Print

Mál nr. 484/2017

A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem nauðungarvistun A var framlengd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2017, þar sem nauðungarvistun sóknaraðila var framlengd í tólf vikur frá 21. sama mánaðar að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um framlengingu nauðungarvistunar, en til vara  að henni verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í úrskurði héraðsdóms er um atvik málsins meðal annars vísað til þess að fram komi í kröfu varnaraðila um framlengingu nauðungarvistunar að sóknaraðili hafi dvalið hér á landi sem [...] í talsverðan tíma. Rétt er að þetta hafi komið fram í kröfunni, en í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst sóknaraðili hafa komið til landsins 7. júní 2017 og verður ekki annað séð en að það sé í samræmi við önnur gögn málsins. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2017

I.

Með kröfu 17. júlí 2017 sem barst réttinum sama dag, krefst sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, þess að nauðungarvistun, A, kt. [...], að [...],[...] Reykjavík, verði framlengd í allt að 12 vikur með rýmkun, sbr. 1. mgr. 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997. Aðild sóknaraðila styðst við 20. gr. laga nr. 71/1997, með síðari breytingum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að nauðungarvistuninni verði markaður skemmri tími. Jafnframt krefst hún þess að málskostnaður skipaðs verjanda síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga.

Málið var þingfest 20. júlí 2017 og strax í kjölfarið var tekin skýrsla af vitni og síðan fór fram munnlegur málflutningur og málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

II.

Um helstu málsatvik, sem studd eru gögnum, segir í kröfu sóknaraðila til dómsins, að varnaraðili sé [...] gömul kona, ættuð frá [...] en hafi dvalið hér á landi sem [...] í talsverðan tíma. Varnaraðili hafi sl. 20 ár búið í [...] þar sem hún starfaði í banka. Varnaraðili eigi [...], sem hafi dvalið með henni hér á landi. Vegna veikinda sinna hafi varnaraðili verið nauðungarvistuð á geðdeild til 21. dags með samþykki sýslumanns dags. 30. júní sl. Þá ákvörðun hafi varnaraðili kært til héraðsdóms sem staðfesti nauðungarvistunina með úrskurði sínum dags. 6. júlí  sl.

Eftir að varnaraðili hafi verið vistaður á geðdeild hafi bati hennar gengið hægt. Hún hafi verið algjörlega innsæislaus í þörf sína fyrir lyfjameðferð og sjúkrahúsvist. Varnaraðili sé enn haldin miklum geðrofseinkennum. Þá komi fram í málsgögnum að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi við varnaraðila og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun hennar, án árangurs.

Með kröfu sóknaraðila fylgdi m.a. læknisvottorð B sérfræðilæknis á deild 32C frá 13. júlí sl., og læknisvottorð C geðlæknis, dags. 30. júní 2017, sem og beiðni um nauðungarvistun varnaraðila dags. 30. júní 2017. Um málsatvik vísar sóknaraðili að öðru leyti til málsatvikalýsingar í framlögðum læknisvottorðum og annarra gagna málsins.

III.

Kröfu um framlengingu nauðungarvistunar til 12 vikna grundvallar sóknaraðili á heimild í 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997 og byggir á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða eða verulegar líkur séu á því að svo sé og að læknar telji framlengingu nauðungarvistunar óhjákvæmilega. Varnaraðili sé enn innsæislaus í veikindi sín og hvorki hafi náðst samvinna varðandi lyfjameðferð né áframhaldandi innlögn að 21 degi loknum.

Í vottorði B, meðferðarlæknis varnaraðila frá 13. júlí sl. komi fram að varnaraðili hafi sýnt einkenni geðsjúkdóms, þ.e. ranghugmyndir og ofskynjanir. Þá hafi varnaraðili veist að [...] með sveðju, bitið hana og hótað að afhausa hana. Varnaraðili sé ekki til samvinnu. Hún sé innsæislaus í sjúkdóm sinn og telji sig ekki þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda. Þá vilji hún ekki dvelja á geðdeild.

Þá segi orðrétt í vottorði læknis: „There is longer time needed for further evaluation of patient‘s condition and continuation of pharmacotherapy (high risk, that the patient will not take medicines on her own). That‘s why I highly recommend, that the patient should stay in the psychiatric ward for up to 12 weeks period.”

Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af aðstæðum öllum verði að telja að framlenging nauðungarvistunar til 12 vikna með rýmkun sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila.

Það sé mat undirritaðs læknis að áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og greiningu á veikindum varnaraðila.

IV.

Krafa sóknaraðila nú um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur byggist á meðfylgjandi læknisvottorði B, meðferðarlæknis varnaraðila frá 13. júlí sl. Í vottorðinu er rakinn sjúkdómsferill og félagsleg staða varnaraðila.

