Print

Mál nr. 754/2017

A, B, C og D (Sveinn Sveinsson lögmaður)
gegn
dánarbúi E (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dánarbú
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðila við einkaskipti á dánarbúi F. Í málinu deildu aðilar annars vegar um það hvort E hefði skuldbundið sig til þess að yfirtaka kröfu, sem sóknaraðilar töldu að F hefði átt á hendur syni E, og hins vegar hvort E hefði fyrir andlát sitt gefið með tilteknum skilmálum nánar tilgreinda fjárhæð af arfshluta sínum úr dánarbúi F og greiðslur til dánarbús E ættu þess vegna að skerðast sem því næmi. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að sóknaraðilar bæru sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum um að E hefði yfirtekið ætlaða kröfu á hendur syni sínum og um að hún hefði ráðstafað áðurgreindum arfshluta sínum á þann veg sem þeir héldu fram, en sú sönnun hefði ekki tekist. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2017, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðila við einkaskipti á dánarbúi F. Kæruheimild var í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að „sú ákvörðun dánarbúsins standi, sem tekin hafi verið af öllum erfingjum þess, að við útborgun arfsins til erfingjans E verði frádregnar 2.616.200 krónur vegna yfirtöku hennar á útistandi kröfu búsins og 1.000.000 króna vegna sérstakrar óskar erfingjans um greiðslu til þriðja aðila og varðveislu á þeirri fjárhæð og gjöf með fyrirvara.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Ágreiningsefni máls þessa lúta að því hvernig haga eigi skiptum á dánarbúi F sem lést 30. mars 2016. Erfingjar F voru fimm börn hennar E, A, B, C og D. Þau fengu 26. apríl 2016 leyfi til einkaskipta á dánarbúi F og hófust brátt handa um skiptin en við þau nutu þau aðstoðar endurskoðanda sem um árabil hafði aðstoðað hina látnu við framtalsgerð og þekkti til aðstæðna hennar. Samkvæmt gögnum málsins koma til skipta peningar að fjárhæð 35.572.912 krónur, innbú að verðmæti 110.000 krónur og ætluð krafa hinnar látnu á hendur G að fjárhæð 2.616.200 krónur. Er ekki ágreiningur milli málsaðila um framangreindar fjárhæðir, þótt deilt sé um tilvist fjárkröfunnar.

Einn erfingja, E, lést 22. ágúst 2016, áður en skiptum á dánarbúi móður hennar lauk. Sonur E, áðurnefndur G, fékk leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 28. september 2016, en hann mun vera eini erfinginn.

Í málinu deila aðilar um tvö atriði. Annars vegar um það hvort E hafi skuldbundið sig til þess að yfirtaka kröfu, sem sóknaraðilar telja að hin látna, F, hafi átt á hendur G, en fjárhæð kröfunnar er sögð 2.616.200 krónur. Hins vegar um það hvort E hafi fyrir andlát sitt gefið með tilgreindum skilmálum 1.000.000 krónur af arfshluta sínum úr dánarbúi móður sinnar og greiðslur til dánarbús E eigi þess vegna að skerðast sem því nemur. Sóknaraðilar hafa sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum um að E hafi yfirtekið ætlaða kröfu á hendur syni sínum, G, og um að hún hafi ráðstafað áðurgreindri 1.000.000 krónum á þann veg sem þeir halda fram. Sú sönnun hefur ekki tekist og verður hinn kærði úrskurður staðfestur með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn af sinni hálfu og kemur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki til úrlausnar.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að mál þetta varðar innbyrðis ágreining erfingja við skipti á dánarbúi. Einn erfingja, varnaraðili, beindi til héraðsdóms kröfu um úrlausn ágreinings síns við aðra erfingja, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómur taldi ágreininginn eiga undir úrlausn dómsins. Dóminum bar samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna að ákveða hvernig aðild að málinu skyldi háttað. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. 123. gr. skyldi varnaraðili hér fyrir dómi vera til sóknar í héraði, en sóknaraðilar hér fyrir dómi þar til varnar. Ekki er í framangreindum reglum gert ráð fyrir að dánarbúið sjálft eigi aðild að málum sem þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar A, B, C og D greiði óskipt varnaraðila, dánarbúi E, 350.000 krónur, í kærumálskostnað.

                                                        

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2017.

