Print

Mál nr. 369/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ávörðun L um að X yrði gert að halda sig á tilgreindum dvalarstað. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2017, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila frá 5. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að halda sig á tilgreindum dvalarstað frá þeim degi til 3. júlí sama ár. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til l. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili reisir aðalkröfu sína á því að hvorki l. liður 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 né aðrir stafliðir málsgreinarinnar hafi að geyma kæruheimild í máli þessu, enda sé ekki um að ræða mál samkvæmt XIV. kafla laganna.

Í upphafsorðum l. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um hvaða úrskurðir héraðsdómara sæti kæru eftir nánari fyrirmælum í ákvæðinu. Samkvæmt l. lið 1. mgr. greinarinnar sætir kæru úrskurður héraðsdómara um gæsluvarðhald og aðrar ráðstafanir eftir XIV. kafla laganna, þar á meðal um tilhögun gæsluvarðhalds. Þar sem krafa sóknaraðila verður ekki reist á fyrrnefndum kafla laga nr. 88/2008 verður um kæruheimild ekki vísað til l. liðar 1. mgr. 192. þeirra. Þá er slíka heimild hvorki að finna í öðrum stafliðum málsgreinarinnar né öðrum lögum. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 greiðst þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Þóknun talsmanns varnaraðila, X, fyrir Hæstarétti, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2017.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum málflutningi í dag, 10. júní 2017, barst Héraðsdómi Reykjavíkur 7. júní sl. með kröfu Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., talsmanns sóknaraðila, um úrskurð dómara á grundvelli 3. mgr. 114. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og XV. kafla laga nr. 88/2008. Sóknaraðili er X, kt. [...], með dvalarstað að [...] í Reykjavík. Varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113 í Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun varnaraðila frá 5. júní 2017, þar sem sóknaraðila var gert að halda sig á [...] í Reykjavík og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsnæðið alla daga frá þeim degi til 3. júlí nk., verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að málskostnaður að mati dómsins verði greiddur úr ríkissjóði. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Sóknaraðili var handtekinn við komu sína hingað til lands þann [...], þar sem hann var talinn hafa framvísað fölsuðu vegabréfi. Í kjölfarið sótti sóknaraðili um hæli hér á landi og er umsókn hans til meðferðar í Útlendingastofnun. Sóknaraðili kveðst vera 17 ára gamall, hann hafi komið hingað til lands án forráðamanna og sé hann því fylgdarlaust barn í skilningi laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 9. maí sl. tók varnaraðili ákvörðun, með vísun til heimildar í a- og b- lið 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga, um að sóknaraðili skyldi halda sig innandyra á dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík frá þeim degi til 6. júní 2017. Varnaraðili taldi sóknaraðila hafa brotið gegn ákvörðuninni með því að fara tvisvar sinnum út úr húsnæðinu og handtók sóknaraðila 16. maí sl. Sama dag krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 115. gr. laga um útlendinga til 30. maí sl. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfunni sama dag og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð 19. maí sl. með dómi í máli réttarins nr. 307/2017.

Með ákvörðun varnaraðila 22. maí sl. var ákvörðun hans frá 9. maí sl. breytt með þeim hætti að sóknaraðila var gert að halda sig á [...] og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsnæðið. Sóknaraðili bar þá ákvörðun undir dómara með erindi sínu þann 24. maí sl., en ekki náðist að leiða það mál til lykta áður en sú ákvörðun féll úr gildi þann 6. júní sl. Með nýrri ákvörðun varnaraðila 5. júní sl. var þessi ráðstöfun framlengd til 3. júlí nk. Ákvörðunin var birt sama dag og tók þegar gildi. Í máli þessu er til úrlausnar krafa sóknaraðila um að þessi ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili telur að ekki séu uppfyllt þau lagaskilyrði sem tilgreind eru í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laganna sé lögreglu veitt heimild til að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningaskyldu eða dveljast á ákveðnum stað, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, sem tilgreind séu í stafliðum a til f í ákvæðinu. Heimild lögreglu til að skylda útlending samkvæmt ákvæðinu til að dveljast á ákveðnum stað geti ekki falið í sér rýmri heimildir en þær að ákveða honum tiltekinn dvalarstað.