Í greindu vottorði B geðlæknis kemur fram að vegna geðrofseinkenna varnaraðila og óforsvaranlegrar hegðunar hennar í garð [...] hafi þurft að leggja varnaraðila inn á geðdeild. Í innlögn varnaraðila hafi varnaraðili  sýnt einkenni geðsjúkdóms. Hún hafi verið spennt, pirruð og ósamvinnuþýð. Ef varnaraðili yrði útskrifuð nú séu líkur á að hún sýni geðrofseinkenni og árásargjarna hegðun. Því sé ljóst að varnaraðili þarfnist frekari meðferðar í innlögn. Ekki hafi tekist að ná nægilega sterku meðferðarsambandi við varnaraðila. Jafnframt hafi varnaraðili ekki náð nægilega miklum framförum. Varnaraðili sé ósamvinnuþýð og til staðar sé grunur um það að varnaraðili hafi reynt að blekkja meðferðaraðila varðandi inntöku lyfja. Varnaraðili vilji ekki vera inni á spítala. Innsæi hennar sé verulega skert. Hún haldi því staðfastlega fram að hún glími ekki við veikindi sem krefjist inngrips eða meðhöndlunar. Meiri tíma þurfi til að meta og greina veikindi varnaraðila og koma við lyfjameðferð, en varnaraðili sé ekki til samvinnu um hana.

Við úrlausn málsins er og horft til vottorðs læknisvottorð C geðlæknis, dags. 30. júní 2017., sem gefið var út í tilefni af framkominni beiðni um nauðungarvistun varnaraðila til 21 dags.

Í yfirlýsingu um að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun, sem meðferðarlæknir varnaraðila hefur gefið 17. júlí 2017, sem er vafalaust gefin samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 29. gr. a, lögræðislaga, segir m.a. að í innlögn varnaraðila hafi ekki tekist að ná samkomulagi við varnaraðila um læknismeðferð. Varnaraðili sé ósamvinnuþýð og neiti að taka lyf. Varnaraðili lýsi því áfram að hún telji sig ekki glíma við veikindi. Að hennar mati sé engin þörf á læknismeðferð eða lyfjagjöf. Búast megi við að ef varnaraðili yrði útskrifuð nú séu líkur á að hún sýni geðrofseinkenni og árásargjarna hegðun. Jafnframt geti ástand hennar versnað. Varnaraðili þurfi að ná jafnvægi ásamt því að sýna samstarfsvilja. Of snemmt og áhættusamt sé að útskrifa varnaraðila að svo stöddu. Áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur sé því nauðsynleg.

Læknirinn B gaf skýrslu fyrir dómi með aðstoð túlks, en hann er [...]. Hann staðfesti vottorð sitt frá 13. júlí sl. og yfirlýsingu um að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi við varnaraðila og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun, frá 17. júlí 2017. Greindi hann frá því við skýrslugjöf fyrir dómnum að varnaraðili hefði verið með geðrofseinkenni og hún hefði veist að [...]. Hún væri innsæislaus og haldi því fram að hún sé ekki haldinn geðsjúkdómi. Samvinna varnaraðila við lækna færi eftir dagsformi varnaraðila. Stundum væri hún til samvinnu og stundum ekki. Viðtöl við varnaraðila hefðu farið fram á ensku án vandkvæða þar sem varnaraðili tali góða í ensku. Nauðungarvistun í 12 vikur væri það úrræði sem væri best fyrir varnaraðila og [...] hennar. Það væri háð framförum í bata og samvinnu varnaraðila hvort þörf yrði á að varnaraðili yrði í innlögn allar 12 vikurnar. Til standi að nýta meðferðartíma varnaraðila til þess að koma við lyfjagjöf. Áhættusamt væri að svo stöddu að útskrifa varnaraðila. Vægari úrræði væru ekki möguleg í tilviki varnaraðila en hún væri ekki tilbúin til að útskrifast strax. Aðspurður út í málsatvikalýsingu um árás varnaraðila á [...] í læknisvottorði hans svaraði læknir að hann hefði ritað þessa frásögn út frá upplýsingum frá þriðja aðila og barnaverndarnefnd. Hvað varði líðan varnaraðila í núverandi innlögn hefði hún stundum verið í uppnámi en hefði ekki beitt ofbeldi. Hún hefði sýnt geðrofseinkenni og á stundum hefði verið erfitt að staðfesta frásögn hennar af þeirri ástæðu að hún hafi verið búsett [...] í mörg ár. Aðspurður um það hvort vægari úrræði væru tæk svaraði læknirinn því ítrekað að ef frekari greining og rannsóknir á varnaraðila gæfu til kynna að óhætt væri að aflétta nauðungarvistun yrði það tafarlaust gert. Því væri farið fram á tólf vikur en sá tími gæti hæglega orðið styttri.

