Print

Mál nr. 134/2017

Veiðifélag Selár (Helgi Jóhannesson hrl.)
gegn
Vopnafjarðarhreppi (Jón Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frestur
Reifun
Úrskurður héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu V um að fresta máli hans á hendur VS þar til niðurstaða héraðsdóms í tilteknu máli lægi fyrir, var felldur úr gildi þar sem ekki voru skilyrði til að fresta málinu frekar á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. febrúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um frestun þessa máls á hendur sóknaraðila þar til niðurstaða lægi fyrir í nánar tilteknu máli sem varnaraðili rekur fyrir sama dómstól á hendur öðrum aðila. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frestun málsins verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta var höfðað 5. janúar 2016. Með úrskurði 14. júní 2016 var tekin til greina krafa varnaraðila um að fresta málinu þar til niðurstaða lægi fyrir í tilteknu máli sem varnaraðili hafði höfðað gegn Fremri-Nýpum ehf. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Með úrskurði 27. október 2016 var því máli vísað frá héraðsdómi og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2016 í máli nr. 760/2016. Varnaraðili hefur nú höfðað nýtt mál á hendur Fremri-Nýpum ehf. Af því tilefni krafðist hann þess í þinghaldi 17. janúar 2017 að þessu máli yrði frestað samkvæmt heimild í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þar til niðurstaða lægi fyrir í nýja málinu. Sú krafa var tekin til greina með hinum kærða úrskurði.

Í máli þessu krefst varnaraðili þess aðallega að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér tiltekna skuld en til vara að viðurkennd verði greiðsluskylda sóknaraðila við sig. Reisir varnaraðili kröfur sínar á því að samningur hafi komist á um að hann afhenti sóknaraðila heitt vatn til upphitunar veiðihúss og annarra fjárhagslegra nota. Sóknaraðili krefst sýknu og reisir þá kröfu einkum á þeirri málsástæðu að ekkert samningssamband sé milli aðila enda hafi hann gert samning um nýtingu jarðhitans við rétthafa hans sem sé Fremri-Nýpur ehf.

Í máli varnaraðila á hendur Fremri-Nýpum ehf. krefst hann aðallega viðurkenningar á eignarrétti sínum að landskika innan merkja samnefndrar jarðar sem afmarkist af nánar tilgreindum hnitum, svo og að því landi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Til vara krefst hann viðurkenningar á því að landskikanum fylgi réttur til hagnýtingar jarðhita sem nauðsynlegur sé fyrir rekstur sundlaugar á jörðinni. Þá krefst varnaraðili þess einnig að skikanum fylgi réttur til nýtingar kaldavatnslindar innan nánar tilgreindra hnita.

Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild dómara til að fresta máli af sjálfsdáðum meðal annars ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega. Þessi heimild er undantekning frá þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að hraða beri málsmeðferð og verður að beita henni því til samræmis. Þótt að einhverju leyti kynni að vera hagfellt að fresta þessu máli til að bíða niðurstöðu í máli varnaraðila gegn Fremri-Nýpum ehf. verður það ekki af þeim sökum einum gert á grundvelli fyrrnefndrar heimildar gegn andmælum sóknaraðila. Fram hjá því verður ekki litið að sóknaraðili hefur nú þegar orðið að þola frestun málsins um níu mánaða skeið vegna viðleitni varnaraðila, sem ekki sér fyrir enda á, til að ná fram efnisdómi um ágreining sinn við Fremri-Nýpur ehf., en varnaraðili átti sjálfur val um það hvenær tímabært væri að höfða þetta mál gegn sóknaraðila sem á að lögum rétt á því að fá úrlausn þess innan hæfilegs tíma. Eru því ekki skilyrði til að fresta máli þessu frekar á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 og verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Vopnafjarðarhreppur, greiði sóknaraðila, Veiðifélagi Selár, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. febrúar 2017.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. febrúar 2017, höfðaði Vopnafjarðarhreppur, Hamrahíð 15, Vopnafirði, hinn 5. janúar 2016 gegn Veiðifélagi Selár, Fremri-Nýpum, Vopnafirði, „til greiðslu skuldar“.

                Í málinu hefur stefnandi aðallega uppi þá dómkröfu að stefndi greiði stefnanda 4.341.393 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá höfðun dómsmáls þessa. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að greiða sanngjarnt endurgjald fyrir 61.615 rúmmetra af heitu vatni sem afhent hafi verið frá borholu stefnanda við Selárdalslaug til notkunar í veiðihúsi stefnda við Fossgerði, miðað við eðli og gæði vatnsins og atvik að öðru leyti. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

                Með úrskurði, uppkveðnum 14. júní 2016, var fallist á kröfu stefnanda um að máli þessu yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í máli nr. E-12/2016 milli Vopnafjarðarhrepps og Fremri-Nýpa ehf., sem rekið var hér fyrir dómi, samkvæmt heimild í síðari málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands.

                Framangreindu máli, E-12/2016, var vísað frá dómi í heild sinni með úrskurði uppkveðnum 27. október 2016. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 29. nóvember 2016 í máli nr. 760/2016.

                Í þinghaldi 17. janúar sl. krafðist stefnandi þess að málinu yrði frestað á ný, með vísan til sömu lagaheimildar, þar til niðurstaða lægi fyrir í nýju máli sem hann hefði höfðað á hendur Fremri-Nýpum ehf., nr. E-4/2017. Var það mál þingfest sama dag. Því andmælti stefndi og krafðist þess að kröfu stefnanda um frestun yrði hafnað. Var málið tekið til úrskurðar um ágreininginn 7. febrúar sl., eftir að lögmenn aðila höfðu reifað sjónarmið sín munnlega.

                Verður hér eftir vísað til stefnanda sem sóknaraðila í þessum hluta málsins, en stefnda sem varnaraðila.

