Print

Mál nr. 655/2016

Bjallaból ehf. og Fura ehf. (Lárus L. Blöndal hrl., Hulda Árnadóttir hdl. 2. prófmál)
gegn
Orkustofnun (Soffía Jónsdóttir hrl.) og Landsneti hf. (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl., Halldór Brynjar Halldórsson hdl. 4. prófmál)
og til réttargæslu íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Samningur
  • Uppsögn
  • Raforka
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni laga
Reifun

Í málinu var deilt um rétt F ehf. til afhendingar á rafmagni í gegnum búnað í eigu B ehf. á grundvelli samnings sem fyrirrennari félaganna hafði gert við Landsvirkjun árið 1993, en L hf. hafði síðar tekið við skyldum Landsvirkjunar samkvæmt samningnum. Eftir lagabreytingar á árinu 2004 uppfyllti F ehf. ekki lengur skilyrði til að vera viðskiptavinur L hf. Með ákvörðun O 24. febrúar 2010 var L hf. því gert að láta af raforkuafhendingu til F ehf. og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála. Gerðu B ehf. og F ehf. aðallega kröfu um að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi en til vara kröfðust félögin viðurkenningar á því að F ehf. ætti rétt á afhendingu á raforku í samræmi við samninginn. Var á því byggt af hálfu félaganna að lagabreytingarnar yrðu ekki látnar taka til samningssambands þeirra við L hf., sem stofnað hefði verið til fyrir gildistöku laganna. Í dómi sínum tók Hæstiréttur fram að sé ekki í lögum kveðið á um lagaskil gildi sú meginregla að nýjum lögum verði beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til þeirra hafi verið stofnað fyrir gildistöku laganna, enda ráðist réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Benti Hæstiréttur á að B ehf. og F ehf. hefðu ekki sýnt fram á að lagasetningin hefði ekki stuðst við haldbær rök eða viðurkennd löggjafarsjónarmið, auk þess sem félögin hefðu ekki getað treyst því að réttindin sem þeim voru tryggð með samningnum myndu haldast óbreytt til framtíðar. Væri samkvæmt því ekki hægt að fallast á að fyrrgreindar lagabreytingar hefðu falið í sér íþyngjandi afturvirka lagasetningu sem færi í bága við stjórnarskrárvarin réttindi félaganna. Voru L hf. og O því sýknuð af kröfum þeirra.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. september 2016. Þeir krefjast þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála 29. ágúst 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem staðfest var ákvörðun stefnda Orkustofnunar 24. febrúar 2010, um að stefnda Landsneti hf. beri að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til áfrýjandans Furu ehf. að viðlögðum dagsektum. Til vara krefjast þeir að viðurkennt verði að áfrýjandinn Fura ehf. eigi, í samræmi við samning 25. janúar 1993, rétt á að fá afhenta raforku milliliðalaust frá stefnda Landsneti hf. gegnum rafmagnsbúnað í eigu áfrýjandans Bjallabóls ehf. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu Landsnet hf. og Orkustofnun krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndi krefst staðfestingar á ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað sér til handa og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu Fura hf. og Landsvirkjun samning 25. janúar 1993 um sölu þess síðarnefnda á svokölluðu ótryggu rafmagni til Furu hf. en í þeim samningi fólst að Landsvirkjun afhenti félaginu raforku beint og milliliðalaust gegnum flutningskerfi sitt. Samkvæmt 13. gr. samningsins gilti hann frá 1. febrúar 1993 til 1. janúar 1994 en skyldi framlengjast óbreyttur frá ári til árs væri honum ekki sagt upp skriflega með sex mánaða fyrirvara.

Fura hf. var skráð sem einkahlutafélag á árinu 1995 og á árinu 2012 var félaginu skipt upp í annars vegar áfrýjandann Bjallaból ehf., sem er eignarhaldsfélag, og hins vegar áfrýjandann Furu ehf., sem er rekstrarfélag. Með lögum nr. 75/2004 var stefndi Landsnet hf. stofnaður og tók hann yfir skyldur Landsvirkjunar samkvæmt framangreindum samningi.

II

Stefndi Landsnet hf. tilkynnti áfrýjandanum Furu ehf. með bréfi 3. maí 2011 að samkvæmt ákvörðun Orkustofnunar 24. febrúar 2010, sem staðfest hefði verið með úrskurði iðnaðarráðuneytisins 14. mars 2011, væri sér óheimilt að afhenda áfrýjandanum raforku og benti honum á „að semja við HS Veitur hf. um framtíðarfyrirkomulag raforkuafhendingar til fyrirtækisins, enda núverandi fyrirkomulag tengingar ekki í samræmi við gildandi raforkulög. Landsnet þakkar Furu ehf. fyrir viðskiptin og tilkynnir að í samræmi við úrskurð iðnaðarráðuneytisins verður flutningur raforku til Furu ehf. um núverandi tengingu stöðvaður þann 14. september 2011.“ Stefndi Landsnet hf. lét síðan af milliliðalausri raforkuafhendingu til áfrýjandans Furu ehf. 14. september 2011 og daginn eftir gerði sá síðarnefndi tímabundinn samning við HS Veitur hf. um leigu á tengibúnaði og raforkuafhendingu.

Af orðalagi framangreinds bréfs stefnda Landsnets hf. til áfrýjandans Furu ehf. er ljóst að í því fólst uppsögn á samningnum frá 25. janúar 1993 og tók hún gildi frá 14. september 2011. Styður samkomulag áfrýjandans Furu ehf. við HS Veitur hf. í kjölfarið þá niðurstöðu.

III

Með lögum nr. 89/2004 var raforkulögum nr. 65/2003 breytt þannig að eftir gildistöku þeirra fullnægði áfrýjandinn Fura ehf. ekki skilyrðum til að geta verið viðskiptavinur flutningsfyrirtækis samkvæmt 2. mgr. 8. gr. raforkulaga. Með úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála 29. ágúst 2012 var staðfest ákvörðun stefnda Orkustofnunar 24. febrúar 2010 um að stefnda Landsneti hf. bæri, í samræmi við framangreint lagaákvæði, að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til áfrýjandans. Ágreiningslaust er að áfrýjendur fullnægja ekki þessu skilyrði laganna en þeir telja að ákvæðið verði ekki látið taka til samningssambands þeirra við stefnda Landsnet hf. sem stofnað hafi verið til löngu fyrir gildistöku laganna, enda myndi slík afturvirk og íþyngjandi beiting ákvæðisins stríða gegn 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Ef ekki er í lögum kveðið á um lagaskil gildir sú meginregla að nýjum lögum verður beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til þeirra hafi verið stofnað fyrir gildistöku laganna enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Eins og fram kemur í 1. gr. raforkulaga er markmið þeirra að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp til raforkulaga og laga nr. 89/2004 voru lögin meðal annars sett til að uppfylla skyldur réttargæslustefnda samkvæmt EES-samningnum en samkvæmt ákvæðum hans bar réttargæslustefnda að innleiða í landsrétt reglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Sú breyting sem gerð var á 2. mgr. 8. gr. raforkulaga með 4. gr. laga nr. 89/2004 var almenn og málefnaleg og gildir hún um alla sem kaupa eða selja raforku frá gildistöku hennar 9. júní 2004. Hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að lagasetningin hafi ekki stuðst við haldbær rök eða viðurkennd löggjafarsjónarmið þannig að í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þegar til þess er litið að samningurinn frá 25. janúar 1993 sem áfrýjendur byggja rétt sinn á var uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara, gátu þeir ekki treyst því eða haft réttmæta ástæðu til að ætla að þau réttindi sem þeim voru tryggð með samningnum myndu haldast óbreytt til framtíðar en eins og að framan er rakið rann hann sitt skeið á enda 14. september 2011 eftir uppsögn hans.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á að sú breyting sem gerð var á 2. mgr. 8. gr. raforkulaga með 4. gr. laga nr. 89/2004 hafi falið í sér íþyngjandi afturvirka lagasetningu sem fari í bága við stjórnarskrárvarin réttindi áfrýjenda. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu og réttargæslustefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Bjallaból ehf. og Fura ehf., greiði óskipt stefnda Landsneti hf. 1.000.000 krónur og stefnda Orkustofnun og réttargæslustefnda, íslenska ríkinu, hvorum fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 20. nóvember 2014 af Bjallabóli ehf. og Furu ehf., báðum til heimilis að Hringhellu 3, 220 Hafnarfirði, á hendur Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík, Landsneti hf., Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík og til réttargæslu á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, 101 Reykjavík.

I.

        Stefnendur gera aðallega þá kröfu, gagnvart stefndu Orkustofnun og Landsneti hf., að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012 í máli nr. 2/2012, sem staðfesti ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, um að Landsneti hf. beri að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf., málmendurvinnslu í Kapelluhrauni, að viðlögðum dagsektum.

