Print

Mál nr. 5/2019

Vogun hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)
gegn
Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson lögmaður)
Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Málsgrundvöllur
  • Málsástæða
  • Fyrning
  • Sakarskipting
  • Ómerking dóms Landsréttar
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

V hf. höfðaði mál á hendur B og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 fyrir samtals 368.805.018 krónur. Reisti V hf. kröfu sína á því að B hefði valdið sér tjóni með því að hafa með saknæmum hætti leynt upplýsingum um að félag í hans eigu færi í reynd með yfirráð í Landsbanka Íslands hf. Byggði V hf. á því að félagið hefði ekki átt hlutabréf í bankanum á því tímamarki er þau urðu verðlaus 7. október 2008 hefði hið ólögmæta og saknæma athæfi B ekki komið til. Með ákvörðun héraðsdómara í þinghaldi 30. nóvember 2017 var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst yrði leyst úr því hvort ætluð krafa V hf. væri fyrnd. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að svo væri og sýknaði B af kröfum V hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eins og málið lægi fyrir réttinum væri ekki unnt að taka afstöðu til fyrningar ætlaðrar skaðabótakröfu V hf. nema fyrst væri leyst úr því hvort hún hefði orðið til, á hvaða grunni það hafi gerst og hvenær. Að öðrum kosti fæli niðurstaða málsins í sér getsakir, eftir atvikum valkvæðar, um hvort kröfuréttindi, sem ekki hafi verið staðreynt hvort orðið hafi til, hafi fallið niður fyrir fyrningu. Talið var ljóst að skilyrði hefði brostið með öllu til að skipta sakarefni í málinu á grundvelli 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Væri því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sem og héraðsdóm í málinu og vísa því heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að viðurkennt verði að krafa sín á hendur stefnda að fjárhæð 366.285.018 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 17. febrúar 2006 til greiðsludags, sé ekki fyrnd. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjártjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 fyrir samtals 368.805.018 krónur. Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með því að hafa með saknæmum hætti leynt upplýsingum um að Samson eignarhaldsfélag ehf., sem hann hafi óbeint verið annar aðaleigenda að, færi í reynd með yfirráð í Landsbanka Íslands hf., svo og að bankinn hafi veitt umfangsmikil lán til félaga undir stjórn stefnda. Sú staða sem uppi hafi verið hefði meðal annars átt að leiða til þess að bankinn teldist dótturfélag Samson eignarhaldsfélags ehf. og jafnframt að félaginu væri skylt að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra. Áfrýjandi kveðst miða fjárkröfu sína í málinu við kaupverð framangreindra hlutabréfa að frádregnum arði sem greiddur hafi verið 7. mars 2007.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að ætluð krafa áfrýjanda hafi verið fyrnd við málshöfðun en ella að hann beri enga bótaskyldu gagnvart áfrýjanda.

Mál þetta var höfðað 21. september 2016 og þingfest 1. nóvember sama ár. Í þinghaldi í héraði 30. nóvember 2017 var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst yrði leyst úr því hvort krafa áfrýjanda væri fyrnd. Í dómi 17. apríl 2018 komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að svo væri og sýknaði stefnda af kröfu áfrýjanda. Staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningsefni málsins eins og það liggur fyrir Hæstarétti er því hvort krafa áfrýjanda sé fyrnd.

II

1

Með kaupsamningi 31. desember 2002 seldi íslenska ríkið Samson eignarhaldsfélagi ehf. 45,8% hlut í Landsbanka Íslands hf. Eftir það var eignarhlutur félagsins í bankanum yfir 40% allt þar til Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í bankanum, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd.

Félag undir yfirráðum stefnda, Givenshire Equities Ltd., mun í upphafi hafa verið einn af þremur eigendum Samson eignarhaldsfélags ehf. og frá árinu 2005 annar tveggja aðaleigenda á móti félagi í eigu föður stefnda, Bell Global Ltd. Eignarhlutir hvors þessara félaga í Samson eignarhaldsfélagi ehf. munu hafa numið á bilinu 49,5% til 49,9% frá árinu 2005 og þar til yfir lauk en á árinu 2005 mun Hersir ráðgjöf ehf. hafa farið með 1% eignarhlut í Samson eignarhaldsfélagi ehf. og árin 2006 og 2007 munu feðgarnir sjálfir hafa haldið á 0,1% hlut í félaginu. Givenshire Equities Ltd. mun upphaflega hafa verið að öllu leyti í eigu félags sem tilheyrði stefnda, Valhamar Group Ltd., en á árinu 2007 mun Axis Capital Ltd. hafa keypt 5% hlut í fyrrnefnda félaginu.

2

Áfrýjandi keypti 16. febrúar 2006 hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 6.300.000 krónur á genginu 31,35 fyrir 198.295.020 krónur og aftur 19. desember 2007 að nafnvirði 4.735.376 krónur á genginu 35,90 fyrir 170.509.998 krónur. Uppgjör vegna fyrri kaupanna fór fram 17. febrúar 2006 og 27. desember 2007 vegna þeirra seinni. Óumdeilt er að hlutabréfin urðu verðlaus 7. október 2008.

