Print

Mál nr. 679/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Arnar Þór Stefánsson hrl.), Y (Óskar Sigurðsson hrl.), Z (Helgi Jóhannesson hrl.) og Þ (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
Lykilorð
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun
  • Aðfinnslur
Reifun

Ákærðu voru gefin að sök auðgunarbrot með því að Y, Z, Þ hefðu undirritað að undirlagi X tilkynningar til Vinnueftirlitsins og Umferðarstofu um eigendaskipti að samtals 20 vinnuvélum og ökutækjum. Við þetta hefði félagið B ehf. orðið skráður eigandi tækjanna sem áður voru í eigu A ehf. án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Voru brotin í ákæru aðallega talin fjárdráttur, sbr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara skilasvik, sbr. 4. töluliður 1. mgr. 250. gr., eða umboðssvik, sbr. 249. gr. sömu laga. Með dómi héraðsdóms voru ákærðu sýknuð af kröfu ákæruvaldsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í héraðsdómi hefði ekki verið tekin afstaða til sakargifta með þeim hætti sem áskilið væri í f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og rökstuðningur fyrir niðurstöðu dómsins því með öllu ófullnægjandi. Af þeim sökum var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2016. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þau dæmd til refsingar.

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 12. október 2017 um formhlið þess.

I

Svo sem greinir í héraðsdómi eru ákærðu gefin að sök auðgunarbrot á árunum 2009 og 2010 með því að ákærðu Y, Z og Þ hafi undirritað að undirlagi ákærða X tilkynningar til Vinnueftirlitsins og Umferðarstofu um eigendaskipti að samtals 20 vinnuvélum og ökutækjum. Við þetta hafi B ehf. orðið skráður eigandi þessari tækja sem áður voru í eigu A ehf. án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Eru brotin í ákæru aðallega talin fjárdráttur, sbr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara skilasvik, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 250. gr., eða umboðssvik, sbr. 249. gr. sömu laga.

Samkvæmt samþykktum A ehf. frá 10. júlí 2009 var tilgangur félagsins meðal annars almenn verktakastarfsemi, vegagerð, klæðingar, lagning slitefna á vegi og annað þessu tengt. Félagið mun um árabil hafa tekið að sér ýmis verk við vegagerð. Samkvæmt ársreikningi félagsins 2007 var hagnaður af rekstrinum 4.473.641 króna og eigið fé 13.040.753 krónur. Í kjölfarið mun hafa tekið að halla undan fæti í rekstrinum.

B ehf. var stofnað 23. janúar 2009 en tilgangur þess samkvæmt samþykktum var meðal annars eignarhald, rekstur og útleiga áhalda, bifreiða, tækja og véla og önnur verktakastarfsemi. Samkvæmt stofnskrá skrifaði ákærði Z sig fyrir öllu hlutafé félagsins og hann sat í stjórn þess. Jafnframt var ákærða Y með prókúruumboð fyrir félagið.

Samkvæmt verk- og kaupsamningi 1. júlí 2009 tók B ehf. að sér að fullvinna og ljúka nánar tilgreindum verkum sem A ehf. hafði tekið að sér. Í samningnum kom fram að síðargreinda félagið hefði ekki bolmagn til að sinna þeim verkum. Í honum sagði jafnframt að B ehf. samþykkti „að taka upp í greiðslur ákveðnar og upplistaðar vélar, tæki og bíla í misgóðu ásigkomulagi þó“. Einnig var tekið fram að B ehf. tækju að sér viðhald á þessum tækjum. Þá sagði að „beinar greiðslur fyrir unnin verk gangi engu að síður til A sem þá greiðslur fyrir tól og tæki.“ Samkvæmt samningnum var A ehf. heimilt að kaupa aftur þær vélar og tæki sem félagið hafði látið af hendi „að undangenginni greiðslu fyrir allt vinnuframlag, vélavinnu varahluti, viðgerðir og allan útlagðan kostnað.“ Þessum samningi fylgdi handritaður listi yfir vélar og tæki, en þar á meðal voru allar þær vinnuvélar og ökutæki sem ákæra málsins tekur til að frátalinni bifreiðinni [...], sem d. liður I. kafla ákærunnar lýtur að.

Eins og greinir í ákæru voru tilkynningar um eigendaskipti á þeim vinnuvélum og ökutækjum sem ráðstafað var frá A ehf. til B ehf. dagsettar 5. ágúst 2009, 20. og 28. maí 2010 og 29. september 2010. Hluta af þessum tækjum var síðan ráðstafað áfram til annarra félaga.

Bú A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember 2010. Við athugun á málefnum þess komu í ljós þær ráðstafanir sem málið lýtur að og voru þær kærðar af hálfu þrotabúsins til embættis sérstaks saksóknara með bréfi 4. október 2011. Skiptum á búinu lauk 18. júlí 2014. Bú B ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. september 2012 og lauk þeim skiptum 18. mars 2013. 

II

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Að því er varðar a., b. og c. liði I. kafla ákærunnar var sú niðurstaða reist á því að ekki hefði verið hnekkt þeim framburði ákærðu að fyrrgreindur verk- og kaupsamningur hefði verið gerður 1. júlí 2009. Að virtum þeim samningi taldi héraðsdómur ekki hægt að fallast á að B ehf. hafi eignast þau tæki sem samningurinn tæki til án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Því var niðurstaðan aðeins byggð á því sem fram kom í samningnum um endurgjald fyrir þær vélar og tæki sem hann tók til.

Í skýrslu skiptastjóra þrotabús B ehf. fyrir dómi kom fram að engin starfsemi hefði verið hjá félaginu. Þannig hefði það ekki stofnað bankareikning og engin gögn verið fyrir hendi um bankaviðskipti þess. Jafnframt greindi skiptastjórinn frá því að ákærða Y hefði gefið þær skýringar á skráðu eignarhaldi félagsins á vinnuvélum og ökutækjum að eiginmaður hennar, ákærði X, hefði lagt þær inn í félagið og þannig myndað skuld gagnvart A ehf. Þessum tækjum hefði verið skilað til þrotabús A ehf., enda hefði félagið aldrei átt fjármuni eða kröfur af nokkru tagi. Þá kom fram í skýrslu ákærða Þ hjá lögreglu að þeim vinnuvélum og ökutækjum sem ákæran tæki til hefði verið ráðstafað til B ehf. til að reyna að koma þessum verðmætum undan. Einnig kvaðst ákærði ekki vita til að nokkur greiðsla hefði komið fyrir tækin. Fyrir dómi greindi ákærði Þ frá því að sig minnti að til hefði staðið að B ehf. greiddu fyrir tækin með vinnuframlagi. Aftur á móti taldi ákærði með ólíkindum að það hefði verið gert og mögulega hefði tækjunum verið ráðstafað til að skjóta þeim undan.

