Print

Mál nr. 363/2017

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson hrl.), (Stefán Karl Kristjánsson hrl. réttargæslumaður)
, (Guðmundur Ágústsson hrl. lögmaður brotþola )
Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Skaðabætur
  • Sönnunarmat
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

X var með tveimur dómum héraðsdóms sakfelldur fyrir þrjú brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í öðrum dómnum var X sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist á A fyrir utan verslun í Reykjavík, slegið hann í andlitið og dregið eftir götunni og fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laganna með því að hafa hrækt og frussað á B á lögreglustöð í Kópavogi. Í hinum dómnum var X sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940 með því að hafa veist að C á bifreiðastæði við söluturn í Reykjavík og stungið hann með hnífi í höfuðið. Hæstiréttur staðfesti fyrri dóminn yfir X, þar sem honum hafði verið gert að sæta fjögurra mánaða fangelsi, en hækkaði tildæmdar miskabætur A. Hvað síðari dóminn varðaði rakti Hæstiréttur atvik málsins samkvæmt gögnum þess og skýrslum fyrir dómi og tók fram að niðurstaða málsins yrði að ráðast af því hvort lagt yrði til grundvallar að X hefði haldið á hnífnum og lagt með honum til C eða hvort C hefði haldið á hnífnum og hann rekist í höfuð C í átökum hans við X. Til að komast að niðurstöðu um þetta hefði héraðsdómur orðið að taka rökstudda afstöðu til trúverðugleika framburðar X annars vegar og C hins vegar með tilliti til gagna málsins. Það hefði hins vegar ekki verið gert og yrði ekki úr því bætt fyrir Hæstarétti, en í ljósi þessa hefði jafnframt verið rétt að héraðsdómur væri skipaður þremur dómurum. Þá benti Hæstiréttur jafnframt á að ekki hefði verið sérstaklega rannsakað hvort það högg, sem talið var að þurft hefði til að veita C þá höfuðáverka er um ræddi, hefði getað myndast við það að X hefði fellt C og þeir skollið saman í jörðina, svo sem X hefði borið um að gerst hefði. Að öllu virtu taldi Hæstiréttur því ekki unnt án frekari sönnunarfærslu að slá því föstu að útilokað væri að hnífurinn hefði rekist í C fyrir slysni í átökum hans og X. Með vísan til alls þessa taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Jónsson prófessor og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 24. maí og 14. ágúst 2017 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun, en dómarnir voru kveðnir upp 11. maí og 9. ágúst sama ár í málum ákæruvaldsins á hendur honum. Hér fyrir dómi hafa málin verið sameinuð. Ákæruvaldið krefst þess að hinir áfrýjuðu dómar verði staðfestir um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. nóvember 2016, sem leyst var úr í hinum áfrýjaða dómi frá 11. maí 2017, og ákæru héraðssaksóknara 26. maí 2017, sem leyst var úr með hinum áfrýjaða dómi frá 9. ágúst sama ár, en að sér verði gerð svo væg viðurlög, sem lög heimili, vegna saka samkvæmt ákæru héraðssaksóknara 3. febrúar 2017, sem dæmt var um í fyrrnefnda dóminum. Samhliða því krefst ákærði þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að sér verði ekki gerð refsing og hann sýknaður af einkaréttarkröfum, en að því frágengnu að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkrafna lækkuð.

A, brotaþoli samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. nóvember 2016, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með sömu vöxtum og ákveðnir voru í hinum áfrýjaða dómi 11. maí 2017, en til vara að ákvæði dómsins um einkaréttarkröfu sína verði staðfest. Þá krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

C, brotaþoli samkvæmt ákæru héraðssaksóknara 26. maí 2017, krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í hinum áfrýjaða dómi 9. ágúst sama ár, en til vara að sá dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.

I

Í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. nóvember 2016 var ákærði borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt 24. október 2015 ráðist á brotaþolann A við tiltekna verslun að Austurstræti 17 í Reykjavík, slegið hann í andlitið svo að hann féll á götuna, sest síðan ofan á hann og slegið í andlit hans, tekið loks í fætur hans og dregið hann eftir götunni, allt með þeim afleiðingum að brotaþolinn hafi hlotið mar yfir bringubeini, bólgur kringum hægra auga og brot þar í augnbotni. Í ákærunni var jafnframt greint frá einkaréttarkröfu brotaþolans á hendur ákærða. Mál á grundvelli þeirrar ákæru var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. desember 2016, en þegar það var næst tekið fyrir á dómþingi 23. janúar 2017 neitaði ákærði sök og andmælti einkaréttarkröfunni. Aftur var málið tekið fyrir í þinghaldi 10. febrúar 2017, en þá var lögð fram af hálfu ákæruvaldsins ákæra héraðssaksóknara frá 3. sama mánaðar. Í henni var ákærði sakaður um að hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa að kvöldi 22. febrúar 2016 á lögreglustöð að Dalvegi 18 í Kópavogi hrækt og frussað á nafngreindan lögregluvarðstjóra, sem þar hafi verið við skyldustörf, þannig að munnvatn og hor hafi farið á andlit hans og hár. Málið var upp frá því rekið um báðar ákærurnar, en í þinghaldi 28. febrúar 2017 játaði ákærði sök samkvæmt þeirri síðari. Með hinum áfrýjaða dómi frá 11. maí 2017 var ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem hann var borinn sökum um í báðum ákærum. Í dóminum var tekin upp 30 daga skilorðsbundin fangelsisrefsing, sem ákærða var ákveðin í dómi 4. febrúar 2015, og var ákærða með tilliti til þess gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða brotaþolanum 800.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og 250.000 krónur í málskostnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms frá 11. maí 2017 verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brota hans til refsiákvæða, refsingu hans og sakarkostnað. Með tilliti til þess líkamstjóns, sem brotaþolinn hlaut af verknaði ákærða og lýst er í hinum áfrýjaða dómi, eru ekki efni til annars í ljósi dómaframkvæmdar en að taka miskabótakröfu brotaþolans að fullu til greina og dæma þannig ákærða til að greiða honum 1.000.000 krónur, sbr. a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með vöxtum eins og ákveðnir voru í héraði. Verður jafnframt staðfest ákvæði dómsins um málskostnað brotaþolans úr hendi ákærða, en um málskostnað þess fyrrnefnda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Að sakarkostnaði fyrir Hæstarétti verður sérstaklega vikið hér síðar í einu lagi vegna beggja hinna áfrýjuðu dóma.

II

1

Í ákærunni, sem héraðssaksóknari gaf út 26. maí 2017 og afstaða var tekin til í hinum áfrýjaða dómi frá 9. ágúst sama ár, var ákærði borinn sökum um tilraun til manndráps með því að hafa aðfaranótt 5. mars 2017 veist að brotaþolanum C á bifreiðastæði við söluturn með heitinu [...] við [...] í Reykjavík. Þar hafi ákærði eftir stutt átök stungið brotaþolann með hníf í höfuðið vinstra megin fyrir ofan eyra með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið skurð á höfði og slagæðablæðingu úr höfuðleðri, en áverkinn hafi náð gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar og hafi jafnframt flísast upp úr henni. Taldist þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Í ákærunni var einnig greint frá einkaréttarkröfu brotaþolans. Við þingfestingu málsins í héraði 8. júní 2017 neitaði ákærði sök og mótmælti einkaréttarkröfunni. Aðalmeðferð fór fram í málinu 18. júlí sama ár og gáfu þar skýrslur ákærði, brotaþolinn og ellefu önnur vitni. Með hinum áfrýjaða dómi 9. ágúst 2017 var ákærði sakfelldur fyrir framangreinda háttsemi og dæmdur í fangelsi fjögur ár, en til frádráttar þeirri refsingu skyldi koma gæsluvarðhald, sem ákærði hafði þá sætt frá 5. mars 2017 og stendur enn. Ákærða var jafnframt gert að greiða brotaþolanum 500.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum.