I

                Í málinu deila aðilar um reikning sem gefinn var út 11. desember 2015 og sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu á vegna notkunar á heitu vatni í veiðihúsinu Fossgerði frá árinu 2012 til 30. júní 2015.

                Sóknaraðili er fyrrum eigandi jarðarinnar Fremri-Nýpa í Vopnafjarðarhreppi. Sóknaraðili seldi jörðina á árinu 1963, en undan var þó skilin „sundlaug, ásamt nauðsynlegu athafnasvæði sem verður mælt út og verður eign Ungmennafélags Vopnafjarðar og deildum [sic] þess.“ Mun ungmennafélagið hafa staðið að uppbyggingu sundlaugarinnar á meðan sóknaraðili átti jörðina, en sveitarfélagið mun nú hafa tekið við rekstri laugarinnar.

                Óumdeilt er að sóknaraðili hafi kostað til búnaðar sem dælir vatni úr borholu er fætt hefur sundlaugina frá árinu 1980. Á árinu 2011 sótti varnaraðili um leyfi sóknaraðila til að nýta heitt vatn úr borholunni í þágu veiðihúss við Fossgerði. Var beiðnin samþykkt á fundi hreppsnefndar 20. október sama ár og mun varnaraðili hafa nýtt heitt vatn úr borholunni frá árinu 2012. Varnaraðili kveðst hafa ljáð máls á því að greiða fyrir dælingu á vatninu, en hafnar því að greiða fyrir vatnið sjálft. Er þannig í málinu deilt um heimildir sóknaraðila til að rukka fyrir heita vatnið sem slíkt. Byggir varnaraðili kröfu um sýknu í málinu m.a. á aðildarskorti til sóknar. Sóknaraðili eigi ekki þá hagsmuni sem hann krefjist greiðslu fyrir, enda hafi jarðhitaréttindum ekki verið haldið eftir við sölu jarðarinnar árið 1963.

                Eins og fyrr sagði hefur sóknaraðili höfðað nýtt mál hér fyrir dómi, mál nr. E-4/2017, og telur sig þar hafa bætt úr réttarfarsannmörkum sem leiddu til þess að máli nr. E-12/2016 var vísað frá dómi. Málið er höfðað á hendur Fremri-Nýpum ehf. sem er núverandi eigandi jarðarinnar Fremri-Nýpa, og til réttargæslu Ungmennafélaginu Einherja, til viðurkenningar eignarréttar á landi. Er þess þar aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að réttur stefnanda standi til þess gagnvart stefnda að stofnuð skuli og skráð í fasteignaskrá eignarlóð í eigu stefnanda sem liggi innan merkja Fremri-Nýpa, landnr. 156-473, og afmarkist af þar tilgreindum hnitum. Jafnframt er í aðalkröfu krafist viðurkenningar þess að lóðinni fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu í landi lóðarinnar, en til vara er þess krafist að lóðinni fylgi réttur til hagnýtingar jarðhita innan merkja Fremri-Nýpa sem nauðsynlegur sé fyrir rekstur sundlaugar á lóðinni. Varðandi afmörkun lóðar eru gerðar þrjár varakröfur með mismunandi hnitsetningum. Jafnframt er þess krafist að lóðinni fylgi réttur til að nýta kaldavatnslind sem liggi innan tilgreindra hnita.

                Í málinu nr. E-4/2017 hefur stefndi, Fremri-Nýpur ehf., krafist frávísunar, með greinargerð sem lögð var fram um þá kröfu einvörðungu samkvæmt heimild í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Ákveðið hefur verið að málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fari fram 6. mars nk. Réttargæslustefndi hefur ekki látið málið til sín taka.

II

                Með ákvæði síðari málsliðar 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómara veitt heimild til þess að fresta máli af sjálfsdáðum ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega. Felur það ákvæði í sér undantekningu frá meginreglu réttarfars um málshraða og ber því að skýra það þröngt. Eins og ákvæðið hefur verið skýrt í dómaframkvæmd verður heimildinni fyrst og fremst beitt þegar úrslit um staðreyndir eða önnur efnisatriði sem til umfjöllunar eru í öðru máli kunna að hafa verulega þýðingu fyrir þau atvik sem einhverju skipta við úrlausn þess máls sem frestað er, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 27. febrúar 2014 í máli nr. 73/2014.

                Í efnisþætti þess máls sem hér er til umfjöllunar byggir sýknukrafa varnaraðila að verulegu leyti á málsástæðum sem lúta að því að ósannað sé að sóknaraðili sé eigandi umræddra jarðhitaréttinda og sé því ekki bær til þess að krefja varnaraðila um greiðslu fyrir vatnið sem úr borholunni kemur sem slíkt.

                Dómari álítur að niðurstaða um staðreyndir sem deilt er um í máli nr. E-4/2017 geti varðað úrslit máls þess sem hér er til umfjöllunar verulega. Verður því að telja uppfyllt lagaskilyrði til þess að fallast á beiðni sóknaraðila um frestun málsins. Þykja hagsmunir varnaraðila af skjótri úrlausn máls þessa verða að víkja fyrir því réttarfarshagræði sem hlýst af frestun. Þá þykir sá dráttur sem orðið hefur vegna fyrri frestunar málsins og frávísunar máls nr. E-12/2016, ekki slíkur að leiða eigi til gagnstæðrar niðurstöðu.

                Verður því fallist á beiðni sóknaraðila og verður máli þessu frestað uns niðurstaða héraðsdóms liggur fyrir í máli nr. E-4/2017 sem rekið er hér fyrir dómi.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er frestað uns fyrir liggur niðurstaða héraðsdóms í máli nr. E-12/2016, sem rekið er hér fyrir dómi.