Við úrlausn um sýknu ákærðu af sakargiftum samkvæmt a., b. og c. liðum I. kafla ákæru vék héraðsdómur ekkert að þeim atriðum sem hér hafa verið rakin og hvaða áhrif þau hefðu við mat á sönnun sakar. Samkvæmt því var ekki tekin afstaða til sakargifta með þeim hætti sem áskilið er í f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og rökstuðningur fyrir niðurstöðu dómsins því með öllu ófullnægjandi. Verður því að ómerkja dóminn með vísan til 1. mgr. 204. gr. sömu laga og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Það athugast að Hæstarétti bárust dómsgerðir 16. maí 2017 en þá voru liðnir tæpir níu mánuðir frá því að þær voru afgreiddar frá héraðsdómi til ríkissaksóknara. Ekki hafa verið gefnar haldbærar skýringar á þessum drætti og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Arnars Þórs Stefánssonar, Helga Jóhannessonar, Óskars Sigurðssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 992.000 krónur til hvers þeirra.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. júlí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. júní  sl., er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, dagsettri 1. desember 2014 á hendur ákærðu, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...], Y, kt. [...], til heimilis að sama stað, Z, kt. [...], til heimilis að [...], [...] og Þ, kt. [...], til heimilis að [...], [...].

„I.

fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

a)      Á hendur ákærðu Þ, þáverandi starfsmanni og prókúruhafa einkahlutafélagsins A, kt. [...], [...], [...] (nú þrotabú), Y, þáverandi eiganda A ehf. og prókúruhafa og varamanni í stjórn B ehf., kt. [...], [...], [...] (nú þrotabú) og X, þáverandi starfsmanni A ehf., aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa á árinu 2009, í sameiningu, dregið B ehf. 5 vinnuvélar sem voru í eigu A ehf. Að undirlagi ákærða X undirrituðu ákærðu Þ, fyrir hönd A ehf., og Y, fyrir hönd B ehf., tilkynningar til Vinnueftirlitsins, sem heldur vinnuvélaskrá, um eigendaskipti að vinnuvélunum, dagsettar 5. ágúst 2009 en við það varð einkahlutafélagið B skráður eigandi þeirra vinnuvéla sem áður voru í eigu A ehf. án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Vinnuvélarnar sundurliðast sem hér segir:

Fastnúmer,                            Árgerð/Framl. ár                       Verðmæti skv.             Skráður kaupdagur

tegund og                                                                                      verðmati                                   skv. tilkynningu til

undirflokkur                                                                                                                                    vinnuvélaskrár            

 

[...],                                             1987/                                    2.000.000 kr.                                       05.08.2009

[...], valtari                                                                                                                

 

[...],                                               1994/                                     2.000.000 kr.                                       05.08.2009 [...], grafa       

 

[...],                                               1983/                                    1.000.000 kr.                                       05.08.2009

[...], jarðýta                                                                                                              

 

[...],                                               1982/                                      700.000 kr.                                        05.08.2009

[...], valtari                                                                                                                

 

[...],                                               1980/                                      700.000 kr.                                        05.08.2009

[...], valtari                                                                                                                

 

 

Til vara á hendur ákærðu Þ, Y og X fyrir umboðssvik með því að hafa, með framangreindum hætti, misnotað aðstöðu sína til tjóns fyrir A ehf. og kröfuhafa þess.

b)      Á hendur ákærðu Þ, þáverandi starfsmanni, prókúruhafa og stjórnarmanni A ehf., Y, þáverandi eiganda A ehf. og prókúruhafa og varamanni í stjórn B ehf. og X, þáverandi framkvæmdastjóra og prókúruhafa A ehf., aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa með því að hafa á árinu 2010 í sameiningu dregið B ehf. 6 ökutæki sem voru í eigu A ehf. Að undirlagi ákærða X undirrituðu ákærðu Þ, fyrir hönd A ehf., og Y, fyrir hönd B ehf., tilkynningar til Umferðarstofu (nú hluti af Samgöngustofu), sem heldur ökutækjaskrá, um eigendaskipti að ökutækjunum, dagsettar 20. maí 2010 og 28. maí 2010, en við það varð einkahlutafélagið B skráður eigandi þeirra ökutækja sem áður voru í eigu A ehf. án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Ökutækin sundurliðast sem hér segir:

Fastnúmer,                           Árgerð/Framl. ár                        Verðmæti skv.                            Skráður kaupdagur

tegund og                                                                                      verðmati                                   skv. tilkynningu til

ökutækjaflokkur                                                                                                                             ökutækjaskrár            

[...],                                               1979/1979                           1.000.000 kr.                                       20.05.2010

[...], vörubifreið         

[...],                                               1983/                                    1.500.000 kr.                                       20.05.2010

[...], vörubifreið                                                                                                       

[...],                                               1976/1976                              500.000 kr.                                       20.05.2010

[...], eftirvagn

[...],                                                      /1992                                400.000 kr.                                       20.05.2010

Festivagn, eftirvagn                                                                                               

[...],                                                1996/1996                          1.000.000 kr.                                       20.05.2010

[...], eftirvagn                                                                                                           

[...],                                                       /1991                            2.000.000 kr.                                       28.05.2010

[...], vörubifreið                                                                                                       

Til vara á hendur ákærðu Þ, Y og X fyrir umboðssvik með því að hafa, með framangreindum hætti, misnotað aðstöðu sína til tjóns fyrir A ehf. og kröfuhafa þess.

c)      Á hendur ákærðu Þ, þáverandi starfsmanni, prókúruhafa og stjórnarmanni A ehf., Z, þáverandi starfsmanni og stjórnarmanni A ehf. og þáverandi stjórnarmanni og prókúruhafa B ehf. og X, þáverandi framkvæmdastjóra og prókúruhafa A ehf., aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa á árinu 2010, í sameiningu, dregið B ehf., 8 ökutæki sem voru í eigu A ehf. Að undirlagi ákærða X undirrituðu ákærðu Þ, fyrir hönd A ehf., og Z, fyrir hönd B ehf., tilkynningar til Umferðarstofu um eigendaskipti að ökutækjunum, dagsettar 29. september 2010, en við það varð einkahlutafélagið B skráður eigandi þeirra ökutækja, sem áður voru í eigu A ehf., án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Ökutækin sundurliðast sem hér segir:

Fastnúmer,                            Árgerð/Framl. ár                       Verðmæti skv.                            Skráður kaupdagur

tegund og                                                                                     verðmati                                   skv. tilkynningu til

ökutækjaflokkur                                                                                                                             ökutækjaskrár                                                                                                                                          

[...],                                                       /1992                               500.000 kr.                                       29.09.20               10

eftirvagn                                                                                                                  

[...],                                               1995/1994                           1.500.000 kr.                                       29.09.20               10

[...], vörubifreið                                                                                       

[...],                                               1990/                                       500.000 kr.                                       29.09.20               10

[...], dráttarvél                                                                                          

[...],                                                      /1988                                500.000 kr.                                       29.09.2010 [...], eftirvagn                                                      

[...],                                               1979/1979                              500.000 kr.                                       29.09.2010

[...], eftirvagn                                                                           

[...],                                               1998/1997                             100.000 kr.                                        29.09.2010

[...], sendibifreið                                                                       

[...],                                             1982/                                       100.000 kr.                                       29.09.2010

[...],  vörubifreið                                                                                                                                     

[...],                                               1995/1995                              500.000 kr.                                       29.09.2010

Valtara-Vagn, eftirvagn

Til vara á hendur ákærðu Þ, Z og X fyrir skilasvik með því að skerða rétt lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum A ehf. með undanskoti eigna með framangreindum hætti.

