Print

Mál nr. 808/2017

A (Sigmundur Hannesson lögmaður)
gegn
B (Magnús M. Norðdahl lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Hafði C ásamt eiginmanni sínum arfleitt A að nánar tilgreindum eignum en A og B voru bæði lögerfingjar C. Fyrir lá í málinu að A hafði verið veitt leyfi til einkaskipta á búinu á grundvelli erfðaskrárinnar. Talið var að af gögnum málsins um framvindu skiptanna yrði ráðið að einkaskiptum á búinu væri ekki lokið. Þá gæti vafi eða ágreiningur um arfstilkall samkvæmt erfðaskránni ekki girt fyrir heimild erfingja til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi arfleiðanda á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2017 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild var í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki verður séð að C hafi setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn D, en þau voru bæði barnlaus. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 6. desember 2017

Mál þetta barst dóminum með beiðni 13. mars 2017 og var þingfest 19. maí 2017. Sóknaraðili er B, til heimilis í [...], en varnaraðili er A, [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess að fram fari opinber skipti á dánarbúi C, kt. [...], sem síðast var skráð með lögheimili að [...] í [...] og lést þann  [...]. nóvember 2016. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Verði ekki fallist á málskostnaðarkröfu varnaraðila krefst hún þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 9. nóvember sl.

I

Málavextir

Málsaðilar eru bræðrabörn C sem var fædd [...] 1920 og lést [...] 2016. Hún var síðast með lögheimili að [...] í [...] en síðasta dvalarstað að [...] í [...]. C sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn D, kt. [...], sem lést [...] 2011.

Helstu eignir búsins munu vera sumarbústaður í [...] í [...], óbyggð lóð í [...], annað land í [...] og eyðijörðin [...] í sama hreppi. Búið mun ekki vera með neinar skuldir en fjármunir bundnir í verðbréfum og á bankareikningum.

C og D gerðu með sér erfðaskrá 2. mars 2000. Með henni arfleiddu þau varnaraðila, bróðurdóttur C, að sumarbústaðnum „[...]“ í landi [...] í [...], ásamt tveimur geymslum og 25% af óskiptri jörðinni [...] sem nánar er lýst í erfðaskránni. Þá sagði að það væri einlægur vilji arfleiðanda að eignir þessar héldust í eign ættar C. Erfðaskráin er undirrituð af þeim hjónum og undir arfleiðsluvottorð rita tveir vitundarvottar, lögmaður varnaraðila og E, kt. [...].

Hinn 15. mars 2003 gerðu þau með sér aðra erfðaskrá sem fól í sér breytingu á þeirri fyrri sem féll úr gildi í heild sinni. Með hinni nýju erfðaskrá skyldi varnaraðili, auk sumarbústaðarins og 25% af óskiptri jörðinni [...] í [...], nú einnig erfa fasteign að [...] í [...], þ.e. 97,7 fermetra íbúð á 2. hæð auk 27,9% í lóð auk bílskúrs. Einnig skyldi hún erfa bifreiðina [...], [...] auk alls innbús, peninga og verðbréfa. Þá sagði að allt sem varnaraðili erfði samkvæmt erfðaskránni skyldi vera séreign hennar og utan hjúskapareignar hennar. Á sama hátt skyldi andvirði það sem kæmi í stað arfs sem háður væri framangreindum skilyrðum einnig vera séreign viðkomandi niðja. Erfðaskráin er undirrituð af þeim hjónum og undir arfleiðsluvottorð rita áðurnefndir tveir vitundarvottar.

Orðin „peninga/verðbr.“ eru handskrifuð inn á erfðaskrána og við þá breytingu eru upphafsstafir þeirra hjóna, auk vitundarvottanna tveggja.

C og D gerðu viðauka við erfðaskrána frá 15. október 2003 þann 29. ágúst 2008. Þar sagði að erfingja þeirra hjóna, þ.e. varnaraðila, væri „óheimilt að ráðstafa (þ. á m. lána – leigja – afsala - selja eða gefa), þeim eignum sem hún erfir eftir okkur nema með skriflegu samþykki dætra sinna“ sem þar eru svo nafngreindar. Arfleiðendur undirrita viðaukann og vitundarvottar eru þeir sömu og áður.