2

Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi frá 9. ágúst 2017 áttu atvikin, sem þessi ákæra tekur til, eftir gögnum málsins þann aðdraganda að vinkona ákærða, D, var stödd á heimili E að [...] í Reykjavík að kvöldi 4. mars 2017 og fram á aðfaranótt þess 5. Þar var jafnframt brotaþolinn, svo og F þegar liðið var fram á kvöld eða nótt. Þau þrjú fyrstnefndu munu öll hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Ákærði hafði á hinn bóginn verið á ferð um kvöldið á bifreið D, allsgáður að eigin sögn, og mun hafa átt við hana orðaskipti í símtölum og símskilaboðum, þar sem meðal annars hafi komið fram að hann hygðist sækja hana nokkru eftir klukkan 1 þá um nóttina. Af þeirri ástæðu ók ákærði að fyrrnefndu bifreiðastæði við [...], lagði þar bifreiðinni og beið D.

Eftir framburði D hafði hún ekki hug á að fara með ákærða og ætlaði því eingöngu að fá hjá honum lykla að bifreiðinni. Í því skyni hafi hún lagt leið sína út úr íbúð E og brotaþolinn slegist í för með henni, en ekki báru vitni á einn veg um hver hafi átt frumkvæði að þeirri fylgd. Tók brotaþolinn jafnframt með sér hníf, sem hann virðist telja sig hafa sett í slíðri ofan í buxnavasa. Þegar þau komu að bifreiðinni kom til orðaskipta milli ákærða og D, sem brotaþolinn fór svo að skipta sér af. Um næstu atvik í framhaldi af því hafa ekki aðrir borið í málinu en þau þrjú og hefur framburður þeirra verið ólíkur um hvað gerst hafi, þótt öll hafi þau sagt frá því að ákærði hafi stigið út úr bifreiðinni og til átaka komið milli hans og brotaþolans.

Eftir lýsingu ákærða virðast átökin í meginatriðum hafa byrjað með hrindingum, brotaþolinn hafi svo tekið upp hníf og reynt að beita honum gagnvart ákærða, sem hafi tekið um handlegg brotaþolans, fellt hann til jarðar og náð hnífnum úr hendi hans. Ákærði hafi síðan kastað hnífnum frá þeim og leyst brotaþolann úr tökum, en sá síðarnefndi hafi svo risið á fætur og komið sér undan. Brotaþolinn kveður ákærða hafa hrint sér þannig að hann hafi fallið til jarðar og hafi hnífurinn þá líklega dottið úr vasa hans. Ákærði hafi síðan tvívegis veitt brotaþolanum höfuðhögg og taldi brotaþolinn hann hafa beitt hnífnum í því síðara, enda hafi brotaþolinn í framhaldinu fundið blóð leka niður eftir höfði sínu og hálsi og séð svo hnífinn í hendi ákærða þegar hann hafi litið við. Ákærði hafi að því búnu kastað frá sér hnífnum fyrir orð D og brotaþolinn komist undan. Lýsing D á þessum atvikum fyrir dómi var óskýr, en virðist þó helst hafa falist í því að ákærði hafi ýtt henni frá við byrjun átakanna og hafi hún úr fjögurra eða fimm metra fjarlægð að baki honum lítið sem ekkert séð af því, sem gerðist í einstökum atriðum í framhaldinu þar til brotaþolinn hafi komist undan ákærða. Var framburður hennar á fleiri en einn veg um hvort hún hafi séð hníf á vettvangi, en ekki bar hún um að hafa séð ákærða beita slíku vopni í átökum við brotaþolann.

Um atvik að þessu búnu virðist ljóst að brotaþolinn hafi farið aftur inn í íbúð E og D einnig, annaðhvort samferða brotaþolanum eða á eftir honum. Ákærði hafi á hinn bóginn orðið eftir við bifreið D þar til lögregla kom á vettvang klukkan 1.46 um nóttina, um fimm mínútum eftir að hún hafði verið kvödd til, og handtók ákærða. Fyrir liggur að í framhaldi af því hafi D farið aftur út, gefið sig á tal við lögreglu og greint frá því að ákærði hafi þar skömmu áður stungið brotaþolann í höfuðið með hníf, svo og að sá síðastnefndi væri staddur inni í íbúð að [...].

Hnífurinn, sem um ræðir, kom ekki fram við rannsókn málsins og mun lögregla heldur ekki hafa fundið teljandi blóð á vettvangi, en af því sem þó sást voru teknar ljósmyndir, sem lagðar hafa verið fram. Brotaþolinn hefur sagst ekki vita hvað orðið hafi af hnífnum eftir átökin við ákærða, en sá síðarnefndi hefur lýst því að brotaþolinn hafi tekið hnífinn upp af jörðinni og haft hann á brott með sér. D bar jafnframt að hún hafi séð hnífinn í fórum brotaþolans á leið þeirra að íbúð E. Að auki lýstu tveir íbúar í húsinu að [...] því í skýrslum fyrir dómi að þau hafi þessa nótt heyrt hávaða í fólki utan frá fyrrnefndu bifreiðastæði og litið af þeirri ástæðu út um glugga á íbúð sinni en ekki séð átök. Á hinn bóginn kvaðst aðallega annað þeirra, en að nokkru þau bæði, hafa séð mann, sem hafi verið blóðugur á höfði, ganga ásamt stúlku af bifreiðastæðinu að húsinu og hafi hann haldið á hníf. Sá maður hafi kallað til annars manns að hinn síðarnefndi hafi stungið sig og hann svarað því til að sá fyrrnefndi hafi komið með hnífinn.

Brotaþolanum, D og F bar saman um að brotaþolinn hafi átt stutta viðdvöl í íbúð E eftir að hann kom aftur inn, en húsráðandi virðist þá hafa verið sofandi. Kveðst brotaþolinn hafa hringt þar til vinkonu sinnar, sem hafi komið á bifreið og ekið honum á slysadeild. Ekkert hefur verið skýrt hvers vegna brotaþolinn hafi ekki leitað eftir flutningi þangað í sjúkrabifreið, en hann var farinn úr íbúðinni þegar lögregla kom þangað til að leita hans í framhaldi af handtöku ákærða. Samkvæmt læknisvottorði kom brotaþolinn á slysadeild klukkan 2.19 umrædda nótt. Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá lýsingu í læknisvottorðum á áverkum, sem brotaþolinn hafi borið við komu á slysadeild, en megininntak þeirrar lýsingar var tekið upp í ákæru og hefur það verið rakið hér að framan.

3

Við það verður að miða eftir hljóðan ákæru að ákærði sé borinn sökum um að hafa lagt með hníf, sem hann hafi haldið á, til brotaþolans og veitt honum þannig þann áverka á höfði, sem áður var getið.