Til þrautavara á hendur ákærðu Þ, Z og X fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína til tjóns fyrir A ehf. og kröfuhafa þess með framangreindum hætti.

d)      Á hendur ákærðu X, þáverandi framkvæmdastjóra og prókúruhafa A ehf. og Y, þáverandi eiganda A ehf. og prókúruhafa og varamanni í stjórn B ehf., aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa á árinu 2010, í sameiningu, dregið B ehf. ökutæki sem var í eigu A ehf. Undirrituðu ákærðu X, fyrir hönd A ehf., og Y, fyrir hönd B ehf., og að undirlagi X, tilkynningu til Umferðarstofu um eigendaskipti að ökutækinu, dagsetta 29. september 2010, en við það varð einkahlutafélagið B skráður eigandi ökutækisins, sem áður var í eigu A ehf., án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Ökutækið er sem hér segir:

Fastnúmer,                             Árgerð/Framl. ár                      Verðmæti skv.                            Skráður kaupdagur

tegund og                                                                                      verðmati                                   skv. tilkynningu til

ökutækjaflokkur                                                                                                                             ökutækjaskrár            

[...],                                               1996/1996                               100.000 kr.                                  29.09.2010

[...] fólksbifreið                                                                                                        

Til vara á hendur ákærðu X og Y fyrir skilasvik með því að skerða rétt lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum A ehf. með undanskoti eigna með framangreindum hætti.

Til þrautavara á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína til tjóns fyrir A ehf. og kröfuhafa þess með framangreindum hætti.

A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember 2010. Töldust eignir búsins óverulegar og nægðu ekki til greiðslu á forgangskröfum sem lýst hafði verið í þrotabúið.

Með tilkynningum til Umferðarstofu og Vinnueftirlitsins dagsettum 14., 15. og 19. júní 2012 og undirrituðum af ákærðu X, Z og Y, var tilkynnt um breytingu á eignarhaldi á nokkrum þeirra ökutækja og vinnuvéla sem tilgreind eru í a) - d) liðum I. liðar ákærunnar en við það varð einkahlutafélagið [...] skráður eigandi nokkurra þeirra, þ.e. ökutækjanna [...] og Fjárfestingafélagið [...] ehf. varð skráður eigandi að nokkrum ökutækjanna og vinnuvélunum, þ.e. ökutækjunum [...] og vinnufélunum [...] án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2013 var þb. B ehf. gert að afhenda þb. A ehf. ökutæki og vinnuvélar sem skráðar höfðu verið eign þb. B og voru eftirtalin ökutæki og vinnuvélar skráðar yfir á þb. A ehf.: ökutækin [...] og vinnuvélin [...]. Ökutæki og vinnuvélar þær sem skráðar höfðu verið eign [...] ehf. og Fjárfestingafélagsins [...] ehf. á meðan á rekstri málsins stóð fyrir héraðsdómi hafa hins vegar ekki enn verið afhentar þb. A ehf. í samræmi við niðurstöðu dómsins.

II.

Teljast brot ákærðu X, Y og Þ samkvæmt a) og b) liðum I. liðar ákærunnar aðallega varða við 247. gr. en til vara við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Brot ákærðu Þ, Z og X samkvæmt c) lið I. liðar ákærunnar teljast aðallega varða við 247. gr., til vara við 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. en til þrautavara við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Brot ákærðu X og Y samkvæmt d) lið I. liðar ákærunnar teljast aðallega varða við 247. gr., til vara við 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. en til þrautavara við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

III.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu þb. A ehf. er þess krafist að ákærðu X, Y, Z og Þ, verði gert að greiða þrotabúi A ehf., kt. [...], skaðabætur in solidum að fjárhæð 17.200.000 kr. auk vaxta, samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. október 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 3.100.000.

Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað in solidum að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

             Þann 12. janúar 2015 gaf sami ákærandi út svohljóðandi framhaldsákæru á hendur sömu aðilum:

„til að leiðrétta villur í a), b), c) og d) liðum I. liðar ákærunnar.

Á ákærunni verði svofelldar breytingar:

1)                   Í a), b) og c) liðum I. liðar ákærunnar á eftir orðinu „tilkynningar“ bætast við orðin: „sem komið var“.

2)                   Í d) lið I. liðar ákærunnar á eftir orðinu „tilkynningu“ bætast við orðin: „sem komið var“.

                 Ákærðu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði látin niður falla og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefjast þau þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að henni verði hafnað og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.

                Við meðferð málsins var bótakrafan lækkuð um 100.000 krónur vegna tækis sem ekki var ákært fyrir.

                Í ákæru er vísað til dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 16. janúar 2013, en hið rétta er að dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands eins og gögn málsins bera með sér.

Málavextir.