Krafa sóknaraðila um úrlausn á ágreiningi sem reis við einkaskipti á varnaraðila, dánarbúi F, barst með bréfi, dagsettu 30. desember 2016, sem móttekið var af dóminum 5. janúar 2017.

Sóknaraðili er dánarbú E, kt. [...], sem var síðast til heimilis að [...], [...].

Varnaraðilar eru dánarbú F, kt. [...], síðast til heimilis að [...], [...], C, kt. [...], [...], [...], B, [...], [...], [...], A, kt. [...], [...], [...], og D, kt. [...], [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess að við úthlutun úr dánarbúi F, kt. [...], komi í hlut sóknaraðila, dánarbús E, kt. [...], 7.637.822 krónur.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu óskipt úr hendi varnaraðila.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að sú ákvörðun dánarbúsins standi, sem tekin hafi verið af öllum erfingjum þess, að við útborgun arfsins til erfingjans E verði frádregnar 2.616.200 krónur vegna yfirtöku hennar á útistandandi kröfu búsins og 1.000.000 króna vegna sérstakrar óskar erfingjans um greiðslu til þriðja aðila og varðveislu á þeirri fjárhæð og gjöf með fyrirvara.

Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

F lést 30. mars 2016 og veitti sýslumaðurinn í Reykjavík erfingjum hennar heimild til einkaskipta 26. apríl 2016. Erfingjar F voru börn hennar, þau C, B, A, E og D.

Erfingjar F munu hafa verið sammála um að fá endurskoðanda móður sinnar, H, til að annast um skiptin á dánarbúinu og útbjó hann erfðafjárskýrslu og bráðabirgðaeinkaskiptagerð. Helstu eignir búsins voru fasteign, bankainnistæður og þá var talin á meðal eigna búsins útistandandi krafa að fjárhæð 2.616.200 krónur. Til skipta komu samtals 38.299.112 krónur. Gert var ráð fyrir að hver og einn erfingi stæði skil á erfðafjárskatti af sínum arfshluta.

Dóttir F, E, andaðist 22. ágúst 2016. Sonur hennar og eini erfingi er G, kt. [...]. Veitti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu honum heimild til einkaskipta á dánarbúi móður sinnar 28. september 2016.

Einkaskiptum á dánarbúi F var ekki lokið þegar E lést, en úthlutun arfs mun hafa farið fram að mestu leyti. Samkvæmt úthlutunargerð var gert ráð fyrir að E tæki yfir áðurgreinda útistandi kröfu dánarbúsins. Samkvæmt úthlutunargerðinni nam arfshlutur systkina E í peningum 7.637.822 krónum til hvers um sig, en arfshluti E í peningum nam 5.021.622 krónum eða sem nemur mismuninum á 7.637.822 krónum og fjárhæð hinnar útistandandi kröfu, 2.616.200 krónum.

Varnaraðilar halda því fram að E hafi fram að andláti sínu tekið þátt í uppgjöri dánarbús móður þeirra og rætt það ítarlega við systkini sín. Á meðal þess sem um hafi verið rætt hafi verið útistandandi krafa dánarbúsins á hendur G, syni E, en um hafi verið að ræða peningalán, sem F hafði veitt G í tveimur hlutum. Hafi E óskað sérstaklega eftir því að við útborgun arfsins skyldi lánsfjárhæðin dregin frá greiðslu á arfi til sín. Hafi frágangur erfðafjárskýrslu, einkaskiptagerð og úthlutun arfsins verið í samræmi við þessa ósk hennar.

Lán þessi hafi G veitt dóttursyni sínum, G, á árinu 2011 að hans ósk. Samkvæmt gögnum málsins tók F tvö lán hjá Gildi-lífeyrissjóði, þar sem hún var sjóðfélagi. Annað lánið var tekið 23. september 2011 og var að fjárhæð 1.000.000 króna og hitt sömu fjárhæðar var tekið tekið 12. október sama ár. Bæði lánin voru til 25 ára og var fasteign F, [...], sett að veði. Varnaraðilar halda því fram að ætlunin hafi verið sú að F fengi greiðsluseðlana senda mánaðarlega til sín, en að G skyldi greiða þá. Hafi F sagt tveimur barna sinna að hún geymdi greiðslukvittanir í sérstakri skúffu og í hvert skipti sem G greiddi afborgun af lánunum fengi hann kvittun úr skúffunni. Við andlát F hafi verið fjöldi kvittana í skúffunni.