Fyrir Hæstarétti hefur ákærði á hinn bóginn aðallega borið því við að hann hafi á engu stigi tekið sér áðurnefndan hníf í hönd fyrr en að afstöðnum átökunum við brotaþolann og hafi hann ekki veitt þeim síðarnefnda áverkann á höfði, að minnsta kosti ekki af ásetningi. Í því sambandi hefur ákærði meðal annars hreyft því að brotaþolinn kunni að hafa hlotið brot á höfuðkúpu einhverju áður en leiðir þeirra lágu saman og sár verið þar gróið nokkuð á yfirborði, en brotaþolinn hafi svo í átökum þeirra fengið nýjan skurð á hvirfli, sem blætt hafi úr. Einnig hefur ákærði bent á að af völdum einhvers annars en sínum gæti brotaþolinn hafa fengið högg, sem leitt hafi til áverka á höfuðkúpu, á tímabilinu frá því að hann fór af vettvangi þar til hann gaf sig fram á slysadeild. Þess utan hefur ákærði haldið fram að áverki brotaþolans geti hafa stafað af því að sá síðarnefndi hafi í átökum þeirra rekið höfuðið í hnífinn, sem hann hafi sjálfur haldið á, og það gerst fyrir óhapp eða hvað sem öðru líður án þess að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að svo færi. Þetta hafi þó ákærði hvorki séð né orðið þess var á annan hátt. Að þessu öllu frágengnu hefur ákærði borið fyrir sig að viðbrögð sín við tilefnislausri og stórhættulegri árás brotaþolans verði að teljast sér refsilaus á grundvelli neyðarvarnar, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga, en til þeirrar málsvarnar, sem haldið var meðal annarra fram í greinargerð ákærða í héraði, var ekki tekin afstaða í hinum áfrýjaða dómi.

4

Í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms var byggt á því að ekki hafi verið aðrir á vettvangi átaka ákærða og brotaþolans en þeir tveir og fyrrnefnd D. Af framburði þeirra allra yrði ráðið að D hafi ekki átt nokkurn þátt í átökunum og væri því ekki öðrum til að dreifa en þeim tveimur. Ljóst væri af vottorðum lækna og framburði þeirra fyrir dómi að þurft hafi þungt högg með beittu áhaldi til að valda áverkanum á höfði brotaþolans. Væri því útilokað að hnífurinn gæti annaðhvort hafa rekist þar í hann fyrir slysni eða hann veitt sér áverkann sjálfur. Stæði því ekki annar eftir en ákærði, sem hafi kannast við að hafa átt í átökum við brotaþolann og beint hnífnum, sem sá síðarnefndi hafi haldið á, frá sér með því að halda um hönd hans. Ákærði hafi samkvæmt frumskýrslu lögreglu verið í annarlegu ástandi, æstur mjög og í geðshræringu. Væri því ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi í átökunum veitt brotaþolanum högg með hnífnum í höfuðið, eins og honum er gefið að sök í ákæru, með þeim afleiðingum sem þar greini. Sagði síðan í dóminum að ákærða hafi mátt vera ljóst að svo gæti farið að stórhættulegt vopn myndi stingast í brotaþolann vegna átaka þeirra með hníf, sem annaðhvort ákærði hafi sjálfur haldið á eða brotaþolinn haldið á í hönd, sem ákærði hafi haldið um. Með því að hnífurinn hafi komið á höfuð brotaþolans, þar sem höfuðkúpan var þykk, hafi hending ein ráðið því að afleiðingarnar hafi ekki orðið mun alvarlegri og hugsanlega leitt hann til dauða. Var ákærði því sakfelldur fyrir það brot, sem honum var gefið að sök.

5

Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að engin haldbær rök hafi verið færð fyrir áðurgreindum tilgátum ákærða um að brotaþolinn geti hafa hlotið áverkann á höfuðkúpu áður en til átaka þeirra kom eða eftir að hann var farinn af vettvangi. Verður þannig niðurstaða málsins að ráðast af því hvort lagt verði til grundvallar að ákærði hafi í átökunum haldið á hnífnum og lagt með honum til brotaþolans, svo sem gengið er út frá í ákæru, eða að brotaþolinn hafi haldið á hnífnum, sem hafi rekist í höfuð hans í átökunum, svo sem ákærði hefur borið fyrir sig. Ekki er unnt að láta þetta liggja milli hluta, sem virðist þó að nokkru hafa verið gert í hinum áfrýjaða dómi, enda verður ekki séð að háttsemi ákærða gæti varðað við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nema í fyrrgreinda tilvikinu, en í því síðara kynni hún eftir atvikum að geta átt undir önnur ákvæði sömu laga eða talist honum refsilaus. Til að komast að niðurstöðu um þetta grundvallaratriði hefði héraðsdómur orðið að taka rökstudda afstöðu til trúverðugleika framburðar ákærða annars vegar og brotaþolans hins vegar með tilliti til annarra gagna málsins, sbr. 1. mgr. 109. gr. og f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Það var ekki berum orðum gert í hinum áfrýjaða dómi og verður ekki úr því bætt fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. sömu laga. Verður í því sambandi einnig að líta til þess að í ljósi sakarefnisins og vægis slíks sönnunarmats fyrir úrslit málsins hefði verið rétt að héraðsdómur væri skipaður þremur dómurum, sbr. 4. mgr. 3. gr. laganna.

Auk þess, sem að framan segir, verður að gæta að því að vissulega kom fram í öðru af tveimur læknisvottorðum, sem lágu fyrir í héraði, að þurft hafi „talsverðan áverka eða högg til“, auk þess sem hlutaðeigandi læknir tók meðal annars fram í skýrslu fyrir dómi að þurft hafi „talsvert högg eða ... beitt einhvers konar áhald“ til að brotaþolinn fengi umræddan áverka á höfuðkúpu. Nánar aðspurður kvað læknirinn hiklaust hafa þurft högg til, jafnvel þótt áhaldið hafi verið beitt. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að ákærði, sem mun vera yfir [...] að þyngd og [...] á hæð, lýsti átökunum meðal annars á þann hátt fyrir dómi að hann hafi fellt brotaþolann, sem hafi haldið á hnífnum, þannig að þeir hafi skollið saman á jörðina og ákærði lent ofan á brotaþolanum. Ekki verður séð að sérstaklega hafi verið rannsakað hvort högg af þeim toga, sem læknirinn gat um, gæti hafa myndast við slíka rás atburða hafi brotaþolinn haldið á hnífnum. Af framlögðum vottorðum lækna og skýrslum þeirra fyrir dómi verður jafnframt ráðið að fyrir eigi að liggja að minnsta kosti tölvusneiðmyndir af höfði brotaþolans, sem teknar voru á bráðadeild Landspítala. Virðist því að unnt gæti hafa verið að afla sérfræðilegra gagna, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns, um hvað gæti nánar hafa þurft eða nægt til að högg af þessum toga leiddi til áverkans, sem brotaþolinn hlaut. Liggur heldur ekkert fyrir um hvort eitthvað verði ráðið af slíkum myndum um það úr hvaða stefnu hnífur hafi komið í höfuð brotaþolans. Í því sambandi verður að gæta að því að ekki kom glöggt fram við rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi hvernig ákærði annars vegar og brotaþolinn hins vegar hafi talið rétt að lýsa líkamsstöðu hvors þeirra um sig á hverju stigi meðan á átökunum stóð. Ákærði lýsti þessu þó fyrir sitt leyti svo að eftir að þeir hafi fallið til jarðar hafi hann sett vinstra hné á hægri hönd brotaþolans, sem hann hafi haldið um hnífinn með, og þannig tekist að afvopna hann. Samkvæmt því hlyti brotaþolinn að hafa legið á baki, væntanlega í framhaldi af því að hafa hlotið áverkann með höggi vinstra megin á höfuðið. Brotaþolinn lýsti atvikum svo að hann hafi fallið aftur fyrir sig og á hlið undan þunga ákærða, sem hafi svo tvívegis veitt sér höfuðhögg. Taldi brotaþolinn sem fyrr segir að í síðara högginu hafi ákærði beitt hnífnum, en brotaþolinn kvaðst þá hafa snúið baki í ákærða, sem ekki var þó skýrt frekar hvernig atvikast hafi, og séð hnífinn í hendi ákærða þegar hann hafi litið við. Væri lýsing þessi rétt hlytu líkur að standa til þess, úr því að brotaþolinn hlaut höggið vinstra megin á höfði, að ákærði hafi haldið á hnífnum í vinstri hendi. Í gögnum málsins liggur ekki ótvírætt fyrir hvort ákærði annars vegar og brotaþoli hins vegar sé rétthentur eða örvhentur. Að þessu öllu virtu verður ekki séð að unnt sé án frekari sönnunarfærslu að slá því föstu, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi, að útilokað sé að hnífurinn hafi rekist í brotaþolann fyrir slysni í átökum hans og ákærða.