Með bréfi C, skiptastjóra þrotabús A ehf., kt. [...], til embættis sérstaks saksóknara dagsettu 4. október 2011 var lögð fram kæra á hendur ákærðu fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa á tímabilinu maí 2009 til október 2010, þegar áærðu voru í stjórn A ehf., dregið sér verðmæti sem verið hafi í vörslum þeirra en A ehf. eigandi að án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir. Til vara var háttsemi ákærðu talin vera skilasvik og varða við 250. gr. sömu laga með því að hafa með sama hætti skert rétt lánardrottins þrotabúsins til þess að öðlast fullnægju af eignum búsins með undanskoti þessara eigna, sem rýrt hafi efnahag búsins, enda hafi afleiðingarnar orðið þær að þegar búið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi engar eignir verið í búinu til fullnustu kröfu hans. Í kærubréfinu var ákærði Þ talinn hafa sem meðstjórnandi og eigandi að 25% hlut í A ehf. skrifað undir sölutilkynningar að ökutækjum og tilkynningar um eigendaskipti að vinnuvélum fyrir hönd félagsins og þannig afsalað þeim frá félaginu án þess að greiðslur kæmu í staðinn. Í kærubréfinu eru tilgreind 17 ökutæki eða vinnuvélar sem ákærði Þ á að hafa ráðstafað með þessum hætti á tímabilinu frá 5. ágúst 2009 til 29. september 2010. Þá er ákærði Z í kærubréfinu talinn hafa sem meðstjórnandi í A ehf. og stjórnarmaður í B ehf. skrifað undir sölutilkynningar sem  kaupandi fyrir hönd B án þess að greiðslur kæmu í staðinn. Í kærubréfinu eru tilgreind 8 ökutæki eða vinnuvélar sem ákærði Z á að hafa ráðstafað með þessum hætti þann 29. september 2010. Þá var ákærði Z einnig talinn hafa vottað sölutilkynningu vegna eins ökutækis og vottað tilkynningu um eigendaskipti að þremur vinnuvélum og þannig talinn samverkamaður í þeim brotum. Í kærubréfinu er ekki getið dagsetningar þessara ráðstafana ákærða Z. Þá var ákærða Y talin hafa sem eigandi að 37,5% hlutum í A ehf. og sem varamaður í stjórn B ehf.  skrifað undir sölutilkynningar sem kaupandi fyrir hönd B ehf. vegna 10 ökutækja án þess að greiðslur kæmu fyrir. Þá hafi hún vottað sölutilkynningar vegna 7 bifreiða og þannig verið samverkamaður í þeim brotum. Í kærubréfinu er ekki getið dagsetningar þessara ráðstafana ákærðu Y. Þá var ákærða X gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi A ehf. skrifað undir sölutilkynningu sem seljandi f.h. A ehf. að einni bifreið sem móttekin var af Umferðarstofu þann 29. september 2010 án þess að greiðsla hafi komið fyrir. Jafnframt var hann talinn hafa vottað tilkynningar um eigendaskipti að 7 bifreiðum sem afsalað hafi verið til B ehf. án þess að greiðslur hafi komið fyrir og þannig verið samverkamaður í þeim brotum. Að lokum var ákærðu öllum gefið að sök í kærubréfinu að hafa framið fjárdrátt og/eða skilasvik vegna annarra óskráðra tækja og véla sem komið hafi verið undan félaginu á sama tíma, en auk framangreindra tækja hafi horfið a.m.k. tveir malardreifarar, tveir valtarar og vélsópur á dráttarvél.

Í kærubréfinu er gerð grein fyrir stofnun fyrirtækisins A ehf., en það var stofnað árið 1991 af D, E og Z og syni hans, ákærða Þ. Starfsemi þess hafi verið á sviði vegagerðar og árið 2007 hafi D selt hlut sinn í félaginu til [...] ehf. og ákærðu Y, eiginkonu ákærða X, en hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins. Fyrirtækið hafi átt framangreind tæki og samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2006 hafi eiginfjárstaða þess verið góð og hafi félagið verið skuldlaust. Eftir brotthvarf D sem eiganda hafi hallað hratt undan fæti í félaginu vegna vanstjórnunar og tortryggni milli eigenda. Hafi eigendur tekið fé út úr fyrirtækinu án þess að greiða það inn í félagið aftur. Þegar gjaldþrot hafi verið fyrirsjáanlegt hafi stjórnarmeðlimir tekið framangreind verðmæti út úr félaginu án þess að endurgjald hafi komið fyrir. Þegar félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi engar eignir fundist í búinu en framangreind ökutæki og vélar hafi verið í vörslum ákærðu. Félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 2. desember 2010 og hafi F hdl. verið skipuð skiptastjóri. Á fundi með skiptastjóra þann 8. desember sama ár hafi ákærði X sagt félagið einungis eiga fasteignina að [...] og væru engar aðrar eignir í þrotabúinu. Á þessum fundi hafi skiptastjóri séð að 23 ökutæki í eigu félagsins hefðu verið færð yfir í félagið B ehf. á árunum 2009 og 2010. Hafi fyrirsvarsmaður félagsins tjáð skiptastjóra að eðlilegar skýringar væru á þessu og myndi hann afhenda skiptastjóra gögn sem styddu það ásamt bókhaldi félagsins. Þessi gögn hafi hins vegar ekki verið afhent og hafi tilraunir skiptastjóra til að innheimta tækin farið út um þúfur. Þann 28. júní 2011 hafi skiptastjóri veitt tveimur lögmönnum fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna þrotabúsins í málum sem vörðuðu endurheimtu verðmæta sem tilheyrt gætu þrotabúinu. Komið hafi í ljós að framangreindum tækjum og vélum í eigu þrotabúsins hefði verið afsalað eða þau afhent öðrum áður en gjaldþrotaúrskurður hefði verið kveðinn upp og engin ummerki hefðu fundist um að greiðslur hefðu komið fyrir tækin.

Við rannsókn málsins hjá sérstökum saksóknara könnuðust ákærðu X, Y og Z við að hafa undirritað þau skjöl sem mál þetta snýst um en ákærði Þ kannaðist við undirritun sína á flest skjalanna en taldi mögulegt að nafn hans gæti verið falsað á hluta þeirra. Af þessu tilefni fór fram rithandarrannsókn hjá Réttarrannsóknarmiðstöð sænska ríkisins í Linköping eftir útgáfu ákærðu og er niðurstaða hennar dagsett 18. nóvember 2015. Niðurstöðurnar bentu eindregið til þess að vefengdu undirskriftirnar „Þ“, væru gerðar af honum eigin hendi.

Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá voru ákærðu Þ og Z í stjórn A ehf. þann 19. janúar 2010, ákærði X var framkvæmdastjóri og prókúruumboð höfðu ákærðu Þ og X. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá var ákærði Z í stjórn fyrirtækisins B ehf. þann 15. maí 2012 ásamt G og prókúruumboð höfðu ákærðu Z og Y.

Lagt hefur verið fram í málinu verðmat H, jarðverktaka, dagsett 28. júní 2013, vegna allra þeirra ökutækja og véla sem ákæra lýtur að og er það mat hans að söluverðið nemi samtals 17.200.000 krónum. Í greinargerð matsmanns kemur fram að hann hafi góða þekkingu á jarðvegsframkvæmdum og verði á notuðum tækjum og vinnuvélum til slíkrar starfsemi. Hafi verðmatið farið þannig fram að matsmaður hafi fengið í hendur lista frá embætti sérstaks saksóknara þar sem fram hafi komið grunnupplýsingar um þau ökutæki og vinnuvélar sem óskað hafi verið eftir mati á. Fram kemur að matsmaður hafi hvorki skoðað ökutæki né vinnuvélar. Miðaði hann matið við það verð sem unnt hefði verið að fá fyrir tækin í notkunar- og skráningarhæfu ástandi og mögulegt söluverð á tímabilinu frá ágúst 2009 til september 2010. Matsmaður kvaðst byggja verðmatið á reynslu sinni og þeirri staðreynd að nokkur tækjanna á listanum hefði hann séð áður vegna starfa sinna innan þessa geira.