3

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem birt var 12. apríl 2010, komu í fyrsta sinn fram opinberlega ýmsar upplýsingar um Landsbanka Íslands hf. sem þýðingu hafa fyrir sakarefni máls þessa. Í skýrslunni var meðal annars fjallað um eignarhald Samson eignarhaldsfélags ehf. á Landsbanka Íslands hf. og áhættuskuldbindingar bankans gagnvart stefnda og tengdum aðilum. Þar var rakið að Fjármálaeftirlitið hafi með ákvörðun 3. febrúar 2003 fallist að gættum nánari skilyrðum á hæfi Samson eignarhaldsfélags ehf. til að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. að því undangengnu að samþykktum félagsins hafði verið breytt á þann veg að tilgangur félagsins væri bundinn við eignarhald á hlutabréfum í bankanum. Fjármálaeftirlitið hafi sent bréf til Samson eignarhaldsfélags ehf. 31. maí 2005 þar sem fram hafi komið að áhyggjur hafi vaknað hjá eftirlitinu um hæfi félagsins til að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf., sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002. Hefðu áhyggjurnar lotið að því hvort eignarhald Samson eignarhaldsfélags ehf. á bankanum, með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin hafi verið á það, teldist vera í samræmi við þau skilyrði og sjónarmið sem hefðu legið til grundvallar samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupunum. Fjármálaeftirlitið hefði í því ljósi talið að taka þyrfti þrjú atriði til nánari athugunar, í fyrsta lagi hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði, sbr. þágildandi 3. tölulið 42. gr. laga nr. 161/2002, í öðru lagi torveldun eftirlits, sbr. þágildandi 5. tölulið sömu lagagreinar, og í þriðja lagi hvort Samson eignarhaldsfélag ehf. teldist vera eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi þágildandi 97. gr. laganna. Einnig kom fram að áhyggjur Fjármálaeftirlitsins hefðu snúið að því að Samson eignarhaldsfélag ehf. og tengdir aðilar nytu verulegrar fyrirgreiðslu frá Landsbanka Íslands hf. og dótturfélagi hans í Lúxemborg. Skuldbindingarnar væru í mörgum tilvikum ýmist með ábyrgð móðurfélagsins eða tryggðar með veði í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. eða félögum sem tengd væru bankanum eða virkum eigendum hans. Þá hefði Fjármálaeftirlitið litið alvarlegum augum aðkomu eigenda virks eignarhlutar í fjármálafyrirtæki að viðskiptum á markaði sem væru til þess fallin að torvelda eðlilegt eftirlit með eignarhaldi í öðrum fjármálafyrirtækjum. Af skýrslu rannsóknarnefndarinnar má ráða að Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi svarað bréfinu 29. júní 2005 og reifað sjónarmið sín en jafnframt ítrekað áður fram komna ósk um að fá heimild til að breyta samþykktum sínum í fyrra horf. Hafi félagið talið að nauðsynlegt væri „að útvíkka starfsheimildir félagsins í því skyni að tryggja óháða stöðu þess, styrkja það og stuðla að gegnsæi í rekstri þess.“ Í framhaldinu mun ekki hafa komið til aðgerða Fjármálaeftirlitsins vegna framangreindra atriða en með bréfi 2. júní 2006 féllst það á beiðni um heimild til að breyta samþykktum Samson eignarhaldsfélags ehf. með nánar tilgreindum skilyrðum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var jafnframt vikið að „stórum áhættum“ í rekstri Landsbanka Íslands hf. og tiltekið að í bréfi Fjármálaeftirlitsins til bankans 22. mars 2007, hafi verið gerðar ýmsar athugasemdir vegna úttektar sem hafði verið gerð á áhættumælingum og áhættustýringu bankans á árinu 2005. Í fyrsta lagi hefðu verið gerðar athugasemdir um hvernig Landsbanki Íslands hf. skilgreindi fjárhagslega tengda aðila í nokkrum tilvikum, í öðru lagi hefði Fjármálaeftirlitið álitið að bankinn hefði vantalið áhættur sem færu fram úr 10% af eigin fé hans, í þriðja lagi væri misræmi í tölum í skýrslugjöf bankans, í fjórða lagi hefði skilyrðum fyrir frádrætti frá stórum áhættum ekki verið fullnægt í öllum tilvikum og í fimmta lagi hefði skort nafngreinanlegar upplýsingar um fyrirgreiðslu. Hefði Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að áhættuskuldbinding bankans gagnvart stefnda og tengdum aðilum hefðu numið að minnsta kosti 51.300.000.000 krónum eða 49,7% af svonefndu CAD eigin fé bankans. Þessi niðurstaða hefði tekið mið af stöðunni eftir að búið væri að beita hámarksfrádrætti samkvæmt reglum um stórar áhættur, en án frádráttarins hefði skuldbindingin svarað til 52% af eigin fé bankans.  Fjármálaeftirlitið hefði farið fram á það í bréfinu að þessar niðurstöður yrðu kynntar stjórn Landsbanka Íslands hf. og gerðar viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þeim atriðum sem athugasemdir væru gerðar við. Í bréfi bankans 30. apríl 2007 hefði túlkun Fjármálaeftirlitsins á framkvæmd reglna um stórar áhættur verið mótmælt um nokkur mikilvæg atriði.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kom einnig fram að í september 2008 hefði Landsbanki Íslands hf. veitt Samson eignarhaldsfélagi ehf. lán að fjárhæð 168.000.000 sterlingspund, sem samkvæmt fundargerð lánanefndar bankans hefði verið vegna gjaldþrots tilgreinds félags. Hefði láninu öllu verið ráðstafað til lækkunar á skuldbindingum við bankann. Síðustu átján mánuðina fyrir fall bankans hefðu heildarútlán móðurfélags hans til tiltekinna fyrirtækja á vegum stefnda sveiflast í kringum 20% af eiginfjárgrunni bankans.

4

Í héraðsdómsstefnu er greint frá minnisblaði sem starfsmenn PricewaterhouseCoopers hf., sem var endurskoðandi Landsbanka Íslands hf., hafi ritað 22. október 2005 eftir fund með tilteknum starfsmönnum bankans og framkvæmdastjóra Samson eignarhaldsfélags ehf. Tilefni fundarins hafi verið staða sem hafi komið upp þegar Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi leyst til sín 15% eignarhlut þriðja eiganda félagsins. Eftir það munu stefndi og faðir hans hafa farið hvor um sig með 50% atkvæða í félaginu og þar með óbeint eignarhald að meira en 20% hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. sem oft væri stuðst við um skilgreiningu á mikilvægum áhrifum í hlutafélagi. Hafi framkvæmdastjóri Samson eignarhaldsfélags ehf. tekið fram á fundinum að gripið yrði til aðgerða til þess meðal annars að eignarhlutur stefnda myndi færast í fyrra horf og óbein hlutdeild hans í atkvæðisrétti í Landsbanka Íslands hf. færi ekki yfir þessi 20% mörk. Í árslok 2005 hafi Hersir – ráðgjöf og þjónusta ehf. keypt 1% hlut í Samson eignarhaldsfélagi ehf. af félaginu sjálfu. Eftir efnahagsreikningi Samson eignarhaldsfélags ehf. 31. desember 2006 hafi sá eignarhlutur á hinn bóginn virst vera kominn aftur í eigu félagsins en eignarhlutföll að öðru leyti verið óbreytt.