         Til vara gera stefnendur þá kröfu, gagnvart stefndu Orkustofnun og Landsneti hf., að viðurkennt verði með dómi að stefnandi Fura ehf. eigi, í samræmi við raforkusölusamning við Landsnet hf. dags. 25. janúar 1993, rétt á að fá afhenta raforku milliliðalaust frá Landsneti hf. gegnum flutningskerfi þess, gegnum rafmagnsbúnað (heimtaug) í eigu stefnanda Bjallabóls ehf., sem samanstendur af 132/22 kV spenni í Hamranesi og 22 kV strengjum frá Hamranesi að iðnaðarsvæði stefnenda að Hringhellu 3, en auk þess tilheyrir búnaðinum 132 kV rofi í eigu Landsnets hf. í Hamranesi.

        Í öllum tilvikum krefjast stefnendur hvor um sig málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

        Stefndi Orkustofnun krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur, hvor um sig, verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

        Réttargæslustefndi gerir engar kröfur að svo stöddu, aðrar en til málskostnaðar úr hendi stefnenda hvors um sig.

         Stefndi Landsnet krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

          Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnenda.

          Stefndu gerðu í greinargerð kröfu um frávísun málsins. Í þinghaldi 25. nóvember 2015 óskaði lögmaður stefnda Landsnets hf. bókað, að fallið væri frá frávísunarkröfu í málinu af hálfu stefnda Landsnets hf. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. desember 2015 var frávísunarkröfu stefnda Orkustofnunar hafnað.

II.

Málsatvik

        Atvik málsins eru þau að stefnanda Furu ehf. var á árinu 2012 skipt upp í Bjallaból ehf., eignarhaldsfélag, og Furu ehf., rekstrarfélag, og þau eru stefnendur málsins. Fura ehf. (og nú einnig Bjallaból ehf.) hefur starfrækt málmendurvinnslu á lóðinni Hringhellu 3 í Hafnarfirði síðan 1993. Lóðin er um 7 hektarar að stærð og er á svæði sem skilgreint er fyrir stóriðnað. Áður rak Íslenska stálfélagið hf. umfangsmikla og orkufreka starfsemi á sömu lóð. Það félag keypti raforku til starfsemi sinnar af Landsvirkjun á grundvelli raforkusölusamnings, dags. 11. október 1988. Einnig samdi félagið við Rafveitu Hafnarfjarðar, nú HS Veitur hf., um að því væri heimilt að kaupa raforku beint frá Landsvirkjun án milligöngu Rafveitu Hafnarfjarðar, þ.e. beint gegnum flutningskerfi Landsvirkjunar. Íslenska stálfélagið hf. var tekið til gjaldþrotaskipta árið 1991 og keypti þá Fura (þá hf.) eignir félagsins, hluta af eignum búsins, af Iðnþróunarsjóði og Búnaðarbankanum, þar með talinn rafmagnsbúnað, heimtaug, til að flytja rafmagn frá spennistöð Landsvirkjunar að starfsstöð sinni, málmtætara og brotajárnshaug. Fura hf. haslaði sér fyrst völl á sviði brotajárnsvinnslu snemma árs 1993. Í framhaldi af framangreindum kaupum átti Fura árangurslausar samningaviðræður við Búnaðarbankann og Iðnþróunarsjóð um kaup á stálbræðsluverksmiðju. Orkunotkun og rekstur Furu hf. reyndist því umfangsminni frá upphafi en gert hafði verið ráð fyrir, sökum þess að í stað orkufrekrar stálbræðslu hefur brotajárnsvinnsla stefnanda takmarkast við tætingu málma.

         Hinn 25. janúar 1993 gerðu Fura hf. og Landsvirkjun með sér raforkusölusamning um kaup Furu hf. á raforku af Landsvirkjun og í gegnum flutningskerfi Landsvirkjunar. Í 13. gr. samningsins var kveðið á um að hann gilti til 1. janúar 1994, en eftir þann tíma skyldi samningurinn framlengjast óbreyttur frá ári til árs, og aðilum væri heimilt að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara. Fura hf. var skráð sem einkahlutafélag síðla árs 1995 og hét upp frá því Fura ehf.

        Raforkulög nr. 65/2003 tóku gildi 7. apríl 2003 og komu til framkvæmda 1. júlí sama ár.

        Með lögum nr. 75/2004 var kveðið á um stofnun hlutafélags, Landsnets hf., sem skyldi annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Um líkt leyti öðluðust gildi lög nr. 89/2004, um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, m.a. vegna tilkomu flutningsfyrirtækisins Landsnets hf. Hið nýstofnað hlutafélag, Landsnet hf., tók yfir skyldur Landsvirkjunar samkvæmt fyrrgreindum raforkusölusamningi við Furu ehf. að því er varðar milliliðalausan flutning raforku til Furu ehf. Hélt Fura ehf. áfram að kaupa raforku til starfsemi sinnar beint í gegnum flutningskerfi Landsnets hf., í samræmi við raforkusölusamninginn frá 25. janúar 1993. Nýir söluskilmálar Landsvirkjunar fyrir ótryggt rafmagn tóku gildi þann 1. september 2005 og tók þeir mið af breyttri raforkuskipan í samræmi við l. nr. 65/2003.

        Hinn 28. ágúst 2008 tilkynnti Orkustofnun Hitaveitu Suðurnesja hf., nú HS Veitum hf., og Landsneti hf., að stofnunin teldi óheimilt að afhenda Furu ehf. raforku beint gegnum flutningskerfi Landsnets hf. án milligöngu dreifiveitu, þar sem Fura ehf. væri ekki stórnotandi í skilningi laga. Í bréfi stofnunarinnar var þess farið á leit að HS Veitur hf. og Landsnet hf. kæmu sér saman um lausn á málinu, sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 2009. Hinn 30. nóvember 2009 tilkynnti Orkustofnun Furu ehf. að stofnunin teldi beina tengingu félagsins við flutningskerfi Landsnets hf. ekki vera í samræmi við raforkulög. Furu ehf. var veittur frestur til 14. desember 2009 til að upplýsa Orkustofnun um hugsanlegar breytingar á rekstri sínum í náinni framtíð, sem leiða myndi til aukinnar raforkunotkunar þannig að félagið félli í flokk stórnotenda, en ella gera „viðeigandi ráðstafanir eins og að tengjast dreifiveitu svæðisins, HS Veitum“. Að öðrum kosti myndi stofnunin fara fram á við Landsnet hf. að orkuafhending til Furu ehf. yrði stöðvuð frá og með 15. janúar 2010, að viðlögðum dagsektum. Afrit af bréfinu var sent Landsneti hf. og HS Veitum hf.

        Með bréfi lögmanns Furu ehf., dags. 22. desember 2009, var farið fram á að fyrrgreindur frestur yrði framlengdur til 15. mars 2010, þar sem gengið hefði hægar að fá niðurstöðu í málið en vonir hefðu staðið til. Með bréfi, dags. 7. janúar 2010, féllst Orkustofnun á að framlengja frestinn til 28. febrúar 2010. Hinn 24. febrúar 2010, eða fjórum dögum áður en framlengdur andmælafrestur Furu ehf. rann út, tók Orkustofnun ákvörðun um að Landsneti hf. bæri að láta af „milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf., málmendurvinnslu í Kapelluhrauni“, að viðlögðum 10.000 kr. dagsektum frá og með 1. mars 2010. Í ákvörðuninni var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 89/2004, um breytingu á raforkulögum, „eru viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir, og má ljóst vera að Fura fyllir (svo) ekki í neinn af upptöldu hópunum“. Næsta dag tilkynnti Landsnet hf. að það myndi hætta afhendingu raforku til Furu ehf. frá og með 1. mars 2010 í samræmi við fyrrgreinda ákvörðun Orkustofnunar.

        Að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið, og samkvæmt leiðbeiningum þess, kærði Fura ehf. ákvörðun Orkustofnunar til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru 26. febrúar 2010. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun Orkustofnunar með úrskurði 14. mars 2011. Með bréfi 3. maí 2011 tilkynnti Landsnet hf. Furu ehf. að raforkuafhending yrði stöðvuð til félagsins frá og með 14. september 2011, og félaginu bent á að semja við dreifiveitu um raforkuflutning. Hinn 15. september 2011 gerðu Fura ehf. og HS Veitur hf. með sér samning um að HS Veitur hf. leigðu fyrrgreindan rafmagnsbúnað af Furu ehf., sem tengdist flutningskerfi Landsnets hf. Samkvæmt 14. gr. samningsins skyldi hann gilda til 31. desember 2013, en þó skyldi samningurinn framlengjast að þeim tíma loknum þar til fengin væri niðurstaða í réttarágreining aðila, þ. á m. varðandi ákvörðun Orkustofnunar, enda samþykkti Landsnet hf. það. Um það leyti höfðaði Fura ehf. mál til ógildingar á fyrrgreindum úrskurði iðnaðarráðuneytisins. Með dómi Hæstaréttar 25. maí 2012, í máli nr. 316/2012, var því máli vísað frá dómi, af þeirri ástæðu að samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 sættu ákvarðanir Orkustofnunar, er vörðuðu Landsnet hf., stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar raforkumála, og hefði því að réttu lagi átt að beina kæru þangað. Í samræmi við forsendur dómsins beindi Fura ehf. erindi, dags. 22. júní 2012, til úrskurðarnefndar raforkumála, með beiðni um að nefndin tæki fyrrnefnda stjórnsýslukæru félagsins frá 26. febrúar 2010 til meðferðar. Með úrskurði 29. ágúst 2012 staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, með breytingu á upphafstíma dagsekta.