Samkvæmt verk- og kaupsamningi milli A ehf. og B ehf., dagsettum 1. júlí 2009, tóku B ehf. að sér að fullvinna tiltekin verk og standa undir kostnaði vegna þeirra, en í 3. gr. samningsins kemur fram að um sé að ræða verk sem A ehf. hafi ekki bolmagn til að sinna í ljósi aðstæðna sem upp séu komnar. Er þar nefnt að ákveðnir lykilstarfsmenn, eigendur og stjórnarmenn séu farnir frá hálfkláruðum og óunnum verkum á vegum A ehf. B ehf. samþykktu að taka upp í greiðslur ákveðnar og upplistaðar vélar,  tæki og bíla í misgóðu ásigkomulagi og jafnframt tók félagið á sig viðgerðir, því komið væri að viðhaldi vegna slæmrar umgengni og aldurs. Fyrir verkið skyldi A ehf. greiða B ehf. tæki sem tilgreind eru á sérstökum lista og er þar um að ræða nánast öll þau tæki sem í ákæru greinir. Í 6. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að A ehf. sé heimilt að kaupa tækin aftur að undangenginni greiðslu fyrir allt vinnuframlag, vélavinnu, varahluti, viðgerðir og allan útlagðan kostnað. Undir þennan samning rita ákærði Z fyrir hönd B ehf. og ákærði Þ fyrir hönd A ehf.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 16. janúar 2013 var fallist á þá kröfu D á hendur B ehf. að tilteknar ráðstafanir þrotabús A ehf. yrðu dæmdar ógildar og stefnda yrði gert að afhenda þrotabúinu öll þau tæki sem ákæra í máli þessu tekur til að undanskildum tveimur völturum, [...] og [...]. Þingsókn féll niður af hálfu stefnda og var málið því dæmt eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn stefnanda með hliðsjón af því sem fram hafði komið af hálfu stefnda. Í dóminum kemur fram að stefndi hafi byggt á því að afhending umræddra muna hafi ekki falið í sér gjafagerning heldur hafi verið um að ræða greiðslur fyrir unnin verk. Stefndi lagði í málinu fram svokallaðan verk- og kaupsamning, en stefnandi dró skjal þetta í efa og taldi augljóst að skjalið hafi verið gert í tilefni af málinu og bæri að virða það að vettugi. Í dóminum segir að skjal þetta virðist undirritað af fyrirsvarsmönnum stefnda og A ehf., en þeir hafi ekki komið fyrir dóm og staðfest efni þess. Var því gegn mótmælum stefnanda ekki byggt á efni þessa skjals. Stefnandi var að öðru leyti talinn hafa rennt nægum stoðum undir málatilbúnað sinn sem ekki var hrakinn með sönnunarfærslu fyrir dómi af hálfu stefnda. Var aðalkrafa stefnanda því tekin til greina.          

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði X skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi unnið hjá A ehf. frá stofnun þess árið 1991 og jafnframt hafi hann verið skráður framkvæmdastjóri með prókúru fyrir félagið frá árinu 2009, en þá hafi hann keypt félagið. Hann kvaðst ekki hafa komið að daglegum rekstri félagsins og þá hafi hann ekki annast fjármál þess, það hafi aðrir gert. Hann taldi að bókhald hefði verið haldið fyrir félagið fyrir árin 2009 og 2010 en hann kvaðst ekki hafa annast það. Hann mundi ekki eftir því að hafa ætlað að koma gögnum til skiptastjóra varðandi ráðstöfun umræddra tækja til B ehf., en hann kvaðst hafa stofnað það félag, en ekki verið skráður, hvorki í stjórn þess né sem framkvæmdastjóri. Hann kvaðst hafa átt hugmyndina að þessum ráðstöfunum og hafi A ehf. átt að fá greiðslu fyrir í því formi að vinna verk og rukka fyrir þau. Hafi ýmis slík verk verið unnin, m.a. í Kópavogi. Hann kvaðst hafa bent skiptastjóra á verk sem rukka þyrfti fyrir en skiptastjóri hafi ekkert gert í því. Hann kvað ætlunina með þessum ráðstöfunum ekki hafa verið þá að koma tækjunum undan. Hann staðfesti að verk- og kaupsamningur milli A ehf. og B ehf., hefði verið gerður 1. júlí 2009 og kvaðst hann ekki vita betur en að umrædd verk hefðu verið unnin. Hann mundi ekki hvort þessi verk hefðu verið verðmetin á sínum tíma en taldi að það hlyti að hafa verið gert. Ákærði staðfesti að hafa undirritað allar þær tilkynningar sem ákæran lýtur að og þá staðfesti hann að hafa komið að gerð tilkynninga sem hann undirritaði ekki. Hann rengdi ekki að dagsetningar sem þar kæmu fram væru réttar. Hann mundi ekki hvort þessar ráðstafanir hefðu verið ræddar á stjórnarfundum. Hann kvað hafa staðið til að endurgjald kæmi fyrir umrædd tæki. Hann kvað eiginkonu sína, ákærðu Y, ekkert hafa komið nálægt rekstri fyrirtækjanna og hefði hún undirritað umræddar tilkynningar að beiðni ákærða. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um fjárhagsstöðu A ehf. á þessum tíma, en hann taldi bankahrunið skýra að hluta til að til greiðsluerfiðleika kom, t.d. hafi eftirstöðvar tiltekins láns margfaldast. Hann mundi ekki hvort staðið hafi til að greiða B ehf. fyrir tækin. Hann kvað verðmat tækjanna ekki standast, það væri út í loftið og væru tækin ekki þess virði sem þar komi fram. Hann kvað matsmanninn hafa tjáð sér að hann hefði verið píndur til þess að gera það. Hann kvað umrædd tæki alltaf hafa staðið þrotabúinu til reiðu, en þau hafi aldrei verið sótt þrátt fyrir niðurstöðu dóms þar að lútandi og þá kannaðist hann ekki við að hafa reynt að koma í veg fyrir að þrotabúið fengi tækin aftur. Hann kvað ákærða Z hvorki hafa komið að stjórn né rekstri fyrirtækjanna.

                Ákærða Y skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi ekkert komið nálægt rekstri A ehf. og þá kvaðst hún ekkert vita um bókhald félagsins, en hún hafi að beiðni eiginmanns síns, ákærða X, samþykkt að gerast eigandi þess vegna þess að hún hafi verið skráð eigandi fasteignar. Hún kvaðst engin tengsl hafa haft við félagið B ehf. en kannaðist við að hafa haft prókúru fyrir félagið að nafninu til og verið varamaður í stjórn þess. Hafi það verið að beiðni ákærða X og kvaðst hún ekki hafa vitað um tilgang stofnunar félagsins. Hún kvaðst ekkert vita um það hvort einhver rekstur hefði verið í félaginu. Hún kvaðst ekkert hafa vitað um ráðstöfun umræddra tækja en hún staðfesti að hafa skrifað undir þau skjöl sem mál þetta snýst um en það hafi verið að beiðni ákærða X, sem hafi verið hinn raunverulegi eigandi félagsins. Hún kvað ákærða Þ hafa verið viðstaddan undirritun einhverra skjala og staðfesti hún að hann hefði  undirritað þau. Hún kannaðist ekki við að rætt hafi verið um að koma umræddum tækjum undan og þá kvaðst hún ekki vita hvað orðið hafi um tækin og þá kvaðst hún enga hugmynd hafa haft um verðmæti tækjanna. Hún kvað bú sitt hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu D.