Varnaraðili óskaði eftir leyfi til einkaskipta hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og afhenti jafnframt erfðafjárskýrslu sem hún hafði útbúið. Var beiðnin móttekin var af sýslumanni 12. janúar 2017. Sýslumaður staðfesti útgáfu leyfis til einkaskipta til handa varnaraðila [...]. febrúar 2017.

Sýslumaður mun á hinn bóginn hafa gert athugasemdir við innsenda erfðafjárskýrslu þar sem ekki hefði verið gerð grein fyrir söluhagnaði vegna sölu á fasteign að [...], sumarbústað með fastanúmer [...] auk þess sem ekki höfðu verið lögð fram yfirlit um stöðu bankareikninga á dánardegi hinnar látnu. Lögmaður varnaraðila sendi sýslumanni skýringar sínar með bréfi 27. mars 2017. Í tölvubréfi  starfsmanns sýslumannsembættisins kemur fram að hún hafi farið yfir gögnin og skýrslu sem lögð hafi verið fram sem drög. Hún geti hins vegar ekki leiðrétt upphaflegu skýrsluna svona mikið og því sé óskað eftir að lögð verði fram undirrituð skýrsla sem sé eins og drögin. Í tölvubréfi lögmanns varnaraðila segir að hann muni hlutast til um að ganga frá skiptum f.h. varnaraðila á grundvelli erfðafjárskýrslunnar sem embættinu hafi verið send og að hann fengi „að vera í sambandi við þig varðandi staðfestingu erfðafjárskýrslunnar og skiptalok“.

Í málinu liggja fyrir drög að leiðréttri erfðafjárskýrslu sem dagsett er 4. apríl 2017 en hún er ekki með móttökustimpil sýslumannsembættisins.

Í beðni sóknaraðila kemur fram að hann telji verulegan vafa vera um gildi erfðaskrárinnar frá 2003. Hafi hann reynt að ná samkomulagi við varnaraðila um skipti á dánarbúinu en þær tilraunir hafi reynst árangurslausar. Sýslumaður hafi veitt varnaraðila leyfi til einkaskipta 27. febrúar 2017 á grundvelli erfðaskrárinnar og viðaukans við hana. Skiptum á búinu sé hins vegar ekki lokið. Varnaraðili hafi hafnað beiðni sóknaraðila um skiptingu á arfi úr dánarbúi C og sóknaraðila sé því nauðugur sá kostur að krefjast opinberra skipta samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Fram kemur í beiðni sóknaraðila til dómsins að eftir andlát C hafi komið í ljós að hún og D höfðu skilið eftir sig erfðaskrár, eina frá árinu 2000, aðra frá árinu 2003 auk viðauka við þá síðari frá árinu 2008. Með þessum gerningum hafi varnaraðili erft allar eigur þeirra hjóna. Sóknaraðili dregur gildi þessara gerninga í efa.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt ákvæðinu sé erfingjum mæltur skilyrðislaus réttur til að krefjast opinberra skipta svo lengi sem skiptum hefur ekki þegar verið lokið vegna eignaleysis dánarbúsins eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi. Sóknaraðili og varnaraðili séu bæði lögerfingjar C og fyrir liggi ósamkomulag þeirra í milli. Sóknaraðili telur að þau réttindi sem varnaraðila voru fengin samkvæmt einkaskiptaleyfinu séu vefengjanleg. Ljóst sé að sóknaraðila sé játuð heimild til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi C samkvæmt áðurnefndu ákvæði óháð því hvort varnaraðila hafi verið veitt leyfi til einkaskipta.

