríl sl., var lögð fram á dómþingi 11. maí sl.

Hinir dómkvöddu undir- og yfirmatsmatsmenn staðfestu allir efni nefndra matsskýrslna við aðalmeðferð málsins og svöruðu spurningum þar að lútandi.

III.

Í staðfestri undirmatsskýrslu G sálfræðings er um álitaefnið vísað til fyrrnefndrar matbeiðni, sbr. áhersluatriði 2. mgr. 34. gr. barnalaganna.  Í aðfararorðum skýrslunnar segir að matsmaðurinn hafi á matsfundi með lögmönnum málsaðila, þann 30. september 2015, rætt um tilhögun og væntanlegt matsferli.  Greint er frá því í matsskýrslunni að ferlið hafi þrátt fyrir þetta dregist á langinn, en þá helst varðandi fyrirlögn viðeigandi sálfræðiprófa.  Hafi matsmaður af þeim sökum rætt við lögmann stefndu.  Segir frá því að á endanum hafi orðið að ráði að eldri dóttir stefndu þýddi hin sálfræðilegu próf fyrir hana af íslensku yfir á [...] á skrifstofu matsmannsins, en síðan segir:  Einnig var enska útgáfan höfð til hliðsjónar.  Dóttir K er eini [...] löggilti túlkurinn á landinu og var hún fagmannleg í vinnu sinni við túlkunina.  Frásögn foreldranna, og annarra aðila, sem talað var við, eins og hún birtist í skýrslunni lásu aðilar yfir og staðfestu.  Eldri dóttir móður las frásögnina á [...] fyrir móður sína.

Í matsskýrslunni greinir hinn sérfróði matsmaður frá því að í matsferlinu hafi hún farið í heimsóknir og átt viðtöl við málsaðila, og er þeim lýst.  Staðhæft er að vel hafi verið búið að stúlkunni A á báðum heimilunum.  Í skýrslunni segir frá því að einnig hafi verið rætt við stúlkuna, sem þá var [...] ára.  Staðhæft er að stúlkan sé mjög þroskuð eftir aldri, bæði líkamlega og andlega, en um upphaf viðræðna hennar við matsmanninn segir:  Hún vildi lítið tjá sig ef það færi í skýrsluna. Stúlkan ræddi ýmis erfið mál við matsmann og áður en hún tjáði sig um þau tók hún loforð af matsmanni um að það færi ekki í skýrsluna, því þá yrði mamma hennar reið, en matsmaður mátti segja dómaranum frá því. Hún sagði að fyrra bragði, óspurð, að hún myndi vilja vera jafnt hjá foreldrum sínum.  Í skýrslunni er að þessu sögðu greint frá viðtölum matsmannsins við aðra aðila sem gerst þekktu til, á tímabilinu frá 30. september 2016 til 2. janúar 2017, en á meðal þeirra voru fyrrnefndur framkvæmdastjóri barnaverndarnefndar [...], sambýlisfólk aðila, en einnig kennari og námsráðgjafi stúlkunnar í [...].

Í matsskýrslunni, sem er ítarleg, er tekið fram að fyrrnefnt viðtal við stefndu hafi farið fram á ensku.  Er í því viðfangi til þess að líta að enska er það tungumál sem stefnda notar hér á landi, þ. á m. í viðskiptum sínum, en einnig í samskiptum við núverandi sambýlismann sinn.

Í skýrslunni gerir matsmaður grein fyrir þeim sálfræðiprófum sem lögð voru fyrir málsaðila, en þar var um að ræða Personality Assessment Inventory (PAI), Parent-Child Relationship Inventory (PCRI) og greindarprófið Raven Progressive Matrices, en einnig forsjárprófið ASPECT (Ackerman-Schoendorf Scales for Parent Evaluation of Custody). Auk þessa segir í skýrslunni að fyrir stúlkuna A hafi verið lögð sérsniðin sálfræðileg próf fyrir börn, annars vegar svokallaður Tilfinningamatslisti Becks og hins vegar Bene-Anthony fjölskyldutengslaprófið.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum prófanna, þ. á m. í lokakafla í skýrslunnar.

Í nefndri matsskýrslu er að nokkru rakin lífssaga málsaðila fyrir og eftir sambúðarslit þeirra.  Þá er þar vikið að hinu fyrra forsjármáli, en einnig matsskýrslu C sálfræðings frá árinu 2012, réttarsátt aðila síðar sama ár svo og eftirmálum.  Þá er sérstaklega vikið að samskiptum aðila hin síðustu misserin, þ. á m. varðandi umgengnismál, svo og því að þeir hefðu báðir greint frá gagnkvæmu og almennu vantrausti í garð hins varðandi forsjá dóttur þeirra.  Fram kemur að stefnda hafi að því leyti sérstaklega vísað til miður góðra samskipta stúlkunnar við sambýliskonu stefnanda, en einnig til ætlaðs rógburðar stefnanda í hennar garð, þ. á m. í skólastarfinu á [...] og hjá barnaverndarnefndinni í [...].  Að því er stefnanda varðar er haft eftir honum að hann telji stefndu óhæfa til þess að fara með forsjá stúlkunnar og þá ekki síst vegna skapgerðarbresta hennar, en einnig vegna brota hennar á réttarsáttinni frá árinu [...] varðandi umgengnisþáttinn og loks vegna stóryrða hennar gagnvart sambýliskonu hans, þ. á m. í áheyrn dóttur þeirra.  Í skýrslunni er vikið að liðsinni vandamanna og loks er fjallað lítillega um afkomu aðila, þ. á m. fyrirtækjarekstri stefndu á suðvesturhorninu, en einnig á [...] svo og að sjálfstæðum rekstri stefnanda á höfuðborgarsvæðinu.

Í niðurstöðukafla matsskýrslunnar er í samræmi við efni matsbeiðni fjallað um grundvallarþætti um forsjá barns. Um forsjárhæfni og persónulega hagi málsaðila, að því er varðar ástrík tengsl, vernd og öryggi, líkamlega umönnun og atlæti, örvun og hvatningu, félagslegan og tilfinningalegan stuðning og fyrirmynd, segir:

Stúlkan tengist föður sínum á ástríkan hátt, henni líður vel hjá honum, hún treystir honum fyrir líðan sinni og vill verja meiri tíma með honum. Faðir hefur nægan tíma með stúlkunni og hefur löngun til að verja tíma sínum með henni. Stúlkan tengist móður sinni líka á ástríkan hátt en meira er um blendnar tilfinningar til móður. Stúlkan er stundum hrædd við viðbrögð móður sinnar, hún virðist ekki mega tala jákvætt um upplifun sína hjá föður og segir móður það sem hún heldur að hún vilji heyra um samskipti stúlkunnar við föður sinn, sem er þá eitthvað neikvætt.

Um vernd og öryggi segir í skýrslunni:

Fyrirliggjandi upplýsingar gefa ekki tilefni til athugasemda varðandi föður. Móðir vinnur mikið, fer í viðskiptaferðir til útlanda og til [...]. Þegar móðir fer í viðskiptaferðir setur hún stúlkuna oft í hendur vandalausra á meðan. Félagsþroski stúlkunnar er slakur, hún skilur ekki alveg reglurnar í félagslegum samskiptum sem gerir hana útsetta fyrir misnotkun.

Barnavernd hefur haft afskipti af móður vegna vanlíðanar stúlkunnar og frásagnar um ofbeldi, þannig að vísbendingar eru um að atlæti stúlkunnar hafi ekki alltaf þótt fullnægjandi hjá móður.

Um líkamlega umönnun og atlæti segir í skýrslunni:

Fyrirliggjandi upplýsingar gefa ekki tilefni til athugasemda varðandi foreldra.

Faðir býr í leiguhúsnæði á barnvænum stað og er með leigu í eitt ár, en stefnir á að kaupa íbúð í sumar. Húsnæðið er snyrtilegt.

Faðir hefur sinnt tannlæknaeftirliti með stúlkuna, læknavitjunum og hefur verið í sambandi við skólann.

Faðir kaupir föt á stúlkuna til að hafa hjá sér og móðir til að hafa á sínu heimili.

Í umsögn skólans kemur fram að umhirða stúlkunnar sé góð. Hún sé alltaf klædd eftir veðri og í góðum fötum.

Móðir býr ein með stúlkuna á [...] í eigin húsnæði á barnvænum stað og stutt er í skóla. Húsnæði móður er snyrtilegt.

Um örvun og hvatningu stúlkunnar segir í skýrslunni:

Faðir leggur áherslu á að gera ýmislegt með stúlkunni sem hæfir aldri hennar, en hún er ekki í reglulegum tómstundum hjá honum þar sem stúlkan er hjá honum takmarkað.

Móðir gerir ýmislegt með stúlkunni sem hæfir aldri hennar, en stúlkan er ekki í neinum tómstundum eftir skóla hjá móður.

Að því er varðar félagslegan og tilfinningalegan stuðning við stúlkuna segir:

Fyrirliggjandi upplýsingar gefa ekki tilefni til athugasemda varðandi föður.

Móðir hlúir ekki að áhugamálum stúlkunnar og sýnir takmarkaðan áhuga á því sem hún tekur sér fyrir hendur. Stúlkan lék t.d. stórt hlutverk í leikriti á árshátíð skólans þar sem móður var boðið að koma. Stúlkan tók það mjög nærri sér þegar móðir hennar mætti ekki á sýninguna og sýndi móðir stúlkunni ekki þann tilfinningalega og félagslega stuðnings sem hún þarfnaðist. Móðir las ekki vel eðlilega þörf stúlkunnar fyrir athygli á þessum tíma. Eftir skóla er stúlkan ekki í samskiptum við aðra krakka á hennar aldri, heldur er hún á veitingastaðnum hjá móður sinni.

Í matsskýrslunni er vikið að málsaðilum sem fyrirmyndum fyrir stúlkuna, en um það segir: Báðir foreldrar leggja sig fram um að kenna stúlkunni mannasiði, vera kurteis og koma vel fram. Samband foreldranna er ekki gott og að þessu leyti eru þau ekki góð fyrirmynd fyrir stúlkuna,

Í lokakafla skýrslunnar rekur matsmaður helstu atriði og niðurstöður úr fyrrnefndum sálfræðiprófum, sem lögð voru fyrir málsaðila, en um það segir:

Niðurstöður persónuleikaprófs föður benda ekki til geðrænna erfiðleika. Sjálfsmynd hans er jákvæð, hann er venjulega sjálfsöruggur, sýnir seiglu og er bjartsýnn.  Í samskiptum er hann sjálfstæður og í jafnvægi. Hann telur sig eiga gott stuðningsnet og geta fengið aðstoð þegar hann þarf hana. Hann nýtur stuðnings … fjölskyldu sinnar og sambýliskonu.  Ekki eru vísbendingar um reiðivanda né sjálfskaðandi hugsanir.

Niðurstöður persónuleikaprófs móður benda ekki til geðrænna erfiðleika. Hún kann að glíma við vandamál sem tengist skapsveiflum. Hún virðist hafa lág gremjumörk og mikið sjálfsálit. Sjálfsmynd hennar er jákvæð, hún er almennt sjálfsörugg, bjartsýn og sýnir seiglu. Í samskiptum er hún vingjarnleg og félagslynd. Ekki eru vísbendingar um reiðivanda eða sjálfskaðandi hugsanir. Hún telur sig eiga gott stuðningsnet og geta fengið aðstoð þegar hún þarf hana.  Móðir býr ein með dóttur sinni á [...] og þar hefur hún lítið tengslanet.

Niðurstöður PCRI tengslaprófs sýna að móðir meti sig fá lítið eitt meiri stuðning en faðir metur sig fá í foreldrahlutverkinu, þrátt fyrir að búa ein með stúlkuna á [...] þar sem hún hefur lítið tengslanet. Föður finnst álag vera í lífi sínu um þessar mundir og kann það að tengjast forsjármálinu. Einnig finnst honum skorta á samvinnu milli þeirra foreldranna. Þau lýsa bæði ánægju með foreldrahlutverkið, njóta þess að vera með stúlkunni og sinna henni. Þau sýna bæði áhuga á viðfangsefnum stúlkunnar, vilja verja tíma sínum með henni og elska hana. Þau telja sig bæði vera í góðu sambandi við stúlkuna og telja sig geta sett henni eðlileg mörk í uppeldinu. Faðir er tilbúinn að stuðla að sjálfstæði barnsins miðað við aldur þess meðan móðir á erfiðara með að viðurkenna aldursmiðandi sjálfstæði barnsins. T.d. lætur móðir stúlkuna sofa upp í hjá sér, þrátt fyrir að vera með sérherbergi. Stúlkan talar um að móðir sín þvoi henni þegar hún er í sturtu í stað þess að láta stúlkuna sjá um það. Niðurstöður endurspegla þá afstöðu þeirra beggja að foreldrar eigi að deila sem jafnast ábyrgð sinni sem foreldri og er afstaða móður sterkari í þá átt.

Niðurstöður Raven Progressive Matrices greindarprófs sýna afburðagreind hjá báðum foreldrum. Prófið er mælikvarði á almenna greind, mælir skýrleika hugsunar, vitsmunalega getu og rökhugsun.

Matsmaður víkur að efni matsskýrslunnar frá árinu 2012, sem gerð var eftir höfðun hins fyrra forsjármáls aðila, þegar stúlkan A var rúmlega [...] ára og þá í ljósi reynslunnar og núverandi aðstæðna.  Í skýrslunni segir nánar um þetta:

Móðir var metin vel hæf til að fara með forsjá stúlkunnar. Mat á föður var á þann hátt að hann byggi ekki yfir jafn góðri forsjárhæfni og móðir. Hann skorti tilfinningalegt innsæi í þarfir annarra auk þess sem hann hafi minni reynslu af uppeldi en móðir. Tæplega fimm ár eru frá því að mat þetta var gert. Rétt er að hann hafði minni reynslu af uppeldi en móðir á þeim tíma. Stúlkan hafði þá búið lengst af með móður sinni í [...] og geðtengslin voru aðallega við hana. Á þessum fimm árum hefur föður tekist vel til við að tengjast dóttur sinni og eru þau mjög náin. Stúlkan treystir honum, líður vel hjá honum og vill verja meiri tíma með föður sínum.  Það var ekkert sem kom fram í þessu mati sem sýnir fram á að föður skorti tilfinningalegt innsæi í þarfir annarra. Þvert á móti hefur hann góða sýn á þarfir stúlkunnar um þessar mundir og í náinni framtíð. Hann sér vanlíðan stúlkunnar og þörf hennar fyrir aðstoð til að bæta líðan sína. Hann sér þörf stúlkunnar fyrir að vera í tómstundum sem henta aldri hennar.