                Ákærði Z skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi unnið fyrir A ehf. frá fjórtán ára aldri en hann hafi ekkert komið að daglegum rekstri félagsins eða bókhaldi þess. Hann kvaðst hafa tengst félaginu B ehf. í gegnum föður sinn, ákærða X, en ekkert haft með það að gera en eitthvað hafi hann starfað fyrir það. Hann kvaðst ekki vita ástæðu þess að félagið var stofnað. Hann áttaði sig ekki á því hvort eitthvað hafi verið greint á milli vinnu hans fyrir þessi félög. Hann staðfesti að hafa skrifað undir þau skjöl sem mál þetta snýst um en það hafi hann gert að beiðni föður síns. Þá staðfesti hann að ákærði Þ hefði verið viðstaddur undirritun einhverra skjala og hefði hann ritað undir þau. Hann kvaðst ekki hafa spurt hvað hafi legið að baki ráðstöfununum. Hann stórefaðist um að ætlunin hafi verið að koma eignum undan en rætt hafi verið um að bjarga félaginu. Hann staðfesti að verk- og kaupsamningur milli A ehf. og B ehf., hefði verið gerður 1. júlí 2009 en hann áttaði sig ekki á ástæðu þess að hann hafi verið gerður. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um fjárhagsstöðu félaganna, faðir hans hafi alfarið séð um fjármálin. Hann kvað verðmat tækjanna sem gert hafi verið vera algjöra dellu, tækin væru ónýtt drasl. Hann kannaðist við að deilur hafi verið milli föður hans og D.

                Ákærði Þ skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði staðið að stofnun A ehf. árið 1991. Farið hafi að halla undan fæti árin 2006 eða 2007 þegar ákærði X hafi komið inn í félagið. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið veikur og óstarfhæfur vegna alkóhólisma og hafi honum verið hent ólöglega út úr stjórn félagsins. Hann kvaðst hafa verið eigandi félagsins og í stjórn þess þegar það hafi farið í þrot. Hann kvaðst engin tengsl hafa haft við félagið B ehf. að öðru leyti en því að hann hafi verið fenginn til að skrifa undir skjöl vegna yfirfærslu vörubifreiða eða tækja frá A ehf. til B ehf., en þá hafi hann vitað að ákærði X hafi átt það félag ásamt einhverjum öðrum. Hann kvaðst hafa talið það í lagi á þessum tíma en hann mundi ekki hvernig þetta hafi verið sett upp en hann minnti að ákærði X hafi sagt að greiðsla hafi átt að koma fyrir í formi vinnuframlags B ehf. til A ehf. Hann kvaðst innst inni hafa vitað að hann væri ekki að gera rétt en hann hefði samt gert þetta. Hann kvaðst ekki hafa rætt þetta við aðra stjórnarmenn A ehf. Hann vissi ekki hvort staðið hafi verið við umrætt vinnuframlag en kvaðst stórefa það. Hann kvað mögulegt að fyrir ákærða X hafi vakað að koma tækjunum undan D og I. Hann kannaðist við að hafa skrifað undir tilkynningar vegna vörubifreiða að viðstöddum ákærðu X og Y en hann minntist þess ekki að hafa skrifað undir vegna tækja eða vinnuvéla. Hann kvaðst hafa kynnt sér niðurstöðu rithandarrannsóknar en hann kvað hana ekki breyta þessari afstöðu sinni og neitaði því að hafa skrifað undir tilkynningar vegna tækja eða vinnuvéla. Hugsanlegt sé þó að hann hafi skrifað undir tilkynningar vegna tanka og eftirvagna. Hann kvað sér hafa verið kunnugt um að A ehf. hafi staðið höllum fæti á þessum tíma en kvaðst ekki hafa vitað til þess að tilgangurinn með yfirfærslunum hafi verið að koma tækjunum undan kröfuhöfum. Hann kvaðst ekki átta sig á því hvort verðmat tækjanna væri nærri lagi en hann taldi að eitthvað af þeim hafi ekki verið í góðu ásigkomulagi. Hann kvaðst enga fjárhagslega hagsmuni hafa haft af þessum gerningum. 

                Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið einn af stofnendum A ehf. og hefði hann rekið það þar til hann hafi selt sinn hlut árið 2007. Hann hafi þó verið viðloðandi reksturinn til ársins 2009 en ekki gegnt formlegri stöðu. Hann kvaðst ekki hafa séð um fjármálin en séð töluvert um reikningshald, tilboð og samskipti við viðskiptavini. Hann kvaðst hafa verið kominn út úr félaginu og verið hættur afskiptum af því árið 2009 og því hafi hann ekki vitað um ráðstöfun umræddra tækja. Hann kvaðst hafa fengið dóm þess efnis að þrotabúið ætti að færa honum tækin en þau væru enn í vörslum ákærðu og virtist honum kerfið ekki geta gert ráðstafanir til þess að hann fengi tækin. Hann kannaðist við að tækin hefðu verið flutt frá B ehf. til fyrirtækjanna [...] ehf. og [...] ehf. og lagði hann ekki trúnað á þann samning og taldi hann hafa verið gerðan í því skyni að koma þeim undan þrotabúinu. Hann taldi þau verk sem í samningnum séu talin upp ekki öll hafa verið unnin og þá vissi hann ekki til þess að á vegum B ehf. hafi nokkur verk verið unnin. Hann taldi stóran hluta tækjanna enn í vörslum ákærða X og félaga hans. Hann áttaði sig ekki á því hvort verðmat það sem liggur fyrir í málinu væri nærri lagi, enda liðin sex ár frá ráðstöfun tækjanna. Hann kannaðist við að hafa keypt sex tæki af þrotabúi A ehf. eftir að hafa gert tilboð í þau.

                Vitnið I skýrði svo frá fyrir dómi að árið 2007 hefði hann gerst eigandi að 37,5% hlutum að A ehf. og verið framkvæmdastjóri til ársins 2008 þegar honum hafi verið hent út sem slíkum. Hann hafi þó haldið áfram störfum fyrir félagið þar til hann hafi endanlega hætt í maí eða júní 2009. Hann mundi ekki eftir því að hafa verið skráður í stjórn félagsins á umræddum tíma. Hann kvaðst hafa verið genginn út úr félaginu þegar ökutækjunum hafi verið ráðstafað til B ehf. og enga hugmynd haft um þær ráðstafanir eða samning sem gerður hafi verið af þeim sökum. Hann kvað samning hafa verið gerðan við [...] árið 2007 en sá samningur hafi ekki verið sambærilegur, hann hafi verið upp á fasta krónutölu og tækin verðlögð. Hann kvaðst hafa vitað að ákærðu X og eiginkona hans hafi verið skráð eigendur B ehf. Hann kvað sér hafa verið kunnugt um flutning umræddra tækja til  fyrirtækjanna [...] ehf. og [...] ehf. og hafi hann frétt það frá D og hafi hann fengið að fylgjast með málaferlum sem D hafi átt í. Hann taldi tækin enn í vörslum ákærðu.