        Árið 2012 var Furu ehf. skipt í tvö félög, þ.e. Bjallaból ehf. og Furu ehf. Með stefnu, dags. 26. febrúar 2013, höfðaði Bjallaból ehf. mál á hendur stefndu, Orkustofnun, Landsneti hf. og íslenska ríkinu, aðallega til ógildingar á fyrrnefndum úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012, en til vara til viðurkenningar á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna fjártjóns, sem félagið hefði orðið fyrir vegna þessara atvika. Með dómi Hæstaréttar 22. maí 2014, í máli nr. 286/2014, var málinu vísað frá dómi á þeim grunni að héraðsdómsstefna hefði ekki að geyma viðhlítandi skýringar á því hvers vegna Bjallaból ehf. ætti aðild að málinu, svo sem nánar er rakið í dóminum.

        Með heimild í 107. gr. a í lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, var Furu ehf., sem fyrr segir, skipt í tvö félög, Bjallaból ehf. og Furu ehf. Skiptingin var ákveðin af stjórnarmanni Furu ehf. hinn 19. júní 2012 og staðfest af eina hluthafa Furu ehf. 17. ágúst 2012. Nýja félagið, Bjallaból ehf., var stofnað hinn 17. ágúst 2012, og tilkynnt hlutafélagaskrá til skráningar 30. ágúst 2012. Bjallaból ehf. gegnir nú hlutverki eignarhaldsfélags, en gamla félagið, Fura ehf., starfar áfram sem rekstrarfélag. Við skiptinguna tók Bjallaból ehf. við langstærstum hluta eigna Furu ehf., alls að bókfærðu virði 1.231.624.673 kr., þar af öllum fastafjármunum, alls 478.205.287 kr., sbr. m.a. skiptingarefnahagsreikning. Meðal eigna sem Bjallaból ehf. tók þannig við eru lóðin Hamrahella 3, ásamt mannvirkjum og fyrrgreindum rafmagnsbúnaði tengdum flutningskerfi Landsnets hf. Þá voru skuldir að fjárhæð alls 68.273.016 kr. færðar frá Furu ehf. til Bjallabóls ehf. Reikningsleg skipting miðast við 1. janúar 2012, og miðast bókfært virði eigna og skulda við 31. desember 2011, sbr. nánar skiptingarefnahagsreikning á dskj. nr. 14, og greiddi Bjallaból ehf. Furu ehf. ekkert endurgjald fyrir eignir umfram skuldir. Þá fékk eini hluthafi Furu ehf. ekki annað endurgjald en hlutafé (100% eignarhlut) í viðtökufélaginu Bjallabóli ehf. Tekið skal fram að félögin hafa gert með sér leigusamning, dags. 7. október 2013, þar sem Fura ehf. leigir tilgreindar eignir af Bjallabóli ehf. til 12 ára, með kauprétti Furu ehf. í lok leigutímans, fyrir fast kaupréttarverð, en neyti Fura ehf. ekki þess réttar tekur við ótímabundinn og uppsegjanlegur leigusamningur.

        Í tilefni af ofangreindu öfluðu stefnendur álits verkfræðistofunnar Mannvits á því hvaða áhrif það hefði á fjárhagslega hagsmuni stefnenda að Landsneti hf. er gert að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf., gegnum rafmagnsbúnað stefnanda Bjallabóls ehf., vegna ákvæðis 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 4. gr. fyrrnefndra breytingalaga nr. 89/2004, og ákvörðunar Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010 og úrskurðar úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012, sem reist eru á þeirri lagabreytingu. Í álitsgerðinni, sem dagsett er 23. október 2014, er komist að þeirri niðurstöðu að stöðvun þeirra raforkuviðskipta baki hvorum stefnanda um sig umtalsvert fjártjón. Fjártjón stefnanda Bjallabóls ehf. felist einkum í því að fyrrnefndur rafmagnsbúnaður, nú eign þess félags, ónýtist, enda verði búnaðurinn ónothæfur ef ekki er unnt að nýta hann til að taka við raforku frá Landsneti hf. Umræddur búnaður samanstandi af 132/22 kV spenni í Hamranesi og 22 kV strengjum frá Hamranesi að iðnaðarsvæði stefnenda, en auk þess tilheyri búnaðinum 132 kV rofi í eigu Landsnets hf. í Hamranesi. Samkvæmt álitsgerðinni eru líklegustu áhrifin af stöðvun viðskiptanna nánar tiltekið þau að 132 kV rofinn í Hamranesi verði ekki lengur til staðar fyrir stefnendur, auk þess sem 132/22 kV spennirinn og 22 kV strengirnir í eigu stefnanda Bjallabóls ehf. verða fyrirsjáanlega fjarlægðir með tilheyrandi verðmætisrýrnun og kostnaði. Yrði 132/22 kV spennir Bjallabóls ehf. líklega settur í endurvinnslu, seldur á brotvirði, eða gengið frá honum í geymslu til hugsanlegra nota síðar, með tilheyrandi kostnaði. Þá sé fjártjón stefnanda Bjallabóls ehf. jafnframt fólgið í því, að félaginu er nauðsynlegt að fjárfesta í og koma á fót nýrri heimtaug, sem tengist dreifikerfi dreifiveitu. Slík heimtaug yrði líklega ekki með hærri afhendingarspennu en 11 kV, samanborið við núverandi 132 kV, og ólíklegt að flutningsgeta hennar yrði meiri en 5 MVA, samanborið við 30 MVA núverandi heimtaugar. Áætlað kostnaðarverð slíkrar heimtaugar sé á bilinu 40-60 milljónir króna án virðisaukaskatts. Með tilkomu nýrrar heimtaugar með minni raforkuflutningsgetu rýrni um leið nota- og verðgildi lóðar stefnanda Bjallabóls ehf. og sölumöguleikar hennar, en 30 MVA raforkuflutningsgeta sé eftirsótt. Ef þörf yrði á meiri flutningsgetu en 5 MVA í framtíðinni, þyrfti stefnandi Bjallaból ehf. að fjárfesta í og koma á laggirnar nýrri og öflugri heimtaug, en kostnaður við það sé áætlaður á bilinu 400–500 milljónir króna án virðisaukaskatts. Þá raski ofangreind atvik fyrrgreindum leigusamningi milli Bjallabóls ehf. og Furu ehf. og forsendum hans, þ.m.t. varðandi kauprétt Furu ehf. í lok 12 ára leigutíma, sbr. efni álitsgerðarinnar. Samkvæmt álitsgerðinni er fjártjón stefnanda Furu ehf. einkum talið felast í því að félagið muni, sem kaupandi raforkunnar samkvæmt raforkusölusamningnum frá 25. janúar 1993, fyrirsjáanlega greiða hærra verð fyrir raforku frá dreifiveitu, t.d. HS Veitum hf., en það verð sem félagið hefur til þessa greitt fyrir raforku, sem afhent er beint frá Landsneti hf. gegnum núverandi 132 kV heimtaug.

        Ekki hefur náðst lausn í ágreiningi aðila. Eins og fyrr greinir gerðu Fura ehf. og HS Veitur hf. með sér leigusamning, dags. 15. september 2011, um að HS Veitur hf. leigðu rafmagnsbúnað (þá í eigu Furu ehf. en nú í eigu Bjallabóls ehf.), í því augnamiði að Landsnet hf. gæti haldið áfram milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf. þar til leyst hefði verið úr réttarágreiningi aðila. Nú hefur Landsnet hf. tilkynnt að það muni 1. janúar 2015 rjúfa afhendingu raforku til Furu ehf. gegnum rafmagnsbúnað Bjallabóls ehf., í samræmi við ákvörðun Orkustofnunar og úrskurð úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. bréf dags. 28. október 2014.

III.

Málsástæður og lagarök stefnenda

        Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að stefnandi Fura ehf. eigi rétt á að fá raforku afhenta milliliðalaust frá Landsneti hf. gegnum flutningskerfi þess, gegnum rafmagnsbúnað (heimtaug) í eigu Bjallabóls ehf., í samræmi við raforkusölusamning aðila frá 25. janúar 1993. Stefnendur beina aðalkröfu sinni að Orkustofnun, sem því stjórnvaldi sem tók hina kærðu stjórnvaldsákvörðun (frá 24. febrúar 2010), og Landsneti hf., enda sé fullnægt skilyrðum 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003 til að leita ógildingar hennar (úrskurðarins) með dómi. Varakröfu beina stefnendur að sömu aðilum og í aðalkröfu, en varakrafa komi til úrlausnar sé ekki fallist á aðalkröfu af ástæðum sem lúti sérstaklega að henni. Byggist varakrafan á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafa að breyttu breytanda. Á því er jafnframt byggt að uppfyllt séu skilyrði 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003 til að krefjast úrlausnar dómstóla um réttarsamband aðila í samræmi við varakröfu enda liggi fyrir niðurstaða úrskurðarnefndar raforkumála um ágreiningsefnið.