Að virtu öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm frá 9. ágúst 2017 og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað. Er rétt að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs dóms í málinu.

III

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði að bera allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, sem rakinn verður til áfrýjunar héraðsdómsins frá 11. maí 2017, en fella verður á hinn bóginn á ríkissjóð allan áfrýjunarkostnaðinn vegna héraðsdómsins frá 9. ágúst sama ár. Þessi tvö mál voru sem áður segir sameinuð fyrir Hæstarétti og hafa þau því verið flutt og málsgögn gerð í einu lagi. Í yfirliti, sem ríkissaksóknari hefur gert um sakarkostnað samkvæmt 2. mgr. 217. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að áfallinn kostnaður á áfrýjunarstigi stafi annars vegar af gerð málsgagna, 55.985 krónur, og hins vegar af læknisvottorði, 43.900 krónur. Fyrrnefndi kostnaðarliðurinn er ósundurgreindur vegna beggja héraðsdóma, en sá síðarnefndi snýr á hinn bóginn aðeins að þeim seinni og á það sama við um þóknun réttargæslumanns brotaþolans C eins og hún er ákveðin í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda, sem fram kemur í dómsorði ásamt virðisaukaskatti, er ekki fremur en um kostnað af málsgögnum fært að fara aðra leið en þá að áætla skiptingu á milli þessara tveggja þátta málsins, sem verður þannig að fjórðungi tengdur áfrýjun héraðsdómsins frá 11. maí 2017 og öðru leyti áfrýjun dómsins frá 9. ágúst sama ár.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur frá 11. maí 2017 skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, X, skal greiða brotaþola, A, 1.000.000 krónur með þeim vöxtum, sem ákveðnir voru í héraði. Ber ákærða jafnframt að greiða brotaþola 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Hinn áfrýjaði dómur frá 9. ágúst 2017 er ómerktur ásamt meðferð þess máls frá upphafi aðalmeðferðar og er því vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Af áfrýjunarkostnaði málsins falla á ríkissjóð einn samtals 229.900 krónur, þar með talin þóknun réttargæslumanns brotaþolans C, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur. Annar áfrýjunarkostnaður, samtals 1.915.985 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 1.860.000 krónur, fellur að ¾ hlutum á ríkissjóð, en fjórðung þessa kostnaðar, 478.996 krónur, skal ákærði greiða.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2017

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 22. nóvember 2016, á hendur X kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 24. október 2015, við verslun [...] í Austurstræti 17 í Reykjavík, ráðist á A kt. [...], slegið A í andlit svo hann féll á götuna, sest síðan ofan á A og slegið hann í andlit, tekið í fætur A og dregið hann eftir götunni, allt með þeim afleiðingum að A hlaut yfirborðskennt mar yfir bringubeini, bólgur í kringum hægra auga og brot í augnbotni hægra megin.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Agnar Þór Guðmundsson hdl., fyrir hönd A kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð kr.  1.000.000, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 24. október 2015, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola málskostnað að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24% virðisaukaskatti, fyrir halda fram bótakröfu sinni í málinu.“

Þá var sömuleiðis dómtekið í dag mál höfðað af Héraðssaksóknara, með ákæru, útgefinni 3. febrúar 2017, á hendur ákærða X, „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 22. febrúar 2016 á lögreglustöðinni við Dalveg 18 í Kópavogi, hrækt og frussað á lögregluvarðstjórann B, sem þar var við skyldustörf, þannig að munnvatn og hor fór á andlit og hár B. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærði neitar sök samkvæmt fyrri ákærunni og hafnar bótakröfunni, en hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot það sem honum er gefið að sök í síðari ákærunni og er játning hans studd sakargögnum. 

                Ákærði krefst sýknu af fyrri ákærunni en vægustu refsingar vegna þeirrar síðari. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

                Málavextir varðandi fyrri ákæruna eru þeir að lögreglumenn, er óku eftir Austurstræti á þeim tíma er í ákæru getur, sáu [...] mann draga annan mann eftir gangstéttinni. Þeir stöðvuðu átökin og handtóku þann [...] sem reyndist vera ákærði. Sá sem dreginn hafði verið var brotaþoli. Í lögregluskýrslunni er haft eftir vitnum á vettvangi að ákærði hefði ráðist á brotaþola. Brotaþoli kvað ákærða hafa ráðist á sig inni í verslun við götuna, slegið sig með krepptum hnefa í andlitið og dregið sig út úr versluninni. Hann kvaðst ekki vita af hverju ákærði hefði ráðist á sig.

          Brotaþoli var fluttur á slysadeild og í vottorði þaðan segir að hann hafi borið þá áverka er í ákæru greinir. Þá leitaði brotaþoli til augnlæknis 23. júní 2016. Í vottorði hans segir að fram komi greinileg hreyfiskerðing á hægra auga þegar litið er upp og þegar litið er til hægri. Að öðru leyti séu augnhreyfingar eðlilegar. Þá segir: „Tvísýni þegar litið er upp og til hægri, augnþreyta við beitingu sjónar vegna minni samhæfingar augna. Hvorutveggja er klassískt að sjá eftir áverka af því tagi sem lýst er.“ Brotaþoli hafði greint augnlækninum frá því að hann hefði fengið högg í andlitið umhverfis hægra auga í október 2015.