Andvirði umræddra lána hafi verið lagt inn á reikning F. Í fyrra skiptið hafi lánsfjárhæðin verið færð inn á reikning G, en í síðara skiptið hafi andvirði lánsins verið tekið út af E í peningum.

Þá kveða varnaraðilar að á meðan á skiptum á dánarbúi móður þeirra stóð hafi E rætt við bróðurdóttur sína, I, um dánarbússkiptin, en þær hafi verið góðar vinkonur. Hafi E farið fram á það við I að við útborgun arfsins til hennar yrði hluta hans eða 1.000.000 króna ráðstafað inn á bankareikning í vörslum I og skyldi reikningurinn vera bundinn í þrjú ár. Hafi E viljað eiga varasjóð í vörslum I og hafi vilji hennar staðið til þess að þessir fjármunir rynnu til I að sér látinni, þ.e. væri E ekki búin að eyða þeim áður. Hér hafi því verið um gjafagerning að ræða í lifanda lífi, sem háður hafi verið fyrirvara.

Að sögn varnaraðila var gengið frá greiðslum til allra erfingjanna á framangreindum forsendum og aðeins haldið eftir 600.000 krónum í búinu til að mæta ókomnum útgjöldum, svo sem skattgreiðslum. Hinn 12. júlí 2016 hafi allir erfingjarnir fengið greiddar 6.000.000 króna nema E, sem hafi fengið greiddar 3.000.000 króna inn á reikning sinn og 1.000.000 króna inn á geymslureikning hjá I. Þessar greiðslur hafi verið byggðar á samþykki allra erfingjanna. Áðurgreind útistandandi krafa, sem E hafi óskað eftir að yfirtaka, hafi verið dregin frá peningagreiðslum til hennar.

Erfðafjárskýrslan hafi síðan verið afhent sýslumanni 23. ágúst 2016. G, sonur E, hafi gert athugasemdir við uppgjör dánarbúsins og látið stöðva afgreiðslu erfðafjárskýrslunnar hjá sýslumanni.

Í kjölfarið hófust að sögn sóknaraðila samskipti hans við fyrirsvarsmann erfingja, D, og síðar lögmann varnaraðila til þess að afla nánari upplýsinga og gagna að baki ætlaðri skerðingu á arfshluta E. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og áskoranir hafi varnaraðilar ekki fært fram nein haldbær gögn til styrktar þeirri staðhæfingu erfingja F að E hafi óskað eftir því eða unað því að arfshluti hennar yrði skertur með þeim hætti sem greinir í téðri erfðafjárskýrslu frá 28. ágúst 2016, en hún sé ekki undirrituð af hálfu E.

II

Sóknaraðili kveðst hafna þeirri fullyrðingu varnaraðila að E hafi ætlað að „taka á sig“ tvö lán, sem F heitin hafi tekið haustið 2011 hjá Gildi lífeyrissjóði, hvort að fjárhæð 1.000.000 króna. Andvirði annars lánsins, 990.000 krónum, hafi F ráðstafað til G, sonar E, en F hafi með því viljað aðstoða barnabarn sitt. Ekki liggi fyrir frekari gögn að baki þessu en útgefin veðskuldabréf og millifærslukvittun, dagsett 6. október 2011.

Þá hafi því einnig verið borið við að E hafi óskað eftir því við bróður sinn að 1.000.000 króna af arfshluta hennar eftir móður þeirra yrði ráðstafað til bróðurdóttur hennar. Bróðir E hafi af því tilefni millifært 1.000.000 króna af sínum reikningi inn á sparnaðarreikning dóttur sinnar í júlímánuði 2016. Hann haldi því fram að þetta hafi verið gert með þessum hætti þar sem E hafi verið á sjúkrahúsi og því ekki átt heimangengt. Hafi þetta verið gert með þeim formerkjum að um eins konar varasjóð E yrði að ræða, sem geymdur yrði inni á lokaðri bók bróðurdóttur hennar, sem hún myndi síðan eignast að E látinni.