Í fyrsta lagi kveðst sóknaraðili byggja á því að erfðaskráin sem hafi verið grundvöllur þess að varnaraðila var veitt leyfi til einkaskipta sé ógild þar sem C hafi vegna elliglapa ekki skilið hvað hún var að skrifa undir. Samkvæmt 38. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé erfðaskrá ógild starfi erfðaskrárákvæði af misskilningi arfleiðanda. Sterkar vísbendingar séu um að erfðaskráin hafi ekki að geyma réttan vilja C. Því til stuðnings bendir sóknaraðili á að það hafi ætíð verið einlæg og skýr krafa C að jörðin [...] í [...] skyldi vera í eign ættar C eftir hennar dag og komi sú krafa skýrlega fram í erfðaskránni frá 2000. Í erfðaskránni frá 2003 og viðaukanum frá 2008 hafi verið búið að taka út þessa einlægu ósk hennar. Þeir sem þekktu til C vissu að hún hefði aldrei skrifað undir slíkan gjörning nema að tryggt væri að jörðin væri áfram í eigu ættar hennar. Það megi færa fyrir því sterk rök að C hafi vegna elliglapa ekki gert sér grein fyrir hvað hún var að skrifa undir á þessum tíma. Sé erfðaskráin því ógild samkvæmt 38. gr. erfðalaga. Við þetta megi einnig bæta að D, eiginmaður C, var orðinn nær alveg heyrnarlaus og blindur á þeim tíma er erfðaskráin og viðaukar við hana voru gerðir. Veki það upp miklar efasemdir um að hann hafi getað skrifað undir erfðaskrána og viðauka við hana. Undirskrift hans undir erfðaskrána beri það með sér að hún kunni að vera afrituð. Þessi atriði þarfnist skoðunar rithandarsérfræðings svo gangi megi úr skugga um að undirskrift D sé rétt.

Í öðru lagi sé handskrifuð viðbót inn á erfðaskrána ekki nægileg heimild til handa varnaraðila um að erfa allt reiðufé og bankainnistæður C. Það sé rótgróin meginregla erfðaréttar að erfðaskrá geti ekki talist bindandi nema hún beri með sér að um fullnaðarákvörðun sé að ræða. Handskrifaður texti geti á engan hátt talist bera það með sér að það hafi verið skýr vilji C og D að arfleiða varnaraðila bæði að öllu reiðufé og bankainnistæðum. Í því samhengi skuli það tekið fram að skilningur manna á hugtakinu „peningur“ sé misjafn. Til að mynda séu margir af kynslóð C og D þeirrar skoðunar að hugtakið „peningur“ sé mynt eða peningaseðill. Það sé því vel hugsanlegt að þeirra vilji hafi verið að varnaraðili skyldi erfa það skotsilfur og reiðufé sem til var við andlát þeirra, en bankainnistæðum skyldi verða skipt með jöfnum hætti milli erfingja. Hafi erfðaskráin átt að ná yfir bankainnistæður hefði þurft að tilgreina það með skýrum hætti og tilgreina hvert og eitt reikningsnúmer. Slíkt komi ekki fram í erfðaskránni eða viðaukum við hana. Við þetta megi bæta að handskrifaða viðbótin uppfyllir ekki formskilyrði 40. og 42. gr. erfðalaga. Enga dagsetningu sé að finna hjá viðbótinni og því ómögulegt að sjá hvenær C og D undirrituðu hana, sbr. 3. mgr. 42. gr. erfðalaga. Þá sé ekki að finna neitt um að þau hafi ritað undir þetta heil heilsu andlega, sbr. 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Því geti þessi handskrifaða viðbót ekki verið nægileg heimild til handa varnaraðila um að erfa allt reiðufé og bankainnistæður C. Sé því nauðsynlegt að taka dánarbúið til opinberra skipta svo tryggt sé að bankainnistæðum verði skipt jafnt.

Af framangreindu sé ljóst að sóknaraðili hafi ríka ástæðu til að ætla að gengið verði fram hjá réttindum hans verði dánarbúið ekki tekið til opinberra skipta. Mikilvægt sé að skiptastjóri verði skipaður sem fyrst. Djúpstæður ágreiningur sé nú þegar til staðar og borin von að einkaskipti geti farið fram í sátt.

Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og erfðalaga nr. 8/1962. Krafan um málskostnað byggist á 129. gr., 1. mgr. 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Er á því byggt að skiptum á dánarbúi C hafi lokið áður en varnaraðila var kunnugt um fram komna beiðni/kröfu sóknaraðila um opinber skipti. Varnaraðili hafi upphaflega skilað erfðafjárskýrslu til sýslumanns 12. janúar 2017. Hún hafi fengið staðfestingu á útgáfu leyfis til einkaskipta 27. febrúar 2017 jafnframt því að fá frest til 27. mars 2017 til þess að skila skriflegum skýringum vegna athugasemda sýslumanns. Lögmaður varnaraðila hafi skilað sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu staðfestri erfðafjárskýrslu 4. apríl 2017, þ.e. um mánuði áður en varnaraðili fékk boðun um fyrirtöku í héraðsdómi 4. maí 2017. Með öðrum orðum skiptum í dánarbúinu lauk áður en varnaraðili fékk vitneskju um beiðni/kröfu sóknaraðila um opinber skipti á búinu í maí 2017. Skilyrði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 til þess að krefjast opinberra skipta séu því ekki fyrir hendi í málinu og því beri að hafna kröfunni þegar af þeirri ástæðu.

