Print

Mál nr. 761/2017

Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum, en þó eigi lengur en til föstudagsins 29. desember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2017.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...] til að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum þó eigi lengur en til föstudagsins 29. desember 2017 kl. 16:00.

Í greinargerð saksóknara kemur fram að héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru  á hendur ákærða X þann 1. desember sl. sem send hefur verið Héraðsdómi Reykjavíkur til meðferðar. Ákærða sé gefið að sök tilraun til manndráps með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 3. október 2017, í félagi við þrjá aðra aðila, ruðst vopnaðir hnífum og macebrúsum inn á heimili við [...] í Reykjavík þar sem ákærða sé gefið að sök að hafa stungið A, sem hafi verið gestkomandi í íbúðinni, í kviðinn með hníf með þeim afleiðingum að A hafi hlotið stungusár neðan við nafla sem hafi náð í gegnum kviðvegg og lífhimnu, í gegnum hengi smágirnis á tveimur stöðum og í gegnum hengi þverristils alveg við ristilinn. Sé háttsemi ákærða talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði hafi þann 7. október sl. verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 357/2017 til 11. október 2017 en hafi frá þeim tíma sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 358/2017 sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti með dómi í máli nr. 657/2017 og nú síðast úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur nr. 394/2017.

Ákærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. sbr. 20 gr. hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist á brotaþola vopnaður hníf og stungið hann í kviðinn. Ákærði hafi viðurkennt sök og sagst hafa komið á heimilið við [...] í þeim tilgangi að stinga brotaþola. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og hafi ákærða mátt vera það ljóst. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat ákæruvaldsins að nauðsynlegt sé að tryggja að ákærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum.

Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Eins og rakið hefur verið krefst saksóknari þess að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þegar tími gæsluvarðhalds hans rennur út klukkan 16.00 þann 5. desember 2017, sbr. úrskurð héraðsdóms frá 7. nóvember sl. Samkvæmt framangreindu ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Ákærði hefur játað að hafa veist að brotaþola með hnífi í íbúð í [...] að kvöldi 3. október sl. og fær það jafnframt stoð í frásögn vitna. Fyrir liggur að stunguáverki var á brotaþola á kvið og virðist hnífurinn hafa farið í gegnum kviðvegginn og lífhimnu fyrir neðan nafla. Samkvæmt áverkavottorði sem lagt hefur verið fram getur hnífsstunga sem þessi verið lífshættuleg og valdið dauða. Í þessu ljósi ber að fallast á það með saksóknara að ákærði sé undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20 gr. almennra hegningarlaga, þ.e. tilraun til manndráps. Getur brotið varðað 10 ára fangelsi eða meira. Þegar litið er til eðlis brotsins og þess sem fram kemur í greinargerð saksóknara um aðdraganda þess ber að fallast á með saksóknara að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar frá 17. október sl., í máli nr. 657/2017, var staðfest það mat héraðsdóms að svo stæði á og telur dómurinn að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breyti því mati. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 telst fullnægt og verður því fallist á kröfu saksóknara og kærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. desember 2017 kl. 16:00.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum þó eigi lengur en til föstudagsins 29. desember 2017 kl. 16:00.