        Varðandi aðild stefnenda benda stefnendur á að Fura ehf. kærði í upphafi ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010 til iðnaðarráðuneytisins, með kæru 26. febrúar 2010. Í kjölfar dóms Hæstaréttar 25. maí 2012 í máli nr. 316/2012, framsendi Fura ehf. þá kæru til úrskurðarnefndar raforkumála með erindi, dags. 22. júní 2012, og hófst kærumálið þannig áður en Bjallaból ehf. var stofnað, hinn 17. ágúst 2012. Þegar umþrættur úrskurður nefndarinnar gekk, hinn 29. ágúst 2012, var Bjallaból ehf. enn óskráð enda var það ekki tilkynnt til hlutafélagaskrár fyrr en síðar. Eftir að skipting Furu ehf. sé nú komin að fullu til framkvæmda, þ. á m. með skráningu Bjallabóls ehf. og flutningi eigna yfir í það félag, líta stefnendur svo á að réttur til að leita ógildingar á úrskurðinum sé á hendi þeirra beggja. Með tilliti til ógildingar leiðir Bjallaból ehf. rétt sinn frá uppskiptingu Furu ehf., og verða bæði félögin fyrir tjóni vegna úrskurðarins eftir skiptinguna. Í samræmi við framangreint, sbr. og dóm Hæstaréttar 22. maí 2014, í máli nr. 286/2014, hafi stefnendur valið þann kost að sækja þetta mál í sameiningu, enda líta stefnendur svo á að þeir eigi, m.a. í ljósi framangreindra atvika, lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi.

        Ágreiningur aðila lúti að þeirri ákvörðun Orkustofnunar, sem staðfest var með umþrættum úrskurði, að stefnda Landsneti hf. beri að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda Furu ehf. Sú ákvörðun feli í sér að stefnanda Furu ehf. sé óheimilt að taka við raforku beint gegnum flutningskerfi stefnda Landsnets hf., og nýta í því skyni rafmagnsbúnað í eigu stefnanda Bjallabóls ehf., á grundvelli raforkusölusamnings frá 25. janúar 1993. Það leiði m.a. til þess að umræddur rafmagnsbúnaður, sem komið var á fót gagngert í þessum tilgangi, verði ónothæfur og fari forgörðum með tilheyrandi skerðingu á notkunarmöguleikum og verðgildi lóðar stefnanda Bjallabóls ehf., auk þess að valda stefnendum báðum ýmsu öðru beinu og óbeinu tjóni. Stefnendur líti svo á að raforkusölusamningurinn sé enn í fullu gildi, þrátt fyrir umrædda ákvörðun Orkustofnunar og tilkynningar Landsnets hf. um fyrirhugað rof á raforkuafhendingu til Furu ehf. gagngert í tilefni af þeirri ákvörðun, sbr. dskj. nr. 11. Þær tilkynningar Landsnets hf. verði ekki taldar fela í sér uppsögn samningsins af hálfu Landsnets hf., en auk þess telja stefnendur að hvað sem öðru líði sé Landsneti hf. óheimilt að segja samningnum upp án þess að bæta stefnendum tjón sem af því leiðir. Þá árétta stefnendur að Fura ehf. og HS Veitur hf. gerðu hinn 15. september 2011 með sér leigusamning með vitund Landsnets hf., beinlínis til þess að gefa ráðrúm til að láta reyna á ákvörðun Orkustofnunar fyrir dómstólum áður en tengingin yrði endanlega rofin, eins og samningurinn beri með sér. Það hafi því beina og ótvíræða þýðingu fyrir stöðu stefnenda að lögum að fá leyst úr dómkröfum sínum varðandi rétt stefnanda Furu ehf. til að fá raforku afhenta frá stefnda Landsneti hf. í samræmi við raforkusölusamninginn.

         Stefnendur byggja á því að umþrætta ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012, skorti lagastoð og hún sé því ógildanleg. Í ákvörðun Orkustofnunar komi fram að hún sé reist á 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 89/2004, um breytingu á fyrrnefndum lögum, og var málsgreinin þá svohljóðandi: Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins [Landsnets hf.] skulu vera dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir. Ekki séu færð frekari rök fyrir ákvörðuninni, en óumdeilt sé að stefnandi Fura ehf. telst ekki stórnotandi í skilningi raforkulaga eins og sakir standa. Á hinn bóginn hafna stefnendur því að ofangreint lagaákvæði hafi þau réttaráhrif, sem felst í umþrættri ákvörðun, þ.e. að því verði beitt afturvirkt um tengingu stefnenda við Landsnet hf., sem stofnað var til löngu fyrir gildistöku laganna, með því tjóni og röskun sem því fylgir.

        Ákvörðun Orkustofnunar byggist samkvæmt efni sínu eingöngu á fyrrnefndri 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 4. gr. laga nr. 89/2004. Stefnendur telja að ekki verði dregin sú ályktun af tilvísuðu lagaákvæði að því hafi verið ætlað að raska gildum raforkusölusamningum, sem gerðir höfðu verið við Landsnet hf. eða forvera þess fyrir gildistöku laganna. Raforkusölusamningur Landsvirkjunar og stefnanda Furu ehf., dags. 25. janúar 1993, hafi verið gerður í samræmi við þágildandi lög, sbr. m.a. þágildandi 2. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, en samkvæmt lagagreininni skyldi tilgangur Landsvirkjunar m.a. vera að „vinna, flytja og selja í heildsölu raforku til almenningsrafveitna svo og til iðjufyrirtækja samkvæmt sérstökum samningum að svo miklu leyti sem almenningsrafveitur hafa ekki milligöngu um slíka raforkusölu“. Með lögum nr. 75/2004, sbr. og 10. gr. laga nr. 89/2004, hafi nýstofnað flutningsfyrirtæki, Landsnet hf., tekið yfir flutningskerfi Landsvirkjunar, þ. á m. skyldur til að afhenda Furu ehf. raforku í samræmi við umræddan raforkusölusamning frá 25. janúar 1993, en Landsvirkjun var áfram seljandi raforkunnar.

        Í ljósi framangreinds byggja stefnendur á því að skýra beri áðurnefnda 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 4. gr. laga nr. 89/2004, á þá leið að ákvæðinu hafi ekki verið ætlað að raska lögmætu fyrirkomulagi sem komið var á fót fyrir gildistöku laganna, svo sem felst í raforkusölusamningi Furu ehf. og Landsvirkjunar/Landsnets hf. frá 25. janúar 1993, með tilheyrandi tjóni og röskun fyrir stefnendur. Engin stoð sé fyrir slíkri afturvirkri beitingu ákvæðisins, hvorki samkvæmt orðalagi þess né lögskýringargögnum, og slík lögskýring sé því ekki tæk. Þegar af þeirri ástæðu bresti umþrættar stjórnvaldsákvarðanir lagastoð, enda standi þær og falli með þeirri forsendu að ákvæðinu megi beita afturvirkt með þessum hætti, sem ekki fái staðist samkvæmt framansögðu.

        Þá byggja stefnendur enn fremur á því að slík afturvirk og íþyngjandi beiting 4. gr. laga nr. 89/2004, sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, komi ekki til greina gagnvart stefnendum, þegar af þeirri ástæðu að hún stríði gegn eignarréttarákvæði 72. stjórnarskrárinnar, eins og atvikum sé háttað. Beiting ákvæðisins með þeim hætti leiðir til þess að stefnendur verða fyrir stórfelldu tjóni, með því m.a. að tilgreindar eignir stefnanda Bjallabóls ehf. séu skertar verulega eða þær ónýttar með öllu, sbr. og kafla D í málavaxtalýsingu og dskj. nr. 16. Telja stefnendur að slíkri skerðingu verði í öllu falli aldrei við komið nema því aðeins að stefnendur fái tjón sitt bætt að fullu úr hendi stefndu eða réttargæslustefnda. Úr því að ekkert slíkt uppgjör hafi átt sér stað sé að mati stefnenda óhjákvæmilegt að líta svo á að slík beiting ákvæðisins, og þar með umþrættar stjórnvaldsákvarðanir, brjóti gegn fyrrgreindu stjórnarskrárákvæði, og um leið gegn 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, þ. á m. áskilnaði ákvæðanna um að gætt skuli meðalhófs við skerðingu á réttindum á borð við þau sem hér um ræðir. Því sé þannig ekki haldið fram að umrædd 4. gr. laga nr. 89/2004 sé almennt ósamrýmanleg fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála, heldur einvörðungu beiting hennar í fyrirliggjandi máli gagnvart stefnendum með þeim hætti sem umþrætt stjórnvaldsákvörðun Orkustofnunar og jafnframt úrskurðarnefndar raforkumála felur í sér, og með þeirri röskun á eignum og réttindum stefnenda sem af henni leiðir og að framan er gerð grein fyrir.