                Vitnið J skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi unnið hjá A ehf. en hann kvaðst aðeins hafa vottað tilkynningar vegna sölu ökutækja og enga hugmynd hafa haft um viðskiptin. Hann mundi ekki hvort ákærðu hefðu verið viðstödd þegar hann skrifaði undir en honum fannst það líklegt.

                Vitnið G skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði verið varamaður í stjórn B ehf. en engin tengsl haft við A ehf. Hann hafi gert þetta að beiðni ákærðu X og Z. Hann kvaðst ekki hafa komið nálægt þessu félagi eftir þetta og ekki starfað fyrir það. Hann kvaðst ekki hafa vitað um ráðstöfun ökutækjanna til B ehf. Hann kvaðst einnig hafa verið skráður varamaður í stjórn [...] ehf. og [...] ehf. að beiðni K en ekkert komið nálægt þeim félögum.

                Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið fenginn til þess að verðmeta umrædd tæki. Hann kvaðst vera verktaki og vinna við jarðvinnu alla daga. Hann kvaðst vera með notaðar vinnuvélar í höndunum alla daga. Hann kvaðst hafa metið tækin án þess að skoða þau en eftir það hafi hann farið og litið á tækin en ekki sett þau í gang. Hann kvað mat sitt ekki hafa breyst eftir að hann hafði skoðað tækin. Hann kvað hafa verið skoðað hvort tækin væru skemmd, hvert væri markaðsverð þeirra og hvað fengist fyrir þau. Hann minnti að verðmatið væri miðað við árið 2013 en mjög lítill markaður væri fyrir slík tæki. Hann tók fram að hann hafi ekki vitað um ástand tækjanna árið 2009. 

                Vitnið L skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi aðstoðað fyrirsvarsmenn A ehf. við bókhald félagsins, sennilega árið 2009, eftir að ákærði X hefði haft samband við hann vegna vandræða þar að lútandi og til að ná stjórn á félaginu og endurskipuleggja það. Tveimur til þremur mánuðum síðar hafi honum fundist að verkefnið myndi ekki ganga og hafi hann því sagt sig frá verkinu. Hafi honum fundist þetta allt mjög einkennilegt og hafi hluthafar félagsins, þ.e. D og I, stofnað annað félag og væru komnir í samkeppni við A ehf. Hann kannaðist við að hafa verið tilkynntur sem framkvæmdastjóri með prókúru í júlí 2009. Hann kvaðst afskaplega lítið hafa komið að rekstri fyrirtækisins. Hann mundi eftir vangaveltum um að færa hluta af tækjum og vélum til annars félags sem hafi átt að taka yfir skuldbindingar á móti. Hann kvað þetta ekki hafa átt að vera neitt leyndarmál og hafi þessar ráðstafanir átt að vera hagkvæmar. Hann vissi ekki hvað varð um tækin og minntist þess ekki að þessara ráðstafana hefði verið getið í bókhaldi félagsins. 

                Vitnið M skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði verið stjórnarformaður A ehf. í mjög skamman tíma eða frá 19. janúar 2010 til 17. maí sama ár. Hann kvað enga stjórnarfundi hafa verið haldna á þessum tíma og hafi hann enga aðkomu haft að félaginu eða komið nálægt bókhaldi þess. Þá kvað hann sér ekki hafa verið kunnugt um yfirfærslu umræddra tækja.

                Vitnið N, systir ákærðu X og Þ, skoraðist undan vitnisburði í símaskýrslu fyrir dómi.

                Vitnið F, hdl., skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hún hefði verið skiptastjóri þrotabús A ehf. Hún kvað hafa komið í ljós við eignakönnun að þó nokkurt magn af tækjum hefði verið fært til annars félags og eina eignin hefði verið fasteign eða braggi á [...]. Hafi hún metið það ólíklegt að endurheimtur næðust. Hún kvaðst ekki hafa lagt inn kæru til sérstaks saksóknara, það hafi lögmaður eins kröfuhafa gert. Hún kvað ákærða X aldrei hafa komið skýringum um tilfærslur tækjanna til sín og hún hafi ekki fengið með formlegum hætti upplýsingar um það hvar tækin væru. Hún kvaðst aldrei hafa fengið aðgang að bókhaldi félagsins og ekki hafa reynt að nálgast ökutækin. Hún kvað skiptum í búinu hafa vera lokið með fyrirvara um að fengist eitthvað upp í kröfur yrðu skiptin tekin upp. Hún kvaðst ekki líta svo á að umrædd tæki væru verðlaus. Hún kannaðist við að hafa gert D tilboð um að kaupa sex tæki úr búinu á helmingi áætlaðs verðmats matsmanns á vegum sérstaks saksóknara og hafi þau tæki verið þau einu sem skilað hafi sér til þrotabúsins. Hafi verið talin ákveðin hagræðing í því að selja sama manni þessi tæki. Hún kvað ítrekað hafa verið óskað eftir bókhaldi félagsins og hafi hún því ekki haft aðrar forsendur en þær að tækin hafi verið afhent án endurgjalds. Hún kvaðst aldrei hafa séð samning um ráðstöfun ökutækjanna til B ehf. Hún kvað ekki hafa verið til fjármuni í búinu til þess að gera ráðstafanir til endurheimtu tækjanna, en lögmanni hafi verið veitt umboð til þess að sækja tækin.

                Vitnið O hrl., skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði verið skipaður skiptastjóri þrotabús B ehf. árið 2012. Engin starfsemi hefði verið í félaginu og lítið um eignir. Ekkert bókhald hafi verið fært og engir bankareikningar verið fyrir hendi. Þá hafi engum skattskýrslum verið skilað. Hann kvaðst ekki hafa vitað um neina samninga sem félagið hefði gert. Hann kvað vinnuvélar og ökutæki hafa verið skráð á félagið og hafi ákærða Y tjáð honum að eiginmaður hennar hefði séð um að færa tækin yfir til að mynda kröfu þrotabús A ehf. á B ehf. Hann kvað tækjunum hafa verið skilað til baka og þrotabúinu lokað.

                Vitnið K skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði unnið fyrir B ehf. í nokkra mánuði eða haustmánuðina frá 2009 til 2011, en hann kvaðst ekki hafa unnið fyrir A ehf. Hann kvaðst hafa flutt tæki að beiðni ákærða X og sonar hans frá [...] og út um allt. Hann kannaðist ekki við að hafa geymt tæki að öðru leyti en því að hann hafi tekið tæki til tryggingar greiðslu sem aldrei hafi komið. Sum tækin séu nú hjá vitninu en önnur hjá ákærða X að því er hann taldi en hann kvaðst ekki geta fullyrt það.