Að mati matsmanns hefur oft skort að móðir hafi sýnt innsæi í þarfir stúlkunnar. Fyrst ber að nefna er hún sendir stúlkuna eina til Íslands frá [...] er stúlkan var [...] ára og [...]mánaða. Móðir setur stúlkuna í aðstæður sem hún þekkti ekki, hún skildi ekki tungumálið og var í burtu frá fólkinu sem hún hafði myndað geðtengsl við. Ætla má að þessi skyndilega breyting á aðstæðum hafi valdið stúlkunni áfalli, hún grét mikið eftir heimkomuna og sýndi ýmis önnur einkenni vanlíðunar sem leiddi til þess að leikskólinn tilkynnti vanlíðan hennar til barnaverndar nokkrum mánuðum eftir heimkomuna. Aðskilnaður barns frá foreldri sem það hefur sín mestu geðtengsl við er alvarlegt inngrip í líf þess og skynjar barnið mikinn missi eða verður fyrir áfalli. Líðan er í samræmi við það, söknuður, sorg og dapurleiki. Svona ungt barn getur ekki komið tilfinningum sínum í orð, en vanlíðan getur komið fram í grátköstum, skapsveiflum, svefntruflunum eða hegðunarvanda. Einnig getur það haft áhrif á traust sem barnið ber til annarra. Móðirin kom heim nokkrum mánuðum eftir heimkomu stúlkunnar en vanlíðan telpunnar hélt áfram sem gefur til kynna að traust hennar á nærveru móðurinnar hafi rofnað. Telpan heldur áfram að búa við þetta áfall enn þann dag í dag. Faðir lýsir því þegar stúlkan er hjá honum geti hún farið í tilfinningalegt uppnám ef hann fer út eða þegar hann sýnir sambýliskonu sinni atlot.  Þegar stúlkan var [...] ára sendi móðir stúlkuna eina í flug til [...], með tveimur millilendingum, til að heimsækja afa sinn og ömmu. Í báðum þessum tilfellum var stúlkan með fylgd en það breytir því ekki að þetta hefur verið erfitt fyrir hana og valdið óöryggi. Flutningurinn til [...] var stúlkunni líka erfiður, þótt henni líki ekki illa í skólanum, þá er hún einmana, samverudagar við föður eru færri og lítið tengslanet fyrir [...].

Móðir gerir mikið af því að setja þarfir stúlkunnar ekki í forgang t.d. með því að setja stúlkuna í hendur vandalausra í stað þess að hún fái að vera hjá föður sínum þegar móðirin fer í viðskiptaferðir til útlanda. Í gögnum málsins má finna tölvupóst frá móður til barnaverndar [...] þar sem hún kvartar undan því að faðir „endurgreiði” henni ekki umgengnistíma ef hún er í útlöndum og stúlkan hjá föður sínum. Þar kom fram að móðir hafði verið 108 daga í [...] árið [...]. Faðir hefur óskað þess að hafa stúlkuna hjá sér þegar móðir er í útlöndum og vill móðir draga þann tíma frá umsaminni umgengni dóttur við föður sinn. Því er faðir ósammála og hefur þetta valdið deilum í samskiptum þeirra. Að mati matsmanns eru það hagsmunir stúlkunnar að fá að vera hjá föður sínum frekar en hjá vandalausum ef móðir hennar er fjarverandi. Eðlilegast hefði verið að stúlkan hefði verið hjá föður sínum, þegar móðirin var í útlöndum án þess að það hefði verið dregið frá reglulegri umgengni stúlkunnar við föður sinn. Móðir flutti með stúlkuna til [...] í maí [...] og fer stúlkan í umgengni til föður síns eftir skóla á föstudögum og fer heim á sunnudeginum. Þetta skerðir samverutíma stúlkunnar við föður frá því að vera þrír heilir dagar, aðra hverja helgi, í að vera einn heill dagur aðra hverja helgi og tveir hálfir.  Það hefur gerst að móðir sendi stúlkuna ekki í flug til föður á réttum tíma, það gerðist bæði í byrjun desember og í lok desember 2016 meðan vinna við matsgerð fór fram.

Í matsskýrslunni greinir hinn sérfróði matsmaður tengsl stúlkunnar A við málsaðila, en einnig eðli þeirra, m.a. í ljósi tengslaprófs.  Matsmaður áréttar að í öndverðu hafi málsaðilar búið saman fyrstu fimm mánuðina eftir fæðingu stúlkunnar, en að því tímabili hafi lokið er stefnda hafi farið með hana til [...].  Matsmaður ályktar, að þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki verið mikið með stúlkunni fyrstu rúmlega tvö árin hafi „þau myndað sín á milli hlýtt, náið, traust, kærleiksríkt og sterkt tilfinningasamband.  Í skýrslunni áréttar matsmaður það sem sagt var í matsskýrslunni frá árinu 2012, þ.e. að fram að heimkomu stefndu vorið [...], þegar stúlkan var [...] ára og [...] mánaða gömul, hafi geðtengsl hennar aðallega verið við stefndu og móðurforeldra.  Því hafi þriggja mánaða brottför stefndu verið stúlkunni áfall.  Matsmaðurinn bendir jafnframt á að á þessu tímabili hafi aðilar farið saman með forsjána og allt til gerðar réttarsáttarinnar vorið 2012, en eftir það hafi stefnandi haft reglulega umgengni við stúlkuna.

Að því er varðar tengsl málsaðila við stúlkuna, eins og þau birtust matsmanninum við gerð skýrslunnar, segir:

Samskipti stúlkunnar við föður voru eðlileg og óþvinguð en samskipti stúlkunnar við móður voru lítið eitt þvinguð. Báðir foreldrar gera ýmislegt með stúlkunni og virðast hafa ánægju af samskiptum við hana. Móðir er þó töluvert bundin við vinnu á veitingastaðnum, meðan faðir hefur meira svigrúm til að breyta vinnutíma sínum til að sinna stúlkunni.

Um geðhagi stúlkunnar A segi í skýrslunni:

Samkvæmt Becks matskvarðanum sem matsmaður lagði fyrir stúlkuna virðist sjálfsmat hennar vera mjög gott sem bendir til að hún sé sátt við sig. Hún sýnir aftur á móti meiri kvíða, þunglyndi og reiði en almennt gerist hjá börnum á hennar aldri. Stúlkan hefur oft áhyggjur, henni finnst margt slæmt hafa gerst út af henni og er oft illt í maganum. Henni finnst aðrir sýni henni yfirgang, aðrir fara í taugarnar á henni og hún er oft reið. Engin merki voru um truflandi hegðun hjá stúlkunni. Niðurstöður þessar endurspegla vel stöðu stúlkunnar í dag, hún er mjög meðvituð um erfitt samband foreldra sinna og er á milli þeirra. Hún elskar báða foreldra sína og á ekki að þurfa að velja á milli þeirra. Hún saknar þess að vera ekki meira með föður sínum og sambýliskonu hans. Stúlkan má ekki tala jákvætt um þau í eyru móður sinnar sem verður þá reið þannig að stúlkan segir eitthvað neikvætt um veru sína hjá þeim, til að þóknast móður sinni. Stúlkan lýsti því við matsmann að hún myndi vilja vera jafnt hjá foreldrum sínum. Hún virðist treysta föður sínum betur fyrir tilfinningum sínum, en móður, hún myndi vilja tala við hann þegar hún er döpur, hrædd eða fær martraðir. Þegar stúlkan var beðin að teikna mynd af fjölskyldunni teiknaði hún fyrst mynd af sér, síðan kom pabbi hennar og svo B systir hennar, en ekki fleiri voru á myndinni.

Niðurstöður tengslaprófs sýna að tengsl hennar við föður sinn og stjúpmóður eru jákvæð, traust og veita stúlkunni vellíðan. Hún upplifir eingöngu jákvæðar tilfinningar frá þeim og hennar tilfinningar í þeirra garð eru eingöngu jákvæðar. Henni finnst faðir sinn og stjúpmóðir sýna henni mikinn áhuga, þau vilji hjálpa henni og finnist gaman að vera með henni. Henni finnst faðir sinn skilja sig vel og hlusti á hana. Pabbi hennar sýni henni mikla ást og henni finnst hún alltaf geta treyst þeim.

Henni finnst móðir sín vera indæl og hress. Stúlkunni finnst móðir sín vera fljót að reiðast og vera óþolinmóð.  Stúlkan upplifir blendnar tilfinningar frá móður. Stúlkunni finnst gott að vera með henni, en finnst móðir sín vera of upptekin til að hafa tíma fyrir sig. Móðir lemji hana og geri hana hrædda.

Stúlkan hafði sterkar neikvæðar tilfinningar í garð eldri systur sinnar. Einnig upplifir hún neikvæðar tilfinningar frá systur sinni. Stúlkan upplifir nöldur og reiði frá systur sinni sem gerir hana leiða.

Stúlkan er meira hjá móður sinni en föður þannig að það er ekki óeðlilegt að hún sýni móður blendnari tilfinningar. Móðir ber meiri ábyrgð en faðir á uppeldi stúlkunnar dags daglega þannig að það er ekki óeðlilegt að þar séu bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar.

Niðurstöður tengslaprófsins benda til að hún sakni nærveru föður síns, samskipti stúlkunnar við hann virðast bæði vera jákvæð og góð. Þau hittast aðra hverja helgi og þá er prógramm í gangi sem snýst um stúlkuna.

Matsmaður leggur í skýrslunni mat á það hvort að hætta sé á að stúlkan eða málsaðilar geti orðið fyrir ofbeldi á heimili.  Um það segir í skýrslunni:

Ekkert kom fram sem benti til þess að foreldri geti orðið fyrir ofbeldi á heimili, hvorki faðir né móðir. Ekkert kom fram sem benti til að hætta sé á að stúlkan geti orðið fyrir ofbeldi á heimili föður. Móðir heldur því fram að sambýliskona föður sé vond við stúlkuna, en það var ekkert sem benti til þess að svo væri.  Hlýtt er á milli þeirra og stúlkunni líður vel með henni.

Tilkynningar hafa borist til barnaverndar vegna gruns um ofbeldi móður.  Í tilkynningu frá [...] eru lýsingar um andlegt ofbeldi og áhyggjur af líðan stúlkunnar. Í dómskjali frá Barnaverndarnefnd [...] í áætlun um meðferð máls segir að ástæða íhlutunar sé vanlíðan barns og frásögn um ofbeldi. Þar segir að hlutverk forsjáraðila sé að þiggja ráðgjöf frá barnavernd eftir þörfum vegna samskipta við dóttur sína og að beita dóttur sína ekki ofbeldi sem bendir til að stúlkan hafi greint barnavernd frá einhverju ofbeldi.

Faðir greinir frá andlegu ofbeldi móður í garð stúlkunnar.  Hún megi ekki koma með föt eða hluti frá honum heim til móður. Þegar stúlkan var í [...] átti stúlkan þar sérstakt geymsluhólf fyrir hluti sem faðir lét hana fá, eins og fyrir yddara og strokleður.

Af frásögn stúlkunnar við matsmann mátti ráða að móðir sýni henni stundum reiðiviðbrögð sem eru ekki ásættanleg.

Að því er varðar vilja stúlkunnar A til búsetu og umgengni segir í matsskýrslunni:

Stúlkan sagði að fyrra bragði, óspurð, að hún myndi vilja vera jafnt hjá foreldrum sínum. Stúlkan er mjög meðvituð um erfið samskipti foreldra sinna og hefur það ekki góð áhrif á hana.  Hún er kvíðin og áhyggjufull. Að mati matsmanns er það mikilvægt fyrir stúlkuna að það slakni á spennu í samskiptum foreldranna og að þeir geti átt betri samvinnu en verið hefur þannig að stúlkan fái að njóta eðlilegrar samveru við báða foreldra sína og fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að stúlkan fái að hafa eðlileg samskipti við báðar fjölskyldur sínar og að allir leggist á eitt með að gera þau samskipti árekstralaus og átakalítil.

Um liðsinni vandamanna og tengsl stúlkunnar við maka málaðila segir:

Faðir hefur gott stuðningsnet í kringum sig. Hann nýtur liðsinnis sambýliskonu sinnar, móður sinnar, foreldra sambýliskonu sinnar og vinar síns.

Móðir er búsett á [...] með dótturina, þar hefur hún lítið stuðningsnet. Foreldrar hennar eru búsettir í [...] og þegar þau koma í heimsókn til hennar nýtur hún liðsinnis þeirra. Hún segir að hún njóti liðsinnis E sem hún bjó með á [...].

Stúlkan hefur nánari tengsl við sambýliskonu föður en sambýlismann móður.

Í skýrslunni leggur matsmaður mat á það hvernig best verði háttað umgengni stúlkunnar við þann málsaðilanna, sem hún mun ekki búa hjá, og segir:

Það er skýr vilji stúlkunnar að vera sem jafnast hjá foreldrum sínum. Stúlkan er ung að árum en þroskuð miðað við aldur og mikilvægt er að hlusta á rödd hennar. Stúlkunni þykir vænt um báða foreldra sína og hefur lýst því yfir að hún vilji vera jafnt hjá þeim.

Að mati matsmanns er besti kosturinn fyrir hana sá að foreldrar hennar byggju í sama sveitarfélagi, færu sameiginlega með forsjá hennar og að umgengni væri vika og vika. Þá gæti stúlkan líka verið hjá föður sínum þegar móðir hennar fer í viðskiptaferðir til útlanda, í stað þess að vera hjá vandalausum. Rannsóknir hafa sýnt að börnum farnast almennt betur þegar foreldrar deila forsjá þess og bera sameiginlega ábyrgð á börnum sínum.

Ef móðir heldur forsjánni og býr áfram á [...] væri ekki ósanngjarnt út frá hagsmunum stúlkunnar að hún færi hverja helgi til föður síns, væri hjá honum í vetrarfríum skólans og mánuð í sumarfríi. Einnig mætti útfæra umgengina á þann hátt að stúlkan færi [...] aðra hverja helgi með eftirmiðdagsvélinni á fimmtudögum og færi [...] með fyrstu vél á mánudagsmorgnum. Sama myndi gilda ef faðir fengi forsjána og móðir byggi áfram á [...].

Ef móðir heldur forsjá stúlkunnar og býr [...]leggur matsmaður til að umgengni yrði vika og vika og sama myndi gilda ef faðir fengi forsjá stúlkunnar og móðir yrði búsett [...].

Í matsskýrslunni víkur matsmaður nánar að ofangreindum kostum varðandi búsetu og lögheimili og þá í ljósi heildarhagsmuna stúlkunnar A, þ.e.:

a)      Að stúlkan haldi áfram búsetu hjá móður og hafi lögheimili hjá henni:

Kostir: Stúlkan hefur alltaf haft fasta búsetu hjá móður sinni, frumgeðtengsl eru við hana og móðir hennar hefur að mestu annast hana frá því hún var lítil. Grunnþörfum stúlkunnar er vel fullnægt hjá móður, þ.e. fæði, klæði og húsaskjól. Móðir hefur metnað fyrir hönd stúlkunnar að hún mennti sig, tali góða íslensku og [...]. Hjá móður fær hún tækifæri til þess að tala [...] og styrkja sig í henni. Húsnæði móður er gott, hún býr í eigin húsnæði og hefur stúlkan sérherbergi. Móðir er fjárhagslega sjálfstæð, metnaðarfull og dugleg kona. Móðir er á margan hátt góð fyrirmynd fyrir stúlkuna.