Þessum útskýringum að baki fyrirhugaðri skerðingu á arfshluta E, nú dánarbús E, sé með öllu mótmælt af hálfu dánarbúsins. Ekkert liggi fyrir um það hvort ráðstöfunin eigi að helgast af því að E hafi í lifanda lífi afsalað sér arfi að hluta eða hafnað arfi að hluta. Þá liggi heldur ekki fyrir gögn eða upplýsingar sem renni stoðum undir áðurgreindar fullyrðingar varnaraðila um millifærslu á 1.000.000 króna af reikningi bróður E inn á reikning dóttur hans nokkrum vikum fyrir andlát E og sem leiða eigi til viðbótarskerðingar á arfshluta E sem áðurgreindri fjárhæð nemur. Sé slíkum málatilbúnaði, þótt óljós sé, vísað á bug með öllu.

Frekari greiðslum til dánarbús E hafi verið hafnað af hendi samerfingja hennar. Um 600.000 krónum muni vera óráðstafað úr dánarbúinu og muni 1/5 þess renna til dánarbús E.

III

Varnaraðilar byggja á því að áðurgreind erfðafjárskýrsla og drög að einkaskiptagerð hafi verið í samræmi við vilja allra erfingjanna. Þeir hafi setið fundi um skipti á dánarbúinu þar sem m.a. hafi verið til umræðu áðurgreind lán til G. Hafi E á fundum þessum boðist til að yfirtaka kröfu á hendur honum.

Eftir að E hafði samþykkt að taka yfir áðurgreinda útistandandi kröfu dánarbúsins á hendur G hafi bankainnistæðum dánarbúsins verið skipt á milli erfingja. Kveðast varnaraðilar vísa til þess að greiðslur til erfingja í júní og júlí sýni að greiðslur til E voru lægri en til annarra erfingja eða sem nemi fjárhæð hinnar útistandandi kröfu. Hafi greiðslurnar verið í samræmi við ákvörðun allra erfingjanna og engar athugasemdir hafi verið gerðar við þær fyrr en sonur E hafði fengið heimild til einkaskipta á dánarbúi hennar.

Varnaraðilar halda því fram að G hafi óskað eftir því að F amma hans tæki lán hjá lífeyrissjóði sínum, sem hann myndi síðan greiða af á hverjum gjalddaga. Vísa varnaraðilar til þess að andvirði annars lánsins hafi runnið beint inn á reikning G, en andvirði hins lánsins hafi móðir hans tekið út af reikningi F í peningum. Byggja varnaraðilar á því að F, þá á níræðisaldri, hafi enga ástæðu haft til að taka lán nema til að endurlána G. Hún hafi sjálf ekki verið fjárhagslega í stakk búin til að endurgreiða lánin, enda hefði henni varla enst aldur til að endurgreiða þau, en lánin hafi verið til 25 ára. Þá benda varnaraðilar á að móðir þeirra hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að taka á sig greiðslubyrði af lánunum og vísa í því sambandi til framlagðrar yfirlýsingar endurskoðanda hennar til margra ára, H.

Einnig vísa varnaraðilar til framlagðrar yfirlýsingar J, vinkonu E, en þar segi m.a. eftirfarandi:

„E ræddi oftsinnis við mig um lán, sem G hafði fengið hjá ömmu sinni. Hafði E miklar áhyggjur af því, að lánið þyrfti að gera upp, þegar móðir hennar félli frá. Eftir að móðir E féll frá sagði hún mér, að hún hefði ákveðið að yfirtaka kröfuna á son sinn við skipti á búi móður sinnar. Nefndi hún, að þetta væru um 2,6 milljónir króna. Þetta kom til tals nokkrum sinnum, og er ég þess fullviss, að þetta var skýlaus vilji hennar og ákvörðun.“

Halda varnaraðilar því fram að hér sé vísað til áðurgreindrar útistandandi kröfu dánarbúsins á hendur G, sem E hafi óskað eftir að yfirtaka við skiptin á dánarbúi móður þeirra. Yfirlýsing J byggi einnig undir þá fullyrðingu varnaraðila að E hafi samþykkt yfirtöku á kröfunni.