          Ákærði hefur játað sök samkvæmt síðari ákærunni og verða málavextir varðandi hana því  ekki raktir, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

III

          Við aðalmeðferð ítrekaði ákærði neitun sína. Hann kvað brotaþola hafa verið í versluninni og hefði hann verið með læti. Það hafi komið til áfloga í versluninni og hefði brotaþoli verið að hóta sér og vini sínum. Ákærði kvaðst ekki hafa kýlt brotaþola en hann hefði ýtt við honum eftir að brotaþoli hefði ýtt við sér. Ákærði kvaðst hafa dregið brotaþola en ekki mundi hann hvar hann hefði tekið í hann til þess. Hann hefði hins vegar hvorki slegið brotaþola né sest ofan á hann. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður þessa nótt.

          Brotaþoli kvaðst hafa verið inni í versluninni og lent þar í ómerkilegu orðaskaki við mann. Hann kvað manninn hafa bent á vin sinn sem hafi verið ákærði og hótað að senda hann á sig. Ákærði hefði staðið álengdar en síðan snúið sér að brotaþola og hefðu þeir eitthvað ræðst við. Síðan hefði ákærði sparkað í bringuna á sér og kvaðst brotaþoli hafa fallið. Ákærði hefði þá dregið hann út úr versluninni. Brotaþoli kvaðst hafa legið í götunni er ákærði hefði slegið sig og kvaðst hann hafa dottið út við það. Næst kvaðst brotaþoli muna eftir sér þegar fólk var að hjálpa honum á fætur og hafði þá lögreglan verið búin að handjárna ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og kvaðst ekki geta neitað því að hafa viðhaft ógnandi orð við ákærða en hann hefði ekki haft uppi neina líkamlega tilburði gagnvart honum. Þá kvað hann geta verið að hann hefði verið sleginn áður en hann féll í götuna. Brotaþoli kvaðst vera arkitekt og árásin hefði valdið því að hann væri með tvísýni. Þá fengi hann oft verk í augað.

          Maður sem var á vettvangi kvaðst hafa verið inni í versluninni og séð mann vera að stara á sig. Hann hefði síðan gengið að sér og síðan hefðu hafist átök sem hefðu borist út úr versluninni. Hann kvaðst þá hafa reynt að koma ákærða á brott. Maðurinn kvaðst þekkja ákærða en ekki þekkja brotaþola. Hann tók það fram að hann myndi ekki mikið eftir þessu máli. Honum var kynnt skýrsla sem lögreglan tók af honum í gegnum síma og kvaðst þá líklega hafa munað betur eftir atvikum.

          Annar maður sem var í versluninni kvað [...] mann hafa dregið annan mann út úr versluninni. Sá sem var dreginn var allur blóðugur. Hann kvaðst hafa farið á milli mannanna og stöðvað átökin, enda hefði sá [...] verið að berja og sparka í hinn. Lögreglan hefði komið strax á eftir og handtekið hinn [...].

          Stúlka sem var á vettvangi kvaðst hafa séð mann sleginn í götuna. Hún kvaðst hafa hlaupið yfir götuna og hlúð að árásarþola. Hún kvað manninn, sem hefði slegið árásarþola, hafa verið handtekinn. Hún kvaðst ekki hafa séð aðdraganda árásarinnar.

          Lögreglumaður, sem ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hann kvaðst hafa séð mann dreginn og eins hefði hann séð átök. Þeir hefðu brugðist við og handtekið manninn sem dró manninn. Ekki hafi verið grunur um að annar maður hefði verið þar að verki.

          Lögreglumaður, sem tók símaskýrslur af vitnum, staðfesti að hafa hringt í vitnin og ritað niður eftir þeim.

          Læknir á slysadeild staðfesti framangreint vottorð. Hann lýsti áverkum á sama hátt og í vottorðinu greinir. Læknirinn kvað brotaþola hafa lýst árásinni og gætu áverkar hans komið heim og saman við þá lýsingu. Þá kvað hann brotaþola hafa borið áverka í kringum hægra auga en ekki það vinstra eins og segir í vottorðinu.

          Augnlæknir, sem ákærði leitaði til, staðfesti framangreint vottorð sitt. Hann kvað ekki líklegt að áverki brotaþola á augnbotni myndi lagast og heldur ekki batna. Þá kvað hann áverkana koma vel heim og saman við að brotaþoli hefði fengið högg.

IV

          Hér að framan hefur verið rakinn framburður vitna sem voru á vettvangi og bera að ákærði hafi ráðist á brotaþola. Þá var og rakinn framburður lögreglumanns er bar að lögreglumenn hefðu séð ákærða draga mann og hefðu þeir handtekið árásarmanninn. Þá staðfesti lögreglumaðurinn skýrslu sína en þar kemur fram að lögreglumönnum var bent á ákærða á vettvangi sem árásarmanninn. Með framburði þessara vitna er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ráðist á brotaþola eins og lýst er í ákæru. Með framangreindum læknisvottorðum er sannað að ákærði hafi með árásinni valdið brotaþola þeim áverkum er í ákæru getur. Með þessu hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

          Ákærði hefur játað skýlaust að hafa ráðist á lögreglumann eins og honum er gefið að sök í seinni ákærunni. Hann verður því sakfelldur fyrir það og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

          Ákærði var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 4. febrúar 2015 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Skilorðsdómurinn verður nú tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. sömu laga og er hún hæfileg 4 mánaða fangelsi.

          Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins 21. desember 2016 og miðast upphaf dráttarvaxta við það er liðnir voru 30 daga frá þeim degi. Þá skal ákærði greiða brotaþola 250.000 krónur í málskostnað.

          Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti í dómsorði.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október 2015 til 21. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.

                Ákærði greiði 42.000 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,  Þorgeirs Þorgeirssonar hdl., 632.400 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2017.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 18. júlí síðastliðinn, var höfðað með ákæru Héraðssaksóknara, útgefinni 26. maí síðastliðinn, á hendur X, kennitala [...], [...], Reykjavík, „fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 5. mars 2017, veist að C á bifreiðastæði við söluturninn [...] við [...] í Reykjavík og eftir stutt átök þeirra á milli stungið hann með hnífi í höfuðið vinstra megin fyrir ofan eyra með þeim afleiðingum að C hlaut skurð á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri og náði áverkinn í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar auk þess sem flísaðist upp úr höfuðkúpunni.

                Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Brotaþoli krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. mars 2017 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfunnar er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns.

                Ákærði neitar sök og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði ekki gerð refsing og til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar. Hann krefst þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Loks er þess krafist að málsvarnarlaun verjenda ákærða verði greidd úr ríkissjóði.

II

                Málavextir eru þeir að lögreglan var kvödd að nefndum stað á þeim tíma er í ákæru greinir. Þar var ákærði við bifreið sem tilkynnt hafði verið að væri stolin. Lögreglumönnum hafði einnig borist tilkynning um að á staðnum væri maður vopnaður hnífi. Ákærði var handjárnaður og færður í lögreglubifreið. Hann var „í annarlegu ástandi og greinilega undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna og sveiflaðist á milli þess að gráta og vera æstur og brjálaður.“ Ákærði sagði lögreglumönnum að einhver maður hefði komið að sér á bifreiðastæðinu og ráðist á sig en hann væri farinn af vettvangi. Í skýrslunni segir að skömmu síðar hefði eigandi bifreiðarinnar, vinkona ákærða, komið og sagt að ákærði hefði stungið brotaþola. Í skýrslunni er haft eftir vinkonunni að ákærði hefði verið á bifreið hennar og komið að söluturninum. Hann hefði viljað fá hana út til að ræða við sig en hún hefði ekki viljað fara af ótta við ákærða. Hún hefði því beðið brotaþola að koma með sér. Þegar út var komið hefði ákærði viljað að hún settist inn í bifreiðina til að ræða við sig en hún hefði ekki viljað það og brotaþoli hefði sagt ákærða að hún vildi ekki ræða við hann. Þá hefði ákærði stokkið út úr bifreiðinni, gengið að brotaþola og ýtt við honum. Þeir hefðu tekist á skamma stund en svo hefði ákærði skyndilega tekið fram hníf og stungið brotaþola í höfuðið. Hún hefði svo fylgt brotaþola inn í íbúðina.