Gallar:  Stúlkan er vansæl. Hún hefur lítil samskipti við aðra krakka eftir skóla og er ekki í neinum tómstundum. Móðir býr ein með stúlkuna á [...] þar sem stuðningsnetið hennar er mjög lítið. Eftir skóla er stúlkan með móður sinni á veitingahúsinu fram að svefntíma og fá tækifæri eru til að leika við aðra krakka eða vera í tómstundum. Móðir talar ekki íslensku og hefur takmarkaða getu til að aðstoða stúlkuna í skólanáminu. Móðir vinnur mikið, er stundum fjarverandi og þá er stúlkan sett í umsjá vandalausra. Öryggistilfinning stúlkunnar er slök og upplifir hún sig oft eina, jafnvel að hún hafi verið ein yfir nótt meðan móðir hennar var í Reykjavík.  Móðir segist aldrei skilja hana eftir eina yfir nótt, alltaf sé einhver hjá henni. Stúlkan hefur tjáð föður að hún hafi verið ein yfir nótt í október 2016.  Móðir hefur með ákvörðunum sínum oft sýnt slakt innsæi í þarfir stúlkunnar og núna síðast varðandi flutninginn til [...] sem var stúlkunni ekki til hagsbóta. Hún er einmana og saknar föður síns, en samskipti hennar við hann hafa minnkað verulega vegna flutningsins. Flutningur móður með stúlkuna til [...] kemur í veg fyrir að faðir geti tekið þátt í tómstundum stúlkunnar og skerðir tíma þeirra saman. Móðir hefur hamlað samskiptum stúlkunnar við föður, hefur ekki alltaf sent stúlkuna í flug á umsömdum tíma sbr. umgengnishelgarnar í desember 2016. Einnig hefur móðir breytt páska- og sumarfríum og skert tíma stúlkunnar með föður. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun hvort móðir sé að reyna að koma í veg fyrir að barnið umgangist föður sinn.  Tilkynningar til barnaverndar hafa borist vegna aðstæðna stúlkunnar hjá móður.

b) Að stúlkan búi hjá föður og hafi lögheimili hjá honum.

Kostir: Stúlkan hefur tengst föður sínum og sambýliskonu hans sterkum tilfinningaböndum og líður vel hjá þeim.  Faðir hefur gott stuðningsnet í kringum sig. Á heimilinu er sambýliskona hans sem tekur virkan þátt í uppeldi stúlkunnar. Þau geta bæði aðstoðað stúlkuna við námið, haft samband við skóla og aðrar stofnanir. Faðir hefur sinnt tannlæknaeftirliti, læknavitjunum og verið í góðu sambandi við skóla. Stúlkan treystir þeim fyrir líðan sinni, þau hafa bæði gott innsæi í þarfir stúlkunnar og faðir vill að stúlkan fái aðstoð við að taka á vanlíðan sinni og kvíðanum. Hjá föður fengi stúlkan tækifæri til að efla félagsþroska sinna og umgangast aðra krakka eftir skóla og sinna tómstundum við hæfi. Faðir hefur metnað fyrir hönd stúlkunnar að hún mennti sig og verði hæfur einstaklingur og er hann í góðri aðstöðu til að aðstoða hana við heimanámið. Húsnæði föður er gott, hún er með sérherbergi hjá honum. Hann er sjálfstætt starfandi og getur hagrætt vinnutíma sínum fyrir stúlkuna. Faðir er einnig á margan hátt góð fyrirmynd fyrir stúlkuna.

Gallar: Stúlkan hefur aldrei haft fasta búsetu hjá föður. Hann er eftirgefanlegur í uppeldi sínu sem er ekki óeðlilegt þar sem stúlkan er oftast stuttan tíma hjá honum í einu. Faðir er í leiguhúsnæði og hefur samning til eins árs. Óvíst er hvert hann flytur eftir þann tíma en hann stefnir á að kaupa húsnæði í sumar.

Niðurlagsorðin í undirmatsskýrslu hins sérfróða matsmanns eru svohljóðandi:

Stúlkan er á þeim aldri er þroskaverkefni hennar snúast um félagsfærni og samskipti við félaga.  Flest börn byrja að þróa vináttusambönd á þessum árum, læra að setja sig í spor annarra og skilja tilfinningar annarra.  Á þessum aldri geta börn aðlagað sig að tveimur heimilum og aðskilið þau varðandi uppeldisaðferðir og annað.  Upplifi barnið mikil átök milli foreldra sinna hefur það áhrif á líðan þess. Þeim kann að finnast þau ekki elskuð, sýna slaka félagsfærni, hættir til að einangrast félagslega, frammistaða í skóla verður slakari, þau sýna hegðunarvanda og lélega sjálfsmynd.  Stúlkan er á því mótunarskeiði í lífi sínu að hún þarf að eignast félaga, öðlast jákvæða sjálfsmynd, laga kvíða, fá að spreyta sig, vera í tómstundum og hafa einhvern sem sýnir áhuga á því sem hún tekur þátt í.

Faðir lýsir innilegri væntumþykju í garð dóttur sinnar og engin ástæða til að efast um það. Eðli málsins samkvæmt eru minni upplýsingar til um hæfni föður, en móður, til að fara með forsjá stúlkunnar, en ekkert í gögnum málsins eða í athugun matsmanns bendir til annars en þess að hann sé hæfur til að sinna forsjárskyldum sínum fái hann tækifæri til þess. Hann hefur gott innsæi í þarfir hennar, sýnir áhuga á því sem hún tekur sér fyrir hendur, gott tilfinningasamband er á milli þeirra og hún treystir honum. Hann er reglusamur, heilsuhraustur, hlýr, með gott tengslanet. Aðstæður hans eru góðar og ekki er annað að sjá en að hann geti verið dóttur sinni góð fyrirmynd og traustur uppalandi. Stúlkan reiðir sig á föður til að bjarga málum, eins og t.d. þegar Halloween partý var í skólanum, þá hringdi hún í föður sinn og sagði honum að hún hefði engan búning til að fara í og ætti ekki fyrir inngangseyrinum. Faðir brást skjótt við og sendi strax [...] búning og pening sem kennari stúlkunnar sótti á pósthúsið.

Móður þykir mjög vænt um dóttur sína og engin ástæða til að efast um það. Styrkleiki hennar er sá að á góðum stundum er hún lífleg, skemmtileg móðir og hefur mikinn metnað fyrir hönd dóttur sinnar. Hún er reglusöm, heilsutraust og vinnusöm. Þegar foreldrahæfni er metin og til að spá fyrir um framtíðarhorfur er nauðsynlegt að horfa til fortíðar og sjá hvernig staðið hefur verið að málum. Veikleikar móður eru þeir að hún hefur oft ekki sýnt innsæi í tilfinningalegar þarfir stúlkunnar, hún er sjálflæg og setur sínar eigin þarfir oft ofar þörfum stúlkunnar. Hún sinnir vel grunnþörfum stúlkunnar, en les ekki vel tilfinningalegar þarfir hennar. Hún sinnir því ekki að setja stúlkuna í tómstundir, sér ekki til að að stúlkan sé innan um aðra krakka eftir skóla til þess að hún efli félagsfærni sína, mætir ekki á mikilvæga atburði í lífi stúlkunnar og er ekki næm á líðan stúlkunnar.  Móðir hefur lítið bakland, er ein á [...], foreldrar hennar í [...] og sambýlismaður og eldri dóttir á [...].

Samband foreldranna er ekki gott en stúlkan á ekki að gjalda þess. Það foreldri sem fær lögheimili stúlkunnar ber skyldu til að sjá til þess að stúlkan hafi reglulegt og eðlilegt samband við hitt foreldrið.  Matsmaður telur báða foreldra hæfa til að sinna grunnþörfum stúlkunnar.  Matsmaður telur föður hæfari en móður til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum stúlkunnar. Matsmaður leggur til að foreldrar fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar og að lögheimili hennar sé hjá föður.

IV.

Að kröfu lögmanns stefndu voru dómkvaddir til yfirmats, þann 8. mars 2016, þær I og H, sálfræðingar.  Matsgerð þeirra er dagsett 17. apríl sl., en henni til grundvallar eru m.a. öll áðurrakin gögn.  Eðli málsins samkvæmt var verkefni yfirmatsmannanna að endurmeta þau atriði sem metin voru í undirmati varðandi forsjárhæfni málsaðila.  Auk þessa er í skýrslunni vikið að þeim gagnrýnisatriðum, sem stefnda hafði sett fram við efni undirmatsskýrslunnar, um að þar hefði m.a. ekki verið gætt nægjanlega að þeim atriðum sem tilgreind eru í greinargerð með frumvarpi til barnalaga, einkum varðandi 34. gr.  Því til viðbótar lét lögmaður stefndu á matsfundi, þann 23. mars sl., það álit í ljós að eftir atvikum hefði stefnda mætt fordómum í undirmatinu.

Samkvæmt gögnum gerðu yfirmatsmenn á matsfundi með lögmönnum málsaðila grein fyrir tilhögun væntanlegra matsstarfa og þá þannig að auk áðurrakinna gagna myndu þeir styðjast við eigin viðtöl við aðila máls, en einnig heimsóknir á heimili þeirra.  Þá var því lýst að þeir ætluðu að eiga fundi með aðilum sem gerst til þekktu, þ. á m. við sambúðaraðila og stúlkuna A, en einnig við kennara hennar.  Yfirmatsmennirnir greindu jafnframt frá því að við matsstörfin myndu þeir styðjast við eigið klíníska mat, en að þeir myndu ekki leggja fyrir eða endurtaka persónuleikapróf málsaðila „vegna mögulegrar skekkju við að nota slík mælitæki með túlki og að niðurstöður fyrri prófana yrðu ekki lagðar til grundvallar.  Samkvæmt gögnum gekk þessi áætlun eftir, en ferlið fór fram á tímabilinu frá 31. mars til 6. apríl 2016.

Í skýrslu yfirmatmannanna er gerð ítarlega grein fyrir frásögn málsaðila.  Segir m.a. frá því að stefnda hafi lýst ráðagerðum sínum um að opna á næstunni þrjá nýja veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu, en einnig að hún hefði keypt íbúðarhús á [...] og af þeim sökum gæti komið til þess að stúlkan a skipti um grunnskóla í bæjarfélaginu.  Greint er frá því að stefnda hafi lýst sig andsnúna sameiginlegri forsjá og þá ekki síst sökum þess að með því móti gæti stefnandi komið í veg fyrir utanlandsferðir þeirra mæðgna.  Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir frásögn sambýlismanns stefndu.

Í skýrslunni segir frá því að stefnandi hafi upplýst um að hann hefði skipt um leiguhúsnæði og byggi í fjögurra herbergja leiguíbúð í [...], ásamt góðum vini sínum og viðskiptafélaga.  Fram kemur að yfirmatsmennirnir hafi farið í heimsókn á heimilið og að þar hafi þeir m.a. séð að stúlkan A hafði eigið herbergi til umráða, líkt og verið hafði á heimili stefndu.  Þá segir frá því að stefnandi hafi upplýst um tímabundin sambúðarslit hans og sambýliskonunnar D, í lok árs 2016.  Fram kemur að þetta atriði hafi verið í samræmi við frásögn sambýliskonunnar og að þau hafi útskýrt slitin með því, að þar hafi ráðið hagsmunir stúlkunnar A.  Þannig hafi þau í raun ekki slitið sambandi sínu, en gripið til þessa ráðs vegna framkomu og orðbragðs stefndu við stúlkuna, sem beinst hafi að persónu sambýliskonunnar.  Með slitunum hafi þau einnig viljað gefa stúlkunni betra næði með stefnanda, en að því leyti hefðu þau m.a. fylgt uppeldisráðgjöf nafngreinds sálfræðings.  Í skýrslunni segir að stefnandi hafi haft orð á því að hann sæi ekki fyrir sér að deila forsjá stúlkunnar vegna andstöðu stefndu við það fyrirkomulag, og jafnframt er sagt að hann hafi helst haft hug á því að stúlkan færi á ný í [...] fengi hann forsjána.

Í skýrslunni gera yfirmatsmennirnir ítarlega grein fyrir viðtali sínu við stúlkuna A, en einnig við starfsfólk [...] og segja að þar hafi það m.a. komið fram að málsaðilar hefðu viðhaft gagnkvæma illmælgi.

Í niðurstöðukafla yfirmatsskýrslunnar er fyrst vikið að gagnrýni stefndu við undirmatsskýrsluna varðandi félagslegar aðstæður og hagi stefnanda og þá í ljósi sambúðarslita hans, húsnæðismála og hugmynda hans um skólagöngu A á [...].  Yfirmatsmennirnir vísa til þess sem að ofan var rakið, en síðan segir:

Varðandi það hvort hjá föður sé sú festa sem rætt er um í undirmati telja undirritaðar að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki tilefni til að ætla annað en að nægileg festa sé í aðstæðum föður til að leggja grunn að stöðugleika í umönnun og uppeldi stúlkunnar. Svo virðist sem stúlkan og D hafi náð vel saman og þrátt fyrir flutning D af heimilinu hafa hún og faðir hug á að standa saman að uppeldi stúlkunnar og hafa í því skyni átt viðtal við sálfræðing föður. Áfram virðist D því vera styrkur fyrir föður sem yfirmatsmönnum sýnist að muni gagnast honum vel. Faðir hefur sjálfur gott innsæi í líðan og aðstæður stúlkunnar og hann er opinn fyrir því að leita aðstoðar fyrir sig og hana. Af þessu og góðum aðstæðum hjá honum að öðru leyti má ætla að hann sé einnig vel fær um að ala stúlkuna upp án D.

Í skýrslunni fjalla yfirmatsmennirnir einnig um það álitaefni, og þá í ljósi gagnrýni stefndu, hvort gætt hafi hlutdrægni í hennar garð í undirmatsskýrslunni og þá sem uppalanda sökum þess að hún sé af erlendu bergi brotin, tali ensku með [...] hreim og hafi ekki náð tökum á íslenskunni þrátt fyrir langa búsetu hér á landi.  Að auki fjalla þeir um hagsmuni stúlkunnar varðandi tungumálakennslu í íslensku og [...] og þá í ljósi búsetu og samvista hennar við málsaðila.  Um þessi atriði segir í skýrslunni:

Yfirmatsmenn sjá engin merki í undirmatsgerð um hlutdrægni gagnvart móður vegna uppruna hennar eða tungumálakunnáttu. Þar koma þessi atriði fram, eins og sjálfsagt er, en ekki eru dregnar af þeim neikvæðar ályktanir.

Yfirmatsmenn telja mikilvægt fyrir stúlkuna að vera samvistum við báða foreldra sína og fá tækifæri til að leggja góða rækt við bæði þessi tungumál. Hún býr á Íslandi og því er íslenska það tungumál sem hún notar fyrst og fremst í daglegu lífi. [...] er tungumál móður og samskipti mæðgnanna fara fram á [...] eins og eðlilegt er. Foreldrar eru sammála um að mikilvægt sé að efla þekkingu og færni stúlkunnar í [...] og hafa þau bæði hugmyndir um hvernig því verði komið við.

Í yfirmatsskýrslunni er sérstaklega fjallað um athugasemdir stefndu að því er varðar frásögn í undirmatsskýrslu um félagslegar aðstæður hennar á [...].  Varða athugasemdir stefndu helst umfjöllun undirmatsmanns um gæslu stúlkunnar á þeim tímaskeiðum sem hún er að heiman, m.a. erlendis.  Af hálfu stefndu er staðhæft að í slíkum tilvikum hafi hún aðeins treyst þeim vinum sínum, sem stúlkan hafi þekki vel, og því hafi ekki verið um vandalausa aðila að ræða.  Jafnframt staðhæfir stefnda að hún hafi falið eldri dóttur sinni að tilkynna grunnskóla stúlkunnar á [...] um ferðir hennar.  Að auki andmælir stefnda því að hún hafi hamlað umgengni stúlkunnar við stefnanda, m.a. í tengslum við hina reglulegu umgengni aðra hverja helgi.  Um nefnd atriði segir í yfirmatsskýrslunni:

Yfirmatsmenn draga ekki í efa traust móður á þeim starfsmönnum á veitingastað sínum sem hún felur umönnun stúlkunnar þegar hún fer að heiman eða vináttu þeirra. Ekki er heldur dregið í efa að barnið þekki starfsmennina, þar sem hún dvelur í þrjár til fjórar klukkustundir á veitingastaðnum á hverjum degi. En í samtali við stúlkuna kom fram að hún fyndi fyrir verulegu óöryggi og ótta þegar móðir hennar væri ekki heima að næturlagi. Umönnunaraðili hennar færi í burtu um tíma og þegar hún hefði vaknað hefði henni ekki verið ljóst hvort hann væri á staðnum. Yfirmatsmenn telja ekki boðlegt fyrir átta ára stúlku að vera í aðstæðum af þessu tagi og að komið hafi skýrt fram að öryggiskennd og vellíðan stúlkunnar sé ekki með ásættanlegu móti undir þessum kringumstæðum. Einnig má benda á að þegar starfsmaður barnaverndarnefndar ræddi við stúlkuna virtist hún ekki þekkja nafn starfsmannsins sem gætti hennar. ...

Orðið vandalausir er samkvæmt orðabók Árnastofnunar[1] notað um óskylda sem ekki eru af sömu fjölskyldu. Yfirmatsmenn telja að það eigi vel við í því samhengi sem það var notað í undirmatsgerð, því ekki hafa komið fram upplýsingar um fjölskyldutengsl milli móður og starfsmanna hennar. ...

Samkvæmt upplýsingum skóla stúlkunnar skortir á að móðir gefi skólanum upplýsingar um það þegar hún fer í burtu og hver beri ábyrgð á stúlkunni í fjarveru hennar. Það sé mikilvægt að skólinn hafi slíkar upplýsingar ef eitthvað komi upp á á skólatíma. Yfirmatsmenn telja sig ekki geta lagt mat á það hvernig upplýsingagjöf um tiltekna ferð hafi verið háttað en taka undir sjónarmið skólans um mikilvægi þess að skólinn viti hver sé ábyrgðaraðili þegar foreldri er að heiman og hafi nafn og símanúmer ábyrgðaraðilans. ...

Það kom fram í máli föður að hann bókaði flugferðir stúlkunnar eins tímanlega og hann gæti til að tryggja að hún gæti ferðast á þeim tíma sem lægi innan umgengnistímans. Takmarkaður sætafjöldi væri fyrir börn sem væru ein á ferð. Móðir breytti stundum bókunum stúlkunnar án þess að láta hann vita. Þarna eru frásagnir foreldra stúlkunnar með ólíkum hætti og erfitt er fyrir yfirmatsmenn að vita hverjar staðreyndirnar séu. Yfirmatsmenn sjá ekki á hvaða hátt móðir hefur lagt hart að sér til að barnið fái að umgangast föður. Það virðist að minnsta kosti ekki eiga við um tímabilið síðan mæðgurnar fluttu til [...].

Í skýrslunni fjalla yfirmatsmenn nánar um þau grundvallaratriði sem vísað er til í áðurgreindri 2. mgr. 34. gr. barnalaganna, og þá í ljósi þess sem fram er komið um hagi málsaðila og dóttur þeirra A, sbr. að því leyti efni áðurrakinnar undirmatsskýrslu.

Um stefndu segir að þessu leyti í skýrslunni:

Móður virðist vera umhugað um velferð dóttur sinnar. Hún hefur fundið leið til að bæta stærðfræðikunnáttu stúlkunnar, efla færni hennar í [...] talmáli og ritmáli og læra á píanó með því að ætla að ráða kennara frá [...] sem mun einnig dvelja hjá stúlkunni þegar hún sjálf fer að heiman. Þetta er jákvætt, bæði til að efla færni og einnig til að draga úr óöryggi og vanlíðan hjá stúlkunni í fjarveru móður.  En hún virðist hafa takmarkað innsæi í aðstæður stúlkunnar, hugarheim og tilfinningar. Ekki er að sjá að hún komi auga á vanlíðan hennar eða þá hollustuklemmu sem hún er í. Móðir hefur komið sér hjá því að þiggja aðstoð fyrir stúlkuna þegar hún bauðst. Móðir horfir á hlutina, þar með talið uppeldi stúlkunnar, út frá sjálfri sér sem konu í viðskiptum sem leggi mikla áherslu á að viðskiptin blómstri. Þannig má segja að sjónarhorn hennar sé sjálfmiðað. Daglegt líf stúlkunnar einkennist af því að eftir skólavistun dvelur hún mest á veitingastað móður, sem virðist þykja þetta sjálfsagt mál því þetta hentar hagsmunum hennar sjálfrar. Móðir hefur þá sýn á framtíðina að þær muni búa áfram á [...], flytja í annað hús í öðru skólahverfi og þá muni stúlkan skipta um skóla, strax í vor eða í haust, og fara úr skólanum sem hún byrjaði í fyrir tæpu ári. Það er erfitt að sjá það fyrir sér hvernig móðir muni styðja stúlkuna í að halda áfram samskiptum við núverandi vinkonur eftir flutninga í annað hverfi, þar sem hún virðist í dag leggja lítið af mörkum til að styðja við samveru hennar með vinkonum og eðlilegar tómstundir hennar með félögum eftir frístund. Þá vekur athygli matsmanna að þrátt fyrir áhuga stúlkunnar og ábendingar frá umsjónarkennara hefur hún enn ekki hafið reglulega tómstundaiðkun aðra en kirkjustarf einu sinni í viku. Stúlkan hefur áhuga á skautum og dansi, og móðir segist hafa hug á að koma stúlkunni á skautaæfingar eða í fimleika en ekki hefur orðið af því. Annar af dansskólum bæjarins er steinsnar frá núverandi heimili mæðgnanna, þannig að auðvelt hefði verið að koma til móts við þann áhuga stúlkunnar.

Misræmis gætir í þeim kröfum sem móðir gerir um skólasókn stúlkunnar eftir því hvort hún er í umsjá hennar eða umgengni hjá föður. Móður virðist finnast allt í lagi að stúlkan fái frí úr skólanum ef hún sjálf vilji fara með hana til [...] eða til [...] en það sé ekki í lagi að hún missi af skólatíma vegna umgengni við föður. Umsjónarkennari stúlkunnar upplýsti einnig að hún hefði ekki mætt í skólann í neina heila viku þann tíma sem eftir hafi verið af skólaárinu þegar hún hafi flutt [...].

Það vekur einnig athygli að móðir og kærasti hennar sjá ekki framtíðina á sama hátt. Móðir greindi frá því að hún væri ánægð á [...], ætlaði að búa þar áfram og væri líklega að ganga frá kaupum á stóru einbýlishúsi fyrir þær mæðgur til að búa í. Kærasti hennar sagði hins vegar að hann teldi að búseta mæðgnanna væri tímabundið á [...] þar sem hún hefði sagst myndu koma aftur [...] þegar rekstur veitingahússins væri kominn í góðan farveg. Þarna gætir því ósamræmis sem yfirmatsmenn vekja athygli á.

Það er ekki einfalt að átta sig á vinnutilhögun hjá móður. Hún greinir frá því að hún þurfi nú minna að sinna daglegum rekstri veitingahússins, þar sem hún hafi fleira starfsfólk en var fyrr í vetur. Þó sagðist hún fara daglega á veitingahúsið með A eftir klukkan 16 og vera þar fram yfir kvöldmat. Þá sagðist hún lítið hafa verið á veitingahúsinu á meðan það var lokað frá janúar til mars. Þær hefðu verið heima síðdegis og hún hefði eldað heima fyrir þær. Hins vegar kom fram hjá stúlkunni (og umsjónarkennara) að mæðgurnar hefðu á þeim tíma iðulega farið þangað eftir að frístund lauk. Þá ber að geta að þegar yfirmatsmenn hittu móður hafði hún ekki tök á að taka á móti þeim á heimili sínu klukkan 10.30, þar sem hún þurfti að sinna erindum fyrir veitingahúsið. Þó hafði hún áður sagst ekki þurfa að mæta þangað fyrr en klukkan 12.

Atburðarás og tímasetningar þegar móðir og dóttir flytja til [...] vekja athygli yfirmatsmanna. Skóli stúlkunnar tilkynnti til barnaverndar [...] um grun um andlegt ofbeldi gagnvart barninu 4. mars 2016 og móðir og lögmaður hennar mættu í viðtal á skrifstofu barnaverndar [...] 24. apríl 2016. Í frásögn af þeim fundi kemur ekkert fram um fyrirhugaða flutninga (dskj. 18), en sagt er að móðir sé samþykk því að stúlkan ræði við sálfræðing og hafi því verið pantaður tími fyrir hana. Skv. dskj. 11 flutti móðir lögheimili mæðgnanna [...] daginn eftir, 25. apríl. Þá greinir móðir G matsmanni frá því að hún hafi keypt íbúðina sem mæðgurnar búa í „á 15 mínútum þegar hún ákvað að flytja til [...]“ (bls. 16). Það virðist sem svo að annaðhvort hafi móðir valið að segja ekki frá því á fundinum að þær væru að flytja og þannig blekkt starfsmann barnaverndar eða hún hafi ákveðið þá samdægurs að flytja. Sé það raunin rennir það stoðum undir þá skoðun föður að hún flytji til að losna við afskipti barnaverndar.

Um stefnanda segir um nefnd atriði í yfirmatsskýrslunni:

Föður virðist vera umhugað um velferð dóttur sinnar. Hann var einlægur í samskiptum við matsmenn, átti erfitt með mál og tár komu fram í augu hans þegar hann talaði um vanlíðan hennar. Hann hefur nokkuð gott innsæi í aðstæður og líðan stúlkunnar, gerir sér grein fyrir þeirri hollustuklemmu sem hún er í á milli hans og móður hennar og hann virðist leggja sig fram um að koma til móts við þarfir hennar. Jafnframt áttar hann sig á að til framtíðar þurfi hann að hafa meiri reglur og ramma í uppeldi stúlkunnar og samskiptum þeirra og þau sjónarmið hans eru skynsamleg. Hann hefur að eigin sögn góðan aðgang að sálfræðingi sem hann getur leitað til og fengið uppeldisráðgjöf hjá og fram kom að hann og kærasta hans væru þegar farin að nýta sér það. Faðir hefur nokkuð fastmótaðar hugmyndir um framtíðina með dóttur sinni og segist sjá fyrir sér aðstæður þar sem hún muni sækja [...], sem sé æskilegast fyrir hana, og búseta þeirra verði í nágrenni við bifreiðaverkstæði hans.

Yfirmatsmenn telja að félagslegar aðstæður hjá föður séu góðar. Það sé raunhæft að stúlkan gangi í skóla á [...], ekki síst af því að faðir stefni að því að flytja í [...] eða [...], og hann sækir vinnu til [...]. Matsmenn sjá ekki ástæðu til að draga í efa þann ásetning föður.

Samkvæmt upplýsingum skólans um mætingar stúlkunnar í skóla við lok umgengni hefur hún oftast mætt á réttum tíma á mánudagsmorgnum (skólastarf hefst skv. stundaskrá kl. 8.00). Í einhver skipti hefur hún komið aðeins of seint [...] og í eitt skipti um hádegi [...].

Og um stúlkuna A hafa matsmenn svofelld orð í skýrslunni:

Stúlkan sem hér um ræðir er [...] ára gömul síðan á [...]. Hún var einlæg í tali við matsmenn. Frásögn kennara af líðan hennar og hegðun að undanförnu benda til þess að henni líði ekki vel. Það sama kemur fram hjá föður hennar og kærustu hans. Samkvæmt niðurstöðum tilfinningamatslista í undirmati sýnir hún meiri kvíða, þunglyndi og reiði en almennt gerist hjá börnum á hennar aldri. Þessu þarf að gefa gaum og veita stúlkunni viðeigandi aðstoð. Móðir hennar kannast ekki við vanlíðan hjá henni. Ekki varð af að stúlkan fengi aðstoð í [...] vegna flutninga mæðgnanna og móðir hefur ekki leitað eftir aðstoð fyrir stúlkuna.

Stúlkan hefur nú búið í tæplega ár á [...]. Hún hefur varið mestum hluta tímans eftir skólavistun og fram að háttatíma á veitingastað móður sinnar þar sem hún segir sjálf að sér þyki ekki gaman að vera. Á þeim tíma eru jafnaldrar hennar venjulega heima við með foreldrum sínum, að hitta vini, sinna tómstundum eða gera eitthvað sem tilheyrir fjölskyldu- og heimilislífi. Yfirmatsmenn telja að þannig iðja sé mun æskilegri fyrir börn á þessum aldri. Móðir hennar ber því við að hún þurfi að vera á veitingastaðnum sínum. Yfirmatsmönnum þykir það ekki fyllilega viðunandi skýring í ljósi þess að hún segist einnig sinna störfum sínum mikið gegnum tölvu. Þær kringumstæður auðvelda fólki að vinna hvar sem er, til dæmis heima hjá sér. Nú er fyrirhugað að telpan fái [...] kennara, sem mun skapa festu í líf telpunnar og sinna með henni ákveðinni menntun. Það er jákvætt en rétt er að benda á að stúlkan þarf einnig að eiga frjálsan tíma með vinum og eiga möguleika á að vera í tóm­stundum að eigin vali. Hún sagði einnig að eigin frumkvæði að mamma hennar hefði ekki tíma til þess að gera það sem þær gerðu saman því hún þyrfti að vera í vinnunni á veitingastaðnum.

Það kom skýrt fram hjá stúlkunni að hún er í hollustuklemmu á milli foreldranna. Í undirmati kom fram að hún vildi vera jafnt hjá þeim. Stúlkan tjáði sig einnig við yfirmatsmenn um atriði sem hún lagði ríka áherslu á að færi ekki í skýrslu. Það gerði hún einnig við undirmatsmann og í viðtali við dómara og sálfræðing. Samtöl hennar við þessa trúnaðaraðila styðja mikilvægi þess að stúlkan fái aðstoð við að vinna úr vanlíðan og erfiðum tilfinningum.

Í lokaorðum sínum staðhæfa yfirmatsmennirnir að fyrrgreind undirmatsgerð sé ítarleg að efni og að þar sé fjallað um þau atriði sem taka beri tillit til þegar forsjá sé metin, en segja síðan:

Yfirmatsmenn taka undir niðurstöður undirmatsgerðar í heild sinni og telja ekki ástæður til að rekja hvert atriði fyrir sig. Yfirmatsmenn eru þannig sammála áliti undirmatsmanns og telja að báðir foreldrar séu hæfir til að sinna grunnþörfum stúlkunnar. Faðir sé hins vegar hæfari en móðir til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum hennar.

V.

Stefnandi byggir á því að það sé stúlkunni A ótvírætt fyrir bestu að hann fari með forsjá hennar.  Hann bendir á að samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 beri dómara að láta hagsmuni barns ráða við ákvörðun um forsjá þess.

Stefnandi reisir kröfu sína á því að hann sé án efa mun hæfara foreldri en stefnda, en hann búi m.a. yfir meiri stöðugleika í lífi sínu og geti boðið dóttur aðila upp á ástríkara og stuðningsríkara heimili en hún.

Stefnandi vísar til áðurrakinna málavaxta og byggir á því að það hatur sem stefnda beri í brjósti gagnvart honum og sambýliskonunni komi niður á velferð stúlkunnar.  Þar um vísar hann, m.a. við flutning, til þess sem fram komi í gögnum, þ. á m. frá [...], að stefnda hafi haft í frammi, í áheyrn stúlkunnar, hótunarorð um að drepa sambýliskonu hans.  Stefnandi byggir á því að með þessu hafi stefnda viðhaft andlegt ofbeldi gagnvart stúlkunni. Hann bendir enn fremur á að barnaverndartilkynningar frá nefndri skólastofnun styðji að þessu leyti málsástæður hans um að stefnda beiti stúlkuna slíku ofbeldi, en að auki einnig með því að meina henni að hafa með sér muni sem hann og sambýliskona hans hafi gefið henni.  Hafi þessi hegðan stefndu leitt til þess að kennari stúlkunnar hafi neyðst til að hafa sérgeymslu í skólanum þannig að stúlkan hefði tök á því að geyma föt og aðra muni, þ. á m. skóladót, sem þau hefðu gefið henni.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi í raun lítt sinnt heimanámi stúlkunnar og þar með námslegum, en einnig félagslegum, þörfum hennar.  Að því leyti hafi hún ekki uppfyllt skilyrði um þroskavænlegt uppeldi stúlkunnar.  Að auki hafi stefnda ekki sinnt því að láta stúlkuna hafa skóladót eða viðeigandi klæðnað.  Stefnandi bendir á að þrátt fyrir þessa vankanta hafi stefnda ásakað hann um vanrækslu og þá m.a. með þeim rökum að hann hefði ekki blásið hár stúlkunnar eftir baðferðir og hafi hún m.a. verið með kröfur um að hann ritaði undir samning þar að lútandi.

Stefnandi byggir á því að dóttir málsaðila fái ekki þá umönnun hjá stefndu sem henni sé nauðsynleg.  Að auki sé það umhverfi sem stúlkan búi við, og þá ekki síst eftir flutninginn til [...], afar skaðlegt fyrir hana.

Stefnandi byggir einnig á því að stefnda hafi aldrei virt ákvæði réttarsáttar aðila frá árinu 2012 um umgengni, en með þeim hætti hafi hún m.a. tálmað umgengni hans við stúlkuna.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi á vordögum 2016 fyrirvaralaust og skömmu fyrir skólaslit flutt lögheimili sitt og dóttur þeirra til [...].  Það sé ætlan hans að til þessara ráðstafana hafi stefnda gripið í kjölfar barnaverndartilkynningar frá [...], sem leitt hafði til afskipta barnaverndarnefndar [...] og fyrirhugaðs sálfræðiviðtals stúlkunnar.  Hann byggir á því að tilefni þessara aðgerða hafi verið vanlíðan stúlkunnar, m.a. vegna ætlaðs ofbeldis stefndu, sbr. að því leyti handritaða nótu stúlkunnar, sbr. dskj. nr. 6.  Að því leyti bendir stefnandi á að stúlkan hafi í raun lítt sótt skóla fyrst eftir að hún fluttist [...].

Við flutning málsins byggði stefnandi á því að stefnda hefði í raun takmarkaðan tíma til að sinna stúlkunni, en af þeim sökum hefði hún falið öðrum aðilum gæslu hennar, þ. á m. eigin starfsfólki, sem væri óvandabundnir einstaklingar, en síðast hafi þetta gerst vorið 2017.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi í raun lítið sem ekkert bakland ættingja á [...], en þar sé ólíku saman að jafna miðað við hann.  Þar um vísar hann til matsskýrslna hinna sérfróðu matsmanna, en enn fremur til niðurstöðu þeirra um tengsl stúlkunnar við sína nánustu og umfjöllunar þeirra varðandi innsæi málsaðila.  Að þessu leyti vísar stefnandi einnig til áðurrakinna meginniðurstaðna í báðum matsskýrslunum, þ. á m. um vanlíðan stúlkunnar.

Stefnandi bendir á ákvæði 1. gr. barnalaganna þar sem segir, að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.  Hann bendir jafnframt á að samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt með öllu að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Stefnandi vísar til allrar forsögu málsins, og að í ljósi hennar megi ætla að engar forsendur séu fyrir sameiginlegri forsjá aðila, enda hafi samskipti þeirra verið lituð af heift stefndu í hans garð og sambýliskonu hans til margra ára.  Í því samhengi vísar hann til 4. mgr. 34. gr. barnalaga þar sem kveðið sé á um að við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg, beri að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.  Hann bendir einnig á að í dómi beri að líta til þessara atriða við ákvörðun forsjár barna.  Við flutning málsins vísaði stefnandi til þess að hin sameiginlega forsjá væri þó ekki útilokuð og e.t.v. tilraunarinnar virði.

Um lagarök vísar stefnandi varðandi forsjá til 34. gr., sbr. 28. gr., barnalaganna nr. 76/2003 og byggir á undirstöðurökum þeirra.  Einnig bendir hann á ákvæði 1. gr. laganna, sem og 1. mgr. og 2. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns, sbr. lög nr. 19/2013.  Um meðlagskröfuna vísar hann til 5. mgr. 34. gr. og 53. gr., sbr. 6. mgr. 57. gr., barnalaga.

Að því er varðar varnarþing vísar stefnandi til 37. gr. barnalaganna, en almennt um málsmeðferðina til VI. kafla laganna.  Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988, en um gjafsókn til áðurgreinds gjafsóknarleyfis innanríkisráðuneytisins.

Stefnda byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi, allt frá því að þau gengu frá forsjárskipan dóttur þeirra, A, með réttarsáttinni árið 2012, haft í frammi hótanir um að fá einn forsjá hennar.  Þannig hafi stefnandi m.a. ítrekað tilkynnt til yfirvalda um allt það sem hann hafi talið að betur mætti fara.

Stefnda vísar til þess að hún hafi á síðasta ári hafið atvinnurekstur á [...], en af þeim sökum hafi hún fært búsetu sína um set.  Hún staðhæfir að vel hafi tekist til, þ. á m. kunni dóttirin vel við sig í hinum nýju heimkynnum.  Stúlkan hafi haldið áfram grunnskólanámi sínu í [...] og eignast vini, en að auki hafi hún í sumarleyfi sínu farið í sumarbúðir.  Að þessu leyti hafi stefnda verið í samskiptum við barna- og skólayfirvöld.

Stefnda andmælir öllum málsástæðum stefnanda, þar á meðal um að hún hafi ekki sinnt stúlkunni sem skyldi, þ. á m. námi hennar og þá helst vegna tungumálaörðugleika.  Stefnda andmælir því jafnframt að tilfinningatengslum þeirra mæðgna sé ábótavant.  Stefnda vísar til þess að þær tali saman á [...] og byggir á því að ekki verði séð að breytt forsjá stúlkunnar leiði til þess að hún verði betur sett en nú er.

Við flutning var af hálfu stefndu sérstaklega á það bent að breytingar hefðu orðið á högum stefnanda á síðustu mánuðum, bæði varðandi búsetu og sambúð, og því ríki að líkum nokkur óvissa um hagi hans.

Stefnda andmælir því og að hún beri haturshug til stefnanda og að hún hafi beitt dóttur þeirra ofbeldi.  Að því leyti staðhæfir stefnda að efnisatriði og tilvísun til áðurrakinnar barnaverndaráætlunar frá haustinu 2016 sé röng, enda hafi hún verið rituð á íslensku.  Fyrir dómi vísaði stefnda að þessu leyti einnig til vættis framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar [...] fyrir dómi. Loks andmælir stefnda því að hún hafi skilið stúlkuna eina eftir á heimili þeirra er hún hafi þurft að sinna erindum sínum í stuttum viðskiptaferðum.

Stefnda byggir á því að hún hafi ávallt séð til þess að stúlkan A fengi gott uppeldi.  Hún hafi sinnt skólastarfi hennar vel, en við það verkefni hafi hún m.a. notið stuðnings eigin starfsfólks, en einnig annarra, m.a. í lok skólaársins 2016/2017.  Við flutning var á því byggt af hálfu stefndu að hún hefði ráðagerðir strax næsta vetur um að auka enn frekara við félagslíf og tómstundastarf stúlkunnar.

Við flutning áréttaði stefnda að stefnandi hefði allt frá fyrstu tíð sett út á uppeldi hennar á dóttur þeirra.  Þá hefði hann innrætt dóttur þeirra neikvætt viðhorf gagnvart henni og þannig ruglað hana í ríminu.

Stefnda byggir á því að stúlkan njóti ástar og umhyggju á heimili hennar, en að óvissa ríki, samkvæmt gögnum, um það hvort stefnandi geti sett stúlkunni eðlileg mörk.

Við flutning var af hálfu stefndu til þess vísað að hún hefði nýverið fest kaup á stærri húseign á [...], en af þeim sökum gæti komið til þess að stúlkan færði sig til og þá í nýjan skóla í bæjarfélaginu.  Að auki gæti komið til þess að þær mæðgur flyttu í framtíðinni á ný á [...].

Stefnda andmælir því alfarið að hún hafi brotið gegn ákvæðum réttarsáttar aðila varðandi umgengni stúlkunnar A.  Hún hafi þvert á móti virt efni hennar, en að því leyti þó tekið tillit til skólagöngu stúlkunnar og breyttrar búsetu.  Af þeim sökum hafi hin reglulega umgengni eilítið skroppið saman á síðustu misserum.  Við flutning vísaði stefnda í þessu samhengi til þess að stúlkan gæti í raun ávallt verið í samskiptum við stefnanda, enda hefði hann látið hana hafa símtæki til ráðstöfunar.

Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að hún fari samkvæmt réttarsátt aðila ein með forsjá stúlkunnar.  Hún byggir og á því að hún sé hæfari en stefnandi til að fara með þær skyldur sem því fylgir.  Þá byggir hún á því að stúlkan hafi sterkari tengsl við hana en stefnanda, en að auki sé hún betur í stakk búin til að viðhalda nauðsynlegum stöðugleika í lífi stúlkunnar, enda hafi hún ávallt borið ábyrgðina á uppeldinu.

Stefnda byggir á því að sambýliskona stefnanda til margra ára hafi átt við áfengisvanda og eiturlyfjafíkn að stríða og staðhæfir að það hafi haft slæm áhrif á stúlkuna.

Stefnda byggir á því að hún hafi verið íslenskur ríkisborgari í tæpa tvo áratugi og stundi um þessar mundir farsælan atvinnurekstur.  Hún reki m.a. ferðaskrifstofu, stundi útflutning á sjávarafurðum og eigi fasteignir í [...] og [...].

Stefnda andmælir kröfum stefnanda varðandi forsjá og lögheimili og staðhæfir að ef fallist verður á kröfur hans hefði það í för með sér miklar breytingar á lífi stúlkunnar og þá til hins verra, enda þekki hún ekki annað en að alast upp og eiga fasta búsetu hjá henni.  Stefnda byggir á því og áréttar að stúlkan hafi frá fæðingu alfarið verið á ábyrgð hennar.

Stefnda hafnar því að hún og stefnandi fari saman með forsjá stúlkunnar og að lögheimili hennar verði hjá honum.  Hún byggir á því að allar forsendur skorti fyrir slíkri skipan mála og bendir á að samskipti aðila hafi verið stirð um langa hríð.  Af þeim sökum þjóni slíkt fyrirkomulag ekki hagsmunum stúlkunnar.

Nánar um röksemdir vísar stefnda til meginreglna barnaréttar og byggir á því að fara beri eftir því sem barni sé fyrir bestu, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. barnalaganna.

Um frekari lagarök fyrir sýknukröfu sinni vísar stefnda til áðurrakinna lagagreina barnalaganna nr. 76/2003, einkum ákvæða 34. gr.  Um málskostnað vísar hún til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

VI.

1. Fyrir dómi gáfu aðilar aðilaskýrslur, en einnig gáfu skýrslur vitnin D og E, en þau eru eða hafa verið sambúðaraðilar málsaðila.  Loks gáfu vitnaskýrslur J, fyrrverandi leiðbeinandi á [...], og K, skólastjóri [...].

Við aðalmeðferðina staðfesti G, sálfræðingur og dómkvaddur undirmatsmaður, efni áðurrakinnar matsskýrslu, en það gerðu einnig yfirmatsmennirnir og sálfræðingarnir I og H.

Í máli þessu deila málsaðilar m.a. um þá aðalkröfu stefnanda, að hann fái einn forsjá og lögheimili dóttur þeirra A, sem nú er á [...] ári.  Til vara krefst stefnandi þess að forsjá stúlkunnar verði sameiginleg, en að lögheimili hennar verði hjá honum. Loks krefst stefnandi meðlags.

Stefnda, sem fer með forsjá stúlkunnar, samkvæmt réttarsátt aðila frá árinu 2012, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Báðir aðilar krefjast málskostnaðar, en með leyfi innanríkisráðuneytis, dagsettu 19. október 2016, fékk stefnandi gjafsókn.

Gögn málsins bera með sér að mikill ágreiningur er á milli aðila um málefni dóttur þeirra, og eins og hér að framan hefur verið rakið hafa barnaverndarnefndir í [...],[...] og [...] haft málefni stúlkunnar á sinni könnu með hléum allt frá árinu [...].

Sættir milli aðila hafa verið reyndar, m.a. fyrir dómi, en án árangurs.

Stefnda hefur ekki léð máls á öðru en að hún fari ein með óskipta forsjá stúlkunnar.  Hefur hún haft á orði að verði forsjáin falin stefnanda eða verði hún sameiginleg jafngildi það að stúlkan sé ekki lengur velkomin á heimili hennar.  Hefur stefnda m.a. nefnt sem ástæðu fyrir þessari afstöðu, að með sameiginlegri forsjá geti stefnandi komið í veg fyrir ferðir þeirra mæðgna til útlanda, og þá helst til [...] þar sem móðurforeldrar stúlkunnar eru búsettir.

Stefnandi hefur lýst þeirri skoðun sinni, að stefnda sé í raun óhæf sem forsjáraðili.  Hann hefur jafnframt haft á orði að fái hann forsjá stúlkunnar ætli hann helst ekki að heimila umgengni þeirra mæðgna nema með því skilyrði að hún verði undir eftirliti og í lágmarki þar til stefnda hafi leitað sér aðstoðar vegna andlegra kvilla.  Einnig kvaðst hann ekki ætla að heimila stefndu að fara með dóttur þeirra í ferðalög til útlanda vegna ætlaðrar vanrækslu hennar gagnvart stúlkunni í slíkum ferðum.

Samkvæmt 31. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. breytingarlög nr. 69/2006, fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað og slit sambúðar nema annað sé ákveðið.

Í 1. mgr. 34. gr. barnalaganna, sbr. breytingarlög nr. 61/2012, er kveðið á um að þegar foreldra greinir á um forsjá skeri dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist.  Við úrlausn ágreinings skal dómari samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar kveða á um hvernig forsjá og lögheimili barns verði háttað eftir því sem því er fyrir bestu.  Skal dómari líta m.a. til hæfis foreldris, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barns til umgengni, hættu á að barnið, foreldrar eða aðrir á heimili hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska þess.  Er hér um grundvallarreglu barnaréttar að ræða.

Samkvæmt 3. og 4. mgr. 34. gr. barnalaganna getur dómari ákveðið að annað foreldra fái forsjá barns, en einnig getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef hann telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins.  Tekið er fram að ákveði dómari að forsjáin verði sameiginleg beri honum, auk þeirra atriða sem vikið er að í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg svo og af aldri og þroska barnsins.  Að auki beri við slíka ákvörðun að líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.

Samkvæmt því sem hér að framan var rakið, sbr. kafla I-IV, sem einnig er í samræmi við skýrslur aðila fyrir dómi, höfðu kynni þeirra staðið yfir í tæpan árartug er þeim fæddist dóttirin A í lok árs [...].  Um mitt árið [...] lauk hins vegar formlegri sambúð þeirra, sem staðið hafði í fáein ár.  Af gögnum verður ráðið að aðilar hafi á nefndu árabili orðið fyrir ítrekuðum tilfinningalegum áföllum, og þá ekki síst stefnda.

Fyrir liggur að aðilar stóðu um nokkurra ára skeið saman að atvinnurekstri, sem m.a. tengdist upprunalandi stefndu, [...].  Leiddu þessi umsvif m.a. til þess að stefnda fór með stúlkuna A mjög unga til [...] árið [...], þar sem þær höfðust við um nokkurra missera skeið.  Er vafalaust að mati dómsins að stúlkan hafi vegna þessara atvika myndað sterk frumtengsl við stefndu, eins og rakið er í sérfræðigögnum, sbr. m.a. matsskýrslu C sálfræðings frá árinu 2012.

Stefnandi var með umsjá stúlkunnar í fáeina mánuði vorið og fyrrihluta sumars [...], eftir að stefnda hafði sent stúlkuna eina, en í fylgd, með flugi til landsins.  Verður ráðið af matsskýrslunni að frá árinu 2012, en einnig áðurrakinni matsskýrslu G frá árinu 2016, að vegna þessara ráðstafana og hins skyndilega aðskilnaðar stúlkunnar, sem þá var á [...] aldursári, við stefndu, hafi stúlkan orðið fyrir verulegu áfalli og að það hafi leitt til nokkurs rofs á geðtengslum þeirra.  Samkvæmt sérfræðigögnum náði stefnda að treysta tengsl þeirra mæðgna á ný.  Í gögnum málsins kemur fram að stefnda hafi gripið til svipaðra ráðstafna er stúlkan var rétt [...] ára.

Málsaðilar voru með sameiginlega forsjá A allt til ársins 2012, en þá um vorið afréðu þau með réttarsátt, í kjölfar málshöfðunar stefndu, að breyta þeirri skipan mála og þá þannig að stefnda færi alfarið ein með forsjána og að lögheimili dótturinnar væri hjá henni.  Samkvæmt ákvæðum sáttarinnar var jafnframt afráðið að stefnandi hefði framvegis umgengni við stúlkuna í um þrjá sólarhringa á hálfs mánaðar fresti, auk hátíðardaga- og sumarumgengni.  Liggur fyrir að nokkru áður en þetta gerðist hafði kastast í kekki með málsaðilum, en samvistum þeirra hafði eins og áður sagði endanlega lokið sumarið [...], eftir heimkomu stefndu frá [...].

Samkvæmt sérfræðigögnum brást stefnda harkalega við sambúðarslitunum.  Stefnandi stofnaði aftur á móti til nýrrar sambúðar nær strax í kjölfar slitanna með vitninu D.  Þá hafði stefnandi einnig tekið það til bragðs, haustið [...], að taka dóttur aðila úr leikskólavist og halda henni einhliða hjá sér, í óþökk stefndu, í u.þ.b. fimm vikur.  Samkvæmt sérfræðigögnum sýndi stefnandi með þessari ráðstöfun skort á innsæi á þarfir stúlkunnar.  Tekur dómurinn undir það álit.

Af gögnum verður ráðið að til grundvallar réttarsáttinni vorið 2012 hafi m.a. verið fyrrnefnd matsskýrsla C sálfræðings.  Í skýrslunni kemur fram að í matsferlinu hafi sérfræðingurinn m.a. beitt klínísku mati sínu, en einnig lagt fyrir aðila sálfræðipróf, þ. á m. persónuleikaprófið MMPI-2.  Í niðurlagi skýrslunnar er staðhæft að stefnda sé vel hæf sem forsjáraðili og er það rökstutt.  Segir þar um að stefnda hafi meiri reynslu en stefnandi af barnauppeldi, að hún treysti stefnanda betur en hann henni og að hún sé líklegri til að viðhalda eðlilegri umgengni dóttur þeirra.  Einnig er staðhæft að stefnda hafi meiri innlifunarhæfni en stefnandi og þ.a.l. betri forsendur til að mæta þörfum dóttur þeirra.  Ráðið verður af skýrslunni að stefnandi hafi einnig verið metinn hæfur forsjáraðili, en standi þó stefndu að baki.

Til þess er að líta í þessu viðfangi að fyrrnefnd breytingarlög barnalaganna nr. 61/2012, þar sem kveðið er á um heimild dómara til að ákvarða í dómsmáli um sameiginlega forsjá barns, tóku fyrst gildi þann 1. janúar 2013.

Óumdeilt er að frá gerð réttarsáttarinnar vorið 2012 hefur stefnda verið aðalumsjónar- og ábyrgðaraðili dóttur málsaðila.  Liggur fyrir að stúlkan fylgdi stefndu er hún hóf búsetu með sambýlismanni sínum á [...] í byrjun árs [...], en þar hóf stúlkan einnig grunnskólanám sitt.  Einnig fylgdi stúlkan stefndu til [...] vorið [...], eftir að stefnda hafði ákveðið að hefja þar atvinnurekstur samhliða þeim fyrirtækjarekstri sem hún hefur um árabil haft með höndum á [...].  Í kjölfar búferlaflutninganna hélt stúlkan áfram grunnskólanámi sínu í [...]. Stúlkan stundaði einnig nám við þann skóla skólaárið 2016/2017, en var þá jafnframt í svonefndri frístund, sem er hluti af skólastarfinu.  Er um að ræða dvalarsamning sem foreldrar gera við skólann um vistunartíma barna, en með því úrræði er m.a. í boði aðstoð við heimanám eftir að hefðbundnu skólanámi lýkur á daginn.

Hér fyrir dómi hafa málsaðilar með sínum hætti í aðilaskýrslum lýst ofangreindri atburðarás út frá sínum sjónarhóli, og þá ekki síst samskiptum þeirra í millum.  Ber þeim saman um að samskiptin hafi einkennst af viðvarandi togstreitu.

Í þessu viðfangi er til þess að líta að við úrlausn einkamála hafa staðhæfingar aðila um atvik almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Við úrlausn um sönnun atvika verður í máli þessu því að taka afstöðu til þess hvort staðhæfingar og áðurgreindar málsástæður aðila hafi nægilega stoð í sönnunargögnum, sem aflað hefur verið, en að öðru leyti verður skorið úr ágreiningi eftir mati á þeim gögnum sem fram hafa verið lögð samkvæmt almennum reglum VI. kafla laga nr. 91/1991.

Á meðal helstu gagna máls þessa eru áðurraktar undir- og yfirmatsskýrslur hinna dómkvöddu matsmanna, sem aðilar óskuðu eftir í kjölfar höfðunar málsins.  Skýrslurnar voru staðfestar fyrir dómi, en jafnframt svöruðu matsmennirnir spurningum um efni þeirra.

Það er samdóma álit hinna dómkvöddu matsmanna að málsaðilar teljist báðir hæfir forsjárforeldrar.  Í nefndum skýrslum og vætti matsmanna kom ekkert fram um að alvarlegir geðrænir kvillar hrjái málsaðila.

Auk nefndra gagna liggja fyrir í málinu hin eldri matsskýrsla frá árinu 2012 og gögn frá barnaverndarnefndum og skólastofnunum.

Við gerð undirmatsskýrslu G sálfræðings voru, líkt og við gerð matsskýrslu C árið 2012, lögð fyrir málsaðila áðurgreind persónuleikapróf.  Aðstæðum og atvikum við próffyrirlögnina er lýst í undirmatsskýrslunni, en m.a. segir að prófgögn hafi verið þýdd fyrir stefndu vegna tungumálaörðugleika hennar.  Ætla verður að sá háttur hafi einnig verið viðhafður við gerð matsskýrslunnar árið 2012, en þar segir m.a. að stefnda hafi talað litla íslensku en ágæta ensku.

Það er álit dómsins að áreiðanleiki og réttmæti sálfræðiprófa þurfi að vera hafið yfir vafa ef taka eigi mark á niðurstöðum þeirra fyrir dómi að fullu.

Það er mat hinna sérfróðu meðdómenda að aðstæður við fyrirlögn nefndra persónuleikaprófa hafi vegna eðlis þeirra ekki uppfyllt próffræðileg viðmið.  Varðar þar mestu tungumálaörðugleikar stefndu, en óumdeilt er að prófin voru túlkuð fyrir hana, annars vegar á ensku árið 2012 og hins vegar á [...] árið [...], en einnig sökum þess að prófeyðublöðin, sem stuðst var við, höfðu verið þýdd og staðfærð fyrir íslenska notendur.  Af þessum sökum eru niðurstöður nefndra prófa ekki fyllilega gild að áliti dómsins.  Verða þau því aðeins höfð til hliðsjónar, en að því leyti tekur dómurinn undir vætti yfirmatsmanna hér fyrir dómi.  Önnur tilgreind sálfræðipróf halda hins vegar gildi sínu, þ. á m. tengslaprófin og svonefnt Raven-greindarpróf.  Að því er síðastgreinda prófið varðar, sem helst mælir skynhugsun, þykir rétt að segja að stefnda hafi komið mjög vel út, en stefnandi heldur lakar.  Að þessu sögðu verður einkum horft til hins klíníska mats hinna sérfróðu matsmanna, en fyrir dómi útskýrðu þeir efni matsskýrslnanna nánar, eins og áður sagði.

Við upphaf málsmeðferðar fyrir dómi sumarið 2016, nánar tiltekið 22. ágúst, tjáði stúlkan A sig um málefni sín að viðstöddum sérhæfðum kunnáttumanni, í tilefni af bráðabirgðakröfu stefnanda um forsjá.  Er það gerðist hafði stúlkan, sem þá var á [...] ári, þegar gert umsjónarkennara sínum í [...] grein fyrir högum sínum að nokkru, en fyrir liggur að í kjölfar þess var barnaverndaryfirvöldum í [...] gert viðvart.  Þá hafði stúlkan skömmu fyrir orðræðu sína fyrir dómi tjáð sig um hagi sína hjá sérhæfðum starfsmanni barnaverndarnefndar [...], eins og gerð var grein fyrir í kafla I.3 hér að framan.  Einnig tjáði stúlkan sig um hagi sína og líðan við kennara og námsráðgjafa í [...] skólaárið 2016/2017.  Loks tjáði hún sig við undirmatsmann og yfirmatsmenn undir rekstri máls þessa.

Samkvæmt málsskjölum hefur dóttir málsaðila oft á liðnum árum sýnt sterk einkenni um vansæld.  Fyrstu gögnin um þessa líðan stúlkunnar komu frá starfsmönnum leikskóla vorið [...], en það var skömmu eftir að stefnda hafði sent hana eina, en í fylgd, til landsins.  Vansæld stúlkunnar er einnig lýst í tilkynningu leikskólastarfsmanna til barnaverndarnefndar þá um haustið.  Virðist það hafa gerst eftir að stefnandi hafði haldið stúlkunni hjá sér í um fimm vikur í óþökk stefndu.  Samkvæmt gögnum sáu starfsmenn í [...] fyrri hluta árs [...] ástæðu til að tilkynna barnaverndarnefnd [...] um vansæld stúlkunnar.  Hið sama gerðist eftir að stúlkan hóf nám í [...] á skólaárinu 2016/2017, en þá lýstu umsjónakennari og námsráðgjafi ástandi stúlkunnar þannig, að hún hefði verið óhamingjusöm, en hafi að auki haft tilhneigingu til að þóknast öðrum.

Af frásögn stúlkunnar A og framlögðum gögnum verður að áliti dómsins ráðið að vansæld hennar verði rakin til fleiri en einnar ástæðu.  Helst hafi þar komið til endurtekin, harkaleg og mjög ógnandi orð stefndu um sambýliskonu stefnanda, en einnig vandræði stúlkunnar með vörslur á skólabúnaði sínum og fleiri munum, sem stefnandi hafði gefið henni og þá vegna neikvæðrar afstöðu stefndu.  Af efni sérfræðigagna verður ráðið að vansæld stúlkunnar verði einnig rakin til þeirrar hollustuklemmu sem hún hefur um árabil búið við gagnvart foreldrum sínum.  Þá verður að mati dómsins ekki horft fram hjá því að stefnandi hefur ítrekað nefnt það í áheyrn stúlkunnar að stefnda sé veik í höfðinu, en fyrir dómi skýrði hann þá orðnotkun sína með þeim hætti, að þannig hefði hann reynt að útskýra fyrir stúlkunni fyrrnefnda háttsemi stefndu varðandi þær gjafir sem hann hefði gefið henni, svo og vegna fyrrgreindra orða stefndu um sambýliskonu hans til margra ára.

2. Niðurstaða meirihluta dómsins.

Að ofangreindu virtu leggur meirihluti dómsins það til grundvallar að málsaðilar hafi á liðnum árum í áheyrn dóttur sinnar oft viðhaft gagnkvæma illmælgi.  Að því er stefndu varðar, sbr. m.a. skýrslu hennar fyrir dómi, hefur hún sannanlega ekki hlíft dóttur sinni við slíkri orðræðu, sem eins og áður sagði hefur beinst með mjög alvarlegum hætti að sambýliskonu stefnanda.  Að mati dómsins er vafalaust að stúlkunni stendur ógn af þessum talsmáta stefndu.  Og eins og áður er rakið hefur stefnandi látið þau orð falla, í áheyrn stúlkunnar, að móðir hennar, stefnda, sé „veik í höfðinu.“  Er þessi háttsemi og talsmáti báðum aðilum til vansæmdar.

Að ofangreindu virtu tekur dómurinn undir vætti yfirmatsmanns fyrir dómi, að aðilar hafi á stundum ekki skeytt um að dóttir þeirra er í raun aðeins ungt barn.  Dómurinn telur og vafalaust að stúlkan sé mörkuð af hinu áralanga ósætti foreldra sinna, en það er skilmerkilega rakið í matsskýrslum hinna dómkvöddu matsmanna.