Samkvæmt almennri málvenju merki orðið dvalarstaður aðsetur, eða staður þar sem einhver hafi fasta búsetu. Í ákvörðun varnaraðila sé sóknaraðila aftur á móti gert að „halda sig á [...] í Reykjavík og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsnæðið alla daga“. Sóknaraðili byggi á því að ákvörðun varnaraðila gangi lengra en lagaákvæðið heimili. Í því sé ekki mælt fyrir um heimild varnaraðila til að skylda sóknaraðila til að halda sig alla daga í húsnæðinu eða í tilteknum radíus umhverfis það, heldur einungis að dveljast þar.

Heimildir yfirvalda til þess að skerða athafnafrelsi borgara þurfi að byggja á skýrri lagaheimild. Heimildir til að gera mönnum að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis megi finna í 100. gr. laga nr. 88/2008, sem heimilt sé að beita þegar skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt. Í þeim tilvikum sé lögreglu skylt að bera slíkt undir dómara eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Ákvæði 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga veiti varnaraðila ekki slíka heimild og því sé ljóst að ákvörðun varnaraðila skerði frelsi sóknaraðila umfram það sem ákvæðið heimili og beri þegar af þeim sökum að fella ákvörðun varnaraðila úr gildi. 

Sóknaraðili byggi einnig á því að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 114. gr. laganna um  ákveðinn stað geti varnaraðili ekki sniðið sóknaraðila svo þröngan stakk að afmarka athafnafrelsi hans við 50 metra radíus. Í athugasemdum við ákvæðið með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 komi fram að með hugtakinu ákveðnum stað sé átt við tiltekinn bæjarhluta eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem hér um ræði. Auk þess sem ákvæðið vísi til þess að viðkomandi dveljist á ákveðnum stað en þurfi ekki að halda sig á honum öllum stundum eins og sóknaraðila sé gert að gera samkvæmt ákvörðun varnaraðila. 

Sóknaraðili byggi enn fremur á því að ákvörðun varnaraðila brjóti gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Við þær aðstæður að þurfa að halda sig innan 50 metra frá [...] sé sóknaraðili sviptur öllum þeim möguleikum að sækja sér þjónustu á svæðinu og skorti hann töluvert uppá að komast í næstu matvöruverslun. Í raun sé ekkert í 50 metra radíus umhverfis [...] sem talist geti til grunnþjónustu. Brjóti þetta freklega gegn hans athafna- og ferðafrelsi, og það án lagaheimildar, og beri því að fella ákvörðun varnaraðila úr gildi.

Loks byggi sóknaraðili á því að enginn stafliða 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga eigi við um hann. Hann hafi gefið upp upplýsingar um hver hann sé, hafi ekki sýnt af sér hegðun sem ógni allsherjarreglu eða öryggi ríkisins og engin ákvörðun hafi verið tekin um að honum skuli gert að yfirgefa landið. 

Um lagarök vísist til 114. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Um greiðslu málskostnaðar talsmanns sé vísað til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 80/2016.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Í rökstuðningi varnaraðila fyrir ákvörðun sinni kemur fram að við skýrslutöku hjá lögreglu við komu til landsins hafi sóknaraðili ekki getað gefið upp fæðingardag en hafi sagst vera um 17 ára. Hann væri fæddur í [...], hann hafi ekki með nákvæmum hætti getað sagt til um það hvenær hann hafi farið frá [...] en hafi talið að það hefði verið fyrir um einu og hálfu ári síðan. Hann hafi endað í Þýskalandi þar sem hann hafi sótt um hæli en þar hefði hann síðar keypt japanskt vegabréf sem hann hafi komið á hingað til lands.

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafi upplýst 2. janúar sl. að samkvæmt gagnagrunni Eurodac hefði sóknaraðili verið í Noregi árið 2015 og Þýskalandi í lok árs 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi hann fyrir komu hingað til lands sótt um hæli í Noregi og hafi samkvæmt norskum lögregluyfirvöldum sætt rannsókn þar sem honum hafi verið gefið að sök að hafa stungið annan hælisleitanda með hnífi. Fyrir liggi upplýsingar frá norskum yfirvöldum um að gerð hafi verið aldursgreining á sóknaraðila í febrúar 2016 og að niðurstaða greiningarinnar hafi verið sú að hann væri um 20 ára gamall. Sóknaraðili hafi sótt um hæli hér á landi og hafi haft aðsetur í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar við [...] í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun verði sóknaraðili sendur aftur til Noregs á grundvelli Dublinar-reglugerðarinnar. Mál hans sé í forgangsmeðferð og yfirvöld í Noregi hafi samþykkt að taka við honum.

Sóknaraðili hafi sýnt af sér ógnandi hegðun, hótanir og áreiti gagnvart starfsmönnum Útlendingastofnunar sem hafi haft aðkomu að hans málum. Vísað sé um það í skýrslu lögreglu af starfsmanni Útlendingastofnunar frá 5. maí sl. þar sem hún lýsi hótunum og áreiti sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili sýnt af sér sjálfskaðandi hegðun og hafi í fimm skipti verið færður á geðdeild Landspítalans vegna ástands síns. Starfsfólk Útlendingarstofnunar hafi verið farið að hafa verulegar áhyggjur af hegðun sóknaraðila og hafi óttast hann.

Varnaraðili byggi ákvörðun sína á a- og b- lið 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 80/2016 er heimilt að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða dveljast á ákveðnum stað í tilteknum tilvikum. Útlendingur á rétt á að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort skilyrði fyrir slíkri ákvörðun séu til staðar og hvort grundvöllur sé fyrir að framfylgja ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 114. gr. laganna, og er málið lagt fyrir dóminn á þeim grundvelli. Varnaraðili telur þau tilvik eiga við um sóknaraðila sem eru tilgreind í stafliðum a og b í 1. mgr. lagaákvæðisins. Annars vegar, samkvæmt a-lið, að ekki liggi fyrir hver útlendingurinn sé, útlendingurinn neiti að gefa upp hver hann sé eða rökstuddur grunur sé um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann sé. Hins vegar, samkvæmt b-lið, að útlendingur sýni af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.

Við málflutning lagði varnaraðili fyrir dómara öll rannsóknargögn málsins. Er þar um að ræða sömu gögn og fyrir lágu þegar varnaraðili krafðist gæsluvarðhalds 16. maí sl., en þeirri kröfu var hafnað. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 307/2017, þar sem sérstaklega var tekið fram að ekki lægju fyrir læknisfræðileg gögn sem geri það að verkum að unnt sé að beita heimild 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun. Meðal rannsóknargagna er svokölluð samantekt, höfundur ókunnur, um komur sóknaraðila til læknis á Landspítala í marsmánuði á þessu ári. Þar kemur fram að sóknaraðili hafi verið útskrifaður 24. mars sl. Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir um heilsufar sóknaraðila. Varnaraðili vísar til tölvupósts frá norskum yfirvöldum þar sem fram kemur að 25. júlí 2016 hafi sóknaraðili verið sakaður um að hafa beitt hnífi í átökum við annan hælisleitanda í Noregi. Engar upplýsingar liggja fyrir um málavexti eða niðurstöður af rannsókn á því atviki. Geta þessar takmörkuðu upplýsingar, ásamt frásögn hjá lögreglu í byrjun maí sl. um meint áreiti við starfsmann Útlendingastofnunar, ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að b-liður 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga eigi við um sóknaraðila. Þessi stafliður, um að útlendingur sýni af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum, er samhljóða skilyrði 5. mgr. 115. gr. laga um útlendinga fyrir því að hælisleitanda sem er yngri en 18 ára verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Í fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. maí sl., sem staðfestur var í Hæstarétti m.a. með vísan til forsendna hans, kom fram að af gögnum málsins og greinargerð varnaraðila verði ekki ráðið að af sóknaraðila stafi þvílík ógn sem áskilin sé í ákvæðinu. Ekkert nýtt hefur komið fram í málinu að þessu leyti og verður ekki fallist á að skilyrði stafliðarins eigi við um sóknaraðila.

Í fyrrnefndum tölvupósti frá norskum stjórnvöldum er mynd af sóknaraðila og telur varnaraðili engan vafa leika á því að um hann sé að ræða. Þá liggur fyrir vottorð norsks barnalæknis um aldursgreiningu, sem varnaraðili byggir á að eigi við um sóknaraðila. Svo sem varnaraðili bendir á kemur þar fram að líklegt sé að sóknaraðili sé um tvítugt, en þar kemur einnig fram að læknirinn geti ekki útilokað að hann sé yngri en 18 ára. Við mat á því hvort a-liður 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga eigi við um sóknaraðila verður að líta til þess að hann hefur gefið yfirvöldum hér á landi og í Noregi sömu upplýsingar um sjálfan sig. Það bendir til þess að hann sé sá sem hann segist vera. Á hinn bóginn liggur fyrir að hann getur ekki framvísað skilríkjum sem færi sönnur á það hver hann sé eða hvaða dag hann sé fæddur og verður varnaraðila því talið heimilt að byggja á því að hann hafi ekki fullvissu um það hver sóknaraðili sé. Því geta upphafsorð a-liðar ákvæðisins átt við um sóknaraðila, þ.e. að ekki liggi fyrir hver útlendingurinn sé. Af þessu leiðir að varnaraðila var heimilt að beita heimild 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga til að skylda sóknaraðila til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða dveljast á ákveðnum stað.

Við beitingu ákvæðisins bar varnaraðila að gæta meðalhófs og taka mið af þeim forsendum sem ákvörðun hans gat byggst á. Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lögmæta markmiðið sem varnaraðila er játuð heimild til að stefna að með ákvörðun á þessum grundvelli verður að teljast það að tryggja vitneskju yfirvalda um veru sóknaraðila hér á landi. Til að ná því markmiði átti varnaraðili þess kost að gera sóknaraðila að sinna reglulegri tilkynningarskyldu þar um. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendi til þess að sóknaraðili hafi reynt að leynast fyrir yfirvöldum eða að hann hafi hug á að flytja frá dvalarstað sínum við [...] í Reykjavík. Var varnaraðila rétt að láta á það reyna hvort hið vægara úrræði um tilkynningarskyldu skilaði viðhlítandi árangri áður en gripið var til svo íþyngjandi ákvörðunar sem fyrir liggur.

Að öllu framangreindu virtu er fallist á það með sóknaraðila að ákvörðun varnaraðila skerði ferða- og athafnafrelsi hans umfram það sem varnaraðili hefur sýnt fram á að tilefni hafi verið til. Með því braut varnaraðili gegn fyrrgreindri meðalhófsreglu og verður ákvörðunin því felld úr gildi svo sem sóknaraðili krefst. Þá er fallist á kröfu sóknaraðila um málskostnað úr ríkissjóði og er þóknun skipaðs talsmanns hans, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., ákveðin 200,000 krónur.

Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð

Felld er úr gildi ákvörðun varnaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 5. júní 2017 þar sem sóknaraðila, X, var gert að halda sig á [...] í Reykjavík og á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsnæðið alla daga frá þeim degi til 3. júlí nk.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.