                Brotaþoli fór á slysadeild og í vottorði þaðan segir: „Kemur inn eftir stunguáverka á höfði. Reynist með skurð á höfði og slagæðablæðingu úr höfuðleðri. Fer í tölvusneiðmynd af höfði sem sýnir áverka á höfuðkúpu þar sem virðist sem áverkinn nái í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar. Ekki sést á þessu stigi blæðing í eða við heila.“

                Sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum segir svo í vottorði sínu um brotaþola: „Áverki á höfuðleður og höfuðkúpu vinstra megin ofan eyra. Eins og flísist upp úr höfuðkúpunni og þarf talsverðan áverka eða högg til. Eggvopn sagt notað. Áverkinn nær í gegnum beinþykktina en ekkert inn fyrir kúpuna sjálfa og hefur ekki valdið skemmd eða blæðingum í heila. Skurður saumaður á slysadeild og frekari aðgerðir ekki á dagskrá. Heilinn hefur ekkert meiðst þannig að viðkomandi kemur til að ná sér. Ef hins vegar eggvopnið hefði gengið inn í heilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt til mikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða.“

III

                Ákærði kvaðst hafa verið að sækja vinkonu sína en hann hefði verið á bifreið hennar. Hann kvaðst hafa átt í erfiðleikum með að finna húsið og þess vegna stansað á þeim stað er í ákæru greinir og beðið þar eftir henni. Hann kvaðst síðan hafa séð hana koma og með henni strák er hann hefði aldrei séð áður. Þegar þau komu nær kvaðst hann hafa séð að þau voru æst og eins og eitthvað væri í gangi eins og ákærði orðaði það. Hann kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni og rætt við vinkonuna sem hefði náð í hundinn sinn, sem var aftur í bifreiðinni. Eins hefði hún farið að spyrja hann um peninga en hann kvaðst ekki hafa skilið hvað hún hafi átt við. Brotaþoli hafi nú byrjað að tala við ákærða en hann kvaðst ekki vita almennilega um hvað. Ákærði kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum en vinkonan og brotaþoli hafi verið það. Hann kvaðst hafa viljað fá vinkonuna með sér en ekkert viljað tala við brotaþola. Brotaþoli hafi sagt að vinkonan vildi ekki tala við hann. Ákærði kvað brotaþola hafa komið alveg upp að sér og hefði hann ýtt honum frá sér og jafnframt reynt að spyrja vinkonuna um hvað væri í gangi en eitthvað hefði brotaþoli verið að tala um að ákærði skuldaði peninga. Ákærði kvaðst nú hafa séð brotaþola glotta og svo teygja sig og haldið að hann væri að ná í eitthvað en brotaþoli hefði sveiflað, eins og ákærði orðaði það, og kvaðst ákærði þá hafa fært sig og farið upp með hendurnar en brotaþoli hefði slegið sig á fingurna. Þá kvaðst ákærði hafa séð að brotaþoli var með stórt vopn, hníf. Ákærði kvaðst hafa tekið um hendi brotaþola og náð að beina hendinni með hnífnum frá sér. Hann kvaðst hafa náð að fella brotaþola og jafnframt gætt sín á því að hnífurinn myndi ekki stingast í sig. Þá tók hann fram að það hefði verið myrkur og hált. Þeir hefðu átt í átökum og fallið og kvaðst ákærði hafa fallið ofan á brotaþola. Þá kvaðst ákærði hafa haft tak í fötum brotaþola og svo náð hnífnum úr höndum brotaþola og sveiflað honum í burtu. Ákærði kvaðst hafa staðið yfir brotaþola og öskrað á hann enda hefði hann verið í sjokki. Hann kvaðst hafa spurt vinkonuna hvað væri í gangi og þá séð brotaþola standa upp og fara að sækja hnífinn. Þau hefðu verið þarna öll þrjú nokkra stund en svo hefði vinkonan kallað „X, stakkstu hann?“. Ákærði kvaðst hafa svarað „hann var með fokking hníf, hvað er að gerast?“. Ákærði kvaðst ekki hafa séð þegar brotaþoli fékk hnífinn í sig og heldur ekki séð áverka á honum þegar hann „stóð á honum“ en hugsanlega hefði verið áverki sem hefði verið hulinn af hári. Ákærði kvaðst vera [...] og [...].

                Brotaþoli bar að hann hefði verið í heimsókn hjá frænku framangreindrar vinkonu ákærða og hefði hún einnig verið þar. Hann kvað vinkonuna hafa verið að reyna að fá bifreið sína og hund og hefði hann verið beðinn um að fara með vinkonunni út og taka á móti bifreiðinni þar eð vinkonan væri hrædd við ákærða. Brotaþoli og vinkonan gengu út og hittu ákærða á þeim stað er í ákæru getur. Ákærði og vinkonan hefðu farið að munnhöggvast og æsa sig. Brotaþoli kvaðst hafa staðið álengdar og hlustað á þau tvö rífast og kvaðst hann hafa séð ákærða berja í þak bifreiðarinnar. Síðan hefði ákærði verið kominn alveg upp í andlitið á brotaþola sem hefði fengið högg vinstra megin í höfuðið og við það fallið aftur fyrir sig á hlið. Ákærði hefði verið yfir honum en hann kvaðst hafa losnað og þá fengið þungt högg í höfuðið. Brotaþoli kvaðst hafa náð að standa upp og snúa sér við. Þá hefði hann séð ákærða halda á hníf. Hann kvaðst hafa snúið sér í burtu og þá fundið mikinn hita leka niður hálsinn vinstra megin. Hann kvaðst hafa áttað sig á því að þetta var blóð og gengið að bifreið sem þarna var og beðið um umbúðir en þeir, sem í bifreiðinni voru, áttu ekkert slíkt. Hann kvaðst því hafa tekið peysu sína og vafið um höfuðið. Þessu næst hefði hann farið í íbúðina þar sem hann hafði verið. Þar hefði hann hringt í vinkonu sína er hefði ekið sér á slysadeild. Brotaþoli kvaðst telja að hann hefði verið með hnífinn á sér og hann hefði runnið úr vasa sínum er hann féll í jörðina. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa beitt honum. Þá kvað brotaþoli það vel geta verið að hann hefði veist að ákærða með orðum enda hefði hann og vinkonan verið að munnhöggvast. Þá neitaði hann að hafa verið að rukka ákærða um peninga og kvað þetta hafa verið í fyrsta skipti er hann hitti ákærða. Hann hefði aldrei séð hann áður og heldur ekki vinkonuna. Þá kvað hann sig og ákærða ekki hafa tekist á um hnífinn. Brotaþoli kvað vinkonuna hafa öskrað „stakkstu hann“ og svo „hentu hnífnum“ og þá hefði ákærði hent hnífnum. Hann kvaðst hafa tekið slíður hnífsins og sparkað því í öfuga átt við þá er ákærði hafði hent hnífnum. Brotaþoli kvaðst vera frekar kvíðinn og hafa einangrað sig meira eftir þetta. Hann kvaðst hafa þurft að vera á slysadeild í sólarhring eftir þetta en síðan aðeins látið taka saumana. Mánuði síðar kvaðst hann hafa farið út á land að vinna.

                Framangreind vinkona ákærða kvaðst hafa verið undir lyfjaáhrifum þetta kvöld en hún og ákærði höfðu ætlað að hittast en hún hefði svo ekki nennt því. Hún kvaðst hafa verið í íbúð frænku sinnar en ákærði hefði verið á bifreið hennar og með hundinn hennar. Hann hefði sagst ætla að koma og skila bifreiðinni en brotaþoli hefði sagt sér að tilkynna að bifreiðinni hefði verið stolið og hefði hún gert það. Það hefði hún síðar dregið til baka við yfirheyrslu hjá lögreglu. Hún kvaðst hafa vitað að ákærði hefði verið í vondu skapi en ekki verið hrædd við hann. Brotaþoli, sem einnig hefði verið í íbúðinni, hefði spurt hvort hann ætti að fylgja henni niður til að hitta ákærða. Þegar út var komið var ákærði þar á bifreiðinni og kvað hún hann margoft hafa beðið sig að koma og tala við sig en hún hefði svarað að hún nennti því ekki. Brotaþoli hefði sagt við ákærða að hann ætti að sætta sig við að hún vildi ekki tala við hann. Við þetta hefði ákærði strunsað út úr bifreiðinni og hefðu hann og brotaþoli tekist á. Ákærði hefði ýtt sér í burtu og kvaðst hún ekki hafa séð nákvæmlega hvað gerðist fyrr en hún hefði séð ákærða sveifla handleggnum en ekki kvaðst hún hafa séð hvort hann hélt á hníf. Brotaþoli hefði þá verið að standa upp og næst þegar hún sá hann hafði hann vafið einhverju utan um höfuðið á sér. Hún kvaðst hafa „sturlast“ enda taldi hún ákærða hafa komið með hnífinn eins og hún orðaði það. Hún kvað sig og brotaþola hafa gengið saman upp í íbúðina og seinna hefði rifjast upp fyrir sér að þá hefði brotaþoli verið með hnífinn. Þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hún hefði séð hnífinn. Seinna hefði sér verið sagt að brotaþoli hefði farið út með hnífinn en hún hefði ekki vitað það þá. Vinkonan kvaðst hafa rætt það í íbúðinni að peningum hefði verið stolið frá sér og hefði frænka hennar kennt ákærða um það. Hún kvaðst ekki hafa trúað því enda væru hún og ákærði búin að vera vinir lengi. Annars kvaðst hún lítið muna eftir þessu með peningana. Borið var undir hana það sem hún segir í lögregluskýrslu um að hún hefði séð ákærða taka hnífinn og kvað hún það vera rétt. Hins vegar kvað hún það ekki rétt að hún hefði sagt að hún hefði séð ákærða höggva í höfuð brotaþola. Hún hefði hins vegar séð ákærða sveifla hendinni í átt til brotaþola.

                Vinkona brotaþola kvað hann hafa hringt í sig umrædda nótt og beðið sig að aka sér á slysadeild og hefði hún gert það. Hún kvaðst hafa spurt hvað hefði gerst og hefði hann sagt að hann hefði verið stunginn í hausinn. Hann hefði allur verið útataður í blóði og með handklæði um höfuðið. Brotaþoli hefði sagt sér að maður hefði stungið sig í hausinn vegna þess að hann hefði spurt út í samskipti hans við stúlku.

                Maður, sem var gestkomandi í nefndri íbúð þessa nótt, bar að húsráðandi hefði verið sofandi en brotaþoli og vinkona ákærða hefðu verið að fara út til að sækja hund hjá kærasta vinkonunnar. Þau hafi svo komið aftur og þá hefði brotaþoli verið skorinn á höfði. Þau hafi sagt frá því sem hafði gerst en það hefði verið samhengislaust að mestu en brotaþoli hefði talað um að hann hefði misst hníf sem hann hefði farið með út og einhver maður hefði náð honum. Maðurinn kvað áverka brotaþola ekki hafa verið mikinn.

                Húsráðandi í nefndri íbúð og frænka vinkonu ákærða bar að ákærði og vinkonan hefðu komið til sín en ákærði hefði farið á bifreið vinkonunnar. Síðar hefði ákærði farið en vinkonan orðið eftir. Þegar ákærði hefði komið aftur að sækja vinkonuna hefði brotaþoli farið með henni út til að ræða við ákærða. Kvað húsráðandi sig minna að brotaþoli hefði verið með hníf er hann hefði tekið með sér út. Hún kvaðst svo hafa sofnað og ekki séð brotaþola er hann kom inn. Hún taldi vinkonuna ekki hafa verið hrædda við ákærða. Þá kvaðst hún hafa spurt brotaþola af hverju hann tæki hníf með sér og hann þá sagt að hann ætlaði ekki að nota hann. Hún kvaðst hafa hringt í brotaþola á slysadeildina og hefði hann sagt sér að hnífurinn hefði dottið úr vasanum og ákærði hefði slegið sig í höfuðið með honum. Þetta hefði verið frekar stór hnífur en ekki vissi hún hver átti hann. 

                Maður, sem býr í nágrenni við vettvang, kvaðst hafa séð „blóðugan gæja“ með hníf í hendinni úti á bifreiðastæði við nefndan söluturn. Maður hefði verið að ganga í burtu en ekki vissi hann hvert. Maðurinn kvaðst hafa séð að blóð var framan í manninum.

                Eiginkona framangreinds manns kvaðst hafa heyrt rifrildi og læti við söluturninn og séð út um glugga tvo menn vera að rífast og eins hefði ung stúlka verið á staðnum. Hún kvaðst hafa séð annan manninn fara á bak við söluturninn og hefði hann verið blóðugur. Maður þessi hefði farið með stúlkunni. Konan kvaðst hafa heyrt annan manninn segja „þú stakkst mig“ og hinn hefði þá sagt „það varst þú sem komst með hnífinn“. Hún kvaðst ekki vita fyrir víst hver sagði hvað. Þá kvaðst hún ekki hafa séð átök en hún hefði séð blóðuga manninn vera með hníf.

