Print

Mál nr. 724/2017

A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
gegn
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar (Ebba Schram hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem nauðungarvistun A var framlengd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2017 þar sem nauðungarvistun sóknaraðila var framlengd í allt að tólf vikur frá 3. nóvember 2017 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um framlengingu nauðungarvistunar en til vara að henni verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila fyrir Hæstarétti sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                  

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2017

                Með kröfu, dags. 1. nóvember 2017, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag, krefst sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, þess að nauðungarvistun, A, kt. [...], að [...], [...], verði framlengd í allt að 12 vikur með rýmkun, sbr. 1. mgr. 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997.  Aðild sóknaraðila styðst við 20. gr. laga nr. 71/1997, með síðari breytingum. 

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Hann krefst málskostnaðar  úr ríkissjóði. 

                Málið var þingfest 2. nóvember og tekið til úrskurðar að loknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi. 

                Varnaraðili er ógift og á tvö uppkomin börn.  Hún greindist með geðhvarfasjúkdóm árið 1992 og lagðist þá inn á sjúkrahúsið á Kleppi í maníu með goðrofseinkenni.  Hún hefur oft verið lögð inn á geðdeildir, síðast haustið 2014. 

                Að kröfu sóknaraðila var varnaraðili nauðungarvistuð í 21 sólarhring, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga, með ákvörðun sýslumanns dags. 13. október sl. 

                Í dóminum voru lögð fram vottorð læknanna B dags. 27. október sl., og C, dags. 12. október sl. 

                Kröfu um framlengingu nauðungarvistunar styður sóknaraðili við 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997 og byggir á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða og að framlenging nauðungarvistunar sé óhjákvæmileg. 

                Í áðurnefndu vottorði B, sem starfar á deild 32C, kemur fram að varnaraðili sé með þekktan geðhvarfasjúkdóm.  Hún eigi að baki margar innlagnir á geðsvið Landspítalans vegna örlyndis með geðrofseinkennum en hún hætti yfirleitt lyfjameðferð fljótlega eftir útskrift.  Þá komi fram að varnaraðili sýni ennþá verulega mikil einkenni geðrofs og örlyndis.  Hún sé innsæislaus í veikindi sín og ekki til samvinnu um aukna lyfjameðferð.  Þá segir:  Það er enginn vafi á að A er haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð á sjúkrahúsi er henni nauðsynleg.  Án hennar stefnir hún heilsu sinni í voða og spillir möguleikum sínum á bata.  Undirrituð styður og mælir með áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun.  Loks segir að það sé mat hennar að varnaraðili sé enn of veik til að geta gefið upplýst samþykki um áframhaldandi meðferð.  Bati varnaraðila sé hægur og áframhaldandi sjúkrahúsvist sé henni nauðsynleg.  Að öðrum kosti séu líkur á bata hennar verulega skertar. 

                Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sé nú nauðungarvistuð í 21 dag og bati hennar sé hægur.  Varnaraðili sé enn með verulega mikil einkenni geðrofs og örlyndis og sé algjörlega innsæislaus í ástand sitt og ekki til samvinnu um aukna lyfjameðferð.  Varnaraðili sé staðráðin í að útskrifa sig að nauðungarvistun lokinni.  Það sé engin vafi á að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð á sjúkrahúsi sé henni nauðsynleg.  Án hennar stefni hún heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum að bata.  Sjúkdómsgreining varnaraðila sé bipolar affective disorder, current episode manic with psychotic symptoms. F31.2. 

                Við úrlausn málsins er einnig horft til læknisvottorðs C, geðlæknis, dags. 12. október 2017, sem gefið var út í tilefni af framkominni beiðni um nauðungarvistun varnaraðila til 21 dags.

                Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi. Hún sagðist hafa verið til fullrar samvinnu um læknismeðferð eftir að hún lagðist inn á deild 32C um síðustu mánaðamót og kannaðist ekki við að meðferðarheldni hennar væri ekki góð.  Hún tæki þau lyf sem henni væru ætluð.  Fram kom að hún treystir ekki C geðlækni, en vill tala við sinn eigin geðlækni, sem ekki starfar á deildinni.  Hún kvartaði yfir því að hún gæti ekki haldið áfram námi sínu í hjúkrunarfræði.  Til þess þyrfti hún að hafa tölvu sína og prentara hjá sér.  Það hefði ekki verið leyft.  Þá fengi hún ekki að sækja fötin sín. 

                C gaf skýrslu fyrir dóminum.  Hún lýsti atvikum á sama hátt og í vottorð sínu.  Hún sagði að bati varnaraðila væri hægur.  Af skýrslu hennar mátti þó ráða að von sé til þess að ekki verði nauðsynlegt að vista varnaraðila í fullar 12 vikur. 

                Talsmaður varnaraðila mótmælti kröfu um nauðungarvistun og sagði að hún væri óþörf og því óheimil. 

                Niðurstaða

                Fram er komið nægilega með vottorðum tveggja lækna að varnaraðili glímir við geðsjúkdóm og verður að fallast á það mat læknanna að áframhaldandi meðferð sé varnaraðila nauðsynleg.  Efi læknanna um meðferðarheldni og vilja varnaraðila má segja að hafi verið staðfestur fyrir dóminum þegar varnaraðili lýsti því að hún teldi sig ekki þurfa að dvelja á geðdeild.  Er sannað að ekki hefur enn tekist að ná tökum á ástandi varnaraðila og að meiri tíma þarf til að ná nauðsynlegum árangri.  Önnur og vægari úrræði duga ekki. 

                Fullnægt er skilyrðum 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015.  Verður fallist á kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga. 

                Kostnaður máls þessa greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.  Þóknun verjanda er ákveðin 170.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

                Að kröfu sóknaraðila, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, er nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], framlengd í tólf vikur með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997.

                Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns 170.000 krónur.