Print

Mál nr. 240/2017

T.E. ehf. (Jóhannes Helgi Einarsson fyrirsvarsmaður)
gegn
Virðingu hf. (Unnar Steinn Bjarndal hrl.), Reykjavíkurborg, Orkuveit Reykjavíkur-vatns sf., Tryggingamiðstöðinni hf. og Húsfélaginu Glæsibæ (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli T ehf. á hendur V hf. o.fl. var vísað frá dómi með vísan til þess að sá tímafrestur sem fram kæmi í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, hefði verið liðinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Virðing hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Virðingu hf., kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, T.E. ehf., greiði varnaraðila, Virðingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2017.

I

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 8. mars 2016, barst dóminum með bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu og mótteknu 25. nóvember 2016.

Sóknaraðili, T.E. ehf., Síðumúla 12, Reykjavík, krefst þess að nauðungarsala á hluta fasteignar við Álfheima 17, Reykjavík, sem fram fór 27. október 2016 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, verði felld úr gildi eða ógilt. Sóknaraðili byggir aðild sína að málinu á 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu en hann var þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar þegar salan fór fram.

Varnaraðilinn Virðing hf., krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðilinn Húsfélagið Glæsibæ sótti þing við þingfestingu málsins. Hann lýsti því yfir að hann myndi ekki skila greinargerð en tæki undir kröfur varnaraðilans Virðingar hf.

Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa varnaraðilans Virðingar hf. um frávísun málsins. Sóknaraðili mótmælir frávísun og krefst málskostnaðar.

II

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Varnaraðili vísar til þess að vafi sé um hvernig telja eigi daga í lögbundum fresti, sbr. framangreint ákvæði laga nr. 90/1991. Þá bendir varnaraðili á að sú skylda hvíli á dómara að vísa málinu frá að eigin frumkvæði, sbr., 1. mgr. 82. gr. sömu laga, telji hann skilyrðum til að leita úrslausnar dómsins ekki fullnægt. Hafi dómari því þegar tekið ákvörðun um að vísa málinu ekki frá.

III

Niðurstaða:

Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, er m.a. kveðið á um að þegar tilboði hefur verið tekið í eign skv. VI. kafla laganna geti hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar, en krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því fyrrgreinda tímamarki sem á við hverju sinni. Í 2. mgr. sama ákvæðis er kveðið á um að þegar frestur skv. 1. mgr. er liðinn verði því aðeins leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu að það sé samþykkt af hendi allra aðila að henni, sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni ef um hann er að ræða. 

Hinn 27. október 2016 tók sýslumaður tilboði varnaraðilans Virðingar ehf., við framhald uppboðs, í hluta fasteignarinnar við Álfheima 74, Reykjavík. Beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins barst 25. nóvember sama ár. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur til að kæra ákvörðun sýslumanns samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991. Ekki liggur fyrir samþykki af hendi allra aðila að nauðungarsölunni, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.

Hvað varðar þá málsástæðu sóknaraðila, að þar sem dómari hafi ekki vísað málinu frá af sjálfsdáðum sé hann bundinn við þá ákvörðun sína, er til þess að líta að samkvæmt 5. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991, er dómara heimilt að breyta ákvörðun sinni um atriði sem varða rekstur máls. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á þessa málsástæðu sóknaraðila. Samkvæmt framangreindu verður að vísa málinu frá dómi.

Sóknaraðili verður ber að dæma varnaraðila, Virðingu hf., 250.000 kr. í málskostnað

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Sóknaraðili, T.E. ehf., greiði varnaraðila, Virðingu hf., 250.000 krónur í málskostnað.