Að því er varðar greiðslu dánarbúsins á 1.000.000 króna inn á reikning I byggja varnaraðilar á því að sú greiðsla hafi verið innt af hendi með fullum vilja og að ósk E. Hafi hún lýst því yfir að hún hefði áhuga á að eiga varasjóð á reikningi sem bundinn væri til þriggja ára og væri ekki á hennar nafni. Hafi fjárhæðin verið lögð inn á sérstakan sparnaðarreikning til 36 mánaða í Íslandsbanka 12. júlí 2016 og sé fjárhæðin þar enn.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að E hafi lýst því yfir að væru þessir peningar enn til þegar hún félli frá skyldu þeir renna til I. Í því sambandi vísa varnaraðilar til yfirlýsingar áðurnefndrar J þar sem segi m.a.:

„Varðandi þá peninga, sem greiddir voru inn á reikning I bróðurdóttur E, þá sagði hún mér, að hún hefði ákveðið að leggja til hliðar milljón eða þar um bil sem varasjóð, sem G ætti ekki að vita um eða komast í. „Ef ég drepst má stelpan eiga þetta, af því hann er búinn að fá nóg“. Þetta voru hennar óbreyttu orð.“

Byggja varnaraðilar á því að hér hafi verið um gjafagerning í lifanda lífi að ræða, með fyrirvara.

Varnaraðilar mótmæla kröfufjárhæðinni sem sett sé fram í málinu, 7.637.822 krónum, og telja að hún fái alls ekki staðist. Ljóst sé að ef dánarbúið á ekki umrædda útistandandi kröfu lækki heildareignir búsins og greiðslur til hvers erfingja um sig lækki sem því nemi.

Til stuðnings máli sínu vísa varnaraðilar til erfðalaga nr. 8/1962 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga. Hvað varðar málskostnaðarkröfuna vísa varnaraðilar til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Í máli þessu er um það deilt hvort E, sem nú er látin, hafi við skipti á dánarbúi móður sinnar yfirtekið ætlaða kröfu dánarbúsins á hendur syni sínum, G, að fjárhæð 2.616.200 krónur. Þá er um það deilt hvort vilji E hafi staðið til þess að 1.000.000 króna af arfshluta hennar í dánarbúinu yrði lögð inn á bundinn bankareikning á nafni bróðurdóttur hennar, I, sem hafi átt að varðveita féð og eignast það eða það sem eftir yrði af því að E látinni.

Eins og fram hefur komið lést F, kt. [...], hinn 30. mars 2016, en börn hennar og einu erfingjar voru varnaraðilar, C, B, A og D og systir þeirra E. Með beiðni, dagsettri 7. apríl 2016, sem undirrituð er af öllum systkinunum, óskuðu þau eftir leyfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til einkaskipta á dánarbúi móður sinnar. Með beiðninni veittu þau jafnframt systur sinni, A, „umboð til að koma fram af hálfu okkar og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal ráðstöfun eigna, viðtöku andvirðis þeirra og opinbera skýrslugerð og til að taka við tilkynningum í okkar þágu vegna dánarbúsins.“ Sýslumaður veitti systkinunum leyfi til einkaskipta á dánarbúinu 26. apríl 2016. Fram hefur komið að systkinin hófu strax að skipta eignum dánarbúsins og settu fasteign hinnar látnu að [...] á sölu.

Samkvæmt gögnum málsins var fyrsta greiðsla vegna sölu á fasteigninni innt af hendi til dánarbúsins 15. júní 2016 og að frádregnum áðurgreindum tveimur lánum sem hvíldu á fasteigninni nam hún 1.274.026 krónum. Var þeirri fjárhæð skipt sama dag á milli allra erfingjanna að undanskilinni E, þ.e. á milli C, B, A og D og komu 318.507 krónur í hlut hvers um sig.

Fyrir liggur í málinu að sumarið 2016 var E orðin langt leidd af krabbameini, sem greindist fyrst á árinu 2007. Samkvæmt gögnum málsins lagðist hún inn á Landspítalann 10. júlí 2016 vegna slappleika í tengslum við krabbameinið.

Hinn 11. júlí 2016 barst önnur kaupsamningsgreiðslan vegna sölu á fasteigninni að [...], og var hún að fjárhæð 31.500.000 krónur. Daginn eftir var 28.000.000 króna skipt á milli systkinanna þannig að í hlut C, B, A og D komu 6.000.000 króna til hvers um sig, en í hlut E komu 3.000.000 króna og þá var 1.000.000 króna greidd inn á reikning I.

Hinn 4. ágúst 2017 barst dánarbúinu lokagreiðslan vegna sölu á fasteigninni að [...] og var hún að fjárhæð 3.364.826 krónur. Hafði afsal þá verið gefið út vegna sölunnar.

Tæpum þremur vikum síðar eða aðfaranótt 22. ágúst 2016 lést E á Landspítalanum, en þar hafði hún legið frá 10. júlí sama ár.

Hinn 23. ágúst 2017 undirritaði A, fyrir sína hönd og annarra erfingja, erfðafjárskýrslu vegna skipta á dánarbúi F þar sem á meðal eigna búsins er talin útistandandi krafa, „E-krafa“ að fjárhæð 2.616.200 krónur. Var erfðafjárskýrslan móttekin hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 24. ágúst 2016.

Hinn 26. ágúst 2016 var 6.298.882 krónum skipt á milli erfingjanna þannig að í hlut C, B, A og D komu 1.319.315 krónur til hvers um sig, en í hlut E komu 1.021.622 krónur. Haldið var eftir í búinu um 700.000 krónum til að mæta óvæntum útgjöldum.

Fram hefur komið að A var erlendis í fimm vikur fyrri hluta sumars 2016 og í fjarveru hennar tók D við greiðslum vegna sölu á fasteigninni að [...] og voru þær lagðar inn á bankareikning á hans nafni. Þá hefur komið fram að hann sá um að skipta þeim greiðslum á milli systkina sinna. Samkvæmt gögnum málsins greiddi D 1.000.000 króna af sínum reikningi og inn á reikning dóttur sinnar, I, hinn 12. júlí 2016. Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagðist D hafa innt þessa greiðslu af hendi að beiðni E.

Eins og áður greinir er á því byggt af hálfu varnaraðila að E heitin hafi lýst því yfir að hún vildi eiga varasjóð á reikningi sem bundinn væri til þriggja ára og væri ekki á hennar nafni. Hafi hún óskað eftir því að 1.000.000 króna af arfshluta sínum í dánarbúi móður sinnar yrði lögð inn á reikning á nafni bróðurdóttur sinnar I. Enn fremur hafi E lýst því yfir að væru þessir peningar eða hluti af þeim enn til þegar hún félli frá skyldu þeir renna til I. Óumdeilt er að 1.000.000 króna var lögð inn á bundinn reikning á nafni I 12. júlí 2016 og að sú fjárhæð er þar enn.

Varnaraðili D bar um það fyrir dóminum að E hafi sett fram áðurgreinda ósk í samtali þeirra 11. júlí 2016 eða daginn eftir að hún var lögð inn á sjúkrahús. Áður hafi E verið búin að ræða þetta við I, þ.e. að hún mætti eiga þá fjárhæð sem væri á reikningnum þegar hún félli frá, en á sama veg bar áðurgreind I.

Samkvæmt framangreindu er á því byggt að um hafi verið að ræða munnlegt gjafaloforð sem ekki hafi verið ætlast til að kæmi til framkvæmdar fyrr en að E látinni. Um dánargjöf var því að ræða í skilningi 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en samkvæmt því ákvæði gilda um dánargjafir sömu reglur og um erfðaskrár, sbr. 34.-53. gr. í VI. kafla laganna. Ljóst er að áðurgreint ætlað gjafaloforð E fullnægir ekki þeim reglum sem gilda um form erfðaskráa, sbr. 40.-44. gr. erfðalaga. Telst því ósannað að E hafi ánafnað bróðurdóttur sinni I eftir sinn dag allt að 1.000.000 króna af arfshluta sínum í dánarbúi F.

Þá byggja varnaraðilar á því að E heitin hafi við skipti á dánarbúi móður þeirra samþykkt að taka yfir ætlaða kröfu dánarbúsins á hendur syni sínum, G, að fjárhæð 2.616.200 krónur. Kom fram í skýrslu A og D að E systir þeirra hefði tekið fullan þátt í skiptum á dánarbúi móður þeirra og að sammæli hefðu verið um allar ráðstafanir sem átt hefðu sér stað við skiptin, m.a. um sölu fasteignarinnar, skipti á innbúi og að E tæki yfir ætlaða kröfu dánarbúsins á hendur syni sínum. Enginn ágreiningur hafi því verið um skiptin á dánarbúinu. Fullyrðingar varnaraðila um að E heitin hafi tekið þátt í skiptum á dánarbúinu fær stuðning í skýrslu sonar E, G, fyrir dóminum, en hann kvaðst hafa komið tvisvar eða þrisvar sinnum að [...] eftir andát ömmu sinnar til að aðstoða móður sína og færa henni flutningakassa, en þá hafi móðir hans og varnaraðilar unnið þar að skiptum á innbúinu. Einnig kvaðst hann hafa heyrt móður sína ræða um búskiptin við systur sína A þegar sú síðarnefnda heimsótti hana á sjúkrahúsið. Þá fær sú fullyrðing varnaraðila að E hafi á einhverjum tímapunkti við skiptin á dánarbúi móður þeirra lýst yfir þeim vilja sínum að taka yfir ætlaða kröfu dánarbúsins á hendur G stoð í framburði vitnisins J, æsku- og trúnaðarvinkonu E heitinnar, en óumdeilt er að mikill samgangur var á milli þeirra.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að ekki hafði verið gengið frá einkaskiptagerð í dánarbúi F þegar E heitin lést, en í málinu liggja einungis fyrir óundirrituð drög að slíkri gerð. Fram hefur komið að afsal vegna sölu á fasteigninni var gefið út í lok júlí og að dánarbúinu barst uppgjörsgreiðsla vegna sölunnar 4. ágúst 2016. Var því ekkert að vanbúnaði að erfingjar gengju frá skriflegum samningi sín á milli um skiptin, einkaskiptagerð, þar sem tíundað yrði í einstökum atriðum hvaða eignir kæmu til skipta, hvaða skuldbindingar hvílt hafi á búinu, hvað hver erfingjanna fengi í sinn hlut við skiptin og hvaða skuldbindingar hver þeirra kynni að taka að sér, sbr. 1.-5. tölulið 1. mgr. 93. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en fram hefur komið að E heitin var vel áttuð andlega allt til enda, þótt líkamlegri heilsu hennar hefði hrakað mjög í lok sumars. Þar sem þau drög að einkaskiptagerð, sem frammi liggja í málinu, höfðu ekki verið undirrituð af erfingjum í búinu þegar E féll frá þykir skorta á sönnur þess að hún hafi samþykkt yfirtöku á ætlaðri kröfu dánarbúsins á hendur syni hennar, þ.e. að frá arfshluta hennar skyldi draga áhvílandi fasteignalán að viðbættum þeim afborgunum sem inntar höfðu verið af hendi af lánunum eða samtals 2.616.200 krónur. Þessi atriði komu ekki fram í erfðafjárskýrslu dánarbúsins, sem auk þess var undirrituð samkvæmt umboði eftir að E lést. Hvorki verður talið að eignir búsins hafi verið óverulegar eða að einkaskiptin hafi verið einföld með vísan til þess sem að framan greinir og verður því ekki talið að 3. mgr. 93. gr. laga nr. 20/1991 geti átt við í þessu tilviki. Samkvæmt framangreindu var einkaskiptum á dánarbúi F ekki lokið þegar E féll frá, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Með vísan til þess og alls framangreinds verður því að telja ósannað að E heitin hafi við skipti á dánarbúi móður sinnar samþykkt að yfirtaka ætlaða kröfu dánarbúsins á hendur syni sínum að áðurgreindri fjárhæð. Eins og málið liggur fyrir verður að miða við að hin ætlaða útistandandi krafa dánarbúsins hafi skipst að jöfnu á milli erfingjanna eins og aðrar eignir búsins. Þá verður eins og að framan greinir eigi lagt til grundvallar í málinu að E heitin hafi ráðstafað allt að 1.000.000 króna til bróðurdóttur sinnar eftir sinn dag.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er fallist á dómkröfur sóknaraðila, þ.e. að við úthlutun úr dánarbúi F komi í hlut sóknaraðila, dánarbús E, 7.637.822 krónur, þ.e. 1/5 hluti arfs í peningum, 7.114.582 krónur, og 1/5 hluti arfs í ætlaðri útistandandi kröfu, 523.240 krónur. Innbúsmunum hefur þegar verið skipt á milli erfingja og er ekki ágreiningur um að í hlut hvers erfingja hafi komið 1/5 hluti arfs í innbúi að verðmæti 22.000 krónur.

Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Við uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, dánarbús E, um að við úthlutun úr dánarbúi FDán, komi í hlut sóknaraðila 1/5 hluta arfs í peningum, 7.114.582 krónur, og 1/5 hluta arfs í ætlaðri útistandi kröfu, 523.240 krónur eða samtals 7.637.822 krónur.

Málskostnaður fellur niður.