Varnaraðili gaf skýrslu fyrir dómi með aðstoð túlks, en varnaraðili er [...]. Varnaraðili mótmælti kröfunni. Jafnframt mótmælti hún atvikalýsingu í læknisvottorði meðferðarlæknis síns um meinta árás á hennar á [...]. Lýsingin væri ekki samræmi við raunveruleikann en lýsingum á ofbeldi væri stórlega ofaukið. Hún lagði lagði áherslu á að hún hefði lagst inn sjálfviljug. Rangt væri að hún væri ekki samvinnuþýð við lækna. Hún væri frá [...] og í hennar menningu tíðkaðist það að rassskella börn. Ekki á neinum tímapunkti hefði hún hótað [...] með hnífi eða orðum. Hún hefði á tímapunkti verið reið og því hefði hún þurft að tala við lækna á spítalanum. Hún sé aftur á móti ekki sátt við læknismeðferðina sem læknir hennar hefðu sett hana í. Hún neiti að taka lyf sem séu án samráðs við lækna hennar í [...] en hún sé með blóðkornasjúkdóm. Þá sagði hún að hún hefði rætt við lækninn sinn á ensku.

Hún hefði verði í læknisrannsókn í [...] í 5 ár út af blóðkornasjúkdóminum sínum. Einnig hefði hún haft samband við geðlækni í [...] til að fylgjast með tilfinningum hennar vegna rannsóknarinnar. Hún væri á erfiðum tímapunkti í lífi sínu. Hún þurfi stuðning og sé tilbúinn að vera í reglulegu eftirliti, en ekki innlögn í 12 vikur. Hún hefði komið til Íslands þann 7. júní sl. og vilji byggja upp líf sitt á Íslandi og fá [...] tilbaka. Hún biðjist afsökunar á því að hafa rassskellt [...]. 

Verjandi varnaraðila mótmælir kröfu sóknaraðila um nauðungarvistun. Telur hún að ekki séu uppfyllt skilyrði 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997 til þess að verða við kröfunni sem fæli í sér mikið inngrip í líf varnaraðila. Nauðungarvistun beri aðeins að beita við sérstakar aðstæður sem séu ekki uppi í máli þessu. Fram hafi komið að varnaraðili hafi verið með geðrofseinkenni en ekki geðrof.

Þá voru gerðar athugasemdir við málsatvikalýsingu í læknisvottorði frá 13. júlí sl. Röng frásögn annarra aðila um lýsingu á hótunum og ofbeldi hefði slæðst inn í sjúkrasögu varnaraðila. Það hafi verið staðfest af starfsmanni barnaverndarnefndar sem gefið hafi út yfirlýsingu sem sýni fram á að lýsingum um ofbeldi í læknisvottorði af hálfu varnaraðila hafi verið ofaukið. Þá liggi fyrir að tungumálaörðugleikar á milli varnaraðila og meðferðarlæknis hennar hafi valdið misskilningi. Tungumálaörðugleikarnir séu ekki til þess fallnir að hjálpa stöðu varnaraðila. Þá sé [...] varnaraðila [...] á vegum barnaverndar [...]. Því séu sjónarmið um að það sé [...] varnaraðila fyrir bestu að varnaraðili verði nauðungarvistuð ekki marktæk né rökrétt. Að sama skapi hafi viðhorf lækna um að sviptingu varnaraðila kynni að verða markaður skemmri tími ef varnaraðili nái framförum ekki áhrif á lögmæti kröfu velferðarsvið um 12 vikna sviptingu.

Fram kemur í gögnum málsins að [...] varnaraðila hefur verið [...] tímabundið utan heimilis af barnaverndarnefnd og að [...] þvertaki fyrir að fara aftur til móður sinnar sem [...] segir að beiti [...] ítrekað ofbeldi.

Ekki náðist að hafa upp á C til að fá staðfestingu hans á að hafa gefið út vottorð í málinu. Verjandi gerði ekki athugasemdir við það eða dró í efa efni vottorðsins.

V.

Með vísan til gagna málsins og vættis geðlæknisins C, fyrir dómi þykir nægjanlega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði áfram nauðungarvistuð á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð, meðferð og eftirfylgni svo færa megi líðan hennar til betri vegar. Við lok núverandi nauðungarvistunar er geðrænt ástand varnaraðila enn alvarlegt að mati sérfræðings sem hefur annast hana, og innsæi hennar mjög skert. Hefur því ekki tekist að ná nægjanlegum tökum á ástandi  hennar og ljóst að meiri tíma þarf til að ná utan um vandann. Verður því ekki talið að við þessar aðstæður dugi önnur eða vægari úrræði til að tryggja heilsu og batahorfur varnaraðila.

Er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a í lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, til að verða við kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga. Horft er m.a. til þess að meðferðarlæknir varnaraðila staðhæfði fyrir dómi að nauðungarvistun yrði hætt um leið og batamerki kæmu fram á varnaraðila og það þætti óhætt.  

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997, sbr. 5. mgr. 29. gr. a sömu laga, ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns 170.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fallist er á þá kröfu sóknaraðila, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, að framlengja til tólf vikna, nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], [...] Reykjavík, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997. Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns 170.000 krónur.