Í tölvubréfi til Fjármálaeftirlitsins 1. febrúar 2007 tilkynnti framkvæmdastjóri Samson eignarhaldsfélags ehf. að Axis Capital Ltd. hefði keypt 5% hlut í Givenshire Equities Ltd. Í tölvubréfi til regluvarðar Landsbanka Íslands hf. 17. október 2007 staðfesti síðan framkvæmdastjóri Samson eignarhaldsfélags ehf. að engar breytingar hefðu orðið á eignarhaldi að félaginu „þannig að BTB er undir 20% í óbeinu eignarhaldi í Landsbanka.“ Þá áttu regluvörður Landsbanka Íslands hf. og framkvæmdastjóri í bankanum tölvubréfaskipti í janúar 2008 um eignarhald að Samson eignarhaldsfélagi ehf., en aðspurður þar um hvort stefndi væri „innan við 20% í bankanum“ svaraði regluvörðurinn: „Okkur reiknaðist til að hann væri 19,9x%.“  Í framhaldi af þessu svaraði framkvæmdastjórinn fyrirspurn frá endurskoðanda Landsbanka Íslands hf. um stöðu stefnda á eftirfarandi hátt: „BTB á 95% í Givenshire en 5% eru í eigu Hersir-ráðgjöf og þjónusta ehf. ... Givenshire á 49,94% og er í 95% eigu BTB eða samtals 47,44%. Síðan á BTB beint 0,06%. Samtals eru þetta 47,5%. Eignarhlutur Samson í bankanum er 40,73%. Hlutur BTB er 47,5% af 40,73% sem gerir 19,34% m.v. allt hlutafé. Síðan þegar eigin bréf eru dregin frá (c.a 3%) og þá er hlutdeild í virku hlutafé 19,94% eða rétt undir mörkum. Samson eru meðvitaðir um áhrif þess ef þeir fara yfir 20%.“ Loks er þess að geta að í svari starfsmanns Samson eignarhaldsfélags ehf. 12. júní 2008 við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins vegna eftirlits með virkum eignarhluta í Landsbanka Íslands hf. kom fram að fyrir utan eigin hluti Samson eignarhaldsfélags ehf. ættu Bell Global Investment S.á.r.l., sem væri að öllu leyti í óbeinu eignarhaldi föður stefnda, og Givenshire Equities S.á.r.l., sem væri að 95% í eigu stefnda og 5% í eigu Landsbanka Luxembourg S.A., hvort um sig 49,9% hlut í eignarhaldsfélaginu. Stefndi og faðir hans ættu síðan hvor um sig 0,1% hlut.

5

Í málinu hefur verið lagt fram álit þriggja lögmanna á lögfræðistofunni Landslögum 14. febrúar 2011 sem gert mun hafa verið að ósk nafngreinds lögmanns, sem mun hafa átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Var í álitinu fjallað um hugsanlega stöðu stefnda sem tengds aðila gagnvart Landsbanka Íslands hf. og komist að þeirri niðurstöðu að „Með því að hlutir Givenshire og Hersis í Samson annars vegar og hlutir Valhamars og starfsmanna Novator í Givenshire hins vegar skulu taldir saman við útreikning á óbeinum eignarhlut Björgólfs Thors í Landsbankanum, fer hlutur hans í bankanum yfir 20%.“ Er síðan ályktað á þann veg að þegar af þeirri ástæðu yrði að telja að stefndi hefði haft stöðu tengds aðila gagnvart Landsbanka Íslands hf. í skilningi laga nr. 161/2002. Í grein nafngreinda lögmannsins, sem birtist í dagblaði 12. september 2011, fjallaði hann um hugsanlegan bótarétt hluthafa í félaginu á hendur stefnda vegna annmarka á upplýsingagjöf til þeirra. Lýsti hann meðal annars vilja til að standa að undirbúningi slíks skaðabótamáls. Samhliða þessu birtist frá honum auglýsing með fyrirsögninni: „Áskorun til fyrrum hluthafa í Landsbanka Íslands hf.“ Þar kom fram að hluthafar í félaginu ynnu að undirbúningi þess að fá skýrslur teknar fyrir dómi vegna hugsanlegrar málsóknar gegn stefnda og gæfist öðrum úr röðum hluthafa kostur á að leggja þessu lið. Markmið þessarar gagnaöflunar væri að afla frekari upplýsinga um viðskipti, lánveitingar og stöðu stefnda innan bankans. Í framhaldinu yrði tekin ákvörðun um hvort höfðað yrði skaðabótamál á hendur honum.

Með bréfi 15. nóvember 2011 til slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. óskaði lögmaður, fyrir hönd ótilgreinds hóps hluthafa í félaginu, eftir aðgangi að tilteknum gögnum og upplýsingum á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í svari slitastjórnarinnar 13. desember sama ár kom fram að hún teldi nauðsynlegt áður en lengra yrði haldið að upplýst yrði hverjir þessir hluthafar væru. Í framhaldi af því munu tveir hluthafar, Stapi lífeyrissjóður og Vilhjálmur Bjarnason, hafa gert þessar óskir að sínum. Þannig leitaði lífeyrissjóðurinn eftir því með bréfi 1. mars 2012 að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. veitti aðgang að nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum. Því hafnaði slitastjórnin með bréfi 22. sama mánaðar með vísan til „nýgenginna hæstaréttardóma“ sem styddu að lífeyrissjóðurinn hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn til að meta grundvöll fyrir málshöfðun á hendur fyrrum aðaleigendum Landsbanka Íslands hf. eða til sönnunarfærslu í bótamáli gegn þeim. Eftir frekari bréfaskipti um þetta leitaði slitastjórnin úrlausnar héraðsdóms um ágreining sinn við lífeyrissjóðinn samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991. Með dómi Hæstaréttar 3. mars 2014 í máli nr. 108/2014 var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem slitastjórninni var gert að afhenda lífeyrissjóðnum nánar tiltekin gögn á grundvelli 2. mgr. 80. gr. sömu laga.

Gögnin sem dómur þessi varðaði voru afhent lífeyrissjóðnum 7. mars 2014. Með tölvubréfum 14. október, 3. nóvember og 3. desember 2014 óskaði lífeyrissjóðurinn eftir frekari gögnum. Í framhaldinu var lögmanni hans veittur aðgangur að svonefndu gagnaherbergi á vegum slitastjórnarinnar og undirritaði hann af því tilefni yfirlýsingu 9. desember 2014 um að þetta væri gert í þeim tilgangi að Stapi lífeyrissjóður gæti að gættum trúnaði afmarkað nánar eftir hvaða gögnum væri óskað. Eftir skoðun gagnanna sama dag mun lögmaður lífeyrissjóðsins hafa tilgreint að hverjum þeirra beiðni hans lyti og munu þau hafa verið afhent honum 16. febrúar 2015.

Á þeim tíma sem fyrrnefndur ágreiningur um afhendingu gagna beið úrlausnar dómstóla fór Stapi lífeyrissjóður þess einnig á leit að fá eftirrit stefnu og skjalaskrár í tilteknu einkamáli sem Landsbanki Íslands hf. hafði höfðað gegn fyrrum endurskoðendum félagsins. Landsbanki Íslands hf. mótmælti þeirri beiðni en hún var tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 22. nóvember 2012.

Þá krafðist Vilhjálmur Bjarnason þess með bréfi til héraðsdóms 21. september 2012 að sér yrði heimilað samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að leiða sautján nafngreinda menn fyrir dóm til skýrslugjafar vegna undirbúnings málshöfðunar gegn stefnda ásamt því að mælt yrði fyrir um skyldu til að afhenda tiltekið skjal. Stefndi tók til varna gegn þessum kröfum og var þeim hafnað með úrskurði héraðsdóms 2. apríl 2013. Með dómi Hæstaréttar 15. maí sama ár í máli nr. 259/2013 var krafa um skýrslutökur á hinn bóginn tekin til greina að öðru leyti en því að stefnda var ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi. Skýrslur voru teknar af þessum vitnum 4., 6., og 7. nóvember 2013. Þar reis ágreiningur um skyldu vitnanna til að svara tilteknum spurningum og gengu af þeim sökum dómar í Hæstarétti 27., 30. og 31. janúar og 4. febrúar 2014 í málum nr. 799/2013, 807/2013, 808/2013, 809/2013, 810/2013 og 811/2013, þar sem vitnunum var gert að svara stærstum hluta spurninganna. Skýrslutökum fyrir héraðsdómi lauk 11. og 13. mars 2014.

Áfrýjandi var þátttakandi í Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands hf., sem höfðaði mál á hendur stefnda 12. ágúst 2015 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu hans, að meginstefnu til vegna sömu atvika og mál þetta byggir á. Með dómi Hæstaréttar 2. maí 2016 í máli nr. 235/2016 var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa því máli frá dómi, þar sem kröfugerð málsóknarfélagsins þótti áfátt auk þess sem ekki væri fullnægt því skilyrði 1. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 um að kröfur félagsmanna yrðu að vera af sömu rót runnar.

Áfrýjandi höfðaði sem fyrr segir mál þetta 21. september 2016. Kröfu stefnda um að málinu yrði vísað frá dómi var hafnað með úrskurði héraðsdóms 30. maí 2017.

III

Í þessum þætti málsins byggir áfrýjandi í fyrsta lagi á því að málsástæða stefnda um fyrningu kröfu hans, sem fyrst hafi verið höfð uppi við málflutning í héraði, hafi komið of seint fram og eigi því ekki að komast að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé þessi málsástæða vanreifuð og hafi greinargerð stefnda í héraði ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 99. gr. sömu laga.

Komist þessi málsástæða að byggir áfrýjandi í öðru lagi á því að eldri lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda gildi um kröfu sína þar sem hún hafi stofnast þegar hann keypti hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og fyrnist krafan því á tíu árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905.

Verði lög nr. 150/2007 á hinn bóginn talin eiga við um kröfu áfrýjanda byggir hann í þriðja lagi á því að hann hafi höfðað málið innan fjögurra ára frá því að hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt og þann sem ber ábyrgð á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Hafi málið því verið höfðað fyrir lok fyrningartíma.

Áfrýjandi byggir jafnframt sjálfstætt á því að þar sem skaðabótakrafa hans sé að hluta reist á því að stefndi hafi vanrækt að gera öðrum hluthöfum í Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hafi krafan hvað sem öðru líði stofnast á því tímamarki þegar skylt var að setja slíkt tilboð fram, en það hafi verið 23. apríl 2008.

Stefndi andmælir því að málsástæða hans um fyrningu sé vanreifuð. Hann byggir á því að lög nr. 150/2007 taki til kröfu áfrýjanda, sem geti ekki hafa stofnast fyrr en ætlað tjón hafi orðið 7. október 2008 þegar hlutabréf hans urðu verðlaus. Hafi því fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt lögunum verið liðinn þegar málið var höfðað. Þá hafnar stefndi því að nægjanlegt tilefni til málsóknar í skilningi 9. gr. laga nr. 150/2007 geti ráðist af því hvort tjónþoli hafi undir höndum sönnunargögn um öll atvik máls. Einnig andmælir stefndi því að krafa um skaðabætur, sem reist sé á vanrækslu á að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð, geti hafa stofnast á þeim degi sem gera hefði átt slíkt boð. Hópmálsókn 12. ágúst 2015 geti ekki hafa slitið fyrningu og hafi áfrýjandi að auki sýnt af sér tómlæti um málshöfðun. Loks byggir stefndi sérstaklega á því að krafa áfrýjanda um vexti sé fyrnd og breyti þá engu hvort eldri eða yngri lögin eigi við um hana.

IV

Skiptingu sakarefnis í málinu reisti héraðsdómari á 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þar sem kveðið er á um að dómari geti ákveðið að eigin frumkvæði eða eftir ósk annars aðila eða beggja að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíla og bíða þess að verða dæmd. Á þeim grundvelli var í héraðsdómi og dómi Landsréttar eingöngu tekin afstaða til þess hvort ætluð krafa áfrýjanda um skaðabætur væri fyrnd. Svo unnt sé að skipta sök með því móti og taka aðeins afstöðu til fyrningar án þess að leysa úr málinu að öðru leyti verður að liggja fyrir hvenær og á hvaða grundvelli krafa er talin hafa stofnast. Niðurstaða í þeim efnum ræður einnig lagaskilum milli eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 og yngri laga nr. 150/2007, en síðargreindu lögin gilda einvörðungu um kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra 1. janúar 2008, sbr. 28. gr. laganna. Þannig var fyrningarfrestur skaðabótakröfu utan samninga tíu ár eftir eldri lögunum, sbr. 2. tölulið 4. gr. þeirra, en fyrningarfrestur slíkrar kröfu eftir 1. mgr. 9. gr. gildandi laga er fjögur ár miðað við nánar tilgreind atriði sem lýst er í ákvæðinu.

Svo sem grein hefur verið gerð fyrir byggir áfrýjandi á því að eldri lög nr. 14/1905 gildi um fyrningu kröfu hans þar sem hún hafi stofnast við kaup hlutabréfanna í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007. Stofndagur kröfunnar, sem sé um skaðabætur utan samninga, miðist við það þegar áfrýjandi keypti hlutabréfin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga en þá hafi hin bótaskylda háttsemi stefnda þegar verið hafin. Engu breyti um þetta hvenær tjón hafi komið fram og því hafi krafa áfrýjanda ekki verið fyrnd við höfðun máls þessa. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að verði ekki talið að til skaðabótaskyldu stefnda hafi stofnast þegar við kaupin, þá hafi eftir það tímamark hvílt á stefnda skylda til nánar tilgreindra athafna sem þá beri að miða við um tilurð skaðabótakröfunnar. Öll þau tilvik hafi átt sér stað fyrir gildistöku laga nr. 150/2007 ef frá sé talin málsástæða um að stefnda hafi orðið skylt að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra 23. apríl 2008. Áfrýjandi telur að dagsetningin 7. október 2008, þegar hlutabréfin urðu verðlaus, hafi enga sjálfstæða þýðingu fyrir málatilbúnað hans og byggir hann ekki á því að stefndi hafi borið ábyrgð á að svo hafi farið, heldur á því að áfrýjandi hefði ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á því tímamarki hefði hið ólögmæta og saknæma athæfi stefnda ekki komið til.

Stefndi byggir á hinn bóginn á því að lög nr. 150/2007 eigi við í málinu og því sé krafa áfrýjanda fallin niður fyrir fyrningu. Skaðabótakrafa utan samninga geti fyrst stofnast þegar öllum skilyrðum skaðabótaskyldu er fullnægt. Krafa áfrýjanda hafi því ekki stofnast fyrr en tjón hafi orðið 7. október 2008 þegar hlutabréfin urðu verðlaus, en ekki nægi í þeim efnum að fyrir hendi sé hætta á tjóni. Fyrir þann tíma hafi engri skaðabótaskyldu verið til að dreifa.

Það er meginregla að krafa um skaðabætur utan samninga stofnast þegar hin bótaskylda háttsemi á sér stað og miðast gjalddagi kröfunnar við sama tímamark, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 22. mars 2016 í máli nr. 519/2015 og 11. maí 2017 í máli nr. 571/2016, og kenningar norrænna fræðimanna í þeim efnum. Það fer þó eftir atvikum hvort afleiðingar háttseminnar koma fram á sama tímamarki eða síðar og hvort unnt er að gera tjón vegna háttseminnar þá upp eða síðar. Er það samkvæmt þessu ekki fortakslaust skilyrði fyrir stofnun skaðabótakröfu utan samninga að saman fari það tímamark þegar til kröfunnar stofnast annars vegar og hins vegar hvenær tjón verður staðreynt og gert upp sem getur eins og áður segir verið á síðara tímamarki. Þá hefur verið lagt til grundvallar hvað svokölluð athafnaleysisbrot varðar að miða beri stofndag kröfu við það tímamark þegar unnt var í síðasta lagi að afstýra tjóni. Samkvæmt þessu kann áfrýjandi að lögum að eiga kröfu um skaðabætur utan samninga þess efnis sem hann heldur fram og sem þá stofnaðist til innan þeirrar tímamarka sem hann byggir aðallega á.

Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda svo að hann leggi einnig til grundvallar að skaðabótaskylda stefnda verði öðrum þræði reist á athafnaleysi hans sem hafi verið „samfelld bótaskyld háttsemi.“ Þessi háttsemi hafi verið byrjuð áður en áfrýjandi keypti í fyrra skiptið hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og varað allt þar til skilanefnd var sett yfir félagið 7. október 2008. Jafnframt vísar áfrýjandi til nánar tilgreindra og tímasettra athafna stefnda sem varði hann skaðabótaskyldu, þar á meðal að stefndi hafi með athöfnum eða athafnaleysi komið því til leiðar að rangar upplýsingar hafi komið fram um eignarhald stefnda og lánveitingar til hans í ársreikningum Landsbanka Íslands hf. 2005, árshlutareikningi 2006, ársreikningi sama ár, árshlutareikningi 2007 og ársreikningi þess árs. Þá beri stefndi ábyrgð á rangri upplýsingagjöf um eignarhluta sinn í Samson eignarhaldsfélagi ehf. sem haft hafi í för með sér rangt mat á óbeinum eignarhlut hans í Landsbanka Íslands hf. Ennfremur byggir áfrýjandi á því að þar sem stefndi hafi vanrækt að gera öðrum hluthöfum í þeim banka yfirtökutilboð, sbr. 1. mgr. 19. gr. þágildandi laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, hafi krafan hvað sem öðru líði stofnast á því tímamarki þegar skylt hafi verið að setja slíkt tilboð fram 23. apríl 2008, en fyrning slíkrar kröfu félli undir gildissvið laga nr. 150/2007. Stefndi byggir hins vegar í öllum tilvikum á því að ekki geti hafa stofnast til ætlaðrar kröfu áfrýjanda fyrr en 7. október 2008.

Svo sem ráða má af framangreindu er í málatilbúnaði áfrýjanda gert ráð fyrir því að til ætlaðrar kröfu hans geti hafa stofnast á mismunandi tímum og spanna þær tímasetningar að auki gildissvið bæði eldri og yngri laga um fyrningu kröfuréttinda, en áður er vikið að lagaskilum eftir 28. gr. laga nr. 150/2007. Aðallega byggir áfrýjandi á þeirri málsástæðu að skaðabótakrafan hafi orðið til við kaup hans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007. Eftir málatilbúnaði áfrýjanda kynni skaðabótakrafa hans þó jafnframt að hafa stofnast eftir kaupdaga hlutabréfanna en þó fyrir 1. janúar 2008 þegar lög nr. 150/2007 öðluðust gildi. Það ætti þó ekki við ef stefndi yrði talinn bera skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda fyrir þá sök að stefndi hafi vanrækt að gera öðrum hluthöfum í Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra 23. apríl 2008. Jafnframt byggir áfrýjandi, svo sem fyrr getur, á viðvarandi athafnaleysi stefnda en í því tilviki myndi stofndagur kröfu ráðast af lokadegi þess svo sem að framan getur.

Eins og mál þetta liggur fyrir er ekki unnt að taka afstöðu til fyrningar ætlaðrar skaðabótakröfu áfrýjanda nema fyrst hafi verið leyst úr því hvort hún hafi orðið til, á hvaða grunni það hafi gerst og hvenær. Að öðrum kosti fæli niðurstaða málsins í sér getsakir, eftir atvikum valkvæðar, um hvort kröfuréttindi, sem ekki hefur verið staðreynt hvort orðið hafi til, hafi fallið niður fyrir fyrningu. Að þessu gættu er ljóst að skilyrði brast með öllu til að skipta sakarefni í málinu á grundvelli 31. gr. laga nr. 91/1991 svo sem gert var með ákvörðun héraðsdómara í þinghaldi 30. nóvember 2007. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sem og héraðsdóm í málinu og vísa því heim í hérað til löglegrar meðferðar en við hana verður þá að taka til þess afstöðu hvort málsástæður um fyrningu hafi í einstökum atriðum verið nægjanlega reifaðar af stefnda hálfu.

Rétt er að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur og héraðsdómur í máli þessu eru ómerktir og er því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Landsréttar 14. desember 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Ragnheiður Harðardóttir.

 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 9. maí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2018 í málinu nr. E-3326/2016.

2        Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og kveðið verði á um það með dómi að kröfur hans séu ófyrndar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4        Atvikum máls er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

5        Fyrir Landsrétti byggir áfrýjandi á því að málsástæður stefnda um fyrningu, sem fyrst hafi komið fram við málflutning í héraði, séu of seint fram komnar auk þess að vera vanreifaðar. Komist þær því ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með vísan til forsendna hins hins áfrýjaða dóms er því hafnað að málsástæður stefnda um fyrningu séu vanreifaðar. Með sömu rökum er því einnig hafnað að þær séu of seint fram komnar.

6        Eins og rakið er í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefnda á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007. Tjónið verði rakið til þess að stefndi hafi með saknæmum hætti haldið frá honum og öðrum markaðsaðilum upplýsingum sem mikilvægar voru þeim sem vildu fjárfesta í hlutabréfum í Landsbankanum. Telur áfrýjandi kröfu sína hafa stofnast á kaupdegi bréfanna enda þótt hún hafi orðið gjaldkræf á síðara tímamarki. Miðast bótakrafa hans því við kaupverð bréfanna að frádregnum arði sem hann fékk greiddan á árinu 2007. 

7        Samkvæmt 28. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 gilda lögin einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra, sem var 1. janúar 2008. Telur áfrýjandi að um fyrningu skaðabótakröfunnar fari því eftir eldri fyrningarlögum nr. 14/1905. Samkvæmt því fyrnist hún á 10 árum, sbr. 4. gr. þeirra laga, og sé því ófyrnd.

8        Áfrýjandi átti ekki í samningssambandi við stefnda er hann ákvað að fjárfesta í hlutabréfum í Landsbankanum. Um kröfu hans fer því eftir reglum um skaðabætur utan samninga. 

9        Áfrýjandi byggir á því að hann hefði ekki fjárfest í hlutabréfum í Landsbankanum „ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir“ og að tjón hans nemi kaupverði bréfanna að frádreginni arðgreiðslu, eins og að framan greinir. Ekki er fallist á það með áfrýjanda að hann hafi orðið fyrir tjóni þegar við kaup hlutabréfanna enda byggir hann ekki á öðru en að þau hafi orðið verðlaus við fall bankans 7. október 2008. Samkvæmt því miðast stofndagur skaðabótakröfu hans við það tímamark. Um fyrningu kröfunnar fer því eftir lögum nr. 150/2007, sbr. fyrrgreinda 28. gr. þeirra laga.

10       Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Í lögskýringargögnum kemur fram að þá fyrst verði talinn grundvöllur fyrir tjónþola að setja fram kröfu sína um bætur. Af þeim verður jafnframt ráðið að í ákvæðinu felist ekki að tjónþoli geti haldið að sér höndum uns hann telur sig öruggan um að niðurstaða málsóknar verði honum í hag, heldur miðist upphaf fyrningarfrests við það tímamark er hann hafði nægilegt tilefni til málsóknar. Í apríl 2010 var kynnt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Telja verður að í síðasta lagi þá hafi tjónþoli búið yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Hvort sem upphaf fyrningarfrests miðast við það tímamark eða þann dag sem fjártjón varð var krafan fyrnd þegar mál þetta var höfðað með stefnu birtri í nóvember 2016, sbr. 15. gr. laga nr. 150/2007. Þá var krafan einnig fyrnd þegar mál Málsóknarfélags hluthafa Landsbanka Íslands hf. var höfðað gegn stefnda í ágúst 2015, en áfrýjandi var þátttakandi í félaginu.

11       Samkvæmt framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

12       Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vogun hf., greiði stefnda, Björgólfi Thor Björgólfssyni, 500.000 krónur í málskostnað.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2018.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vogun hf., Miðsandi, Hvalfjarðarsveit, á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon Road, London, W11 4JD, Bretlandi, með stefnu dags. 21. september 2016.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 366.285.018 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 198.295.020 kr. frá 17. febrúar 2006 til 7. mars 2007, en af 195.775.020 kr. frá þeim degi til 27. desember 2007, en af 366.285.018 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2016, en með dráttarvöxtum af þeirra fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndi gerði einnig kröfu um frávísun málsins frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 30. maí 2017.

Í fyrirtöku málsins 30. nóvember 2017 var ákveðið að sakarefninu yrði skipt og er því í þessum þætti málsins fjallað um þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.

            Krafa stefnanda í þessum þætti málsins er sú að kveðið verði á um það með dómi að krafa hans sé ekki fyrnd.

            Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I

            Stefnandi krefst þess í málinu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna tvennra kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Annars vegar var um að ræða kaup stefnanda 16. febrúar 2006 á hlutabréfum að nafnvirði 6.300.000 á genginu 31,35 fyrir samtals 198.295.020 kr. Uppgjör viðskiptanna fór fram 17. febrúar 2006. Hins vegar voru kaup stefnanda 19. desember 2007 á hlutabréfum að nafnverði 4.735.376 kr. á genginu 35,9 fyrir samtals 170.509.998 kr. Uppgjör vegna kaupanna fór fram 27. desember 2007.

Stefnandi telur að gögn málsins sýni að á þeim degi sem hann keypti fyrrgreind hlutabréf hafi stefndi með saknæmum hætti haldið frá honum og öðrum markaðsaðilum upplýsingum um að Samson eignarhaldsfélag ehf. (hér eftir Samson) færi með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. og að bankinn hefði stundað umfangsmiklar lánveitingar til félaga sem voru undir stjórn stefnda. Stefnandi telur að sú staða að Samson fór með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. hefði átt að leiða annars vegar til þess að Landsbankinn teldist vera dótturfélag Samsons og hins vegar til þess að Samson hefði verið skylt að gera öðrum hluthöfum kauptilboð (yfirtökutilboð) í hlutabréf þeirra. Fyrrgreindar upplýsingar hafi verið mikilvægar fyrir alla sem vildu fjárfesta í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf.

Stefndi hafnar kröfum stefnanda og tekur fram að verið sé að krefjast bóta fyrir tjón vegna hluta sem stefnandi keypti í Landsbanka Íslands hf.; líkt og stefndi, sem aldrei tók sæti í bankaráði Landsbankans, hafi borið einhverja stjórnunarábyrgð á bankanum. Stefndi kveður viðskiptin hafa farið fram fyrir opnum tjöldum og að atburðarásin hafi verið einföld, en stefnandi reyni að flækja hana. Stefndi telur ekki lagalegar forsendur fyrir málatilbúnaði stefnanda og telur hann kröfur stefnanda ekki aðeins vera fyrndar, heldur horfi stefnandi m.a. fram hjá meginreglum laga um takmarkaða ábyrgð hluthafa. 

II

Helstu málsástæður stefnanda eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi byggist krafa stefnanda á vanreifun málsástæðu stefnda um fyrningu. Stefndi hafi vísað til lagaákvæða en í engu getið um málsástæður þær sem hann byggi á. 

Í annan stað byggir stefnandi á því að lög nr. 14/1905 eigi við í málinu og kröfur hans séu því ófyrndar. Skaðabótakrafa hafi stofnast þegar hin bótaskylda háttsemi átti sér stað og miðist gjaldkræfni kröfunnar að jafnaði við sama tímamark, samanber 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Þó geti gjaldkræfni bótakröfu miðast við síðara tímamark en stofndagurinn miðast við, ef tjón kemur fram síðar eða ekki er hægt að staðreyna það.

Stefnandi byggir á því að hin bótaskylda háttsemi stefnda hafi verið hafin þegar stefnandi keypti hlutabréf í Landsbanka Íslands 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 og stofndagurinn eigi að miðast við þau tímamörk.

Í þriðja lagi tekur stefnandi fram að eigi að byggja á lögum nr. 150/2007, þá hafi stefnandi höfðað málið um kröfuna innan fjögurra ára frá því að hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð bar á því og bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi slitið fyrningu þegar hann höfðaði mál um kröfuna, það er þegar stefndi mætti við þingfestingu stefnu málsóknarfélags hinn 27. október 2015.

Þá bendir stefnandi á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er kom út 12. apríl 2010 hafi gefið stefnanda tilefni til gagnaöflunar, en skýrslan sjálf hafi ekki sjálfstætt sönnunargildi.

Þá liggi fyrir í málinu að umfangsmikil gagnaöflun hafi farið fram hjá LBI hf. og hafi lögmaður stefnanda ekki fengið gögnin afhent fyrr en 16. febrúar 2015.

Einnig hafi verið höfðað vitnamál til gagnaöflunar samkvæmt beiðni 21. september 2012 og skýrslutökur ekki farið fram fyrr en 11. og 13. mars 2014, en mikill ágreiningur hafi verið á milli aðila sem skýri þann drátt sem varð á málinu.

Stefnandi telur ljóst að hann hafi ekki haft nægar upplýsingar til stuðnings kröfum sínum fyrr en 16. febrúar 2015 og séu kröfurnar því augljóslega ekki fyrndar, hvort sem miðað sé við málshöfðun málsóknarfélagsins eða þingfestingu þessa máls.

III

Helstu málsástæður stefnda eru eftirfarandi.

Í fyrsta lagi hafnar stefndi því að málsástæða hans um fyrningu sé vanreifuð. Hann telur að málsástæðan sé sett fram á skýran og gagnorðan hátt og það séu ekki gerðar ríkari kröfur um að fyrningarmálsástæða sé rökstudd sérstaklega umfram það að nefna fyrningu á nafn.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að lög nr. 150/2007 eigi við í málinu og séu því allar kröfur stefnanda fyrndar. Bótakrafa stofnist ekki fyrr en tjón hafi átt sér stað. Í þessu tilviki hafi það orðið 7. október 2008, en þá urðu hlutabréfin verðlaus. Stefndi byggir á því að kröfuréttindi stefnanda, eins og þeim sé lýst í stefnu, geti vart hafa stofnast fyrr en eftir gildistöku laga nr. 150/2007.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að fyrningu hafi fyrst verið slitið þegar málið var höfðað í september 2016. Stefndi hafnar því að viðurkenningarkrafa í hópmálssókn í eldra máli, sem þingfest var 15. október 2015, hafi rofið fyrningu.

Þá byggir stefnandi í fjórða lagi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um málshöfðun. Tjónið hafi orðið 7. október 2008 og stefnanda borið að hefjast handa svo fljótt sem auðið yrði. Það sé alveg sama hvort fyrningarfrestur sé talinn byrja að líða 7. október 2008 (við bankahrunið), 12. apríl 2010 (er rannsókn lauk á falli ísl. bankanna, sbr. lög nr. 142/2008), 18. nóvember 2010 (er hugmynd að málshöfðun kom í opinbera umræðu), 12. september 2011 (er auglýst var eftir þátttöku í hópmálssókn) eða við síðara tímamark áður en fjögur ár voru til rofs fyrningar. Allar kröfur hafi verið fyrndar þegar málið var höfðað.

Að lokum heldur stefndi því fram að vaxtakrafan sé fyrnd og breyti þá engu hvort eldri eða yngri lögin verði talin eiga við.

IV

            Hinn 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 festi stefnandi kaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Stefnandi tapaði hlutabréfum þessum í bankahruninu. Hann telur að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna tapsins. Í þessum þætti málsins er deilt um það hvort dómkrafan sé fyrnd. Stefnandi byggir á því að krafan fyrnist á 10 árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, og sé hún því ófyrnd. Stefndi hafnar því og byggir á því að lög nr. 150/2007 eigi við og að krafan fyrnist á fjórum árum og sé hún því fyrnd.

            Stefnandi byggir á því að krafa stefnda um fyrningu sé vanreifuð í greinargerð. Greinargerð stefnda ber skýrlega með sér að hann telji kröfuna fyrnda þegar málið var höfðað og einnig að fyrningarfresturinn sé fjögur ár, samanber 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá kemur skýrlega fram í greinargerðinni að stefndi byggir á 2., 3. og 9. gr. laga nr. 15/2007. Greinargerðin er hvað þetta varðar sett fram á skýran og gagnorðan hátt, samanber 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning var síðan gerð nánari grein fyrir þessari málsástæðu. Eins og gögn málsins liggja fyrir og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 548/2014 verður að telja að krafa stefnda sé studd rökum um fyrningu og er því hafnað að um vanreifun sé að ræða.

Í fyrstu þarf að taka afstöðu til þess hvort skaðabótakrafa stefnanda sé krafa utan eða innan samninga. Kaup stefnanda á hlutabréfum í bankanum eru byggð á samningi. Hins vegar verða hlutabréfin verðlaus við hrun bankakerfisins í október 2007. Bankahrunið var algjörlega óháð því samningssambandi sem var til staðar við hlutabréfakaupin. Tjónið verður vegna atburða/hamfara er gengu yfir þjóðina alveg óháð samningssambandi aðila. Dómurinn lítur því svo á að um sé að ræða skaðabótakröfu utan samninga.

Í eldri skaðabótalögum nr. 14/1905 var ekki að finna sérákvæði um skaðabótakröfur og fyrndust því slíkar kröfur á 10 árum, samanber 2. tl. 4. gr. þeirra laga. Þá var upphaf fyrningarfrests miðað við 1. mgr. 5. gr. laganna, það er frá þeim degi er krafan varð gjaldkræf. Þó hefur í dómum Hæstaréttar verið talið að miða eigi við síðara tímamark, ef tjón kemur fram síðar eða ekki er hægt að staðreyna tjónið, samanber hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 197/2000 og 578/2014. Eins og atvikum málsins er háttað telur dómurinn að ekki eigi að miða upphaf fyrningarfests við kaupdag hlutabréfanna heldur þegar tjónið kom fram.

Í lögum nr. 150/2007, sem gildi tóku 1. janúar 2008, er nýmæli um fyrningu skaðabótakrafna. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk „nauðsynlegar upplýsingar um tjónið“ og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Ákvæðið tekur m.a. til skaðabóta utan samninga. Samkvæmt þessu ákvæði miðast stofnun kröfunnar ekki við kaupin á hlutabréfunum, svo sem stefnandi heldur fram, heldur er miðað við tjónið, það er krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið.

Í athugasemd með frumvarpi sem varð að lögum nr. 150/2009 segir um 9. gr. að upphaf fyrningar skuli telja frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur var fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Er því hér um huglægt atriði að ræða. Þá segir að almennt hafi þó verið litið svo á að fyrningarfresturinn byrji að líða þegar tjónþoli fékk eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreinda tvo þætti, þ.e. tjónið sjálft og þann sem ábyrgðina bar. Í athugasemdunum segir svo: „Þá fyrst hefur verið talinn grundvöllur fyrir hann til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann getur hins vegar ekki setið aðgerðalaus eða borið við vanþekkingu sinni á réttarstöðu sinni. Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæði 9. gr. fer því ekki eftir persónubundinni vitneskju einstakra tjónþola um réttarstöðu sína, heldur eftir því hvenær tjónþoli bjó yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Einstaklingsbundin vitneskja um lagareglur ræður ekki fyrningarfresti hér frekar en öðrum lagaskilyrðum.“

Telja verður að upphaf fyrningarfrestsins sé sá dagur er bankahrunið varð, þ.e. 7. október 2008. Þá hafi stefnandi vitað að hrunið myndi leiða til tjóns fyrir hann. Ætla má að það hafi ekki tekið stefnanda langa yfirlegu að gera sér grein fyrir því hver að hans mati bæri ábyrgð á ætluðu tjóni hans.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 150/2008 er fyrningu slitið með málssókn kröfuhafa á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni. Dómsmál þetta var höfðað með stefnu birtri í nóvember 2016. Er krafan því löngu fyrnd. Sömuleiðis var krafan löngu fyrnd við þingfestingu stefnu málsóknarfélagsins hinn 27. október 2015.

Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaða málsins sú að krafa stefnanda er fyrnd. Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Stefndi er sýknaður af kröfu stefnanda.

            Stefnandi, Vogun hf., greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.