Niðurstaða.        

Ákærðu, sem tengdust einkahlutafélögunum A ehf. og B ehf. með ýmsum hætti og nánar er gerð grein fyrir í ákæru, er gefið að sök að hafa með ráðstöfunum sínum aðallega gerst sek um fjárdrátt með því að hafa dregið B ehf. samtals 20 vinnuvélar eða ökutæki sem voru í eigu A ehf. með því að undirrita tilkynningar þar að lútandi, en við það hafi B ehf. verið skráð eigandi tækjanna án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Til vara og þrautavara er þessi háttsemi ákærðu ýmist talin vera umboðssvik eða skilasvik. Ákærði X er í ákæru talinn eiga hlut að máli að því er öll tækin varðar, ákærða Y er talin hafa átt hlut að máli að því er 12 tæki varðar, sbr. ákæruliði a, b og d, ákærði Z er talinn hafa átt hlut að máli að því er 8 tæki varðar, sbr. ákærulið c og ákærði Þ er talinn hafa átt hlut að máli að því er 19 tæki varðar, sbr. ákæruliði a, b og c. A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember 2010 og hefur verið upplýst að eignir búsins hafi verið óverulegar og ekki nægt til greiðslu á forgangskröfum sem lýst hafði verið í þrotabúið. Ákærðu hafa kannast við að hafa undirritað tilkynningar, ýmist til vinnuvélaskrár eða ökutækjaskrár á tímabilinu frá 5. ágúst 2009 til 29. september 2010. Ákærði Þ hefur kannast við að hafa skrifað undir tilkynningar vegna vörubifreiða en hann minntist þess ekki að hafa skrifað undir vegna tækja eða vinnuvéla. Niðurstaða rithandarrannsóknar sem fram fór og ekki hefur verið hnekkt bendir eindregið til þess að undirskriftirnar „Þ“, séu gerðar af honum eigin hendi. Er því að mati dómsins nægilega sannað að ákærðu hafi ritað undir þær tilkynningar sem mál þetta snýst um með þeim afleiðingum að einkahlutafélagið B varð eigandi umræddra tækja.

Kemur þá til skoðunar hvort umræddum tækjum hafi verið ráðstafað til B ehf. án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir, en ákæran er byggð á þeirri fullyrðingu að svo hafi verið. Lagður hefur verið fram í málinu verk- og kaupsamningur milli A ehf. og B ehf., undirritaður af ákærðu Z fyrir hönd B og Þ fyrir hönd A ehf.  Þeim framburði ákærðu að umræddur samningur hafi verið gerður 1. júlí 2009 eins og hann ber með sér  hefur ekki verið hnekkt. Samkvæmt þessum samningi tóku B ehf. að sér að fullvinna tiltekin verk og standa undir kostnaði vegna þeirra, en í 3. gr. samningsins kemur fram að um sé að ræða verk sem A ehf. hafi ekki haft bolmagn til að sinna í ljósi aðstæðna sem upp hafi verið komnar. Hafi B ehf. samþykkt að taka upp í greiðslur ákveðnar og upplistaðar vélar,  tæki og bíla í misgóðu ásigkomulagi og jafnframt hafi félagið tekið á sig viðgerðir, því komið væri að viðhaldi vegna slæmrar umgengni og aldurs. Fyrir verkið skyldi A ehf. greiða B ehf. með tækjum sem tilgreind eru á sérstökum lista og er þar um að ræða nánast þau tæki sem í ákæru greinir að undanskilinni bifreiðinni [...] sem ákæruliður d tekur til. Í 6. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að A ehf. sé heimilt að kaupa tækin aftur að undangenginni greiðslu fyrir allt vinnuframlag, vélavinnu, varahluti, viðgerðir og allan útlagðan kostnað. Þessi tæki eru ekki metin til verðs í samningnum en á móti kemur að verk þau sem B ehf. tóku að sér eru heldur ekki verðmetin. Þegar framanritað er virt er ekki hægt að fallast á að einkahlutafélagið B hafi eignast tækin án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Verða öll ákærðu þegar af þessari ástæðu sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins vegna ákæruliða a, b og c.

Að því er ákærulið d varðar ber að hafa í huga að bifreið sú sem þar er tilgreind var ekki hluti af framangreindum samningi, en um var að ræða [...] fólksbifreið árgerð 1996 sem samkvæmt ákæru var verðmetin á 100.000 krónur, en það verðmat er byggt á verðmati H verktaka, en hann var ekki dómkvaddur til starfans. Í verðmati hans sem dagsett er 28. júní 2013 kemur fram að hann hafi fengið í hendur lista frá embætti sérstaks saksóknara þar sem fram hafi komið grunnupplýsingar um þau ökutæki og vinnuvélar sem óskað hafi verið eftir að hann legði mat á og þá kemur fram að hann hafi hvorki skoðað ökutæki né vinnuvélar. Var verðmatið miðað við það verð sem hann taldi að unnt hefði verið að selja viðkomandi tæki á í notkunar- og skráningarhæfu ástandi. H skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði metið tækin án þess að skoða þau en eftir það hefði hann farið og litið á þau en ekki sett þau í gang. Hann kvað mat sitt ekki hafa breyst eftir að hann hefði skoðað tækin. Hafa ber í huga að um er að ræða um fjórtán ára gamla fólksbifreið og liggur ekkert fyrir um ástand hennar á þeim degi þegar eigendaskipti voru tilkynnt. Hefur því ekki verið sýnt fram á að í bifreiðinni hafi falist verðmæti svo nokkru nemi. Verða ákærðu X og Y því einnig sýknuð af þessum lið ákærunnar.

Með hliðsjón af þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, ber að vísa bótakröfu þrotabús A ehf. frá dómi.

Þá ber með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að fella allan kostnað sakarinnar á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu þannig að úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Odds Þóris Þórarinssonar hdl.,  1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, málsvarnarlaun Óskars Sigurðssonar hrl., skipaðs verjanda ákærðu Y, 2.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, málsvarnarlaun Teits Más Sveinssonar hdl, skipaðs verjanda ákærða Z, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 25.300 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Þ, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 2.300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar lögmannsins, 66.000 krónur. Úr ríkissjóði greiðist einnig þóknun fyrrverandi verjanda ákærða X, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 530.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærðu, X, Y, Z og Þ, skulu vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Bótakröfu þrotabús A ehf. er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu þannig að úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Odds Þóris Þórarinssonar hdl.,  1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, málsvarnarlaun Óskars Sigurðssonar hrl., skipaðs verjanda ákærðu Y, 2.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, málsvarnarlaun Teits Más Sveinssonar hdl, skipaðs verjanda ákærða Z, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar lögmannsins, 25.300 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Þ, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 2.300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar lögmannsins, 66.000 krónur. Úr ríkissjóði greiðist einnig þóknun fyrrverandi verjanda ákærða X, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 530.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.