                Lögreglumaður, sem kom á vettvang og ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hún bar að upphaflega hefði verið tilkynnt um að maður gengi berserksgang á bifreiðastæði. Síðar hefði verið tilkynnt  að maðurinn væri vopnaður hnífi. Á vettvangi hefði ákærði verið handjárnaður og færður í lögreglubifreiðina til viðræðna. Á meðan rætt var við ákærða hefði stúlka komið og sagt að vinur hennar hefði verið stunginn í höfuðið. Þetta hefði verið framangreind vinkona ákærða. Lögreglumaðurinn kvaðst hafa farið í íbúðina með vinkonunni en þá hefði komið ljós að brotaþoli hafði þegar farið á slysadeild. Hún kvað lögreglumennina hafa rætt við vinkonuna sem hafi sagt þeim að hún og ákærði væru búin að vera vinir í mörg ár. Ákærði hefði fengið bifreið hennar lánaða en ekki skilað henni og hún því tilkynnt að henni hefði verið stolið. Ákærði hefði svo komið og beðið hana að koma út og ræða við sig. Hún kvaðst hafa beðið brotaþola að koma með sér að ræða við ákærða. Á vettvangi hefðu ákærði og brotaþoli farið að rífast og þá hefði ákærði tekið upp hníf og stungið brotaþola. Lögreglumaðurinn kvað blóðslettur hafa verið á vettvangi en hnífurinn hefði ekki fundist. Hún kvað ákærða hafa verið mjög æstan, ýmist grátandi eða öskrandi.

                Lögreglumaður, sem kom á vettvang, bar að tilkynning hefði borist um að maður gengi berserksgang á nefndum stað og að hann væri hugsanlega að skemma bifreið. Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt að þessari bifreið hefði verið stolið. Ákærði var því handtekinn og færður í lögreglubifreið á meðan málið var rannsakað. Skömmu síðar kom kona sem var eigandi bifreiðarinnar og skýrði frá því að ákærði hefði stungið mann í höfuðið með hníf. Hinn stungni hefði farið inn í ákveðna íbúð í nágrenninu. Ákærði var fluttur á lögreglustöð en lögreglumennirnir fóru í íbúðina þar sem brotaþoli átti að vera en hann hafði þá verið fluttur á slysadeild. Lögreglumaðurinn kvað ákærða hafa verið frekar æstan og hefði sagt að hann hefði ekkert gert og ekki skemmt bifreið. Þá kvað hann að leitað hefði verið að hníf á vettvangi en hann hefði ekki fundist. Hann gat þess að blóðblettir hefðu verið á vettvangi.

                Rannsóknarlögreglumaður og blóðferlasérfræðingur bar að ekki væri hægt að segja til um hvers konar blæðing hefði verið úr brotaþola en myndir af blóðblettum í snjó eru meðal gagna málsins. Þetta væru bara myndir af blóðblettum í snjó sem gætu hafa verið úr fingri eða jafnvel blóðnösum.

                Heilaskurðlæknir, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann bar að höggvist hefði upp úr höfuðkúpu brotaþola og hefði áverkinn gengið í gegnum beinþykktina en ekki lengra. Heilinn hefði sloppið en höggið hefði verið mikið. Þá hefði beitt áhald valdið þessu auk þungs höggs. Á þessum stað er höfuðkúpan þykkari en annars staðar. Hefði verkfærið gengið lengra inn hefði áverkinn verið lífshættulegur.

                Læknir, sem skoðaði brotaþola á slysadeild, staðfesti framagreint vottorð. Hann kvað litla slagæð hafa farið í sundur í brotaþola og blæðing því ekki mikil úr henni. Hins vegar hefði blætt verulega úr sárinu. Áverkinn hefði verið í gegnum alla beinþykktina og ekki verið langt eftir inn í heilann. Hann taldi að töluvert afl hefði þurft til að valda áverkanum.

IV

                Samkvæmt gögnum málsins, þar með töldum framangreindum skýrslum er gefnar voru við aðalmeðferð, eru atvik málsins þau að ákærði bað vinkonu sína að koma til fundar við sig á þeim stað er í ákæru getur. Hún fór þangað ásamt brotaþola er hún hafði beðið að koma með sér. Brotaþoli tók með sér hníf. Á vettvangi reyndi ákærði að fá vinkonu sína til að ræða við sig en án árangurs. Í framhaldinu hófust framangreind átök milli ákærða og brotaþola. Á vettvangi voru engir aðrir en þessi þrjú. Af framburði þeirra verður ekki ráðið að vinkonan hafi átt nokkurn þátt í átökunum. Er þá ekki öðrum til að dreifa en ákærða og brotaþola. Hér að framan voru rakin tvö læknisvottorð og framburður læknanna. Af þeim er ljóst að þungt högg með beittu áhaldi hefur þurft til að valda áverkanum. Það útilokar þann möguleika að hnífurinn hafi rekist í brotaþola fyrir slysni í átökum hans og ákærða. Það útilokar einnig að brotaþoli hafi sjálfur veitt sér áverkann eins og ákærði hefur gefið í skyn. Er þá ekki öðrum til að dreifa en ákærða. Hann hefur neitað sök en kannast við að hafa lent í átökum við brotaþola og í þeim átökum haldið utan um hendi brotaþola og beint hnífnum, sem brotaþoli hélt á, frá sér. Ákærði er stór maður, [...]. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var hann í annarlegu ástandi og sveiflaðist milli þess að gráta og vera æstur og brjálaður eins og þar segir. Skýrsluritari staðfesti þetta við aðalmeðferð og kvað ákærða hafa verið mjög æstan, ýmist grátandi eða öskrandi. Annar lögreglumaður bar að ákærði hefði verið frekar æstur. Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að ekki sé óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi í átökunum við brotaþola veitt honum högg með hnífnum í höfuðið eins og honum er gefið að sök í ákærunni og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Ákærða mátti vera ljóst að með því að takast á við brotaþola með hníf, sem hann annaðhvort hélt á eða hélt um hönd brotaþola sem hélt á hnífnum, gæti svo farið að stórhættulegt vopn stingist í brotaþola eins og raunin varð. Það var hending ein sem réði því að hnífurinn stakkst í höfuð brotaþola á þeim stað sem höfuðkúpan er þykk. Hefði lagið komið á öðrum stað þar sem höfuðbeinin eru ekki eins þykk hefðu afleiðingarnar getað orðið mun alvarlegri og hugsanlega getað valdið dauða brotaþola. Samkvæmt þessu er fallist á með ákæruvaldinu að brot ákærða varði við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

                Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sektaður þrisvar sinnum á árunum 2013 og 2015 fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Hann var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 4. febrúar 2015 fyrir fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi 11. maí 2017 fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Skilorðsdómurinn var dæmdur með þeim dómi. Ákærða verður nú dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður haft í huga að þrátt fyrir að ákærði hafi verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps þá hafði atlaga hans að brotaþola ekki miklar afleiðingar í för með sér. Að þessu athuguðu og með vísun til 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga svo og að teknu tilliti til málsatvika allra er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár. Til frádráttar skal koma gæsluvarðahaldsvist hans eins og í dómsorði segir.

                Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og er þá haft í huga að atlaga ákærða hafði ekki miklar afleiðingar á líf og heilsu brotaþola. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu og skal hún bera dráttarvexti frá þeim degi er liðnir voru 30 dagar frá þingfestingu.

                Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, þóknun fyrri verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola. Laun og þóknanir eru ákvörðuð með virðisaukaskatti í dómsorði. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 5. mars 2017 til dagsins í dag.

                Ákærði greiði C 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. mars 2017 til 8. júlí sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                               Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hrl., 2.866.880 krónur og 12.000 krónur í aksturskostnað, þóknun fyrri verjanda síns, Þorgeirs Þorgeirssonar hdl., 569.160 krónur og 12.000 krónur í aksturskostnað og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jón Bjarna Kristjánssonar hdl., 527.000 krónur.