        Stefnendur vísa hér sérstaklega til þess að þeir eru einu aðilarnir á raforkumarkaði, svo kunnugt sé, sem standa í þeim sporum að þeim sé nú, vegna gildistöku laga nr. 89/2004, gert að láta af notkun raforkutengingar og nauðsynlegum búnaði vegna hennar sem komið var á fót í góðri trú og í samræmi við gildandi lög þess tíma. Þannig sé stefnandi Fura ehf. eini viðskiptavinur Landsnets hf. sem vegna ofangreindrar lagasetningar hafi verið synjað um áframhaldandi nýtingu eigin heimtaugar í viðskiptum við Landsnet hf. (nú í eigu Bjallabóls ehf.), með því fjártjóni og röskun á atvinnustarfsemi sem því fylgi, sbr. að framan. Telja stefnendur slíka niðurstöðu ósamrýmanlega fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála, þ. á m. áskilnaði um meðalhóf, sem og áskilnaði um að skerðingu eignarréttinda verði ekki við komið nema almannaþörf krefji, og komi fullar bætur fyrir. Benda stefnendur hér sérstaklega á að ekki verður séð að neitt mat hafi verið lagt á þessi atriði við þinglega meðferð laga nr. 89/2004, þ. á m. hvort heimilt væri og nauðsynlegt að rjúfa gildandi tengingar orkunotenda við Landsnet hf. og forvera þess, svo sem á við um stefnendur eina, og stöðu þeirra með tilliti til lagabreytinganna að öðru leyti. Stefnendur benda hér og á að Orkustofnun sá heldur ekki ástæðu til að aðhafast vegna raforkusölusamnings Furu ehf. og Landsnets hf. fyrr en síðla árs 2008, eða rúmum fjórum árum eftir að fyrrnefnd lög tóku gildi, en þá lá stofnuninni svo á að rjúfa tengingu Furu ehf. við Landsnet hf. að hún tók ákvörðun sína áður en frestur Furu ehf. til andmæla var útrunninn, sbr. efnisgrein 1.4 í málavaxtalýsingu hér að framan.

        Stefnendur telja sig hafa haft lögmætar væntingar, í skilningi ofangreindra ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála, til þess að sér yrði ekki vegna afturvirkrar lagasetningar gert að taka á sig umtalsvert fjártjón, hvað þá bótalaust, svo sem stefndu og réttargæslustefndi virðast á hinn bóginn telja sig hafa heimild til að gera. Ljóst sé að beiting umrædds lagaákvæðis, með þeim hætti sem umþrættar stjórnvaldsákvarðanir fela í sér, fái ekki samrýmst þeim væntingum stefnenda, og hún þar með í andstöðu við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Beri af framangreindum ástæðum að fella umþrættar stjórnvaldsákvarðanir úr gildi, eða til vara viðurkenna að stefnandi Fura ehf. eigi rétt á að fá afhenta raforku gegnum flutningskerfi Landsnets hf. og í samræmi við gildan raforkusölusamning með þeim hætti sem verið hefur. Samkvæmt öllu framansögðu ber að fallast á aðalkröfu eða eftir atvikum varakröfu stefnenda.

        Stefnendur vísa til lögmætisreglu íslensks réttar og almennra lögskýringarreglna, auk ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum. Einnig er vísað til þágildandi 2. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Þá er vísað til 72. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um aðild og kröfugerð vísast til III. og IV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. sömu laga.  

Málsástæður og lagarök stefnda Orkustofnunar

          Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvörðun úrskurðarnefndar raforkumála í máli stefnanda sé í einu og öllu í samræmi við lög. Á henni séu engir form- eða efnisannmarkar sem leitt geti til þess að hún verði felld úr gildi í heild sinni eða að hluta.

        Með setningu raforkulaga, nr. 65/2003, hafi verið kveðið á um nýskipan á fyrirkomulagi raforkumála og raforkusölu í landinu frá því sem var. Þessi nýskipan hafi haft í för með sér breytingar bæði á réttindum og skyldum þeirra sem lögin ná til. Stefndi hafi farið að lögum við ákvörðun sína. Samkvæmt raforkulögum sé það lögbundið hlutverk hans að hafa eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa samkvæmt raforkulögum fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögunum, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samningi samkvæmt 8. gr. laganna og öðrum heimildum. Eftirlit stefnda taki til fyrirtækja sem framleiða og dreifa raforku, en ekki til notenda raforku, eins og stefnanda Furu ehf. Því er mótmælt af hálfu stefnda sem röngu að ákvörðun hans hafi verið byggð á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum. Að mati stefnda eru það bæði málefnaleg og lögmæt sjónarmið að tryggja að eftir raforkulögum sé farið.

        Ákvörðun stefnda, sem tilkynnt var aðilum þann 24. febrúar 2010 um að Landsnet hf. léti af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda frá og með 1. mars 2010 að viðlögðum dagsektum, hafi sótt stoð í 26. gr. raforkulaga, en það sé eina úrræðið sem stefnda er fengið samkvæmt lögunum ef ábendingum hans um úrbætur er ekki sinnt. Ákvörðun stefnda hafi byggst á lögmætum sjónarmiðum, sem samræmist vel þeim hagsmunum sem raforkulögum sé ætlað að vernda. Þau sjónarmið séu almennt talin málefnaleg sem eru til þess fallin að ná fram markmiði þeirra laga sem ákvörðun er byggð á. Með ákvörðun stefnda var stefnt að því lögmæta markmiði, að raforkudreifing Landsnets hf. væri í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laganna, en óumdeilt sé að stefnendur uppfylli ekki þau skilyrði sem þar eru fram sett til að falla í hóp stórnotenda.

        Milliliðalaus raforkuviðskipti Furu ehf. hafi byggst á uppsegjanlegum þjónustusamningi við Landsvirkjun, og síðar Landsnet hf. Í þeim samningi sé skilgreind áætluð árleg orkunotkun Furu ehf. á ótryggu rafmagni. Sú áætlun samningsaðila hafi aldrei staðist og það sé óumdeild staðreynd að orkukaupin urðu mun minni. Stefnandi, Fura ehf., hafi því ekki haft réttmætar væntingar til að ætla að samningur þessi myndi standa óhaggaður til framtíðar.

        Þegar lög nr. 65/2003 komu til framkvæmda í júlí 2003 hafi stefnanda, Furu ehf., mátt vera ljóst að endurskoða þyrfti raforkusamning hans við stefnda Landsnet hf., sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga, þar sem viðskiptavinir Landsnets hf. séu tæmandi taldir og óumdeilt sé að stefnandi fellur utan þeirrar upptalningar. Stefnandi hafi, á grundvelli samningsins frá 25. janúar 1993, notið annarra og betri kjara á raforkukaupum sínum, heldur en aðrir iðnrekendur sem, líkt og stefnandi, uppfylla ekki skilyrði laganna um stórnotendur.

        Þann 1. september 2005 hafi Landsvirkjun breytt almennum skilmálum sínum um sölu ótryggðs rafmagns. Í 1. gr. nýju skilmálanna sé tekið fram að um flutning og dreifingu ótryggðs rafmagns fari eftir gjaldskrá Landsnets hf. og dreifiveitna eins og þær séu á hverjum tíma. Þá sé tekið fram að skilmálarnir taki mið af breyttri raforkuskipan, sbr. lög nr. 65/2003 með síðari breytingum. Stefndi telur að stefnanda hafi, í síðasta lagi við gildistöku hinna nýju skilmála, borið að tengjast dreifiveitu Hitaveitu Suðurnesja hf., í samræmi við lagaboð, enda þá í síðasta lagi sjálfum ljóst að forsendur samningsins voru brostnar sem og að samkeppnisstaða hans, á þeim markaði sem stefnandi starfar á, samræmdist ekki samkeppnislögum nr. 44/2005. Stefndi telur að skilmálar Landsnets hf., um afhendingu rafmagns til stórnotenda, sem tóku gildi þann 1. júlí 2010, leiði til sömu niðurstöðu, en þar er tekið fram í grein 3.3 að uppfylli stórnotandi ekki skilyrði raforkulaga um notkun og nýtingartíma á einum stað beri honum að flytja viðskipti sín til dreifiveitu innan mánaðar. Uppfylli stórnotandi ekki þá skyldu sína sé Landsneti hf. heimilt, samkvæmt grein 6.1, að rifta samningi eða óska eftir að stefndi aðhafist á grundvelli VII. kafla raforkulaga.

       Stefndi byggir á því að hann hafi gætt meðalhófs samkvæmt ákvæðum 12. gr. stjórnsýslulaga. Gögn málsins sýni ótvírætt að stefnanda var veittur rúmur tími til samninga og til að tengjast dreifiveitu HS Veitna hf. Það hafi liðið um eitt og hálft ár frá því að stefndi, Orkustofnun, gerði fyrst athugasemdir við milliliðalausa tengingu stefnanda við Landsnet hf. þar til stefndi beitti úrræðum sínum skv. 26. gr. raforkulaga gagnvart Landsneti hf. Í ljósi þess að það tók stefnanda örfár vikur að tengjast HS Veitum hf. sé ljóst að sá tími sem stefnandi hafði til að undirbúa og ganga frá tengingu inn á dreifiveitu HS Veitna hf. var ríflegur.

        Stefndi hafi samkvæmt ákvæðum raforkulaga ákveðinn og afmarkaðan verkahring. Þar að auki beri stefnda að beita því stjórnsýsluvaldi, sem hann er að lögum bær til að fara með, í samræmi við markmið sem honum ber að vinna að lögum samkvæmt. Þau úrræði sem stefnda séu fengin með raforkulögum, sinni eftirlitsskyldir aðilar ekki ábendingum eða fyrirmælum hans, séu tæmandi talin í 26. gr. þeirra. Stefndi hafi neytt þeirra úrræða sem hann hafði í þeim tilgangi að tryggja að raforkudreifing Landsnets hf. og Hitaveitu Suðurnesja hf. samræmdist raforkulögum. Önnur eða vægari úrræði standi stefnda ekki til boða skv. lögum nr. 65/2003.

        Þá beri gögn málsins það ótvírætt með sér að andmælaréttar stefnanda, Furu ehf., var gætt. Jafnvel þótt eitthvað hafi skort á að stefnandi hafi haft þann 44 daga viðbótarfrest sem stefndi veitti honum þann 7. janúar 2010, leiði sá annmarki ekki til ógildingar á ákvörðun stefnda. Stefnanda hafi gefist ýmis tækifæri til að koma að umsókn, upplýsingum og gögnum varðandi framtíðaráform um stóriðjurekstur á lóð sinni til stefnda og Landsnets hf., hefði ætlun hans verið að stunda svo orkufrekan rekstur í fyrirsjáanlegri framtíð. Stefnandi hafi ekki kynnt nein slík áform, þótt stefndi hafi leitað eftir því sérstaklega. Stefnandi, Fura ehf., hafi fengið tækifæri til og hafi komið á framfæri öllum sjónarmiðum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Stefnendur byggi ekki á því að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd raforkumála hafi verið haldin annmörkum og það sé óumdeilt að stefnandi, Fura ehf., naut andmælaréttar fyrir nefndinni.

        Þrátt fyrir að það sé ekki beint hlutverk raforkulaga nr. 65/2003 að vernda samkeppni á öðrum mörkuðum en þeim er lúta að raforku, þá er að mati stefnda eðlilegt að líta til þess hvort beinar tengingar einstakra aðila að flutningskerfi Landsnets hf. raski samkeppni á tilteknum markaði. Að mati stefnda er það óumdeilt að bein tenging notanda inn á flutningskerfi Landsnets hf. felur í sér lægri flutningskostnað rafmagns en tenging í gegnum dreifiveitu. Raforkulög setji mjög skýrar skorður við því hverjum sé heimilt að tengjast beint inn á flutningskerfi Landsnets. Með því að heimila einum aðila slíka beina tengingu en ekki öðrum á sama markaði, sé verið að veita honum ákveðið samkeppnislegt forskot í formi lægri flutningskostnaðar raforku.

        Stefndi mótmælir, sem röngum og órökstuddum, þeim skilningi stefnanda að ákvörðun stefnda frá 24. febrúar 2011 skorti lagastoð. Ákvörðunin beinist að Landsneti hf. og sé tekin á þeim grundvelli að orkuafhending flutningsfyrirtækisins til Furu ehf. samræmist ekki 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Samkvæmt hefðbundinni lögskýringu gildi lagaákvæði frá og með þeim tíma sem það var lögfest. Landsvirkjun, sem þá flutti raforku til Furu ehf., hafi því eingöngu verið heimilt að flytja raforku beint til þeirra aðila sem tilgreindir eru í 2. mgr. 8. gr. í ákvæðinu. Þar sem Fura ehf. sé ekki einn þeirra aðila bar Landsvirkjun að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til félagsins þegar raforkulögin komu til framkvæmda. Ákvörðun stefnda frá 24. febrúar 2010 nái hins vegar ekki til atvika fyrir gildistöku ákvæðisins og því sé ekki unnt að líta svo á að um afturvirkt ákvæði sé að ræða eða afturvirka lögskýringu. Réttarstaða stefnenda ráðist af lögum eins og þau eru hverju sinni. Meginreglan sé sú að nýjum lögum verður beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra.

        Að teknu tillitið til eðlis og tilgangs raforkulaga fær stefndi ekki annað séð en að stefnendur verði að una því að Landsneti hf. hafi borið lagaskylda til að grípa til þeirra aðgerða sem kveðið er á um í ákvörðun stefnda frá 24. febrúar 2010 og að stefnendur verði að hlíta því að raforkulögum sé framfylgt með þessum hætti. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga veiti mönnum ekki rétt til neins sem samrýmist ekki lögum. Engu jafnræði stefnanda hafi verið hallað, hvorki samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga né 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Það sé m.a. hlutverk stefnda að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, enda séu það augljósir almannahagsmunir að jafnræðis sé gætt. Stefndi hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni, þegar hann með erindi, dags. 28. ágúst 2008, vakti athygli stefnda Landsnets hf. og Hitaveitu Suðurnesja hf., nú HS hf., á því að afhending raforku beint frá flutningskerfinu til stefnanda Furu ehf. væri óheimil. Stefnanda, Furu ehf., hafi orðið þessi staðreynd ljós í síðasta lagi á haustdögum 2008 er hann átti í viðræðum við stefnda Landsnet hf. og Hitaveitu Suðurnesja hf. varðandi raforkudreifingu um dreifinet hins síðarnefnda. Því misrétti sem stefnandi naut um nokkurra ára skeið til kaupa á ódýrari raforku umfram samkeppnisaðila sína hafi lokið þegar stefndi Landsnet hf. hætti flutningi ótryggrar raforku til stefnanda, Furu ehf., þann 14. september 2011.

        Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að úrskurður stefnda hafi í för með sér eignatjón fyrir stefnendur. Í fyrsta lagi er því mótmælt sem ósönnuðu að stefnendur séu eigendur heimtaugar þeirrar sem liggur að lóðinni Hringhellu 3 í Hafnarfirði og samanstendur af 132/22kV spenni í Hamranesi og 22 kV strengjum frá Hamranesi að lóðinni. Í annan stað er þeim málsástæðum stefnenda sem grundvallaðar eru á 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar mótmælt. Stefnendur hafi ekki höfðað mál þetta til heimtu skaðabóta né til viðurkenningar á slíkum rétti. Málsástæðum er varða meint brot stefnda gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar séu máli þessu því óviðkomandi. Álitsgerð starfsmanns Mannvits, sbr. dskj. nr. 16, er mótmælt sérstaklega. Það álit sé einhliða, án nokkurrar aðkomu stefnda. Álitið hefur því ekkert sönnunargildi og sé mótmælt sem slíku.

         Verði stefndi sýknaður af aðalkröfu stefnenda, leiði sú niðurstaða til þess að einnig ber að sýkna stefnda af varakröfu stefnenda, enda feli slík dómsniðurstaða í sér viðurkenningu á að ákvörðun stefnda hafi verið lögmæt sem og úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála.

        Þá byggir stefndi á því að það sé sjálfstæð sýknuástæða að raforkusölusamningur milli Furu ehf. og Landsvirkjunar, nú Landsnets hf., sé niður fallinn fyrir uppsögn Landsnets hf. Stefendur geta ekki byggt rétt á samningi sem er fallinn úr gildi. Í bréfi Landsnets hf. til Furu ehf. þann 3. apríl 2009 sé fólgin uppsögn á samningi aðila frá 25. janúar 1993 um milliliðalaus raforkuviðskipti. Uppsögnin hafi verið áréttuð í tölvupósti stefnda Landsnets hf. til Furu ehf. þann 25. febrúar 2010 og í bréfi Landsnets hf. til Furu ehf. 3. maí 2011. Óumdeilt sé að Landsnet hf. hætti milliliðalausri raforkuafhendingu til Furu ehf. frá og með 14. september 2011. Samningurinn frá 25. janúar 1993 hafi þá fallið endanlega úr gildi. Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af varakröfu stefnenda.

        Bæði 2. mgr. 8. gr. raforkulaga og samningsskilmálar Landsnets hf. standi því í vegi að gerður verði nýr þjónustusamningur um sölu á ótryggu rafmagni til stefnenda, hvort sem er saman eða sitt í hvoru lagi, á meðan þeir uppfylla ekki þar til greind skilyrði. Þá feli samningsgerð Furu ehf. frá 15. september 2011 við HS Veitur hf., um leigu á rafmagnsdreifikerfi Furu ehf., í sér ráðstöfun á sakarefninu, enda sé í þeim samningi fólgin viðurkenning í verki á því að samningurinn frá 25. janúar 1993 sé fallinn úr gildi. Uppskipti Furu ehf. í rekstrarfélag og eignarhaldsfélag hafi farið fram eftir að atvik þessa máls áttu sér stað og að gengnum úrskurði í kærumálinu. Sameiginleg yfirlýsing stefnenda frá 18. september 2013, sbr. dskj. nr. 27, gefi til kynna að auk rafmagnsdreifikerfisins telji Bjallaból ehf. nú til meintra réttinda Furu ehf. samkvæmt raforkusölusamningi frá 25. janúar 1993. Sá samningur hafi ekki að geyma neina heimild til kaupanda raforku til að framselja rétt sinn til annars aðila, án samþykkis seljanda raforkunnar. Alkunna sé að raforkusölusamningar eru ekki framseljanlegir. Við aðilaskipti þjónustusamninga um kaup á raforku sé gerður nýr samningur við nýja kaupandann og viðskipti samkvæmt eldri samningi gerð upp.

        Í stefnu sé tekið fram á bls. 4 að stefnendur hafi þann 7. október 2013 gert með sér leigusamning þar sem Fura ehf. leigir lóðina ásamt mannvirkjum og margnefndum rafmagnsbúnaði tengdum flutningskerfi Landsnets hf. til 12 ára með kauprétti Furu ehf. í lok leigutímans. Af því tilefni vill stefndi halda því til haga að stefnandi Bjallaból ehf. sé hvorki dreifiveita í skilningi 2. tl. 3. gr. raforkulaga né flutningsfyrirtæki í skilningi III. kafla laganna. Fær stefndi því vart séð að meint leiga stefnanda Bjallabóls ehf. á spenni og heimtaug til Furu ehf. samræmist raforkulögum.

          Stefnendur gera engar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Af þeim sökum gerir réttargæslustefndi ekki neinar kröfur á hendur stefnendum, aðrar en málskostnaðarkröfu.

Málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf.

        Varðandi sýknukröfu mótmælir stefndi því að úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012 skorti lagastoð. Því er einnig mótmælt að réttarsambandi aðila hafi verið raskað með ólögmætum afturvirkum hætti.

         Stefndi byggir á því að 4. gr. laga nr. 89/2004, um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, gildi frá og með þeim tíma sem það lagaákvæði var lögfest og að honum hafi verið óheimilt að veita raforku beint til annarra aðila en sérstaklega var heimilt samkvæmt raforkulögum hverju sinni.

         Stefndi vísar til þess að í 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sé mælt fyrir um hverjir geti verið viðskiptavinir Landsnets, en það séu samkvæmt ákvæðinu dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur. Breyting var gerð á ákvæðinu með lögum nr. 19/2011 þannig að einnig þeir aðilar sem hafa leyfi samkvæmt lögum þessum til að stunda viðskipti með raforku geta verið viðskiptavinir stefnda. Þessi breyting hefur ekki áhrif í því máli sem hér er fjallað um þar sem hún tók gildi á árinu 2011. Fyrir liggi að stefnendur eru hvorki handhafi virkjunarleyfis né leyfis til að reka dreifiveitu. Samkvæmt þágildandi 17. tölul. 3. gr. raforkulaga hafi hugtakið stórnotandi verið skilgreint sem notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira. Stefnendur hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem gerð voru til að teljast stórnotandi og ekkert liggi fyrir um að hann uppfylli skilgreiningu stórnotanda í núgildandi ákvæði raforkulaga.

        Framangreindar breytingar á raforkulögum hafi ekki haft afturvirk áhrif í þeim skilningi að þau næðu til raforkuafhendingar sem hafði átt sér stað fyrir gildistöku þeirra. Ákvörðun Orkustofnunar frá 24. febrúar 2010 sem staðfest hefði verið með úrskurði úrskurðarnefndar raforkumála hafi ekki heldur tekið til atvika fyrir gildistöku fyrrnefndra breytinga á raforkulögum.

        Stefndi byggir á þeirri meginreglu að réttarstaða aðila ákvarðast af lögum eins og þau eru hverju sinni, þótt upphaf samskipta aðila megi rekja til eldri laga. Telur stefndi þannig að hendur löggjafans séu ekki bundnar með þeim hætti að ekki sé unnt að breyta lögum þannig að áhrif hafi á þá skipan mála sem verið hefur í gildistíð eldri laga. Stefndi telur því óhjákvæmilegt að ný lög geti að einhverju leyti breytt réttarstöðu sem menn hafa notið samkvæmt eldri lögum. Leggur stefndi áherslu á að með hinu breytta lagaákvæði raforkulaga hafi verið horft til framtíðarskipunar er varðaði varanleika réttarsambands aðila en ekki mótunarferli samningsins í tíð eldri laga.  

        Stefndi hafnar því að í þeim tilvikum þegar löggjöf leiðir til missis réttinda af einhverju tagi skuli viðkomandi engu að síður halda þeim réttindum óbreyttum. Stefndi telur ljóst að löggjafinn hafi heimild til þess að banna með nýjum lögum athafnir sem löglegar hafa verið samkvæmt eldri lögum. Í 4. gr. laga nr. 89/2004, sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, hafi og verið skýrt kveðið á um það til hverra milliliðalaus afhending raforku var einskorðuð með setningu þess lagaákvæðis.

        Þá hafnar stefndi því sem röngu og ósönnuðu að 4. gr. laga nr. 89/2004 hafi verið sett stefnendum sérstaklega til höfuðs. Lagaákvæðið sé almenns eðlis og stuðli að því að jafnvægi náist á mikilvægum samkeppnismörkuðum til framtíðar. Stefndi telur að stefnendur hafi haft nægan tíma til að átta sig á því að milliliðalaus afhending raforku til þeirra var bönnuð enda liðu um fjögur ár þar til Orkustofnun aðhafðist um að framfylgja breytingarlögunum. Stefndi byggir á því að óumdeilanlegt sé að stefnendur hefðu þurft að sætta sig við að missa rétt sinn samkvæmt ákvörðun stefnda og í samræmi við uppsagnarákvæði 13. gr. samningsins frá 1993. Þau réttaráhrif sem framfylgni 4. gr. laga nr. 89/2004 hafði komu fram á mun lengri tíma en þeim 6 mánuðum sem uppsagnarfrestur samningsins nam. Af þeim sökum sé því mótmælt að lagabreytingin geti ekki samrýmst þeim ætluðu væntingum sem stefnandi, Fura ehf., gat byggt á samningnum.

        Til viðbótar við framangreint er því hafnað sem röngu að stefnendur hafi getað lagt þann skilning í samning aðila að hann væri yfir allt annað hafinn og hvers konar breytingar á lögum eða skipan raforkumála á Íslandi gætu ekki varðað hann. Orkumál á Íslandi hafa á undanförnum árum verið í nokkurri þróun. Í samræmi við það hafi löggjöfin verið að breytast. Annað verði ekki séð en að á þessu sviði megi vænta nokkurrar íhlutunar um samninga sem verði að telja til viðskiptaáhættu fyrir alla þá sem stunda viðskipti á þessu sviði. Stefndi telur því ljóst að gera verði kröfur til þessara aðila um að þeir séu tilbúnir til að bregðast við slíkum breytingum.

        Á grundvelli framangreinds byggir stefndi á því að sér hafi ekki verið stætt á öðru en að fara eftir ákvæðum raforkulaga og tilmælum yfirvalda en ekki ósamrýmanlegum samningsákvæðum. Stefndi hafi fylgt lögum og þeim stjórnvaldsákvörðunum sem að honum var beint enda voru þær lögmætar. Sökum þessa beri að sýkna stefnda af kröfu stefnenda.

        Þá byggir stefndi á því að þau sjónarmið sem rakin voru vegna aðalkröfu stefnda hér að framan leiði til sýknu af varakröfu stefnenda verði málinu ekki vísað frá dómi. Þar sem samningur aðila er fallinn úr gildi sé engin stoð fyrir kröfu stefnenda um að fá afhenta raforku milliliðalaust frá stefnda Landsneti hf. enda verði ekki mælt fyrir um það með dómi að samningssamband sem úr gildi er fallið á grundvelli lögmætrar uppsagnar skuli rakna við gegn vilja aðila.

        Loks hafnar stefndi því sem ósönnuðu að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Byggir stefndi á því að álitsgerð sem stefnendur hafa lagt fram, og var einhliða aflað, hafi ekkert sönnunargildi í málinu.

        Krafa stefnda um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

        Stefndi reisir kröfur sínar meðal annars á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum og ákvæðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, allt eins og nánar er tilgreint í greinargerð stefnda.

Niðurstaða

        Sakarefnið í máli þessu lýtur aðallega að því hvort stefnandi Fura ehf. eigi rétt á að kaupa raforku milliliðalaust frá stefnda Landsneti. Stefnendur byggja kröfu sína, um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar raforkumála frá 29. ágúst 2012 í máli nr. 2/2012, á því að hann skorti lagastoð. Ekki er byggt á því af hálfu stefnenda að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd raforkumála hafi verið haldin annmörkum.