Verði ekki á þetta fallist er á því byggt að við skipti á dánarbúi beri að leggja erfðaskrá C og D frá 15. október 2003 og viðauka við hana frá 29. ágúst 2008 til grundvallar við skiptin og hafna kröfu sóknaraðila um opinber skipti.

Hvað málatilbúnað sóknaraðila varðar tekur varnaraðili fram að hann slái fram staðhæfingum um „elliglöp“ C og að D hafi verið „nær heyrnarlaus og blindur“ og fullyrðingum án frekari rökstuðnings og gagna til þess að staðreyna þær. Sóknaraðili leggi ekki fram nein læknisfræðileg gögn í málinu um heilsufar þeirra C og D til þess að renna einhverjum stoðum undir fullyrðingar sínar.

Þá veitist lögmaður sóknaraðila ómaklega að lögmanni varnaraðila þar sem gefið sé í skyn að D hafi verið „nær heyrnarlaus og blindur“ er erfðaskráin var gerð og að undirskrift hans beri með sér að hún sé „afrituð eða fölsuð“ eða afritun á undirritun D hafi átt sér stað. Þessu haldi lögmaðurinn fram þrátt fyrir skýringar lögmanns varnaraðila. Þessar aðdróttanir séu ósmekklegar og tilhæfulausar með öllu og brjóti gegn meginreglum í siðareglum lögmanna. Þá sé vakin athygli á því að lögmaður sóknaraðila hafi ekki aflað rithandarrannsókna til þess að staðreyna þessar aðdróttanir sínar. Sé hugleiðingum lögmanns sóknaraðila um undirritun votta að erfðaskrá mótmælt sem röngum og tilhæfulausum.

Erfðagerningarnir beri með sér að lögmaður varnaraðila hafi samið texta þeirra í samræmi við eindregnar óskir þeirra. Þau hafi komið á skrifstofu lögmannsins til þess að undirrita erfðaskrána 2. mars 2000 en erfðaskráin frá 2003 og viðaukinn frá 29. ágúst 2008 hafi verið undirrituð að heimili þeirra að [...] í [...]. Lögmaður varnaraðila og ritari hans hafi verið arfleiðsluvottar að þessum erfðagerningum.

Lögmaður varnaraðila hafi útskýrt í bréfi til lögmanns varnaraðila að þau C og D hafi leitað til hans um gerð erfðaskrár. Þau kváðu bæði að erfðaskrár geymdu hinsta vilja sinn. Þau hafi gert það heil heilsu, andlega og líkamlega, allsgáð og af fúsum og frjálsum vilja eftir að texti viðkomandi erfðaskrár hafði verið lesinn upphátt fyrir þau.

Hvorki verði á það fallist að vafi sé á gildi erfðaskrárinnar frá 15. október 2003 né að einlægur og skýr arfleiðsluvilji þeirra hjóna kunni að ganga á svig við sanngirnis- og réttlætissjónarmið. Erfðaskrána og viðauka við hana beri að leggja til grundvallar við skipti á dánarbúi C og D.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 38 gr. þeirra. Krafan um málskostnað byggist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um álag á málskostnað byggist á 131. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu hefur sóknaraðili krafist opinberra skipta á búi C sem lést [...] 2016 en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, D sem lést [...] 2011. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Hann sé lögerfingi hinnar látnu og geti á þeim grundvelli gert kröfu um að bú hennar verði tekið til opinberra skipta. Sóknaraðili kveðst vefengja erfðaskrá þá er C og D gerðu á árinu 2003 en varnaraðili telur til bréferfðaréttinda á grundvelli hennar sem leyfi hennar til einkaskipta byggist á. Viðbætur sem gerðar hafi verið við erfðaskrána séu ekki í samræmi við formreglur erfðalaga og þá hafi hann efasemdir um að þau hjónin hafi verið fær um að ráðstafa eignum sínum með þessum hætti vegna heilsu sinnar. Raunar hafi það þó enga þýðingu í þessu máli að sýna fram á að svo hafi verið þar sem einkaskiptum sé ekki lokið og honum sé sem erfingja játaður ríkur réttur til að krefjast opinberra skipta á búinu.