Að mati dómsins verður ráðið af gögnum að málsaðilar séu ólíkir að eðlisfari, en einnig að því er varðar menningarumhverfi.  Samskipti þeirra hafa markast af mikilli spennu, sem síst virðist hafa dregið úr með árunum.  Aðstæður aðila eru á margan hátt ólíkar, en einnig að því er varðar hugmyndir um uppeldi dóttur þeirra, A.  Til þess er og að líta að umgengni stefnanda við stúlkuna hefur verið fremur takmörkuð allt frá gerð réttarsáttarinnar vorið 2012 og varð reyndar enn minni eftir búferlaflutninga stefndu til [...] vorið [...].  Var sú skerðingin að áliti dómsins ekki til hagsbóta fyrir stúlkuna.  Að því leyti er tekið undir málsástæður stefnanda.  Ekki liggja fyrir gögn um að stefnandi hafi á liðnum árum haft uppi kröfur um að rétta þennan hlut, t.d. hjá sýslumanni, og ekki eru af hans hálfu hafðar uppi kröfur í máli þessu um að dómurinn ákvarði um umgengni.

Samkvæmt framansögðu hefur stefnda um árabil verið aðalumönnunaraðili dóttur aðila.  Samkvæmt skýrslu stefndu fyrir dómi viðhefur hún strangar uppeldisaðferðir.  Sem forsjáraðili ber stefnda ríkar skyldur, þ. á m. að vernda stúlkuna fyrir hvers kyns ofbeldi og vanvirðandi háttsemi, ala með henni iðjusemi og siðgæði, en einnig, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 46. gr. barnalaganna, að virða umgengnisrétt hennar.

Samkvæmt vætti F, framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar [...], kom fram við gerð fyrrgreindrar barnaverndaráætlunar í byrjun ágúst 2016, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaganna, ekkert haldbært um að stefnda hefði beitt dóttur sína, A, líkamlegu ofbeldi.  Vitnið staðhæfði að tilgreint fyrirheit í áætluninni, þ.e. að stefnda beitti stúlkuna ekki ofbeldi, hefði aðeins verið tíundað í varúðarskyni í ljósi þeirra gagna, sem þá þegar höfðu borist frá barnaverndarnefnd [...].  Vitnið staðhæfði að í tveggja mánaða gildistíð áætlunarinnar hefði ekkert komið fram um að ofbeldishegðun hefði verið viðvarandi af hálfu stefndu. Vitnið bar að það hefði verið niðurstaða barnaverndarnefndar eftir að stefnda hafði þegið ráðgjöf, en einnig eftir þau tvö viðtöl sem starfsmaður nefndarinnar átti við stúlkuna, í ágúst og nóvember 2016, að ekki þrengdi sérstaklega að henni.  Vitnið sagði að litið hafi verið svo á að líðan stúlkunnar hafi fyrst og fremst tengst hörðum deilum foreldra hennar.  Af þessum sökum hafi verið talið óþarft að hún færi í sálfræðiviðtal, líkt og stefnda hefði beðið um í upphafi málsmeðferðar, í byrjun sumars 2016.  Vitnið bar að ekki hafi heldur verið talið tilefni til að hafa bein afskipti af uppeldisháttum stefndu á síðari stigum, þrátt fyrir að erindi hafi borist um slíkt, m.a. frá stefnanda.

 

Dómurinn lítur svo á að hvers konar ofbeldi og vanvirðandi háttsemi, þ. á m. í orðum, og þá ekki síst á heimili barna, hafi almennt skaðlegar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra og þroska í víðum skilningi.  Þá er slík háttsemi í algjörri andstöðu við m.a. 3. mgr. 28. gr. barnalaganna.  Áðurgreint orðfæri stefndu er að mati meirihluta dómsins að þessu leyti sýnu alvarlegra en stefnanda.  Er foreldrafærni þeirra beggja að þessu leyti því skert.

Stúlkan A er samkvæmt sérfræðigögnum og vætti hinna dómkvöddu matsmanna mjög þroskuð eftir aldri, líkamlega og andlega.  Þá er hún ófeimin, frökk og eftir atvikum vinamörg, en hefur þrátt fyrir þetta slakan félagsþroska.

Stúlkan sótti nám sitt í [...] eftir búferlaflutningana vorið [...] ekki sérlega vel.  Engar athugsemdir voru hins vegar gerðar af hálfu skólayfirvalda við skólasókn hennar skólaárið 2016/2017, þ. á m. varðandi stundvísi.  Virðist nám stúlkunnar, en einnig dvöl í fyrrnefndri frístund, í heildina hafa gengið vel, en helst hefur bjátað á varðandi stærðfræði og heimalestur.  Af gögnum verður ráðið að það síðastnefnda hafi farið batnandi undir lok skólaársins.  Af framlögðum gögnum verður einnig ráðið að öll ytri umhirða stúlkunnar í skólastarfinu hefur ætíð verið fullnægjandi og við hæfi og verður það lagt til grundvallar.

Að mati dómsins verður ótvírætt ráðið af áðurröktum matsskýrslum, að stúlkan elskar foreldra sína og vill verja tíma sínum jafnt hjá þeim báðum.  Af orðum stúlkunnar verður og ráðið að henni líður betur hjá stefnanda og saknar hans.  Vill hún verja meiri tíma hjá honum en nú tíðkast.  Fram kemur í gögnum að stúlkan hefur blendnari tilfinningar til stefndu, en samkvæmt vætti matsmanna og skýrslum þeirra fyrir dómi er það ekki óeðlilegt miðað við aðstæður og þá ekki síst sökum þess að stefnda hefur um margra ára skeið borið þungann og ábyrgðina á uppeldinu.  Fram kemur enn fremur að stúlkan beri ugg í brjósti til stefndu, en ráðið verður að þar ráði helst illdeilur hennar við stefnanda.  Stúlkunni finnst engu að síður gott að vera í návist stefndu, en að auki þykir henni í raun vænt um alla fjölskyldu sína, sem samkvæmt gögnum er ekki ýkja fjölmenn.

Af sérfræðigögnum verður ráðið að stúlkunni er það mikilvægt að gera ekki upp á milli foreldra sinna.  Engu að síður stendur vilji hennar skýrt til þess að gerðar verði breytingar á núverandi aðstæðum hennar og samkvæmt vætti yfirmatsmanna kallar hún í raun eftir slíku.

Samkvæmt áðurröktum sérfræðiskýrslum tókst stefnanda á fyrstu misserunum í lífi dóttur sinnar, A, þrátt fyrir tiltölulega lítil afskipti, en þá ekki síst á vormánuðum [...], að mynda náið, traust, kærleiksríkt, sterkt og óþvingað tilfinningalegt samband við hana.  Hafa þessi tengsl viðhaldist æ síðan.  Í þessu viðfangi er til þess að líta að nærri áramótum 2016/2017 gaf stefnandi stúlkunni farsíma og hafa þau að undanförnu verið í nær daglegum samskiptum.

Af sérfræðigögnum verður ráðið að stefnanda sé umhugað um velferð dóttur sinnar og sjái auk þess vanlíðan hennar.  Þá hefur hann nokkuð gott innsæi í aðstæður stúlkunnar og sér m.a. hollustuklemmu hennar, en kemur auk þess til móts við hana.  Þá hugar hann að framtíð stúlkunnar og er með raunhæfar hugmyndir um skólastarf, m.a. í [...], sbr. vætti skólastjóra fyrir dómi þar um.  Þá virðist hann vera meðvitaður um gildi þess að stúlkan læri móðurmál sitt og viðhaldi því.

Samkvæmt vætti hinna dómkvöddu matsmanna er stefnandi hæfur til að sinna grunnþörfum dóttur sinnar, en hann hefur m.a. sinnt heilbrigðismálum hennar.  Þá er hann hæfur til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum stúlkunnar og skynjar m.a. öryggisleysi hennar. Að þessu leyti er stefnandi að mati hinna dómkvöddu matsmanna hæfari en stefnda.  Af því leiðir að stúlkan á eftir atvikum meiri og betri möguleika á að njóta barnæsku sinnar hjá honum en hjá stefndu.

Samkvæmt vætti matsmanna og nefndum skýrslum gerir stefnandi sér grein fyrir því að hann þurfi að halda uppi ríkari uppeldisaga gagnvart dóttur sinni en verið hefur. Hefur hann af þeim sökum leitað sér sérfræðiaðstoðar.

Samkvæmt vætti matsmanna hefur stefnandi samkvæmt framansögðu sinnt foreldraskyldum sínum.  Þá skerðist forsjárhæfni hans ekki þó svo að hann njóti ekki um þessar mundir liðsinnis sambýliskonu sinnar til margra ára, en fram er komið að hann nýtur m.a. liðsinnis stórfjölskyldu sinnar.  Og samkvæmt gögnum eru aðstæður A fullnægjandi á heimili stefnanda.

Að áliti dómsins liggja ekki fyrir marktæk gögn um að fjárhagur stefnanda muni fyrirsjáanlega koma niður á aðbúnaði stúlkunnar hjá honum.  Á hinn bóginn er til þess að líta að hingað til hefur ekki reynt ýkja mikið á tómstundastarf stúlkunnar hjá honum.  Að auki hefur stefnandi fyrir dómi lýst hugmyndum sínum til umgengni stúlkunnar við stefndu fái hann forsjána einn, eins og hér að framan var rakið.

Samkvæmt gögnum eru frumtengsl stefndu við dóttur sína, þrátt fyrir áföll á árum áður, fyrir hendi.  Að áliti meirihluta dómsins verður ekki annað ráðið en að samband þeirra mæðgna sé hlýtt og gott, en samkvæmt matsskýrslum er það eftir atvikum einnig lítið eitt þvingað.  Er í því sambandi til þess að líta að meginþunginn á uppeldi stúlkunnar hefur um árabil hvílt á hennar herðum.

Gögn málsins benda ekki til annars en að stúlkan hafi verið með góða ytri umhirðu hjá stefndu.  Þá býr stefnda að áliti hinna dómkvöddu matsmanna stúlkunni mjög gott heimili og sinnir jafnframt grunnþörfum hennar.  Er stefnda að álit þeirra hæfur forsjáraðili að þessu leyti, eins og áður var rakið.  Á hinn bóginn benda matsmennirnir á tiltekna vankanta á hæfi stefndu.  Þar um vísa þeir helst til þess að hún hafi takmarkað innsæi í aðstæður, hugarheim og tilfinningalíf stúlkunnar og sjái ekki vanlíðan hennar.  Þá segja þeir að dæmi séu um að stefnda hafi ekki sýnt nægjanlega festu varðandi gæslu stúlkunnar, í samskiptum og samstarfi við skóla, en einnig varðandi umgengisrétt stúlkunnar.  Að auki segja þeir að hún hafi verið sjálfmiðuð vegna eigin atvinnurekstrar og hafi því lítt stutt við félagsþarfir og tómstundastarf stúlkunnar.  Af vætti matsmannanna verður ráðið að heldur hafi dregið úr þessum vanköntum stefndu eftir því sem liðið hefur á dvöl þeirra mæðgna á hinum nýja búsetustað.  Þeir benda m.a. á að þrátt fyrir takmarkað stuðningsnet á [...] hafi stefnda fundið raunhæfa leið til framtíðar varðandi gæslu og menntun stúlkunnar.  Að áliti dómsins hefur þetta síðastnefnda m.a. nokkra stoð í vætti vitnisins J, fyrrverandi leiðbeinanda í grunnskóla, sem sinnti stúlkunni, m.a. við nám, eftir lok skóladags síðustu vikur síðasta skólaárs.

Við meðferð málsins fyrir dómi greindu málsaðilar, hvor um sig, frá því að á síðustu mánuðum hefðu orðið nokkrar breytingar á högum þeirra.  Ber þar fyrst að nefna að í lok síðasta árs slitu stefnandi og sambýliskona hans til margra ára sambúð sinni.  Samkvæmt vætti sambýliskonunnar er sambandi þeirra þó engan veginn lokið, en þau staðhæfa bæði, að til standi að þau taki upp hinn fyrri þráð þegar rekstri máls þessa er lokið.  Fram er komið að samband sambýliskonunnar og stúlkunnar hefur í gegnum tíðina verið gott og hefur stefnandi því haft styrk af henni við uppeldið.  Eins og fyrr var rakið rýra greindar breytingar á högum stefnanda að áliti yfirmatsmanna ekki forsjárhæfni hans og þá ekki heldur það að hann býr um þessar mundir í leiguíbúð ásamt gömlum vini sínum og viðskiptafélaga.

Fyrir dómi greindi stefnda frá því að hún stefndi á frekari uppbyggingu í atvinnurekstri sínum á [...].  Enn fremur greindi stefnda frá því að hún hefði nýverið fest kaup á íbúðarhúseign á [...] og því gæti nýr íverustaður þeirra mæðgna leitt til þess að dóttirin skipti um skóla í bæjarfélaginu.  Þá lét stefnda að því liggja að hugur hennar stæði í framtíðinni til þess að flytja á ný í húseign fjölskyldunnar á [...], en að ekkert hefði þó verið ákvarðað þar um.

Eins og hér að framan hefur verið rakið og gögn málsins bera með sér liggur það fyrir að stefnda hefur á undanförnum misserum leitað eftir nokkurri aðstoð fyrir dóttur málsaðila.  Stefnda sat þannig fund með barnaverndarnefnd [...] fyrri hluta árs 2016, en þar voru málefni stúlkunnar rædd og lagt á ráðin um úrræði, þ. á m. sálfræðimeðferð.  Þá fór stefnda að eigin frumkvæði í byrjun sumars 2016, eftir fyrrgreinda búferlaflutninga þeirra mæðgna þá um vorið, á fund barnaverndarnefndar [...] með það fyrir augum að fá sálfræðiþjónustu fyrir stúlkuna, en jafnframt þáði hún ráðgjöf um málefni hennar samkvæmt vætti framkvæmdastjóra nefndarinnar.  Það var síðar niðurstaða og afstaða sérfróðra starfsmanna nefndarinnar að ekki væri ástæða til að verða við fyrrnefndri ósk stefndu um sálfræðiviðtöl fyrir dóttur málsaðila og var málinu lokað, eins og sagt er, í lok árs 2016.

Af gögnum verður ráðið að þrátt fyrir nokkra hnökra í samskiptum við starfsmenn [...] í upphafi hafi stefnda ekki staðið í vegi fyrir því að dóttir hennar fengi viðeigandi námsráðgjöf þegar því úrræði var beint til hennar skólaárið 2016/2017.

Að áliti dómsins verður ekki fram hjá því horft að stefnda lýsti því fyrir dómi að hún treysti stefnanda fyllilega fyrir dóttur þeirra á þeim tímaskeiðum sem hún hefðist við hjá honum í umgengni.  Að auki bar hún honum vel söguna sem foreldri, en hafði hins vegar horn í síðu sambýliskonu hans til margra ára, eins og áður er fram komið.  Þá er til þess að líta að ekkert hefur komið fram um að stefnda hafi hindrað nær dagleg símasamskipti stefnanda við dóttur þeirra á liðnum vetri, þ.e. eftir að stúlkan hafði fengið að gjöf farsíma frá stefnanda.

Samkvæmt framansögðu hefur stefnda frá gerð réttarsáttarinnar vorið 2012 verið forsjáraðili dóttur málsaðila, A.  Hefur stúlkan þannig um árabil verið með lögheimili hjá stefndu.  Hefur stefnda þannig borið aðalábyrgð á daglegri tilveru stúlkunnar, þ. á m. á uppeldi og umönnun.

Samkvæmt gögnum hefur allur ytri umbúnaður stúlkunnar verið til fyrirmyndar og þá ekki síst í leik- og grunnskólastarfi.  Að auki eru frumtengsl þeirra mæðgna sterk að áliti meirihluta dómsins, eins og áður er rakið.

Stefnandi hefur þrátt fyrir takmarkaða umgengni náið, traust og óþvingað tilfinningalegt samband við dóttur sína og er hann að áliti dómkvaddra matsmanna að því leyti hæfari forsjáraðili en stefnda.  Þá er vel búið að stúlkunni á heimili hans. Af gögnum verður ekki annað ráðið en að umgengni stefnanda og stúlkunnar hafi í alla staði gengið vel.

Að áliti dómsins sýna gögn málsins, eins og við var að búast, að stúlkunni þykir vænt um báða foreldra sína og hefur hún sýnt vilja til að vera með þeim báðum.  Stúlkan er vel þroskuð miðað við aldur, en hún hefur mátt búa við viðvarandi togstreitu foreldra sinna, sem á stundum virðast ekki hafa skeytt um ungan aldur hennar í deilum sínum.  Er stúlkan greinilega mörkuð af þessari spennu og ósætti málsaðila.  Það var álit hinna sérfróðu matsmanna að vegna áðurlýstrar vansældar hafi stúlkan þörf fyrir viðeigandi sálfræðiaðstoð og þá ekki síst vegna fyrrgreindrar hollustuklemmu við málsaðila, en einnig vegna kvíða og öryggisleysis. Tekur dómurinn undir þetta, enda er mikilvægt að hlustað sé á rödd hennar, en þá í ljósi aldurs.

Af áðurröktum matsgerðum og vætti matsmanna fyrir dómi verður ráðið að málsaðilar séu almennt hæfir til að fara með forsjá dóttur sinnar.  Eru að áliti dómsins, að virtum áðurgreindum hnökrum, ekki efni til annars en að leggja það til grundvallar við úrlausn ágreinings málsaðila, að því er varðar forsjá dóttur þeirra.

Hinir dómkvöddu matsmenn hafa í skýrslum sínum lagt á það áherslu að mikilvægt sé að stúlkan sé í samvistum við foreldra sína, en að þær verði meiri við stefnanda en nú er.  Þeir hafa líka nefnt að ekki sé ástæða til að ætla annað en að stefnandi geti í ljósi góðra og sterkra tengsla umfram stefndu farið með forsjá stúlkunnar og þá fremur eða til jafns við hana.  Eins og áður er rakið tíðkaðist slíkt fyrirkomulag fyrir gerð réttarsáttarinnar vorið 2012.  Matsmennirnir mæla jafnframt með því að óbreyttu að lögheimili stúlkunnar verði hjá stefnanda.

Áður er rakin neikvæð afstaða stefndu til sameiginlegrar forsjár.  Stefnandi hefur að því leyti verið sama sinnis, en jafnframt hefur hann lýst tilteknum skilyrðum fyrir því að stúlkan hafi umgengni við stefndu fái hann aðalkröfu sinni framgengt um forsjá hennar.

Að mati dómsins hafa ekki komið fram í máli þessu nein haldbær rök gegn því að báðir aðilar og dóttir þeirra geti haft eðlileg samskipti og að umgengni geti þannig verið mikil á báða bóga og að stúlkan fái þannig að rækta heilbrigt og gott samband við báða foreldra sína. Að því leyti verði þó tekið tillit til hagsmuna stúlkunnar, þ. á m. varðandi skólagöngu, en einnig skýrrar afstöðu hennar og vilja við alla meðferð máls þessa.

Að virtu því sem fram er komið í máli þessu eru að áliti meirihluta dómsins meiri líkur en minni á því að stefnandi muni útiloka eða hamla stefndu frá umgengni við dóttur þeirra fari hann einn með óskipta forsjá hennar. Að mati dómsins rýrir sú tilhneiging stefnanda forsjárhæfni hans, en einnig áðurgreind afstaða hans um að stefnda sé óhæf sem forsjáraðili.  Að þessu leyti er m.a. litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, sbr. lög nr. 19/2013 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fari stefnda ein með forsjá stúlkunnar eru miklar líkur á að óbreytt ástand haldist.  Gerist það er það að áliti dómsins andstætt hagsmunum stúlkunnar, enda er henni mikilvægt að viðhalda hinum góðu tengslum við stefnanda.  Ávallt er þó hætta fyrir hendi að ófriður ríki áfram á milli aðila um forsjá og velferð barnsins, og þá ekki síst um umgengnina.  Það síðastnefnda er hins vegar ekki á meðal úrlausnarefna samkvæmt kröfugerð aðila hér fyrir dómi.

Í ljósi grundvallarreglu barnaréttar, sbr. og 1. gr. barnalaganna, ber að ákvarða forsjá eftir því hvað sé líklegast til að þjóna best hagsmunum þeirra barna sem eiga í hlut hverju sinni, en ekki eftir hagsmunum foreldra.  Í því sambandi ber að líta til fjölmargra atriða, sbr. áðurgreind ákvæði 34. gr. barnalaganna.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið þykir að mati dómsins ekki rétt að veita stefnanda óskipta forsjá stúlkunnar.  Verður stefnda því sýknuð af aðalkröfu hans, enda telur dómurinn rétt að horfa til þess hvort forsjá stúlkunnar geti verið sameiginleg í höndum málsaðila.

Stefnandi hefur sýnt í verki mikinn áhuga á að axla frekari ábyrgð á uppeldi dóttur sinnar, en hann virðist hafa verið eins virkur þátttakandi í lífi hennar og honum hefur verið unnt miðað við aðstæður.  Fyrir dómi sagði stefnda að hún treysti stefnanda sem foreldri og að hann hefði verið góður við dóttur þeirra.  Ber þetta viðhorf eftir atvikum ekki vott um neikvæðar tilfinningar stefndu í garð stefnanda.

Dómurinn lítur svo á að sameiginleg forsjá geti átt rétt á sér þótt foreldrar séu ekki sammála um allt í lífi barns, takist á og þurfi jafnvel að leita aðstoðar til að leysa úr ágreiningi.  Sameiginleg forsjá þykir almennt auka líkur á samábyrgð og þátttöku beggja foreldra og eflir eftir atvikum tengsl barns við báða foreldra sína, en einnig aðra ættingja.  Eðlilegt er að gera þá kröfu að sameiginleg forsjá verði hvati til þess að aðilar axli ábyrgð og standi undir þeim kröfum sem þetta gerir til samstarfs og tillitssemi.

Með sameiginlegri forsjá verður að telja að koma megi á jafnræði milli aðila til að skapa nauðsynlegt traust þeirra á milli.  Til þess að svo megi verða ber aðilum þessa máls að setja tilfinningar sínar og vantraust til hliðar og einblína á velferð dóttur sinnar, en leita jafnframt ráðgjafar þannig að illindum linni, enda er það ósk stúlkunnar.

Málsaðilar hafa vegna ósættis síns ekki að öllu leyti verið góðar fyrirmyndir.  Þeir elska hins vegar báðir dóttur sína og vilja efla hag hennar.  Þeir eru m.a. sammála um nauðsyn þess að styrkja tungumálakunnáttu hennar í móðurmálinu. Með sameiginlegri forsjá gefst báðum aðilum möguleiki á að ráða málefnum dóttur sinnar til lykta eftirleiðis, enda verður vart hjá því komist að þeir eigi samskipti í framtíðinni vegna umönnunar, hagsmuna og velferðar hennar.

Sú skylda hvílir á foreldrum sem fara sameiginlega með forsjá barns, sbr. 1. mgr. 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003, að þeir skulu í sameiningu taka allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið.  Búi foreldrar ekki saman hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innanlands, um val á grunnskóla, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf.  Þá segir að foreldrar sem fari sameiginlega með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns skuli ráðið til lykta. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaganna á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.  Er mikilvægt eins og hér stendur á að dóttir aðila haldi góðum tengslum við það foreldri sem hún á ekki lögheimili hjá og ber lögheimilisforeldri skylda til að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur stúlkunnar sé virtur.

Að öllu ofangreindu virtu og í ljósi áðurgreindrar grundvallarreglu barnaréttar er það álit meirihluta dómsins að það þjóni framtíðarhagsmunum stúlkunnar A best að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá hennar, en að lögheimilið verði áfram hjá stefndu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er aðaldómkröfu stefnanda hafnað, en einnig að hluta varakröfu hans, þ.m.t. meðlagskröfu.  Þá er sýknukröfu stefndu einnig hafnað.

3. Niðurstaða minnihluta dómsins, dr. Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur sálfræðings:

Samkvæmt niðurstöðum undirmats og yfirmats í máli þessu telst stefnandi hæfari en stefnda til að sinna tilfinningalegum og félagslegum þörfum stúlkunnar A. Tengslapróf sýnir ótvírætt að tilfinningar hennar til stefnanda eru jákvæðar en aftur á móti blendnar til stefndu og jafnvel að hún óttist hana. Samkvæmt vætti hinna dómkvöddu matsmanna fyrir dómi er stúlkan í hollustuklemmu milli málsaðila og af vætti þeirra má og ráða að henni líði illa, raunar óbærilega, hún vilji breytingar og vilji jafnframt vera meira hjá föður sínum, stefnanda. Þá bar sérfræðingunum saman um að stúlkan óttist viðbrögð móður, stefndu, en sé óhrædd að tjá sig hjá stefnanda. Það var og mat sérfræðinganna að framburður telpunnar væri trúverðugur og að sterk tilfinningaviðbrögð hennar væru ósvikin.

Skilja má af gögnum að vanlíðan stúlkunnar megi rekja til ósættis málsaðila og það að stefnda hefur ítrekað bæði í orðum og gjörðum haldið að henni eigin óvild í garð unnustu stefnanda og hefur telpan gripið til þess ráðs að segja ekki frá hvað gerist þegar hún dvelur hjá honum, þar sem henni alla jafna hefur liðið vel.  Jafnvel hefur stúlkan skrökvað að stefndu af ótta við reiði hennar og viðbrögð. Stefnandi hefur aftur á móti gripið til þess ráðs til útskýringar á þessari hegðun stefndu að segja við stúlkuna að móðir hennar, stefnda, sé veik í höfðinu. Sú skýring stefnanda kann að þykja óheppileg, en hann bar fyrir dómi á trúverðugan hátt að hann vissi ekki betur hvernig hann gæti skýrt hegðun stefndu fyrir dóttur þeirra.

Sökum starfa sinna hefur stefnda þurft að ferðast á milli staða innanlands og stundum á milli landa, en einkum til [...]. Verði lögheimili telpunnar hjá stefnanda verður að áliti minnihluta dómsins komist hjá vandkvæðum tengdum umönnun stúlkunnar í fjarveru stefndu.

Svo sem nú er býr stefnda með dóttur aðila á [...] og ekki var á henni að skilja fyrir dómi að hún hygðist flytja til [...]. Þurfi stefnda að víkja af bæ verður því að finna stúlkunni umsjónaraðila á meðan, enda gengur hún þar í skóla.

Í áðurröktum matsskýrslum er bent á ýmis atriði sem benda til sjálflægni stefndu umfram stefnanda, þ.e. að hún setji eigin þarfir ofar þörfum stúlkunnar og beri því ekki sama skynbragð á tilfinningalíf hennar og hann gerir. Fyrir dómi staðfesti stefnda að hún hygðist kaupa sér aðra fasteign til búsetu á [...] sem hefði það í för með sér að stúlkan þyrfti að skipta um skóla. Var ekki svo að skilja að stefndu þætti slíkur flutningur tiltökumál fyrir stúlkuna. Miðað við öryggisleysi stúlkunnar ber slíkur flutningur milli skóla merki um takmarkað innsæi stefndu í félagslegar og tilfinningalegar þarfir hennar. Þá bar stefnda fyrir dómi að hún sæi engan tilgang með því að foreldrar hefðu sameiginlegt forræði og viðhafði þau orð að færi svo að forsjáin yrði sameiginleg væri stúlkan ekki lengur velkomin á heimili hennar. Þessi ummæli stefndu benda til þess að hún skilji ekki tilfinningalegar þarfir stúlkunnar en setji sínar eigin tilfinningar í forgrunn.

Stúlkan A hefur lýst þeirri ósk sinni við sérhæfðan starfsmann barnaverndar [...] að hún vilji fremur búa hjá stefnanda en heimsækja stefndu. Af öðrum gögnum málsins, einkum matsskýrslum, verður hins vegar ráðið að stúlkan óskar þess að vera sem jafnast hjá málsaðilum og þá til skiptis.

Sameiginleg forsjá er í anda núgildandi ákvæða barnalaganna. Ljóst er að ef svo á eftir að ganga og til að tryggja velferð stúlkunnar þurfa málsaðilar báðir að leggja sitt af mörkum, brjóta odd af oflæti sínu og breyta um afstöðu gagnvart sameiginlegri forsjá. Stefnandi lýsti því yfir fyrir dómi að hann treysti stefndu ekki fyrir dóttur þeirra og að umgengni þeirra mæðgna yrði að vera undir eftirliti. Stefnda taldi að telpan gæti eins hætt að eiga heimili hjá sér ef forræðið yrði sameiginlegt. Málsaðilar virðast í þörf fyrir utanaðkomandi aðstoð til að liðka fyrir samskiptum svo að sameiginleg forsjá geti orðið að veruleika. Stefnandi gengur þegar til sálfræðings í því skyni að bæta stöðu sína sem uppalandi. Stefnda þyrfti að gera slíkt hið sama.

Að öllu ofangreindu virtu tekur minnihluti dómsins undir þá niðurstöðu meirihlutans, að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, A, til 18 ára aldurs hennar.  Það er hins vegar niðurstaða minnihlutans að lögheimili stúlkunnar skuli framvegis vera hjá stefnanda og að stefnda greiði einfalt meðlag frá dómsuppsögu.

Í ljósi niðurstöðu meirihlutans hér að framan tekur minnihlutinn undir niðurstöðu í 4. hluta, þ. á m. um málskostnað.

4. Báðir aðilar gera kröfu um málskostnað.  Í ljósi málsúrslita þykir rétt, sbr. ákvæði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu.  Allur gjafsóknarkostnaður hans greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Helgu Völu Helgadóttur hdl.  Af hálfu lögmannsins var lagður fram málssóknarreikningur ásamt tímaskýrslu.  Þykir þóknun lögmannsins að virtu umfangi málsins og með hliðsjón af nefndum reikningi hæfilega ákveðin 1.300.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.

Áfrýjun frestar ekki framkvæmd dómsins.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, sem dómsformaður, Helgi Viborg sálfræðingur og dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur.

D ó m s o r ð:

Stefnandi, M, og stefnda, K, skulu fara sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, A, til 18 ára aldurs hennar.  Lögheimili stúlkunnar skal vera hjá stefndu.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 1.300.000 krónur, en þá hefur ekki verið lagður á virðisaukaskattur.

Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.

                                                                                  Ólafur Ólafsson

                                                                                               Helgi Viborg

                               Sigrún Sveinbjörnsdóttir.