        Með setningu raforkulaga nr. 65/2003 var kveðið á um nýskipan raforkumála og raforkusölu og tóku þau til framleiðslu, sölu, dreifingar og flutnings á raforku. Lögin voru sett til að uppfylla skyldur íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um innleiðingu í landsrétt reglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Lögin tóku gildi 7. apríl 2003, en komu til framkvæmda 1. júlí það sama ár. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII við lögin var gildistöku III. kafla laganna sem fjallar um flutning raforku frestað til 1. júlí 2004. Lög um stofnun Landsnets hf. tóku gildi þann 18. júní 2004. Þessi nýskipan hafði í för með breytingar á réttindum og skyldum þeirra sem lögin taka til.

        Í 2. mgr. 8. gr. laganna er mælt skýrt fyrir um það hverjir geti verið viðskiptavinir Landsnets hf., en þar segir að það séu dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur. Breyting sem gerð var með lögum nr. 19/2011 hefur ekki þýðingu í máli þessu. Samkvæmt þágildandi 17. tölulið 3. gr. raforkulaga var stórnotandi skilgreindur sem notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14MW með árlegum nýtingartíma eða meira. Óumdeilt er að stefnendur uppfylla ekki skilyrði til að teljast stórnotandi, hvorki þá eða í núgildandi ákvæði orkulaga. Stefnendur byggja hins vegar á því að 4. gr. laga nr. 89/2004, um breytingu á orkulögum, hafi verið afturvirk og haft íþyngjandi áhrif gagnvart sér og komið í veg fyrir áframhaldandi viðskipti stefnanda við stefnda Landsnet hf.

        Litið hefur verið svo á við lagaskil að nýjum lögum skuli eftir gildistöku beitt um öll lögskipti sem undir ákvæði þeirra falla þótt til þeirra hafi verið stofnað áður en lögin tóku gildi, sama eigi við um réttarstöðu aðila að öðru leyti. Meginreglan sé sú að réttarstaðan ákvarðist af lögum eins og þau eru á hverjum tíma, en afturvirkni laga eru veruleg takmörk sett. Við skýringu á tengslum eldri og yngri laga ræður úrslitum hvort yngri lög taki til réttarsambandsins meðan það er að mótast og verið að stofna til þess eða þegar réttarsambandið er komið í endanlegt horf. Talið er að með yngri lögum verði ekki hróflað við sjálfu mótunarferlinu í tíð eldri laga, heldur eingöngu við þeirri skipan mála sem gerð hefur verið með stoð í eldri lögum og ætlunin er að standi til framtíðar. Þannig hafi löggjafinn rýmri heimildir til að setja ný lög sem ráði efni réttinda og lögskipta sem varanleg skipan er komin á.

          Í 24. gr. raforkulaga er kveðið á um að Orkustofnun skuli hafa eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa samkvæmt lögunum fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögunum, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samningi skv. 8. gr. og öðrum heimildum. Í 26. gr. laganna er mælt fyrir um úrræði Orkustofnunar ef hún telur að eftirlitsskyld starfsemi samræmist ekki skilyrðum laganna. Eftirlit stefnda Orkustofnunar tekur til fyrirtækja sem framleiða og dreifa raforku. Stefndi Orkustofnun var því að fara að lögum er hún tilkynnti aðilum, þann 24. febrúar 2010, að stefndi Landsnet hf. léti af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda Furu ehf. Telja verður að ákvörðun stefnda hafi stefnt að lögmætu markmiði sem er að raforkudreifing væri í samræmi við það sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. raforkulaga. Lagaákvæðið er almenns eðlis og skýrt kveðið á um til hverra milliliðalaus afhending raforku væri einskorðuð við samkvæmt lagaákvæðinu. Með setningu laga nr. 89/2004 ákvað löggjafinn, með tilliti til almannahagsmuna, að breyta þeirri tilhögun sem verið hafði varðandi það hverjir væru skilgreindir notendur raforku sem mættu kaupa hana beint af landsneti. Lögin voru almenns eðlis og gættu jafnræðis. Stefnandi Fura ehf. þarf því að sæta því að hin nýju lög taki til réttarstöðu hans og þau hafi í för með sér breytingu á fyrirkomulagi raforkusölu til hans í samræmi við þau lög sem í gildi voru á þeim tíma sem samningur var gerður.

        Til þess er að líta að milliliðalaus kaup stefnanda Furu ehf. samkvæmt samningi, dags. 25. janúar 1993, við Landsvirkjun og síðar stefnda Landsnet hf., var uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara. Þá var í samningi aðila gert ráð fyrir áætlaðri orkunotkun sem varð aftur mun minni en ráðgert hafi verið. Stefnanda, Furu ehf., mátti vera ljóst eftir að raforkulög nr. 65/2003 komu til framkvæmda í júlí 2003 að samningurinn væri ósamrýmanlegur ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laganna. Þá kom fram í nýjum almennum skilmálum Landsvirkjunar um flutning og dreifingu ótryggðs rafmagns að skilmálar taki mið af breyttri skipan raforkumála, sbr. l. 65/2003 með síðari breytingum. Þetta, ásamt skilmálum Landsnets hf. um afhendingu rafmagns til stórnotenda, sem tóku gildi 1. júlí 2010, þar sem ekið er fram í grein 3.3 að uppfylli stórnotandi ekki skilyrði raforkulaga um notkun og nýtingartíma á einum stað beri honum að flytja viðskipti sín til dreifiveitu innan mánaðar, hafi átt að gera stefnanda ljóst að forsendur samningsins voru brostnar. Því verður ekki fallist á að stefnendur hafi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að samningurinn myndi standa óhaggaður til framtíðar.

        Talið er að sú meginregla gildi að réttarstaða aðila ákvarðist af lögum eins og þau eru á hverjum tíma þótt upphaf samskipta aðila megi rekja til eldri laga. Ekki verður talið að hendur löggjafans séu bundnar þannig að ný lög geti ekki breytt réttarstöðu sem menn höfðu samkvæmt eldri lögum. Með breyttum ákvæðum raforkulaga var horft til framtíðarskipanar raforkumála og telja verður að löggjafinn hafi haft heimild til að mæla fyrir um það hvernig afhendingu raforku til stórnotenda yrði háttað í framtíðinni og hverjir væru skilgreindir sem slíkir. Réttaráhrif sem leiddu af því að framfylgt væri fyrirmælum 4. gr. laga nr. 89/2004, sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003, komu fram á lengri tíma en sem nam 6 mánaða uppsagnarfresti skv. 13. gr. samningsins frá 1993.

        Ekki verður fallist á að framangreindar breytingar á raforkulögum hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum stefnenda og falið í sér ólögmæta afturvirkni. Ekki verður fallist á að stefnendur hafi ekki notið jafnréttis þar sem það var lögbundin eftirlitsskylda stefnda Orkustofnunar að vekja athygli stefnda Landsnets hf. og Hitaveitu Suðurnesja hf., nú HS Veitna hf., á því að afhending raforku beint frá flutningskerfinu til stefnanda, Furu ehf., væri óheimil. Þá verður ekki fallist á að meðalhófs hafi ekki verið gætt skv. ákvæðum 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að stefnanda, Furu ehf., var veittur rúmur tími til samninga og til að tengjast dreifiveitu HS Veitna hf. Þá liðu eitt og hálft ár frá því stefnda Orkustofnun gerði fyrst athugasemd við Landsnet hf. og beitti úrræðum sínum gagnvart Landsneti hf.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnenda.

        Varðandi varakröfu stefnenda þá kom fram í tölvupósti Garðars Lárussonar, viðskiptastjóra stefnda Landsnets hf., að samkvæmt kröfu Orkustofnunar muni Landsnet rjúfa afhendingu á raforku til Furu ehf. frá og með 1. mars n.k. Þá liggur fyrir að með bréfi stefnda, Landsnets hf., til stefnanda, Furu ehf., þann 3. maí 2011 með tilvísun til úrskurðar iðnaðarráðuneytisins, dags. 14. mars 2011, um að fyrirtækinu væri óheimilt að afhenda raforku beint og Landsneti hf. bæri að láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til fyrirtækisins að viðlögðum dagsektum frá 14. september 2011. Í bréfinu segir síðan að þakkað sé fyrir viðskiptin og flutningur til fyrirtækisins um núverandi tengingu verði stöðvaður þann 14. september 2011. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að samningurinn hafi fallið úr gildi 14. september 2011. Ekki verður því fallist á varakröfu stefnenda. Með vísan til þessa og niðurstöðu varðandi aðalkröfu verður ekki fallist á varakröfu stefnenda og því ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda.

        Að fenginni þessari niður stöðu ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu málskostnað með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá ber að dæma stefnendur til að greiða réttargæslustefnda málskostnað. Málskostnaður til stefndu og réttargæslustefnda telst hæfilegur eins og kveðið er á um í dómsorði.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Stefndu, Orkustofnun og Landsnet hf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Bjallabóls ehf. og Furu ehf.

        Stefnandi, Bjallaból ehf., greiði stefndu hvorum um sig 400.000 kr. í málskostnað og réttargæslustefnda íslenska ríkinu 200.000 kr í málskostnað.

         Stefnandi, Fura ehf., greiði stefndu hvorum um sig 400.000 kr. í málskostnað og réttargæslustefnda íslenska ríkinu 200.000 kr. í málskostnað.