Varnaraðili hefur mótmælt því að sóknaraðili geti krafist opinberra skipta á grundvelli 1 mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 þar sem einkaskiptum sé lokið. Þá hefur varnaraðili einnig á því byggt að leggja beri fyrrgreinda erfðaskrá til grundvallar við skipti á búi C enda hafi sóknaraðili engan reka gert að því að sýna fram á að þau hjónin hafi heilsu sinnar vegna ekki verið fær um að ráðstafa eignum sínum eins og raun ber vitni. Kröfu sóknaraðila er ekki mótmælt á þeim grundvelli að hann geti ekki staðið til arfs eftir hina látnu.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta hafi skiptum ekki verið lokið vegna eignaleysis búsins eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi hvort sem leyfi hefur áður verið veitt til einkaskipta eða ekki. Samkvæmt orðanna hljóðan mælir ákvæðið fyrir um skilyrðislausan rétt erfingja í þessum efnum að þeim skilyrðum uppfylltum að skiptum hafi ekki verið lokið með nánar tilteknum hætti.

Í athugasemdum við 38. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 20/1991 kemur fram að regla 1. mgr. ákvæðisins heimili hverjum erfingja fyrir sig að gera kröfu um að dánarbú verði tekið til opinberra skipta hvort sem arfshluti hans er stór eða lítill og með öllu án tillits til vilja annarra erfingja. Þá skipti heldur ekki máli í þessu sambandi hvort erfingjar hafi áður fengið leyfi til einkaskipta. En hafi það verið veitt geti erfingi gripið til þessa ráðs upp á eindæmi sitt og komið því til leiðar að dánarbúið hverfi úr einkaskiptum hvort sem slíkt kunni að stafa af ósamkomulagi erfingja eða öðrum sökum. Þá segir í athugasemdunum að ekki sé heldur mælt fyrir um neina nauðsyn þess að sá sem vilji krefjast opinberra skipta eftir þessari heimild sýni að fyrra bragði fram á réttmæti arfstilkalls síns. Þvert á móti er ætlast til að ef ágreiningur rís til dæmis milli tveggja manna um það hvor þeirra skuli talinn einkaerfingi hins látna geti hvor þeirra sem er leitað úrlausnar á þeim ágreiningi með því að krefjast opinberra skipta og stutt rétt sinn til þess við þá forsendu að hann sé með réttu erfingi. Niðurstaða um þá kröfu mundi þá ráðast af því hvort arfstilkall hans væri talið á rökum reist.

Með vísan til ofangreinds tekur dómurinn fram að vafi eða ágreiningur um arfstilkall samkvæmt erfðaskrá getur ekki girt fyrir heimild erfingja samkvæmt þeirri sömu erfðaskrá til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi arfleiðanda á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Ljóst verður að telja að sóknaraðili vefengir réttindi varnaraðila til arfs á öllum eignum hinnar látnu. Er um þessi sjónarmið vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 520/2014 og 339/2008.

Varnaraðili hefur í málinu haldið því fram að einkaskiptum á búi C sé lokið. Af gögnum málsins um framvindu skiptanna verður þó þvert á móti ráðið að svo er ekki. Með hliðsjón af öllu ofansögðu verður því að fallast á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um að hann geti krafist opinberra skipta á dánarbúinu. Verður því fallist á kröfu hans eins og nánar greinir í úrskurðarorði, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 419/2003.

Í samræmi við ofangreind málsúrslit verður varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Magnús Davíð Norðdahl hdl. en af hálfu varnaraðila Sigmundur Hannesson hrl.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 27. september 2017.

Ú R SK U R Ð A R O R Ð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, B, um að dánarbú C, kt. [...], sem lést [...] 2016 og síðast var til heimilis að [...] í [...], verði tekið til opinberra skipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað.