Print

Mál nr. 136/2017

Ólafur Eggertsson, Kristinn B. Jónsson, Sigríður Bryndís Karlsdóttir og Þórður Baldursson (Gestur Jónsson hrl.)
gegn
Trausta V. Bjarnasyni (Ólafur Björnsson hrl.)
Lykilorð
  • Landamerki
  • Gagnsök
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun

Aðilar deildu um hluta landamerkja jarðarinnar Ár í Dalabyggð gagnvart jörðunum Skarði I og II og Geirmundarstöðum. Þar sem jörðin Skarð II var ekki talin eiga land að hinu umþrætta svæði var eigandi þeirrar jarðar sýknuð af kröfu eiganda jarðarinnar Ár í málinu. Þá var gagnsök eigenda jarðanna Skarðs I og Geirmundarstaða vísað frá héraðsdómi þar sem hún var ekki höfðuð innan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að því er varðaði landamerki milli jarðanna Ár og Skarðs I laut ágreiningurinn að því hvar staðsetja skyldi upptök og farveg Strangalækjar á austurmörkum milli jarðanna. Með vísan til lýsinga í örnefnaskrám, mælinga á bakkalengd jarða við Krossá frá árinu 1970 og þess að eigendur Skarðs I hefðu á sínum tíma ekki gert athugasemdir við samþykkt sveitarfélagsins, að beiðni eiganda jarðarinnar Ár, á skipulagi fyrir sumarhúsabyggð sem að mestu féll innan hins umþrætta svæðis, var fallist á með eiganda jarðarinnar Ár að Strangilækur félli í Krossá til móts við Krossdalsá. Þá var einnig fallist á með honum að merki milli jarðanna tveggja fylgdu farvegi Strangalækjar í samræmi við kröfulínu hans allt að upptökum lækjarins í Kvos. Að því er varðaði landamerki milli jarðanna Ár og Geirmundarstaða var talið að eigendur Geirmundarstaða væru bundnir við yfirlýsingu um landamerki jarðarinnar frá 1981 sem undirrituð var af eigendum aðliggjandi jarða, en yfirlýsingunni var þinglýst með afsali við kaup fyrri eiganda að jörðinni og lá fyrir við sölu hennar til núverandi eigenda. Var því fallist á með eiganda jarðarinnar Ár að landamerki milli jarðanna bæri að draga úr upptökum Strangalækjar í Kvos í svokallaða Þórðarvörðu og þaðan áfram í upptök Brúnarlækjar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2017. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Skarðs og Ár í Dalabyggð fylgi farvegi Strangalækjar, sem renni frá upptökum á hnitum X345694.301 og Y534028.867 að mótum hans við Krossá á hnitum X345148.452 og Y533285.275, en merki milli Geirmundarstaða og Ár fari eftir línu, sem dregin sé frá fyrrgreindum upptökum Strangalækjar að Brúnalæk á hnitum X345161.445 og Y534113.847. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 1. nóvember 2017.

Stefndi höfðaði mál þetta 30. janúar 2014 og beindi þar sem eigandi jarðarinnar Ár kröfum að áfrýjendunum Ólafi Eggertssyni og Kristni B. Jónssyni ásamt Elínborgu Eggertsdóttur um að viðurkennt yrði að merki milli jarðar sinnar og sameignarlands jarða gagnaðilanna, Skarðs I, Skarðs II og Manheima, væru með nánar tilgreindum hætti. Málið var þingfest í héraði 18. febrúar 2014. Áfrýjendurnir Ólafur og Kristinn tóku auk Elínborgar til varna með greinargerð, sem lögð var fram 1. júlí sama ár. Í henni kröfðust áfrýjendurnir þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi sökum þess að merki, sem tilgreind væru í dómkröfum stefnda, lægju að hluta að jörðinni Geirmundarstöðum, en eigendur hennar ættu ekki aðild að málinu. Til vara kröfðust áfrýjendurnir sýknu á þeim grunni að merkin, sem stefndi leitaði viðurkenningar á, væru röng, en Elínborg krafðist fyrir sitt leyti sýknu af þeirri ástæðu að land jarðarinnar Skarðs II, sem hún ætti að tilteknum hluta, næði ekki að svæðinu, sem deila stæði um. Í tilefni af aðalkröfu áfrýjendanna höfðaði stefndi annað mál á hendur áfrýjendunum Sigríði Bryndísi Karlsdóttur og Þórði Baldurssyni, eigendum jarðarinnar Geirmundarstaða, og krafðist viðurkenningar á tilteknum merkjum hennar og Ár á hluta svæðisins, sem kröfugerð hans í fyrra málinu sneri að. Það mál var þingfest 8. desember 2014 og sameinað þá þegar hinu málinu. Áfrýjendurnir Sigríður og Þórður tóku til varna með greinargerð, sem lögð var fram 3. febrúar 2015, og kröfðust þar sýknu af kröfum stefnda. Í þinghaldi síðastgreindan dag þingfestu allir áfrýjendurnir jafnframt gagnsök, sem höfðuð var 2. sama mánaðar, og kröfðust þar að viðurkennd yrðu þau merki milli jarðanna, sem tiltekin eru í framangreindum dómkröfum þeirra fyrir Hæstarétti. Í greinargerð vegna gagnsakarinnar, sem lögð var fram í þinghaldi 2. júní 2015, gerði stefndi kröfur um landamerki, sem gengu að nokkru skemur en upphaflegar kröfur hans. Merkin, sem viðurkennd voru með hinum áfrýjaða dómi, eru í samræmi við aðalkröfu stefnda í greinargerðinni, en í dóminum var Elínborg sýknuð af kröfum hans vegna aðildarskorts. Stefndi unir niðurstöðum hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt framansögðu varð mál þetta til með sameiningu tveggja mála, sem stefndi þingfesti í héraði 18. febrúar og 8. desember 2014. Áfrýjendur höfðuðu á hinn bóginn gagnsök 2. febrúar 2015. Var þá liðinn frestur til þess samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hafa áfrýjendur ekki fært haldbær rök fyrir því að þeim verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki höfðað gagnsök í tæka tíð, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að þegar þannig standi á verði gagnsök vísað frá héraðsdómi án kröfu, sbr. meðal annars dóma réttarins 24. október 1996 í máli nr. 351/1995, 27. mars 2003 í máli nr. 312/2002 og 31. maí 2012 í máli nr. 620/2011, og getur þá afstaða gagnaðila í því efni engu breytt. Vegna þessa verður að vísa gagnsök áfrýjenda frá héraðsdómi. Dómkröfur þeirra fyrir Hæstarétti eru sem áður segir þær sömu og þau gerðu í gagnsök í héraði. Með því að henni er vísað frá héraðsdómi standa eftir kröfur áfrýjenda um sýknu, sem þau gerðu í greinargerðum sínum í aðalsök í héraði, og koma þær þá til úrlausnar.

Að framangreindu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnsök áfrýjenda, Ólafs Eggertssonar, Kristins B. Jónssonar, Sigríðar Bryndísar Karlsdóttur og Þórðar Baldurssonar, er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður.

Áfrýjendur greiði óskipt stefnda, Trausta V. Bjarnasyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. desember 2016.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað af Trausta V. Bjarnasyni, til heimilis að Á í Dalabyggð, með stefnu birtri 30. janúar 2014, á hendur Ólafi Eggertssyni, Manheimum, Elínborgu Eggertsdóttur, Skarði II, og Kristni B. Jónssyni, Skarði I, öllum í Dalabyggð. Með stefnu birtri 1. desember 2014 höfðaði stefnandi jafnframt mál á hendur Þórði Baldurssyni og Sigríði Bryndísi Karlsdóttur, báðum til heimilis að Geirmundarstöðum í Dalabyggð. Var það mál sameinað máli þessu að ósk málsaðila. Öll framangreind stefndu nema stefnda Elínborg höfðuðu síðan gagnsök með stefnu birtri 2. febrúar 2014.

Kröfur aðalstefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki Ár gagnvart jörðunum Skarði og Geirmundarstöðum séu eftirfarandi:            

Aðallega:

            X-hnit (austur)     Y-hnit (norður)    Örnefni

Úr p. 1.   346475.6              532972.5              Strangilækur við Krossdalsá

í   p. 2.    346518.1              533537.3              Strangilækur við Árgil

í   p. 3.    347162.9              533684.5              Upptök Strangalækjar í Kvos, (lind)

í   p. 4.    345506.8              534327.1              Landamerkjavarða á mörkum  jarðanna

Ár, Geirmundarstaða og Skarðs

í   p. 5      345162,9              534114,4             Upptök Brúnalækjar

Til vara: Að landamerki milli Ár og Geirmundarstaða á hinu umþrætta svæði séu:

            X-hnit (austur)     Y-hnit (norður)    Örnefni

  p. 1.      346475.6                              532972.5              Strangilækur við Krossdalsá

í p. 2.      346518.1                              533537.3              Strangilækur við Árgil

í p. 3.      347162.9                              533684.5              Upptök Strangalækjar í Kvos, (lind)

í p. 5     345162.9                               534114.4              Upptök Brúnalækjar

Til þrautavara: Að landamerki milli Ár og Geirmundarstaða, á hinu umþrætta svæði, séu:

            X-hnit (austur)     Y-hnit (norður)    Örnefni

  p. 1.      346475.6                              532972.5              Strangilækur við Krossdalsá

í p. 2.      346518.1                              533537.3              Strangilækur við Árgil,

í p. 5    345162.9                                534114.4              Upptök Brúnalækjar

Þá krefst aðalstefnandi óskipt málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda samkvæmt mati dómsins.

Gagnstefnendur krefjast sýknu af kröfum aðalstefnanda í aðalsök, auk málskostnaðar. Í gagnsök gera þeir kröfu um að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki Skarðs og Ár á umþrættu svæði séu um línu sem fylgi farvegi Strangalækjar svo lengi sem hann renni og sýnd séu á dómskjali nr. 43 gegnum neðangreind hnit:

                                               X-hnit (austur)           Y-hnit (norður)             Örnefni

Úr p. 3.                                  345694.301                534028.867   Upptök Strangalækjar      

í  p. 5.                                    345350.617                533915.441   Strangilækur

í  p. 6.                                    345148.452                533285.275   Strangilækur við Krossá   

Jafnframt verði viðurkennt með dómi að rétt landamerki Geirmundarstaða og Ár á umþrættu svæði séu eftir línu sem dregin sé milli neðangreindra hnitsettra punkta, sbr. dómskjal 43:

Úr p. 3.                                  345694.301                534028.867   Upptök Strangalækjar      

í p. 4.                                     345161.445                534113.847   Brúnalækur

Jafnframt krefjast gagnstefnendur málskostnaðar.

Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda í gagnsök.

Sakarefni máls þessa í aðalsök og gagnsök eru samtvinnuð og eru röksemdir aðila fyrir kröfu sinni í flestum tilvikum jafnframt gagnrök við kröfu gagnaðila. Verður því fjallað um röksemdir þeirra nokkuð í einu lagi til að forðast tvítekningar.

Dómari, málsaðilar og lögmenn þeirra gengu á vettvang 26. september sl.

II.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur að merkjum jarðarinnar Ár á Skarðsströnd í Dalasýslu gagnvart jörðunum Skarði og Geirmundarstöðum, en bæði Á og Geirmundarstaðir voru áður hjáleigur frá Skarði. Höfðaði aðalstefnandi mál þetta upphaflega á hendur stefndu Kristni og Ólafi, sem sameigendum að Skarði 1, en Ólafi jafnframt sem eiganda Manheimatinda og Skarðs 2, ásamt stefndu Elínborgu Eggertsdóttur, en tekið er fram í stefnu að jarðir þessar eigi sameiginlega landamerki að Á. Stefndu hafa hins vegar tekið fram að umrætt land sé í eigu Skarðs og að stefnda Elínborg eigi því ekki aðild að því.

Jörðin Á var seld frá Skarði með afsali Kristins Indriðasonar, þáverandi eiganda Skarðs, til aðalstefnanda, dags. 13. apríl 1965. Segir í stefnu að við söluna hafi legið fyrir landamerkjabréf fyrir jörðina Á, sem undirritað er af Boga Magnusen 7. júlí 1918, en hann var á þessum tíma eigandi Skarðs og hjáleigna þess. Landamerkjabréf þetta, sem þinglesið var hinn 24. júní 1922, hljóðar svo: „Að utan ræður Krossá frá sjó upp til Strangalækjar; að framan ræður lækurinn að upptökum hans; þaðan eftir grjóthrygg í svokallaðan Brúnarlæk í fjöllunum utanvert við Skarðsrétt; úr þeim læk skilur sjónhending lönd Ár og Geirmundarstaða niður í tvo steina í skógnum neðan verðu Skógargatna og úr þeim steinum í dý, innanvert við Kiðhústóft og þaðan eftir Keldudragi niður í Langanesveg.“

Einnig liggur fyrir í málinu óþinglýst landamerkjabréf fyrir Geirmundarstaði, sem undirritað er af Boga Magnusen sama dag og fyrrgreint landamerkjabréf fyrir Á. Segir í bréfinu svo um merki milli Geirmundarstaða og Ár: „Að utan er Laugarnesvogur, þaðan upp eftir keldudragi, er kemur úr dýi innanvert við Kiðhústópt, úr því í tvo steina upp í skógnum neðanvert við Skógargötur og úr þeim í Brúnarlæk í fjallinu (utanvert við Skarðsrétt), þaðan eftir grjóthrygg, er liggur fram hálsinn fram að Strangalækjarupptökum úr Árgili, úr honum liggja merkin á snið heim hryggina til svokallaðrar Þórðarvörðu, úr henni í Votaberg undir Manheimatindum, þaðan í Melhorn við Skarðsá, er þjóðvegurinn liggur yfir.“ Í málinu liggur og fyrir yfirlýsing með yfirskriftina: „Landamerki Geirmundarstaða í Skarðshreppi, Dal“, útgefin af þáverandi þinglýstum eigendum jarðanna Geirmundarstaða, Skarðs 1 og 2, Ár og Frakkaness hinn 14. ágúst 1981. Segir þar svo um landamerki milli Geirmundarstaða og Ár: „Úr vörðu uppaf réttarbrún í Brúnalæk og þaðan sjónhending í skurð neðan við Skógargötur og fylgir þeim skurði í Langanesvog, síðan lækur meðfram Langanesi í Langanesrif.“ Var yfirlýsing þessi móttekin til þinglýsingar 14. september 1981 og innfærð 26. október sama ár.

Einnig liggur fyrir eldri lýsing á landamerkjum milli Geirmundarstaða og Ár, undirrituð af I. Magnusen, líklega á árinu 1890, en hún mun á þeim tíma hafa verið eigandi Skarðs og hjáleigna þeirrar jarðar. Í lýsingunni segir svo: „Landamerki millum Geirmundarstaða og Á er úr Lánganesvogsbotni beina sjónhending í Hrafnagjá og þaðan yfir hrygg er liggur á millum tveggja flóa í Strangalæk, er að skilur Skarðslands og Árland.“ Verður ekki séð af gögnum að bréfi þessu hafi verið þinglýst.

Loks liggur fyrir endurrit af landamerkjabréfi fyrir jörðina Skarð, undirritað af I. Magnusen 13. maí 1890, sem þinglesið var í júní það ár og innfært í landamerkjabók sýslunnar. Enga lýsingu er þó þar að finna á landamerkjum milli Skarðs og Ár.

Einhvern tímann í aðdraganda máls þessa reis ágreiningur um það milli aðalstefnanda, sem eiganda Ár, og eigenda Skarðs um það hvar Strangilækur, á austurmörkum Ár gagnvart Skarði, félli í Krossá. Leitaði aðalstefnandi af því tilefni til sýslumannsins í Búðardal hinn 17. október 2013 með ósk um það að hann leitaði sátta í málinu á grundvelli laga um landamerki. Af því tilefni boðaði sýslumaður gagnstefnendur, eigendur Skarðs, til fundar við sig hinn 14. nóvember s.á. og mat sýslumaður það svo, sbr. bréf hans til aðalstefnanda 19. s.m., að „þrátt fyrir að þeir væru ekki andsnúnir sáttaumleitan sýslumanns þá bæri það mikið í milli eigenda jarðanna, um það hvar landamerkin eru, að úr því yrði að skera fyrir dómstólum“. Höfðaði aðalstefnandi því mál þetta, eins og áður segir, 30. janúar 2014.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af aðalstefnanda, gagnstefnendunum Ólafi Eggertssyni, Sigríði Bryndísi Karlsdóttur og Þórði Baldurssyni og vitninu Unnsteini B. Eggertssyni.

III.

Málsástæður stefnanda í aðalsök

Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á þeirri lýsingu á landamerkjum Ár sem sé að finna í þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar frá 7. júlí 1918. Þannig sé sú lýsing sem þar komi fram um mörk jarðarinnar gagnvart Skarði að hans mati alveg skýr, en þar segi: „Að utan ræður Krossá frá sjó upp til Strangalækjar; að framan ræður lækurinn að upptökum hans ...“ Þannig sé ljóst, og óumdeilt, að Strangilækur ráði merkjum milli Ár og Skarðs að framan, en ágreiningur aðila snýst hins vegar einkum um það hvar Strangalæk sé að finna á svæðinu.

Aðalstefnandi bendir á að ekki standist sú staðsetning Strangalækjar, sem krafa gagnstefnenda byggist á, að Strangilækur sé lækur sá er fyrstur falli í Krossá fyrir ofan Ártinda. Í fyrsta lagi þá renni sá lækur um svonefnt Tröllakvíagil og heiti svæðið þar, neðst niður við Krossá, Tröllakvíar, sbr. örnefnaskrá fyrir jörðina Á. Engar heimildir styðji að Strangilækur renni um Tröllakvíagil. Í öðru lagi séu örnefni þau sem séu á milli Tröllakvía og Strangalækjar öll að finna í örnefnaskrá fyrir jörðina Á. Megi þar nefna m.a. Kolviðarhóla. Í þriðja lagi sé staðsetningu Strangalækjar lýst mjög nákvæmlega í örnefnaskrá Kristins Indriðasonar fyrir jörðina Á, en þar segi svo: „Fremst í henni (Þröngugötu) er Strangilækur (65) upp af henni Kolviðarhólar. (66)“  Þá verði ekki horft framhjá vitnisburði fjölmargra staðkunnugra manna um staðsetningu Strangalækjar, m.a. yfirlýsingu sex nafngreindra manna frá 8. mars 2002.

Einnig sé að finna nákvæma lýsingu á staðsetningu Strangalækjar í örnefnaskrá fyrir jörðina Skarð, sem Ari Gíslason hafi skráð eftir Kristni Indriðasyni, þá bónda í Skarði. Segi þar á bls. 10: „Heiman til við Króka, móts við Krossdalsá, er Strangilækur (173) er þar í skóginum, oftast þurr, er þar á merkjum móti Á.“ Þessi lýsing í örnefnaskrá, að Strangilækur sé oftast þurr, komi ekki heim og saman við kröfu gagnstefnenda um að Strangilækur renni um Tröllakvíagil.

Þá styðjist staðsetning lækjarins einnig við örnefnaskrá sem sé að finna í „Örnefnaskrásetning í Dalabyggð, IX. hluti Skarð“ eftir Huldu Birnu Albertsdóttur frá árinu 2013. Í skránni komi m.a. fram að Örnefnaskráning í Dalabyggð sé samstarfsverkefni Náttúrustofu Vestfjarða, Breiðafjarðarnefndar og Dalabyggðar og hafi hafist 2010. Markmið verkefnisins sé að skrá jarðir sem liggi að sjó í Breiðafirði og séu í Dalabyggð. Í verkefninu felist að ræða við heimildarmenn og staðsetja örnefni á tiltekinni jörð á stafrænt landupplýsingarkort (GIS). Örnefnaskrár Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum séu notaðar sem grunnheimild. Alls hafi verið skráð á kort 173 örnefni af þeim 279 sem skráð hafi verið í Örnefnaskrá Stofnunar Árna Magnússonar í landi Skarðs. Kristinn Jónsson, Þórunn Hilmarsdóttir og Ólafur Eggertsson hafi farið með skýrsluhöfundi yfir þessar skrár og staðsett örnefni á loftmynd. Á blaðsíðu 51 í skránni sé staðsetningu Strangalækjar lýst á eftirfarandi hátt og vitnað til gagnstefnenda sem heimildarmanna, sbr. viðtal 16. ágúst 2013: „Heiman til við Króka, móts við Krossdalsá.“ Samkvæmt þessu ætti ekki að vera ágreiningur um legu Strangalækjar.

Á það megi hins vegar fallast með gagnstefnendum að samkvæmt merkjalýsingu Boga fyrir Geirmundarstaði frá 1918 liggi land Geirmundarstaða og Ár saman við upptök Strangalækjar en þar segi: „Þaðan (úr Brúnalæk) eftir grjóthrygg er liggur fram hálsinn fram að Strangalækjarupptökum úr Árgili, úr honum liggja merkin á snið heim hryggina til svokallaðrar Þórðarvörðu.“ Með hryggjum sé vísað til Hryggja sem séu umhverfis Dagmálastein, sem sé framar og innar í landinu, sbr. örnefnaskrár Lúðvíks Kristjánssonar og Kristins Indriðasonar. Óvíst sé hins vegar hvort farið hafi verið eftir hinni óþinglýstu merkjalýsingu Boga þegar Skarðsbændur hafi selt Geirmundarstaði, sbr. afsal Kristins Indriðasonar fyrir jörðinni til Jóns Finnssonar, dags. 1. júní 1961, en þinglýst landamerkjabréf fyrir jörðina hafi ekki verið fyrir hendi við söluna og ekki sé minnst á landamerki þar. Hins vegar verði ekki horft framhjá því að með sáttinni 1981 hafi þáverandi jarðeigendur staðsett örnefnin „Þórðarvörðu“ og „Brúnalæk“. Með sáttinni hafi Geirmundarstaðaland endanlega verið afmarkað af öllum þar til bærum aðilum. Henni hafi verið þinglýst og hún sé yngri en landamerkjabréf Ár og Skarðs. Sé á því byggt að landamerkjabréf séu í eðli sínu samningar og þar sem sáttin hafi verið undirrituð af öllum eigendum umræddra jarða á þeim tíma hljóti hún að teljast bindandi fyrir þá. Landamerkjalýsingin sé því bindandi fyrir núverandi eigendur Geirmundarstaða hvernig svo sem túlka megi gömlu lýsingu Boga á merkjum Geirmundarstaða frá 1918.

Þegar svo Jón selji Geirmundarstaði til Unnsteins Eggertssonar, með afsali, dags 14. júlí 1981, sé heldur ekki minnst á landamerki í afsalinu sjálfu. Hins vegar hafi Jón gert umrædda merkjalýsingu fyrir Geirmundarstaði hinn 14. ágúst 1981, sem undirrituð hafi verið af eigendum allra aðliggjandi jarða. Hafi hún augljóslega verið gerð í tilefni af kaupum Unnsteins á Geirmundarstöðum því að lýsingunni hafi verið þinglýst sama dag og afsalið, eða 26. október 1981. Skjölin hafi og verið móttekin samhliða til þinglýsingar hinn 14. september 1981 og fengið samliggjandi númerin 195/81 og 196/81, svo sem sjá megi af skjölunum. Það sé því ljóst að kaupandinn, Unnsteinn, sem þinglýst hafi afsali sínu fyrir jörðinni, hafi farið með landamerkjalýsinguna sjálfur í þinglýsingu. Unnsteinn hafi því keypt Geirmundarstaði með þessari merkjalýsingu. Gagnstefnendur Þórður og Sigríður kaupi svo Geirmundarstaði af Unnsteini 13. febrúar 1985 og liggi umrædd merkjalýsing þá fyrir. Það sé því alveg ljóst hver merki Geirmundarstaða séu þegar gagnstefnendur kaupi jörðina. Þessi merki setji gagnstefnendur svo sjálfir inn á kort Nytjalands 2002. Á því sé byggt að við ofangreinda  löggerninga séu gagnstefnendur bundnir.

Aðalstefnandi mótmælir þeirri málsástæðu gagnstefnenda að samkvæmt elstu heimildum eigi Skarð „Villingadal allan, upp frá Merkigiljum fyrir norðan en ofan að Gásagiljum fyrir sunnan“, svo sem rakið sé m.a. í máldaga kirkjunnar á Skarði frá 1274. Ljóst sé að örnefnin „Merkigil“ og „Gásagil“ séu ekki þekkt nú á tímum og komi ekki fyrir í örnefnaskrám. Því sé með öllu óljóst hvernig þessi séreign kirkjunnar hafi verið afmörkuð í máldaganum. Það hafi þó enga þýðingu í máli þessu þar sem þinglýst eignarheimild gagnstefnda á landinu hvíli á þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar Ár frá árinu 1918. Gildi landamerkjabréfsins verði ekki vefengt þar sem Bogi Magnusen, sem undirriti bréfið, hafi verið til þess bær, enda eini eigandi jarðanna Skarðs og Ár og Geirmundarstaða þegar bréfið hafi verið gert og því þinglýst.

Elsta eignarheimildin sem fundist hafi um jörðina Á sé hins vegar í máldaga frá 1401, eða síðar, en þar segi að „kirkja að Skarði á hálft heimaland með Geirmundarstöðum og allt land að Á“. Í máldaganum sé Villingadals ekki getið sem kirkjueignar og aldrei síðan. Af þessu megi ráða að einhvern tíma á árabilinu 1274 til 1400 verði sú breyting á eignaskráningu á staðnum að í stað Villingadals eignist Skarðskirkja jörðina Á. Af þessu megi álykta að kirkjueigninni Á hafi þá þegar verið sett landamerki, þótt merkin hafi ekki verið bréfuð fyrr en árið 1918.

Aðalstefnandi vísi og til þess að Á hafi verið kirkjujörð samkvæmt elstu heimildum,  sem þýði að tekjur af henni hafi runnið til kirkjunnar til að standa undir kostnaði við hana. Þá sé ljóst að kirkjujörð þessari hafi fylgt skóglendi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segi:  „... skógur ánægjanlegur fyrir heimajörðina til kola og eldiviðar“. Þá sé skógarins einnig getið í byggingarbréfi fyrir jörðina Á frá árinu 1927, 7. gr., en þar sé sú skylda lögð á ábúandann að hann „skal vandlega hirða um skóginn sem á jörðinni er, og verja hann kostgæfilega fyrir öðrum“. Og einnig segi: „Eigi má hann taka skóg öðruvísi er lög mæla fyrir.“  Því sýni gögn málsins að kirkjujörðinni Á hafi fylgt ánægjanlegur eða nægur skógur til nytja. Það sé því í fullu samræmi við skógarnytjar í landi jarðarinnar til margra alda að í landamerkjabréfi fyrir jörðina Á, sem gert sé árið 1918,  séu merki jarðanna um Strangalæk, en með því er skóglendið í Fremribrekkum og Kolviðarhólum í landi Ár, líkt og allar eldri heimildir staðfesti.

Sú staðsetning Strangalækjar sem aðalstefnandi telji rétta sé einnig í fullu samræmi við núverandi nýtingu landsins, en aðalstefnandi hafi ráðstafað sumarhúsalóðum úr jörðinni á þessu svæði. Séu leigusamningarnir sem hann hafi gert þarna í samræmi við skipulag jarðarinnar, sem lagt hafi verið fyrir sveitarstjórn á sínum tíma, en þá hafi Þórunn Hilmarsdóttir, eiginkona eins gagnstefnanda, verið oddviti sveitarstjórnar. Hafi ráðstöfun aðalstefnanda á hluta þrætulandsins með þessum hætti aldrei sætt neinum andmælum af hálfu gagnstefnenda, sem þeim hafi þó verið fullkunnugt um. Megi því ljóst vera að sá ágreiningur sem nú sé uppi um merki á svæðinu sé seinni tíma tilbúningur af hálfu gagnstefnenda og í fullkomnu ósamræmi við eldri viðurkenningar þeirra á eignarhaldi aðalstefnanda á landinu.

Örnefnið Þröngagata komi fyrir í örnefnaskrám jarðanna og sé gamall reiðvegur inn með Krossá, inn á Villingadal, en á dalnum séu heimildir um tvö fornbýli. Þau hafi bæði verið í Skarðslandi, fyrir framan Strangalæk. Í örnefnaskránni fyrir Á, sem rituð sé eftir Kristni Indriðasyni á Skarði, segi að gatan hafi fyrrum verið aðalreiðleiðin yfir dalinn. Segi þar einnig m.a: „Fram af þeim (Árgilseyrum) er Þröngagata. Fremst í henni er Strangilækur, upp af henni Kolviðarhólar.“ Augljóst sé miðað við framangreinda lýsingu að Strangilækur sé fremst í Þröngugötu og þá fái það engan veginn staðist að Strangilækur renni um Tröllakvíagil, en þar í grenndinni byrji Þröngagata.

Við gerð stefnu í málinu hafi ekki legið fyrir landamerkjalýsing Boga Magnusen fyrir Geirmundarstaði frá 7. júlí, enda muni henni ekki hafa verið þinglýst. Um sé að ræða einhliða lýsingu þáverandi eiganda Skarðs, ásamt hjáleigum, á merkjum Skarðsjarða. Sú staðreynd að lýsingunni sé ekki þinglýst veiki sönnunargildi hennar og þess séu dæmi að dómstólar hafi ómerkt slík skjöl. Eigendur Skarðs hafi því ekki talið sig bundna af hinni óþinglýstu merkjalýsingu Boga þegar landamerkjabréf Geirmundarstaða hafi verið gert árið 1981, mörgum árum eftir að jörðin hafi verið seld undan Skarði.

Mótmælt sé þeim staðhæfingum gagnstefnenda að mats- og virðingargerðir liðinna ára á jörðunum Á og Geirmundarstöðum sýni fram á að kröfulína aðalstefnanda, sem leiði til þess að land Ár yrði um 46% stærra en land Geirmundarstaða, gangi ekki upp. Sé í því sambandi á það bent að landverð hafi áður fyrr að mestu tekið mið af því hversu mikinn búfénað jörðin, með túnum, hafi getað fóðrað. Fjallendi hafi hins vegar ætíð verið lágt metið og landstærð því skipt minna máli. Jafnframt sé ljóst að slægjuland Geirmundarstaða hafi jafnan verið talið betra en Ár. Við skoðun á matsgerð jarðanna frá 1905 sjáist að túnið á Á fóðri þrjá nautgripi, útheysslægjur séu litlar og reytingssamar. Beitiland sé hins vegar frábærlega gott sumar og vetur „af því jörðinni fylgir ágætt fjalllendi“. Eins og jörðin Á sé hins vegar afmörkuð af hálfu gagnstefnenda þá fylgi henni ekkert fjalllendi. Um Geirmundarstaði segi hins vegar í þessu mati að túnið fóðri þrjár kýr, útheysslægjur séu miklar, góðar og hægar, og beitiland ágætt, sérstaklega fyrir sauðfé. Þarna sjáist að slægjulöndin séu betri hjá Geirmundarstöðum og því framfleyti jörðin fleiri gripum. Í fasteignamatinu frá 1918 sé sagt um Á að beitiland sé allgott, nokkuð víðlent, snjólétt, stutt á það o.s.frv. Um Geirmundarstaði segi að beitiland sé allgott, þrönglent og skjóllítið. Samkvæmt kröfulínukorti gagnstefnenda sé jörðin Á sögð 225 ha en Geirmundarstaðir 260 ha.  Það fái ekki staðist miðað við ofangreindar umsagnir.

Við skoðun á fasteignamati á þessu svæði frá 1938 til samanburðar þá sjáist að jörðin Kross sé metin að landverði 3.700 krónur, en sé nú talin 2.810 ha að stærð, en Geirmundarstaðir séu þar metnir á 3.100 krónur, en séu nú taldir um 260 ha að stærð. Þarna sjáist að landstærð ráði engum úrslitum um hvernig jarðir hafi verið metnar til fasteignamats. Þar komi mörg önnur sjónarmið til álita, s.s. landgæði, hlunnindi o.fl.  Samkvæmt þessu sé ljóst að samanburður á stærð og verðmæti jarðanna Ár og Geirmundarstaða skipti engu máli þegar staðsetning Strangalækjar sé ákveðin.

Hins vegar skipti verulegu máli mæling á bakkalengd Krossár fyrir landi Ár, hvað sem mótmælum gagnstefnenda líði, enda hafi þeir samþykkt skiptingu bakkalengdar milli jarðanna með undirritun sinni á mælingarblað.

Gagnstefnendur hafi mótmælt því að sumar örnefnaskrár fyrir jarðirnar, sem séu gögn sem aðalstefnandi hafi fengið hjá Örnefnastofnun, stafi frá Kristni Indriðasyni. Þeir viðurkenni hins vegar skrá Lúðvíks Kristjánssonar, handskrifaða skrá um Skarð, þar sem Kristinn sé sagður heimildarmaður, þá bóndi að Skarði. Þetta sé mjög undarleg afstaða, enda Örnefnastofnun þekkt fyrir vönduð og óvilhöll vinnubrögð. Raunar beri þessum örnefnaskrám ágætlega saman. Þá verði einnig á það að líta að í fyrirliggjandi örnefnaskrám sé örnefnum jarðanna, Ár að vestan og Skarðs að austan, lýst að Strangalæk. Það eitt og sér gefi til kynna að staðsetning Strangalækjar hafi verið óumdeild.

Að lokum tekur aðalstefnandi fram að aðalkrafa hans miði við það að upptök Strangalækjar séu í svokallaðri Kvos. Í Kvosinni sé lækurinn orðinn nokkuð sýnilegur, og falli þar niður að Árgilsupptökum (p.2), stundum þó þannig að gróið sé yfir lækinn á nokkrum stöðum. Þá sé eðlilegast að fara úr Kvosinni heim hryggina um Þórðarvörðu (p.4) að Brúnalæk ( p.5). Það sé einnig í samræmi við sáttina frá 1981. Í varakröfunni sé kröfulínan hins vegar dregin frá upptökum Strangalækjar í Kvos (p.3) og þaðan í Brúnalæk (p.5). Sé krafa þessi sýnd sem blá lína á kröfulínukorti. Hér sé enn byggt á þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar Ár og landamerkjayfirlýsingu fyrir jörðina Geirmundarstaði frá 1981. Þá sé byggt á örnefnaskrám fyrir jarðirnar Á, Geirmundarstaði og Skarð, auk fleiri heimilda og vitnisburða.Verði ekki fallist á að upptök Strangalækjar séu í svokallaðri Kvos miðist þrautavarakrafan við það að ofangreind landamerki nái frá ósi Strangalækjar við Krossá (p.1) upp í upptök Strangalækjar við Árgil (p.2) og þaðan í Brúnalæk (p.5). Sé þá við það miðað að upptök Strangalækjar séu við Árgil, ef slíkt verði ráðið af Geirmundarstaðalýsingu Boga Magnusen frá 1918. Sé krafa þessi sýnd sem rauð lína á kröfulínukorti og sé hún byggð á sömu sjónarmiðum og varakrafa. Jafnframt sé vísað til uppdráttar, dags. 18. maí 2015, er sýni kröfulínur aðila. Á uppdrættinum komi fram hnitsetningar á kröfulínupunktum sem raktir séu í dómkröfum.

IV.

A.       Málsástæður stefndu, eigenda Skarðs, í aðalsök

Stefndu vísa til þess að árið 1918 hafi Bogi Magnusen, þá eigandi Skarðs og hjáleigna, gert landamerkjalýsingu fyrir hjáleigurnar, þar með talið Á og Geirmundarstaði. Hafi afmörkun hjáleignanna með skýrum landamerkjum ekki falið það í sér að þær væru skildar frá Skarði með öðrum hætti en verið hefði. Þær hafi áfram verið eign Boga bónda á Skarði. Af þeim sökum hafi nægt að Bogi einn staðfesti merkin með undirritun sinni 7. júlí 1918.

Landamerkjum Ár hafi Bogi lýst svo: „Að utan ræður Krossá frá sjó upp til Strangalækjar; að framan ræður lækurinn að upptökum hans, þaðan eftir grjóthrygg í svokallaðan Brúnarlæk í fjallinu utanvert við Skarðsrétt; úr þeim læk skilur lönd Ár og Geirmundarstaða sjónhending niður í tvo steina ...“

Landamerkjum Geirmundarstaða hafi Bogi lýst svo: „... úr því í tvo steina upp í skógnum neðanvert við Skógargötur og úr þeim í Brúnarlæk í fjallinu (utanvert við Skarðsrétt), þaðan eftir grjóthrygg, er liggur fram hálsinn fram að Strangalækjarupptökum úr Árgili, úr honum liggja merkin á snið heim hryggina til svokallaðrar Þórðarvörðu, úr henni í Votaberg undir Manheimatindum ...“

Af þessum landamerkjalýsingum hjáleignanna Ár og Geirmundarstaða sé ljóst að merki jarðanna séu sameiginleg frá upptökum Strangalækjar og þaðan eftir grjóthrygg í Brúnarlæk og úr læknum sjónhending í tvo steina o.s.frv. Sé á því byggt að engin breyting hafi orðið á landamerkjunum milli Ár, Geirmundarstaða og Skarðs að þessu leyti frá 1918.

Samkvæmt kröfugerð stefnanda sé Strangilækur fluttur fram dalinn um sem næst hálfan annan kílómetra frá þeim stað sem stefndu telji réttan. Stefndu telji að þessi kröfugerð um tilflutning Strangalækjar, og viðmið stefnanda um upptök Strangalækjar í því sambandi, gangi ekki upp gagnvart framangreindum skráðum heimildum um landamerkin.

Stefndu mótmæli efni fyrirliggjandi yfirlýsingar frá 8. og 9. mars 2002 og telji efni hennar rangt. Sé og vakin athygli á því að lifandi útgefendur skjalsins séu úr nánasta frændgarði aðalstefnanda. Þannig sé Jón Bjarnason bróðir stefnanda, Jón Finnsson og aðalstefnandi séu bræðrasynir og Finnur Kr. og Haraldur Finnssynir séu bróðursynir aðalstefnanda.

Vandséð sé hver geti verið þýðing örnefnaskránna sem aðalstefnandi leggi fram í máli þessu. Skrárnar séu óundirritaðar og ódagsettar. Engar upplýsingar sé að fá frá Örnefnastofnun um það hvenær þessar skrár hafi borist stofnuninni og frá hverjum. Þá sé eftirfarandi og tekið fram í tölvupósti frá stofnuninni til stefnda Kristins hinn 30. júní 2014: „... Örnefnaskrám var frá upphafi ekki ætlað að vera plagg um eignarrétt og landamæri nema að litlu leyti. Til þess voru annars konar skrár, landamerkjabréf. Þau gögn eru varðveitt hjá sýslumönnum og á Þjóðskjalasafni efir atvikum ...“  Sé á því byggt að örnefnaskrár þessar hafi ekkert sönnunargildi um landamerki Ár og Skarðs af framangreindum ástæðum. Þær þjóni þeim tilgangi einum að halda til haga hugmynd þeirra sem þær skrái, hverjir sem það nú séu, um nöfn á einstökum kennileitum.

Ranglega sé tilgreint í örnefnaskrá Ara Gíslasonar fyrir Skarð að Strangilækur falli í Krossá á móts við Krossdalsá. Sú lýsing fái ekki stoð í framangreindum landamerkjalýsingum Skarðs, Geirmundarstaða og Ár. Lýsingin gangi hreinlega ekki upp miðað við þau landamerki sem þar sé lýst. Nærri megi geta hvort ekki kæmi fram í landamerkjalýsingunni frá 1918 að Strangilækur félli í Krossá til móts við Krossdalsá ef legu hans hefði mátt lýsa með svo einföldum hætti. 

Stefndu fallist á með aðalstefnanda að landamerkin ráðist af þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna Ár og Skarðs, sem og landamerkjabréfi Geirmundarstaða frá sama tíma, en þau taki af allan vafa um að kröfugerð aðalstefnanda sé ekki í samræmi við skráð merki. Stefndu mótmæli því hins vegar að örnefnaskrárnar hafi þýðingu í þessu samhengi og mótmæli því sem ósönnuðu að örnefnalýsing Ár sé skráð af Kristni Indriðasyni, enda beri skjalið ekki með sér neina staðfestingu þess efnis. Því sé loks mótmælt að stefnandi kunni að hafa áunnið rétt á þrætusvæðinu fyrir hefð. Í stefnu komi fram að þegar stefnandi hafi „fyrir nokkrum árum“ skipulagt sumarbústaðaland á svæðinu hafi eigendur Skarðs gert ágreining um merki jarðanna. Ágreiningurinn hafi því komið strax upp þegar stefnandi hóf að nýta landið andstætt hagsmunum stefndu. Skilyrði eignarhefðar séu því á engan hátt uppfyllt.

B.       Málsástæður stefndu, eigenda Geirmundarstaða, í aðalsök

Stefndu telji að kröfugerð aðalstefnanda um tilflutning Strangalækjar gangi ekki upp gagnvart skráðum heimildum um landamerkin. Í landamerkjabréfi Boga Magnusen sé landamerkjum Geirmundarstaða  lýst með þessum orðum: „... úr þeim í Brúnarlæk í fjallinu (utanvert við Skarðsrétt), þaðan eftir grjóthrygg, er liggur fram hálsinn fram að Strangalækjarupptökum úr Árgili, úr honum liggja merkin á snið heim hrygginn til svokallaðrar Þórðarvörðu, úr henni í Votaberg ...“ Í sama skjali er lýsing landamerkja Ár þannig: „Að utan ræður Krossá frá sjó upp til Strangalækjar; að framan ræður lækurinn að upptökum hans, þaðan eftir grjóthrygg í svokallaðan Brúnarlæk í fjallinu utanvert við Skarðsrétt ...“ Ekki sé deilt um staðsetningu Þórðarvörðu og Votabergs í framangreindri landamerkjalýsingu Boga. Þessi örnefni komi ekki fyrir í merkjalýsingu Ár. Kröfulína Ár samkvæmt stefnu sé engu að síður dregin gegnum Þórðarvörðu, sem reyndar sé nefnd landamerkjavarða, án þess að hennar sé getið í landamerkjalýsingunni sem stefnandi styðjist við. Aðilar séu sammála um hvar Brúnarlækur sé í fjallinu. Bein lína milli Brúnarlækjar og „upptaka Strangalækjar í Kvos“ eða í „Strangalæk við Árgil“ sé á milli 1,5 og 2,0 km að lengd. Enginn grjóthryggur liggi milli þessara punkta. Reyndar sé það svo að enginn grjóthryggur liggi að punktum 2 og 3, þ.e. „Strangalæk við Árgil“ eða „upptökum Strangalækjar í Kvos“. Framangreind lýsing landamerkja Ár og Geirmundarstaða geti því aldrei átt við um kröfulínur aðalstefnanda.

Þessu til viðbótar verði ekki séð að sá „Strangilækur“ sem endi í punkti 2 („Strangilækur við Árgil“) hafi nein tengsl við punkt 3, sem aðalstefnandi kalli „Upptök Strangalækjar í Kvos“. Kannist stefndu ekki við að neinn vatnsgangur hafi verið þar á milli og viti ekki til þess að neinar heimildir séu þar um. Stefndu kannist ekki heldur við að nokkru sinni hafi komið til tals að sá hluti Villingadals, sem auðkenndur sé í dómskjali nr. 31 sem „land Geirmundarstaða samkvæmt eldra landamerkjabréfi“, hafi tilheyrt Geirmundarstöðum. Reyndar segi almenn skynsemi að landamerki væru aldrei dregin með þeim hætti sem þar sé sýnt.

Stefndu mótmæli því loks að þau hafi fallist á breytt landamerki Geirmundarstaða frá því sem þeim hafi verið lýst af Boga Magnusen 7. júlí 1918. Því sé sérstaklega mótmælt að landamerkjum hafi verið breytt þegar yfirlýsingin frá 14. ágúst 1981 hafi verið undirrituð. Sé vakin athygli á því að umrætt skjal hafi verið undirritað af Jóni Finnssyni framangreindan dag, en fyrir liggi í málinu að hann hafi afsalað jörðinni til Unnsteins Eggertssonar mánuði fyrr, eða hinn 14. júlí 1981. Hann hafi því engar heimildir haft til ráðstöfunar landsréttindanna eftir þann tíma.

C.      Málsástæður gagnstefnenda, eigenda Skarðs og Geirmundarstaða

Gagnstefnendur vísa til þess að óumdeilt muni vera í málinu að land Geirmundarstaða og Ár komi saman við upptök Strangalækjar samkvæmt landamerkjalýsingu Boga Magnusen fyrir Geirmundarstaði og Á frá 7. júlí 1918. Engin leið sé að lesa þessar merkjalýsingar öðruvísi en svo að báðar jarðirnar eigi land að upptökum Strangalækjar og svo hafi merkin verið sameiginleg þaðan eftir grjóthrygg í Brúnarlæk, en staðsetning Brúnarlækjar sé óumdeild.

Engin gögn séu í málinu um að samkomulag hafi verið gert milli eigenda jarðanna Skarðs, Ár og Geirmundarstaða um breytt merki jarðanna, eftir að landamerkjalýsingar Boga hafi verið skráðar. Þinglýst yfirlýsing frá 14. ágúst 1981 beri ekki með sér að ætlun aðila hafi í það sinn verið að breyta landamerkjum þeirra jarða sem skjalið varði. Tilvísun til Strangalækjar sé ekki í skjalinu. Telja megi öruggt að slík tilvísun hefði verið ef eigendur Geirmundarstaða og Ár hefðu á þeim tíma talið sig eiga land langt fram í Villingadal, að þeim læk sem aðalstefnandi telji nú vera Strangalæk. 

Augljóst sé að mati gagnstefnenda að staðsetning Strangalækjar, sem aðalstefnandi byggi mál sitt á, sé röng. Landamerkin gangi ekki upp miðað við þá staðsetningu lækjarins. Þau verði hins vegar að öllu leyti eðlileg og í samræmi við sögulegar heimildir ef fallist er á að Strangilækur sé fyrsti lækurinn sem renni í Krossá ofan Ártinda, eins og krafa gagnstefnenda byggist á.

Gagnstefnendur vísa til nánar tilgreindra framlagðra sögulegra heimilda og telja að með þeim séu tvær grundvallarforsendur í málinu sannaðar. Annars vegar að Villingadalur liggi frá Ártindum og fram eftir þar til hann mæti Fjalldal og hins vegar að Villingadalur hafi legið undir Skarði a.m.k. frá því á þrettándu öld. Standist því engan veginn að stærstur hluti Villingadals norðan/austan Krossár sé hluti jarðarinnar Ár en tilheyri ekki Skarði, eins og dómkrafa aðalstefnanda gangi efnislega út á.

Af þessu leiði að forsenda þess að fallast megi á kröfugerð aðalstefnanda sé sú að hann sanni að hann hafi eignast þrætulandið með afsali frá eigendum Skarðs. Engu slíku sé til að dreifa í málinu og hafi slíkt heldur aldrei komið til álita.

Á uppdrætti sem gagnstefnendur hafi lagt fram megi sjá að stærð lands Geirmundarstaða (landnr. 137819) mælist 260 ha en land Ár (landnr. 137811) mælist 225 ha, miðað við merki eins og þau séu rétt að mati gagnstefnenda. Þrætulandið í Villingadal, sem gagnstefndi geri kröfu um að eignast, mælist 155 ha. Yrði fallist á kröfu aðalstefnanda stækkaði land Ár um tæp 70% frá því sem gagnstefnendur telji rétt vera. Land Ár yrði þannig næstum 50% (ca 46%) stærra en land Geirmundarstaða. Gagnstefnendur telji að mats- og virðingargerðir liðinna ára sýni ótvírætt að þetta standist ekki. Jarðirnar Á og Geirmundarstaðir hafi lengst af verið svipaðar í landsmati en Geirmundarstaðir þó verið metnir heldur verðmeiri, einkum síðustu áratugina. Svo hefði ekki verið væri Villingadalur og skóglendið sem þar sé hluti Ár. Í því tilviki væri Á miklu stærri jörð en Geirmundarstaðir og viðbótarlandið auk þess sérlega verðmætt vegna skógarins. Af gögnum sem gagnstefnandi hafi lagt fram í málinu sjáist að allt frá því í byrjun tuttugustu aldar, og jafnvel fyrr, og fram undir 1940, hafi verðmæti lands og ræktunar Ár og Geirmundarstaða ýmist verið það sama eða mjög svipað. Þá öruggu ályktun megi draga af framangreindum upplýsingum að þrætulandið í Villingadal, alls 155 ha skógi vaxnir, hafi ekki verið talið til Ár við mat á verðmæti jarðarinnar allan þann tíma sem upplýsingarnar taki til, þ.e. frá aldamótum 1900 og fram til ársins 2014. Auk þess komi skýrt fram í matsgerðunum frá 1905 og 1918 að Villingadalur allur sé Skarðsland en Á og Geirmundarstaðir hafi notið upprekstrarítaks í dalnum samkvæmt matsgjörðinni frá 1918.

Gagnstefnendur ítreka framkomin sjónarmið um að örnefnaskrám hafi aldrei verið ætlað að vera plögg til ákvörðunar um eignarrétt eða landamerki. Þau geti hins vegar eðli máls samkvæmt skipt máli við túlkun merkja, en lúti þá sömu reglum og önnur sönnunargögn í dómsmálum. Örnefnaskrárnar sem aðalstefnandi hafi lagt fram í málinu séu óundirritaðar og ekki komi fram hvenær þær séu gerðar. Einnig liggi fyrir í málinu örnefnalýsing fyrir Skarð, skrifuð af Lúðvík Kristjánssyni, sem kveði Kristin Indriðason heimildarmann sinn við skráninguna. Skjalið sé hvorki undirritað né dagsett. Hins vegar sé það handritað og gagnstefnendur byggi á því að skriftin sé Lúðvíks Kristjánssonar, sem staðreyna megi með samanburði við önnur verk hans. Á bls. 9 í lýsingunni sé skráð: „Mjög neðarlega í Villingadal (108) er Þröngvagata, og er þar aðalreiðleiðin yfir dalinn. Yfir dalinn rennur (109) Strangilækur. Ofan við skóginn heitir (110) Kvos ...“ Á grundvelli þessarar lýsingar hafi gagnstefnendur fært staðsetningu Þröngvagötu, Strangalækjar og Kvosar inn á uppdrátt. Einnig hafi verið færð inn staðsetning (112) Hryggja, (113) Króka og (132) Hrískinnarskotts. Byggi gagnstefnendur á því að staðsetning örnefnanna sé eins og þar sé sýnt.   

Gagnstefnendur bendi loks á að mæling á bakkalengd Krossár, sem gerð hafi verið af Jóhanni Péturssyni árið 1970, eftir leiðsögn aðalstefnanda auk eiganda jarðarinnar Kross, geti eðli máls samkvæmt ekki breytt merkjum jarða. Í mælingunni virðist forsendan vera sú að eystri bakki Krossár liggi að Árlandi á þrætusvæðinu, en gagnstefnendur telji það hins vegar rangt. Sú mæling hafi hins vegar ekki neina þýðingu vegna arðskrárinnar sakir þess að umsamið sé milli eigenda Skarðs og Ár að veiðirétturinn í Krossá sé sameiginlegur fyrir jarðirnar og skiptist í hlutföllunum 3/4 til Skarðs og 1/4 til Ár.

V.

Niðurstaða

Aðalstefnda Elínborg Eggertsdóttir krefst þess að hún verði sýknuð af kröfu aðalstefnanda í máli þessu þar sem hún sem eigandi að Skarði 2 eigi engra hagsmuna að gæta í því. Er tekið fram í greinargerð allra upphaflegu stefndu í málinu, sem eigenda að Skarði 1, Skarði 2 og Manheimum, að stefnda Elínborg sé ekki eigandi Skarðs og að jörðin Skarð 2 eigi ekkert land að þeim landamerkjum Ár sem aðalstefnandi geri kröfu til í máli þessu. Með hliðsjón af þessu, og þar sem þetta hefur ekki sætt andmælum af hálfu aðalstefnanda, verður á þetta fallist. Verður aðalstefnda Elínborg því sýknuð af kröfu aðalstefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í máli þessu er uppi ágreiningur um hluta landamerkja jarðarinnar Ár á Skarðsströnd, í eigu aðalstefnanda, gagnvart jörðunum Skarði og Geirmundarstöðum, sem eru í eigu gagnstefnenda. Eru sakarefni málsins í aðalsök og gagnsök samtvinnuð og eru röksemdir aðila fyrir kröfu sinni í flestum tilvikum jafnframt gagnrök við kröfu gagnaðila. Verður því fjallað um röksemdir þeirra nokkuð í einu lagi til að forðast tvítekningar, en fyrir dómnum liggur að skera úr um það hvaða landamerkjalínu í kröfugerð málsaðila beri að leggja til grundvallar niðurstöðu í málinu.

Ágreiningur aðila lýtur í fyrsta lagi að því hvar staðsetja skuli upptök og farveg Strangalækjar, sem ræður austurmörkum milli Ár og Skarðs. Eins og fyrr segir gerði Bogi Magnusen, sem þá var eini eigandi jarðarinnar Skarðs og hjáleigna hennar, landamerkjabréf fyrir hjáleigurnar, þar með talið jarðirnar Á og Geirmundarstaði, hinn 7. júlí 1918. Var landamerkjabréf Ár þinglesið 24. júní 1922 og er ekki ágreiningur uppi um gildi þess. Kemur þar fram eftirfarandi lýsing á landamerkjum jarðarinnar á þessu svæði: „Að utan ræður Krossá frá sjó upp til Strangalækjar, að framan ræður lækurinn að upptökum hans ...“. Fyrir liggur og landamerkjabréf fyrir Skarð frá 13. maí 1890, en ekkert er þar getið um landamerki þeirrar jarðar gagnvart Á. Er ekki um það deilt að leggja beri framangreinda lýsingu í landamerkjabréfi Ár til grundvallar við ákvörðun landamerkja að þessu leyti, en aðilar deila hins vegar um það hvar staðsetja skuli upptök og farveg Strangalækjar. Miðast kröfulína aðalstefnanda við að staðsetning lækjarins sé, eða a.m.k. hafi verið, á móts við þann stað við Krossá þar sem Krossdalsá kemur niður og rennur í hana, en kröfulína gagnstefnenda sýnist miða við að Strangilækur sé fyrsti lækurinn framan við svokallaða Ártinda sem fellur í Krossá.

Í málinu liggja fyrir gögn frá Örnefnastofnun þar sem fram koma lýsingar landamerkja og örnefna í landi jarðanna Ár og Skarðs. Þannig liggur í fyrsta lagi fyrir handrituð Örnefnaskrá Skarðs, sem ætla má að sé elst þessara skráa. Á forsíðu hennar kemur fram að hún hafi verið skrifuð af Lúðvík Kristjánssyni og að heimildarmaður hans sé Kristinn Indriðason, sem var eigandi og ábúandi að Skarði um langt skeið og seldi aðalstefnanda jörðina Á árið 1965. Í skránni er svæðinu í og við Villingadal sem hér um ræðir lýst svo: „Niður af Borgum er Villingadalur. Neðst í honum er allmikill skógur, og er þar Sjónarhóll og Sjónarhólsgata. Mjög neðarlega í Villingadal er Þröngvagata, og er þar aðal reiðleiðin yfir dalinn. Yfir dalinn rennur Strangilækur. Ofan við skóginn heitir Kvos. Á Suðurskarðsbrúninni er Dagmálasteinn og í kringum hann eru kallaðir Hryggir.“ Erfitt sýnist að draga einhverjar ályktanir af framangreindri lýsingu um staðsetningu Strangalækjar og hvar hann rennur í Krossá.

Í öðru lagi liggur fyrir ódagsett örnefnaskrá Ara Gíslasonar fyrir Skarð. Kemur í inngangi hennar fram að örnefnum hafi safnað Kristinn Indriðason. Þá kemur þar og fram að „ennfremur hafði Lúðvík Kristjánsson safnað hér, og var Kristinn heimildarmaður hans; verður það tekið hér af hverjum, sem fyllra reynist“. Verður ráðið að höfundur rekji á þessu svæði örnefni niður eftir Villingadalnum, eða út dalinn, þar sem Villingadalsá, sem heitir Krossá eftir að Krossdalsá rennur í hana, rennur til sjávar. Þannig segir svo í lýsingunni: „Þá koma Krókar (170), sem eru framanvert við skóginn. Upp af þeim er Sjónarhóll (171). Meðfram Sjónarhól er gata, sem heitir Sjónarhólsgata (172). Heiman til við Króka, móts við Krossadalsá, er Strangilækur (173) og er þar í skóginum, oftast þurr, er þar á merkjum móti Á. Mjög neðarlega í Villingadal er Þröngvagata (174); það er aðalreiðvegurinn yfir dalinn.“ Ljóst er að staðsetningu Strangalækjar er lýst þarna á mjög nákvæman hátt og í fullu samræmi við kröfugerð aðalstefnanda í málinu.

Þá liggur í þriðja lagi fyrir örnefnaskrá fyrir jörðina Á, sem er ódagsett og óundirrituð, en tiltekið er í yfirskrift hennar að hún hafi verið skráð af Kristni Indriðasyni. Í henni er örnefnum augljóslega lýst norðan Krossár, fram dalinn og inn með ánni. Virðist lýsingin enda við austurlandamerki Ár og Skarðs í Villingadalnum. Í lýsingu þessari segir meðal annars: „Framan við Ártinda er Tröllakvíagrund (56) þar uppaf Tröllakvíar (57) og Tröllakvíagil (58). Upp af Tröllakvíum er Sjónarhóll (59). Heiman við Sjónarhól eru Heimribrekkur (60) en framan hann Fremribrekkur (61). Framan við þær tekur við Árgil (62) og niður með því Árgilseyrar (63). Fram af þeim er Þröngagata (64). Fremst í henni er Strangilækur (65), upp af henni Kolviðarhólar (66). Upp af þeim heiti Kvos (67) og upp af brekkunum heitir Hvarf.“ Í framangreindri lýsingu fram Villingadal verður ekki annað séð en að Strangilækur liggi innan (framan) við lækina, bæði í Tröllakvíagili, sem kröfulína gagnstefnenda á þessu svæði sýnist miðast við, og í Árgili. Sé hann því innstur þeirra.

Loks liggur fyrir „Örnefnaskráning í Dalabyggð IX. hluti – Skarð“, en þar kemur fram í svokölluðum útdrætti að um hafi verið að ræða samstarfsverkefni Náttúrustofu Vestfjarða, Breiðafjarðarnefndar og Dalabyggðar, sem hafi hafist á árinu 2010. Hafi markmið verkefnisins verið að skrá jarðir sem liggi að sjó í Breiðafirði og séu í Dalabyggð og í því hafi falist að ræða við heimildarmenn og staðsetja örnefni á tiltekinni jörð á stafrænt landupplýsingarkort. Í skrá þessari er skráður Strangilækur nr. 173 og er staðsetning hans sögð þar vera heiman til við Króka, móts við Krossdalsá. Eru heimildarmenn fyrir þeirri skráningu sagðir vera gagnstefnendurnir Kristinn Jónsson og Ólafur Eggertsson, ásamt Þórunni Hilmarsdóttur.

Af hálfu gagnstefnenda hefur því verið mótmælt að sannað sé að framangreindar upplýsingar séu skráðar af Kristni Indriðasyni eða séu rétt eftir honum hafðar. Þá hefur Ólafur Eggertsson andmælt því í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi veitt framangreindar upplýsingar um Strangalæk, sem hann er sagður heimildarmaður fyrir. Þrátt fyrir þetta er það mat dómsins, burt séð frá þætti gagnstefnanda Ólafs að þessu leyti, að ekki sé unnt að telja líklegt að umrædd skjöl og heimildir stafi frá öðrum en þeim sem þar eru nefndir sem heimildarmenn og voru eigendur að og bjuggu á Skarði þegar heimildunum var safnað.

Með hliðsjón af framanröktum lýsingum í örnefnaskrám er það álit dómsins að þær styðji eindregið þá niðurstöðu, sem kröfulína aðalstefnanda byggist á, að Strangilækur renni í Krossá á móts við þann stað þar sem Krossdalsá fellur í hana. Þykir staðsetning lækjarins á þeim stað, og þar með staðsetning merkjalínu Ár gagnvart Skarði, og fá nokkurn stuðning af því að út frá henni var gengið er mæld var bakkalengd jarða á árinu 1970 vegna gerðar arðskrár fyrir Veiðifélag Krossár, en fyrir liggur að sú mæling var samþykkt af fulltrúum Skarðs, síðast á aðalfundi veiðifélagsins 9. nóvember 2010. Þá þykir það einnig styðja framangreinda niðurstöðu að ekki verður séð að eigendur Skarðs hafi gert athugasemdir við það fyrr en skömmu áður en mál þetta kom upp að hreppsnefnd sveitarfélagsins samþykkti á fundi sínum hinn 7. maí 1992 beiðni aðalstefnanda um að samþykkt yrði skipulag fyrir sumarbústaðabyggð á 20 ha spildu á svæði í Villingadal, sem eigendur Skarðs telja að sé að mestu leyti innan merkja þeirrar jarðar. Liggur fyrir að á grundvelli þess skipulags hafa í kjölfarið verið reistir þar þrír sumarbústaðir.

Í málinu liggja fyrir yfirlýsingar frá nokkrum einstaklingum, sem kveðast hafa alist upp á Skarði, búið þar eða verið þar í sveit í lengri eða skemmri tíma. Sú elsta er dagsett 23. mars 2004, en hinar sýnast gefnar í tengslum við það mál sem hér er til úrlausnar. Eru þær flestar á þann veg að beit í dalnum og annarri nýtingu landsins þar hafi verið hagað með þeim hætti að ávallt hafi verið við það miðað að Strangilækur væri á landamerkjum gagnvart Á og væri fyrsti lækur framan við Ártinda. Hafi þar verið upphafsmörk skóglendisins í dalnum, en það hafi allt verið í landi Skarðs. Þá liggja og fyrir yfirlýsingar sex einstaklinga, sem hafa sams konar tengsl við jörðina Á og/eða jarðirnar Geirmundarstaði og Skarð, dags. 8. og 9. mars 2002, um að Strangilækur falli í Krossá gegnt ósi Krossdalsár, þar sem hún falli í Krossá, og að upptök lækjarins séu í svokallaðri Kvos. Framangreindir einstaklingar gáfu ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins en af hálfu allra málsaðila er viðurkennt að yfirlýsingarnar stafi frá þeim sem undir þær skrifa. Þegar framangreindar yfirlýsingar eru vegnar saman er það mat dómsins að ekki sé unnt að líta svo á að þær styðji annað sjónarmiðið um staðsetningu lækjarins fremur en hitt.

Gagnstefnendur vísa og til þess að tilgreindar skriflegar heimildir liggi fyrir um að Villingadalur allur hafi tilheyrt Skarði a.m.k. allt frá 13. öld. Vissulega benda þessar heimildir fremur til þess að umdeilt landsvæði hafi á öldum áður heyrt undir Skarðskirkju og/eða Skarð. Hins vegar er áður fram komið að jörðin Á var áður fyrr hjáleiga frá Skarði, allt þar til Kristinn Indriðason seldi aðalstefnanda jörðina með afsali hinn 13. apríl 1965, og að mörk hennar gagnvart Skarði voru fyrst ákvörðuð formlega, að því er best er vitað, með landamerkjabréfi Ingibjargar Magnusen, sem talið er að sé frá árinu 1890, og síðan á ný með landamerkjabréfi Boga Magnusen

frá 7. júlí 1918. Í báðum þessu bréfum er því lýst að merki jarðarinnar fram dalinn séu í Strangalæk. Verður því að telja að úrlausn þessa ágreinings ráðist fyrst og fremst af túlkun landamerkjabréfsins með tilliti til staðsetningar Strangalækjar fremur en almennum umsögnum um eignarhald Villingadals á liðnum tíma, enda telst hið umdeilda svæði einungis hluti Villingadals og óumdeilt að hinn hlutinn sé í eigu Skarðs.

Loks verður ekki á það fallist með gagnstefnendum, með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja, að draga megi þá ályktun af samanburði á stærð og fasteignamati jarðanna Ár og Geirmundarstaða, allt frá byrjun tuttugustu aldarinnar, að umrætt þrætusvæði í Villingadal geti ekki hafa talist hluti af fyrrgreindu jörðinni. Ekkert mat liggur fyrir um verðmæti umrædds svæðis sérstaklega og verða engar ályktanir dregnar af fyrirliggjandi gögnum um vægi þess í slíku mati.

Að öllu framangreindu virtu verður á það fallist með aðalstefnanda að Strangilækur falli í Krossá á þeim stað sem kröfugerð hans byggist á, eða á móts við Krossdalsá, sbr. punkt 1 á loftmynd á dskj. nr. 71.

Í framangreindri yfirlýsingu sex nafngreindra einstaklinga frá 8. og 9. mars 2002 um legu Strangalækjar kemur fram að upptök hans séu í svokallaðri Kvos. Segir þar og: „Fyrr á árum var Strangilækur miklu vatnsmeiri en nú er. Uppi í Kvosinni hefur farvegurinn breytt sér, þannig að vatnið fellur niður hálsinn og ofan í Árgil, stundum nefnt Stóra-Gil.“ Eftir skoðun á vettvangi telur dómurinn að framangreind lýsing geti vel átt við rök að styðjast. Samkvæmt því verður á það fallist með aðalstefnanda að merki jarðanna Ár og Skarðs á þessu svæði fylgi farvegi Strangalækjar í samræmi við kröfulínu aðalstefnanda frá punkti 1 og í gegnum punkt 2 við Árgil og áfram allt að upptökum lækjarins í Kvos, sem sýndur er sem punktur 3 á kröfulínukorti aðalstefnanda á dskj. nr. 71.

Samkvæmt fyrrgreindu landamerkjabréfi Boga Magnusen fyrir jörðina Á frá 7. júlí 1918 liggja landamerki Ár úr upptökum Strangalækjar og „þaðan eftir grjóthrygg í svokallaðan Brúnarlæk í fjöllunum utanvert við Skarðsrétt“. Fyrir liggur og landamerkjabréf fyrir Geirmundarstaði, sem undirritað er af fyrrnefndum Boga þennan sama dag. Kemur þar fram að merki þeirrar jarðar séu „... úr Brúnarlæk í fjallinu (utanvert við Skarðsrjett), þaðan eftir grjóthrygg, er liggur fram hálsinn fram að Strangalækjarupptökum úr Árgili, úr honum liggja merkin á snið heim hryggina til svokallaðrar Þórðarvörðu og úr henni í Votaberg undir Manheimatindum ...“ Bréfi þessu var hins vegar aldrei þinglýst og telst sönnunargildi þess þar af leiðandi minna en hins þinglýsta landamerkjabréfs fyrir jörðina Á.

Aðilar deila ekki um það hvar Brúnarlæk er að finna eða við hvaða viðmiðunarpunkt skuli þar miðað, en sá punktur er merktur nr. 5 á framangreindu korti á dskj. nr. 71. Aðalstefnandi byggir aðalkröfu sína, um að draga beri kröfulínuna úr punkti 3 í Kvos og í punkt 4, svokallaða Þórðarvörðu, á því að eigendur jarðanna Skarðs 1 og 2, Geirmundarstaða og Ár hafi með fyrirliggjandi yfirlýsingu sinni, dags. 14. ágúst 1981, sem ber yfirskriftina „Landamerki Geirmundarstaða í Skarðshreppi, Dal“, ákveðið, með bindandi hætti fyrir alla aðila, þau merki sem þar séu tilgreind. Það sem hér skipti máli sé sú tilgreining á merkjum milli Geirmundarstaða og Ár þar sem segir: „Úr vörðu uppaf réttarbrún í Brúnalæk og þaðan sjónhending í skurð neðan við Skógargötur og fylgir þeim skurði í Langanesvog, ...“. Þar sem óumdeilt sé að umrædd varða sé svokölluð Þórðarvarða, í punkti 4, beri að draga merkjalínuna þangað úr punkti 3 og síðan áfram í punkt 5 við Brúnarlæk. Gagnstefnendur hafa mótmælt gildi framangreindrar yfirlýsingar, meðal annars með tilliti til þess að fyrri eigandi Geirmundarstaða, Jón Finnsson, hafi ritað undir hana eftir að hann hafi verið búinn að selja jörðina til Unnsteins Eggertssonar með útgáfu afsals hinn 14. júlí 1981. Kvað aðalstefnandi í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að ástæða þessa hafi verið sú að sýslumaður hefði neitað að þinglýsa umræddu afsali nema að landamerki jarðarinnar væru skýrð betur en fyrir lægi. Hafi í kjölfar þessa verið ákveðið að eigendur jarðanna færu á vettvang til að skýra málið frekar og hefðu þeir svo gert með sér umrætt samkomulag um landamerkin, sem síðan hafi verið þinglýst ásamt afsalinu fyrir jörðinni. Hefur nefndur Unnsteinn borið fyrir dómi að hann hafi talið sig bundinn af þessari yfirlýsingu sem eigandi Geirmundarstaða. Þá kom fram í aðilaskýrslum gagnstefnendanna Sigríðar Bryndísar Karlsdóttur og eiginmanns hennar, Þórðar Baldurssonar, sem keyptu Geirmundarstaði af nefndum Unnsteini hinn 13. febrúar 1985, að umræddur samningur hefði legið frammi við þá sölu. Taldi Sigríður Bryndís að Geirmundarstaðir ættu þarna land frá Þórðarvörðu að Brúnalæk, áfram í upptök Strangalækjar, sem væri fyrsti lækurinn fyrir framan svokallaða Ártinda, „og svo niður Votabergið“. Skjalið væri þó ekki fullkomlega rétt þar sem ekkert væri minnst þar á Strangalæk. Bar Þórður einnig á svipaðan veg. Merki Geirmundarstaða gagnvart Á væru rétt dregin milli Þórðarvörðu, punktur 4, í Brúnalæk, punktur 5, sbr. kort á dskj. nr. 71, en hins vegar væri þar ekkert minnst á upptök Strangalækjar, eins og gert væri í landamerkjalýsingu Geirmundarstaða frá árinu 1918. 

Að virtu framangreindu er ljóst að sú skipan mála um merki milli jarðanna Ár og Geirmundarstaða sem mælt er fyrir um í framangreindu samkomulagi hefur staðið óbreytt frá gerð þess og án þess að gögn málsins beri með sér að eigendur Geirmundarstaða hafi hreyft andmælum gegn gildi þess fyrr en í tengslum við höfðun máls þessa. Þegar til þess er litið að landamerkjabréf eru í eðli sínu samningar séu þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða, og jafnframt hafður í huga framburður eigendanna fyrir dómi, verður fallist á það með aðalstefnanda að núverandi eigendur geti ekki nú haft uppi andmæli gegn gildi samkomulagsins vegna þess hvernig háttað var undirritunum á það. Teljast þeir því við það bundnir.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir þykir verða að fallast á það með aðalstefnanda að draga beri landamerkjalínu Ár áfram frá upptökum Strangalækjar í Kvos, sem merkt er sem punktur 3 á kröfukorti aðalstefnanda, í landamerkjavörðu, svokallaða Þórðarvörðu, sem merkt er sem punktur 4 á sama korti, og þaðan áfram í upptök Brúnarlækjar, sem merkt er sem punktur 5.

Samkvæmt öllu framansögðu er aðalkrafa aðalstefnanda í málinu því tekin að fullu til greina.

Að fenginni þessari niðurstöðu verða gagnstefnendur dæmdir til að greiða aðalstefnanda 2.600.000 krónur í málskostnað.

Aðalstefnandi greiði aðalstefndu Elínborgu Eggertsdóttur 100.000 krónur í málskostnað.

Uppkvaðning dóms hefur dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en dómari og lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi.

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Dómsorð:

Aðalstefnda Elínborg Eggertsdóttir er sýkn af kröfum aðalstefnanda, Trausta V. Bjarnasonar, í aðalsök.

Viðurkennt er að rétt landamerki Ár gagnvart jörðunum Skarði og Geirmundarstöðum á umþrættu svæði liggi frá hnitapunkti 1 við Krossá, samkvæmt kröfugerð aðalstefnanda á loftmynd  á dskj. nr. 71, og þaðan eftir línu í gegnum hnitapunkt 2 við Árgil og áfram í hnitapunkt 3 í Kvos, þaðan áfram í landamerkjavörðu, svokallaða Þórðarvörðu, sem merkt er sem hnitapunktur 4 á sama korti, og þaðan áfram í upptök Brúnarlækjar, sem merkt er sem hnitapunktur 5.

Gagnstefnendur Kristinn B. Jónsson,  Ólafur Eggertsson, Sigríður Bryndís Karlsdóttir og Þórður Baldursson greiði aðalstefnanda óskipt 2.600.000 krónur í málskostnað.

Aðalstefnandi greiði aðalstefndu Elínborgu Eggertsdóttur 100.000 krónur í málskostnað.